Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-24

Dista ehf. (Jónas Fr. Jónsson lögmaður)
gegn
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Atvinnufrelsi
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Lagaheimild
  • Lögmætisregla
  • Valdþurrð
  • Reglugerð
  • EES-samningurinn
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 7. mars 2024 leitar Dista ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. febrúar sama ár í máli nr. 460/2022: Áfengis og tóbaksverslun ríkisins gegn Dista ehf. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðunum gagnaðila um að hætta sölu og innkaupum tveggja bjórtegunda þar sem þær hefðu ekki náð ákveðnu viðmiði um framlegð. Leyfisbeiðandi telur gagnaðila hafa verið óheimilt að byggja á því viðmiði þar sem það eigi sér ekki stoð í lögum nr. 86/2011 um verslun með áfengi og tóbak.

4. Með héraðsdómi voru ákvarðanir gagnaðila felldar úr gildi. Með dómi Landsréttar var gagnaðili hins vegar sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í niðurstöðu Landsréttar var rakið að samkvæmt 5. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011 skyldi ráðherra setja nánari reglur um vöruval, innkaup og dreifingu á áfengi, sem skyldu miða að því að tryggja vöruúrval meðal annars með hliðsjón af eftirspurn kaupenda, jafnframt því að tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í áfengisverslunum. Að virtri sögu ákvæðisins yrði ekki ráðið að ætlun löggjafans hefði verið að hrófla við þeirri áralöngu tilhögun að miða árangursviðmið um vöruval við framlegð. Þá var fallist á með gagnaðila að viðmið um framlegð endurspeglaði eftirspurn og væri til þess fallið að tryggja vöruúrval í verslunum og sölumöguleika birgja. Taldi rétturinn að þau sjónarmið sem lágu til grundvallar framlegðarviðmiði teldust málefnaleg og í samræmi við markmið áfengislaga um að gagnaðili skyldi starfa með samfélagslega ábyrgð og lýðheilsu að leiðarljósi. Taldi Landsréttur því að framlegðarviðmiðið ætti sér fullnægjandi lagastoð.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en í því reyni á inntak og umfang krafna um lagaáskilnað við takmörkun á atvinnufrelsi. Þá reyni á heimild stjórnvalda til að setja efnisreglu í reglugerð, sem ekki sé mælt fyrir um í lögum og byggja á henni við töku íþyngjandi ákvarðana. Leyfisbeiðandi vísar einnig til þess að í málinu reyni á margþætt álitaefni um lögskýringu og að dómurinn sé bersýnilega rangur í þessu tilliti. Hann bendir á að skoða verði forsögu 5. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011 með hliðsjón af niðurstöðu EFTA-dómstólsins á máli nr. E-2/2012, en ákvæðinu var breytt með lögum nr. 69/2014 í kjölfar þess dóms. Þá þurfi einnig að líta til 16. gr. EES samningsins við túlkun ákvæðisins. Að lokum bendir leyfisbeiðandi á að staðhæft sé í dómi Landsréttar, án rökstuðnings, að viðmið um framlegð sé betur til þess fallið en viðmið um eftirspurn að ná ýmsum markmiðum stjórnvalda.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um túlkun 5. mgr. 11. gr. laga nr. 86/2011. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.