Print

Mál nr. 751/2014

Lykilorð
  • Kærumál
  • Dánarbú
  • Opinber skipti
  • Erfðaskrá
  • Eignarréttur

                                     

Fimmtudaginn 5. mars 2015.

Nr. 751/2014.

Sigurður Kristján Sigurðsson Hjaltested

Karl Lárus Hjaltested

(Sigmundur Hannesson hrl.

Borgar Þór Einarsson hdl.)

Sigríður Hjaltested

Markús Ívar Hjaltested

(Valgeir Kristinsson hrl.

Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Hansína Sesselja Gísladóttir

Finnborg Bettý Gísladóttir

Guðmundur Gíslason

Margrét Margrétardóttir

Gísli Finnsson og

Elísa Finnsdóttir

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

gegn

Kristrúnu Ólöfu Jónsdóttur

Þorsteini Hjaltested

Vilborgu Björk Hjaltested

Marteini Þ. Hjaltested

Sigurði Kristjáni Magnússyni Hjaltested og

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested

(enginn)

Kærumál. Dánarbú. Opinber skipti. Erfðaskrá. Eignarréttur.

Með frumvarpi skiptastjóra 15. apríl 2014 til úthlutunar úr dánarbúi SH sem lést árið 1966 var eign búsins, sem var beinn eignarréttur að jörðinni V, úthlutað til Þ, en í dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að beinn eignarréttur að jörðinni væri enn á hendi dánarbúsins. Ágreiningur reis á skiptafundi um frumvarpið og var honum beint til héraðsdóms sem í hinum kærða úrskurði staðfesti frumvarp skiptastjóra. Hæstiréttur taldi að þegar leyst væri úr því hvert beinn eignarréttur að V ætti að renna við skipti á dánarbúi SH yrði að leggja til grundvallar að erfðaskrá MH frá 1938, sem SH hafði eignast V með, réði för að því marki sem ákvæði hennar gætu talist hafa tekið afstöðu til þess. Um skýringar á erfðaskránni lagði Hæstiréttur í fyrsta lagi til grundvallar að beinn eignarréttur að V hefði flust til SH við skipti á dánarbúi MH svo sem byggt var á í dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012. Í öðru lagi taldi Hæstiréttur að af þeim kvöðum sem lagðar hefðu verið á arfinn með erfðaskránni yrði skýrlega ráðið að vilji MH hefði staðið til þess að jörðin V yrði til afnota um ókomna tíð einum manni í senn af ætt sinni fyrir búskap. Hefði sá maður arð af henni innan þeirra marka sem kvaðir samkvæmt erfðaskránni gæfu svigrúm til og þessi réttindi yfir jörðinni færðust síðan mann fram af manni eftir þeim reglum sem erfðaskráin setti. Af þessum arfleiðsluvilja leiddi ekki óhjákvæmilega að beinn eignaréttur að jörðinni þyrfti að fara á hverjum tíma saman við handhöfn þessara réttinda. Í þriðja lagi yrði ekki litið fram hjá því að þótt í erfðaskránni hefðu verið ítarleg ákvæði um hvernig réttindin yfir jörðinni gengju að erfðum að SH látunum þá hefði því jafnframt verið hagað þannig að þeir sem njóta hefðu átt réttinda eftir lát SH hefðu verið nefndir ábúendur. Í erfðaskránni hefði ekki aðeins verið kveðið á um hvernig fara ætti með réttindi yfir jörðinni að rétthafa látnum heldur hefði þar einnig verið mælt fyrir um að rétthafi gæti af tilteknum ástæðum glatað þessum réttindum í lifanda lífi, svo og að þau myndu þá ganga til næsta manns á sama hátt og ef rétthafinn væri látinn. Að lögum gæti ekki staðist að maður yrði á þennan hátt sviptur beinum eignarrétti að fasteign og sá réttur færður í hendur annars manns. Stæði þannig ómöguleiki því í vegi að framfylgja ákvæðum erfðaskrárinnar að þessu leyti, en fyrirmælin hefðu skipt miklu til að tryggja að rétthafi virti kvaðir erfðaskrárinnar. Gengi þannig þvert á markmið arfleiðslunnar ef þessum fyrirmælum yrði vikið til hliðar og þau metin sem óskráð væru. Þær meginreglur erfðaréttar að skýra yrði erfðaskrá annars vegar með tilliti til vilja arfleiðanda eftir því sem helst yrði ráðið að sá vilji hefði verið og hins vegar þannig að hún gæti haldið gildi sínu og yrði framkvæmd eins og frekast væri unnt leiddu til þeirrar niðurstöðu að erfðaskrá MH veitti rétthöfum hennar að SH liðnum þau réttindi sem berum orðum væri mælt fyrir um og að þau næðu þar með ekki til beinna eignarréttinda yfir jörðinni V. Þar sem erfðaskrá MH hefði ekki mælt fyrir um afdrif þessara réttindi yrði að ráðstafa þeim til lögerfingja SH eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Þegar af þeirri ástæðu var frumvarp skiptastjóra fellt úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 18. og 19. nóvember 2014, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi um frumvarp skiptastjóra frá 15. apríl sama ár til úthlutunar úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

Sóknaraðilarnir Sigurður Kristján Sigurðsson Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested krefjast þess aðallega að frumvarp skiptastjóra verði fellt úr gildi og staðfest að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested 4. janúar 1938 hafi ekki gildi við skipti á dánarbúinu umfram það sem segi í upphafi hennar um að allar eigur arfleiðandans skuli ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Til vara krefjast þeir þess að lagt verði fyrir skiptastjóra að skipta öllum eignum dánarbúsins, þar á meðal beinum og óbeinum eignarréttindum að jörðinni Vatnsenda, milli lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum. Í báðum tilvikum krefjast þeir kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilarnir Sigríður Hjaltested og Markús Ívar Hjaltested krefjast þess aðallega að frumvarp skiptastjóra verði fellt úr gildi, en til vara að því verði breytt þannig að öllum eignum dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested verði skipt eftir lögerfðareglum og ákvæðum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested í greinum 2 til 6 með öllu vikið til hliðar. Þá krefjast þau að viðurkennt verði að meðal eigna dánarbúsins séu auk jarðarinnar Vatnsenda nánar tilgreindar kröfur um eignarnámsbætur vegna hennar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilarnir Hansína Sesselja Gísladóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir, Gísli Finnsson og Elísa Finnsdóttir krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, til vara að frumvarp skiptastjóra til úthlutunar verði fellt úr gildi, en að því frágengnu verði frumvarpinu breytt þannig að jörðin Vatnsendi, innstæður í vörslum skiptastjóra vegna leigugreiðslna og nánar tilgreind krafa um eignarnámsbætur aðallega á hendur Kópavogsbæ en til vara varnaraðilanum Þorsteini Hjaltested komi til skipta milli lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum. Að öðrum kosti krefjast þau þess að frumvarpinu verði breytt á sama hátt og að framan greinir að öðru leyti en því að tveir þriðju hlutar jarðarinnar Vatnsenda komi til skipta milli lögerfingja. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Kristrún Ólöf Jónsdóttir, Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 19. nóvember 2014. Þau krefjast þess að úrskurðurinn verði staðfestur um annað en málskostnað, sem þau krefjast úr hendi sóknaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 23. febrúar 2015.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til erfðaskrár, sem Magnús Einarsson Hjaltested gerði 4. janúar 1938 og var svohljóðandi:

„Ég undirritaður Magnús Einarsson Hjaltested fyr úrsmiður í Reykjavík, en nú bóndi á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, sem ekki á neitt afkvæmi, lýsi hérmeð yfir því, sem síðasta vilja mínum, að með eignir mínar lausar og fastar – allar undantekningarlaust – skal fara á þann hátt, er hér eftir segir, að mér látnum.

1. gr.  Allar eignir mínar – fastar og lausar – skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina.

a/-      Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á – Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi – er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri.

b/-     Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2.

c/-      Arftaki má selja á leigu lóðir undir hús, leikvelli eða annað, úr óræktuðu landi jarðarinnar, gegn árlegu afgjaldi er hæfilegt þykir á hverjum tíma, og skulu þær leigur goldnar á tilteknum gjalddaga til ábúenda hver sem hann verður, og má ekki veðsetja þær neinum fremur en jörðina, fyr en þær eru greiddar ábúenda.

2. gr. Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á fyrnefndri jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á eigninni hvíla.

Allar bætur fyrir landspjöll, sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni, af annara völdum, og jörðinni ber, hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt, til að krefja um og semja um, með lögsókn ef með þarf, sem tilheirandi jörðinni að mér látnum, ef ekki hefir verið fullkomlega um það samið áður.

Sömuleiðis hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi allan rétt þann, er um ræðir í gr. 1 tölulið c/-.

3. gr. Að Sigurði látnum gengur jarðeignin að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg, og sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.fr. Koll af kolli, þannig að ávalt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því er nú hefir sagt verið.

Sé enginn erfingi réttborinn til arfs frá Sigurði á lífi samkvæmt framanskráðu, þá gengur arfurinn til Georgs Péturs Hjaltested næst elsta sonar Lárusar, og hans niðja í beinan karllegg, eftir sömu reglum.

Sé enginn til í legg Péturs, sem uppfylli skilyrðin, þá skal arfurinn ganga til Jóns Einars Hjaltested sonar Lárusar og niðja hans í beinan karllegg, eftir sömu reglum og svona koll af kolli, meðan til er eitthvert afkvæmi í karllegg frá Lárusi Hjaltested, sem uppfylli erfðaskilyrði þau er margnefnd eru.

4. gr. Skildi einhver erfingjanna hætta búskap á Vatnsenda, missir hann rétt sinn samkvæmt erfðaskrá þessari, og sá sem næstur er í röðinni tekur við.

5. gr. Ef viðkomandi erfingi er ómyndugur skal fjárhaldsmaður hans ráðstafa ábúðinni þar til hann er myndugur.

6. gr. Sérhver erfingi, sem fær erfðarétt samkvæmt þessum arfleiðslugjörningi, er skyldugur til þess, að halda öll þau skilyrði, sem Sigurði eru sett með honum og gæta þeirra takmarkana, er samningurinn hefir inni að halda.

Vanrækji einhver það, varðar það tafarlaust réttinda missi fyrir hlutaðeigandi.

7. gr. Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg deyr út, skal taka eignir þær er að framan getur og selja þær, og af andvirði stofna sjóð er beri nafnið: Styrktarsjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatnsenda. Sjóður þessi ávaxtist í ríkisskuldabréfum, bankavaxta bréfum – er beri það með sér, að þau tilheyri sjóðnum – eða sparisjóði Landsbankans. ¾ hlutar vaxta útborgist árlega, sem styrktarfé, en ¼ hluti leggist við sjóðinn honum til aukningar. Tilgangur sjóðsins skal vera sá, að styrkja ungmenni af ættlegg Lárusar Hjaltested til framhaldsmentunar hvenær sem er.

Skipulagsskrá viðvíkjandi sjóði þessum, ef til kemur, fel ég Stjórnarráði Íslands að semja, með þessum skilyrðum er nú voru nefnd.

Arfleiðslugjörningi þessum skal þinglýsa á varnarþingi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, og hann hvíla sem ævarandi kvöð á þeirri eign.

Til staðfestu framanritaðri arfleiðsluskrá í öllum greinum, hefi ég undirritað hana í viðurvist tveggja sérstaklega tilkvaddra vitundarvotta.“

Á erfðaskránni var arfleiðsluvottorð, sem tveir menn undirrituðu sama dag. Þar var einnig færð svohljóðandi yfirlýsing Magnúsar 29. október 1940: „Framan-ritaður arfleiðslugjörningur stendur óhaggaður að öllu leiti.“ Vottur að þessari yfirlýsingu tók fram við nafnritun sína að Magnús væri staddur á tilteknu sjúkrahúsi í Reykjavík og „með fullu ráði og rænu og óskerta vitsmuni.“

Magnús lést 31. október 1940 og tók Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested, sem var fæddur 11. júní 1916, arf í samræmi við erfðaskrána, en sá síðarnefndi var sonarsonur bróður þess fyrrnefnda. Erfðaskránni virðist hafa verið þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar að jörðinni Vatnsenda. Sigurður lést 13. nóvember 1966 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 25. febrúar 1967. Til arfs eftir hann stóðu eftirlifandi maki, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, tveir sameiginlegir synir þeirra, sóknaraðilarnir Sigurður Kristján Sigurðsson Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, og þrjú börn hans úr fyrri hjúskap, Magnús Sigurðsson Hjaltested og sóknaraðilarnir Sigríður Hjaltested og Markús Ívar Hjaltested. Magnús Sigurðsson Hjaltested, sem var fæddur 28. mars 1941, var elstur þessara systkina.

Við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested reis ágreiningur um ráðstöfun Vatnsenda og var rekið mál fyrir dómi til að leysa úr honum. Þar krafðist Magnús Sigurðsson Hjaltested þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði talin „gild í öllum greinum“ og veita honum „óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi með öllum gögnum og gæðum, þar á meðal rétt til leiguafgjalda af sumarbústaðarlöndum jarðarinnar.“ Þessu andmæltu Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested og sóknaraðilarnir Sigurður og Karl, sem kröfðust þess að jörðinni yrði ráðstafað eftir lögerfðareglum. Í greinargerð Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested fyrir héraðsdómi sagði meðal annars eftirfarandi: „Erfðaskrá þessi er all sérstæð og gjörhugsuð. Með henni er í rauninni gjörð einskonar sjálfseignarstofnun úr öllum eignum arfláta. Og það er aðeins umráðarétturinn og rétturinn til að njóta arðs af eignunum, sem erfist, en ekki óskoraður eignaréttur. Er ljóst að með þessu vildi arfláti tryggja það að eignirnar tvístruðust ekki og yrðu að engu og jafnframt að elzti sonurinn í ætt Lárusar frænda hans hefði örugga fjárhagslega afkomu og væri einskonar ættarhöfðingi.“ Úrskurður í þessu ágreiningsmáli var kveðinn upp í héraði 24. júlí 1967 og fallist á með Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, sem var varnaraðili í málinu, að erfðaskráin væri ekki „niður fallin vegna aðgerða fyrri landseta“. Þar sagði einnig: „Ekki eru efni til að vefengja, að varnaraðili ætli sér að setjast að á Vatnsenda og hefja þar búskap, ef hann fær umráð jarðarinnar. Landsnot jarðarinnar hafa að vísu verið skert verulega frá því sem var, þegar erfðaskráin var gerð, bæði með eignarnámum og útleigu á löndum. Þó er jörðin að fasteignamati talin lögbýli, og þar er enn rekinn búskapur í venjulegri merkingu þess orðs. Hafa ekki verið færð rök fyrir því gegn mótmælum varnaraðilja og gegn opinberu vottorði um skráningu jarðarinnar sem lögbýlis, að jörðin hafi verið rýrð svo, að þar verði ekki rekinn búskapur. Ekki verður fallizt á, að það útiloki búskap á jörðinni, þótt hún hafi fyrir aðgerðir hins opinbera verið dregin undir skipulagssvæði Kópavogskaupstaðar, enda er ekki sýnt, að neinar fyrirætlanir séu á prjónunum, sem útiloki eða rýri núverandi búskaparmöguleika á jörðinni. Það, sem gerast kann í óvissri framtíð, skiptir ekki máli í sambandi við úrlausn málsins. Því verður ekki talið, að núverandi ástand jarðarinnar útiloki varnaraðilja frá að uppfylla þau skilyrði erfðaskrárinnar, að hann búi á jörðinni. Ákvæðum erfðaskrárinnar varðandi jörðina Vatnsenda svipar í ýmsu til reglnanna um ættaróðul, en heimildarlaust er að draga þá ályktun, að hér hafi verið um stofnun óðalsbýlis að ræða, enda vantar mikið á, að reglunum um þau sé fylgt í erfðaskránni. Því verður ekki ályktað gegn skýrum orðum erfðaskrárinnar, að eftirlifandi maka landseta samkvæmt erfðaskránni sé áskilin búseta á jörðinni eftir lát hans. Niðurstaða málsins verður því sú, að varnaraðilja sé einum af erfingjum arflátans áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda.“ Í úrskurðarorði sagði eftirfarandi: „Varnaraðilja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, er áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, dagsettri 4. janúar 1938. Málskostnaður fellur niður.“ Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar. Undir rekstri málsins þar voru áðurgreindar röksemdir í greinargerð Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested í héraði ítrekaðar með svofelldum orðum: „Það er ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn ... Umbj. m. sækir ekki rétt sinn til jarðarinnar til föður síns, Sigurðar, heldur beint til arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested.“ Dómur Hæstaréttar í málinu, sem var nr. 110/1967, var kveðinn upp 5. apríl 1968 og er hann birtur í dómasafni þess árs á bls. 422. Með honum var framangreindur úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 7. maí 1968 var eftirfarandi ákvörðun færð til bókar: „Þá lýsti skiptaráðandi yfir því, að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, Sólbakka, Vatnsenda, umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað, með því sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested dagsettri 4. jan. 1938 og 29. okt. 1940, að geymdum rétti þeirra, sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annara réttinda á jörðinni eða hluta hennar, enda tekur Ólafur Þorgrímsson, hæstaréttarlögmaður, ásamt erfingjunum ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og annara opinberra gjalda, sem á erfingjana kann að falla í sambandi við skiptin.“ Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested og sóknaraðilarnir Sigurður og Karl skutu þessari ákvörðun til Hæstaréttar 27. maí 1968, en hún var staðfest með dómi réttarins 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968, sem birtur er í dómasafni 1969 á bls. 780. Sama dag var kveðinn upp dómur Hæstaréttar í máli nr. 117/1968, þar sem staðfestur var úrskurður um að Margrét yrði samkvæmt kröfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested borin út af jörðinni Vatnsenda. Útburðargerð virðist hafa farið fram 22. júlí 1969 og Magnús tekið við umráðum jarðarinnar.

Í bréfi, sem skiptaráðandi ritaði skattstjóra 15. ágúst 1969 í tilefni af kröfu um skil á skattframtali fyrir dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, var á eftirfarandi hátt vikið að réttindum sem það hafi átt yfir Vatnsenda: „Búinu tilheyrði ákveðinn afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda, en hann féll til eins erfingja búsins samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Skiptaráðandi afhenti áðurgreindum erfingja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested jörðina … 7. maí 1968. Þar með fylgdu að sjálfsögðu tekjur jarðarinnar svo sem leigugjöld og endurgjöld veiðileyfa ... Landseti tók við greiðslu fyrir veiðileyfi seld á sumrinu 1968 ... Deilt er um, hvort sú fjárhæð á að renna til dánarbúsins eða til rétthafa jarðarinnar samkvæmt áðurnefndri erfðaskrá.“

Dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968 var þinglýst 25. febrúar 1971 á jörðina Vatnsenda. Í málinu hefur verið lagt fram veðbókarvottorð frá 22. september 1976, þar sem fram kom að „þinglesinn eigandi“ Vatnsenda væri Magnús Sigurðsson Hjaltested samkvæmt „heimildarbréfi 30.5.´69“ og væri um „eignarland“ að ræða.

Samkvæmt gögnum málsins voru opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested tekin fyrir í 35 þinghöldum í skiptarétti Kópavogs á tímabilinu frá 25. febrúar 1967 til 26. maí 1970, en þar á eftir einu sinni, 15. maí 1972. Af þessum gögnum verður ráðið að eignir dánarbúsins hafi að frátöldum réttindum yfir Vatnsenda verið bifreið með skráningarnúmerinu Y 8, metin á 90.000 krónur, bústofn að matsverði samtals 64.450 krónur, en til hans töldust 46 ær, 22 gemlingar og 380 hænsn, innanstokksmunir, sem virðast hafa verið virtir á samtals 75.925 krónur, greiðsla frá Sparisjóði Kópavogs að fjárhæð 2.000 krónur og réttindi samkvæmt leigusamningum um sumarhúsalóðir í landi jarðarinnar. Ágreiningur var milli erfingja um hvort dánarbúinu hafi einnig tilheyrt bifreið með skráningarnúmerinu Y 2053, en hún virðist hafa verið metin á 80.000 krónur. Þessi gögn bera jafnframt með sér að skiptaráðandi hafi á fyrstu stigum talið dánarbúið eiga kröfu á hendur Margréti Guðmundsdóttur Hjaltested vegna tekna af sölu veiðileyfa og leigu sumarhúsalóða, sem hún hafi innheimt á tímabilinu frá láti eiginmanns síns, en þeirri kröfu virðist ekki hafa verið fylgt eftir. Á skiptafundi 27. apríl 1970 kom fram að Margrét hafi áður „boðizt til að kaupa búfénað og lausafjármuni búsins fyrir matsverð“, sem hafi verið samþykkt, en „andvirði þessara verðmæta hefur ekki verið innheimt nema að litlu leyti.“ Þá liggur fyrir að Magnús Sigurðsson Hjaltested fékk 9. desember 1968 afhenta 50 leigusamninga um sumarhúsalóðir, svo og að skiptaráðandi hafi eftir það talið tekjur af leigunni dánarbúinu óviðkomandi. Loks er þess að geta að fyrir liggur beiðni skiptaráðanda 10. maí 1972 til yfirborgarfógetans í Reykjavík um uppboð á bifreiðinni Y 8, svo og bókun úr þinghaldi 15. sama mánaðar, þar sem skipti á dánarbúinu voru tekin fyrir. Þar mætti sonur Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, sóknaraðilinn Guðmundur Gíslason, og bar fram ósk hennar um að fá að leysa bifreiðina til sín gegn greiðslu matsverðs. Matsmenn voru tilnefndir til að verðleggja bifreiðina, en ekkert frekar liggur fyrir um afdrif hennar. Af gögnum málsins verður ekki séð hvort erfingjar hafi nokkru sinni lýst afstöðu til þess hvort þeir tækjust á hendur ábyrgð á skuldum þess látna, en innköllun til skuldheimtumanna var gefin út 8. mars 1968 og var þess ekki getið þar hvort erfingjar hafi gengist við skuldum. Samkvæmt skrá um lýstar kröfur í dánarbúið virðast þær hafa verið þrjár, ein að fjárhæð 33.031 króna vegna opinberra gjalda, önnur að fjárhæð 3.576,10 krónur vegna skuldar við Mjólkurfélag Reykjavíkur og sú þriðja frá Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested vegna leigutekna og sölu veiðileyfa, en fjárhæð hennar væri „ótilgreind“. Þá krafðist Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested á skiptafundi 15. maí 1970 greiðslu á 167.100,45 krónum vegna útfararkostnaðar og ýmissa skulda, sem hún hafi staðið skil á fyrir dánarbúið. Jafnframt gerði innheimtumaður ríkissjóðs kröfu 19. október 1971 um greiðslu þinggjalda fyrir árin 1969 til 1971, auk hækkunar gjalda áranna 1967 og 1968, samtals 421.907 krónur. Ekkert liggur fyrir um greiðslu á kröfunum, sem hér var getið. Af gögnum málsins virðast opinber skipti á dánarbúinu ekki hafa verið tekin fyrir eftir áðurgreint þinghald 15. maí 1972, en eina fyrirliggjandi skjalið varðandi þau, sem stafar frá síðara tíma, er fyrirspurn innheimtumanns ríkissjóðs til skiptaráðanda 12. apríl 1973 um hvenær vænta mætti að skiptum lyki.

Í málinu liggur fyrir að Magnús Sigurðsson Hjaltested lést 21. desember 1999. Eftirlifandi maki hans er varnaraðilinn Kristrún Ólöf Jónsdóttir, en börn þeirra varnaraðilarnir Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested. Varnaraðilinn Kristrún mun hafa fengið leyfi til setu í óskiptu búi 19. janúar 2000 og virðist leyfisbréfi hennar hafa verið þinglýst á jörðina Vatnsenda sem eignarheimild hennar. Varnaraðilarnir gerðu síðan svohljóðandi skiptayfirlýsingu 21. nóvember 2000: „Með yfirlýsingu þessari er jörðin Vatnsendi Kópavogi færð af nafni Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested ... yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltested ... á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Undanskilin er 90,5 ha. spilda sem Kópavogsbær hefur tekið eignarnámi skv. samningi dags. 24. nóv. 1999, en er óþinglýst á jörðina. Þessi spilda fellur undir réttindi og skyldur skv. eignarnámssátt við Kópavogsbæ sem talin er meðal eigna í búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur. Samkvæmt erfðaskránni gengu allar eigur Magnúsar Einarssonar Hjaltested að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Að Sigurði látnum á jarðeignin að ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til hans niðja í beinan karllegg. Sigurður Lárusson Hjaltested lést 13. nóvember 1966 og gekk þá eignin til elsta sonar hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Magnús lést 21. desember 1999 og á eignin þá skv. erfðaskránni að ganga til elsta sonar hans Þorsteins Magnússonar Hjaltested. Erfingjar lýsa því yfir að enginn ágreiningur er meðal þeirra um að jörðin, skv. ofanskráðu falli óskipt til Þorsteins Hjaltested, og hafi engin áhrif á arfstilkall hans úr hinu óskipta búi. Jafnframt er þess óskað að þinglýstu leyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dags. 19. janúar 2000, til setu í óskiptu búi á jörðina Vatnsenda, verði aflýst í fullu samræmi við skiptayfirlýsingu þessa. Búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur skal leiðrétt til samræmis við þessa kvöð skv. erfðaskránni.“ Þessari yfirlýsingu var þinglýst 12. desember 2000 og var varnaraðilinn Þorsteinn sagður „þinglýstur eigandi“ jarðarinnar Vatnsenda í þinglýsingarvottorði frá 11. janúar 2012. Erfðafjárskattur mun ekki hafa verið lagður á varnaraðilann vegna þessarar ráðstöfunar.

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested lést á árinu 2004. Til lögerfða eftir hana standa synir hennar og Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sóknaraðilarnir Sigurður og Karl, svo og önnur börn hennar, sem eru sóknaraðilarnir Hansína Sesselja Gísladóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Guðmundur Gíslason og Margrét Margrétardóttir auk barna látins sonar hennar, Finns Gíslasonar, varnaraðilanna Gísla Finnssonar og Elísu Finnsdóttur.

Sóknaraðilarnir Sigurður og Karl höfðuðu 10. mars 2007 mál á hendur varnaraðilanum Þorsteini og kröfðust þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 yrði „felld úr gildi þannig að eignum sem erfðaskráin kveður á um verði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga“. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði 5. október 2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 6. nóvember sama ár í máli nr. 560/2007.

Sóknaraðilarnir Sigurður, Karl og Sigríður kröfðust þess 23. desember 2008 að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta. Með úrskurði héraðsdóms 29. september 2009 var þeirri kröfu hafnað og var sú niðurstaða staðfest í dómi Hæstaréttar 13. nóvember sama ár í máli nr. 599/2009. Í dóminum var vísað til þess að sóknaraðilarnir reistu kröfu sína á því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem hófust 25. febrúar 1967, hafi aldrei verið lokið. Væri sú ályktun rétt stæðu opinberu skiptin enn yfir og væri ekki unnt að taka dánarbúið öðru sinni til opinberra skipta.

Með beiðni til héraðsdóms 3. febrúar 2011 leituðu sóknaraðilarnir Sigurður, Karl, Sigríður og Markús eftir því að skipaður yrði skiptastjóri til að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þessari kröfu var hafnað með úrskurði 26. maí 2011, en hún var á hinn bóginn tekin til greina með dómi Hæstaréttar 24. ágúst sama ár í máli nr. 375/2011. Þessu til samræmis skipaði héraðsdómur skiptastjóra í dánarbúinu 18. nóvember 2011. Skiptastjórinn hélt skiptafund 16. janúar 2012, þar sem ágreiningur reis milli sóknaraðila og varnaraðila um hvort jörðin Vatnsendi væri enn í eigu dánarbúsins. Ágreiningi þessum var beint til héraðsdóms, sem komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði 16. nóvember 2012 að jörðin væri í eigu dánarbúsins. Með dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í máli nr. 701/2012 var sú niðurstaða staðfest á þann hátt að við skipti á búinu skyldi litið svo á að beinn eignarréttur að jörðinni væri enn á hendi þess. Skiptastjóri leitaði 6. sama mánaðar eftir því að dóminum yrði þinglýst á jörðina Vatnsenda, sem sýslumaðurinn í Kópavogi varð við, en þó þannig að ekki var hróflað við þeirri skráningu í fasteignabók að varnaraðilinn Þorsteinn væri þinglýstur eigandi jarðarinnar. Ágreiningur um þetta var borinn undir dóm, en honum lauk með dómi Hæstaréttar 6. desember 2013 í máli nr. 740/2013, þar sem lagt var fyrir sýslumann að færa í fasteignabók nafn dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem eiganda jarðarinnar.

Skiptastjóri gerði 15. apríl 2014 frumvarp til úthlutunar úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þar voru tilgreindir sem erfingjar þess látna allir aðilar þessa máls auk Kristjáns Þórs Finnssonar sem skiptastjóri taldi á síðari stigum að ætti ekki vegna ættleiðingar að vera meðal erfingjanna og virðist ágreiningur ekki standa um þá ákvörðun. Í frumvarpinu kom fram að við upphaf opinberra skipta hafi eignir dánarbúsins verið jörðin Vatnsendi ásamt bifreiðinni Y 8, bústofni, innanstokksmunum og greiðslu frá Sparisjóði Kópavogs, en að frátalinni jörðinni væri ekki vitað hver hafi orðið afdrif þessara eigna eða andvirðis þeirra. Sagði einnig að skiptastjóri hefði í vörslum sínum innstæður „vegna leigugreiðslna sem fallið hafa til eftir upphaf skipta“, en hann liti svo á að þær „komi ekki til arfs við skipti á dánarbúinu“, sem ekki var skýrt frekar. Ætti það sama við „um hugsanlegar bótakröfur á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnáms“, en samkvæmt þessu væri eina eignin, sem kæmi til skipta, beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda. Um skuldir var vísað til þess að þremur kröfum hafi verið lýst í framhaldi af innköllun til skuldheimtumanna og hafi ein verið frá innheimtumanni ríkissjóðs í Kópavogi, önnur frá Mjólkurfélagi Reykjavíkur og sú þriðja frá Magnúsi Hjaltested. Fyrrnefndu kröfurnar tvær hafi verið afturkallaðar, en sú síðastnefnda væri fallin niður með því að henni hafi ekki verið fylgt frekar eftir. Samkvæmt þessu hvíldu engar skuldir á dánarbúinu. Í kafla frumvarpsins, sem bar fyrirsögnina: „Úthlutun“, sagði síðan eftirfarandi: „Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 701/2012 er lagt til grundvallar að ágreiningslaust sé með erfingjum að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsendi hafi færst fyrir arf í hendur Sigurðar Hjaltested. Arfstilkall Sigurðar byggðist á fyrrgreindum ákvæðum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Með henni var ráðstöfun jarðarinnar breytt þannig að hún gengi ekki til lögerfingja hans samkvæmt lögerfðareglum, heldur til bréferfingja hans. Í erfðaskránni er mælt fyrir um hvernig ráðstafa eigi jörðinni eftir daga Sigurðar. Viðurkennt er í íslenskum erfðarétti að slík binding arfs sé heimil og kemur það í veg fyrir það að erfingi geti ráðstafað fengnum arfi í trássi við vilja arflátans. Hann getur þannig ekki ráðstafað honum á annan hátt með erfðaskrá. Að sama skapi ná lögerfðareglur ekki til slíkra eigna og tilvist skylduerfingja hefur því ekki áhrif á ráðstöfun hins upphaflega arfláta. Erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested hefur ekki verið hnekkt með dómi. Dánarbúið á ekki aðild að ágreiningi um gildi erfðaskrárinnar og hefur skiptastjóri ekki heimild til þess að gera athugasemdir við gildi hennar. Sú heimild liggur hjá erfingjunum sjálfum sbr. ákvæði VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962. Við skipti á dánarbúi Sigurðar Hjaltested verður því að leggja til grundvallar að ráðstafa beri beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Elsti sonur Sigurðar var Magnús Sigurðsson Hjaltested. Hann féll frá árið 1999. Elsti sonur hans er Þorsteinn Magnússon Hjaltested. Í samræmi við framangreint er eign búsins sem er beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi úthlutað til hans.“ Að þessu sögðu var tekið fram í frumvarpinu að varnaraðilinn Þorsteinn „greiðir allan kostnað af skiptum á dánarbúinu sem nú er áætlaður tvær og hálf milljón króna.“ Á skiptafundi í dánarbúinu reis ágreiningur um frumvarpið og var honum beint til héraðsdóms, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 10. júní 2014.

II

Sem fyrr segir krefjast sóknaraðilarnir Hansína, Finnborg, Guðmundur, Margrét, Gísli og Elísa þess aðallega fyrir Hæstarétti að hinn kærði úrskurður verði ómerktur. Þá kröfu reisa þau í meginatriðum á því að eftir ályktunarorði úrskurðarins hafi þar verið staðfest frumvarp skiptastjóra um að ráðstafa beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda til varnaraðilans Þorsteins, líkt og málið hafi eingöngu snúist um gildi erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested við skipti á dánarbúinu. Í úrskurðinum hafi þar með ekki verið tekin afstaða til dómkrafna sóknaraðilanna, sem lutu að öðrum atriðum í frumvarpinu, meðal annars um að innstæður í vörslum skiptastjóra og kröfur vegna bóta fyrir eignarnám á landi úr jörðinni kæmu til skipta eftir lögerfðareglum. Jafnframt byggja sóknaraðilarnir þessa kröfu á því að í úrskurðinum hafi ekki verið tekin afstaða til málsástæðna þeirra, sem sneru að því að nánar tilteknir annmarkar hafi verið á frumvarpi skiptastjóra, forsendur fyrir úthlutun arfs væru rangar eins og þeim hafi verið lýst í frumvarpinu og ranglega hafi verið farið með frumvarpið á skiptafundi. Þá lægi engin erfðaskrá fyrir eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested og bæri því að skipta eignum hans eftir lögerfðareglum, kvöð sem kynni að leiða af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested gæti ekki tekið til arfs sem kæmi í hlut skylduerfingja Sigurðar og óheimilt væri loks samkvæmt 35. gr. erfðalaga nr. 8/1962 að ráðstafa meira en þriðjungi eigna hans til bréferfingja.

Um framangreindar röksemdir fyrir kröfu um ómerkingu hins kærða úrskurðar er þess fyrst að gæta að í frumvarpi skiptastjóra 15. apríl 2014 var lagt til grundvallar að eina eignin, sem kæmi til skipta í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, væri beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda og var síðan kveðið á um að sá réttur kæmi í hlut varnaraðilans Þorsteins. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar tók samkvæmt þessu til efnisákvæða frumvarpsins um úthlutun eigna úr dánarbúinu. Ágreiningur um tilkall varnaraðilans Þorsteins snerist um áhrif erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, meðal annars með tilliti til þess hvort erfðaskráin gæti verið bindandi um ráðstöfun arfs úr dánarbúi Sigurðar, sem á fyrri stigum hafi verið erfingi samkvæmt henni, og hvaða áhrif það hefði að sá erfingi hafi látið eftir sig skylduerfingja. Að því leyti, sem ekki var berum orðum tekin afstaða til málsástæðna sóknaraðilanna sem að þessu lutu, fólst allt að einu fullnægjandi afstaða til þeirra í niðurstöðum hins kærða úrskurðar. Þá verður að leggja þann skilning í hinn kærða úrskurð að þar hafi verið fallist á þá afstöðu skiptastjórans að innstæður í vörslum hans og tilkall til bóta vegna eignarnáms ættu ekki að koma til skipta milli lögerfingja. Þótt rétt sé hjá sóknaraðilunum að í úrskurðinum hafi ekki til hlítar verið tekin afstaða til málsástæðna þeirra varðandi málsmeðferð skiptastjóra og efnislega annmarka á frumvarpi hans getur þetta ekki talist slíkur galli á úrskurðinum að ómerkingu hans varði. Samkvæmt þessu eru ekki næg efni til að verða við aðalkröfu sóknaraðilanna Hansínu, Finnborgar, Guðmundar, Margrétar, Gísla og Elísu.

III

Í málinu hafa sóknaraðilar borið því við að málsmeðferð skiptastjóra hafi í ýmsum atriðum verið röng eða henni áfátt frá því að hann tók við opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 18. nóvember 2011 fram til þess að frumvarp til úthlutunar var tekið til meðferðar á skiptafundi 30. apríl 2014. Telja sóknaraðilar að þegar af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að fella frumvarpið úr gildi.

Vegna málsástæðna sóknaraðila, sem að þessu snúa, verður að líta til þess að eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að nokkur ágreiningur standi um hverjir geti talið til lögerfðaréttar eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested eða að varnaraðilinn Þorsteinn geti nú einn komið til álita um að njóta við skipti á dánarbúinu réttinda á grundvelli 3. greinar erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, séu slík réttindi fyrir hendi. Að því verður og að gæta að þegar skiptastjóri tók til starfa hafði dánarbúið verið til opinberra skipta í nærfellt 45 ár og hafði strax í upphafi þeirra verið gengið úr skugga um hverjir teldust lögerfingjar Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þótt sú breyting hafi orðið fram til þess að skiptastjórinn hóf störf sín að Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested og Magnús Sigurðsson Hjaltested voru bæði látin gaf það ekki sérstakt tilefni til athugunar af hendi skiptastjórans umfram þá sem hann lét verða af.

Eftir gögnum málsins virðist aldrei hafa verið gengið eftir því að erfingjar tækju afstöðu til þess hvort þeir ábyrgðust skuldbindingar þess látna, eins og bar að gera á fyrstu stigum opinberra skipta samkvæmt 2. mgr. 16. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., sem giltu um skiptin fram til 1. júlí 1992, sbr. nú 2. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 3/1878, sbr. nú lokamálslið 2. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991, bar af þessum sökum að líta svo á að ekki hafi verið gengist í slíka ábyrgð. Í innköllun, sem gefin var út vegna skiptanna 8. mars 1968 og birt var þriðja sinni í Lögbirtingablaði 20. apríl sama ár, var þess í engu getið að erfingjar hafi ekki tekist á hendur ábyrgð á skuldum þess látna, svo sem skylt var að gera sökum þess að slík ábyrgð lá ekki fyrir, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 3/1878. Vegna þessa annmarka gat innköllunin ekki valdið brottfalli vanlýstra krafna. Til þess verður á hinn bóginn að líta að nú eru liðin rúmlega 48 ár frá andláti Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og má því ljóst vera að öll kröfuréttindi á hendur honum, sem ekki var lýst við skiptin, hljóti fyrir áratugum síðan að hafa fallið niður eftir ákvæðum laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Í frumvarpi skiptastjóra 15. apríl 2014 var staðhæft að kröfur, sem lýst var við skiptin, hafi ýmist verið afturkallaðar eða fallið niður og verður við þetta að miða þótt frekari gögn liggi ekki fyrir um það. Hvorki stendur lagaheimild til að gefa öðru sinni út innköllun til lánardrottna við opinberu skiptin né gæti nokkurt tilefni verið til þess að virtu því sem að framan greinir. Ástæðulaust var fyrir skiptastjóra úr því sem komið var að kalla eftir afstöðu erfingja til þessa, en að því verður að gæta að samkvæmt 2. mgr. 62. gr. laga nr. 20/1991 gat ekki lengur nokkru breytt fyrir frekari málsmeðferð við opinberu skiptin á dánarbúinu hvort erfingjar hafi lýst yfir ábyrgð á skuldbindingum þess látna.

Þegar skiptastjóri gerði frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu 15. apríl 2014 var óleyst deila málsaðila um það grundvallaratriði hvort ráðstafa ætti beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda eftir ákvæðum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested eða lögerfðareglum. Jafnframt var óleystur ágreiningur um hvort Magnús Sigurðsson Hjaltested, varnaraðilinn Kristrún eða varnaraðilinn Þorsteinn hafi réttilega verið komin að því að taka við bótum vegna eignarnáma á landi úr Vatnsenda eða hvort slíkar bætur hafi átt að renna til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested vegna þess beina eignarréttar að jörðinni, sem það hefur haft á hendi allan þann tíma sem opinberu skiptin á því hafa staðið yfir. Á meðan þessi atriði stóðu ásamt öðru óútkljáð var alls ótímabært að leitast við að ljúka skiptum með því að gera frumvarp til úthlutunar úr dánarbúinu, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 242/2003. Fram hjá því verður þó ekki litið að ágreiningur málsaðila um frumvarp skiptastjóra snýst í raun að mestu um þessi tvö atriði, en hafi hann tekið rétta afstöðu til þeirra beggja kynni frumvarpið að geta staðið óraskað. Er því ekki þegar á þessu stigi næg ástæða til fella frumvarpið úr gildi af framangreindri ástæðu.

IV

Við úrlausn málsins verður að taka mið af því að Hæstiréttur hefur með áðurnefndum dómum 5. apríl 1968, 30. maí 1969 og 3. maí 2013 tekið afstöðu svo að bindandi sé við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested til ýmissa atriða, sem aðilarnir halda þó enn fram. Þannig leiðir af fyrstnefnda dóminum að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 ræður því, svo langt sem hún kann að ná, hvernig farið verði með réttindi yfir jörðinni Vatnsenda við skipti á dánarbúi Sigurðar, enda var í dóminum meðal annars leyst úr því að erfðaskráin sé gild, hún geti að lögum gilt við skipti eftir þann sem hlotið hefur arf eða önnur réttindi samkvæmt henni, engu breyti í því sambandi að sá láti eftir sig skylduerfingja og kvaðir á réttindum sem erfðaskráin tekur til hafi ekki fallið niður á grundvelli 3. mgr. 50. gr., sbr. 52. gr. erfðalaga við andlát Sigurðar. Með dóminum 30. maí 1969 var staðfest ákvörðun um að dánarbúið afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda“ og hafa þessi réttindi upp frá því ekki verið á hendi dánarbúsins. Því verður hvergi fundinn staður í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested að útlagning þessara réttinda geti af nokkurri ástæðu gengið til baka og þau runnið aftur til dánarbúsins, hvort sem er vegna brostinna forsendna fyrir erfðaskránni, andláts Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested á árinu 1999 eða þess að Magnús eða varnaraðilinn Þorsteinn á eftir honum hafi brotið gegn skilmálum erfðaskrárinnar þannig að varði missi réttinda samkvæmt ákvæðum hennar, en af erfðaskránni leiðir að síðastnefnd atvik gætu valdið því að réttindin gengju áfram til næsta rétthafa. Með dóminum 3. maí 2013 var því slegið föstu að beinn eignarréttur að Vatnsenda væri enn á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Af því leiðir að varnaraðila stoðar ekki að bera því nú við að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi fyrir hefð unnið beinan eignarrétt að jörðinni, enda var gefið tilefni til að halda slíkri málsástæðu fram í því máli og er hún þannig of seint fram komin í þessu máli.

Þegar leyst er úr því hvert beinn eignarréttur að Vatnsenda eigi að renna við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested verður í ljósi þess, sem að framan segir, að leggja til grundvallar að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested ráði þar för að því marki sem ákvæði hennar geta talist taka afstöðu til þess. Um skýringu erfðaskrárinnar verður í fyrsta lagi að líta til þess að í upphafsmálslið hennar og í byrjun 1. greinar kom fram að Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested, sem skyldi fyrstur taka við réttindum á grundvelli hennar, ætti að fá allar eignir arfleiðandans „að erfðum“. Að lögum eru erfðir meðal þeirra atvika, sem geta leitt til þess að beinn eignarréttur færist milli manna, og er það jafnframt eitt helsta einkenni þeirra. Þótt ýmsar kvaðir hafi með öðrum ákvæðum erfðaskrárinnar verið lagðar á eina af þessum eignum, jörðina Vatnsenda, og þær kvaðir hafi samkvæmt orðalagi hennar beinst jafnt að þessum fyrsta bréferfingja og þeim sem á eftir honum kæmu, verður að hafa hugfast að komi annað ekki fram í erfðaskrá og standi engin hindrun við því að lögum hlýtur í ljósi framangreinds ávallt að þurfa að líta svo á að ætlun arfleiðanda sé sú að færa að sér látnum bein eignarréttindi að eign sinni til bréferfingja. Magnús Einarsson Hjaltested lét ekki eftir sig skylduerfingja og verður ekki séð að nokkuð annað hafi verið því í vegi að hann ráðstafaði eignum sínum á þennan hátt til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Verður því að leggja til grundvallar að beinn eignarréttur að Vatnsenda hafi flust til Sigurðar við skipti á dánarbúi Magnúsar Einarssonar Hjaltested, svo sem byggt var á í áðurnefndum dómi Hæstaréttar 3. maí 2013.

Í öðru lagi þarf að gæta nánar að því að með erfðaskránni voru sem áður segir lagðar ýmsar kvaðir á arfinn, sem hún færði Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested, að því er varðaði jörðina Vatnsenda. Í meginatriðum fólust þær í banni við ráðstöfun jarðarinnar með löggerningi í lifanda lífi erfingjans og takmörkun á heimild hans til að veðsetja hana, svo og skyldu hans til að hafa búsetu á jörðinni og reka þar búskap, en þó mátti hann leigja út hluta landsins og hafa af því arð og jafnframt skyldi hann eiga tilkall til bóta „fyrir landspjöll“ á henni. Auk þessa fólst sú kvöð í ákvæðum erfðaskrárinnar að erfinginn mætti ekki ráðstafa jörðinni að sér látnum með erfðagerningi. Þessar kvaðir áttu þó ekki aðeins að standa gagnvart Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested einum, því með 3. og 6. grein erfðaskrárinnar var einnig tekin ákvörðun um hvert réttindi yfir jörðinni ættu að renna eftir hans dag og að sömu kvaðir ættu að gilda gagnvart þeim sem í hans stað kæmu. Kvaðirnar voru ekki lagðar á arf til skylduerfingja Magnúsar Einarssonar Hjaltested og átti því ákvæði 3. mgr. 50. gr. erfðalaga ekki við um þær, sbr. 52. gr. sömu laga. Með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 hefur sem áður segir ekki aðeins verið slegið föstu að Magnús Einarsson Hjaltested hafi getað svo að bindandi sé tekið ákvörðun um hvert réttindi yfir jörðinni ættu að renna að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested látnum, heldur jafnframt að kvaðirnar skyldu áfram standa. Við þeim niðurstöðum verður ekki hróflað hér, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af þeim ákvæðum erfðaskrárinnar, sem hér um ræðir, verður skýrlega ráðið að vilji Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi staðið til þess að jörðin Vatnsendi yrði til afnota um ókominn tíma einum manni í senn af ætt sinni fyrir búskap, sá maður hefði að öðru leyti arð af henni innan þeirra marka sem kvaðir samkvæmt erfðaskránni gæfu svigrúm til og þessi réttindi yfir jörðinni færðust síðan mann fram af manni eftir þeim reglum sem erfðaskráin setti. Af þessum arfleiðsluvilja leiddi ekki óhjákvæmilega að beinn eignarréttur að jörðinni þyrfti að fara á hverjum tíma saman við handhöfn þessara réttinda.

Í þriðja lagi verður ekki litið fram hjá því að þótt í 3. grein erfðaskrárinnar hafi verið ítarleg ákvæði um hvernig „jarðeignin“ gengi „að erfðum“ að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested látnum og rætt var í því sambandi um „erfingja“ og ítrekað um „arfinn“, sbr. einnig 4., 5. og 6. grein hennar, þá var orðum fjórum sinnum hagað þannig í 1. og 2. grein erfðaskrárinnar að þeir, sem njóta áttu réttinda eftir lát Sigurðar, voru nefndir ábúendur, ýmist í eintölu eða fleirtölu. Orðnotkun þessi getur hvort heldur gefið til kynna að Magnús Einarsson Hjaltested hafi ekki leitt hugann að því hvort ákvæði erfðaskrárinnar tækju að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested látnum til beins eignarréttar að jörðinni eða að hann hafi talið það mega í léttu rúmi liggja svo fremi sem fyrirmælunum í erfðaskránni yrði fylgt. Í erfðaskránni var á hinn bóginn ekki aðeins kveðið á um hvernig fara ætti með réttindi yfir jörðinni að rétthafa látnum, heldur var bæði í 4. grein erfðaskrárinnar og síðari málsgrein 6. greinar mælt fyrir um að rétthafi gæti af tilteknum ástæðum glatað þessum réttindum í lifanda lífi, svo og að þau myndu þá ganga til næsta manns á sama hátt og ef rétthafinn væri látinn. Að lögum getur ekki staðist að maður verði á þennan hátt sviptur beinum eignarrétti að fasteign og sá réttur færður í hendur annars manns. Stendur þannig ómöguleiki því í vegi að framfylgja ákvæðum erfðaskrárinnar að þessu leyti hafi réttindin samkvæmt henni átt að fela meðal annars í sér bein eignarréttindi að Vatnsenda. Gæta verður einnig að því að fyrirmæli erfðaskrárinnar um þennan réttindamissi skiptu verulega miklu til að tryggja að rétthafi á hverjum tíma virti kvaðir samkvæmt henni. Gengi þannig þvert á markmið arfleiðslunnar ef þessum fyrirmælum yrði vikið til hliðar og þau metin sem óskráð væru. Það er ekki aðeins meginregla í íslenskum erfðarétti að skýra verði erfðaskrá með tilliti til vilja arfleiðanda eftir því sem helst verður ráðið að sá vilji hafi verið, heldur einnig að skýra verði hana þannig að hún geti haldið gildi sínu og verði framkvæmd eins og frekast er unnt. Eins og erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested var úr garði gerð verða þessar meginreglur að leiða til þeirrar niðurstöðu að hún verði skýrð þannig að réttindi, sem hún veiti rétthöfum að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested liðnum, séu bundin við þau, sem þar er berum orðum mælt fyrir um, og þau nái þar með ekki til beinna eignarréttinda yfir jörðinni Vatnsenda. Sú skýring kemur að auki ekki aðeins heim og saman við áðurgreindar málflutningsyfirlýsingar, sem gefnar voru af hálfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested undir rekstri málsins sem lokið var með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968, heldur jafnframt niðurstöðu þess dóms og hins sem gekk í Hæstarétti 30. maí 1969.

Ákvæði laga nr. 20/1991 standa því í vegi að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested geti átt sér tilvist um ókominn tíma í því skyni að hafa á hendi bein eignarréttindi yfir jörðinni Vatnsenda. Með því að ekki er mælt fyrir í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested um afdrif þeirra réttinda verður að ráðstafa þeim til lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested eftir almennum reglum I. kafla erfðalaga. Þegar af þessari ástæðu verður að fella úr gildi frumvarp skiptastjóra 15. apríl 2014 til úthlutunar úr dánarbúinu þannig að farið verði með það upp frá þessu út frá þessum forsendum og eftir þeim aðferðum, sem fyrr hefur verið getið, áður en frumvarp verður gert á ný til úthlutunar.

Eftir þessum úrslitum málsins verður varnaraðilum gert óskipt að greiða málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Gagnstætt öðrum sóknaraðilum kröfðust sóknaraðilarnir Sigurður og Karl í kæru til Hæstaréttar kærumálskostnaðar, en ekki málskostnaðar í héraði. Að þessu gættu fer um málskostnað handa hverjum sóknaraðila eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Frumvarp skiptastjóra 15. apríl 2014 til úthlutunar úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested er fellt úr gildi.

Varnaraðilar, Kristrún Ólöf Jónsdóttir, Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Magnússon Hjaltested, greiði óskipt sóknaraðilunum Sigurði Kristjáni Sigurðssyni Hjaltested og Karli Lárusi Hjaltested hvorum fyrir sig 250.000 krónur í kærumálskostnað og sóknaraðilunum Sigríði Hjaltested og Markúsi Ívari Hjaltested hvoru fyrir sig samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Þá greiði varnaraðilar óskipt sóknaraðilunum Hansínu Sesselju Gísladóttur, Finnborgu Bettý Gísladóttur, Guðmundi Gíslasyni, Margréti Margrétardóttur, Gísla Finnssyni og Elísu Finnsdóttur hverju fyrir sig samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. nóvember 2014.

                Máli þessu var beint til dómsins 20. maí 2014, með bréfi skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, dags. 19. maí 2014, með vísan til 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti dánarbúa o.fl. Það var tekið til úrskurðar 14. október 2014.

Sóknaraðilar eru Sigurður Kristján Hjaltested, kt. [...], Karl Lárus Hjaltested, kt. [...], Sigríður Hjaltested, kt. [...], Markús Ívar Hjaltested, kt. [...], Hansína Sesselja Gísladóttir, kt. [...], Finnborg Bettý Gísladóttir, kt. [...], Guðmundur Gíslason, kt. [...], Margrét Margrétardóttir, kt. [...], Gísli Finnsson, kt. [...], Elísa Finnsdóttir, kt. [...], og Kristján Þór Finnsson, kt. [...].

Varnaraðilar eru dánarbú Sigurðar Kristjáns Hjaltested, Kristrún Ólöf Jónsdóttir, kt. [...], Þorsteinn Hjaltested, kt. [...], Vilborg Björk Hjaltested, kt. [...], Marteinn Þ. Hjaltested, kt. [...], og Sigurður Kristján Hjaltested, kt. [...].

Dómkröfur sóknaraðila Sigurðar Kristjáns Hjaltested og Karls Lárusar Hjaltested eru aðallega þær að frumvarp skiptastjóra í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, Jóns Auðuns Jónssonar hrl., dags. 15. apríl 2014, verði fellt úr gildi og að staðfest verði að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938, hafi ekki gildi við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, umfram það, er segir í upphafi erfðaskrárinnar, svohljóðandi: „allar eignir mínar, fastar og lausar, skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested …“ Til vara er þess krafist að frumvarpi skiptastjóra verði breytt og lagt fyrir skiptastjóra að skipta öllum eignum dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þ. á m. beinum og óbeinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda, Kópavogi, ásamt öllu sem jörðinni fylgir og fylgja ber, ásamt öllum kröfuréttindum hverju nafni sem nefnast, milli lögerfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, eftir almennum skiptareglum gildandi erfðalaga. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins. 

Dómkröfur sóknaraðila Ívars Hjaltested og Sigríðar Hjaltested eru aðallega þær að frumvarp skiptastjóra að úthlutunargerð, dags. 15. apríl 2014, verði ómerkt og/ eða fellt úr gildi. Til vara er þess krafist að úthlutunargerð verði breytt og öllum eignum dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, öllum fjárréttindum, bæði beinum og óbeinum eignarréttindum, verði skipt milli erfingja samkvæmt erfðalögum. Gerð er krafa um að viðurkennt verði að við arfsúthlutun á öllum eignum í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested verði úthlutað samkvæmt erfðareglum erfðalaga nr. 8/1962 og að öllum ákvæðum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested samkvæmt greinum 2 til 6 verði vikið til hliðar við arfsúthlutunina. Jafnframt verði viðurkennt að meðal eigna dánarbúsins séu auk jarðarinnar Vatnsenda dómkröfur samkvæmt stefnu en sóknaraðilar hafa sameiginlega fyrir hönd dánarbúsins höfðað dómsmál á hendur varnaraðilum og Kópavogsbæ til innheimtu á eignarnámsbótum. Þá gera sóknaraðilar kröfu um málskostnað.

Dómkröfur sóknaraðila Hansínu Sesselju Gísladóttur, Finnborgar Bettýjar Gísladóttur, Guðmundar Gíslasonar, Margrétar Margrétardóttur, Gísla Finnssonar og  Elísu Finnsdóttur eru aðallega þær að frumvarp skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested til úthlutunar, dagsett 15. apríl 2014, verði fellt úr gildi. Til vara er þess krafist að frumvarpi skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested til úthlutunar, dagsettu 15. apríl 2014, verði breytt þannig að eftirfarandi eignir skiptist milli lögerfingja samkvæmt lögerfðareglum: Í fyrsta lagi ótilgreindar innstæður í vörslu skiptastjóra vegna ótilgreindra leigu­greiðslna. Í öðru lagi krafa á hendur Kópavogsbæ, aðallega að fjárhæð 74.811.389.954 kr., en til vara 47.558.500.000 kr., en til þrautavara á hendur varnaraðila Þorsteini að fjárhæð 2.250.000.000 kr., auk tilgreinda vaxta og dráttarvaxta, samkvæmt dómsmáli, sem höfðað var á hendur þeim 28. apríl 2014 með stefnu, útgefinni 25. apríl 2014, til heimtu fjár til handa dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í þriðja lagi jörðin Vatnsendi í Kópavogi. Til þrautavara er þess krafist að frumvarpi skiptastjóra dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested til úthlutunar, dags. 15. apríl 2014, verði breytt þannig að 2/3 hlutum jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi verði skipt milli lögerfingja samkvæmt lögerfðareglum. Í greinargerð sóknaraðila var í öllum tilvikum þess krafist að varnaraðilar verði óskipt dæmdir til að greiða sóknaraðilum málskostnað að mati réttarins, en við aðalmeðferð málsins var fallið frá kröfu um málskostnað úr hendi skiptastjóra persónulega.

Skiptastjóri, f.h. varnaraðilans dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, hefur ekki uppi dómkröfur í málinu aðrar en þær að hann verði sýknaður af kröfum sóknaraðila um málskostnað úr hans hendi og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

Varnaraðilar Kristrún Ólöf Jónsdóttir, Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested gera þær dómkröfur að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði sú ákvörðun skiptastjóra að úthluta beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi til Þorsteins Hjaltested. Þá er gerð krafa um málskostnað úr hendi sóknaraðila að mati dómsins.

I.

Magnús Einarsson Hjaltested úrsmiður eignaðist jörðina Vatnsenda árið 1914, en hún tilheyrði þá Seltjarnarneshreppi. Magnús var ókvæntur og barnlaus en hann átti þrjá bræður, Georg Pétur Einarsson Hjaltested, Ólaf Zophanías Einarsson Hjaltested og Sigurð K. Einarsson Hjaltested. Bræður Magnúsar eignuðust ekki börn, utan Georg Pétur sem átti börn, þ. á m. Lárus Hjaltested. Lárus eignaðist sex börn. Þar af voru þrír synir, Sigurður, Georg Pétur og Jón Einar. Sigurður var þeirra elstur.

Magnús Einarsson Hjaltested gerði eftirfarandi erfðaskrá hinn 4. janúar 1938, þar sem hann arfleiddi bróðurson sinn, Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested, að öllum eignum sínum:

Ég undirritaður Magnús Einarsson Hjaltested fyr úrsmiður í Reykjavík, en nú bóndi á Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, sem ekki á neitt afkvæmi, lýsi hér með yfir því, sem síðasta vilja mínum, að með eignir mínar lausar og fastar – allar undantekningarlaust – skal fara á þann hátt, er hér eftir segir, að mér látnum.

1. gr. Allar eignir mínar – fastar og lausar – skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þeim nánari takmörkunum og skilyrðum er nú skal greina.

      a/- Hann má ekki selja fasteign þá er ég nú á – Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi – er hann fær að erfðum með þessari arfleiðsluskrá, né heldur veðsetja hana fyrir meiru en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar og þó aðeins til greiðslu erfðafjárskatts ef með þarf, eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri.

      b/- Hann skal búa á eigninni sjálfur sbr. þó það er síðar segir um föður hans undir tölulið 2.

      c/-  Arftaki má selja á leigu lóðir undir hús, leikvelli eða annað, úr óræktuðu landi jarðarinnar, gegn árlegu afgjaldi er hæfilegt þykir á hverjum tíma, og skulu þær leigur goldnar á tilteknum gjalddaga til ábúenda hver sem hann verður, og má ekki veðsetja þær neinum fremur en jörðina, fyr en þær eru greiddar ábúenda.

2. gr.    Meðan Lárus Hjaltested faðir Sigurðar lifir, má hann búa endurgjaldslaust á fyrrnefndri jarðeign, að öðru en því, að hann svarar til vaxta og afborgana af skuldum þeim, er á eigninni hvíla.

             Allar bætur fyrir landspjöll, sem þegar eru orðin eða kunna að verða á jörðinni, af annara völdum, og jörðinni ber, hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi rétt, til að krefja um og semja um, með lögsókn ef með þarf, sem tilheirandi jörðinni að mér látnum, ef ekki hefir verið fullkomlega um það samið áður.

             Sömuleiðis hefir Lárus Hjaltested eða næsti ábúandi allan rétt þann, er um ræðir í gr. 1 tölulið c/-.

3. gr.    Að Sigurði látnum gengur jarðeignin að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg, og sé sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og hans niðja í beinan karllegg o.s.fr. Koll af kolli, þannig að ávalt fær aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg, er að réttu ber arfinn samkvæmt því er nú hefir sagt verið.

             Sé enginn erfingi réttborinn til arfs frá Sigurði á lífi samkvæmt framanskráðu, þá gengur arfurinn til Georgs Péturs Hjaltested næst elsta sonar Lárusar, og hans niðja í beinan karllegg, eftir sömu reglum.

             Sé enginn til í legg Péturs, sem uppfylli skilyrðin, þá skal arfurinn ganga til Jóns Einars Hjaltested sonar Lárusar og niðja hans í beinan karllegg, eftir sömu reglum og svona koll af kolli, meðan til er eitthvert afkvæmi í karllegg frá Lárusi Hjaltested, sem uppfylli erfðaskilyrði þau er margnefnd eru.

4. gr.    Skildi einhver erfingjanna hætta búskap á Vatnsenda, missir hann rétt sinn samkvæmt erfðaskrá þessari, og sá sem næstur er í röðinni tekur við.

5. gr.    Ef viðkomandi erfingi er ómyndugur skal fjárhaldsmaður hans ráðstafa ábúðinni þar til hann er myndugur.

6. gr.    Sérhver erfingi, sem fær erfðarétt samkvæmt þessum arfleiðslugjörningi, er skyldugur til þess, að halda öll þau skilyrði, sem Sigurði eru sett með honum og gæta þeirra takmarkana, er samningurinn hefir inni að halda.

             Vanrækji einhver það, varðar það tafarlaust réttinda missi fyrir hlutaðeigandi.

7. gr.    Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg deyr út, skal taka eignir þær er að framan getur og selja þær, og af andvirði stofna sjóð er beri nafnið: Styrktarsjóður Magnúsar Einarssonar Hjaltested á Vatnsenda. Sjóður þessi ávaxtist í ríkisskuldabréfum, bankavaxta bréfum – er beri það með sér, að þau tilheyri sjóðnum – eða sparisjóði Landsbankans. ¾ hlutar vaxta útborgist árlega, sem styrktarfé, en ¼ hluti leggist við sjóðinn honum til aukningar. Tilgangur sjóðsins skal vera sá, að styrkja ungmenni af ættlegg Lárusar Hjaltested til framhaldsmenntunar hvenær sem er.

             Skipulagsskrá viðvíkjandi sjóði þessum, ef til kemur, fel ég Stjórnarráði Íslands að semja, með þessum skilyrðum er nú voru nefnd.

Arfleiðslugjörningi þessum skal þinglýsa á varnarþingi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi, og hann hvíla sem ævarandi kvöð á þeirri eign.

Til staðfestu framanritaðri arfleiðsluskrá í öllum greinum, hefi ég undirritað hana í viðurvist tveggja sérstaklega tilkvaddra vitundarvotta.

Magnús Einarsson Hjaltested lést 31. október 1940 og Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested, sem var fæddur 11. júní 1916, tók arf í samræmi við erfðaskrána. Henni var þinglýst 9. janúar 1941 sem eignarheimild Sigurðar að jörðinni Vatnsenda. Sigurður lést 13. nóvember 1966 og var dánarbú hans tekið til opinberra skipta 25. september 1967. Til arfs eftir Sigurð stóðu eftirlifandi maki, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, tveir sameiginlegir synir þeirra, Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested, og þrjú börn hans úr fyrri hjúskap, Magnús Sigurðsson Hjaltested, Sigríður Hjaltested og Markús Ívar Hjaltested.

Ágreiningur reis við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested um framangreinda erfðaskrá og ráðstöfun Vatnsenda. Var rekið mál fyrir skiptadómi Kópavogs þar sem Margrét, eftirlifandi maki Sigurðar, Sigurður Kristján og Karl Lárus kröfðust þess að öllum eignum dánar- og félagsbús Sigurðar og eftirlifandi maka, Margrétar, yrði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga, enda væru taldar brostnar forsendur fyrir gildi og framkvæmd erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds umfram það er segi í upphafi erfðaskrárinnar um að allar eignir hans, fastar og lausar, skyldu ganga að erfðum til Sigurðar. Magnús Sigurðsson Hjaltested, sem var elsti sonur Sigurðar og varnaraðili í málinu, krafðist þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði „talin gild í öllum greinum“ og veitti honum „óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda í Kópavogi með öllum gögnum og gæðum, þar á meðal rétt til leiguafgjalda af sumarbústaðarlöndum jarðarinnar“. Í greinargerð í málinu, sem lögð var fram fyrir skiptadómi af hálfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sagði meðal annars eftirfarandi: „Erfðaskrá þessi er all sérstæð og gjörhugsuð. Með henni er í rauninni gjörð einskonar sjálfseignarstofnun úr öllum eignum arfláta. Og það er aðeins umráðarétturinn og rétturinn til að njóta arðs af eignunum, sem erfist, en ekki óskoraður eignaréttur. Er ljóst að með þessu vildi arfláti tryggja það að eignirnar tvístruðust ekki og yrðu að engu og jafnframt að elzti sonurinn í ætt Lárusar frænda hans hefði örugga fjárhagslega afkomu og væri einskonar ættarhöfðingi.“ Í niðurstöðu úrskurðar skiptadóms 24. júlí 1967 var fallist á með Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested að ákvæði í erfðaskránni væru ekki „niður fallin vegna aðgerða fyrri landseta“. Í framhaldi af því sagði eftirfarandi: „Ekki eru efni til að vefengja, að varnaraðili ætli sér að setjast að á Vatnsenda og hefja þar búskap, ef hann fær umráð jarðarinnar. Landsnot jarðarinnar hafa að vísu verið skert verulega frá því sem var, þegar erfðaskráin var gerð, bæði með eignarnámum og útleigu á löndum. Þó er jörðin að fasteignamati talin lögbýli, og þar er enn rekinn búskapur í venjulegri merkingu þess orðs. Hafa ekki verið færð rök fyrir því gegn mótmælum varnaraðilja og gegn opinberu vottorði um skráningu jarðarinnar sem lögbýlis, að jörðin hafi verið rýrð svo, að þar verði ekki rekinn búskapur. Ekki verður fallizt á, að það útiloki búskap á jörðinni, þótt hún hafi fyrir aðgerðir hins opinbera verið dregin undir skipulagssvæði Kópavogskaupstaðar, enda er ekki sýnt, að neinar fyrirætlanir séu á prjónunum, sem útiloki eða rýri núverandi búskaparmöguleika á jörðinni. Það, sem gerast kann í óvissri framtíð, skiptir ekki máli í sambandi við úrlausn málsins. Því verður ekki talið, að núverandi ástand jarðarinnar útiloki varnaraðilja frá að uppfylla þau skilyrði erfðaskrárinnar, að hann búi á jörðinni. Ákvæðum erfðaskrárinnar varðandi jörðina Vatnsenda svipar í ýmsu til reglnanna um ættaróðul, en heimildarlaust er að draga þá ályktun, að hér hafi verið um stofnun óðalsbýlis að ræða, enda vantar mikið á, að reglunum um þau sé fylgt í erfðaskránni. Því verður ekki ályktað gegn skýrum orðum erfðaskrárinnar, að eftirlifandi maka landseta samkvæmt erfðaskránni sé áskilin búseta á jörðinni eftir lát hans. Niðurstaða málsins verður því sú, að varnaraðilja sé einum af erfingjum arflátans áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda.“ Úrskurðarorð voru svohljóðandi: „Varnaraðilja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, er áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, dagsettri 4. janúar 1938. Málskostnaður fellur niður.“ Úrskurði þessum var skotið til Hæstaréttar. Í greinargerð sem þar var lögð fram af hálfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested voru röksemdir hans í héraði ítrekaðar með eftirfarandi hætti: „Það er ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn. ... Umbj. m. sækir ekki rétt sinn til jarðarinnar til föður síns, Sigurðar, heldur beint til arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested.“ Með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968 í máli nr. 110/1967 var úrskurður skiptadóms staðfestur.

Á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem haldinn var 7. maí 1968 lýsti skiptaráðandi því yfir að hann afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað, með því sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested dagsettri 4. jan. 1938 og 29. okt. 1940, að geymdum rétti þeirra, sem löglega kunna að eiga tilkall til afnota eða annara réttinda á jörðinni eða hluta hennar, enda tekur Ólafur Þorgrímsson, hæstaréttar­lögmaður, ásamt erfingjunum ábyrgð á greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og annara opinberra gjalda, sem á erfingjana kann að falla í sambandi við skiptin.“ Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, Sigurður Kristján og Karl Lárus Hjaltested skutu þessari ákvörðun til Hæstaréttar og var hún staðfest með dómi réttarins 30. maí 1969 í máli nr. 99/1968. Sama dag kvað Hæstiréttur upp dóm í máli nr. 117/1968, þar sem staðfestur var úrskurður um að Margrét yrði samkvæmt kröfu Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested borin út af jörðinni Vatnsenda. Samkvæmt bréfi sem skiptaráðandi ritaði skattstjóra 15. ágúst 1969, í tilefni af kröfu um skil á skattframtali fyrir dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, var vikið að réttindum, sem það hafði átt yfir Vatnsenda, á eftirfarandi hátt: „Búinu tilheyrði ákveðinn afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda, en hann féll til eins erfingja búsins samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Skiptaráðandi afhenti áðurgreindum erfingja, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested jörðina með ákvörðun skiptaréttar hinn 7. maí 1968. Þar með fylgdu að sjálfsögðu tekjur jarðarinnar svo sem leigugjöld og endurgjöld veiðileyfa. ... Landseti tók við greiðslu fyrir veiðileyfi seld á sumrinu 1968. ... Deilt er um, hvort sú fjárhæð á að renna til dánarbúsins eða til rétthafa jarðarinnar samkvæmt áðurnefndri erfðaskrá.“

Dómi Hæstaréttar í máli nr. 99/1968 var þinglýst 25. febrúar 1971 á jörðina Vatnsenda. Samkvæmt veðbókarvottorði 22. september 1976 var Magnús Sigurðsson Hjaltested „þinglesinn eigandi“ Vatnsenda samkvæmt „heimildarbréfi 30.5.´69“ og um væri að ræða „eignarland“.

Opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested munu hafa verið tekin fyrir í 35 þinghöldum í skiptarétti Kópavogs á tímabilinu frá 25. febrúar 1967 til 26. maí 1970, en þar á eftir í einu þinghaldi, 15. maí 1972. Opinber skipti á dánarbúinu virðast ekki hafa verið tekin fyrir eftir 15. maí 1972, en eina skjalið varðandi skiptin eftir það tímamark mun vera fyrirspurn innheimtumanns ríkissjóðs til skiptaráðanda 12. apríl 1973 um það hvenær vænta mætti að skiptum lyki.

Magnús Sigurðsson Hjaltested lést 21. desember 1999. Eftirlifandi maki hans er Kristrún Ólöf Jónsdóttir, en börn þeirra eru Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested. Kristrún Ólöf fékk leyfi til setu í óskiptu búi 19. janúar 2000 og var þinglýsingar­vottorði að leyfisbréfi frá sýslumanni þinglýst í framhaldi af því á jörðina Vatnsenda sem eignarheimild hennar. Hinn 21. nóvember 2000 gerðu þau svohljóðandi skipta­yfirlýsingu: „Með yfirlýsingu þessari er jörðin Vatnsendi Kópavogi færð af nafni Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested ... yfir á nafn Þorsteins Magnússonar Hjaltested ... á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dags. 4. janúar 1938. Undanskilin er 90,5 ha. spilda sem Kópavogsbær hefur tekið eignarnámi skv. samningi dags. 24. nóv. 1999, en er óþinglýst á jörðina. Þessi spilda fellur undir réttindi og skyldur skv. eignarnámssátt við Kópavogsbæ sem talin er meðal eigna í búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur. Samkvæmt erfðaskránni gengu allar eigur Magnúsar Einarssonar Hjaltested að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Að Sigurði látnum á jarðeignin að ganga að erfðum til elsta sonar hans og svo til hans niðja í beinan karllegg. Sigurður Lárusson Hjaltested lést 13. nóvember 1966 og gekk þá eignin til elsta sonar hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Magnús lést 21. desember 1999 og á eignin þá skv. erfðaskránni að ganga til elsta sonar hans Þorsteins Magnússonar Hjaltested. Erfingjar lýsa því yfir að enginn ágreiningur er meðal þeirra um að jörðin, skv. ofanskráðu falli óskipt til Þorsteins Hjaltested, og hafi engin áhrif á arfstilkall hans úr hinu óskipta búi. Jafnframt er þess óskað að þinglýstu leyfi Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dags. 19. janúar 2000, til setu í óskiptu búi á jörðina Vatnsenda, verði aflýst í fullu samræmi við skiptayfirlýsingu þessa. Búsetuleyfi ekkju Magnúsar Hjaltested, Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur skal leiðrétt til samræmis við þessa kvöð skv. erfðaskránni.“

Þessari yfirlýsingu var þinglýst 12. desember 2000 og telst varnaraðilinn Þorsteinn „þinglýstur eigandi“ jarðarinnar Vatnsenda samkvæmt framlögðu þinglýsingar­­­vottorði frá 11. janúar 2012. Sýslumaður mun ekki hafa lagt á erfðafjárskatt vegna þessarar ráðstöfunar þar sem fallist hafi verið á að slíkar kvaðir væru á Vatnsenda, vegna ákvæða erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938, að ekki væru efni til slíkrar skattlagningar.

Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested lést á árinu 2004. Til lögerfða eftir hana stóðu synir hennar og Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þeir Sigurður Kristján og Karl Lárus, svo og önnur börn hennar, Hansína Sesselja Gísladóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Guðmundur Gíslason og Margrét Margrétardóttir, ásamt börnum látins sonar hennar, Finns Gíslasonar, þeim Gísla Finnssyni, Elísu Finnsdóttur og Kristjáni Þór Finnssyni.

Á árinu 2007 höfðuðu Sigurður Kristján og Karl Lárus mál á hendur Þorsteini Hjaltested og kröfðust þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 yrði felld úr gildi þannig að eignum sem erfðaskráin kvæði á um yrði skipt eftir almennum skiptareglum erfðalaga. Málinu var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 5. október 2007, sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar 6. nóvember sama ár í máli nr. 560/2007.

Hinn 23. desember 2008 barst Héraðsdómi Reykjaness beiðni Sigurðar Kristjáns, Karls Lárusar og Sigríðar um að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested yrði tekið til opinberra skipta. Með úrskurði dómsins 29. september 2009 var þessari kröfu hafnað. Í dómi Hæstaréttar 13. nóvember sama ár, í máli nr. 599/2009, segir að samkvæmt málatilbúnaði Sigurðar Kristjáns, Karls Lárusar og Sigríðar væri krafa þeirra reist á því að opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem hófust 25. febrúar 1967, hafi aldrei verið lokið. Væri sú ályktun rétt stæðu opinberu skiptin enn yfir og væri við svo búið útilokað að taka dánarbúið öðru sinni til opinberra skipta. Niðurstaðan í úrskurði héraðsdóms var því staðfest.

Með beiðni til Héraðsdóms Reykjaness 3. febrúar 2011 fóru Sigurður Kristján, Karl Lárus, Sigríður og Markús Ívar fram á að skipaður yrði skiptastjóri til að ljúka opinberum skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Með úrskurði héraðsdóms 26. maí 2011 var þeirri kröfu hafnað þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að skiptum á búinu hafi ekki verið lokið. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar og í dómi réttarins 24. ágúst sama ár, í máli nr. 375/2011, segir að ekki hafi verið sýnt fram á að skiptum á dánarbúinu hafi verið lokið og bæri því að taka til greina kröfu um skipun skiptastjóra til að leysa það verk af hendi. Héraðsdómur Reykjaness skipaði  skiptastjóra í dánarbúinu 18. nóvember 2011.

Skiptastjórinn hélt skiptafund 16. janúar 2012 og reis ágreiningur milli aðila, auk Kristjáns Þórs Finnssonar, um hvort jörðin Vatnsendi væri enn í eigu dánarbúsins. Á skiptafundi 9. febrúar sama ár lýsti skiptastjóri þeirri afstöðu að á grundvelli ummæla í dómi Hæstaréttar í máli nr. 375/2011 teldi hann að jörðin væri ekki lengur í eigu dánarbúsins, þar sem henni hafi verið ráðstafað til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested á skiptafundi í búinu 7. maí 1968, svo sem staðfest hafi verið með dómi réttarins í máli nr. 99/1968. Ágreiningi aðilanna var vísað til héraðsdóms 13. febrúar 2012. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu með úrskurði 16. nóvember 2012 að jörðin Vatnsendi, ásamt öllu því er eigninni fylgdi og fylgja bæri, skyldi vera meðal eigna dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem lést 13. nóvember 1966. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar, sbr. dóm Hæstaréttar frá 3. maí 2013, í máli nr. 701/2012.

Í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 segir að í gögnum varðandi opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested frá árunum 1967 til 1973 sé ekkert að finna sem bendi til að skiptunum hafi verið lokið eða nokkuð að öðru leyti aðhafst við þau eftir 15. maí 1972. Einnig hafi ekki verið skilyrði til að ljúka skiptum á dánarbúinu án úthlutunargerðar með stoð í ákvæðum 10. gr. þágildandi laga nr. 3/1878 um skipti á dánarbúum og félagsbúum o.fl., sbr. nú 25. gr. og 26. gr. laga nr. 20/1991, enda lægi fyrir að andvirði eigna þess án tillits til skulda væri mun meira en kostnaður af útför þess látna. Þá hafi ekki fundist gögn um að staðin hafi verið skil á erfðafjárskatti í tengslum við skipti á dánarbúinu. Var því lagt til grundvallar að dánarbúið væri enn til opinberra skipta, þótt liðið væri á fimmta áratug frá upphafi þeirra, sbr. og áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 375/2011, en um frekari framkvæmd skiptanna giltu ákvæði laga nr. 20/1991, sbr. 3. mgr. 148. gr. og 150. gr. þeirra. Þá segir í niðurstöðu Hæstaréttar að skilja verði málatilbúnað aðilanna svo að ekki væri deilt um að beinn eignarréttur að jörðinni hafi færst fyrir arf í hendur Sigurðar, þótt sá réttur hafi eftir ákvæðum erfðaskrárinnar verið háður margvíslegum kvöðum. Í málinu væri ekki til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið eða séu til að þessi beini eignarréttur verði færður eftir lát Sigurðar 13. nóvember 1966 til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, heldur aðeins hvort það hafi í raun þegar verið gert við opinberu skiptin á dánarbúi Sigurðar þannig að sá réttur væri ekki lengur á hendi þess. Í framhaldi af þessu vísar Hæstiréttur til þess ágreinings sem reis á árinu 1967 varðandi jörðina Vatnsenda við opinberu skiptin á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í dómsmálinu, sem rekið var til að leysa úr þeim ágreiningi, hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested krafist þess að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði metin gild og teldist veita sér „óskoraðan rétt til að taka við jörðinni Vatnsenda“, svo sem komist hafi verið að orði í greinargerð hans í héraði. Í greinargerðinni hafi því einnig verið haldið fram að með erfðaskránni hafi í raun verið mynduð „einskonar sjálfseignarstofnun úr öllum eignum arfláta“ og væri það aðeins umráðaréttur yfir eignunum og réttur til arðs af þeim, sem gengi að arfi samkvæmt henni, „en ekki óskoraður eignaréttur.“ Þetta hafi verið áréttað í greinargerð þess sama fyrir Hæstarétti, þar sem sagði að það væri „ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn.“ Í forsendum úrskurðar í málinu, sem gekk í héraði 24. júlí 1967, hafi verið tekið svo til orða að niðurstaða þess væri sú að Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested væri einum erfingja Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested „áskilinn réttur til umráða og búsetu á jörðinni Vatnsenda.“ Í úrskurðarorði hafi sagt að þeim sama væri eftir látinn föður sinn áskilinn réttur „til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda“ með takmörkunum og skilmálum, sem fram kæmu í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Þessi úrskurður hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar 5. apríl 1968. Þeim dómi hafi síðan verið fylgt eftir á skiptafundi í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 7. maí 1968 með því að skiptaráðandi afhenti Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested „umráð og afnot fasteignarinnar Vatnsenda ... samkvæmt þeim réttindum, sem honum sem erfingja eru áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested“ og hafi ákvörðun um þetta verið staðfest með dómi Hæstaréttar 30. maí 1969. Þegar framangreint væri virt yrði öðru fremur að líta til þess að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi ekki krafist þess í fyrrnefndu dómsmáli að kveðið yrði á um rétt sinn til að taka að arfi eftir föður sinn jörðina Vatnsenda, heldur rétt sinn til að taka við henni. Krafa hans í málinu hafi verið tekin til greina á þann hátt að hann nyti réttar til að taka við jörðinni til ábúðar og hagnýtingar, sem hafi verið í samræmi við fyrrgreind ummæli í málatilbúnaði hans um að umráðaréttur yfir henni gengi að erfðum eftir erfðaskránni frá 4. janúar 1938 ásamt rétti til arðs. Á hinn bóginn hafi ekki verið kveðið á um afdrif beins eignarréttar að jörðinni í dómsúrlausnum í málinu. Dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi síðan afhent Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested umráð og afnot jarðarinnar. Í tengslum við þetta hafi hvergi verið minnst á afsal til Magnúsar á beinum eignarrétti yfir jörðinni og yrði ekki séð að þeim rétti hafi síðar verið ráðstafað til hans með skiptayfirlýsingu eða afsali. Þetta fengi samrýmst því sem hafi komið fram í bréfi skiptaráðanda til skattstjóra 15. ágúst 1969, þar sem segi að dánarbúinu hafi tilheyrt „ákveðinn afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda“, sem hafi fallið til „eins erfingja búsins samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested“, og hafi þannig jörðin þegar verið afhent Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested, sem nefndur var landseti og rétthafi jarðarinnar í bréfinu. Að þessu öllu gættu væri ekki unnt að líta svo á að fyrirliggjandi gögn standi til þess að álykta að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi öðlast beinan eignarrétt að jörðinni Vatnsenda með ákvörðun skiptaráðanda 7. maí 1968, sem Hæstiréttur staðfesti í dómi 30. maí 1969. Því hafi ekki verið borið við í málinu að Magnús hafi á annan hátt tekið við slíkum rétti að jörðinni af dánarbúinu og yrði því til samræmis að telja það enn hafa á sinni hendi þann rétt, sem ráðstafa yrði til að ljúka skiptum lögum samkvæmt. Niðurstaða hins kærða úrskurðar var staðfest með þessum hætti í dómsorði: „Við opinber skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested telst beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi enn vera á hendi dánarbúsins.“

Skiptafundur var haldinn í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 4. júní 2013. Fram kemur í fundargerð að skiptastjóri hafi litið svo á að samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 væri það fyrst og fremst hlutverk skiptastjóra að ráðstafa beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda. Skiptastjóri hafi ákveðið að halda að nýju fund 30. ágúst 2014 þar sem fulltrúar erfingja myndu skila greinargerð þar sem fram kæmi afstaða þeirra til þess hvernig ætti að ráðstafa þessum rétti. Guðjón Ólafur Jónsson hrl. hafi mótmælt þessari ákvörðun skiptastjóra sem ótímabærri og sóknaraðilar lagt fram tillögu í sex liðum. Í fyrsta lagi um að skiptastjóri myndi óska eftir því við sýslumann að dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 yrði þinglýst sem eignarheimild á jörðina Vatnsenda og öðrum eignarheimildum aflýst. Í öðru lagi að óskað yrði eftir upplýsingum og gögnum frá Kópavogsbæ um greiðslu eignarnáms­bóta. Tillögur sóknaraðila í liðum 3-6 sneru að því að eignarnámsbætur frá Kópavogsbæ og leigugreiðslur myndu renna til dánarbúsins.

Af þessu tilefni boðaði skiptastjóri á ný til skiptafundar 14. júní 2013. Í fundargerð segir að skiptastjóri hafi greint frá því að frá síðasta skiptafundi hefði hann ráðist í þær aðgerðir sem getið er í 1. og 2. lið tillögu sóknaraðila, en hann myndi að svo stöddu ekki ráðast í aðgerðir samkvæmt 3.-6. lið tillagna sóknaraðila, þar sem óvissa væri um það hverjum erfingja réttindin og verðmætin tilheyri. Þá kemur fram í fundargerðinni að Sigmundur Hannesson hrl. mótmælti gildi erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested.

Fyrirhuguðum skiptafundi, sem halda átti 30. ágúst 2013, var frestað til 5. september 2013. Í fundargerð frá fundinum kemur fram að skiptastjóra hafi borist greinargerð Sigurbjörns Ársæls Þorbergssonar hrl. sem lægi fyrir á fundinum í lokuðu umslagi. Sóknaraðilar hafi lýst því yfir að þeir myndu ekki skila inn greinargerðum að svo stöddu. Sóknaraðilar hafi lagt fram tillögu um að því yrði frestað að erfingjar legðu fram tillögur sínar um ráðstöfun eigna búsins, a.m.k. þar til fyrir lægi niðurstaða dómstóla í máli Þorsteins Hjaltested gegn Kópavogs­bæ og ágreiningsmáli um þinglýsingu eignarinnar Vatnsenda í Kópavogi. Að fenginni niðurstöðu í nefndum dómsmálum skyldi leggja málið fyrir skiptafund og taka ákvörðun um hvort tímabært væri að erfingjar legðu fram tillögur sínar um ráðstöfun eigna búsins, m.a. í ljósi þess hvernig gengið hefði að innheimta bætur fyrir eignarnumið land dánarbúsins, svo og mögulegra hugmynda Kópavogsbæjar um frekara eignarnám jarðar búsins að Vatnsenda í heild eða hluta. Skiptastjóri hafnaði því að tillaga sóknaraðila yrði borin undir atkvæði á fundinum. Ágreiningi um þetta var vísað til héraðsdóms og með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2014 í máli nr. Q-13/2013 var málinu vísað frá dómi þar sem sóknaraðilar hefðu ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn sakarefnisins, enda lá fyrir niðurstaða í ágreiningsmáli um þinglýsingu og að máli varnaraðila Þorsteins á hendur Kópavogsbæ hafði verið vísað frá dómi.

Skiptastjóri boðaði til skiptafundar 30. apríl 2014 með boðun birtri 16. apríl, um frumvarp til úthlutunargerðar, dags. 15. apríl 2014. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir því að beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda yrði úthlutað til Þorsteins Hjaltested. Áður en skiptafundurinn var haldinn hafði Guðjón Ólafur Jónsson hrl. tilkynnt skiptastjóra, með bréfi 27. apríl 2014, að hann kæmi ekki fram fyrir hönd Kristjáns Þórs Finnssonar við skiptin og hann hefði ekki tekið við boðun á skiptafund vegna hans. Skiptastjóri yrði því að boða Kristján Þór sjálfan með lögbundnum fyrirvara, sbr. 1. mgr. 78. gr. laga nr. 20/1991. Jafnframt var af hálfu  sóknaraðila Elísu og Gísla mótmælt erfðatilkalli Kristjáns Þórs í dánarbúið. Í rafpósti skiptastjóra 28. apríl 2014 kom fram að skiptastjóri liti svo á að lögmaðurinn hefði verið lögmaður Kristjáns Þórs þegar boðað var til fundarins og tekið við boðuninni og því hefði réttilega verið boðað til fundarins. Kristján Þór boðaði forföll á skiptafundinn með rafpósti 30. apríl 2014 og mótmælti frumvarpi skiptastjóra.

Hinn 30. apríl 2014 var boðaður skiptafundur haldinn og mótmæltu sóknaraðilar frumvarpi að úthlutunargerð. Ekki tókst að jafna ágreining aðila um frumvarpið og var honum með vísan til 3. mgr. 79. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 vísað  til héraðsdóms á grundvelli 122. gr. sömu laga.

II.

Sóknaraðilar Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested byggja í greinargerð sinni á því að bókuð hafi verið andmæli þeirra við gildi erfðaskrárinnar á skiptafundi 14. júní 2014. Einnig vísa sóknaraðilar til þess að lögmaður sóknaraðila hafi ritað skiptastjóra bréf, dags. 15. júlí 2013, þar sem segi að áður en skiptastjóri taki til við að skipta/ráðstafa beinum eignarrétti að Vatnsendajörðinni yrði hann að láta í ljósi afstöðu sína í fyrsta lagi til þess hverjum tilheyri óbeinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í dag (umráða- og afnotaréttur). Í öðru lagi hvort erfðaskráin frá 4. janúar 1938 væri enn í gildi í öllum atriðum og í þriðja lagi hverjum tilheyri tekjur/bætur vegna Vatnsendajarðarinnar, þ. á m. eignarnámsbætur frá Kópavogsbæ. Skiptastjóri hafi ekki svarað þessum spurningum heldur boðað til skiptafundar, en boðuninni hafi fylgt hið umdeilda frumvarp til úthlutunar, dags. 15. apríl 2014.

Sóknaraðilar halda því fram að til þess að mögulegt sé að skipta dánarbúi föður þeirra, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þurfi annars vegar að staðreyna hvaða eignir tilheyra dánarbúinu og hins vegar að ákvarða skiptagrund­völlinn.

Sóknaraðilar telja að skiptastjóri hafi þverbrotið grundvallarreglur laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., með framlagningu hins umdeilda frumvarps að úthlutunargerð í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, dags. 15. apríl 2014, og staðfestingu hans á því á skiptafundi 30. apríl sama ár. Sóknaraðilar segja að þeir geri ekki kröfu um frávísun málsins vegna meintra annmarka á framgöngu skiptastjóra en leggi það í mat dómsins hvort vísa beri málinu frá ex officio, eða leggja fyrir skiptastjóra að taka efnislega afstöðu til vefengingar sóknaraðila á gildi erfðaskrárinnar, skera úr um hvert gildi erfðaskrárinnar er við skiptin og vísa ágreiningi þar að lútandi til héraðsdóms, áður en lagt er fram frumvarp til úthlutunar, þar sem ekki liggi enn fyrir hverjir standi til erfða og hverjar eignir dánarbúsins eru.

Verði málinu ekki vísað frá dómi ex officio ber að mati sóknaraðila nauðsyn til að fella hið umdeilda frumvarp úr gildi og fá staðfestingu dómsins á því að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938 hafi ekki gildi við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, umfram það sem segir í upphafi erfðaskrárinnar um að „allar eignir mínar, fastar og lausar, skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested …“ svo sem aðaldómkröfur sóknaraðila standi til.

Sóknaraðilar byggja á því að þeir hafi vefengt gildi erfðaskrárinnar að hluta, með formlegum bókunum á skiptafundum, m.a. á grundvelli erfðaréttar og vísa í því sambandi til 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Sóknaraðilar vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 þar sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested hafi verið „áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda í Kópavogskaupstað með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938“.

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 16. nóvember 2012, sem staðfestur hafi verið að þessu leyti með dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012, hafi verið tekið undir það með sóknaraðilum að eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda hafi ekki verið færður yfir til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, heldur eingöngu rétturinn „til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda“. Þá niðurstöðu styðji ummæli lögmanns Magnúsar sjálfs í greinargerð hans til Hæstaréttar en þar segi orðrétt: „Það er ekki eignarrétturinn að jörðinni Vatnsenda, sem erfist, heldur ábúðar og afnotarétturinn.  Af þeirri ástæðu er útilokað að ekkja Sigurðar Hjaltested eigi rétt til áframhaldandi ábúðar. Umbj.m. sækir ekki rétt sinn til jarðarinnar til föður síns, Sigurðar heldur beint til arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested.“ Auk þessa segi í greinargerð Ólafs Þorgrímssonar hrl., þann 5. júní 1967, lögmanns Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, eftirfarandi: „Erfðaskrá þessi er all sérstæð og gjörhugsuð. Með henni er í rauninni gjörð einskonar sjálfseignastofnun úr öllum eignum arfláta. Og það er aðeins umráða­rétturinn til að njóta arðs af eignum, sem erfist, en ekki óskoraður eignaréttur. Er ljóst að með þessu vildi arfláti tryggja það að eignirnar tvístruðust ekki og yrðu að engu og jafnframt að elsti sonurinn í ætt Lárusar frænda hans hefði örugga fjárhagslega afkomu og væri einskonar ættarhöfðingi.“ Sóknaraðilar kveða að hér sé um bindandi málflutnings­yfirlýsingar að ræða.

Þá segja sóknaraðilar að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá dómi Hæstaréttar í málinu nr. 560/2007, þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins. Í málinu hafi sóknaraðilar freistað þess að fá erfðaskrána ógilta að hluta en í  niðurstöðu hins kærða úrskurðar hafi verið vísað til þess að hin umdeilda erfðaskrá hafi þegar verið lögð til grundvallar við skipti á þremur dánarbúum og það tekið fram að skv. 47. gr. erfðalaga nr. 8/1962 skuli andmæli gegn gildi erfðaskrár borin fram við skiptaráðanda, skiptastjóra eða erfingja, sem skipta einkaskiptum, jafn fljótt og tilefni verður til. Því hafi ekki þótt efni til þess að taka kröfur sóknaraðila til efnislegrar úrlausnar.

Skiptum á dánarbúi Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested sé ólokið og hafi réttindum hans til Vatnsendajarðarinnar ekki verið ráðstafað úr dánarbúi hans með lögformlegum hætti. Sóknaraðilar halda því fram að öll réttindi sem tengjast Vatnsenda­jörðinni, þ.e. öll óbein eignarréttindi, þ. á m. umráða- og afnotaréttindi jarðarinnar og bætur fyrir eignarnumið land, eigi að ganga til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og koma til skipta.

Jafnframt benda sóknaraðilar á að máli varnaraðila Þorsteins Hjaltested á hendur Kópavogsbæ vegna meintra vanefnda á sáttagerð í matsmáli, dags. 30. janúar 2007, hafi verið vísað frá dómi 17. janúar 2014 þar sem óvissa væri um það hvort Þorsteinn ætti í raun þá fjárkröfu sem hann hafði uppi gegn Kópavogsbæ.

Sóknaraðilar vekja athygli á að allir sóknaraðilar hafi sameiginlega stefnt Kópavogsbæ til heimtu fjár til handa dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, vegna þess að dánarbúið hefur verið réttmætur eigandi jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi frá 13. nóvember 1966. Ekki sé um það deilt að handhafi beins eignarréttar sé einn bær til að taka við bótum fyrir landspjöll eða eignarnám, enda beinist eignarnámið að sviptingu á eignarréttindum og beri Kópavogsbæ sem eignarnema að greiða fullar bætur fyrir til landeigenda, þ.e. dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Málið verði þingfest 5. nóvember 2014.

Þá segja sóknaraðilar að ljóst sé að raunverulegum búskap hafi ekki verið til að dreifa hin síðari ár á Vatnsenda. Jörðin, sem sé frá náttúrunnar hendi rýr til búskapar, hafi sætt gífurlegum skerðingum, eða um 1.826,28 ha eins og fram komi í úrskurði óbyggðanefndar. Með síðustu kaupum Kópavogsbæjar á 863 ha úr landi Vatnsendajarðarinnar sé ljóst að útilokað sé að stunda þar búskap í venjubundinni merkingu þess orðs, sbr. ákvæði ábúðar- og jarðalaga. Undir þessi sjónarmið sé tekið í greinargerð/kröfulýsingu varnaraðilans Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dags. 30. ágúst 2013. Hefðbundinn búskapur hafi ekki verið stundaður að Vatnsenda síðustu áratugi og jörðin uppfylli skilgreiningu 6. mgr. 2. gr. jarðalaga nr. 81/2004 um að vera eyðijörð, þ.e. jörð sem ekki hafi verið setin í fimm ár eða lengur, án tillits til þess hvort hún sé lögbýli eða ekki, en ekki hafi verið búið á Vatnsendajörðinni í yfir tíu ár.

Jafnframt byggja stefnendur á því að ábúendur að Vatnsenda, sem setið hafi á jörðinni í skjóli erfðaskrárinnar, hafi margítrekað staðið fyrir veðsetningum á jörðinni. Vísa sóknaraðilar til ljósrita úr veðmálabók/þinglýsingarbók því til staðfestingar. Í gegnum tíðina hafi ótal landspildur úr Vatnsendajörðinni verið leigðar, en samninga um landspildur þessar sé ekki getið í þinglýsingarvottorði (veðmálabók) Vatnsenda­jarðarinnar.

Til viðbótar þeim gífurlegu veðsetningum sem fram komi í veðmálabókum, sem framkvæmdar hafi verið þrátt fyrir skýr ákvæði erfðaskrárinnar um bann við veðsetningum nema í undantekningartilvikum, hafi átt sér stað að því er virðist veðsetningar á spildum Vatnsendajarðarinnar án þess að þeirra sé getið í veðmála-bókum. Nægi þar að nefna veðskuldir sem tilgreindar séu í ákvæði 1 a í sátt vegna eignarnáms ca 90,5 ha landspildu úr landi Vatnsenda, dags. 1. ágúst 2000, en þar segi: „Kópavogsbær yfirtekur áhvílandi veðskuldir á hinni eignarnumdu landspildu frá og með 24. nóvember 1999, en þær eru: a) skuld við Lífeyrissjóð starfsmanna Kópavogsbæjar að eftirstöðvum VN nóvember 1999 kr. 26.728.650, og b) skuld við Lífeyrissjóðinn Framsýn VN nóvember 1999 kr. 25.801.343. Afborganir ásamt verðbótum og vöxtum sem gjaldfallið hafa eftir umsaminn yfirtökudag eru á ábyrgð Kópavogsbæjar.“ Athygli veki í þessu sambandi að samkvæmt þinglýsingarvottorði, dags. 11. desember 2000, sé höfuðstóll áhvílandi veðskulda (veðsk.br. og fjárnáma) rösklega 111.000.000 kr., þrátt fyrir að erfðaskránni sé þinglýst sem kvöð á Vatnsendajörðinni sem takmarki veðsetningar á jörðinni.

Jörðin Vatnsendi hafi verið skert verulega og endurgjald komið fyrir svo tugum milljóna skipti sem ekki hafi farið í uppbyggingu jarðarinnar, svo sem ákvæði erfðaskrárinnar kveði á um, þ.e. aðeins „til nauðsynlegra varanlegra endurbóta á jörðinni sjálfri eða húsum hennar“. Sóknaraðilar telja það í andstöðu við vilja arfleifanda að varnaraðilinn Þorsteinn Hjaltested einn hagnist um hundruð milljóna króna vegna sölu jarðarinnar og útiloki um leið búskap að Vatnsenda til framtíðar litið. Vegna síðustu sölu hafi varnaraðilinn Þorsteinn Hjaltested þegar fengið greiddar 2.250 milljónir króna. Söluandvirðið í heild megi áætla á bilinu 10 til 15 milljarða króna. Matsnefnd eignarnámsbóta meti þessi viðskipti á bilinu 6,5 – 8 milljarða króna, sbr. úrskurð nefndarinnar 14. febrúar 2007.

Sóknaraðilar kveða að ekki sé deilt um rétt Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested til jarðarinnar Vatnsenda, sem hann hafi tekið í arf eftir föðurbróður sinn, á grundvelli erfðaskrárinnar. Þá sé ekki deilt um það að samkvæmt erfðaskránni hafi vilji arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested, verið skýr og afdráttarlaus um það að allar eigur hans,  þ.m.t. Vatnsendajörðin, skyldu ganga til föður sóknaraðila, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, með þar tilgreindum kvöðum, skilyrðum og takmörkunum. Á því er byggt af hálfu sóknaraðila að þennan vilja arfleifanda, Magnúsar Einarssonar Hjaltested, beri að virða.

Erfðaskráin hafi að geyma ítarleg ákvæði um skilyrði og takmarkanir á umráðum Vatnsendajarðarinnar, í skilningi 7. kafla erfðalaga nr. 8/1962 um kvaðaarf. Kvaðir þessar hafi verið persónubundnar og fallið niður við andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, 13. nóvember 1966,  samkvæmt 1. mgr. 52. gr., sbr. 3. mgr. 50. gr., erfðalaga. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna því að leggja erfðaskrána til grundvallar við úthlutun á arfi úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og fella frumvarp skiptastjóra að úthlutunargerð úr gildi. Verði ekki á það fallist er á því byggt af hálfu sóknaraðila að það séu brostnar forsendur fyrir því að leggja erfðaskrána til grundvallar við úthlutun á arfi úr dánarbúinu og hafi erfðaskráin ekki gildi við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.

Í því sambandi byggja sóknaraðilar á því að ekki hafi af hálfu þeirra „tilsjónarmanna“ Vatnsendajarðarinnar, frá því að dómur Hæstaréttar gekk 1968, verið staðið við hin ákveðnu skilyrði erfðaskrárinnar þ.e. þær kvaðir, takmarkanir og skilmála sem erfðaskráin kveði skýrt á um. Fyrst og fremst byggja sóknaraðilar á því að jörðin Vatnsendi sé ekki lengur hæf til búskapar/búrekstrar, gengið hafi verið gegn ákvæðum erfðaskrárinnar um veðsetningar og með sölu á stærstum hluta Vatnsenda­jarðarinnar til Kópavogsbæjar. Halda sóknaraðilar því fram að í þeim tilvikum sem „tilsjónarmaður“ hafi fyrirfram samið við Kópavogsbæ/Kópavogs­kaupstað um endurgjald fyrir land, sem síðar hafi verið tekið eignarnámi, sé í eðli sínu um sölu á landi að ræða sem gangi gegn ákvæðum erfðaskrárinnar, en ekki sé um að ræða eiginlegar eignarnámsbætur, enda um málamyndagerning að ræða.

Sóknaraðilar telja að með þeirri aðgerð að semja við Kópavogskaupstað um sölu á stærstum hluta jarðarinnar sem eftir stóð, 863 ha, hafi endanlega verið girt fyrir möguleika á því að stunda búskap á Vatnsendajörðinni til framtíðar litið og því hafi brostið forsendur fyrir gildi erfðaskrárinnar þegar af þeirri ástæðu. Jafnframt því að semja um sölu á jörðinni hafi ábúandi brotið það skilyrði fyrir gildi erfðaskrárinnar að selja ekki jörðina eða hluta hennar.

Sóknaraðilar vísa til þess að hinn 19. janúar 2007 hafi lögmaður sóknaraðila sent Matsnefnd eignarnámsbóta bréf vegna fyrirhugaðs eignarnáms þar sem m.a. hafi verið vakin athygli á því að eignarhaldið á Vatnsendajörðinni væri óljóst og þyrfti að skilgreina sóknaraðila sem aðila að málinu sem eignarnámsþola. Kröfum sóknaraðila hafi verið hafnað af nefndinni 8. febrúar 2007.

Sóknaraðilar kveða að „sáttargerð“ milli Kópavogsbæjar og Þorsteins Hjaltested, dags. 30. janúar 2007, byggist á minnisblaði 15. nóvember 2006. Í minnis­blaðinu segi að því sé ætlað að „skilgreina í stórum dráttum samkomulag sem tekist hafi milli Þorsteins Hjaltested og Kópavogsbæjar að loknum viðræðum síðustu vikna og mánaða“. Í minnisblaði þessu segi enn fremur að aðilar hafi náð samkomulagi um að leggja bótafjárhæð ekki í mat, heldur að bætur fyrir hið eignarnumda skyldu greiðast með 2.500.000.000 kr. Þá hafi átt að skipuleggja 300 lóðir undir sérbýli á svæði merktu C og G. Landsvæðið hafi verið hluti af svæðinu umhverfis Elliðavatn sem yrði áfram í eigu landeiganda og undanskilið eignarnámi. Lóðirnar yrðu seldar á leigu af landeiganda. Landeigandi legði Kópavogsbæ til land undir götur, veitur, opin svæði og stíga sem Kópavogsbær tæki aftur á móti að sér að fullklára og viðhalda, landeiganda að kostnaðarlausu. Landeigandi hafi ekki átt að greiða gatnagerðar- og yfirtökugjöld, eða önnur tengd gjöld til Kópavogsbæjar vegna þessara lóða eða framkvæmda Kópavogsbæjar vegna þeirra. Einnig hafi landeigandi átt að fá 11% af öllum íbúðum og atvinnuhúsnæði sem úthlutað yrði á hinu eignarnumda landi.

Samkvæmt framangreindum samningi sé ábúandi búinn að skuldbinda sig til þess að ráðstafa hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda undir stíga, götur og opin svæði auk skipulagðs íbúðarsvæðis, sem honum hafi ekki verið heimilt að gera samkvæmt ákvæðum erfðaskrárinnar. Sóknaraðilar telja að aðdragandi þessa máls og framangreind atriði feli í sér flókin viðskipti um sölu á landi þar sem endurgjald fyrir selt land eigi ekkert skylt við bætur í eignarnámsmáli. Viðskipti þessi beri það með sér að vera sala á landi þar sem, vegna ákvæða erfðaskrárinnar, hafi verið gerður málamyndagerningur um sátt í eignarnámsmáli, þar sem stjórnvöld hafi verið blekkt til þess að veita eignarnámsheimild síðar, vegna þegar ákveðinna kaupa Kópavogs­bæjar á landi af stefnda, sem öllum hlutaðeigandi se ljóst að stefnda sé  óheimilt að selja.

Verði ekki á það fallist að erfðaskráin hafi ekkert gildi við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested á grundvelli meginreglna um brostnar forsendur er á því byggt að erfðaskránni beri að víkja til hliðar með vísan til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, en erfðaskráin sé í raun ígildi samnings um erfðaábúð.

Sóknaraðilar árétta að Magnúsi Einarssyni Hjaltested hafi verið áskilinn réttur eftir látinn föður sinn til þess að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda með þeim takmörkunum og skilmálum, sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, dagsettri 4. janúar 1938, eins og það sé orðað í dómi Hæstaréttar, og síðar hafi honum verið afhent formlega umráðin (óbein eignarréttindi) með dómi Hæstaréttar Íslands.

                Við andlát Magnúsar hafi ekki verið farið lögformlega rétt með ráðstöfun réttinda þessara, þar sem skiptum á dánarbúi Sigurðar hafi ekki verið lokið og sé ekki lokið enn. Öll óbein eignarréttindi Vatnsenda fylgi beinum eignarrétti Vatnsendans, þ.m.t. umráða- og afnotaréttur. Í 1. gr. erfðaskrárinnar sé þetta skýrt tekið fram þar sem segi: „allar eigur mínar – fastar og lausar skulu ganga að erfðum til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested …“ Það sé frumskylda skiptastjóra að tryggja það að allar eigur (sem eftir standi) sem tilheyri Vatnsendajörðinni, þ.m.t. óbein eignarréttindi og söluandvirði lands sem selt hafi verið úr búinu, með ólögmætum hætti undir skiptum, komi inn í dánarbúið. Þegar það liggi fyrir hvaða eignir tilheyri dánarbúinu sé fyrst hægt að huga að því á hvern hátt eigum dánarbúsins verði skipt.

Um lagarök vísa sóknaraðilar til ákvæða erfðalaga nr. 8/1962, einkum 1., 2., 34.-36. gr., 47. gr. og 50.-52. gr. laganna, svo og ákvæða laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.

III.

                Í greinargerð sóknaraðila Sigríðar Hjaltested og Markúsar Ívars Hjaltested segir að með dómum Hæstaréttar í málum nr. 740/2013 og nr. 701/2012  hafi orðið þau kaflaskil við skiptin á dánarbúinu að unnt hafi verið að bera efnisleg ágreiningsefni aðila undir dómstóla til að fá niðurstöðu um skiptingu á öllum eignum dánarbúsins, bæði beinum og óbeinum réttindum og skiptaverkefni Unnsteins Beck hrl., sem var upphaflegur setuskipta­ráðandi í dánarbúi Sigurðar Kristján Lárussonar Hjaltested. Það verkefni eða þáttur skiptanna sem hann hafi lokið við hafi aðeins verið að afhenda umráð og afnot á Vatnsendajörðinni til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sbr. dóma Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 og í máli nr. 99/1968. Þar sem endanlegum skiptum á jörðinni, s.s. um ráðstöfun beins eignarréttar, hafi ekki lokið undir stjórn setuskiptaráðandans og Magnús Sigurðsson Hjaltested látist 21. desember 1999 hafi afnotaréttindi hans horfið að nýju til hins óskipta dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Hinum óbeinu eignarréttindum þurfi að skipta að nýju ef aðstæður og lagarök standi til þess.

Sóknaraðilar mótmæla aðild dánarbúsins að þessu dómsmáli þar sem skiptastjóri hafi ekki það hlutverk að taka afstöðu til frumvarps að úthlutun eigna dánarbúsins.

Sóknaraðilar halda því fram að frumvarp að úthlutunargerð skiptastjóra, dags. 15. apríl 2014, uppfylli ekki kröfur skiptalaga. Skiptastjóri hafi vísað litlum hluta af ágreiningsþáttum í skiptamálinu til héraðsdóms. Vatnsendajörðin sé aðeins hluti af eignum dánarbúsins. Lítið sé eftir af jörðinni frá því að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi fengið hana til afnota. Með frumvarpinu sé úthlutun hennar eina andlagið sem beri að skipta en miklar aðrar eignir tilheyri dánarbúinu sem ekki sé greint frá í úthlutunargerð skiptastjóra dánarbúsins. Meðal margra lögbundinna verkefna skiptastjóra sé að leita vitneskju um hverjar eignir tilheyri dánarbúinu, samanber 54. gr. skiptalaga nr. 20/1991, en skiptastjóri hafi vanrækt þær skyldur.

Við lok skiptaferils dánarbúa beri skiptastjóra að gera frumvarp til úthlutunar á öllum eignum dánarbúsins og honum beri að sjálfsögðu að taka þar með allar eignir búsins, en það hafi hann vanrækt. Þar sé einkum og sér í lagi átt við þau miklu fjárverðmæti sem feðgarnir Magnús Sigurðsson Hjaltested og á eftir honum Þorsteinn Hjaltested hafi tekið undir sig, án þess að vera eigendur beins eignarréttar að jörðinni. Vísa sóknaraðilar í þessu sambandi til 77. gr. laga nr. 20/1991.

Þá hafi skiptastjóri ekki ákveðið atkvæðaskiptingu erfingja eftir arfshlutföllum þeirra, sbr. 69. gr. laga nr. 20/1991, en ótvírætt eigi þessar reglur við um skipti á öllum eignum dánarbúsins, hvort sem um sé að ræða það sem eftir er af Vatnsendajörðinni eða fjárverðmæti sem hafi komið við sölu og eða eignarnámsbætur fyrir jörðina á undanförnum árum og áratugum.

Skiptastjóri hafi vanrækt að leita álits allra málsaðila eins og hann hafi lofað og honum hafi borið að gera, sbr. bókun á skiptafundi og 2. mgr. 68. gr. laga nr. 20/1991. Skiptastjóri hafi einungis tekið við einni greinargerð, þ.e. greinargerð Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, ekkju Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Skiptastjóri hafi ekki tekið við eða óskað eftir rökstuðningi sóknaraðila áður en hann hafi tekið ákvörðun um frumvarp á úthlutunargerðinni. Sóknaraðilar hafi átt von á fundarboðun áður en kæmi að úthlutun eigna dánarbúsins og allir fengju sama tækifæri til að leggja fram greinargerð um ráðstöfun á eignum dánarbúsins, sbr. 2. mgr. 68. gr skiptalaga nr. 20/1991. Tillaga skiptastjóra um ráðstöfun eigna sé því ótímabær.

Verði ekki fallist á ómerkingu eða að frumvarp skiptastjóra verði fellt úr gildi séu margvíslegar röksemdir og málsástæður er standi gegn niðurstöðu skiptastjóra. Úthlutunargerðinni sé áfátt og hún byggð á röngum forsendum. Skiptastjóri byggi niðurstöðu sína meðal annars á túlkun sinni á erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 1938 sem hann fullyrði að ekki hafi verið hnekkt. Samt liggi fyrir bókun allra lögmanna sóknaraðila frá fyrsta skiptafundi með nýjum skiptastjóra um að þeir mótmæli gildi erfðaskrárinnar að undanskilinni 1. gr. hennar. Þessi þáttur ágreiningsmála, og sá mikilvægasti, verði óhjákvæmilega að komast fyrir héraðsdóm svo að unnt verði að ljúka skiptamálinu.

Sóknaraðilar hafna túlkun skiptastjóra á erfðaskránni og segja að hún sé afar sérstök að efni til. Erfðaskráin hafi verið til umfjöllunar í dómum Hæstaréttar og þar hafi komið fram mikilvæg gögn og yfirlýsingar sem skýri vel réttindi eða öllu heldur hin takmörkuðu réttindi sem erfist í beinan karllegg elsta sonar hvers fram af öðrum til afnota og búsetu á jörðinni Vatnsenda.

Með dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 hafi verið staðfest að eignarrétturinn að Vatnsendajörðinni væri enn í eigu dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, en samt sem áður sé í hinum eldri dómum Hæstaréttar alveg ljóst hver skilningur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested hafi verið. Afgerandi málflutningsyfirlýsing um eignarréttinn að jörðinni hafi komið fram í fyrstu deilumálum sem rekin voru fyrir dómstólum, þegar lögmaður Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, Ólafur Þorgrímsson hæstaréttarlögmaður, hafi tekið sérstaklega fram í greinargerðum sínum að hér væri ekki verið að deila um eða skipta eignarrétti að jörðinni heldur aðeins umráðum og afnotum. Hann hafi einnig tekið skýrt fram að samkvæmt erfðaskránni færðist ekki eignarréttur að jörðinni í beinan karllegg frá elsta syni til elsta sonar mann fram af manni. Málflutningsyfirlýsing lögmanns Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested sé mikilvæg og bindandi fyrir aðila, einkum og sér í lagi fyrir Magnús Sigurðsson Hjaltested, sömuleiðis fyrir eftirlifandi maka og elsta son hans, Þorstein Hjaltested. Þessi yfirlýsing skýri einnig hvers vegna orðalagið afhending á umráðum og afnotum komi ítrekað fram í niðurstöðum skiptaréttar og dómstóla. Þá hljóti það að skýra enn frekar inntak afhendingar að hvergi sé notað hugtakið eignarréttur í þeim úrskurðum sem fjalli um afhendingu á Vatnsendajörðinni, heldur einungis umráð og afnot og einnig að Magnúsi Hjaltested sé áskilinn réttur til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda með þeim takmörkunum og skilmálum sem settir eru í arfleiðsluskrá Magnúsar Hjaltested. Sóknaraðilar telja að það verði að túlka úrskurðinn sjálfan í skiptaréttar­málinu og dóm Hæstaréttar í máli nr. 99/1968 frá 30. maí 1969, sem hafi fjallað um skiptaréttarmálið, með hliðsjón af yfirlýsingu lögmannsins. Dómurinn með þessum skilningi sé bindandi um úrslit sakarefnis fyrir aðila og þá sem að lögum komi í þeirra stað um þær kröfur sem dæmdar eru þar að efni til. Vísa sóknaraðilar í þessu sambandi til 45. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur hafi staðfest ákvörðun skiptadóms, en hún hafi verið efnislega um afar takmörkuð eignarréttindi eða nánar tiltekið rétt til að nota og nýta. Það hafi verið orðað þannig að um afhendingu umráða og afnota hafi verið að ræða. Engin önnur réttindi hafi færst til Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested undir skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og hann hafi aldrei átt að öðlast meiri réttindi en hann hafi fengið í formi afnotaréttarins. Lögmaður Magnúsar hafi haft þennan skilning á efni erfðaskrárinnar og Magnús fengið öll réttindin sem hann hafi beðið um og átt rétt á. Af þessu leiði að hafna beri úthlutunargerð skiptastjóra í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.

Einnig byggja sóknaraðilar á því að eftir andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi jörðin rýrnað verulega vegna eignarnámsgerða og sölusamninga dulbúinna sem eignarnámsgerða, þannig að jörðin sé nú hundruðum hektara rýrari en hún hafi verið áður. Það megi lesa með skýrum hætti úr erfðaskrá Magnúsar að hann hafi viljað hlúa að ætt sinni, veg hennar og virðingu og að höfuðból hennar yrði að Vatnsenda. Mikilvægt sé að lesa erfðaskrána í heild og samhengi til að hún verði túlkuð með þeim hætti sem arfláti hafi viljað. Hann hafi lagt áherslu á verulegar takmarkanir á ráðstöfunarrétti elsta sonar í karllegg. Hann hafi ekki mátt selja jörðina og aðeins veðsetja hana vegna uppbyggingar á jörðinni og sá réttur einnig verið takmarkaður. Eignarrétturinn hafi aldrei átt að flytjast milli ættliða í beinan karllegg. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú séu uppi, þ.e. vegna landnýtingar, þróunar og stækkunar byggðar í Kópavogi, sé komið að endamörkum með þá sýn og markmið sem arfláta hafi búið í brjósti. Erfðaskráin hafi þannig runnið sitt skeið á enda vegna brostinna forsendna í skilningi erfðaréttar og þar af leiðandi beri að skipta eignum dánarbúsins samkvæmt lögerfðareglum.

Sóknaraðilar kveða að óhjákvæmilegt sé að reifa hvernig ábúendurnir eða öllu heldur tilsjónarmennirnir Magnús Sigurðsson Hjaltested, og svo að honum látnum sonur hans, Þorsteinn Hjaltested, hafi selt og ráðstafað með varanlegum hætti mörgum hundruðum hektara lands og landsgæða út úr jörðinni og nýtt sér þá fjármuni í eigin þágu rétt eins og jörðin væri þeirra eign án nokkurra takmarkana. Þessi „ræningjaháttur“ sé hreint brot gegn ákvæðum erfðaskrárinnar, sbr. 27. gr. erfðalaga nr. 8/1962, þar sem kveðið sé á um að erfingja sé óheimilt að ráðstafa arfi sem hann á í vændum og leiði það til brottfalls erfðaréttar samkvæmt lagaákvæðinu. Einnig verði það leitt af ákvæðum erfðaskrárinnar, sbr. 6. gr. Telja verði háttalag feðganna einnig refsivert ekki síst í ljósi þess að óumdeilt sé samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 3. maí 2013 að beinn eignarréttur jarðarinnar hafi aldrei færst úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested.

Sóknaraðilar telja að það sé mikilvægt hagsmunamál að innheimta dómkröfur í máli sem allir sóknaraðilar hafi fyrir hönd dánarbúsins höfðað á hendur varnaraðilum og Kópavogsbæ, til innheimtu á eignarnámsbótum. Dánarbúið sé hinn eini og rétti eigandi þeirra fjármuna sem hafi komið í stað lands sem hafi verið háð eignarrétti dánarbúsins. Afnotahafinn af jörðinni hafi ekki átt beinan eignarrétt og því beri viðsemjanda að greiða fjármunina að nýju til rétts og löglegs eiganda þeirra. Þeim bótum og fjármunum eigi að skipta milli erfingja samkvæmt erfðalögum, enda gerir erfðaskrá Magnúsar Hjaltested ekki ráð fyrir sölu afnotahafa af jörðinni, sbr. sölubann 1. gr. a-liðar erfðaskrárinnar. Sóknaraðilar telja að frumvarp skiptastjóra um ráðstöfun eigna dánarbúsins eigi að taka einnig til þessara eigna.

Sóknaraðilar kveða að erfðaskráin tilgreini ekki hvað verði um þau verðmæti sem komi í stað lands fyrir eignarnám á Vatnsendajörðinni. Þar sem afnotahafi megi ekki selja jörðina geti eigandi eignarréttar að jörðinni einn selt, þ.e. dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þá greini erfðaskráin ekki hvernig þeim verðmætum skuli ráðstafað og af því leiði þá einnig að lögerfðareglur gildi um þá ráðstöfun.

Sóknaraðilar vísa til greinargerðar/kröfulýsingar varnaraðilans Kristrúnar Ólafar til skiptastjóra, dags. 30. ágúst 2013, en þar telji hún að bótakröfur og bætur vegna skerðingar á jörðinni skuli renna til viðkomandi ábúanda og eftir það til erfingja ábúandans samkvæmt lögerfðareglum. Hann hafi forræði og ráðstöfunarrétt á þeim kröfum. Í tilviki Lárusar hafi bætur sem hann tók við runnið til lögerfingja hans að svo miklu leyti sem þær eða ígildi þeirra kunni að hafa verið til staðar. Sóknaraðilar taki undir þessi sjónarmið Kristrúnar með þeirri breytingu að landbætur og bætur fyrir skerðingar og töku úr landinu, s.s. með eignarnámsmálum, skuli renna til eiganda beins eignarréttar, þ.e. dánarbúsins en ekki afnotahafans. Þá sé tekið undir það álit að bæturnar skuli renna til lögerfingja dánarbúsins samkvæmt lögerfðareglum, en ekki til afnotahafans.

Þá byggja sóknaraðilar á því að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi brotið gegn ákvæðum erfðaskrárinnar með því að vanrækja að viðhalda, endurbæta og lagfæra húsakostinn á jörðinni. Gamla íbúðarhúsið sé ónothæft með öllu og útihús hafi ekkert viðhald fengið frá 1970 að telja. Magnús hafi því ekki setið jörðina eins og til hafi verið ætlast. Honum hafi borið að búa á jörðinni og í því felist að viðhalda búsmala, efla og auka ræktun og jarðargæði og halda við reisn staðarins sem höfuðbóls er nyti virðingar. Þá hafi hann tekið undir sig fjárbætur sem hafi komið í stað lands við sölu og eignarnám, í stað þess að ávaxta það fé og varðveita í þágu jarðarinnar. Telja verði brot Magnúsar svo alvarleg að búseturétturinn hafi glatast og því hafi næstelsti sonur Sigurðar Hjaltested, Markús Ívar Sigurðsson Hjaltested, átt að fá búseturéttinn á jörðinni.

Með dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 í málinu nr. 740/2013 hafi verið unnt að fjalla um erfðaskrána, gildi hennar og túlkun og skiptingu eigna í ljósi gjörbreyttra aðstæðna frá því sem erfðaskráin hafi gengið út frá, setu erfingja á jörðinni Vatnsenda og að hún væri byggileg sem höfuðból Hjaltested-ættarinnar. Með þeim dómi hafi verið staðfest að dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sé réttmætur eigandi jarðarinnar frá 13. nóvember 1966, og réttur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested aðeins verið óbein eignarréttindi til umráða og afnota.

Sóknaraðilar telja að seta varnaraðilans Þorsteins Hjaltested á jörðinni hafi verið heimildarlaus. Magnús faðir hans hafi setið jörðina á grundvelli persónulegra réttinda sem hafi ekki komið til skipta eftir hans dag. Eftir lát Magnúsar hafi afnotaréttindin runnið til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og hafi mögulega getað fallið til Þorsteins úr því dánarbúi að uppfylltum skilyrðum. Eftir þeim heimildum hafi ekki verið leitað. Framganga hans sem rétthafi Vatnsenda­jarðarinnar hafi því alla tíð verið ólögleg og heimildarlaus.

Þá segja sóknaraðilar að greinargerð/kröfulýsing annars vegar varnaraðila Kristrúnar Ólafar, dags. 30. ágúst 2013, og hins vegar varnaraðila Þorsteins, dags. 19. desember 2013, til skiptastjóra séu mótsagnakenndar og óskiljanlegar. Þorsteinn krefjist viðurkenningar á frumvarpi skiptastjóra en Kristrún Ólöf beins eignarréttar að Vatnsendajörðinni og Þorsteinn lýsi því yfir að hann samþykki dómkröfur Kristrúnar, sem séu í andstöðu við hans kröfur. Beri því annað tveggja að vísa kröfum hans frá dómi, eða túlka þær gagnaðila sem best í hag, þ.e. að hann falli frá kröfum sér til handa. Sóknaraðilar telja að bréf lögmanns Kristrúnar Ólafar, dags. 19. desember 2013, breyti engu í þessum efnum, en þar kemur fram að kröfur hennar beri að skilja þannig að beinn eignarréttur og réttindi honum tengd skuli samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar ganga til Þorsteins. Jafnframt byggja sóknaraðilar á því að varnar­aðilinn Kristrún Ólöf geti hvorki eða megi verða eigandi beins eignarréttar að Vatnsenda­jörðinni. Réttindin séu ekki framseljanleg og eldri dómar Hæstaréttar frá árunum 1968-1970 staðfesti það, enda hafi tilkalli Margrétar heitinnar, konu Sigurðar, til setu á Vatnsendajörðinni eftir maka sinn verið hafnað á sínum tíma. Greinargerð/kröfulýsingu Kristrúnar Ólafar, dags. 30. ágúst 2013, hafi fyrst komið sóknaraðilum fyrir sjónir fyrir dómi, en hún hafi verið lögð fyrir skiptastjóra áður en hann samdi frumvarp að úthlutun eigna dánarbúsins og sýni það að skiptastjóri mismuni aðilum í að gæta hagsmuna sinna við skiptin á dánarbúinu, en það sé brot á „jafnréttisreglum einkamálalaga um kynningu raka og málsástæðna fyrir töku bindandi ákvarðana“.

Þá segja sóknaraðilar að þeir hafni bollaleggingum í framangreindri greinargerð/kröfulýsingu Kristrúnar Ólafar um hefðarrétt. Í dómi Hæstaréttar 3. maí 2013 hafi því verið slegið föstu að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi tekið við jörðinni til afnota, en það feli í sér útilokun á stofnun hefðarréttar samkvæmt lögum um hefð. Res judicata sjónarmið, sbr. 1. og 2. mgr. 116 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, leiði til sömu niðurstöðu. Þá hefðu þau rök átt að koma fyrr, undir rekstri hæstaréttarmálsins nr. 701/2012. Í því máli hafi Þorsteinn Hjaltested byggt á þeim rökum að hann væri eigandi jarðarinnar. Dómsniðurstaðan hafi verið skýr, beinn eignarréttur jarðarinnar tilheyri dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Hefðarsjónarmið komi því ekki til álita nú.

Að lokum telja sóknaraðilar ástæðu til að vekja athygli á eftirfarandi ummælum í greinargerð/kröfulýsingu varnaraðila Kristrúnar Ólafar: „... þegar jörðin lendir til skipta í dánarbúi erfingja skulu allar bótakröfur vegna skerðinga að jörðinni og ekki hefur verið samið um falla til erfingja samkvæmt erfðaskránni. Hann hefur forræði og ráðstöfunarrétt á þeim kröfum. Í tilviki Lárusar runnu þær bætur sem hann tók við til lögerfingja hans að svo miklu leyti sem þær eða ígildi þeirra kunna að hafa verið til staðar.“ Sóknaraðilar telja að af þessu verði ráðið að varnaraðilinn Kristrún Ólöf viðurkenni að bætur fyrir landspjöll og þar með einnig bætur fyrir skerðingar á jörðinni skuli renna til ábúandans samkvæmt erfðalögum sem búi á jörðinni samkvæmt erfðaskránni, til elsta sonar hverju sinni. Sóknaraðilar séu þessu algerlega sammála að því er varðar ráðstöfun bótanna, að þá gildi erfðalög, en að sjálfsögðu skuli allar bætur renna til eiganda beins eignarréttar dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og þaðan til lögerfingja hans, en aldrei til ábúanda.

Af öllu framangreindu telja sóknaraðilar að staðfesta beri kröfur þeirra í málinu.

IV.

                Sóknaraðilar Hansína Sesselja Gísladóttir, Finnborg Bettý Gísladóttir, Guðmundur Gíslason, Margrét Margrétardóttir, Gísli Finnsson og Elísa Finnsdóttir byggja aðalkröfu sína um að frumvarp skiptastjóra verði fellt úr gildi á því að skiptameðferð dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi verið andstæð lögum nr. 20/1991. Sóknaraðilar telja að lagaheimild bresti til að haga skiptum búsins og úthlutun eigna búsins á þann hátt sem greinir í frumvarpinu. Telja sóknaraðilar fjölmarga og alvarlega annmarka bæði á efnislegri og formlegri skiptameðferð búsins, sem og frumvarpinu sjálfu og meðferð þess. Verði af þessum sökum ekki hjá því komist að fella frumvarpið í heild sinni úr gildi.

Skiptameðferð dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sé óneitanlega um margt sérstök. Með úrskurði skiptaréttar Kópavogs 25. febrúar 1967 hafi dánarbúið verið tekið til opinberra skipta en aldrei verið lokið formlega að lögum. Þar sem umrædd lögpersóna, dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, hafi verið til allan þennan tíma leiði af sjálfu sér að um réttindi og skyldur viðkomandi lögpersónu fari samkvæmt lögum. Hafi því bæði skapast réttindi og skyldur frá þeim tíma er dánarbúið var tekið til opinberra skipta til dagsins í dag. Hafi því verið nauðsynlegt við framhald skiptanna árið 2011 að hefja að nýju lögbundna skiptameðferð frá upphafi og fylgja í þeim efnum ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Hafi margoft verið bent á þetta af hálfu sóknaraðila. Þar sem ákvæðum greindra laga hafi í litlu sem engu verið fylgt séu engar forsendur til að hægt sé að ljúka skiptum með frumvarpi til úthlutunar eða úthluta einhverri eign með lögmætum hætti úr dánarbúinu. Alvarlegustu annmarkarnir eru að mati sóknaraðila eftirfarandi:

Í fyrsta lagi hafi skiptastjóri ekki kannað hverjir séu erfingjar í dánarbúinu. Sóknaraðilar vísa í þessu sambandi til VI. kafla laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. um fyrstu aðgerðir við opinber skipti. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna skuli skiptastjóri svo fljótt sem verða má boða til skiptafundar með þekktum erfingjum. Í 3. mgr. 53. gr. laganna komi skýrt fram að skiptastjóri kanni af sjálfsdáðum hvort kröfur um arf eftir þann látna eigi við rök að styðjast. Í rafpósti skiptastjóra 28. apríl 2014 segi ranglega að aðrir erfingjar Sigurðar hafi ekki mótmælt arfstilkalli Kristjáns Þórs og komi slík mótmæli fram muni þau fá þá meðferð sem skiptalög geri ráð fyrir. Sóknaraðilar telja þennan málatilbúnað andstæðan lögum, enda beri skiptastjóra að eigin frumkvæði að kanna hverjir eigi erfðatilkall í dánarbúið. Ljóst sé að slík könnun hafi ekki farið fram og liggi því engin gögn fyrir um hverjir séu erfingjar búsins, þrátt fyrir að skiptastjóri hafi boðað könnun þessa efnis á skiptafundi 16. janúar 2012 er efasemdir hafi verið hafðar uppi um erfðarétt Kristjáns Þórs. Upplýsingar um erfingja í frumvarpi til úthlutunar séu með öllu óstaðreyndar. Yfirlýsingar skiptastjóra um að Kristján Þór kunni að hafa fallið frá kröfum til arfs úr búinu séu einnig með öllu óstaðfestar. Meðan ekki liggi fyrir hverjir geti talið til arfs í dánarbúinu geti frumvarp til úthlutunar á grundvelli X. kafla laganna um „lok opinberra skipta“ aldrei sætt lögmætri meðferð. Verði af þessari ástæðu einni að fella frumvarp til úthlutunar úr gildi. 

Í öðru lagi hafi skiptastjóri ekki leitað eftir afstöðu erfingja til skuldbindinga dánarbúsins og þar með liggi ekki fyrir hvort skipti eigi að fara fram samkvæmt VII. eða VIII. kafla laga nr. 20/1991. Samkvæmt 2. mgr. 53. gr. laganna skuli skiptastjóri fá fram afstöðu erfingja til skuldbindinga búsins. Enn fremur segir að fáist ekki með þessum hætti ábyrgð allra erfingja á skuldbindingum búsins skuli litið svo á að þeir hafi allir hafnað því að takast hana á hendur. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 komi fram að ekki verði ráðið af gögnum frá skiptarétti Kópavogs hvort erfingjar búsins hafi tekið ábyrgð á skuldbindingum búsins í öndverðu. Ekki liggi heldur fyrir nein afstaða erfingja til skuldbindinga dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested í skiptameðferð núverandi skiptastjóra er hófst með skipun hans 18. nóvember 2011. Í ljósi framsetningar skiptastjóra í frumvarpi til úthlutunar virðist mega ráða að lagt sé til grundvallar að erfingjar taki ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins og skiptin fari því fram á grundvelli VIII. kafla laga nr. 20/1991. Ekkert liggi fyrir í gögnum málsins þessu til staðfestingar. Óhjákvæmilegt sé að fella úr gildi frumvarp til úthlutunar meðan þessi frumforsenda við skiptameðferðina liggi ekki fyrir, enda ekki ljóst hvort opinber skipti dánarbúsins eigi að fara fram á grundvelli VII. eða VIII. kafla laga nr. 20/1991. Leiði þá þegar af þessu að fella verður frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr gildi.

Í þriðja lagi hafi skiptastjóri ekki staðreynt hverjar séu eignir dánarbúsins, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 20/1991. Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 leiði að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi hafi frá 13. nóvember 1966 verið á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Leiði af því að eignarnámsbætur, leigugjöld og aðrar tekjur af jörðinni hefðu með réttu átt að renna til dánarbúsins frá framangreindu tímamarki. Sóknaraðilar hafi ítrekað skorað á skiptastjóra að hlutast til um innheimtu þessara krafna og réttinda. Þrátt fyrir það hafi skiptastjóri í engu sinnt þessari lagaskyldu sinni sem eigi þó að vera meðal fyrstu aðgerða við opinber skipti. Þar sem ákvæði 77. gr. laga nr. 20/1991 geri ráð fyrir að í frumvarpi til úthlutunar komi fram yfirlit eigna dánarbúsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr., liggi fyrir að slíkt frumvarp verði ekki lagt fram í lögmætum búningi fyrr en staðreynt hafi verið hverjar séu eignir búsins. Leiði af framansögðu að óhjákvæmilegt sé að fella frumvarp til úthlutunar úr gildi þar sem þessari frumskyldu skiptastjóra við opinber skipti hafi ekki verið sinnt.

Í fjórða lagi hafi skiptastjóri ekki aflað upplýsinga um mögulegar skuldir dánarbúsins, sbr. 55. gr. laga nr. 20/1991. Þar sem búið hafi verið til opinberra skipta frá 25. febrúar 1967 sé óhjákvæmilegt að á búið hafi verið lögð opinber gjöld, einkum vegna umfangsmikilla og verðmætra eigna búsins, auk þess sem aðrar kröfur kunni að hafa stofnast á hendur því. Í frumvarpi til úthlutunar sé þess getið að engar skuldir séu í búinu. Virðist það einkum byggjast á því að meintar kröfur, sem lýst hafi verið við upphaf skipta, séu að öllum líkindum fallnar niður. Ljóst sé að skiptastjóri hafi í engu sinnt lagaskyldu sinni til að leita vitneskju um skuldbindingar búsins þrátt fyrir mótmæli og ábendingar sóknaraðila þar um, nú síðast á skiptafundi 30. apríl 2014. Meðan upplýsingar um skuldir búsins liggi ekki fyrir verði frumvarp til úthlutunar ekki lagt fram í lögmætum búningi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 20/1991. Verði einnig af þessari ástæðu að fella frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr gildi. 

Í fimmta lagi telji skiptastjóri ranglega ekki þörf á að skipta öllum eignum búsins. Í fundargerð skiptafundar 4. júní 2013, og frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar 15. apríl 2014, komi fram að hlutverk skiptastjóra sé að ráðstafa beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda til að ljúka skiptum. Þannig virðist skiptastjóri ekki telja það skyldu sína að fara að lögum um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991, þ.m.t. með innköllun krafna og eigna búsins, heldur sé hlutverk hans það eitt að úthluta beinum eignarrétti að jörðinni. Komi þetta skýrt fram í frumvarpi skiptastjóra þar sem beinlínis sé fullyrt að eignir búsins komi ekki til skipta, en þar segi að auk beins eignarréttar að jörðinni Vatnsenda séu nú innstæður í vörslu skiptastjóra vegna leigugreiðslna sem fallið hafi til eftir upphaf skipta. Skiptastjóri líti svo á að þær innstæður komi ekki til arfs við skipti á dánarbúinu. Hið sama gildi um hugsanlegar bótakröfur á hendur Kópavogsbæ vegna eignarnáms. Engar frekari skýringar sé að finna á þessu í frumvarpi skiptastjóra. Sóknaraðilum sé því hulið hvers vegna þeir fjármunir dánarbúsins, sem að sögn eiga að vera í vörslu skiptastjóra, eigi ekki að koma til úthlutunar. Hið sama gildi um fjárkröfur sem sóknaraðilar hafi haft uppi í dómsmáli dánarbúinu til hagsbóta, aðallega á hendur Kópavogsbæ, en til vara á hendur varnaraðila Þorsteini. Bresti með öllu lagaskilyrði til að frumvarp til úthlutunar verði samþykkt á þessum forsendum og sé því óhjákvæmilegt að fella það úr gildi.

Í sjötta lagi hafi skiptameðferðin verið andstæð grundvallarreglum skiptaréttar um jafnræði erfingja. Í IX. kafla laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991 sé að finna ákvæði um bústjórn og skiptafundi og ráðstöfun hagsmuna búsins. Megintilgangur lagaákvæðanna sé að tryggja jafnræði erfingja og kröfuhafa, þ.e. aðkomu allra mögulegra rétthafa að ákvarðanatöku um hagsmuni búsins. Þannig skuli skiptastjóri t.d. bera undir skiptafund hvort og hvernig mikilsverðum réttindum verði ráðstafað, sbr. 68. gr. laganna, og hafi erfingjar að jafnaði tillögurétt og málfrelsi á slíkum fundum, sbr. 69. gr. laganna. Á skiptafundi 4. júní 2013 hafi skiptastjóri kosið að leita eftir tillögum erfingja um hvernig eignum búsins yrði ráðstafað. Varnaraðili Kristrún Ólöf hafi lagt fram kröfugerð sína á skiptafundi 5. september 2013 og fyrir liggi kröfugerð varnaraðila Þorsteins, dags. 19. desember 2013. Framangreind skjöl eða efni þeirra hafi þó í engu verið kynnt sóknaraðilum. Sóknaraðilar hafi talið slíkar kröfugerðir ótímabærar, sbr. tillögu þeirra á skiptafundi 5. september 2013. Frávísun ágreiningsmáls um framangreinda tillögu með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 28. febrúar 2014 hafi leitt til þess að skiptastjóra hafi borið að boða til skiptafundar um áframhaldandi skiptameðferð búsins, eða a.m.k. gefa sóknaraðilum kost á að tjá sig um væntanlega úthlutun eigna og eftir atvikum að skila greinargerðum sínum um úthlutun eigna búsins til jafns við varnaraðila, teldi skiptastjóri úthlutun tímabæra. Sóknaraðilum hafi fyrst verið kunnugt um tilvist þessara kröfugerða varnaraðila eftir að skiptastjóri vísaði ágreiningi um frumvarp til úthlutunar til héraðsdóms með bréfi sínu 19. maí 2014. Af kröfugerð varnaraðila Kristrúnar Ólafar megi sjá að greinargerð hennar hafi fylgt 35 fylgiskjöl en þau gögn hafi í engu verið kynnt sóknaraðilum og séu ekki meðal gagna máls þessa. Í ljósi þess að skiptastjóri hafi ekki sinnt þeirri frumskyldu að gæta jafnræðis erfingja um tillögurétt og málfrelsi varðandi væntanlega úthlutun eigna búsins, sbr. 68. og 69. gr. laga nr. 20/1991, hafi jafnræði erfingja verið gróflega raskað. Frumvarp að úthlutunargerð, sem aðeins byggist á tillögum varnaraðila sem ekki einu sinni hafi verið kynntar sóknaraðilum, sé ólögmætt að efni sínu þar sem lögmætrar málsmeðferðar hafi ekki verið gætt við skiptin. Verði einnig af þessari ástæðu að fella frumvarp skiptastjóra að úthlutunargerð úr gildi.

Þá byggja sóknaraðilar aðalkröfu sína á því að boðun skiptafundar 30. apríl 2014 hafi verið andstæð lögum um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 20/1991 skuli boða erfingja, umboðsmenn þeirra eða málsvara til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar með tveggja vikna fyrirvara. Fyrir liggi að Kristján Þór hafi verið boðaður með innan við sólarhrings fyrirvara, eins og rafpóstur 30. apríl 2014 beri með sér. Hafi umrætt skilyrði laganna um boðun skiptafundar því ekki verið uppfyllt. Af því leiði að fella verði frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr gildi. Í skriflegri boðun til lögmanna erfingja 15. apríl 2014 hafi í engu verið tekið fram fyrir hönd hvaða erfingja hverjum lögmanni væri birt fundarboðið. Liggi í hlutarins eðli að skiptastjóra hafi borið að ganga úr skugga um að lögmenn þeir sem fundarboðið var birt fyrir kæmu fram fyrir hönd allra erfingja. Stoði ekki fyrir skiptastjóra að vísa í þeim efnum til 21. gr. laga um lögmenn nr. 77/1998, enda fjalli hún um mætingu á dómþing. Verði skiptafundi í engu jafnað við dómþing í skilningi laganna. Verður enn fremur að horfa til þess að hagsmunagæsla fyrir sóknaraðila Gísla og Elísu geti ekki farið saman við hagsmunagæslu fyrir sóknaraðila Kristján Þór þá er erfðatilkalli hans hafi verið mótmælt, sbr. 11. gr. siðareglna lögmanna. Þess utan verði ekki annað ráðið af rafpósti 30. apríl 2014 en að skiptastjóri hafi talið sérstaka ástæðu til að boða Kristján Þór persónulega til fundarins.

Sóknaraðilar telja að efni frumvarps skiptastjóra til úthlutunar samræmist ekki lögum um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Frumvarpið sé að efni sínu ófullnægjandi og andstætt ótvíræðum ákvæðum 77. gr. laga um skipti á dánarbúum o.fl. nr. 20/1991. Í fyrsta lagi sé þar ekki að finna yfirlit eigna búsins, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 77. gr., og í öðru lagi sé þar heldur ekki að finna yfirlit skulda, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 77. gr. Í þriðja lagi sé tekið fram að nú séu í búinu „innstæður í vörslum skiptastjóra“ en þær innstæður og hugsanlegar bótakröfur á hendur Kópavogsbæ komi ekki til arfs við skipti á dánarbúinu. Afstaða skiptastjóra sé órökstudd og óskiljanleg, enda markmið laga nr. 20/1991 að eignir búsins komi til skipta milli erfingja. Hver afdrif framangreindra eigna dánarbúsins eiga að verða samkvæmt frumvarpinu sé með öllu óljóst. Í fjórða lagi sé ekki að finna í frumvarpi til úthlutunar yfirlit yfir kostnað af skiptunum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 77. gr. laga nr. 20/1991. Sóknaraðilar telja enga þörf á að gera athugasemd við að varnaraðili Þorsteinn greiði kostnað af skiptunum, eins og hann hafi sjálfur óskað eftir í greinargerð sinni til skiptastjóra. Það geti hins vegar engu breytt um lögbundna skyldu skiptastjóra til að setja í frumvarpið yfirlit yfir kostnað af skiptunum. Af þessum alvarlegu efnisannmörkum leiði að fella verði frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr gildi.

Enn fremur byggja sóknaraðilar á því að engin efni séu til annars en leggja lögerfðareglur erfðalaga nr. 8/1962 til grundvallar við skipti dánarbúsins. Beri því að fella frumvarp til úthlutunar úr gildi, enda sé úthlutun arfs andstæð skýrum ákvæðum laga nr. 8/1962 og meginreglum eigna- og erfðaréttar. Ákvæði erfðalaga nr. 8/1962 séu ófrávíkjanleg. Af ákvæðum erfðalaga leiði að ráðstafa skuli eignum arfleifanda eftir andlát hans samkvæmt ákvæðum laganna. Hafi arfleifandi ekki látið eftir sig erfðaskrá beri að skipta eignum arfleifanda eftir I. kafla laganna um lögarf. Engin erfðaskrá liggi fyrir eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested og ber því að skipta eigum hans að honum látnum eftir lögerfðareglum. Leiðir af þessu að fella verður frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr gildi.

Sóknaraðilar telja jafnframt að forsendur arfsúthlutunar samkvæmt frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar séu rangar. Í bréfi skiptastjóra til Héraðsdóms Reykjaness, dags. 19. maí 2014, segi m.a. að forsendur niðurstöðu skiptastjóra um ráðstöfun arfs úr búinu séu þær að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested sé enn í gildi. Erfðaskránni hafi ekki verið hnekkt með dómi og að hún hafi í tvígang verið lögð til grundvallar við ráðstöfun arfs, annars vegar eftir Magnús Einarsson Hjaltested og hins vegar eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested. Sóknaraðilar telja þessar forsendur arfsúthlutunar að flestu leyti rangar. Í fyrsta lagi sé óumdeilt að arfi hafi ekki verið úthlutað úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Í öðru lagi sé óumdeilt að eftir Sigurð Kristján liggi ekki erfðaskrá og beri því samkvæmt lögum að úthluta arfi samkvæmt lögerfðareglum erfðalaga nr. 8/1962.

Þá telja sóknaraðilar að ráðstöfun umráða og afnota jarðar dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsenda í Kópavogi, byggð á þinglýstri kvöð sem ranglega hafi verið þinglýst og sé nú fallin niður, geti aldrei falið í sér arfsúthlutun. Verði þá einnig sérstaklega að líta til þess að málflutningsmaður þess er tók við umráðum og afnotum jarðarinnar, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, hafi sérstaklega tekið fram í greinargerðum sínum, að eignarréttur að jörðinni gengi ekki að arfi til umbjóðanda hans. Allar forsendur sem arfsúthlutun þessi byggist á séu því rangar.

Einnig telja sóknaraðilar að kvaðir á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi fallið niður við andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested 13. nóvember 1966. Erfðaskránni hafi verið þinglýst á jörð dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested að Vatnsenda í Kópavogi sem erfðaskiptayfirlýsingu og kvöð. Af dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 verði ráðið að jörðin hafi ekki verið gerð að óðalsjörð með fyrrnefndri erfðaskrá. Jörðin hafi heldur ekki verið gerð að sjálfseignar­stofnun. Umrædd erfðaskrá sé því aðeins hefðbundin kvöð í skilningi 50.–52. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Samkvæmt 3. mgr. 50. gr. laganna, sbr. 1. mgr. 52. gr., falli kvöð á arfi í síðasta lagi niður við andlát erfingja. Fyrrnefnd kvöð, sem leiddi af erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, hafi því fallið niður við andlát erfingjans, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, hinn 13. nóvember 1966. Óumdeilt sé að fyrrnefnd erfðalög gildi við skipti dánarbús Sigurðar Kristjáns, sbr. 58. gr. laganna. Samkvæmt 60. gr. sömu laga verði erfðagerningur, sem gerður var fyrir gildistöku laganna, að fullnægja efnislegum ákvæðum laganna til að halda gildi sínu eftir gildistöku þeirra. Ekki sé dregið í efa að arfleifanda sé heimilt að binda tilteknar eignir, sem arfleiddar eru með bréfarfi, kvöðum um meðferð og ráðstöfun meðan viðkomandi erfingi er á lífi, sbr. nú 50. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Hins vegar leiði af grundvallarreglum erfða- og eignaréttar að slíkar kvaðir falli niður við andlát viðkomandi erfingja, enda arfleiðsluvilji upphaflega arfleifandans þá að fullu kominn fram. Að öðrum kosti væri hinn upphaflegi arfleifandi í raun að gera erfðaskrá og ráðstafa arfi eftir erfingja sinn og e.t.v. erfingja viðkomandi, koll af kolli, mögulega um alla framtíð. Teldist slíkt heimilt mætti koma eign undan landslögum með ákvæði í erfðaskrá og gera hana undanþegna ófrávíkjanlegum lagareglum um erfða- og skiptameðferð. Svo sé að sjálfsögðu ekki. Sérstök athygli sé vakin á því að bæði Magnúsi Einarssyni Hjaltested og Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested hafi verið gerlegt að láta jörð sína að Vatnsenda erfast með tilteknum hætti um ókomna framtíð með því að gera eignina að óðalsjörð. Það hafi þeir hins vegar kosið að gera ekki, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli nr. 701/2012. Sóknaraðilar hafi þegar krafist þess fyrir héraðsdómi með kæru til héraðsdóms, dags. 7. júlí 2014, að framangreind erfðaskrá verði afmáð af jörðinni sem kvöð, enda sé henni nú ranglega þinglýst á jörðina. Breyti röng þinglýsing erfðaskrárinnar engu um þá staðreynd að kvaðabinding arfs Magnúsar Einarssonar Hjaltested sé fallin niður. Verði erfðaskrá hans því ekki lögð til grundvallar við úthlutun arfs úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Óhjákvæmilegt sé af þessum ástæðum að fella frumvarp skiptastjóra til úthlutunargerðar úr gildi.

Verði einhverra hluta vegna talið að kvaðir samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi ekki fallið niður við andlát Sigurðar Kristjáns byggja sóknaraðilar á því að óheimilt sé að binda skylduarf eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested slíkum kvöðum. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna megi binda arf sem ekki er skylduarfur kvöðum með erfðaskrá. Allur arfur eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested sé hins vegar skylduarfur og því geti hin meinta kvöð ekki átt við um úthlutun arfs eftir Sigurð Kristján Lárusson Hjaltested. Leiði þetta jafnframt til ógildingar frumvarps skiptastjóra til úthlutunar. 

Enn fremur byggja sóknaraðilar á því að brostnar forsendur séu fyrir úthlutun á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Samkvæmt efni erfða­skrárinnar skyldi jörðin ganga að erfðum til elsta sonar með fjölda skilyrða sem hafi gengið út á að óheimilt væri að selja eða veðsetja jörðina og að þar yrði að stunda hefðbundinn búskap sem verið hafði. Fyrir liggi að Kópavogsbær, Reykjavíkurborg o.fl. hafi nú tekið eignar­námi á nítjánda hundrað hektara af jörðinni, þ. á m. nánast allt ræktað land og beitiland hennar, sem nú hafi verið lagt undir þétta íbúðabyggð eða aðra landnotkun. Leiði því af sjálfu sér að jörðin í núverandi mynd verði ekki nýtt með þeim hætti sem gert sé ráð fyrir í erfðaskránni. Verði þá í fyrsta lagi m.a. að horfa til þess að jörðin hafi verið tæplega 2.000 hektarar að jarðnæði þá er Magnús Einarsson Hjaltested gerði erfðaskrá sína 4. janúar 1938, en muni aðeins vera liðlega 70 hektarar í dag. Í öðru lagi liggi fyrir að meintir umráðamenn jarðarinnar hafi með stórfelldum hætti brotið skilyrði 1. gr. erfðaskrárinnar um bann við veðsetningu. Í þriðja lagi verði búskapur sá sem fyrirhugaður var samkvæmt 4. gr. ekki stundaður á jörðinni í dag.  Allar forsendur fyrir mögulegri arfsúthlutun á grundvelli erfðaskrárinnar séu brostnar. Verði af þeim sökum að fella frumvarp skiptastjóra til úthlutunar úr gildi.

Verði einhverra hluta vegna talið að bæði lagaskilyrði og forsendur séu til að leggja erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested til grundvallar skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested byggja sóknaraðilar á því að það leiði af 60. gr. laga nr. 8/1962 að slíkur erfðagerningur verði að uppfylla ákvæði laganna um arfleiðsluheimild og efni erfðagerningsins. Af því leiði að samkvæmt 35. gr. laga nr. 8/1962 sé óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta eigna Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested samkvæmt erfðaskrá. Í framkomnu frumvarpi til úthlutunar segi ranglega að eignarréttur að jörðinni Vatnsenda sé eina eign búsins sem komi til skipta. Sé hins vegar við það miðað sé í öllu falli óheimilt að ráðstafa meira en 1/3 hluta af jörðinni til erfingja á grundvelli erfðaskrár. Í ljósi dóms Hæstaréttar í máli nr. 477/1999 verði að fella frumvarp skiptastjóra úr gildi, enda ekki heimilt að breyta frumvarpinu þannig að eigninni sé úthlutað í óskiptri sameign.

Varakrafa sóknaraðila um breytingu frumvarps og skiptingu eigna samkvæmt lögerfðareglum er byggð á því að í öllu falli sé ljóst að breyta verði frumvarpinu þannig að skipti fari fram eftir lögerfðareglum eins og varakrafa sóknaraðila kveður á um. Varakrafan taki eðli máls samkvæmt aðeins til þeirra eigna dánarbúsins sem skiptastjóri tilgreinir í frumvarpi sínu til úthlutunar.

Þrautavarakrafa sóknaraðila er byggð á því að aldrei sé heimilt að úthluta meira en 1/3 eigna dánarbúsins á grundvelli erfðaskrár, sbr. 35. gr. laga nr. 8/1962. Vísa sóknaraðilar hér um til umfjöllunar um aðalkröfu sóknaraðila.

Um lagarök vísa sóknaraðilar til ákvæða laga nr. 20/1991, einkum 2. mgr. 12. gr., V. kafla, þ.e. 46.-52. gr., VI. kafla, þ.e. 53.-55. gr., VII. og VII. kafla, IX. kafla, þ.e. 67.-71. gr., og X. kafla, þ.e. 72.-77. gr. Enn fremur er vísað til ákvæða XVI. og XVII. kafla laganna, einkum 122. gr. og 130. gr. Þá er vísað til meginreglna skiptaréttar, einkum um jafnræði aðila. Jafnframt er vísað til erfðalaga nr. 8/1962, einkum I. kafla, þ.e. 1. og 2. gr., VI. kafla, þ.e. 34., 35., 36., 50., 51. og 52. gr., og IX. kafla laganna, einkum 58. og 60. gr. Þá er vísað til ákvæða laga um lögmenn nr. 77/1998, einkum 21. gr., og ákvæða siðareglna lögmanna, Codex ethicus, einkum 11. gr.

Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. XVI. og XVII. kafla laga nr. 20/1991. Um virðisaukaskatt er vísað til laga nr. 50/1988.

V.

Skiptastjóri f.h. dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested lagði fram greinargerð í málinu í þinghaldi 1. september 2014. Skiptastjóri tilkynnti dómara með bréfi 15. september 2014 að hann teldi ekki þörf á því að dánarbúið ætti frekari aðkomu að rekstri málsins og vísaði til lokamálsliðar 3. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 3. mgr. 129. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl., hvað varðar kröfur, rök og málsástæður dánarbúsins. Eftir þetta var þing ekki sótt af hálfu dánarbúsins.   

Í greinargerð skiptastjóra er mótmælt málsástæðum sóknaraðila um meint mistök eða misferli skiptastjóra við skiptameðferðina. Skiptastjóri kveður að dánarbúið hafi upphaflega verið tekið til skipta­meðferðar í tíð skiptalaga nr. 3/1878. Ákvarðanir og ráðstafanir skiptaráðanda hafi verið dómsathafnir og sé skiptastjóri nú bundinn af þeim, sbr. lokamálslið 3. mgr. 148. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt sömu málsgrein, og ákvæðum 150. gr. laga nr. 20/1991, gildi ákvæði hinna eldri laga um innköllun þá sem gerð hafi verið af skiptaráðanda að kröfu erfingjanna, og birt fyrsta sinni 3. apríl 1968, m.a. um lengd kröfulýsingarfrests og áhrif vanlýsingar. Um kröfulýsingarfrest og áhrif vanlýsingar hafi gilt ákvæði 2. gr. laga nr. 19/1924, en samkvæmt því hafi kröfulýsingarfrestur í slíkum tilvikum verið fjórir mánuðir. Vanlýsing hafi varðað missi kröfu.

Því er mótmælt að skiptastjóri hafi ekki kannað hverjir væru erfingjar í búinu. Skiptaráðandi hafi kannað á sínum tíma hverjir væru erfingjar Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þeir hafi verið maki hans, Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested, og börn Sigurðar af fyrra og seinna hjónabandi. Eftir að skiptameðferð hófst að nýju hafi verið mætt fyrir þá af þessum erfingjum sem enn eru á lífi og/eða afkomendur þeirra. Engin vísbending hafi verið um að erfingjarnir gætu verið fleiri og hafi ekki verið talin ástæða til innköllunar eftir erfingjum.

Óumdeilt sé að Kristján Þór Finnsson sé sonur Finns Gíslasonar, sonar Margrétar Guðmundsdóttur Hjaltested, og tæki til arfs eftir hana kæmi ekki annað til.  Guðjón Ólafur Jónsson hrl. hafi skráð sig mættan fyrir hönd Kristjáns Þórs sem erfingja í búinu á alla skiptafundi sem haldnir hafi verið, að undanskildum þeim síðasta. Hann hafi mætt fyrir hans hönd bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, í Hæstaréttarmálinu nr. 701/2012. Hann hafi lýst sig mættan fyrir hönd erfingjans Kristjáns Þórs, gert þar kröfur og haldið uppi mótmælum. Sama hafi verið uppi á teningnum í ágreiningsmáli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjaness, mál nr. Q-13/2013.

Á skiptafundi 16. janúar 2012 hafi verið ákveðið að skiptastjóri kannaði stöðu Kristjáns Þórs sem erfingja. Sú könnun hafi ekki gefið annað til kynna en að svo væri, en hann beri m.a. enn föðurnafn sitt sem eftirnafn. Eftir þetta hafi Guðjón Ólafur Jónsson hrl. mætt á alla skiptafundi og fyrirtökur í dómsmálum fyrir hönd þessa erfingja. Engin frekari mótmæli eða athugasemdir hafi komið fram við arfstilkall Kristjáns Þórs fyrr en þremur dögum fyrir boðaðan skiptafund þar sem fjalla hafi átt um frumvarp skiptastjóra að úthlutun úr búinu.

Í kjölfar móttöku þessa bréfs hafi Kristján Þór sjálfur gert gangskör að því að láta kanna hjá innanríkisráðuneytinu hvort einhver gögn væru þar sem styddu það að hann hefði verið ættleiddur. Sú rannsókn hafi borið árangur þegar ættleiðingar­skírteinið sjálft hafi fundist. Það hafi verið gefið út 30. maí 1986 og beri með sér að Kristján Þór hafi verið ættleiddur af Kristjáni Þór Ólafssyni. Sérstakt ákvæði hafi verið í ættleiðingarskjalinu þess efnis að Kristján Þór skyldi halda föðurnafni sínu óbreyttu. Eftir að Kristján Þór hafi aflað ættleiðingarskjalsins, sem fyrir liggi í málinu, og eftir að hann hafi þegið leiðsögn skiptastjóra, hafi hann dregið arfstilkall sitt til baka. Eftir þetta hafi engin áhöld verið uppi um það hverjir telji til arfs úr búinu.

Einnig er því mótmælt að skiptastjóri hafi ekki leitað eftir afstöðu erfingja til þess hvort þeir ábyrgðust skuldbindingar búsins. Skiptaráðandi hafi birt innköllun til skuldheimtumanna hinn 3. apríl 1968. Síðasta birting hennar hafi verið 20. apríl 1968.  Kröfulýsingarfrestur hafi því runnið út 20. ágúst sama ár. Skrá yfir lýstar kröfur liggi frammi í málinu. Einungis tvær kröfur séu tilgreindar í skránni með fjárhæðum. Önnur frá bæjarfógetanum í Kópavogi, að fjárhæð 330,31 kr., og hin frá Mjólkurfélagi Reykjavíkur, 35,76 kr. Báðar þessar kröfur í búið hafi verið afturkallaðar. Engar samþykktar kröfur skuldheimtumanna í búið séu því til staðar. Engir skattar eða gjöld hafi verið lögð á búið og eini kostnaðurinn sem fallið hafi til sé skiptakostnaður. Í frumvarpinu sé lagt til grundvallar að sá erfingi sem einn tekur arf úr búinu greiði skiptakostnaðinn. Sá hinn sami hafi lýst því yfir að hann ábyrgist skiptakostnaðinn.

Á skiptafundi 9. febrúar 2012 hafi fulltrúar erfingja allir lýst því yfir sem einn að ekki væri ástæða til að birta að nýju innköllun krafna í búið. Þessa yfirlýsingu hafi þeir staðfest með undirritun sinni á fundargerð fundarins. Þegar þessi yfirlýsing hafi verið gefin hafi gögnin úr dánarbúi Unnsteins Beck skiptaráðanda ekki komið fram og aðilum því ókunnugt um að framangreind innköllun hefði verið birt árið 1968.  Yfirlýsing erfingjanna um að ekki væri þörf innköllunar krafna hafi því óhjákvæmilega falið í sér að skiptameðferðin færi eftir ákvæðum VIII. kafla laga nr. 20/1991. Þannig hafi hún verið skilin af skiptastjóra og hafi skiptameðferðin verið í þeim farvegi síðan án nokkurra athugasemda af hálfu erfingja.

Jafnframt er þeirri fullyrðingu sóknaraðila mótmælt að skiptastjóri hafi ekki kannað hverjar eignir tilheyri búinu. Með úrskurði skiptaréttar 24. júlí 1967 hafi Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested verið fengin umráð og afnot jarðarinnar Vatnsenda í Kópavogi. Sá úrskurður hafi verið staðfestur í Hæstarétti. Umráða- og afnotaréttinum hafi fylgt allur réttur til að heimta lóðaleigu, veiðileyfagjöld og aðrar tekjur sem jörðin hafi gefið af sér. Þessum óbeinu eignarréttindum hafi því verið með endanlegum hætti ráðstafað úr dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og þau séu því ekki enn á hendi búsins og búið eigi af augljósum ástæðum ekki rétt á að heimta þessar tekjur til sín. Hæstiréttur hafi hins vegar komist að þeirri niðurstöðu í dómi sínum í máli nr. 701/2012 að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri enn á hendi dánarbús Sigurðar Hjaltested. Í forsendum dómsins hafi komið fram að þessum réttindum yrði að ráðstafa til að unnt væri að ljúka skiptum á búinu. Aðrar þær eignir búsins sem hafi verið skrifaðar upp af skiptaráðanda á sínum tíma séu löngu farnar forgörðum og geti af þeim ástæðum ekki komið til skipta nú.

Þá er því hafnað að skiptastjóri hafi vanrækt skyldu sína til að afla upplýsinga um skuldir búsins, meðal annars með innköllun krafna. Hafa beri í huga að dómur Hæstaréttar í máli nr. 375/2011 hafi ekki falið í sér að búið væri tekið til nýrrar skiptameðferðar heldur það eitt að skiptameðferðinni sem hófst eftir andlát Sigurðar væri ekki lokið og að skipa þyrfti skiptastjóra til að ljúka skiptunum. Allar athafnir, ákvarðanir og ráðstafanir sem skiptaráðandi gerði á meðan hann hafði meðferð búsins með höndum standi óhaggaðar. Það séu engin skilyrði að lögum til að gefa út nýja innköllun til skuldheimtumanna búsins. Engum kröfum hafi verið lýst í búið síðan kröfulýsingarfrestur rann út. Þar sem lýstar kröfur hafi verið felldar niður af kröfuhöfum séu skuldir búsins því engar.

Enn fremur er því hafnað að skiptameðferðin hafi verið andstæð grundvallarreglum skiptaréttar um jafnræði erfingja. Þetta eigi ekki við nokkur rök að styðjast. Allir skiptafundir hafi verið opnir öllum erfingjum og fulltrúum þeirra. Þar hafi ríkt fullt málfrelsi og tekið hafi verið við öllum tillögum og erindum frá aðilum. Á skiptafundi 4. júní 2013 hafi verið ákveðið að halda skiptafund 30. ágúst sama ár þar sem fulltrúar allra erfingja myndu leggja fram rökstudda kröfugerð þeirra um ráðstöfun arfs úr búinu með greinargerðum og gögnum. Þegar komið hafi að þeim fundi hafi Valgeir Kristinsson hrl. boðað forföll. Sigurbjörn Þorbergsson hrl. hafi hins vegar mætt til fundarins og afhent greinargerð og gögn af hálfu umbjóðenda sinna. Komi fram í fundargerð að skiptastjóri hafi tekið við þessum gögnum í lokuðu umslagi sem yrði ekki opnað fyrr en á boðuðum skiptafundi 5. september sama ár. Á fundinum 5. september hafi þessi greinargerð og gögn legið frammi fyrir fundarmenn til að kynna sér. Á fundinum 5. september hafi lögmennirnir Valgeir Kristinsson, Sigmundur Hannesson og Guðjón Ólafur Jónsson tilkynnt að þeir myndu ekki skila slíkum greinargerðum. Þess í stað hafi þeir lagt fram tillögu sem hafi falið í sér að skiptastjóri myndi fresta því ótímabundið að taka afstöðu til þess hverjir ættu arfstilkall í búið og í hvaða hlutföllum. Engu hafi því verið raskað í jafnræði aðila og allir átt jafn greiðan aðgang að gögnum og upplýsingum.

Enn fremur er því mótmælt að boðun skiptafundar hafi verið andstæð lögum  og því að það geti verið grundvöllur ógildingar frumvarpsins. Lögmönnum allra erfingja hafi verið send boðun með tölvupósti og síðan með bréfi afhentu af stefnuvotti, allt með löglegum fyrirvara.  Hinn 27. apríl 2014, eða þremur dögum fyrir boðaðan skiptafund, hafi Guðjón Ólafur Jónsson hrl. með bréf til skiptastjóra tilkynnt að hann gætti ekki lengur hagsmuna Kristjáns Þórs Finnssonar við skiptin. Í kjölfarið hafi skiptastjóri sent skeyti til Kristjáns Þórs þar sem hann hafi verið upplýstur um stöðuna. Hann hafi fengið í hendur frumvarpið að úthlutunargerð og boðun á fundinn.  Hann hafi boðað forföll á fundinn en tilkynnt um leið að hann mótmælti efni frumvarpsins. Hann hafi ekki gert athugasemdir við boðunina en óskað eftir fresti til að kanna stöðu sína vegna hugsanlegrar ættleiðingar áður en ágreiningur um arfstilkall hans yrði sendur héraðsdómi. Hann hafi síðan fallið frá arfstilkalli sínu.

Skiptastjóri lítur svo á að Kristján Þór Finnsson hafi verið boðaður til fundarins með lögmætum hætti með birtingu boðunar fyrir Guðjóni Ólafi Jónssyni hrl.  Guðjón Ólafur hafi eins og fyrr er rakið mætt fyrir hönd Kristjáns Þórs á öllum skiptafundum, lagt fram tillögur í hans nafni og gert kröfur. Hann hafi mætt fyrir hann á dómþingum í héraði og í Hæstarétti. Skiptastjóra hafi því verið rétt að líta á hann sem fulltrúa Kristjáns Þórs með stöðuumboð, sbr. 21. gr. lögmannalaga nr. 77/1998. Samkvæmt 6. mgr. þeirrar greinar hvíli sú skylda á lögmanni að tryggja að umbjóðandi hans verði ekki fyrir réttarspjöllum ef hann ákveður að segja sig frá verkinu. Það hafi því hvílt sú skylda á Guðjóni Ólafi að tryggja það að Kristján Þór yrði ekki fyrir réttarspjöllum þótt hann hefði ákveðið að segja sig frá verkinu. Honum hafi því borið að sjá til þess að hagsmunir Kristjáns Þórs og réttindi yrðu ekki fyrir borð borin á fundinum.

Jafnframt segir skiptastjóri að Guðjón Ólafur Jónsson hrl. gæti ekki lengur hagsmuna Kristjáns Þórs við skipti á dánarbúi Sigurðar Hjaltested og hann hafi því ekki umboð til að mótmæla fyrir hans hönd boðun á skiptafundinn. Sjálfur hafi Kristján Þór engar athugasemdir gert og nú liggi fyrir að hann sé ekki lengur erfingi í búinu. Allir erfingjar í búinu hafi því fengið lögmæta boðun og fyrir þá verið mætt á skiptafundinn þar sem fjallað var um frumvarpið.

Hvað varðar skiptakostnað bendir skiptastjóri á að í frumvarpi skiptastjóra komi fram að skiptakostnaður nemi nú um tveimur og hálfri milljón króna. Ekki sjái fyrir endann á skiptunum og því ekki unnt að gefa upp nákvæmari tölu. Í frumvarpinu sé byggt á því að erfinginn, Þorsteinn Hjaltested, greiði allan skiptakostnaðinn. Fyrir liggi yfirlýsing hans um að hann ábyrgist greiðslu alls skiptakostnaðar. Enginn annar kostnaður hafi fallið til við skiptameðferðina. Fullnægjandi upplýsingar um skiptafundinn hafi því legið fyrir við framlagningu frumvarpsins.

Skiptastjóri gerir fyrir hönd búsins kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi sóknaraðila. Byggist málskostnaðarkrafan á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Skiptastjóri sé ekki aðili máls þessa heldur dánarbú Sigurðar Hjaltested. Samkvæmt 48. gr. skiptalaga teljist skiptastjóri opinber sýslunarmaður í störfum sínum. Um hugsanlega bótaábyrgð hans gildi sérstök ákvæði greinarinnar.  Skiptastjóri sé heldur ekki umboðsmaður varnaraðila í þeim skilningi og því verði málskostnaðarkrafa ekki gerð á hendur honum persónulega í máli sem dánarbúið er aðili að.

Um lagarök er vísað til ákvæða skiptalaga nr. 20/1991. Krafan um máls­kostnað styðst við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr.,  laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála, sbr. 2. mgr. 131. gr. skiptalaga nr. 20/1991.

VI .

                Varnaraðilar, Kristrún Ólöf Jónsdóttir, Þorsteinn Hjaltested, Vilborg Björk Hjaltested, Marteinn Þ. Hjaltested og Sigurður Kristján Hjaltested, byggja á því að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi í upphafi hinna opinberu skipta gert erfðatilkall til Vatnsenda á grundvelli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested og um það tilkall sé bókað í úrskurði Sigurgeirs Jónssonar, bæjarfógeta í Kópavogi, frá 25. febrúar 1967. Setuskiptaráðandi hafi þingfest sérstakt skiptaréttarmál um gildi erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested og bókað um það í gerðabók sína 10. maí 1967 svo:  „Ágreiningur er um það hver sé réttur ekkjunnar í sambandi við erfðagerninginn á rskj. nr. 3, og verður flutt sérstakt mál út af þeim ágreiningi. Frest til greinargerðar fékk umboðsmaður ekkjunnar til …“

Á því er byggt að kröfugerðir beggja málsaðila hafi tekið mið af því að ekki hafi verið deilt um afhendingu jarðarinnar Vatnsenda heldur einungis um gildi erfðaskrárinnar og ef hún teldist gild, þá hvort ekkja Sigurðar ætti þá rétt til áframhaldandi ábúðar á jörðinni eftir ábúðarlögum. Í þessu samhengi nefna varnaraðilar að greinargerðir lögmanns Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested hafi verið lagðar fram í þessu tiltekna ágreiningsmáli, sem hafi ekki lotið að úthlutun arfs úr dánarbúinu, heldur að gildi erfðaskrárinnar og umkröfðum rétti ekkjunnar til áframhaldandi ábúðar.

Varnaraðilar byggja á því að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 hafi erfðaskráin verið dæmd gild og að fallist hafi verið á kröfur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested þess efnis að hann einn ætti tilkall til Vatnsenda samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938. Í sama dómi Hæstaréttar hafi kröfum Margrétar S. Hjaltested og barna hennar, þess efnis að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested yrði dæmd ógild að hluta og að Vatnsenda yrði skipt eftir lögerfðareglum, verið hafnað. Sömuleiðis hafi því verið hafnað að henni væri áskilinn ábúðarréttur á jörðinni. Varnaraðilar telja að í kröfum sóknaraðila nú felist efnislega sama krafa um ógildi erfðaskrárinnar að hluta og að Vatnsenda verði skipt eftir lögerfðareglum og Margrét hafði uppi vegna sín og ólögráða barna sinna. Varnaraðilar telja að ekki verði dæmt um þessar kröfur aftur fyrir héraðsdómi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varnaraðilar telja að engu breyti þótt sóknaraðilar orði þessar kröfur með öðrum hætti nú, þar sem í raun og veru sé um sömu efniskröfur að ræða og hafðar hafi verið uppi í máli nr. 110/1967.

Hvað varðar sóknaraðilana Markús Ívar og Sigríði þá komi fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 að þau telji erfðaskrána gilda í öllum greinum. Verði að telja þær yfirlýsingar bindandi fyrir þau. Þá hafi þau verið aðilar að máli nr. 99/1968 og gert þær kröfur að útlagningargerðin frá 7. maí 1968 yrði staðfest.

Varnaraðilar byggja á því að með ákvörðun skiptaráðanda 7. maí 1968 hafi Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested verið úthlutað umráðum og afnotum fasteignarinnar Vatnsenda í Kópavogskaupstað, með því sem henni fylgir og fylgja ber, samkvæmt þeim réttindum sem honum sem erfingja séu áskilin í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltesteds, dags. 4 janúar 1938. Skiptaráðandi hafi gert fyrirvara um að Magnúsi bæri að hlíta rétti þeirra sem hefðu lögmætar heimildir til afnota eða annarra réttinda á jörðinni eða hluta hennar.

Varnaraðilar telja aðdraganda úthlutunargerðarinnar sýna að skiptaráðandi hafi með fyrirvara sínum átt við handhafa þeirra tæplega 500 lóðarleigusamninga sem einungis hafi að litlu leyti verið þinglýst, en Margrét hafi þá einungis afhent skiptaráðanda lista yfir þessar lóðir en ekki samningana sjálfa. Varnaraðilar styðja þessa ályktun m.a. við bókanir í þinghöldum skiptaréttar um afhendingu leigusamninga 24. maí 1967, 23. apríl 1968, 26. apríl 1968, 4. maí 1968, 30. ágúst 1968, 2. september 1968 og 6. febrúar 1969. Á þeim áratugum sem liðnir séu frá úthlutunargerðinni hafi enginn gefið sig fram sem taldi sig eiga geymdan rétt samkvæmt ákvörðun skiptaráðanda aðrir en handhafar lóðarleigusamninga. Tíminn hafi þannig leitt í ljós að skilningur varnaraðila á þessum orðum úthlutunargerðarinnar sé réttur.

Varnaraðilar byggja á því að sá efnisréttur sem Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested hafi verið úthlutað 7. maí 1968 hafi innifalið veigamestu efnisaðildir eignarréttar sem erfingja hafi verið ætlað að fá samkvæmt fyrirmælum arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Varnaraðilar hafi allt frá árinu 2007 byggt á því að fyrir erfðir hafi Sigurður fengið bein eignaumráð í lifanda lífi yfir Vatnsenda.  Jafnframt að eftir andlát hans þá hafi Magnús Sigurðsson Hjaltested átt réttmætt kall til að fá úthlutað beinum eignarrétti yfir Vatnsenda í lifanda lífi. Það hafi verið ætlun arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested. 

Þá er á því byggt að varnaraðilinn Þorsteinn sé næstur í erfðaröðinni á eftir föður sínum og að samkvæmt fyrirmælum arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested beri að úthluta honum beinum eignaumráðum í lifanda lífi, sem erfist svo áfram í samræmi við vilja arflátans til næsta erfingja. Varnaraðilar telja þennan vilja arflátans birtast með skýrum hætti í erfðaskrá hans.

Varnaraðilar telja að með beinum eignarrétti sé átt við réttindi sem umráðamaður nýtur án milligöngu annars manns. Vísa varnaraðilar í þessu sambandi til skilgreiningar Ólafs Lárussonar í ritinu Eignaréttur, bls. 14. Eignarréttur sem erfist samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested sé ekki óbeinn að mati varnaraðila, heldur takmarkaður og háður skilyrðum, þ.e. bundinn kvöðum samkvæmt fyrirmælum arflátans. Réttindanna njóti erfinginn sjálfstætt í lifanda lífi en þurfi að haga eignaumráðum sínum innan ramma kvaðanna. Geri hann það ekki geti sá sem næstur er í erfðaröðinni gert tilkall til Vatnsenda. Réttur þess aðila sem vill gera slíkt tilkall sé einnig sjálfstæður réttur sem viðkomanda sé fenginn með erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Af þessu leiði að samkvæmt skilningi varnaraðila séu eignaumráðin bein, en vegna kvaðar um erfðaröð einungis í lifanda lífi.  Varnaraðilar vísa til dóms Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1979:531 sem fordæmis um gildi erfðaskrár þar sem erfðaröð er ákveðin fram í tímann. Talið hafi verið að bréferfingi, þegar svo stendur á, hefði eignaumráð í lifanda lífi, en að dánarbúi erfingjans bæri að skila þeim sem næstir tækju arf eigninni.

Varnaraðilar byggja á því að með því að Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested þinglýsti erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested sem eignarheimild sinni hinn 9. janúar 1941, hafi hann lýst því yfir að hann tæki við arfinum með þeim kvöðum sem á honum hvíldu. Þ.e. að hann teldi sig bundinn af þeim, þ. á m. um kvöðina um að eignaráðin væru aðeins í lifanda lífi, og að sú eignaraðild að geta ráðstafað jörðinni með arfleiðslu væri undanskilin eignarréttinum. Um þýðingu vitneskju erfingja vegna kvaðar samkvæmt erfðaröð vísa varnaraðilar til dóms Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1979, bls. 531.  Sigurður fékk þannig í arf engin þau réttindi til Vatnsenda sem honum einum voru ætluð til hagsbóta umfram aðra erfingja. Á Sigurð hafi aftur á móti verið lagðar tvær kvaðir umfram aðra erfingja og hann gengist við þeim báðum. Í fyrsta lagi að una ábúð og yfirráðum föður síns á jörðinni meðan hann lifði og í öðru lagi að þinglýsa erfðaskránni sem ævarandi kvöð á jörðina.

Varnaraðilar byggja á því að fyrirmæli erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested um erfðaröð gangi framar lögerfðareglum, enda hafi Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested ekki verið skylduerfingi Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Magnúsi hafi því verið frjálst að binda eign sína kvöð um áframhaldandi erfðaröð, sbr. nú 52. gr. laga nr. 8/1962, kvaðarbindingu gagnvart komandi kynslóðum.  Varnaraðilar vísa til dóms Hæstaréttar í dómasafni réttarins 1979, bls. 531, sem fordæmis um þýðingu kvaðar í erfðaskrá um erfðaröð gagnvart lögerfðareglum. 

Varnaraðilar halda því fram að Þorsteinn Hjaltested sé réttur erfingi að þeim beina eignarrétti sem dánarbú Sigurðar Kristjáns Sigurðssonar Hjaltested telst enn hafa á hendi. Efnisaðildir eignarréttar, sem hafi verið úthlutað 7. maí 1969, komi ekki til úthlutunar aftur úr dánarbúinu og séu ekki hluti þess arfs sem kemur til úthlutunar nú. Varnaraðilar telja skýran vilja arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested standa til þess að Þorsteinn sem erfingi fái einn arfinn allan, sbr. 3. gr. erfðaskrárinnar. Þorsteinn geri sér grein fyrir að þessi réttur sé kvaðabundinn samkvæmt fyrirmælum erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested.

Varnaraðilar telja að skilyrði fyrir úthlutun beins eignarréttar til Þorsteins séu fyrir hendi í dag. Vatnsendi sé lögbýli, sbr. fyrirliggjandi lögbýlisvottorð Þjóðskrár Íslands, dags. 25. ágúst 2014, og þar hafi verið stundaður búskapur óslitið frá viðtöku Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested á jörðinni 22. júlí 1969. Ekkert tálmi því að erfinginn búi á jörðinni í samræmi við vilja arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested. 

Varnaraðilar benda á að land til eiginlegra landbúnaðarnota sé það sama í dag og þegar Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi tekið við jörðinni 1969 og vísa þeir í því sambandi sérstaklega til greinargerðar Margrétar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967, og til bréfs hennar til skiptaráðanda, dags. 4. júní 1968. Þar komi fram að til landbúnaðarnota hjá henni og Sigurði hafi verið nýtt 3 ha tún og afréttarland. Annað land hafi verið leigt út undir sumarbústaði, alls um 500 lóðir sem umkringdu „túnkrikann“, eins og Margrét komist að orði í greinargerð sinni til skiptaréttar.

Varnaraðilar byggja á því að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi verið lögð til grundvallar við skipti á dánarbúi Magnúsar sjálfs og hafi verið forsenda arftöku Sigurðar. Þá byggja varnaraðilar á því að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested hafi verið lögð til grundvallar fjárskiptum á milli Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og fyrri konu hans, Sigurlaugar Árnadóttur. Hjúskapur þeirra hafi varað í 16 ár og þau átt saman þrjú börn. Í hlut Sigurlaugar við fjárskiptin hafi komið fjórar kýr fullorðnar, 20 ær og innbú. Í hlut Sigurðar hafi komið aðrar eignir, þar á meðal Vatnsendi, annar bústofn og lausafé. Vegna kvaðarbindingar erfðaskrárinnar hafi hjúskaparréttur Sigurlaugar ekki náð til jarðarinnar.

Erfðaskráin hafi einnig verið lögð til grundvallar við meðferð skiptaréttarins á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, og Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested einum erfingja þess dánarbús verið lagt út og afhent umráð og afnot Vatnsenda, með því sem fylgir og fylgja ber samkvæmt þeim réttindum sem honum sem erfingja hafi verið áskilin í þeirri erfðaskrá. Þessi umráð Magnúsar hafi staðið óhögguð allt frá viðtöku jarðarinnar til dánardags. 

Erfðaskráin hafi einnig verið lögð til grundvallar eftir andlát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sem lést 21. desember 1999, og hafi engar kröfur komið fram gegn erfingjum hans, hvorki á grundvelli 47. gr. laga nr. 8/1962, né á öðrum grunni í kjölfar andláts hans.

Jafnframt er á því byggt að Þorsteinn hafi frá því að hann man eftir sér verið alinn upp við það að hann tæki við Vatnsendalandi í samræmi við fyrirmæli erfðaskrárinnar. Hann hafi því lögvarðar og réttmætar væntingar til arfsins. 

Varnaraðilar byggja á því að leggja verði vilja arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested til grundvallar við úrlausn máls þessa. Varnaraðilar telja að meginforsenda arflátans og kjarninn í arfleiðsluvilja hans séu fyrirmælin um erfðaröðina. Í eftirmála Lárusar Hjaltested með dagbókum frænda síns, sem hann skrifaði á páskum 1956, komi fram að arflátann „langaði til þess að ættmenn hans byggju þar eftir sinn dag. Vatnsendi væri framtíðarjörð vegna legu sinnar“. Af þessum orðum Lárusar megi ráða að arfláti vildi að ættmenn hans byggju á jörðinni og skrif Lárusar styðji þá málsástæðu varnaraðila að erfðaröðin og staðgöngureglur erfðaskrárinnar feli í sér meginforsendu arflátans fyrir gerð erfðaskrárinnar. Þessi forsenda komi einnig fram í því að stofnun styrktarsjóðs Magnúsar Einarssonar Hjaltested komi því aðeins til greina að afkvæmi í karllegg Lárusar deyi út. Synir Lárusar séu allir nafngreindir í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested, þeir Sigurður, Georg Pétur og Jón Einar. Í legg Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, elsta sonar Sigurðar, séu sjö rétthafar til Vatnsendalands á lífi að Þorsteini meðtöldum.

Varnaraðilar telja að sóknaraðilar beri sönnunarbyrði fyrir því að Magnús Einarsson Hjaltested hefði hagað ráðstöfun arfs eftir sig með öðrum hætti ef hann hefði vitað af þeim skerðingum sem orðið hafa á jörðinni. Sóknaraðilar hafi ekki fært fram sönnur fyrir því. Þvert á móti liggi fyrir nokkur vitneskja um hugmyndir Magnúsar Einarssonar Hjaltested um framtíðarjörðina Vatnsenda. Varnaraðilar vísa til þess að þegar árið 1934 hafi arfláti talið raunhæft að miða verðmat á landi jarðarinnar við framtíðarbyggingalóðir, sbr. dagbókarfærslu hans sem lögð hefur verið fram í málinu. 

Þá vísa varnaraðilar til þess að í erfðaskrá sinni kveður Magnús Einarsson Hjaltested á um heimild til handa erfingjum sínum í 1. gr. c, að selja á leigu lóðir undir hús, leikvelli og annað úr óræktuðu landi jarðarinnar. Magnús hafi verið að horfa fram í tímann og séð fyrir sér íbúðarhús, með leiksvæðum og öðru, eða með öðrum orðum byggð á Vatnsenda.

Einnig vísa varnaraðilar til þess að Magnús Einarsson Hjaltested hafi gert ráð fyrir því að land jarðarinnar gæti spillst og orðið fyrir skerðingum og kveðið sérstaklega á um það í erfðaskrá sinni hvernig með skyldi fara, sbr. 2. mgr. 2. gr. erfðaskrárinnar.

Að lokum vísa varnaraðilar í þessu sambandi til þess að Lárus Hjaltested hafi greint frá því í eftirmála sínum að Magnús hafi rekið búskap sinn á Vatnsenda alla tíð með tapi og að afrakstur úrsmíðanna hafi að mestu farið í að kosta rekstur búskapar hans. Varnaraðilar telja útilokað að það hafi verið forsenda og vilji arflátans að ættmenni hans í legg Lárusar strituðu baki brotnu í taprekstri að viðlögðum réttindamissi. Arflátinn hafi fært í dagbók sína árið 1932 að búskapur á jörðinni væri dauðadæmdur eftir að Elliðavatnsengin voru tekin undir uppistöðulón.

Enn fremur byggja varnaraðilar á því að einungis rétthafar að Vatnsenda hafi aðild og lögvarða hagsmuni af kröfugerð er lýtur að meintum brotum eins rétthafa gegn erfðaskránni. Kröfur þar að lútandi leiði ekki til brostinna forsendna fyrir gildi erfðaskrárinnar, heldur réttindamissis hins brotlega erfingja að kröfu næsta viðtakanda. Erfðaskráin hafi verið dæmd gild með dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 og eigi sóknaraðilar enga málsaðild að kröfum sem reistar eru á ætluðum brotum gegn fyrirmælum erfðaskrárinnar. Erfðaskráin geri ráð fyrir því að brotið kunni að vera gegn fyrirmælum hennar og hafi hún að geyma sérstök úrræði við slíkri aðstöðu. Varnaraðilar telja þessi fyrirmæli hafa að geyma skýran vilja arflátans sem beri að virða.

Varnaraðilar vísa til forsendna dóms héraðsdóms Reykjaness í máli nr. 560/2007, sem Hæstiréttur hafi staðfest með vísan til forsendna, þar sem segi í héraðsdóminum: „Enginn ágreiningur er um það í málinu að jörðin Vatnsendi hafi réttilega komið í hlut Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested við skipti á dánarbúi föður hans, svo sem staðfest hefur verið af dómstólum. Hafi hann á eignarhaldstíma sínum brotið gegn þeim skilmálum sem hann var bundinn af samkvæmt framansögðu gat með réttu komið til kröfugerðar og eftir atvikum málsóknar af þeim sökum á hendur honum í almennu einkamáli af hálfu erfingja sem þá gat talið til réttar yfir jörðinni samkvæmt staðgönguákvæðum erfðaskrárinnar. Slík málsókn hefði þá tekið mið af því að erfðaskráin héldi gildi sínu. Aðrir, þar á meðal stefnendur í ljósi framanritaðs, gátu þar ekki haft lögvarinna hagsmuna að gæta, enda er skýrlega kveðið á um það í erfðaskránni hvaða áhrif það hefur ef brotið er gegn umræddum skilmálum.“

Verði ekki fallist á framangreinda röksemdafærslu varnaraðila er á því byggt að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi unnið kvaðarbundna eignarhefð á jörðinni Vatnsenda. Áratugum saman hafi engar athugasemdir verið hafðar uppi gegn eignarhaldi Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Magnús hafi innheimt lóðaleigu og sagt upp leigusamningum. Magnús hafi mætt á veiðifélagsfundi, greitt þar atkvæði og tekið við arðgreiðslum. Magnús hafi varið jörðina fyrir ágangi opinberra aðila og þurft ítrekað að þola eignarnám vegna aðgerða opinberra aðila. Allt hafi þetta gerst fyrir opnum tjöldum og margsinnis verið opinber umræða um þessi tilvik.

Samerfingjar Magnúsar að dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi engum andmælum hreyft við eignarumráðum hans eða einstökum ráðstöfunum Magnúsar áratugum saman. Í ljós hafi komið árið 2008 að hluti sóknaraðila þessa máls hafi aflað sér lögfræðiálits árið 1990 þar sem þeim hafi verið bent á tvenns konar réttarfarsúrræði vildu þeir hafa uppi kröfur gegn Magnúsi, en þeir hafi ekkert aðhafst.

Magnús hafi einn nýtt jörðina Vatnsenda og rétt hennar til afréttar frá því að hann veitti jörðinni viðtöku og ævina á enda. Jörðin hafi komist í hans umráð með ákvörðun skiptaráðanda og honum afhent jörðin 22. júlí 1969 úr hendi bæði fógeta og skiptaráðanda. Hann hafi tálmað öðrum óheimil afnot hennar og varið eignarrétt sinn bæði í orði og verki. Hann hafi gætt hagsmuna jarðarinnar fyrir dómstólum og hafi enginn annar sýnt því minnsta áhuga eða vilja. Magnús hafi einn greitt eignaskatt og álögð fasteignagjöld af jörðinni frá viðtöku hennar og til dánardags. Síðasta framtal dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested hafi verið áætlunarframtal vegna ársins 1971 og hafi Vatnsendi ekki verið talinn með eignum dánarbúsins.

Magnús hafi staðið skil á fjallskilum vegna jarðarinnar, hann hafi girt jörðina eftir því sem þurfti og haldið við girðingum hennar og merkjum. Hann hafi nýtt námuréttindi jarðarinnar, leigt þann rétt út og tálmað öðrum afnot þeirra. Magnús hafi  nýtt veiði í Elliðavatni og veit þar í net auk þess sem hann hafi gætt hagsmuna jarðarinnar gagnvart veiðifélagi Elliðavatns. Hann hafi einnig tálmað öðrum óheimila veiði í vatninu fyrir landi Vatnsenda. Þegar Magnús andaðist 21. desember 1999 hafði hann farið athugasemdalaust af hálfu dánarbúsins eða samerfingja með óslitið eignarhald og ótakmörkuð eignarumráð í um 30 ár. En honum hafi verið fullljósar þær kvaðir sem eignarumráð hans voru bundin. Í greinargerð varnaraðila eru rakin ýmis skjöl til stuðnings þessari málsástæðu varnaraðila, s.s. um aðild Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested sem eiganda Vatnsenda í svokölluðu Bláfjallamáli, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 256/1995. Það mál hafi verið rekið sem eignardómsmál og eignardómsstefna birt í Lögbirtingablaði, en enginn hafi stefnt sér inn í málið í því skyni að hafa athugasemdir uppi við aðild Magnúsar að því dómsmáli sem eiganda Vatnsenda.

Í ljósi óslitins eignarhalds Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, allt frá því að hann veitti jörðinni viðtöku úr hendi skiptaráðanda og fógeta, hafi hann fyrir löngu unnið fulla eignarhefð á beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi þegar hann lést 21. desember 1999.  Er því byggt á því til vara að viðurkennt verði að við úthlutun verði lagt til grundvallar að Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi fyrir hefð unnið þann beina eignarrétt að jörðinni Vatnsenda sem ekki hafi verið úthlutað, enda sé öllum skilyrðum laga nr. 46/1905 fullnægt.

Vatnsendi sé fasteign og skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um 20 ára óslitið eignarhald Magnúsar á fasteigninni fullnægt. Magnús hafi fengið fasteignina afhenta með ákvörðun skiptaráðanda 7. maí 1968 og umráð hennar 22. júlí 1969 og hvorki 2. og 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 eigi við um vörslur hans. Magnús hafi aldrei misst umráð fasteignarinnar og ákvæði 4. gr. laga nr. 46/1905 eigi ekki við. Af 6. gr. laga nr. 46/1905 leiði að fullnuð hefð skapi eignarrétt yfir þeim hlut sem í eignarhaldi var og þurfi hefðandi ekki að styðjast við aðra eignarheimild.

Mótmælt er öllu því sem fram kemur í greinargerðum sóknaraðila um málavexti og málsástæður sem fara í bága við málatilbúnað varnaraðila. Varnaraðilar taka sérstaklega fram að kæra sóknaraðila til héraðsdóms í þinglýsingarmáli, dags. 7. júlí 2014, hafi ekki sönnunargildi í máli, enda sé málsaðila einungis heimilt að leggja fram eina greinargerð af sinni hálfu, sbr. 99. og 102. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 130. gr. laga nr. 20/1991.

Þá er því sérstaklega mótmælt sem fram kemur í greinargerðum sóknaraðila um að við andlát Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested falli umráð og afnot jarðarinnar Vatnsenda aftur til dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Sigurður hafi sótt eignaumráð sín á Vatnsenda til erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Samkvæmt fyrirmælum 3. gr. erfðaskrárinnar hafi eignaumráð Sigurðar yfir jörðinni Vatnsenda verið bundin þeim kvöðum að við andlát hans gengi jörðin að erfðum til elsta sonar hans og hans niðja í beinan karllegg. Magnús Sigurðsson Hjaltested hafi ekki sótt tilkall sitt til Vatnsenda á grundvelli erfða eftir föður sinn Sigurð, heldur til sama heimildarskjals og Sigurður, þ.e. til erfðaskrár Magnúsar Einarssonar Hjaltested.

Með útlagningargerð skiptaráðanda 7. maí 1968, sem staðfest hafi verið af Hæstarétti í máli nr. 99/1968, hafi með bindandi hætti öllum efnisaðildum eignarréttar að jörðinni Vatnsenda samkvæmt erfðaskránni verið úthlutað til Magnúsar, elsta sonar Sigurðar, og geti þau réttindi ekki komið aftur til skipta í dánarbúi Sigurðar. Magnús hafi sótt arfstilkall sitt til Vatnsendajarðarinnar til arfláta, Magnúsar Einarssonar Hjaltested, en ekki til föður síns, Sigurðar. Þorsteinn Hjaltested, elsti sonur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, geri einnig arfstilkall sitt til jarðarinnar Vatnsenda til arfláta, Magnúsar Einarssonar Hjaltested, en ekki til föður síns.

Kröfu um ógildingu eða ómerkingu ákvörðunar skiptastjóra um úthlutun jarðarinnar er mótmælt sem tilhæfulausri með öllu. Varnaraðilar telja enga slíka annmarka á frumvarpinu eða málsmeðferð skiptastjóra að tilefni sé til að fallast á kröfur sóknaraðila þessa efnis. Á því er byggt að fyrir skiptastjóra hafi verið lagt að ljúka með formlegum hætti skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested og að við skiptalok hafi honum m.a. borið að gæta fyrirmæla 148. gr. laga nr. 20/1991 og 116. gr. laga nr. 91/1991. Hugmyndir sóknaraðila þess efnis að hefja nýja skiptameðferð frá grunni séu fráleitar og eigi sér enga stoð í lögum nr. 20/1991. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 375/2011 hafi verið lagt fyrir Héraðsdóm Reykjaness að skipa skiptastjóra til að ljúka skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem andaðist 13. nóvember 1966, með formlegum hætti. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 komi fram að um frekari framkvæmd skiptanna gildi nú ákvæði laga nr. 20/1991, sbr. 3. mgr. 148. gr. og 150. gr. þeirra. Í 3. mgr.  148. gr. laga nr. 20/1991 sé kveðið á um að er skiptastjóri tekur við forræði á búinu af skiptaráðanda þá gildi ákvæði laganna um framhald opinberra skipta eftir þann tíma, sbr. þó 150. gr., og lok þeirra, en fyrri ráðstafanir og ákvarðanir skulu ekki haggast af þeim sökum.

Mótmælt er sérstaklega því sem fram kemur í greinargerðum sóknaraðila um að skiptastjóri hafi ekki kallað eftir afstöðu erfingja um ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins. Á skiptafundi 9. janúar 2012 hafi verið bókað að ekki væri talin ástæða til innköllunar krafna í dánarbúið þar sem fyrir liggi að allar kröfur á hendur hinum látna væru fyrndar, hafi þær einhverjar verið. Lögmenn sóknaraðila hafi engar athugasemdir gert við þessa bókun er þeir rituðu undir fundargerðina. Öll meðferð skiptaráðanda á dánarbúinu beri þess merki að farið hafi verið með dánarbúið sem skuldaviðgöngubú. Varnaraðilar vísa í þessu sambandi til Skiptaréttar eftir Ólaf Jóhannesson, bls. 36-39 og bls. 49.

Í þinghaldi skiptaréttar 10. maí 1967 hafi verið bókað að ekkjan Margrét Guðmundsdóttir Hjaltested kveðst „bráðlega leggja fram skrá yfir skuldir búsins“. Í þinghaldi skiptaréttar 14. mars 1968 hafi verið bókað að „lögmenn málsaðila“ væru sammála um að gefin yrði út innköllun til skuldheimtumanna. Innköllun hafi verið birt í Lögbirtingablaðinu 3. apríl 1968 og innköllunin ekki borið með sér að um skuldafrágöngubú væri að ræða, sbr. 20. gr. þágildandi skiptalaga nr. 3/1878. 

Telja verði með vísan til þessara þinghalda í skiptarétti að erfingjar dánarbús Sigurðar hafi lýst því fyrir skiptaráðanda með skuldbindandi hætti að þeir ábyrgðust skuldbindingar dánarbúsins, þótt ekki hafi verið bókað um það í fógetabók.

Mótmælt er sérstaklega því sem fram kemur í greinargerðum sóknaraðila um að skiptastjóri hafi ekki staðreynt hverjar eignir búsins væru og að skiptastjóri telji ranglega ekki þörf á því að skipta öllum eignum búsins. Í þinghöldum skiptaréttar hafi lausafjáreignir dánarbúsins verið skrifaðar upp og síðar virtar til verðs. Í frumvarpi skiptastjóra komi fram að ókunnugt sé um afdrif þessara eigna eða andvirðis þeirra.

Enginn ágreiningur hafi verið um eignir dánarbúsins, aðrar en tilkall til jarðarinnar Vatnsenda, en ágreiningur hafi verið meðal erfingja dánarbúsins um erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Þeim ágreiningi hafi lokið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967. Í framhaldi, eða hinn 7. maí 1968, hafi, með útlagningargerð skiptaráðanda, Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested verið lagðar út með bindandi hætti allar efnisaðildir eignarréttar að jörðinni Vatnsenda ásamt þeim réttindum sem erfingja eru áskilin í fyrrgreindri erfðaskrá. Tekið hafi verið fram í ákvörðun skiptaráðanda að lögmaður hans ásamt erfingjanum ábyrgðist greiðslu skiptakostnaðar, erfðafjárskatts og annarra opinberra gjalda. Útlagningargerð skiptaráðanda hafi verið staðfest í Hæstarétti í máli nr. 99/1968.

Samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested séu rétthöfum jarðarinnar Vatnsenda, erfingjum hverju sinni, auk Lárusar Hjaltested, einum áskilinn réttur til viðtöku leigutekna vegna sölu á leigu lóða undir hús, leikvelli o.fl. og réttur til viðtöku bóta vegna landspjalla á jörðinni, þ. á m. vegna skerðingar hennar. 

Í þinghaldi skiptaréttar 6. febrúar 1969 komi fram að í útlagningargerð skiptaráðanda 7. maí 1968 hafi falist réttur erfingjans Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested til arðs af Vatnsenda, en bókað hafi verið: „Hann hafi, svo sem fundar­mönnum er kunnugt, afhent erfingjanum Magnúsi Sigurðssyni Hjaltested jörðina Vatnsenda og með henni óinnheimtar og áfallandi leigutekjur, sem til hafa fallið frá andláti arfláta.“

Í þinghaldi skiptaréttar 9. júlí 1968 hafi Margrét G. Hjaltested óskað eftir því að fá að kaupa lausafjármuni dánarbúsins. Um greiðsluskilmála hafi lögmaður hennar viljað semja síðar. Metið verðmæti búfjár og annarra lausafjármuna næmi samtals 2.304 kr. (230.375 gamlar krónur). Í þinghaldi skiptaréttar 27. apríl 1970 hafi skiptaráðandi lýst yfir að andvirði þessara verðmæta hafi ekki verið innheimt nema að litlu leyti. Telja verði að krafa dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested á hendur Margréti, ekkju Sigurðar, um greiðslu fyrir lausafjármuni búsins séu fallnar niður sökum tómlætis og fyrningar.

Mótmælt er sérstaklega því sem fram kemur í greinargerðum sóknaraðila um að skiptastjóri hafi ekki aflað upplýsinga um skuldir dánarbúsins. Innköllun til skuldheimtumanna dánarbús Sigurðar hafi verið birt í Lögbirtingablaði 3. apríl 1968 og birst í síðasta skipti 20. apríl sama árs.

Í frumvarpi skiptastjóra komi fram að allar lýstar kröfur í dánarbúið hafi verið ýmist afturkallaðar af kröfuhöfum eða fallið niður vegna vanlýsingar. Sem fyrr greinir hafi verið bókað á skiptafundi 9. febrúar 2012 að ekki væri talin ástæða til innköllunar krafna í dánarbúið þar sem fyrir lægi að allar kröfur á hendur hinum látna væru fyrndar. Ekki hafi verið gerðar athugasemdir af hálfu sóknaraðila við þessa bókun á skiptafundinum.

Margrét, ekkja Sigurðar, hafi fallið frá kröfu um að dánarbúið endurgreiddi sér ýmsan kostnað, auk útfararkostnaðar, samtals 1.671 kr. (167.100,45 gamlar krónur). Margrét hafi gert kröfu um endurgreiðsluna í þinghaldi skiptaréttar 15. maí 1970, eða rétt tæplega níu mánuðum eftir lok kröfulýsingarfrests. Þá hafi verið ógreitt kaupverð hennar á búfénaði og lausafjármunum búsins, sbr. þinghald skiptaréttar 27. apríl 1970. Í þinghaldi skiptaréttar 15. maí 1970 hafi ekki verið tekin afstaða til kröfunnar.

Liðin séu liðlega 40 ár og engin gögn liggi fyrir um að Margrét hafi aðhafst frekar og fylgt kröfu sinni um endurgreiðslu kostnaðar eftir. Margrét hafi látist 31. mars 2004 og dánarbúi hennar lokið sem eignalausu. Engin gögn liggi fyrir um að erfingjar hennar hafi fengið kröfu hennar á hendur dánarbúi Sigurðar í arf eftir hana. Tómlæti hennar til áratuga sé því til staðfestingar að hún hafi fallið frá kröfum sínum, eða ella fengið kröfu sína greidda utan réttar.

Mótmælt er því sem fram kemur í greinargerðum sóknaraðila um að skiptameðferð í dánarbúi Sigurðar sé andstæð reglum skiptaréttar um jafnræði erfingja. Ekki sé vísað í neinar reglur af þeirra hálfu í því sambandi. Í greinargerðum sóknaraðila sé því ranglega haldið fram að skiptastjóri hafi á skiptafundi 4. júní 2013 leitað eftir tillögum erfingja um ráðstöfum eigna dánarbúsins. Á fundinum hafi komið fram skýr afstaða skiptastjóra um að hans hlutverk væri fyrst og fremst að ráðstafa beinum eignarrétti úr dánarbúinu. Skiptastjóri hafi hins vegar gefið erfingjum dánarbúsins kost á því að koma að sínum sjónarmiðum og röksemdum í greinargerð sem þeir skyldu leggja fram á skiptafundi 30. ágúst 2013. Öllum erfingjum hafi staðið til boða að skila inn sínum sjónarmiðum og þ.a.l. hafi ekki verið hallað á neinn erfingja hvað það varðar. Það að Sigmundur Hannesson hrl., Valgeir Kristinsson hrl. og Guðjón Ólafur Jónsson hrl., f.h. umbjóðenda sinna, hafi ákveðið að synja því að skila inn greinargerð sé ekki brot skiptastjóra gegn jafnræði erfingja. Það hafi verið meðvituð ákvörðun þeirra að nýta sér ekki þennan rétt sinn.

Einnig er mótmælt kröfum sóknaraðila um að frumvarp skiptastjóra beri að fella úr gildi þar sem boðun til skiptafundar 30. apríl 2014 hafi verið andstæð lögum nr. 20/1991. Mætt hafi verið f.h. Kristjáns Þórs Finnssonar á skiptafundi án athugasemda.  Á fundum skiptastjóra 9. janúar 2012, 16. janúar sama ár, 4. júní 2013, 14. júní og 5. september sama ár hafi Guðjón Ólafur Jónsson hrl. mætt fyrir hönd Kristjáns Þórs auk annarra erfingja. Þá hafi lögmaðurinn mætt í a.m.k. tveimur dómsmálum f.h. Kristjáns Þórs og gert kröfur fyrir hans hönd, þ.e. í héraði og Hæstarétti í málinu nr. 70172012 og í ágreiningsmáli fyrir Héraðsdómi Reykjaness nr. Q-13/2013.  Það hafi einungis verið þremur dögum fyrir boðaðan skiptafund  30. apríl 2014 sem Guðjón Ólafur hafi tilkynnt skiptastjóra að hann kæmi framvegis ekki fram fyrir hönd Kristjáns Þórs við skiptin á dánarbúi Sigurðar, eða hinn 27. apríl 2014. Í fundargerð skiptafundar 30. apríl 2014 komi fram að til fundarins hafi verið boðað með tölvupósti 15. apríl 2014 og jafnframt birt fyrir lögmönnum aðila af stefnuvotti 16. apríl 2014. Fundarboðuninni hafi því réttilega verið beint til Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl. þar sem hann hafi verið lögmaður Kristjáns Þórs á þeim tíma Kristján Þór hafi nú fallið frá arfstilkalli í dánarbú Sigurðar.

Þá er því mótmælt að frumvarp skiptastjóra beri að fella úr gildi á þeim grundvelli að ekki hafi verið gætt lögerfðareglna við úthlutun skiptastjóra. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967 hafi kröfum Margrétar G. Hjaltested, persónulega og vegna ófjárráða barna hennar þess efnis að Vatnsenda yrði skipt milli erfingja eftir lögerfðareglum, verið hafnað. Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested hafi ekki fengið jörðina Vatnsenda að erfðum eftir föður sinn Lárus Hjaltested, heldur samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Sigurður hafi sjálfur þinglýst erfðaskránni sem heimildarskjali fyrir eignarrétti sínum að Vatnsenda eftir andlát arfláta, Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Sem fyrr greinir sé samkvæmt fyrirmælum erfðaskrárinnar eignarréttur að Vatnsenda bundinn kvöðum. Getið sé í 3. gr. erfðaskrárinnar um tiltekna erfðaröð og við andlát hvers erfingja taki sá næsti í erfðaröðinni við eignarumráðunum, sem uppfylli skilyrði samkvæmt erfðaskránni.

Vegna þessara kvaða á eignarrétti Sigurðar samkvæmt erfðaskránni hafi honum verið óheimilt að ráðstafa jörðinni Vatnsenda með erfðaskrá. Frumerfingi geti ekki breytt fyrirmælum í erfðaskrá með annarri erfðaskrá. Um þetta vísa varnaraðilar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 79/1977. Fyrirmæli í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested gangi framar lögerfðareglum erfðalaga. Dánarbúi þess sem sé tengiliður um arf samkvæmt erfðaskránni (Sigurðar í þessu tilfelli) beri að skila fasteigninni Vatnsenda til næsta erfingja í erfðaröðinni. Varnaraðilar mótmæla því að arfleiðslu­vilji Magnúsar Einarssonar Hjaltested samkvæmt erfðaskrá hans, dags. 4. janúar 1938, hafi verið að fullu kominn fram við andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Þvert á móti komi vilji Magnúsar Einarssonar Hjaltested með skýrum hætti fram í fyrirmælum 3. gr. erfðaskrárinnar um erfðaröð að jörðinni Vatnsenda að Sigurði látnum. Tekið sé fram í erfðaskránni sjálfri að henni skuli þinglýst á jörðina Vatnsenda og skuli hún hvíla sem ævarandi kvöð á þeirri eign.

Varnaraðilar mótmæla því að kvaðir samkvæmt erfðaskránni hafi fallið niður við andlát Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Sigurður hafi ekki verið skylduerfingi arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Samkvæmt 52. gr. erfðalaga nr. 8/1962 megi binda arf sem ekki er skylduarfur kvöðum með erfðaskrá. Í 2. málslið 52. gr. segi að kvaðir samkvæmt erfðaskrá falli ekki niður ef erfðaskrá getur annars. Í erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested séu skýr fyrirmæli um að jörðin Vatnsendi gangi að erfðum í tiltekinni erfðaröð, að hverjum erfingja samkvæmt erfðaskránni látnum. 

Jafnframt er því mótmælt að Sigurði Kristjáni Lárussyni Hjaltested hafi verið „gerlegt“ að gera Vatnsendajörðina að óðalsjörð. Með því hefði hann brotið gegn fyrirmælum erfðaskrárinnar, sem hann hafi sjálfur sótt til eignarrétt sinn að Vatnsenda.

Varnaraðilar kveða að leiða megi af dómi Hæstaréttar í dómasafni 1979, bls. 531, að ef ekki hafi verið um skylduerfingja að ræða þá hafi borið að hlíta fyrirmælum erfðaskrárinnar um erfðaröð eigna arfláta að öllu leyti. Sigurður hafi ekki verið skylduerfingi Magnúsar Einarssonar Hjaltested. Þá segi í riti Ármanns Snævars, Erfðarétti, útg. 1991, á bls. 63, að samkvæmt íslenskum rétti sé ekki reist rönd við því að ánafna kynslóðum af ófæddum aðilum gjafir eða arf. Magnús Einarsson Hjaltested hafi ekki átt skylduerfingja og honum hafi því verið heimilt að ráðstafa öllum eignum sínum með erfðaskrá.

Því er mótmælt að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested sé fallin niður vegna brostinna forsendna. Þorsteinn Hjaltested, næstur í erfðaröðinni, elsti sonur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, búi á Vatnsenda og sé með búskap á Vatnsenda. Engin fyrirmæli eða skilyrði séu í erfðaskránni um stærð, tegund eða umfang búskapar. Arflátinn hafi hins vegar séð fyrir sér íbúðabyggð vegna legu jarðarinnar. Besta sauðfjárbeitarland Vatnsenda hafi verið tekið eignarnámi meðan Sigurður Kristján Lárusson Hjaltested lifði, eða 698 hektarar lands (Heiðmerkurlandið). Sömu forsendur séu til að reka búskap á Vatnsenda í dag og þegar Sigurður féll frá. Það sé engin fyrirætlun um að hætta þar búskap. Sá búskapur sem stundaður hafi verið af Magnúsi og síðar Þorsteini sé síst veigaminni en sá búskapur sem stundaður hafi verið á jörðinni af fyrri ábúendum. Um lýsingu á búskaparháttum Lárusar Hjaltested og Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested vísa varnaraðilar til greinargerðar Margrétar Guðmunsdóttur Hjaltested til skiptaréttar í máli nr. 110/1967 og bréfs hennar til skiptaréttar, frá 4. júní 1968. Um búskaparhætti Magnúsar Einarssonar Hjaltested er vísað til eftirmála Lárusar Hjaltested með dagbókum Magnúsar Einarssonar, ritað á páskum 1956. Þeirri málsástæðu sóknaraðila að ekki hafi verið búið á Vatnsendajörðinni í 10 ár er mótmælt sem tilhæfulausri og órökstuddri. Vísa varnaraðilar þar að lútandi til skýrslna forðagæslumanna.   

Þá er mótmælt málsástæðum sóknaraðila sem snúa að veðsetningu jarðarinnar Vatnsenda.

Aðild vegna meintra brota á skilmálum erfðaskrárinnar sé á hendi erfingja jarðarinnar hverju sinni samkvæmt fyrirmælum 3. gr. erfðaskrárinnar um erfðaröð að jörðinni Vatnsenda, sem gæti þá krafist viðtöku jarðarinnar sér til handa. 

Hvað varðar fullyrðingar sóknaraðila um „bindandi málflutningsyfirlýsingar“ lögmanns Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested ítreka varnaraðilar að eignaumráð erfingja að Vatnsenda hverju sinni takmarkist alltaf við fyrirmæli arflátans Magnúsar Einarssonar Hjaltested í erfðaskrá hans. Varnaraðilinn Þorsteinn sæki rétt sinn til jarðarinnar Vatnsenda samkvæmt fyrirmælum í 3. gr. erfðaskrárinnar, en ekki til föður síns, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested. Þá hafi Margrét, ekkja Sigurðar, aldrei í málatilbúnaði sínum vefengt að erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested hefði að geyma hinsta vilja hans. Enda hafi maki hennar sótt eignaumráð sín á jörðinni Vatnsenda til erfðaskrárinnar og skuldbundið sig til að hlíta þeim í einu og öllu með viðtöku jarðarinnar og staðfest það með þinglýsingu erfðaskrárinnar sem sinnar heimildar til hennar fyrir erfðir.

Um lagarök vísa varnaraðilar til 12. gr., 35. gr., 47. gr., 50. gr. og 52. gr. erfða­laga nr. 8/1962. Einnig til 11. gr., 148. gr. og 150. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti o.fl. Jafnframt til 3. mgr. 32. gr. laga nr. 73/1997, 13. gr. laga nr. 11/1973, 19. gr., 20. gr. og 51. gr. laga nr. 3/1878, 21. gr. laga nr. 77/1988 um lögmenn, 2. gr. laga nr. 19/1924 um nauðasamninga, 24. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 og 2. gr., 4. gr. og 6. gr. laga nr. 46/1905 um hefð.

VII.

                Í máli þessu er til úrlausnar ágreiningur aðila um frumvarp skiptastjóra að úthlutunargerð í dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem lést 13. nóvember 1966. Í frumvarpinu er ráðgert að beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda í Kópavogi verði úthlutað samkvæmt erfðaskrá Magnúsar Einarssonar Hjaltested frá 4. janúar 1938. Nánar tiltekið til varnaraðila Þorsteins Hjaltested, elsta sonar Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sem var elsti sonur Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Sóknaraðilar mótmæla þessu og halda því fram að skipta beri eignum dánar­búsins samkvæmt lögerfðareglum erfðalaga nr. 8/1962, en ekki erfðaskránni frá 1938.

                Í dómi Hæstaréttar frá 3. maí 2013, í máli nr. 701/2012, segir að ekkert lægi fyrir um að skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, sem hófust á árinu 1967, hafi verið lokið eða nokkuð aðhafst við þau eftir 15. maí 1972. Þá var í dóminum vísað til þess að í ágreiningsmáli sem reis á árinu 1967 um jörðina Vatnsenda hafi málatilbúnaður Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested byggst á því að það væri aðeins umráðaréttur yfir jörðinni og réttur til arðs sem gengi að arfi samkvæmt erfðaskránni frá 1938, en ekki óskoraður eignarréttur. Þetta hafi komið fram í greinargerð hans í héraði og verið áréttað í greinargerð hans fyrir Hæstarétti. Krafa Magnúsar í skiptarétti, sem staðfest var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967, hafi verið tekin til greina í samræmi við málatilbúnað hans, með þeim hætti að honum var áskilinn réttur (eftir látinn föður sinn) til að taka við til ábúðar og hagnýtingar jörðina Vatnsenda með þeim takmörkunum og skilmálum sem settir voru í erfðaskránni frá 1938. Ekkert hafi verið kveðið á um afdrif beins eignarréttar að jörðinni og dánarbúið aðeins afhent Magnúsi umráð og afnot jarðarinnar. Væri því ekki unnt að líta svo á að fyrirliggjandi gögn stæðu til þess að álykta að Magnús hefði öðlast beinan eignarrétt að jörðinni og yrði að telja dánarbúið enn hafa á sinni hendi þann rétt sem yrði að ráðstafa til að ljúka skiptum lögum samkvæmt. Í forsendum dóms Hæstaréttar var sérstaklega tekið fram að í málinu væri ekki til úrlausnar hvort skilyrði hafi verið eða væru til að þessi beini eignarréttur verði færður eftir lát Sigurðar til Magnúsar, heldur aðeins hvort það hafi í raun verið gert við skiptin á dánarbúi Sigurðar, þannig að sá réttur væri ekki lengur á hendi þess. Að þessu virtu verður ekki dregin sú ályktun af þessum dómi Hæstaréttar að beinum eignarrétti að jörðinni beri að skipta á milli lögerfingja Sigurðar. Þá verður ekki ályktað af dóminum að afnotaréttindi af jörðinni, þ.e. óbein eignarréttindi, hafi runnið aftur til dánarbús Sigurðar eftir lát Magnúsar. Af þessu leiðir jafnframt að sjónarmið varnaraðila um hefðarrétt koma til álita við úrlausn á ágreiningi aðila.  

Í erfðaskránni frá 1938 mælti Magnús Einarsson Hjaltested, sem var ókvæntur og barnlaus, fyrir um það hvernig fara ætti með eigur hans. Samkvæmt a-lið 1. gr. áttu allar eigur hans, fastar og lausar, að ganga að erfðum til bróðursonar hans, Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Ágreiningslaust virðist vera að það var beinn eignar­réttur sem fluttist til Sigurðar með erfðaskránni og er það í samræmi við orðalag erfðaskrárinnar. Þannig verður að líta svo á að erfðaskráin kveði á um að það sé beinn erfðaréttur sem gangi í erfðir samkvæmt erfðaskránni, með þeim takmörkunum og skilyrðum sem þar koma fram. Samkvæmt 3. gr. erfðaskrárinnar „gengur jarðeignin“ að Sigurði látunum að erfðum til elsta sonar hans, og svo til hans niðja í beinan karllegg, og væri sá leggur útdauður, þá til næstelsta sonar Sigurðar og niðja hans í beinan karllegg o.s.frv. koll af kolli, þannig að ávallt fengi aðeins einn maður allan arfinn, sá elsti í þeim legg er að réttu ber arfinn. Þá sagði í erfðaskránni að væri enginn erfingi réttborinn til arfs eftir Sigurð á lífi gengi arfurinn til Georgs Péturs, næstelsta sonar Lárusar Hjaltested, og hans niðja í beinan karllegg eftir sömu reglum, en væri enginn til í legg Georgs Péturs gengi arfurinn til Jóns Einars Hjaltested, þriðja sonar Lárusar Hjaltested, með sama hætti. Ef afkvæmi Lárusar Hjaltested í karllegg myndu deyja út átti að selja eignir þær sem getið er í erfðaskránni og stofna styrktarsjóð sem hefði það að tilgangi að styrkja ungmenni af ættlegg Lárusar til framhaldsmenntunar.

Eins og fram kemur í dómi Hæstaréttar í máli nr. 79/1977 eru ekki skorður reistar við því í íslenskum rétti að arfleifandi mæli fyrir um erfðaröð í erfðaskrá sinni og er umrædd erfðaskrá sem slík gild. Þeirri málsástæðu sóknaraðila að kvaðir samkvæmt erfðaskránni hafi fallið niður við lát Sigurðar er hafnað, enda var ekki um skylduarf að ræða eftir Magnús Einarsson Hjaltested og kvaðir á slíkum arfi falla ekki niður við andlát erfingja þegar erfðaskrá kveður á um annað, eins og umrædd erfðaskrá Magnúsar gerir, sbr. 52. gr. erfðalaga nr. 8/1962. Magnús gat ráðstafað öllum eignum sínum með erfðaskrá en ekki aðeins 1/3.

Vegna þess hvernig málatilbúnaði Magnúsar Sigurðs­sonar Hjaltested var hagað fyrir skiptarétti og Hæstarétti, sbr. áðurnefndan dóm í máli nr. 110/1967, öðlaðist hann ekki beinan eignarrétt að jörðinni, eins og hann átti í raun tilkall til samkvæmt erfðaskránni. Með vísan til þess að Magnúsi var með dómi aðeins áskilinn réttur til ábúðar og hagnýtingar, í samræmi við málatilbúnað hans, og með hliðsjón af 3. mgr. 2. gr. laga um hefð nr. 46/1905, er ekki unnt að fallast á með varnaraðilum að Magnús hafi síðar eignast jörðina fyrir hefð.

Sóknaraðilar halda því fram að elsti sonur Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, varnaraðili Þorsteinn Hjaltested, sem er efstur í erfðaröðinni samkvæmt erfðaskránni, sé bundinn af málatilbúnaði Magnúsar í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 110/1967, sbr. 45. og 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í þessu sambandi verður að horfa til þess að varnaraðili Þorsteinn sækir rétt sinn til jarðarinnar til erfðaskrárinnar og er um sjálfstæðan rétt að ræða. Ef litið væri svo á að það fyrirgerði rétti eins að sá sem var á undan honum í erfðaröðinni t.d. hafnaði arfi eða með öðrum hætti tæki ekki þann rétt sem honum bar samkvæmt erfðaskránni, þá væri erfðaskráin í raun orðin markleysa og ógild og gengi þvert gegn afdráttarlausum vilja arfleifanda um erfðaröð í tiltekinn karllegg, og svo næsta karllegg og þannig koll af kolli. Er því ekki unnt að líta svo á að með málatilbúnaði Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested sé búið að fyrirgera rétti afkvæma hans, sem koma á eftir honum í erfðaröðinni.      

Sóknaraðilar halda því fram að varnaraðili Þorsteinn Hjaltested hafi brotið skilyrði erfðaskrárinnar og að brostnar séu forsendur fyrir gildi erfðaskrárinnar. Telja sóknaraðilar að varnaraðili Þorsteinn hafi brotið það skilyrði erfðaskrárinnar að ekki megi selja jörðina eða veðsetja fyrir meira en sem nemur 50% af fasteignamati jarðarinnar, og þá aðeins til greiðslu erfðafjárskatts eða nauðsynlegra, varanlegra endurbóta á húsum jarðarinnar eða henni sjálfri. Einnig hafi verið brotin skilyrði um að hann eigi að búa á eigninni sjálfur, stunda þar búskap og viðhalda eignunum.

Jörðin Vatnsendi er skráð sem lögbýli og varnaraðili Þorsteinn er með lögheimili þar, en lögheimili er sá staður sem maður telst hafa fasta búsetu á, sbr. 1. gr. laga um lögheimili nr. 21/1990. Í 4. gr. erfðaskrárinnar frá 1938 er ekki sett að skilyrði að búskapur verði með tilteknum hætti á jörðinni eða viðhald eigna. Samkvæmt fyrirliggjandi skýrslum Bænda­samtaka Íslands og skoðunarskýrslum Matvæla­stofnunar, sem nú fer með búfjár­eftirlit á grundvelli laga nr. 38/2013, hefur varnaraðili Þorsteinn stundað búskap á Vatnsenda. Staðhæfingar sóknaraðila um að eignarnám Kópavogsbæjar hafi í raun verið sala og að um málamyndagerning hafi verið að ræða, í andstöðu við skilmála erfðaskrárinnar, eru ósannaðar. Til stuðnings því að skilyrði erfðaskrárinnar um veðsetningu jarðarinnar hafi verið brotin vísa sóknaraðilar til veðbókarvottorðs og þinglýsingar­vottorða sem lögð voru fram í dómsmáli á árinu 2007, en af þeim verða ekki ráðin veðsetningarhlutföll miðað við fasteignamat á hverjum tíma. Ekkert liggur fyrir um það hvort veðsetningum á jörðinni hafi verið varið til endurbóta á húsum á jörðinni eða henni sjálfri, eins og áskilið er í erfðaskránni. Hvað sem því líður verður ekki framhjá því litið að jafnvel þótt talið yrði að varnaraðili Þorsteinn hefði brotið gegn einhverjum þeim skilmálum sem erfðaskráin kveður á um er erfðaskráin skýr um það hvaða áhrif það hefur ef brotið er gegn skilmálum hennar. Þá eru það þeir erfingjar sem eru næstir samkvæmt staðgöngu­ákvæðum erfðaskrárinnar sem geta talið til réttar yfir jörðinni, þ.e. þeir sem eru næstir í röðinni á eftir varnaraðila Þorsteini, en það eru ekki sóknaraðilar. 

Að mati dómsins hafa sóknaraðilar ekki sýnt fram á að brostnar forsendur séu fyrir gildi erfðaskrárinnar og því eigi að fara eftir lögerfðareglum við skipti á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Allt frá tíð Magnúsar Einarssonar Hjaltested virðist búskapur að Vatnsenda ekki hafa verið myndugur. Sóknaraðilar Sigurður Kristján Hjaltested og Karl Lárus Hjaltested benda sjálfir á í greinargerðum sínum að jörðin sé frá náttúrunnar hendi rýr til búskapar. Samkvæmt lýsingu Lárusar Hjaltested, sem hann skrifaði 1956 um Magnús Einarsson Hjaltested, voru tekjur bús Magnúsar hvergi meiri en til þess að standast útgjöldin og mun allur afrakstur vinnu Magnúsar við úrsmíði hafa gengið til reksturs búsins. Þá kemur fram í dagbókar­færslum Magnúsar sjálfs frá árinu 1932 að vafasamt væri að það fengjust slægjur um sumarið á Elliðavatnsengjum þar sem ekki yrði hleypt vatni af þeim og þá væri ekki um aðrar slægjur að ræða en túnið og það væri það sama og dauðadómur yfir búskapnum á Vatnsenda. Einnig kemur fram í dagbókarfærslu Magnúsar í maí 1934 að við mat á landi vegna Útvarps- og talstöðvar á Vatnsendahvarfi hafi hann viljað miða matið við framtíðarbyggingarlóðir og því séð fyrir sér byggð á jörðinni Vatnsenda. Þá hafði Magnús gert lóðarsamninga og í erfðaskránni er gert ráð fyrir því að arftaki mætti selja á leigu lóðir undir hús eða annað en leigugreiðslur skyldu ganga til ábúanda. Jafnframt var gert ráð fyrir því í erfðaskránni að landspjöll gætu orðið á jörðinni og hvert bætur vegna þeirra myndu renna. Þann rétt átti Lárus Hjaltested að fá eða næsti ábúandi. Þegar litið er til alls þessa og efnis erfðaskrárinnar að öðru leyti er málsástæðum sóknaraðila um brostnar forsendur hafnað.

Málsástæða byggð á 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936, um að víkja beri erfðaskránni til hliðar eða breyta, er órökstudd og er ekki sýnt fram á að skilyrði séu til að beita ákvæðinu. Ef ákvæðið ætti á annað borð við væri nærtækara að beita því þannig að stofna ætti styrktarsjóð samkvæmt 7. gr. erfðaskrárinnar, frekar en að skipta eignum eftir lögerfðareglum.

Þegar litið er til alls framangreinds verður að líta svo á að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda falli til varnaraðila Þorsteins Hjaltested á grundvelli erfðaskrárinnar frá 1938. Þá verður að líta svo á að óbeinn eignarréttur sé á sömu hendi. Í málatilbúnaði sóknaraðila sjálfra kemur m.a. fram að svo eigi að vera. Er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllum kröfum sóknaraðila og staðfesta frumvarp skiptastjóra, dags. 15. apríl 2014. 

Að mati dómsins eru engir annmarkar á störfum skiptastjóra sem geta leitt til annarrar niðurstöðu. Vegna mótmæla sóknaraðila Sigríðar Hjaltested og Markúsar Ívars Hjaltested við aðild skiptastjóra bendir dómurinn á að skiptastjóri getur, samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 122. gr. laga nr. 20/1991, verið aðili að ágreinings­máli þessu og var full ástæða til þess vegna athugasemda sem sóknaraðilar hafa gert við störf hans. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í máli nr. 375/2011 var það verkefni skiptastjóra að „ljúka“ skiptum á dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested en ekki hefja nýja skiptameðferð. Innköllun til skuldheimtumanna fór fram á árinu 1968 og lá fyrir skrá yfir tvær kröfur, sem munu hafa verið afturkallaðar. Engir skattar eða gjöld munu hafa verið lögð á búið og aðeins skiptakostnaður fallið til, sem varnaraðili Þorsteinn Hjaltested hefur lýst yfir að hann ábyrgist. Á skiptafundi 16. janúar 2012 voru allir málsaðilar sammála um að ekki væri þörf á því að birta opinbera innköllun erfingja í búið. Þá kemur fram í fundargerð skiptafundar 9. febrúar 2012, sem er undirrituð og samþykkt af hálfu allra málsaðila, að ekki hafi þótt ástæða til nýrrar innköllunar krafna í búið þar sem fyrir lægi að allar kröfur á hendur hinum látna væru fyrndar, hafi þær einhverjar verið. Skiptameðferð hefur farið fram á grundvelli VIII. kafla laga nr. 20/1991 án nokkurra athugasemda af hálfu málsaðila. Þótt bókuð hafi verið andmæli af hálfu sóknaraðila við gildi erfðaskrárinnar á skiptafundi 14. júní 2014 þá er það ekki ágreiningsatriði sem skiptastjóra er beinlínis skylt eftir einstökum ákvæðum laga nr. 20/1991 að vísa til héraðsdóms, áður en frumvarp er lagt fram, og sá ágreiningur aðila hefur komið til úrlausnar hér. Þá hefur það enga þýðingu að skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til atkvæðaskiptingar erfingja, sbr. 69. gr. laga nr. 20/1991, enda hefði hann þá í raun verið að taka afstöðu til þess hvernig arfi skyldi úthlutað. Skiptastjóri hefur kannað hverjir séu erfingjar í búinu og eru engir aðrir erfingjar þekktir. Staða Kristjáns Þórs Finnssonar var könnuð sérstaklega og fyrir liggur yfirlýsing hans til skiptastjóra um að hann falli frá arfstilkalli sínu og hann mætti ekki við þingfestingu ágreiningsmáls þessa. Kristján Þór var með lögmætum hætti boðaður til skiptafundar, sem haldinn var 30. apríl 2014, með því að boðun var send lögmanni sem hafði komið fram fyrir hans hönd í öðrum málum vegna deilna aðila um jörðina Vatnsenda. Það breytir engu um lögmæti boðunarinnar að lögmaðurinn hafi tilkynnt þremur dögum fyrir fundinn að hann gætti ekki lengur hagsmuna Kristjáns Þórs. Auk þess hefur þetta enga þýðingu í málinu þar sem Kristján Þór hefur fallið frá arfstilkalli. Þá kannaði skiptastjóri hvaða eignir tilheyrðu dánarbúinu og er það rakið í frumvarpi skiptastjóra. Það leiðir af niðurstöðu máls þessa að eina eignin sem kemur til skipta úr búinu er beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Þá verður að hafna því að frumvarp skiptastjóra verði fellt úr gildi þar sem ekki hafi verið gætt jafnræðis með aðilum við skiptameðferðina, hvað varðar framlagningu greinargerða. Sóknaraðilar vísa ekki í tiltekin lagaákvæði máli sínu til stuðnings. Í lögum nr. 20/1991 eru ekki sérstök ákvæði um framlagningu greinargerða erfingja áður en skiptastjóri leggur fram frumvarp til úthlutunar og sóknaraðilum var gefinn kostur á því að koma að sjónarmiðum sínum og röksemdum í greinargerðum sem þeir skyldu leggja fram á skiptafundi 30. ágúst 2013, en málið lá þá nægilega skýrt fyrir til að aðilar gætu gert grein fyrir afstöðu sinni um ráðstöfun arfs. Þá verður með hliðsjón af skýringum í bréfi lögmanns varnaraðila Kristrúnar Ólafar Jónsdóttur, dags. 19. desember 2013, að hafna því að greinargerð/kröfulýsing hennar og varnaraðila Þorsteins Hjaltested til skiptastjóra séu ósamrýmanlegar og því beri að fallast á kröfur sóknaraðila. Samkvæmt framansögðu er því hafnað að annmarkar á skiptameðferð eigi að leiða til þess að frumvarp skiptastjóra verði fellt úr gildi eða máli þessu vísað frá dómi.

Eftir atvikum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður. 

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Staðfest er frumvarp skiptastjóra til úthlutunar, dags. 15. apríl 2014, um að ráðstafa beri beinum eignarrétti að jörðinni Vatnsenda til varnaraðila Þorsteins Hjaltested.

                Málskostnaður fellur niður.