Print

Mál nr. 461/2015

Lykilorð
  • Fiskveiðistjórn
  • Skattur
  • Veiðigjald
  • Stjórnarskrá
  • Jafnræði

                                     

Fimmtudaginn 28. janúar 2016.

Nr. 461/2015.

Halldór fiskvinnsla ehf.

(Jón Jónsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Fiskveiðistjórn. Skattur. Veiðigjald. Stjórnarskrá. Jafnræði.

Í málinu krafðist H ehf. endurgreiðslu veiðigjalda sem hann greiddi fiskveiðiárið 2012/2013 vegna landaðs afla í fisktegundum sem ekki sættu ákvörðun um heildarafla, en um var að ræða tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu. Taldi hann að veiðigjöld af þessu tagi væru skattar og að skattlagningin uppfyllti ekki skilyrði stjórnarskrár um skattlagningu, jafnræði og vernd eignarréttar. Talið var að veiðar H ehf. á umræddum tegundum hefðu verið háðar stjórn fiskveiða í skilningi laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og því skylt samkvæmt 20. gr. þeirra að greiða veiðigjöld af þessum tegundum, svo sem í lögum nr. 74/2012 um veiðigjöld greindi. Ekki var fallist á með H ehf. að það að miða gjaldstofn veiðigjalds við þorskígildi hefði falið í sér ólögmætt framsal á skattlagningarvaldi til stjórnvalda þannig að færi í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var talið að sú málsástæða H ehf. að umrædd gjaldtaka stæðist ekki ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar væri engum haldbærum rökum studd og var henni því hafnað. Við mat á því hvort skattlagningin hefði farið í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar var litið til þess að aðstaða H ehf., sem gerði út aflamarksbát, og þeirra sem gerðu út báta með krókaaflamarki hefði á umræddum tíma verið ósambærileg varðandi tegundirnar tindaskötu, hlýra og rauðmaga. Hefðu álögð veiðigjöld á H ehf. vegna þessara tegunda því ekki brotið í bága við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Á hinn bóginn var talið að aðstaða þeirra væri sú sama þegar um væri að ræða veiðar á grásleppu þar sem við stjórn þeirra veiða hafði ekki verið gerður munur á þessum tvenns konar bátum, auk þess sem veiðarfærin gætu í báðum tilvikum verið þau sömu. Talið var að í þessu hefði falist ómálefnaleg mismunun sem hefði verið í andstöðu við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Var Í því gert að greiða H ehf. nánar tilgreinda fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. júlí 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 877.769 krónur, en til vara 871.718 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. október 2013 til 24. sama mánaðar en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Í báðum tilfellum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður falli niður.

I

Málavextir eru raktir í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerir áfrýjandi út aflamarksbátinn Halldór NS 302 og voru á hann lögð veiðigjöld fiskveiðiárið 2012/2013 vegna landaðs afla í fisktegundum sem ekki sættu ákvörðun um heildarafla, en um var að ræða tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu. Áfrýjandi hefur greitt álögð veiðigjöld að þessu leyti og krefst endurgreiðslu þeirra á þeim forsendum að veiðigjöld af þessu tagi séu skattur og skattlagningin uppfylli ekki skilyrði stjórnarskrár um skattlagningu, jafnræði og vernd eignarréttar.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að veiðar áfrýjanda á framangreindum tegundum voru háðar stjórn fiskveiða í skilningi laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og því skylt samkvæmt 20. gr. laganna að greiða veiðigjöld af þessum tegundum, svo sem í lögum nr. 74/2012 um veiðigjöld greindi.

II

Ágreiningslaust er að álögð veiðigjöld af þeim toga sem fjallað er um í máli þessu teljist skattur í skilningi 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Eins og að framan greinir telur áfrýjandi að álagning veiðigjaldanna uppfylli ekki skilyrði stjórnarskrár um skattlagningu, jafnræði og vernd eignarréttar. Sú málsástæða hans að umdeild gjaldtaka standist ekki ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar er engum haldbærum rökum studd og verður henni hafnað.

Á þeim tíma sem hin umdeildu veiðigjöld voru lögð á áfrýjanda sagði í 3. gr. laga nr. 74/2012 að í lögunum hefðu hugtökin aflahlutdeild, aflamark, fiskveiðiár, veiðiheimild, þorskígildi og þorskígildisstuðull þá merkingu sem í þau væri lögð í lögum um stjórn fiskveiða. Þá var í fyrri málslið 1. mgr. 7. gr. laganna kveðið á um að gjaldstofn almenns og sérstaks veiðigjalds væri afli hvers gjaldskylds aðila í þorskígildum samkvæmt úthlutuðu aflamarki, öðrum aflaheimildum eða lönduðum afla. Í 2. mgr. sagði að þegar um væri að ræða tegundir sem úthlutað væri til einstakra skipa skyldu gjöldin miðast við úthlutað aflamark í kílóum talið og í fyrri málslið 3. mgr. að færi stjórn veiða fram með öðrum hætti en greindi í 2. mgr. skyldu gjöldin miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lyki einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils.

Samkvæmt fyrsta málslið 19. gr. laga nr. 116/2006 skal reikna þorskígildi fyrir 15. júlí hvert ár fyrir hverja fisktegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 20. gr. laganna. Samkvæmt þeirri grein skulu þeir sem fá úthlutað aflaheimildum eða landa afla, fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks, greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir. Í þessu felst að reikna skal þorskígildi fyrir hverja þá tegund sem sætir veiðistjórn, hvort sem sú stjórn fer fram með úthlutun aflamarks eða með öðrum hætti. Fær annar málsliður 19. gr. laga nr. 116/2006 engu breytt þar um. Verður þágildandi fyrri málsliður 1. mgr. 7. gr. laga nr. 74/2012 skýrður svo að með þorskígildum, sem þar var vísað til, væri átt við þorskígildi fyrir allar þær tegundir sem hið almenna og sérstaka veiðigjald náði til. Að öðrum kosti hefði ekki verið unnt að leggja gjaldið á afla vegna veiða, sem ekki voru bundnar takmörkunum, eins og þar var mælt fyrir um, sbr. 2. mgr. og fyrri málslið 3. mgr. sömu lagagreinar. Í samræmi við þetta var með tilvísun 3. gr. laganna til hugtaksins þorskígildi í lögum nr. 116/2006 einungis átt við þá aðferð sem viðhöfð skyldi við útreikning þess. Að því virtu sem að framan er rakið verður ekki fallist á með áfrýjanda að það að miða gjaldstofn veiðigjalds við þorskígildi hafi falið í sér ólögmætt framsal á skattlagningarvaldi til stjórnvalda þannig að færi í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

III

Áfrýjandi byggir einnig á því að álagning veiðigjaldanna hafi falið í sér óheimila mismunun, sbr. 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem veiðigjöld hafi ekki verið lögð á afla krókaaflamarksbáta í sömu fisktegundum. Slíkir bátar hafi verið í sambærilegri stöðu og bátur áfrýjanda og hafi löggjafinn ekki lagt málefnalegt mat til grundvallar því að ekki hafi þurft að greiða veiðigjöld af afla þeirra báta sem ekki sættu ákvörðun um heildarafla, en sér hafi verið gert að greiða gjaldið af sams konar afla.  Á þeim tíma sem veiðigjöldin voru lögð á áfrýjanda var kveðið á um í fyrri málslið 3. mgr. 7. gr. laga nr. 74/2012 að færi stjórn veiða fram með öðrum hætti en í 2. mgr. greindi skyldu gjöldin miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund. Þá sagði í síðari málslið 3. mgr. að gjöld vegna strandveiða skyldu miðast við landaðan afla í strandveiðum og miða skyldi við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum sem þeir væru ekki bundnir aflatakmörkunum í en sættu ákvörðun um heildarafla.

Ágreiningslaust er með aðilum að tegundirnar tindaskata, hlýri, rauðmagi og grásleppa voru á umræddu fiskveiðiári ekki háðar ákvörðun um heildarafla. Samkvæmt orðalagi síðari málsliðar 3. mgr. 7. gr. laga nr. 74/2012 átti aðeins að leggja veiðigjöld á landaðan afla krókaaflamarksbáta í tegundum sem sættu ákvörðun um heildarafla og voru þeir því samkvæmt orðalagi ákvæðisins undanþegnir veiðigjöldum á þessar tegundir, öfugt við afla hjá áfrýjanda. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á að aðstaða áfrýjanda og þeirra sem gerðu út báta með krókaaflamarki hafi á þessum tíma verið ósambærileg varðandi tegundirnar tindaskötu, hlýra og rauðmaga og því ekki um það að ræða að álögð veiðigjöld á áfrýjanda vegna þessara tegunda hafi brotið í bága við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Veiðum á grásleppu er stýrt með reglugerð settri á grundvelli 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Fiskveiðiárið 2012/2013 gilti um veiðarnar reglugerð nr. 106/2013 um hrognkelsaveiðar en samkvæmt 1. gr. hennar voru allar veiðar á grásleppu í fiskveiðilandhelgi Íslands óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Ekki liggur því annað fyrir en að staða þeirra sem gerðu út báta í aflamarkskerfi eins og áfrýjandi hafi verið sú sama og þeirra sem stunduðu útgerð í krókaaflamarkskerfi þegar um var að ræða veiðar á grásleppu þar sem við stjórn þeirra veiða var ekki gerður munur á þessum tvenns konar bátum, auk þess sem veiðarfærin gátu í báðum tilvikum verið þau sömu. Af þeim sökum er ekki sýnt fram á neitt sem réttlætir þá mismunun sem fólst í 7. gr. laga nr. 74/2012 að áfrýjanda hafi verið gert að greiða veiðigjöld vegna þeirra veiða en þeim sem stunduðu veiðar í krókaaflamarkskerfi ekki. Fólst í þessu ómálefnaleg mismunun sem var í andstöðu við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og verður varakrafa áfrýjanda sökum þess tekin til greina.

Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Halldóri fiskvinnslu ehf., 871.718 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. til 24. október 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2015.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 23. mars sl., er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 24. júní 2014. Stefnandi er Halldór fiskvinnsla ehf., Bæjarási 1, Bakkafirði, en stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi íslenska ríkið greiði stefnanda 877.769 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, frá 1. október 2013 til 24. sama mánaðar og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 871.718 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, frá 1. október 2013 til 24. sama mánaðar og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 29/1995, frá þeim degi til greiðsludags.

Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins.

Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

Til vara krefst stefndi þess að stefnukröfurnar verði stórkostlega lækkaðar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

II.

Stefnandi máls þessa gerir út aflamarksbátinn Halldór NS 302, skipaskrárnúmer 1928, með heimahöfn á Bakkafirði og er báturinn 11,64, metrar á lengd og 13,72 brúttótonn. Samkvæmt framlögðu yfirliti yfir aflamarksstöðu fékk báturinn úthlutað, á grundvelli aflahlutdeildar, aflamarki í þorski, ýsu, ufsa, karfa/gullkarfa, keilu, steinbít, grálúðu, skarkola og þykkvalúru á fiskveiðiárinu 2012/2013.

Á framlögðu aflayfirliti kemur fram að báturinn var á netaveiðum frá Grundarfirði frá 5. febrúar 2013 til 26. mars 2013 og fékk við þær netaveiðar meðafla í tindabikkju (tindaskötu) og rauðmaga. Á tímabilinu frá 10. apríl 2013 til 9. maí 2013 var báturinn samkvæmt sérstöku veiðileyfi á grásleppuveiðum í grásleppunet frá Bakkafirði og fékk við þær veiðar í grásleppunet meðafla í hlýra. Á tímabilinu frá 3. júlí til 22. ágúst 2013 var báturinn á handfæraveiðum frá Bakkafirði og er ekki að sjá neinn afla á því tímabili í tegundum sem stefnandi hafði ekki aflamark í.

Grásleppuleyfi hvíla á reglugerð um hrognkelsaveiðar, sbr. reglugerð nr. 106/2013 sem gilti um hrognkelsaveiðar vorið 2013. Veiðar á grásleppu eru bundnar sérstöku veiðistjórnunarkerfi sem kveðið er á um í reglugerðum um hrognkelsaveiðar, og hvíli á því að veiðidagar og stærð/fjöldi veiðarfæra sé takmarkaður.

Lögð voru veiðigjöld á stefnanda vegna fiskveiðiársins 2012/2013 vegna alls landaðs afla í tegundum sem ekki sæta ákvörðun um heildarafla. Álagning almenns veiðigjalds var 9,5 krónur á hvert þorskígildiskíló, sbr. 8. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, og þá var á fiskveiðiárinu 2012/2013 lagt á sérstakt veiðigjald að fjárhæð 23,2 krónur, sbr. a-lið bráðabirgðaákvæðis I í lögunum. Þorskígildisstuðlar vegna fiskveiðiársins hvíldu á reglugerð nr. 619/2012, um fjárhæð, álagningu og innheimtu veiðigjalda og þorskígildisstuðla fiskveiðiárið 2012/2013. Skipting milli einstakra tegunda var með eftirfarandi hætti:

Tegund  Afli kg                   Þorskíg.stuðull     Þorskíg.kg.            Veiðigjald kr.

Tindaskata                          28                           0,10                                       3                             29

Hlýri                                      68                           1,02                                       69                           656

Rauðmagi                            390                        0,29                                       113                        1.074

Grásleppa                             35.545                   0,74                                       26.303                   249.879

Grásleppuhrogn   141                                                                       355                        3.373    

SAMTALS                                                                                                         26.843                   255.011

Almennt og sérstakt veiðigjald vegna ofangreindra tegunda námu samtals 877.769 krónum og þar af námu veiðigjöld vegna grásleppu og grásleppuhrogna 871.718 krónum.

Óumdeilt er að stefnandi hafi staðið skil á álögðum veiðigjöldum. Hann kveðst í stefnu hafa fengið upplýsingar um að krókabátar, sem lönduðu við hlið hans, hefðu verið undanþegnir gjaldinu. Hafi hann því talið að gjaldtakan stæðist ekki. Með bréfi lögmanns stefnanda til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 24. október 2013, var þess krafist að íslenska ríkið greiddi stefnanda stefnufjárhæð með þar tilgreindum vöxtum og dráttarvöxtum vegna ólögmætrar álagningar veiðigjalda, svo sem gert er í þessu máli. Með bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsettu 11. nóvember sama ár, var erindið framsent Fiskistofu og fékk lögmaður stefnanda sent afrit af því. Er því lýst í stefnu að ekki hafi borist önnur viðbrögð við erindi stefnanda. Stefnandi höfðaði mál þetta 24. júní 2014.

III.

Stefnandi kveðst byggja á því að gjaldtaka veiðigjalds vegna afla báts stefnanda af tegundum, sem ekki sæta ákvörðun um heildarafla, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, með orðnum breytingum, standist ekki. Á fiskveiðiárinu 2012/2013, hafi, í tilviki kæranda, verið um að ræða afla í tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu/grásleppuhrognum. Veiðigjald samkvæmt lögum nr. 74/2012 sé skattur í skilningi laga og skattlagningin uppfylli ekki skilyrði sem felist í ákvæðum stjórnarskrár um skattlagningu, jafnræði og vernd eignarréttar.

Stefnandi bendir á að bátur hans sé með veiðileyfi í aflamarkskerfi en hann sé að stærð og gerð þess eðlis að hann uppfylli kröfur sem gerðar séu til krókaaflamarksbáta (krókabáta), sbr. 2. mgr. 4. gr. fiskveiðistjórnunarlaga. Tæknilegur útbúnaður bátsins og krókabáta almennt sé sambærilegur. Stefnandi hafi starfað í aflamarkskerfinu lengi og byggt á því að krókaaflamarkskerfið og aflamarkskerfið væru tvö mismunandi fiskveiðistjórnunarkerfi, sem bæði hvíldu á grundvallarreglum fiskveiðistjórnunarlaga, s.s. um ákvörðun heildarafla á ákveðnum tegundum. Við val milli kerfanna hafi stefnandi því ekki haft tilefni til að ætla að veiðikerfin vörðuðu annað en stjórnun á veiðum og leiddu ekki til grundvallarmunar á skattalegri stöðu stefnanda.

Stefnandi byggir á því að löggjafinn hafi í raun ekkert mat lagt á málefnalegar forsendur þess að mismunandi skattlagning sé á afla í tegundum sem sæta ekki ákvörðun um heildarafla. Mat löggjafans á slíkum forsendum varði miklu við mat á því hvort mismunun geti talist lögmæt eða eignarskerðing forsvaranleg. Forsaga ákvæða um veiðigjald skýri að mismununin hvíli á mistökum eða misskilningi en ekki sjálfstæðu mati á sjónarmiðum sem réttlæti mismunandi skattlagningu.

Stefnandi vísar til þess að í lögum um veiðieftirlitsgjald nr. 33/2000, eins og 2. gr. laganna hafi upphaflega verið, hafi verið kveðið á um álagningu gjaldsins á veiðiheimildir sem veittar voru á grundvelli laga um stjórn fiskveiða. Í því hafi falist að gjaldið hafi ekki verið lagt á veiddan afla í tegundum sem ekki voru háðar veiðistjórnun. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. hafi álagningin farið fram á aflamarki í tegundum sem úthlutað var á grunni aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar. Þá sem nú hafi færri tegundir verið í krókaaflamarki en aflamarki. Til að gæta jafnræðis hafi því verið kveðið á um að miða ætti við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum þar sem krókabátar væru ekki bundnir aflatakmörkunum en sæta ákvörðun um heildarafla og þar af leiðandi kvótasettar í aflamarkskerfinu. Gjaldskylda hafi því verið á sömu tegundum í veiðikerfunum.

Stefnandi vísar enn fremur til þess að með lögum nr. 85/2002, um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, hafi verið tekin upp ákvæði um veiðigjald og hafi fyrirmynd álagningarinnar verið sótt til laga um veiðieftirlitsgjald. Með lögunum hafi þó verið kveðið á um að gjaldið yrði greitt fyrir hvert þorskígildiskílógramm úthlutaðra veiðiheimilda eða landaðs afla í einstökum tegundum, eins og það væri ákvarðað í 21. gr., samkvæmt nýrri 22. gr. fiskveiðistjórnalaga, sbr. d-lið 12. gr. laga nr. 85/2002. Lokamálsliður greinarinnar hafi kveðið á um að miða skyldi við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum, sem þeir væru ekki bundnir aflatakmörkunum í, en sættu ákvörðun um heildarafla. Málsliðurinn hafi verið samhljóða ákvæði í lögum um veiðieftirlitsgjöld en í því samhengi að gjöld legðust á allar tegundir hafi falist að krókabátar hafi í raun verið undanþegnir veiðigjaldi á landaðan afla í tegundum sem ekki sættu ákvörðun um heildarafla. Sú aðstaða hafi enga umfjöllun fengið við lagasetninguna og telji stefnandi að hún hvíli á mistökum eða misskilningi.

Við setningu laga um veiðigjöld nr. 74/2012 hafi fyrirmynd verið sótt til fyrri ákvæða um álagningu, sbr. 7. gr. laganna. Í 3. mgr. greinarinnar sé svohljóðandi ákvæði: „Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 2. mgr. skulu gjöldin miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Gjöld vegna strandveiða miðast við landaðan afla í strandveiðum og miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum í en sæta ákvörðun um heildarafla.“ Stefnandi byggir á því að lokamálsliður ákvæðisins leiði til þess að krókabátar, af sambærilegri stærð og gerð og bátur stefnanda, greiði ekki veiðigjald af tegundum sem sæti ekki ákvörðun um heildarafla.

Stefnandi vísar í þessu sambandi til jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Með henni sé kveðið á um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda, án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Í ákvæðinu felist að mismunun aðila með sambærilega stöðu verði að hvíla á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum. Stefnandi byggir á því í aðalkröfu sinni að í skattalegum skilningi teljist staða aflmarksbáts hans og krókabáta sambærileg, enda varði krókakerfið og aflamarkskerfið stjórnun fiskveiða, þ.e. heimildir til að veiða og koma með fisk að landi. Munur á veiðikerfunum byggi á því mati löggjafans að bátar undir tiltekinni stærð geti verið í veiðikerfi þar sem nægjanlegt sé að færri tegundir lúti beinni kvótasetningu en í aflamarkskerfinu. Aðgangur beggja útgerðarflokka að fiskveiðiauðlindinni hvíli hins vegar á sömu meginreglum, til að mynda um að nytjastofnar sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar, sbr. 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaga. Í öllu falli sé ljóst að staða krókabáta og aflamarksbáta varðandi veiðar á tegundum, sem ekki sæta ákvörðun um heildarafla, sé öldungis sambærileg í skilningi fiskveiðistjórnunarlaga. Sókn í slíkar tegundir sé heimil bæði krókabátum og aflmarksbátum.

Ekki séu til staðar hlutlæg og málefnaleg sjónarmið að baki mismunandi skattalegri stöðu veiðigjalda útgerðarflokkanna vegna þessara tegunda. Innheimta veiðigjalda byggi m.a. á því að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í arði, sem nýting sjávarauðlinda skapi, sbr. 2. gr. laga um veiðigjöld. Með því sé vísað til 1. gr. fiskveiðistjórnunarlaga og verði að álykta að málefnaleg sjónarmið að baki mismunandi skattlagningu geti helst komið til vegna mismunandi ábyrgðar útgerðarflokka gagnvart fiskveiðiauðlindinni. Slík sjónarmið hafi ekki komið fram varðandi tegundir, sem ekki sæti ákvörðun um heildarafla, og líkur séu á því að umdeild mismunun sé komin til vegna mistaka við lagasetningu.

Á því er byggt að til þess að stefnandi geti í raun notið stjórnarskrárbundins jafnræðis gagnvart útgerðum sem veiða tegundir sem sæta ekki ákvörðun um heildarafla, án skyldu til greiðslu veiðigjalda, sé nauðsynlegt að krefjast þess að skattheimta gagnvart stefnanda falli niður. Aðalkrafa stefnanda hvíli á þeim sjónarmiðum en þar sé krafist endurgreiðslu á þeim veiðigjöldum sem stefnandi hafi þegar greitt. Stefnandi telji að líta megi til upplýsinga um skiptingu veiða eftir bátaflokkum. Stór hluti þeirra tegunda, sem um ræðir, sé veiddur af krókabátum og þar af leiðandi séu þær veiðar veiðigjaldafrjálsar. Um grásleppu gildi t.d. að af 4.007 tonnum hafi 2.350 tonn verið veidd af krókaaflamarksbátum en einungis 1.597 tonn veidd af smábátum með aflamark sem bátur stefnanda falli undir.

Í þessu samhengi vísar stefnandi enn fremur til þess að skattaálögur feli í sér skerðingu eignarréttar. Í ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar felist kröfur um að skattaálögur séu lagðir á eftir almennum, efnislegum mælikvarða og að gætt sé ákveðins jafnræðis. Þá vísar stefnandi til stuðnings sjónarmiðum sínum til mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1, um friðhelgi eignarréttar. Jafnframt vísar stefnandi til 14. gr. sáttmálans um bann við mismunun. Vísar stefnandi sérstaklega til viðmiðana um hvað teljist mismunun í skilningi sáttmálans.

Stefnandi vísar enn fremur til 77. gr. stjórnarskrárinnar sem kveði á um að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Stefnandi byggir á því að lög um veiðigjöld feli í sér ólögmætt framsal á skattlagningarvaldi til stjórnvalda vegna þýðingar þorskígildisstuðla á skattlagningu tegunda. Samkvæmt 2. gr. veiðigjaldalaga sé vísað til þorskígildisstuðla samkvæmt skilgreiningu fiskveiðistjórnunarlaga, sbr. 19. gr. laganna, sem orðist svo: „Ráðuneytið skal reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 20. gr., og taka mið af tólf mánaða tímabili sem hefst 1. maí næstliðið ár og lýkur 30. apríl. Sé tekin ákvörðun um stjórn veiða á tegund sem ekki hefur áður sætt slíkri ákvörðun skal þegar reikna þorskígildi fyrir tegundina miðað við sama tímabil og greinir í 1. ml. Þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um. Þegar fiskur er seldur ferskur erlendis skal miða við 88% af söluverðmæti hans. Varðandi botnfisk, að undanskildum karfa, skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slitinn humar.“

Skilyrði þess að þorskígildisstuðull skuli reiknaður vegna tegundar, sé að veiðar tegundar sæti ákvörðun um stjórn, sbr. 20. gr. fiskveiðistjórnunarlaga, en greinin orðist svo: „Allir þeir sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt lögum þessum, eða landa afla fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks, skulu greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir.“ Engin stjórn sé á veiðum á hlýra, tindaskötu og rauðmaga í skilningi laga um stjórn fiskveiða. Að því er varðar grásleppu, vísar stefnandi til þess að lagaleg umgjörð veiðanna hvíli á 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Tegundirnar sæti ekki ákvörðun um heildarafla samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.  Útreikningur á þorskígildum fyrir tegundirnar hafi því ekki lagastoð vegna fiskveiðiársins 2012/2013. Ákvæði veiðigjaldalaga og fiskveiðistjórnunarlaga feli í sér einhvers konar hringskilgreiningu um það hvenær reikna skuli út þorskígildisstuðla. Lagastoð fyrir útreikningi þorskígildisstuðla sé ekki nægjanlega skýr svo hún geti verið grundvöllur skattlagningar vegna tegunda sem ekki sæti ákvörðun um heildarafla samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

Stefnandi vísar til upplýsinga frá Fiskistofu um að fjöldi tegunda, sem þorskígildisstuðlar hafi verið reiknaðir á, hafi aukist verulega fiskveiðiárið 2004/2005. Fyrir þann tíma hafi slíkir stuðlar ekki verið til fyrir tegundir sem ekki sættu ákvörðun um heildarafla, sbr. töflu um þorskígildisstuðla á tímabilinu frá 1991 til fiskveiðiársins 2003/2004. Lagagrundvöllur útreiknings þorskígildisstuðla fyrir þær tegundir liggi ekki fyrir.

Þá byggir stefnandi á því að fyrirkomulag á útreikningi þorskígildisstuðla hafi ekki lagastoð og aðferðafræði við útreikning stuðlanna samkvæmt lögum feli í sér of mikið framsal á skattlagningarvaldi til stjórnvalda. Ákvæði 19. gr. um þorskígildisstuðla kveði ekki á um þann tíma eða aðstæður sem verðmæti einstakra tegunda skuli miðað við. Útfærsla á þeim atriðum sé mótuð af stjórnvöldum við framkvæmd upplýsingasöfnunar á afurðaverði. Þá sé ljóst að fiskur sé seldur mismunandi unninn og því sýnt að útreikningar þorskígildisstuðla hvíli á ýmiss konar leiðréttingarstuðlum, s.s. slægingarstuðlum, frystingarstuðlum o.fl., sem feli í sér að umreikna misunninn fisk til þess sem ætla má að sé verð og þyngd slægðs botnfisks. Framkvæmd þeirra útreikninga sé ólögbundin en aðeins einn stuðull varðandi þessi atriði sé lögbundinn, þ.e. 88% verðmat miðað við útfluttan fisk.

Þá byggir stefnandi á því að fyrirkomulag veiðigjalda standist ekki kröfur um að skattheimta hvíli á efnislegum mælikvarða. Skattlagning miðuð við þorskígildi hvíli á hlutföllum aflaverðmætis einstakra tegunda gagnvart þorski. Í því felst að verðbreytingar á þorski hafi áhrif á þorskígildisstuðul annarra tegunda, þótt engin verðbreyting verði á þeim. Skortur á efnislegum mælikvarða felist jafnframt í því að þorskígildisstuðlar séu ekki í nokkru samhengi við afrakstur af veiðum á einstökum tegundum. Stuðlarnir lýsi hlutfalli fiskverðs, án tillits til fyrirkomulags og kostnaðar við veiðar. Stórkostlegar sveiflur séu á afurðaverði grásleppuhrogna. Áhrif veiðigjalda á útgerð stefnanda séu þungbær og hafi í raun í för með sér að vart verði eftir afrakstur af veiðunum hjá stefnanda. Í ljósi þessa geti áhrif veiðigjalda verið sambærileg við eignaskatt varðandi grásleppuútgerð, þrátt fyrir yfirlýst markmið um að þau beinist að tekjuafgangi af veiðum einstakra tegunda. Skattlagning veiðigjalda á stefnanda geti sem slík skoðast sem ólögmæt þjóðnýting. Þá vísar stefnandi jafnframt til sérstakra málsástæðna um þorskígildisstuðla vegna grásleppu og grásleppuhrogna undir varakröfu.

Stefnandi kveður rétt til endurgreiðslu byggja á 1. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, þar sem forsendur fyrir skattheimtunni standist ekki samkvæmt framangreindu.

Að því er varðar vaxtakröfu vísar stefnandi til þess að greiðsla umræddra veiðigjalda hafi farið fram eigi síðar en við gjalddaga, 1. október 2013, og miðist upphaf vaxta því við þá dagsetningu. Þá hafi stefnandi með bréfi, dagsettu 24. október 2013, krafist endurgreiðslu í samræmi við lög nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Miðist upphaf dráttarvaxta við þá dagsetningu.

Stefnandi byggir vaxtaþátt dómkröfu á 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sbr. einnig ákvæði vaxtalaga nr. 38/2001. Um vexti er vísað til 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga og um upphafstíma þeirra til sömu greinar og 1. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.

Um fjárhæð dráttarvaxta vísar stefnandi til 6. gr. vaxtalaga og um upphafstíma þeirra til 2. mgr. 2. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta. Upphaf dráttarvaxta miðist við 24. október 2013 þegar stefnandi hafi sett fram endurgreiðslukröfu.

Stefnandi byggir varakröfu sína á því að í öllu falli fái innheimta veiðigjalda af grásleppu og grásleppuhrognum fiskveiðiárið 2012/13 ekki staðist. Veiðar á grásleppu fari fram á vorin og sé þeim stýrt með sérstökum hætti með reglugerð, settri á grundvelli 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Fiskveiðiárið 2012/13 hafi gilt reglugerð nr. 106/2013, um hrognkelsaveiðar. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar séu allar veiðar á grásleppu í fiskveiðilandhelgi Íslands óheimilar, nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu samkvæmt 2. gr. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um að leyfi til grásleppuveiða séu bundin við báta, sem hafi rétt til slíkra leyfa á vertíðinni 1997, eða leiði rétt sinn frá þeim. Í 5. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um flutning á grásleppuleyfum milli báta. Skilyrði þess séu að bátur hafi rétt til veiða í atvinnuskyni en enginn greinarmunur sé gerður á því hvort um krókaaflamarksbát eða smábát í aflamarkskerfi sé að ræða. Í 6. gr. sé að finna skilyrði sem afmarki nánar að grásleppuveiðar krókabáta fari fram á grundvelli reglugerðarinnar og að bátarnir séu ekki gerðir út á sama tíma til almennra veiða krókabáta.

Stefnandi byggir á því að réttur báta til grásleppuveiða á grundvelli reglugerðar um hrognkelsaveiðar sé sambærilegur að því er varði rétt til að koma með grásleppuafla að landi og sem máli skipti um skattlagningu þess afla. Áréttar stefnandi að staða aflamarksbáta og krókabáta kunni að vera mismunandi varðandi stöðu meðafla en veiðar á grásleppu hvíli hins vegar á sama réttargrundvelli og hjá öllum bátum. Vísar stefnandi til fyrri umfjöllunar um jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar og sjónarmiða um skýringu þess. Í mismunandi álagningu veiðigjalda á grásleppu og grásleppuhrogn á bát stefnanda annars vegar og þess hluta grásleppubáta, sem hafi leyfi til veiða í atvinnuskyni sem krókabátar hins vegar, felist ólögmæt mismunun. Engin hlutlæg og málefnaleg sjónarmið réttlæti mismunandi skattalega stöðu grásleppuafla milli báta með grásleppuleyfi. Vísar stefnandi til fyrri umfjöllunar um hvernig ákvæði veiðigjaldalaga um mismunandi skattlagningu virðist vera komin til vegna mistaka eða misskilnings í lagasetningu þar sem litið hafi verið til álagningarreglna laga um veiðieftirlitsgjald í yngri lagasetningu. Allir bátar með grásleppuleyfi hafi sambærilega stöðu um rétt til veiða í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar. Hvergi liggi fyrir mat löggjafans um forsendur mismunandi skattlagningar og þá séu vandséð málefnaleg sjónarmið í skilningi jafnræðisreglu og meðalhófsreglna stjórnskipunarréttar. Að mati stefnanda réttlæti engin hlutlæg og málefnaleg sjónarmið mismunandi skattalega stöðu grásleppuafla milli báta með grásleppuleyfi. Allir bátar með grásleppuleyfi hafi sambærilega stöðu um rétt til veiða í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá byggir stefnandi á því að innheimta veiðigjalda af grásleppu og grásleppuhrognum uppfylli ekki kröfur sem 77. gr. stjórnarskrárinnar geri til skattheimtu, sbr. umfjöllun í aðalkröfu. Er vísað til þess að lagaákvæði um þorskígildisstuðla séu að grunni til sett í löggjöf, án þess að til hafi staðið að reikna hann á grásleppu. Lagákvæðið sé ekki nægjanlega skýr grundvöllur fyrir slíka útreikninga.

Að áliti stefnanda felur útreikningur á þorskígildisstuðlum fyrir grásleppu í sér ólögmætt valdframsal til stjórnvalda. Afurðir grásleppu séu einkum tvær, þ.e. annars vegar grásleppuhrogn og hins vegar fiskurinn sjálfur. Í 19. gr. fiskveiðistjórnunarlaga sé kveðið á um að bera skuli verðmæti afurða saman við verð á slægðum þorski. Þá komi fram að miða skuli við slægðan botnfisk og slitinn humar. Ekki sé til staðar viðmið varðandi grásleppu. Það sé því fyrst og fremst ákvörðun stjórnvalda að reikna þorskígildisstuðulinn, bæði varðandi fiskinn og hrognin, en hrogn séu ekki reiknuð í þorskígildisstuðla fyrir aðrar tegundir almennt, þótt þau kunni að hafa verðgildi. Þá hafi það enga stoð að reikna þorskígildisstuðul á grásleppuhrogn ein og sér, sbr. álagningu veiðigjalds á stefnanda samkvæmt framlagðri frumálagningarskýrslu. Slíkur stuðull komi ekki fram í reglugerð nr. 619/2012.

Valdframsal varðandi álagningu veiðigjalda felist jafnframt í því að þorskígildisstuðlar grásleppu hvíli ekki á vigtun á grásleppufiski annars vegar og grásleppuhrognum hins vegar hjá einstökum skattaðilum. Samkvæmt 4. og 5. mgr. 9. gr. reglugerðar um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2012/2013 skuli við umreikning reiknaðra grásleppuhrogna í heila grásleppu miðað við margföldunarstuðulinn 3,4 og við ákvörðun magns hrogna í aflaskráningarkerfi skuli miðað við reiknistuðulinn 0,8.

Þá sé greiðslufyrirkomulag á grásleppuafla ólíkt því sem almennt gildi um fiskafla. Grásleppuhrogn séu í verulegum mæli sett í umboðssölu þar sem endanlegt kaupverð liggi ekki fyrir fyrr en afurðin er seld. Forsendur fyrir verðmæti grásleppuhrogna hvíli því á áætlunum um væntanlegt söluverð, sem settar séu fram við skil aflaskýrslna af einstökum útgerðum eða áætlunum Fiskistofu um slík verðmæti. Ákvæði 19. gr. fiskveiðistjórnunarlaga feli ekki í sér heimild til að leggja áætlanir til grundvallar við útreikning þorskígildisstuðla. 

Þá vísar stefnandi að öðru leyti til umfjöllunar um aðalkröfu og upplýsinga um stefnufjárhæðir í málavaxtalýsingu.

IV.

Í greinargerð sinni vísar stefndi til ákvæða laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og laga nr. 74/2012, um veiðigjöld. Kveður stefndi ljóst af lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, að veiðigjöldum sé ætlað að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum, fiskvinnslu og að tryggja íslensku þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarafurða skapi, sbr. 2. gr. þeirra laga. Í lögunum sé farin sú leið að innheimta endurgjald fyrir nýtingu á þeirri sameign þjóðarinnar, sem nytjastofnarnir séu, með innheimtu gjalds sem uppfylli þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt stjórnarskrá við álagningu skatta. Uppfylli lögin þær kröfur að mati stefnda.

Af 1. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sé jafnframt ljóst að allir nytjastofnar á Íslandsmiðum séu í sameign íslensku þjóðarinnar og að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Markmið laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sé að stuðla að viðgangi og hagkvæmri nýtingu nytjastofnanna og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.

Stefndi vísar til þess að allir nytjastofnar samkvæmt lögum nr. 116/2006 og lögum nr. 79/1997, sem bæði fjalli um stjórnun fiskveiða, séu undir stöðugri vöktun og eftirliti Hafrannsóknarstofnunar og í því skyni sé í lögunum kveðið á um skilyrði sem varði almenn og sérstök veiðileyfi vegna veiða í atvinnuskyni, um hámarksafla í einstökum tegundum og eftir atvikum í því sambandi úthlutun á einstök skip í formi aflahlutdeildar og aflamarks með aflaheimildum með öðrum hætti eða lönduðum afla á grundvelli veiðileyfa í atvinnuskyni.

Allar veiðar úr nytjastofnum í atvinnuskyni séu háðar almennu veiðileyfi og eftir atvikum sérstöku veiðileyfi. Meðafli, sem stefnandi hafi fengið við veiðar í net og veiðar hans á grásleppu með grásleppunetum og meðafli er þar hafi fengist utan aflamarks, hafi þannig verið háður stjórnun veiða í skilningi framangreindra laga og 1. gr. og 6. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, án tillits til þess hvort veiðar í þeim tegundum væru háðar ákvörðun um hámarksafla og hlutdeildarsetningu á skip.

Stefnandi beri bát sinn, sem sé í aflamarkskerfi, saman við báta í krókaaflamarkskerfi og telji þá í öllu sem máli skipti sambærilega í skilningi 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, þ. á m. um skattskyldu. Þetta fái ekki staðist. Bátur stefnanda sé í aflamarkskerfi, hafi aflahlutdeild, fái úthlutað aflamarki í fjölmörgum kvótabundnum tegundum og sé heimilt að sækja þær með margvíslegum veiðarfærum. Honum sé auk þess heimilt að flytja til sín aflahlutdeild í öðrum kvótabundnum tegundum. Enn fremur sé honum heimilt innan árs að leigja til sín aflamark í þeim tegundum sem hann hafi ekki aflahlutdeild í. Krókaaflamarksbátar hafi einungis krókaaflahlutdeild í tilteknum tegundum, þ.e. þorski, ýsu, ufsa, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa. Óheimilt sé að flytja aflahlutdeild í öðrum tegundum til krókaaflamarksbáts, þótt heimilt sé að leigja til sín aflamark í öðrum tegundum botnfisks. Krókaaflamarksbátum sé jafnframt óheimilt að stunda veiðar með öðrum veiðarfærum en handfærum og línu.

Af framangreindu telji stefndi ljóst að allnokkur greinarmunur sé á aðstöðu aðila sem veiða annars vegar í aflamarkskerfi og hins vegar í krókaaflamarkskerfi og séu þessir útgerðarflokkar ekki sambærilegir og samanburðarhæfir í skilningi 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár.

Stefndi vísar til þess að stefnandi reisi endurgreiðslukröfur sínar aðallega á því að útgerðarflokkum sé mismunað við álagningu veiðigjalda þar sem krókaaflamarksbátum hafi ekki verið gert að greiða veiðigjöld af þeim tegundum sem ekki sæti ákvörðun um heildarafla og sem endurgreiðslukrafa stefnanda taki til.

Í stefnu sé rakið að á stefnanda hafi, fiskveiðiárið 2012/2013, verið lögð almenn og sérstök veiðigjöld vegna landaðs afla í tegundum, sem ekki sættu veiðistjórnun, með ákvörðun um hámarksafla tegunda, þ.e. hlýra, tindaskötu, rauðmaga og grásleppu. Að mati stefnda sé það í fullkomnu samræmi við ákvæði um gjaldskyldu í 6. gr. og 7. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld.

Stefndi vísar í þessu sambandi til þess að samkvæmt 6. gr. laganna séu gjaldskyldir aðilar einstaklingar og lögaðilar sem fái úthlutað aflamarki, öðrum aflaheimildum eða landi afla á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða. Í 1. mgr. 7. gr. sé kveðið á um það að gjaldstofn almenns og sérstaks veiðigjalds sé afli hvers gjaldskylds aðila í þorskígildum samkvæmt úthlutuðu aflamarki, öðrum aflaheimildum eða lönduðum afla. Í 2. mgr. 7. gr. sé kveðið á um það að þegar um sé að ræða tegundir, sem úthlutað sé til einstakra skipa, skuli gjöldin miðast við úthlutað aflamark í kílóum talið. Ákvæði 3. mgr. 7. gr. hljóði svo: „Fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en greinir í 2. mgr. skulu gjöldin miðast við landaðan afla skips í viðkomandi tegund samkvæmt aflaupplýsingakerfi Fiskistofu á tólf mánaða tímabili sem lýkur einum mánuði fyrir upphaf fiskveiðiárs eða veiðitímabils. Gjöld vegna strandveiða miðast við landaðan afla í strandveiðum og miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum í en sæta ákvörðun um heildarafla.“

Stefndi kveður sér ekki hafa verið ljóst fyrr en stefna í máli þessu barst að Fiskistofa hefði ekki lagt á krókaaflamarksbáta almenn og sérstök veiðigjöld vegna ofangreindra tegunda þ.e. hlýra, tindaskötu, rauðmaga og grásleppu á fiskveiðiárinu 2012/2013. Að mati stefnda sé þessi framkvæmd Fiskistofu án lagastoðar og beri að leggja á krókaaflamarksbáta almenn og sérstök veiðigjöld vegna ofangreindra tegunda og hafi strax verið brugðist við því. Í stefnu sé því lýst að Fiskistofa byggi þessa framkvæmd sína á lokamálslið 3. mgr. 7. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, þar sem segi: „og miða skal við landaðan afla krókabáta í þeim tegundum sem þeir eru ekki bundnir aflatakmörkunum í en sæta ákvörðun um heildarafla“. Sé óskiljanlegt hvernig af þessu ákvæði sé dreginn sá skilningur að krókaaflamarksbátar skuli vera undanskildir almennu og sérstöku veiðigjaldi vegna framangreindra tegunda. Umræddur lokamálsliður varði, efni sínu samkvæmt, nytjastofnategundir sem sæti ákvörðun um heildarafla.

Á fiskveiðiárinu 2012/2013 hafi tindaskata, hlýri, rauðmagi og grásleppa ekki sætt stjórn veiða með ákvörðun um heildarafla, heldur hafi veiðum á þeim verið stjórnað með öðrum hætti, þ.e.a.s. með almennum og sérstökum veiðileyfum, en enginn þeirra hafi verið háð ákvörðun um heildarafla. Skylda til að greiða almenn og sérstök veiðigjöld af lönduðum afla í þeim tegundum sé skýr og ótvíræð samkvæmt lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, og ekkert í þeim lögum geti heimilað stjórnvöldum að falla frá álagningu og innheimtu þeirra.

Á engan hátt fái þannig staðist, sbr. ákvæði 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar um bann við ákvörðun um niðurfellingu eða breytingu skatta eða gjalda nema með lögum, krafa stefnanda um endurgreiðslu veiðigjalda sem grundvölluð sé á því að Fiskistofa hafi ekki lagt á krókaaflamarksbáta almenn og sérstök veiðigjöld vegna ofangreindra tegunda. Viðbrögð við því verði að vera þau að leitast við að koma fram álagningu á hendur þeim sem, án lagastoðar, hafi sloppið við álagningu og greiðslu veiðigjalda og sé það nú til athugunar hjá stefnda.

Stefndi telji því að álagning almennra og sérstakra veiðigjalda á stefnanda vegna ofangreindra tegunda hafi verið lögmæt og geti ekki talist ólögmæt, þótt í ljós komi að aðrir hafi komist undan álagningu og beri að sýkna af kröfum stefnanda byggðum á mismunun við skattlagningu.

Staðhæfingum stefnanda, um að lög nr. 74/2012, um veiðigjöld, feli í sér óheimilt framsal á skattlagningarvaldi vegna þýðingar þorskígildisstuðla á skattlagningu tegunda, vísar stefndi á bug. Bendir stefndi á að fiskveiðiárið 2012/2013 skyldi almennt veiðigjald vera 9,50 krónur á hvert þorskígildiskíló, sbr. 8. gr., og sérstakt veiðigjald 23,20 krónur á hvert þorskígildiskíló í botnfiskveiðum og 27,50 krónur á þorskígildiskíló í uppsjávarveiðum, sbr. a-lið ákvæðis I til bráðabirgða með lögunum. Samkvæmt 3. gr. laganna hafi þorskígildi og þorskígildisstuðull þá merkingu sem í þau séu lögð í lögum um stjórn fiskveiða. Víða í lögum um stjórn fiskveiða sé miðað við þorskígildi í þágu stjórnunar fiskveiða. Um það megi m.a. vísa til ákvæða 5. tl. 5. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, þar sem mælt sé fyrir um hámarksafla kvótabundinna tegunda í veiðiferð strandveiðibáta. Einnig megi vísa til 7. mgr. 10. gr. um skyldu til að landa afla til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga sem úthlutað sé samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 10. gr., 1. mgr. 11. gr. um heimild til veiða umfram aflamark í einstökum botnfisktegundum og hlutfallslega skerðingu annarra botnfisktegunda í samræmi við verðmætahlutfall einstakra tegunda, sbr. 19. gr., ákvæða í 5. mgr. 15. gr. um niðurfellingu aflahlutdeildar veiði skip minna en 50% á fiskveiðiári af úthlutuðu og fluttu aflamarki frá fyrra árið í þorskígildum talið. Þá sé í ákvæðum 7. mgr. 15. gr. kveðið á um árlegar heimildir til að flytja af skipi 50% af úthlutuðu aflamarki í þorskígildum talið.

Í 19. gr. laganna sé kveðið á um útreikning þorskígilda. Þar segi að ráðuneytið skuli reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund, sem sæti ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 20. gr., og taka mið af tólf mánaða tímabili sem hefjist 1. maí næstliðið ár og ljúki 30. apríl. Þorskígildi skuli reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæti ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skuli leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um.

Samkvæmt 20. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 75/2012, skuli allir þeir, sem fái úthlutað aflaheimildum samkvæmt lögunum eða landa afla fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en úthlutun aflamarks, greiða veiðigjöld eins og í lögum um veiðigjöld greini.

Með 6. gr. reglugerðar nr. 619/2012, um fjárhæð, álagningu og innheimtu veiðigjalda og þorskígildisstuðla fiskveiðiárið 2012/2013, hafi verið ákvarðaðir og birtir þorskígildisstuðlar í samræmi við ákvæði laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og laga nr. 74/2102, um veiðigjöld, þ. á m. fyrir tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu. Ekki sé unnt að fallast á það með stefnanda að útreikningar þorskígilda og þorskígildisstuðla feli í sér óheimilt framsal skattlagningarvalds.

Þorskígildi spegli hlutfallslegt verðmæti ólíkra nytjastofna. Allt frá því að veiðigjöld voru tekin upp með lögum nr. 85/2002 um breytingu á þágildandi lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, hafi álagning þeirra miðast við úthlutun aflaheimilda eða landaðan afla umreiknaðan til þorskígildiskílóa. Um útreikning þorskígilda séu ítarleg fyrirmæli í 19. gr. laga nr. 116/2006. Þorskígildi og þorskígildisstuðlar hafi verið reiknuð á grundvelli opinberra gagna sem Fiskistofa hafi safnað allt frá 2002 og birt séu af Hagstofu Íslands, m.a. vegna álagningar veiðigjalds. Þorskígildi skuli reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæti ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skuli leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um.

Í íslenskri löggjöf sé að finna fjölmörg dæmi um að stjórnvöldum hafi verið falið að taka saman og meta með reglubundnum hætti þætti sem mynda grundvöll að álagningu skatta og gjalda. Sem dæmi megi nefna hlutverk Þjóðskrár Íslands samkvæmt lögum nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, að meta og endurmeta ár hvert (og jafnvel oftar) skráð matsverð fasteigna. Þetta matsverð sé t.d. notað sem grundvöllur að ákvörðun fasteignaskatts samkvæmt lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Fái ekki staðist að slíkt feli í sér óheimilt framsal skattlagningarvalds. Þá vísar stefnandi á bug staðhæfingum stefnanda um að lagastoð skorti fyrir útreikningi þorskígilda samkvæmt 19. og 20. gr. laga nr. 116/2006 fyrir tegundirnar tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu.

Stefndi telji að staðhæfingar stefnanda, um að veiðar á þeim tegundum sæti ekki stjórn á veiðum í skilningi 19. og 20. gr. þeirra laga og laga nr. 74/2014 um veiðigjöld, fái ekki staðist. Allar veiðar á þeim tegundum í atvinnuskyni sæti stjórnun veiða með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks og sæti stjórnun með almennum veiðileyfum og grásleppuveiðar séu til viðbótar háðar sérstökum veiðileyfum.

Stefndi vísar til þess að grásleppuveiðar séu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 97/1997 háðar sérstöku veiðileyfi og almennt bannaðar nema þeim bátum sem rétt áttu til leyfis á grásleppuvertíðinni 1997. Á fiskveiðiárinu 2012/2013 hafi gilt um stjórnun grásleppuveiða reglugerð nr. 106/2013. Sé þannig langsótt að grásleppuveiðar stefnanda á grundvelli sérstaks veiðileyfis þar lútandi, falli ekki undir stjórn veiða með öðrum hætti í skilningi 19. og 20. gr. laga nr. 116/2006 og 1. gr., 6. gr. og 7. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld. Samkvæmt framangreindu hafi útreikningur þorskígilda og þorskígildisstuðla fyrir tegundirnar tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu í 6. gr. reglugerðar nr. 619/2012 átt sér ótvíræða lagastoð.

Stefndi kveðst hafna þeim sjónarmiðum stefnanda að fyrirkomulag á útreikningi þorskígildisstuðla feli í sér of mikið framsal og standist ekki kröfur um efnislegan mælikvarða við álagningu veiðigjalda, þar sem útreikningar þeirra hvíli á ýmsum leiðréttingarstuðlum og taki ekki tillit til kostnaðar við veiðar á einstökum tegundum. Við eftirlit og vöktun nytjastofnanna sé nauðsynlegt að hafa yfirsýn yfir þann afla, sem tekinn sé úr sjó hverju sinni, og sé þá stuðst við landaðan afla sem skylt sé að vigta og skrá, sbr. lög nr. 57/1996, um umgengni við nytjastofna sjávar, og reglugerð nr. 224/2006, um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum.

Landaður afli sé ýmist beint úr sjó eða hafi sætt verkun um borð fyrir löndun, s.s. slægingu eða frekari vinnslu. Allur afli sé skráður í samræmi við það við löndun eftir verkunarstigi, sbr. framlagt yfirlit vegna stefnanda. Samkvæmt yfirlitinu landi stefnandi að stærstum hluta óslægðum afla. Meðafla í hlýra við grásleppuveiðar sé landað slægðum og aðeins við löndun 10. apríl 2013 hafi stefnandi landað lítilsháttar af slægðri grásleppu og grásleppuhrognum.

Allur landaður afli sé skráður inn í aflaskráningarkerfi sem Fiskistofa haldi. Úthlutun aflamarks í hlutdeildarsettum nytjastofnum í botnfiski byggi á slægðum fiski með haus, nema í gull- og djúpkarfa sem miðist við óslægðan fisk. Í uppsjávartegundum sé miðað við óslægðan afla og nytjabotndýrið humar miðist við slitinn humar.

Kveðið sé á um slægingarstuðla, þar sem umreikna þurfi óslægðan fisk til slægðs fisks, í árlegum reglugerðum um stjórn fiskveiða. Á fiskveiðiárinu 2012/2013 hafi verið kveðið á um þá slægingarstuðla í 9. gr. reglugerðar nr. 698/2012, um veiðar í atvinnuskyni. Útreikningar þorskígilda miði við slægðan fisk og sé miðað við þá slægingarstuðla sem fram komi um meðalnýtingu tegunda yfir fiskveiðiár eða vertíð og byggi þeir á rannsóknum og bestu vitneskju hverju sinni.

Álagning veiðigjalda á grundvelli þorskígildisstuðla, sem taki mið af hlutfalli aflaverðmætis hlutaðeigandi tegunda, sé í jaðartilfellum háð vissum annmörkum. Slík skekkja jafnist þó út við veiðar, enda stundi skip jafnan veiðar á mörgum ólíkum tegundum sem jafni hana út. Hafi löggjafinn tekið afstöðu til þess að það sé réttlætanlegt að miða við þorskígildi. Þar er um að ræða einfaldan og skiljanlegan almennan mælikvarða til grundvallar gjaldtöku þar sem allir standi jafnvígis við gjaldtökuna. Jafnframt hafi löggjafinn sjálfur, við ákvörðun á fjárhæð veiðigjalda fiskveiðiárið 2012/2013, tekið með almennum hætti tillit til kostnaðar við veiðarnar þar sem álagning miðist við þorskígildiskíló.

Af hálfu stefnanda sé staðhæft, án nokkurra raka eða gagna almennt og sérstaklega um grásleppu, að álagning á grásleppuútgerð hans jafnist á við álagningu eignarskatta og feli nánast í sér þjóðnýtingu. Stefndi mótmæli þessu sem röngu, haldlausu og ósönnuðu. Til viðbótar sé á það bent og áréttað að álögð og greidd veiðigjöld af hálfu stefnanda séu í rekstri hans frádráttarbær rekstrarútgjöld. Þá sé við ákvörðun löggjafans á fjárhæð veiðigjalda tekið almennt tillit til kostnaðar við veiðar og eðlilega ávöxtun fjár sem bundið sé í rekstrinum.

Fái þannig á engan hátt staðist framangreind sjónarmið stefnanda um ólögmætt framsal skattlagningarvalds vegna þorskígildisstuðla og skort á efnislegum viðmiðunum við álagningu veiðigjalda.

Stefndi vísar til þess að í lok umfjöllunar sinnar um þorskígildisstuðla í aðalkröfu vísi stefnandi jafnframt til umfjöllunar sinnar um varakröfu vegna veiðigjalda á grásleppu. Byggi stefnandi varakröfu sína á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og hann byggi á í aðalkröfu. Vísi stefndi til umfjöllunar hér að framan um lagarök og rök stefnda fyrir því að sjónarmið stefnanda fái ekki staðist.

Stefndi vísar til sjónarmiða stefnanda þess efnis að um ólögmætt framsal skattlagningarvalds sé að ræða þar sem ekki sé nægilega áreiðanlegum gögnum til að dreifa um verðmæti grásleppu og ekki sé fundinn grásleppustuðull fyrir hvern og einn aðila. Þetta fái ekki staðist. Gögn um verðmæti grásleppu vinni Fiskistofa úr vigtar- og ráðstöfunarskýrslum sem kaupendum á sjávarafla sé skylt að skila inn mánaðarlega fyrir kaup sín undangenginn mánuð. Gögn er varði grásleppu og hrogn úr henni séu oft ófullkomin frá hendi kaupendanna vegna þess að endanleg sala á hrognum fari oftar en ekki fram mun seinna en mánuði eftir veiðina þegar kaupendum sé skylt að skila skýrslunum. Af þessum sökum sé nauðsynlegt að afla nánari upplýsinga um rétt verðmæti þessa nytjastofns og hafi það verið gert fyrir ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins um þorskígildisstuðla hinn 13. júlí 2012 og sé gerð ítarleg grein fyrir því í framlögðu bréfi ráðuneytisins. Eins og þar komi fram, hafi forstöðumaður upplýsingasviðs Fiskistofu sent tölvubréf varðandi verðmætastuðul fyrir grásleppu hinn 29. júní 2012 þar sem fram komi að erfiðleikar hefðu verið við að ná fullnægjandi upplýsingum um söluverðmæti grásleppu en það hafi þó verið reynt til hins ýtrasta, þar á meðal með könnun hjá stærstu söluaðilum. Útkoman hafi verið mjög svipuð og í fyrra eða þorskígildisstuðull upp á 0,78. Í ljósi upplýsinga í rafbréfi Fiskistofu og í öryggisskyni, hafi ráðuneytið ákveðið að lækka stuðulinn lítillega og hafi þorskígildisstuðull fyrir grásleppu því verið ákveðinn 0,74, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 619/2012. Hafi sú ákvörðun ráðuneytisins í hvívetna verið lögmæt. Á engan hátt fái þannig staðist staðhæfingar stefnanda um ólögmætt framsal skattlagningarvalds við ákvörðun þorskígildisstuðla vegna grásleppu.

Að því er varðar grásleppuna sérstaklega, vísar stefndi á bug fullyrðingum stefnanda um að lagastoð skorti fyrir álagningu almennra og sérstakra veiðigjalda á hann vegna landaðra grásleppuhrogna en enginn þorskígildisstuðull vegna grásleppuhrogna hefði verið birtur í reglugerð nr. 619/2012. Rétt sé, að ekki hafi verið birtur sérstakur stuðull í þorskígildum fyrir grásleppuhrogn í reglugerð nr. 619/2012. Á fiskveiðiárinu 2012/2013 hafi ekki átt að koma til þess lengur, sem tíðkast hafði um árabil, að henda grásleppuhveljunni en landa aðeins hrognum. Sé gerð grein fyrir þeirri breytingu í framlögðu bréfi sjávarútvegsráðuneytisins og vísist til þess sem þar greini um það efni og hvernig þorskígildi séu fundin við álagningu veiðigjalda fiskveiðiárið 2012/2013 fyrir grásleppuhrogn, þar sem þrátt fyrir það hafi verið landað grásleppuhrognum.

Eins og þar komi fram hafi Fiskistofa við álagningu veiðigjalda þar sem landað var grásleppuhrognum, þurft að styðjast við ákvæði í 4. og 5. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 678/2012, um stjórn fiskveiða, varðandi landaðan afla í grásleppuhrognum. Hafi sú framkvæmd Fiskistofu við álagningu á stefnanda vegna grásleppuhrogna því haft fullnægjandi lagastoð og fá þessi sjónarmið stefnanda þannig ekki staðist.

Verði ekki á sýknukröfu stefnda fallist, krefst stefndi þess til vara að stefnukröfur verði lækkaðar stórkostlega. Í því sambandi kveðst stefndi byggja á öllum framangreindum sjónarmiðum sem færð hafi verið fram til stuðnings sýknu.

V.

Í máli þessu er deilt um það hvort stefnandi eigi rétt á endurgreiðslu veiðigjalda, sem lögð voru á hann vegna afla báts hans af tegundum sem ekki sæta ákvörðun um heildarafla fiskveiðiárið 2012/2013. Stefnandi byggir kröfu sína á því að veiðigjöld samkvæmt lögum nr. 74/2012 séu skattur og skattlagning þessi uppfylli ekki skilyrði stjórnarskrárinnar um skattlagningu, jafnræði og vernd eignarréttar. Þá telur stefnandi útgerðarflokkum mismunað við skattlagningu á afla sem ekki sætir ákvörðun um heildarafla þar sem krókaaflamarksbátar greiði ekki veiðigjöld af þeim tegundum. Jafnframt sæti þessar tegundir ekki ákvörðun um heildarafla og engin stjórn fari fram á veiðum í þessum tegundum í skilningi laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og umgjörð grásleppuveiða hvíli á 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Loks telur stefnandi skorta lagastoð fyrir útreikningi á þorskígildum vegna þessara tegunda, sem ekki sæti stjórn veiða, og feli fyrirkomulag á útreikningi þorskígilda í sér ólögmætt framsal skattlagningarvalds.

Í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, segir í 1. gr. að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar og að markmið laganna sé að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Hefur verið litið svo á að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanleg forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum. Í 2. gr. laganna er því lýst að til nytjastofna teljist sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um. Samkvæmt 4. gr. laganna má enginn stunda veiðar í atvinnuskyni við Ísland nema hann hafi fengið til þess almennt veiðileyfi, þ.e. veiðileyfi með aflamarki eða veiðileyfi með krókaaflamarki. Óumdeilt er að bátur stefnanda er aflamarksbátur. Um almenn og sérstök veiðigjöld gilda lög nr. 74/2012, um veiðigjöld, sem tóku gildi 5. júlí 2012. Í 1. gr. þeirra kemur fram að þau taki til veiðigjalda, almenns veiðigjalds og sérstaks veiðigjalds, sem lögð eru á aflamark, aðrar úthlutaðar aflaheimildir eða landaðan afla, fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks, samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða eða öðrum lögum er við geta átt. Samkvæmt 6. gr. laganna eru þeir aðilar gjaldskyldir sem fá úthlutað aflamarki, öðrum aflaheimildum eða landa afla á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga sem kveða á um stjórn fiskveiða. Í 20. gr. laga nr. 116/2006 er síðan mælt fyrir um að allir þeir, sem fái úthlutað aflaheimildum samkvæmt lögunum, eða landa afla fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks, skuli greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir.

Af framangreindu er ljóst að veiðar úr nytjastofnum í atvinnuskyni eru háðar almennu veiðileyfi og eftir atvikum sérstöku veiðileyfi. Meðafli, sem stefnandi hafi fengið við veiðar í net og meðafli, sem þar hefur fengist utan aflamarks, var þannig háður stjórnun veiða í skilningi framangreindra laga og 1. gr. og 6. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, án tillits til þess hvort veiðar í þeim tegundum voru háðar ákvörðun um hámarksafla og hlutdeildarsetningu á skip. Þá verður af framangreindu ráðið að gjaldskyldir aðilar samkvæmt ákvæði 6. gr. laganna eru allar persónur að lögum sem fá úthlutað veiðiheimildum eða geta landað afla á grundvelli laga um stjórn fiskveiða og annarra laga sem kveða á um stjórn fiskveiða.

Um grásleppuveiðar gilda ákvæði laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, en samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna eru grásleppuveiðar háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Enn fremur kom fram í 1. gr. reglugerðar nr. 106/2013, sem gilti um grásleppuveiðar á fiskveiðiárinu 2012/2013, að allar veiðar á grásleppu í fiskveiðilandhelgi Ísland væru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu.

Þar sem grásleppuveiðar voru þannig leyfisskyldar, voru þeir sem þær veiðar stunduðu fiskveiðiárið 2012/2013 gjaldskyldir í skilningi 6. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, sem og meðafli með þeim veiðum. Eins og fram er komið kveðst stefnandi reka bátinn Halldór NS 302, sem fær úthlutað aflamarki, m.a. í þorski og ýsu, og er hann gerður út á hefðbundnar botnfiskveiðar. Eru veiðar stefnanda á bátnum því gjaldskyldar samkvæmt framangreindu. Þá liggur frammi í málinu yfirlit vegna bátsins um afla hans á fiskveiðiárinu 2012/2013 og hefur því ekki verið mótmælt. Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að stefnandi hafi verið gjaldskyldur vegna útgerðar sinnar á umræddum báti.

                Kemur þá til skoðunar hvort gjaldið hafi verið rétt lagt á stefnanda. Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, eins og ákvæðið var orðað fiskveiðiárið 2012/2013, segir að gjaldstofn almenns og sérstaks veiðigjalds sé afli hvers gjaldskylds aðila í þorskígildum samkvæmt úthlutuðu aflamarki, öðrum aflaheimildum eða lönduðum afla. Í því máli sem hér er til umfjöllunar var veiðigjald lagt á landaðan afla stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að, þrátt fyrir ofangreint, hafi ekki verið heimilt að leggja á hann veiðigjald, enda felist í álagningunni óheimil mismunun þar sem ekki hafi verið lagt veiðigjald á báta í krókaaflamarkskerfi, sem hafi að öðru leyti verið í sambærilegri stöðu og aflamarksbátur stefnanda. Þá hafi löggjafinn í raun ekki lagt mat á málefnalegar forsendur þess að mismunandi skattlagning væri á afla í tegundum sem sæti ekki ákvörðun um heildarafla.

Hér verður að líta til þess að bátur stefnanda er í aflamarkskerfi og hefur því aflahlutdeild og fær úthlutað aflamarki í mörgum kvótabundnum tegundum. Auk þess er honum heimilt að sækja aflann með margvíslegum veiðarfærum, flytja til sín aflahlutdeild í öðrum kvótabundnum tegundum og leigja aðrar tegundir. Staða krókaaflamarksbáta er ólík að þessu leyti, enda hafa þeir einungis krókaaflahlutdeild í tilteknum tegundum, þ.e. þorski, ýsu, ufsa, steinbít, löngu, keilu og gullkarfa og er m.a. óheimilt að stunda veiðar með öðrum veiðarfærum en handfærum og línu. Er því ljóst að nokkur munur er á stöðu þeirra sem veiða annars vegar í aflamarkskerfi og hins vegar í krókaaflamarkskerfi. Þá verður einnig litið til þess, sem fram kom hjá stefnda, að sú framkvæmd Fiskistofu að innheimta ekki veiðigjöld á krókaaflamarksbáta væru mistök, enda yrði sú ráðstöfun ekki leidd af ákvæðum 3. mgr. 7. gr. laga nr. 74/2012.

Að þessu virtu og þegar litið er til þess sem að framan greinir um tilgang laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og ákvæði laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, um gjaldskyldu og gjaldstofn, verður ekki fallist á það með stefnanda að um sé að ræða mismunun milli annars vegar aflamarksbáta og hins vegar krókaaflamarksbáta. Verður því að fallast á það með stefnda að aðstaðan sé að þessu leyti ósambærileg í skilningi 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Á það einnig við að því er varðar veiðar á grásleppu. Sjónarmið stefnanda um að löggjafinn hafi ekki byggt á málefnalegum forsendum við mismunandi gjaldtöku að þessu leyti koma því ekki til frekari skoðunar. Loks er það mat dómsins að endurgreiðslukrafa stefnanda verði ekki byggð á þeirri málsástæðu að um mistök stefnda hafi verið að ræða við gjaldtöku af annarri tegund útgerðar.

Stefnandi heldur því enn fremur fram að hin umdeilda gjaldtaka fari gegn ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að skattamálum skuli skipað með lögum og að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema. Þá byggir stefnandi á því að lög nr. 74/2012, um veiðigjöld, feli í sér ólögmætt framsal á skattlagningarvaldi til stjórnvalda vegna þýðingar þorskígildisstuðla við skattlagningu en samkvæmt 19. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, sem 2. gr. laga um veiðigjöld vísar til, skuli ráðuneytið eftir nánar tilgreindri aðferð reikna þorskígildi fyrir 15. júlí hvert ár fyrir hverja tegund sem sæti ákvörðun um stjórn veiða.

Áður er rakin sú niðurstaða dómsins að á stefnanda hvíli skylda til greiðslu veiðigjalda lögum samkvæmt. Um gjaldstofn almenns og sérstaks veiðigjalds segir í 7. gr. laga nr. 74/2012 að hann sé afli hvers gjaldskylds aðila í þorskígildum samkvæmt úthlutuðu aflamarki, öðrum aflaheimildum eða lönduðum afla. Er í 8. gr. laganna að finna nokkuð ítarlega útfærslu á álagningu almenns veiðigjalds og tölulegan grunn hennar. Ákvæði 1. mgr. 9. gr. laganna um ákvörðun fjárhæðar sérstaks veiðigjalds, byggð á ákvæðum 10.-12. gr. laganna, hafa enn ekki komið til framkvæmda en í 1. mgr. a-liðs ákvæðis I til bráðabirgða var kveðið á um að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 9. gr. skyldi sérstakt veiðigjald á fiskveiðiárinu 2012/2013 vera 23,20 krónur á hvert þorskígildiskíló í botnfiskveiðum. Samkvæmt fyrirmælum í 1. mgr. 13. gr. laganna er Fiskistofu falið að leggja gjöldin á. Þá koma fram í 19. gr. laga nr. 16/2006 fyrirmæli um að ráðuneytið skuli reikna þorskígildi fyrir 15. júlí ár hvert fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn veiða, sbr. 20. gr. laganna. Í lagaákvæðinu er einnig að finna nánari útlistun á útreikningi þorskígilda og segir þar m.a.: „Þorskígildi skulu reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sætir ákvörðun um stjórn veiða af verðmæti slægðs þorsks. Til grundvallar verðmætaútreikningi skal leggja heildaraflamagn og heildarverðmæti þessara tegunda samkvæmt upplýsingum Fiskistofu þar um. Þegar fiskur er seldur ferskur erlendis skal miða við 88% af söluverðmæti hans. Varðandi botnfisk, að undanskildum karfa, skal miða við slægðan fisk. Miða skal við slægðan humar.“ Með 6. gr. reglugerðar nr. 619/2012, um fjárhæð, álagningu og innheimtu veiðigjalda og þorskígildisstuðla fiskveiðiárið 2012/2013, voru ákvarðaðir og birtir þorskígildisstuðlar í samræmi við ákvæði laga nr. 116/2006 og laga nr. 74/2012, m.a. fyrir tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu.

Að þessu virtu verður ekki fallist á það með stefnanda að fyrirkomulag á útreikningi þorskígildisstuðla vegna botnfiskveiða skorti lagastoð. Fyrirmæli laganna um útreikning og álagningu gjaldanna eru skýrlega fram sett í lögum og fela í sér hlutlægar og gagnsæjar reglur sem reistar eru á almennum efnislegum mælikvarða. Fram kemur í framlögðu bréfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til lögmanns stefnda, dagsettu 17. október 2014, að þorskígildi og þorskígildisstuðlar hafi verið reiknuð á grundvelli opinberra gagna sem Fiskistofa hefur safnað, allt frá árinu 2002. Sýnist því ljóst, að sá útreikningur þorskígilda, sem liggur til grundvallar álagningu veiðigjalda á botnfisktegundir, hvíli bæði á skýrum lagafyrirmælum og gögnum. Í þessu ljósi verður hvorki fallist á sjónarmið stefnanda um að þorskígildisstuðlar séu ekki í neinu samhengi við afrakstur af veiðum á einstökum tegundum né að skattlagning veiðigjalda feli í sér ólögmæta þjóðnýtingu, eins og kemur fram í stefnu. Breytir engu um þá niðurstöðu þótt útreikningur þorskígildisstuðla hvíli að einhverju leyti á ýmsum leiðréttingarstuðlum, enda er tilgangur þeirra sá að finna út með nákvæmari hætti, hvert er verðgildi hverrar tegundar um sig.

Ekki verður fallist á það með stefnanda að útreikningur á þorskígildisstuðlum fyrir grásleppu sé ólögmætur, enda eiga hér við sömu sjónarmið og áður eru rakin um fyrirmæli 19. gr. laga nr. 116/2006 um slíkan útreikning fyrir hverja tegund sem sætir ákvörðun um stjórn fiskveiða. Grásleppa er botnfisktegund og þá liggur fyrir að útreikningur þorskígildisstuðuls vegna grásleppu var birtur í reglugerð nr. 619/2012, um fjárhæð, álagningu og innheimtu veiðigjalda og þorskígildisstuðla fiskveiðiárið 2012/2013, sem sett var með heimild í lögum nr. 74/2012, um veiðigjöld, og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í ljósi áðurgreinds þykir engu breyta þótt ákvæði um þorskígildisstuðla hafi að grunni til verið bundið í lög áður en ákveðið var að reikna slíkan stuðul vegna grásleppu. Þá eiga hér einnig við sömu sjónarmið og áður eru rakin að því er varðar niðurstöðu dómsins um að ekki sé um að ræða mismunun milli annars vegar aflamarksbáta og hins vegar krókaaflamarksbáta. Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á það með stefnanda að álagning veiðigjalda feli í sér slíkt framsal skattlagningarvalds að fari í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því að hafna kröfu stefnanda um endurgreiðslu veiðigjalda vegna botnfisktegundanna tindaskötu, hlýra, rauðmaga og grásleppu.

Stefnandi byggir varakröfu sína varðandi útreikning stefnda á þorskígildisstuðli fyrir grásleppuhrogn ein og sér á því að hann eigi sér enga stoð, enda komi slíkur stuðull ekki fram í reglugerð nr. 619/2012. Af hálfu stefnda er þessu mótmælt og á því byggt að á fiskveiðiárinu 2012/2013 hafi staðan verið sú að ekki hefði lengur átt að koma til þess að henda grásleppuhveljunni en landa aðeins hrognum. Hefði því ekki verið birtur sérstakur stuðull fyrir hrognin í framangreindri reglugerð. Í áðurnefndu bréfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins til stefnda, dagsettu 17. október 2014, kemur fram að við útreikning á veiðigjöldum á grásleppuhrogn hafi verið litið til ákvæða í 4. og 5. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 698/2012, um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2012/2013.

Samkvæmt 19. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skulu þorskígildi reiknuð sem hlutfall verðmætis einstakra tegunda sem sæta ákvörðun um stjórn fiskveiða. Áður er getið þeirrar niðurstöðu dómsins að afli stefnanda hafi verið háður stjórnun fiskveiða í skilningi laganna. Grásleppuhrogn eru hluti af verðmæti grásleppu. Verður því að telja að álagning veiðigjalds eigi sér nægilega lagastoð, þótt ekki hafi verið ákveðinn þorskígildisstuðull fyrir hrognin sérstaklega. Ekki hefur verið sýnt fram á að sú framkvæmd, sem höfð var við útreikning veiðigjalds á grásleppuhrogn umrætt sinn, hafi verið röng eða ósanngjörn og þá er ljóst af framansögðu að hún á sér skýringar. Er því hafnað varakröfu stefnanda að því er varðar álögð veiðigjöld á grásleppuhrogn vegna fiskveiðiársins 2012/2013.

Að öllu framangreindu virtu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eins og mál þetta er vaxið þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Halldórs fiskvinnslu ehf., í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.