Print

Mál nr. 735/2013

Lykilorð
  • Fiskveiðibrot
  • Vigtun sjávarafla
  • Refsiheimild
  • Stjórnvaldsfyrirmæli
  • Stjórnarskrá

                                     

Miðvikudaginn 28. maí 2014.

Nr. 735/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Jóhannes Ásgeirsson hrl.)

Fiskveiðibrot. Vigtun sjávarafla. Refsiheimild. Stjórnvaldsfyrirmæli. Stjórnarskrá.

X var ákærður fyrir brot gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni við nytjastofna sjávar og reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla. X var sýknaður af broti gegn ákvæðum 1. mgr. 6. gr. og 10. gr. laga nr. 57/1996 svo og ákvæðum reglugerðar 224/2006 sem fjölluðu um skyldu ökumanns, sem flytur óveginn afla, til að aka rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog. Þá var X einnig sýknaður af broti er laut að því að aka bifreið með afla án þess að hafa vigtarnótu meðferðis en slíkt var óheimilt samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 224/2006. Í dómi Hæstaréttar kom fram að umrætt reglugerðarákvæði skorti viðhlítandi lagastoð.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Helgi I. Jónsson og Hjörtur Torfason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. nóvember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Ákæruvaldið krefst þess að  refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst krefst aðallega sýknu, en til vara að fésekt verði lækkuð.

Í máli þessu er ákærða gefið að sök brot gegn lögum nr. 57/1996 um umgengni við nytjastofna sjávar og reglugerð nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla með því að hafa 26. nóvember 2010, eftir löndun úr skipinu A við [...], ekið bifreiðinni [...] með tvö fiskikör, sem höfðu að geyma samtals 857 kg af óslægðum þorski, að verðmæti 295.752 krónur, án viðkomu á hafnarvog, þannig að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann bárust ekki vigtarmanni. Þá er hann ákærður fyrir að hafa ekið fyrrgreindri bifreið, án þess að hafa vigtarnótu meðferðis, frá [...] til [...] og þaðan í [...] svo sem nánar greinir í ákæru. Brot ákærða eru talin varða við 1. mgr. 6. gr. og 10. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57/1996 og 3. gr., 1. mgr. 6. gr., 7. gr. og 8. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr. reglugerðar nr. 224/2006.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af ákæru að öðru leyti en því að hann var sakfelldur fyrir að hafa flutt umræddan afla á bifreiðinni [...] án þess að hafa vigtarnótu meðferðis og með þeirri háttsemi brotið gegn 3. gr. reglugerðar nr. 224/2006.

Skipstjóra fiskiskips er samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 skylt að halda afla um borð í skipi sínu aðgreindum eftir tegundum og láta vigta hverja tegund sérstaklega. Þá ber honum að tryggja að réttar og fullnægjandi upplýsingar um afla berist til vigtarmanns í löndunarhöfn. Af þessu er ljóst að skipstjóri fiskiskips ber meginábyrgð á vigtun afla. Í 10. gr. laganna er þó einnig kveðið á um að ökumaður, sem flytur óveginn afla, skuli aka rakleiðis frá skipshlið að hafnarvog, að undanteknum þeim tilvikum þegar Fiskistofa hefur veitt undanþágu frá vigtun á hafnarvog, sbr. 2. mgr. 6. gr., en ökumaðurinn skal kynna sér samsetningu farmsins eins og kostur er og gefa vigtarmanni upplýsingar um hann. Við löndunina í [...] umrætt sinn stóð svo á að hafnarvog var tímabundið úr notkun. Var aflinn af A því veginn á löggiltum tækjum fiskmarkaðarins þar í bæ, sem staðsettur er á hafnarsvæðinu, og fluttur þangað og þaðan með lyftara. Nánari atvik í þessu sambandi voru ekki rannsökuð frekar. Samkvæmt gögnum málsins er ósannað að ákærði hafi átt aðra aðkomu að framkvæmdinni en að leggja fyrrnefndri flutningabifreið við höfnina þar sem hentugt væri að taka við körum með fiski úr skipinu. Fyrir liggur þannig að þegar ákærði ók bifreiðinni af stað frá [...] með aflann hafði honum verið landað, hann veginn á fiskmarkaðnum í beinu framhaldi þar af og honum að því loknu hlaðið í bifreið ákærða, án aðkomu hans og án þess að séð verði að til hennar hafi verið ætlast. Að þessu virtu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða af broti gegn 1. mgr. 6. gr. og 10. gr. laga nr. 57/1996, svo og 1. mgr. 6. gr., 7. gr. og 8. gr. reglugerðar nr. 224/2006.

Eftir 3. gr. reglugerðar nr. 224/2006 skal ökumaður flutningstækis, sem flytur afla, fá afrit af vigtarnótu og afhenda viðtakanda afla og er ökumanni óheimilt að flytja afla fyrr en hann hefur fengið vigtarnótu afhenta. Ákærði hefur gengist við að hafa ekið áðurnefndri bifreið frá Ólafsvík án þess að hafa vigtarnótu svo sem honum er gefið að sök í ákæru.

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Þessi grundvallarregla um lögbundnar refsiheimildir kemur einnig fram í 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Efnisatriði 3. gr. reglugerðar nr. 224/2006 eru einföld og varða eðlilegan þátt í starfi flutningsmanns að farmi. Engu að síður er ljóst að þau eiga ekki samsvörun í ákvæðum laga nr. 57/1996, enda er þar hvorki lögð skylda á ökumann afla úr fiskiskipi til að útvega sér afrit af vigtarnótu né er lagt þar bann við því að hann flytji aflann fyrr en hann hafi fengið afhent slíkt skjal. Skortir því viðhlítandi lagastoð fyrir því að ákærði hafi unnið sér til refsingar með fyrrnefndri háttsemi sinni, en af því leiðir að hann verður sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði og áfrýjunarkostnaður þess, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður málsins í héraði, eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi, og áfrýjunarkostnaður þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 31. október 2013.

Máli þessu, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 20. nóvember 2012 og dæmt 20. desember sama ár, var heimvísað og dómur ómerktur með dómi Hæstaréttar Íslands 3. október sl. í máli 212/2013. Að afloknum munnlegum málflutningi að nýju í dag, sbr. 3. mgr. 166. gr. laga nr. 88/2008, var það dómtekið að nýju. Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum dagsettri 11. júní 2012 og síðan framhaldsákæru útgefinni 15. nóvember 2012 á hendur X, [...], og Y, [...].

I.

         Gegn ákærða X fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla, með því að hafa, 26. nóvember 2010, eftir löndun úr skipinu A, skipaskrárnúmer [...], við [....], ekið bifreiðinni [...], með tvö fiskikör, sem innihéldu samtals 857 kg af óslægðum þorski, samtals að verðmæti 295.752 kr., án viðkomu á hafnarvog, þannig að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann bárust ekki vigtarmanni. Bifreiðinni ók ákærði X, án þess að hafa vigtarnótu meðferðis, frá [...] og að húsnæði fiskverkunarinnar B ehf., [...], þar sem tekin voru fjögur kör af fiski úr bifreiðinni, þaðan hélt ákærði X að húsnæði fiskverkunarinnar C ehf., [...], þar sem tekin voru þrettán kör af fiski úr bifreiðinni, þaðan ók ákærði X áleiðis til [...] þar sem lögregla stöðvaði för hans rétt vestan við [...].

                Telst háttsemi þessi varða við 1. mgr. 6. gr. og 10. gr., sbr. 23. gr., laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og 3. gr., 1. mgr. 6. gr., 7. gr. og 8. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr., reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla nr. 224/2006.

II.

                Gegn ákærða Y, skipstjóra A, skipaskrárnúmer [...], fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla, með því að hafa ekki, þann 25. nóvember 2010, tryggt að sá afli sem I. liður ákærunnar tilgreinir færi á hafnarvogina í [...], þannig að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann bárust ekki vigtarmanni en með því móti reiknaðist sá afli skipsins ekki með réttum hætti til aflamarks skipsins en aflann flutti meðákærði X framhjá hafnarvoginni líkt og tilgreint er í ákærulið I.

                Telst þessi háttsemi varða við 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr., sbr. 23. gr., laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og 1. mgr. 2. gr., 6. og 7. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr., reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla nr. 224/2006.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Ákærðu krefjast báðir sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, en til vara vægustu refsingar sem lög frekast leyfa.

I.

Samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglu bar upphaf þessa máls að með þeim hætti, að klukkan rúmlega 5 að morgni 26. nóvember 2010 óskaði D, eftirlitsmaður Fiskistofu, eftir aðstoð lögreglu við að stöðva flutningabifreiðina [...] á [...]. Hafði D skömmu áður haft afskipti af ökumanni bifreiðarinnar, X, öðrum ákærða í máli þessu, sem hann kvaðst gruna um framhjálöndun úr bátnum A á [...] fyrr um kvöldið. Sagði D að fylgst hafi verið með löndun úr A í [...] og bifreiðinni veitt eftirför frá löndunarstað og að fiskverkunum í [...] og [...].

Utan við fiskverkun B ehf. hefði ákærði X sagt að hann væri að koma með afla úr A sem hefði verið landað í [...] kvöldið áður. Hafi X sagst vera með alls 17 kör af fiski í bílnum ásamt einhverju af tómum körum. Þarna tók X 1 kar af slægðri löngu og 3 kör af óslægðri ýsu af bifreiðinni og lét inn í fiskmóttöku B. Að því búnu hefði D veitt honum eftirför að fiskverkun C í [...]. Þar tók X 13 kör af óslægðum þorski af bifreiðinni og lét inn í fiskmóttöku C. Taldist eftirlitsmanninum þá svo til að X væri búinn að taka 17 kör af bílnum eða allan þann afla sem hann hafði sagst vera með í bifreiðinni. Óskaði eftirlitsmaðurinn eftir því að fá að skoða inn í bifreiðina til þess að fullvissa sig um að allur fiskur væri farinn úr bifreiðinni. X neitaði eftirlitsmanni um þetta og sagði að engin kör með fiski væru eftir í bifreiðinni og ók á brott í áttina til [...].

Lögreglan stöðvaði bifreiðina skammt frá Keflavík og innti X eftir því hvað hann væri með í bifreiðinni og svaraði hann því til að hann væri einungis með tóm kör. Við nánari skoðun lögreglu kom í ljós að auk þess að vera með tóm kör og nokkur bretti var X með í bifreiðinni 2 kör sem óslægður þorskur var í. Varð X missaga um það við lögreglu hvert sá fiskur ætti að fara, en á vettvangi gat hann ekki útskýrt hvert förinni væri heitið með fiskinn. Við yfirheyrslu hjá lögreglu sagði hann síðan að fiskurinn hafi átt að fari til Hafnarfjarðar án nánari útskýringa.

Samkvæmt vigtarnótum til endurvigtunar frá hafnarvigtinni á [...] sést að C kaupir 13 kör af fiski og B 4 kör.

Eftirlitsmaður Fiskistofu sem lét fylgjast með löndun í [...], þar sem 19 körum af fiski var landað úr A, fylgdist einnig með því þegar 4 körum var ekið til B og 13 körum til C en á Ólafsvík höfði einungis verið gefin upp 17 kör.

Lögreglan lagði hald á aflann í körunum tveimur og var hann vigtaður á hafnarvoginni  í [...] og reyndist vera um að ræða 857 kg af óslægðum þorski að verðmæti 295.752 krónur.

II.

Framburður ákærðu:

Ákærði Y sagðist neita sök. Kvaðst ákærði hafa starfað í sjávarútvegi í tæp þrjátíu ár og þar af mestan part sem skipstjóri. Kvaðst ákærði hafa verið við löndunina á A í umrætt sinn. Hann hafi verið skipstjóri og fylgst með því hvað var í körum sem hífð voru upp úr bátnum og sagði að sá sem tók við körunum hljóti að hafa farið með þau á vigtina sem að þessu sinni var á Fiskmarkaðinum í [...]. Ákærði kvaðst ekki vita hverjir stjórnuðu lyfturunum sem fóru með aflann upp á vigt en þeir hafi verið tveir eða þrír, þar af einn sem var starfsmaður Fiskmarkaðarins. Ekki kvaðst ákærði hafa haft samband við vigtarmann. Sagði ákærði að þegar verið var að hífa þá hafi hann krækt úr körunum en vélstjórinn hafi verið á bómunni. Kvaðst ákærði hafa upplýst þá sem óku lyfturunum um það hvað var í hverju kari. Ákærði sagði að Fiskmarkaðurinn væri í þrjú til fjögur hundruð metra fjarlægð frá löndunarstað. Afrit úr afladagbók var að sögn ákærða ekki tekið fyrr en báturinn var kominn til [...] nokkrum dögum seinna.

Ákærði X kvaðst ekki hafa starfað við sjávarútveg nema sem bílstjóri í nokkur ár. Kvaðst ákærði hafa komið með bifreiðina og lagt henni um miðnættið og farið að hvíla sig og seinna lagt af stað eftir að búið var að lesta bílinn. Kvaðst ákærði hvorki hafa verið viðstaddur vigtun né löndun aflans en ekið aflanum frá [...] á [...]. Hann hefði ekki haft neina vigtarnótu meðferðis í flutningunum, enda hafi hann haldið að þess þyrfti ekki. Kvaðst ákærði ekki hafa orðið þess var að verið væri að fylgjast með honum þegar hann fór frá [...] en starfsmaður Fiskistofu hefði komið til hans þegar hann var kominn á [...] og var að losa afla af bílnum inni í húsi. Ákærði kvaðst ekki hafa kynnt sér samsetningu aflans áður en hann lagði af stað frá [...] en hann hefði losað aflann af bílnum á tveimur stöðum, fyrst í [...] og síðan í [...]. Kvaðst ákærði ekki muna eftir því að starfsmaður Fiskistofu hafi óskað eftir því við hann að fá að sjá inn í bílinn. Hann kannast við að hafa sagt við starfsmann Fiskistofu að ekki væri meiri fiskur í bílnum þegar hann var búinn að losa aflann sem hann var með en hann muni ekki hvort hann leyfði honum að skoða í bílinn þegar hann óskaði eftir því. Skömmu síðar hefði lögreglan stöðvað bílinn. Ákærði sagðist ekkert hafa vitað um tvö kör með fiski sem voru í bílnum sem einhver hljóti að hafa komið fyrir þar. Kvaðst ákærði ekkert hafa kynnt sér hvað var í bílnum heldur einungis gætt þess að hann færi ekki yfir leyfilega þyngd. Kvaðst ákærði þekkja nokkurn veginn þær reglur sem gilda um löndun sjávarafla.

III.

Vitnið D, starfsmaður Fiskistofu, sagði að eftirlitsmaður sem staddur var í [...] hefði haft samband við hann og hefðu þeir ákveðið að fylgjast með tilteknum bíl vegna þess að eftirlitsmaðurinn taldi að fleiri kör hefðu farið inn í bílinn en fram komu á vigtarnótu og að jafnvel gæti verið fiskur í þeim körum. Var bílnum því fylgt eftir til [...] en ekki gripið inn í fyrr en komið var á [...] til þess að valda sem minnstum óþægindum við flutninginn. Kvaðst vitnið hafa stöðvað bílinn og beðið um flutningsnótu sem bílstjórinn hefði ekki verið með og því ekki getað sýnt fram á hvaða afla hann var með í bílnum. Hefði bílstjórinn sagt að fjögur kör ættu að fara af bílnum í [...] við B og hefði vitnið þá sagt bílstjóranum að hann myndi fylgjast með til þess að sannreyna hvaða afli væri í bílnum. Að þessu búnu var bílnum ekið í [...] og þar losuð af honum þrettán kör af þorski. Sagði vitnið að því hafi þá orðið ljóst að fleiri kör voru í bílnum með fiski í. Þegar bílstjórinn gerði sig líklegan til þess að taka ekki fleiri kör af bílnum og halda af stað þá hefði vitnið innt bílstjórann eftir því hvert hann væri að fara. Þá hefði bílstjórinn svarað því til að það kæmi honum ekki við. Sagði vitnið að bílstjórinn hefði hunsað ítrekaða beiðni hans um að fá að skoða hvað væri í bílnum og ekið á braut þrátt fyrir ábendingu vitnisins um að lögregla yrði kölluð til. Kvaðst vitnið þá hafa hringt til lögreglu sem hafi stöðvað bílinn við [...] og við skoðun hefðu fundist í bílnum tvö kör af slægðum þorski sem bílstjóri hefði sagt að hann væri að fara með til [...]. Var farið með þennan afla á vigt í [...]. Sagði vitnið að það ynni eftir þeim reglum, sem það telur að komi fram í reglugerð og leggja þær skyldur á herðar bílstjórum sem aka með afla að vera með vigtarnótur, svo hægt sé að sannreyna hvaða afli er í viðkomandi bíl. Þetta eigi einnig við um afla sem sé að fara til endurvigtunar og eftir er að skilja að fisk og ís. Sagði vitnið að það hafi séð þegar körin sautján voru tekin út úr bílnum, fjögur í [...] og þrettán í [...], eins og gert er ráð fyrir á vigtarnótunum frá [...]. Sagði vitnið að tóm kör hefðu verið sett inn í bílinn í [...] og kvaðst vitnið hafa gengið úr skugga um að þau hafi verið tóm. Sagði vitnið útilokað að fram hjá honum hefði getað farið að kör með fiski færu inn í bílinn án þess að hann tæki eftir því. Sagðist vitið ekki vita til þess að haft hafi verið samband við lyftaramenn sem höfðu með aflann að gera í [...] og engin nöfn lægju fyrir þar að lútandi svo vitnið viti til. Sagði vitnið að þar sem vafaatriði hefði verið hvort aukafiskur væri í körum í bílnum hefði bíllinn ekki verið stoppaður strax í [...]. Sagði vitnið að hálfs mánaðar veiðileyfissviptingu hefði verið beitt vegna þessa meinta brots en það viti ekki hvort sú ákvörðun hefði verið kærð.

Vitnið E, starfsmaður Fiskistofu, sagðist hafa fylgst með löndun úr A í [...] í umrætt sinn vegna ábendinga sem höfðu borist. Kvaðst vitnið hafa komið sér fyrir í um það bil þrjú til fjögur hundruð metra fjarlægð frá bryggjunni og séð þokkalega yfir svæðið með sjónauka. Sagði vitnið að nítján kör í allt hefðu farið inn í bílinn sem um ræðir. Sagðist vitnið hafa haft samband við Fiskmarkaðinn sem vigtaði aflann, þar sem hafnarvogin hafi verið í lamasessi, og beðið um upplýsingar um hversu mikið hafi verið vigtað úr A. Þar fékk vitnið upplýsingar um að það hefðu verið sautján kör, sextán stór og eitt lítið. Sagði vitnið að bílnum hafi eftir vigtunina verið lagt við [...] og bílstjórinn farið inn til sín en hann hafi ekki getað borið kennsl á hann vegna fjarlægðarinnar. Um klukkan 01.15 hafi bíllinn haldið af stað og hefði vitnið veitt honum eftirför. Vitnið staðfesti skriflega greinargerð sína og minnispunkta sem liggja frammi í málinu. Sagði vitnið að við löndunina í [...] hefði sá sem tók körin á lyftara raðað þeim meðfram bílnum eftir vigtun en þegar stutt var orðið á milli þeirra kara sem búið var að vigta þá hafi lyftaramaðurinn ýtt tveimur óvigtuðum körum upp að hinum sem búið var að vigta og hafi þau farið inn á bílinn með þeim sem vigtuð voru. Ekki kvaðst vitnið hafa séð hver stjórnaði lyftaranum sem um ræðir en honum hefði verið sagt að lyftarinn hefði verið á vegum fyrirtækisins sem flutti fiskinn en einnig hefði komið annar lyftari að lönduninni. Sagði vitnið að oft fari hluti af afla eða meðafla á Fiskmarkaðinn og renni verðmæti hans í sérstakan sjóð á vegum Hafró.

Vitnið F lögreglumaður sagði að tilkynning hefði borist frá Fiskistofumanni um að hugsanlega væri óvigtaður afli í bíl sem væri á ferðinni og var þess óskað að lögregla kæmi að málinu. Sagði vitnið að lögregla hefði stöðvað bílinn, eftir lýsingu sem komið var á framfæri. Þegar vitnið spurði bílstjórann hvort hann væri með fisk í bílnum hefði bílstjórinn neitað því. Þegar vitnið fór fram á það við bílstjórann að opna bílinn þá hefði hann neitað að verða við því og það hafi ekki verið fyrr en lögregla sagði bílstjóranum að hann yrði handtekinn og aflað heimildar til þess að opna bílinn að hann varð við beiðni lögreglu. Kom þá í ljós að í bílnum voru tvö kör af ísuðum þorski sem við vigtun reyndist vera nálægt 900 kg.

Vitnið G lögreglumaður sagðist hafa fundið, ásamt félaga sínum, tvö kör af fiski í umræddri bifreið eftir að ökumaður hafði neitað lögreglu um að opna bílinn.

Niðurstaða.

Varðandi þátt ákærða Y veltur niðurstaða um sekt hans á því hvort hann hafi búið svo um hnútana að hann mætti með réttu treysta því að réttar og fullnægjandi upplýsingar um aflann sem var verið að landa úr skipi hans bærust til vigtarmanns. Ákærði hefur borið fyrir sig að óvinnandi vegur sé að fylgjast betur með vigtun afla en hann gerði í umrætt sinn. Slíkt myndi tefja löndun og vera erfitt í framkvæmd. Hann hefði sem skipstjóri fylgst með því hvað var í körum sem hífð voru upp úr bátnum og sagði að sá sem tók við körunum hljóti að hafa farið með þau á vigtina, sem að þessu sinni var á Fiskmarkaðinum í [...]. Ekki kvaðst ákærði vita hverjir voru á lyfturunum sem fóru með aflann upp á vigt en þeir hefðu verið tveir eða þrír og þar af einn sem var starfsmaður Fiskmarkaðarins. Ekki kvaðst ákærði hafa verið í sambandi við vigtarmann. Dómari er þeirrar skoðunar að skipstjóri geti ekki með þeirri lausung sem var viðhöfð við umrædda löndun firrt sig þeirri miklu ábyrgð sem á honum hvíli til þess að tryggt sé að réttar upplýsingar liggi fyrir við vigtun. Í fyrsta lagi vissi hann ekki hverjir stjórnuðu lyfturum sem fóru með aflann á vigtina. Í öðru lagi hafði hann ekki samband við vigtarmann til þess að tryggja að til hans hafi borist réttar og fullnægjandi upplýsingar um þann afla sem landað var úr bátnum. Verður, að mati dómara, að gera þá lágmarkskröfu að skipstjóri viti hverjir eru að landa úr bát hans þannig að hægt sé að kanna hvað hafi farið úrskeiðis komi til þess. Í því sambandi bendir dómari á að öðruvísi horfi við um ábyrgð skipstjóra séu það starfsmenn útgerðar hans sem fara með afla á vigt eða menn sem hann hefur reynslu af og veit deili á og eðlilegt verður að telja að hann megi treysta. Með háttalagi sínu við umrædda vigtun sé skipstjóri að varpa ábyrgð sinni yfir á aðra sem honum er ekki heimilt nema að viðhafðri ýtrustu aðgæslu, að öðrum kosti ber hann ábyrgð á háttsemi sinni sem brýtur í bága við 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr.,  sbr. 23. gr., laga um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og 1. og 2. mgr. 6. og 7. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr., reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla nr. 224/2006. Telst ákærði Y samkvæmt þessu sannur að sök um þá háttsemi sem á hann er borin í ákæru og er þar réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði Svanur ekki áður hlotið refsingu.

Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 600.000 króna sekt og vararefsing sektar 32 daga fangelsi. Í samræmi við 218. gr. laga nr. 88/2008 er ákærða gert að greiða sakarkostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Varðandi meint brot ákærða X, sem neitað hefur sök, þykir dómara ljóst að með framburði sínum fyrir dóminum þess efnis að hann hefði ekki haft neina vigtarnótu meðferðis í flutningunum, enda hefði hann haldið að þess þyrfti ekki, hafi ákærði játað að hafa sýnt af sér háttsemi sem felur í sér brot gegn fyrirmælum 3. gr., sbr. 1. mgr. 63. gr., reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla nr. 224/2006. Reglugerðin er sett í samræmi við ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 og laga nr. 151//1996 um stjórn fiskveiða og telur dómari fullnægjandi vísan til refsiheimildar ótvírætt koma fram í orðalagi ákæru sem vitnar til þess að brotið hafi verið gegn reglugerðarákvæðinu Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar er ökumanni flutningstækis fortakslaust óheimilt að flytja afla fyrr en hann hefur fengið vigtarnótu afhenta. Jafnframt er ökumanninum skylt að fá afrit af vigtarnótu til þess að afhenda viðtakanda aflans. Brot gegn reglugerðinni varða viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Í ákæru er réttilega vísað til 1. mgr. 63. greinar reglugerðarinnar hvað þetta varðar. Telur dómari að heimvísun til 10. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar nr. 57/1996 í ákæru eigi eingöngu við þann ökumann sem flytur afla frá skipshlið að hafnarvog og verður ákærða því ekki refsað fyrir brot gegn henni. Þá þykir vísun til 6., 7. og 8. gr. reglugerðarinnar nr. 224/1996 ekki geta átt við, því þær skyldur sem þar um ræðir í 6. og 7. gr. eru á herðum skipstjóra þess fiskiskips sem á í hlut og skyldur samkvæmt 8. gr. á herðum þess ökumanns sem flytur afla til vigtunar sem ekki er byggt á að ákærði X hafi átti hlut að. Að öllu virtu verður ákærða því gerð refsing fyrir að láta undir höfuð leggjast að sinna þeirri varúðarskyldu sem á hann er lögð og flytja óveginn afla í blóra við fyrirmæli 3. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði X ekki áður hlotið refsingu en hann gefur eftirlitsmanni Fiskistofu og lögreglu vísvitandi rangar upplýsingar, eins og áður er rakið, og er fjarri því að vera samvinnufús gagnvart rannsóknaraðilum.

Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 600.000 króna sekt til ríkissjóðs og vararefsing sektar 32 daga fangelsi. Í samræmi við 218. gr. laga nr. 88/2008 er ákærða gert að greiða sakarkostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Við ákvörðun málsvarnarlauna er virðisaukaskattur innifalinn.

Við ákvörðun um sekt ákærðu er haft í huga að samkvæmt 23. gr. laga nr. 57/1996 varða brot gegn ákvæðum laganna og reglum settum samkvæmt þeim sektum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi. Þá er til þess litið að í lögum nr. 57/1996 um umgengni við nytjastofna sjávar er mælt fyrir um það að refsing vegna brota sem þessara skuli ekki vera lægri en 400.000 krónur og ekki hærri en 4.000.000 króna eftir eðli og umfangi brots. Í ljósi þessara skýru fyrirmæla telur dómurinn dæmdar sektir hæfilegar.

Rétt þykir að vegna endurflutning málsins greiðist hluti málsvarnarlauna og ferðakostnaðar verjanda úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð:

Ákærði Y greiði 600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 32 daga.

Ákærði X greiði 600.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en sæti ella fangelsi í 32 daga.

Málvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Hilmars Baldurssonar hdl. skulu vera 220.000 krónur. Þar af greiði ákærði 163.150 krónur en afgangur greiðist úr ríkissjóði.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Péturs Kristinssonar hdl. skulu vera 220.000 krónur. Þar af greiði ákærði X 163.150 krónur en afgangur greiðist úr ríkissjóði. Ferðakostnaður skipaðs verjanda ákærða X krónur 90.000 greiðist af ákærða og ríkissjóði að jöfnu.