Print

Mál nr. 146/2015

Lykilorð
  • Handtaka
  • Leit
  • Hljóðupptaka
  • Eftirfararbúnaður
  • Miskabætur

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 19. nóvember 2015.

Nr. 146/2015.

Jóhann Einar Björnsson

(Erlendur Þór Gunnarsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Óskar Thorarensen hrl.)

og gagnsök

Handtaka. Leit. Hljóðupptaka. Eftirfararbúnaður. Miskabætur.

J krafði Í um miskabætur vegna handtöku og rannsóknaraðgerða sem beindust að honum í tengslum við rannsókn lögreglu á ætluðum innflutningi J og nafngreinds manns á miklu magni fíkniefna. Fólust aðgerðirnar í því að eftirfararbúnaður var settur í tvær bifreiðar J, hlustun fór fram í einu herbergi á heimili hans, hlustað var á símtöl í tveimur símum hans auk þess sem leit var gerð í íbúð hans og bifreið. Var máli J lokið án þess að ákæra væri gefin út og það því fellt niður í skilningi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í dómi Hæstaréttar kom fram að J hefði verið sviptur frelsi í fimm og hálfa klukkustund þegar hann var handtekinn. Ætti hann því rétt á miskabótum eftir 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Var jafnframt talið að hann ætti rétt til miskabóta á grundvelli sama ákvæðis laga nr. 88/2008 vegna fyrrgreindra rannsóknaraðgerða. Með leit í íbúð og bifreið J hefði verið brotið gegn friðhelgi hans, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Enda þótt hann hefði samþykkt þær aðgerðir hefði hann ekki firrt sig rétti til bóta, þar sem hann hefði ella mátt búast við að lögregla færi fram á dómsúrskurð til leitar. Þá var ekki talið að rök stæðu til þess að lækka bætur á þeim grunni að J hefði sjálfur stuðlað að aðgerðunum. Að þessu virtu og því hve hlustun í íbúð J hefði falið í sér tilfinnanlega skerðingu á friðhelgi einkalífs hans, var Í gert að greiða J 1.200.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 23. febrúar 2015. Hann krefst þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 9.100.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 29. mars 2012 til 11. júlí 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar fyrir sitt leyti 30. apríl 2015. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmdar bætur aðaláfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

I

Samkvæmt gögnum málsins heimilaði héraðsdómur með úrskurðum 21. febrúar 2012, að kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og með stoð í XI. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, meðal annars að hlustuð yrðu og hljóðrituð símtöl úr símanúmerum aðaláfrýjanda, komið yrði fyrir eftirfararbúnaði í bifreiðum, sem hann hefði umráð yfir, svo og búnaði á heimili hans til að hlusta, hljóðrita og nema samtöl og önnur hljóð sem þar færu fram, og „taka þar myndir af fólki“. Skyldu heimildir til þessara rannsóknaraðgerða gilda til 20. mars 2012, en með úrskurðum þann dag voru þær framlengdar til 17. apríl sama ár. Farið var fram á aðgerðirnar vegna rannsóknar lögreglu á ætluðum innflutningi aðaláfrýjanda og nafngreinds manns á miklu magni fíkniefna, sem fyrirhugaður væri og félli undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Aðaláfrýjandi var handtekinn á bifreiðaverkstæði klukkan 10.45 hinn 29. mars 2012 og hafði því réttarstöðu sakbornings, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008. Hann ritaði klukkan 10.59 umræddan dag undir staðlað form um upplýsingar til handa þeim sem hefur verið handtekinn, þar sem meðal annars kom fram að honum hafi verið kynnt að hann ætti rétt á að lögreglan tilnefndi sér verjanda. Í framhaldi af handtöku aðaláfrýjanda var með samþykki hans og að honum viðstöddum gerð leit í íbúð hans og bifreið, en ekkert saknæmt fannst við hana. Hann var síðan látinn laus klukkan 16.16 sama dag. Ekki var tekin skýrsla af aðaláfrýjanda vegna málsins og var rannsókn þess hætt þar sem ekki þótti grundvöllur til að halda henni áfram. Þá var aðaláfrýjanda tilkynnt 4. maí 2012 um fyrrnefndar rannsóknaraðgerðir eftir XI. kafla laga nr. 88/2008.

Í bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 21. maí 2015 um framkvæmd áðurnefndra rannsóknaraðgerða lögreglu kom fram að eftirfararbúnaður hafi verið settur á tvær bifreiðar aðaláfrýjanda og búnaðurinn verið á annarri þeirra frá 1. til 29. mars 2012 og hinni frá 28. febrúar til 29. mars sama ár. Þá hafi farið fram hlustun í einu herbergi á heimili aðaláfrýjanda frá 2. til 29. mars 2012. Að lokum hafi verið hlustað á símtöl í tveimur símum hans, öðrum frá 21. febrúar til 17. apríl 2012 og hinum frá 30. mars til 17. apríl sama ár. Lögreglumaður sem kom að rannsókn málsins skýrði jafnframt svo frá fyrir dómi að hljóð hafi eingöngu verið tekið upp í íbúð aðaláfrýjanda og ekki í svefnherbergi hans. Jafnframt kom fram í skýrslu lögreglumannsins að vegna þess að aðaláfrýjandi og fyrrnefndur ætlaður samverkamaður hans hafi komist að því að þeir sættu rannsókn lögreglu hafi hún þurft að endurheimta búnað sinn með því að grípa til handtöku aðaláfrýjanda.

II

Í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 segir að maður, sem borinn hefur verið sökum í sakamáli, eigi rétt til bóta eftir 2. mgr. sömu lagagreinar, meðal annars ef mál hans hefur verið fellt niður. Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. greinarinnar má dæma bætur vegna aðgerða eftir IX. til XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, en eftir síðari málslið málsgreinarinnar má þó fella þær niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Ekki eru sett frekari skilyrði fyrir hinni hlutlægu bótaábyrgð samkvæmt XXXVII. kafla laga nr. 88/2008 og skiptir ekki máli í því sambandi hvort lögmæt skilyrði hefur brostið til aðgerða sem haft hafa í för með sér tjón eða ekki hefur verið, eins og á stóð, nægilegt tilefni til að grípa til þeirra eða þær verið framkvæmdar á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt.

Máli aðaláfrýjanda lauk sem áður segir án þess að ákæra væri gefin út og var það því fellt niður í skilningi 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Eins og rakið hefur verið var aðaláfrýjandi handtekinn klukkan 10.45 hinn 29. mars 2012 og látinn laus klukkan 16.16 sama dag. Var hann því sviptur frelsi í fimm og hálfa klukkustund. Leggja verður til grundvallar að um framkvæmd  rannsóknaraðgerðanna, sem gripið var til eftir XI. kafla laga nr. 88/2008, hafi farið eins og fram kom í fyrrgreindu bréfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 21. maí 2015 og gerð hefur verið grein fyrir, svo og vætti lögreglumanns þess sem áður getur. Samkvæmt þessu á aðaláfrýjandi eftir 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, rétt á miskabótum vegna handtökunnar. Þá ber honum réttur til miskabóta á grundvelli fyrrnefnds lagaákvæðis vegna áðurgreindra rannsóknaraðgerða samkvæmt XI. kafla laga nr. 88/2008. Með leit í íbúð aðaláfrýjanda og bifreið hans var brotið gegn friðhelgi hans, sbr. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Enda þótt hann hafi samþykkt þessar aðgerðir við þær aðstæður sem fyrir hendi voru hefur hann ekki firrt sig rétti til bóta, þar sem hann mátti ella búast við að lögregla færi fram á dómsúrskurð til leitar. Þá standa engin rök til þess að lækka bætur á þeim grunni að aðaláfrýjandi hafi stuðlað að þeim aðgerðum, sem hann reisir kröfu sína á, sbr. síðari málslið 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Að lokum er á það að líta að af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að bæði handtaka aðaláfrýjanda og leit í íbúð hans og bifreið hafi þjónað öðrum tilgangi en þeim sem kveðið er á um í lögum. Að öllu framangreindu virtu, ekki síst því hve hlustun í íbúð aðaláfrýjanda fól í sér tilfinnanlega skerðingu á friðhelgi einkalífs hans, verða bætur til handa honum ákveðnar í einu lagi 1.200.000 krónur, sem bera vexti eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Eftir úrslitum málsins verður gagnáfrýjanda gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður eins og í dómsorði segir. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess að samhliða þessu máli var flutt annað samkynja mál.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, greiði aðaláfrýjanda, Jóhanni Einari Björnssyni, 1.200.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. júlí 2013 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2014.

                                                                                        I.

Mál þetta var höfðað 7. júní 2013 og dómtekið 21. nóvember 2014 að loknum munnlegum málflutningi.

                Stefnandi er Jóhann Einar Björnsson, til heimilis að Réttarholtsvegi 85, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli, Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda samtals 9.100.000 krónur ásamt almennum vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. málsl. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 600.000 krónum frá 29. mars 2012 til 17. apríl 2012 og af 9.100.000 krónum frá þeim degi til 11. júlí 2013, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, auk málskostnaðar. Til vara er þess krafist að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að málskostnaður verði felldur niður.

                                                                                         II.

Húsleit og leit í bifreið, símhlustun, eftirfararbúnaður, myndupptaka og hlustun í íbúð

Atvik málsins eru þau að í febrúarmánuði árið 2012 höfðu lögreglu borist upplýsingar um að stefnandi og félagi hans, væru að undirbúa innflutning á fíkniefnum til landsins. Í ljósi þess lagði lögreglan fram kröfu í héraðsdómi Reykjavíkur, dags. 21. febrúar 2012, um að henni yrði veitt heimild til að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmer og símtæki í eigu eða umráðum stefnanda. Jafnframt var þess krafist að lögreglunni yrði veitt heimild til að nema sendingar smáskilaboð (SMS) og fá upplýsingar um úr og í hvaða símanúmer var hringt úr og í símum og símtækjum í eigu og umráðum stefnanda tiltekið tímabil og hverjir væru rétthafar símtækjanna. Enn fremur var þess krafist að lögreglu yrði veitt heimild til að nota hlustunar- og myndatökubúnað á heimili stefnanda í því skyni að hlusta, hljóðrita, nema samtöl sem þar færu fram og taka þar myndir af fólki. Að lokum var þess krafist að heimilt yrði að koma fyrir eftirfararbúnaði á eða í bifreiðinni [...] og öðrum bifreiðum sem stefnandi kynni að hafa umráð yfir.

                Samkvæmt úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 21. febrúar 2012, í málum nr. R-80/2012, R-81/2012 og R-82/2012, taldi dómurinn með vísan til gagna málsins og greinargerðar lögreglu að grunur lögreglu um meint brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga væri sterkur og rökstuddur og umbeðin aðgerð til þess falinn að upplýsa málið. Í forsendum úrskurðanna kemur fram að lögreglu hafi borist upplýsingar um að stefnandi og félagi hans væru að undirbúa innflutning fíkniefna til landsins. Lögregla hafi komist í samband við upplýsingagjafa, sem áður hafi gefið lögreglu réttar upplýsingar. Var talið að um mikið magn væri að ræða, en fíkniefnin ættu að berast til landsins frá Evrópu á næstu vikum. Þá segir í úrskurðunum að lögregla hafi upplýst dóminn um að stefnandi hafi ítrekað komið við sögu lögreglu, m.a. vegna fíkniefnabrota. Taldi dómurinn að skilyrði væru til að fallast á kröfur lögreglu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 82. gr., 80. og 81. gr. og samkvæmt a- og b-liðum 1. mgr. 82. gr., sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008.

                Með úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 20. mars 2012, í málum nr. R-144/2012, R-146/2012 og R-148/2012, var fallist á áframhaldandi heimildir lögreglu til áðurgreindra rannsóknarúrræða allt til 17. apríl 2012. Kom fram í kröfu lögreglu til héraðsdóms Reykjavíkur að hlustað hefði verið á samtöl í farsíma stefnanda og komið fyrir hlustunarbúnaði á heimili hans og eftirfararbúnaði undir bifreið hans. Þessi rannsóknarúrræði hafi veitt lögreglu mikilvægar upplýsingar sem hafi styrkt grun hennar enn frekar. Við hlustun á samtöl stefnanda hafi greinilega komið fram að stefnandi hafi haft undir höndum fíkniefni, væri að meðhöndla þau og dreifa til annarra aðila.

                Handtakan

                Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 31. maí 2012, höfðu lögreglu borist upplýsingar um að A væri viðriðinn innflutning á fíkniefnum til Íslands. Var A handtekinn þann 29. mars 2012 þar sem hann var staddur á bifreiðaverkstæði við Hamarshöfða í Reykjavík. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi stefnandi verið þar fyrir ásamt greindum A. Segir í skýrslu lögreglu að stefnandi hafi einnig verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins þar sem ekki hafi verið hægt að útiloka að hann tengdist því á einhvern hátt. Samkvæmt skýrslunni átti handtakan sér stað kl. 10.45 þann 29. mars 2012. Í kjölfarið heimilaði stefnandi lögreglu leit á heimili sínu og í bifreið hans. Ekkert fannst við þá leit og var stefnandi látinn laus að henni lokinni kl. 16.16 þennan sama dag. Við nánari rannsókn málsins kom í ljós að stefnandi tengdist málinu ekki og ekki þótti ástæða til að kalla hann til skýrslutöku.

                Skráð er í skýrslu lögreglu, dags. 29. maí 2012, að stefnandi hafi ekki óskað eftir tilnefningu verjanda.

                Í samræmi við 2. mgr. 85. gr. laga nr. 88/2008, var stefnanda tilkynnt þann 4. maí 2012, að lögregla hefði beitt framangreindum rannsóknaraðgerðum í tengslum við rannsókn málsins, á tímabilinu frá 21. febrúar 2012 til 17. apríl 2012.

                Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi. Þá gaf rannsóknarlögreglumaður nr. 222 vitnaskýrslu fyrir dómi.

                                                                                        III

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á 300.000 króna miskabótum vegna ólögmætrar handtöku með vísan til 1. og 2. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Telur stefnandi að ákvæðið feli í sér hlutlæga bótaskyldu hins opinbera og hann eigi rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laganna.

                Stefnandi telur að engin skilyrði handtöku hafi verið uppfyllt.

                Í öðru lagi krefst stefnandi 300.000 króna í miskabætur vegna ólögmætrar húsleitar á heimili hans og í bifreið hans. Vísar stefnandi til 74. gr. laga nr. 88/2008. Þegar leitin fór fram hafi ekki verið aflað úrskurðar héraðsdóms, en stefnandi hafi ákveðið að heimila leitina þar sem hann hafi ekki haft neitt að fela. Með leitinni hafi friðhelgi hans á hinn bóginn verið rofin. Telur stefnandi að skilyrði 74. gr. laga nr. 88/2008, hafi ekki verið uppfyllt þegar leitin var framkvæmd, enda hafi honum verið tjáð að hann hafi verið handtekinn vegna þess að „vera rangur maður á röngum stað“ . Telur stefnandi að skilyrðum 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, hafi veri fullnægt.

                Í þriðja lagi krefst stefnandi 2.000.000 króna í miskabætur vegna rannsóknaraðgerða lögreglu á tímabilinu 21. febrúar 2012 til 17. apríl 2012, þ.e. vegna símaupplýsinga, símhlustunar, eftirfararbúnaðar, myndupptöku og hlustunar í íbúð stefnanda. Stefnandi hafi mátt þola símhlustun í átta vikur og símagögn hans hafi verið skoðuð yfir tæplega fjögurra mánaða tímabil.

                Greindar aðgerðir skerði tilfinnanlega friðhelgi einkalífs manna. Telur stefnandi að ekki hafi veri sýnt fram á að skilyrði 83. gr. laga nr. 88/2008 hafi verið uppfyllt og að hann eigi rétt á hinum umkröfðu bótum vegna símhlustunar og öflunar gagna um símnotkun á þessu tímabili, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.

                Í fjórða lagi krefst stefnandi 2.000.000 króna í miskabætur vegna notkunar eftirfararbúnaðar í bifreið hans [...]. Telur stefnandi að ströng skilyrði 83. gr. laganna hafi ekki verið uppfyllt og að hann eigi rétt á bótum samkvæmt 228. gr. sömu laga.

                Í fimmta lagi krefst stefnandi 4.500.000 króna í miskabætur vegna hlustunar- og myndatökubúnaðar í íbúð hans. Telur stefnandi að skilyrði 83. gr. laga nr. 88/2008, hafi ekki verið uppfyllt og að hann eigi með vísan til 228. gr. sömu laga rétt á bótum. Vísar stefnandi til þess að rannsóknaraðgerð þessi hafi falið í sér óvenju mikla skerðingu á friðhelgi einkalífs stefnanda.

                Stefnandi telur að samkvæmt skýru orðalagi 228. gr. sé skylt að greiða bætur ef ákvæði 1. mgr. greinarinnar er uppfyllt. Þá telur stefnandi að skýra beri ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 228. gr. þröngt í ljósi 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, er mæli fyrir um að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Sé sú túlkun einnig í samræmi við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Stefnandi hafi ekki gert nokkuð til að valda eða stuðla að aðgerðunum sem gæti réttlætt lækkun skaðabóta eða niðurfellingu þeirra. Þvert á móti hafi stefnandi verið samvinnuþýður og leitaðist við að heimila lögreglunni að vinna sitt starf. Þá hafi vitneskja stefnanda um símhlustun og upptaka símtala, notkun eftirfararbúnaðar auk hljóð- og myndupptöku innan veggja heimilis hans um langt skeið valdið stefnanda miklu hugarangri sem komið hafi fram í kvíða og andlegum óþægindum. Þá telur stefnandi að lögregla hafi beitt valdi sínu í óhófi með því að gera ýtrustu kröfur sem leyfilegar séu með tilliti til tímalengdar rannsóknaraðgerðanna gagnvart stefnanda.

                Stefnandi byggir fjárkröfu sína á 5. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 og telur með hliðsjón af dómafordæmum að miski hans sé eigi lægri en 9.100.000 krónur. 

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir á því að fullnægt hafi verið lagaskilyrðum fyrir rannsóknaraðgerðum lögreglu varðandi símhlustun og aðgang að upplýsingum um notkun símtækis, notkun eftirfararbúnaðar og hlustunar- og myndatökubúnaðar í íbúð stefnanda og að baki þeim hafi legið úrskurðir dómstóla. Þá sé meint tjón stefnanda ósannað. Verði ekki á það fallist byggir stefndi á því að stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisi kröfur sínar á og hann eigi því ekki rétt á bótum, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Þá er því mótmælt að túlka eigi ákvæðið þröngt. Þá er því mótmælt að fullnægt hafi verið skilyrðum skaðabótalaga, einkum 26. gr., almennu sakarreglunni eða ákvæðum stjórnarskrár, og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé ósannað að símagögn stefnanda hafi verið skoðuð yfir tæplega fjögurra mánaða tímabil.

                Að því er varðar handtöku stefnanda þá hafi frelsissviptingin varað í rúmar fimm klukkustundir. Þegar stefnandi hafi verið handtekinn hafi málsatvik verið óljós og ekki hægt að útiloka að þeir sem voru á vettvangi tengdust málinu. Aðgerðir lögreglu hafi verið í samræmi við aðstæður og innan heimilda laga. Er á því byggt að skilyrði 90. gr. laga nr. 88/2008, hafi verið fullnægt og rökstuddur grunur fyrir hendi um aðild stefnanda að því máli sem til rannsóknar var.

                Stefndi byggir á því að ósannað sé að stefnandi hafi ekki verið upplýstur um ástæðu handtöku og að honum hafi ekki verið veittur réttur til að hafa samband við lögmann um handtökuna.

                Stefndi mótmælir því að við handtöku hafi lögreglustjóri beitt valdi sínu í óhófi með vísan til 3. mgr. 53. gr. laga nr. 80/2008, 2. mgr. 13. gr. og 14. gr. lögreglulaga. Er því mótmælt að handtaka hans hafi verið óþörf.

                Þá er því mótmælt að lögreglustjóri hafi brotið með saknæmum og ólögmætum hætti gegn grundvallarmannréttindum stefnanda sem njóti verndar samkvæmt 70. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Loks telur stefndi ósannað að aðgerðir lögreglu hafi valdið stefnanda hugarangri, kvíða og andlegum óþægindum.

                Varakröfu sína um lækkun byggir stefndi á sömu málsástæðum og sjónarmiðum og byggt er á í sýknukröfu. Þá er á því byggt að stefnukrafa sé allt of há og hver einstakur liður of hár og ekki í samræmi við dómaframkvæmd.

                                                                                      IV.

                                                                                Niðurstaða

Stefnandi í máli þessu krefst miskabóta vegna ólögmætrar handtöku, húsleitar og leitar í bifreið hans, símaupplýsinga, símhlustunar, eftirfararbúnaðar í bifreið hans og vegna hlustunar- og myndatökubúnaðar í íbúð hans. Krafan er byggð á 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála., sbr. 5. mgr. 67. gr. og 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. og 2. gr.

                Í 228. gr. laga nr. 88/2008, er mælt fyrir um skilyrði skaðabóta. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar, er heimilt að dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX.-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. greinarinnar eru fyrir hendi, þ.e. ef maður hefur verið borinn sökum í sakamáli en mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi, án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann hafi verið talinn ósakhæfur. Ákvæði um heimild til handtöku eru í XIII. kafla laganna, um heimild til húsleitar í X. kafla laganna og um heimild til símhlustunar og annarra sambærilegra úrræða í XI. kafla.

                Samkvæmt 1. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008 er lögreglu rétt að handtaka mann ef rökstuddur grunur leikur á að hann hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot, til að tryggja návist hans eða öryggi hans eða annarra, ellegar til að koma í veg fyrir að hann spilli sönnunargögnum.

                Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt að leita í húsum og bifreiðum sakbornings í því skyni að handtaka hann, rannsaka andlag brots og önnur ummerki eða hafa uppi á munum sem hald skal leggja á. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er heimilt að leita í húsum annars manns en sakbornings þegar brot hefur verið framið þar eða sakborningur handtekinn þar. Einnig ef rökstuddur grunur leikur á að sakborningur haldi sig þar eða þar sé að finna muni sem hald skal leggja á. Skilyrði þess að unnt sé að framkvæma húsleit er að rökstuddur grunur leiki á að framið hafi verið brot sem sætt geti ákæru og sakborningur hafi verið þar að verki, enda séu augljósir rannsóknarhagsmunir í húfi. Það er enn fremur skilyrði húsleitar samkvæmt 2. mgr. að rannsókn beinist að broti sem varðað getur fangelsisrefsingu að lögum.

                Samkvæmt 82. gr. laga nr. 88/2008, er heimilt að taka upp samtöl eða nema annars konar hljóð eða merki með því að nota til þess sérstaka hljóðupptökutækni eða sambærilega tækni, taka myndir af fólki, hvort sem er ljósmyndir eða kvikmyndir, og koma fyrir búnaði á eða inni í bifreið eða öðru farartæki, í varningi eða á manni til að veita honum eftirför eða í öðrum lögmætum tilgangi án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því.

                Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 88/2008 er heimilt í þágu rannsóknar að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að veita upplýsingar um símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma, tölvu eða annars konar fjarskiptatæki. Þá er í 1. mgr. 81. gr. sömu laga m.a. mælt fyrir um heimild í þágu rannsóknar til að leggja fyrir fjarskiptafyrirtæki að leyfa að hlustað sé á eða tekin séu upp símtöl eða önnur fjarskipti við tiltekinn síma.

                Til þess að heimilt sé að beita framangreindum rannsóknaúrræðum, þ.e. sem nefnd eru í 80.-82. gr., þarf þeim skilyrðum sem 83. gr. laganna mælir fyrir um að vera fullnægt, þ.e. að ástæða sé til að ætla að upplýsingar, sem skipt geta miklu fyrir rannsókn máls, fáist með þeim hætti. Auk þess sem þau skilyrði þurfa að vera fyrir hendi svo að gripið verði til aðgerða skv. ákvæðum 81. gr. og 1. mgr. 82. gr. laganna að rannsókn beinist að broti sem varðað geti að lögum átta ára fangelsi ellegar að ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess.

                Fram er komið að ástæður þess að stefnandi var handtekinn þann 29. mars 2012, þegar hann var staddur á bifreiðaverkstæði við Hamarshöfða í Reykjavík, húsleit gerð á heimili hans og í bifreið hans voru þær að lögreglu höfðu borist upplýsingar um að vinur stefnanda, A, væri viðriðinn innflutning á fíkniefnum til Íslands. Þegar lögregla hafi komið á staðinn til þess að handtaka A hafi stefnandi verið þar fyrir ásamt A. Hann hafi því einnig verið handtekinn í tengslum við rannsókn málsins þar sem ekki hafi verið hægt að útiloka að hann tengdist því á einhvern hátt. Samkvæmt handtökuskýrslu lögreglu var stefnandi handtekinn kl. 10.45 þann 29. mars 2012 og látinn laus kl. 16.16 sama dag. Engin skýrsla var tekin af stefnanda vegna málsins. Á þeim tíma sem handtakan varaði heimilaði stefnandi lögreglu leit á heimili sínu og í bifreið sinni.

                Samkvæmt úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 21. febrúar 2012, var lögreglu veitt heimild til að koma fyrir eftirfararbúnaði á eða í bifreiðum stefnanda til 20. mars 2012. Þá var einnig heimilað að hlusta og hljóðrita símtöl úr og í símanúmer stefnanda á sama tíma og nema SMS-sendingar. Enn fremur var lögreglu heimilað að nota hlustunar- og myndatökubúnað á heimili stefnanda í því skyni að hlusta, hljóðrita, nema samtöl og önnur hljóð sem þar færu fram og taka þar myndir af fólki og var lögreglu veitt heimild til að koma fyrir búnaði á heimili stefnanda í því skyni. Taldi dómurinn að fallast yrði á að grunur lögreglu væri sterkur og rökstuddur og umbeðnar aðgerðir til þess fallnar að upplýsa málið og að skilyrði væru til að fallast á kröfur lögreglu, sbr. 83. gr. laga nr. 88/2008. Voru greindar rannsóknaraðgerðir síðan framlengdar til og með 17. apríl 2012 með úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 20. mars 2012.

                Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögreglumaður sem kom að rannsókn málsins að heimild til að koma fyrir hlustunar- og myndatökubúnaði á heimili stefnanda hefði ekki verið beitt. Var því mótmælt af stefnda sem ósönnuðu. Verður lagt til grundvallar að lögreglan hafi nýtt þær heimildir sem fengust samkvæmt úrskurðum héraðsdóms Reykjavíkur.

                Fyrir liggur að stefnandi var handtekinn og rannsóknaraðgerðum beitt gagnvart honum í tengslum við rannsókn á fíkniefnalagabroti. Engin skýrsla var tekin af stefnanda vegna málsins og hann hafði ekki stöðu sakbornings. Þann 4. maí 2012 tilkynnti lögregla stefnanda um rannsóknaraðgerðirnar og að rannsókn málsins teldist lokið. Er ekki ágreiningur um að þau málalok tóku til allra rannsóknaraðgerða á hendur stefnanda. Á stefnandi því, með vísan til 1. málsl. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, rétt á bótum úr hendi stefnda. Ber því að bæta honum þann miska sem telja má að hann hafi hlotið vegna handtöku, símhlustunar, eftirfararbúnaðar í bifreið hans, myndupptöku og hlustunar í íbúð hans, enda verður hvorki litið svo á að hann hafi valdið né stuðlað að þessum aðgerðum lögreglu.

                Þegar atvik málsins eru virt, eins og þau horfðu við þeim sem með rannsókn málsins fóru á þeim tíma er stefnandi var handtekinn, verður að líta svo á að umræddar aðgerðir lögreglu hafi verið eðlilegar og lögmætar. Ekki verður fallist á með stefnanda að handtakan, húsleit og leit í bifreið, símhlustun, eftirfararbúnaður, myndupptaka og hlustun í íbúð, eins og framkvæmd þessa var háttað, hafi ekki verið í samræmi við greindar reglur laga nr. 88/2008, þegar litið er til þess að lögregla taldi sig hafa upplýsingar um að stefnandi og félagi hans væru að undirbúa innflutning á miklu magni af fíkniefnum til landsins. Verður því ekki fallist á að lögregla hafa beitt valdi sínu í óhófi, eins og haldið hefur verið fram. Verður að fallast á það með stefnda að aðgerðir lögreglu hafi verið nauðsynlegar miðað við atvik málsins.

                Lögregla leitaði í íbúð og bifreið stefnanda, með hans samþykki. Verða honum því ekki dæmdar bætur vegna þessa. Að virtum atvikum málsins þykja miskabætur til hans hæfilegar ákveðnar 100.000 krónur vegna handtöku og samtals 250.000 krónur vegna símhlustunar, eftirfararbúnaðar í bifreið hans, myndupptöku og hlustunar í íbúð hans. Ber stefnda að greiða honum þá fjárhæð með almennum vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 100.000 krónum frá 29. mars 2012, til 17. apríl 2012 og af 250.000 krónum frá þeim degi til 11. júlí 2013, er mánuður var liðinn frá því mál þetta var þingfest, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                                DÓMSORÐ:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 350.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 100.000 krónum frá 29. mars 2012, til 17. apríl 2012 og af 250.000 krónum frá þeim degi til 11. júlí 2013, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Erlends Þórs Gunnarssonar, hrl. 450.000 krónur.