Print

Mál nr. 473/2002

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Jafnræðisregla
  • Atvinnufrelsi
  • Fiskveiðistjórn
  • Aflaheimild
  • Fiskveiðibrot
  • Refsiábyrgð lögaðila
  • Upptaka

Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. mars 2003.

Nr. 473/2002.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Erlingi Sveini Haraldssyni

Erni Snævari Sveinssyni og

Fagramúla ehf.

(Magnús Thoroddsen hrl.)

 

Stjórnarskrá. Jafnræðisregla. Atvinnufrelsi. Fiskveiðistjórn. Aflaheimildir. Fiskveiðibrot. Refsiábyrgð lögaðila. Upptaka.

 

EH, ES og F ehf. voru ákærð fyrir brot gegn lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, lögum um umgengni við nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða. Í dómi héraðsdóms sem Hæstiréttur staðfesti með vísan til forsendna var um stjórnskipulegt gildi ákvæða laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 12/2000 frá 6. apríl 2000, sem birtur er í dómasafni þess árs á bls. 1534. Voru ákærðu dæmd hvert um sig til að greiða 1.000.000 kr. sekt til ríkissjóðs. Þá var gert upptækt jafnvirði afla og veiðarfæra að fjárhæð 1.908.152 kr.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. september 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að þeim verði ekki gerð refsing fyrir þá háttsemi, sem um ræðir í I. kafla ákæru.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan kostnað af áfrýjun málsins, eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærðu, Erlingur Sveinn Haraldsson, Örn Snævar Sveinsson og Fagrimúli ehf., greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra fyrir Hæstarétti, Magnúsar Thoroddsen hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 2. ágúst 2002.

Mál þetta, sem var dómtekið 18. júlí sl., höfðaði ríkislögreglustjóri hinn 4. mars sl. með ákæru á hendur Erlingi Sveini Haraldssyni, f. 14. júlí 1954, Þórsgötu 4, Patreksfirði, Erni Snævari Sveinssyni, f. 6. maí 1948, Túngötu 25, Tálknafirði, Magnúsi Jóni Áskelssyni, f. 4. nóvember 1969, Hólum 18, Patreksfirði og Fagramúla ehf., Túngötu 25, Tálknafirði, kennitala 510298-2419, fyrirsvarsmaður Erlingur Sveinn Haraldsson, stjórnarformaður,

 

„ I.

Fyrir brot gegn lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Ákærða Erlingi Sveini sem stjórnarformanni, Erni Snævari sem fram­kvæmda­stjóra og stjórnarmanni og Magnúsi Jóni sem stjórnarmanni útgerðarfélagsins Fagramúla ehf., sem á og gerir út m/b Svein Sveinsson BA-325, skipaskrárnúmer 1547, sem er 24,3 brúttólestir og 15,7 lengdarmetrar og öllum sem skipverjum þar sem ákærði Örn Snævar var skipstjóri, er gefið að sök að hafa þann 23. júní 2000 um kl. 13.00 haldið skipinu til dragnótarveiða 10 sjómílur vestur af Kópsnesi á stað 65°48,828’N – 24°36,619’V um það bil 2 sjómílum innan leyfilegra 12 sjómílna marka á svæði þar sem þessar veiðar eru bannaðar án sérstaks leyfis Fiskistofu, sem skipið hafði ekki eftir að eldra leyfi skipsins rann út 31. ágúst 1999, og nam afli skipsins í umræddri veiðiferð 2.978 kg af slægðum þorski, 103 kg af slægðum skarkola og 12 kg af slægðri lúðu.

Telst þetta varða við G.- lið 8. mgr. 5. gr., sbr. 15. gr. og 16. gr. laga nr. 79, 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Um refsiábyrgð Fagramúla ehf. vísast auk framangreinds til 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997.

II.

Fyrir brot gegn lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Ákærða Erni Snævari sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni Fagra­múla ehf., eiganda útgerðarfélags m/b Sveins Sveinssonar BA-325 og Erlingi Sveini sem stjórnarformanni útgerðarfélagsins, báðum sem skipverjum og Erni Snævari sem skipstjóra á m/b Sveini Sveinssyni BA-325 er gefið að sök að hafa sammælst um að halda skipinu til veiða á dragnót í atvinnuskyni frá Patreksfirði dagana 10., 11., 13., 19., 20. og 21. september 2001 án tilskilinna aflaheimilda, en afli skipsins sem landað var á Patreksfirði á framangreindum dögum nam samtals 5.292 kg af slægðum þorski, 289 kg af slægðri ýsu, 4 kg af slægðum steinbít og 606 kg af slægðum skarkola sem skipið hafði engar aflaheimildir fyrir og sundurliðast á eftirfarandi hátt milli veiðiferða:

Löndunar­dagur

 

Þorskur

 

Ýsa

 

Steinbítur

 

Skarkoli

10.09.2001

2.496 kg

11 kg

0 kg

201 kg

 

11.09.2001

1.534 kg

19 kg

4 kg

70 kg

 

13.09.2001

79 kg

0 kg

0 kg

9 kg

 

19.09.2001

488 kg

0 kg

0 kg

188 kg

 

20.09.2001

515 kg

4 kg

0 kg

115 kg

 

21.09.2001

180 kg

255 kg

0 kg

23 kg

 

Samtals:

5.292 kg

289 kg

4 kg

606 kg

 

 

Telst þetta varða við 2. mgr. 3. gr., sbr. 23. gr. laga nr. 57, 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, 2. mgr. og 4. mgr. 7. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 38, 1990, um stjórn fiskveiða, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 36, 1992, 27. gr. laga nr. 57, 1996 og 195. gr. laga nr. 82, 1998 og 3. mgr. 10. gr., sbr. 15. gr. og 17. gr. laga, nr. 79, 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Um refsiábyrgð Fagramúla ehf. vísast auk framangreinds til 1. mgr. 24. gr. laga nr. 57, 1996, 1. mgr. 20. gr. a laga nr. 38, 1990 og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79, 1997.

III.

Fyrir brot gegn lögum um stjórn fiskveiða.

Ákærða Erni Snævari og Erlingi Sveini er gefið að sök að hafa haldið m/b Sveini Sveinssyni BA-325 til veiða dagana 20. og 21. september 2001 án þess að skipið hefði leyfi til veiða í atvinnuskyni eftir að Fiskistofa svipti skipið veiðileyfi kl. 10.00, 19. september 2001.

Telst þetta varða við 4. gr., sbr. 20. gr. laga, nr. 38, 1990, um stjórn fiskveiða.

Um refsiábyrgð Fagramúla ehf. vísast auk framangreinds til 1. mgr. 20. gr. a laga nr. 38, 1990.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar fyrir framangreind brot.

Þess er krafist, með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 79, 1997, að ákærðu verði gert að þola upptöku ávinnings af brotum sínum, á ólöglegum afla og veiðarfærum eða peningafjárhæð sem svarar til andvirðis eftirtalins afla og veiðarfæra að mati dómkvaddra matsmanna:

Afla samkvæmt I kafla ákæru 2.978 kg af slægðum þorski, 103 kg af slægðum skarkola og 12 kg af slægðri lúðu, auk upptöku á veiðarfærum sem notuð voru í veiðiferðinni 23. júní 2000 ásamt dragstrengjum.

Afla samkvæmt II kafla ákæru 5.292 kg af slægðum þorski, 289 kg af slægðri ýsu, 4 kg af slægðum steinbít, 606 kg af slægðum skarkola. “

Ákærðu halda uppi vörnum.

I.

Ekki er ágreiningur um að Sveinn Sveinsson BA-325 hafi verið staðinn að dragnótarveiðum á tilgreindum stað og tíma í ákæru.  Einnig er óumdeilt að skipið hafði ekki leyfi til dragnótarveiða innan 12 mílna marka.  Ákærðu kveðast hafa talið að endurnýjað leyfi til slíkra veiða hefði fylgt með almennu veiðileyfi, sem þeir fengu sent í póstkröfu og benda á að skipið hafi stundað dragnótarveiði allt fiskveiðiárið til þess dags er skipið var staðið að meintum ólöglegum veiðum, án þess að athugasemdir væru gerðar við það.

Samkvæmt skriflegri greinargerð Fiskistofu 27. apríl 2001 hefur aldrei tíðkast að endurnýja dragnótarleyfi sjálfkrafa.  Útgerðarmönnum skipa með slík leyfi hafi þó í lok hvers fiskveiðiárs verið sent eyðublað fyrir umsókn um leyfi til að stunda veiðarnar næsta fiskveiðiár við lok fiskveiðiárs.  Hafi það verið gert til hægðarauka, en ekki vegna þess að það væri skylt.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 79/1997 eru íslenskum skipum bannaðar veiðar með botnvörpu, flotvörpu og dragnót í fiskveiðilandhelgi Íslands, nema á tilgreindum veiðisvæðum og veiðitímum.  Samkvæmt 8. mgr. sömu gr., sbr. lið G.1., sbr. 1. gr. laga nr. 127/1997, er einstökum flokkum fiskiskipa, sem skilgreindir eru í 2. mgr. 5. gr., heimilt að stunda dragnótarveiðar allt árið frá línu réttvísandi vestur frá Bjargtöngum að línu réttvísandi norður frá Horni, utan línu sem dregin er 12 sjómílur utan viðmiðunarlínu.  Samkvæmt 6. gr. sömu laga er heimilt, þrátt fyrir ákvæði 5. gr., að leyfa veiðar með dragnót nær landi en um ræðir í 5. gr. samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu.  Óumdeilt er að Sveinn Sveinsson BA-325 hafði ekki slíkt leyfi hinn 23. júní 2000, er skipið var staðið að dragnótarveiðum innan greindra 12 mílna marka, en uppfyllti skilyrði til að fá leyfið.  Kom enda fram í framburði ákærðu að þess hefði verið aflað þegar eftir að Landhelgisgæslan stöðvaði veiðar skipsins þennan dag.

Ákærðu gáfu allir skýrslu hér fyrir dómi.  Dómurinn telur liggja ljóst fyrir að vegna aðgæsluleysis hélt útgerðin skipinu til dragnótarveiða innan greindra 12 mílna marka án þess að hafa aflað tilskilins leyfis.  Verður á það fallist að útgerðin, Fagrimúli ehf. og ákærðu allir, sem stjórnarmenn hennar, beri refsiábyrgð á því að þess var ekki gætt að afla leyfisins, sbr. 15., 16. og 18. gr. laga nr. 79/1997, þar sem m.a. er kveðið á um að brot gegn ákvæðum laganna varði viðurlögum, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi og sektir megi gera jafnt lögaðila sem einstaklingi.  Ber lögaðili hlutlæga refsiábyrgð, að því tilskildu að brot hafi orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.  Verður að leggja til grundvallar að svo hafi verið í þessu tilviki.

 Háttsemi ákærðu ber að heimfæra til 1. mgr. 5. gr., sbr. 15. og 16. gr.  laga nr. 79/1997, þar sem veiðarnar voru stundaðar leyfislaust innan fisk­veiði­land­helginnar á svæði, sem ekki er undanþegið banni ákvæðisins nema með sérstöku leyfi Fiskistofu. 

II.

Ákærðu játa báðir að hafa framið þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í II. kafla ákæru.  Varnir þeirra í þessum þætti málsins eru reistar á mótbárum gegn stjórnskipulegu gildi þeirra refsiheimilda sem háttsemi þeirra er heimfærð til í ákæruskjali.  Var í málsvörn þeirra færður fram ítarlegur rökstuðningur fyrir þessum sjónarmiðum.

Um stjórnskipulegt gildi 3. gr. og 7. gr. laga nr. 38/1990 var fjallað í dómi Hæstaréttar Íslands, upp kveðnum 6. apríl 2000 í máli nr. 12/2000.  Er for­dæmis­gildi hans ótvírætt fyrir niðurstöðu hér.  Með skírskotun til meirihlutaatkvæðis þess dóms, sem ekki þarf að endursegja hér, ber að refsa ákærðu samkvæmt þeim lagaákvæðum sem háttsemi þeirra er heimfærð til í ákæruskjali.

III.

Ákærðu kveðast kannast við að hafa farið veiðiferðir sem greindar eru í III. kafla ákæru, eftir að þeim hafði borist tilkynning Fiskistofu um sviptingu veiðileyfis.  Mótbára þeirra í þá veru að þeir hafi þrátt fyrir það mátt byggja rétt á leyfisbréfinu, þar sem þeir hafi ekki verið sviptir vörslum þess, er algerlega haldlaus.  Háttsemi þeirra er réttilega heimfærð til 4. gr. laga nr. 38/1990 og varðar refsingu samkvæmt 20. gr. og 1. mgr. 20. gr. a sömu laga, sbr. 27. og 28. gr. laga nr. 57/1996.  Við munnlegan málflutning reifaði sækjandi að fallið hefði niður við samningu ákæru að heimfæra háttsemi ákærðu til 4. gr., sbr. 16. gr. laga nr. 79/1997, sem bannar íslenskum skipum veiðar í fiskveiðilandhelginni, án leyfis til veiða í atvinnuskyni.  Þótt háttsemi ákærðu yrði réttilega heimfærð til þess ákvæðis, verður þeim að svo komnu máli aðeins refsað fyrir hana samkvæmt lögum nr. 38/1990, þar sem þyngri viðurlög liggja við brotum gegn 4. gr. laga nr. nr. 79/1997, sem eigi er getið í ákærunni.

IV.

Ákærðu hafa ekki sætt refsingum.  Við ákvörðun refsingar ákærða Magn­úsar Jóns Áskelssonar verður litið til þess að um gáleysisbrot var að ræða.  Með því að fleirum er hér refsað fyrir sama brot þykir mega miða refsingu hans við hæfi­­lega hlutdeild í lágmarksrefsingu samkvæmt 16. gr. laga nr. 79/1997.  Ákveðst hún 150.000 króna sekt, sem samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 79/1997 skal renna til Landhelgissjóðs Íslands.  Skal sektin greiðast innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en ákærði ella sæta fangelsi í 22 daga.

Ákvörðun refsingar annarra ákærðu verður ákveðin samkvæmt reglum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Hafa ber hlið­sjón af refsimörkum 16. gr. laga nr. 79/1997, 20. gr. laga nr. 38/1990, sbr. 27. gr. laga nr. 57/1996 og 23. gr. laga nr. 57/1996.  Þá verður einnig litið til þess að brot ákærðu skv. II. og III. kafla ákæru voru mörg, framin af ásetningi og tvær veiðiferðir farnar eftir að skipið hafði verið svipt veiðileyfi.  Þegar er litið til þess að verðmæti afla úr veiðiferðum skv. II. kafla ákæru nam aðeins 1.255.555 krónum samkvæmt mati dómkvadds matsmanns, verða brot ákærðu þó ekki talin svo stórfelld að varði fangelsisrefsingu.

Ákærðu Erlingi Sveini, Arnari Snævari og Fagramúla ehf. þykir hverjum um sig hæfilega refsað með 1.000.000 króna sekt til greiðslu í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms.  Vararefsing ákærðu Erlings Sveins og Arnar Snævars ákveðst þriggja mánaða fangelsi.

Með vísan til þeirra ákvæða sem greinir í ákæru verður jafnvirði afla og veiðarfæra gert upptækt.  Nemur það 1.908.152 kr. samkvæmt mati dómkvadds kunnáttumanns.

Ákærði Magnús Jón Áskelsson skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verj­anda síns, Hilmars Baldurssonar hdl., sem ákveðast 80.000 krónur.  Ákærðu Örn Snævar, Erlingur Sveinn og Fagrimúli ehf. greiði sameiginlega málsvarnarlaun skip­aðs verjanda síns, Magnúsar Thoroddsen, hrl., sem ákveðast 200.000 krónur.  Annan sakarkostnað greiði ákærði Magnús Jón að ¼, en ákærðu Erlingur Sveinn, Örn Snævar og Fagrimúli ehf. sameiginlega að ¾.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

 Dómsorð:

Ákærði Magnús Jón Áskelsson greiði 150.000 króna sekt til Land­helgis­sjóðs Íslands innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fang­elsi í 22 daga.

Ákærði Örn Snævar Sveinsson greiði 1.000.000 króna sekt til ríkis­sjóðs inn­an fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í þrjá mán­uði.

Ákærði Erlingur Sveinn Haraldsson greiði 1.000.000 króna sekt til ríkis­sjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.

Ákærði Fagrimúli ehf. greiði 1.000.000 króna sekt til ríkis­sjóðs innan fjög­urra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.

Gert er upptækt jafnvirði afla og veiðarfæra, 1.908.152 krónur.

Ákærði Magnús Jón Áskelsson skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verj­anda síns, Hilmars Baldurssonar hdl., 80.000 krónur.  Ákærðu Örn Snævar, Erl­ingur Sveinn og Fagrimúli ehf. greiði sameiginlega málsvarnarlaun skipaðs verj­anda síns, Magnúsar Thoroddsen hrl., 200.000 krónur.  Annan sakarkostnað greiði ákærði Magnús Jón að ¼, en ákærðu Örn Snævar, Erlingur Sveinn og Fagrimúli ehf. sameiginlega að ¾.