Print

Mál nr. 327/1998

Lykilorð
  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Sekt
  • Vararefsing
  • Skilorð
  • Stjórnarskrá

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 18. febrúar 1999.

Nr. 327/1998.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Erling Kristjánssyni

(Vilhjálmur Þórhallsson hrl.)

Virðisaukaskattur. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Vararefsing. Skilorð. Stjórnarskrá.

E var dæmdur fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Töldust brot E í heild meiri háttar og var honum einnig ákvörðuð refsing samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Voru fyrirmæli um lágmark sekta í 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda ekki talin brjóta í bága við 2. gr. eða 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar þó að þau leiði til verulegra hærri refsinga en almennt eru dæmdar fyrir sambærileg brot og áður voru dæmdar vegna sams konar brota. Var talið að samkvæmt 1. málsl. 61. gr. stjórnarskrárinnar yrði ekki hjá því komist að leggja þessi lagaákvæði til grundvallar við ákvörðun sektar sem gera yrði samhliða fangelsisrefsingu í samræmi við dómvenju. Var E dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og sektar, en til vararefsingar yrði sektin ekki greidd innan tilskilins tíma. Við ákvörðun vararefsingar var litið til þess sem ætla mætti að hefðu getað orðið viðurlög á hendur E ef ekki hefði verið mælt fyrir um lágmark þeirra í lögum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. ágúst 1998 af hálfu ákæruvalds og krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing verði milduð, en til vara að héraðsdómur verði staðfestur.

I.

Í málinu er ákærði, sem var framkvæmdastjóri Bjargþórs ehf. og átti þar sæti í stjórn, sóttur til saka fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti, sem lagður var á félagið vegna tímabilsins frá mars til júní 1995, samtals 2.066.192 krónur, og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem félagið hélt eftir af launum starfsmanna sinna frá nóvember 1994 til sama mánaðar á árinu 1995, alls 3.736.027 krónur. Ákærði hefur gengist við þessum brotum.

Óumdeilt er að Bjargþóri ehf. bar að greiða 1.077.004 krónur í virðisaukaskatt á gjalddaga 5. júní 1995 og 989.188 krónur á gjalddaga 5. ágúst sama árs. Þessi vanskil samanlögð varða ákærða refsingu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, svo sem þeim var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995, en þau öðluðust gildi 9. mars 1995.

Af þeirri fjárhæð, sem Bjargþór ehf. stóð ekki skil á vegna staðgreiðslu opinberra gjalda, féllu í gjalddaga samtals 1.976.244 krónur á tímabilinu frá 1. desember 1994 til 1. mars 1995, 1.593.316 krónur frá 1. apríl til 1. júní sama árs, en 166.467 krónur frá 1. júlí til 1. desember sama árs. Með vanskilum á fyrsta tímabilinu braut ákærði gegn 1. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Vanskil á öðru og þriðja tímabilinu vörðuðu við 2. mgr. 30. gr. sömu laga, svo sem þeim var breytt með 2. gr. laga nr. 42/1995.

Vanskil Bjargþórs ehf. á virðisaukaskatti, sem var í gjalddaga 5. ágúst 1995, og staðgreiðslu opinberra gjalda, sem féll í gjalddaga frá og með 1. júlí sama árs, námu samkvæmt framansögðu alls 1.155.655 krónum. Síðastnefndan dag tók gildi ákvæði 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, en samkvæmt því liggur fangelsi allt að sex árum við meiri háttar broti gegn 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, svo sem bæði þau lög hljóða nú. Að þessu leyti kom 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga í stað ákvæðis 7. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, eins og það var fyrir 9. mars 1995, en samkvæmt því varðaði brot gegn greininni fangelsi allt að sex árum ef sakir voru miklar. Vanskil Bjargþórs ehf. á staðgreiðslu opinberra gjalda í gildistíð síðastnefnda ákvæðisins voru sem áður segir 1.976.244 krónur. Þegar þeim vanskilum er bætt við vanskil félagsins frá og með 1. júlí 1995 verða þau til þess að brot ákærða telst í heild meiri háttar. Hann hefur því unnið til refsingar samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. sömu laga, jafnframt þeim ákvæðum laga nr. 45/1987 og 50/1988, sem áður er getið.

II.

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um brot, sem skipta hér máli við ákvörðun refsingar.

Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um að ákærði sæti fangelsi í þrjá mánuði, skilorðsbundið í tvö ár.

Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, eins og þessum lögum var breytt með 2. gr. og 3. gr. laga nr. 42/1995, varða brot vegna vanskila á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda sekt, sem skal aldrei vera lægri en nemur tvöfaldri fjárhæð vanskilanna og ekki hærri en tífaldri fjárhæðinni. Þessi ákvæði taka til allra vanskila Bjargþórs ehf. á virðisaukaskatti, ásamt vanskilum félagsins á staðgreiðslu opinberra gjalda frá og með gjalddaga 1. apríl 1995. Umrædd vanskil nema þannig í heild 3.825.975 krónum. Þótt fallast verði á að áðurnefnd lagafyrirmæli leiði til verulega hærri refsingar en þeirrar, sem almennt er nú ákveðin vegna sambærilegra brota og áður var ákveðin vegna sams konar brota, verða þau hvorki af þeim sökum né öðrum réttilega talin brjóta í bága við 2. gr. eða 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Samkvæmt 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar verður því ekki komist hjá að leggja þessi fyrirmæli til grundvallar við ákvörðun sektar, sem gera verður ákærða samhliða fangelsisrefsingu svo sem dómvenja stendur til. Eins og atvikum er háttað í málinu eru ekki skilyrði til að beita í þessu sambandi ákvæðum 74. gr. almennra hegningarlaga. Að gættu þessu og teknu tilliti til brota ákærða, sem varða vanskil Bjargþórs ehf. á gjöldum fyrir gildistöku laga nr. 42/1995, verður hann dæmdur til að greiða í ríkissjóð 7.700.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms. Skal ákærði sæta ella fangelsi í fjóra mánuði, en við ákvörðun þeirrar vararefsingar er litið til þess, sem ætla megi að hefðu getað orðið viðurlög á hendur ákærða ef ekki væri mælt fyrir um lágmark þeirra í lögum.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skal vera óraskað. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Erling Kristjánsson, sæti fangelsi þrjá mánuði. Fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms ef ákærði heldur almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði í ríkissjóð 7.700.000 krónur í sekt innan fjögurra vikna frá uppsögu þessa dóms, en sæti ella fangelsi fjóra mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 75.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Þórhallssonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 1998.

                Ár 1998, þriðjudaginn 16. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í dómhúsinu að Brekkugötu 2 Hafnarfirði af Finnboga H. Alexanderssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-192/1998: Ákæruvaldið gegn Erling Kristjánssyni, sem dómtekið var í dag.

                Málið er höfðað með ákæru Ríkislögreglustjóra útgefinni 17. apríl 1998 á hendur Erling Kristjánssyni, Hálsvegi 11, Þórshöfn, kennitala 281233-4089 fyrir eftirtalin brot:

„I. Fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt.

Ákærða sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni Bjargþórs ehf. kt. 510293-2319, sem úrskurðað var gjaldþrota þann 8. nóvember 1996, er gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um virðisaukaskatt með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Keflavík skil á virðisaukaskatti sem innheimtur hafði verið í nafni Bjargþórs ehf. á árinu 1995 samtals að fjárhæð 2.066.192 og sundurliðast sem hér greinir:

Greiðslutímabil:

Árið 1995

Mars-apríl

kr. 1.077.004

Maí-júní

kr. 989.188

kr. 2.066.192

Samtals

kr. 2.066.192

Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sjá nú 3. gr.laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.

Fyrir brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þá er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa eigi, í samræmi við það sem lög áskilja, staðið Sýslumanninum í Keflavík skil á staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna Bjargþórs ehf. á árunum 1994 og 1995 samtals að fjárhæð kr. 3.736.027 og sundurliðast sem hér segir:

Greiðslutímabil:

Árið 1994

Nóvember

kr. 938.917

Desember

kr. 882.305

kr. 1.821.222

Árið 1995

Janúar

kr. 99.081

Febrúar

kr. 55.941

Mars

kr. 859.477

Apríl

kr. 81.037

Maí

kr. 652.802

Júlí

kr. 12.454

Ágúst

kr. 10.031

September

kr. 36.437

Október

kr. 61.711

Nóvember

kr. 45.834

kr. 1.914.805

Samtals

kr. 3.736.027

Telst þetta varða við 1. mgr. 30. gr. sbr. 7. mgr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sjá nú 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995 og 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.”

Mál þetta er dæmt samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, en með skýlausri játningu ákærða sem samrýmist gögnum málsins telst sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega færð til refsiákvæða. Við ákvörðun sektarrefsingar verður ákærði ekki dæmdur til þyngri sekta en tíðkanlegt var fyrir gildistöku laga nr. 42/1995 að því er varðar brot hans á lögum um virðisaukaskatt og á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda vegna ársins 1994 og tímabilanna janúar til maí 1995, en að því er varðar tímabilin júlí til nóvember 1995 í staðgreiðslu verður sektarfjárhæð miðuð við nýju lögin og sekt fyrir þau tímabil ákveðin tvöföld sú upphæð sem ekki var staðið skil á.

Ákærði hlaut þrjá dóma í Héraðsdómi Reykjaness á árunum 1995 og 1996 vegna umferðarlagabrota þar sem hann var dæmdur í samtals 110 daga varðhald. Þann 29. október 1996 var ákærða veitt reynslulausn í 1 ár af eftirstöðvum refsingar 55 dögum. Ákærði hefur staðið það skilorð. Við ákvörðun refsingar ákærða nú verður höfð hliðsjón af 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga.

                Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 3 mánuði en eftir atvikum þykir rétt að ákveða að fullnustu refsingarinnar skuli frestað í tvö ár og hún niður falla að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 22/1955. Þá ber að dæma ákærða til greiðslu sektar í ríkissjóð sem þykir hæfilega ákveðin 3.000.000 krónur og greiðast skal innan fjögurra vikna, en ella sæti ákærði fangelsi í 6 mánuði.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Ekki er krafist málsvarnarlauna af hálfu verjanda ákærða.

Dómsorð:

Ákærði, Erling Kristjánsson, sæti fangelsi í 3 mánuði, en fullnustu refsingarinnar skal frestað í tvö ár og hún niður falla að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 22/1955.

Ákærði greiði 3.000.000 króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæti ella fangelsi í 6 mánuði.

                Ákærði greiði kostnað sakarinnar.