Print

Mál nr. 563/2014

Lykilorð
  • Refsiheimild
  • Stjórnarskrá

Dómsatkvæði

                                     

Þriðjudaginn 31. mars 2015.

Nr. 563/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Skúli Bjarnason hrl.)

Refsiheimild. Stjórnarskrá.

X var ákærður fyrir að hafa kafað í gjánni Silfru á Þingvöllum án þess að tilkynna köfunina og afla tilskilins leyfis frá þjóðgarðinum. Var háttsemin talin varða við ákvæði reglna nr. 214/2013 um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum, sbr. lög nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í lögum nr. 47/2004 væri hvergi að finna heimild til að mæla fyrir um köfun í þjóðgarðinum í almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Skorti því lagastoð fyrir að X hefði unnið sér til refsingar með háttsemi sinni. Þegar af þeirri ástæðu var hann sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2014. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði sakfelldur fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og dæmdur til refsingar.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

 Ákærða er gefið að sök brot á reglum nr. 214/2013 um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum með því að hafa síðdegis föstudaginn 24. maí 2013 kafað í gjánni Silfru innan þjóðgarðsins án þess að tilkynna köfunina og afla tilskilins leyfis frá starfsmönnum þjóðgarðsins. Er þetta talið varða við 1. gr., sbr. 4. gr. reglnanna, sbr. 3. og 9. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum og 6. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 848/2005 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð.

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar verður engum gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Þessi regla um lögbundnar refsiheimildir kemur einnig fram í 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá á reglan sér stoð í 1. mgr. 7. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Reglan um lögbundnar refsiheimildir girðir ekki fyrir að Alþingi geti með lögum heimilað stjórnvöldum að mæla fyrir í almennum stjórnvaldsfyrirmælum um hvaða háttsemi sé refsiverð. Þó leiðir af reglunni að löggjafinn verður í meginatriðum að lýsa því í lögum sem varðað getur refsingu svo að stjórnvöldum verði heimilað að setja reglur þar að lútandi. Í lögum nr. 47/2004 er hvergi að finna heimild til að mæla fyrir í almennum stjórnvaldsfyrirmælum um köfun í þjóðgarðinum. Skortir því lagastoð fyrir að ákærði hafi unnið sér til refsingar með háttsemi sinni. Þegar af þeirri ástæðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Skúla Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 28. maí 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 15. maí sl. og dómtekið þann 26 maí sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Selfossi, þann 8. september 2013, á hendur X, f.d. [...], til heimilis að [...],[...] í [...],

„fyrir brot á reglum um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum

með því að hafa síðdegis föstudaginn 24. maí 2013 kafað í gjánni Silfru innan þjóðgarðsins á Þingvöllum í Árnessýslu, án þess að tilkynna köfunina og afla tilskilins leyfis frá starfsmönnum þjóðgarðsins.

Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 1. gr., sbr. 4. gr. reglna um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum nr. 214/2013, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, sbr. einnig 6. mgr. 11. gr. reglugerðar um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndum [sic] hans og meðferð nr. 848/2005[.]

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði mætti við ekki við þingfestingu málsins, en hafði þá af hans hálfu verið upplýst að hann væri væntanlegur til landsins og óskað eftir fresti utan réttar. Við fyrirtöku málsins þann 26. maí sl., mætti ákærði fyrir dóminn og lýsti yfir að hann óskaði ekki eftir skipun verjanda. Ákærði viðurkenndi skýlaust að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Baðst ákærði afsökunar á háttsemi sinni. Kvaðst hann ekki hafa gert sér grein fyrir því á umræddum tíma að hann hefði verið að brjóta reglur þjóðgarðsins, enda hefði hann ekki séð skilti eða annað þar sem gerð væri grein fyrir þeim. Kvaðst ákærði ekki hafa, fyrr en eftir atvikið, áttað sig á því að hann hefði kafað í trássi við reglur, en það hefði ekki verið ætlun hans.

Með vísan til skýlausrar játningar ákærða og þar sem dómari taldi ekki ástæðu til að draga í efa að játning hans væri sannleikanum samkvæm var farið með málið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, eftir að sækjanda og ákærða sjálfum hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Rétt er að geta þess að afgreiðsla máls þessa hefur dregist þar sem erfiðlega gekk að birta ákæru fyrir ákærða.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Sannað er að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Í ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 1. mgr. 1. gr., sbr. 4. gr. reglna um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum nr. 214/2013, sbr. 1. mgr. 3. gr. og 9. gr. laga nr. 47/2004 um þjóðgarðinn á Þingvöllum, sbr. einnig 6. mgr. 11. gr.  reglugerðar um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð nr. 848/2005.

Í 3. gr. laga nr. 47/2004 er kveðið á um að land þjóðgarðsins á Þingvöllum skuli vera friðað í því skyni að varðveita ásýnd þess sem helgistaðar þjóðarinnar og til að viðhalda eins og kostur er hinu upprunalega náttúrufari. Almenningur skuli eiga kost á að njóta svæðisins samkvæmt þeim reglum sem Þingvallanefnd setur. Þá skuli jarðmyndanir, gróður og dýralíf á svæðinu vera friðað, og þjóðgarðurinn varinn fyrir lausagöngu búfjár. Þann 1. mars 2013 voru á grundvelli ofangreinds lagaákvæðis settar reglur nr. 214 um köfun í þjóðgarðinum á Þingvöllum (yfirborðs- og djúpköfun), sem kveða meðal annars á um skilyrði fyrir köfun innan þjóðgarðsins. Skv. 1. gr. reglnanna ber öllum sem hyggjast kafa innan þjóðgarðsins að tilkynna komu sína til starfsmanna þjóðgarðsins og fá til þess leyfi. Þá er kveðið á um það í 4. gr. reglnanna að brot á þeim varði sektum og fangelsi ef sakir eru miklar, sbr. 9. gr. laga nr. 47/2004. 

Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 47/2004, er kveðið á um að Þingvallanefnd semji reglugerð um þjóðgarðinn, verndun og meðferð hans, sem ráðherra staðfesti. Í reglugerðinni megi ákveða að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins fyrir veitta þjónustu og dvöl, til að mæta kostnaði við þjónustuna og eftirlit með dvalargestum. Í 2. mgr. 7. gr. segir og að Þingvallanefnd geti einnig sett sérstakar tímabundnar reglur um umferð innan þjóðgarðsins og dvöl á ákveðnum svæðum. Í 6. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 848/2005, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð, sem sett er á grundvelli 7. gr. laga nr. 47/2004, segir að öll köfun í gjám þjóðgarðsins sé bönnuð, nema á þeim svæðum og árstíma sem Þingvallanefnd kveði sérstaklega á um og þá skuli kafarar virða þær reglur sem nefndin setur þar að lútandi.

Í greinargerð með frumvarpi því sem var að lögum nr. 47/2004, kemur hvergi fram í athugasemdum með ofangreindum ákvæðum, þ.e. 3. og 7. gr. laganna, að þeim sé ætlað að ná til þess að í reglum eða reglugerð verði kveðið á um bann við köfun í gjám innan þjóðgarðsins eða skilyrðum fyrir köfun, né er slíku til að dreifa annars staðar í frumvarpinu.

Að öllu framangreindu virtu er það álit dómsins að hvorki ákvæði 3. gr., né 1. mgr. 7. gr. laga nr. 47/2004 hafi að geyma efnisreglu sem fjallar um verknaðarlýsingu á þeirri háttsemi sem ákærða er gefin að sök í máli þessu, og því teljist ákvæðin ekki næg lagastoð fyrir hinu ótvíræða banni við köfun innan þjóðgarðsins sem sett er í 6. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 848/2005, eða þeim skilyrðum sem 1. gr. reglna nr. 214/2013, setur fyrir köfun, svo að á því verði byggt sem refsiheimild í sakamáli, sbr. meginreglu 1. mgr. 1. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. og 69. gr. stjórnarskrárinnar, eins og henni var breytt með 7. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995. Er það og mat dómsins að löggjafanum hafi ekki verið heimilt að framselja Þingvallanefnd vald til að ákveða hvaða háttsemi skyldi varða refsingu samkvæmt lögum nr. 47/2004. Samkvæmt framansögðu skortir viðhlítandi lagastoð fyrir því að ákærði hafi unnið til refsingar með þeirri háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og hann hefur viðurkennt að hafa viðhaft. Verður ákærði því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Sólveig Ingadóttir, löglærður aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ákærði, X, er sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.