Print

Mál nr. 802/2014

Lykilorð
  • Handtaka
  • Frelsissvipting
  • Lögregla
  • Miskabætur
  • Stjórnarskrá

                                     

Fimmtudaginn 28. maí 2015.

Nr. 802/2014.

Sunneva Ása Weisshappel

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Fanney Rós Þorsteinsdóttir hrl.)

Handtaka. Frelsissvipting. Lögregla. Miskabætur. Stjórnarskrá.

S höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til heimtu miskabóta vegna þess að hún hefði verið handtekin tvívegis, án þess að lagaskilyrði hefðu verið til þess, auk þess sem handtakan hefði í bæði skiptin verið framkvæmd á óþarflega særandi og meiðandi hátt og hún sætt frelsissviptingu í lengri tíma en ástæða hefði verið til. S hafði í fyrra sinnið verið handtekin 20. janúar 2009 og bar hún því við að hún hefði tekið þátt í friðsamlegum pólitískum mótmælum við Alþingishúsið í Reykjavík. Hæstiréttur taldi að handtaka S og annarra mótmælenda umrætt sinn hefði verið nauðsynleg þegar þeir neituðu að fara að fyrirmælum lögreglu, sem sett voru fram á grundvelli laga, og gerðu aðsúg að lögreglumönnum, sem hefðu haft það hlutverk að vernda stjórnarskrárbundna friðhelgi Alþingis sem var að störfum þennan dag. Þá taldi rétturinn að frelsissvipting S hefði ekki varað lengur en óhjákvæmilegt var og að ósannað væri að handtaka hennar hefði af hálfu lögreglu falið í sér meira harðræði eða vanvirðu en nauðsyn bar til vegna hinna óvenjulegu aðstæðna. Í seinna skiptið var S handtekin aðfaranótt 21. maí 2009 og kvaðst hún þá hafa án réttmæts tilefnis verið handtekin og færð á lögreglustöð þar sem hún var svipt frelsi sínu fram til hádegis þennan dag. Hæstiréttur vísaði til þess að S hefði verið sýknuð af ákæru um brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 vegna háttsemi hennar gagnvart lögreglumönnum sem voru við skyldustörf umrætt sinn og leiddi til handtökunnar. Taldi Hæstiréttur að ekki hefði legið fyrir lögmætt tilefni til handtöku S og eftirfarandi flutnings hennar á lögreglustöð að því virtu að S hefði ekki verið drukkin þegar atvik urðu og að leggja yrði til grundvallar að ósannað væri að S hefði reynt að tálma því að lögreglumennirnir gegndu skyldustörfum sínum. Vegna hinnar ólögmætu handtöku voru S dæmdar miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. desember 2014. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 3.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. maí 2013 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Áfrýjandi krefst í málinu miskabóta úr hendi stefnda vegna þess að hún hafi verið handtekin tvívegis, án þess að lagaskilyrði hafi verið til þess, auk þess sem handtakan hafi í bæði skiptin verið framkvæmd á óþarflega særandi og meiðandi hátt og hún sætt frelsissviptingu í lengri tíma en ástæða hafi verið til. Annars vegar var um að ræða handtöku 20. janúar 2009 þegar hún hafi tekið þátt í friðsamlegum pólitískum mótmælum við Alþingishúsið í Reykjavík. Hins vegar handtöku aðfaranótt 21. maí sama ár, en þá hafi hún án réttmæts tilefnis verið handtekin og færð á lögreglustöð þar sem hún var svipt frelsi sínu fram til hádegis þennan dag. Áfrýjandi reisir kröfu sína um miskabætur á 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, auk þess sem hún vísar til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

II

Eins og rakið er í héraðsdómi tók áfrýjandi þátt í mótmælum við Alþingishúsið 20. janúar 2009. Mikill mannfjöldi tók þátt í mótmælunum. Lögreglan hafði umtalsverðan viðbúnað á staðnum í því skyni að verja Alþingishúsið og starfsfrið þingsins, en þingfundur fór fram þennan dag. Af gögnum málsins verður sú ályktun dregin að áætlun lögreglu hafi verið, í ljósi þess hve fáliðuð hún var en fjöldi mótmælenda mikill, að  komast hjá því eins lengi og kostur væri að handtaka mótmælendur þar sem til þess og gæslu þeirra, sem handteknir yrðu, þyrfti lögreglumenn sem þörf væri á annars staðar. Svo fór þó að um 20 mótmælendur voru handteknir þeirra á meðal áfrýjandi. Í skýrslu hennar fyrir dómi kemur fram að hún telji sig hafa verið handtekna síðust þeirra sem handteknir voru og þá hafi lögreglan verið byrjuð að flytja þá handteknu úr Alþingisgarðinum, gegnum Alþingishúsið og niður í bílakjallara tengdan húsinu. Í greinargerð 30. júní 2012, sem nefnd er Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011, kom fram að veitt hafi verið heimild til þess að flytja fólkið í bílakjallarann um klukkan 15,24. Samkvæmt því verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi verið handtekin um það leyti. Tilefni handtökunnar var ætlað brot áfrýjanda á 3. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg nr. 1097/2008, en hún hafði að sögn lögreglu verið í hópi þeirra sem neituðu að fara að fyrirmælum lögreglunnar, hafi gert aðsúg að lögreglumönnum og hvatt aðra áfram í sama skyni. Áfrýjandi neitar þessu og kveðst eingöngu hafa tekið þátt í friðsamlegum  mótmælum gegn stjórnvöldum. Lögregla mun ekki hafa talið mögulegt að koma hinum handteknu af staðnum og á lögreglustöð, vegna annarra mótmælenda sem lokuðu akstursleið úr bílakjallara Alþingishússins. Það hafi þó verið gert þegar það þótti óhætt, sem hafi verið um klukkan 18,35, en þá voru hinir handteknu fluttir á lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík. Þar var tekin skýrsla af áfrýjanda klukkan 19,40 og lauk skýrslutöku klukkan 20,07. Í kjölfarið var áfrýjanda sleppt. Samkvæmt framansögðu verður lagt til grundvallar að áfrýjandi hafi verið svipt frelsi sínu í liðlega fjórar klukkustundir og fjörutíu mínútur, þar af í þrjár klukkustundir og tíu mínútur við og í húsakynnum Alþingis af framangreindum ástæðum.

Handtaka áfrýjanda og annarra mótmælenda var nauðsynleg þegar þeir neituðu að fara að fyrirmælum lögreglu, sem sett voru fram á grundvelli 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og gerðu aðsúg að lögreglumönnum, sem höfðu það hlutverk að vernda stjórnarskrárbundna friðhelgi Alþingis, er var að störfum þennan dag. Handtakan studdist við a. lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga sem veitir lögreglu heimild til að taka menn höndum og færa á lögreglustöð eða á annan stað, þar sem lögregla hefur aðstöðu, í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu. Frelsissvipting áfrýjanda varði ekki lengur en óhjákvæmilegt var og ósannað er að handtaka hennar hafi af hálfu lögreglu falið í sér meira harðræði eða vanvirðu en nauðsyn bar til vegna hinna óvenjulegu aðstæðna. Eru því ekki skilyrði að lögum til þess að áfrýjandi geti krafist miskabóta úr hendi stefnda vegna handtökunnar 20. janúar 2009 og eftirfarandi frelsisskerðingar.

III

Höfðað var sakamál á hendur áfrýjanda vegna ætlaðrar refsiverðar háttsemi hennar í aðdraganda að handtökunni aðfaranótt 21. maí 2009. Í ákæru var henni gefið að sök að hafa umrætt sinn ,,framan við Laugaveg 76, óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, ítrekað reynt að draga ákærða Snorra Pál frá lögreglumönnunum ... sem voru við skyldustörf og hugðust ræða við hann og reynt að ýta lögreglumönnunum frá og þannig tálmað því að þeir gætu sinnt skyldustörfum sínum.“ Var háttsemi áfrýjanda í ákærunni talin varða við 19. gr., sbr. 41. gr., lögreglulaga og 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Niðurstaða héraðsdóms var sú að verknaðarlýsingu í ákæru á háttsemi áfrýjanda, sem laut að því að hún hafi óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, væri áfátt og ekki í samræmi við fyrirmæli c. liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Yrði því ,,ákærða ekki sakfelld fyrir að hafa brotið gegn 19. gr. sbr. 41. gr. lögreglulaga.“ Ekki var talin fram komin nægileg sönnun þess að áfrýjandi hefði gerst sek um aðra háttsemi, sem henni var gefin af sök í ákæru og hún því sýknuð af þeim sakargiftum að tálma því að lögreglumennirnir hefðu getað sinnt skyldustörfum sínum með því að reyna ítrekað að draga ákærða Snorra Pál frá þeim og reynt að ýta lögreglumönnunum frá. Í dómsorði sagði að hún og Snorri Páll væru ,,sýkn af kröfum ákæruvaldsins“ í málinu.

Samkvæmt framburði áfrýjanda fyrir dómi, sem fær stoð í framburði annars lögreglumannsins sem að handtöku hennar stóð, var hún ekki drukkin þegar atvik urðu þótt hún hefði neytt einhvers áfengis fyrr um kvöldið. Í ljósi þess og hins að leggja verður til grundvallar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 4. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, að ósannað sé að áfrýjandi hafi reynt að tálma því að lögreglumennirnir gegndu skyldustörfum sínum, liggur ekki fyrir að lögmætt tilefni hafi verið til handtöku hennar og eftirfarandi flutnings á lögreglustöð. Þótt sannað teldist að áfrýjandi hefði látið ófriðlega í kjölfar handtökunnar og við komu á lögreglustöð verður að taka tillit til þess að hún hafði verið handtekin án þess að lögmælt skilyrði væru fyrir hendi og verður því ekki talið að háttsemi hennar eigi að leiða til niðurfellingar eða skerðingar á rétti hennar til miskabóta samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Verða áfrýjanda því dæmdar miskabætur að fjárhæð 400.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði en við ákvörðun bótanna skiptir máli að ekki hafa verið lögð fram haldbær gögn um að handtakan eða eftirfarandi frelsisskerðing, sem varði í rúmlega sjö klukkustundir, hafi haft neinar varanlegar líkamlegar eða andlegar afleiðingar fyrir hana.  

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Sunnevu Ásu Weisshappel, 400.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. maí 2013 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. september 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sunnevu Ásu Weisshappel (kt. [...]) til heimilis að Laugavegi 41a, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu 25. júní 2013. 

                Dómkröfur stefnanda eru að stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda 3.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 16. maí 2013 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar auk virðisaukaskatts úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda og að honum verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins, en til vara er þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

I.

Stefnandi höfðar mál þetta til greiðslu bóta vegna tveggja aðskilinna atvika.

Fyrra atvikið átti sér stað 20. janúar 2009. Alþingi var þá að koma saman eftir jólaleyfi og hafði fjöldi manns safnast saman í miðborg Reykjavíkur en afar fjölmennur útifundur fór þá fram á Austurvelli. Lögreglan var með umtalsverðan viðbúnað enda ástæða til að ætla að mikill mannfjöldi yrði á fundinum. Var götum lokað við Austurvöll og bílaumferð ekki leyfð um Kirkjustræti, Templarasund og Kirkjutorg. Gert var ráð fyrir mannfjölda á Austurvelli og kom lögregla fyrir lokunarborðum framan við Alþingishúsið til að afmarka það svæði sem ætlað var almenningi á útifundinum. Mikill mannfjöldi var saman kominn á Austurvelli strax um hádegisbil, en samkvæmt fyrirliggjandi greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags 21. maí 2013, kemur fram að í dagbók lögreglu hafi verið skráð kl. 12.58 að 300 manns hið minnsta hafi þá verið við þinghúsið og byrjað væri að rífa niður borðana sem lögregla hafði sett upp. Fólki hafi svo fjölgað verulega eftir því sem leið á daginn og útifundurinn breyst úr friðsamlegum fundi í kröftug mótmæli þar sem nokkur fjöldi manna hafi m.a. gert aðsúg að þinghúsinu og lögreglu. Lögreglan hafi því ákveðið vegna aðstæðna að leggja áherslu á að verja þinghúsið en hafi þó haft takmarkaðan mannafla til að halda mannfjöldanum frá. Fyrr en varði hafi fólk verið komið að þinghúsinu frá öllum hliðum auk þess sem Alþingisgarðurinn hafi verið fullur af fólki. Hafi lögregla óttast að fólki tækist að ryðja sér leið í þinghúsið. Þegar leið á daginn hafi orðið ljóst að hópur fólks hafi ekki haft í hyggju að fara að fyrirmælum lögreglu og halda sig frá dyrum og gluggum þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli og loks hafi farið svo að lögregla hafi þurft að handtaka nokkra menn sem hún taldi hafa haft sig þannig mest í frammi.

Á meðal þeirra sem handteknir voru í mótmælunum við Alþingishúsið var stefnandi þessa máls en í gögnum lögreglu kemur fram að hún hafi verið handtekin kl. 15.25. Enn fremur kemur fram í ofangreindri greinargerð lögreglustjórans að vegna aðstæðna á vettvangi hafi ekki reynst gerlegt að flytja hina handteknu á lögreglustöð til yfirheyrslu þegar í stað og hafi þeir því þurft að bíða í vörslu lögreglu á staðnum. Hafi verið farið með hina handteknu í bílastæðiskjallara undir þinghúsinu en samkvæmt greinargerð lögreglustjórans varði sú frelsissvipting stefnanda frá kl. 15.25 og til kl. 18.35 þegar hún var færð á lögreglustöð. Stefnandi hafi þar verið yfirheyrð kl. 19.40 og sleppt að því loknu kl. 20.07. Stefnandi var þannig í haldi lögreglu í um það bil fjóra og hálfa klukkustund, þar af fyrstu þrjár klukkustundirnar á vettvangi.

Eins og nánar er lýst í þeim kafla dómsins þar sem raktar eru málsástæður stefnanda, upplifði hún handtökuna þannig að henni hefði verið hrint fast að glervegg nýbyggingar Alþingishússins af lögreglu á meðan hún hafi verið handjárnuð. Að því búnu hafi stefnandi ásamt öðrum handteknum mótmælendum verið flutt niður í bílakjallara undir Alþingishúsinu þar sem henni hafi verið komið fyrir í röð ásamt öðrum sem einnig voru handjárnaðir. Hafi handteknum einstaklingum verið gert að sitja þar á gólfi gegnt hvert öðru í gleiðri stöðu þannig að fætur krossuðu fætur annarrar handtekinnar manneskju. Af hálfu stefnanda er því lýst að þar sem stefnandi hafi setið handjárnuð í þessari stöðu hafi tilteknir lögreglumenn á staðnum viljað  ræða við hana önnur óskyld mál að öðrum áheyrandi og það hafi henni þótt bæði auðmýkjandi og óviðeigandi. Stefnandi telur einnig að henni hafi ekki verið greint frá ástæðum þess að hún hafi verið tekin út úr hópi mótmælenda og handtekin, auk þess sem hún hafi ekki fengið tilkynningu um niðurfellingu málsins né aðrar upplýsingar um afdrif þess.   

Síðara tilvikið sem stefnandi byggir bótakröfu sína á er vegna handtöku sem átti sér stað aðfaranótt fimmtudags 21. maí 2009. Tildrög voru þau að stefnandi var þá stödd í húsasundi við Laugaveg 64 ásamt vini sínum Snorra Páli Jónssyni. Höfðu þau verið að skemmta sér og var stefnandi að sækja reiðhjól sem hún hafði skilið þar eftir. Kom þá lögreglubíll aðvífandi með tveimur lögreglumönnum á vettvang. Eftir því sem næst verður komist fóru lögreglumennirnir þess á leit að Snorri Páll kæmi með þeim inn í lögreglubílinn þar sem þeir vildu ræða við hann um meinta framkomu hans fyrr um kvöldið. Hafði Snorri að sögn lögreglumannanna ítrekað verið að skyrpa í átt að lögreglubifreiðinni þar sem hún hafi verið við vettvangseftirlit í miðbæ Reykjavíkur.

Ber málsaðilum ekki allskostar saman um framvindu samskipta þeirra upp úr þessu. Bæði stefnandi og Snorri Páll bera því við að Snorri Páll hafi þá umsvifalaust verið snúinn niður af lögreglumönnunum á vettvangi og hann síðan dreginn inn í lögreglubifreiðina. Lögreglumennirnir lýsa atvikum hins vegar svo að samskiptin við Snorra hafi verið þannig að hann hafi í fyrstu sjálfur fylgt þeim að lögreglubifreiðinni og án nokkurra átaka við hann þá. Í framhaldi af þessum afskiptum lögreglu af Snorra Páli hafi stefnanda hins vegar lent harkalega saman við lögreglumennina. Kom fram af hálfu lögreglumannanna tveggja að stefnandi hafi haft sig mjög í frammi og í engu sinnt fyrirmælum þeirra um að leyfa lögreglu að sinna starfi sínu og að endingu hafi hún veist að þeim og hún þá verið handtekin á vettvangi. Af hálfu stefnanda er þessum atvikum hins vegar lýst svo að hún hafi gert athugasemdir við framferði lögreglunnar gagnvart Snorra Páli, en fyrir vikið sætt sjálf harkalegri meðferð og handtöku þar sem hún hafi verið keyrð niður í jörðina og snúið upp á hendur hennar fyrir aftan bak á meðan annar lögreglumannanna hafi rekið hné harkalega í bak hennar við handtökuna. 

Í frumskýrslu lögreglu, dags 21. maí 2009, kemur fram að stefnandi og Snorri Páll hafi í framhaldi verið færð til yfirheyrslu á lögreglustöðina að Hverfisgötu og töldust þau hafa verið handtekin kl. 4.58. Kemur þar einnig fram að stefnandi hafi enn verið afar æst þegar komið var á lögreglustöð og m.a. neitað að gera þar grein fyrir sér. Þar hafi stefnanda verið kynnt sakarefnið og ákveðið að hún og Snorri Páll skyldu vistuð í fangaklefa þar til áfengisvíma væri runnin af þeim og hægt væri að taka af þeim skýrslu vegna málsins. Er rétt að halda því til haga að stefnandi hefur viðurkennt að hafa drukkið áfengi þá um kvöldið en kveðst þó ekki hafa verið mjög ölvuð. Enn fremur er því haldið fram af hálfu stefnanda að hún hafi upplifað aðfarir lögreglunnar þegar komið var á lögreglustöðina sem afar niðurlægjandi þar sem fjórir lögreglumenn hafi staðið þar yfir henni og m.a viðhaft afar persónuleg og óviðurkvæmileg ummæli á borð við það að þeir myndu skammast sín fyrir að vera faðir hennar. Liggur fyrir að stefnandi hafi svo verið færð til skýrslutöku kl. 11.23 og svo látin laus að því afloknu.

Fyrir liggur að 21. janúar 2011 var gefin út ákæra á hendur stefnanda vegna atburðanna er áttu sér stað umrædda nótt. Í ákæruskjali, dags. 20. janúar 2011, var henni gefið að sök að hafa brotið gegn 19. gr., sbr. 41. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu, ítrekað reynt að draga samferðarmann sinn, sem einnig var þá ákærður, frá lögreglumönnum, sem hefðu verið við skyldustörf og hugðust ræða við hann og reynt að ýta lögreglumönnum frá og þannig tálmað því að þeir gætu sinnt skyldustörfum. Liggur fyrir að stefnandi var síðan sýknuð af ákærunni með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. S-26/2011, sem kveðinn var upp 7. apríl 2011.

II.

                Stefnandi byggir á því að frelsissvipting hennar 20. janúar 2009 hafi verið óréttmæt þar sem hún hafi þá, með friðsamlegum hætti, verið að tjá pólitískar skoðanir sínar. Sá réttur sé verndaður af 73. gr. stjórnarskrár lýðveldis Íslands, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur hafi verið með lögum nr. 62/1994. Að auki sé handtaka við mótmæli viðamikil skerðing á tjáningar- og fundafrelsi, sem verndað sé af ákvæðum 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt lögregluskýrslu í máli nr. 007-2009-16252, dags. 20. janúar 2009, hafi stefnandi verið handtekin fyrir utan Alþingishúsið kl. 11, grunuð um að hafa brotið gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar. Hafi stefnandi verið handjárnuð með plastreipi og látin sitja með hendur fyrir aftan bak í ankannalegri og vanvirðandi líkamsstellingu ásamt öðrum handteknum einstaklingum, sem hafi verið gert að sitja útglennt gegnt hvert öðru án ástæðu. Hafi stefnandi ekki verið færð til yfirheyrslu fyrr en mörgum klukkustundum síðar eða kl. 19.40. Í lögregluskýrslu séu fátæklegar skýringar á handtöku. Komi þar aðeins fram að ástæða handtöku hafi verið grunur um að stefnandi hafi brotið gegn 3. gr. lögreglusamþykktar Reykjavíkurborgar. Í þeirri grein segi að uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi, sem raskar allsherjarreglu, megi ekki eiga sér stað á almannafæri, og ekki megi menn þyrpast þar saman, ef það truflar umferð eða veldur vegfarendum öðrum óþægindum. Þá segi í samþykktinni að enginn megi áreita aðra á almannafæri eða sýna þar af sér ósæmilega háttsemi. Stefnandi hafi ekki gerst sek um slíka háttsemi og ekki verið ákærð fyrir slík brot.

Stefnandi byggi á að um ólögmæta handtöku hafi verið að ræða í skilningi laga. Handtaka þurfi að grundvallast á skýrri lagaheimild, sbr. 90. gr. laga um meðferð sakamála. Sem sjá megi af lögregluskýrslum sé ekki ljóst fyrir hvaða saknæmu háttsemi stefnandi hafi verið handtekin. Ekki hafi verið rökstuddur grunur um að stefnandi hefði framið brot sem gæti sætt ákæru enda ekki refsivert að mótmæla. Þá geri ákvæði 90. gr. laganna kröfu um að handtaka sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot eða til að tryggja návist eða öryggi eða koma í veg fyrir að spillt sé sönnunargögnum. Þessi skilyrði hafi ekki verið uppfyllt í tilfelli stefnanda. Þá sé ljóst að stefnandi hafi ekki ærst á almannafæri né valdið hneyksli eða hættu á óspektum, enda bendi málsskjöl ekki til þess. Handtakan hafi ekki uppfyllt skilyrði laga og því verið óheimil. Brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda, en í 67. gr. stjórnarskrár segi að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá sé ljóst að frelsissviptingin hafi varað óhóflega lengi og við aðstæður sem hafi verið fullkomlega óásættanlegar og teljist bæði vanvirðandi og ómannlegar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá segi í 2. mgr. sömu greinar að hver sá sem sviptur hefur verið frelsi eigi rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Stefnandi hafi ekki verið upplýst um ástæður frelsissviptingar, enda virðist gögn lögreglu benda til að ástæður hafi verið óljósar. Beri að líta til þess að 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé notuð til túlkunar á fyrrgreindri grein stjórnarskrár en þar séu skýrt upptalin skilyrði sem réttlæti handtöku. Lagastoð hafi skort til handtöku á stefnanda og eigi slík staðreynd að vega þungt við ákvörðun bótaréttar henni til handa.

Engar skýringar hafi verið gefnar í lögregluskýrslu á því hvers vegna svo miklu valdi hafi verið beitt í þessu máli né hvers vegna svo mjög hafi dregist að sleppa stefnanda úr haldi. Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags. 21. maí 2013, segi að ekki hafi verið hægt að komast burt úr Alþingisgarðinum og því hafi hin handteknu verið flutt inn í þinghúsið, niður í bílageymslu og þaðan út. Ekki sé ljóst hvers vegna beðið hafi verið með það að fara með fólk út úr húsinu klukkustundum saman. Sé því enn með öllu óljóst hvers vegna stefnandi hafi verið frelsissvipt í bílakjallara í margar klukkustundir. Þá sé hvergi tilgreind sú ólögmæta háttsemi sem stefnanda hafi verið gefin að sök og orsakað hafi handtöku. Þess í stað sé talað um það í greinargerðinni að stefnandi hafi með framferði sínu og hegðun orsakað handtökuna. Sé í þessu samhengi vísað til 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 þar sem segi að handhafar lögregluvalds megi aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf sé á hverju sinni. Handtaka án tilgreinds lögbrots og frelsissvipting stefnanda klukkustundum saman, handjárnuð og sitjandi í klofi ókunnugrar manneskju, sé brot á meðalhófsreglu lögreglulaga og stjórnsýslulaga, sbr. 12. gr. laga nr. 37/1993. Enn fremur séu aðgerðir lögreglu gegn stefnanda í ósamræmi við 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga sem segi að handhafar lögregluvalds skuli ávallt gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni í störfum sínum.

Hvað varði síðara atvikið, þann 21. maí 2009, sé byggt á því að um ólögmæta handtöku hafi verið að ræða þegar þau atvik gerðust og sem stefnandi hafi verið ákærð fyrir og síðan sýknuð af í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-26/2011.

Handtaka sé einn einstakur og afmarkaður atburður sem þurfi að grundvallast á skýrri lagaheimild, sbr. 90. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Eins og sjá megi af lögregluskýrslum í málinu sé alls ekki ljóst hver hafi verið ástæða handtöku stefnanda og stefnandi byggi á því að handtakan hafi verið ástæðulaus og óheimil. Ekki hafi verið fyrir hendi rökstuddur grunur um að stefnandi eða vinur hennar hefðu framið brot sem sætt gæti ákæru. Ósannað sé með öllu að Snorri Páll hafi í raun skyrpt í átt að lögreglubifreiðinni, slík háttsemi sé enda ekki refsiverð og a.m.k. sé óumdeilt að stefnanda hafi aldrei verið gefin nein slík háttsemi að sök. Þá geri ákvæði 90. gr. sakamálalaga kröfu um að handtaka sé nauðsynleg til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot eða til að tryggja návist eða öryggi eða koma í veg fyrir að sakborningur spilli sönnunargögnum. Þessi skilyrði hafi með öllu verið óuppfyllt í tilfelli stefnanda. Ekki hafi heldur verið nauðsynlegt að handtaka hana í þágu rannsóknar fyrir að segja ekki deili á sér enda óljóst hvað nákvæmlega hafi verið til rannsóknar hér. Þá sé ljóst að stefnandi hafi ekki ærst á almannafæri né valdið hneyksli eða hættu á óspektum, enda bendi málsskjöl ekki til að svo hafi verið. Stefnandi mótmæli sem röngum fullyrðingum lögreglu þess efnis að hún hafi verið ölvuð. Það sé rangt og ósannað og hefði lögreglu reynst auðvelt að taka sýni úr stefnanda til sönnunar slíkum fullyrðingum en það hafi ekki verið gert.

Umrædd handtaka hafi ekki uppfyllt skilyrði laga og því verið óheimil. Brotið hafi verið á stjórnarskrárvörðum réttindum stefnanda en í 67. gr. stjórnarskrár segi að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá segi í 2. mgr. þeirrar greinar að hver sá sem sviptur hafi verið frelsi eigi rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Stefnandi hafi ekki verið upplýst um ástæður frelsissviptingar, enda sýni gögn frá lögreglu að slíkar ástæður hafi ekki verið fyrir hendi á þeim tímapunkti sem handtakan hafi átt sér stað þegar umræddir lögreglumenn hafi snúið stefnanda niður með ofbeldi. Beri í þessu samhengi að líta til þess að 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé notuð til túlkunar á fyrrgreindri grein stjórnarskrár en þar séu skýrt upptalin þau skilyrði sem geti réttlætt handtöku. Lagastoð hafi skort til handtöku stefnanda og eigi slík staðreynd að vega þungt við ákvörðun bótaréttar henni til handa.

Uppgefnar ástæður í gögnum lögreglu virðist ekki á nokkurn hátt renna stoðum undir heimild til handtöku stefnanda. Greinargerð lögreglustjóra geri tilraun til að réttlæta atburði en lögreglan hafi ekki brugðist við áskorunum stefnanda um að afla upptöku frá atburðum og eigi því að bera hallann af því enda í mjög sterkri stöðu til að afla slíkra sönnunargagna. Í greinargerð lögreglustjórans sé fullyrt að lögregla hafi ekki misbeitt valdi en ekki virðist þó hafa verið gerð rannsókn á ásökunum stefnanda og vinar hennar um ofbeldi við handtöku og sé því með öllu óljóst hvernig greinargerðarhöfundur telji sig þess umkominn að fullyrða um þá atburði með jafn afdráttarlausum hætti og raun beri vitni. Fram komi í greinargerðinni að lögregluskýrslur séu yfirleitt skráðar í beinu framhaldi af atburðum og séu því áreiðanlegar heimildir. Ekki hafi sú verið raunin í tilfelli stefnanda þar sem annar lögreglumaðurinn hafi skrifað skýrslu sína 14 mánuðum eftir þá atburði sem um ræðir.  

Handtaka og frelsissvipting stefnanda að morgni 21. maí 2009 hafi brotið gegn meðalhófsreglu 14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda megi handhafar lögregluvalds aldrei ganga lengra í beitingu valds en þörf sé á hverju sinni. Háttsemin hafi einnig brotið gegn 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga.

Stefnandi hafi orðið fyrir líkamlegu og andlegu tjóni sökum framferðis lögreglunnar. Hafi það mikilli hörku verið beitt við handtökuna að stefnandi hafi haft áhyggjur af því að hún myndi handleggsbrotna. Hún hafi ekki aflað áverkavottorðs en Snorri Páll Jónsson hafi orðið vitni að hluta þess harðræðis sem hún hafi verið beitt af hálfu lögreglu. Þá hafi nákomnir aðilar stefnanda orðið vitni að áverkum þeim sem hún hafi hlotið vegna framferðis lögreglu. Leggi stefnandi áherslu á að líkamlegir áverkar hafi þó verið vægari en það andlega tjón sem hún hafi orðið fyrir vegna umræddra atburða. Hafi henni verið tjáð af lögreglu að Snorri hefði verið handtekinn og honum haldið vegna hegðunar hennar. Þá hafi hún verið yfirheyrð af fjórum lögreglumönnum samtímis sem hafi talað til hennar á afar ógnandi og niðrandi hátt. Hafi þeir m.a. viðhaft ummæli á borð við það að þeir myndu skammast sín fyrir að vera faðir hennar.

Þegar litið sé til heildarmyndar þeirra atburða sem hafi átt sér stað umrætt kvöld sé ljóst að aðfarir lögreglu gagnvart stefnanda hafi ekki verið í nokkru samhengi við þá háttsemi sem henni hafi verið gefin að sök og hvað þá raunverulegar gjörðir hennar. Ítrekaðar séu ofangreindar tilvísanir til lagaákvæða um réttmætar aðgerðir lögreglu og meðalhófsreglu. Vísað sé til 68. gr. stjórnarskrár og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um bann við ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá sé vísað til 5. gr. mannréttindasáttmálans um rétt allra manna til frelsis og mannhelgi.

Vísað sé til ákvæðis b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda. Hafi réttur til miskabóta stofnast vegna aðgerða lögreglu og skuli íslenska ríkið, sem vinnuveitandi lögreglumannanna, greiða miskabætur til handa stefnanda þar sem lögreglan hafi valdið af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu stefnanda.

Í kjölfar ólögmætrar frelsissviptingar hafi stefnandi þurft að þola óhóflega langa frelsissviptingu. Hún hafi verið frelsissvipt yfir nótt á lögreglustöð og ekki verið sleppt fyrr en á hádegi daginn eftir. Sé því ekki aðeins um óheimila frelsissviptingu að ræða heldur hafi hún einnig varað óhóflega lengi. Við vitnaleiðslur í máli S-26/2011 hafi komið í ljós að rök fyrir vistun í fangageymslum skorti alveg. Hafi lögreglumenn orðið margsaga um tilgang vistunar og upplýst sé að uppgefnar ástæður í lögregluskýrslum ættu ekki að nægja til að fólk yrði vistað svo lengi í fangageymslum gegn vilja sínum. Þannig hafi ein af uppgefnum ástæðum fyrir að halda stefnanda yfir nótt verið meint ölvun. Hins vegar hafi stefnandi þá ekki verið ölvuð og standist sú ástæða því ekki. Eins og fram hafi komið við aðalmeðferð í því máli, hafi engin tilraun verið gerð af hálfu lögreglu til að mæla meinta ölvun eins og reglur geri ráð fyrir, eigi að byggja frelsissviptingu á slíku. Hafi aðgerðir lögreglu hvað fangelsisvist stefnanda varði verið með öllu heimildarlausar og brotið gegn 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 67. gr. stjórnarskrár, og meðal annars 2. mgr. 16. gr. lögreglulaga, enda sé óheimilt að frelsissvipta lengur en nauðsyn krefji.

Reglan um réttláta málsmeðferð hafi verið brotin þar sem mikill dráttur hafi orðið á ákæru í máli S-26/2011. Hafi liðið 21 mánuður frá ætluðu broti og þar til ákært hafi verið. Um hinn óhóflega drátt á málinu sé vísað til 70. gr. stjórnarskrár, 6. gr. mannréttindasáttmála, og 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála. Sú háttsemi sem stefnanda hafi verið gefin að sök sé smávægileg og auðrannsakanleg og því með öllu óréttlætanlegt að gefin hafi verið út ákæra nær tveimur árum eftir að meint brot hafi átt sér stað. Við málsmeðferð fyrir dómi hafi komið í ljós að ákæruvaldið hafi ekki talið málið nægilega rannsakað, en þó ákært á grundvelli sömu rannsóknarstöðu. Brjóti slíkt gegn rannsóknarreglu og hlutlægnireglu 53. gr. laga um meðferð sakamála. 

Í samantekt lögreglu til ákæranda, sem lögmaður stefnanda hafi loks fengið afrit af eftir ítrekaðar tilraunir, komi fram að vinur stefnanda hafi hrækt tvisvar á lögreglubifreiðina rétt fyrir handtöku hans. Við yfirheyrslur hafi lögreglumennirnir viðurkennt að meintur hráki á lögreglubifreiðina hafi átt sér stað talsvert fyrr um kvöldið og á allt öðrum stað heldur en handtakan hafi farið fram. Sé því ljóst að engin réttlæting hafi verið fyrir afskiptum lögreglu af stefnanda og vini hennar í umrætt skipti, hvað þá fyrir harkalegri handtöku þeirra. Enn alvarlegri sé sú staðreynd að lögreglan hafi hagrætt atburðarás í gögnum til ákæruvaldsins til að ýkja samhengi á milli meintrar háttsemi vinar stefnanda og handtöku þeirra. Sé um vítaverða hegðun að ræða af hálfu lögreglu sem með þessu hafi brotið alvarlega gegn hlutlægnisskyldu.

Ekki sé refsivert að skyrpa í átt að lögreglubifreið og því hafi aldrei legið fyrir rökstuddur grunur um refsiverða háttsemi af hálfu vinar stefnanda, hvað þá stefnanda sjálfrar. Þrátt fyrir þetta hafi lögreglan ákveðið að viðhafa ólögmæt og ofbeldisfull afskipti af stefnanda og vini hennar og notað svo mótmæli þeirra við slíkri meðferð sem ástæðu til harkalegrar handtöku og frelsissviptingar í yfir átta klukkustundir. Í stað þess að láta svo þar við sitja hafi lögregla lagt fram tillögu um ákæru á hendur stefnanda 21 mánuði síðar þar sem atburðarás virðist hafa verið hagrætt til að auka líkur á sakfellingu. Slíkt framferði af hálfu lögreglu sé með öllu ólögmætt og ólíðandi. 

Þau atvik sem stefnt sé vegna hafi valdið stefnanda miklum miska þar sem bæði tilfelli frelsissviptingar hafi verið framkvæmd með óþarflega miklu harðræði. Hafi verið vegið að frelsi, friði, æru og persónu stefnanda með þeim hætti sem gengið hafi verið fram gagnvart henni af lögreglu sem hafi beitt hana vanvirðandi meðferð og ofbeldi við handtöku og óeðlilegum þrýstingi við yfirheyrslu. Hafi framganga lögreglu gagnvart stefnanda einkennst af virðingarleysi og hroka og hún hafi fyrir vikið misst alla trú á lögreglu sem hlutlausu yfirvaldi sem veiti henni vernd í samfélaginu. Sé slíkt til þess fallið að valda henni óöryggi og kvíða um að hún fái ekki hlutlausa meðferð og geti sætt afskiptum, ógnum, ofbeldi og eða frelsissviptingu án sakar. Áfallið sem hafi tengst þeim atburðum sem stefnt sé vegna hafi haft afar neikvæð áhrif á stefnanda sem skömmu síðar hafi fengið taugaáfall og þjáðst um skeið af ofsakvíða. Lagt sé fram vottorð sálfræðings sem staðfesti að umrædd handtaka hafi valdið stefnanda vanlíðan.

Stefnandi hafi beint bótakröfu, dags. 16. apríl 2013, vegna þessara atburða til embættis ríkislögmanns. Með bréfi dags 14. júní 2013 hafi bótaskyldu verið hafnað með vísan til álits lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Sé stefnanda því sú ein leið fær að höfða mál þetta. Sé um að ræða tvö alvarleg og aðskilin atvik þar sem lögregla hafi misbeitt valdi gagnvart stefnanda og geri stefnandi kröfu um 1.500.000 krónur í bætur fyrir hvort tilvik um sig, eða alls 3.000.000 króna utan vaxta.

Verði að hafa í huga að frelsissvipting stefnanda í janúar 2009 hafi varað lengi við vanvirðandi og ómannúðlegar aðstæður og án þess að hún væri grunuð um skilgreint brot gegn lögum. Ekki hafi verið saksótt fyrir meint brot gegn lögreglusamþykkt sem þýði án vafa að stefnandi eigi rétt á bótum skv. 228. gr. laga um meðferð sakamála enda hafi málið væntanlega verið fellt niður þó stefnandi kannist ekki við að hafa verið upplýst um það líkt og lög geri ráð fyrir. Auk þess verði sú meðferð, að láta manneskju liggja bundna á höndum í klofi ótengds handtekins aðila, að teljast ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga.

Í síðara tilvikinu hafi stefnandi verið sýknuð eftir íþyngjandi málsmeðferð og ofbeldisfulla handtöku sem virðist alfarið hafa byggst á meintum brotum vinar hennar en ekki saknæmrar hegðunar hennar sjálfrar. Hafi lögreglumenn virst viljandi hafa haft yfirheyrslur yfir stefnanda auðmýkjandi og þrúgandi með fjölda yfirheyrsluaðila og ummælum sem hafi verið viðhöfð um hana við yfirheyrslu. Sú framkvæmd teljist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga. Sé um að ræða alvarleg inngrip í mannhelgi sem hafi haft varanleg áhrif á sálarlíf stefnanda og sem hún kljáist enn við afleiðingar af. Með ákvörðun, dags. 2. september 2011, hafi stefnanda verið veitt gjafsókn vegna málareksturs þessa.

Bótakrafa í málinu sé byggð á 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Vísað sé til 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldis Íslands. Einnig sé vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna líkamstjóns og ólögmætrar meingerðar gegn frelsi, friði, æru og persónu stefnanda. Vísað sé til XXXVII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 hvað bótakröfu stefnanda varði. Kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti styðji stefnandi við reglur IV. kafla, sbr. 1. mgr. 6 gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfur um virðisaukaskatt séu byggðar á lögum nr. 50/1988 með síðari breytingum, en þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili beri nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.

III.

                Af hálfu stefnda er mótmælt málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum. Stefndi mótmæli því að brotið hafi verið gegn stjórnarskrárvörðum mannréttindum stefnanda. Sé byggt á því að allar aðgerðir lögreglu hafi verið réttmætar og í samræmi við lög. Enn fremur hafi meðalhófs verið gætt í hvívetna. Aðgerðir lögreglu hafi verið fyllilega lögmætar og réttmætt tilefni til þeirra. Handtaka stefnanda hafi byggst á skýrum lagaheimildum og hafi verið framkvæmd í því skyni að halda uppi allsherjarreglu og almannafriði. Sé því mótmælt að stefnandi geti átt rétt til bóta, hvort heldur sé á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, eða almennra reglna.

Stefndi krefjist sýknu af kröfum sem séu til komnar vegna atvika 20. janúar 2009. Stefndi leggi áherslu á að aðstæður við þinghúsið þann dag hafi verið afar óvenjulegar. Búsáhaldabyltingin hafi verið í hámarki og þessi dagur verið sá fyrri af tveimur þar sem mótmælin hafi orðið hvað hörðust. Mikilvægt hafi því verið að lögregla næði að hafa stjórn á ástandinu og gæti haldið uppi lögum og reglu. Markmið lögreglu hafi verið að tryggja starfsfrið Alþingis. Hafi aðgerðarstjórn lögreglu lagt upp með að handtaka ekki fólk heldur verja þinghúsið, enda þótt hegningarlagabrot liggi við því að ráðast á Alþingi, sbr. 1. mgr. 100. gr. almennra hegningarlaga. Sú ákvörðun hafi svo verið endurskoðuð þegar ljóst hafi verið orðið að lögregla næði ekki að verja þinghúsið með öðrum hætti en með því að handtaka þá einstaklinga sem hafi haft sig þá mest í frammi. Nauðsynlegt hafi verið að koma þeim burt af svæðinu, enda hafi þeir gengið lengra heldur en hægt var að líða, og stefnandi hafi verið í þeirra hópi.

Stefndi mótmæli því að handtaka stefnanda 20. janúar 2009 hafi verið óréttmæt þar sem hún hafi í umrætt sinn aðeins verið að tjá pólitískar skoðanir með friðsamlegum hætti. Það sé ekki rétt þar sem aðeins örfáir menn hafi verið handteknir í þetta sinn og hafi ástæða verið fyrir handtöku þeirra. Þessir aðilar hafi ekki mótmælt með friðsamlegum hætti heldur gert aðsúg að lögreglunni og farið gegn fyrirmælum hennar, sem þeim hafi þó borið skýr skylda til að fylgja, sbr. t.d. 19. gr. lögreglulaga.

Stefndi taki undir að réttur til að tjá pólitískar skoðanir sé varinn af ákvæðum 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Enn fremur að fundafrelsið sé verndað af ákvæðum 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmálans. Stefndi byggi hins vegar á því að ákvæði þessi mæli fyrir um rétt manna til að koma saman og tjá sig með friðsamlegum hætti. Það hafi stefnandi ekki gert og sé lögreglu þá heimilt að grípa inn í í því skyni að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu. Séu lögreglu þannig veittar heimildir til að handtaka þá sem viðhafi óspektir, sbr. meðal annars a-lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga og 2. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Gangi síðara ákvæðið lengra, en samkvæmt því sé lögreglu heimilt, ef ekki verður með vissu bent á þá seku, að handtaka hvern þann sem sé nærstaddur við uppþot eða fjölmennar óeirðir og ástæða sé til að gruna um refsiverða háttsemi.

Stefndi byggi á því að lögregla hafi gætt meðalhófs í aðgerðum með því að handtaka þá sem hafi valdið hættu á frekari óspektum, í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu. Lögregla hafi ekki gripið til þess að stöðva eða banna útifundinn. Stefndi árétti að heimilt sé að takmarka tjáningar- og fundafrelsi í þágu allsherjarreglu og almannahagsmuna. Hafi sú staða verið fyrir hendi á Austurvelli 20. janúar 2009.

Stefndi vísi til þess að lögregla hafi ýmsar heimildir á grundvelli lögreglulaga til að halda uppi lögum og reglu. Megi í því sambandi nefna 15. gr. laganna, þar sem mælt sé fyrir um aðgerðir í þágu almannafriðar og allsherjarreglu sem kunni að setja fundafrelsi skorður. Þannig sé lögreglu meðal annars heimilt að banna dvöl á ákveðnum svæðum, sem hún hafi gert í þetta sinn. Þá sé henni einnig heimilt að vísa á brott eða fjarlægja fólk og fyrirskipa stöðvun eða breytingar á aðgerðum.

Stefndi byggi jafnframt á 21. gr. lögreglulaga, sem mæli fyrir um bann við að hindra lögreglu í störfum sínum. Lögregla hafi verið að sinna starfi sínu með því að verja Alþingishúsið og hafi stefnandi hindrað lögreglu í störfum sínum. Sá sem tálmi því að handhafi lögregluvalds gegni skyldustörfum sínum skuli sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum, sbr. 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Loks megi uppþot, áflog, óspektir eða önnur háttsemi sem raski allsherjarreglu, ekki eiga sér stað á almannafæri, sbr. 3. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg nr. 1097/2008.

Stefndi mótmæli því að handtakan hafi verið framkvæmd á meiðandi hátt. Hafi fyllsta meðalhófs verið gætt, sbr. meðal annars 13. og 14. gr. lögreglulaga, og hafi handtakan verið í samræmi við lög. Sem fyrr greini hafi aðstæður verið afar óvenjulegar og ekki reynst fært að færa stefnanda og aðra handtekna fyrr á lögreglustöð. Ástæðan hafi verið sú að ekki hafi verið hægt að verja fólkið fyrir ágangi mótmælenda og þessi ráðstöfun því eingöngu gerð til að tryggja öryggi allra hlutaðeigandi. Þá hafi verið ljóst að fara hafi þurft fram lágmarksrannsókn til að ákæruvaldið gæti tekið afstöðu til máls hvers og eins. Stefndi telji að það hafi verið eðlileg ráðstöfun að færa stefnanda á lögreglustöð til yfirheyrslu. Hafi henni verið sleppt strax að yfirheyrslu lokinni og aðgerðir lögreglu tekið skamman tíma eins og á hafi staðið. Stefndi mótmæli sem röngu og ósönnuðu að handtakan hafi verið framkvæmd á meiðandi hátt og með óþarflega miklu harðræði. Hafi framkvæmd verið í fullu samræmi við það sem gerist í fjöldahandtökum, enda hafi viðkomandi aðilar ekki séð ástæðu til að kæra lögregluna fyrir refsiverða háttsemi. Allt hafi verið gert af hálfu lögreglu til að vanda til málsmeðferðar, hraða rannsókn eftir megni og leitast við að ganga ekki lengra við beitingu þvingunarúrræða en brýna nauðsyn hafi borið til.

Stefndi byggi sýknukröfu á því að vinnubrögð lögreglu hafi verið í fullu samræmi við viðeigandi lagaheimildir, bæði hvað varði ákvæði laga nr. 88/2008, lögreglulaga og lögreglusamþykktar. Stefndi telji að fullt tilefni hafi verið til handtöku stefnanda. Handtaka stefnanda hafi ekkert haft með tjáningarfrelsi hennar að gera, heldur grundvallast á að stefnandi hafi hindrað störf lögreglu við að verja Alþingishúsið og gengið hvað harðast fram við að stofna þar til uppþota og gera aðsúg að lögreglu. Þá hafi hún í engu sinnt fyrirmælum lögreglu og skilyrði til handtöku því verið uppfyllt.

Stefndi vísi því alfarið á bug að stefnandi eigi rétt til bóta hvort heldur sé á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008 eða 26. gr. skaðabótalaga. Handtaka stefnanda hafi verið byggð á lögmætum ástæðum og framkvæmdin eðlileg eins og á hafi staðið. Ekki hafi verið haldið áfram með mál þeirra sem handteknir hafi verið þennan dag. Aðeins hafi verið ákært í örfáum tilvikum sem upp hafi komið í mótmælum eða á mótmælafundum í Reykjavík á árunum 2008 til 2010 og nánast eingöngu þar sem ráðist hafi verið á annað fólk og það beitt líkamlegu ofbeldi.

Stefndi mótmæli því að stefnandi eigi bótarétt á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008. Ljóst sé að stefnandi hafi verið valdur að eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisi kröfur sínar á. Því eigi stefndi ekki rétt á bótum á grundvelli ákvæðisins, sbr. 2. mgr. 228. gr. laganna. Af öllum þeim fjölda manna sem hafi verið samankomnir við Alþingishúsið 20. janúar 2009 hafi aðeins örfáir verið handteknir. Stefnandi hafi verið þeirra á meðal. Stefnandi hafi stuðlað að handtökunni með framferði sínu og hegðun. Hafi þessi hegðun leitt til þess að lögregla hafi þurft að grípa til þess að handtaka fólk, þrátt fyrir að í upphafi aðgerða hafi lögregla ekki ætlað að beita handtökum. Þegar stefnanda hafi boðist að standa fyrir máli sínu og tjá sig um þær sakir sem á hana hafi verið bornar hafi hún kosið að svara ekki og enga tilraun gert til að réttlæta framferði sitt, né gert athugasemdir við aðgerðir lögreglu. Byggi stefndi á að stefnandi hafi sjálf átt sök á handtökunni. Sé því alfarið hafnað að stefnandi eigi nokkurn rétt á bótum vegna aðgerða lögreglunnar 20. janúar 2009 á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008.

Einnig beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sem séu að rekja til atvika sem hafi átt sér stað 21. maí 2009 og lokið með sýknudómi héraðsdóms í máli nr. S-26/2011. Stefndi mótmæli því sem röngu og ósönnuðu að sú handtaka stefnanda hafi verið að ósekju og lagastoð skort. Almenningi sé ávallt skylt að hlýða fyrirmælum sem lögregla gefi, sbr. 19. gr. lögreglulaga. Lögregla hafi beðið stefnanda ítrekað að halda sig til hlés þegar hún hafi ætlað að ræða við samferðamann hennar. Því hafi hún ekki sinnt heldur reynt að draga manninn burt frá lögreglu og þar með hindra lögreglu í störfum sínum, sbr. 21. gr. lögreglulaga og 2. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga.

Lögreglu sé heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri, sbr. a-lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga. Þá sé lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að halda uppi almannafriði og almannareglu, sbr. 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga. Þá sé lögreglu heimilt að handtaka mann ef hann neitar að segja til nafns eða deili á sér að öðru leyti, sbr. a-lið 3. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008. Stefndi byggi á því að lögreglan hafi haft skýra lagastoð við handtöku stefnanda.

Stefnandi hafi haldið uppteknum hætti, látið öllum illum látum, öskrað og verið ósamvinnuþýð við lögreglu eftir að komið hafi verið á lögreglustöð. Varðstjóri hafi tekið ákvörðun um að vista hana í fangaklefa vegna frekari rannsóknar málsins því ekki hafi verið talið unnt að taka af henni skýrslu sökum ölvunarástands hennar. Stefnandi hafi verið upplýst um ástæðu handtökunnar og henni kynnt upplýsingablað fyrir handtekna menn, sem hún hafi neitað að skrifa undir. Skýrsla hafi svo verið tekin af stefnanda vel fyrir hádegi og hún síðan látin laus þegar að því loknu. Stefndi hafni því að stefnandi hafi dvalist óhóflega lengi á lögreglustöðinni. Stefnandi hafi verið handtekin rétt undir morgun. Hafi ástand hennar verið þess eðlis að ekki hafi verið hægt að taka af henni skýrslu strax og hafi hún verið látin laus um leið og það hafði verið gert. Hafni stefndi því að stefnandi hafi verið óeðlilega lengi í haldi lögreglu.

Stefndi mótmæli staðhæfingum stefnanda um að óþarfa harðræði hafi verið beitt við handtöku. Ekkert í gögnum málsins styðji þá málsástæðu. Þó sé ekki hægt að útiloka að minni háttar áverkar hljótist af handtöku láti handtekinn maður ófriðlega. Aðgerðir lögreglu hafi verið innan ramma laga og reglna sem hún starfi samkvæmt og meðalhófs gætt, sbr. 13. og 14. gr. lögreglulaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefndi byggi á að aðgerðir lögreglu hafi verið réttmætar og í samræmi við lög. Stefnandi eigi ekki rétt til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, enda þótt hún hafi verið sýknuð í sakamáli. Stefnandi hafi sjálf stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisi kröfu sína á. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að komast hjá afskiptum lögreglu með því að fara að fyrirmælum og hindra ekki störf hennar. Það hafi hún hins vegar ekki gert. Þá hafi hún ekki látið staðar numið eftir að búið hafi verið að handtaka hana heldur haldið áfram að öskra, neitað að segja til nafns og verið ósamvinnuþýð, en í frumskýrslu lögreglu komi meðal annars fram að hún hafi öskrað nánast út í eitt. Verði því ekki séð að stefnandi eigi rétt til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008.

Stefnandi hafi sannanlega stuðlað að aðgerðum lögreglu, hvort sem litið sé til 228. gr. laga nr. 88/2008, eða almennra reglna um fébætur, líkt og sýnt hafi verið fram á. Skýrt sé kveðið á í dómsúrlausnum Hæstaréttar Íslands að ákvæði stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, veiti ekki ríkari bótarétt en ákvæði 228. gr. laga nr. 88/2008, og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi hafni því að grundvöllur sé fyrir miskabótakröfu samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á eða stutt með gögnum að aðgerðir lögreglu hafi falið í sér ólögmæta meingerð gegn frelsi hennar, friði, æru eða persónu. Þá sé því mótmælt að vottorð sálfræðings, sem liggi fyrir í málinu, sýni fram á miska stefnanda. Fram komi í vottorðinu að handtaka hafi ekki verið það sem unnið hafi verið með og byggi stefndi á því að alls sé ósannað að handtakan hafi leitt til nokkurs miska fyrir stefnanda. Kjarni málsins sé sá að aðgerðir lögreglu hafi verið lögmætar og réttmætar. Ósannað sé að miski umfram það sem almennt megi ætla að leiði af þvingunarráðstöfunum og rannsókn sakamála hafi hlotist af málsmeðferðinni og aðgerðum lögreglu. Stefndi telji skilyrði miskabóta samkvæmt b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga ekki vera uppfyllt. Sök sé hugtaksskilyrði þeirrar bótaskyldu en engri slíkri sé hér til að dreifa. Sé því þar af leiðandi mótmælt að bótaskylda sé fyrir hendi hvort heldur sem er á grundvelli almennra reglna eða ákvæðis 26. gr. skaðabótalaga.

Stefnandi krefjist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna, en sú kröfugerð sé með öllu órökstudd. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda sé á því byggt að lækka beri kröfur stefnanda til muna með vísan til framangreindra málsástæðna, auk þess sem kröfur stefnanda séu í miklu ósamræmi við dómaframkvæmd þar sem fallist hafi verið á bótaskyldu. Sé þetta ósamræmi hér í engu rökstutt né útskýrt hvers vegna bætur til stefnanda ættu að vera miklum mun hærri en í sambærilegum málum. Af hálfu stefnda sé kröfum um vexti og dráttarvexti mótmælt, þá einkum upphafstíma þeirra. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV.

Stefnandi reisir bótakröfu á hendur stefnda á tveimur aðgreindum atvikum, en í báðum framangreindum tilvikum er á því byggt að stefnandi hafi mátt sæta ólögmætri handtöku af hálfu lögreglunnar, þ.e. annars vegar í mótmælum við Alþingishúsið þann 20. janúar 2009, en hins vegar að nóttu til við Laugaveg 46, þann 21. maí hið sama ár. Í báðum tilvikum greinir málsaðila nokkuð á um staðreyndir máls og þá einkum um það hvort stefnandi hafi í greindum tilvikum með framkomu sinni gefið tilefni til þess að sæta handtöku sem og hvort sú valdbeiting hafi verið forsvaranleg í framkvæmd.    Í báðum tilvikum byggir stefnandi bótakröfu sína í málinu aðallega á því að ákvæði 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eigi við um framangreind tilvik, en enn fremur er af hálfu stefnanda vísað til b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Hvað varðar fyrra tilvikið, þriðjudaginn 20. janúar 2009, þá liggur fyrir að stefnandi var handtekin þá um daginn um kl. 15.25 í mótmælum við Alþingishúsið. Af fyrirliggjandi frumskýrslu lögreglu sama dags má greina að ástæða handtökunnar hafi verið grunur um brot stefnanda gegn 3. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavíkurborg. Nánari útskýringar á þessum aðgerðum lögreglu er síðan að finna í fyrirliggjandi greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dags 21. maí 2013. Kemur þar meðal annars fram að stefnandi hafi verið í hópi þeirra manna sem neituðu að fara að fyrirmælum lögreglu og hafi gert aðsúg að lögreglu og hvatt aðra áfram. Upphaflega hafi lögregla lagt upp með að verja þinghúsið, en síðan hafi verið talið nauðsynlegt að fjarlægja af vettvangi þá sem verst hafi látið með því að handtaka þá. Af hálfu stefnda hefur verið vísað til þess að heimildir til handtöku stefnanda við þessar aðstæður hafi verið lögmætar og réttlæst af ákvæðum í 14.-21. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, en enn fremur hefur af hálfu stefnda verið vísað til 1. og 2. mgr. mgr. 90. gr. laga nr. 88/2008.

Fallist er á með stefnanda að ákvæði 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 eigi við þegar metinn er réttur hennar til bóta eins og hér stendur á, en fyrir liggur í málinu að af hálfu lögreglu hafi verið ákveðið að fara ekki með mál hennar eða önnur sambærileg mál þeirra sem handteknir voru við Alþingishúsið í ákærumeðferð. Við mat á bótarétti stefnanda á þessum grundvelli þarf þá jafnframt að leggja mat á það hvort bætur beri að skerða eða fella niður með vísan til þess að stefnandi hafi sjálf valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisir kröfu sína á, sbr. 2. mgr. 228. gr. sömu laga.                 

Í framburði KHÞ-9804 lögregluvarðstjóra fyrir dómi, er stjórnaði aðgerðum á vettvangi við Alþingishúsið umræddan dag, kom fram að lögreglan hefði þá í lengstu lög reynt að forðast að þurfa að beita handtökum á vettvangi vegna mannfæðar. Af þeim mikla fjölda sem hafi verið við mótmælin hafi afar fáir verið handteknir og þá einungis þeir sem mest hafi haft sig í frammi við að gera aðsúg að lögreglunni. Er það mat dómsins að framangreind lýsing varðstjórans verði að teljast trúverðug og að á henni verði að byggja við mat á því tilviki sem hér um ræðir. Þykir því ekki grundvöllur til að stefnandi geti við svo búið reist bótarétt á 228. gr. laga nr. 88/2008.

Af hálfu stefnanda er einnig byggt á því að framkvæmd handtökunnar 20. janúar 2009 hafi ekki verið forsvaranleg, sbr. einkum 13.-14. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Er meðal annars vísað til þess að stefnandi hafi verið látin sitja á vettvangi í bílakjallara Alþingis með hendur bundnar fyrir aftan bak í vanvirðandi stellingu gegnt öðrum handteknum mönnum, auk þess sem óhóflegan tíma hafi tekið að flytja hina handteknu af vettvangi og frelsissviptingin því varað mun lengur en ella. Af hálfu stefnda er hins vegar vísað til þess að fyllsta meðalhófs hafi verið gætt í greint sinn gagnvart stefnanda með hliðsjón af hinum mjög svo erfiðu og óvenjulegu aðstæðum sem hafi þá verið fyrir hendi á vettvangi. Aðstæður hafi verið slíkar að ekki hafi verið unnt að færa hina handteknu af vettvangi fyrr en gert hafi verið og þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til á vettvangi hafi einkum miðað að því að tryggja öryggi hinna handteknu. Er af hálfu dómsins fallist á framangreindar skýringar af hálfu stefnda, auk þess sem ekkert haldbært liggur fyrir í málinu um meint óhóflegt harðræði lögreglu við handtökuna sjálfa, eða um ósæmilega framkomu lögreglumanna í garð stefnanda á vettvangi. Með hliðsjón af ofangreindu er það því niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að í þeirri valdbeitingaraðgerð sem stefnandi þurfti að sæta í umrætt sinn hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu hennar, eins og á stóð, og er því ekki fallist á að grundvöllur til miskabóta verði reistur á þeim grunni.  

Hvað varðar síðara tilvikið, þann 21. maí 2009, þá ber aðilum alls ekki saman um málsatvik í tengslum við handtöku stefnanda í það sinn. Af hálfu stefnanda er byggt á því að hún hafi þá mátt sæta harkalegri handtöku þar sem hún hafi aðeins verið að gera athugasemdir við gróf og tilefnislaus afskipti lögreglumannanna af vini hennar. Lögreglumennirnir ESE-0428 og HSÞ-0604, sem framkvæmdu handtökuna á vettvangi, lýstu atvikum hins vegar svo fyrir dómi að stefnandi hafi þá í engu sinnt ítrekuðum boðum þeirra um að halda sig til hlés og þráfaldlega reynt að draga manninn burt og þar með hindrað lögreglu við störf og hafi stefnandi síðan orðið það æst að nauðsynlegt hafi reynst að handtaka hana á vettvangi við svo búið.   

Í frumskýrslu lögreglu sama dags kemur meðal annars fram að stefnandi hafi verið handtekin þar sem hún hafi hindrað lögreglu við störf, og ekki farið að fyrirmælum lögreglu, auk þess sem hún hafi verið ölvuð og ekki viljað segja nokkur deili á sér. Kemur þar einnig fram að stefnandi hafi tekið framangreindum afskiptum lögreglunnar af samferðamanni hennar afar illa og að lokum hafi komið til ryskinga stefnanda við lögreglumenn er leitt hafi til handtöku hennar á vettvangi laust fyrir kl. 5 þá um nóttina. Enn fremur liggur fyrir að stefnandi var í framhaldi af handtökunni færð á lögreglustöð þar sem varðstjóri tók ákvörðun um að vista hana í fangaklefa uns ætluð áfengisvíma rynni af henni, en samkvæmt framangreindri frumskýrslu lögreglu var hún afar æst þegar á lögreglustöðina var komið og neitaði að segja til nafns.

Sé tekið mið af ofangreindu verður að leggja hér til grundvallar að þó svo að stefnandi hafi verið sýknuð af ákæru með dómi þann 7. apríl 2011 í máli nr. S-26/2011, hafi hún engu að síður í umrætt skipti sýnt af sér slíka framkomu að forsvaranlegt hafi verið að handtaka hana eins og á stóð. Er fallist á með stefnda, að hvað sem leið réttmæti afskipta lögreglu af samferðamanni hennar, hafi stefnanda þó eftir sem áður borið að fara eftir ítrekuðum tilmælum lögreglumanna á vettvangi um að láta af afskiptum sínum þegar lögregla hafði afskipti af samferðamanni hennar, en hún varð þá ekki við því heldur reyndi að draga hann burt og hindraði með því lögreglumenn við störf sín. Verður að telja þessa framgöngu stefnanda á vettvangi við svo búið fullnægjandi grundvöll fyrir handtöku hennar, sbr. einkum a-lið 1. mgr. 16. gr. laga nr. 90/1996. Að því virtu verður enn fremur að líta svo á að framangreint fyrirbyggi rétt stefnanda til bóta á grundvelli 228. gr. laga nr. 88/2008, eins og hér stóð á.

Af hálfu stefnanda er enn fremur byggt á því að framkvæmd handtökunnar þann 21. maí 2009 hafi ekki verið forsvaranleg og hefur þá einkum verið vísað til 13. og 14. gr. laga nr. 90/1996. Virðist byggt á því að handtakan hafi verið tilefnislaus og óhóflega harkaleg og að stefnandi hafi orðið fyrir líkamlegu og andlegu tjóni sökum framferðis lögreglunnar. Hér verður hins vegar að fallast á með stefnda, að ekki hafi verið sýnt fram á að stefnandi hafi sætt óforsvaranlegu harðræði við umrædda handtöku, en fyrir liggur í gögnum málsins að stefnandi hafi sjálf afráðið að verjast handtöku af nokkurri hörku. Hvað varðar ætluð samskipti stefnanda við lögreglumenn á lögreglustöð í framhaldi af handtökunni, þá liggur ekkert haldbært fyrir um þau í málinu, auk þess sem ekki verður talið að sú ákvörðun varðstjóra að vista stefnanda í fangaklefa hafi verið óforsvaranleg eins og á stóð og rakið er í gögnum málsins.

Þótt ekki sé að efa að ofanlýst samskipti við lögregluna hafi sannarlega hlotið að vera þungbær reynsla fyrir stefnanda liggur þó ekkert haldbært fyrir í málinu um að hún hafi sannanlega borið líkamlegan eða sálrænan skaða af. Með vísan til alls ofangreinds hlýtur það því að verða niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að í þeirri valdbeitingaraðgerð sem stefnandi þurfti að sæta þann 21. maí 2009 hafi falist ólögmæt meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu hennar eins og á stóð og verður því ekki fallist á að grundvöllur til miskabóta verði reistur á slíkum grunni.    

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er, eins og hér stendur á, ekki unnt að fallast á stefnukröfur stefnanda og með vísan til alls ofangreinds ber því að sýkna stefnda af dómkröfum stefnanda í máli þessu. 

Eins og málið liggur fyrir þykir þó rétt að málskostnaður falli niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl., alls 1.200.000 krónur að teknu tilliti til virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði, en í málinu liggja fyrir gjafsóknarleyfi til handa stefnanda til höfðunar máls þessa, dags 2. september 2011 og 3. desember 2013.    

                Málið flutti Katrín Oddsdóttir héraðsdómslögmaður, í umboði Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, fyrir hönd stefnanda, en Fanney Rós Þorsteinsdóttir héraðsdómslögmaður, fyrir hönd stefnda.

                Pétur Dam Leifsson, settur héraðsdómari, kvað upp dóminn. 

D ó m s o r ð

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af dómkröfum stefnanda, Sunnevu Ásu Weisshappel, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður, en gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 1.200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.