Print

Mál nr. 255/2009

Lykilorð
  • Stimpilgjald
  • Skattur
  • Stjórnarskrá
  • Lögskýring
  • Endurgreiðslukrafa
  • Flýtimeðferð

Fimmtudaginn12

Fimmtudaginn12. nóvember 2009. 

Nr. 255/2009.

Íslenska ríkið

(Óskar Thorarensen hrl.)

gegn

Leó Eiríki Löve

(Ásgeir Jónsson hrl.)

Stimpilgjald. Skattur. Stjórnarskrá. Lögskýring. Endurgreiðslukrafa. Flýtimeðferð.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í nóvember 2007 hafði þremur aðilum verið gert í sameiningu að greiða L tilgreinda fjárhæð. Á grundvelli dómsins var að kröfu L gert fjárnám í mars 2008 í þremur fasteignum eins málsaðilans. Endurrit úr gerðabók vegna þessa fjárnáms var afhent sýslumanni til þinglýsingar degi síðar og var L gert að greiða þinglýsingargjald að fjárhæð 1.350 krónur vegna fjárnámsins og 729.360 krónur í stimpilgjald. L krafðist endurgreiðslu þessa stimpilgjalds þar sem lagastoð hefði skort fyrir töku þess. Talið var að stoð yrði ekki fundin fyrir skyldu til greiðslu stimpilgjalds af endurriti fjárnámsgerðar í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingu með 1. gr. laga nr. 168/2008, enda yrði fjárnámsendurrit hvorki lagt að jöfnu við skuldabréf né gæti það talist til tryggingarbréfa. Þá var talið að ákvæði 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar stæði því í vegi að 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978 yrði beitt með lögjöfnun í þessu skyni. Var því fallist á með héraðsdómi að sýslumann hefði skort lagaheimild til að krefjast greiðslu stimpilgjalds þegar endurriti fjárnámsgerðarinnar var þinglýst.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2009. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta sætir flýtimeðferð.

Samkvæmt gögnum málsins gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur 13. nóvember 2007, þar sem þremur aðilum var gert í sameiningu að greiða stefnda í máli þessu 48.750.000 krónur með dráttarvöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. febrúar 2006 til greiðsludags, auk málskostnaðar að fjárhæð 517.000 krónur, allt að frádregnum innborgunum, samtals 14.900.000 krónur, sem greiddar voru fyrir þingfestingu málsins. Þá var jafnframt staðfest kyrrsetning, sem gerð hafði verið í nánar tilteknum fasteignum eins málsaðilans. Á grundvelli dómsins var að kröfu stefnda gert fjárnám 13. mars 2008 í þremur fasteignum sama málsaðila. Endurrit úr gerðabók vegna þessa fjárnáms var afhent sýslumanni til þinglýsingar 14. sama mánaðar. Samkvæmt kvittun hans greiddi Lögheimtan ehf. þann dag þinglýsingargjald að fjárhæð 1.350 krónur vegna fjárnámsins og 729.360 krónur í stimpilgjald. Í málinu leitar stefndi endurgreiðslu þessa stimpilgjalds á þeim grundvelli að lagastoð hafi skort fyrir töku þess.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að stoð verði ekki fundin fyrir skyldu til greiðslu stimpilgjalds af endurriti fjárnámsgerðar í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingu með 1. gr. laga nr. 168/2008, svo og að 1. mgr. 5. gr. fyrrnefndu laganna fái þar engu breytt. Ákvæði 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar stendur því í vegi að 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978 verði beitt með lögjöfnun í þessu skyni. Samkvæmt þessu er fallist á með héraðsdómi að sýslumann hafi skort lagaheimild til að krefjast greiðslu stimpilgjalds þegar endurriti fjárnámsgerðarinnar var þinglýst 14. mars 2008.

Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá málsástæðum, sem lutu að því að hvorki væri sannað að stefndi hafi verið greiðandi stimpilgjaldsins, sem málið varðar, né að hann hafi ekki þegar fengið það endurgreitt úr hendi skuldara samkvæmt fyrrnefndum dómi frá 13. nóvember 2007. Um varnir áfrýjanda að öðru leyti er þess að gæta að réttur stefnda til endurheimtu stimpilgjaldsins eftir ákvæðum laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda er hvorki háður því að hann hafi greitt það með fyrirvara né að fullreynt sé hvort honum geti tekist að endurheimta fjárhæð þess úr hendi skuldara samkvæmt dóminum og velta þar með á herðar hans afleiðingum ólögmætrar gjaldtöku áfrýjanda. Héraðsdómur verður því staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, Leó Eiríki Löve, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. apríl 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. apríl sl. er höfðað með stefnu birtri 15. janúar sl..

Stefnandi er Leó Eiríkur Löve, Kringlunni 35, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

                Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði 729.360 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. mars 2008 til 28. nóvember 2008 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

                Til vara krefst hann þess að stefnukrafa verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

                Upphaflega var þess krafist af hálfu stefnda að málinu yrði vísað frá dómi en frávísunarkröfunni var hafnað með úrskurði 5. mars sl.

                Málið sætir flýtimeðferð skv. heimild dómstjóra 14. janúar sl.

MÁLSATVIK

                Stefnandi lýsir málsatvikum þannig að á grundvelli aðfararhæfs dóms Héraðsdóms Reykjavíkur, í máli nr. E-5665/2007, hafi stefnandi hinn 13. mars 2008 gert fjárnám í þremur fasteignum eins dómfellda með aðfarargerð sýslumannsins í Reykjavík.

Endurrit aðfarargerðarinnar hafi verið móttekið til þinglýsingar af sýslumanninum í Reykjavík hinn 14. mars 2008 á eina af fasteignunum, eignarhlut gerðarþolans Davíðs Jónssonar í fasteigninni Reykjavegi 88 í Mosfellsbæ. Til að fá fjárnáminu þinglýst hafi stefnandi þurft að greiða stimpilgjald að fjárhæð 729.360 krónur. Samkvæmt kvittun sýslumannsins í Reykjavík sé greiðandi stimpilgjaldsins Lögheimtan ehf., sem annist innheimtu kröfu þeirrar sem fjárnám var gert fyrir, en stefnandi hafi áður greitt kostnaðinn vegna stimpilgjaldsins til Lögheimtunnar ehf. Stimpilgjaldið hafi numið 1,5% af 48.624.000 krónum, eða 729.360 krónum.

Með bréfi lögmanns stefnanda til fjármálaráðuneytisins, dags. 28. nóvember 2008, hafi þess verið krafist fyrir hönd stefnanda að honum yrði endurgreitt stimpilgjaldið, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 14. mars 2008 til 28. nóvember 2008, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags, ef ekki yrði greitt innan 30 daga frá dagsetningu bréfsins.

Um rökstuðning fyrir endurgreiðslukröfunni á stimpilgjaldinu hafi í bréfinu meðal annars verið vísað til þess að ekki væri að finna heimild í lögum um stimpilgjald nr. 36/1978 til að krefjast stimpilgjalds af aðfarargerðum við þinglýsingu þeirra. Jafnframt var vísað til álits Umboðsmanns Alþings nr. 4712/2006, frá 11. júlí 2008, þar sem hann kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé fyrir hendi lagaheimild til að krefjast stimpilgjalds af aðfarargerðum.

Engin viðbrögð hafi orðið við bréfi stefnanda til fjármálaráðuneytisins og því sé stefnanda nauðsyn að höfða mál þetta til að knýja á um endurgreiðslu stimpilgjaldsins úr hendi stefnda.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNANDA

                Stefnandi byggir á því að ekki hafi verið heimild í lögum til að krefja hann um greiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 729.360 krónur við þinglýsingu aðfarargerðar sýslumannsins 14. mars 2008.

                Stimpilgjald sé skattur í skilningi 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar og engum verði gert að greiða skatt nema fyrir liggi skýr og fortakslaus lagaheimild.

                Löggjafarvaldið hafi í raun viðurkennt að ekki hafi verið fyrir hendi lagaheimild til að krefjast greiðslu stimpilgjalds af aðfarargerðum, kyrrsetningargerðum og löggeymslu með því að samþykkja lög nr. 168/2008 um breytingu á lögum um stimpilgjald nr. 36/1978, í tilefni af áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 4712/2006. Breytingalögin hafi tekið gildi 23. desember 2008, en með þeim hafi verið stefnt að því að taka af tvímæli um lagaheimild til innheimtu stimpilgjalds af áðurnefndum fullnustugerðum. Með 1. gr. laga nr. 168/2008 var nýjum málslið bætt við 1. mgr. 24. gr. laganna þannig að eftir 1. málslið um stimplun skuldabréfa og tryggingabréfa var bætt við svohljóðandi ákvæði: Sama gjald skal greiða fyrir stimplun aðfarargerða, kyrrsetningargerða og löggeymslu þegar endurritum úr gerðabók um þessar gerðir er þinglýst.

                Stefnandi byggir á því að fjárnám verði samkvæmt efni sínu ekki lagt að jöfnu við tryggingarbréf skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978. Fjármálaráðuneytið hafi litið svo á að fjárnám, kyrrsetning og löggeymsla yrðu samkvæmt efni sínu lögð að jöfnu við tryggingarbréf, með vísan til fyrirmæla í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 36/1978, sem kveði á um að stimpilskylda skjals fari eftir réttindum sem það veiti en ekki nafni þess eða formi. Stefnandi hafi ekki áhrif á form eða heiti aðfarargerðar þeirrar sem málið snýst um og orðið tryggingarbréf í lögum taki ekki til þinglýstra endurrita fjárnáms úr gerðabókum sem sýslumönnum sé skylt að færa.

                Stefnandi byggir ennfremur á því að það mæli gegn því að greitt sé stimpilgjald af aðfarargerð að í mörgum tilfellum hafi stimpilgjald verið innheimt af þeim skattstofni eða fjárhæð sem er grundvöllur fyrir aðfarargerð, til dæmis þegar innheimt sé skuld skv. skuldabréfi, víxli eða þinglýstum kaupsamningi.

                Þar sem ekki hafi verið fyrir hendi lagaheimild til að krefja stefnanda um greiðslu stimpilgjalds þess sem mál þetta snýst um byggir stefnandi kröfu sína um endurgreiðslu þess á 1. mgr. 1. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda nr. 29/1995. Samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 2. gr. s.l. ber stefnda að greiða vexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af ofteknu stimpilgjaldi frá því greiðsla þess átti sér stað 14. mars 2008, en dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim tíma sem stefnandi lagði sannanlega fram kröfu um endurgreiðslu skattsins, eða frá 28. nóvember 2008 til greiðsludags.

                Stefnandi styður málskostnaðarkröfu sína við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggir hann á lögum nr. 50/1988, stefnandi hafi ekki með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi og því sé honum nauðsynlegt að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

MÁLSTÁSTÆÐUR OG LAGARÖK STEFNDA

                Stefndi kveðst vera ósammála forsendum, rökstuðningi og niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í nefndu áliti.

                Stefndi byggir á því að lögskylt hafi verið að greiða stimpilgjald af fjárnámsendurritum þegar umrætt gjald var greitt 14. mars 2008. Stefndi vísar til 4. tl. 3. gr., 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald. Saman myndi þessi ákvæði fortakslausa og ótvíræða heimild fyrir umræddri gjaldtöku, óháð þeirri breytingu sem gerð var með lögum nr. 168/2008.

                Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald, með síðari breytingum, segi að stimpilskylda skjals fari eftir réttindum skjalsins en ekki nafni þess eða formi. Í greinargerð með þessu ákvæði, sem rekja megi aftur til 1921, komi fram að þessi grein taki af tvímæli um það að jafnan skuli farið eftir hinu raunverulega innihaldi skjals.

                Í 3. gr. laga nr. 36/1978 sé tilgreint hvaða skjöl séu ávallt stimpilskyld og séu þar í 4. tl. 1. mgr. nefnd skjöl sem þinglýst sé eða séu grundvöllur fyrir skráningu í opinbera skrá.

                Í 1. mgr. 24. gr. sömu laga sé fjallað um stimpilskyldu skuldabréfa og tryggingarbréfa. Þar sé kveðið á um að fyrir stimplun skuldabréfa og tryggingarbréfa, þegar skuldin beri vexti og sé tryggð með veði eða ábyrgð, skuli greiða 15 krónur fyrir hvert byrjað þúsund af fjárhæð bréfs.

                Í 1. gr. laga nr. 36/1978 komi fram að greiða skuli stimpilgjald af þeim skjölum sem um ræði í III. kafla laganna. Stefndi telur, þrátt fyrir orðalag 1. gr. að fleiri skjöl en aðeins þau sem upp séu talin í III. kafla laganna séu stimpilskyld. Það beri því að horfa á texta 1. gr. með hliðsjón af öðrum ákvæðum laganna, þ.m.t. 3. og 5. gr.

                Í fjárnámsendurriti því sem stefna taki til, komi fram höfuðstóll kröfu ásamt dráttarvöxtum og kostnaði og séu veðin tilgreind.

                Með vísan til þess að um sé að ræða skjal sem samkvæmt þeim réttindum sem það veiti sé til tryggingar skuld sem fallin sé í gjalddaga, beri vexti og sé tryggð með veði telji stefndi skýrt að fjárnámsendurritið hafi 14. mars 2008 verið stimpilskylt á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978, með hliðsjón af 1. mgr. 5. gr., sbr. 4. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 36/1978.

                Stefndi telur ekki skipta máli í þessu sambandi að fjárnámsendurrit hafi á þeim tíma ekki verið sérstaklega tilgreind í lögum nr. 36/1978 þar sem sérstaklega sé kveðið á um í 1. mgr. 5. gr. laganna að stimpilskylda skjals fari eftir þeim réttindum er það veiti en ekki nafni þess eða formi og sé þannig gert ráð fyrir slíkum möguleikum.

                Í frumvarpi til áðurgildandi laga nr. 75/1921 um stimpilgjald segi um þetta ákvæði: „Það er eigi ótítt, að skjal nefnir sig annað en það er í raun veru, t.d. að afsal kallast kaupsamningur eða veðbrjef kallast afsal og geta til þessa legið ýmsar orsakir. Þessi grein tekur af tvímæli um það; að jafnan skuli farið eftir hinu raunverulega innihaldi skjals.“ Að mati stefnda hafi því lagaheimild fyrir innheimtu stimpilgjalds af fjárnámsendurritum verið nægjanlega fortakslaus og ótvíræð í skilningi ákvæða stjórnarskrárinnar. Ákvæði 5. gr. stuðli að jafnræði og samræmi í innheimtu gjaldsins.

                Stefnandi byggi ennfremur á því að það mæli gegn því að greitt sé stimpilgjald af aðfarargerð að í mörgum tilfellum hafi stimpilgjald verið innheimt af þeim skattstofni eða fjárhæð sem sé grundvöllur fyrir aðfarargerð, t.d. þegar innheimt sé skuld skv. skuldabréfi, víxli eða þinglýstum kaupsamningi. Stefndi telur þessa málsástæðu vanreifaða og mjög óskýra. Ekki liggi neitt fyrir um að greitt hafi verið stimpilgjald af þeim skjölum sem lágu að baki dómi í málinu og ósannað sé að svo hafi verið. Þá myndi þetta engu breyta um greiðsluskyldu vegna stimpilgjalda af fjárnámsendurritum. Stefndi bendir á að í 1. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald, segi að greiða skuli stimpilgjald af þeim skjölum sem um ræði í III. kafla laganna. Í þessu felist að stimpilskylda leggist á hvert einstakt skjal en ekki skattstofn eða fjárhæð. Eins beri að vísa til 1. mgr. 5. gr. sömu laga þar sem kveðið sé á um að stimpilskylda skjals fari eftir réttindum er það veiti en eigi nafni þess eða formi.

                Í stefnu sé á því byggt að löggjafinn hafi í raun viðurkennt að ekki hafi verið fyrir hendi skýr og fortakslaus lagaheimild til þess að krefjast greiðslu stimpilgjalds af aðfaragerðum þegar hann samþykkti lög nr. 168/2008, um breyting á lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald. Stefndi mótmælir þessari málsástæðu stefnanda sem rangri. Með lögum nr. 168/2008 hafi verið skotið styrkari lagastoð undir fyrri framkvæmd, eins og komi fram í greinargerð. Ekki sé unnt að jafna lagasetningu þessari við viðurkenningu á því að gjaldtakan hafi áður verið óheimil.

                Stefndi telur gjaldtökuna byggja á nægilega traustum lagalegum grunni og að hún hafi verið í samræmi við almenn lög og 40. og 77. gr. stjórnarskrár.

                Stefndi bendir á að í athugasemdum við frumvarp til áðurgildandi laga nr. 75/1921 um stimpilgjald segi: „Stimpilgjaldið er víða notað, ekki eingöngu til þess að ná gjaldi af verðbrjefum og ýmsum skjölum, heldur einnig sem handhægt meðal til að ná inn tollum og ýmsum sköttum, einkum af munaðarvörum. En algengast er þó, að telja og láta stimpilgjaldið vera gjald af viðskiftum manna á meðal, viðskiftum, sem eru svo áríðandi, að þau eru, rituð í sönnunarskyni, og innan þeirra vjebanda er frv, það, er hjer liggur fyrir.“ Stefndi telur að orðalag þetta verði ekki túlkað svo þröngt að eingöngu sé átt við bréf er varði viðskipti, enda séu í núgildandi stimpilgjaldslögum nokkur ákvæði um stimpilgjald á bréf sem ekki sé hægt að segja að tengist viðskiptum beint. Megi þar nefna 2. mgr. 5. gr. laganna, en þar sé fjallað um stimpilskyldu endurrita af sáttum og notarialgerðum og 5. mgr. 16. gr. laganna sem fjalli um stimpilskyldu útdrátta úr embættisbókum, vottorða embættismanna, félaga eða einstakra manna í ákveðnum tilvikum. Auk þess megi færa fyrir því rök að í ýmsum tilvikum sé fjárnám bein afleiðing tiltekinna viðskipta.

                Stefndi kveðst byggja á því, telji dómurinn að stimpilskylda verði ekki leidd beint af orðalagi framangreindra lagaákvæða stimpillaga, að beita eigi lögjöfnun frá framangreindum ákvæðum.

                Stefndi telur stefnanda túlka hugtakið tryggingarbréf of þröngt. Löggjafinn hafi ætlað hugtakinu tryggingarbréf rýmra inntak en fram kemur hjá stefnanda.

                Stefndi bendir á að samkvæmt framlagðri kvittun hafi Lögheimtan ehf. greitt umrætt stimpilgjald. Í greinargerð sinni skoraði stefndi á stefnanda að leggja fram kvittun sem sýndi innborgun stefnanda inn á reikning Lögheimtunnar ehf. Þá skoraði hann á stefnanda að upplýsa hvernig innborganir hefðu ráðstafast inn á kröfuna allt þar til endanlegur dómur gangi í málinu. Stefndi telur það hafa líkur með sér að innborganir inn á kröfuna hafi ráðstafast fyrst inn á útlagðan kostnað, t.d. beri fjárnámsendurrit með sér að þá þegar hafi verið greiddar 14.900.000 kr. inn á kröfuna, en tæpt ár sé nú liðið síðan fjárnámið var gert. Stefndi telur skv. þessu ósannað að stefnandi eigi endurgreiðslukröfuna. Stefnandi hafi ekki umboð frá skuldurum til að endurkrefja stefnda um stimpilgjaldið, hafi það verið greitt af innborgun þeirra. Sé svo, eigi stefnandi ekki aðild að málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt fjárnámsendurriti hafi verið gert fjárnám í þremur eignum fyrir kröfunni. Óupplýst sé í málinu hvort fjárnámum hafi einnig verið þinglýst á eignir í Árborg. Ætla verði að stefnandi hafi með fjárnámum þessum einu eða fleirum náð að tryggja kröfuna í heild með veði í umræddum eignum, þ.m.t. stimpilgjaldið sem hann krefst endurgreiðslu á. Stefndi telur að ef stefnandi eigi umrædda kröfu verði hann að ljúka innheimtu kröfunnar áður en hann geti beint endurgreiðslukröfu að stefnda. Sé stimpilgjaldið ekki þegar greitt af þeim aðilum sem dæmdir hafi verið til að greiða stefnanda, þá byggi stefndi á því að stefnandi geti ekki verið með innheimtu í gangi vegna sama gjalds á tvo aðila samtímis.

                Þá byggir stefndi á því að stimpilgjald sem stefnandi krefjist endurgreiðslu á hafi ekki verið greitt með fyrirvara.

                Stefndi vísar til þeirrar áratugalöngu framkvæmdar að innheimta stimpilgjald af umræddum skjölum.

                Um málskostnað vísar stefndi til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Stefndi styður varakröfu um lækkun við sömu málsástæður og rök og fram séu komin um sýknukröfu.

NIÐURSTAÐA

                Stefnandi krefst endurgreiðslu á stimpilgjaldi sem greitt var þegar nefndu fjárnámi var þinglýst og byggir kröfu sína á 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Stefnandi telur að ekki hafi verið heimild í lögum til að krefja hann um greiðslu gjaldsins.

                Stefndi kveður heimild til að innheimta nefnt gjald hafa byggt á 4. tl. 3. gr., 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 24. gr. laga nr. 36/1978 um stimpilgjald, eins og þau voru fyrir setningu laga nr. 168/2008, en ákvæðin hafi saman myndað heimild til gjaldtökunnar. Skjalið hafi því verið stimpilskylt.

                Skv. 1. gr. laga nr. 36/1978 skal greiða stimpilgjald af þeim skjölum sem um ræðir í III. kafla laganna. Í athugasemdum með ákvæðu í greinargerð segir að með því sé kveðið á um að eingöngu séu stimpilskyld þau skjöl sem falla undir ákvæði III. kafla en önnur skjöl séu stimpilfrjáls. Í III. kafla, 1. mgr. 24. gr., sem stefndi hefur vísað til sem stoð fyrir gjaldtökunni, segir að fyrir stimplun skuldabréfa og tryggingarbréfa, þegar skuldin ber vexti og sé tryggð með veði eða ábyrgð, skuli greiða 15 krónur fyrir hvert byrjað þúsund af fjárhæð bréfs.

                Í 1. mgr. 24. gr. eru nefnd tryggingarbréf og skuldabréf. Þykir þannig ekki nægja að skjal sé til tryggingar skuld, beri vexti og sé tryggt með veði til að það sé stimpilskylt. Fjárnámsendurrit verður ekki lagt að jöfnu við skuldabréf. Kemur því hér til skoðunar hvort skjalið teljist stimpilskylt þar sem það teljist til tryggingarbréfa í skilningi ákvæðisins, eða hvort beita skuli ákvæðinu með lögjöfnun.

                Tryggingarbréf eru veðbréf sem vísa til annarra skjala eða atvika um skuldbindinguna sem það tryggir en veita veð í fasteign, lausafé eða réttindum. Orðið er notað um veðbréf sem stofnað er til í viðskiptum til að veita tryggingu fyrir endurgreiðslu lána eða skulda, og jafnframt eru bréfin almennt gefin út af þeim sem að lögum hefur ráðstöfunarrétt yfir eigninni sem sett er til tryggingar.  

                Ekki verður talið að þinglýst endurrit af fjárnámi úr gerðabókum sýslumanna geti talist til tryggingarbréfa, enda eru endurritin embættisvottorð um verk og stafa ekki frá þeim sem hafa réttindi yfir viðkomandi eign heldur frá opinberum aðila, gefin út til að tryggja hagsmuni kröfuhafans gagnvart öðrum lánardrottnum.

                Samkvæmt framangreindu þykir ekki vera unnt að túlka ákvæði 24. gr., eins og það var við gjaldtökuna sem deilt er um, þannig að það skyldi skv. orðum sínum taka til fjárnámsendurrita. Verður heldur ekki talið að réttindin séu hin sömu, þannig að 1. mgr. 5. gr. geti átt við, enda verður að líta svo á að tilgangurinn með því ákvæði sé aðallega sá að koma í veg fyrir að menn komi sér undan gjaldskyldu með því að nefna skjal öðru nafni en rétt sé. Svo er ekki um fjárnámsendurrit, enda gefin út af opinberum aðila og ekki á valdi kröfuhafa hvert nafn þess er eða form. 

                Stefndi byggir á því að beita skuli lögjöfnun frá ákvæði 24. gr. Þá telur hann að túlkun stefnanda á ákvæðinu sé of þröng og að löggjafi hafi ætlað ákvæðinu rýmra gildissvið en stefnandi miði við.

                Forvera ákvæðisins í 24. gr. núgildandi stimpillaga var að finna í lögum nr. 75/1921. Mælt var fyrir um það þar að skuldabréf og tryggingarbréf skyldu stimplast, með nánar tilteknum hætti. Samtímis gildistöku þeirra laga tóku gildi lög nr. 27/1921 um aukatekjur ríkissjóðs, þar sem mælt var fyrir um gjöld af þinglýsingu fjárnáms, í hlutfalli við fjárhæð skjals, en efnislega samhljóða ákvæði var í lögum nr. 16/1911. Í fyrstu lögum um stimpilgjald, nr. 14/1918 var kveðið á um stimpilskyldu fjárnáma, sem þó miðaðist ekki við þinglýsingu. Telja verður að það hefði komið fram í stimpillögum frá 1921, hefði fjárnámsgerðir átt að vera stimpilskyldar, enda höfðu ákvæði um það verið í fyrri lögum um stimpilgjald, en felld á brott í nýju lögunum, samtímis því að sérstaklega var tilekið í lögum um aukatekjur ríkissjóðs að þinglýsing fjárnáma væri gjaldskyld.

                Ákvæði um stimpilskyldu skulda- og tryggingarbréfa héldust óbrett til ársins 1978. Ný lög um aukatekjur ríkissjóðs tóku gildi 1954, en mælt var fyrir um þinglýsingargjald af skjölum sem voru eignarheimild fyrir eða leggðu haft á fasteignir eða lausafé og skyldi gjaldið vera í hlutfalli við fjárhæð skjalsins. Samhliða frumvarpi sem varð að lögum nr. 40/1954 um aukatekjur ríkissjóðs var lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um stimpilgjöld þar sem meðal annars var mælt fyrir um að aðfarargerðir sem þinglesnar væru skyldu stimplast. Frumvarp þetta varð hins vegar ekki að lögum.

                Ár 1978 var þinglýsingargjald í fyrri mynd afnumið og í stað þess kveðið á um að fast gjald skyldi taka fyrir þinglýsingu, sbr. lög nr. 13/1978 um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 79/1975. Í frumvarpi með lögunum sagði að lagt væri til að þinglýsingargjald í núverandi mynd yrði fellt niður og sameinað stimpilgjaldi. Í stað núverandi þinglýsingargjalds myndi dómsmálaráðherra ákveða með reglugerð fast gjald fyrir hverja þinglýsingu, óháð fjárhæð skjals. Í lögum nr. 36/1978 um stimpilgjald er ekki að finna neitt ákvæði sem er efnislega sambærilegt ákvæðinu í fyrri lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem mælti fyrir um gjaldtöku við þinglýsingu skjala sem eru eignarheimild fyrir eða leggja haft á fasteignir, þannig að gjaldið sé í hlutfalli við fjárhæð skjals. Með nýjum lögum um stimpilgjald nr. 36/1978 var á sama hátt og áður hafði verið mælt fyrir um stimplun skuldabréfa og tryggingarbréfa. Ekkert bendir til þess að greinin hafi átt fá rýmra inntak en áður að þessu leyti.

                Þykir tilurð núgildandi ákvæða um stimpilgjald mæla gegn því sem haldið er fram af hálfu stefnda, að löggjafinn hafi ætlað hugtakinu tryggingarbréf rýmra inntak en það hefur samkvæmt almennum málskilningi. Í 24. gr. laganna er sérstaklega tiltekið að skuldbréf og tryggingarbréf séu stimpilskyld, en ekki var mælt sérstaklega fyrir um fjárnám fyrr en eftir breytingu þá sem var gerð með lögum nr. 168/2008. Þykir því ekki vera unnt að beita ákvæðinu með lögjöfnun. Ekki þykir framkvæmd innheimtu breyta þessu. Líta verður til þess að heimild stjórnvalda til gjaldtöku úr hendi þegnanna verður að vera fortakslaus og ótvíræð, sbr. 40. og 77. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944.

                Fallist er á það með stefnanda að ekki hafi verið lagaheimild til að krefja hann um stimpilgjald við þinglýsingu fjárnámsins.

                Stefndi telur ósannað að stefnandi eigi kröfu til endurgreiðslu kröfunnar þar sem ekki sé ljóst hvernig innborgun skuldara hafi ráðstafast. Þá sé krafan tryggð með aðfararveði í fasteign skuldara.

                Fram kemur í endurriti úr gerðabók sýslumanns að stimpilgjaldið var greitt af Lögheimtunni. Stefnandi hefur lagt fram yfirlit yfir færslur á reikningi stefnanda hjá Lögheimtunni sem sýna að hann hefur greitt 800.000 krónur inn á reikning Lögheimtunnar 14. mars 2008. Yfirlýsing lögmanna Lögheimtu um að hann hafi greitt 800.000 krónur á reikning þeirra liggur frammi og þar er því einnig lýst að hluta þeirrar fjárhæðar hafi verið ráðstafað til greiðslu á 729.360 króna stimpilgjaldi og 1.350 króna þinglýsingargjaldi.

                Sannað er að stefnandi greiddi gjöldin sem deilt er um. Þar sem komist hefur verið að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið lagastoð fyrir töku þeirra á greiðandi kröfu á ríkissjóð um endurgreiðslu, skv. lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta. Stefnandi hefur forræði á innheimtu kröfu sinnar. 

                Er því fallist á það með stefnanda að stefndi skuli endurgreiða féð skv. 1. gr. laga nr. 29/1995, 729.360 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. mars 2008 til 28. nóvember 2008 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. 

                Þá verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, 500.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

                Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Leó Eiríki Löve, 729.360 krónur með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. mars 2008 til 28. nóvember 2008 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

                Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.