Print

Mál nr. 109/2007

Lykilorð
  • Trúfélög
  • Þjóðkirkja
  • Stjórnarskrá
  • Trúfrelsi
  • Jafnræði
  • Sératkvæði

         

Fimmtudaginn 25. október 2007.

Nr. 109/2007.

Ásatrúarfélagið

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.

 Sveinn Guðmundsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.

 Þórður Bogason hdl.)

    

Trúfélög. Þjóðkirkja. Stjórnarskrá. Trúfrelsi. Jafnræði. Sératkvæði.   

Áfrýjandi, sem er skráð trúfélag, reisti kröfu sína á því að þjóðkirkjan fengi að lögum meiri greiðslur úr ríkissjóði en önnur trúfélög og í því fælist ólögmæt mismunun. Vísaði áfrýjandi til framlaga úr ríkissjóði er rynnu annars vegar í jöfnunarsjóð sókna og hins vegar í kirkjumálasjóð. Áfrýjandi byggði á því að skýra bæri 62. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis, á þá leið að samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar væri ólögmætt að gera upp á milli trúfélaga í löggjöf um stuðning við þau. Í niðurstöðu sinni vísaði Hæstiréttur til þeirra lögbundnu verkefna sem þjóðkirkjunni væri falið meðal annars með ákvæðum laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 og þeirrar staðreyndar að starfsmenn þjóðkirkjunnar væru opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur sem slíkir gagnvart öllum almenningi. Áfrýjandi væri hins vegar skráð trúfélag samkvæmt lögum um skráð trúfélög nr. 108/1999 og í þeim væru engin sambærileg ákvæði sem kvæðu á um starfsemi og réttindi og skyldur starfsmanna þeirra. Þegar af þeirri ástæðu að verkefni áfrýjanda og skyldur gagnvart samfélaginu yrðu ekki borin saman við lögboðin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar fælist ekki mismunun í því mati löggjafans að ákveða framlög til þjóðkirkjunnar úr ríkissjóði umfram önnur trúfélög og þar með ekkert brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda.

                                                                                                        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. febrúar 2007 og krefst þess aðallega, að stefnda verði gert að greiða sér 1.074.242 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. nóvember 2003 til greiðsludags, en til vara, að stefndi verði dæmdur til að greiða sér af tekjuskatti, til viðbótar sóknargjöldum sem renni til áfrýjanda, árlega 29,8% af þeim. Hann krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

I.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi reisir áfrýjandi kröfu sína á því að þjóðkirkjan fái að lögum meiri greiðslur úr ríkissjóði en önnur trúfélög, hann þar á meðal, og í því felist ólögmæt mismunun. Vísar áfrýjandi til 5. gr. laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl., þar sem kveðið er á um greiðslur úr ríkissjóði af tekjuskatti í jöfnunarsjóð sókna er nemi 18,5% af gjöldum sem renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt 2. og 3. gr. sömu laga, og til 2. gr. laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð, þar sem kveðið er á um greiðslur af tekjuskatti í kirkjumálasjóð er nemi 11,3% af nefndum gjöldum. Í þessu sambandi tekur áfrýjandi þó fram að gjöld þessi séu aðeins hluti af því fé úr ríkissjóði sem þjóðkirkjan fái umfram önnur trúfélög. Áfrýjandi, sem sjálfur kveðst aðeins fá sóknargjöld samkvæmt nefndri 2. gr. laga nr. 91/1987, telur að skýra beri 62. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar til samræmis á þá leið að samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar sé ólögmætt að gera upp á milli trúfélaga í löggjöf um stuðning við þau. Stefnda beri því að styðja áfrýjanda og önnur trúfélög til jafns við þjóðkirkjuna og skila samtals 29,8% álagi á sóknargjöld til hans, enda sé starfsemi og hlutverk hans og annarra skráðra trúfélaga sambærilegt við þjóðkirkjuna í öllu verulegu. Áfrýjandi byggir kröfu sína jafnframt á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 14. gr. hans, sbr. lög nr. 62/1994, og kveður þau hafa stöðu meðal réttarheimilda milli stjórnarskrárinnar og almennra laga og verði hin síðarnefndu að víkja fái þau ekki samrýmst sáttmálanum.

Ágreiningslaust er að söfnuðir annarra trúfélaga en þjóðkirkjunnar njóta ekki framlaga þeirra sem fjallað er um í nefndum lagaákvæðum og standa því ekki jafnfætis þjóðkirkjusöfnuðum að þessu leyti.

II.

Í 1. gr. laga nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar segir að íslenska þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni, sem ríkinu beri að styðja og vernda. Skírn og skráning í þjóðskrá veiti aðild að henni. Um réttarstöðu segir í 2. gr. laganna að þjóðkirkjan njóti sjálfstæðis gagnvart ríkinu innan lögmæltra marka og í 3. gr. kemur fram að stefndi skuli greiða þjóðkirkjunni árlegt framlag á grundvelli samninga um kirkjueignir og prestssetur milli hans og þjóðkirkjunnar til viðbótar öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum. Einnig, að launagreiðslum til starfandi presta þjóðkirkjunnar og annarra starfsmanna hennar skuli hagað samkvæmt því sem í 60. gr. laganna greinir. Í lögunum er nánar fjallað meðal annars um stjórn og starfsskipan þjóðkirkjunnar, yfirstjórn hennar í höndum biskups Íslands og annarra kirkjulegra stjórnvalda, vígslubiskupa, kirkjuþing, kirkjuráð, prestastefnu, prófasta og presta. Fjallað er um presta almennt, embættisgengi þeirra, val á þeim og skyldur þeirra. Ákvæði eru um sóknir og prestaköll og skipan þeirra, safnaðarfundi, sóknarnefndir, starfsmenn þeirra og hlutverk. Sérstakur kafli er í lögunum um launagreiðslur og réttarstöðu starfsmanna. Þar segir í 60. gr. að ríkið standi skil á launum biskups Íslands, vígslubiskupa, 138 starfandi presta og prófasta þjóðkirkjunnar og 18 starfsmanna biskupsstofu. Um laun þeirra fari eftir lögum um kjararáð eða lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, eftir því sem við geti átt. Í 61. gr. segir að þeir starfsmenn þjóðkirkjunnar sem þiggi laun úr ríkissjóði njóti réttinda og beri skyldur sem opinberir starfsmenn.

Í samræmi við 63. gr. og 64. gr. stjórnarskrárinnar er mælt svo fyrir í 1. gr. laga nr. 108/1999 um skráð trúfélög að menn eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Á sama hátt eigi menn rétt á að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þar með talið um trúleysi. Eigi sé skylt að tilkynna stjórnvöldum um stofnun eða starfsemi trúfélaga eða annarra félaga um lífsskoðanir, en samkvæmt 2. gr. laganna er það þó heimilt og gilda þá um félagið reglur II. kafla þeirra. Þar eru ákvæði um skráð trúfélög utan þjóðkirkjunnar, meðal annars um skilyrði skráningar, umsóknir um hana, eftirlit með skráðum trúfélögum, niðurfellingu skráningar, forstöðumenn skráðra trúfélaga, aðild að þeim, þar á meðal um inngöngu og úrsögn, og úrsögn úr þjóðkirkjunni. Áfrýjandi er skráð trúfélag samkvæmt þessum lögum. Í þeim eru engin ákvæði sambærileg við ákvæði laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, sem áður er lýst, eða annarra laga sem varða hana og starfsemi hennar. Starfsmenn þjóðkirkjunnar eru opinberir starfsmenn með réttindi og skyldur sem slíkir gagnvart öllum almenningi, en ekki aðeins þeim sem eru í söfnuðum hennar. Ekkert er í lögum um slíkar skyldur starfsmanna annarra trúfélaga. Vegna þessara skyldna þjóðkirkjunnar í íslensku samfélagi og með vísan til 62. gr. stjórnarskrárinnar hefur löggjafinn ákveðið framlög til þjóðkirkjunnar úr ríkissjóði umfram önnur trúfélög, þar á meðal í lögum nr. 91/1987 og 138/1993, sem áfrýjandi reisir mál sitt á. Þegar af þeirri ástæðu að verkefni áfrýjanda og skyldur gagnvart samfélaginu verða ekki borin saman við lögboðin verkefni og skyldur þjóðkirkjunnar felst ekki mismunun í þessu mati löggjafans og þar af leiðandi ekkert brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Rétt er að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Sératkvæði

Hjördísar Hákonardóttur

I.

Áfrýjandi vefengir ekki réttmæti þess að stefndi hafi tilteknar skyldur gagnvart þjóðkirkjunni og að hún hafi sérstöðu í íslensku samfélagi samkvæmt 62. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Hann byggir hins vegar á því að skýra verði ákvæði þetta í samræmi við 65. gr. stjórnarskrárinnar og alþjóðlegar skuldbindingar stefnda. Í ljósi þessa sé óheimilt að mismuna trúfélögum á þann hátt sem gert sé í tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð og laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. að því er varðar jöfnunarsjóð sókna.

Sú skipan þjóðkirkjunnar sem bundin er í 62. gr. stjórnarskrárinnar byggir á langri sögu og menningarhefð. Hefur grundvöllur hennar tekið breytingum í aldanna rás og markast af þróun frá trúarnauð til trúfrelsis. Trúfrelsi er tryggt í 63. og 64. gr. stjórnarskrárinnar og er þar tekið mið af þeim alþjóðalögum og sáttmálum sem Ísland er aðili að. Þrátt fyrir þróun í átt til jafnræðis með trúfélögum og fjölhyggju í þjóðarétti hefur ekki verið gengið svo langt að banna að eitt trúfélag njóti sérstakrar stöðu í aðildarríkjum. Trú- og skoðanafrelsi og rétturinn til þess að iðka trú sína er sérstaklega tryggður í 9. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnamálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979. Í þessum ákvæðum er ekki vikið sérstaklega að fjárhagslegum grundvelli starfsemi trúfélaga. Hins vegar eru tilmæli í þá veru í 9. lið almennrar ályktunar mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 22. frá árinu 1993 við 18. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Er því beint til þeirra aðildarríkja þar sem þjóðkirkja nýtur sérstöðu að gæta að því að sú skipan leiði ekki til þess að fylgjendur hennar njóti fríðinda umfram aðra, meðal annars fjárhagslegra. Í 64. gr. stjórnarskrárinnar segir í svipuðum anda að engum sé skylt „að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.“ Verður þetta orðalag ekki skilið svo að átt sé við almennan tekjuskatt sem greiddur er í ríkissjóð. Ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar er sérákvæði sem ekki er takmarkað af 65. gr. hennar eins og áfrýjandi heldur fram og ekki verður séð af athugasemdum við 2. gr. frumvarps þess er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, með síðari breytingum og varð að 64. gr. stjórnarskrárinnar, að slík hafi verið ætlun stjórnarskrárgjafans. Þvert á móti er sérstaklega tekið fram að ekki hafi verið talin ástæða til þess að hrófla við þeirri skipan sem 62. gr. stjórnarskrárinnar mælir fyrir um, hefði þetta „ekki verið talið brjóta gegn trúfrelsi svo lengi sem það skerðir ekki rétt manna utan þjóðkirkju til þess að aðhyllast aðra trú, stofna trúfélög eða standa utan trúfélaga og þeim er ekki mismunað af þeirri ástæðu.“ Er í þessu samhengi einnig í athugasemdunum vísað til ofannefndrar ályktunar mannréttindanefndarinnar nr. 22. Af öllu framangreindu leiðir að hvorki að landsrétti né þjóðarétti hvíli almenn skylda á stefnda til að jafna fjárhagsstöðu annarra trúfélaga við þá sem þjóðkirkjan nýtur og leidd er af 62. gr. stjórnarskrárinnar.

II.

Áfrýjandi byggir sérstaklega á því að mismunun gagnvart honum felist í tilhögun greiðslna annars vegar í kirkjumálasjóð, sbr. lög nr. 138/1993, og hins vegar í jöfnunarsjóð sókna, sbr. lög nr. 91/1987. Er í báðum tilvikum um að ræða gjald sem tekið er af tekjuskatti og nánar ákveðið sem tiltekið hlutfall af þeim gjöldum sem renna til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Samkvæmt 1. gr. þeirra laga greiðir ríkissjóður öllum skráðum trúfélögum, þar á meðal þjóðkirkjunni, ákveðna upphæð á hvern einstakling sem er í viðkomandi félagi eða kirkju. Í því fyrirkomulagi felst ákveðið jafnræði á aðstöðu trúfélaga samkvæmt lögum nr. 108/1999 um skráð trúfélög. Í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þeim lögum segir að með eldri lögum um trúfélög nr. 18/1975 hafi verið „stuðlað að jafnræði trúfélaga sem undir lögin eiga annars vegar og þjóðkirkjunnar hins vegar að því er varðar heimildir forstöðumanna til að standa fyrir tilteknum athöfnum sem hafa eiga áhrif að lögum og rétt til sóknargjalda. Lögin eru að þessu leyti eðlilegt framhald af ákvæðum stjórnarskrárinnar um trúfrelsi og nánari útfærsla á þeim.“ Þrátt fyrir niðurstöðu I. kafla verður að líta svo á að fjárframlög til þjóðkirkjunnar samkvæmt sérlögum verði að uppfylla skilyrði sem eru málefnaleg í ljósi þeirra sérstöku verkefna og skyldna sem þjóðkirkjan ber. Í ljósi þessa og með vísan til 65. gr. stjórnarskrárinnar verður að huga að því hvort réttmætt sé að þjóðkirkjan ein njóti þeirra sérstöku fjárframlaga sem áfrýjandi gerir tilkall til.

Með lögum nr. 78/1997 um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar var leitast við að setja rammalöggjöf um stöðu þjóðkirkjunnar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 78/1997 kemur fram að samhliða samningu frumvarpsins unnu kirkjueignanefndir ríkis og kirkju að því að ná samkomulagi um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Meginniðurstöður þess samkomulags voru þær að kirkjujarðir og aðrar kirkjueignir sem þeim fylgdu, að frátöldum prestssetrum, væru eign íslenska ríkisins og andvirði seldra jarða rynni í ríkissjóð. Á móti myndi íslenska ríkið skuldbinda sig til að greiða laun tiltekins fjölda presta þjóðkirkjunnar og starfsmanna biskupsembættisins, samanber ákvæði 3. gr. laganna. Leitast var við að kveða á um meginatriði íslensks kirkjuréttar í nokkuð breyttri mynd og segir að kveðið sé á um að íslenska þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni, sem njóti sjálfræðis gagnvart ríkisvaldinu innan lögmæltra marka og að þjóðkirkjan og stofnanir hennar njóti sjálfstæðrar eignhelgi og komi fram sem sjálfstæðir aðilar gagnvart almannavaldinu. Segir ennfremur að ríkisvaldinu beri að styðja og styrkja íslensku þjóðkirkjuna og greiði íslenska ríkið henni árlegt framlag sem miðist við að það nægi til reksturs hennar ásamt öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum. Í athugasemdum með 2. mgr. 1. gr. laganna, er kveður á um að ríkisvaldinu beri að styðja og styrkja þjóðkirkjuna, segir jafnframt að enn sé byggt á þeirri skipan mála sem gert sé ráð fyrir í 1. mgr. 62. gr. stjórnarskrárinnar, enda sé ákvæðum frumvarpsins á engan hátt ætlað að breyta fjárhagslegum skyldum ríkisvaldsins við þjóðkirkjuna þótt sjálfstæði hennar um innri málefni verði aukið frá því sem nú væri, sbr. þó það sem að framan greinir um samkomulag ríkis og kirkju um kirkjujarðir og launagreiðslur. Í frumvarpinu er einnig sérstaklega tekið fram að um sé að ræða frumvarp að meginlöggjöf (rammalöggjöf) um íslensku þjóðkirkjuna og að gert sé ráð fyrir að margvísleg löggjöf um afmörkuð kirkjuleg málefni frá ýmsum tímum skuli enn standa jafnhliða hinni nýju meginlöggjöf. Verður að líta svo á að lög nr. 91/1987 og lög nr. 138/1993 hafi verið þar á meðal.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 138/1993 stendur kirkjumálasjóður straum af kostnaði við kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefnu, biskupsgarð, ráðgjöf í fjölskyldumálum, söngmálastjórn og tónlistarfræðslu, starfsþjálfun guðfræðikandídata og önnur verkefni. Í 6. gr. laga nr. 91/1987 eru hlutverk jöfnunarsjóðs sókna rakin, en þau eru að veita styrki til þeirra kirkna sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur, leitast við að jafna aðstöðu og styrkja sóknir þar sem lögmæltar tekjur samkvæmt 2. gr. laganna nægja ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum, auðvelda stofnun sókna í nýjum byggðahverfum og styrkja kirkjulega félags- og menningarstarfsemi.

Ljóst er af athugasemdum með frumvörpum til laga um kirkjumálasjóð og sóknargjöld að þau verkefni sem hér er um að ræða tengjast því markmiði að færa stjórnsýslu og önnur lögbundin verkefni kirkjumála, sem áður voru í höndum ríkisins, til þjóðkirkjunnar. Þó að varla verði talið að öll tilgreind hlutverk sjóðanna tveggja tengist beint stjórnkerfi þjóðkirkjunnar, og þrátt fyrir þann almenna tilgang sóknargjalda að jafna stöðu skráðra trúfélaga, þá var með þeim fyrst og fremst verið að færa umsjón og stjórn ákveðinna verkefna frá ríki til kirkju. Þegar horft er til þessa og sérstöðu þjóðkirkjunnar samkvæmt 62. gr. stjórnarskrárinnar og hliðsjón höfð af þeim stjórnskipulegu breytingum sem hefur verið lýst, þá verður að fallast á með stefnda að hin umdeildu framlög ríkisins til þjóðkirkjunnar byggi á nægilega málefnalegum forsendum til að þau fái staðist.

 

Með þeim rökum sem greinir í I. og II. kafla að framan tek ég undir dómsorð meirihluta réttarins.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. nóvember síðastliðinn, var höfðað 12. janúar 2006 af Ásatrúarfélaginu, Síðumúla 15, Reykjavík, gegn íslenska ríkinu.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.074.242 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 17. nóvember 2003 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að dæmt verði að stefnda beri að greiða stefnanda af tekjuskatti, til viðbótar sóknargjöldum sem renna til stefnanda, árlega 29,8% af þeim. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins.

 

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Í málatilbúnaði stefnanda er því lýst að Ásatrúarfélagið hafi verið stofnað árið 1972 en með stofnun þess hafi verið tekinn upp sá heiðni þráður sem slitnaði við kristnitöku. Félagið hafi verið skráð sem trúfélag í maí 1973. Skráðir félagar hafi verið 568 hinn 1. desember 2001, 872 hinn 1. desember 2004 og 947 í október 2005 en þeir skiptist í goðorð. Goðar séu: Allsherjargoði, Reykjanesgoði, Kjalnesingagoði, Þórsnesgoði, Vestfirðingagoði, Hegranesgoði, Freysgoði (Austfirðingagoði) og Reykjavíkurgoði. Áður hafi verið Leiðvallagoði, tengdur Suðurlandi, en það hafi verið án eigin goða um sinn og fari allsherjargoði með störf hans. Loks sé seiðgoði sem ekki sé tengdur tilteknum landshluta. Allsherjarþing hafi æðsta vald í málefnum félagsins og kjósi því stjórn. Í Lögréttu sitji goðar ásamt stjórn og komi hún saman vikulega þegar mest er. 

Stefnandi fær sóknargjöld frá stefnda samkvæmt 2. gr. laga um sóknargjöld, en samkvæmt henni skilar stefndi af óskiptum tekjuskatti fjárhæð er rennur til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands. Fjárhæðin reiknast þannig að fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri greiðist ákveðin upphæð eftir því sem nánar segir í lagaákvæðinu. Stefnandi lýsir því í málatilbúnaði sínum að þjóðkirkjan og sjóðir hennar fái margar aðrar greiðslur frá stefnda samkvæmt lögum, fjárlögum og ákvörðunum ráðuneyta. Stefnandi telur að við þær fjárveitingar sé jafnræðis ekki gætt.

Stefnandi lýsir málinu þannig að það varði hluta þessara fjárveitinga, þ.e. kirkjumálasjóðsgjald og jöfnunarsjóðsgjald sókna. Samkvæmt 2. gr. laga um kirkjumálasjóð beri stefnda að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti gjaldi er nemi 11,3% af gjöldum er renni til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld o.fl. Samkvæmt 5. gr. laga um sóknargjöld o.fl. beri að skila mánaðarlega af tekjuskatti gjaldi er nemi 18,5% af sóknargjöldum er renni til þjóðkirkjusafnaða í Jöfnunarsjóð sókna.

Hinn 19. október 1998 hafi allsherjargoði ritað dóms- og kirkjumálaráðuneytinu bréf, en þar segi að stefnandi telji sig eiga rétt á sömu fjármunum og þjóðkirkjunni eru ætlaðir miðað við fjölda sóknarmanna. Lýst hafi verið von um fund sem allra fyrst um erindið og bréfinu hafi fylgt listi yfir kröfur stefnanda. Með bréfi 20. nóvember 1998 hafi kröfum stefnanda og ósk um fund verið hafnað.

Lögmaður stefnanda hafi ritað ráðuneytinu á ný 17. nóvember 2003 og krafist greiðslu kirkjumálasjóðsgjalds og jöfnunarsjóðsgjalds fyrir árið 2002, sömu fjárhæðar og stefnukrafan. Með bréfi 15. janúar 2004 hafi ráðherra hafnað kröfum og óskum stefnanda.

Stefnandi krefst þess í málinu að stefndi greiði honum umrædda fjárhæð, en því er hafnað af hálfu stefnda sem telur slíkt andstætt lögum. Stefnandi heldur því fram að túlka beri stjórnarskrána og alþjóðlega samninga, sem vitnað er til af hans hálfu, á þann veg að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar og trúfrelsisákvæði hennar hafi verið brotin með því að greiða stefnanda ekki sambærileg gjöld og stefndi greiði í kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna samkvæmt 2. gr. laga nr. 138/1993 um kirkju­málasjóð og 5. gr. laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl.

Af stefnda hálfu er vísað til þess að þjóðkirkjan njóti sérstöðu enda hafi hún sérstökum skyldum og hlutverki að gegna í þjóðfélaginu samkvæmt lögum. Staða þjóðkirkjunnar sé alls ekki sambærileg stöðu stefnanda og því geti ekki verið um brot á jafnræðisreglunni að ræða þegar þjóðkirkjan njóti stuðnings stefnda umfram stuðning sem stefnandi njóti. Stefndi vísar meðal annars í því sambandi til 62. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að markmið laganna um að gera þjóðkirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúfélögum sé ólögmætt og úrræði laganna um þessi gjöld séu auk þess brot á meðalhófsreglu, en hinu lögmæta markmiði um að styðja þjóðkirkjuna væri unnt að ná án þess að fara gegn jafnréttisreglu. Skýra beri  65. gr. og 62. gr. stjórnarskrár samræmisskýringu á þá leið að íslenska ríkinu beri að styðja stefnanda til jafns við þjóðkirkjuna, enda megi ekki mismuna trúfélögum eins og gert sé í tilvitnuðum ákvæðum laga um Jöfnunarsjóð sókna og kirkjumálasjóð. Ólögmætt sé að gera upp á milli trúfélaga enda sé félagsleg starfsemi og hlutverk þjóðkirkjunnar annars vegar og stefnanda hins vegar líkt. Þjóðkirkjan sé sambærileg við önnur trúfélög og ástæður mismununar í lögunum séu ekki nægilega veigamiklar og hlutlægar.

Verði ekki fallist á að stefnda beri að greiða stefnanda umrædd gjöld er þess krafist að dæmdar verði skaðabætur sömu fjárhæðar vegna tjónsins sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að hann hafi ekki fengið þessi gjöld úr hendi stefnda. Af hálfu stefnda er bótaskyldu mótmælt með vísan til þess að skilyrði hennar sé ekki fyrir hendi.

Varakröfuna segist stefnandi setja fram til öryggis ef aðalkrafan verði talin háð annmörkum sem varði frávísun eða þannig verði litið á að ekki sé á færi dómsins að fylla lög eins og gert sé ráð fyrir í aðalmálsástæðu stefnanda.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar í málatilbúnaði sínum til þess að flestir Íslendingar hafi verið heiðnir frá landnámi þar til kristni var lögtekin. Heiðni hafi varðveist með þjóðinni til þessa dags í rituðu máli, þjóðtrú og siðum.

Grundvöllur að núverandi kirkjuskipan hafi verið lagður á 16. og 17. öld. Í kirkjuordinantiu Kristjáns 4. hinni norsku frá 1607, sem leidd hafi verið í lög hér með tilskipun 29. nóvember 1629, hafi ekki verið gert ráð fyrir að hér væru önnur trúarsamfélög en hin evangelisk-lúterska kirkja. Stjórnkerfi kirkjunnar hafi orðið hluti af stjórnskipun stefnda eftir siðaskipti og þegar fram liðu stundir hafi þjónar kirkjunnar orðið embættismenn stefnda. Málefnum kirkjunnar hafi verið skipað með veraldlegum lögum, almennum lagafyrirmælum, alþingissamþykktum og fyrirmælum stjórnvalda og síðar með stjórnarskrá og almennum lögum. Trúarnauðung hafi verið hér fram á 19. öld.

Í stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands 1874 hafi verið ákvæði um trúfrelsi og þjóðkirkju. Þjóðkirkjuákvæði núgildandi stjórnarskrár í 62. gr. sé nánast sama efnis og var þá, en þar segi að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi, og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Þá hafi 46. gr. stjórnarskrárinnar 1874 verið svohljóðandi: „Landsmenn eiga rjett á að stofna fjelög til að þjóna guði með þeim hætti, sem bezt á við sannfæringu hvers eins. “Í 63. gr. núgildandi stjórnarskrár, eins og henni hafi verið breytt með 1. gr. laga nr. 97/1995, segi: „Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins.“ Samkvæmt 64. gr. stjórnarskrár megi enginn neins í missa af borgara­legum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna en þetta ákvæði sé efnislega óbreytt frá 1874. Jafnréttisákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið eitt af nýmælum stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. 5. gr. laganna, en það sé staðfesting á grunnreglu eldri stjórnskipunarlaga og jafnréttisákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. Hrd. 1998 bls. 4076.

Sett hafi verið lög um utanþjóðkirkjumenn 19. febrúar 1886, þar á meðal um kirkjuleg embættisverk forstöðumanna kirkjufélaga utan þjóðkirkjunnar og lausn félagsmanna undan gjöldum til kirkna og presta. Hinn 1. janúar 2000 hafi tekið gildi lög nr. 108/1999 um skráð trúfélög. Þar séu áréttuð efnislega ákvæði 2. mgr. 63. gr. stjórnarskrárinnar um rétt til að stofna trúfélög og mælt svo fyrir, í samræmi við félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrár, að menn eigi rétt til að stofna félög um hvers konar kenningar og lífsskoðanir, þ.m.t. trúleysi. 

Kirkjujarðir hafi verið í umsjá stefnda síðan 1907, sbr. lög nr. 46/1907 um laun sóknarpresta og lög nr. 50/1907 um sölu kirkjujarða. Kirkjujarðir séu það jarðagóss sem einstakar kirkjur hafi átt og notið arðs af.  Kirkjurnar hafi verið staðir beneficia – frá því í kaþólskum sið og hafi engin grundvallarbreyting orðið á réttarstöðu þeirra að þessu leyti fyrr en 1997. Þær hafi verið það sem nú sé nefnt sjálfseignarstofnanir.

Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 feli í sér aukna sjálfstjórn kirkjunnar. Samkvæmt 1. gr. sé íslenska þjóðkirkjan sjálfstætt trúfélag á evangelísk-lúterskum grunni. Lögin geymi ákvæði sem myndi ramma um þjóðkirkjuna en hún hafi eigin stjórnsýslu og setji sér sjálf reglur innan ramma laganna. Það sé þó á valdi almenna löggjafans hver sjálfstjórn kirkjunnar megi verða. Lögin feli í sér lögfestingu samkomulags ríkis og kirkju frá 10. janúar 1997 um kirkjujarðir, launagreiðslur til starfsmanna þjóðkirkjunnar, rekstrarskostnað og sérframlög til kristnisjóðs og þjóðkirkjunnar. Samkvæmt 1. gr. samningsins skuli kirkjujarðir, að frátöldum prestssetrum, vera eign stefnda. Þetta samningsákvæði sé staðfest í 62. gr. þjóðkirkjulaganna og samningi ríkis og kirkju frá 4. september 1998 um nánari útfærslu samningsins frá 1997. Samkvæmt 3. gr. laganna greiði stefndi þjóðkirkjunni árlegt framlag sem miðist við að það nægi til reksturs hennar ásamt öðrum tekjustofnum hennar. Samkvæmt 60. gr. skuli stefndi standa skil á launum presta, prófasta, biskupa og starfsmanna biskupsstofu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987 skuli skila úr ríkissjóði af óskiptum tekjuskatti, fjárhæð er renni til þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands. Fjárhæð þessi reiknist þannig að fyrir hvern einstakling, sem sé 16 ára og eldri í lok næstliðins árs á undan gjaldári, greiðist ákveðin upphæð.  Áður hafi safnaðarfundur ákveðið fjárhæð sóknargjalds innan lögbundins ramma en ýmis háttur hafi verið á innheimtu. Gjaldið hafi verið tekið upp í byrjun 20. aldar. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 36/1948 skyldu þjóðkirkjumenn greiða sóknargjald - nefskatt - til sóknarkirkju sinnar. Utanþjóðkirkjumenn hafi greitt til síns trúfélags eða háskólans.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð beri stefnda að skila kirkjumálasjóði árlega af tekjuskatti gjaldi er nemi 11,3% af gjöldum er renni til þjóðkirkjusafnaða samkvæmt lögum um sóknargjöld. Gjaldið greiðist mánaðarlega. 

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1987 um sóknargjöld beri að skila mánaðarlega af tekjuskatti gjaldi er nemi 18,5% af sóknargjöldum er renni til þjóðkirkjusafnaða í Jöfnunarsjóð sókna. Samkvæmt lögum nr. 32/1963, sbr. lög nr. 22/1993, skuli stefndi greiða árlega fé til kirkjulegrar menningar- og menntastofnunar í eigu þjóðkirkjunnar í Skálholti en markmið skólans sé að efla tengsl kirkju og þjóðlífs og stuðla að áhrifum kristinnar menningar í þjóðlífinu. Fé sé árlega veitt úr ríkissjóði til kirkjubyggingasjóðs og sé fjárhæðin ákveðin í fjárlögum, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1981. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands sé guðfræðideild ein af grunneiningum háskólans en hún sjái þjóðkirkjunni og evangelísk-lúterskum fríkirkjum fyrir prestsefnum. Lagaákvæði um stuðning við þjóðkirkjuna séu fleiri en þau skipti minna máli og sum orðin úrelt. Auk ákvæða í almennum lögum njóti kirkjan framlaga á fjárlögum. Stefndi styðji kirkjuna, t.d. með kristindómsfræðslu í skólum, sbr. 2. gr. grunnskólalaga nr. 66/1995, og verndi hana, m.a. með tilskipun 29. maí 1744 og lögum nr. 32/1997 um helgidagafrið.

Stefnandi byggi málsókn sína aðallega á 1. ml. 2. gr. laga um kirkjumálasjóð, 1. ml. 5. gr. laga um sóknargjöld o.fl., 1. mgr. 62. gr., 63. gr., 64. gr., einkum 1. mgr. og 2. ml. 2. mgr., og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 97/1995, 1. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og 9. gr., 14. gr., 17. gr. 18. gr. og 53. gr. sáttmálans og fjárlögum fyrir árið 2002 nr. 158/2001.

Stefnandi vísi til þess að í athugasemdum við frumvarp til laga nr. 97/1995 segi að lögfesting Mannréttindasáttmála Evrópu hafi þau áhrif að ríkari tilhneiging verði en áður til að beita rúmri skýringu á stjórnarskránni til samræmis við sáttmálann. Eftir löggildinguna hafi mannréttindaákvæði sáttmálans stöðu meðal réttarheimilda milli almennra laga og stjórnarskrár þannig að jafnvel yngri lög verði að víkja, sbr. Hrd. 1998 bls. 2528. Sama gildi um lög nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð og nr. 91/1987 um sóknargjöld að því leyti sem þau fái ekki samrýmst sáttmálanum. Óhjákvæmilegt sé að gera ákvæðum mannréttindasáttmálans hærra undir höfði en almennum lögum, en þau séu ráðandi um skýringu mannréttindaákvæða stjórnarskrárinnar og njóti stjórnskipulegrar verndar. Með gildistöku stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 séu mannréttindaákvæði sáttmálans álitin hafa öðlast stöðu stjórnlaga þar sem miða verði við að ætlunin hafi verið að mannréttindavernd stjórnarskrárinnar yrðu a.m.k. jafnrík og sáttmálans, sbr. Hrd. 1995 bls. 408 og 2871 og 1996 bls. 1998. Ákvæðum samningsins verði beitt samhliða stjórnarskrárákvæðum ef því er að skipta, m.a. við mat á því hvort lög samrýmist stjórnarskrá, sbr. Hrd. 1995 bls. 1444, 1996 bls. 2553 og 4284, 1997 bls. 2908 og 3700, 2000 bls. 4394 og 2002 bls. 3686.

Þá beri stefnandi brigður á gildi 2. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu og haldi því fram að ákvæðið hafi aðeins táknrænt gildi. Stefnandi vitni til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu sem réttarheimilda - fordæma, en til vara sem lögskýringargagna og fordæma í reynd sem dómstólar hljóti að taka fullt tillit til. Dómstólarnir hljóti að skýra ákvæði sáttmálans í samræmi við meginviðhorf, sem komi fram í þeim, og sjónarmið sem mótuð séu með þeim. Dómiðkun réttarins sé hluti af samningnum og reglur sem af henni verði dregnar séu gildur landsréttur. Af ákvæðum sáttmálans um dómstólinn verði ályktað í þessa átt í samræmi við dýnamískt eðli hans, sbr. m.a. 32. gr. Reglur sem dregnar verði af dómum Mannréttindadómstólsins séu virtar sem hluti mannréttindasáttmálans og dómarnir hafi raunverulega rík áhrif sem réttarheimild í dómiðkun hér á landi. Stefnandi vísi til dóma Mannréttindadómstólsins frá 16. desember 1997 í máli Kaþólsku kirkjunnar í Kanía á Krít gegn Grikklandi og frá 27. júní 2000 í máli gyðinglega lítúrgíufélagsins Cha’are shalom ve Tsedek og Frakklands þótt meirihlutinn hafi hafnað kröfum sóknaraðila í síðargreinda málinu. Í Kanía-málinu hafi Grikkland verið talið hafa brotið gegn 14. gr. sáttmálans um jafnrétti og 6. gr. um réttláta málsmeðferð með því að synja kaþólsku kirkjunni um aðildarhæfi en gríska rétttrúnaðarkirkjan hafi getað átt aðild að dómsmáli. Í grísku stjórnarskránni sé kveðið á um að trú grísku rétttrúnaðarkirkjunnar sé ráðandi trú í Grikklandi. Í dómi í Cha’are shalom ve Tsedek-málinu sé ályktað, með vísan til nýnefndrar úrlausnar, að trúfélag geti farið með þau réttindi sem einstaklingum sé heitið í 9. gr. mannréttindasáttmálans fyrir hönd félagsmanna sinna. Þessi regla sé fullir lögstafir að íslenskum rétti og hafi hér almennt gildi.    

Í dómi Mannréttindadómstólsins 15. mars 2000 í máli nr. 34369/97: Jakovos Thlimmenos gegn Grikklandi hafi Grikkland verið talið bótaskylt við bókhaldara – vott Jehóva – sem hefði hlotið dóm fyrir að neita að gegna herþjónustu. Sök gríska ríkisins hafi verið að mismuna ekki í löggjöf þeim sem hlaut dóm og fangavist fyrir að neita að gegna herþjónustu samkvæmt trúarsannfæringu sinni, miðað við venjulega stórbrotamenn, og neita honum um stöðu, sem hann hafi verið vel hæfur til að gegna, aðeins vegna dómsins. Bætur fyrir fjártjón hafi ekki verið dæmdar þar sem ekki hafi verið sýnt fram á tjón. Dómurinn sé byggður á því viðhorfi að þegar aðstæður væru sambærilegar ætti að gæta samræmis í meðhöndlun, en við ósambærilegar aðstæður ættu ólíkar úrlausnir við.

Þjóðkirkjan hafi, auk trúariðkunar, gegnt sérstöku menningarhlutverki við að gæta og viðhalda kristilegum menningararfi þjóðarinnar. Hún hafi alla tíð gegnt félagslegu hlutverki, einkum við fátæka, sjúka og sorgmædda og sem hluti af stjórnsýslu stefnda hafi hún haft þar með höndum ákveðna þætti, m.a. varðandi fræðslumál og þjóðskrá. Prestar skrái nöfn barna, sem þeir skíri, og tilkynni um hjón sem þeir gefi saman. Þeir fermi unglinga, vígi kirkjugarða og jarðsyngi. Kirkjurnar reisi guðshús og viðhaldi þeim og söfnuðir og sóknir sjái um grafreiti.

Önnur trúfélög hafi með höndum sambærilega þjónustu. Stefnandi haldi við og rækti heiðinn menningararf þjóðarinnar. Goðar hughreysti sjúka, tali milli hjóna og fræði um heiðinn sið. Allsherjargoði hafi með höndum samsvarandi stjórnsýslustörf og prestar varðandi almannaskráningu og félagið annist sérstakan grafreit. Blót samsvari guðsþjónustum og þau séu með sérstökum viðhafnarbrag á hátíðum. Félagsstarf stefnanda samsvari safnaðarstarfi kirkjunnar. Goðar staðfesti nafngiftir og siðfesti ungmenni, gefi saman hjón - ekki aðeins þau sem séu í félaginu - helgi staði og greftri. Að öllu samanlögðu sé fleira sameiginlegt en ólíkt og einkum sé hinn trúarlegi kjarni og félagslegt eðli þjóðkirkjunnar og stefnanda sambærilegt. Eðlilega sé ekki allt eins en það sem sé ólíkt lúti fremur að inntaki trúarinnar og helgisiðum en félagslegri starfsemi og hlutverki. Samkvæmt þessu álíti stefnandi að af jafnréttisreglunni leiði að í löggjöf um stuðning við trúfélög sé ólögmætt að gera upp á milli þeirra.

Skýra beri lög, þar með talin stjórnlög, til samræmis við ákvæði alþjóðlegra mannréttindasáttmála sem stefndi hafi fullgilt, sbr. Hrd. 1992 bls. 401, 1995 bls. 1444, 1999 bls. 390, 2000 bls. 4480 og 2002 bls. 3686. Það ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar sem stefnandi byggi á gangi að minnsta kosti jafnlangt varðandi jafnrétti og trúfrelsi og mannréttindasáttmáli Evrópu og aðrir sáttmálar sem Ísland eigi aðild að. Til vara haldi stefnandi því fram að túlka beri íslensk lög til fyllsta samræmis við sáttmálana og að löglíkur séu á að íslensk lög séu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins - að almennt teljist vera líkindi til að ætlunin með lagasetningu hafi ekki verið að fara gegn þjóðarétti, sbr. Hrd. 1988 bls. 1532. Skýra megi ákvæði almennra laga og stjórnarskrár til samræmis við ólögfesta þjóðréttarreglu, sbr. Hrd. 1992 bls. 174.

Samkvæmt dómiðkun Mannréttindadómstóls Evrópu sé aðildarríkjunum játað nokkurt svigrúm í mati á því hvort mismunandi aðstæður geti réttlætt mismunandi meðferð, en þeim beri í mati sínu að virða fjölhyggju í trúarefnum jafnt og fjölræði í stjórnmálum, sem sé álitið meginþáttur í lýðræðislegum stjórnarháttum, og þeim beri að gæta meðalhófs. Sýna verði sanngirni þegar opinberir hagsmunir og almanna hagsmunir eru vegnir á móti einkahagsmunum. Sambærilegar aðstæður krefjist sambærilegra reglna, meðferðar og úrlausna, en mismunandi aðstæður geti réttlætt mismunandi meðferð. Mismunun þurfi ekki að vera ólögmæt en þá þurfi að liggja til hennar mjög veigamiklar, hlutlægar og skynsamlegar ástæður, svo sem lýðræðisleg nauðsyn og markmiðið verði að vera lögmætt. Hið opinbera geti þó haft réttmæta hagsmuni af að halda sig að þeim samtökum sem mæli fyrir munn flestra í tilteknum trúarhópi. Þessi dómiðkun sé hluti af samningnum og reglur sem af henni verði dregnar séu gildur landsréttur. Á málið beri því að leggja ákveðinn sanngirnismælikvarða og hafa mið af réttarvitund manna.

Ákvæði stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 feli í sér umorðun á mannréttindareglum alþjóðasamninga sem Ísland eigi aðild að og sé bundið af að þjóðarétti, en í málinu sé byggt á því að lagaákvæðin beri að túlka í ljósi samningsákvæðanna og í samræmi við túlkun dómstóla og alþjóðlegra stofnana, sem falið sé að fylla þau og skýra, sbr. m.a. Hrd. 1992 bls. 401, 1998 bls. 4076 og 1999 bls. 390.

Reglur þjóðaréttarins séu réttarheimild, sbr. Hrd. 1992 bls. 174, 1995 bls. 2172 og 1997 bls. 174. Stefnandi vitni sérstaklega til ákvæða Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966, einkum 26. gr., sem réttarheimildar, en til vara sem lögskýringargagns, sbr. Hrd. 1989 bls. 28, m.a. að nýr skilningur á stjórnarskrárákvæði í ljósi þjóðaréttar leiði til nýrrar skýringar á almennum lögum, sbr. Hrd. 1990 bls. 2 og 1995 bls. 1444. Til vara sé því haldið fram að þróun þjóðaréttarins og aukið vægi stjórnskipulegrar jafnréttisreglu samfara veikari grundvelli undir þjóðkirkjuákvæði ásamt ákvæðum laga nr. 62/1994 og 97/1995 og dómiðkun Hæstaréttar leiði til þess að skýra beri ákvæði almennra laga um stuðning við Þjóðkirkjuna nýjum skilningi, m.a. í ljósi túlkunar alþjóðlegra og erlendra dómstóla og stofnana og nefnda sem ætlað sé að hafa eftirlit með að einstök ríki geri skyldu sína.              

Í kröfum stefnanda sé tekið tillit til þess að þjóðkirkjumenn séu fleiri en félagar stefnanda en að því atriði fráteknu sé því haldið fram að þjóðkirkjan sé sambærileg við önnur trúfélög og þar með stefnanda í öllu verulegu og að ástæður mismununar, sem felast í ákvæðum laga um Jöfnunarsjóð sókna og Kirkjumálasjóð, séu ekki nægilega veigamiklar og ekki hlutlægar. Enginn lýðræðislegur nauður reki til mismununar. Þvert á móti leiði þessi mismunun til þess að gengið sé á svig við mikilvæg lýðræðisleg gildi þar sem virðing sé fyrir fjölhyggju. Markmið laganna sé ólögmætt að því leyti sem það stefni að því að gera þjóðkirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúfélögum.

Eðlisrök og málefnalegar ástæður réttlæti ekki forréttindi þjóðkirkjunnar. Jafnréttisreglan sé grunnregla stjórnarskrár með dýpri rætur í íslenskum stjórnlagarétti en  3. gr. laga nr. 97/1995, sbr. Hrd. 1999 bls. 390. Hún sé stjórnskipunarregla með efnislegu inntaki sem dómstólum beri að beita, m.a. með því að skýra og fylla ákvæði laga nr. 91/1987 og 138/1993 til samræmis við hana. Þótt þjóðkirkjan mæli e.t.v. fyrir munn flestra evangelísk-lúterskra og jafnvel fleiri mótmælenda fari því fjarri að hún mæli fyrir munn heiðinna. Þjóðkirkjuákvæðið, virt í ljósi jafnréttisreglunnar, leyfi ekki mismunun trúfélaga umfram það sem felist í dómiðkun Mannréttindadómstólsins um málsvara.

Stefnandi véfengi ekki að stefnda beri samkvæmt 62. gr. stjórnarskrár að styðja þjóðkirkjuna og sé markmið laga nr. 138/1993 um kirkjumálasjóð og laga nr. 91/1987 um sóknargjöld o.fl. að því leyti réttmætt. Úrræði laganna fari hins vegar í bága við meðalhófsreglu þar sem hægt sé að ná hinu lögmæta markmiði án þess að fari gegn jafnréttisreglu.

Þjóðkirkjuskipanin megi ekki hefta trúfrelsi og ekki brjóta gegn jafnrétti. Samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár skulu allir vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til, m.a. trúarbragða, skoðana og stöðu að öðru leyti.  Samkvæmt þessari reglu beri stefnda að styðja önnur lífsskoðunarfélög til jafns við þjóðkirkjuna. Jafnræðisreglan geti haft bein áhrif ef ákvæði í almennum lögum feli í sér mismunun og mundi þá ákvæðinu venjulega vera vikið til hliðar, sbr. athugasemdir við 3. gr. frv. til laga 97/1995. Í þessu máli sé það ekki tæk leið vegna ótvíræðrar skyldu stefnda að íslenskum stjórnlögum til að styðja evangelísk-lúterska kirkju. Að mati stefnanda sé hér sú ein leið fær, að óbreyttum lögum, til að bæði stjórnarskrárákvæðin verði höfð í heiðri, að veita öðrum trúfélögum en þjóðkirkjunni sama stuðning og henni miðað við höfðatölu.

Samkvæmt 1. mgr. 64. gr stjórnarskrárinnar megi enginn neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum sakir trúarbragða sinna og samkvæmt 2. ml. 2. mgr. sé enginn skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann eigi ekki aðild að. Með því að taka fé af tekjuskatti og færa til eins trúfélags, með þeim hætti sem gert sé í lögum um sóknargjöld og kirkjumálasjóð, sé í reynd verið að fara gegn þessu stjórnarskrárákvæði. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 138/1993 og 5. gr. laga nr. 91/1987 um sóknargjöld renni samtals 29,8% til sjóða þjóðkirkjunnar í ofanálag á sóknargjöld af þjóðkirkjumönnum en á sóknargjöld annarra skráðra trúfélaga komi ekkert ofanálag.

Meginmálsástæða stefnanda sé að skýra beri 65. gr. og 62. gr. stjórnarskrár samræmisskýringu á þá leið að stefnda beri að styðja stefnanda til jafns við þjóðkirkjuna. Ekki megi mismuna trúfélögum eins og gert sé í tilvitnuðum ákvæðum laga um Jöfnunarsjóð sókna og kirkjumálasjóð heldur beri að skýra ákvæði þeirra þannig að skila beri 29,8% í félagssjóð stefnanda og samsvarandi sjóði annarra skráðra trúfélaga samkvæmt jafnréttisreglu og hlutfallareglu 2. gr. laga nr. 91/1987. Stefnandi láti liggja milli hluta hvort miða eigi aðeins við skráð trúfélög og hver réttur annarra lífsskoðunarfélaga skuli vera. 

Í 9. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sé kveðið á um trúfrelsi, en í 2. mgr. hennar segi að frelsi manna til að rækja trú sína eða sannfæringu skuli einungis háð þeim takmörkunum sem lög mæli fyrir um og nauðsyn beri til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna almannaheilla, til verndar allsherjarreglu, heilsu manna eða siðgæði eða rétti og frelsi. 

Reglurnar um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og bann við mismunun séu tvær birtingarmyndir sömu grunnreglu sem sé samofin ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. 14. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu feli í sér bann við mismunun, en þar segi að réttindi þau og frelsi, sem lýst er í samningnum, skuli tryggð án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna trúarbragða eða skoðana eða annarrar stöðu. Með lagaákvæðum um framlög í kirkjusjóð sé jafnræði svo raksað að andstætt sé 14. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994, og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnréttisregla þessi sé ekki orðin tóm heldur feli hún í sér efnisreglu sem borgararnir geti borið fyrir sig. 

Stefnandi vísi til 12. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu frá 4. nóvember 2000 sem sé svohljóðandi: 

„Öll lagaleg réttindi skulu tryggð án nokkurrar mismununar, svo sem vegna kynferðis, kynþáttar, litarháttar, tungu, trúarbragða, stjórnmála- eða annarra skoðana, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu, tengsla við þjóðernisminnihluta, eigna, uppruna eða annarrar stöðu.

Enginn skal sæta nokkurri mismunun af hálfu opinberra aðila, svo sem vegna þeirra ástæðna sem nefndar eru í 1. málsgrein.“

 

Með þessum viðauka hafi jafnréttisvernd sáttmálans aukist til muna og einskorðist ekki lengur við önnur ákvæði samningsins. Þessi viðauki hafi hvorki verið fullgiltur af hálfu stefnda né lögtekinn hér en efnisinntak hans rúmist innan 65. gr. stjórnarskrárinnar. Viðaukinn hafði verið undirritaður þegar mannréttindasáttmálinn var lögtekinn 1994 og mannréttindakafli stjórnarskrárinnar endurskoðaður 1995. Ekkert hafi komið fram um að stefndi hafi eða hafi haft annað í huga en að staðfesta og löggilda viðaukann og megi vænta þess að það gerist á næstunni. Því teljist líkindi til að markmið laganna hafi ekki verið að þau færu gegn efni viðaukans, en það sé til marks um þróun réttarins á sviði jafnréttis og sé fallið til að styðja framsækna túlkun og fyllingu gildra réttarheimilda, sbr. MDE 30. júní 1993: Sigurður Á. Sigurjónsson gegn Íslandi.

       Í 18. gr. Alþjóðasamnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966, sbr. auglýsing nr. 10/1979 í C-deild Stjórnartíðinda, sé mælt fyrir um trúfrelsi. Mannréttindasamningsnefndin, sem fylgst hafi með að samningnum væri framfylgt, hafi samþykkt 30. júlí 1993 almenna ályktun um skýringar við þetta ákvæði. Þar segi að vernd ákvæðisins takmarkist ekki við hefðbundin trúarbrögð; að ef tiltekin trú sé ríkistrú eða njóti viðurkenningar sem trú meirihluta verði að gæta þess að ekki sé hallað á þá sem aðhyllist aðra trú eða enga, sérstaklega þannig að þeim sem játi ráðandi trú séu ekki veitt efnahagsleg forréttindi; að ef tiltekin trú njóti viðurkenningar sem opinber hugmyndafræði í stjórnarskrá megi ekki mismuna mönnum sem ekki fylgi hinni opinberu hugmyndafræði eða séu henni andstæðir.

Í skýringum mannréttindaumboðsmanns Sameinuðu þjóðanna við 18. gr. frá 1993 segi m.a.:

„Nú er trú viðurkennd sem ríkistrú eða hún er opinber eða hefðbundin eða fylgjendur hennar eru meirihluti íbúa, og má það þá ekki verða til þess að mönnum sé gerður              ójöfnuður í að njóta nokkurs réttar samkvæmt samningnum ... eða að þeim sé  mismunað sem aðhyllast önnur trúarbrögð eða engin. Sérstaklega er ... það ósamrýmanlegt banni við mismunun ... að veita  fjárhagsleg  forréttindi.“

Í 26. gr. sé mjög víðtækt jafnréttisákvæði, svohljóðandi: „Allir eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á sömu lagavernd án nokkurrar mismununar. Lögin skulu ... banna hvers konar mismunun og ábyrgjast öllum mönnum jafna og raunhæfa vernd gegn mismunun svo sem vegna ... trúarbragða ...“ Þetta ákvæði eigi jafnt við um stjórnskipunarlög sem um almenn lög. Reglurnar um jafnrétti og bann við mismunun séu algildar. Stefndi hafi samþykkt að mannréttindasamningsnefndin geti fjallað um kærur einstaklinga á hendur Íslandi um samningsbrot og gert athugasemdir við framkvæmd Íslands á samningnum. Ríkjum, sem samþykkt hafi kæruleiðir, beri að framfylgja niðurstöðum og tilmælum nefndarinnar og sú skylda hvíli á handhöfum löggjafarvalds, stjórnvöldum og dómstólum.

Í 27. gr. segi m.a. um minnihlutahópa að þeim sem tilheyri slíkum hópum skuli ekki neitað um rétt til þess, í samfélagi við aðra í þeim hópi, að játa og þjóna sinni eigin trú. Fjölmargar aðrar réttarheimildir SÞ mæli fyrir um bann við misrétti og mismunun, svo sem yfirlýsing Allsherjarþingsins um afnám mótlætis og misréttis vegna trúarskoðana frá 1981 og ekki síst stofnskrá Sameinuðu þjóðanna frá 1945 og mannréttindayfirlýsing þeirra 10. desember 1948, þar sem kveðið sé á um trúfrelsi og jafnrétti, m.a. varðandi trú. Ákvæði mannréttindayfirlýsingarinnar bindi ríki að þjóðarétti og hafi þannig áhrif á lögskýringar á landsrétti.

Við túlkun samningsins um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi hafi álit mannréttindasamningsnefndarinnar í reynd svipað vægi og dómar Mannréttindadómstóls Evrópu við mannréttindasáttmálann enda sé nefndin lögbær handhafi úrlausnarvalds með lögsögu. Samningarnir mótist smám saman af nýjum viðhorfum og séu í stöðugri þróun, sbr. t.d. MDE Cossey gegn Bretlandi 27. september 1990. 

Réttarþróun á sviði trúfrelsis og stöðu trúfélaga sé nú ör og megi vænta þess að þrengi frekar að ríkiskirkjum og forréttindastöðu kirkjudeilda. Í Noregi hafi verið komið á skipan sem ekki verði sett út á þar sem öll lífsskoðunarfélög njóti jöfnuðar við fjárveitingar hins opinbera. Svokölluð Bakkevig-nefnd sem skipuð hafi verið af ríkisstjórninni og þjóðkirkjunni hafi lagt til að ríki og kirkja verði aðskilin og þjóðkirkjunni ekki gert hærra undir höfði en öðrum trúfélögum en til þess þurfi að gera viðeigandi breytingar á stjórnarskrá.

Athugasemdir mannréttindasamningsnefndarinnar um mismunun trúfélaga í Noregi og Danmörku hafi sama gildi hér á landi og í þessum ríkjum að því leyti sem um sömu eða svipaðar reglur sé að ræða enda grundvöllur kirkjuskipunar í löndunum að miklu leyti hinn sami. Sérstaklega hafi Danmörk átt undir högg að sækja vegna þess að danska kirkjan sé í raun og að lögum hluti stjórnsýslunnar og áhöld um að hún hafi aðildarhæfi en ekki sé vitað til að nefndin hafi gert athugasemdir við mannréttindaframkvæmd í Noregi sem hér skipti máli. Sá háttur sem Norðmenn hafi á um stuðning við trúfélög sé að öllu leyti í samræmi við þær mannréttindareglur sem vísað sé til í máli stefnanda.

Í Grikklandi hafi verið ákvæði í lögum sem mismuni kirkjum og trúfélögum, sbr. t.d. MDE Kokkinakis gegn Grikklandi 19 04 1993 og Manoussakis gegn Grikklandi 29 08 1996, nr. 18748/91. Að öðru leyti verði að ætla að mismunun af því tagi sem felist í 3. gr., sbr. 10. gr., þjóðkirkjulaganna, 1. ml. 2. gr. laga um kirkjumálasjóðsgjald og 1. ml. 5. gr. laga nr. 91/1987 um álag á sóknargjöld sé einsdæmi í Evrópuráðslöndum. Áþekk mismunun í Grikklandi og Danmörku hafi sætt gagnrýni og fordæmingu MDE og mannréttindanefndarinnar en sameiginlegar meginreglur í réttarskipan þorra aðildarríkja ráðsins séu meðal þess sem MDE líti til í dómum sínum.

Danir hafi fullgilt (Evrópu-)rammasamning um verndun þjóðarbrota sem gengið hafi í gildi 1. febrúar 1998. Í 4. gr. sé jafnréttisákvæði og um réttindi þjóðarbrota varðandi trúfrelsi, trúarbrögð, trúfræðslu, trúfélög, trúarstofnanir og samband við trúbræður í öðrum ríkjum séu ákvæði í 5.-8. gr., 12. og 17. gr.  Samkvæmt 23. gr. beri að líta svo á að réttindi og frelsi, sem leiði af meginreglum rammasamningsins, séu í samræmi við ákvæði MSE og viðbótarsamninga við hann. Í 4. gr. séu ákvæði um jákvæða mismunun, sem heimili ráðstafanir til að þjóðabrot fái fullan rétt í raun án þess að það teljist mismunun, en annars sé þeim veittur sami réttur og öðrum.  Ráðherranefnd Evrópuráðsins og sérstök ráðgjafarnefnd hafi fylgst með framkvæmd samningsins. Hinn 22. september 2000 hafi nefndin samþykkt tillögur til ráðsins um ályktanir og tillögur til ríkisstjórnar Danmerkur sem ráðið hafi staðfest í apríl 2001. Þar segi að jafnframt því að láta þess getið að ríkiskirkja sé í sjálfu sér ekki í mótsögn við rammasamninginn og að hann skyldi ekki út af fyrir sig til að styrkja trúariðkun fjárhagslega, álykti Ráðherranefndin að sú spurning vakni hvort fjárstyrkur sem hinni evangelisku-lútersku kirkju standi til boða umfram aðra samrýmist reglum 4. gr. rammasamningsins um jafnrétti og leggi til að Danmörk taki þetta efni til nákvæmrar endurskoðunar. Samningurinn hafi verið undirritaður af hálfu Íslands 1. febrúar 1995. Álit ráðherranefndar Evrópuráðsins hafi mjög eindregið leiðbeiningargildi í málinu þar sem það lúti að sambærilegu álitaefni. Hinn 16. júní 2000 hafi Evrópunefnd um kynþáttamisrétti og umburðarlyndi mælt með því, með tilliti til 70. gr. dönsku stjórnarskrárinnar, að í hana yrði aukið jafnréttisákvæði og þess vandlega gætt að mönnum væri ekki mismunað.

Í athugasemdum við 3. gr. frumvarps til laga nr. 97/1995 segi að aðstæður geti réttlætt eðlileg frávik frá jafnræði og að réttlætanlegt geti verið að gera ákveðnum hópum hærra undir höfði í löggjöf til að rétta hlut þeirra og að það sé ekki markmið jafnræðisreglunnar að útiloka að lögákveðin skilyrði fyrir réttindum eða skyldum geti tekið mið af atriðum eins og trúarbrögðum, skoðunum og stöðu að öðru leyti ef þau byggðust á málefnalegum forsendum.

Samkvæmt 3. og 4. gr. laga um kirkjumálasjóð skuli greiða framlag úr sjóðnum í prestssetrasjóð og auk þess skuli sjóðurinn standa straum af kostnaði við eftirtalið eftir nánari ákvörðun kirkjuráðs: 1. Kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefnu, 2. biskupsgarð, 3. ráðgjöf í fjölskyldumálum (fjölskylduþjónustu kirkjunnar), 4. söngmálastjórn og tónlistarfræðslu á vegum þjóðkirkjunnar, 5. starfsþjálfun guðfræðikandídata og 6. önnur verkefni. Ekkert af því sem hér sé talið réttlæti mismunun. Goðar þurfi að hafa staðfestu í goðorði sínu, heyja þing og efla blót og halda fundi, halda uppi félagsaðstöðu og reisa hof, veita ráðgjöf í fjölskyldumálum, ef því er að skipta, tala á milli hjóna og þjálfa menn til að gerast goðar. Stefnandi geri rímnahefð þjóðarinnar hátt undir höfði og hafi haldið námskeið um stemmur og kveðandi. Allsherjarþing samsvari kirkjuþingi og goðar haldi samráðsfundi. Meginblót séu fimm en goðar efli héraðsblót, a.m.k. einu sinni á ári, og samkomur séu vikulega í aðalstöðvum félagsins.

Markmið ákvæðanna um Jöfnunarsjóð sé að jafna stöðu einstakra sókna sem séu mjög misfjölmennar, þéttbýlar, stórar, erfiðar yfirferðar og fjarlægar höfuðstöðvum kirkjustjórnarinnar, en á bak við það sé einfaldlega það markmið og skylda samkvæmt 62. gr. stjórnarskrár að styðja Þjóðkirkjuna. Af hálfu stefnanda sé því aðallega haldið fram að vegna síðargreinda sjónarmiðsins skipti ekki máli hvort sambærileg vandamál sé við að glíma meðal heiðinna, en til vara að aðstæður séu sambærilegar í verulegum mæli. Stefnandi hafi sett sér það markmið að setja á stofn 36 goðorð, hvert með sinn goða til að allir félagsmenn njóti sem jafnastrar þjónustu. Þessu markmiði sé ekki náð eins og fram hafi komið. Aðstaðan í einstökum goðorðum sé mjög misjöfn og þörf á að jafna hana.

Hvorki sé fallist á að skyldur sem á þjóðkirkjunni hvíli réttlæti framlög til hennar umfram önnur trúfélög né að gild málefnaleg rök hafi komið fram fyrir frávikum frá jafnréttisreglum varðandi jöfnunarsjóð sókna og kirkjumálasjóð, sbr. Hrd. 6. maí 1999 í máli nr. 151/1999, bls. 215.

       Stefnandi sjái ekki að frávikin réttlætist af  tilliti til almannaheilla, allsherjarreglu, réttar eða frelsis. Réttur þjóðkirkjunnar til stuðnings stefnda réttlæti ekki frávikin og komi þar bæði til jafnréttisreglan og að fullnæging réttlætis þurfi ekki að hafa í för með sér óhæfileg útlát úr stefnda meðan hlutföllin milli þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga haldast svipuð og nú.

       Loks sé því haldið fram að hvorki 62. gr. stjórnarskrár, án samræmisskýringar með 65. gr., né ákvæði almennra laga um kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna fái samrýmst trúfrelsisákvæði 1. ml. 63. gr. stjórnarskrár og tilvitnaðra alþjóðasamninga, en ef þessum fyrirmælum yrði játað gildi yrði trúfrelsið skert í þeim mæli að ekki fengi staðist, sbr. 9. gr. og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Því sé aðallega haldið fram að dæma beri stefnda til að framfylgja ákvæðum laga um kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð sókna samkvæmt jafnræðisreglu stjórnarskrár, en til vara sé byggt á því að stefndi hafi, andstætt jafnréttisreglu, valdið stefnanda tjóni með því að mismuna honum ranglega við styrkveitingar til trúfélaga og sé af þeim sökum bótaskylt við hann samkvæmt almennri reglu íslensks réttar um bótaábyrgð hins opinbera. Stjórnvöld hafi þverskallast við ítrekuðum bænaskrám um fundi með forstöðumönnum og fulltrúum trúfélaga um leiðir til að laga misréttið. Jafnframt er byggt á efnisreglu 41. gr. MSE, sbr. MDE 15. mars 2000 Þlimmenos gegn Grikklandi þar sem viðurkennt sé að Grikkland væri bótaskylt fyrir brot á 1. mgr. 6. gr. og 9. gr., sbr. 14. gr. MSE, sbr. og Hrd. 1994 bls. 2497 og 1995 bls. 1613. Tjón stefnanda á árinu 2002 sé missir framlaga af tekjuskatti, sem hann hefði fengið ef jafnræðis hefði verið gætt, og sé því sama fjárhæð og fégjald samkvæmt aðalmálsástæðunni.

Samkvæmt meginreglum sönnunarréttar hvíli sönnunarbyrðin á stefndu í öllu sem máli skipti, þar á meðal og einkum um það að nógu veigamiklar málefnalegar og hlutlægar ástæður og eðlisrök réttlæti þá mismunun sem felist í ákvæðum laga nr. 91/1987 og 138/1993, sbr. Hrd. 1978 bls. 782-785.

Útreikningur stefnukröfu sé þannig:

Höfuðstólskrafa stefnanda, sóknargjöld til Ásatrúarfélagsins 2002,

samtals 3.605.175 krónur

Kirkjumálasjóður 11,3% álag á sóknargjöld                              407.384 krónur

Jöfnunarsjóður sókna 18,5%                                                      666.957     

Samtals 29,8%                                                                    1.074.342 krónur                         

Reiknað sé út frá tölulegum upplýsingum í fjárlögum fyrir árið 2002 og upplýsingum féhirðis stefnanda úr bókhaldi félagsins. Sóknargjöld 2002 hafi verið 3.634.044 krónur, en í  kröfubréfi hafi verið miðað við 3.605.175 krónur. Mismunurinn sé óskýrður en látið sitja við reikning út frá lægri tölunni og að krefja um gjöld ársins 2002 í trausti þess að greiðslur vegna síðari tíma greiðist í samræmi við dóms­niðurstöðu. Látið er sitja við að krefjast greiðslu fyrir eitt ár til að einfalda málið í því augnamiði að málið flækist ekki í formi en fái efnisúrlausn. Að dómi gengn­um vonist stefnandi til að tregðu stefndu á að taka á jafnréttismálum trúfélaga verði lokið og að komið verði á skipan sem allir megi vel við una.      

Varakrafa stefnanda sé viðurkenningarkrafa, en hún sé sett fram til öryggis ef aðalkrafan um aðfararhæfan dóm verður talin háð annmörkum sem varði frávísun eða ef svo verður litið á að ekki sé á færi dómsins að fylla lög eins og gert sé ráð fyrir í aðalmálsástæðu. 

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er vísað til þess að hin evangeliska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda eins og segi í 62. gr. stjórnarskrárinnar. Stjórnarskráin mæli þannig fyrir um að hin evangelíska lúterska kirkja njóti sérstöðu en þjóðkirkjunni sé gert hærra undir höfði í stjórnar­skránni en öllum öðrum kirkjudeildum, trúfélögum og söfnuðum, hverju nafni sem nefnist og skuli hún njóta stuðnings og verndar umfram önnur trúfélög í landinu. Þetta sé grundvallaratriði í málinu. Stefnda sé ekki aðeins heimilt, heldur og skylt, að veita þjóðkirkjunni stuðning og vernd. Sá stuðningur og vernd hljóti að vera annar og meiri en önnur trúfélög njóti. Að öðrum kosti væri ákvæðið marklaust.

Í 62. gr. stjórnarskrárinnar séu ekki fyrirmæli um það til almenna löggjafans og stefnda hvernig stuðningi og vernd skuli háttað sem þjóðkirkjan skuli njóta. Því verði að telja að hinum almenna löggjafa sé eftirlátið að ákveða hvernig þessu skuli háttað. Í því felist að löggjafinn hafi heimildir til þess að tryggja þjóðkirkjunni annan og traustari fjárhagsgrundvöll en öðrum trúfélögum. Hinn almenni löggjafi sé ekki bundinn af neinu við ákvarðanir sínar um það hvernig umræddum stuðningi og vernd skuli háttað. Hann sé þó að þessu leyti háður öllum öðrum ákvæðum stjórnarskrár og geti ekki ákveðið neitt sem gangi gegn þeim. Þannig séu það einungis önnur ákvæði stjórnarskrár sem afmarki það á hvern hátt stefnda beri að styðja og vernda þjóðkirkjuna. Stefndi sé einnig bundinn af ákvæðum alþjóðlegra sáttmála, svo sem mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar sé þó aðeins um að ræða almenn lög. Almenn lög, þó um mikilsverða hluti séu, svo sem mannréttinda­sáttmála Evrópu, þoki ekki ákvæðum stjórnarskrár, þó svo ríkisvaldið sé bundið af ákvæðum sáttmálans að þjóðarétti og gagnvart þegnum sínum samkvæmt ákvæðum laganna. Almenn lög beri að skýra með hliðsjón af ákvæðum stjórnarskrár en ekki öfugt. Ákvæði stjórnarskrár víki ekki, enda séu þau sú réttarheimild sem þyngst vegi. Mann­rétt­indaákvæði mannréttindasáttmálans hafi ekki stöðu milli almennra laga og stjórn­ar­­skrár, eins og stefnandi haldi fram. 

Þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem einkum komi til skoðunar varðandi takmark­anir á því í hverju stuðningur stefnda við þjóðkirkjuna geti verið fólginn, með hliðsjón af því máli sem hér sé til umfjöllunar, séu ákvæði 63., 64. og 65. gr., en til þeirra sé sérstaklega vitnað í stefnu.

Samkvæmt 63. gr. stjórnarskrár eigi menn rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu sína. Í ákvæðinu sé mönnum tryggður rétturinn til að stofna trúfélög í samræmi við trú og sannfæringu hvers og eins, með fyrirvara um gott siðferði og allsherjarreglu. Sá réttur verði ekki af mönnum tekinn með almennum lögum. Þarna sé eitt þeirra atriða sem setji hinum almenna löggjafa skorður við stuðn­ingi sínum við þjóðkirkjuna. Hinn almenni löggjafi geti því ekki sett mönnum skorður við að stofna önnur trúfélög og iðka trú sína á þann hátt sem sannfæring þeirra standi til. Það haggi þó ekki ákvæðum 62. gr. stjórnarskrárinnar um sérstöðu þjóð­kirkj­unnar. 

Önnur stjórnarskrárákvæði sem reisi skorður við því hvernig hinn almenni lög­gjafi geti stutt og verndað þjóðkirkjuna séu í 1. og 2. mgr. 64. gr. Samkvæmt þeim mætti umræddur stuðningur ekki vera fólginn í því að gera meðlimum hennar hærra undir höfði varðandi borgaraleg réttindi. Ekki mætti heldur skylda þegna landsins til að vera í þjóðkirkjunni, en samkvæmt greininni sé mönnum frjálst að standa utan trúfélaga. Ekki mætti heldur skylda þegnana til að inna af hendi persónuleg gjöld til þjóðkirkjunnar ef þeir sömu ættu ekki aðild að henni. Ákvæði 62. gr. stjórnarskrár um þjóðkirkjuna séu þó óhögguð af þessu. 

Þá séu í 65. gr. stjórnarskrárinnar reistar skorður við því hvernig stuðningi geti verið háttað, en hann megi ekki vera þannig að þegnarnir séu ekki jafnir fyrir lögum og megi ekki fela það í sér að þegnarnir njóti ekki mannréttinda, m.a. vegna trúarbragða. Stuðningurinn við þjóðkirkjuna megi þannig ekki fela það í sér að þegnarnir séu ekki jafnir fyrir lögunum. Ekki megi skerða það að allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda, m.a. án tillits til trúarbragða.

Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar sem fram komi í 65. gr. hennar sé ekki eyland.  Hana verði að skoða í ljósi annarra ákvæða stjórnarskrárinnar, þ.á m. í ljósi ákvæða 62. gr. hennar. Ákvæði 65. gr. ryðji ekki burt skýrum ákvæðum 62. gr. um sérstaka stöðu þjóðkirkjunnar. Sérstaða þjóðkirkjunnar í lögum, sem byggi á ákvæðum 62. gr. stjórnarskrárinnar um vernd og stuðning við hana, sé þannig greinilega ekki brot á 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti þegnanna gagnvart lögum. Stefndi telji að stefnandi oftúlki 65. gr. stjórnarskrár og að hún leiði ekki til þeirrar niðurstöðu að ekki megi gera þjóðkirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúfélögum. Stefndi telji jafnframt að 65. gr. stjórnarskrárinnar vísi til fólks en ekki félaga og að ekki megi leggja að jöfnu trúfélag og það fólk sem í því er.

Staða þjóðkirkjunnar komi fram í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóð­kirkj­unnar nr. 78/1997. Lögin byggi á samkomulagi stefnda og kirkjunnar frá 1997, en þar sé kveðið á um að allar kirkjujarðir og kirkjueignir þeim fylgjandi, að frátöldum prestsetrum, skuli vera eign stefnda. Á móti þessu hafi stefndi skuldbundið sig til að greiða laun presta og starfsmanna biskups eins og nánar sé til fært í samkomulaginu.  Aðilar samningsins, þ.e. stefndi og þjóðkirkjan, hafi komið sér saman um að líta svo á að með þessu væri fulluppgert vegna verðmæta sem stefndi hafi tekið við árið 1907.  Áður hafi verið litið svo á að launagreiðslur stefnda vegna presta jafngiltu vaxta­greiðslum af kirkjueignum.

Þess sjáist sumsstaðar merki í lögum að sérstakt tillit sé tekið til þjóð­kirkj­unnar. Stefndi haldi uppi kennslu í guðfræði við Háskóla Íslands, sérstök lög séu til um samstarfsnefnd Alþingis og þjóðkirkjunnar nr. 12/1982 og í lögum nr. 21/1981 um kirkjubyggingasjóð hafi verið kveðið á um fjárveitingar til kirkjubygginga fyrir þjóð­kirkjusöfnuði. Það sé þó ekki algilt að þjóðkirkjan njóti sérstöðu í löggjöf. Í dæmaskyni megi nefna lög um sóknargjöld o.fl. nr. 91/1987, en þar komi fram að þjóð­kirkju­söfnuðir, skráð trúfélög og Háskólasjóður, vegna þeirra sem eru utan trúfélaga, eigi hlutdeild í tekjuskatti og fái mánaðarlegar greiðslur sóknargjalds fyrir skráða meðlimi sína.  Ekki sé þar gert upp á milli trúfélaga að þessu leyti.

Stefnandi fallist á í stefnu að hið opinbera geti haft af því réttmæta hagsmuni að halda sig að þeim trúarhópi sem stærstur sé og endurspegli trúarskoðanir flestra í samfélaginu. Stefnandi véfengi ekki skyldur ríkisvaldsins samkvæmt 62. gr. stjórnar­skrárinnar til að styðja sérstaklega við þjóðkirkjuna og viðurkennir að markmið laga nr. 138/1993 og laga nr. 91/1987 um kirkjumálasjóð og sóknargjöld séu réttmæt í því samhengi. Stefnandi telji að úrræði laganna fari í bága við meðalhófsreglu þar sem hægt sé að ná hinu lögmæta markmiði á annan hátt. Þetta sé hins vegar alfarið órök­stutt hjá stefnanda og því haldlaust. Hugmyndir og hugleiðingar stefnanda, um að eina leiðin til að virða bæði jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár og reglu 62. gr. um sérstakan stuðning við þjóðkirkjuna sé sú að veita þjóðkirkjunni og öðrum trúfélögum sömu framlög, séu í mótsögn við sjálfar sig og ótækar sem röksemdafærsla. Að auki sé það ekki í samræmi við 62. gr. stjórnarskrárinnar að veita þjóðkirkjunni sama stuðning og stefnanda.

Stefnda séu veittar til þess heimildir í lögum að greiða stefnanda ákveðin fjár­framlög. Stefnda sé ekki heimilt að greiða frekari framlög en það, en ekkert gjald megi greiða úr ríkissjóði nema til þess sé heimild í fjárlögum eða fjáraukalögum, sbr. 41. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi geti því alls ekki greitt stefnanda það gjald sem hann fari fram á og honum sé það óheimilt. 

Stefndi mótmæli skilningi stefnanda á 2. gr. laga um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994, enda fullyrðingar stefnanda um þetta órökstuddar. Ákvæðið sé ekki unnt að skilja á annan hátt en þann sem það sé fram sett. Á Íslandi væru tvö dómstig, héraðsdómur og Hæstiréttur, en Mannréttindadómstóll Evrópu sé ekki hluti af dóm­stóla­kerfi landsins og úrlausnir hans því ekki bindandi að íslenskum rétti. Eðlilegt sé þó að líta til úrlausna hans við skýringu ákvæða mannréttindasáttmálans, en hér gildi íslensk lög og dómafordæmi.

Aðrir alþjóðasamningar um mannréttindi, svo sem alþjóðasamningur Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 1966 hafi ekki lagagildi hér­lendis, hvað þá gildi stjórnskipunarlaga, og geti ekki rutt til hliðar ákvæðum stjórnar­skrárinnar. Stefndi mótmæli því að íslensk lög og lagaframkvæmd að þessu leyti sé andstæð slíkum samningum. Tilvitnunum stefnanda til dóma Mannréttinda­dómstóls Evrópu sé mótmælt, en ekki sé um að ræða tilvik sambærileg því sem hér liggi fyrir, t.d. sé dómur frá 16. desember 1997 í máli Kaþólsku kirkjunnar í Kanía á Krít ekki tækur hér til samanburðar, en málið hafi fjallað um aðildarhæfi.

Stefnandi byggi á því að þjóðkirkjan og stefnandi hafi með höndum sambærilega þjónustu, en því mótmæli stefndi og öllum samjöfnuði þjóðkirkjunnar og stefnanda. Hlutverk þjóðkirkjunnar sé annað og meira en hlutverk stefnda í samfélaginu. Um þjóðkirkjuna gildi sérstök lög og sé þar rækilega gerð grein fyrir hlutverki og fjölmörgum verkefnum og skyldum hennar sem og einstakra stofnana hennar og starfs­manna. Engu slíku sé til að dreifa um starfsemi stefnanda, en þó verði helst að líta til laga um skráð trúfélög nr. 108/1999. Þó sé ólíku saman að jafna. Stefnandi nefni til ýmis verkefni, sem hann hafi með höndum, svo sem hughreystingu sjúkra, samtal milli hjóna, fræðslu um heiðinn sið og ýmislegt fleira, t.d. námskeiðahald um stemmur og kveðandi. Á verkefnum stefnanda og þjóðkirkjunnar sé sá mikli munur að verkefni þjóðkirkjunnar séu lögbundin og hún geti ekki dregið úr þeim að vild, en um það hafi stefnandi mun meira val. Verkefni þjóðkirkjunnar og stefnanda séu því mjög ólík, en stefnandi hafi um það val að sníða sér stakk eftir vexti. Verkefni og hlutverk stefnanda séu aðeins sprottin frá honum sjálfum.

Stefndi vísi til þess að þjóðkirkjan hafi ríkulegu samfélagslegu hlutverki að gegna, ekki síður en trúarlegu. Þjóðkirkjan sé ein af helstu og elstu stofnunum samfél­agsins og eigi ríkan þátt í lífi flestra landsmanna á ýmsa vegu. Þjóðkirkjan sé langstærsti og mikilvægasti vettvangur trúarlegs lífs í landinu. Eðli og staða þjóð­kirkj­unnar sé því á margan veg öðruvísi en stefnanda, sem sé lítið trúfélag án verulegrar þýðingar fyrir aðra en eigin meðlimi. Verði að telja að samfélagslegt gildi þjóð­kirkjunnar sé svo mikið að önnur trúfélög, þ.á m. stefnandi, hljóti að standa í skugga hennar að því leyti. 

Stefnandi telji engin lýðræðisleg rök standa til þess að „mismuna“ sér í saman­burði við þjóðkirkjuna. Sérstaða þjóðkirkjunnar sé bundin í stjórnarskrá og helgist af sérstöku hlutverki hennar sem hún hafi umfram önnur trúfélög, sem og af sérstakri stöðu hennar með þjóðinni og í vitund hennar. Með því sé ekki gengið á svig við lýðræðisleg gildi og fjölhyggju sýnd óvirðing eins og stefnandi telji. Ekki verði horft fram hjá því að þjóðkirkjan sé langfjölmennasta trúfélag landsins.

Þjóðkirkjuskipanin hefti ekki trúfrelsi og gangi ekki gegn jafnrétti. Aðeins menn hafi trúfrelsi, en ekki félög. Trúfrelsi manna í landinu sé ekki heft með því fyrir­komulagi sem málssókn stefnanda beinist að, en eftir sem áður hafi menn frjálst val um átrúnað sinn og trúfélag. Jafnrétti sé heldur ekki skert með umræddu fyrirkomu­lagi, en jafnrétti sé tryggt með stjórnarskrárákvæði og með jafnréttháu stjórnarskrár­ákvæði sé þjóðkirkjunni gert hærra undir höfði en öðrum trúfélögum. Stefndi fallist ekki á að gegn ótvíræðu ákvæði 62. gr. stjórnarskrárinnar beri að styðja „önnur lífsskoðunarfélög“ til jafns við þjóðkirkjuna. 

Stefnandi telji það brot gegn 2. ml. 2. mgr. 64. gr. stjórnarskrárinnar að hluti innheimts tekjuskatts landsmanna skuli vera notaður til að greiða lögbundin gjöld til þjóðkirkjunnar. Stefndi mótmæli þessu. Ekki sé um það að ræða að fólk sé látið greiða gjöld persónulega til þjóðkirkjunnar. Hluti af skatttekjum stefnda fari til að greiða lögbundin framlög til þjóðkirkjunnar og þó að tekjuskatturinn komi frá einstaklingum að hluta til þá séu það ekki persónuleg gjöld í skilningi umrædds ákvæðis.

Stefndi mótmæli öllum málsástæðum stefnanda sem byggi á sjónarmiðum um trú­frelsi. Umrædd gjöld sem renni til þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum hafi ekkert með trúfrelsi að gera. Trúfrelsi landsmanna birtist einmitt í tilvist stefnanda sem starfi samkvæmt lögum um skráð trúfélög og njóti réttinda og skyldna sem slíkt, án tillits til tilvistar þjóðkirkjunnar. Sama megi segja um jafnræðisreglu. Stefnandi og önnur trúfélög standi jafnfætis og njóti jafnræðis hvert gagnvart öðru, en engu breyti í því sambandi að þjóðkirkjan skuli njóta sérstöðu samkvæmt stjórnarskrá. Enn síður sé jafnræði manna og réttindum samkvæmt 65. gr. stjórnarskrár haggað með tilvist þjóð­kirkjunnar og þeirri stöðu sem hún hafi.

Þegnunum sé ekki mismunað þó að stefndi fari eftir ákvæðum stjórnarskrárinnar um sérstakan stuðning og vernd við þjóðkirkjuna. Sá stuðningur og vernd beinist að trú­félögum sem slíkum en ekki meðlimum þeirra. Landsmönnum sé hvergi í stjórnar­skrá né almennum lögum gert mishátt undir höfði eftir trúarbrögðum og hafi stefnandi ekki bent á dæmi slíks.

Vegna fullyrðinga stefnanda um réttarþróun í Danmörku vísi stefndi til dóms Vestri landsréttar frá 8. febrúar 2006 þar sem kirkjumálaráðuneyti þar í landi hafi verið sýknað af kröfum sem hafi byggt á ætlaðri mismunun.

Stefnandi vísi til þess að Jöfnunarsjóði sókna sé ætlað að jafna mismun milli sókna sem séu mjög misfjölmennar og mismunandi að öðru leyti. Stefnandi segi að til standi hjá honum að stofna 36 goðorð sem líkt verði ástatt um og því beri sér framlag úr Jöfnunarsjóði líkt og þjóðkirkjunni. Stefndi mótmæli þessu. Samkvæmt lögum nr. 91/1987 njóti aðeins þjóðkirkjusöfnuðir framlaga úr sjóðinum og sé þegar af þeirri ástæðu óheimilt að greiða stefnda úr honum. Þess utan verði dómur ekki byggður á einhverju sem kunni að verða síðar, líkt og gildi um sagðar fyrirætlanir stefnanda um að stofna 36 goðorð sem ekki verði byggt á.

Í stefnu komi fram að kröfur séu að hluta til byggðar á því að stefnda beri að framfylgja lögum um kirkjumálasjóð og Jöfnunarsjóð samkvæmt jafnræðisreglu stjórn­­ar­­skrár. Stefndi geti ekki framfylgt lögunum öðruvísi en þau séu. Hin tilvitnuðu lög mæli fyrir um ákveðnar greiðslu til þjóðkirkjunnar og stefndi geti ekki hagað greiðslum á annan hátt. Ekki megi greiða gjald úr stefnda án heimildar. 

Þá segi í stefnu að einnig sé byggt á almennum bótareglum íslensks réttar um bótaábyrgð hins opinbera. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á neina sök hjá nokkrum starfsmanna stefnda. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á ólögmæta athöfn eða athafnaleysi hjá starfsmönnum stefnda, en þeir hafi ekki gert annað en að fara eftir lögum frá Alþingi og Forseta Íslands. Hvorki hafi verið sýnt fram á sök né ólögmæta háttsemi hjá starfsmönnum stefnda.

Til stuðnings kröfu um málskostnað vísi stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Eins og fram hefur komið er hin evangeliska lúterska kirkja þjóðkirkja hér á landi og er óumdeilt í málinu að stefnda beri að því leyti að styðja hana og vernda samkvæmt 1. mgr. 62. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 3. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997 ber stefnda að greiða þjóðkirkjunni árlegt framlag, sem miðast við að það nægi til reksturs hennar ásamt öðrum tekjustofnum hennar, lögbundnum sem ólögbundnum.

Í 1. gr. laga um kirkjumálasjóð nr. 138/1993 segir að stofna skuli sjóð er nefnist kirkjumála­sjóður, en samkvæmt 2. gr. laganna ber stefnda að skila sjóðnum ákveðnu gjaldi eins og þar er lýst. Kirkjumálasjóður stendur straum af kostnaði við kirkjuþing, kirkjuráð og prestastefnu, fjölskylduþjónustu kirkjunnar, söngmálastjórn og tónlistar­fræðslu á vegum þjóðkirkjunnar og fleira eins og fram kemur í 4. gr. laganna auk fram­­­lags sem sjóðnum ber að greiða í prests­setra­sjóð samkvæmt 3. gr. Í athuga­semdum sem fylgdu frumvarpi til þessara laga segir að því sé ætlað að færa stjórn­sýslu á sviði kirkjumála frá stefnda til þjóðkirkjunnar auk þess að koma í varanlegt horf bráða­birgða­skipan mála varðandi kostnað stefnda við ákveðin verkefni á sviði kirkjumála, sbr. 2. gr. þágildandi laga nr. 115/1992. Þarna er meðal annars um lög­bundin verk­efni að ræða, sbr. 4. lið III. kafla laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóð­kirkj­unnar þar sem fjallað er um kirkjuþing, sbr. og 5. og 6. liðir í sama kafla um kirkjuráð og prestastefnu. Stefnandi fer ekki með sam­bæri­leg lögbundin verkefni og hér er um að ræða þar sem kirkjumálasjóði er ætlað að standa straum af kostnaði. Verður af þeim sökum ekki fallist á þau rök stefnanda að með þessu fyrirkomulagi, sem mælt er fyrir um í 2. gr. laga um kirkjumálasjóð, felist mismunun, þannig að í bága fari við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnar­skrárinnar eða aðrar reglur sem stefnandi vísar til.

Öðru máli gegnir hins vegar að nokkru leyti um gjald sem stefndi greiðir í Jöfnunarsjóð sókna samkvæmt 5. gr. laga um sóknar­gjöld o.fl. nr. 91/1987. Þar er um að ræða aukagjald til viðbótar þeirri fjárhæð sem stefnda ber að greiða til þjóðkirkju­safnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands samkvæmt 2. gr. laganna eftir nánari reglum sem koma fram í I. kafla þeirra. Í 6. gr. laganna er kveðið á um hlutverk Jöfnunarsjóðs, sem er að veita styrki til þeirra kirkna sem hafa sérstöðu umfram aðrar sóknarkirkjur, leitast við að jafna aðstöðu og styrkja sóknir þar sem lögmæltar tekjur samkvæmt 2. gr. laganna nægja ekki fyrir nauðsynlegum útgjöldum, auðvelda stofnun sókna í nýjum byggðarhverfum og styrkja kirkjulega félags- og menningar­starfsemi. Má af því sem þarna kemur fram ráða að gert er upp á milli sókna sem fá styrki úr Jöfnunarsjóði sókna annars vegar og skráðra trúfélaga samkvæmt lögum um trúfélög nr. 108/1999 hins vegar sem ekki fá sambærileg fjárframlög. Í lagaákvæðinu sem stefnandi vísar til felst því á vissan hátt mismunun, sem ekki hefur verið sýnt fram á að byggist á málefnalegum forsendum, en af hálfu stefnanda er því haldið fram að þetta fari í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnar­skrárinnar. Verður ekki talið að skipti máli í þessu sambandi þótt ekki sé sérstaklega tekið fram að reglan í þessu stjórnarskrárákvæði gildi jafnt um félög sem einstaklinga, enda verður að líta svo á að stefnandi geti átt aðild að þeim réttindum sem deilt er um í málinu. Að þessu virtu verður þó að leysa fyrst úr því grundvallaratriði í málinu hvort dómurinn geti beitt réttarheimildum á þann hátt sem stefnandi heldur fram og komist þannig að því að stefnda beri að greiða stefnanda sambæri­legt gjald og það sem lögboðið er að greiða í Jöfnunar­sjóð sókna samkvæmt 5. gr. laga um sóknargjöld o.fl. eins og í kröfugerð stefnanda felst.

Stefnandi hefur í málatilbúnaði sínum reynt að sýna fram á að dómurinn geti kveðið á um skyldu stefnda til að greiða stefnanda umrædda fjárhæð. Á þetta getur dómurinn ekki fallist þrátt fyrir að stefnandi hafi sýnt nægilega fram á að með lagaákvæðinu um skyldu stefnda til að greiða í Jöfnunarsjóðinn felist ákveðin mis­munun eins og að framan er rakið. Hér verður að líta til þess að kröfugerð stefn­anda felur í sér að dómurinn kveði á um skyldu stefnda til að greiða stefnanda gjald sem ekki hefur verið ákveðið með lögum. Með því að fallast á slíka kröfu væri búin til regla um greiðsluskyldu stefnda sem engin heimild er fyrir í settum lögum en ætti þó ótvírætt að vera í höndum löggjafarvaldsins að ákveða. Lögskýringar sem stefnandi vísar til, þar með taldar skýringar á dómum Mannréttinda­dómstóls Evrópu og alþjóð­legum samningum, fá þessu ekki breytt, enda eiga þær ekki við um þetta atriði eða hafa ekki þýðingu þar sem úrlausnarefnin þar eru ekki sambærileg þeim sem hér um ræðir.

Verði fallist á að dómurinn hafi heimild til að kveða á um skyldu stefnda til að veita stefnanda umkrafin fjárframlög án heimildar til þess í lögum væri brotið gegn grunn­reglum stjórnskipan­innar um þrí­gre­iningu ríkis­valdsins samkvæmt 2. gr. stjórn­ar­skrárinnar og hefðbund­inni hlutverka­skiptingu milli hinna þriggja þátta þess. Dómurinn færi þar með út fyrir þau valdmörk sem honum eru þannig sett og er honum þar með óheimilt að taka kröfuna til greina. Nægir stefnanda því ekki í þessu sam­bandi að vísa til þess að með umræddu lagaákvæði hafi verið brotið gegn jafnræðis­reglu 65. gr. stjórnarskárinnar og öðrum ákvæðum hennar um trúfrelsi þar sem það útaf fyrir sig veitir dóminum ekki þær heimildir sem hér skortir samkvæmt framan­greindu. Þá verður heldur ekki fallist á að ólögmætt hafi verið af hálfu stefnda að greiða stefnanda ekki umrædda fjárhæð samkvæmt 5. gr. laga um sóknargjöld o.fl. Með vísan til þeirrar undirstöðureglu íslenskrar stjórn­skipunar að stjórnvöld skuli bundin af lögum í ákvörðunum sínum, verður að fallast á þau rök stefnda að honum hafi verið óheimilt að greiða stefnanda umrædda fjárhæð. Stefnandi hefur þar með ekki orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar háttsemi stefnda. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að skilyrði bótaskyldu stefnda séu fyrir hendi. Af þessum sökum verður aðalkrafa stefnanda í málinu ekki tekin til greina.

Varakrafa stefnanda er studd þeim rökum að hún sé sett fram til öryggis ef aðalkrafan um aðfararhæfan dóm verði talin háð annmörkum sem varði frávísun eða ef svo verði litið á að ekki sé á færi dómsins að fylla lög eins og gert sé ráð fyrir í aðalmálsástæðu. Um varakröfu stefnanda gildir hið sama og um aðalkröfuna, en í varakröfunni felst krafa um viðurkenn­ingu á greiðsluskyldu stefnda gagnvart stefnanda á sama hátt og stefnandi telur að eigi við um aðalkröfuna. Með sömu rökum og að framan greinir um aðalkröfu fellur það utan valdsviðs dómsins að kveða á um greiðsluskyldu stefnda án þess að viðeigandi lagaheimildir séu fyrir því, eins og stefnandi krefst með varakröfunni. Verður því ekki fallist á að dómurinn geti tekið varakröfu stefnanda til greina.

Samkvæmt þessu ber þegar af framangreindum ástæðum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.

Rétt þykir með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála að málskostnaður falli niður.

Dóminn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð:

   Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Ásatrúarfélagsins, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.