Print

Mál nr. 467/2015

Lykilorð
  • Félagafrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Stéttarfélag
  • Opinberir starfsmenn
  • Verkfall
  • Meðalhóf

                                     

Fimmtudaginn 13. ágúst 2015.

Nr. 467/2015.

Bandalag háskólamanna

(Ástráður Haraldsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Félagafrelsi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Stéttarfélag. Opinberir starfsmenn. Verkfall. Meðalhólf.

B krafðist þess í máli gegn Í að viðurkennt yrði að átján stéttarfélögum innan raða þess væri, þrátt fyrir ákvæði 1., 2. og 3. gr. laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, heimilt að efna til verkfalls og að kjör félagsmanna þessara félaga yrðu ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt sömu lögum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að starfsemi, sem haldið hefði verið uppi á heilbrigðisstofnunum í skjóli undanþága frá verkfallsaðgerðum félaganna, hefði ekki nægt til að girða fyrir alvarlega ógn við almannaheill og réttindi alls almennings til að fá aðstoð vegna sjúkleika, sem Í bæri að tryggja samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Hefðu því verið uppfyllt þau skilyrði, sem 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar fæli í sér, fyrir því að settar yrðu í lögum takmarkanir á verkfallsrétt félagsmanna í aðildarfélögum B. Mætti líta svo á að fullreynt hefði verið að ljúka kjaradeilu aðila með samningum þegar umræddar takmarkanir voru settar. Í hefði því mátt líta svo á að nauðsynlegt væri að grípa til lagasetningar til að ljúka henni enda yrði ekki séð að önnur úrræði hefðu staðið til boða. Um þá stöðu, að lög nr. 31/2015 hafi ekki aðeins tekið til félaga sem stóðu að verkfalli heldur einnig annarra aðildarfélaga B, var vísað til þess að félögin hefðu kosið að neyta réttar samkvæmt lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna til að standa sameiginlega að kröfum gagnvart Í og samningaviðræðum við það auk þess hafa skuldbundið sig innbyrðis til að gera ekki kjarasamning við Í án samráðs við hin. Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar bæri Í að virða sjálfsákvörðunarrétt stéttarfélaga í þeim efnum. Þá var talið ljóst af gögnum málsins að aðildarfélög B hefðu kosið að standa sameiginlega að ýmsum aðgerðum til að knýja á um lausn kjaradeilunnar, meðal annars með samráði um beitingu verkfallsréttar. Hefði löggjöf, sem aðeins hefði náð til félagsmanna í aðildarfélögum B sem áttu í verkfalli við gildistöku hennar, því ekki girt fyrir að önnur félög hefðu þess í stað efnt til sams konar aðgerða í þágu heildarinnar. Yrði einnig að líta til þess að í umræddum lögum hefði ekki eingöngu verið lagt bann við verkföllum félaganna, heldur einnig kveðið á um sérstaka skipan sem kæmi í stað kjarasamnings við þau. Hefði því eitt verið látið ganga yfir félögin öll. Með vísan til þess var ekki talið unnt að líta svo á að gengið hefði verið lengra en réttmætt var við setningu laga nr. 31/2015 og brotið með því gegn grunnreglu íslenskrar stjórnskipunar um meðalhóf. Að þessu virtu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna Í af kröfu B.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2015. Hann krefst þess að viðurkennt verði að átján stéttarfélögum innan raða sinna, Dýralæknafélagi Íslands, Félagi geislafræðinga, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félagi íslenskra félagsvísindamanna, Félagi íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélagi Sinfóníuhljómsveitar Íslands), Leikarafélagi Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Félagi lífeindafræðinga, Félagi sjúkraþjálfara, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Fræðagarði, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Ljósmæðrafélagi Íslands, Sálfræðingafélagi Íslands, Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélagi háskólamanna á mat­væla- og næringarsviði, Stéttarfélagi lögfræðinga og Þroskaþjálfafélagi Íslands, sé þrátt fyrir ákvæði 1., 2. og 3. gr. laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga heimilt að efna til verkfalls í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Enn fremur að kjör félagsmanna þessara félaga verði ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt lögum nr. 31/2015. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Samkvæmt gögnum málsins er áfrýjandi bandalag stéttarfélaga, sem hefur innan vébanda sinna 28 aðildarfélög og hefur meðal annars komið að gerð kjarasamninga þeirra við stefnda. Óumdeilt er að í desember 2014 hafi farið í hönd viðræður milli einstakra þessara félaga og stefnda um gerð nýs kjarasamnings, en 18. febrúar 2015 hafi síðan byrjað sameiginlegar kjaraviðræður félaganna, sem getið var að framan í dómkröfum áfrýjanda, við stefnda eftir að þau hafi veitt áfrýjanda umboð til að koma þar fram fyrir sína hönd og tilnefnt ýmist einn eða tvo fulltrúa í samninganefnd hans. Áður en þær viðræður hófust hafði fjármála- og efnahagsráðherra gefið út 16. janúar 2015 auglýsingu nr. 70/2015 um skrá yfir þau störf hjá stofnunum ríkisins sem eru undanþegin verkfallsheimild. Sú skrá var gerð á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 og hafði að geyma talningu á störfum, sem falli undir ákvæði 5. til 8. töluliðar 1. mgr. sömu lagagreinar, en meðal slíkra starfa eru þau, sem snúa að nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Í skránni var að finna fjölmörg störf, sem gegnt var af mönnum innan aðildarfélaga áfrýjanda.

Kjarasamningar, sem giltu meðal annars fyrir félögin átján, munu hafa orðið lausir 28. febrúar 2015. Kjaraviðræður við stefnda báru ekki árangur og efndu félögin, að virðist að frátöldu Leikarafélagi Íslands, til atkvæðagreiðslna dagana 16. til 19. mars sama ár um hvort boða ætti til verkfalla, sem var samþykkt. Í framhaldi af því mun stefndi hafa vísað þessum kjaradeilum 26. mars 2015 til ríkissáttasemjara, sem hélt þann fyrsta af 24 árangurslausum sáttafundum 30. sama mánaðar.

Á grundvelli fyrrnefndra atkvæðagreiðslna hófust 7. apríl 2015 ótímabundin verkföll Félags geislafræðinga, Félags lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélags Íslands og Félags íslenska náttúrufræðinga á Landspítala, svo og Stéttarfélags lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Þá lögðu félagsmenn í tólf öðrum félögum niður störf á öllum vinnustöðum tímabundið 9. apríl 2015, auk þess sem Ljósmæðrafélag Íslands hóf þann dag ótímabundið verkfall á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Ótímabundið verkfall félagsmanna í Dýralæknafélagi Íslands, svo og félagsmanna í Félagi íslenskra náttúrufræðinga og Stéttarfélagi háskólamanna á matvæla- og næringarsviði hjá Matvælastofnun, hófst síðan 20. apríl 2015 og loks verkfall Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins 2. júní sama ár. Auk þessara félaga mun Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem ekki á aðild að máli þessu, hafa efnt til ótímabundins verkfalls frá 27. maí 2015. Ótímabundnu verkföllin, sem hér um ræðir, munu hafa staðið yfir óslitið þar til lög nr. 31/2015 tóku gildi eins og síðar greinir.

Á framangreindu tímabili stóðu yfir kjaraviðræður fjölda annarra stéttarfélaga við vinnuveitendur og var þeim að hluta lokið 29. maí 2015 með kjarasamningum Samtaka atvinnulífsins við Landssamband íslenskra verslunarmanna, VR, Starfsgreinasamband Íslands, Eflingu, Hlíf, Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og Stéttarfélag Vesturlands. Stefndi kveður þá samninga, sem eiga að gilda til ársloka 2018, ná til um 70.000 manna í þessum félögum og fela í sér 17 til 20% launahækkun á samningstímanum, en í tengslum við þá sendi ríkisstjórnin sama dag frá sér yfirlýsingu í ellefu liðum „til að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði“. Í samningum þessum er að finna sams konar ákvæði um forsendur þeirra, þar á meðal að launastefna samkvæmt þeim „verði stefnumarkandi fyrir aðra kjarasamningagerð“, en bresti sú forsenda sé heimilt að segja samningunum upp með tilteknum aðdraganda. Stefndi kveður Samtök atvinnulífsins jafnframt hafa lokið hliðstæðum kjarasamningum 22. júní 2015 við sex félög iðnaðarmanna.

Óumdeilt er að ekkert hafi þokast í átt til samkomulags í kjaraviðræðum málsaðila, en stefndi segir fjármála- og efnahagsráðherra hafa átt fund 1. júní 2015 með fulltrúum áfrýjanda og hafi þar orðið ljóst að „hverfandi líkur voru á lausn.“ Ríkisstjórnin hafi lagt til 5. júní 2015 að skipuð yrði sáttanefnd í deilunni samkvæmt 5. mgr. 20. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, en eftir samráð við áfrýjanda og ríkissáttasemjara hafi verið horfið frá því 8. sama mánaðar sökum þess að ljóst hafi verið að sú leið yrði ekki til lausnar. Þá lýsir stefndi því í málatilbúnaði sínum að fram hafi komið á sáttafundi hjá ríkissáttasemjara 10. júní 2015 að áfrýjandi hafi ekki verið „til viðræðu um annað en að samið yrði um miklar launahækkanir til tveggja ára sem voru langt umfram það sem samningar annarra innibáru ... þvert gegn þeim forsenduákvæðum sem er að finna í samningum á hinum almenna vinnumarkaði“. Til að ljúka þessari vinnudeilu hafi ríkisstjórnin því ákveðið á fundi 11. júní 2015 að lagt yrði fram á Alþingi frumvarp til laga um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem samþykkt var 13. sama mánaðar, en í framhaldi af því voru gefin út fyrrnefnd lög nr. 31/2015.

Með 1. gr. laganna er lagt bann við verkfallsaðgerðum þeirra átján aðildarfélaga áfrýjanda, sem greinir í dómkröfum hans, svo og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, og öðrum aðgerðum, sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en mælt er fyrir um í lögunum. Banni þessu er ætlað að standa frá gildistöku laganna og svo lengi sem ákvörðun gerðardóms samkvæmt 2. gr. þeirra gildir, en í 3. mgr. 1. gr. er tekið fram að heimilt sé að semja um breytingar frá þeirri skipan, sem lögin mæli fyrir um. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laganna skyldi Hæstiréttur tilnefna þrjá menn í gerðardóm ef kjarasamningur hefði ekki verið undirritaður fyrir 1. júlí 2015 milli stefnda og þeirra félaga, sem getið var í 1. gr., en gerðardómi þessum ber fyrir 15. ágúst sama ár að ákveða laun og önnur starfskjör félagsmanna í þeim. Ákvörðunum gerðardómsins er ætlað að verða bindandi sem kjarasamningur frá gildistöku laganna og til þess tíma sem gerðardómurinn ákveður. Í 2. gr. laganna er að öðru leyti mælt fyrir um forsæti í gerðardóminum, málsmeðferð, starfsaðstöðu og kostnað af verki hans. Í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að gerðardómurinn skuli við ákvörðun um laun og önnur starfskjör þeirra, sem undir hann heyra, hafa hliðsjón af kjörum þeirra, sem sambærilegir geti talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð, svo og eftir atvikum af kjarasamningum, sem hafi verið undirritaðir frá 1. maí 2015, og almennri þróun kjaramála. Skuli jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála. Þá er í 2. og 3. mgr. 3. gr. kveðið á um sáttaumleitanir gerðardómsins og heimildir aðila að vinnudeilunni til að gera sátt um hana að hluta eða öllu leyti, en samkvæmt 4. gr. áttu lögin þegar að taka gildi.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta 19. júní 2015 og var það þingfest sama dag. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi lauk fresti aðilanna samkvæmt áðurnefndri 1. mgr. 2. gr. laga nr. 31/2015 til að gera kjarasamning og var gerðardómur samkvæmt þeirri lagagrein skipaður 1. júlí 2015. Við uppkvaðningu þessa dóms hefur gerðardómurinn ekki lokið störfum.

II

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn í meginatriðum á því að ákvæði laga nr. 31/2015 stangist í tilteknum efnum á við fyrirmæli stjórnarskrárinnar, svo sem þau verði meðal annars skýrð með tilliti til þjóðréttarlegra skuldbindinga stefnda, einkum samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu.

Við úrlausn málsins verður að líta til þess að í dómaframkvæmd, sbr. einkum dóm Hæstaréttar 14. nóvember 2002 í máli nr. 167/2002, hefur ákvæði 1. málsliðar 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar verið skýrt með hliðsjón af 2. mgr. 75. gr. hennar, svo og 11. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, á þann hátt að það verndi rétt stéttarfélaga til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna, þar á meðal með því að semja um laun þeirra og önnur kjör. Með því að verkfallsréttur sé löghelgað úrræði til að knýja á um gerð slíkra samninga taki ákvæðið jafnframt til hans, en þó að gættu því að í ljósi 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar geti hann sætt takmörkunum eftir fyrirmælum laga. Slíkar takmarkanir verði að helgast af nauðsyn í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til að firra glundroða eða glæpum eða til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Til þess verður og að líta að í máli þessu reynir á ákvæði laga nr. 31/2015, sem settu verkfallsrétti tiltekins hóps starfsmanna ríkisins takmörk ásamt rétti þeirra og þar með stéttarfélaga þeirra til að semja um kaup þeirra og kjör. Með tilliti til síðari málsliðar 2. mgr. 11. gr. samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem heimilar að stjórnarstarfsmenn sæti löglegum takmörkunum á félagafrelsi sínu, verður að líta svo á að félagsmenn í aðildarfélögum áfrýjanda, sem hann kemur fram fyrir í málinu, geti orðið að þola frekari takmarkanir en þeir, sem þetta á ekki við um. Á móti því vegur á hinn bóginn að svo háttar til í málinu að handhafar sama þáttar ríkisvalds komu í senn fram sem viðsemjendur áfrýjanda í kjaraviðræðum og tóku ákvörðun um að flytja á Alþingi frumvarp, sem varð að lögum nr. 31/2015 í krafti þingstyrks sem þeir nutu, en í því ljósi er óhjákvæmilegt að gera ríkar kröfur til þess að sýnt sé fram á að skilyrði hafi verið til að skerða réttindi félagsmanna aðildarfélaga áfrýjanda.

Í málinu er ekki deilt um að takmarkanirnar, sem settar voru á réttindi félagsmanna aðildarfélaga áfrýjanda, voru gerðar með lögum. Ágreiningur er á hinn bóginn um hvort þessar takmarkanir geti helgast af tilliti til almannaheilla, verndar heilsu manna eða réttindum þeirra og frelsi, svo og hvort nauðsyn hafi borið til þeirra og meðalhófs verið gætt með ákvæðum laga nr. 31/2015.

III

1

Meðal gagna málsins er minnisblað frá Landspítala til landlæknis 17. apríl 2015, þar sem sagði meðal annars: „Landspítali lýsir áhyggjum af þeirri stöðu sem nú er komin upp í verkfalli geislafræðinga ... Verkfallið hefur þegar haft í för með sér mikinn samdrátt í rannsóknarbeiðnum, eða um 55% rannsókna hefur verið frestað daglega frá upphafi verkfalls, áætlað um 2.300 rannsóknir, þar af 231 í gær. Ljóst er að þessi mikli samdráttur í rannsóknum á bráðasjúkrahúsi ógnar öryggi sjúklinga og sú mönnun sem nú er á spítalanum dugir ekki til að tryggja þetta öryggi. Þess vegna hefur spítalinn lagt inn beiðnir til undanþágunefndar geislafræðinga um viðbótarmönnun ... Þrátt fyrir þessa alvarlegu stöðu hafnar fulltrúi geislafræðinga í undanþágunefnd beiðnum um undanþágur markvisst á þeim grundvelli að sú mönnun sem nú sé til staðar sé nægjanleg, sem er fjarri lagi að mati stjórnenda spítalans. Við höfum alvarlegar áhyggjur af þeim sjúklingahópi sem ekki fær þjónustu í verkfallinu og því viljum við upplýsa landlækni um stöðu mála og óskum jafnframt eftir stuðningi hans“.

Í bréfi forstjóra Landspítala 8. maí 2015 til landlæknis sagði meðal annars: „Áætlað er að skurðaðgerðum hafi fækkað um 270 frá upphafi verkfalls. Smærri aðgerðir eru framkvæmdar í mun meira mæli nú en venjulega til að nýta skurðstofur og starfsfólk ... Öllum aðgerðum þar sem blóðgjafar er þörf, eða að blóð sé til reiðu, og mega bíða, er frestað ... Reynt hefur verið að forgangsraða þannig að nauðsynlegustu rannsóknir séu gerðar tímanlega til að sjúklingar skaðist ekki ... valda tafir á rannsóknum því að venjuleg starfsemi raskast, skipulag riðlast, yfirsýn tapast, hætta eykst á að ákvarðanir séu ver ígrundaðar sem allt getur valdið því að hætta á alvarlegum atvikum eykst. Auk þess mun uppsöfnun á verkefnum sem frestast, valda því að álagið sem myndast í lok verkfalls verði illviðráðanlegt ... Það er raunveruleg hætta á að einhver hafi skaðast, muni skaðast eða jafnvel deyja.“ Þá kom fram að sjúklingar „sem hafa farið í skurðaðgerð hafa ekki fengið myndrannsóknir eftir aðgerð á þeim tíma sem skurðlæknar hafa talið viðunandi. Hér er verið að setja skurðaðgerð af stað án þess að tryggt sé að sjúklingar fái viðunandi meðferð eftir hana.“ Um atvik, sem hafi tengst verkfallsaðgerðum, sagði meðal annars í bréfinu: „Gerðar hafa verið tugir atvikaskráninga vegna seinkunar á þjónustu geislafræðinga ... Þó að atvik séu ekki skráð þá má fullvíst vera að margir sjúklingar hafa þegar orðið fyrir verulegum óþægindum ... eða verði fyrir skaða sem ekki hefur enn komið í ljós ... Óunnar rannsóknir hrannast upp, blóðrannsóknir, vefjarannsóknir og röntgenrannsóknir sem bíða úrlausnar. Greiningarannsóknir tefjast þannig mikið ... Því er einsýnt að einhverjir sjúklingar geti orðið fyrir tjóni haldi þessu áfram, hafi það ekki þegar orðið. Þjónusta við sjúklinga hefur þannig verulega versnað og ómögulegt að fullyrða að öryggi sjúklinga sé tryggt við þessar aðstæður. Samskipti við þá sem vinna á undanþágum eru orðin stirðari en var í upphafi, og því meiri sem tafir á þjónustu við sjúklinga verði meiri.“ Þá sagði eftirfarandi í lok bréfsins: „Landspítali vill taka fram að framkvæmd verkfallsins hefur að mestu farið fram í ágætri samvinnu við þau stéttarfélög sem um ræðir. Ástæða er þó til að benda á að undantekning er á þessu ... Af ofantöldu er ljóst að eftir því sem verkfall hefur dregist á langinn hefur orðið sífellt erfiðara að halda uppi nauðsynlegri starfsemi, hafa fulla yfirsýn yfir stöðu skjólstæðinga okkar og tryggja öryggi þeirra. Faglegar kröfur hafa minnkað og bið eftir rannsóknum er óásættanleg. Í upphafi verkfalls var nokkur hópur sjúklinga sem læknar mátu að gæti beðið eftir frekari rannsóknum og meðferð en ljóst er að hluta þess hóps hefur hrakað á þeim vikum sem liðnar eru frá upphafi verkfalls. Boðaðar hafa verið hertar verkfallsaðgerðir. Ástandið er nú þegar orðið mjög alvarlegt og ekki við það unað lengur.“ Í samantekt Landspítala um áhrif yfirstandandi verkfalls á klíníska þjónustu, sem fylgdi bréfinu, kom meðal annars fram að á hverjum degi væri frestað um 60% blóðrannsókna, 50% myndgreininga og 4 aðgerðum á þræðingarstofu, en frá upphafi verkfalls hafi alls 75 slíkum aðgerðum verið frestað og um 270 skurðaðgerðum auk 1.500 komum á dag- og göngudeildir.

Landlæknir sendi minnisblað til velferðarráðuneytisins 11. maí 2015 um áhrif verkfalls félagsmanna í aðildarfélögum áfrýjanda á tímabilinu 7. apríl til 4. maí sama ár og var þar vísað til þess að aflað hafi verið upplýsinga frá Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og sex öðrum svæðisbundnum heilbrigðisstofnunum. Af þessum upplýsingum voru eftirfarandi ályktanir dregnar: „Í ljósi þeirra upplýsinga sem hafa borist Embætti landlæknis um áhrif verkfallsins á ofangreindar stofnanir fara áhrif þess vaxandi. Þau eru langmest á Landspítalanum (LSH) vegna umfangs og eðlis starfseminnar og þar eru fleiri starfsstéttir í verkfalli en á öðrum stofnunum. Frá upphafi verkfalls hefur samtals á stofnununum 354 skurðaðgerðum verið frestað, 50% myndgreininga (alls u.þ.b. 5.435 talsins), 60% blóðrannsókna og rannsóknum á vefjasýnum. Einnig hefur a.m.k. 1.538 dag- og göngudeildarkomum verið frestað. Þessu til viðbótar koma upplýsingar frá LSH og Sjúkrahúsinu á Akureyri ... um að undanþágubeiðnum sé synjað, sem setur vissa hópa sjúklinga í beina hættu ... Skilaboðin eru skýr, stofnanirnar segjast ekki geta tryggt öryggi sjúklinga við þessar aðstæður ... Það er mat Embættis landlæknis að ástandið í heilbrigðiskerfinu sé komið út fyrir þau mörk að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga. Verkfallsaðgerðum verður að ljúka hið fyrsta og undanþágur verður að veita án tafar þannig að öryggi viðkvæmra sjúklingahópa sé ekki stefnt í hættu ... Því lengur sem verkfall stendur eykst hinn uppsafnaði vandi sem er hættulegur öryggi sjúklinga.“

Aftur ritaði Landspítali bréf til landlæknis 26. maí 2015 um „áhrif yfirstandandi verkfalla á Landspítala og mat stjórnenda á áhrifum verkfalls hjúkrunarfræðinga sem mun hefjast 27. maí að öllu óbreyttu.“ Þar var greint meðal annars frá því að á tímabilinu frá 7. apríl til 26. maí 2015 hafi um 380 skurðaðgerðum verið frestað, 6.900 myndgreiningum, 32.500 blóðrannsóknum, 300 meinafræðirannsóknum, nokkrum hundruðum ónæmisfræðirannsókna og um 1.000 veirufræðirannsóknum. Þá sagði einnig eftirfarandi: „Gæði þeirrar þjónustu sem við viljum veita hefur verið skorin niður fyrir ásættanleg mörk síðastliðinn mánuð. Hætta á að einhver hafi skaðast, muni skaðast eða jafnvel deyja, er raunveruleg. Verkfall hjúkrunarfræðinga mun auka hættuna enn frekar.“ Um það verkfall sagði að öðru leyti meðal annars: „Að óbreyttu mun verkfall Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefjast næsta miðvikudag, 27. maí. Mun þá skapast fordæmalaust ástand í íslensku heilbrigðiskerfi. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Í fyrsta lagi er við að eiga uppsafnaðan vanda fyrri verkfalla vetrarins. Í öðru lagi stendur verkfall fjögurra aðildarfélaga BHM enn með allri þeirri truflun á starfsemi sem þau hafa í för með sér. Í þriðja lagi eru hjúkrunarfræðingar fjölmennasta stétt spítalans, þriðjungur allra starfsmanna Landspítala. Hjúkrun sjúkra er grundvallarþáttur í starfsemi hvers sjúkrahúss og ótímabundið verkfall skellur með fullum þunga á sjúkrahúsinu og opinberri heilbrigðisþjónustu allri frá fyrsta degi. Því mun strax frá upphafi verða gífurleg röskun á starfsemi, þrátt fyrir að undanþágulistar muni koma til móts við þörf fyrir bráðaþjónustu.“ Í yfirliti, sem fylgdi bréfinu, kom meðal annars fram að í verkfallinu hafi verið frestað um 50% blóðrannsókna, alls um 112.000 talsins, 53% myndgreininga, samtals um 6.900, um 380 skurðaðgerðum, 128 þræðingum og um 1.700 komum á göngu- og dagdeildir.

Landlæknir beindi minnisblaði til ráðherra 26. maí 2015 um áhrif yfirvofandi verkfalls hjúkrunarfræðinga, þar sem sagði meðal annars: „Ljóst er að margra vikna verkfall BHM auk uppsafnaðs vanda vegna verkfalls lækna síðastliðinn vetur hefur skapað ástand sem gerir það að verkum að áhrif verkfalls hjúkrunarfræðinga munu koma til með að verða gríðarleg. Stjórnendur stofnana nota hugtök eins og fordæmalaust ástand og neyðarástand yfir þær aðstæður sem fljótt muni skapast, þrátt fyrir að allt verði gert sem hægt er til að tryggja lágmarksþjónustu og öryggi sjúklinga. Sýnt þykir að slíkar aðstæður skapa verulega ógn við öryggi sjúklinga og hafa viðkomandi stjórnendur varað eindregið við þeirri ógn. Ástand heilbrigðisþjónustu er nú með þeim hætti að mikil óvissa, óöryggi og ótti ríkir, bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Verkfall hjúkrunarfræðinga er til þess fallið að auka stórlega á þann víðtæka vanda sem nú er fyrir hendi. Í hnotskurn má segja að ekki verði hægt að tryggja öryggi sjúklinga og getur því ástandið valdið ómældum og óbætanlegum skaða ... Í ljósi þeirra gagna sem embættið hefur undir höndum frá viðkomandi stofnunum er rík áhersla lögð á alvarleika málsins og hversu brýnt er að gera allt sem hægt er til að tryggja öryggi þeirra sem til heilbrigðiskerfisins leita. Það ástand sem getur fljótt skapast nái verkfall hjúkrunarfræðinga fram að ganga getur valdið óbætanlegu tjóni og skaðað heilbrigðisþjónustuna og þá sem þjónustuna nota verulega, bæði til skamms tíma og lengri tíma litið. Þetta er ástand sem er óþolandi og því verður að ljúka með einum eða öðrum hætti.“

Þá sendi landlæknir minnisblað til ríkisstjórnarinnar 4. júní 2015, þar sem eftirfarandi kom fram: „Ljóst er að margra vikna verkfall BHM auk uppsafnaðs vanda vegna verkfalls lækna síðastliðinn vetur hefur skapað mjög erfitt ástand í heilbrigðiskerfinu. Nú hefur verkfall hjúkrunarfræðinga bæst við og hefur það staðið yfir í eina viku. Stjórnendur stofnana hafa notað hugtök eins og fordæmalaust ástand og neyðarástand yfir þær aðstæður sem hafa skapast, þrátt fyrir að allt sé gert sem hægt er til að tryggja lágmarksþjónustu og öryggi sjúklinga. Sýnt þykir að núverandi aðstæður skapi verulega ógn við öryggi sjúklinga. Ástand heilbrigðisþjónustunnar er nú með þeim hætti að mikil óvissa, óöryggi og ótti ríkir, bæði hjá sjúklingum og starfsfólki. Í hnotskurn má segja að ekki verði hægt að tryggja öryggi sjúklinga og getur því ástandið valdið ómældum og óbætanlegum skaða. Það er þegar ljóst að fjölmargir sjúklingar hafa orðið fyrir verulegum óþægindum, drætti á greiningu og töfum á meðferð og munu áhrif þess aukast í stigvaxandi mæli eftir því sem verkföllin dragast á langinn. Ljóst er að það tekur langan tíma að meta það tjón sem sjúklingar hafa orðið fyrir ... Það mun einnig taka langan tíma að vinna úr þeim uppsafnaða vanda, sem hefur skapast við þessi langvarandi verkföll ... Í ljósi þeirra gagna sem embættið hefur undir höndum frá viðkomandi stofnunum og frá einstökum sjúklingum er rík áhersla lögð á alvarleika málsins. Verkföllum verður að ljúka tafarlaust, ef ekki á illa að fara. Það ástand sem hefur skapast er óþolandi og kemur til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Stjórnvöld bera nú ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti.“

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands sendi frá sér yfirlýsingu 10. júní 2015 í tengslum við ákvörðun um vaxtahækkun. Í henni sagði meðal annars eftirfarandi: „Nú eru horfur á að verðbólga verði meiri en bankinn spáði í maí, sem rekja má til þess að þegar hefur verið samið um mun meiri launahækkanir en gert var ráð fyrir í spá bankans. Til þess að liðka fyrir kjarasamningum hefur ríkisstjórnin kynnt aðgerðir sem munu auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum. Aðgerðirnar hafa enn sem komið er ekki verið fjármagnaðar og fela því að öðru óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum ... Peningastefnunefndin mun fylgjast grannt með framvindunni og grípa til viðeigandi aðgerða til mótvægis ef þörf krefur. Í yfirlýsingum nefndarinnar undanfarið hefur ítrekað verið bent á að miklar launahækkanir og sterkur vöxtur eftirspurnar gætu grafið undan nýfengnum verðstöðugleika og valdið því að hækka yrði vexti á ný. Horfur um þróun launakostnaðar, hækkun verðbólguvæntinga og vísbendingar um öflugan vöxt eftirspurnar valda því að óhjákvæmilegt er að bregðast nú þegar við versnandi verðbólguhorfum þrátt fyrir að verðbólga sé enn undir markmiði.“

Eftir að verkföllunum, sem að framan var getið, hafði lokið við gildistöku laga nr. 31/2015 ritaði forstjóri Landspítala minnisblað 23. júní 2015 til velferðarráðuneytisins um „áhrif verkfalla BHM og FÍH á klíníska starfsemi og þjónustu við sjúklinga“. Þar kom fram að 446 félagsmenn í aðildarfélögum áfrýjanda hafi verið í verkfalli í tæpar tíu vikur, en 1.454 félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í um þrjár vikur. Hafi verið unnið eftir „undanþágulistum og bráðaþjónustu haldið uppi“, en verkfallið hafi haft „áhrif á alla starfsemi spítalans.“ Hafi um 50% myndgreininga verið frestað í tíu vikna verkfalli, en að jafnaði væru gerðar 2.100 slíkar rannsóknir vikulega. Blóðrannsóknum hafi fækkað um helming, en að öðru jöfnu væru þær um 32.000 á viku. Á hjarta- og æðaþræðingarstofu hafi um 185 rannsóknum verið frestað, en þær séu að jafnaði um 50 á viku. Legusjúklingum hafi fækkað um 100 í verkfalli hjúkrunarfræðinga, en að staðaldri séu þeir 650 til 670. Um 900 skipulögðum skurðaðgerðum hafi verið frestað, en bráðatilvikum hafi öllum verið sinnt. Loks hafi 6.300 komum á dag- og göngudeildir verið frestað, en að meðaltali séu þær um 8.000 í viku hverri.

Auk þessa síðastnefnda minnisblaðs liggja fyrir í málinu bréf átta annarra heilbriðisstofnana til velferðarráðuneytisins frá 22. og 23. júní 2015, þar sem gerð var grein fyrir áhrifum verkfallanna á starfsemi þeirra. Þá er einnig að finna í málinu samantektir um þetta efni frá Matvælastofnun, Geislavörnum ríkisins, sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og Fjársýslu ríkisins, sem gerðar voru á tímabilinu 19. til 25. júní 2015.

2

Í málatilbúnaði stefnda hefur meðal annars verið vísað til þess að sú takmörkun á réttindum félagsmanna í aðildarfélögum áfrýjanda, sem ákvæði laga nr. 31/2015 leiddu af sér, hafi helgast af fyrirsjáanlegum efnahagslegum afleiðingum þess að kröfur þeirra um launahækkanir hefðu náð fram að ganga. Kröfur þessar hafi verið um verulega meiri launahækkanir en þær, sem samið hafi verið um í umfangsmiklum langtíma kjarasamningum á almennum vinnumarkaði 29. maí 2015, en sem fyrr greinir voru ákvæði í þeim um heimild til uppsagnar ef gerðir yrðu kjarasamningar við aðrar stéttir, sem fælu í sér teljandi frávik í þessum efnum. Um þessar röksemdir stefnda verður að leggja til grundvallar að aðildarfélög áfrýjanda, sem um ræðir, hafi ekki fellt sig við að ljúka vinnudeilum við stefnda með kjarasamningum um samsvarandi launahækkanir og fólust í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Um efnahagslegar afleiðingar þess að samið hefði verið við aðildarfélög áfrýjanda um hagfelldari launakjör og kjarasamningum á almennum vinnumarkaði verið sagt upp af þeim sökum liggja á hinn bóginn ekki fyrir teljandi gögn. Þótt ljóst megi vera að þær afleiðingar hefðu getað orðið tilfinnanlegar fyrir þjóðarhag og þar með almannaheill liggur málið ekki fyrir í því horfi að þetta geti haft afgerandi vægi, þótt það geti ásamt öðrum atriðum haft áhrif í heildarmati.

Hér að framan hefur verið greint frá meginefni ýmissa bréfa, sem gengu á milli heilbrigðisstofnana, landlæknis og ráðherra á nærri tíu vikna tímabili verkfalla félagsmanna aðildarfélaga áfrýjanda sem störfuðu á sjúkrahúsum og öðrum stofnunum innan heilbrigðiskerfisins. Ályktanir í þessum bréfum um mjög alvarlega stöðu á þeim vettvangi studdust við gögn, sem aflað var frá þessum stofnunum, þar á meðal tölulegar upplýsingar um röskun á þeirri þjónustu sem þeim var ætlað að veita. Ekki eru efni til að efast um réttmæti þessara upplýsinga. Af þeim er ljóst að starfsemin, sem haldið var uppi á heilbrigðisstofnunum í skjóli undanþága frá verkfallsaðgerðum samkvæmt 19., 20. og 21. gr. laga nr. 94/1986, nægði hvergi til að girða fyrir alvarlega ógn við almannaheill, sem ágerðist eftir því sem aðgerðirnar drógust á langinn og til nýrra var gripið, þar á meðal verkfalls hjúkrunarfræðinga. Ekki var þó aðeins ógnað á þennan hátt almannaheill, heldur jafnframt réttindum alls almennings til að fá aðstoð vegna sjúkleika, sem stefnda ber að tryggja samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar. Að þessu gættu voru uppfyllt þau skilyrði, sem 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar felur í sér samkvæmt áðursögðu, fyrir því að settar yrðu með tilliti til þessa í lögum takmarkanir á frelsi félagsmanna í aðildarfélögum áfrýjanda til að halda uppi verkföllum til að knýja á um lausn vinnudeilu við stefnda.

IV

Þegar lög nr. 31/2015 tóku gildi 13. júní 2015 höfðu ótímabundin verkföll félagsmanna í fimm aðildarfélögum áfrýjanda, sem störfuðu við Landspítala og hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, staðið sem áður segir yfir í 67 daga, verkfall félagsmanna í einu félagi hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri í 65 daga, verkföll félagsmanna í þremur félögum, sem störfuðu meðal annars hjá Matvælastofnun, í 54 daga og verkfall félagsmanna í einu félagi hjá Fjársýslu ríkisins í 11 daga. Þá höfðu félagsmenn í tólf aðildarfélögum áfrýjanda efnt til tímabundins verkfalls 9. apríl 2015. Sameiginlegar kjaraviðræður aðildarfélaga áfrýjanda við stefnda hófust eins og áður greinir 18. febrúar 2015 og höfðu verið haldnir 24 sáttafundir hjá ríkissáttasemjara um kjaradeiluna, sem engan árangur báru. Með þessu nutu félagsmenn í aðildarfélögum áfrýjanda í reynd til fulls réttinda sinna samkvæmt 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar til að fela stéttarfélagi að gæta hagsmuna sinna og knýja á um þá með aðgerðum til að neyta samningsfrelsis um kaup þeirra og kjör. Til þess verður og að líta að það frelsi var heldur ekki skert þegar í stað með gildistöku laganna.

Þegar takmarkanir voru settar á framangreind réttindi með lögum nr. 31/2015 má telja að fullreynt hafi verið að kjaradeilunni yrði lokið með samningum, en stefndi mátti í ljósi þess, sem fyrr greinir, telja sér bera að gæta að almannaheill af efnahagslegum ástæðum með því að ganga ekki til samninga við aðildarfélög áfrýjanda, sem hefðu getað stefnt víðtækum kjarasamningum annarra í uppnám. Verður að þessu virtu að líta svo á að stefndi hafi með réttu mátt telja nauðsynlegt að grípa til lagasetningar til að ljúka þessari kjaradeilu, sem fól samkvæmt áðursögðu í sér ógn við almannaheill og skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum annarra, enda verður ekki séð að önnur úrræði hafi staðið til boða.

V

1

Í málinu deila aðilarnir meðal annars um hvort gengið hafi verið lengra en nauðsyn bar til með því að ákvæði laga nr. 31/2015 hafi ekki aðeins tekið til þeirra átta aðildarfélaga áfrýjanda, sem stóðu að verkföllum á þeim tíma þegar lögin voru sett, heldur til allra þeirra átján félaga, sem getið er í dómkröfum hans.

Meðal gagna málsins er skjal með fyrirsögninni: „Samkomulag vegna þátttöku í sameiginlegum kjaraviðræðum aðildarfélaga BHM við ríki“, sem undirritað var 15. mars 2015 af hálfu eins af aðildarfélögum áfrýjanda, en óumdeilt er að sams konar skjal hafi verið undirritað af hálfu allra hinna félaganna, sem málið varðar. Skjal þetta er svohljóðandi: „Með undirritun þessa samkomulags samþykkir formaður aðildarfélags BHM, fyrir hönd félagsins, fulla þátttöku félagsins í sameiginlegum kjaraviðræðum aðildarfélaga BHM við ríkið. Full þátttaka í kjaraviðræðum felur í sér: 1. Skipan sameiginlegrar samninganefndar félaganna, með einum til tveimur fulltrúum hvers félags og einum til vara. 2. Að félagið ber sjálft ábyrgð á að fylgjast með gangi kjaraviðræðna, með þátttöku á fundum og í tölvupóstum. 3. Að félagið samþykkir skipan sameiginlegrar viðræðunefndar BHM. 4. Þátttöku í sameiginlegum aðgerðum, skv. meðfylgjandi yfirliti: a. Að þeim félagsmönnum sem fara í verkfall, umfram ½ dags allsherjarverkfall þann 9. apríl, verða tryggð sambærileg regluleg heildarlaun og þeir hafa haft í janúar til mars 2015, meðan á verkfalli stendur. b. Félögin eru samþykk því að deila með sér þeim kostnaði sem af því hlýst að tryggja félagsmönnum þessi laun út frá fyrirliggjandi upplýsingum og með þátttöku í sameiginlegum verkfallssjóði. c. Virka þátttöku í aðgerðum, skipulögðum af sameiginlegum aðgerðahópi félaganna, sem er afar mikilvægur stuðningur við þá hópa sem eru í verkfalli. 5. Að félagið hafi fyrir 1. apríl upplýst um mögulegar sérkröfur félags sem verður að taka tillit til áður en gengið er frá sameiginlegu samkomulagi BHM félaga. Upplýsa skal um stöðu viðræðna um sérkröfur jafnóðum. 6. Að félagi er óheimilt að ganga frá kjarasamningi við ríki án samráðs við sameiginlega samninganefnd BHM-félaganna.“

Í málinu liggur fyrir grein, sem birt var á vefsíðu áfrýjanda 16. mars 2015 með fyrirsögninni: „Atkvæðagreiðslur vegna aðgerða hjá ríki hafnar“, en þar sagði meðal annars: „Í fyrra sátum við við samningaborðið í þrjá og hálfan mánuð. Við reyndum til þrautar að komast áfram með viðræðum en ekkert gekk. Á sama tíma beittu aðrir hópar aðgerðum og náðu árangri sem óþarft er að rekja hér nánar. Skilaboðin eru skýr: það fær enginn neitt nema að hann hafi fyrir því. Við getum velt fyrir okkur hvort þetta er aðferð skynsams fólks til að komast að niðurstöðu … svo er sannarlega ekki, þetta er hinsvegar sú raunalega staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. Við höfum lagt fram sameiginlegar kröfur sem við viljum fylgja eftir með sameiginlegum aðgerðum.“ Þá var á sömu vefsíðu birt grein 6. apríl 2015 með fyrirsögnunum: „Yfirlit yfir verkfallsaðgerðir hjá ríki“ og „Um sameiginlegar aðgerðir allra 17 félaganna er að ræða“. Í upphafi greinarinnar sagði: „Hér má nálgast upplýsingar um verkfallsaðgerðir hjá ríki. Um mismunandi aðgerðir er að ræða allt frá því að vera verkfall part úr degi yfir í ótímabundin allsherjarverkföll. Alls taka rúmlega 3000 manns þátt í aðgerðunum ... Allsherjarverkfall tekur til alls hópsins og því fara 3009 félagsmenn í verkfall þann 9. apríl.“

Grein birtist í dagblaði 8. apríl 2015 undir fyrirsögninni: „Digrir verkfallssjóðir“, þar sem sagði meðal annars: „Það er nýbreytni í verkfalli BHM-liða að verkfallsaðgerðirnar eru kostaðar úr sameiginlegum verkfallssjóðum allra 27 aðildarfélaga BHM. Þannig er tryggt að þeir sem fara í verkfall verða ekki fyrir launatapi þó þeir hafi lagt niður störf. Þar með er pressan tekin af fólki um hvað það þolir að vera lengi launalaust. Nóg er til í sjóðnum og ætlar BHM að berjast fyrir að menntun sé metin til launa í kjaradeilunni. Þetta er meðal þess sem kom fram á fyrsta samstöðufundi BHM-liða sem haldinn var í gær á fyrsta degi verkfallsins.“ Þá var eftirfarandi meðal annars haft eftir nafngreindum starfsmanni áfrýjanda og „fulltrúa í viðræðunefnd“ hans á vefmiðli 16. apríl 2015: „Það er mikil samstaða hjá öllum stéttum innan BHM sama hvort þær eru í verkfalli eða ekki. Þannig að við erum að íhuga hjá hvaða fleiri stofnunum ríkisins eigi að boða til verkfalla meðal félagsmanna, því það virðist sem ríkið sé ekki að hlusta“. Í skýrslu fyrir héraðsdómi kvað starfsmaðurinn þetta hafa verið rétt eftir sér haft.

Á vefsíðu áfrýjanda birtist grein 21. apríl 2015 um „verkfallssjóð og úthlutunarreglur“, þar sem sagði meðal annars: „BHM hefur formlega sett á fót verkfallssjóð sem er ætlað að standa undir styrkgreiðslum til hátt í 700 félagsmanna sem þegar hafa lagt niður störf, í verkfallsaðgerðum 17 aðildarfélaga BHM. Stjórn sjóðsins er í höndum þriggja manna úthlutunarnefndar. Allir félagsmenn sem leggja niður störf vegna verkfalla, annarra verkfalla en hálfs dags allsherjarverkfalls þann 9. apríl s.l., og verða þannig fyrir tekjumissi, geta sótt um styrk úr sjóðnum.“

Í útvarpi var flutt frétt 3. maí 2015, þar sem eftirfarandi kom meðal annars fram: „Ljósmæður vilja herða verkfallsaðgerðir sínar með því að færa aðgerðir yfir á heilsugæsluna. Með því myndi mæðravernd leggjast af. Þá eru þær að íhuga að taka strangar á undanþágum.“ Í framhaldi af þessu sagði formaður Ljósmæðrafélags Íslands: „Það virðist ekki vera neinn samningavilji og það er engin uppgjöf í okkur en við erum orðnar langeygar. Við viljum fara að sjá eitthvað gerast og erum náttúrulega í sameiginlegum aðgerðum BHM. Þannig að þetta snertir fleiri en okkur og það er svona, við erum svona svolítið að spekúlera í því hvort við getum þyngt aðgerðir eitthvað, hert róðurinn eða breytt.“ Þá birtist frétt á vefmiðli 4. maí 2015 undir fyrirsögninni „BHM-félög íhuga að herða á verkfallsaðgerðum“, þar sem sagði: „Undanþágunefndir þeirra félaga innan BHM sem eru í verkfalli eru farnar að hittast sameiginlega eftir samningafundi til að bera saman bækurnar. Ása Sigríður Þórisdóttir, verkefnastjóri hjá BHM, segir að gangurinn í samningum hafi óneitanlega áhrif á nefndirnar. Fólk verði hugsi þegar ríkið kemur ekki með neitt að samningaborðinu. Rætt hefur verið innan BHM að herða á verkfallinu með því að útvíkka það og með því að herða á veitingu undanþága umfram það sem beinlínis er skylt samkvæmt lögum.“

Loks er þess að geta að í málinu liggur fyrir ódagsett grein, sem birt var á vefsíðu áfrýjanda, með fyrirsögninni: „Sameiginlegar aðgerðir 17 aðildarfélaga BHM sem eru með lausa samninga við ríkið“, en í upphafi hennar sagði: „Við lögðum fram sameiginlegar kröfur sem við fylgjum eftir með sameiginlegum aðgerðum.“ Neðan við þetta var að finna tilvísanir í annað efni á vefsíðunni, þar á meðal um verkfallsaðgerðir, þar sem væri „listi yfir sameiginlegar verkfallsaðgerðir eftir dagsetningum og stofnunum“, svo og um greiðslur úr verkfallssjóði og úthlutunarreglur.

2

Samkvæmt því, sem áður greinir, tóku lög nr. 31/2015 til allra þeirra átján aðildarfélaga áfrýjanda, sem málið varðar, en ekki eingöngu til þeirra átta félaga, sem stóðu að verkföllum hjá stefnda við setningu laganna. Í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2002 var uppi ágreiningur um ákvæði laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira, sem leiddu á hliðstæðan hátt og lög nr. 31/2015 til lykta kjaradeilu nokkurs fjölda aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands við aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins, en svo stóð þó á að félagsmenn þriggja verkalýðsfélaganna voru ekki í verkfalli við setningu laganna. Í dómi í því máli var komist að þeirri niðurstöðu að lögum nr. 34/2001 yrði ekki beitt gagnvart þessum þremur félögum, en hún var einkum reist á því að viðurkennt var af gagnaðila þeirra að ekki hafi verið ætlunin að lögin tækju til félaga, sem stæðu ekki að verkfalli. Sú staða er ekki uppi í þessu máli.

Þau átján aðildarfélög áfrýjanda, sem mál þetta varðar, kusu að neyta heimildar samkvæmt lögum nr. 94/1986 til að standa sameiginlega að kröfugerð á hendur stefnda og kjaraviðræðum við hann, sem hófust eins og áður greinir 18. febrúar 2015. Skýra verður 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar svo að ákvæðið verndi rétt félagsmanna í stéttarfélögum til að ráða innan ramma laga innra skipulagi þeirra og starfsemi ásamt sjálfsákvörðunarrétti stéttarfélaga um málefni sín, þar á meðal rétt til að ákveða hvort tvö eða fleiri stéttarfélög standi sameiginlega að kjaraviðræðum og aðgerðum til að fylgja þar eftir hagsmunum félagsmanna. Þennan rétt bar að virða við setningu laga nr. 31/2015. Að auki er ljóst af þeim gögnum málsins, sem voru rakin hér að framan, að aðildarfélög áfrýjanda kusu ekki aðeins að standa sameiginlega að kröfum gagnvart stefnda og samningaviðræðum við hann, heldur stóðu þau jafnframt í sameiningu að ýmsum aðgerðum til að knýja á um lausn kjaradeilunnar, meðal annars með samráði um beitingu verkfallsréttar, og báru öll með sameiginlegum sjóði kostnað, sem leiddi af verkföllum félagsmanna í einstökum félögum, þar á meðal að bæta þeim tekjumissi. Er og ljóst að þessum aðgerðum, þar á meðal verkföllum einstakra félaga hjá tilteknum stofnunum stefnda, var ætlað að þrýsta á að hann gengi til kjarasamninga við þau öll. Að því virtu hefði löggjöf, sem aðeins hefði náð til félagsmanna í aðildarfélögum áfrýjanda sem áttu í verkfalli við gildistöku hennar, ekki girt fyrir að önnur félög hefðu þess í stað efnt til sams konar aðgerða í þágu heildarinnar. Til þess verður og að líta að lög nr. 31/2015 lögðu ekki eingöngu bann við verkföllum og öðrum aðgerðum félaganna átján, sem þau tóku til, heldur var þar einnig kveðið á um sérstaka skipan, sem kæmi í stað kjarasamnings fyrir þau. Gekk í því efni eitt yfir félögin öll, sem sjálf höfðu kosið að standa saman í kjaradeilu við stefnda og skuldbundið sig til að ganga ekki frá kjarasamningi við hann án samráðs við sameiginlega samninganefnd aðildarfélaga áfrýjanda. Að þessu öllu virtu er ekki unnt að líta svo á að gengið hafi verið að þessu leyti lengra en réttmætt var við setningu laga nr. 31/2015 og brotið með því gegn grunnreglu íslenskrar stjórnskipunar um meðalhóf.

VI

Með 2. og 3. gr. laga nr. 31/2015 er sérstakri nefnd falið að kveða á um kaup og kjör félagsmanna í þeim átján aðildarfélögum áfrýjanda, sem málið snýr að, og er henni þar gefið heitið gerðardómur. Er ákvörðun nefndarinnar ætlað að binda málsaðila eins og kjarasamningur og gilda þann tíma, sem nefndin tiltekur. Fyrir því eru fordæmi að samsvarandi leið hafi verið farin þegar mælt hefur verið fyrir í lögum um lausn kjaradeilu og eru ekki efni til að fallast á þá röksemd áfrýjanda að ótækt sé að fela þetta hlutverk nefnd sem þessari, sem gagngert sé stofnað til í þessum eina tilgangi. Að lögum stendur heldur ekkert því í vegi að nefndin sé þannig skipuð mönnum að hvorugur aðilanna hafi þar áhrif, gagnstætt því sem almennt myndi vera ef um væri að ræða gerðardóm í réttum skilningi þess orðs.

Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 31/2015 er sem áður segir að finna ákvæði um þau atriði, sem nefndinni er ætlað að líta til í ákvörðun sinni um laun og önnur starfskjör félagsmanna í átján aðildarfélögum áfrýjanda. Eftir hljóðan ákvæðisins bindur talning þessara atriða, sem ekki geta skoðast sem ómálefnaleg, ekki hendur nefndarinnar á þann hátt að leitt gæti til þess að dómkröfur áfrýjanda verði teknar til greina. Þótt í 1. mgr. 2. gr. laganna sé mælt svo fyrir að ákvörðun nefndarinnar eigi að gilda þann tíma, sem hún ákveður, og það svigrúm, sem nefndinni er þannig veitt, sé óheppilega mikið, sbr. fyrrnefndan dóm Hæstaréttar 14. nóvember 2002, getur það atriði eitt út af fyrir sig ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að ákvæði laganna verði virt að vettugi. Í því efni verður að líta til þess að nefndin hefur ekki enn lokið störfum með ákvörðun, sem áfrýjanda væri í lófa lagið að leitast við að fá hnekkt ef hann teldi nefndina hafa farið óhæfilega með þetta svigrúm.

Að virtu því öllu, sem að framan greinir, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júlí 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. júlí sl., er höfðað 22. júní 2015 af Bandalagi háskólamanna, Borgartúni 6, Reykjavík gegn íslenska ríkinu.

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stéttarfélögum innan raða stefnanda; Dýralæknafélagi Íslands, Félagi geislafræðinga, Félagi háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félagi íslenskra félagsvísindamanna, Félagi íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands), Leikarafélagi Íslands, Félagi íslenskra náttúrufræðinga, Félagi lífeindafræðinga, Félagi sjúkraþjálfara, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Fræða­garði, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Ljósmæðrafélagi Íslands, Sálfræðingafélagi Íslands, Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga, Stéttarfélagi háskólamanna á mat­væla- og næringarsviði, Stéttarfélagi lögfræðinga og Þroskaþjálfafélagi Íslands sé, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., 2. gr., og 3. gr. laga nr. 31/2015 heimilt að efna til verkfalls í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og að kjör félagsmanna þessara félaga verði ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms sam­kvæmt lögum nr. 31/2015. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu og greiðslu málskostnaðar.

Mál þetta sætir flýtimeðferð eftir ákvæðum XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I

Málsatvik eru óumdeild. Kjarasamningar 19 aðildarfélaga stefnanda urðu lausir 28. febrúar 2015, en um er að ræða Dýralæknafélag Íslands, Félag geislafræðinga, Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins, Félag íslenskra félagsvísindamanna, Félag íslenskra hljómlistarmanna (Starfsmannafélag Sinfóníuhljómsveitar Íslands), Leikarafélag Íslands, Félag íslenskra náttúrufræðinga, Félag lífeindafræðinga, Félag sjúkraþjálfara, Félagsráðgjafafélag Íslands, Fræðagarður, Iðjuþjálfafélag Íslands, Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, Stéttarfélag bókasafns- og upplýs­ingafræðinga, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði, Stéttarfélag lögfræðinga og Þroskaþjálfafélag Íslands. 

Nokkru áður, eða í desember 2014, hófust samningaviðræður milli einstakra þessara félaga og samninganefndar ríkisins. Sameiginlegar viðræður þessara félaga og samninganefndar ríkisins hófust síðan 18. febrúar 2015 með því að skipuð var sameiginleg viðræðunefnd félaganna og lögð fram sameiginleg kröfugerð. Síðar dró Kjarafélag viðskipta- og hagfræðinga sig út úr samstarfinu. Hin félögin 18 veittu stefnanda umboð til að koma fram í sameiginlegum kjaraviðræðum við ríkið en félögin skipuðu hvert um sig einn til tvo fulltrúa í sameiginlega samninganefnd stefnanda. Viðræður reyndust árangurslausar og var gengið til atkvæðagreiðslu um verkfall nokkurra aðildarfélaga stefnanda dagana 16. til 19. mars 2015.

Samninganefnd ríkisins vísaði deilu aðildarfélaga stefnanda til ríkissáttasemjara 26. mars 2015 og var fyrsti fundur haldinn þann 30. mars 2015. Eftir að Félagsdómur hafði leyst úr um lögmæti verkfallanna hófust ótímabundin verkföll á Landspítala 7. apríl 2015 sem tóku til félagsmanna Félags geislafræðinga, Félags lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélags Íslands og og Félags íslenskra náttúrufræðinga. Þá sama dag hófst ótímabundið verkfall Stéttarfélags lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Verkfall félagsmanna Ljósmæðrafélags Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri hófst 9. apríl 2015 og 20. apríl 2015 verkföll félagsmanna Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla- og næringarsviði og Dýralæknafélags Íslands hjá Matvælastofnun. Ótímabundið verkfall Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins hófst síðan 2. júní 2015. Haldnir voru 24 fundir deiluaðila hjá ríkissáttasemjara, en samningaumleitanir ríkissáttasemjara báru ekki árangur. 

Samþykkt voru 13. júní 2015 á Alþingi lög nr. 31/2015, um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Með lögunum voru bönnuð yfirstandandi verkföll Félags geislafræðinga, Félags lífeindafræðinga, Ljósmæðra­félags Íslands, Félags íslenskra náttúrufræðinga, Stéttarfélags lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu Stéttarfélags háskólamanna á matvæla- og næringarsviði og Dýralæknafélags Íslands hjá Matvælastofnun sem og verkfall Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins. Jafnframt var öðrum aðildarfélögum stefnanda, sem staðið höfðu sameiginlega að kjaraviðræðum gagnvart fjármálaráðherra sem og fyrrnefndu félögunum bannað að efna til frekari vinnustöðvana eða annarra aðgerða sem ætlaðar væru til að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög nr. 31/2015 ákveddu. Slíkar aðgerðir voru lýstar óheimilar frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. gr. laganna. Þetta átti við þau félög sem voru í verkfalli og einnig hin sem ekki voru í verkfalli.

Við aðalmeðferð málsins gaf fyrirsvarsmaður stefnanda skýrslu fyrir dóminum. Þá gáfu skýrslur sem vitni fyrrverandi formaður samninganefndar stefnanda og lögmaður félagsins. Einnig gáfu skýrslu staðgengill forstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss og tengiliður sjúkrahússins við svonefndar undanþágunefndir. Loks gaf skýrslu formaður samninganefndar ríkisins.

II

Stefnandi kveðst byggja aðild sína í málinu á 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, þar sem félagi eða samtökum manna er heimilað í eigin nafni að reka mál til viðurkenningar á tilteknum réttindum félagsmanna sinna eða til lausnar undan tilteknum skyldum þeirra. Stefnandi telji vafalaust að ákvæðið eigi við enda ljóst að það að gæta þeirra hagsmuna sem dómkröfur máls þessa taki til sé beinlíns hlutverk sambandsins samkvæmt lögum þess.

Stefnandi telji að í 74. gr. stjórnarskrár felist regla sem tryggi öllum borgurum frelsi til aðildar að félagasamtökum sem stofnuð séu í löglegum tilgangi. Það að stéttarfélög séu þar sérstaklega nefnd til sögunnar ásamt stjórnmálafélögum sýni hversu mikilvæg starfsemi stéttarfélaganna og frelsi þeirra til athafna sé í huga stjórnarskrárgjafans. Mikilvægasta hlutverk stéttarfélaganna sé að standa að gerð kjarasamninga. Stefnandi líti svo á að ekki geti leikið vafi á því að frelsi félaganna til að standa að gerð kjarasamninga sé varið af 74. gr. stjórnarskrár. Stéttarfélögum opinberra starfsmanna sé með lögum nr. 94/1986, um kjarasamning opinberra starfsmanna, markaður almennur rammi um starfsemi sína. Þar sé rakið hvert sé hlutverk félaganna og settar reglur um mikilvægustu þættina í starfsemi þeirra. Í lögunum sé að finna tæmandi talningu þeirra skilyrða sem félögin þurfi að fullnægja til að mega starfa. Þar sé fjallað um öll skilyrði þess að stéttarfélög geti beitt heimildum sínum að lögum. Þannig sé í III. kafla laganna fjallað með tæmandi hætti um skilyrði löglegrar beitingar verkfallsréttarins. Það að sett hafi verið löggjöf um starfsemi stéttarfélaganna, ólíkt því sem gerist um starfsemi annarra frjálsra félaga, sýni vel þjóðfélagslegt mikilvægi stéttarfélaganna. Þessi staða mála leggi stéttar­félögunum skyldur á herðar en veiti þeim einnig skjól og vernd gegn íhlutun og afskiptum stjórnvalda. Það séreðli stéttarfélaga, sem meðal annars birtist í þessu reglukerfi, leiði til þess að stjórnvöld og löggjafinn hafi afar takmarkaðar heimildir til afskipta af starfsemi stéttarfélaga. Slíkt geti bara komið til álita í þröngum undantekningartilvikum. Stefnandi telji að með setningu laga nr. 31/2015, um kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hafi stefndi farið út fyrir heimildir sínar til slíkra afskipta.

Stefnandi byggi kröfur sínar einnig á því að með þeim ráðstöfunum til takmörkunar á verkfallsrétti og samningsfrelsi aðildarfélaga stefnanda, sem lögfestar hafi verið með lögum nr. 31/2015, hafi stefndi brotið gegn rétti aðildarfélaga stefnanda þannig að fari í bága við ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994. Í 11. gr. mannréttindasáttmálans sé félagafrelsið varið, og þá alveg sérstaklega frelsi stéttarfélaga, með því að þar segi að mönnum sé rétt að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum. Þá sé í 2. tl. greinarinnar áréttað að réttur þessi skuli ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæli fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Stefnandi telji að engin sú vá hafi verið fyrir dyrum að réttlætti svo almennt og víðtækt inngrip í stjórnarskrárvarin réttindi stefnanda eins og gert hafi verið með lögum nr. 31/2015, að félagsmenn aðildarfélaganna hafi verið sviptir möguleikanum á að vernda hagsmuni sína þvert gegn orðum 11. gr. mannréttindasáttmálans. Engin lögmæt ástæða hafi verið til að koma þannig í veg fyrir að verkföll aðildarfélaga stefnanda næðu tilgangi sínum, að knýja fram samningsniðurstöðu.

Stefnandi telji að stjórnvöldum séu afskipti af verkfallsrétti og samningsfrelsi stéttar­félaga almennt óheimil. Í ákvæði 74. gr. stjórnarskrár og 11. gr. mannréttindasáttmálans um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi felist almennt bann við afskiptum stjórnvalda og löggjafans af lögmætri starfsemi almennra félaga. Í ákvæði 74. gr. stjórnarskrár og í 11. gr. sáttmálans sé auk þess eins og fyrr sé getið sérstak­lega vísað til starfsemi stéttarfélaga og stjórnmálafélaga með þeim hætti að gjalda verði sérstakan varhug við því að stjórnvöld hafi afskipti af starfsemi slíkra félaga utan almenns lagaramma sem settur sé um starfsemi þeirra sbr. 75. gr. stjórnarskrár. Stefnandi telji að með þeim ráðstöfunum til takmörkunar á verkfallsrétti og samningsfrelsi aðildarfélaga stefnanda sem lögfestar hafi verið með lögum nr. 31/2015 hafi stefndi hlutast til um starfsemi frjálsra félaga með þeim hætti sem ekki sé samræmanlegur nútíma viðhorfum til hlutverks og heimilda stjórnvalda og löggjafans og með þessu farið út fyrir stjórnskipulegar heimildir sínar.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2002, sem fjallað hafi um bann við verkfalli sjómanna, hafi Hæstiréttur komist að þeirri niðurstöðu að með hliðsjón af 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár og alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem líta megi til við skýringu á 74. gr. og 75. gr. stjórnarskrár, yrði 1. mgr. 74. gr. hennar ekki talin fela í sér skilyrðislausa vernd verkfallsréttar stéttarfélaga. Hins vegar yrði að líta svo á að samningsfrelsi verkalýðsfélaga og beitingu verkfallsréttar mætti aðeins skerða með lögum og því aðeins að uppfyllt væru sambærileg skilyrði og í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans. Hæstiréttur hafi talið að gera yrði strangar kröfur til slíkrar lagasetningar en ekki væri hægt að útiloka að efnahagsleg áhrif verkfalla og verkbanna gætu verið svo alvarleg að ríkir almannahagsmunir gætu réttlætt tímabundið bann við þeim. Með vísan til lögskýringargagna með lögum nr. 34/2001 þótti í málinu ekki rétt að hnekkja því mati löggjafans að ríkir almannahagsmunir hefðu verið fyrir því að banna tímabundið þau verkföll og verkbönn sem orsökuðu vinnustöðvun á þeim tíma sem lögin tóku gildi. Hins vegar var ekki fallist á að almannaheill hefði krafist þess að lagasetningin tæki til þriggja félaga á svæðum þar sem vinnustöðvun var ekki í gangi. Með verkfallsbanni því sem um var fjallað í málinu var bundinn endir á verkföll sem leitt höfðu til þess að gjörvallur fiskiskipafloti landsmanna var bundinn við bryggju í sex vikur þannig að stefndi í alvarlegt efnahagslegt áfall vegna samdráttar í útflutningstekjum. Við mat á fordæmisgildi málsins telji stefnandi að hafa verði í huga ýmis sjónarmið sem leiði til þess að framganga stjórnvalda í máli því sem hér sé til úrlausnar sé enn síður fallin til að standast en þar var talið.

Óhjákvæmilegt sé þannig að benda á að í máli því sem hér sé til úrlausnar sé ekki aðeins um stjórnvöld að ræða, þriðja aðila sem grípi inn í deilu sem deiluaðilar leysi ekki, heldur einnig annan samningsaðilann sem með framgöngu sinni hyggist beita hinn ofríki með því að knýja fram sitt sjónarmið í kjaradeilunni, sbr. innskrifaðar forsendur í 3. gr. laga nr. 31/2015. Stefndi eigi þannig beinlínis aðild að því réttarsam­bandi sem krafa stefnanda lúti að. Þá telji stefnandi að með ákvæðum 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986 hafi löggjafinn fengið stjórnvöldum úrræði sem geri það að verkum að neyðarástand sem réttlæti bann við verkföllum stefnanda eigi ekki að geta komið upp. Þannig sé í 19. gr. laganna tekið fram að heimild til verkfalls samkvæmt lögunum nái m.a. ekki til þeirra sem starfi við nauðsynlegustu öryggisgæslu og heilbrigðisþjónustu. Í greininni sé ráðherra falið að birta árlega skrá um störf þeirra sem á þessum grundvelli sé óheimilt að leggja niður störf. Stefndi hafi gerð þessarar skrár þannig á sínu forræði. Þá sé í 20. gr. laganna kveðið á um að sé verkfall hafið sé heimilt að kalla starfsmenn, sem séu í verkfalli, tímabundið til vinnu í þeim tilgangi að afstýra neyðarástandi. Þessum úrræðum laganna hafi stefndi beitt. Bæði með því að birta skrá samkvæmt 19. gr. og afla undanþága samkvæmt 20. gr. þegar nauðsyn hafi krafið. Lög nr. 94/1986 hafi þannig innbyggt viðbragð til að treysta almannaheill, sem dómstólar afmarki sbr. lokamálslið 2. mgr. 19. gr. Engin rök hafi verið færð fram sem skjóti rökum undir að þetta lögbundna úrræði sé ekki fullnægjandi, sérstaklega ekki andspænis stjórnarskrárvörðum réttindum félagsmanna aðildarfélaga stefnanda, samkvæmt 74. gr. stjórnarskrár og 11. gr. mannréttindasáttmálans. Stefnandi telji raunar að því fari fjarri að nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu hafi ekki verið sinnt meðan á verkfalli aðildarfélaga stefnanda stóð. Undanþágunefndir samkvæmt 20. og 21. gr. laga nr. 94/1986 hafi starfað allan þann tíma sem verkföllin stóðu og afgreitt undanþágubeiðnir svo afstýra mætti neyðarástandi. Stefnandi mótmæli því að slík vá hafi raunverulega verið fyrir dyrum sem réttlæti svo víðtæka íhlutun í stjórnarskrárvarin réttindi sem lagasetningin er. Ríkir almanna­hagsmunir hafi ekki verið í húfi, enda verkföllin ekki haft lömunaráhrif á þjónustu í landinu, þrátt fyrir að sumir hlutar opinberrar þjónustu væru skertir meðan á verkfalli stóð. Í verkföllunum hafi veittar undanþágur samkvæmt 20. gr. laga nr. 94/1986 skipt hundruðum. Af þessu megi ljóst vera að verulegur hluti verkfallsmanna sem starfi hjá ríkinu hafi verið við störf þrátt fyrir að verkfallsaðgerðir væru í gangi.

Fari svo að talið verði að stefnda sé heimilt, í einhverjum tilfellum, að hafa afskipti af af verkfallsrétti og samningsfrelsi stéttarfélaga eins og gert hafi verið með lögum nr. 31/2015, telji stefnandi að lagasetningin hafi eigi að síður, eins og hér stóð á, verið óheimil og að ekki hafi verið staðið að lagasetningunni, hvorki aðdraganda hennar eða efni, þannig að fullnægi þeim skilyrðum sem gera verði til að stjórnvöld eða löggjafinn megi hafa slík afskipti. Þannig telji stefnandi einsýnt, með hliðsjón af fordæmi Hæstaréttar í máli nr. 167/2002, að undir engum kringumstæðum geti staðist að lagasetning um bann við verkföllum og sviptingu samningsréttar nái til félaga sem séu alls ekki í verkfalli. Þá bendi stefnandi á að engin hlutlæg greining liggi fyrir á hinni meintu neyðarstöðu. Því hafi verið haldið fram ítrekað að neyðarástand hafi verið í heilbrigðiskerfinu, án þess að nokkuð annað hafi verið sett fram en almennar alhæfingar því til stuðnings. Minnisblöð landlæknis breyti þessu ekki. Þá sé í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 31/2015, auk hins meinta neyðarástands í heilbrigðiskerfinu, fyrst og fremst byggt á tvennu. Að kjarakröfur aðildarfélaga stefnanda hafi verið umfram það sem samið hafi verið um í nýlegum samningi á almennum vinnumarkaði og gætu því skapað hættu á óstöðugleika á vinnumarkaði með víxlhækkunum verðlags og launa ef þær næðu fram að ganga og svo hinu að sagt er „Fyrir utan aðstæður á heilbrigðisstofnunum má nefna að verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættum hefur stöðvað þinglýsingar skjala og útgáfu leyfa af ýmsu tagi. Hefur þetta valdið margháttuðum erfiðleikum. Verkfall dýralækna hefur einnig komið niður á matvælaframleiðendum og velferð dýra“. Engin rök hafi verið færð fram um neinskonar neyðarstöðu hvað varði verkföll Stéttarfélags lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Dýralæknafélags Íslands hjá Matvælastofnun, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla- og næringarsviði og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins. Svo virðist sem bann laganna hafi með geðþóttaákvörðun verið látið ná til þessara verkfalla og hlutaðeigandi stéttarfélög svipt stjórnarskrárvörðum samningsrétti með einhverskonar öfugsnúinni afstöðu til jafnræðis. Sé það „efnahagsleg neyðarstaða“ að almenn hætta á óstöðugleika á vinnumarkaði með víxlhækkun verðlags og launa geti skapast ef fallist verði á kjarakröfur sem ekki hafi náð fram að ganga? Geti samningar annarra ótengdra aðila á vinnumarkaði orðið til að hneppa að lögum umfang heimilla kjarakrafna á vinnumarkaði í öðrum samningum? Hver sé þá sjálfstæður samningsréttur aðildarfélaga stefnanda? Þá sé óhjákvæmilegt að benda á að til að kröfur aðildarfélaga stefnanda næðu fram að ganga hafi þurft atbeina stefnda, samþykki, með samningum. Geti stefndi í ljósi þess að hann vilji ekki ganga að kjarakröfum stéttarfélags einfaldlega látið banna aðgerðir þess og svo náð fram sínum vilja með lögbundum forsendum?

Framsetning laga nr. 31/2015 á því hvernig gerðardómurskuli ákvarða laun félagsmanna stefnanda sé að mati stefnanda ómálefnaleg en í lögunum sé kveðið á um að gerðardómurinnskulihafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafa verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Við ákvarðanirnar skal jafnframt gæta að stöðugleika efnahagsmála“. Í þessari framsetningu felist að mati stefnanda að við ákvörðunina eigi að ákvarða starfskjör félagsmanna stefnanda á grundvelli kjaraákvarðana hópa sem séu í grundvallaratriðum mótuð á ósambærilegan hátt við það sem tíðkist um starfsmenn ríkisins. Þá felist að mati stefnanda í þessari framsetningu að við ákvörðunina eigi ekki að taka mið af samningum stefnda við aðra hópa starfsmanna ríkisins sem náð hafi kjarasamning­um undanfarin misseri þrátt fyrir að þeir séu til muna sambærilegri við félagsmenn stefnanda. Þetta eigi við t.d. lækna og framhaldsskólakennara. Í þessu telji stefnandi að felist brot á jafnræðisreglu, brot á reglunni um stjórnskipulegt meðalhóf og að lagasetningin sé reist á ómálaefnalegum sjónarmiðum og sé því að engu hafandi. Stefndi hafi ekki staðið að neinum þeim kjarasamningum sem hefðu átt að skapa vanda við samningsgerð við stefnanda. Engan hnút hafi því í raun þurft að höggva á og að mati stefnanda fari því fjarri að stefndi hafi höggvið á með hlutlausum hætti. Stefnandi telji það alvarlegan ágalla á framsetningu laganna, miðað við þau markmið sem lögunum sé sagt ætlað að ná, að gerðardómurinn sem settur sé á laggirnar með lögunum sé ekki gerðardómur. Málsaðilum sé ekki ætlaður neinn hlutur að þeim gerðardómienda sé í raun um að ræða stjórnsýslunefnd en ekki gerðardóm. Úr því að stefndi hafi talið nauðsynlegt að grípa til ráðstafana til að hlutast til um kjaradeilu stefnanda hafi honum borið að grípa til ráðstafana sem væru eins umfangslitlar og unnt var til að ná markmiði sínu. Hluti af slíkum ráðstöfunum hefði hugsanlega verið að koma á raunverulegum gerðardómi. Stefnandi vísi um þetta sem dæmi til laga um frestun verkfalls atvinnuflugmanna nr. 34/2014. Þar hafi verið kveðið á um skipan „gerðardóms“ með áþekkt hlutverk og í máli því sem hér sé til úrlausnar. Í gerðardómnum skyldu eiga sæti þrír dómendur og skyldi einn tilnefndur af Hæstarétti Íslands, einn af Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og einn af Samtökum atvinnulífsins.

Stefnandi telji að jafnvel þó rök hefðu staðið til lagasetningar hafi með lögum
nr. 31/2015 verið gengið miklu lengra en nauðsyn hefði borið til að tryggja þau markmið sem stjórnvöld settu sér. Þannig hafi stefndi brotið gegn stjórnskipu­legri meðalhófsreglu. Stefnandi telji að lagasetningin hafi verið of yfirgripsmikil og inngrip með henni í samningsfrelsi aðildarfélaga hans miklum mun víðtækara en nokkur leið sé að réttlæta með vísan til þeirrar neyðarstöðu sem stefndi taldi vera uppi. Því sé óhjákvæmilegt að taka dómkröfur stefnanda til greina. Þannig verði ekki séð að nauðsyn hafi borið til að hafa tímalengd samningshafta samkvæmt lögunum óákveðna, eins og gert hafi verið. Samkvæmt 3. gr. laganna skuli
gerðardómurinn sjálfur ákveða tímalengd ákvarðanna sinna. Með þessu sé stefndi ekki aðeins að taka sér vald sem hann megi ekki fara með heldur einnig að framselja valdið. Valdið sé framselt til stjórnsýslunefndar sem hafi óljósa og lítt afmarkaða stöðu. Nefndin hafi samkvæmt ákvæðinu óbundnar hendur til að afráða um tímalengd samningshafta að eigin geðþótta.

Stefnandi telji að með setningu laga nr. 31/2015 og þeirri umfangsmiklu skerðingu samningsréttar og verkfallsréttar sem í lögunum felist hafi stefndi einnig brotið gegn samþykktum ILO, Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98 og gegn 6. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu en íslenska ríkið hafi undirgengist skyldur samkvæmt þessum samþykktum öllum.

Stefnandi vísar til laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna félaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, laga nr. 94/1986 um kjarasamnings opinberra starfsmanna og 65., 74. og 75. gr. stjórnarskrár og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Um heimild til málsóknar vísar stefnandi til 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til stuðnings kröfum stefnanda um málskostnað vísast til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

III

Stefndi kveður stefnanda hafa höfðað mál þetta vegna átján aðildarfélaga og gert kröfur þess efnis að þeim hinum sömu  sé heimilt að efna til verkfalls í samræmi við ákvæði laga nr. 94/1986, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., 2. gr. og 3. gr. laga nr. 31/2015 og að kjör félagsmanna þessara stéttarfélaga verði ekki afráðin með ákvörðun gerðardóms samkvæmt nefndum lögum. Greinargerð sem fylgt hafi frumvarpi til laga nr. 31/2015 sé ítarleg, þar sem rakin sé nauðsyn þess að grípa þurfti til lagasetningar. Meginatriði sé að samkvæmt nærtækum upplýsingum hafi komið fram að öll hlutaðeigandi aðildarfélög stefnanda myndu starfa sameiginlega að viðræðum um launalið, og að það væri algert forgangsverkefni í yfirstandandi kjaraviðræðum. Þá  hafi einnig komið fram að áhersla stefnanda og félaganna hafi verið sú að fylgja eftir kröfum sínum með sameigin­legum aðgerðum. Aðgerðir félaganna hafi verið með mismunandi hætti allt frá verkfalli hluta úr degi yfir í ótímabundin verkföll einstakra aðildarfélaga. Sérstaklega sé vikið að því í frumvarpi til laga nr. 31/2015, sem um sé deilt, að kjarasamningar þessir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar muni reyna á þanþol hagkerfisins. Hafi verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hækkað í kjölfar samninganna og talið óhjákvæmilegt að samningarnir leiði til aukinnar verðbólgu og hækkunar vaxta. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi meðal annars ákveðið á fundi sínum 10. júní að hækka vexti bankans um 0,5%. Röksemdir fyrir hækkuninni komi fram í yfirlýsingu Peningastefnunefndar.

Í þeirri samningalotu sem yfir standi hafi þau aðildarfélög stefnanda sem talin séu upp í 1. gr. laga nr. 31/2015 öll starfað sameiginlega að viðræðum við samninganefnd ríkisins. Þau aðildarfélög stefnanda, sem ekki hafi komið sameiginlega fram með þessum aðildarfélögum og semja við ríkið, séu Félag háskólakennara, Félag háskólakennara á Akureyri, Félag leikstjóra á Íslandi, Félag prófessora við ríkisháskóla og Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Áhersla allra þeirra aðildarfélaga stefnanda, sem lagt hafi fram sameiginlegar kröfur gagnvart ríkinu, hafi verið að fylgja þessum kröfum eftir með sameignlegum aðgerðum. Hafi þessar aðgerðir félaganna verið með mismunandi hætti, allt frá verkfalli hluta úr degi yfir í ótímabundin verkföll einstakra aðildarfélaga. Alls hafi rúmlega 3.000 félagsmenn aðildarfélaga stefnanda tekið þátt í sameiginlegum aðgerðunum allra þessara félaga, þ.e. 2.333 í tímabundnum verkföllum en 676 í ótímabundnum verkföllum. Félagsmenn í öllum aðildarfélögum hafi greitt atkvæði um verkfallsaðgerðir. Heildarþátttaka hafi verið um 80% og verið þar samþykkt hjá öllum aðildarfélögunum sem talin séu upp í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 31/2015 að boða ýmist til tímabundinna verkfalla sem og ótímabundinna verkfalla hjá nokkrum aðildarfélögum sem stóðu að samfloti við kjarasamningsgerðina skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986. Í kjölfarið hafi stefnandi síðan ákveðið að setja formlega á fót verkfallssjóð sem ætlað sé að standa undir styrkgreiðslum til þeirra félagsmanna sem þegar höfðu lagt niður störf. Sé ótvírætt að um sameiginlegar aðgerðir hafi verið að ræða.

Lög nr. 31/2015 snerti meðal annarra félagsmenn tiltekinna stéttarfélaga innan stefnanda sem hafi haft með sér samflot um samningagerð. Þessi félög hafi lagt fram sameiginlegar kröfur, skipað sameiginlega viðræðunefnd og samþykkt að fylgja þeim eftir með sameiginlegum aðgerðum. Lögin hafi verið sett í kjölfar verkfallsaðgerða sem staðið höfðu frá 7. apríl 2015 eða í alls 68 daga. Ástæða lagasetningarinnar hafi, auk þess sem áður var talið, verið sú að löggjafinn hafi metið ástandið svo að verkföll í þetta langan tíma væru farin að hafa verulega neikvæð áhrif á almannahagsmuni og jafnframt sett heilbrigðisþjónustu og verkefni ríkisins í uppnám á þann hátt að ekki yrði við unað lengur. Gríðarlegir almannahagsmunir hafi verið í húfi og engar líkur til þess að samningsaðilar semdu um kjaramál sín. Við þessar aðstæður hafi það verið mat ríkisstjórnarinnar að ríkir almannahagsmunir stæðu til þess að binda endi á verfallsaðgerðir og samþykkt á sérstökum fundi fimmtudagskvöldið 11. júní 2015 að leggja fram frumvarp til að binda endi á aðgerðir félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga innan stefnanda og FÍH. Hafi frumvarp þess efnis verið lagt fram á Alþingi 12. júní og samþykkt sem lög frá Alþingi daginn eftir. Til að forða frekari áföllum hafi löggjafarvaldið talið nauðsynlegt að grípa inn í samningamál og freista þess með lögum að vísa deilunni til hlutlauss gerðardóms ef samningsaðilar næðu ekki saman fyrir 1. júlí 2015. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 31/2015 séu ástæður til lagasetningar raktar ítarlega.

Stefnandi haldi því fram að setning laga nr. 31/2015 feli í sér ólögmætt inngrip í starfsemi frjálsra, löglegra félagasamtaka. Vísi stefnandi og til þess að með setningu laganna hafi íslenska ríkið farið út fyrir heimildir sínar til slíkra afskipta. Stefndi mótmæli þessum skilningi stefnanda. Í 74. gr. stjórnarskrárinnar felist regla sem tryggi öllum borgurum frelsi til aðildar að félagasamtökum sem stofnuð séu í löglegum tilgangi og séu stéttarfélög þar sérstaklega nefnd. Frelsi stéttarfélaganna til athafna sé því tryggt í 74. gr. en sæti þó takmörkunum í ákveðnum tilvikum. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2002 hafi því verið slegið föstu að túlka bæri 74. gr. stjórnarskrár með hliðsjón af 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 92/1994. Í almennum athugasemdum í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 31/2015 sé sérstaklega litið til inntaks þeirrar verndar sem ákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar búi athafnafrelsi stéttarfélaga. Séu þar reifaðar forsendur dóms Hæstaréttar í máli nr. 167/2002. Rétturinn til verkfallsaðgerða sé því verndaður þó svo að sú vernd sé ekki án skilyrða. Ákvæðið veiti þannig ekki minni vernd en 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Í dóminum komi jafnframt fram að ákvæðið verndi ekki einungis rétt manna til að standa vörð um og tryggja hagsmuni félagsmanna sinna. Samningsfrelsi stéttarfélaga sé leið að slíku marki og njóti sérstakrar verndar. Líta verði svo á að verkfallsrétturinn sé hluti af samningsfrelsi þeirra þegar litið sé til þess eðlis hans að hann sé lögbundin leið til að knýja gagnaðila til að ganga til samninga. Takmörkun á réttinum megi eiga sér stað með lögum eða öðrum sambærilegum skilyrðum líkt og þeim sem fram komi í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans. Þá bendi stefndi sérstaklega á að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. sáttmálans geti réttur opinberra starfsmanna á þessu sviði sætt enn frekari takmörkunum en réttur starfsmanna á almennum markaði. Segi þar að ákvæði greinarinnar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti. Verði því að draga þá ályktun að verkfallsréttur opinberra starfsmanna og þeirra sem sinni lögbundnum verkefnum í opinberri sýslan sé háður takmörkunum og frekari skilyrðum.

Í 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár sé kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þ.m.t. stéttarfélög. Þá segi í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár að í lögum skuli kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Þessi ákvæði hafi verið skýrð í ljósi alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt eða lögleitt, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála. Þótt stjórnarskráin eða sáttmálinn tryggi verkfallsréttinn ekki berum orðum hafi Hæstiréttur og mannréttindadómstóll Evrópu talið að hann njóti verndar á grundvelli túlkunar viðkomandi ákvæða en sú vernd sé ekki skilyrðislaus. Rétturinn til að semja um starfskjör sé hins vegar verndaður berum orðum í 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár þótt því sé síðan vísað til löggjafans að útfæra nánar hvert inntak þess réttar skuli vera. Verkfallsrétturinn hafi þó verið túlkaður afar þröngt hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni en hins vegar hafi á síðustu áratugum á Alþingi reglulega verið samþykkt löggjöf þar sem lagðar hafi verið hömlur á samningsfrelsi stéttarfélaga. Hafi Hæstiréttur þó viðurkennt takmörkun samningsréttar við þær aðstæður þegar verkfallsréttur hafi sætt tímabundnu banni lögum samkvæmt. Sé ekki stoð fyrir þeirri málsástæðu að afskipti af samningsrétti og verkfallsrétti séu almennt óheimil. Þá séu óraunhæfar málsástæður stefnanda um að annar samningsaðili hafi gripið inn í deiluna. Gera verði greinarmun á löggjafanum annars vegar og samningsaðilum hins vegar.

Eins og ítarlega sé rakið í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 31/2015 hafi þau meginskilyrði sem megi leiða til þess og réttlæta að skerða megi verkfallsrétt og samningsfrelsi launþega verið reifuð. Þáttur í mati á nauðsyn hafi samkvæmt athugasemdum löggjafans verið að meðalhófs væri gætt, en ekki sé augljóst að meðalhófsregla eigi við. Mat löggjafans á nauðsyn sé meginatriðið að mati stefnda. Sérstök sjónarmið geti svo átt við um ríkisstarfsmenn í vissum tilvikum eins og fyrr sé rakið. Byggi stefndi á því að þessi skilyrði séu uppfyllt og að meðalhófs hafi verið gætt. Stefndi byggi á því að umrædd skerðing verkfallsréttar byggðist á lögum og hún verið í þágu almannahagsmuna og vegna réttinda annarra. Sé ljóst af dómi Hæstaréttar í málinu nr. 167/2002 að lagasetning þurfi ekki að vera almenn heldur geti löggjafinn gripið inn í tilteknar kjaradeilur. Í 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmála sé vísað til „almannaheilla“, þess að „firra glundroða“, „til verndar heilsu“ eða „réttindum“ annarra. Í II. kafla almennra athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 31/2015 sé farið rækilega yfir þá almannahagsmuni sem í húfi voru. Lögunum hafi verið ætlað að tryggja að lausn næðist í kjaradeilu með þeim hætti að efnahagslegum stöðugleika væri ekki stefnt í voða. Hafi það skýrt komið fram það mat löggjafans að verkföll undir formerkjum sameiginlegra krafna aðildarfélaga stefnanda og sameiginlegra aðgerða hefðu staðið lengi og skaðað mikilvæga starfsemi án þess að lausn væri í sjónmáli. Kröfugerð stefnanda og aðildarfélaga hafi verið langt umfram þær hækkanir sem samið hefði verið um á almennum vinnumarkaði og sé því ekki mótmælt í stefnu. Yrðu þær teknar til greina myndi það ekki aðeins ógna efnahagslegum stöðugleika heldur væri augljós hætta á að samningar á almennum markaði yrðu í uppnámi. Það hefði ófyrirséðar afleiðingar fyrir vinnumarkaðinn í heild og samfélagið. Hafi frumvarpinu verið ætlað að treysta forsendur stöðugleikans. Stefndi telji ótækt að mati löggjafans um þessi atriði verði hnekkt. Um hafi verið að ræða málefnalegt markmið til almannaheilla og brýna nauðsyn. Eins og ráða megi af nefndum dómi Hæstaréttar séu það málefnaleg sjónarmið að efnahagsleg áhrif verkfalla geti verið svo alvarleg að ríkir almannahagsmunir gætu réttlætt tímabundið bann við þeim. Þessar ástæður hafi leitt til þess að setja hafi orðið tímabundið bann við verkföllum umræddra aðildarfélaga sem höfðu uppi sameiginlegar kröfur og aðgerðir. Lagasetning hafi því verið óhjákvæmileg. Í frumvarpinu hafi komið fram að verkfall ýmissa stéttarfélaga innan stefnanda og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hefðu þegar valdið miklu tjóni á mörgum sviðum, en viðræður við þau hefðu reynst árangurslausar. Launakröfur þessara félaga væru langt umfram þær launahækkanir sem samið var um við stærstan hluta almenna vinnumarkaðarins 29. maí 2015. Hafi það verið metið svo að augljós hætta væri á að launahækkun til félagsmanna stefnanda og FÍH, umfram það sem þegar hefði verið samið um á almennum vinnumarkaði, hefði neikvæð áhrif á aðra kjarasamninga og stöðugleika á vinnumarkaði sem fyrr segi. Væri brýnt að launastefna hins opinbera kæmi ekki af stað víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefðu í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Ef fallist hefði verið á kröfur stefnanda og FÍH væri viðbúið að þeir kjarasamningar sem þegar hefðu verið undirritaðir á almenna vinnumarkaðnum yrðu felldir í þeim atkvæðagreiðslum sem þá hefðu staðið yfir eða þeim sagt upp við fyrsta mögulega tækifæri. Yrði þetta ráðið af þessum kjarasamningum, sbr. 7. gr. í samningum þeim sem gerðir voru 29. maí 2015 en virk forsenda væri til uppsagnar þeirra af þessum sökum. Lagasetningin hafi því verið brýn varðandi vinnumarkaðinn í heild og stöðugleika efnahagsmála. Frumvarpi því sem varð að lögum nr. 31/2015 hafi verið ætlað að treysta forsendur stöðugleikans og að efnahagsleg áhrif verkfalla stefnanda og FÍH gætu orðið svo alvarleg að ríkir almannahagsmunir réttlættu tímabundið bann við þeim.

Stefndi byggi á því að lög nr. 31/2015 hafi þjónað lögmætum markmiðum og svarað brýnni þörf. Ekki hafi verið gengið lengra en nauðsyn hafi krafist í ljósi 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans. Ljóst hafi verið að aðilar myndu ekki ná saman um gerð kjarasamnings, en lögð hafi verið áhersla á að samningsaðilar næðu saman um kjarasamning á eigin forsendum og að lagasetning væri neyðarúrræði. Þrátt fyrir verkföll og stíf fundarhöld hafi deiluaðilar verið engu nær og heldur fjarlægst eftir að kjarasamningar tókust við stóran hluta almenna vinnumarkaðarins. Samningaleiðin hafi verið þrautreynd að mati ríkisstjórnarinnar. Of mikið hafi borið í milli. Byggi stefndi á því að lögin byggi á málefnalegu mati, þau séu í samræmi við meðalhófsreglu og að brýnt tilefni hafi verið til setningar þeirra í almannaþágu. Uppfyllt séu öll þau skilyrði sem 74. gr. stjórnarskrár setji að því leyti sem verkfallsréttur njóti verndar í ljósi 11. gr. mannréttindasáttmálans. Sé á því byggt að lagasetningin hafi verið nauðsynleg vegna þeirra verkfalla sem stóðu yfir í skjóli sameiginlegra aðgerða stefnanda. Þá skipti grundvallarmáli að ríkið geti sinnt lögbundnum skyldum sínum og þjónustu. Verkfallsaðgerðir á heilbrigðisstofnunum komi niður á heilsu sjúklinga, allt eftir umfangi aðgerðanna og því hvernig hægt sé að mæta þeim. Verkfallsaðgerðir hjá sýslumanns­embættum og Matvælastofnun komi niður á réttindum annarra því þær hefðu neikvæð áhrif á ráðstöfun eigna, viðskipti og framleiðslu svo fátt eitt sé nefnt, auk þess að valda miklu tjóni. Þá komi verkföll starfsmanna Fjársýslunnar niður á allri greiðslumiðlun ríkisins. Augljóslega hafi verið um neyðarúrræði að ræða til að stöðva verkföll í skjóli sameiginlegra aðgerða sem beint hafi verið að svo viðkvæmum þáttum í samfélaginu.

Stefndi mótmæli að því hafi farið fjarri að nauðsynlegustu heilbrigðis- og öryggisþjónustu hafi verið sinnt meðan á verkfalli aðildarfélaga stefnanda stóð. Verkfallsaðgerðirnar hefðu haft verulega röskun í för með sér á ýmsum sviðum, en þó sérstaklega í heilbrigðisþjónustu. Aðgerðir stefnanda hafi beinst sérstaklega að stafsemi sjúkrahúsa og tengdri starfsemi sem ekki geti varist eða brugðist við aðgerðum nema í algerri neyð, sbr. 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986. Embætti landlæknis hafi sent heilbrigðisráðherra tvö minnisblöð í maí 2015 sem tekin hafi verið upp í athugasemdum með frumvarpinu. Áhersla hafi verið lögð á alvarleika málsins og hversu brýnt væri að gera allt sem hægt væri til að tryggja öryggi þeirra sem til heilbrigðiskerfisins leituðu. Með minnisblaði landlæknis til ríkisstjórnarinnar 4. júní 2015, hafi komið fram að, í ljósi gagna sem embættið hafði undir höndum frá viðkomandi stofnunum og frá einstökum sjúklingum, að embættið lagði ríka áherslu á alvarleika málsins og að verkföllum yrði að ljúka tafarlaust, ef ekki ætti illa að fara. Jafnframt hafi komið fram að það ástand sem skapast hefði væri óþolandi og kæmi til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustuna bæði til skamms tíma og lengri tíma litið og bæru stjórnvöld ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti. Strax 11. maí 2015 hafi það verið álit landlæknis að verkfall félagsmanna stefnanda ógnaði öryggi sjúklinga. Það hafi verið mat ríkisstjórnarinnar að á þessu sviði væru svo ríkir almannahagsmunir í húfi til að ljúka verkfallsaðgerðum stefnanda og FÍH að hún samþykkti á fundi sínum 11. júní 2015 að leggja fram frumvarp fyrir Alþingi sem legði bann við verkfallsaðgerðum.

Stefndi mótmæli og því mati stefnanda að engin greining liggi fyrir á neyðarstöðu. Minnisblöð embættis landlæknis gefi skýrt til kynna þá greiningu embættisins að neyðarástand hafi verið í heilbrigðiskerfinu. Í minnisblaðinu frá 26. maí 2015 til heilbrigðisráðherra komi fram að í ljósi þeirra gagna sem embættið hefði undir höndum frá viðkomandi stofnunum var rík ástæða lögð á alvarleika málsins og hversu brýnt það var að gera allt sem hægt var til að tryggja öryggi þeirra sem til heilbrigðiskerfisins leituðu. Hafi þessi afstaða síðan verið ítrekuð í minnisblaðinu frá 4. júní 2015 til ríkisstjórnar þar sem jafnframt hafi komið fram í minnisblaðinu að stjórnendur stofnana hefðu notað hugtök eins og fordæmalaust ástand og neyðarástand yfir þær aðstæður sem skapast hefðu, þrátt fyrir að allt hafi verið gert sem hægt væri til að tryggja lágmarksþjónustu og öryggi sjúklinga. Málsástæður stefnanda um annað væru óraunhæfar og engum gögnum studdar. Samkvæmt lögum nr. 47/2007, um landlækni og lýðheilsu, væri það eitt af meginhlutverkum landlæknis að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu og veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum ráðgjöf og fræðslu um málefni á verksviði embættisins. Samkvæmt 7. gr. laganna skuli landlæknir og hafa reglubundið eftirlit með því að heilbrigðisþjónusta sem veitt væri hér á landi uppfyllti faglegar kröfur og ákvæði heilbrigðislöggjafar á hverjum tíma. Þá væri vikið nánar að ráðgjafarhlutverki landlæknis í almennum athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 47/2007. Í ljósi þessa hafi það verið mat ríkisstjórnarinnar og löggjafans að það lögbundna úrræði sem 19. og 20. gr. laga nr. 94/1986 veitti væri engan veginn fullnægjandi til að afstýra því neyðarástandi sem fram kom í minnisblaði embættis landlæknis. Í framsöguræðu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra með frumvarpinu á Alþingi hafi meðal annars verið reifuð áhrif verkfallsaðgerða á heilbrigðisþjónustu og aðra þjónustu ríkisins. Þetta mat ríkisstjórnarinnar á því ástandi sem skapast hafði á heilbrigðisstofnunum hafi verið ítrekað af hálfu embættis landlæknis á opinberum vettvangi, meðal annars sem viðbrögð við fullyrðingu af hálfu forsvarsmanna stefnanda og FÍH að ekki hafi verið komin upp sú neyðarstaða í heilbrigðiskerfinu að nauðsynlegt hafi verið að stöðva verkföllin. Vísist hér til fréttar Ríkisútvarpsins. Hafi komið fram hjá aðstoðarlandlækni að embættið væri gjörsamlega ósammála og embættið hefði bent á það að þetta gengi ekki svona. Einnig hafi komið fram hjá landlækni að þetta ástand hefði ógnað öryggi sjúklinga, valdið þjáningum, óvissu og óöryggi og að þessu þyrfti að linna með einum eða öðrum hætti. Jafnframt hafi komið fram í ummælum hans að það væri ekki þeirra að segja nákvæmlega hvernig það yrði gert en þeir teldu að þetta gæti ekki gengið svona áfram.

Stefndi byggi á því að meðalhófs hafi verið gætt við setningu laganna. Mótmæli stefndi þeirri fullyrðingu stefnanda að svo virðist sem bann laganna hafi með geðþóttaákvörðun verið látið ná til verkfalla Stéttarfélags lögfræðinga hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Dýralæknafélags Íslands hjá Matvælastofnun, Stéttarfélags háskólamanna á matvæla og næringarsviði og Félags háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins og hlutaðeigandi stéttarfélög svipt stjórnarskrárvörðum samningsrétti með einhvers konar öfugsnúinni afstöðu til jafnræðis. Við meðferð frumvarps og setningu laganna hafi sérstaklega verið horft til meðalhófsreglu og að ekki væri gengið lengra en þörf krefði. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 hafi þau félög, sem rétt hafi til samningsgerðar skv. 4. og. 5. gr. laganna, frelsi til að ákveða að ganga sameiginlega til kjarasamningsgerðar. Mannréttindadómstóll Evrópu hafi við túlkun á ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmálans horft til orðanna „til verndar hagsmunum sínum“ að þau vörðuðu það að launþegar ættu rétt á að vera aðilar að og stofna stéttarfélög sem stæðu vörð um hagsmuni félagsmanna með virkum hætti og hefðu til þess nægilegt svigrúm. Í dómaframkvæmd um túlkun á 11. gr. sáttmálans hafi verið fjallað beint og óbeint um þær heimildir sem stjórnvöld hefðu til afskipta af málefnum stéttarfélaga. Hefði meðal annars verið horft til þess að hefði löggjafinn sett upp kerfi sem byggt væri upp á samningsfrelsi, sjálfstæði stéttarfélaga og verkfallsrétti þá veitti 11. gr. sáttmálans vernd gegn íhlutun stjórnvalda nema hún félli undir undantekningarsjónarmiðin um takmörkun. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 hefði löggjafinn kveðið á um það að stéttarfélög, sem rétt hefðu til samningsgerðar skv. 4. og 5. gr. laganna, gætu haft samflot eða samvinnu um að gera kjarasamninga sameiginlega að öllu leyti eða að hluta til. Hafi það verið mat löggjafans að íhlutun í þá ákvörðun stéttarfélaganna að koma fram sameiginlega samkvæmt heimild í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986 fæli í sér of mikla íhlutun í innra skipulag og starfsemi stéttarfélaga, samningsfrelsi og gerð kjarasamninga að hún fullnægði ekki þeim skilyrðum sem 2. mgr. 11. gr. sáttmálans kvæði á um. Þessar sameiginlegu aðgerðir hefðu haft almenn áhrif og tilgang þannig að beita mætti sem mestum þrýstingi gagnvart starfsemi sem ríkið sinnti eftir lagaskyldu á ýmsum sviðum og þeim viðkvæmustu. Staðið hafi verið fyrir verkföllum á heilbrigðisstofnunum og þar sem vinnustöðvun hefði gríðarleg áhrif og þær aðgerðir hafi verið í skjóli sameiginlegra aðgerða stefnanda og aðildarfélaga. Þess vegna hafi verið rökrétt að lögin tækju til allra þeirra félaga sem væru í samfloti, ekki aðeins um kröfur til launa og kjara heldur aðgerðir til að fylgja þeim eftir. Þar sem öll þau aðildarfélög stefnanda, sem tilgreind væru í 1. gr. laga nr. 31/2015, hafi kosið að leggja fram sameiginlegar kröfur sem þau fylgdu eftir með sameiginlegum aðgerðum, hafi það verið mat löggjafans að rétt væri leggja til bann við verkföllum allra þeirra aðildarfélaga stefnanda sem voru í samfloti í aðgerðum. Órökrétt hefði verið miðað við þessar aðstæður undir merkjum stefnanda að taka tiltekin félög, sem í samfloti voru, út úr. Þá hafi einnig verið rökrétt og í samræmi við jafnræðisreglu, þar sem gerðardómur væri óhjákvæmilegur við þessar aðstæður, að lögin tækju til allra þeirra aðildarfélaga sem í samfloti væru auk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Í þessu ljósi hafi brýnar ástæður verið fyrir lögunum og að þau tækju til þessara 18 aðildarfélaga auk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Stefndi vísi til gagna sem sýni hversu mikil áhrif þessara verkfalla hafi verið á heilbrigðisstofnanir, Matvælastofnun, embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og Fjársýsluna. Ásamt því, sem fyrr sé rakið, sé ljóst að brýn þörf hafi verið á að löggjafinn gripi inn í þetta ástand. Ótvírætt sé samkvæmt mati landlæknis og þessum gögnum að hættuástand hafi skapast á heilbrigðisstofnunum og stjórnsýslan lömuð á mikilvægum sviðum. Breyti þá engu málsástæður stefnanda um úrræði til að afstýra neyðarástandi í tilteknum tilvikum. Sé málsástæðum stefnanda sem að þessu lúti með vísan til 19. til 21. gr. laga nr. 94/1986 mótmælt. Hafi stéttarfélögin höfðað mál til að fá störf felld niður af undanþágulistum og ítrekað lagst gegn undanþágum. Sé augljóst að verkföll og hinar sameiginlegu aðgerðir hefðu haft lömunaráhrif í samfélaginu og hættuástand verið uppi. Rétt sé að nefna að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2002 hafi ekki verið fallist á að almannaheill hafi krafist þess að lagasetningin tæki til þriggja félaga á svæðum þar sem vinnustöðvun var ekki í gangi. Við mat á fordæmisgildi dóms Hæstaréttar í málinu verði að mati stefnda að hafa sérstaklega í huga að lög nr. 94/1986 hefðu að geyma sérstakar reglur sem takmarki félagafrelsi og verkfallsrétt opinberra starfsmanna meira en það sem gildi á almennum vinnumarkaði. Þá hafi aðildarfélögin starfað sameiginlega að kjarasamningsgerð, þau verið með sameiginlega samninganefnd, með sameiginlegar kröfur sem þau hafi fylgt eftir með sameiginlegum aðgerðum. Þau hafi hvert og eitt greitt atkvæði um sameiginlegar aðgerðir og sett á fót verkfallssjóð sem ætlað hafi verið að standa undir styrkgreiðslum til þeirra félagsmanna sem þegar hefðu lagt niður störf.

Stefndi byggi einnig á að lög hafi um langa hríð sett verkföllum bönn eða veigamiklar skorður, einkum opinberum starfsmönnum. Félagsmenn aðildarfélaga stefnanda hafi í reynd ekki fengið verkfallsrétt fyrr en með lögum nr. 94/1986 þar sem mælt hafi verið fyrir um í 14. gr. að heimild stæði til verkfalls þrátt fyrir ákvæði laga nr. 33/1915, sem almennt hafi lagt bann við verkföllum. Afskipti löggjafans af verkföllum opinberra starfsmanna væru mikil og hefðu verið lengi. Takmörkunarreglur snéru aðallega að því er varði rétt opinberra starfsmanna til aðildar að stéttarfélögum, samningsréttar, fyrirsvar við samningsgerð og verkfallsréttar. Væru í löggjöfinni veigamikil og víðtæk bönn við verkföllum þeirra. Lög nr. 94/1986 hafi verið fyrstu heildarlögin sem haft hefðu það hlutverk að ná til stéttarfélaga allra opinberra starfsmanna. Við mat á samfloti félaganna hafi meðal annars verið horft til þess að á heimasíðu stefnanda kæmi fram að öll hlutaðeigandi aðildarfélög stefnanda myndu starfa sameiginlega að viðræðum um launalið, enda væri það samdóma mat allra félaganna að launaleiðrétting væri algert forgangsverkefni í yfirstandandi kjaraviðræðum. Stefndi byggi á að þótt bannið við verkföllum tæki gildi þegar í stað væri ekki gripið inn í frelsi til að gera samninga fyrr en að ákveðnum tíma liðnum. Aðilum hafi þannig verið gefinn frestur til að ná samningum. Væri ljóst að þessi leið gengi skemmra en ef gerðardómur hefði umsvifalaust tekið til starfa. Þá væri ljóst að aðilar gætu stofnað til kjarasamnings þótt gerðardómur hefði tekið til starfa. Samkvæmt lögunum væru verkföll bönnuð í tiltekinn tíma samkvæmt nánari ákvörðun gerðardóms. Ef ekki næðist samningar fyrir tiltekið tímamark tæki hlutlaus og sjálfstæður gerðardómur til starfa og ákveddi launabreytingar þeirra ríkisstarfsmanna sem í hlut ættu. Teldi stefndi því að í ljósi þeirra almannhagsmuna og nauðsynjar sem rakin væri hafi verið kveðið á um sanngjarna og réttláta leið til að leysa úr deilunni. Væri rétt að taka fram að Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefði þegar undirritað kjarasamning sem nú væri borinn undir félagsmenn í atkvæðagreiðslu.

Þá bendi stefndi á að með aðgerðum stefnanda hafi félögin nýtt rétt sinn til verkfallsaðgerða. Samningsfrelsið og verkfallsrétturinn hafi þannig náð tilgangi sínum upp að því marki sem nyti verndar 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála. Komið hafi verið að því tímamarki að aðgerðirnar hafi stefnt almannahagsmunum og réttindum annarra í hættu og verið nauðugur einn kostur að leggja til við Alþingi að verkfallsaðgerðir yrðu stöðvaðar. Bannið við verkföllum hafi einnig, samkvæmt lögum nr. 31/2015, verið afmarkað þannig að félögin gætu neytt verkfallsréttar síns á ný að ákveðnum tíma liðnum. Væri ítrekað að fyrirséð hafi verið að úrræði sem ríkissátta­semjari réð yfir hafi ekki dugað til að leysa kjaradeilur aðila. Ríkissáttasemjari hefði ekki boðað til nýs fundar samningsaðila og mátt draga þá ályktun að hann mæti stöðuna svo að miðlunartillaga, sbr. 27. til 34. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, bæri ekki árangur. Ljóst hafi verið orðið að verkfallsaðgerðirnar hefðu haft verulega neikvæð áhrif á almannahagsmuni og sett verkefni ríkisins í uppnám. Að auki hafi verið hættuástand, sem falið hafi í sér að lífi, heilsu eða öryggi manna yrði stefnt í hættu, hafi fljótlega getað skapast innan heilbrigðiskerfisins. Hafi mjög ríkir almannahagsmunir staðið til þess að störf á heilbrigðisstofnunum landsins kæmust í eðlilegt horf, þannig að lög sem fælu í sér bann við verkfalli þeirra félagsmanna stefnanda sem störfuðu á heilbrigðisstofnunum ættu tvímælalaust rétt á sér við þær aðstæður sem skapast höfðu. Ríkir almannahagsmunir og eða réttindi annarra hafi einnig staðið til þess að bundinn yrði endi á verkföll hjá starfsmönnum sýslumanns, dýralæknum, líffræðingum og matvæla- og næringar­fræðingum hjá Matvælastofnun, svo og starfsmönnum Fjársýslunnar. Hefði stefndi lagt fram ítarleg gögn sem sýndu áhrif þessara verkfalla og hvernig sameiginlegar aðgerðir af hálfu stefnanda hafi komið niður á lögbundum verkefnum hins opinbera á þann hátt að ekki hafi mátt við svo búið standa.

Ítrekað sé að um hafi verið að ræða samflot innan raða stefnanda um aðgerðir, fullreynt að kjarasamningur tækist og útséð að deilan leystist ekki. Kröfur hafi verið langt umfram það sem samið hafði verið um á almennum markaði, efnahagsleg markmið og efnahagslegur stöðugleiki í hættu jafnframt því sem kröfugerð stefnanda og aðildarfélaga hefði sett vinnumarkaðinn í heild í uppnám með ófyrirséðum afleiðingum. Verkfallsaðgerðir höfðu staðið í langan tíma í skjóli sameiginlegra aðgerða stefnanda, hættuástand hafði skapast og lögbundin verkefni og stjórnsýsla lamast á ýmsum sviðum. Sýni mat löggjafans og gögn málsins ótvírætt að aðgerðir hafi verið sameiginlegar og beint að viðkvæmustu þáttum heilbrigðisþjónustu og lögbundinni opinberri sýslan til stuðnings sameiginlegum kröfum aðildarfélaganna. Stefndi byggi á að þegar þessi veigamiklu rök séu virt í heild og að verkfallsréttur njóti ekki skilyrðislausrar verndar, sé ekki kleift að víkja lögum til hliðar að hluta eða heild.

Stefndi mótmæli kröfum og málsástæðum stefnanda um að ákvæði laga nr. 31/2015 um gerðardóm standist ekki stjórnarskrá. Stefndi telji, á grundvelli sömu raka og fyrr, ekki efni til að víkja lögum til hliðar varðandi skipan gerðardóms eða efnisákvæða um hlutverk hans. Gerðardómur sé eitt þeirra úrræða sem gripið hafi verið til í lögum þegar sett sé bann á verkföll eða þau takmörkuð á einhvern hátt. Sé það að mati stefnda nauðsynlegt til að lögfesta úrræði svo að skera megi tímabundið úr kjaradeilum aðila. Lög nr. 31/2015 kveði á um að kjaramál tiltekinna stéttarfélaga innan raða stefnanda skuli ákveðin með gerðardómsmeðferð miðað við nánar tilgreindar forsendur. Skuli gerðardómurinn hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geti talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð og, eftir atvikum, kjarasamningum sem undirritaðir hafi verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Sé mótmælt tilgátum stefnanda um hvernig gerðardómur skuli ákvarða laun félagsmanna stefnanda, hún sé ómálefnaleg eða að stefndi hafi jafnframt sem annar samningsaðili beytt hinn ofríki með því að knýja fram sitt sjónarmið í kjaradeilunni með innskrifaðar forsendur í 3. gr. laga nr. 31/2015. Samkvæmt orðanna hljóðan sé það skýrt samkvæmt ákvæðinu að gerðardómurinn skuli fyrst og fremst hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geti talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. Engin stoð sé fyrir því að í þessari framsetningu felist að við ákvörðunina eigi að ákvarða starfskjör félagsmanna stefnanda á grundvelli kjaraákvarðana hópa sem séu í grundvallaratriðum mótuð á ósambærilegan hátt við það sem tíðkist um starfsmenn ríkisins. Þá sé stefndi ekki sammála þeirri túlkun stefnanda að í þessari framsetningu felist að við ákvörðunina eigi ekki að taka mið af samningum ríkisins við aðra hópa starfsmanna ríkisins sem náð hafi kjarasamningum undanfarin misseri. Samkvæmt orðanna hljóðan geti gerðardómurinn eftir atvikum annars vegar haft hliðsjón af kjarasamningum sem undirritaðir hafi verið frá 1. maí 2015 eða hins vegar almennri þróun kjaramála hér á landi þegar hann taki ákvörðun um laun félagsmanna stefnanda samkvæmt 1. gr og önnur starfskjör. Orðalagið „eftir atvikum“ verði að skýra eftir orðanna hljóðan. Sú skýring geti leitt til þess að gerðardómurinn ákveði að horfa til beggja atriðanna, annars þeirra eða að hafa enga hliðsjón af þeim. Hann verði hins vegar alltaf að hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geti talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. Stefnandi geti því ekki gefið sér þá túlkun sem komi fram í stefnu.

Stefndi mótmæli einnig að ágalli sé á framsetningu laganna með því að gerðardómurinn sé settur á með lögum en sé ekki gerðardómur. Vel sé þekkt að settar séu á laggir með lögum lögbundnir gerðardómar. Hljóti að felast málefnalegt mat löggjafans að dómurinn sé skipaður fólki sem Hæstiréttur tilnefni. Ákvæði um fyrirkomulag gerðardómsmeðferðar hafi verið til þess að leysa erfiða kjaradeilu af hlutlausum gerðardómi, á grundvelli málefnalegra málsmeðferðarreglna. Sé ætlunin samkvæmt lögum að tryggja ýtrasta hlutleysi við skipun dómenda og ákvarðanir yrðu teknar á sanngjarnan og óvilhallan hátt. Gert hafi verið ráð fyrir málflutningi aðila fyrir dóminum og heimildum gerðardómsins til að afla gagna og kalla eftir nauðsynlegum útskýringum til að tryggja að aðilar kæmu sínum sjónarmiðum á framfæri og hefðu með þeim hætti áhrif á niðurstöðu gerðardómsins. Með því að setja á laggirnar gerðardóm til að ákveða kjaramál félagsmanna í áðurnefndum félögum sé leitast við að ganga ekki lengra en nauðsynlegt hafi verið í að skerða rétt aðila þrátt fyrir þá alvarlegu stöðu sem upp hafi verið komin. Um fyrirkomulag við skipan gerðardómsins megi í dæmaskyni vísa til laga nr. 117/2004, um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum, en þar hafi sami háttur verið hafður á um skipan gerðardóms. Samningar hafi hins vegar tekist á milli aðila áður en til þess kom að gerðardómurinn tæki til starfa samkvæmt lögunum. Sú skipan gerðardóms sem stefnandi bendi á sem dæmi samkvæmt lögum nr. 34/2014, um frestun verkfalls atvinnuflugmanna, hafi eingöngu verið notuð í vinnudeilum á almenna vinnumarkaðinum. Þar hafi auk þess verið um eitt stéttarfélag að ræða gagnvart einu fyrirtæki. Byggi stefndi á því að ákvæði laga nr. 31/1915 um gerðardóm séu hliðstæð þeim sem dæmt hafi verið um í Hæstaréttarmálinu nr. 167/2002.

Stefndi mótmæli þeim skilningi stefnanda að ákvæði 3. gr. laganna um gildistíma ákvarðana gerðardóms feli í sér ólögmætt framsal valds. Verkefni gerðardóms og viðmiðanir til hans séu vel skilgreind í lögunum og þar á meðal hvernig meta skuli væntanlegan gildistíma. Telji stefndi því að kröfum um lagaáskilnað sé fullnægt. Útilokað sé að gefa sér að ákvörðun gerðardómsins muni ekki fylgja þessum fyrirfram skilgreindu viðmiðunum á hóflegan hátt. Kveðið sé á um það í lögunum, að gerðardómurinn skuli hafa til hliðsjónar kjör þeirra sem sambærilegir geti talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð. Einnig skuli gerðardómurinn eftir atvikum hafa til hliðsjónar kjarasamninga sem undirritaðir hafi verið frá 1. maí 2015 og almennri þróun kjaramála hér á landi. Það að gerðardómurinn eigi, eftir atvikum, að taka mið af kjarasamningum frá 1. maí 2015 þýði m.a. svipaða tímalengd kjaraákvarðana og í sambærilegum og nýlegum kjarasamningum. Þetta byggi á málefnalegum sjónarmiðum sem ætlað sé að tryggja hlutlausa málsmeðferð og eðlilegar niðurstöður. Sé augljóst að ákvörðun gerðardóms, ef til komi, verði aðeins tímabundin. Þá komi lögin ekki í veg fyrir að aðilar geti gert með sér kjarasamning þótt gerðardómurinn hafi tekið til starfa. Stefndi mótmæli því einnig að jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin með lögun nr. 31/2015. Gerðardóminum sé ætlað, eftir atvikum, að taka mið af sambærilegum kjarasamningum síðustu mánaða eftir því sem við ætti. Kjarasamningar séu að þessu leyti mismunandi og eigi að vera það en að öðrum kosti væri ekkert samningafrelsi. Jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár sé því ekki brotin eða raski fyrirkomulagi kjarasamninga. Ákvæði 1. gr. laga nr. 31/2015 taki til allra þeirra sem þar séu nefndir og verið hafi í verkfalli eða samfloti um verkfallsaðgerðir. Með þeim öllum sé jafnræði hvað varði áhrif lagasetningarinnar og innbyrðis mismunun því ekki fyrir hendi.

Með vísan til alls framangreinds telji stefndi að ekki verði dregnar þær ályktanir að félagafrelsi í skilningi 74. gr. stjórnarskrár, sbr. 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, hafi verið skert. Grundvelli viðkomandi stéttarfélaga og stefnanda til félagafrelsis sé ekki raskað á neinn hátt með lögunum. Þau muni halda áfram starfsemi sinni og áfram sinna því hlutverki sínu að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna. Lagasetningin breyti því engu um starfsemi félaganna. Lögin hafi að mati löggjafarvaldsins verið neyðarráðstöfun og bráðnauðsynlegt þótt að binda endi á kjaradeilu sem komin hafi verið í óleysanlegan hnút. Með gerðardómsákvæðum laganna hafi verið tryggð málefnaleg og hlutlaus málsmeðferð og tryggt að sjónarmið aðila kæmust að. Um gildistíma ákvörðunar gerðardóms sé honum fengið það svigrúm að hann skuli við ákvörðun sína hafa til hliðsjónar gildistíma þeirra kjarasamninga sem undirritaðir hafa verið, sbr. ummæli um 3. gr. í frumvarpi til laga nr. 31/2015. Með lögun nr. 31/2015 hafi verkfallsréttur tiltekinna félagsmanna stefnanda verið skertur um tiltekinn tíma og gerðardómsmeðferð ákveðin í sömu lögum til þess að fá fram niðurstöðu í óleysanlegu deilumáli. Þeir aðilar sem 1., 2. og 3. gr. laganna sé ætlað að taka til, séu tæmandi taldir í 1. gr. laganna og þar aðeins um að ræða þá aðila sem hafi verið í verkfalli, staðið að sameiginlegum verkfallsaðgerðum eða sameiginlegum kjaraviðræðum á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 94/1986. Þrátt fyrir að bann væri lagt við vinnustöðvuninni frá gildistöku laganna hafi deiluaðilum verið gefinn frestur til 1. júlí 2015 til að ljúka samningum. Hafi þetta miðað að því að ganga ekki lengra en nauðsynlegt hafi verið í að skerða rétt aðila þrátt fyrir þá stöðu sem upp hafi verið komin. Ef samningar takist ekki fyrir þann tíma muni Hæstiréttur á grundvelli laganna tilnefna gerðardóm þriggja manna sem falið verði að taka ákvarðanir varðandi kjaramál félagsmanna í áðurnefndum félögum.

Af hálfu stefnda sé því mótmælt að með lagasetningunni hafi verið brotið gegn samþykktum ILO, Alþjóða vinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98 og 6. gr. Félagsmálasáttmála Evrópu. Íslensk lög gildi hér á landi og þjóðréttarlegar skuldbindingar víki ekki íslenskum lögum til hliðar nema annað og meira komi til. Þá hafi ILO viðurkennt rétt stjórnvalda til að grípa inn í kjaradeilur þegar mjög miklir hagsmunir séu í húfi. Stefndi byggi á því að með lögum nr. 31/2015 hafi kjarasamningar þeirra aðila sem lögin taki til verið framlengdir með þeim breytingum sem gerðardómur samkvæmt 2. og 3. gr. laganna ákveði. Hvorki ákvæði stjórnarskrár, annarra laga né alþjóðasamninga standi því í vegi að fyrirmæli l., 2., og 3. gr. laga nr. 31/2015 séu virk. Meginreglan um frjálsan samningsrétt stéttarfélaga og vinnuveitanda sé hvorki án takmarkana né feli hún í sér óheftan verkfallsrétt. Löggjafanum sé heimilt að marka kjarasamningum ramma og skilyrða og takmarka réttinn til að gera verkföll með lögum. Þótt það sé alla jafna á ábyrgð aðila kjarasamninga að ljúka samningum sín á milli og slík niðurstaða sé farsælust geti til þess komið að almannahagsmunir réttlæti íhlutun. Þau skilyrði hafi verið uppfyllt að því er varði setningu laga nr. 31/2015.

Stefndi telji í ljósi alls þessa að ekkert tilefni sé til að hnekkja lögum eða víkja þeim til hliðar eins og dómkröfur stefnanda ráðgeri. Lögin hafi verið stjórnskipulega sett, í þágu almannahagsmuna og nauðsyn borið til setningar þeirra. Hafi þau ekki verið í andstöðu við 74. eða 75. gr. stjórnarskrár né ákvæði 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kröfur stefnanda eigi sér ekki stoð í öðrum heimildum sem vísað sé til í stefnu. Stefndi byggi á því að í ljósi framangreinds séu ekki fyrir hendi þær aðstæður að víkja eigi lögum til hliðar og þar með mati löggjafans með því að taka kröfur stefnanda til greina.

Stefndi vísar til laga nr. 31/2015 um kjaramál félagsmanna tiltekinna félaga innan Bandalags háskólamanna og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, laga nr. 94/1986 um kjarasamnings opinberra starfsmanna, laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, lög nr. 47/2007, um landlækni og lýðheilsu og 65., 74. og 75. gr. stjórnarskrár og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

IV

Í máli þessu, sem stefnandi hefur höfðað gegn íslenska ríkinu, er deilt um hvort lög nr. 31/2015, sem banna verkföll tilgreindra aðildarfélaga stefnanda og leggja ágreining um launakjör í gerðardóm, gangi gegn ákvæðum stjórnarskrár um félagafrelsi, jafnræði og meðalhóf.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2002, sem upp var kveðinn 14. nóvember  2002, var borinn undir dómstóla hliðstæður ágreiningur og í máli þessi. Í málinu höfðaði Alþýðusamband Íslands mál gegn íslenska ríkinu og Samtökum atvinnulífsins með kröfu um að viðurkennt yrði að stéttarfélögum innan raða stefnanda væri, þrátt fyrir ákvæði 1. gr., 2. gr. og 3. gr. laga nr. 34/2001, heimilt að efna til verkfalls og að ákvörðun gerðardóms samkvæmt sömu lögum réði ekki kjörum fiskimanna í þessum félögum. Hélt stefnandi því fram að með setningu laga nr. 34/2001 hefði verið brotið gegn samningsfrelsi og verkfallsrétti stéttarfélaga sem verndað væri af 74. gr. stjórnarskrár og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Talið var að með hliðsjón af 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans, 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár og tilgreindum alþjóðasamningum um félagsleg réttindi sem líta mætti til við skýringar á 74. gr. og 75. gr. stjórnarskrár yrði 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár ekki talin fela í sér skilyrðislausa vernd verkfallsréttar stéttarfélaga. Hins vegar yrði að líta svo á að samningsfrelsi verkalýðsfélaga og beitingu verkfallsréttar mætti aðeins skerða með lögum og því aðeins að uppfylltum sambærilegum skilyrðum og í fyrrnefndu ákvæði mannréttindasáttmálans. Hvorki varð séð að ákvæði mannréttindasáttmálans eða umræddir alþjóðasamningar útilokuðu að löggjafanum gæti verið rétt að grípa inn í einstaka vinnudeilur með lagasetningu né að löggjafanum væri óheimilt að leggja tímabundið bann við einstaka vinnustöðvunum. Hins vegar yrði að gera strangar kröfur til slíkrar lagasetningar. Talið var að ekki væri hægt að útiloka að efnahagsleg áhrif verkfalla og verkbanna gætu verið svo alvarleg að ríkir almannahagsmunir gætu réttlætt tímabundið bann við þeim. Með vísan til lögskýringargagna með lögum nr. 34/2001 þótti ekki rétt að hnekkja því mati löggjafans að ríkir almannahagsmunir hefðu verið fyrir því að banna tímabundið þau verkföll og verkbönn sem orsökuðu vinnustöðvun á þeim tíma sem lögin tóku gildi.

Í greinargerð sem fylgdi frumvarpi sem síðar varð að lögum nr. 31/2015 er lýst aðdraganda lagasetningarinnar. Rakin er þróun kjaraviðræðna, bæði á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera, allt frá árinu 2013. Vikið er sérstaklega að kjaraviðræðum aðildarfélaga stefnanda og stefnda og einstaka verkfallsaðgerðum, sem fyrst hófust 7. apríl 2015. Fjallað er um dóm Hæstaréttar í máli nr. 167/2002 og dregin sú ályktun af dóminum, dómum mannréttindadómstóls Evrópu, ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, að ákvæði 1. mgr. 74. gr. og 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrár og 11. gr. mannréttindasáttmálans tryggi verkfallsréttinn. Þurfi þrjú meginskilyrði að vera til staðar svo unnt sé að skerða verkfallsréttinn og samningafrelsi launþega, en þau séu þau að skerðing þurfi að byggjast á lögum, lagasetningin þurfi að vera í þágu almannahagsmuna eða réttinda annarra og að hún verði að vera nauðsynleg til að þeirra hagsmuna eða réttinda sé gætt. Þáttur í mati á nauðsyn sé að meðalhófs sé gætt. Að því er hvert þessara skilyrða varðar er því næst vikið að því að skilyrði um lög sem skerði verkfallsrétt sé mætt. Að því er varðar skilyrði um almannahagsmuni og réttindi annarra er gerð grein fyrir því tjóni sem verkföll stefnanda og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafi valdið. Launakröfur séu langt umfram þær launahækkanir sem samið hafi verið um við stærstan hluta almenna vinnumarkaðarins. Með því geti skapast hættu varðandi stöðugleika á vinnumarkaði, en gamalkunn víxlhækkun verðlags og launa hefði í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Sé frumvarpinu ætlað að treysta forsendur stöðugleika. Aðgerðir stéttarfélaganna hafi einkum beinst að starfsemi sjúkrahúsa og tengdri starfsemi. Embætti landlæknis hafi sent heilbrigðisráðherra og ríkisstjórn minnisblöð um áhrif yfirstandandi verkfalla á heilbrigðisstofnanir landsins. Komi meðal annars fram í minnisblaði 11. maí 2015 að ástand í heilbrigðiskerfinu sé komið út fyrir þau mörk að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga. Þá segi í minnisblaði landlæknis frá 4. júní 2015 að mjög erfitt ástand hafi skapast í heilbrigðiskerfinu. Verkföllum verði að ljúka tafarlaust, ef ekki eigi illa að fara. Það ástand sem skapast hafi sé óþolandi og komi til með að valda óbætanlegu tjóni fyrir fjölda sjúklinga og skaða heilbrigðisþjónustu bæði til skamms tíma og til lengri tíma litið. Stjórnvöld beri ábyrgð á því að ljúka þessu ástandi með einum eða öðrum hætti. Þá hafi komið fram í fjölmiðlum hjá  fjölmörgum hagsmunaaðilum hvaða tjón þeir hafi orðið fyrir vegna verkfallsaðgerða. Megi þar nefna að verkfall lögfræðinga hjá sýslumannsembættum hafi stöðvað þinglýsingar skjala og útgáfu leyfa af ýmsu tagi. Verkfall dýralækna hafi komið niður á matvælaframleiðendum og velferð dýra. Að því er varðar síðasta skilyrðið um nauðsyn og meðalhóf væri til þess að líta að verkfallsaðgerðir hefðu haft veruleg neikvæð áhrif á almannahagsmuni og sett verkefni ríkisins í uppnám. Hættuástand, sem fæli í sér að lífi, heilsu eða öryggi manna væri stefnt í hættu, gæti fljótlega skapast innan heilbrigðiskerfisins, svo sem minnisblöð landlæknis gerðu grein fyrir. Þáttur í því að meðalhófs væri gætt væri að lagasetningin gengi ekki lengra en nauðsyn krefði. Þar sem aðildarfélögin hefðu kosið að leggja fram sameiginlegar kröfur sem þau hefðu fylgt eftir með sameiginlegum aðgerðum þætti hins vegar rétt að leggja til bann við verkföllum allra þeirra aðildarfélaga Bandalags háskólamanna sem væru í samfloti í aðgerðum, auk Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Þótt bannið tæki gildi þegar í stað yrði ekki gripið inn í frelsi til að gera samninga fyrr en að ákveðnum tíma liðnum. Væri aðilum þannig gefinn frestur til að ná samningum. Þætti sú leið ganga skemmra heldur en ef gerðardómur tæki þegar til starfa. Þá væri lagt til bann við verkföllum í tiltekinn tíma, en ef ekki næðust samningar fyrir tiltekið tímamark tæki hlutlaus og sjálfstæður gerðardómur til starfa. Væri því reynt að fara eins sanngjarna og réttláta leið til að leysa úr deilunni og mögulegt væri. Í athugasemdum með frumvarpinu er vikið að samráði aðildarfélaga stefnanda, sem hefðu haft með sér samflot við samningsgerðina. Félögin hefðu lagt fram sameiginlegar kröfur, skipað sameiginlega viðræðunefnd og samþykkt að fylgja þeim eftir með sameiginlegum aðgerðum.

Með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 167/2002, dóma mannréttindadómstóls Evrópu og alþjóðasamninga um félagsleg réttindi verður slegið föstu, að verkfallsréttur aðildarfélaga stefnanda njóti verndar samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Sá verkfallsréttur sætir takmörkunum. Sú takmörkun þarf í fyrsta lagi að byggjast á lögum, í annan stað þarf lagasetningin að vera í þágu almannahagsmuna eða réttinda annarra og í þriðja lagi verður hún að vera nauðsynleg og í meðalhófi til að þeirra hagsmuna eða réttinda sé gætt.  

Ágreiningslaust er að lög nr. 31/2015 voru sett með stjórnskipulega réttum hætti frá Alþingi, sbr. 2. gr. stjórnarskrár. Það er á valdsviði löggjafans að velja á milli kosta þegar ákvörðun er tekin um löggjafarmálefni og hefur hann nokkuð svigrúm við mat á þeim hagsmunum sem til grundvallar liggja. Það er síðan á valdi dómstóla að leysa úr því hvort lög samrýmast grundvallarreglum stjórnarskrár. Við setningu laga nr. 31/2015 hefur löggjafinn metið það svo að grípa þyrfti inn í verkföll aðildarfélaga stefnanda á grundvalli brýnna almannahagsmuna. Kemur þetta skýrt fram í lögskýringargögnum sem fylgdu frumvarpi sem varð að lögum nr. 31/2015. Í því efni hafði löggjafinn við að syðjast gögn sem fyrir lágu við lagasetninguna, svo sem minnisblöð landlæknis um ástand á heilbrigðisstofnunum landsins. Verður að ganga út frá að landlæknir hafi þá tekið tillit til svonefndra undanþáguheimilda samkvæmt lögum nr. 94/1986. Þá var við að styðjast yfirlýsingu peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands frá 10. júní 2015 þar sem fram kom það mat að verkfallsaðgerðir væru farnar að ógna efnahagslegum stöðugleika. Eins var litið til yfirlýsinga hagsmunaaðila í fjölmiðlum um efnahagsleg áhrif verkfalla. Höfðu verkfallsaðgerðir staðið í 68 daga er lögin voru sett og engin lausn á kjaradeilunni í sjónmáli. Með vísan til þess sem  hér að framan greinir þykja ekki efni til að hnekkja því mati löggjafans að ríkir almannahagsmunir og nauðsyn hafi leitt til þess að tímabundið hafi þurft að banna þau verkföll sem voru í gangi eða voru yfirvofandi.  

Aðildarfélög stefnanda höfðu með sér samráð við samningsgerð. Voru þau í samfloti og höfðu lagt fram sameiginlegar kröfur, skipað sameiginlega viðræðunefnd og samþykkt að fylgja þeim eftir með sameiginlegum aðgerðum. Er fram komið að stefnandi var leiðandi er kom að skipulagningu þessara sameiginleg aðgerða. Með því að úr kjaramálum þessara aðildarfélaga yrði leyst, að tilteknum tíma liðnum og á sama hátt með ákvörðun gerðardóms, ef ekki semdist með aðilum áður, var gætt jafnræðis og meðalhófs gagnvart félögunum. Með vísan til þess verður ekki hróflað við því mati löggjafans að almannahagsmunir og meðalhóf hafi krafist þess að þeim félögum sem ekki voru í verkfalli yrði einnig bannað að fara í verkfall. Gekk það ekki gegn félagafrelsisákvæði 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrár.

Í lögum  nr. 31/2015 var gerðardómi falið endanlegt ákvörðunarvald um ýmis mikilvæg kjaraatriði sem deilur aðila höfðu staðið um. Stefnandi telur að framsetning laganna sé ómálefnaleg. Gerðardómurinn sé ekki í reynd gerðardómur heldur stjórnsýslunefnd. Þá hafi lagasetningin verið of yfirgripsmikil og inngrip í samningsfrelsi aðildarfélaga mun víðtækara en unnt sé að réttlæta. Ekki verði séð að nauðsyn hafi borið að hafa samningshöft óákveðin. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 167/2002 var dæmt um lagaákvæði sem fól gerðardómi endanlegt ákvörðunarvald um mikilvæg kjaraatriði. Var það niðurstaða dómsins að ekki væru komin fram nægjanlega veigamikil rök til að líta svo á að löggjafinn hafi með lagasetningunni gengið lengra í þá átt að skerða frelsi deiluaðila til að ná kjarasamningum en nauðsynlegt var til að ná fram yfirlýstum markmiðum sínum til að tryggja almannaheill. Ákvæði það sem deilt er um í því máli sem hér er til meðferðar er efnislega sambærilegt ákvæðinu í máli nr. 167/2002. Er helsta frávikið, sem til álita kemur, að við ákvörðun launa félagsmanna skuli, eftir atvikum, hafa hliðsjón af kjarasamningum sem undirritaðir hafi verið frá 1. maí 2015. Telur stefnandi að með þessu sé verið að girða fyrir að unnt sé að líta til kjarasamninga sambærilegra stétta, svo sem lækna, sem fengu mikla launahækkun í síðustu samningum. Til þess er að líta að ákvæði þetta er ekki bindandi fyrir gerðardóminn, enda segir í ákvæðinu að hafa skuli eftir atvikum hliðsjón af kjarasamningum eftir þetta tímamark. Einnig skuli hafa hliðsjón af almennri þróun kjaramála á Íslandi. Með hliðsjón af þessu og því að dómstólar hafa áður talið efnislega sambærilegt gerðardómsákvæði ekki ganga lengra en nauðsynlegt var í þá átt að skerða frelsi deiluaðila til að ná kjarasamningum, verður ekki við þessu mati hróflað.

Með vísan til alls ofanritaðs verður ekki fallist á með stefnanda að aðildarfélögum stefnanda sé vegna ákvæða stjórnarskrár heimilt, þrátt fyrir ákvæði laga nr. 31/2015, að efna til verkfalls. Þá verður talið að ákvörðun gerðardóms ráði kjörum hinna tilgreindu aðildarfélaga stefnanda á gildistíma ákvörðunar gerðardómsins eða þar til samningar nást um kjör.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.

Af hálfu stefnanda flutti málið Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður, en af hálfu stefnda Einar Karl Hallvarðsson hæstaréttarlögmaður.

Mál þetta dæmir Símon Sigvaldason héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknað af kröfum stefnanda, Bandalags háskólamanna.

Málskostnaður fellur niður.