Print

Mál nr. 464/2015

Viðar Geirsson (Eiríkur Gunnsteinsson hrl.)
gegn
Birgi Mar Guðsteinssyni (Óðinn Elísson hrl.)
Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Tjáningarfrelsi
Reifun

Í málinu krafðist V ómerkingar tiltekinna ummæla sem B hafði, sem formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, dreift á fjölprentuðu blaði til félagsmanna á aðalfundi félagsins og vörðuðu störf V sem gjaldkera þess. Þá gerði hann kröfu um að B yrði gert að greiða sér miskabætur vegna ummælanna og kosta birtingu dómsins. Talið var að á B hefði hvílt sú skylda sem formanni félagsins að hafa eftirlit með starfsemi þess og upplýsa félagsmenn um fjárreiður félagsins og hugsanleg brot eða mistök í starfsemi þess. Fallist var á með B að ummælin hefðu verið byggð á bréfum löggilts endurskoðanda félagsins og gögnum úr bókhaldi þess, auk þess sem þau hefðu verið í meginatriðum sönn. Engu breytti um það þótt V hefði haldið því fram að laun, sem bókhald félagsins og upplýsingar til skattyfirvalda hefðu borið með sér að greidd hefðu verið eiginkonu hans og bróður og B hafði vísað til, hefðu í raun verið hluti af launum sem V taldi sig hafa átt rétt á fyrir störf sín sem gjaldkeri félagsins. Var B sýknaður af kröfum V.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. júlí 2015. Hann krefst þess að nánar tiltekin ummæli, sem stefndi dreifði á fjölprentuðu blaði til félagsmanna á aðalfundi Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur 29. desember 2013, verði dæmd dauð og ómerk. Jafnframt gerir hann kröfu til þess að stefnda verði gert að greiða sér 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu „frá dómsuppsögu“ til greiðsludags til að standa straum af kostnaði við að birta dómsorð og forsendur dómsins í nánar greindum fjölmiðlum. Þá krefst hann þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. desember 2013 til 19. apríl 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að fjárkröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakið að þau ummæli stefnda, sem hann lét frá sér fara sem formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og málsókn áfrýjanda beinist að, voru byggð á bréfum löggilts endurskoðanda félagsins 23. nóvember og 28. desember 2012 og gögnum úr bókhaldi þess. Þótt ekki verði talið sannað, öfugt við það sem segir í héraðsdómi, að bróðir áfrýjanda hafi hlotið námsstyrk frá Starfsmenntun sjómanna, Sjómennt, án þess að hafa átt rétt á styrknum samkvæmt starfsreglum sjóðsins kom þetta ekki fram í ummælum stefnda. Svo sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi var leitt í ljós við meðferð málsins í héraði að ummælin voru í meginatriðum sönn. Engu breytir um það þótt áfrýjandi haldi því fram að laun, sem bókhald félagsins og upplýsingar til skattyfirvalda báru með sér að greidd hafi verið eiginkonu hans og bróður og stefndi vísaði til, hafi í raun verið hluti af launum sem áfrýjandi telur sig hafa átt rétt á fyrir störf sín sem gjaldkeri félagsins.

Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Viðar Geirsson, greiði stefnda, Birgi Mar Guðfinnssyni, 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. apríl 2015

Mál þetta, sem tekið var til dóms 12. mars sl., er höfðað með birtingu stefnu 16. maí 2014.

Stefnandi er Viðar Geirsson, kt. [...], Fornuvör 12, Grindavík.

Stefndi er Birgir Mar Guðfinnsson, kt. [...], Ásabraut 14, Grindavík.

Dómkröfur stefnanda eftirfarandi:

1. Að eftirfarandi ummæli, sem stefndi dreifði á fjölprentuðu blaði til félagsmanna á aðalfundi Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur þann 29. desember 2013, verði dæmd dauð og ómerk:

a. „Svo haft sé beint eftir endurskoðanda félagsins, „það er með öðrum orðum verið að kaupa hluti og færa af bankareikningi félagsins án þess að nokkur viti hvað er verið að kaupa eða hvort það tengist starfsemi félagsins.“

b. „Báðir þessi aðilar þáðu háa styrki úr hinum ýmsu sjóðum félagsins á árinu. Nema þessar upphæðir verulegum fjármunum og geta einstakir styrkir verið mjög háir. Eiginkona gjaldkera þáði m.a. kr. 150.000 sjúkradagpeninga á árinu 2012 og bróðir hans endurmenntunarstyrk að fjárhæð kr. 60.000, bæði án þess að vinna fyrir félagið!“

c. „Einnig fengu þau duglega greitt fyrir fundarsetu á vegum félagsins en þau sitja hvergi í sjóðum á vegum félagsins.“

2. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 500.000 krónur til að standa straum af kostnaði við að að birta dómsorð og forsendur dómsins á vefsvæðinu kvotinn.is, dv.is, ruv.is og í Fréttablaðinu, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá dómsuppsögu til greiðsludags.

3. Jafnframt krefst stefnandi miskabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 1.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 29. desember 2013 til 19. apríl 2014, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

4. Loks krefst stefnandi málskostnaðar að mati dómsins og að við ákvörðun málskostnaður verði tekið mið af því að stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili.

II.

Málsatvik eru þau að stefnandi starfaði sem gjaldkeri Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur frá árinu 2000 þar til hann lét af störfum um miðjan janúar 2014. Eins og nafn félagsins ber með sér er það hagsmunafélag sjómanna og vélstjóra í Grindavík þar sem sjávarútvegur er burðarás atvinnulífsins.

Á aðalfundi félagsins 28. desember 2012, sem mun hafa verið nokkur átakafundur, var stefndi kjörinn formaður félagsins og þá var stefnandi endurkjörinn gjaldkeri. Að sögn stefnda mætti honum nokkur mótbyr frá öðrum stjórnarmönnum, þ.á m. stefnanda, eftir að hann tók við sem formaður félagsins. Kveður hann stefnanda einan hafa haft aðgang að bankareikningum félagsins allt frá árinu 2000 og hafi hann í fyrstu neitað stefnda um aðgang að þeim og skrifstofum félagsins.

Stefnandi kveðst hins vegar hafa lagt sig allan fram við að halda góðu sambandi við stefnda og reynt eftir fremsta megni að verða við óskum hans. Hafi honum m.a. verið veittur aðgangur að heimabanka félagsins og bókhaldskerfi þess.

Með bréfi 23. nóvember 2012 sendu endurskoðendur félagsins ábendingar og tilmæli til félagsins vegna endurskoðunar rekstrarársins 1. nóvember 2010 til 31. október 2011, en í bréfinu komu fram annars vegar athugasemdir við uppsetningu ársreiknings í fimm töluliðum og hins vegar að því er varðar innra eftirlit í tveimur töluliðum. Hvað síðara atriðið varðaði sagði þar í fyrsta lagi að innra eftirlit væri ófullnægjandi þar sem varsla fjármuna, samþykktir og bókhald væri að einhverju leyti á sömu hendi hjá félaginu. Í öðru lagi hefði við endurskoðun komið upp í einhverjum tilvikum að kostnaður væri færður til gjalda aðeins eftir bankagreiðslu en ekki undirliggjandi reikningi. Þá væru einhverjar gjaldfærslur eftir reikningum, en án skýringar og samþykktar á kostnaði. Svipaðar ábendingar og tilmæli koma fram í bréfi endurskoðendanna til félagsins vegna rekstrarársins 1. nóvember 2011 til 21. október 2012.

Félagsmenn munu ekki hafa verið upplýstir um þessar athugasemdir endurskoðendanna og olli það talsverðri ólgu innan félagsins þegar það varð ljóst. Í kjölfarið kröfðust félagsmenn þess að haldinn yrði félagsfundur til að fjalla um athugasemdir og ábendingar endurskoðendanna og var sá fundur haldinn 20. janúar 2013. Á honum gekkst stefnandi m.a. við því að hafa í tvö til þrjú skipti greitt fjölskyldumeðlimum laun í sinn stað til að komast hjá greiðslu skatta. Fundinn sátu endurskoðendur félagsins og þrátt fyrir þær misfellur sem stefnandi upplýsti um lýstu þeir þeirri skoðun sinni á fundinum að bókhald félagsins væri í lagi og að ekkert saknæmt hefði átt sér stað. Stefndi kveður það hafa vakið furðu sína og fleiri félagsmanna í ljósi þeirra upplýsinga sem legið hafi fyrir og kveðst stefndi hafa haft á tilfinningunni að þagga ætti niður óþægileg mál tengd fjárreiðum félagsins. Hafi samstarf innan stjórnar verið stirt vegna þessa.

Stefndi kveðst hafa gert stutta athugun á launamálum félagsins árið 2012 og hafi þá komið í ljós að launagreiðslur félagsins væru ekki í samræmi við launaskrá félagsins, m.a. hafi eiginkona og bróðir stefnanda fengið greidd laun án þess að vera á launaskrá félagsins. Stefndi kveður aðra stjórnarmenn félagsins ekki hafa haft vitneskju um þetta frekar en stefndi og hafi greiðslurnar verið mun fleiri og hærri en stefnandi hafði áður gengist við. Ranglega sé haldið fram í stefnu að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar í samráði við aðra stjórnarmenn og bókara félagsins.

Næsti aðalfundur félagsins var haldinn 29. desember 2013 og munu yfir 80 félagsmenn hafa sótt hann. Lá þar frammi samantekt stefnda á þeim athugasemdum sem endurskoðendur höfðu gert við fjárreiður félagsins sem og því hvað athugun hans á launamálum félagsins hafði leitt í ljós.

Stefnandi kveður að upplýsingar þessar hafi að mestu leyti verið rangar, en tilgangur samantektarinnar hafi fyrst og fremst verið sá að gera gjaldkerastörf hans hjá félaginu tortryggileg og koma þannig höggi á hann. Kveðst stefnandi einnig hafa heimildir fyrir því að samantektinni hafi verið komið til ritstjóra vefsíðunnar kvotinn.is, en jafnframt hafi verið birt atriði úr samantektinni á vefsíðunum dv.is, ruv.is og í Fréttablaðinu.

Stefndi kveðst hins vegar á fundinum hafa upplýst félagsmenn um þær athugasemdir sem hann hefði að gera við fjárreiður félagsins, m.a. um greiðslur til eiginkonu og bróður gjaldkera, þ.e. launagreiðslur, styrkgreiðslur úr hinum ýmsu sjóðum félagsins, auk greiðslna fyrir fundarsetu. Mikill hiti hafi skapast hjá félagsmönnum sem hafi krafist frekari skýringa á þessu.

Á stjórnarfundi 17. janúar 2014 óskaði stefnandi eftir því að láta af störfum sem gjaldkeri á meðan skoðun á málefnum hans færi fram. Í framhaldinu ákvað stjórn félagsins að fá utanaðkomandi og óháðan endurskoðanda til að gera úttekt á fjárreiðum félagsins og voru Löggiltir endurskoðendur ehf. fengnir til verksins.

Stefnandi kveðst hafa reynt að leiðrétta þær rangfærslur sem settar hafi verið fram í áðurgreindu bréfi stefnda en lítið orðið ágengt. Kveður hann stefnda hafa dreift samantektinni í þeim tilgangi að bola honum úr stjórn félagsins. Kveðst stefnandi hafa látið undan þrýstingi og sagt tímabundið af sér sem gjaldkeri meðan mál hans væru í skoðun. Á þeim tíma hafi hann þegar verið búinn að viðurkenna að hafa greitt laun til konu sinnar og bróður þrátt fyrir að þau hafi ekki starfað hjá Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur. Ráðstöfun þessi hafi verið gerð með vitneskju bókara og annarra stjórnarmanna og hafi hún ekki kostað félagið nokkuð umfram þau laun sem stefnandi hafi persónulega átt rétt á sem gjaldkeri hjá félaginu.

Stefnandi kveðst hafa sent stefnda skeyti 17. mars 2014 sem birt hafi verið stefnda 19. sama mánaðar. Hafi þar verið skorað á stefnda að biðjast afsökunar á þeim rangfærslum um störf stefnanda sem finna mætti í umræddu bréfi. Ekki hafi borist viðbrögð við þessu skeyti. Hafi stefnanda því verið nauðugur sá kostur að höfða þetta mál með birtingu stefnu í maí 2014.

Hinn 2. júní 2014 sendi stefnandi stjórn félagsins bréf þar sem hann tilkynnti að hann teldi enga ástæðu til að halda sig lengur til hlés þar sem ásakanir sem á hann hefðu verið bornar hefðu reynst tilhæfulausar með öllu. Krafðist hann þess að vera boðaður á næsta stjórnarfund í félaginu og fá aðgang að bókhaldi og reikningum félagsins svo að hann gæti sinnt starfi sínu sem réttkjörinn gjaldkeri félagsins.

Að lokinni umbeðinni úttekt á fjárreiðum félagsins skiluðu Löggiltir endurskoðendur ehf. skýrslu sinni til stjórnar 18. júní 2014. Í niðurstöðu skýrslunnar kemur m.a. fram að við athugun á launagreiðslum félagsins hafi komið í ljós að aðilar sem ekki hafi starfað hjá félaginu, en tengdust stefnanda, hafi þegið launagreiðslur að því er virtist án vinnuframlags. Kom einnig fram að styrkveitingar félagsins væru ekki í samræmi við þau mörk sem félagið hefði setti sér. Hefði komið fyrir í nokkrum tilfellum að styrkveitingar til aðila sem ekki greiddu í styrktarsjóði félagsins næmu háum fjárhæðum sem væri brot á lögum félagsins og lögum ASÍ.

Stefndi kveður að þótt það hafi ekki komið fram í fyrstu athugasemdum hans við fjárreiður félagsins sé rétt að geta þess að nú liggi fyrir að fleiri aðilar tengdir stefnanda, þ.e. dóttir hans og tengdasonur, hafi fengið greiddar umtalsverðar fjárhæðir úr félaginu án þess að eiga rétt á þeim.

Skýrsla Löggiltra endurskoðenda ehf. var lögð fyrir stjórn félagsins og var fjallað um hana á stjórnarfundi í félaginu 18. júní 2014. Með hliðsjón af skýrslunni og niðurstöðum hennar ákvað stjórn félagsins á sama fundi að segja upp ráðningarsamningi stefnanda sem gjaldkera félagsins. Var honum jafnframt vikið úr félaginu vegna brota á lögum þess. Mun stefndi hafa vikið af fundi þegar ákvörðun var tekin um brottrekstur stefnanda.

Fyrir liggur að skattrannsóknarstjóri ríkisins hefur tekið málefni og fjárreiður félagsins til skoðunar og er málið til meðferðar hjá stofnuninni. Hefur embættið m.a. óskað eftir upplýsingum um launagreiðslur félagsins. Þá hefur ríkisskattstjóri haft til skoðunar ýmis atriði í ársreikningum félagsins, m.a. greiðslur úr styrktar- og sjúkrasjóðum félagsins, og eru málefni félagsins þar til meðferðar.

Báðir málsaðilar komu fyrir dóminn og gáfu aðilaskýrslu. Þá komu fyrir dóminn sem vitni, Árni Snæbjörnsson, Sesselja Unnur Vilhjálmsdóttir, Þórarinn Sigvaldason, Hjörtur Gíslason, Kári Ölversson og Ómar Davíðsson.

III.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að áðurgreind ummæli í a-c lið í 1. tölulið dómkrafna hans, séu ærumeiðandi í skilningi XXV. kafla almennra hegningarlaga.

Kröfuliður 1.a.

Stefnandi kveður ummælin í a-lið sett fram eins og þau séu höfð beint eftir endurskoðanda félagsins sem þó sé ekki rétt. Þótt stefnandi sé ekki nafngreindur í bréfinu megi ljóst vera að þær ásakanir sem finna megi í bréfinu beinist að honum sem gjaldkera félagsins. Stefnandi kveðst hafa lagt fram þrjú bréf frá fyrrgreindum endurskoðanda þar sem þessi ummæli sé ekki að finna og geri stefnandi sér ekki grein fyrir hvar og hvenær endurskoðandinn eigi að hafa sagt eða skrifað umrædd orð.

Ummælin séu mjög meiðandi fyrir stefnanda þar sem heilindi hans sem gjaldkera félagsins séu þar dregin í efa og sterklega sé gefið í skyn að endurskoðandi telji að eitthvað vafasamt hafi átt sér stað í bókhaldi og fjármálum félagsins. Svo hafi hins vegar ekki verið. Endurskoðandinn hafi aftur á móti komið með ábendingar í bréfum sínum og hafi verið farið eftir þeim eins og fram komi í bréfi endurskoðandans í desember 2013. Hafi þetta legið fyrir á fundi, sem haldinn hafi verið 29. desember 2013, en stefndi hafi kosið að geta þess ekki í bréfi sínu. Sé því um vísvitandi og ámælisverðar rangfærslur að ræða sem séu ærumeiðandi og með þeim hafi verið vegið að virðingu stefnanda. Hafi þær verið settar fram af stefnda á fjölmennum fundi og dreift til fjölmiðla gegn betri vitund og varði það við 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Beri því að dæma umrædd ummæli dauð og ómerk og bæta stefnanda þann miska sem hann hefur orðið fyrir vegna þessa.

Kröfuliður 1.b.

Stefnandi kveður að með ummælum í b-lið hafi stefndi fullyrt að eiginkona stefnanda og bróðir hans hafi þegið háar fjárhæðir úr sjóðum félagsins. Sé þar væntanlega átt við sjóði Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur. Þessar fullyrðingar séu alrangar og verulega ærumeiðandi fyrir stefnanda sem starfað hafi af heilindum fyrir félagið um árabil, enda hefði slík misnotkun stefnanda á aðstöðu sinni geta varðað fangelsisrefsingu samkvæmt almennum hegningarlögum. Hið rétta sé að eiginkona stefnanda hafi engan styrk hlotið úr sjúkrasjóði félagsins og bróðir stefnanda hafi engan endurmenntunarstyrk hlotið úr sjóðum félagsins. Hann hafi hins vegar hlotið styrk frá Sjómennt sem hann hafi átt rétt á. Stefnda hefði verið í lófa lagið að fá réttar upplýsingar frá bókara eða endurskoðanda félagsins en hann hafi af einhverjum ástæðum kosið að leita ekki eftir þeim upplýsingum og enn síður að leita upplýsinga frá stefnanda sjálfum. Stefnandi kveðst hafa lagt fram starfsreglur Sjómenntar sem sýni að styrkir þaðan séu ekki í beinum tengslum við Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur. Sé því um vísvitandi og ámælisverðar rangfærslur að ræða sem séu ærumeiðandi og með þeim sé vegið að virðingu stefnanda. Hafi þær verið settar fram af stefnda á fjölmennum fundi og dreift til fjölmiðla gegn betri vitund og varði það við 234. gr., 235. gr.  og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Beri því að dæma umrædd ummæli dauð og ómerk og bæta stefnanda þann miska sem hann hafi orðið fyrir vegna þessa.

Kröfuliður 1.c.

Stefnandi kveður ummæli þau sem fram komi í c-lið fyrsta töluliðar vera verulega ærumeiðandi fyrir stefnanda, enda sé þar haldið fram að eiginkona og bróðir stefnanda hafi fengið greitt aukalega fyrir fundarsetu á vegum félagsins. Þetta sé einfaldlega rangt, en að framan hafi verið rakið hvernig háttað hafi verið greiðslum til eiginkonu hans og bróður. Stefnandi hafi gert fullkomlega grein fyrir því að umræddar greiðslur hafi ekki að neinu leyti verið umfram þær greiðslur sem hann hafi átt sjálfur rétt á sem gjaldkeri félagsins. Stefndi hafi engu að síður reynt að gera greiðslur til þeirra tortryggilegar í bréfinu og hafi ekki leiðrétt rangfærslur sem þar komi fram. Sé því um vísvitandi og ámælisverðar rangfærslur að ræða sem séu ærumeiðandi og með þeim sé vegið að virðingu stefnanda. Hafi þær verið settar fram af stefnda á fjölmennum fundi og dreift til fjölmiðla gegn betri vitund og varði það við 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Beri því að dæma umrædd ummæli dauð og ómerk og bæta stefnanda þann miska sem hann hafi orðið fyrir vegna þessa.

Með vísan til tilvitnaðra ákvæða beri að ómerkja ummæli í a-c-lið 1. töluliðar dómkrafna stefnanda með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda séu ummæli stefnda ekki á rökum reist, auk þess að vera ærumeiðandi fyrir stefnanda. Séu þau til þess fallin að sverta ímynd stefnanda, vega að virðingu hans og skapa hjá honum vanlíðan og óöryggi. Hafi hann því mikla hagsmuni af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk.

Stefnandi kveður miskabótakröfu sína byggjast á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, enda beri stefndi ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn stefnanda í skilningi ákvæðisins. Séu skilyrði ákvæðisins um ólögmæti og saknæmi uppfyllt, enda hafi áðurgreind ummæli fengið mjög á stefnanda andlega.

Við mat á fjárhæð miskabóta verði að líta til þess að stefnandi hafi um langt skeið starfað sem gjaldkeri Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur og með þeim ósannindum sem stefndi hafi dreift á félagsfundi í félaginu og til fjölmiðla hafi hann vegið verulega að mannorði og æru stefnanda, að því er virðist í þeim eina tilgangi að koma höggi á stefnanda og bola honum úr stjórn félagsins. Séu fullyrðingar hans í framangreindu bréfi rætnar að þessu leyti og kveðst stefnandi vísa til grunnraka 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Hvað lagarök varðar kveðst stefnandi vísa til grundvallarreglna VII. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, einkum 71. gr. um friðhelgi, ákvæða XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 234. gr., 235. gr., 236. gr. og 241. gr. þeirra. Þá kveðst stefnandi vísa til almennra reglna skaðabótaréttar og b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 hvað varðar miskabætur.

Stefnandi kveður kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðjast við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 8. gr. og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum. Krafan um málskostnað styðjist við 130. gr. laga og 131. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.

IV.

Stefndi kveðst hafna því að hafa gerst sekur um ærumeiðandi ummæli í garð stefnanda. Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því að ummælin séu ærumeiðandi fyrir hann og að með þeim hafi verið að honum vegið. Kveðst stefndi telja það með öllu ósannað.

Stefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu á því að þeim ummælum, sem krafist sé ómerkingar á, hafi ekki verið beint að persónu stefnanda og að með þeim hafi ekki verið vegið að æru stefnanda. Athugasemdir sem stefndi hafi lagt fram á aðalfundi félagsins séu athugasemdir hans sem formanns við fjárreiður félagsins sem beint hafi verið til félagsmanna. Kveðst stefndi taka fram og árétta að hann hafi ekki dreift athugasemdunum til fjölmiðla eins og byggt sé á í stefnu og kveðst hann ekki hafa samþykkt birtingu þeirra þar heldur þvert á móti neitað að tjá sig um málið þegar til hans hafi verið leitað. Beri hann því ekki ábyrgð á umfjöllun fjölmiðla um málið þar sem þeir beri sjálfstæða ábyrgð á birtu efni lögum samkvæmt.

Stefndi kveður að frá því að hann hafi tekið við formennsku hafi hann beitt sér fyrir gagnsæi í starfsemi félagsins og að hagsmunir þess og félagsmanna væru hafðir í fyrirrúmi. Að auki hafi sú skylda hvílt á stefnda að hafa eftirlit með starfsemi félagsins og hafi félagsmenn átt skýlausan rétt á að fá upplýsingar um fjárreiður félagsins á aðalfundi þess, enda ótækt með öllu að líta fram hjá slíkum atriðum eða þagga niður.

Stefndi bendir á að í athugasemdum hans við fjárreiður félagsins hafi stefnandi hvergi verið nefndur á nafn. Að mati stefnda sé augljóst af lestri athugasemdanna að þær hafi beinst að fjárreiðum félagsins en ekki að persónu stefnanda, enda sé tilefni þeirra athugasemdir endurskoðenda félagsins. Stefndi hefði verið gjaldkeri um árabil og sjálfur skapað tortryggni á störf sín fyrir félagið með því að greiða eiginkonu sinni og bróður laun sem þau hafi ekki átt rétt á. Síðar hafi reyndar komið í ljós að málið var umfangsmeira en stefnandi hafði upphaflega gengist við. Stefndi kveður aðalfund félagsins vera vettvang til umræðna um fjármál félagsins, enda stuðli það að gagnsæi og aðhaldi í rekstri þess. Athugasemdir stefnda við fjárreiður félagsins hafi verið réttmætar og á rökum reistar líkt og fram komi í úttekt endurskoðanda.

Kröfuliður 1.a.

Stefndi bendir á að í ummælum í kröfulið 1.a í stefnu málsins sé stefnandi hvergi nefndur á nafn, ekki frekar en annars staðar í athugasemdum stefnda. Ummælunum hafi því ekki verið beint að persónu stefnanda líkt og stefnandi virðist túlka þau. Stefndi hafi sett ummælin fram á mannamáli fyrir félagsmenn, en líkt og fram komi í bréfi endurskoðenda 23. nóvember 2012 til félagsins séu þau að öllu leyti efnislega samhljóða þeim athugasemdum sem endurskoðendur félagsins hafi gert í 1. tölulið um innra eftirlit félagsins í bréfinu. Þar komi m.a. fram eftirfarandi athugasemd:

„Við endurskoðun kom upp í einhverjum tilvikum að kostnaður sé færður til gjalda aðeins eftir bankagreiðslu en ekki undirliggjandi reikningi. Á þetta bæði við um greiðslur til fyrirtækja og einstaklinga sem fá greiðslur m.a. vegna aksturs og ferðakostnaðar. Engar skýringar voru á greiðslu og engin sérstök samþykkt fyrir kostnaði eða greiðslu. Því til viðbótar voru einhverjar gjaldfærslur eftir reikningum en engin skýring eða samþykkt á kostnaði, m.a. stór gjaldfærsla á gjafabréfum sem ekki var sérstök skýring á. Við bendum á mikilvægi þess að fylgiskjöl endurspegli þann kostnað sem verið er að færa og enn mikilvægar að samþykki liggi fyrir skilgreindum kostnaði ef enginn reikningur liggur að baki bankagreiðslu.“

Kveðst stefndi jafnframt benda á að endurskoðendur félagsins hafi gert athugasemd af sama meiði í bréfi til félagsins 28. desember 2012 vegna endurskoðunar rekstrarársins 1. nóvember 2011 til 31. október 2012.

Að mati stefnda sé því ljóst að athugasemdir hans hafi verið réttmætar og í fullu samræmi við athugasemdir endurskoðenda. Hafi þær beinst að fjárreiðum félagsins en ekki persónu stefnanda. Stefnandi hafi þurft sem gjaldkeri að taka réttmætri gagnrýni á fjárreiður félagsins sem byggst hafi á tilmælum og athugasemdum endurskoðenda félagsins. Stefnanda sé því ótækt að byggja málatilbúnað sinn á ákvæðum Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um friðhelgi einkalífs líkt og gert sé í stefnu málsins. Ummælin geti ekki talist meiðandi fyrir stefnanda og ekki sé með nokkru móti vegið að æru hans með þeim.

Kröfuliður 1.b.

Stefndi kveður að ummæli í kröfulið 1.b. í stefnu málsins hafi verið hluti af athugasemdum og umfjöllun stefnda sem formanns um fjárreiður félagsins á aðalfundi þess. Stefnandi sé þar hvergi nafngreindur og verði ekki með nokkru móti séð hvernig stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk. Fjalli ummælin um greiðslur til eiginkonu stefnda og bróður hans, en hvorugt þeirra hafi starfað fyrir félagið eða greitt í það á lögmætum forsendum og hafi þau því ekki átt rétt á greiðslunum. Þessir aðilar hafi ekki neitað fyrir að hafa þegið greiðslur frá félaginu og séu ekki aðilar að þessu máli. Í ljósi þess beri þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda vegna aðildarskorts skv. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts kveðst stefndi byggja á því að með ummælunum hafi ekki verið vegið með neinu móti að æru stefnanda þar sem þau hafi ekki beinst að persónu hans. Um hafi verið að ræða upplýsingar um fjárreiður félagsins sem byggst hafi á upplýsingum úr bókhaldi þess og sem borið hafi að upplýsa félagsmenn um. Stefndi kveðst vera ósammála þeirri fullyrðingu í stefnu að stefnandi hafi starfað af heilindum fyrir félagið. Í ljós hafi komið í úttekt óháðs endurskoðanda að verulegar brotalamir hafi verið á fjárreiðum félagsins og fjöldi einstaklinga tengdur stefnanda hafi þegið greiðslur frá félaginu án þess að eiga rétt á þeim.

Eiginkona stefnanda hafi fengið greidda sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði félagsins á árinu 2012 að fjárhæð 150.000 krónur, sbr. launamiða á dskj. nr. 21, sem sé úr bókhaldi félagsins, og hafi launamiðinn verið sendur inn til skattayfirvalda. Eiginkona stefnanda hafi aldrei verið starfsmaður félagsins og aldrei greitt í félagið á lögmætum forsendum. Líkt og fram komi í stefnu málsins kunni slík misnotkun að varða við almenn hegningarlög og sé það yfirvalda að rannsaka slíkt, en stefndi kveðst aldrei hafa fullyrt að stefnandi hefði gerst sekur um slíkt lögbrot. Í skýrslu um úttekt á fjárreiðum félagsins hafi komið fram að launamiði á eiginkonu stefnanda til ríkisskattstjóra hefði verið leiðréttur 22. mars 2013 og hafi stefnandi lagt fram þann leiðrétta miða með stefnu málsins en ekki upprunalega launamiðann sem sendur hafi verið inn. Í bókhaldi félagsins hafi greiðslan til eiginkonu stefnanda verið skráð sem sjúkradagpeningar og hafi hún stemmt við launamiðann sem gefinn hafi verið út á hana, sbr. dskj. nr. 21. Sé því ljóst að ummæli stefnda voru réttmæt og áttu sér stoð í bókhaldsgögnum félagsins. Að mati stefnanda geti ummælin því ekki með nokkru móti vegið að æru stefnanda líkt og byggt sé á í stefnu málsins.

Stefndi kveður Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur vera aðila að Sjómennt ásamt 17 öðrum aðildarfélögum, en meginhlutverk Sjómenntar sé að sinna stuðningsverkefnum og þróunar- og hvatningaraðgerðum í námi fyrir sjómenn. Samkvæmt starfsreglum Sjómenntar eigi félagsmenn rétt á styrk til náms, sem unnið hafi fullt starf í a.m.k. sex mánuði undangengna 12 mánuði hjá útgerðum innan LÍÚ, og greitt hafi til aðildarfélags Sjómenntar á sama tíma.

Í bókhaldi félagsins komi fram að á árinu 2012 hafi bróðir stefnanda fengið greiddan námsstyrk frá Sjómennt vegna náms á Bifröst án þess að hafa greitt til félagsins á lögmætum forsendum og liggi engar upplýsingar fyrir í gögnum félagsins um að hann hafi átt rétt á greiðslunum í gegnum félagið. Félagið hafi greitt honum styrk að fjárhæð 60.000 krónur og hafi félagið síðan fengið styrkinn endurgreiddan frá Sjómennt í samræmi við reglur félagsins. Hafi bróðir stefnanda þannig fengið greiddan styrk í gegnum félagið án þess að eiga rétt á honum samkvæmt reglum félagsins. Kveðst stefndi telja ljóst að athugasemd hans hafi verið réttmæt og með henni hafi ekki verið vegið að æru eða virðingu stefnanda með nokkru móti.

Kröfuliður 1.c.

Stefndi kveður ummælin sem tiltekin séu í þessum kröfulið fyrir það fyrsta tekin úr því samhengi sem þau hafi verið sett fram í. Séu þau lesin í samhengi sé ljóst að þau beinist að fjárreiðum félagsins og e.t.v. sé um að ræða gagnrýni á endurskoðendur félagsins þar sem stefndi hafi velt því upp hvort endurskoðendur félagsins hafi ekki átt að hnjóta um slíkt.

Stefnda hafi borið skylda til sem formanni að upplýsa félagsmenn um hvernig fjárreiðum félagsins var háttað. Þó að fram hafi komið að eiginkona stefnanda og bróðir hafi fengið greitt frá félaginu hafi ummælin ekki með nokkru móti beinst að stefnanda. Þessir aðilar hafi ekki haldið því fram að um rangfærslu sé að ræða og séu ekki aðilar að þessu máli. Í ljósi þess kveðst stefndi þegar af þeirri ástæðu telja að sýkna beri hann vegna aðildarskorts skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Verði ekki fallist á sýknu á grundvelli aðildarskorts beri að sýkna stefnda þar sem ósannað sé með öllu að vegið hafi verið að æru stefnanda með ummælunum, enda  hafi þau beinst að fjárreiðum félagsins en ekki persónu stefnanda. Samkvæmt bókhaldi félagsins hafi þessum aðilum verið greidd laun sem nemi háum fjárhæðum, en félagið greiði ekki laun nema gegn vinnuframlagi, þ. á m. fyrir fundarsetu. Kveðst stefndi vekja sérstaka athygli á því að á launaseðlum eiginkonu stefnanda komi sérstaklega fram að henni hafi verið greidd laun fyrir fundarsetu. Stefnandi hafi þegar viðurkennt að þessum aðilum hafi verið greidd laun án þess að þau ættu rétt á þeim og kveðst stefndi árétta að hann hafi ekki haft frumkvæðið að því að upplýsa um það. Í úttekt endurskoðanda á fjárreiðum félagsins hafi verið staðfest að eiginkona stefnanda hafi þegið greiðslur fyrir fundarsetur hjá félaginu án þess að sitja í stjórnum á vegum þess. Hafi athugasemdir stefnda því verið réttmætar og eigi sér stoð í bókhaldi félagsins. Kveðst stefndi hafna því með öllu að ummælin geti talist ærumeiðandi fyrir stefnanda.

Stefndi kveðst hafna með öllu kröfu stefnanda um greiðslu á 500.000  krónum vegna kostnaðar við birtingu dómsorðs og forsendna hans í tilteknum fjölmiðlum. Í stefnu málsins sé hvergi að finna rökstuðning fyrir því af hverju dæma ætti stefnda til greiðslu upphæðarinnar, tilvísun til lagaheimildar sem stefnandi byggi kröfu sína á eða hvernig fjárhæð kröfunnar er fundin. Sé krafan því að mati stefnda svo órökstudd og óljós að óhjákvæmilegt sé að sýkna hann af henni.

Þá kveðst stefndi árétta og mótmæla sérstaklega sem röngu að hann hafi dreift athugasemdum um fjárreiður félagsins til fjölmiðla, en að því sé látið liggja í stefnu. Kveðst stefndi einungis hafa látið þær í té félagsmönnum á aðalfundi félagsins til upplýsingar. Beri stefndi ekki ábyrgð á því sem fjölmiðlar hafi birt um málið, enda beri fjölmiðlar og forsvarsmenn þeirra lögum samkvæmt ábyrgð á öllu því efni sem þeir birti.

Að því er varðar kröfu um miskabætur kveðst stefndi aðallega byggja á því að ósannað sé að þau ummæli, sem stefnandi krefjist að verði dæmd dauð og ómerk, séu ærumeiðandi í garð stefnanda eins og að framan sé rakið.

Þá kveðst stefndi byggja á því að miski stefnanda sé með öllu ósannaður, enda hafi engin gögn verið lögð fram í málinu um hann eða rök fyrir því færð í hverju hin ólögmæta meingerð stefnda í garð stefnanda eigi að hafa falist. Hafi ummælin enda beinst að fjárreiðum félagsins en ekki stefnanda. Eins og að framan sé rakið og gögn málsins sýni hafi gagnrýni stefnda á fjárreiður félagsins verið réttmæt og byggð á upplýsingum úr gögnum félagsins.

Þá sé óhjákvæmilegt að líta til þess að eftir að stefndi lagði fram athugasemdir á aðalfundi félagsins í desember 2013 hafi verið samþykkt á stjórnarfundi að fá óháðan endurskoðanda til að gera úttekt á fjárreiðum félagsins. Framlögð skýrsla, dagsett 18. júní 2014, styðji réttmæti athugasemda stefnanda á fjárreiður félagsins. Þá sé óhjákvæmilegt að líta til þess að eftir að skýrslan lá fyrir hafi stefnanda verið sagt upp störfum og vikið úr félaginu, m.a. vegna þeirra misfellna í fjárreiðum félagsins sem stefndi hafi bent á.

Stefndi kveðst byggja varakröfu sína um verulega lækkun á dómkröfum stefnanda á sömu sjónarmiðum og kröfu sína um sýknu af miskabótakröfunni, þ.e. að ummælum hans hafi verið beint að fjárreiðum félagsins og þær hafi stuðst við upplýsingar úr gögnum félagsins, sem stefnandi hafi lengst af neitað stefnda um aðgang að. Ásetningur stefnda hafi ekki staðið til þess að beina þeim að persónu stefnanda. Þá sé upphæð kröfunnar órökstudd og fordæmalaus og mun hærri en eðlilegt geti talist með hliðsjón af atvikum máls. Beri því að lækka hana verulega.

Þá kveðst stefndi mótmæla dráttarvaxtakröfu í stefnu. Stefndi kveður sér fyrst hafa orðið kunnugt um kröfur stefnanda á hendur sér við birtingu stefnunnar og kveðst ekki hafa fengið í hendur skeyti stefnanda, sem lýst sé í málsatvikakafla. Þá kveðst stefndi byggja á því að svo mikil óvissa hafi verið um mögulega greiðsluskyldu stefnda að ótækt sé annað en að miða upphafstíma dráttarvaxta við uppkvaðningu dóms í málinu.

Verði stefndi dæmdur til að greiða kostnað vegna birtingar dómsins í fjölmiðlum kveðst hann telja að líta beri til þess að um sé að ræða verulega upphæð sem sett sé fram án nokkurs rökstuðnings af hálfu stefnanda. Líta verði til þess að stefndi hafi sjálfur ekki hlutast til um birtingu frétta um málefni aðalfundarins í þeim fjölmiðlum sem stefnandi krefjist þess að dómurinn verði birtur í og ekki samþykkt birtinguna sérstaklega. Áhrif birtingar dómsins á heimasíðu félagsins og/eða í bæjarblaði Grindavíkur myndu þjóna sama tilgangi og hafa mun minni kostnað í för með sér.

Hvað varðar sýknukröfu kveðst stefndi m.a. vísa til 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 um tjáningarfrelsi og 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um aðildarskort. Þá kveðst stefndi einnig vísa til 234. gr., 235. gr. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt varðandi kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.

V.

Fyrir liggur að á aðalfundi Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur, sem haldinn var 29. desember 2013, lá frammi í fjölriti samantekt formanns félagsins, stefnda í máli þessu, á þeim athugasemdum sem hann hafði að gera við fjárreiður félagsins, en stefnandi starfaði þá sem gjaldkeri þess. Ljóst er að hin umstefndu ummæli beindust að gjaldkerastörfum stefnanda hjá félaginu.

Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Samkvæmt framangreindu er tjáningarfrelsið mikilvæg grundvallarréttindi sem varin eru af stjórnarskrá og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og samrýmast þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Verður því að skýra ákvæði XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af framangreindu.

Stefnandi telur að hin umstefndu ummæli séu ærumeiðandi og varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga. Krefst hann þess að þau verði dæmd dauð og ómerk með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga.

Samkvæmt 234. gr. almennra hegningarlaga skal hver sá sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt 235. gr. sömu laga varðar það sektum eða fangelsi ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út. Þá segir í 236. gr. laganna að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að tveimur árum og sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að tveimur árum. Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess sem misgert er við.

Stefnandi telur þrenn ummæli í umræddum athugasemdum, sem stefndi dreifði á aðalfundi Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur í lok desember 2013, vera ærumeiðandi. Í fyrsta lagi þau ummæli stefnda, sem sögð eru höfð beint eftir endurskoðanda félagsins, um að verið sé að kaupa hluti og færa af bankareikningi félagsins án þess að nokkur viti hvað verið sé að kaupa og hvort það tengist starfsemi félagsins. Eru ummæli þessi höfð innan gæsalappa í athugasemdunum. Með þessum ummælum telur stefnandi að heilindi hans sem gjaldkera félagsins séu dregin í efa og að sterklega sé gefið í skyn að endurskoðandi telji að eitthvað vafasamt hafi átt sér stað í bókhaldi og fjármálum félagins. Þá sé ekki rétt að ummæli þessi séu höfð beint eftir endurskoðanda félagsins. Telur stefnandi að ummæli þessi varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga.

Fram hefur komið að stefnandi hafði í lok árs 2012 starfað sem gjaldkeri félagsins í um 12 ár og einn haft aðgang að bankareikningum þess. Þá hefur komið fram að stefndi mætti mótbyr hjá öðrum stjórnarmönnum þegar hann tók við sem formaður félagsins í lok árs 2012, samanber dskj. nr. 30. Einnig hefur komið fram að hann fékk ekki aðgang að bankareikningum félagsins fyrr en um ári eftir að hann tók við sem formaður. Þá verður að líta til þess að á félagsfundi í janúar 2013, þ.e. áður en umstefnd ummæli stefnda komu fram á aðalfundi í lok þess árs, hafði stefnandi viðurkennt að hafa í tvö til þrjú skipti greitt eiginkonu sinni og bróður laun í sinn stað. Á sama fundi hafði tillaga um rannsókn á bókhaldinu verið felld. Jafnframt verður að líta til þess að síðar á þessu sama ári hafði komið í ljós að launagreiðslur félagsins voru ekki í samræmi við launaskrá og að um mun fleiri slíkar færslur var að ræða en stefnandi hafði viðurkennt. Telja verður að á stefnda sem formanni félagsins hafi hvílt sú skylda að hafa eftirlit með starfsemi félagsins og að sjá til þess að hún færi fram í samræmi við lög þess og samþykktir. Einnig verður að telja að á formanni félagsins hafi hvílt sú skylda að upplýsa félagsmenn um fjárreiður félagsins og hugsanleg brot eða mistök í starfsemi þess.

Í upphafsorðum athugasemda stefnda kemur fram að endurskoðendur félagsins hafi gert nokkrar athugasemdir við reikningsskil þess vegna rekstrarársins 2011-2012, m.a. að innra eftirlit hafi ekki verið fullnægjandi þar sem varsla fjármuna félagsins, samþykkt reikninga og bókun þeirra hafi verið á sömu hendi. Hafi endurskoðendur lagt áherslu á mikilvægi þess að stjórnendur væru meðvitaðir um þessa áhættu og að þörf væri á reglulegu eftirliti með hreyfingum á bankareikningum. Formaður félagsins hafi bent á þetta, en átt erfitt um vik að sinna þessu eftirliti þar sem hann hafi ekki haft aðgang að bankareikningum félagsins, en sá sem fari með fjárreiður félagsins hafi einn haft aðgang að þeim. Endurskoðendur félagsins hafi gert sérstakar athugasemdir við það að kostnaður sem falli til við rekstur félagsins sé færður í bókhald án fylgigagna, þ.e. reikninga vanti.

Í framlögðu bréfi Árna Snæbjörnssonar, löggilts endurskoðanda hjá Ernst og Young, dags. 28. desember 2012, til félagsins, sem ber yfirskriftina „Ábendingar og tilmæli eftir endurskoðun rekstrarársins 1. nóvember 2011 til 31. október 2012“, eru gerðar athugasemdir við innra eftirlit og bókhald félagsins. Þar segir að aðgreining starfa sé ekki fullnægjandi þar sem varsla fjármuna, samþykktir og bókhald sé að einhverju leyti allt á sömu hendi hjá félaginu. Jafnframt segir þar að mikilvægt sé að stjórnendur séu meðvitaðir um þá áhættu sem af þessu hljótist og reyni að koma á öðrum eftirlitsaðgerðum til að draga úr henni. Þá segir að við endurskoðun hafi komið upp í einhverjum tilvikum að kostnaður hafi verið færður til gjalda aðeins eftir bankagreiðslu en ekki undirliggjandi reikningi og engin sérstök samþykkt hafi verið fyrir kostnaði eða greiðslu. Bent er á mikilvægi þess að fylgiskjöl endurspegli þann kostnað sem verið sé að færa og enn mikilvægara að samþykki liggi fyrir skilgreindum kostnaði ef enginn reikningur liggi að baki bankagreiðslu.

Athugasemdir af sama meiði voru gerðar í bréfi endurskoðandans til félagsins 23. nóvember 2012 vegna rekstrarársins 1. nóvember 2010 til 31. október 2011.

Í skýrslu Ómars Davíðssonar, endurskoðanda hjá Löggiltum endurskoðendum ehf., dags. 18. júní 2014, sem fenginn var af stjórn félagsins í lok febrúar 2014 til að gera úttekt á fjárreiðum félagsins, kemur fram að við skoðun á bókhaldi félagsins hafi komið í ljós að mikill fjöldi fylgiskjala hafi verið færður í bókhald félagsins án fullnægjandi undirgagna. Kostnaður hafi verið færður eftir kvittunum, handskrifuðum blöðum, millifærslum og fleiru. Einnig séu mörg dæmi um að greiðslur, t.d. vegna aksturskostnaðar og vinnutaps, séu ósamþykktar eða samþykktar af móttakendum greiðslna. Einnig sé um að ræða ósamþykktar greiðslur til stjórnarmanna og gjaldkera vegna „viðhalds húsnæðis“, sem færðar séu eftir greiðslukvittunum. Í lok skýrslunnar segir að farið hafi verið yfir eina möppu frá árinu 2013 og hafi reikningar verið skoðaðir með tilliti til þess hvort reikningar væru frumrit, samþykktir af til þess bærum aðila o.s.frv. og hafi gætt töluverðs ósamræmis í þessu. Segir jafnframt að tryggja verði með öruggum hætti að samþykkt, skráning og greiðsla reikninga séu ekki á sömu hendi.

Ómar Davíðsson kom fyrir dóminn og staðfesti framangreinda skýrslu sína. Hann sagði að athugasemdir sínar varðandi bókhaldsmál félagsins væru mjög alvarlegar. Sagði hann að í sumum tilfellum hefði kostnaður verið færður eingöngu eftir bankakvittunum. Enginn reikningur hefði verið á bak við færslurnar og því hefði ekki verið hægt að sjá eða sannreyna hvað var verið að kaupa eða greiða fyrir.

Samkvæmt framangreindu byggðust umstefnd ummæli stefnda í a-lið stefnukrafna á upplýsingum, sem fram komu í áðurgreindu bréfi Árna Snæbjörnssonar endurskoðanda til félagsins, en þær upplýsingar hafa verið staðfestar með fyrrgreindri úttekt Ómars Davíðssonar endurskoðanda á fjárreiðum félagsins og skýrslu hans hér fyrir dómi. Þótt ósannað sé að ummælin séu höfð orðrétt eftir endurskoðandanum eins og haldið er fram í athugasemdum stefnda er ljóst að ummælin eru efnislega samhljóða athugasemdum í bréfum sem endurskoðandinn sendi stjórn félagsins. Þá hefur sannleiksgildi ummælanna verið staðreynt í málinu.

Það er viðurkennd meginregla í meiðyrðamálum að menn verða ekki dregnir til ábyrgðar fyrir sönn ummæli. Með hliðsjón af framangreindu er ekki fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu ummælanna, enda verður ekki talið að í þeim hafi falist móðgun eða ærumeiðandi aðdróttun í skilningi 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga.

Í öðru og þriðja lagi átelur stefnandi þau ummæli stefnda að eiginkona hans og bróðir hafi bæði þegið háa styrki úr hinum ýmsu sjóðum félagsins og að eiginkonan hafi m.a. þegið 150.000 krónur í sjúkradagpeninga á árinu 2012 og bróðir hans endurmenntunarstyrk að fjárhæð 60.000 krónur, bæði án þess að vinna fyrir félagið. Einnig að sömu aðilar hafi fengið duglega greitt fyrir fundarsetu á vegum félagsins þrátt fyrir að sitja hvergi í sjóðum á vegum félagsins. Telur stefnandi að framangreind ummæli séu ærumeiðandi og varði við 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga.

Eins og áður greinir þykir ljóst að ummælin beindust að stefnanda og gjaldkerastörfum hans hjá félaginu. Er því ekki fallist á að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda í b- og c-liðum stefnukrafna vegna aðildarskorts.

Óumdeilt er að hvorki eiginkona stefnanda né bróðir hans störfuðu í þágu félagsins og áttu því hvorki rétt á launum né öðrum greiðslum frá félaginu. Fyrir liggur hins vegar að samkvæmt bókhaldi félagsins og framlögðum launaseðlum greiddi félagið þeim báðum laun, og eiginkonu stefnanda m.a. laun vegna fundarsetu, án þess að nokkurt vinnuframlag kæmi á móti. Hefur stefnandi viðurkennt að hafa greitt þessum aðilum laun í sinn stað til að komast hjá skattgreiðslum.

Þá liggur fyrir og er ómótmælt að fyrir milligöngu félagsins fékk bróðir stefnanda greiddar 60.000 krónur í námsstyrk úr Sjómennt, sem er sjóður sem Sjómanna- og vélstjórafélag Grindavíkur á aðild að. Upplýst hefur verið að fyrirkomulag styrkveitinga úr Sjóðmennt er með þeim hætti að viðkomandi aðildarfélag Sjómenntar greiðir út styrkinn, og fær fjárhæðina síðan endurgreidda frá Sjómennt. Samkvæmt starfsreglum Sjómenntar á sá félagsmaður rétt á styrk til náms úr sjóðnum, sem unnið hefur fullt starf í a.m.k. sex mánuði undangengna 12 mánuði hjá útgerðum innan LÍÚ og hefur greitt til aðildarfélags Sjómenntar á sama tíma. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að bróðir hans hafi í raun uppfyllt þessi skilyrði og átt rétt á styrk úr sjóðnum. Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að bróðir stefnanda hlaut styrk úr Sjómennt fyrir tilstilli Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur án þess að eiga rétt á styrknum samkvæmt gildandi reglum þar sem hann greiddi ekki til félagsins á lögmætum forsendum.

Þá liggur frammi í málinu launamiði vegna launagreiðslna félagsins til eiginkonu stefnanda á árinu 2012 þar sem fram kemur að henni hafi verið greiddar 150.000 krónur í sjúkradagpeninga og er óumdeilt að launamiðann var að finna í gögnum félagsins. Á launaseðli eiginkonunnar í desember 2012 virðist fjárhæð þessi vera færð sem vinnutap. Fram hefur komið að áðurgreindur launamiði hafði verið sendur til skattyfirvalda, en síðar verið bakfærður og nýr launamiði sendur 22. mars 2013. Ekki verður fram hjá því litið að leiðrétting þessi átti sér stað eftir að málið kom upp og stefnandi hafði viðurkennt að hafa heimildarlaust greitt eiginkonu sinni og bróður laun í sinn stað í tvö til þrjú skipti. Á hinum leiðrétta launamiða er greiðsla vegna sjúkradagpeninga ekki tilgreind heldur hefur sömu fjárhæð verið bætt við fjárhæð vinnulauna. Ljóst er því að eiginkonu stefnanda var greidd umrædd fjárhæð, sem í fyrstu var tilgreind sem sjúkradagpeningar í iðgjaldakerfi og gögnum félagins, samanber framburð vitnisins Ómars Davíðssonar endurskoðanda hér fyrir dómi.

Með hliðsjón af framangreindu og þeim margháttuðu ávirðingum sem komið hafa fram á gjaldkerastörf stefnanda þykja umstefnd ummæli stefnda réttmæt og á rökum reist. Þykir stefndi hafa rennt nægum stoðum undir þá niðurstöðu að ekki hafi verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með þeim. Verður því ekki fallist á kröfu stefnanda um ómerkingu ummælanna, enda verður ekki talið að í þeim hafi falist móðgun eða ærumeiðandi aðdróttun í skilningi 234., 235. eða 236. gr. almennra hegningarlaga.

Að öllu framangreindu virtu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákvarðaður 750.000 krónur og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn. Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Dómsorð:

Stefndi, Birgir Mar Guðfinnsson, er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Viðars Geirssonar.

Stefnandi greiði stefnda 750.000 krónur í málskostnað.