Print

Mál nr. 117/2001

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Kaupskylda
  • Félagslegar íbúðir
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Aðild
  • Lagaskil
  • Flýtimeðferð

Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. september 2001.

Nr. 117/2001.

Hafnarfjarðarkaupstaður

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Varasjóði viðbótarlána

(Friðjón Örn Friðjónsson hrl.)

 

Stjórnarskrá. Kaupskylda. Félagslegar íbúðir. Frávísunarkröfu frá héraðsdómi hafnað. Lögvarðir hagsmunir. Aðild. Lagaskil. Flýtimeðferð.

 

Með yfirlýsingu húsnæðisnefndar H 19. júní 2000 til dánarbús HE var af hálfu H fallið frá kaupskyldu félagslegrar eignaríbúðar, sem afhent hafði verið HE 16. janúar 1990. V krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að H hefði verið óheimilt að falla frá kaupskyldunni. Var V talinn hafa lögvarða hagsmuni af að fá úr því skorið fyrir dómi, hvort H hafi borið að innleysa umrædda íbúð eða ekki. Frávísunarkröfu H var hafnað af þessum sökum, auk þess sem ekki var talin nauðsyn á samaðild H og dánarbúsins skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, svo sem H hélt fram. Ágreiningslaust var að 84. gr. laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins, sbr. 26. gr. laga nr. 58/1995, ætti við um hina umþrættu íbúð, en laga­greinin er enn í gildi eftir því sem við getur átt, sbr. ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál. Samkvæmt nefndri 84. gr. hefur sveitar­stjórn kaupskyldu á félags­legum eignaríbúðum, byggðum samkvæmt lögum nr. 51/1980 um Húsnæðis­stofnun ríkisins, fyrstu 15 árin frá afhendingu íbúðar. Eftir þann tíma á sveitarstjórn forkaups­rétt á þeim íbúðum, sem boðnar hafa verið til sölu. Talið var að eftir gildistöku laga nr. 44/1998 hefði áfram hvílt fortakslaus kaupskylda sveitarstjórna á félags­legum eignaríbúðum, byggðum samkvæmt lögum nr. 51/1980, sem koma til inn­lausnar innan lögákveðins kaupskyldutíma og að hvorki sveitarfélög né eigendur slíkra íbúða hafi nokkurt val í þeim efnum. Íbúðin hefði samkvæmt þessu verið háð kaupskyldu til 16. janúar 2005 og var því talið að H hefði verið óheimilt að falla frá kaupskyldu á henni, enda hafði H ekki tekist að sýna fram á að kaupskyldan væri reist á ómálefnalegum forsendum og færi í bága við eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. mars 2001. Hann krefst þess aðallega, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu af dómkröfum stefnda. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess, að héraðsdómur verði staðfestur og viðurkennd krafa hans þess efnis, að húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar hafi verið óheimilt að falla frá kaupskyldu á fasteigninni Hvammabraut 12 í Hafnarfirði, eignarhluta merktum 00-02, með yfirlýsingu 19. júní 2000. Auk málskostnaðar í héraði krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Mál þetta sætir flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

I.

Héraðsdómari hratt kröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi með úrskurði 20. febrúar 2001. Á það er fallist með héraðsdómara, að stefndi hafi lögvarða hagsmuni af því, að úr því verði skorið fyrir dómi, hvort áfrýjanda hafi borið að innleysa umrædda íbúð eða ekki, enda er gert ráð fyrir því í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál, að til stefnda renni söluhagnaður af íbúðum, sem sveitarfélög hafa byggt og innleystar eru af sveitarfélögum og endurseldar með söluhagnaði, sbr. 2. tl. 1. mgr. ákvæðis VIII til bráðabirgða.

Fyrir Hæstarétti styður áfrýjandi frávísunarkröfu sína einnig þeim rökum, að nauðsyn hafi borið til að stefna jafnframt seljanda eignarinnar, dánarbúi Helga Enokssonar, þar sem niðurstaða héraðsdóms feli í sér, að yfirlýsingin frá 19. júní 2000 sé ógild og dánarbúinu því óheimilt að selja íbúðina á almennum markaði og hirða söluverð hennar umfram innlausnarverð. Áfrýjandi og dánarbúið eigi því samaðild samkvæmt 2. mgr. 18. gr. einkamálalaga. Á þetta verður ekki fallist. Dánarbúið afsalaði hinni umdeildu íbúð til nýs eiganda 20. júní 2000, sjö mánuðum áður en mál þetta var höfðað. Málið er viðurkenningarmál samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og ræður niðurstaða dóms því einu til lykta, hvernig háttað er réttarstöðu aðila þess með tilliti til þeirrar yfirlýsingar, sem húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar gaf út 19. júní 1999.

Samkvæmt öllu framansögðu er frávísunarkröfu áfrýjanda hrundið.

II.

Auk þeirra málsástæðna, sem áfrýjandi tefldi fram í greinargerð sinni í héraði, reisir hann sýknukröfu sína fyrir Hæstarétti á því, að verði lög nr. 44/1998 túlkuð svo, að eiganda fasteignarinnar Hvammabrautar 12 í Hafnarfirði hafi verið skylt að selja sveitarfélaginu og því að kaupa, sbr. 84. gr. laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins og ákvæði I til bráðabirgða í fyrrnefndu lögunum, fari það gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. til hliðsjónar 72. gr. um friðhelgi eignarréttar og 76. gr. um félagsleg réttindi. Er ekki að sjá, að þessar málsástæður hafi komið til umfjöllunar við aðalmeðferð málsins í héraði. Þykir engu að síður rétt að huga að þeim, þar sem þær varða stöðu almennrar löggjafar gagnvart stjórnarskrá.

Af samanburði laga um húsnæðismál nr. 97/1993 og laga nr. 44/1998 og lögskýringargögnum er ljóst, að með breyttri löggjöf er verið að hverfa frá félagslegu eignaríbúðakerfi, þar sem eignarréttur var frá upphafi háður lögbundnum takmörkunum í tiltekinn tíma, yfir í félagslegt lánakerfi án forkaupsréttar og kaupskyldu sveitarfélaga. Þá er tilhögun vaxtamála gjörólík í þessum tveimur kerfum. Með ákvæðum til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998 er gert ráð fyrir nokkuð löngum aðlögunartíma og að eldra kerfi félagslegra íbúða verði viðhaldið, þangað til innlausn íbúða samkvæmt því er lokið. Lagaskilareglur yngri laganna verða ekki túlkaðar þannig, að staða íbúðareigenda í félagslega eignaríbúðakerfinu eigi á lögákveðnum kaupskyldutíma að vera hin sama og lántakenda í félagslega lánakerfinu að því er varðar ráðstöfunarrétt á eignaríbúðum. Hefur áfrýjanda ekki tekist að sýna fram á, að fortakslaus kaupskylda sveitarfélaga á innlausnartímanum eftir gildistöku laga nr. 44/1998, sbr. ákvæði þeirra til bráðabirgða, sé reist á ómálefnalegum forsendum og fari í bága við eignarréttarákvæði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

 Með þessum athugasemdum og skírskotun til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.  

Dómsorð:

Frávísunarkröfu áfrýjanda, Hafnarfjarðarkaupstaðar, er hrundið.

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi greiði stefnda, Varasjóði viðbótarlána, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. mars 2001.

Málið höfðaði Varasjóður viðbótarlána, kt. 580101-3480, Borgartúni 21, Reykja­vík, með stefnu birtri 24. janúar 2001 á hendur Hafnarfjarðarkaupstað, kt. 590169-7579, Strandgötu 6, Hafnar­firði, en málið var þingfest 29. sama mánaðar.  Í greinar­gerð stefnda, sem lögð var fram á dómþingi 14. febrúar, var gerð krafa um frá­vísun máls frá dómi.  Þeirri kröfu var hrundið með úrskurði réttarins upp­kveðnum 20. febrúar, en í framhaldi af því var aðalmeðferð háð 27. febrúar og málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að húsnæðis­nefnd Hafnarfjarðar hafi verið óheimilt að lögum að falla frá kaupskyldu á fast­eigninni Hvammabraut 12, Hafnarfirði, eignarhluta merktum 00-02, sbr. yfirlýsingu þar að lútandi frá 19. júní 2000.  Þá verði stefndi dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu ásamt virðis­aukaskatti samkvæmt fram­lögðum reikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær, að hann verði sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu sam­kvæmt framlögðum reikningi.

 

I.

Forsögu máls þessa má rekja til setningar laga nr. 51/1980 um Húsnæðis­stofnun ríkisins, sem leystu af hólmi eldri lög nr. 30/1970 með áorðnum breytingum.  Markmið laganna var að stuðla að því með lán­veitingum og skipulagi húsnæðismála og húsbygginga að lands­menn gætu búið við öryggi í húsnæðismálum og að stuðla að jafnrétti í húsnæðis­málum þannig að fjár­munum væri sérstaklega varið til þess að auka möguleika launa­fólks til að eignast hús­næði.  Félagslegar íbúðir samkvæmt lögunum voru annars vegar íbúðir í verka­manna­bústöðum, sem byggðar voru eða keyptar á vegum stjórnar verka­manna­bústaða í viðkomandi sveitarfélagi og ætlaðar voru til sölu handa láglaunafólki.  Hins vegar leiguíbúðir, sem byggðar voru eða keyptar af sveitarfélögum og ætlaðar voru til útleigu við hóflegum kjörum handa lág­launa­fólki eða öðrum, sem þörfnuðust af félags­legum ástæðum aðstoðar við hús­næðis­öflun.  Í 53. gr. laganna var nýmæli um kaupskyldu sveitarstjórna á öllum íbúðum í verka­manna­bústöðum, byggðum sam­kvæmt lögunum, sem kæmu til endur­sölu, fyrstu 30 árin frá útgáfu afsals.  Eftir þann tíma skyldi sveitarstjórn eiga for­kaups­rétt að þeim íbúðum, sem boðnar væru til sölu.  Ef sveitarstjórn hafnaði for­kaupsrétti að verka­­manna­bústað skyldi eiganda heimilt að selja íbúðina á frjálsum markaði, enda greiddi hann upp áhvílandi, uppfærðar eftir­stöðvar láns Byggingarsjóðs verkamanna.  Skyldi sveitarstjórn þá gefa út yfirlýsingu um að niður væru fallnar allar kvaðir, sem verið hefðu á íbúðinni um forkaupsrétt og tak­markanir á ráðstöfunarrétti.  Í þeim tilvikum er reyndi á kaupskyldu samkvæmt framansögðu voru nánari fyrirmæli í 54. gr. laganna.  Samkvæmt henni bar eiganda verka­manna­bústaðar, sem hugðist selja íbúð sína, að tilkynna það sveitarstjórn, sem leysti íbúðina til sín og seldi að nýju sam­kvæmt ákvæðum laganna.  Með lögunum voru einnig settar reglur um kaup­skyldu sveitarfélaga á verka­manna­bústöðum, sem byggðir höfðu verið samkvæmt eldri lögum, eftir því sem við gat átt.  Fram kemur í athuga­semdum sem fylgdu frum­varpi til laganna að umrætt nýmæli um kaupskyldu sveitarstjórna væri tekið upp í því skyni að tryggja að verkamannabústaðir héldust í félagslegri eign og þjónuðu áfram upphaf­legum tilgangi sínum, þ.e. að aðstoða efnalitla einstaklinga og fjöl­skyldur til að eignast eigið húsnæði með sem hagkvæmasta hætti. 

Hvammabraut 12 í Hafnarfirði er fjöleignarhús, sem byggt var samkvæmt lögum nr. 51/1980 og afhent stjórn verka­manna­bústaða í Hafnarfirði í maí 1986.  Hin umþrætta íbúð nr. 00-02, var afhent fyrsta eiganda í lok sama mánaðar, en afsal var gefið út í mars 1988.  Samkvæmt afsalinu hvíldi sú kvöð á íbúðinni að hún væri háð ákvæðum laga um verkamannabústaði eins og þau væru á hverjum tíma.  Eignin var endurseld stjórn verkamannabústaða í september 1989 og afsal gefið út í mars 1991 til húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, sem þá hafði tekið við réttindum og skyldum stjórnar verkamannabústaða í umboði sveitarstjórnar, sbr. lög nr. 70/1990, og sá meðal annars um endursölu félags­­legra eignaríbúða, sem sveitar­stjórnin, bæjarstjórn Hafnarfjarðar, hafði leyst til sín.  Áður hafði íbúðin verið afhent Helga Enokssyni 16. janúar 1990 og afsalað honum til fullrar eignar 24. ágúst sama ár.  Kaupverð íbúðar­innar, krónur 3.614.280, var greitt með veðskulda­bréfi að fjárhæð krónur 3.078.843 til Byggingar­sjóðs verkamanna og 535.437 króna peningagreiðslu.  Samkvæmt afsalinu, sem þing­lýst var 7. júní 1991, hvíldi áfram sú kvöð á íbúðinni að hún væri háð ákvæðum laga um verkamannabústaði.

Í lögum nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins voru ákvæði um kaupskyldu framkvæmdaraðila/sveitarstjórna í 82.-86. gr.  Er ágreiningslaust í máli þessu að 84. gr. laganna, sbr. 26. gr. laga nr. 58/1995, eigi við um hina umþrættu íbúð, en laga­greinin er enn í gildi eftir því sem við getur átt, sbr. ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál, sem vikið verður að hér á eftir.  Nefnd lagagrein hljóðar svo: „Sveitarstjórn hefur kaupskyldu fyrstu 15 árin frá afhendingu íbúðar en fimm ár á almennum kaupleiguíbúðum.  Eftir þann tíma á sveitar­­stjórn forkaupsrétt á þeim íbúðum sem boðnar hafa verið til sölu.“

Með gildistöku laga nr. 44/1998 hinn 1. janúar 1999, sem leystu af hólmi lög nr. 97/1993 með áorðnum breytingum, var komið á nýrri skipan hús­næðismála í félagslega íbúðakerfinu.  Byggingu og kaupum á félagslegum eignar­íbúðum af hálfu sveitarfélaga var hætt og eignaríbúðakerfið lagt niður.  Í stað þess var tekið upp nýtt félags­legt íbúðalánakerfi, þar sem meðal annars er gert ráð fyrir sérstökum við­bótar­lánum, auk almennra húsbréfalána, til þeirra sem búa við erfiðar aðstæður, en vilja fjár­magna eigin íbúðakaup.  Jafnframt var eldra kerfi félagslegra íbúða lokað frá og með gildistöku laganna.  Í því fólst að kaupskylda og forkaupsréttur sveitarfélaga á félags­legum íbúðum leið undir lok.  Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að hinu eldra kerfi verði þó viðhaldið á meðan innlausn íbúða sam­kvæmt því kerfi stendur yfir.  Innlausnarreglur eldra kerfis geti því gilt í nokkurn tíma frá gildistöku laganna.

Með lögunum var stofnuð sjálfstæð ríkis­stofnun, Íbúðalánasjóður, sem tók við hlut­verki, réttindum, eignum, skuldum og skuldbindingum Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verka­manna.  Er meginhlutverk Íbúðalánasjóðs að standa undir og fjár­­magna hið nýja húsnæðislánakerfi.  Einnig var stofnaður vara­sjóður við­bótar­lána, í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga, sem hefur það hlutverk að bæta Íbúða­lána­sjóði það tjón sem hann kann að verða fyrir vegna tapaðra viðbótarlána og vegna kostnaðar við upp­boðsmeðferð eigna sem á hvíla viðbótarlán.  Að auki var vara­­sjóðnum fengið það hlut­verk að fara með mál er snerta lokun eldra eignar­íbúðakerfis, þar á meðal að greiða niður áhvílandi eldri lán Byggingar­sjóðs verka­­manna, og um samskipti ríkis og sveitarfélaga í þeim efnum.

Í hnotskurn má segja að ágreiningur málsaðila lúti að því hvort á stefnda hvíli kaupskylda á hinni umþrættu íbúð eftir gildistöku laga nr. 44/1998 og hvernig skýra beri umrætt hugtak.  Við úrlausn þess ágreinings reynir á lagaskila­reglur hinna nýju laga.  Verður nú vikið að helstu málsatvikum (kafli II.), því næst greint frá máls­ástæðum og lagarökum aðila (kaflar III.-IV.), en álit dómenda er að finna í kafla V.

 

II.

Hinn 1. júní 1999 gerði bæjarstjórn Hafnarfjarðar, að tillögu húsnæðis­nefndar bæjarins, svohljóðandi samþykkt:

„Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir með vísan til IV ákvæðis til bráða­birgða „Sala og ráðstöfun eignaríbúða“ í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, að falla frá forkaupsrétti að öllum félagslegum eignaríbúðum í Hafnarfirði og neyta því ein­göngu forkaupsréttar bæjarfélagsins þegar því er það skylt lögum samkvæmt, sem er í þeim tilvikum þegar eigandi íbúðar, þar sem kaupskyldu varir, krefst innlausnar og við nauðungarsölu.“

Samþykktin vakti viðbrögð af hálfu Íbúðalánasjóðs, sem skrifaði húsnæðis­skrif­stofu Hafnarfjarðar bréf 17. janúar 2000 og vakti athygli á því að sam­kvæmt lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál héldu gildi sínu ákvæði eldri laga (nr. 97/1993) um kaupskyldu og forkaupsrétt sveitarstjórna/húsnæðisnefnda sveitarfélaga á félags­legum eignaríbúðum.  Við skoðun á lána- og íbúðaskrá Íbúðalánsjóðs hefði komið í ljós að eigendur félagslegra íbúða í Hafnarfirði, þar sem ótvíræð kaupskylda hús­næðis­nefndar bæjarins væri fyrir hendi, hefðu selt íbúðir sínar á almennum fast­eigna­markaði.  Var óskað eftir tafarlausum skýringum húsnæðisnefndar á því máli.

Í svarbréfi húsnæðisskrifstofunnar 31. janúar 2001 var vitnað til áðurnefndrar sam­þykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar og áréttað að samkvæmt 1. mgr. bráðabirgða­ákvæðis IV í lögum nr. 44/1998 væri eigendum félagslegra eignaríbúða nú frjálst að selja íbúðir sínar á almennum fasteignamarkaði, hafi þeir áður greitt upp lán frá Byggingar­sjóði verkamanna (Íbúðalánasjóði) og skuld við húsnæðisskrifstofu Hafnar­fjarðar og/eða bæjarsjóð.

Spunnust út af þessu frekari bréfaskriftir, með íhlutun félagsmálaráðuneytis og ritun lögfræðilegra álitsgerða af hálfu beggja deiluaðila, sem óþarft þykir að rekja sam­­hengi málsins vegna.

Helgi Enoksson, sem fyrr er nefndur, mun hafa fallið frá í júní 1999.  Dánarbú hans var tekið til opin­berra skipta 6. desember sama ár og Jónas Þór Guðmundsson héraðsdómslögmaður skipaður skipta­stjóri til að framkvæma búskiptin.  Hinn 20. júní 2000 afsalaði skipta­stjórinn íbúðinni að Hvammabraut 12, 00-02, Hafnarfirði, fyrir hönd dánarbúsins, til Ármanns Kristins Ólafs­sonar til fullrar eignar gegn greiðslu á kaupverði íbúðarinnar, krónum 6.000.000.  Að baki sölu fasteignarinnar lá eftirfarandi yfirlýsing hús­næðisnefndar Hafnarfjarðar frá 19. júní 2000:

„Samkvæmt IV. ákvæði til bráða­birgða „Sala og ráðstöfun eignaríbúða“, 1. mgr., í lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, og með vísan til samþykktar bæjar­stjórnar Hafnarfjarðar 1. júní 1999, staðfestist hér með að eiganda eignarinnar Hvamma­braut 12, 00-02, Hafnarfirði, db. Helga Enokssonar, kt. 271023-4059 hefur verið heimiluð sala íbúðarinnar á almennum markaði.

Með vísan til framangreindra ákvæða í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál og samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 1. júní 1999 tilkynnist hér með að ofan­greind íbúð er ekki lengur háð reglum um félagslegar íbúðir og allar kvaðir og tak­markanir á ráðstöfunarrétti íbúðarinnar hvað þær varða eru niður fallnar.“

 

III.

Stefnandi kveður varasjóð viðbótarlána starfræktan samkvæmt X. kafla laga nr. 44/1998 um húsnæðismál.  Sjóðurinn sé í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga, en skal varð­veittur af Íbúðalánasjóði.  Hlutverk sjóðsins sé skilgreint í 44. gr. laganna og 2. og 3. mgr. ákvæðis VIII til bráðabirgða í lögunum.  Til að standa straum af lög­bundnum útgjöldum sjóðsins sé í 45. gr. laganna kveðið á um að sveitar­félög skuli greiða tiltekinn hundraðshluta viðbótarlána sem framlag í varasjóð, sem í upphafi skuli nema 5,0% af viðbótarláni sem veitt er út á hverja íbúð í viðkomandi sveitar­félagi.  Auk framlaga sveitarfélaga skuli renna í varasjóð framlög sveitarfélaga í Tryggingar­sjóð vegna byggingargalla, sbr. 1. tl. 1. mgr. nefnds bráðabirgðaákvæðis og framlög frá ríkissjóði, sbr. 3. tl. ákvæðisins.  Loks skuli renna í varasjóð „Sölu­hagnaður af íbúðum sem sveitarfélög hafa byggt og innleystar eru af hálfu sveitar­félaga og endurseldar með söluhagnaði.“, sbr. 2. tl. ­ákvæðisins.  Sölu­hagnaðinn skuli varasjóður nota til þess að greiða niður áhvílandi framreiknuð eldri veðlán Byggingar­sjóðs verkamanna, sbr. 3. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.  Að sögn stefnanda hafi hús­næðisnefnd stefnda nú þegar gefið eftir kaupskyldu á tugum félagslegra eignaríbúða, sem háðar hafi verið kaupskyldu samkvæmt ákvæðum 83. og 84. gr. laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem enn séu í gildi, sbr. lög nr. 44/1998 og þannig valdið stefnanda með ólögmætum hætti tugmilljóna króna tjóni vegna missis sölu­hagnaðar af íbúðunum.  Að því er sérstaklega varðar sölu íbúðarinnar að Hvamma­braut 12, nr. 00-02, Hafnarfirði, á almennum markaði byggir stefnandi á því að tapaður söluhagnaður sinn nemi krónum 4.521.106, sem ranglega hafi runnið til seljanda íbúðarinnar, dánarbús Helga Enokssonar. 

Stefnandi byggir samkvæmt framansögðu á því að markmiðum og tilgangi hús­næðislaga verði ekki náð ef ekki er viðurkennd skylda stefnda til að innleysa félagslegar eignar­íbúðir í samræmi við gildandi lög.  Túlkun stefnda á ákvæðum laga um hús­næðis­mál og afsal kaupskyldu fari gegn tilvitnuðu ákvæði í 2. tl. 1. mgr. bráða­birgða­ákvæðis VIII og komi í veg fyrir að ákvæðið nái fram að ganga.

Stefnandi byggir enn fremur á því að samkvæmt 84. gr. laga nr. 97/1993, sbr. ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, hvíli fortakslaus kaupskylda á stefnda við innlausn félagslegra eignaríbúða samkvæmt eldra húsnæðis­kerfi.  Sé þetta sérstak­lega áréttað í athuga­semdum með frumvarpi til hinna nýju laga, en þar segi að réttar­staða eigenda félagslegra íbúða, sem keypt hafa í tíð eldri laga nr. 97/1993, breytist ekki.  Stefnandi bendir á að til grundvallar byggingu og ráðstöfun félagslegra íbúða liggi sérstakar reglur og lagaákvæði.  Opinberu fé hafi verið ráðstafað til fram­kvæmda í því skyni að gefa efnalitlu fólki kost á að eignast íbúðir á sérstökum kjörum, sem að öllu leyti séu lögbundin.  Úthlutun, sala og innlausn slíkra íbúða sé á hendi við­komandi sveitarstjórna, sem að lögum hafi falið sérstökum húsnæðis­nefndum það verk­efni.  Til að ná markmiðum laganna sé því meðal annars kveðið á um innlausnar­skyldu og kaupskyldu sveitarfélaga.  Er mótmælt þeirri túlkun stefnda að hann hafi um það val hvort hann framfylgi kaupskyldunni eður ei.  Afstaða eiganda viðkomandi íbúðar skipti heldur engu máli.  Kaupskyldan hvíli sem lögbundin kvöð á viðkomandi eign þar til hún falli niður í samræmi við þann tíma sem löggjafinn hafi markað henni.  Stefnda og sérfróðum lögskipuðum framkvæmdaraðila á hans vegum, húsnæðisnefnd,  hafi verið eða mátt vera kaupskyldan ljós, meðal annars á þeirri íbúð sem ágreiningur sé um í máli þessu.  Stefndi hafi því ekki verið í góðri trú þegar hann gætti ekki að þessari skyldu sinni.

Um lagarök vísar stefnandi sérstaklega til 83. og 84. gr. laga nr. 97/1993, sbr. ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998.  Enn fremur til bráðabirgðaákvæða II og VIII í sömu lögum, svo og til reglugerðar nr. 72/1999 um varasjóð viðbótarlána, sem sett sé með stoð í lögunum, einkum til V. kafla reglugerðarinnar.  Til stuðnings máls­kostnaðarkröfu sinni vísar stefnandi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr.  Kröfuna um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun styður hann við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 119/1989, en þar sé lögmönnum gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni.  Starfsemi stefnanda sé ekki virðis­auka­skatt­skyld samkvæmt 9. tl. 2. mgr. 2. gr. laganna.  Því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

 

IV.

Stefndi kveður megintilgang samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar 1. júní 1999 hafa verið þann að falla frá forkaupsrétti að félagslegum eignaríbúðum í Hafnar­firði til að auðvelda alla sölumeðferð viðkomandi fasteigna.  Stefnda hafi verið frjáls ráðstöfunarréttur á fasteignunum, að uppfylltum skilyrðum bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál, en þar segi í 1. mgr.: „Eftir gildistöku laga þessara getur eigandi félagslegrar eignaríbúðar hvenær sem er, að virtum ákvæðum um forkaupsrétt sveitarfélaga, selt íbúð sína á almennum markaði, greiði hann upp skuld við framkvæmdaraðila og lán sem veitt hafa verið af Byggingarsjóði verka­manna.“  Samkvæmt ákvæðinu skuli forkaupsréttur sveitarfélaga aldrei vera lengri en 30 ár frá útgáfu síðasta afsals íbúðar, en sveitarstjórn sé heimilt að stytta þann tíma hvenær sem er.  Heimild stefnda til að falla frá forkaupsréttinum sé því ótvíræð.  Í síðari hluta nefndrar samþykktar sé hins vegar mjög skýrt kveðið á um að stefndi muni neyta forkaupsréttarins þegar honum sé það skylt að lögum, þ.e. þegar þess sé krafist að stefndi leysi til sín félagslega eignaríbúð og uppfylli þannig þá kaupskyldu sem á honum hvíli samkvæmt 83.-86. gr. laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins, en þær greinar laganna haldi gildi sínu eftir 1. janúar 1999, sbr. ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998.  Aldrei hafi því komið til álita að stefndi skoraðist undan nefndri kaupskyldu.  Eftir gildistöku laga nr. 44/1998 sé kaup­skyldan hins vegar háð því að eigandi félagslegrar íbúðar krefjist þess að stefndi leysi til sín við­komandi íbúð.  Í því tilviki sem hér um ræðir hafi ekki reynt á þetta.  Hefði eigandi íbúðarinnar nr. 00-02 að Hvammabraut 12 hins vegar krafist innlausnar hefði stefndi orðið við því, enda hafi hann alla tíð sinnt kaupskyldu sinni, aldrei afsalað sér henni og því síður fallið frá henni.  

Stefndi byggir samkvæmt framansögðu sýknukröfu sína á því að íbúð nr. 00-02 að Hvammabraut 12 hafi aldrei verið innleyst af hálfu stefnda og því síður endur­seld með sölu­hagnaði af hans hálfu, sbr. ákvæði í 2. tl. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis VIII í lögum nr. 44/1998.  Því verði ekki séð að stefnandi eigi lögvarða kröfu á hendur stefnda.  Stefnandi hafi heldur enga lagaheimild til að krefjast þess að stefndi innleysi félags­legar eignaríbúðir.  Stefnandi hafi því ekki öðlast nein réttindi gagnvart stefnda vegna sölu íbúðarinnar á almennum markaði og því síður hafi stofnast réttarsamband milli aðila máls vegna nefndrar sölu á íbúðinni.  Stefnandi eigi því ekki lögvarða hags­­muni af því að leita viðurkenningardóms um slík réttindi eða réttarsamband í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og beri af þeim sökum að sýkna stefnda vegna aðildarskorts stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga.

Stefndi kveður tilvitnað ákvæði í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis IV í lögum nr. 44/1998 vera afdráttar­laust og taka af öll tvímæli um heimild eiganda félagslegrar eignaríbúðar til að selja íbúð sína á frjálsum markaði, hafi hann greitt upp skuld sína við fram­kvæmdar­aðila og lán frá Byggingarsjóði verkamanna, og að því gefnu að stefndi hafi fallið frá forkaupsrétti sínum.  Hugtakið kaupskyldu beri að skýra sam­kvæmt orðanna hljóðan og í samræmi við tilgang hinna nýju laga, þ.e. ekki sem sölu­skyldu, heldur skyldu sveitarfélags til að kaupa íbúð þegar eftir því sé leitað.  Fallist dómur ekki á þessar röksemdir byggir stefndi á ákvæði bráða­­birgðaákvæðis I í lögum nr. 44/1998 um það hvernig farið skuli með kaup­skyldu­ákvæði 84. gr. laga nr. 97/1993 og túlkun á því, en téð ákvæði eldri laga víki þá fyrir hinum nýju lögum og skýru orðalagi bráðabirgðaákvæðis IV.  Stefndi bendir á í þessu sambandi að í hinum nýju lögum séu ákvæðin um kaupskyldu í bráðabirgðaákvæði II.  Þar sé fjallað um kaup­skyldu sveitarfélags við tilteknar aðstæður án þess að vikið sé að skyldu eiganda félagslegrar eignaríbúðar í tengslum við þá kaupskyldu.  Því sé ekki unnt að draga aðra ályktun um hugtakið kaupskyldu í lögum um húsnæðismál (nr. 44/1998), en það merki ekki annað og meira en orðið sjálft merki í mæltu máli, þ.e. skylda tiltekins aðila til að kaupa tiltekna eign, að kröfu tiltekins aðila, að uppfylltum tilteknum skil­yrðum.  Á sama hátt sé augljóst að hugtakið forkaupsréttur hafi sömu merkingu í lögum um húsnæðismál og það hafi í mæltu máli, enda virðist ekki vera ágreiningur um það milli málsaðila.             

Loks er sýknukrafan studd þeim rökum að Íbúðalánasjóður, sem vörslumaður stefnanda, varasjóðs viðbótarlána, hafi samþykkt í verki framkvæmd stefnda við sölu félagslegra eignaríbúða á frjálsum markaði, með því að taka við uppgreiðslu félags­legra lána athugasemdalaust og afgreiða húsbréf handa einstaklingum til kaupa á félagslegum íbúðum þar sem kvöð um að eign sé háð ákvæðum laga nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins um félagslegar íbúðir og Byggingarsjóð verka­manna sé fyrir hendi.

Um lagarök vísar stefndi til ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, sér­stak­lega ákvæða IV, I, II og VIII.  Þá vísar hann til 83.-86. gr. laga nr. 97/1993, 1. mgr. 24. gr., 2. mgr. 25. gr. og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, sem og ákvæða sömu laga varðandi málskostnaðarkröfu, einkum 129. gr.

 

V.

Með gildistöku laga nr. 44/1998 um húsnæðismál 1. janúar 1999 var hið félags­lega íbúðakerfi samkvæmt lögum nr. 97/1993 um Húsnæðisstofnun ríkisins lagt niður, en í því fólst meðal annars að kaupskylda og forkaups­réttur sveitarfélaga á félagslegum eignaríbúðum leið undir lok.  Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að hinu eldra kerfi verði þó viðhaldið á meðan innlausn íbúða samkvæmt því kerfi stendur yfir.  Innlausnarreglur eldra kerfis geti því gilt um nokkurn tíma frá gildistöku laganna.  Af þessum sökum voru sett ákvæði til bráðabirgða í XII. kafla laga nr. 44/1998 um skil þeirra og laga nr. 97/1993, meðal annars að því er varðar kaup­skyldu og forkaupsrétt sveitar­félaga á meðan eldra réttar­ástand varir.  Í frumvarpi til laganna segir að með setningu bráðabirgðaákvæðanna sé stefnt að því að ekki verði röskun á högum þeirra einstaklinga sem búa í félagslegum íbúðum.  Ákvæðin lúti að réttindum þeirra og skyldum og hvernig samskiptum þeirra við sveitarfélög og aðra framkvæmdaraðila verði best háttað.  Í þeim efnum sé við það miðað að sömu reglur gildi að meginstefnu til og gilda samkvæmt lögum nr. 97/1993.

Í máli þessu er óumdeilt að 84. gr. laga nr. 97/1993, sbr. 26. gr. laga nr. 58/1995, eigi við um íbúð nr. 00-02 að Hvammabraut 12 í Hafnarfirði, en lagagreinin er enn í gildi, að því er snertir lán sem veitt hafa verið úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verka­manna og eftir því sem við getur átt, sbr. ákvæði I til bráða­birgða í lögum nr. 44/1998.  Samkvæmt 84. gr. hefur sveitar­stjórn kaupskyldu á félags­legum eignaríbúðum byggðum samkvæmt lögum nr. 51/1980 um Húsnæðis­stofnun ríkisins fyrstu 15 árin frá afhendingu íbúðar.  Eftir þann tíma á sveitarstjórn forkaups­rétt á þeim íbúðum, sem boðnar hafa verið til sölu.  Nefnd lagagrein á rætur að rekja til 53. gr. laga nr. 51/1980, en með þeim var fyrst leidd í lög skylda sveitar­félaga til að innleysa félagslegar íbúðir byggðar samkvæmt lögunum, sem komu til endursölu innan lögákveðins kaupskyldutíma.  Eins og rakið er í kafla I. að framan bar eiganda íbúðar, sem hugðist selja hana innan þess tíma, að tilkynna það sveitar­stjórn, sem leysti íbúðina til sín, við verði sem tilgreint var í lögunum og seldi íbúðina að nýju samkvæmt ákvæðum laganna.  Af því leiddi að þeir einir áttu rétt á kvaða­lausu afsali, sem gert höfðu upp félagsleg lán á íbúðum sínum að kaupskyldutímanum liðnum, að því gefnu að sveitarfélag hafnaði forkaupsrétti sínum. 

Af lögum nr. 44/1998 og athugasemdum með frumvarpi til þeirra laga verður ekki ráðið að vilji löggjafans hafi staðið til þess að breyta afturvirkt réttindum og skyldum þeirra sem áttu félagslegar eignaríbúðir samkvæmt hinu eldra húsnæðiskerfi, sem kæmu til innlausnar eftir gildis­töku laganna.  Ákvæði II til bráðabirgða í þeim lögum lýtur gagngert að innlausn íbúða samkvæmt því kerfi, sem verið er að loka.  Ákvæðið ber að skýra svo, að við innlausn sveitarstjórna á nefndum íbúðum eftir gildis­töku laganna falli niður ákvæði laga nr. 97/1993 um kaupskyldu og forkaupsrétt sveitar­stjórna við endur­sölu íbúðanna.  Viðkomandi sveitarstjórn er eftir það heimilt að selja íbúðirnar á almennum markaði án annarra skilyrða en að áhvílandi félagsleg lán verði gerð upp, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, sem lýtur að ráðstöfun innleystra íbúða. 

Stefnandi þessa máls, varasjóður viðbótarlána, er opinber stofnun, með sjálf­stæðan fjárhag, í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga, sem komið var á fót með lögum nr. 44/1998.  Hlutverk stefnanda er lögbundið samkvæmt X. kafla og ákvæði VIII til bráðabirgða í XII. kafla laganna, en um réttindi og skyldur stefnanda er einnig fjallað í reglugerð nr. 72/1999 um varasjóð viðbótarlána.  Stefnandi hefur meðal annars það hlut­verk að greiða niður áhvílandi eldri veðlán Byggingar­sjóðs verka­manna, sem tengjast lokun eldra kerfis félagslegra íbúða samkvæmt lögum nr. 97/1993.  Til að standa straum af slíkum útgjöldum er lög­bundið í 2. tl. 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins að söluhagnaður af íbúðum sem sveitar­félög hafa byggt og innleystar eru af hálfu sveitar­félaga og endurseldar með sölu­hagnaði skuli renna til stefnanda.  Í V. kafla reglugerðar nr. 72/1999 er nánar kveðið á um hlutverk stefnanda að þessu leyti.  Segir þar meðal annars í 19. gr. að kauptilboð á almennum markaði í íbúðir sveitarfélaga, sem inn­leystar hafa verið, skuli vera með fyrirvara um samþykki stefnanda.  Ber sveitarfélagi í þessu sambandi að senda stjórn stefnanda viðkomandi kauptilboð ásamt söluyfirliti til samþykktar.

Ákvæði IV til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998 verður að skýra með hliðsjón af framangreindum bráðabirgðaákvæðum laganna og reglum laga nr. 97/1993 um inn­lausn félagslegra eignaríbúða samkvæmt hinu eldra húsnæðiskerfi.  Lýtur 1. mgr. nefnds ákvæðis að forkaupsrétti sveitarfélaga á félagslegum eignar­íbúðum og hvernig með verði farið eftir gildistöku laga nr. 44/1998.  Ákvæðið ber að skýra svo, að það eigi eingöngu við um þá íbúðareigendur sem hyggjast selja íbúðir sínar að liðnum hinum lögákveðna kaupskyldutíma samkvæmt lögum nr. 97/1993.  Eiga þeir þá rétt á kvaða­lausu afsali, sem gert hafa upp félagsleg lán á íbúðum sínum, að því gefnu að sveitarfélag hafni forkaupsrétti sínum.  Eftir það geta viðkomandi hvenær sem er selt íbúðir sínar á almennum markaði.  Styðst sú skýring enn fremur við 2. mgr. bráða­­birgða­ákvæðisins, en þar segir að um réttarstöðu eigenda félagslegra eignaríbúða fari að öðru leyti eftir því sem mælt er fyrir um í 70.-71. gr. laga nr. 97/1993 eftir því sem við getur átt og með þeim takmörkunum sem í lögum nr. 44/1998 greinir.

Samkvæmt framansögðu verður ekki ályktað á annan veg en þann, að eftir gildis­töku laga nr. 44/1998 hvíli áfram fortakslaus kaupskylda sveitarstjórna á félags­legum eignaríbúðum, byggðum samkvæmt lögum nr. 51/1980, sem koma til inn­lausnar innan lögákveðins kaupskyldutíma og að hvorki sveitarfélög né eigendur slíkra íbúða hafi nokkurt val í þeim efnum.  Í því tilviki sem hér um ræðir hvíldi kaup­skylda húsnæðisnefndar Hafnarfjarðar, í umboði stefnda, sem lögbundin kvöð sam­kvæmt 84. gr. laga nr. 97/1993 á íbúð nr. 00-02 að Hvammabraut 12 í 15 ár frá afhendingu hennar.  Íbúðin var afhent Helga Enokssyni, sem nú er látinn, 16. janúar 1990.  Samkvæmt því var íbúðin háð kaupskyldu til 16. janúar 2005.  Húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar var því óheimilt að falla frá kaupskyldu á íbúðinni, svo sem hún gerði með yfirlýsingu sinni 19. júní 2000 til dánarbús Helga Enokssonar.  Skiptir engu máli í því sambandi þótt orðið kaupskylda komi ekki fyrir í texta nefndrar yfirlýsingar, sem tekin er orðrétt upp í kafla II. að framan.

Lögmaður stefnanda vék að því í munnlegum málflutningi að réttur Helga Enokssonar til umræddrar íbúðar samkvæmt áðurnefndum kaupsamningi við stjórn verka­manna­bústaða í Hafnarfirði hafi verið persónulegur réttur honum til handa, sem erfist ekki og sé ekki framseljanlegur samkvæmt 4. mgr. 70. gr. laga nr. 97/1993, sem enn sé í gildi samkvæmt 2. mgr. ákvæðis IV til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, sbr. og 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis I sömu laga.  Stefnda hafi því verið með öllu óheimilt að falla frá kaupskyldu á íbúðinni og heimila dánarbúi hans að selja hana á almennum markaði.  Var þessari tilvísun lögmannsins mótmælt af lögmanni stefnda, sem nýrri málsástæðu og of seint fram kominni.  Óumdeilt er að 4. mgr. 70. gr. laga nr. 97/1993 er enn í gildi, en ákvæðið felur í sér óundanþæga lagareglu, sem kemur í veg fyrir að réttur Helga Enokssonar til nefndrar íbúðar samkvæmt kaupsamningi erfist og girðir fyrir framsal dánarbúsins á íbúðinni með kaupsamningi við þriðja aðila.  Er ákvæðið að því leyti bindandi jafnt fyrir stefnda sem erfingja Helga Enokssonar, en breytir hins vegar engu um framangeinda niðurstöðu dómsins að því er varðar kaupskyldu stefnda á íbúðinni.     

Stefnandi er réttur aðili að málsókn þessari samkvæmt X. kafla og ákvæði VIII til bráðabirgða í lögum nr. 44/1998, sbr. og 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka­mála, og á lögvarða hagsmuni af úrlausn þess sakarefnis sem hér er til með­ferðar, sbr. 2. mgr. 25. gr. sömu laga.  Verður því ekki fallist á sýknu­kröfu stefnda á grundvelli aðildarskorts.

Stefndi krefst loks sýknu vegna þess að Íbúðalánasjóður hafi samþykkt í verki framkvæmd stefnda við sölu félagslegra eignaríbúða á frjálsum markaði, með því að taka fyrirvaralaust við uppgreiðslu félags­legra lána og afgreiða húsbréf handa ein­staklingum til kaupa á félagslegum íbúðum þar sem kvöð um að viðkomandi eignir væru háðar ákvæðum laga nr. 97/1993 voru fyrir hendi.  Í málinu nýtur ekki gagna um afstöðu Íbúðalánasjóðs til ráðstöfunar stefnda á fasteigninni 00-02 að Hvammabraut 12 í Hafnarfirði, en almenn afstaða sjóðsins mátti vera stefnda ljós eigi síðar en í janúar 2000.  Óháð því er fallist á með stefnanda að Íbúðalánasjóður geti ekki að lögum bundið hendur stefnanda varðandi afstöðu til ráð­stöfunar stefnda á félagslegum eignaríbúðum, sem fer í bága við fyrirmæli laga nr. 44/1998.  Afstaða Íbúðalánasjóðs verður því ekki talin hafa þýðingu fyrir úrslit málsins.

Samkvæmt öllu framanröktu verður krafa stefnanda í málinu tekin til greina.  Skal stefndi jafnframt greiða honum málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 700.000 krónur.  Hefur þá verið tekið tillit til þeirrar skyldu stefnanda að greiða virðis­aukaskatt af málflutningsþóknun. 

 

 

Sérálit Guðmundar L. Jóhannessonar héraðsdómara.

 

Ég er sammála meirihlutaálitinu um að samkvæmt venjulegri lagatúlkun sé 84. gr. laga nr. 97/1993 enn í gildi sbr. bráðabirgðaákvæði I í lögum nr. 44/1998 og geti átt við umrædda íbúð, að Hvammabraut 12, Hafnarfirði.  Ég tel þetta ákvæði þó algjöran afturkreisting í lagalegum skilningi og ganga þvert á meginmarkmið laga nr. 44/1998, sem er að leggja niður félagslega íbúðakerfið og kaupskyldu sveitarfélaga og get ekki séð að nein haldbær rök séu til að halda kaupskylduákvæðinu inni og hlekkja takmarkaðan hóp íbúðareiganda við félagslega kerfið, sem hlýtur að leiða til mikillar mismununar.  Ef litið er til þeirra raka, sem að baki liggja þá eru þau í stuttu máli þau, að það verði að koma söluhagnaði af íbúðum sem hlutaðeigandi íbúðar­eigandi hefur átt í styttri tíma en 10 - 15 ár inn í varasjóð viðbótarlána, sem á að bæta Íbúða­lána­sjóði það tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna tapaðra viðbótarlána.  Hér er ekki verið að tala um að skertur sé söluhagnaður þessa takmarkaða hóps íbúðar­eiganda sem verður eða kýs að selja íbúð sína áður en kaupskyldutímabilinu lýkur, að hluta, t.d. 1/4 sem mun samsvara þeirri auknu fyrirgreiðslu í lánum sem þeir njóta við það að kaupa íbúð í félagslega íbúðarkerfinu, heldur á að svipta þau öllum sölu­hagnaðinum.

Í dómskjali nr. 13. sem er bréf bæjarstjórans í Hafnarfirði, til félagsmála­ráð­herra er sýnt með dæmum hversu mikil mismunun kemur til með að leiða af þessari framkvæmd.

Meginmarkmið laga nr. 51/1980 og síðari laga um sama efni, er að aðstoða efnalítið fólk við að eignast þak yfir höfuðið eða, koma sér upp íbúð, en þar er hvergi gengið út frá því, að þeir verði að hlíta því að þeir verða sviptir eignum sínum að hluta eða öllu leyti, þó að félagslega íbúðakerfið verði lagt niður.  Sá sem kaupir íbúð í félagslega íbúðarkerfinu fær nær full réttindi yfir íbúðinni með vissum takmörkunum, frá kaupdegi og greiði af þeim skatta og gjöld sem aðrir fasteignaeigendur, og er þessi eignaréttur friðhelgur skv. 72. gr. Stjórnarskrárinnar.

Nú þegar félagslega íbúðarkerfið hefur verið lagt niður með lögum nr. 48/1998 geur íbúðareigandi í kerfinu sem t.d. vegna fjölskyldustærðar þarf stærri íbúð, ekki krafist innlausnar með það að markmiði að fá stærri íbúð á vegum kerfisins á sem næst innlausnarverði stærri íbúðar, heldur er hann tilneyddur að kaupa sér íbúð á frjálsum markaði og til þess að vera eins settur og áður verður hann að fá markaðs­verð fyrir íbúðina sem hann á í félagslega íbúðarkerfinu og er þá ekki um gróða að ræða heldur jafna stöðu miðað við fyrra kerfi.  Ef hann verður við þær aðstæður, sem skapast hafa með lögum nr. 48/1998 að hlíta innlausn og söluhagnaðinum verði ráð­stafað til varasjóðs íbúðalánasjóðs, er hann ekki fyrst og fremst að missa af sölu­hagnaði heldur verður hann fyrir eignaskerðingu sem er svo mikil, að hann myndi fá langtum minni íbúð heldur en hann á nú, á hinum frjálsa markaði sbr. það sem kemur fra um þróun markaðarins í dómskjölum nr 6b og 13-16 og verður að telja það and­stætt meginmarkmiðum laga nr. 48/1998 að þessi staða komi upp og er þetta nánast eigna­upptaka.

Það álitaefni sem uppi er í þessu máli varðar fyrst og fremst fasteignina Hvamma­braut 12, Hafnarfirði og skiptir niðurstaða málsins miklu máli fyrir fyrr­verandi eiganda íbúðarinnar d/b Helga Enokssonar, en það stendur að því að selja íbúðina án þess að krefjast innlausnar og getur haft ákveðin rök fyrir þeirri ákvörðun sem ætti að eiga kost á að koma að í málinu svo sem sjónarmið um að kaupskyldu­ákvæðin verði að víkja, þar eð þau leiði til óeðlilegrar eignarskerðingar og mismunar sbr. 65 og 72 stjórnarskrár.

Það er því mitt mat að íbúðareigandinn Hvammabraut 12, Hafnarfirði, d/b Helga Enokssonar eigi aðild að málinu skv. 18. gr. laga nr. 91/1991 og borið hafi að stefna honum ásamt bæjarsjóði Hafnarfjarðar í málinu en þar sem það hafi ekki verið gert, beri að vísa málinu frá dómi.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Jónas Jóhannsson, Finnbogi H. Alexandersson og Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómarar kváðu upp dóminn.

 

DÓMSORÐ:

Viðurkennd er krafa stefnanda, varasjóðs viðbótarlána, um að húsnæðisnefnd Hafnarfjarðar hafi verið óheimilt að falla frá kaupskyldu á fast­eigninni Hvammabraut 12, Hafnarfirði, eignarhluta merktum 00-02, með yfirlýsingu þar að lútandi 19. júní 2000. 

Stefndi, Hafnarfjarðarkaupstaður, greiði stefnanda 700.000 krónur í máls­kostnað.