Print

Mál nr. 504/1999

Lykilorð
  • Læknir
  • Skottulækningar
  • Ákæra

Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2000.

Nr. 504/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Ríkharði Mar Jósafatssyni

(Brynjar Níelsson hrl.)

 

Læknar. Skottulækningar. Ákæra.

R var ákærður fyrir brot á læknalögum nr. 53/1988 með því að hafa látið birta tilkynningu um opnum starfsstöðvar, þar sem hann auglýsti sig sem „Doctor of Oriental Medicine“ og að sérgrein hans væri austræn læknisfræði, án þess að hafa öðlast rétt til þess að stunda lækningar hér á landi og kalla sig lækni. Talið var að með birtingu auglýsinganna hefði R hvorki kallað sig lækni né auglýst að hann stundaði lækningar þannig að bryti gegn 1. gr. læknalaga. Þegar auglýsingin var lesin í heild sinni þótti ekki geta vafist fyrir lesanda að þjónusta R fælist í svokölluðum óhefðbundnum lækningum. Var ekki talið að hann hefði með auglýsingunni gefið hugmyndir um að hann væri læknir eða stundaði lækningar þannig að bryti gegn 6. gr. læknalaga. Þá var ekki á það fallist, miðað við verknaðarlýsingu ákæru, að háttsemi R hefði falið í sér brot á banni 22. gr. læknalaga við skottulækningum. Var R því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða að fengnu áfrýjunarleyfi 16. sama mánaðar og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar refsingar ákærða.

Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds.

Af ákæruvaldsins hálfu var því lýst yfir við flutning málsins fyrir Hæstarétti að ekki væri dregið í efa að ákærði hefði lokið eins árs námi í nuddi og fengið starfsleyfi sem nuddfræðingur í fylkinu Nýja-Mexíkó í Bandaríkjunum og að hann hefði að loknu þriggja ára námi og sérstöku prófi fengið leyfi til þess að kalla sig „Doctor of Oriental Medicine“ og reka starfsemi á grundvelli þess leyfis í sama fylki. Ákærði leitaði eftir heimildum heilbrigðisyfirvalda hér á landi til þess að mega starfa sem sjúkranuddari og við nálastungumeðferðir. Af gögnum málsins verður ekki séð að fyrri umsóknin sé endanlega afgreidd eftir að ákærði sendi umbeðnar viðbótarupplýsingar um nám sitt. Síðari umsóknin hefur heldur ekki verið afgreidd. Fallast má á það, sem fram kemur í héraðsdómi, að heilbrigðisyfirvöld hafi dregið að setja reglur um það, sem þar er nefnt óhefðbundnar lækningar.

Auglýsingar þær, sem ákærði lét birta, voru samhljóða og eru þær tíundaðar í héraðsdómi. Ákæra tekur til þeirrar háttsemi hans að „hafa látið birta tilkynningu um opnun starfsstöðvar í Morgunblaðinu 9.,16. og 19. janúar 1999, þar sem hann auglýsti sig sem „Doctor of Oriental Medicine“ og að sérgrein hans sé austræn læknisfræði, án þess að hafa öðlast rétt til þess að stunda lækningar hér á landi og kalla sig lækni.“ Með birtingu auglýsinga þessara hefur ákærði hvorki kallað sig lækni né auglýst að hann stundi lækningar í venjulegri merkingu þess orðs. Felur háttsemi hans því ekki í sér brot gegn 1. gr. læknalaga nr. 53/1988, sbr. 1. gr. laga nr. 116/1993.

Þá kemur fram í auglýsingunni að ákærði hafi starfað um árabil í Bandaríkjunum sem „nuddfræðingur, Doctor of Oriental Medicine og Acupuncturist“. Þegar auglýsingin er lesin í heild sinni getur ekki vafist fyrir lesanda að fram boðin þjónusta ákærða felst í svokölluðum óhefðbundnum lækningum. Breytir því ekki þótt í niðurlagi hennar segi að ákærði taki að sér nýja sjúklinga, en það atriði kemur þó ekki til álita þar eð ákæra nær ekki til þess þáttar í auglýsingunni. Að þessu virtu verður ekki talið að með því að nota orðin „Doctor of Oriental Medicine“ og segja að sérgrein hans sé austræn læknisfræði hafi hann gefið hugmyndir um að hann sé læknir eða stundi lækningar í venjulegum skilningi þess orðs. Háttsemi hans telst því heldur ekki brot á 6. gr. læknalaga.

Í 22. gr. læknalaga er lagt bann við skottulækningum. Þær eru skilgreindar svo í téðu ákvæði að það sé þegar sá, sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögunum, býðst til þess að taka sjúklinga til lækninga, gerir sér lækningar að atvinnu, auglýsir sig eða kallar sig lækni, ráðleggur mönnum og afhendir þeim lyf, sem lyfsalar mega einir selja. Miðað við verknaðarlýsingu í ákæru verður ekki á það fallist að sú háttsemi, sem þar er lýst, feli í sér brot á þessu lagaákvæði.

Þótt mikilvægir almannahagsmunir séu tengdir því að aðeins þeir, sem hafi til þess tilskilda menntun og leyfi yfirvalda, stundi lækningar og skylda starfsemi verður með hliðsjón af framangreindu ekki talið að ákærði hafi brotið gegn þeim ákvæðum læknalaga, sem í ákæru greinir.  Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Ríkharður Mar Jósafatsson, skal sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Brynjars Níelssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 1999.

          Ár 1999, þriðjudaginn 9. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur sem haldið er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Ingibjörgu Benediktsdóttur héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1680/1999: Ákæruvaldið gegn Ríkharði Mar Jósafatssyni, sem tekið var til dóms 19. október sl.

          Málið er höfðað með ákæruskjali lögreglustjórans í Reykjavík 22. júní sl. gegn ákærða, “Ríkharði Mar Jósafatssyni, kt. 230759-2009, Hafnargötu 36a, Keflavík, fyrir brot á læknalögum, með því að hafa látið birta tilkynningu um opnun starfsstöðvar í Morgunblaðinu 9., 16. og 19. janúar 1999, þar sem hann auglýsti sig sem “Doctor of Oriental Medicine” og að sérgrein hans sé austræn læknisfræði, án þess að hafa öðlast rétt til þess að stunda lækningar hér á landi og kalla sig lækni.

          Telst þetta varða við 1. gr., 6. gr. og 22. gr., sbr. 30. gr. læknalaga nr. 53,1988, sbr. 1. gr. laga nr. 116,1993.

          Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

         

          Málavextir eru þessir:

          Dagana 9., 16. og 19. janúar sl. birtist i Morgunblaðinu eftirfarandi auglýsing:
                “Ríkharður Jósafatsson

                Sérgrein:  Austræn læknisfræði,

                tilkynnir opnun sína í húsi World Class, Fellsmúla 24, Reykjavík.

                Ríkharður hefur starfað í Bandaríkjunum síðastliðin 9 ár sem

                nuddfræðingur, Doctor of oriental medicine og Acapunturist.

                Hann mun taka að sér nýja sjúklinga frá 22. janúar 1999.  sími 553 0070”.

 

          Aðstoðarlandlæknir lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir að birta auglýsingar þessar.  Í kærunni kemur fram að kærandi telji auglýsingarnar brjóta gegn læknalögum og vísar í því efni til 1., 6. og 22. gr. laganna.

          Ákærði sótti um leyfi til að stunda nálarstungulækningar með bréfi til heilbrigðisráðuneytis 2. desember 1997.  Bréf þetta liggur ekki fyrir í málinu en til þess er vísað í svarbréfi ráðuneytisins 14. desember 1998, þess efnis að erindi hans hafi verið sent Landlæknisembættinu til afgreiðslu.  Með bréfi síðastgreinds embættis 4. ágúst 1998 virðist þessu erindi ákærða vera svarað.  Segir þar meðal annars að embættinu hafi borist til umsagnar frá ofangreindu ráðuneyti umsókn ákærða um starfsleyfi sem sjúkranuddari hér á landi.  Þar er hins vegar ekki minnst á umsókn um nálarstungulækningar.  Fram kemur að nám ákærða í Boulder Scool of Massage Terapy árið 1990 sé ekki fullnægjandi að mati Landlæknisembættisins til að öðlast réttindi sem sjúkranuddari hér á landi.  Kemur þar einnig fram að ákærði hafi sent gögn því til staðfestu að hann hafi lokið námi í “austurlenskum lækningum”, master of oriental medicine.  Hins vegar fylgi ekki umsókninni námsskrá fyrir námið, sem lýsi hvað kennt sé á námskeiðunum og lengd þess.  Þá segir í bréfinu að á vegum Landlæknisembættisins sé starfandi hópur sem aðstoði embættið við mat á umsóknum um starfsleyfi sem sjúkranuddarar.  Hópurinn sé reiðubúinn að meta gögn úr námi ákærða í “austurlenskum lækningum” til að sjá hvort hann hafi hlotið menntun sem fella megi undir nám í sjúkranuddi.  Fari ráðuneytið þess á leit að ákærði sendi embættinu gögn frá þeim skóla er hann lauk námi frá í “austurlenskum lækningum”, svo unnt verði að meta nánar  nám hans í sjúkranuddi.

          Í gögnum þeim sem lögð voru fram af hálfu ákærða fyrir dómi og framburði hans kemur fram að ákærði lauk eins árs námi í nuddi árið 1990 frá Boulder School of Massage Therapy í Colorado og fékk réttindi í New Mexico árið 1992 til að stunda þar nudd.  Árið 1993 lauk hann prófi eftir þriggja ára nám við International institute of Chinese Medicine í New Mexico í námsgreininni “Oriental medicine” með prófgráðuna “master of oriental medicine”.  Hlaut hann réttindi Board of acapunctur and oriental medicine í New Mexico í ágúst 1993 sem “Doctor of oriental medicine”, sem heimilar honum, ásamt sérstöku leyfi sem hann fékk í febrúar 1993, að stunda nálarstungumeðferð.  Á meðan á þessu þriggja ára námi stóð hlaut hann námslán frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.

          Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu og fyrir dómi.  Hann kvaðst hafa reynt að fá leyfi heilbrigðisyfirvalda til að stunda hér á landi það fag sem hann hafi lært, nudd og oriental medicine, eða austurlenskar lækningar.  Hann kvaðst hafa sótt um leyfi annað hvort sem sjúkranuddari eða nálarstungulæknir eða sérfræðingur í austurlenskum lækningum í kjölfar viðtals við fyrrum landlækni, en hann hafi starfað við þetta frá því er hann lauk námi og fram í janúar sl.  Hann hafi rætt við landlækni til að fá upplýsingar hvernig hann ætti að haga umsókn sinni, þar sem hann vissi ekki hvaða starfsheiti væri notað um það nám sem hann hefði lokið.  Hann hafi svo sótt um starfsleyfi en fengið það svar frá fyrrum landlækni, að þeir sem fengju viðurkenningu til að stunda nálastungur hér á landi væru eingöngu þeir sem væru innan heilbrigðisstéttarinnar, læknar eða sjúkraþjálfarar.  Í desember sl. hafi hann sótt á ný um réttindi til að stunda nálarstungumeðferð en ekki enn fengið svar.  Núverandi landlæknir hafi síðar sagt í viðtali við ákærða í janúar sl. að verið væri að skoða mál hans og hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af þessari auglýsingu.

          Ákærði kvaðst hafa gætt þess að nota ekki starfsheitið læknir í auglýsingunni en hann hafi ekki getað þýtt starf sitt, “doctor of oriental medicine” í auglýsingunni með öðrum hætti en “austurlensk læknisfræði”.  Þessar lækningar væru óhefðbundnar og byggðar á aldagömlum fræðikenningum þar sem aðaláhersla sé lögð á að koma jafnvægi á líkamann.  Notaðar væru til þess ýmsar aðferðir t.d. nálarstungur, nudd, jurtir, líkamsæfingar, rafbylgjur, sprautumeðferð, rafbylgjur, „leisergeisla” o.fl.  Hann sagði að í starfi sínu banni hann fólki hvorki að leita sér hefðbundinna lækninga né lofi því lækningu.

                Í málinu liggur frammi bréf Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi landlæknis, dagsett 13. ferbrúar 1998, sem vísar til bréfs ákærða 11. janúar sama ár, þar sem ákærði gerir fyrirspurn um það hvort hann geti sótt um leyfi sem læknir í austurlenskum lækningum, sem nálarstungulæknir eða sjúkranuddari.  Segir í bréfinu að hér á landi sé ekki neitt sem heiti læknir í austurlenskum lækningum og vísaðer þar í ákvæði læknalaga sem segi til um hvaða þekkingu menn þurfi að hafa til að öðlast almennt læknaleyfi hér á landi.  Hafi íslenskur læknir öðlast íslenskt lækningaleyfi geti hann sótt um sérfræðileyfi í tilteknum greinum hafi hann lokið sérnámi í greininni.  Um það séu einnig ákvæði í reglugerð.  Almennt læknanám taki yfirleitt 4-5 ár, en samkvæmt yfiliti um nám, störf og menntun ákærða sýnist menntun hans ekki uppfylla þau skilyrði.  Segir jafnframt í bréfinu að það sem ákærði hafi ekki læknaleyfi eða sjúkraþjálfaraleyfi muni hann trúlega ekki fá leyfi til að stunda nálarstungumeðferð hér á landi.  Er ákærða jafnframt bent á það að hann gæti reynt að sækja um starfsleyfi sem nuddari hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, þar sem nokkrir aðilar sem stundað hafi nám í nuddi við sama skóla og ákærði hafi fengið starfsleyfi sem sjúkranuddarar hér á landi. 

 

          Niðurstaða.

          Af gögnum málsins er ljóst að ákærði hefur ekki réttindi til að stunda austurlenskar lækningar og nudd hérlendis, en hann hefur lokið viðurkenndu námi í þeim greinum í Bandaríkjunum og fengið leyfi í tilteknum ríkjum þar til að stunda þessar óhefðbundnu lækningar.  Hann hefur ekki lagt fram í málinu umsóknir sínar um slík leyfi til heilbrigðisyfirvalda, en allt að einu er ljóst, eins og rakið hefur verið hér að framan, að hann hefur leitað bæði til landlæknisembættisins og heilbrigðisráðuneytisins í þessu efni.  Ákærði hefur viðurkennt að hann hafi birt umræddar auglýsingar í Morgunblaðinu greind sinn, en neitar því að í henni felist brot á læknalögum.  Hvergi komi þar fram að hann kalli sig lækni í skilningi 1. og 6. gr. læknalaga nr. 53/1988.  Þá hefur ákærði vísað til þess að það brjóti gegn stjórnskipulegri vernd aflahæfis, atvinnuréttinda og atvinnufrelsis að hann megi ekki auglýsa starf sitt, sem hann hafi hlotið menntun til að stunda, sem viðurkennd hafi verið af íslenskum stjórnvöldum, sem hafi veitt ákærða námslán á meðan á námi hans stóð í “oriental medicine”.

          Í 1. gr. læknalaga nr. 53/1988, sbr. 1. gr. laga nr. 116/1993, segir að rétt til þess að stunda lækningar hér á landi og kalla sig lækni hafi:

          „1.                 sá sem fengið hefur leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sbr. 2. og 3. gr.

          2.                   sá sem fengið hefur staðfestingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á lækningaleyfi hér á landi sem aðili er að samningi um Evrópska efnahagssvæðið.”

          Í 2. mgr. ákvæðisins segir að ráðherra skuli setja nánari reglugerð um þá sem stunda mega lækningar hér á landi skv. 2. tl. 1. mgr.

          Samkvæmt 6. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 116/1993, á sá einn rétt á að kalla sig lækni og stunda lækningar sem uppfyllir skilyrði 1. gr.  Öðrum er óheimilt að nota starfsheiti eða kynningarheiti sem til þess er fallið að gefa hugmyndir um að þeir séu læknar eða stundi lækningar, sbr. nánar ákvæði laga þessara um skottulækningar.  Fjallað er um skottulækningar í 22. gr. laganna, en þar segir í 2. mgr.:  “Það eru skottulækningar er sá sem ekki hefur leyfi samkvæmt lögum þessum býðst til að taka sjúkling til lækninga, gerir sér atvinnu, auglýsir sig eða kallar sig lækni, ráðleggur mönnum eða afhendir þeim lyf sem lyfsalar einir mega selja.  Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins eru hvers konar skottulækningar bannaðar hér á landi”.

          Kemur þá til athugunar hvort ákærði hafi með auglýsingunum þremur brotið gegn ofangreindum ákvæðum læknalaga.  Þegar það er virt ber að skoða ákvæðin í tengslum hvert við annað.  Í auglýsingunni er fullyrt að sérgrein ákærða sé austræn læknisfræði og þar kemur fram að hann sé Doctor of Oriental medicine og Acapuncturist og hafi starfað sem slíkur í Bandaríkjunum.  Kemur þar og fram að hann muni taka að sér sjúklinga.  Óumdeilt er að ákærði hefur ekki fengið starsleyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til að leggja stund á þá starfsemi sína er hann auglýsir.  Hann hefur því ekki leyfi til að kalla sig lækni.  Þess er að engu getið í auglýsingunni að ákærði hafi ekki öðlast þetta leyfi.  Þegar texti auglýsingarinnar  er virtur í heild er það áliti dómsins að hann sé til þess fallinn að vekja hugmyndir þeirra sem hana lesa um það að ákærði sé læknir, sem stundi lækningar í skilningi 1. gr. læknalaga.  Þótt ákærði hafi lokið námi í Bandaríkjunum í fræðunum “oriental medicine” og hafi fengið starfsréttindi þar breytir það ekki þeirri niðurstöðu að umræddar auglýsingar teljast samkvæmt framansögðu brot á 1. gr., 6. gr. og 22. gr., sbr. 30. gr. læknalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 116/1993.  Þessi niðurstaða brýtur að mati dómsins ekki í bága við ákvæði 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 13. gr. stjórskipunarlaga nr. 97/1995, sbr. dóm Hæstaréttar nr. 52/1995 frá 7. desember.  Samkvæmt þessu hefur ákærði gerst sekur um þá háttsemi sem honum er að sök gerð í ákæru.  Við ákvörðun refsingar ákærða þykir þó rétt að taka tillit til þess að ákærði hefur aflað sér tiltekinnar menntunar á sviði heilbrigðismála en heilbrigðisyfirvöld hafa dregið að setja reglur um þessar óhefðbundnu lækningar.  Þá hefur verið látið óátalið í mörg ár að aðrir sem ekki hafa starfsleyfi auglýsi störf sín með svipuðum hætti og ákærði, svo sem náttúrulæknar, andalæknar og  kínverskir náttúrulæknar.  Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 30.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa.  Ákærði er eftir þessum málsúrslitum dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.

 

D ó m s o r ð:

          Ákærði, Ríkharður Mar Jósafatsson, greiði 30.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar greiðist hún ekki innan 4 vikna frá birtingu dóms þessa. 

          Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Jónssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur.