Print

Mál nr. 487/2014

Lykilorð
  • Réttarfarssekt
  • Verjandi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Réttlát málsmeðferð
  • Sératkvæði

                                     

Þriðjudaginn 31. mars 2015.

Nr. 487/2014.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)

gegn

Stefáni Karli Kristjánssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Réttarfarssekt. Verjandi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Réttlát málsmeðferð. Sératkvæði.

S hafði verið skipaður verjandi X sem ákærður var í sakamáli. Með efnisdómi í sakamálinu í héraði var S gert að greiða 300.000 króna sekt í ríkissjóð. Var sektin ákvörðuð með vísan til a. og d. liða 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en í fjögur tilgreind skipti mætti S ekki til þinghalds í málinu, þar á meðal er aðalmeðferð í því fór fram. Í síðastgreinda skiptið var S leystur frá verjandastörfum í málinu og var dómurinn kveðinn upp nokkru síðar að honum fjarstöddum. Að ósk S og að fengnu áfrýjunarleyfi var dóminum hvað þetta varðaði áfrýjað til Hæstaréttar. Bar S því m.a. við að hann hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem honum hefði ekki verið gefinn kostur á að halda uppi vörnum áður en sektin var ákvörðuð. Þá taldi hann að refsiskilyrðum 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 væri ekki fullnægt í málinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar var m.a. vísað til þess að fjárhæð réttarfarssektar, sem ákveðin væri samkvæmt XXXV. kafla laga nr. 88/2008, væri ekki bundin tilteknu hámarki og hefði sekt S numið umtalsverðri fjárhæð. Þegar litið væri til beggja þessara atriða yrði talið að sektin væri í eðli sínu refsing. Taldi Hæstiréttur að það hefði ekki horft S til réttarspjalla þótt sérstakur málflutningur hefði ekki farið fram í héraði, áður en ákvörðun var tekin um að gera honum réttarfarssekt, þar sem réttur hans til þess að halda uppi vörnum á áfrýjunarstigi sætti að lögum engum takmörkunum og hefði hann getað komið að öllum sjónarmiðum sínum við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Samkvæmt því fullnægði málsmeðferðin ákvæðum laga og bryti hún ekki í bága við regluna um réttláta málsmeðferð. Taldi Hæstiréttur að með því að hafa ekki mætt til þinghalda í tvö tilgreind skipti þrátt fyrir að hafa sannanlega fengið tilkynningu um þau eða sjá til þess að annar til þess bær maður mætti þar fyrir sína hönd hefði S brotið gegn starfsskyldum sínum sem verjandi X. Hefði S með þessu valdið óþörfum drætti á málinu og hefði því verið fullt tilefni fyrir dómarann til að víta hann samkvæmt 4. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 sem telja yrði að gert hefði verið með bókun í öðru þessara þinghalda. Með því að mæta ekki til dómþings við aðalmeðferð málsins, eftir að hafa áður verið víttur, hefði S misboðið virðingu dómsins. Samkvæmt því var staðfest sú ákvörðun héraðsdóms að gera S sekt á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008, en hún þótti hæfilega ákveðin 50.000 krónur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. júlí 2014 í samræmi við yfirlýsingu varnaraðila um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um að varnaraðili skuli greiða 300.000 krónur í sekt. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins.

Varnaraðili krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði felldur úr gildi að því er varðar ákvörðun um sekt hans.

I

Með ákæru 12. ágúst 2013 var X gefið að sök brot gegn lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með því að hafa haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, tiltekinn fjölda af kannabisplöntum og ákveðið magn kannabislaufa, svo og að hafa ræktað greindar plöntur. Þegar málið var þingfest 26. september 2013 mætti ákærði og með honum A héraðsdómslögmaður vegna varnaraðila sem að ósk ákærða var skipaður verjandi hans. Samkvæmt endurriti úr þingbók var málinu frestað til 11. október sama ár klukkan 13.15. Með tölvubréfi héraðsdómara, sem sent var varnaraðila að loknu þinghaldinu 26. september, fylgdi endurrit af því sem fram fór í þinghaldinu. Síðastnefndan dag mun varnaraðili hafa verið lagður inn á sjúkrahús vegna bráðabotnlangabólgu.

Málið var næst tekið fyrir í þinghaldi 11. október 2013. Að morgni þess dags hafði varnaraðili sent héraðsdómara tölvubréf þar sem hann spurði hvort hægt væri að fresta þinghaldinu. Kvaðst hann vera „tvíbókaður“ og ætti að mæta í tvö þinghöld við Héraðsdóm Reykjavíkur og enginn annar gæti „hlaupið í skarðið“ fyrir sig. Dómarinn svaraði um hæl og sagðist taka málið fyrir 30. október 2013. Varnaraðili þakkaði fyrir og sagði „alveg ljóst að Reykjanesið verður sett á forgang“. Í þinghaldinu 11. október var bókað að ákærði væri hvorki mættur né verjandi hans og hefðu þeir ekki boðað lögleg forföll. Að því búnu var málinu frestað til 30. október klukkan 10. Að loknu þinghaldinu 11. október áttu héraðsdómari, ákærandi og varnaraðili tölvupóstsamskipti þar sem sá síðastnefndi óskaði eftir að þinghaldið 30. október yrði háð snemma morguns þar sem hann kvaðst vera við aðalmeðferð eftir hádegi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Í þinghaldi, sem háð var fimmtudaginn 14. nóvember 2013, var bókað að fyrirtöku, sem hafi átt að vera 30. október sama ár, hafi verið frestað utan réttar „þar sem hvorki var mætt af verjanda né ákærða.“ Síðarnefndan dag sendi héraðsdómari tölvubréf til lögmannsstofu varnaraðila þar sem sagði að ákveðið hefði verið að taka mál ákærða fyrir 14. nóvember 2013 klukkan 10.20. Í tölvubréfi frá ritara varnaraðila sagði að boðun í þinghaldið hafi verið móttekin og bókuð hjá varnaraðila. Í þinghaldinu 14. nóvember var eftirfarandi fært til bókar: „Ákærði er ekki mættur þrátt fyrir boðun til verjanda hans um þinghaldið. Þá sendi ritari verjanda ákærða tölvupóst til dómsins kl. 9:31 í morgun þar sem dómaranum var tilkynnt um fjarveru verjanda. Dómari telur þessi vinnubrögð verjanda ámælisverð þar sem hann hvorki hefur haft milligöngu um að ákærði mæti sjálfur né fengið annan lögmann til að mæta fyrir sig eða óskað eftir skipun annars verjanda.“ Málinu var síðan frestað til miðvikudagsins 20. nóvember 2013 klukkan 9.35.

Í því þinghaldi var bókað að ákærði væri ekki mættur og hefði ekki boðað lögmæt forföll „né verjandi hans.“ Var fært til bókar að sækjandi hygðist láta handtaka ákærða og færa hann fyrir dóm 3. desember 2013 kl. 10.40. Síðdegis 20. nóvember barst héraðsdómara tölvubréf frá varnaraðila þar sem sagði meðal annars: „Ég geri athugasemdir varðandi bókun dómara í þingbók liðinn fimmtudag. Ég var við aðalmeðferð á Ísafirði sem teljast lögmæt forföll ... Hvað varðar þinghald í dag þá var mér með öllu ókunnugt um það ... Sjálfur var ég í aðalmeðferð í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem aftur teljast lögmæt forföll.“ Þá kveðst varnaraðili ekki hafa fengið upplýsingar um fyrrgreinda bókun héraðsdómara í þinghaldinu 14. nóvember 2013 um aðfinnslur í sinn garð fyrr en 20. sama mánaðar.

Málið var því næst tekið fyrir 3. desember 2013 þar sem ákærði var mættur ásamt varnaraðila. Við það tækifæri var bókað eftir ákærða að hann viðurkenndi að hafa haft umrædd efni er greindi í ákæru í vörslum sínum, en neitaði „að þau hafi verið í sölu- og dreifingarskyni.“ Þá samþykkti ákærði upptökukröfu ákæruvaldsins. Að því búnu var málinu frestað til aðalmeðferðar 4. febrúar 2014 klukkan 9.15. Í því þinghaldi var ákærði mættur, en ekki varnaraðili. Var fært til bókar að hann hefði ekki boðað forföll „né haft samband við sækjanda eða ákærða sjálfan að hans sögn.“ Samkvæmt endurriti úr þingbók kvaðst ákærði ekki óska eftir að sér yrði skipaður annar verjandi og óskaði jafnframt eftir að skipun varnaraðila sem verjanda yrði felld niður. Að því búnu var bókað eftir sækjanda að fallið væri frá þeim sakargiftum á hendur ákærða að hann hafi haft fíkniefnin í vörslum sínum í söluskyni. Í framhaldi af því viðurkenndi ákærði skýlaust þá háttsemi sem honum var gefin að sök í ákæru og samkvæmt því var ákveðið að farið yrði með málið að hætti 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Eftir að sækjandi og ákærði höfðu tjáð sig stuttlega var málið tekið til dóms og dómur kveðinn upp 11. febrúar 2014 þar sem ákærði var dæmdur til refsingar og gert að sæta eignaupptöku, auk þess sem varnaraðila var gert að greiða  300.000 krónur í sekt samkvæmt a. og d. liðum 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008.

Samkvæmt gögnum málsins kvaðst varnaraðili ekki hafa mætt til aðalmeðferðar þess 4. febrúar 2014 þar sem hann hefði gert mistök við færslu í dagbók sína. Hafi hann verið við störf á skrifstofu sinni að morgni þess dags.

II

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 88/2008 er hlutverk verjanda að draga fram í málinu allt sem verða má skjólstæðingi hans til sýknu eða hagsbóta og gæta réttar hans í hvívetna. Eftir að ákæra hefur verið gefin út á verjandi rétt á því að vera viðstaddur öll þinghöld í máli og ber dómara að tilkynna honum um þau, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Í samræmi við hlutverk sitt og trúnaðarskyldu gagnvart skjólstæðingi sínum er verjanda ekki aðeins rétt, heldur og skylt að mæta í hvert sinn sem mál er tekið fyrir, enda hafi hann sannanlega verið boðaður til þinghalds. Skal verjandi sjálfur sinna starfsskyldum sínum, en er þó heimilt að láta fulltrúa sinn eða annan lögmann sækja einstök þinghöld fyrir sína hönd, sbr. 2. mgr. 35. gr. laganna. Í siðareglum fyrir lögmenn, Codex ethicus, sem Lögmannafélag Íslands hefur sett á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn, er meðal annars kveðið á um samskipti lögmanna og dómstóla. Í 23. gr. þeirra segir að lögmanni, sem fer með mál fyrir dómstólum, beri að tilkynna viðkomandi dómstól um fyrirsjáanleg forföll sín.

Eins og að framan greinir var varnaraðili skipaður verjandi ákærða 26. september 2013. Ekki hefur komið fram skýring af hálfu varnaraðila á því hvers vegna hann mætti ekki til þinghalds 30. október sama ár sem hann hafði þó fengið tilkynningu um. Þá liggur fyrir að héraðsdómari boðaði varnaraðila til þinghalds 14. nóvember sama ár, klukkan 10.20. Tæpri klukkustund áður en þinghaldið átti að hefjast var dómaranum tilkynnt um fjarveru varnaraðila og gaf hann síðar þá skýringu að hann hefði verið viðstaddur aðalmeðferð í öðru dómsmáli á þessum tíma. Í héraðsdómi er tekið fram að í umræddu þinghaldi hafi málinu verið frestað til 20. sama mánaðar og hafi endurrit þingbókar frá 14. nóvember verið sent varnaraðila í tölvupósti. Varnaraðili mótmælir því að hafa fengið tilkynningu um fyrirhugað þinghald 20. nóvember og hafi sér því verið með öllu ókunnugt um það. Þar sem gögn málsins bera ekki með sér að varnaraðili hafi sannanlega fengið tilkynningu um það þinghald verður litið svo á að hann hafi ekki haft vitneskju um það fyrir fram og því ekki brotið gegn starfsskyldum sínum sem verjandi þótt hann hafi ekki mætt til þess. Á hinn bóginn var varnaraðili viðstaddur þinghald 3. desember 2013 þar sem ákveðið var að aðalmeðferð málsins færi fram 4. febrúar 2014. Þrátt fyrir það mætti hann ekki í það sinn og gaf sem áður greinir þá skýringu á fjarveru sinni að hann hefði gert mistök við færslu í dagbók sína.

III

Í XXXV. kafla laga nr. 88/2008 er að finna ákvæði um réttarfarssektir. Í fyrri málslið 1. mgr. 222. gr. laganna segir að dómari ákveði sektir samkvæmt reglum kaflans af sjálfsdáðum og renni þær í ríkissjóð. Samkvæmt 1. mgr. 223. gr. má ákveða sekt á hendur verjanda fyrir þá háttsemi sem greinir í a. til d. liðum málsgreinarinnar. Undir það fellur sú háttsemi að valda af ásetningi óþörfum drætti á máli, sbr. a. lið, og að misbjóða virðingu dóms á annan hátt með framferði í þinghaldi, sbr. d. lið. Þá er tekið fram í 4. mgr. greinarinnar að telji dómari að brot gegn 1. mgr. sé smávægilegt geti hann ákveðið að víta þann brotlega í stað þess að gera honum sekt. Þá segir meðal annars í 1. mgr. 224. gr. að gangi dómur í máli skuli sekt á hendur verjanda  ákveðin þar.

Fjárhæð réttarfarssektar, sem ákveðin er samkvæmt XXXV. kafla laga nr. 88/2008, er ekki bundin tilteknu hámarki. Nam sekt sú, sem varnaraðili var látinn sæta, umtalsverðri fjárhæð. Þegar litið er til beggja þessara atriða verður talið að sektin sé í eðli sínu refsing, eins og aðilar voru sammála um við flutning málsins fyrir Hæstarétti. Í síðari málslið 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 er heimild til handa ákæruvaldinu að höfða sérstakt mál vegna brota gegn þessum kafla laganna. Í samræmi við almennar reglur ber þá að gefa þeim, sem mál beinist gegn, kost á að koma að vörnum. Slíkt mál var ekki höfðað á hendur varnaraðila. Á hinn bóginn var eins og áður segir einnig unnt að viðhafa þá málsmeðferð að dómari sakamálsins kvæði á um réttarfarssekt, sbr. fyrri málslið málsgreinarinnar. Rök standa ekki til þess að telja varnaraðila hafa átt að njóta lakari réttarstöðu eftir því hvor framangreindra leiða væri farin þegar metið var hvort ætti að gera honum réttarfarssekt sem jafnað yrði til refsingar, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Eins og áður greinir gaf ríkissaksóknari út áfrýjunarstefnu vegna þessa þáttar málsins að   ósk varnaraðila sem átti lögum samkvæmt rétt til að fá úrlausn æðra dóms, að undangengnum munnlegum málflutningi, um þá réttarfarssekt sem honum var gert að sæta í héraði. Réttur varnaraðila til þess að halda uppi vörnum á áfrýjunarstigi af þessu tilefni sætir að lögum engum takmörkunum og gat hann komið að öllum sjónarmiðum sínum við meðferð málsins hér fyrir dómi. Að þessu virtu horfir það varnaraðila ekki til réttarspjalla þótt sérstakur málflutningur hafi ekki farið fram í héraði áður en sú ákvörðun var tekin að gera honum þar réttarfarssekt. Samkvæmt þessu fullnægir málsmeðferð sú sem fram hefur farið ákvæðum laga og brýtur hún ekki í bága við regluna um réttláta málsmeðferð, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. dóm Hæstaréttar 28. maí 2014 í máli nr. 37/2014.

Með því að mæta ekki til þinghalda 30. október 2013 og 14. nóvember sama ár þrátt fyrir að hafa sannanlega fengið tilkynningu um þau eða sjá til þess að annar til þess bær maður mætti þar fyrir sína hönd braut varnaraðili samkvæmt framansögðu gegn starfsskyldum sínum sem verjandi ákærða. Þannig bar honum eftir 23. gr. siðareglna lögmanna að láta héraðsdómara vita með hæfilegum fyrirvara áður en síðara þinghaldið hófst að hann yrði fjarverandi vegna aðalmeðferðar í öðru máli. Hafði varnaraðili með þessu framferði sínu valdið óþörfum drætti á málinu og var því fullt tilefni fyrir dómarann til að víta varnaraðila samkvæmt 4. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 sem telja verður að hann hafi gert með bókun sinni í umræddu þinghaldi. Fékk varnaraðili sem fyrr segir vitneskju um þær ávítur 20. nóvember 2013. Með því að mæta ekki til dómþings 4. febrúar 2014 við aðalmeðferð málsins, eftir að hafa verið áður víttur fyrir að virða tilkynningar um þinghöld að vettugi, misbauð varnaraðili virðingu héraðsdóms. Samkvæmt þessu verður staðfest sú ákvörðun dómsins að gera varnaraðila sekt á grundvelli a. og d. liða 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 og er hún hæfilega ákveðin 50.000 krónur.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins. Þar sem skipaður verjandi hans fyrir Hæstarétti hefur afsalað sér málsvarnarlaunum komi til sakfellingar, sbr. niðurlag 1. málsliðar 1. mgr. 38. gr., sbr. 210. gr. laga nr. 88/2008, verða þau ekki dæmd.  

Dómsorð:

Varnaraðili, Stefán Karl Kristjánsson, greiði 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Varnaraðili greiði áfrýjunarkostnað málsins, 12.151 krónu.

Sératkvæði

Karls Axelssonar setts hæstaréttardómara

Ég er sammála meirihluta dómenda um það að varnaraðili hafi brotið gegn starfsskyldum sínum sem verjandi ákærða með því að mæta ekki til þinghalda 30. október og 14. nóvember 2013 og 4. febrúar 2014, þrátt fyrir að hafa sannanlega fengið tilkynningu um þau, eða sjá til þess að annar til þess bær maður mætti þar fyrir sína hönd, en háttsemi hans fyrstgreindu tvö skiptin leiddi til dráttar á málinu. Þá er ég einnig samþykkur röksemdum og niðurstöðu meirihlutans um að sekt sú sem lögð var á varnaraðila sé í eðli sínu refsing, eins og málsaðilar lögðu til grundvallar við flutning málsins fyrir Hæstarétti.

Í atkvæði meirihlutans eru rakin ákvæði XXXV. kafla laga nr. 88/2008 er fjalla um réttarfarssektir. Svo sem þar kemur fram hefur síðari málsliður 1. mgr. 222. gr. laganna að geyma heimild til handa ákæruvaldinu að höfða sérstakt mál vegna brota gegn þessum kafla laganna. Í samræmi við almennar málsmeðferðarreglur ber þá að skilgreina sakir og gefa þeim sem mál er höfðað gegn kost á að koma að vörnum. Sú leið var ekki farin í máli þessu. Á hinn bóginn var einnig unnt að viðhafa þá málsmeðferð að dómari málsins tæki ákvörðun um réttarfarssekt samkvæmt fyrri málslið ákvæðisins en þá þurfti ekki sérstaka kröfu þar um af hálfu ákæruvalds. Er ég jafnframt samþykkur þeirri ályktun meirihlutans að rök standi ekki til þess að varnaraðili hafi átt að njóta lakari réttarstöðu eftir því hvor framangreindra leiða væri farin þegar til greina kom að gera honum sekt sem jafnað verður til refsingar, enda eiga ákvæði 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. og 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, við í báðum tilvikum, sbr. einnig ákvæði XXV. kafla laga nr. 88/2008.

Með hliðsjón af sératkvæði Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara og Stefáns Más Stefánssonar prófessors í hæstaréttarmálinu nr. 37/2014 tel ég á hinn bóginn að þegar fyrir lá að varnaraðili myndi ekki mæta til dómþings 4. febrúar 2014, eftir að hafa verið ávíttur í þinghaldi 14. nóvember 2013, hefði verið rétt, samkvæmt ákvæðum XXV. kafla laga nr. 88/2008, að boða til dómþings strax í framhaldinu, kynna varnaraðila sakarefnið og gefa honum kost á að koma að andmælum við fyrirhugaða ákvörðun um réttarfarssekt. Hvað sem líður möguleikanum til þess að koma að vörnum á áfrýjunarstigi þá fær það ekki staðist tilvitnuð ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu að manni sé gerð refsing en hann njóti hvorki réttar til að koma að andmælum né að hann sé upplýstur um að áformað sé að refsa honum. Hvorugt þessara grundvallarskilyrða voru uppfyllt í málinu, en eins og greinir í atkvæði meirihlutans var skipun varnaraðila sem verjanda ákærða felld úr gildi að ósk þess síðarnefnda sem játaði sök og var upp frá því farið með málið samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008. Var ákvörðun um sekt varnaraðila tekin með dómi í efnismálinu 11. febrúar 2014, án þess að honum hefði verið kynnt sakarefnið og gefinn kostur á að koma að vörnum, bæði hvað varðar álagningu sektarinnar og fjárhæð hennar.

Samkvæmt framansögðu tel ég að meðferð málsins í héraði hafi verið ábótavant en lög standa ekki til þess að þessum þætti héraðsdómsins verði vísað heim í hérað til nýrrar meðferðar. Þar sem svo háttaði til við meðferð málsins er á hinn bóginn rétt að fella hið áfrýjaða ákvæði héraðsdóms um réttarfarssekt varnaraðila úr gildi. Þá tel ég að áfrýjunarkostnaður skuli greiddur úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 11. febrúar 2014.

Mál þetta, sem þingfest var 26. september 2013 og dómtekið 4. febrúar sl., var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri 12. ágúst 2013, á hendur X, kt. [...], [...],

„fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 18. janúar 2013, haft í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, samtals 45 stk. kannabisplöntur og 3.589,55 g af kannabislaufblöðum í tveimur herbergjum og hafa um skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur, er lögregla fann við húsleit í leiguhúsnæði ákærða að [...].

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 2., sbr. 4., sbr. 5. og 6. gr., laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 60/1980, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001.  

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Þá er þess krafist að framangreind 45 stk. af kannabisplöntum og 3.589,55 g af kannabislaufblöðum sem hald var lagt á umrætt sinn, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni. Auk þess er krafist að ákærða verði gert að sæta upptöku á haldlögðum búnaði og áhöldum til framleiðslu fíkniefna, með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.“

[...]

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og óskaði eftir því að Stefán Karl Stefánsson hdl. yrði skipaður verjandi sinn, sem var gert. Í það þinghald mætti, fyrir hönd Stefáns Karls, A hdl. Óskaði ákærði eftir fresti til að taka afstöðu til ákærunnar og var málinu frestað í því skyni til 11. október 2013. Þann dag var hvorki mætt af hálfu ákærða né verjanda hans. Var ný fyrirtaka ákveðin 30. október 2013 en sú fyrirtaka féll niður. Var ný fyrirtaka ákveðin 14. nóvember 2013 og boðað til hennar í tölvupósti til verjandans. Var boðun í þinghaldið staðfest af ritara verjandans og tilkynnt í tölvupóstinum til dómsins að boðunin væri bókuð hjá lögmanninum. Klukkustund fyrir boðaða fyrirtöku sendi ritari verjandans tölvupóst til dómarans og kvað verjandann vera staddan á Ísafirði og því ekki geta mætt í dóminn. Mætti ákærði ekki heldur í þinghaldið. Var málinu frestað til 20. nóvember og endurrit þingbókar frá 14. nóvember send verjandanum í tölvupósti. Hvorki var mætt af hálfu verjandans né ákærða í það þinghald. Var ný fyrirtaka ákveðin 3. desember 2013. Mætti ákærði og verjandi hans í þá fyrirtöku og játaði ákærði þá að hafa haft umrædd efni í vörslum sínum en neitaði að það hafi verið í sölu- og dreifingarskyni. Þá samþykkti hann upptöku efnanna. Var aðalmeðferð ákveðin þann 4. febrúar 2014 kl. 9.15. Mætti ákærði í aðalmeðferð málsins en ekki verjandi hans og kvaðst ákærði ekkert hafa heyrt í honum frá síðustu fyrirtöku 3. desember sl. Boðaði verjandinn ekki forföll. Við upphaf aðalmeðferðar óskaði ákærði eftir því að skipun verjanda síns yrði felld niður og kvaðst hann ekki óska eftir nýjum verjanda. Að gættum ákvæðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 88/2008 óskaði ákærði eftir því að breyta afstöðu sinni til ákærunnar og kvaðst hafa haft efnin í dreifingarskyni þar sem hann hafi reykt með vinum sínum en ekki í söluskyni. Að öðru leyti játaði hann sök. Að þessu virtu óskaði sækjandi eftir því að falla frá þeirri háttsemi að ákærði hafi haft efnin í söluskyni.

[...]

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 223. gr. laga nr. 88/2008 má ákveða sekt á hendur verjanda fyrir að valda af ásetningi óþörfum drætti á máli. Samkvæmt d-lið sama ákvæðis má ákveða verjanda sekt fyrir að misbjóða virðingu dómsins með framferði í þinghaldi. Ákæra í máli þessu var þingfest 26. september 2013 og eins og rakið hefur verið var málið tekið fyrir í dómsal að ákæruvaldinu viðstöddu sex sinnum og af verjanda eða fulltrúa tvisvar sinnum. Í eitt skipti sendi skrifstofa verjanda tölvupóst og boðaði forföll klukkustund fyrir boðaða fyrirtöku og var verjandi þá staddur á Ísafirði. Var sá póstur ekki sendur á sækjanda í málinu sem mætti við fyrirtökuna. Þá var sú háttsemi verjandans að mæta ekki á dómþing við aðalmeðferð málsins til þess fallin að misbjóða virðingu dómsins. Þrátt fyrir bókun í þinghaldi þann 14. nóvember sl., að dómari telji vinnubrögð verjandans ámælisverð, þar sem hann hvorki hafi haft milligöngu um að ákærði mætti sjálfur í nokkur boðuð þinghöld, né fengið annan lögmann til að mæta fyrir sig eða óska eftir skipun annars verjanda, lét hann sér ekki segjast. Telur dómurinn óhjákvæmilegt annað en að verjandanum verði af þessum ástæðum gerð sekt í ríkissjóð sem er ákveðin 300.000 krónur.

Ástríður Grímsdóttir kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, skal sæta fangelsi í fjóra mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum þremur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði sæti upptöku á 45 stk. af kannabisplöntum og 3.589,55 g af kannabislaufblöðum auk haldlagðs búnaðar og áhalda til framleiðslu fíkniefna.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 164.762 krónur. 

Stefán Karl Kristjánsson hdl. greiði 300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.