Print

Mál nr. 46/2014

Lykilorð
  • Friðhelgi einkalífs
  • Persónuupplýsingar
  • Stjórnarskrá
  • Opinberir starfsmenn
  • Trúnaðarskylda
  • Þagnarskylda
  • Vinnuveitendaábyrgð
  • Miskabætur
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 9. október 2014.

Nr. 46/2014.

A

(Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.)

gegn

B og

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

C

(Einar Þór Sverrisson hrl.

Geir Gestsson hdl.)

Friðhelgi einkalífs. Persónuupplýsingar. Stjórnarskrá. Opinberir starfsmenn. Trúnaðarskylda. Þagnarskylda. Vinnuveitendaábyrgð. Miskabætur. Sératkvæði.

Málsatvik voru þau að B hafði í starfi sínu sem skólastjóri við skóla í sveitarfélaginu C fengið senda dagbók A í janúar 2010. Síðar sama ár var eiginmaður B ákærður fyrir kynferðisbrot gegn A og hafði B eftir það samband við ríkissaksóknara, sem fór þess í kjölfarið skriflega á leit við B að hún afhenti embættinu dagbók A á grundvelli 1. mgr. 135. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. B varð við þeirri beiðni og var dagbókin lögð fram í sakamálinu á hendur eiginmanni hennar, sem lauk endanlega með dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012 þar sem hann var sýknaður, en í rökstuðningi fyrir niðurstöðunni var meðal annars vísað til dagbókarinnar. A höfðaði mál á hendur B og C til heimtu miskabóta á þeim grundvelli að meðferð B á einkamálefnum hennar hefði falið í sér brot á friðhelgi einkalífs auk þess sem B hefði í starfi sínu brotið gegn trúnaðarskyldu sinni samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla. Ekki var talið að afhending B á dagbók A til ríkissaksóknara hefði falið í sér ólögmæta og saknæma háttsemi af hálfu B og var í því samhengi skírskotað til þess að þótt á B hefði hvílt þagnarskylda um tilvist og efni dagbókarinnar eftir fyrirmælum laga nr. 88/2008 mætti ætla að dómari hefði leyst hana undan þeirri skyldu vegna þeirra alvarlegu saka sem eiginmaður hennar var borinn. Á hinn bóginn var talið að með því að upplýsa saksóknara um tilvist dagbókar A, að því er virtist að eigin frumkvæði og í því skyni að styðja við vörn eiginmanns síns í sakamálinu á hendur honum, hafi B brotið vísvitandi gegn þagnar- og trúnaðarskyldu sem á henni hvíldi sem skólastjóra samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008. Eins og atvikum var háttað var þessi háttsemi B talin fela í sér rof á friðhelgi einkalífs A, sem færi í bága við 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá var talið að B hefði mátt vera ljóst að með því að upplýsa um tilvist dagbókarinnar með fyrrgreindum hætti yrði efni hennar gert uppskátt og að slíkt myndi óhjákvæmilega rýra orðspor A og gera hana ótrúverðuga í augum annarra. Var því talið að í háttseminni hefði falist ólögmæt meingerð af hendi B gegn persónu A í merkingu b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var B gert að greiða miskabætur að fjárhæð 500.000 krónur. Loks var því hafnað að sveitarfélagið C bæri bótaábyrgð gagnvart A, en hvorki var talið sýnt að starfsmenn C hefðu haft vitneskju um að B hygðist hafa samband við ríkissaksóknara vegna meðferðar sakamálsins á hendur eiginmanni hennar, né heldur að sú háttsemi B hefði tengst starfi hennar sem skólastjóra. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. janúar 2014. Hún krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 11. janúar 2011 til 6. ágúst 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefndu krefjast, hvort um sig, aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda.

I

Í janúarmánuði 2010 sótti áfrýjandi, sem þá var nemandi í 10. bekk [...]skóla á [...], fyrirlestur í skólanum á vegum forvarnasamtakanna Marita. Að loknum fundinum ræddi hún einslega við fyrirlesarann, D, um persónuleg málefni sín. Í kjölfarið sendi áfrýjandi D dagbók á rafrænu formi þar sem fram komu hugleiðingar hennar, meðal annars um tilfinningalíf sitt og félagsleg tengsl við fjölskyldu og vini. Í meðfylgjandi tölvubréfi lét áfrýjandi þess getið að D mætti „senda brot eða taka saman eitthvað“ fyrir tómstundafulltrúa skólans eða fræðslustjóra stefnda C sem væru „manneskjurnar sem ég væri til í að tala við.“ Hún tók jafnframt fram að hún vildi ekki að hann sendi „allt á þau“. D mun hafa sent dagbókina í heild til stefndu B sem þá var skólastjóri [...]skóla. Í tölvubréfi til áfrýjanda sama dag og hún sendi honum dagbókina sagði hann meðal annars: „B er nú með þín mál“.

   Í maí 2010 kærði áfrýjandi eiginmann stefndu B fyrir kynferðisbrot sem hann átti að hafa framið á heimili þeirra hjóna í byrjun þess mánaðar. Að lokinni rannsókn var í september sama ár gefin út ákæra á hendur eiginmanninum þar sem honum voru gefin að sök brot á 199. og 209. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Eftir að ákæran hafði verið gefin út hafði stefnda B samband við embætti ríkissaksóknara. Í framhaldinu barst stefndu svohljóðandi bréf frá ríkissaksóknara, dagsett 4. janúar 2011: „Með vísan til 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 er þess farið á leit að dagbók í eigu A ... sem er í vörslum skólastjóra grunnskólans á [...] verði afhent embætti ríkissaksóknara.“ Varð stefnda við þessari málaleitan og afhenti embættinu dagbókina. Var útprentað eintak af henni síðan lagt fram í sakamálinu. Málinu lauk endanlega með dómi Hæstaréttar 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012 þar sem ákærði var sýknaður af áðurgreindum sakargiftum og í rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu var meðal annars vísað til umræddrar dagbókar áfrýjanda.

II

Áfrýjandi og stefnda B komu báðar fyrir dóm við meðferð málsins í héraði.

Í skýrslu áfrýjanda fyrir dómi kvaðst hún ekki hafa veitt D samþykki sitt til að afhenda stefndu B dagbókina. Hún hefði fyrst komist að því að stefnda hefði dagbókina undir höndum þegar réttargæslumaður sinn í sakamálinu hefði skýrt sér frá því. Spurð um fyrrgreind ummæli í tölvubréfi D, þess efnis að stefnda væri með mál hennar, sagðist áfrýjandi hafa skilið þau þannig að hann hefði sagt stefndu að áfrýjandi vildi fá að tala við þau tvö, sem hún hafði nafngreint í tölvubréfinu til hans, og stefnda ætlað að koma því í kring. Þá kvað áfrýjandi sig minna að hún hefði farið í tvö viðtöl hjá fræðslustjóra „og svo ekkert meir.“ Aðspurð sagði áfrýjandi að birst hafi viðtal við hana í DV í tengslum við sakamálið þar sem dagbókin hafi komið til umræðu.

Fyrir dómi greindi stefnda B frá því að D hefði komið að máli við sig eftir að þau áfrýjandi ræddu saman að loknum fræðslufundinum og sagt sér að áfrýjanda liði illa og þyrfti á aðstoð að halda. Þau hefðu síðan hist þrjú þar sem D hefði sagt að hann gæti ekki tekið málið að sér, heldur yrði að beina því til stefndu sem skólastjóra. Í framhaldinu hefði hún fengið „þessar upplýsingar“ sendar frá D og veitt fræðslustjóra „munnlegar upplýsingar“ úr gögnunum. D hefði ítrekað „að þetta væri trúnaðarmál“ sem hún ætti einungis að gefa umsögn um til fræðslustjóra og tómstundafulltrúa skólans. Aðspurð kvaðst stefnda ekki minnast þess hvort hún hefði nefnt við móður áfrýjanda að hún hefði dagbók dóttur hennar undir höndum, en tók fram að hún hefði ekki rætt innihaldið við móðurina. Þegar stefnda var beðin um að lýsa samskiptum sínum við embætti ríkissaksóknara svaraði hún: „Já ... þegar upp kom mál varðandi manninn minn ... sat ég allan hringinn í kringum borðið. Ég var eiginkona, ég var móðir ... sonur minn var í bekk með A ... Ég var náttúrulega skólastjóri og ég var vinnuveitandi móður og ég var jafnframt besta vinkona móður“. Stefnda kvaðst hafa látið yfirmenn sína hjá stefnda C vita af „stöðu mála“ og einnig ráðfært sig við fræðslustjórann. Síðan hafi hún haft samband við nafngreindan saksóknara hjá embætti ríkissaksóknara og leitað ráða hjá henni þar sem sig hefði langað til að vita „hvernig staðan væri, t.d. eins og þegar að ég er óhæf eða ... gerð óhæf“. Í umræðunni við saksóknarann hefði komið upp „að það væru gögn í skólanum sem að færu ekki þegar væri óskað eftir þeim ... ég náttúrulega upplýsti hana ekkert um neitt innihald á neinum gögnum sem ég hefði, en í framhaldi eða síðar meir að þá óskaði hún eftir að ég afhenti gögn sem að tilheyrðu skólanum.“ Spurð nánar um samskipti sín við yfirmenn sína hjá stefnda C og fræðslustjóra kvaðst stefnda hafa upplýst þann síðastnefnda um að hún hefði dagbók áfrýjanda í vörslum sínum. Þá svaraði stefnda því játandi að hún hefði leitað til fræðslustjórans um meðferð dagbókarinnar. Hann hefði tjáð sér að ekki væri ráðlegt að hún afhenti „þessi gögn ... úr skólanum“. Eftir að kæran hafi komið fram á hendur eiginmanni sínum kvaðst stefnda ennfremur hafa rætt við yfirmenn sína hjá bænum um það hvernig hún gæti komið fram gagnvart áfrýjanda og móður hennar sem starfaði við [...]skóla og var því undirmaður stefndu. Það hefði orðið úr að þær hafi haft sem minnst samskipti sín á milli og hefði aðstoðarskólastjóri til dæmis annast samskiptin við móðurina í sinn stað.

Vitnið D bar að hann hefði rætt við áfrýjanda og stefndu B saman að loknu trúnaðarsamtali þeirrar fyrrnefndu við sig. Þar hefði verið rætt um að áfrýjanda yrði veitt aðstoð og hefði hún ekki gert athugasemdir við að stefnda kæmi að því máli. Spurður hvort hann teldi sig hafa haft heimild áfrýjanda til að senda stefndu dagbókina svaraði vitnið að hann hefði mátt „senda henni sumt af þessu en það var tekið fram ekki allt“. Vitnið kvaðst hafa tekið fram um leið og hann sendi stefndu dagbókina að fara þyrfti með hana „sem trúnaðarmál“. Í vitnaskýrslu móður áfrýjanda kom fram að hún hefði fyrst vitað að stefnda hefði dagbók áfrýjanda undir höndum í janúar 2011, en stefnda hefði á sínum tíma rætt við sig um áhyggjur af líðan áfrýjanda.

III

Krafa áfrýjanda um miskabætur er reist á því að meðferðin á einkamálefnum hennar af hendi stefndu B hafi verið alvarlegt brot á friðhelgi einkalífs sem varið sé af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Í starfi sem skólastjóri hafi stefnda brotið gegn trúnaðarskyldu sinni sem kveðið sé á um í 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Með því að taka við dagbókinni, geyma í vörslum sínum, upplýsa um innihaldið og afhenda hana ríkissaksóknara hafi stefnda jafnframt brotið gegn lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Feli meðferð stefndu á dagbókinni í sér ólögmæta og saknæma meingerð gagnvart áfrýjanda sem valdið hafi henni miska, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

Samkvæmt framansögðu hafði áfrýjandi ritað dagbók þá, sem mál þetta snýst um, og trúað D fyrir henni með fyrirmælum um að hann mætti ekki kynna efni hennar öðrum en fræðslustjóra stefnda C og tómstundafulltrúa [...]skóla og þá aðeins að hluta. Þótt D teldi sig aðeins hafa haft heimild áfrýjanda til að senda stefndu B hluta dagbókarinnar mun hann hafa sent henni bókina í heild, reyndar með þeim ummælum að um væri að ræða trúnaðarupplýsingar. Ekkert er komið fram í málinu sem bendir til að stefnda hafi tekið við dagbókinni vitandi það að D hafi skort heimild til að senda sér hana í heild sinni. Að því virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms er fallist á að hvorki móttaka dagbókarinnar né varðveisla hennar hafi verið ólögmæt og saknæm af hálfu stefndu sem skólastjóra grunnskólans þar sem áfrýjandi stundaði nám.

Krafa ríkissaksóknara um að dagbókin yrði afhent var eins og áður greinir reist á 1. mgr. 135. gr. laga nr. 88/2008, en þar er kveðið á um að ákærandi geti krafist þess að fá skjal eða annað sýnilegt sönnunargagn afhent til framlagningar í sakamáli, enda megi ætla að það hafi sönnunargildi í málinu og vörslumanni sé skylt og heimilt að bera vitni um efni þess. Þar sem stefnda B hafði haft samband við embætti ríkissaksóknara og skýrt frá að hún hefði  dagbókina í vörslum sínum má gera ráð fyrir að hún hefði verið reiðubúin að bera vitni um efni hennar í sakamálinu, sem höfðað hafði verið gegn eiginmanni hennar, enda þótt hún hefði getað skorast undan því á grundvelli a. liðar 1. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008. Enda þótt á stefndu hafi hvílt þagnarskylda um tilvist og efni dagbókarinnar eftir c. lið 2. mgr. 119. gr. laganna, svo sem nánar verður vikið að hér á eftir, má ætla að dómari hefði leyst hana undan þeirri skyldu samkvæmt 3. mgr. sömu greinar vegna þeirra alvarlegu saka sem eiginmaður hennar var borinn. Af þeim ástæðum og með vísan til forsendna héraðsdóms verður ekki talið að afhending dagbókarinnar hafi verið stefndu ólögmæt og saknæm.

Stendur þá eftir að leysa úr því hvort stefnda B hafi brotið gegn lögvörðum rétti áfrýjanda á annan hátt en þann sem fjallað hefur verið um að framan.  Samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008 skal starfsfólk grunnskóla gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna eða eðli máls. Stefnda vissi að dagbók áfrýjanda hafði meðal annars að geyma viðkvæmar upplýsingar um persónu hennar, sbr. 1. og 8. tölulið 2. gr. laga nr. 77/2000, er henni bar sem skólastjóra að gæta fyllstu þagmælsku um. Þegar áfrýjandi bar eiginmann stefndu sökum um kynferðisbrot í sinn garð varð stefndu ljóst, eins og kom fram hjá henni fyrir dómi, að hagsmunir hennar sem eiginkonu ákærða ættu ekki lengur samleið með þeim hagsmunum sem henni sem skólastjóra bæri að horfa til í samskiptum við áfrýjanda. Eftir að eiginmaðurinn hafði verið ákærður fyrir brotið hafði stefnda engu að síður samband við embætti ríkissaksóknara og kvaðst hafa greint frá því í samtali við saksóknara hjá embættinu, eins og rakið er að framan, að til væru gögn í skólanum, en hún hefði ekki upplýst neitt um innihald þeirra. Þrátt fyrir að það kæmi ekki beinlínis fram í aðilaskýrslu stefndu fyrir dómi verður þó að ætla að hún hafi nefnt við saksóknarann að gögnin tengdust með einhverjum hætti máli eiginmanns hennar, að minnsta kosti ber bréf ríkissaksóknara 4. janúar 2011 augljóslega með sér að hún hefur skýrt frá því að hún hefði dagbók áfrýjanda í vörslum sínum. Með því að upplýsa um tilvist dagbókarinnar, sem hafði meðal annars að geyma hugleiðingar áfrýjanda um jafn viðkvæm málefni og tilfinningalíf sitt og félagsleg tengsl við fjölskyldu og vini, að því er virðist að eigin frumkvæði og í því skyni að styðja við vörn eiginmanns síns í umræddu sakamáli braut stefnda vísvitandi gegn þeirri þagnar- og trúnaðarskyldu er á henni hvíldi sem skólastjóra og mælt er fyrir um í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008. Eins og atvikum var háttað fól þessi háttsemi stefndu í sér rof á friðhelgi einkalífs áfrýjanda, sem fór í bága við 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, en tilfinningalíf manna og tilfinningasambönd þeirra  við aðra njóta ótvírætt verndar samkvæmt greininni svo sem tekið var fram í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga. Með því að upplýsa um tilvist dagbókarinnar á þann hátt sem að framan greinir mátti stefndu vera ljóst að efni hennar yrði gert uppskátt og slíkt myndi óhjákvæmilega rýra orðspor áfrýjanda og gera hana ótrúverðuga í augum annarra. Samkvæmt því var hér um ræða ólögmæta meingerð af hendi stefndu gegn persónu áfrýjanda í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Ber stefndu af þeim sökum að greiða áfrýjanda miskabætur sem eru með tilliti til málsatvika ákveðnar 500.000 krónur með dráttarvöxtum frá höfðun máls þessa eins og nánar greinir í dómsorði.

Sú ályktun verður dregin af aðilaskýrslu stefndu B fyrir dómi að fræðslustjóri stefnda C hafi ráðið henni frá að upplýsa um tilvist og efni dagbókar áfrýjanda áður en hún hafði samband við embætti ríkissaksóknara. Á hinn bóginn liggur ekki fyrir í málinu að fræðslustjórinn eða nokkur annar af yfirmönnum eða samstarfsmönnum stefndu hjá bænum hafi haft vitneskju um að hún hygðist hafa samband við embættið í tengslum við umrætt sakamál og greina frá því að hún hefði dagbókina undir höndum. Þær gjörðir stefndu tengdust heldur ekki á neinn hátt starfi hennar sem skólastjóra. Af þessum sökum er ekki fallist á að stefndi C beri bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda, hvorki á grundvelli 5. gr. laga nr. 91/2008 né annarra réttarreglna, og verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda af kröfu hennar um miskabætur.

 Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda er staðfest, en um gjafsóknarkostnað hennar fyrir Hæstarétti fer eftir því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefnda B greiði áfrýjanda, A, 500.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. mars 2013 til greiðsludags. Ákvæði héraðsdóms um sýknu stefnda C af kröfu áfrýjanda er staðfest.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Staðfest er ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað áfrýjanda. Allur gjafsóknarkostnaður hennar fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 500.000 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

I

Í máli þessu reisir áfrýjandi kröfu sína um miskabætur á því að viðtaka og öll meðferð stefndu B á dagbók áfrýjanda hafi falið í sér brot gegn friðhelgi einkalífs hennar.

Eins og greinir í héraðsdómi hélt D fyrirlestur í [...]skóla á vegum svokallaðra Mirata samtaka 19. janúar 2010. Áfrýjandi, sem þá var 15 ára gömul, sótti fundinn. Að honum loknum leitaði hún til D vegna persónulegra vandamála sinna. Að tilstuðlan D áttu þau svo stutt samtal eða fund með stefndu B, sem var skólastjóri skólans, með þeirri niðurstöðu að áfrýjandi fengi stuðning í skólanum vegna andlegrar vanlíðunar. Síðar þennan dag sendi áfrýjandi D tölvubréf, þar sem sagði meðal annars: „Hæ, þetta er A, þú talaðir við mig í dag í grunnskólanum á [...] og hérna er dagbókin sem ég spurði hvort að ég mætti senda þér. Það er eitthvað í þessu sem ég hef ekki sagt sálu á ævinni. – Þú mátt senda brot eða taka saman eitthvað fyrir E [tómstundafulltrúa [...]skóla] eða F [fræðslustjóra stefnda C], manneskjurnar sem ég væri til í að tala við. En ég vil ekki að þú sendir allt á þau. Bara svona einhverja punkta eða komment. ...“

Þrátt fyrir framangreind fyrirmæli áfrýjanda er óumdeilt að D sendi í kjölfarið tölvubréf til stefndu B og fylgdi öll dagbókin með sem viðhengi. Fyrir dómi kvaðst D hafa gert þetta eftir samráð við stefndu B þar um. Bréf D er ekki meðal gagna málsins og hvorki er ljóst nákvæmlega um efni þess né hvenær það var sent. Þá nefndu bæði stefnda B og D fyrir dómi að D hefði áréttað að fara bæri með málefnið sem trúnaðarmál. Dagbók sú sem um ræðir er ekki meðal gagna málsins en af því sem fram er komið verður ráðið að hún sé töluverð að vöxtum og taki til alllangs tímabils í lífi áfrýjanda. Aðspurður fyrir dómi, um hvort komið hefði til tals milli hans og áfrýjanda að hann myndi senda stefndu B dagbókina, sagði D: „Já eða sem sagt ég sagði bara við hana að nú væri bara málið í höndum B ... Hvort að ég sagði nákvæmlega að hún hafi fengið öll gögnin er ég ekki, bara man ég hreinlega ekki og hef ekki séð það í tölvupóstum.“  Nánar spurður um hvort hann hafi talið sig hafa haft heimild til að senda stefndu B dagbókina sagði hann meðal annars: „Ja sko bæði og - ég mátti senda henni sumt af þessu en það var tekið fram ekki allt, en það var ekki skilgreint hvað mætti senda og hvað ekki. ...“ Svar stefndu B við því hvort áfrýjandi hafi samþykkt að hún fengi dagbókina var svofellt: „Ég get ekki alveg sagt að hún hafi sagt já eða nei við því að hafa samþykkt gögnin, en hann [D] sagði henni þá að hann yrði að setja málið í mínar hendur og að ég yrði að gera þennan útdrátt.“ Þá kvaðst stefnda B ekki muna hvort hún hafi leitað eftir samþykki áfrýjanda til að lesa dagbókina. Loks kom fram hjá stefndu B að hún hefði talið að dagbókargögn ættu ekki að fara til fræðslustjóra eða tómstundafulltrúa nema að undangengum útdrætti hennar úr þeim og kvaðst hún hafa gefið þeim fyrrnefnda slíkan útdrátt. Fram er komið að stefnda B opnaði viðhengið sem hafði að geyma dagbókina og las, að því er virðist alla bókina en hún kvaðst fyrir dómi meðal annars hafa veitt fræðslustjóra „munnlegar upplýsingar“ úr dagbókinni. Kvaðst hún raunar hafa síðar, eftir að lögreglurannsókn hófst varðandi eiginmann hennar, spurt fræðslustjórann um hvað gera skyldi við þær upplýsingar sem í dagbókinni voru, en hún hafi litið á fræðslustjórann sem sinn faglega ráðgjafa. Ekki fór hún þó að hans tilmælum um meðferð á efni bókarinnar.

Áfrýjandi hefur ætíð fullyrt að hún hafi hvorki í framangreindum samtölum né síðar heimilað að stefnda B mætti lesa eða vinna efni úr dagbókinni. Kvaðst áfrýjandi raunar ekki hafa vitað af því að stefnda B hefði dagbókina í vörslum sínum fyrr en eftir að sakamál hafði verið höfðað á hendur eiginmanni hennar.

II

Bréf áfrýjanda sem að framan er rakið var sent eftir fund hennar með D og stefndu B. Samkvæmt framansögðu og einkum að virtum skýrum orðum í bréfinu sjálfu verður hvorki talið að áfrýjandi hafi samþykkt að stefnda B fengi dagbókina í sínar hendur né að henni yrði kynnt efni hennar. Þá verður heldur ekki séð að D eða stefnda B hafi látið áfrýjanda vita að stefnda B hefði dagbókina undir höndum. Af því sem fram er komið verður ekki talið að stefnda B hafi haft heimild til að opna viðhengið sem hafði að geyma dagbók áfrýjanda, lesa hana líkt og hún gerði og stuðla svo að því að efni bókarinnar yrði gert opinskátt. Eins og mál þetta liggur fyrir ber stefnda B sönnunarbyrði fyrir því í hvaða skyni hún viðhafði þá meðferð á bókinni sem um ræðir, en líta verður til þess að eiginmaður hennar var undir rannsókn hjá lögreglu meðan hún hafði bókina í fórum sínum.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla skal starfsfólk slíkra skóla rækja starf sitt af fagmennsku, alúð og samviskusemi. Í 2. mgr. greinarinnar kemur meðal annars fram að starfsfólk skuli gæta fyllstu þagmælsku um hagi barna sem það fær vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirmanna og eðli máls. Stefnda B vissi að dagbók áfrýjanda hafði meðal annars að geyma viðkvæmar upplýsingar um persónu hennar samkvæmt ákvæðum laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Bar henni sem skólastjóra að fara að lögum  við meðferð á slíkum trúnaðarupplýsingum. Fól framangreind meðferð stefndu B á dagbókinni í sér rof á friðhelgi einkalífs áfrýjanda sem varið er af 71. gr. stjórnarskrárinnar. Var jafnframt um að ræða ólögmæta meingerð gegn persónu áfrýjanda í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Að þessu sérstaklega gættu er ég samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um skaðabótaábyrgð stefndu B.

Að undangengnum samskiptum við D var stefndu B send dagbók áfrýjanda vegna stöðu sinnar sem skólastjóra [...]skóla og opnaði hún dagbókina í kjölfarið. Tengdist því háttsemi stefndu B með sínum hætti stjórnunarathöfunum hennar. Af þeirri ástæðu tel ég að stefndi C eigi jafnframt að bera bótaábyrgð á miska áfrýjanda á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð.

Að öllum málsatvikum virtum tel ég að miskabætur eigi að nema 800.000 krónum með vöxtum eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda og beri stefndu að greiða þær óskipt auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Ég er samþykkur atkvæði meirihluta dómenda um fjárhæð gjafsóknarkostnaðar.

Sératkvæði

Viðars Más Matthíassonar

Ég er sammála reifun meirihluta dómenda á málinu í I. og II. kafla dómsins. Ég er einnig sammála þeirri umfjöllun í III. kafla sem veit að mati á lögmæti þeirrar háttsemi stefndu B er fólst í viðtöku hennar, vörslum og afhendingu dagbókar áfrýjanda til embættis ríkissaksóknara. Þá er ég sammála meirihluta dómenda um að það hafi verið brot á þagnarskyldu þessarar stefndu, sem hún bar samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla, að upplýsa embætti ríkissaksóknara um tilvist og að einhverju marki um efni dagbókarinnar. Loks er ég sammála því að þessi háttsemi hennar hafi, eins og á stóð, falið í sér rof á friðhelgi einkalífs áfrýjanda, sem farið hafi í bága við 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann, sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Áfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að í hinni ólögmætu háttsemi stefndu B hafi falist meingerð í sinn garð, sem beinst hafi að friði hennar, æru eða persónu og veiti henni rétt til miskabóta. Í stefnu til héraðsdóms er þess eins getið um ætlaða meingerð að brotið hafi verið alvarlegt, varðað viðkvæmar persónuupplýsingar ungrar manneskju og gert í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika hennar ,,og ærumeiða hana“. Að efni til er sama rökstuðning að finna í greinargerð áfrýjanda til Hæstaréttar. Engum frekari stoðum hefur verið rennt undir þessar fullyrðingar.

Þegar metið er hvort sú háttsemi stefndu B, sem um ræðir, hafi falið í sér meingerð gagnvart áfrýjanda ber að líta til þess að um var að ræða upplýsingar sem gátu haft þýðingu í sakamáli og stuðlað að réttri niðurstöðu þess. Þing í sakamálinu voru haldin fyrir luktum dyrum, sbr. heimild í 10. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og nafnleyndar gætt við birtingu dóma. Þá er upplýst í málinu, meðal annars í skýrslu áfrýjanda fyrir dómi, að hún hafi sjálf gert dagbókina og tengsl hennar við sakamálið að umtalsefni í opnuviðtali við blaðið DV meðan á rekstri sakamálsins stóð. Hún hefur því sjálf fjallað um dagbókina á opinberum vettvangi. Loks tel ég ekki unnt að meta hvort og þá hvaða áhrif hin ólögmæta háttsemi stefndu B hefur haft á áfrýjanda þar sem áfrýjandi hefur kosið að leggja ekki fram dagbókina í málinu. Er því ekki upplýst um efni hennar að öðru leyti en því að í málflutningi var vísað til dóma Hæstaréttar í sakamálinu frá 20. október 2011 í máli nr. 243/2011 og frá 29. nóvember 2012 í máli nr. 429/2012. Verður ekki séð að þær tilvísanir veiti fullnægjandi upplýsingar um efni dagbókarinnar.

Þegar allt framangreint er virt tel ég að áfrýjandi hafi ekki sannað að hin ólögmæta háttsemi stefndu B hafi falið í sé meingerð í garð áfrýjanda sem veiti hinni síðarnefndu rétt til miskabóta samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Ég tel því að sýkna beri stefndu B af kröfu áfrýjanda.

Ég er samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda um máls- og gjafsóknarkostnað.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 26. nóvember 2013.

I

Mál þetta, sem tekið var til dóms 29. október sl., var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 14. mars sl. og birtri 17. sama mánaðar.

Stefnandi er A til heimilis að [...], [...].

Stefndu eru B, [...], [...], og C, [...], [...].

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess aðallega að stefndu verði, in solidum, gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 11. janúar 2011, en dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá 6. ágúst 2012. Til vara krefst stefnandi miskabóta sem ákveðnar verði að álitum. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu auk álags er nemi virðisaukaskatti og hann verði ákvarðaður eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda B krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara lækkunar á dómkröfum stefnanda. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnanda og að við ákvörðun hans verði tekið tillit til virðisaukaskatts. 

Stefndi C krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hennar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

II

Málavextir

Hinn 19. janúar 2010 var haldinn fyrirlestur í [...]skóla á [...] á vegum Mirata-samtakanna. Stefnandi, sem þá var nemandi í 10. bekk í skólanum, sótti fundinn. Að fundinum loknum hafði hún tal af fyrirlesaranum, D, vegna persónulegra hugleiðinga sinna. Að þeim fundi loknum áttu stefnandi og stefnda B stuttan fund með D. Úr varð að stefnandi sendi fyrirlesaranum dagbók, á rafrænu formi, sem hún hafði ritað með fyrirmælum um að heimilt væri að senda brot eða samantekt úr dagbókinni til tveggja nafngreindra aðila, sem voru annars vegar fræðslustjóri og hins vegar tómstundafulltrúi skólans. D mun hafa sent dagbókina í heild til stefndu B en hann taldi sig ekki hafa möguleika á að fylgja þessu máli eftir á nokkurn hátt og því talið rétt að setja málið í heild sinni í hendur skólastjóra.

Í maímánuði 2010 kærði stefnandi eiginmann stefndu B fyrir kynferðisbrot sem hann átti að hafa framið gegn henni á heimili stefndu. Í framhaldi af kærunni var gefin út ákæra á hendur eiginmanni stefndu. Í greinargerð stefndu B er því lýst að hún hafi, vegna þess að hún var eiginkona ákærða, móðir vitnis, skólastjóri í skóla kæranda og vinkona móður hennar, sett sig í samband við ríkissaksóknara til að fá leiðbeiningar um lagalega stöðu sína. Ríkissaksóknari fór síðan, með bréfi dagsettu 4. janúar 2011, þess á leit við [...]skóla að fá afhenta dagbók stefnanda og vísaði í því efni til 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Stefnda B varð við þessari beiðni og svo fór að dagbókin var lögð fram í sakamálinu á hendur eiginmanni hennar gegn andmælum réttargæslumanns stefndu. Málinu á hendur eiginmanni stefndu lauk með sýknudómi sem kveðinn var upp í Hæstarétti Íslands 29. nóvember 2012.

III

Málsástæður og lagarök

Af hálfu stefnanda er á því byggt að meðferð stefndu B á einkamálefnum stefnanda sé alvarlegt brot á grunnreglu um friðhelgi einkalífs sem varin sé af 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Stefnda hafi í starfi sínu sem skólastjóri brotið trúnaðarskyldu sína gagnvart nemanda sem sé brot á 12. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Stefnda hafi með þeirri háttsemi sinni að taka við dagbókartextanum, hafa hann í vörslum sínum, upplýsa um innihald hans og að lokum afhenda hann ríkissaksóknara brotið gegn lögum um persónuvernd, enda geymi texti dagbókarinnar viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi 9. gr. laganna.

Meðferð stefndu á dagbókartextanum hafi falið í sér ólögmæta meingerð í garð stefnanda sem hún beri ábyrgð á í skilningi b-liðar 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en meingerðin hafi valdið stefnanda miska. Við mat á fjárhæð bóta beri að líta til þess að brotið er alvarlegt að teknu tilliti til sambands stefndu B og stefnanda, sem þá var 15 ára gamall nemandi í skóla sem stefnda B var í forsvari fyrir. Þá sé brotið einnig alvarlegt þegar horft er til þess að um viðkvæmar persónuupplýsingar ungrar manneskju var að ræða. Einnig verði að horfa til ásetnings stefndu B sem hafi haft einkahagsmuni í huga en með framferði sínu hafi hún viljað draga úr trúverðugleika stefnanda og meiða æru hennar.

Stefnandi byggir á því að stefndi C beri ábyrgð á störfum skólastjóra [...]skóla á grundvelli 5. gr. laga nr. 91/2008 sem og 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Um starfsskyldur skólastjóra í starfi fari síðan eftir gildandi kjarasamningi milli sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Skólastjórafélags Íslands. Stefnda hafi með framkomu sinni brotið gegn starfsskyldum sínum, skv. kafla 14.11 í nefndum kjarasamningi sem m.a. fjallar um þagnarskyldu skólastjóra í starfi og skyldu til að gæta réttsýni í starfi sínu.

Þá heldur stefnandi því einnig fram að stefnda B hafi verið vanhæf til að taka ákvörðun um afhendingu dagbókartexta í eigu nemanda, þar sem málið varðaði ákæru á hendur eiginmanni hennar. Vísar stefnandi í þessu efni til 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, sbr. og 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Framferði stefndu hafi verið ósamrýmanlegt starfi hennar sem varði áminningu í skilningi kafla 14.8 í áðurgreindum kjarasamningi. Stefndi B beri, með vísan til meginreglna skaðabótaréttar um vinnuveitendaábyrgð, ábyrgð á ólögmætri meingerð sem starfsmaður hans fremur í starfi. Þá vísar stefnandi til 5. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla en þar komi fram að sveitarfélög beri ábyrgð á rekstri almennra grunnskóla og taki ábyrgð á starfsemi þeirra. Í ákvæðinu komi einnig fram að innan ramma þess falli ábyrgð á öflun og miðlun upplýsinga.

Varðandi lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna skaðabótaréttar. Krafa um málskostnað úr hendi stefndu er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. einkum 129. og 130. gr. laganna. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Af hálfu stefndu B er sýknukrafa reist á því að henni hafi verið skylt að afhenda ríkissaksóknara dagbók stefnanda. Vísar hún í því sambandi til 1. mgr. 135. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þannig liggi fyrir að ef hún hefði ekki afhent dagbókina hefði ríkissaksóknara verið skylt að afla hennar með úrskurði dómara. Það hafi því verið óhjákvæmilegt að dagbókin yrði hluti málsgagna í sakamálinu á hendur eiginmanni hennar hvað sem líði afstöðu stefndu eða annarra stjórnenda [...]skóla til afhendingar dagbókarinnar. Á þeim tíma sem ríkissaksóknari krafðist afhendingar á dagbókinni hafi ekki legið fyrir hvaða vægi dagbókin gæti haft sem sönnunargagn í sakamálinu og óljóst hvort hún myndi stuðla að sakfellingu eiginmanns stefndu eða sýknu. Ríkissaksóknari hafi talið hugsanlegt að dagbókin gæti haft vægi í sakamálinu og því krafist þess að hún yrði afhent. Stefnda heldur því fram að mat ríkissaksóknara hafi verið rétt eins og fram kemur í forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 429/2012. Að sama skapi verði að ætla að héraðsdómur hafi talið að efni dagbókarinnar gæti skipt máli varðandi niðurstöðu sakamálsins ella hefði framlagningu dagbókartextans verið hafnað. Í þessu efni bendir stefnda á að ríkissaksóknari hafi sent héraðsdómi dagbókina til skoðunar nokkrum dögum áður en hún var lögð fram sem sönnunargagn í málinu. Stefnda heldur því fram að öflun ríkissaksóknara á dagbókinni hafi verið til þess fallin að stuðla að réttri niðurstöðu í sakamáli sem leiði til þess að sýkna beri stefndu í máli þessu.

Stefnda skilur kröfugerð stefnanda þannig að stefnandi telji að hún hafi orðið fyrir tjóni með því að stefnda hafi tekið við dagbókinni, geymt hana í vörslum sínum, upplýst um innihald hennar og afhent hana ríkissaksóknara.

Stefnda vísar til þess að D hafi sent stefndu dagbókina með samþykki stefnanda til þess að hægt væri að veita stefnanda þá aðstoð sem hún þyrfti. Stefnda hafi þannig haft samþykki stefnanda fyrir viðtöku dagbókartextans og þar af leiðandi geti viðtakan ekki bakað stefndu bótaskyldu. Af þessu leiði síðan að vörslur stefndu á textanum geti ekki bakað henni bótaskyldu.

Stefnda heldur því fram að hún hafi upplýst fræðslustjóra að hluta til um efni dagbókarinnar og það hafi verið gert með samþykki stefnanda og móður hennar. Þá hafi stefnda rætt málið við móður stefnanda eins og henni var skylt lögum samkvæmt. Aðstoðarskólastjóri, umsjónarkennari stefnanda og forstöðumaður félagsmiðstöðvar hafi verið upplýstir um að líðan stefnanda væri ekki í alla staði góð og þessir aðilar beðnir um að fylgjast vel með stefnanda. Enginn þessara aðila hafi hins vegar verið upplýstur um efni dagbókarinnar heldur hafi þeim verið veittar almennar upplýsingar til að geta fylgst með líðan stefnanda. Af þessu verði ráðið að stefndi hafi gætt hagsmuna stefnanda í hvívetna og farið að lögum auk þess sem hún hafði fullt samráð við stefnanda og móður hennar á þessum erfiðu tímum í lífi stefnanda.

Stefnda segir stefnanda vísa til margvíslegra lagaraka máli sínu til stuðnings, m.a. 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, 12. gr. laga um grunnskóla, 9. gr. laga um persónuvernd, 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga og b-liðar 26. gr. skaðabótalaga. Stefnda telur sig ekki hafa brotið gegn neinu af þessum lagaákvæðum.

Ekki verði séð að hún hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum rétti stefnanda til friðhelgi einkalífs. Stefnandi hafi sjálfur kosið að koma dagbók sinni á framfæri við tiltekna einstaklinga og samþykkt að aðrir fengju hana í hendur. Dagbókin hafi síðar verið lögð fram í sakamáli sem flutt var fyrir luktum dyrum og þar af leiðandi hafi allir sem að því máli komu verið bundnir þagnarskyldu og trúnaði um það sem þar fór fram. Enginn hafi rofið þann trúnað en stefnandi og móðir hennar hafi síðar kosið að gera dagbókina og tilvist hennar í sakamálinu að sérstöku umtalsefni í opnuviðtali í DV. Stefnda bendir á að dagbækur brotaþola hafi verið lagðar fram í fjölmörgum sakamálum án þess að nokkrum hafi dottið í hug að höfða skaðabótamál af þeim sökum. Af hálfu stefndu er vísað til þess að 3. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar feli í sér heimild til að takmarka friðhelgi einkalífs ef brýna nauðsyn beri til vegna réttinda annarra og slík heimild sé í 1. mgr. 135. gr. sakamálalaga.

Stefnda hafnar því að hafa brotið gegn 12. gr. laga um grunnskóla og vísar í því efni til þess sem áður er rakið um samþykki stefnanda og skyldu stefndu til að afhenda dagbókina að kröfu ríkissaksóknara. Þá bendir stefnda á að þagnarskylda nái ekki til atvika sem tilkynna ber lögum samkvæmt og telur vafalaust að mikilvæg sönnunargögn í sakamáli falli þar undir.

Stefnda hafnar því jafnframt að lög um persónuvernd eigi við um sakarefnið en verði svo talið vísar stefnda til 1., 2. og 7. tl. 1. mgr. 9. gr. laganna sem þá beri að horfa til varðandi þetta mál. Stefnda hafnar því að hæfisreglur 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga og 2. mgr. 2. gr. stjórnsýslulaga eigi hér við, enda ekki um stjórnvaldsákvörðun að ræða heldur afhendingu á gögnum að kröfu æðsta handhafa ákæruvalds í landinu samkvæmt skýrum ákvæðum laga. Hér hafi því ekki verið um matskennda ákvörðun að ræða og því ekkert svigrúm til mats. Hæfisreglur stjórnsýslu- og sveitarstjórnarlaga snerti sakarefni máls þessa ekki á nokkurn hátt.

Allt þetta leiði til þess að telja verði sannað að stefnda hafi ekki gerst sek um ólögmæta meingerð í garð stefnanda samkvæmt b-lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og af því leiði að stefnandi eigi ekki rétt á miskabótum úr hendi stefndu. Stefnandi hafi ekki gert neina tilraun til þess í stefnu að færa sönnur á miska stefnanda og þá sé bótakrafan og fjárhæð hennar órökstudd. Hið sama megi segja um vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda sem séu órökstuddar og ekki verði séð hvers vegna stefnandi krefjist vaxta frá 18. janúar 2011 og dráttarvaxta frá 6. ágúst 2012.

Stefndi telur stefnanda ekki byggja málsókn sína á almennu skaðabótareglunni eða sakarreglunni enda verði slíkt ekki ráðið af stefnu. Stefnan beri ekki með sér hver bótagrundvöllur málsins sé og því sé erfitt fyrir stefndu að halda uppi vörnum í málinu. Það sé í verkahring stefnanda að sanna saknæma og ólögmæta háttsemi stefndu, orsakatengsl milli háttseminnar og tjóns stefnanda, að tjónið sé sennileg afleiðing af háttsemi stefndu og loks að færa fram sönnur fyrir því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og þá hver fjárhæð tjónsins sé. Um þessi grundvallaratriði málsins sé stefnan afar fátækleg og úr því verði ekki bætt undir rekstri málsins. Allt þetta leiðir, að mati stefndu, til þess að sýkna beri hana af kröfum stefnanda. Þá telur stefnda það einnig koma til greina að vísa málinu frá dómi án kröfu.

Stefnda reisir kröfu sína um málskostnað úr hendi stefnanda á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 en stefnda sé ekki virðisaukaskattsskyld og því beri henni nauðsyn til þess að fá dóm fyrir virðisaukaskatti úr hendi stefnanda.

Stefndi C reisir kröfu sína um sýknu á því að skilyrði til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt. Stefnandi byggi á því að meðstefnda B hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda með því að taka við dagbókartextanum, geyma hann í vörslum sínum, upplýsa um innihaldið og að lokum afhenda hann til ríkissaksóknara.

Stefndi bendir á að D hafi sent meðstefndu, skólastjóra skóla stefnanda, textann vegna þess að hann hafi hafi áhyggjur af líðan stefnanda. Meðstefndu hafi því verið skylt að kynna sér textann og leggja mat á hvort tilefni væri til þess að bregðast við því sem þar kom fram. Af þessum sökum mótmælir stefndi því að meðstefnda hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs stefnanda með því að taka við dagbókartextanum.

Meðstefnda andmæli því að hún hafi upplýst ríkissaksóknara um hvað kom fram í dagbókartextanum og þar af leiðandi geti stefnandi ekki átt rétt á miskabótum á þeim grundvelli að meðstefnda hafi upplýst ríkissaksóknara um innihald dagbókarinnar.

Stefndi vísar til þess að meðstefnda hafi greint ríkissaksóknara frá tilvist dagbókarinnar í tilefni af kæru stefnanda á hendur eiginmanni meðstefndu. Ríkissaksóknari hafi talið dagbókina geta haft sönnunargildi í sakamálinu á hendur eiginmanni meðstefndu og því krafist þess að meðstefnda afhenti dagbókina. Meðstefnda hafi því afhent dagbókina að frumkvæði ríkissaksóknara og í krafti valdheimilda ríkissaksóknara, skv. 135. gr. sakamálalaga. Stefndi byggir á því að óumdeilt sé að ríkissaksóknari hafi haft valdheimild til að leggja hald á dagbókarskrif stefnanda, hefði meðstefnda neitað að afhenda dagbókina. Þetta leiði til þess að afhending dagbókarinnar getur ekki talist brot gegn friðhelgi einkalífs stefnanda.

Stefndi mótmælir því einnig að meðstefnda hafi „í þágu einkahagsmuna“ upplýst embætti ríkissaksóknara um tilvist dagbókarinnar „í þeim tilgangi að draga úr trúverðugleika stefnanda og ærumeiða hana“, eins og haldið er fram í stefnu. Stefndi heldur því fram að stefnanda hafi verið skylt að upplýsa lögreglu um dagbókarskrif sín þegar hún lagði fram kæru á hendur eiginmanni meðstefndu. Stefndi telur að meðstefndu hafi verið siðferðis- og borgaralega skylt að greina lögreglu frá tilvist og efni dagbókarinnar, þar sem stefnandi hafi vanefnt þá skyldu sína að greina frá henni. Því sé fráleitt að stefnandi geri kröfu um miskabætur vegna athafna sem hún vanefndi. Í þessu sambandi leggur stefndi áherslu á að dagbókarskrif stefnanda höfðu áhrif á það að eiginmaður meðstefndu var sýknaður í sakamálinu. Stefnandi geti ekki átt rétt á miskabótum vegna athafna sem leiddu til þess að saklaus maður var ekki sakfelldur.

Stefndi krefst þess, verði talið að stefnandi eigi rétt til miskabóta, að hann verði sýknaður á þeim grundvelli að hann beri ekki vinnuveitendaábyrgð á athöfnum meðstefndu í tengslum við dagbókarskrif stefnanda en athafnir meðstefndu í tengslum við dagbókina hafi ekki haft nein tengsl við starf hennar hjá [...]skóla. Það leiði síðan til þess að stefndi geti ekki borið ábyrgð á þeirri háttsemi.

Stefndi mótmælir sérstaklega dráttarvaxtakröfu stefnanda en krafa um miskabætur hafi fyrst verið sett fram í stefnu sem leiði til þess að stefnandi geti ekki átt rétt til dráttarvaxta frá 6. ágúst 2012. Loks tekur stefndi undir sýknuástæður meðstefndu B eftir því sem þær eiga við um hann.

Krafa um málskostnað úr hendi stefnanda er reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Varakrafa um lækkun dómkrafna er reist á því að krafa stefnanda sé úr hófi fram og ekki í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar um ákvörðun miskabóta. Annars er varakrafan reist á sömu málsástæðum og aðalkrafan.

IV

Niðurstaða

Af stefnu verður ráðið að krafa stefnanda um miskabætur úr hendi stefndu er reist á b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga og á því byggt að stefnda B hafi gerst sek um ólögmæta meingerð gegn friði og æru eða persónu stefnanda með því að taka við dagbókartexta stefnanda, geyma textann í vörslu sinni, upplýsa um innihald hans og að lokum afhenda hann ríkissaksóknara. Á þessari háttsemi stefndu B beri stefndi C ábyrgð sem vinnuveitandi hennar.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er heimilt að láta þann, sem ábyrgð ber á ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, greiða miskabætur til þess sem misgert er við. Í skýringum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því, sem varð að nefndum skaðabótalögum, segir að í skilyrðinu um „ólögmæta meingerð“ felist að um saknæma hegðun sé að ræða. „Gáleysi myndi þó þurfa að vera verulegt til þess [að] tjónsatvik yrði talin ólögmæt meingerð.“ Í réttarframkvæmd hefur verið við það miðað að lægstu stig gáleysis uppylli ekki kröfu þessa ákvæðis um ólögmæta meingerð. Við úrlausn málsins verður að hafa þetta í huga.

Óumdeilt er að D sendi hinn 19. janúar 2010 stefndu B dagbók sem stefnandi hafði ritað á rafrænu formi. Þetta gerði hann í framhaldi af fundi sem hann hafði átt með stefnanda og stefndu B. Fyrir dóminum bar D að ástæða þess að hann sendi stefndu B dagbókina hafi verið sú að hann hafi ekki getað aðstoðað stefnanda með hennar persónulegu mál en að hans mati var nauðsynlegt að hún fengi faglega aðstoð. Hann hafi upplýst stefnanda um að hennar mál væru komin í hendur stefndu B. Hann hafi alltaf litið svo á að málið væri úr hans höndum og að hann hafi sinnt skyldu sinni með því að láta það í hendur stefndu B. Hann kvaðst hafa metið það svo að til þess að unnt væri að hjálpa stefnanda yrði stefnda B að sjá dagbókina. Hann hafi upplýst stefndu B um að hann hafi greint stefnanda frá því að hennar mál væru nú í höndum stefndu B. Vitnið bar að engin önnur gögn hafi verið í málinu en dagbókin. Af þessu má ráða að títtnefnd dagbók barst stefndu B í tölvupósti frá vitninu D, sem taldi nauðsynlegt, í þeim tilgangi að aðstoða stefnanda, að stefnda B fengi dagbókina í sínar hendur. Ekki verður ráðið að móttaka stefndu B á dagbókinni hafi verið saknæm eða ólögmæt.

Undir rekstri málsins hélt stefnandi því fram að stefndu B hafi borið, eftir að dagbókin var komin í hennar hendur, að afla samþykkis stefnanda fyrir því að hún hefði dagbókina í sínum vörslum. Horfa verður til þess að á þeim tíma sem stefnda fékk dagbókina með tölvupósti var talið nauðsynlegt að aðstoða stefnanda vegna líðanar hennar. Stefnda B átti fund með stefnanda ásamt nefndum D og síðar fundi með móður stefnanda þar sem unnið var að því að aðstoða stefnanda. Taldi stefnda ljóst af samtölum við móður stefnanda að móðurinni og stefnanda væri kunnugt um að hún hefði fengið dagbókina í hendur. Þessu hafa stefnandi og móðir hennar mótmælt. Að teknu tilliti til þeirrar stöðu sem uppi var varðandi líðan stefnanda verður að ætla að stefnda B hafi verið í góðri trú þegar hún tók við og geymdi dagbókina í fórum sínum. Það verður því ekki metið henni til sakar að hafa ekki með formlegum hætti aflað samþykkis fyrir vörslu dagbókarinnar.

Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að stefnda B hafi veitt öðrum upplýsingar um innihald dagbókarinnar en félagsmálastjóra, sem stefnandi hafði í tölvupósti til vitnisins D nefnt sem aðila sem hún vildi ræða við um líðan sína. Í tölvupóstinum til D tekur stefnandi fram að D sé heimilt að senda „punkta eða komment“ til félagsmálastjórans og nafngreindrar konu. Stefnda lýsti því að í samtali við saksóknara í máli ákæruvaldsins á hendur eiginmanni hennar hafi hún ekki greint frá innihaldi dagbókarinnar heldur hafi í samtali þeirra komið upp að í skólanum væru ákveðin gögn. Þá bar stefnda B sem vitni fyrir dómi í nefndu máli ákæruvaldsins gegn eiginmanni hennar að hún hefði engum sagt frá efni dagbókarinnar, öðrum en móður stefnanda og þeim tveimur sem stúlkan hefði vísað á. Telst þannig ósannað að stefnda B hafi upplýst um innihald dagbókarinnar umfram það sem stefnandi hafði sjálf heimilað. Hefur hún því ekki veitt slíkar upplýsingar um innihald dagbókarinnar að í því felist ólögmæt meingerð í garð stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að afhending stefndu B á dagbókartextanum til ríkissaksóknara hafi verið ólögmæt. Við munnlegan flutning málsins hélt lögmaður stefnanda því fram að stefndu B hafi verið óheimilt að afhenda ríkissaksóknara dagbókarskrif stefnanda þar sem vörslur textans hafi verið ólögmætar og henni hvorki skylt né heimilt að bera vitni um efni hans. Því eigi síðari málsliður 135. gr. laga um meðferð sakamála við í máli þessu. Leggja verður til grundvallar að aðdragandi afhendingar dagbókarinnar til ríkissaksóknara hafi verið sá að stefnda B hafi, eins og áður er getið, haft samband við ríkissaksóknara og greint frá því að hún hefði dagbók stefnanda undir höndum án þess að upplýsa um innihald dagbókarinnar. Saksóknari taldi rétt að fá dagbókina í sínar hendur en ætla verður að það hafi verið gert í þeim tilgangi að meta hvort leggja ætti hana fram í sakamálinu á hendur eiginmanni stefndu B. Ríkissaksóknari ritaði því [...]skóla bréf og óskaði eftir því að dagbók í eigu stefnanda, sem væri í vörslum skólastjóra, yrði afhent embætti ríkissaksóknara. Í bréfinu vísaði ríkissaksóknari til 135. gr. laga um meðferð sakamála. Stefnda B fékk dagbókina senda til sín með þeim hætti og af þeim ástæðum sem áður er greint frá. Þá hefur dómurinn áður metið það svo að stefnda hafi verið í góðri trú varðandi viðtöku og vörslur dagbókarinnar. Af þeim sökum bar henni að afhenda ríkissaksóknara dagbókina þegar embættið fór þess á leit við hana. Meint vanhæfi stefndu B við afhendingu dagbókarinnar breytir ekki þessari niðurstöðu, enda verður að ætla að annar aðili, yfirmenn stefndu B eða stefnandi máls þessa, hefði þá að kröfu ríkissaksóknara afhent textann. Við mat á því hvort stefnda B hafi með afhendingu dagbókartextans gerst sek um ólögmæta meingerð í garð stefnanda verður að horfa til þess að hún afhenti hann að kröfu æðsta handhafa ákæruvalds sem í starfi sínu þarf að gæta að þeirri meginreglu sakamálaréttarfars að leitast við að leiða hið sanna í ljós eftir því sem kostur er en ætla verður að textinn hefði að endingu komist í hendur ríkissaksóknara sem leggja þurfti mat á hvort hann hefði sönnunargildi í sakamáli.

Með vísan til þess sem að framan er rakið ber að sýkna stefndu B af kröfum stefnanda í máli þessu. Ákvæði laga um persónuvernd og grunnskóla sem stefnandi vísar til breytir engu um þessa niðurstöðu. Af þessu leiðir að stefndi C er einnig sýkn af kröfum stefnanda.

Að fenginni þessari niðurstöðu verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur til hvors stefnda um sig. Stefnda B er ekki virðisaukaskattsskyld og ber því að leggja virðisaukaskatt við tildæmdan málskostnað henni til handa. Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu og greiðist gjafsóknarkostnaður hennar, þar með talin þóknun lögmanns hennar að fjárhæð 439.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, úr ríkissjóði.

Af hálfu stefnanda flutti málið Margrét Gunnlaugsdóttir hæstaréttarlögmaður, af hálfu stefndu B Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefnda C Hilmar Gunnarsson héraðsdómslögmaður.

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndu, B og C, eru sýkn af kröfum stefnanda, A.

Stefnandi greiði stefndu B 439.250 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti. Stefnandi greiði stefnda C 350.000 krónur í málskostnað.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin 439.250 króna þóknun Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði.