Print

Mál nr. 160/2000

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Skattur
  • Stjórnvaldsfyrirmæli
  • Endurgreiðslukrafa
  • Fyrning

Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000.

Nr. 160/2000.

Jón Björnsson

(Jóhannes Sigurðsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigrún Guðmundsdóttir hrl.)

                                                   

Stjórnarskrá. Skattar. Stjórnvaldsfyrirmæli. Endurgreiðslukrafa. Fyrning.

J, sem rak lyfjaverslanir á árunum 1986-1997, höfðaði mál gegn íslenska ríkinu (Í) til greiðslu skaðabóta og/eða endurgreiðslu lyfjaeftirlitsgjalds, sem honum var gert að greiða til Lyfjaeftirlits ríkisins á árunum 1989-1993 á grundvelli 52. gr. og 53. gr. þágildandi lyfjalaga nr. 108/1984. Með vísan til dóms Hæstaréttar 5. nóvember 1998 var talið, að taka lyfjaeftirlitsgjalds af J hefði verið ólögmæt. Ekki var talið að J hefði sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir tjóni í skilningi skaðabótaréttar vegna töku gjaldsins, en krafa hans var í eðli sínu endurgreiðslukrafa og laut reglum kröfuréttar. Talið var að lög nr. 14/1905 tækju til endurkröfu J og rétt væri að miða fyrningartíma við fjögur ár samkvæmt 5. tl. 3. gr. laganna. Var krafa J talin fyrnd, en tæp sex ár liðu frá því, er hann greiddi síðast lyfjaeftirlitsgjald þar til hann hófst handa um málsókn þessa. Var Í því sýknaður af kröfum J.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Pétur Kr. Hafstein og Björn Þ. Guðmundsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. apríl 2000. Hann krefst þess, að stefndi greiði sér 548.600 krónur með nánar tilgreindum vöxtum af 84.000 krónum frá 1. júlí 1989 og síðar af hækkandi höfuðstól til stefnubirtingardags en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun á dómkröfum áfrýjanda og verði málskostnaður þá látinn falla niður.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt bréf Guðmundar Sigurðssonar til ríkislögmanns 14. júlí 2000 um ákvarðanir lyfjaverðlagsnefndar um lyfjaverð á árunum 1983-1994 ásamt rekstraryfirliti Akraness Apóteks fyrir árið 1986. Af hálfu áfrýjanda er skjölunum mótmælt sem óstaðfestum og of seint fram komnum.

 

 

I.

Fjárkrafa áfrýjanda nemur því lyfjaeftirlitsgjaldi, sem hann greiddi á árunum 1989-1993, en hann rak þá Akraness Apótek. Gjaldið var lagt á og innheimt á grundvelli 52. gr. og 53. gr. þágildandi lyfjalaga nr. 108/1984 um árlegt eftirlitsgjald á fyrirtæki þau og stofnanir, er Lyfjaeftirlit ríkisins hefði eftirlit með, og skyldi verja þeim tekjum til greiðslu kostnaðar við eftirlitið. Eftirlitsgjöldin voru lögtakskræf og skyldi mæla fyrir um þau og innheimtu þeirra í reglugerð. Á þessum tíma giltu um eftirlitsgjöldin reglugerðir nr. 254/1989, nr. 240/1990, nr. 217/1991, nr. 162/1992 og nr. 214/1993. Gjaldendum samkvæmt þeim var skipað í gjaldflokka og virðist hafa verið miðað við veltu og umfang viðkomandi starfsemi, en í síðari reglugerðum nr. 332/1995 og nr. 325/1996 um eftirlitsgjald vegna lyfjaeftirlits fyrir árin 1995 og 1996, sem settar voru með stoð í 2. gr. lyfjalaga nr. 93/1994, var slík viðmiðun tilgreind berum orðum. Ekki verður annað séð en að tilhögun og forsendur álagningar hafi þá verið hinar sömu og áður.

Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fram, að ekki væri ágreiningur um greiðsludaga eftirlitsgjaldsins og hefði áfrýjandi innt gjald vegna ársins 1993 af hendi 15. júlí 1993.

II.

Áfrýjandi reisir kröfu sína einkum á því, að lyfjaeftirlitsgjaldið hafi verið skattur í merkingu stjórnarskrárinnar og við gjaldtökuna hafi ekki legið fyrir fullnægjandi skattlagningarheimild í samræmi við 40. gr. og 77. gr. hennar. Krafan sé skaðabótakrafa, sem stofnast hafi við það, að löggjafinn og starfsmenn stefnda hafi valdið honum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti með því að setja lög í bága við stjórnarskrá og í kjölfarið gert honum að greiða lyfjaeftirlitsgjald án fullnægjandi lagaheimildar. Til vara er á því byggt, að um sé að ræða kröfu til endurheimtu fjár, sem stjórnvöld hafi krafist án fullnægjandi lagaheimildar.

Með dómi Hæstaréttar 5. nóvember 1998, H.1998.3460, var því slegið föstu, að löggjafinn hafi ætlað eftirlitsgjaldi vegna lyfjaeftirlits samkvæmt 3. mgr. 2. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 að vera þjónustugjald. Hins vegar hefði sú framkvæmd í reglugerð nr. 325/1996 að skipa gjaldendum í gjaldflokka eftir „veltu og/eða umfangi eftirlitsskyldrar starfsemi” ekki átt sér stoð í lögunum og þótti skorta á, að bein tengsl stæðu á milli skyldu til að greiða eftirlitsgjald og fjárhæðar þess annars vegar og hins vegar þeirrar þjónustu, sem Lyfjaeftirlit ríkisins veitti hverjum gjaldanda. Af þeim sökum var sú skipan, sem reist var á reglugerð nr. 325/1996 ekki talin geta staðist án viðhlítandi lagaheimildar, sem fullnægði kröfum 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Var taka lyfjaeftirlitsgjalds vegna ársins 1996 því talin hafa verið ólögmæt.

3. mgr. 2. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 var efnislega samhljóða 52. gr. og 53. gr. eldri lyfjalaga að öðru leyti en því, að ekki var lengur mælt fyrir um skyldu ríkissjóðs til að hlaupa undir bagga, ef tekjur af eftirlitsgjaldi nægðu ekki til að standa undir kostnaði Lyfjaeftirlits ríkisins af lögboðnu lyfjaeftirliti. Þykir þessi breyting ekki skipta máli hér, en tilhögun og framkvæmd gjaldtökunnar var hin sama í gildistíð eldri og yngri lyfjalaga. Með 15. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 var því aukið við þann áskilnað 77. gr. stjórnarskrárinnar, að skattamálum skyldi skipað með lögum, að ekki mætti fela stjórnvöldum ákvörðun um það, hvort leggja skyldi á skatt, breyta honum eða afnema hann. Verður að líta svo á, að með þessu hafi stjórnarskrárgjafinn viljað árétta þá grunnreglu 40. gr. stjórnarskrárinnar, að engan skatt megi á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Stjórnarskrárbreytingin 1995 verður ekki talin leiða til þess, að öðruvísi verði litið á lögmæti álagningar og innheimtu lyfjaeftirlitsgjalds vegna fyrri ára en gert var í dómi Hæstaréttar 5. nóvember 1998 um gjaldtöku ársins 1996. 

Samkvæmt framansögðu verður á það fallist með áfrýjanda, að taka lyfjaeftirlitsgjalds á árunum 1989-1993 hafi verið ólögmæt.

III.

Áfrýjandi krefst aðallega greiðslu skaðabóta vegna tjóns, sem hann hafi orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu gjaldtöku, en af hálfu stefnda er því mótmælt, að hún hafi valdið honum tjóni. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að um tjón í skilningi skaðabótaréttar geti verið að ræða og hefur hann ekki leitt líkur að því, að gjaldtakan hafi haft áhrif á atvinnurekstur hans. Eins og áður greinir nemur fjárkrafa áfrýjanda því lyfjaeftirlitsgjaldi, sem hann greiddi á umræddu árabili. Þessi krafa er í eðli sínu endurgjaldskrafa og lýtur reglum kröfuréttar.

Á þeim tíma, er áfrýjandi greiddi hið umdeilda lyfjaeftirlitsgjald, voru lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda talin ná til endurkrafna ofgreiddra gjalda í opinbera sjóði, en nú gilda um þetta efni lög nr. 29/1995 um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, sem öðluðust gildi 1. janúar 1996. Fyrningarfrestur samkvæmt þessum síðargreindu lögum er fjögur ár, og er í greinargerð með lögunum miðað við, að hann sé óbreyttur frá því, sem áður gilti. Rétt er að miða fyrningartíma hér við fjögur ár samkvæmt 5. tl. 3. gr. fyrningarlaga, sbr. og dóm Hæstaréttar 10. desember 1998, H.1998.4180.

Þegar áfrýjandi hófst handa um málsókn þessa með birtingu stefnu 28. júní 1999 voru tæp sex ár liðin frá því, er hann greiddi lyfjaeftirlitsgjald vegna ársins 1993, en eldri gjöld voru áður greidd. Fyrningarfrestur var þá liðinn og ber því að sýkna stefnda af öllum kröfum áfrýjanda.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum áfrýjanda, Jóns Björnssonar.

Áfrýjandi greiði stefnda samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2000.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 28. júní 1999 og dómtekið 28. f.m.

Stefnandi er Jón Björnsson, kt. 130736-3009, Rituhólum 10, Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið.

Málið er höfðað til greiðslu skaðabóta og/eða endurheimtu eftirlitsgjalds sem stefnanda var gert að greiða til Lyfjaeftirlits ríkisins á árunum 1989 – 1994.  Stefnandi rak á árunum 1986 til 1993 lyfjaverslunina Akraness apótek að Suðurgötu 32, Akranesi.  Árlega greiddi hann lyfjaeftirlitsgjald sem hér greinir:  Fyrir árið 1989 84.000 krónur (greiðslud. 23.6.1989), fyrir árið 1990 101.000 krónur (greiðslud. 12.7.1990), fyrir árið 1991 121.200 krónur (greiðslud. 1.7.1991), fyrir árið 1992 121.200 krónur (greiðslud. 10.8.1992) og fyrir árið 1993 121.200 krónur (greiðslud. 15.7.1993). 

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 548.600 krónur með 45,6 ‰ dráttarvöxtum af 84.000 krónum frá 1. júlí 1989 og síðan með dráttarvöxtum að tilgreindum vaxtafæti af hækkandi höfuðstól miðað við 1. júlí hvert ár 1990 - 1993.  Frá stefnubirtingardegi til greiðsludags er krafist dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans en til vara verulegrar lækkunar og að málskostnaður verði látinn falla niður.

Í  3. gr. laga nr. 76/1982 um lyfjadreifingu, sem í gildi var á þeim tíma sem hér um ræðir, er kveðið á um lyfsöluleyfi.  Lyfsöluleyfi til handa einstaklingum skyldi veitt af forseta Íslands en ráðherra staðfesta ráðningu forstöðumanna lyfjabúða rekinna af stofnunum.  Þá er kveðið á um skyldu handhafa lyfsöluleyfa til að hlíta ákvæðum laga og stjórnvaldsreglna um réttarstöðu þeirra og starfshætti.

Í lögum hafa verið ákvæði um gjald af hálfu lyfsala vegna kostnaðar við eftirlit með lyfjabúðum o. fl. allt frá gildistöku laga nr. 7/1924.

Í XI. kafla lyfjalaga nr. 108/1984 eru ákvæði um Lyfjaeftirlit ríkisins sem samkvæmt 49. gr. er sjálfstæð stofnun undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamála­ráðuneytis.   Samkvæmt 50. gr. er hlutverk Lyfjaeftirlits ríkisins sem  hér segir:  1.  Að annast faglegt eftirlit með rekstri lyfjabúða,  lyfjaheildverslana, lyfjagerða og öðrum fyrirtækjum og stofnunum, er selja, framleiða, flytja inn eða búa um lyf.  2.  Að hafa eftirlit með lyfjabirgðum spítaladeilda og annarra  hliðstæðra  stofnana.  3.  Að hafa eftirlit með innflutningi lyfja og lyfjaefna og hráefna til lyfjagerðar.  4.  Að meta kaupverð lyfja og gera tillögur til ráðherra um viðurkenningu á því svo og að láta lyfjaverðlagsnefnd í té upplýsingar um endanlegt kaupverð lyfja eftir því sem hún óskar.  5.  Að annast eftirlit með verði lyfja í heildsölu og smásölu.  6.  Að hafa eftirlit með lyfjaauglýsingum og sjá til þess að kynning og dreifing lyfja sé almennt í samræmi við gildandi lög og reglur.  Samkvæmt 52. gr. skal leggja árlegt eftirlitsgjald á fyrirtæki þau og stofnanir sem  Lyfjaeftirlit ríkisins hefur eftirlit með.  Skal verja tekjum þessum til greiðslu kostnaðar við eftirlitið.  Hrökkvi tekjurnar ekki fyrir kostnaði greiðist það sem á vantar úr ríkissjóði. Samkvæmt 53. gr. skyldi mæla fyrir um eftirlitsgjöldin og innheimtu þeirra í reglugerð og voru þau lögtakskræf.

Með reglugerðum þeim, sem hér skipta máli, nr. 254/1989, nr. 240/1990, nr. 217/1991, nr. 162/1992 og nr. 214/1993 var ákvarðað eftirlitsgjald vegna lyfjaeftirlits fyrir hvert yfirstandandi ár með gjalddaga 1. júlí en eindaga fimmtán dögum síðar.  Sem greiðsluskyldir aðilar eru tilgreindir lyfsalar, lyfjagerðir, lyfjaheildsalar og læknar, dýralæknar og sveitarfélög sem annast lyfjasölu.  Fjárhæð gjaldsins var ákveðin eftir gjaldflokkum sem öllum gjaldendum, þar með talið hverju apóteki, var skipað í.

Lyfjalög nr. 108/1984 féllu úr gildi, að því er tekur til efnis máls þessa, 1. júlí 1994, sbr. 45. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.

Á þeim tíma, sem kröfugerð málsins nær til, fór fram ein úttekt af Lyfjaeftirliti ríkisins í Akraness apóteki, þ.e. 26. júlí 1989.

Apótekarafélag Íslands sendi þ. 16. júlí, f.h. þeirra lyfsala sem þar voru félagsmenn, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu mótmæli vegna innheimtu á eftirlitsgjaldi vegna lyfjaeftirlits samkvæmt reglugerð nr. 325/1996 og  2. gr. lyfjalaga nr. 93/1994.  Í framhaldi af því var höfðað mál sem lyktaði með hæstaréttardómi 5. nóvember 1998 (mál nr. 50/1998).

Með bréfi, dags. 10. júní 1998, til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins v/Lyfjaeftirlits ríkisins var sett fram krafa um endurgreiðslu/skaðabætur vegna innheimtu á lyfsölusjóðsgjaldi á árunum 1988 til og með 1997.  Krafan var sett fram fyrir hönd lyfsöluleyfishafa, þ. á m. stefnanda, og/eða erfingja þeirra í lyfjabúðum.  Erindið var ítrekað með bréfi 9. nóvember 1998.

Fram er komið að samkomulag hafi orðið um það á grundvelli fyrrgreinds dóms þ. 13. apríl 1999 að endurgreiða lyfsöluleyfishöfum, þ.á m. stefnanda, lyfjaeftirlitsgjald sem á þá hafði verið  lagt árin 1994 til 1998.

Stefnandi byggir kröfu sína aðallega á því að lyfjaeftirlitsgjald það, sem hann hafi greitt samkvæmt lyfjalögum nr. 108/1984, verði ekki fellt í flokk þjónustugjalda heldur almenna tekjuöflun ríkisins, skatt, sem byggist ekki á fullnægjandi skatt-lagningarheimild, sbr. 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. 

Stefnandi byggir til vara á því að teljist eftirlitsgjald samkvæmt lyfjalögum nr. 108/1984 þjónustugjald hafi heimildin ekki verið fullnægjandi til innheimtu gjaldsins.  Gildi það bæði um lagaheimildina og innheimtuna eins og hún hafi verið framkvæmd með reglugerðum sem settar hafi verið árlega með stoð í áðurnefndum lögum.  Því er haldið fram að í lagaheimild til innheimtu þjónustugjalda verði að koma skýrt fram fyrir hvaða  þjónustu greiðandi gjaldsins eigi að greiða og þar þurfi að vera um að ræða greiðslu fyrir sérgreint endurgjald til greiðandans sem látið sé í té af þeim sem heimild hafi til töku gjaldsins.  Gjald það, sem stefnanda  hafi verið gert að greiða, hafi verið innheimt án nokkurra tengsla við raunverulegt eftirlit með starfsemi hans eða kostnað við það.

Til þrautavara byggir stefnandi á því að reglugerðir nr. 254/1989, nr. 240/1990, nr. 217/1991, nr. 162/1992 og nr. 214/1993, allar um eftirlitsgjald vegna lyfjaeftirlits fyrir viðkomandi ár, séu ekki fullnægjandi grundvöllur til innheimtu á því eftirlitsgjaldi sem honum hafi verið gert að greiða.

Þá telur stefnandi að innheimta á því eftirlitsgjaldi, sem honum hafi verið gert að greiða til Lyfjaeftirlits ríkisins, stríði gegn almennum reglum skatta- og stjórnsýsluréttar um jafnræði þegnanna, meðal annars af þeirri ástæðu að Lyfjaeftirlit ríkisins hafi samkvæmt lögmæltu hlutverki sínu þurft að sinna öðrum verkefnum en beinu eftirliti með starfsemi þeirra sem greiða eftirlitsgjaldið.  Stefnanda hafi þannig, ásamt öðrum lyfsölum, verið gert að greiða niður þjónustu sem honum sé óviðkomandi.

Stefnandi byggir á því að krafa hans sé skaðabótakrafa sem stofnast hafi við  það að Alþingi og/eða ráðherra hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið stefnanda tjóni með því að setja lög sem  brjóti í bága við stjórnarskrá og í kjölfarið gera honum að greiða gjald vegna lyfjaeftirlits án fullnægjandi lagaheimildar og á grundvelli reglugerða sem skorti þann skýrleika og málefnalegar forsendur sem gera verði kröfu um til íþyngjandi stjórnvaldsfyrirmæla.  Um lagarök skaðabótakröfu er vísað til almennu skaðabótareglunnar og réttarreglna um fébótaábyrgð hins opinbera.  Verði ekki fallist á það að krafa stefnanda sé skaðabótakrafa er á því byggt að um sé að ræða kröfu til endurheimtu ofgreidds fjár. 

Með vísun til áskilnaðar fyrningarlaga varðandi fyrningarfrest kveðst stefnandi ekki hafa greitt „í rangri ímyndun um skuldbinding“ heldur hafi hann ekki átt annarra kosta völ en að inna greiðslu af hendi samkvæmt skýrum og skilyrðislausum fyrirmælum stjórnvalda, ella hafi hann átt á hættu að missa lyfsöluleyfið.

Af hálfu stefnda er á því byggt að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti í máli þessu þar sem það hafi fyrst verið með bréfi 10. júní 1998 að mótmælt hafi verið eftirlitsgjaldinu samkvæmt lögum nr. 108/1984 sem fallið hafi úr gildi 1. júlí 1994.

Verði ekki fallist á sýknu vegna tómlætis stefnanda er á því byggt að krafa hans sé fallin niður fyrir fyrningu, sbr. 5. tl. 1. mgr. 3. gr. og lögjöfnun frá 3. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 14/1905.

Þá er á því byggt af hálfu stefnda að lyfjaeftirlitsgjaldið hafi verið innheimt á grundvelli lagaskyldu og gjaldtakan  hafi í alla staði verið lögmæt.

Því er hafnað að um skaðabótakröfu sé að ræða.  Eðli kröfunnar sé endurgreiðsla ofgreidds fjár, enda sé ekki fyrir hendi bótagrundvöllur eftir almennum reglum skaðabótaréttarins og því er mótmælt sem röngu og ósönnuðu að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna innheimtunnar.

Að lokum er af hálfu stefnda mótmælt kröfu um dráttarvexti frá fyrri tíma en aðallega dómsuppsögu en til vara þingfestingu málsins.

- - - - -

Því er ekki mótmælt, sem fram er haldið af hálfu stefnda, að tekjur af lyfjaeftirlitsgjaldinu hafi einungis runnið til greiðslu kostnaðar af Lyfjaeftirliti ríkisins vegna lögbundins hlutverks þess og það sem á vantaði komið úr ríkissjóði.  Ákvörðun gjaldanna byggðist ekki á sjónarmiðum um almenna tekjuöflun í ríkissjóð.  Það verður því ekki skilgreint sem skattur og þegar af þeirri ástæðu fól álagning þess ekki í sér brot gegn 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.

Með 52. gr. lyfjalaga nr. 108/1984 og framangreindum reglugerðum, sem settar voru með stoð í 53. gr. laganna, var eftirlitsgjald lagt á lyfjabúðir lyfsala og aðra þá sem Lyfjaeftirlit ríkisins hafði eftirlit með.  Ákvörðun gjaldsins og niðurjöfnun þess eftir gjaldflokkum tók til allra sem eins var ástatt um og fór eftir almennum, efnislegum mælikvarða sem augljóst er að byggðist á umfangi reksturs.  Það var greitt án athugasemda eða fyrirvara af hálfu stefnanda.

Eigi er fallist á að lögmæti gjaldsins hafi verið háð því að fyrir greiðslur stefnanda kæmi sérgreint endurgjald eða „þjónusta“, fólgin í eftirlitsferðum í apótek hans, og að upphæðir greiðslnanna samsvöruðu kostnaði Lyfjaeftirlits ríkisins af þeim aðgerðum.   

Eftirlitsgjaldi samkvæmt lyfjalögum nr. 108/1984 var ætlað að standa undir kostnaði Lyfjaeftirlits ríkisins við að rækja skyldur sínar samkvæmt 50. gr. þeirra varðandi almennan starfsgrundvöll og  rekstur þessara aðila og sem telja verður hafa verið þeim í hag að ræktar væru.  Álagning þess var studd gildu og hefðbundnu löggjafarviðhorfi:  Þeir, sem hljóta leyfi til arðgæfs atvinnureksturs, en ekki almennir skattgreiðendur, standi straum af sérgreindum kostnaði vegna hans.

Niðurstaða málsins er samkvæmt þessu sú að sýkna beri stefnda af kröfum stefnanda.  Eftir þeim úrslitum verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem er ákveðinn 100.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari. 

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýknaður af kröfum stefnanda, Jóns Björnssonar.

Stefnandi greiði stefnda 100.000 krónur í málskostnað.