Print

Mál nr. 25/2001

Lykilorð
  • Stjórnarskrá
  • Embættismenn
  • Flutningur í starfi
  • Andmælaréttur
  • Meðalhóf
  • Skaðabótamál

Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. maí 2001.

Nr. 25/2001.

Sigurður Gizurarson

(sjálfur)

gegn

íslenska ríkinu

(Jón G. Tómasson hrl.)

og gagnsök

 

Stjórnarskrá. Embættismenn. Flutningur í starfi. Andmælaréttur. Meðalhófsregla. Skaðabótamál.

 

Dómsmálaráðherra ákvað að flytja S úr starfi sýslumanns á Akranesi. Taldi S ákvörðun ráðherra saknæma og ólögmæta gagnvart sér og höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til greiðslu miska- og skaðabóta. Kröfum S var hafnað með þeim rökum að dómsmálaráðherra hefði ekki verið nauðsyn að leita atbeina forseta Íslands þegar tekin var ákvörðun um flutning S eftir 36. gr. starfsmannalaga. Þá hefði S ekki sýnt fram á að sá andmælaréttur sem honum var veittur hefði aðeins verið til málamynda. Ennfremur þótti nægjanlega fram komið að ástæður þær sem dómsmálaráðuneytið færði fram fyrir ákvörðun sinni um flutning S úr einu embætti í annað hefðu verið málefnalegar og að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hefði verið gætt um flutninginn. Um aðrar málsástæður S vísaði Hæstiréttur til forsendna héraðsdóms, þar sem fram kom að S hefði í reynd ekki verið vikið úr starfi enda yrði ákvörðun um flutning ekki jafnað til lausnar frá embætti. Þá hefði ákvörðun um flutning S aldrei komið til framkvæmda vegna sérstakra óska S um aðrar mála­lyktir. Ennfremur yrði ákvörðun ráðherra og sú máls­með­ferð er lá henni til grundvallar ekki talin fela í sér áreitni, ærumeiðingar og tilræði. Fullyrðingu S um vanhæfi ráðherra til að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun um málefni S vegna opinbers fjandskapar við hann var hafnað sem órökstuddri. Auk þess var talið ljóst að ákvörðun um flutning S í annað embætti hefði verið tekin að lokinni ýtarlegri athugun og var því hafnað þeirri málsástæðu S að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hefði verið brotin. Einnig var tilvísun S til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga hafnað þar sem ekki þótti ljóst samhengi þeirrar málsástæðu við annan málatilbúnað hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Stefán Már Stefánsson prófessor.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. janúar 2001 og krefst þess að sér verði dæmdar 7.000.000 krónur í miskabætur og 25.456.000 krónur vegna fjárhagslegs tjóns ásamt dráttarvöxtum af síðargreindri fjárhæð samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi 7. mars 2001 og krefst aðallega sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara er gerð krafa um lækkun stefnufjárhæðarinnar og að málskostnaður verði látinn niður falla.

I.

Aðaláfrýjandi, sem skipaður hafði verið bæjarfógeti á Akranesi 24. september 1985 ótímabundið, kaus að neyta ekki forgangsréttar til skipunar í embætti héraðsdómara samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 18. gr. laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, og varð því sjálfkrafa sýslumaður á aðsetursstað sínum, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna, frá og með 1. júlí 1992. Með bréfi dómsmálaráðherra 6. apríl 1998 var aðaláfrýjanda tilkynnt að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um að flytja hann úr embætti sýslumannsins á Akranesi í embætti sýslumannsins á Hólmavík frá og með 1. júlí það ár. Með flutningsbréfi dómsmálaráherra 5. júní 1998 var aðaláfrýjanda, með vísan til 36. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, falið að gegna embætti sýslumanns á Hólmavík frá 1. júlí 1998. Með flutningsbréfinu fylgdi bréf þar sem gerð var grein fyrir forsendum þessarar ákvörðunar. Segir þar að hún sé byggð á þeirri skoðun ráðuneytisins að sýslumaður hafi ekki haft þá stjórn og yfirsýn yfir rekstur embættisins sem forstöðumanni stofnunar sé skylt og nauðsynlegt að hafa og að fullreynt sé að mati þess að honum takist að vinna bug á fjárhagsvanda embættisins. Þá er jafnframt vitnað til bréfs ráðuneytisins 11. maí sama ár og vísað til þess að embættisfærsla sýslumannsins vegna innheimtu á dómsekt og álögðum opinberum gjöldum í máli Þórðar Þórðarsonar á Akranesi hafi verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Því er síðan lýst að það sé mat ráðuneytisins að þar sem sýslumaður hafi ekki gripið til innheimtuaðgerða vegna opinberra gjalda í máli þessu, svo sem með kröfu um gjaldþrotaskipti, þannig að unnt hefði verið að rifta framangreindum gerningum, hafi hagsmunir ríkissjóðs verið bornir fyrir borð. Hafi mál þetta orðið til þess að renna frekari stoðum undir þá skoðun ráðuneytisins að hagsmunum ríkissjóðs yrði betur borgið með því að fela öðrum stjórn og rekstur sýslumannsembættisins á Akranesi.

Krafa aðaláfrýjanda í máli þessu er á því reist að honum hafi verið valdinn miski með þessari ákvörðun dómsmálaráðherra, að flytja hann úr starfi sýslumanns á Akranesi í starf sýslumanns á Hólmavík og athöfnum, sem þeirri ákvörðun hafi tengst. Jafnframt hafi hann orðið fyrir fjárhagslegu tjóni, sem leitt hafi af greindri ákvörðun, enda hafi hún verið saknæm og ólögmæt gagnvart sér.

 

II.

Málavextir eru að nokkru raktir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 1999 og dómi sama dómstóls 20. desember sama ár, sbr. dóma Hæstaréttar 25. mars 1999 og 19. október 2000, auk dómsins sem hér er til endurskoðunar. Aðaláfrýjandi sendi dómsmálaráðuneytinu fjárlagatillögur embættisins fyrir fjárlagaárið 1994 með bréfi 4. maí 1993. Segir í meginefni bréfsins: „Svo sem áður hefur verið tekið fram, getur fjárhagsáætlun embættisins ekki orðið raunhæf, nema það njóti svipaðra fjárveitinga og sambærileg embætti. Samkvæmt fjárlögum 1993 fær Ísafjarðarembættið 17-18 millj. meira, þótt þar séu um 60 færri íbúar og Vestmannaeyjaembættið fær 6-7 millj. meira, þótt þar séu um 400 færri íbúar.“ Kveðst aðaláfrýjandi hafa gert fjárlagatillögurnar eftir reglum í leiðbeiningabæklingi, og hann hafi beðið um hækkun á fjárveitingum en ekki fengið og því orðið að skera niður kostnað. Þannig hafi þetta gengið fyrir sig og aldrei hafi fjárveitingar verið hækkaðar til sín og halli því safnast upp.

Á árinu 1993 lagði dómsmálaráðherra fram tillögur um sameiningu sýslumannsembætta og var meðal annars gert ráð fyrir að embættin í Borgarnesi og á Akranesi yrðu sameinuð. Aðaláfrýjandi kveður viðbrögð sín hafa verið þau, að gera dómsmálaráðuneytinu tilboð um að hann viki úr sínu embætti svo að sýslumaður í Borgarnesi gæti orðið sýslumaður í báðum sýslum. Tilboði hans hafi fylgt þau skilyrði að ráðuneytið aðstoðaði hann við að koma undir sig fótunum á nýjum vettvangi handan Faxaflóa t.d. með því að koma á stofn lögfræðiskrifstofu eða með starfi á alþjóðavettvangi. Hann hafi flutt lögheimili sitt frá Akranesi á Seltjarnarnes, þar sem hann hafði reist sér hús. Sumarið 1993 hafi liðið og dómsmálaráðherra lagt þessar fyrirætlanir sínar á hilluna, en um haustið hafi aðaláfrýjandi skrifað bæði Ríkisendurskoðun og ráðuneyti bréf vegna athugasemda um að embætti hans hafi farið út fyrir fjárheimildir. Viðbrögð dómsmálaráðuneytisins hafi verið þau að krefjast sérstakrar úttektar Ríkisendurskoðunar á embætti hans í nóvember 1993. Úttektin hafi komið í apríl 1994 og verið honum neikvæð enda hafi þar ekkert verið tekið tillit til athugasemda hans.

Í úttekt þessari, þar sem gerð var fjárhagsleg og stjórnsýsluleg endurskoðun á embættinu, kemur fram að embættið hafi farið fram úr fjárheimildum í mörg ár þar á undan og hafi staðan í árslok 1993 verið 13,6 milljónir króna umfram fjárheimildir. Í árslok 1990 hafi rekstur embættisins verið kominn 900 þúsund krónur umfram fjárheimildir, en hins vegar hafi komið í ljós að sértekjur þess árs hafi verið ofbókaðar sem nam 2,2 milljónum króna. Þannig hafi embættið í raun verið komið um 3 milljónum króna fram úr fjárheimildum þegar árið 1990. Fjárlagatillögugerð sé verulega ábótavant, í þeim sé innbyrðis misræmi og frágangur ófullnægjandi. Segir í niðurstöðu úttektarinnar, að stjórnun virðist vera veikur hlekkur hjá embættinu, starfsmenn starfi sjálfstætt og virðist óháðir yfirboðurum og öðrum starfsmönnum. Innheimtuþáttur sé ekki sem skyldi og kröfur hafi tapast vegna aðgerðarleysis. Ýmsar athugsemdir voru gerðar um bókhald, húsnæðiskostnað og sértekjur lögreglunnar og tekið fram, að óneitanlega setji búseta og fjarvera sýslumanns mark sitt á embættið, en hann búi á Seltjarnarnesi.

 Sumarið 1994 ritaði  dómsmálaráðuneytið aðaláfrýjanda bréf þar sem þess var óskað að hann gerði því ýtarlega grein fyrir viðveru sinni á skrifstofu embættisins á árinu. Hann ritaði af því tilefni svarbréf 9. september 1994. Í bréfi ráðuneytisins, sem honum var afhent á fundi 20. september sama ár, kom fram að það teldi upplýsingar hans alls ófullnægjandi og óskað var eftir frekari upplýsingum, og honum sett sérstök fyrirmæli um vinnuskyldu, notkun stimpilklukku og ráðningu starfsmanna.

Í september 1994 hélt Samband ungra sjálfstæðismanna fund í Kópavogi og þar mætti dómsmálaráðherra og svaraði fyrirspurnum. Frá þessu var skýrt í kvöldfréttum ríkisútvarpsins, og í fréttinni var dómsmálaráðherra sagður hafa svarað fyrirspurn um sýslumanninn á Akranesi á þann veg að „sýslumaðurinn hefði ekki sinnt starfi sínu eins og honum bæri og að ráðuneytið hefði gert ráðstafanir til þess að á því yrði breyting“. Að sögn aðaláfrýjanda var í fréttinni sagt að fjárreiður og önnur málefni sýslumannsembættisins væru sögð í miklum ólestri vegna óstjórnar sýslumanns og því væru störf hans nú undir smásjá ráðuneytisins. Þarna hafi verið soðin saman ósannindi úr ýmsum áttum og fréttamaðurinn ekkert borið undir hann og hafi aðspurður ekki viljað tilgreina heimildarmenn.

Við gerð fjárlaga 1996 var uppsafnaður rekstrarhalli embættisins orðinn um 17 milljónir króna. Með bréfi ráðuneytisins 21. apríl 1997 voru gerðar athugasemdir við rekstraráætlun embættisins fyrir árið 1997, sem var rúmum þremur milljónum króna hærri en fjárveiting til embættisins samkvæmt fjárlögum. Benti ráðuneytið á, að það hefði 11. mars sama ár áréttað að áætlunina skyldi miða við fjárheimildir en ekki fjárlög, þar sem taka þyrfti tillit til halla fyrra árs sem takmarki fjárheimildina. Í bréfinu 21. apríl var upplýst að uppsafnaður halli á embættinu væri rúmar 19 milljónir króna, en þar sem hallinn væri svo mikill gerði ráðuneytið ekki kröfu um að rekstraráætlun tæki mið af fjárheimild. Þar segir einnig að ljóst sé að tryggja verði að hallinn verði minnkaður en ekki aukinn á árinu, svo sem stefni í samkvæmt rekstraráætlun. Var óskað eftir skýringum aðaláfrýjanda á þessu ósamræmi rekstraráætlunar og fjárlaga. Jafnframt var óskað eftir því að hann hagaði rekstri embættisins á þann veg að á árinu 1997 næðist að minnka uppsafnaðan halla nokkuð og að upplýst yrði til hvaða aðgerða yrði gripið í því skyni.

Aðaláfrýjandi kom á fund í dómsmálaráðuneytinu vegna bréfs þessa 21. maí 1997. Hann benti á að hann hefði ekki fengið stuðning ráðuneytisins við aðgerðir sem hann hafi lagt til vorið 1995 um að fækka um einn löglærðan fulltrúa og fækka yfirvinnutímum starfsmanna. Hann ítrekaði fyrri tillögur og sagði að gripið yrði til þess ráðs að ráða ódýrari starfskraft í stað fulltrúa, sem færi í námsleyfi. Féllst ráðuneytið á þetta, og var talið að þetta gæti sparað 1-2 milljónir króna á ári. Með þessu og öðrum aðhaldsaðgerðum mætti tryggja að ekki yrði um frekari rekstarhalla að ræða á árinu. Í ljós kom síðar að þegar hafði verið gert ráð fyrir þeirri sparnaðaraðgerð að ráða ekki annan fulltrúa í framangreindri rekstaráætlun. Fjárlagahalli embættisins jókst þó um 7,1 milljón króna á árinu 1997 og varð uppsafnaður halli embættisins á árinu 1998 samtals 26,1 milljón króna.

III.

Aðaláfrýjandi gerði sem sýslumaður fjárnám hjá Þórði Þórðarsyni til tryggingar skuld hans við innheimtumann ríkissjóðs vegna opinberra gjalda 28. desember 1995. Skuldin nam rúmum 142 milljónum króna. Fjárnámið var gert í húseign gerðarþola á Akranesi og tveimur skuldabréfum hvoru um sig að fjárhæð 43.468.250 krónur. Bréfin voru útgefin af Bifreiðastöð Þórðar Þ. Þórðarsonar ehf. án trygginga en með 5% ársvöxtum til 20 ára. Fyrsti gjalddagi var 1. febrúar 1997 og var afborgunin greidd innheimtumanni ríkissjóðs. Gerðin varð árangurslaus að hluta og ekki var gerð krafa um gjaldþrotaskipti.

Með dómi Hæstaréttar 12. júní 1997 var Þórður Þórðarson dæmdur til fangelsisvistar og til að greiða 50 milljón króna sekt í ríkissjóð fyrir skattalagabrot. Lögmaður hans óskaði eftir því við aðaláfrýjanda að hann fengi að nota andvirði hinna fjárnumdu skuldabréfa til greiðslu á sektinni áður en andvirðið gengi til greiðslu á opinberum gjöldum. Aðaláfrýjandi ritaði af þessu tilefni bréf til fjármálaráðuneytisins 3. júlí 1997 og fór fram á að ráðuneytið tæki afstöðu til þessa. Með bréfi 15. júlí 1997 vísaði ráðuneytið ákvörðun um beiðnina til aðaláfrýjanda, sem féllst þá á hana. Hann gerði kröfu um fjárnám hjá gerðarþola til tryggingar sektinni og sakarkostnaði 4. september 1997 og 5. september sama ár um endurupptöku fjárnámsins frá 28. desember 1995. Hinn 9. september 1997 endurupptók hann fjárnámsgerðina og leysti undan fjárnámi eignir er þá voru teknar fjárnámi til tryggingar skuldum gerðarþola, eins og þar var bókað. Samdægurs gerði hann tvö fjárnám hjá sama gerðarþola. Í hinu fyrra var gert fjárnám til tryggingar kröfum samkvæmt dómi Hæstaréttar 12. júní og þá lýst yfir fjárnámi í einbýlishúsi gerðarþola á Akranesi og hinum sömu skuldabréfum og áður. Í síðara fjárnáminu var lýst yfir fjárnámi í sömu eignum til tryggingar skuldum við ríkissjóð og voru bréfin árituð um þessi tvö fjárnám.

Lokauppgjör vegna nauðungarsölu á fasteign gerðarþola fór fram 14. október 1997. Nauðungarsalan hófst í beinu framhaldi af endurupptöku fjárnámsgerðarinnar og fór fram á grundvelli hennar. Með ráðstöfun eignarinnar fengust rúmlega 7,5 milljón krónur sem aðaláfrýjandi úthlutaði upp í fjárnámið vegna sektarinnar og sakarkostnaðar.

Krafa um nauðungarsölu á hinum fjárnumdu skuldabréfum var tekin fyrir hjá aðaláfrýjanda 18. nóvember 1997. Samdægurs fór hann fram á heimild fjármálaráðuneytisins til þess að bjóða í bréfin fyrir hönd ríkissjóðs, og var uppboðinu á bréfunum frestað til 25. nóvember. Þann dag synjaði fjármálaráðuneytið símleiðis erindi hans um að fá að bjóða í bréfin fyrir hönd ríkissjóðs og voru þau seld hæstbjóðanda, syni gerðarþola, á nauðungarsölu fyrir 50 þúsund krónur.

Dómsmálaráðuneytið ritaði aðaláfrýjanda bréf 6. janúar 1998 og óskaði að gefnu tilefni eftir upplýsingum um innheimtu sektarinnar. Sérstaklega óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um „á hvaða forsendum fjárnám í íbúðarhúsnæði og skuldabréfum vegna skattaskulda“ hafi í september 1997 verið fært aftur fyrir fjárnám fyrir sektinni, svo og um tilboð í bréfin á uppboðinu í nóvember 1997. Aðaláfrýjandi svaraði með bréfi 7. janúar 1998, þar sem hann lýsti því sem gerst hafði og ástæðum þar að baki.

Lögmaður dómfellda fór þess á leit við sýslumann, að samið yrði um greiðslu á sektarskuldinni með afborgunum, sbr. lög nr. 57/1997. Gerðu sýslumaður og dómfelldi með sér samkomulag 21. janúar 1998 um greiðslu dómskuldarinnar, sem þá höfðu verið greiddar 7,5 milljónir króna upp í, um að dómfelldi greiddi 2,5 milljónir króna 2. febrúar 1998 og sömu fjárhæð 2. ágúst sama ár, og um framhald greiðslna yrði samið í síðasta lagi í janúar 1999. Dómsmálaráðuneytið ritaði sýslumanni bréf 29. janúar 1998 vegna samkomulags þessa og lýsti því að það áliti samkomulagið skýlaust brot á 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um greiðslufrest sekta, sbr. 1. gr. laga nr. 57/1997, og að ráðuneytið liti það alvarlegum augum. Þar sem með samkomulaginu hafi verið farið út fyrir lögbundnar heimildir til þess að semja um greiðslufrest liti ráðuneytið svo á að það væri ógilt. Yrði sektin ekki greidd innan þess tímafrests sem lög áskildu hlyti að koma til afplánunar vararefsingar samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 12. júní 1997. Daginn eftir, 30. janúar, ritaði ráðuneytið aðaláfrýjanda annað bréf þar sem ítrekuð var afstaða fyrra bréfs og jafnframt sagt, að samkvæmt 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 væri unnt að veita embættismanni skriflega áminningu vegna ámælisverðrar háttsemi í starfi. Að mati ráðuneytisins hafi þessi embættisathöfn verið ámælisverð og varðað við greint ákvæði laga nr. 70/1996. Fram kom að með bréfi þessu væri aðaláfrýjanda gefinn kostur á að tala máli sínu áður en af áminningu yrði af þessu tilefni, sbr. 21. gr. i.f. Var honum veittur frestur til mánudagsins 9. febrúar 1998.

Aðaláfrýjandi sendi dómsmálaráðuneytinu greinargerð sína 5. febrúar 1998. Þá hafði borist skýrsla Ríkisendurskoðunar 29. janúar 1998  um uppboð á skuldabréfum einkafirma ÞÞÞ á Akranesi, þar sem aðgerðir og ákvarðanir aðaláfrýjanda í málinu voru gagnrýndar. Formaður Alþýðubandalagsins hafði beðið um það að skýrsla þessi yrði gerð. Aðaláfrýjandi gagnrýndi sjálfur skýrslu þessa og lýsti sínum sjónarmiðum. Hann skýrði og gerð samkomulagsins um greiðslu sektarinnar. Gerðarþoli og dómfelldi hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 18. desember 1997. Réttarstaðan hafi verið óvenjuleg. Dómur Hæstaréttar um sektina hafi verið kveðinn upp 12. júní 1997, en lögin um breytingu á 52. gr. almennra hegningarlaga hafi tekið gildi 1. júlí sama ár. Lagarök hafi verið til að þau hefðu ekki afturvirk áhrif og giltu því ekki um dóm þennan heldur eingöngu um dóma uppkveðna eftir 1. júlí 1997. Hann og lögmaður dómfellda hefðu auk þessa staðið frammi fyrir því að skuldari sektarinnar væri gjaldþrota og réði ekki yfir fé sínu og því hafi ekki verið um það að ræða að gera lagalega bindandi samning við hann um greiðslu sektar af hans fé með afborgunum. Slíkan samning hafi í reynd ekki verið unnt að gera við skiptastjóra þrotabúsins því að það hafi verið eignalaust. Hann og lögmaður dómfellda hafi því gert heiðursmannasamkomulag, sem hafi miðað að því að bjarga því sem bjargað yrði í máli sem komið hafi verið í óefni fyrir mistök af hálfu ríkisins, og eina gildi þess hafi verið siðferðilegt, þ.e. þess hafi verið að vænta að sonur dómfellda, eigandi skuldabréfanna, hafi talið sér siðferðilega skylt að nota andvirði þeirra til að bjarga föður sínum frá fangelsi. Mótmælti aðaláfrýjandi í greinargerð sinni afstöðu dómsmálaráðuneytisins og ætlan þess um áminningu. Lýsti hann því að ráðuneytið hefði gerst brotlegt við lög með málflutningi og dómsáfellingu á opinberum vettvangi og sagði ráðuneytið vanhæft til að fjalla um áminningu honum til handa, það gæti ekki verið hvort tveggja í senn árásaraðili í fjölmiðlum, þ.e. málsaðili, og hlutlaus úrskurðaraðili í málinu.

Dómsmálaráðuneytið ritaði aðaláfrýjanda áminningarbréf 2. mars 1998. Bréfið var ýtarlega rökstutt og í því tekin afstaða til allra þeirra atriða er hann hafði borið fram sér til málsbóta í greinargerð 5. febrúar 1998. Meðal annarra atriða var tekin afstaða til þeirra andmæla hans að brotið hefði verið gegn andmælareglu og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál til ógildingar áminningunni 26. júní 1998 og til greiðslu miskabóta. Dómur féll í héraði 20. desember 1999 og var gagnáfrýjandi sýknaður af kröfum hans. Héraðsdómur var staðfestur í dómi Hæstaréttar 19. október 2000. Þar kemur fram að áminningin hafi lotið að því að hann hefði með gerð samkomulags við dómfellda um greiðslu sektarinnar brotið gegn 2. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 57/1997, sem mæli fyrir um að ekki megi veita lengri greiðslufrest en eitt ár frá því að sekt kemur til innheimtu. Aðaláfrýjandi hefði fengið sektina til innheimtu eftir gildistöku laga nr. 57/1997 og borið sem sýslumanni að kynna sér sérstaklega nýja lagasetningu sem varðaði störf hans og fara eftir henni. Samkvæmt lagaákvæðinu hefði hann ekki mátt semja um innheimtu sektarinnar með þeim hætti sem hann gerði. Ekki var talið unnt að líta fram hjá því að með gerð samkomulagsins hefði hann sýnt af sér athæfi í starfi sem heyrði undir 21. gr. laga nr. 70/1996. Ekki væri annað fram komið en að ráðherra hefði staðið réttilega að áminningunni. Miskabótakrafa aðaláfrýjanda væri leidd af kröfu hans um ógildingu áminningarinnar og kæmi því ekki frekar til álita.

IV.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir málsástæðum aðila. Í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti lagði aðaláfrýjandi áherslu á, að málið ætti sér langan aðdraganda. Upphafið mætti rekja til þess er Þorsteinn Pálsson hefði tjáð sig í sjónvarpsviðtali í janúar 1991 um atburði í Eystrasaltslöndum. Aðaláfrýjandi hafi af þessu tilefni ritað grein í dagblað og svarað Þorsteini. Skömmu síðar hafi Þorsteinn Pálsson orðið dómsmálaráðherra og borið kala til sín æ síðan vegna þessa, sem bitnað hafi á sér í starfinu á Akranesi.

Aðaláfrýjandi minnti á að hann hafi haustið 1993 ritað bæði Ríkisendurskoðun og dómsmálaráðuneyti bréf vegna athugasemda um að embætti hans hafi farið út fyrir fjárheimildir. Viðbrögð ráðuneytisins hafi verið að krefjast sérstakrar úttektar á embætti hans í nóvember það ár. Hann hafi síðan verið kallaður á fund ráðuneytisstjórans í dómsmálaráðuneytinu, sem hafi lagt fyrir hann bréf sem honum hafi verið ætlað að skrifa undir, þar sem hann sagði upp sýslumannsembættinu. Engu hafi verið lofað um að hann yrði aðstoðaður við að koma undir sig fótunum í Reykjavík. Hann hafi verið með stóra fjölskyldu og talið sig þurfa að fara varlega í fjármálum og hann hafi neitað þessu. Þetta „væri tómt mál núna, Þorsteinn Pálsson væri búinn að leggja þessi plön sín á hilluna og þeir hefðu ekki boðið mér neitt“, eins og aðaláfrýjandi lýsti. Þá hefði komið inn aðstoðarmaður ráðherra og sagt að færi hann ekki út með góðu færi hann út með illu og hann vissi það mikið af úttekt Ríkisendurskoðunar að það yrði unnt að koma honum úr embætti. Þessu lýsi hann til þess að sýna hvernig þeir í ráðuneytinu hafi beitt hann harðræði. Aðaláfrýjandi kveður þennan aðdraganda skýra málið allt, og það sem á eftir hafi komið, það er ákvörðun ráðherra um að flytja hann til Hólmavíkur. Endanlega aðförin að honum hafi verið að koma honum norður.

V.

Aðaláfrýjandi byggir kröfur sínar í fyrsta lagi á því að það hafi ekki verið réttur aðili sem tók ákvörðun um að flytja hann úr embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumanns á Hólmavík. Til þess hefði þurft atbeina forseta Íslands.

Eftir 1. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar veitir forseti lýðveldisins þau embætti, er lög mæla. Samkvæmt 26. gr. og 31. gr. starfsmannalaga veitir stjórnvald sem skipar mann í embætti einnig lausn frá því bæði um stundarsakir og að fullu, nema öðruvísi sé sérstaklega mælt fyrir um í lögum. Samkvæmt þessu ber að leggja gildandi lög til grundvallar þegar leyst er úr hvaða stjórnvald veitir lausn frá embætti. Af því leiðir að sömu lögum verður ekki beitt við lausn frá embætti og giltu við skipun í það, nema þau væru enn í gildi þegar ákvörðun um lausn er tekin. Telja verður að eins fari um flutning á milli embætta eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum á grundvelli 4. mgr. 20. gr. stjórnarskárinnar. Var dómsmálaráðherra því ekki nauðsyn að leita atbeina forseta Íslands þegar tekin var ákvörðun um flutning aðaláfrýjanda eftir 36. gr. starfsmannalaga.

 

 

VI.

Aðaláfrýjandi heldur því fram að honum hafi einungis verið veittur andmælaréttur til málamynda, andstætt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og  fellst því á niðurstöðu héraðsdóms um þessa málsástæðu. Hins vegar telur aðaláfrýjandi að héraðsdómari dragi ranga ályktun af þessu, þar sem brot gegn andmælarétti valdi jafnan ólögmæti þeirrar stjórnvaldsákvörðunar, sem andmælarétturinn hafi átt að tryggja.

Stefndu halda því hins vegar fram, að í þeim ummælum dómsmálaráðherra í kvöldfréttum útvarps og sjónvarps í apríl 1998 og því sem haft hafi verið eftir ráðherra í DV 20. apríl sama ár, sem vísað sé til í héraðsdómi, komi ekki fram að ákvörðun um sýslumannsskiptin hafi þá verið endanlega tekin og yrði ekki breytt, enda hafi engin niðurstaða um flutning verið tekin fyrr en með rökstuddri ákvörðun ráðherra í bréfi til aðaláfrýjanda 5. júní 1998. Því sé mótmælt að tækifæri hans til andmæla hafi aðeins verið til málamynda.

Við skoðun á upptökum af sjónvarpsfréttum þeim, sem aðaláfrýjandi vísar til og byggt er á í héraðsdómi, kemur fram, að dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjóri hafi átt fund með sýslumanni Strandamanna og héraðsráði Strandamanna á Hólmavík, og að tilgangur fundarins hafi verið að lægja þær öldur sem risið hafi eftir að ráðherra hafi ákveðið að flytja aðaláfrýjanda til Hólmavíkur. Á fundinum hafi heimamenn beðið ráðherra um að breyta þessari ákvörðun sinni. Fram kom að ráðherra biði eftir svari frá aðaláfrýjanda og þar til það bærist gætu Strandamenn ekkert gert. Frétt dagblaðsins DV 20. apríl 1998 er af þessum sama fundi.

Ágreiningslaust er að ráðherra hafi í bréfum sínum til aðaláfrýjanda 6. apríl og 11. maí 1998 tilkynnt honum að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um að flytja hann úr embætti sýslumannsins á Akranesi í embætti sýslumannsins á Hólmavík frá og með 1. júlí það ár og í báðum bréfunum gefið honum kost á að koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Þennan andmælarétt sinn nýtti aðaláfrýjandi sér í bréfum sínum til ráðherra 20. apríl og 25. maí 1998.

Þótt því sé ekki neitað af hálfu gagnáfrýjanda að ráðherra hafi látið orð falla í þá átt að hann teldi að ekki yrði fallið frá fyrirhugaðri ákvörðun um flutning, verður að fallast á með gagnáfrýjanda að slík orð hafi verið svar ráðherra við gagnrýni heimamanna á Hólmavík, sem voru óánægðir með fyrirhugaða ráðstöfun samkvæmt fréttum fjölmiðla, enda kom og fram í fréttunum, að dómsmálaráðherra biði svars aðaláfrýjanda. Þessi svör ráðherra teljast ekki þess eðlis að brotinn hafi verið á aðaláfrýjanda réttur til andmæla, sem hann notfærði sér í löngu og ýtarlegu máli. Ákvörðun um flutninginn var fyrst tekin með bréfi ráðherra 5. júní 1998, þegar tekin hafði verið afstaða til allra þeirra atriða, sem aðaláfrýjandi hafði borið fram sér til málsvarna. Aðaláfrýjanda var því sannanlega veittur andmælaréttur og hann hefur ekki sýnt fram á að það hafi aðeins verið til málamynda.

VII.

Aðaláfrýjandi byggir ennfremur á því að málefnalegar ástæður hafi ekki legið að baki ákvörðun dómsmálaráðherra um flutninginn.

Í bréfi dómsmálaráðherra til aðaláfrýjanda 11. maí 1998 er því lýst að tvennt hafi legið til grundvallar fyrirætlun um flutning hans í starfi. Í fyrsta lagi fjárhagsvandi sýslumannsembættisins á Akranesi undir hans stjórn. Í öðru lagi embættisfærsla hans vegna innheimtu á dómsekt og opinberum gjöldum Þórðar Þórðarsonar á Akranesi.

Í svarbréfi aðaláfrýjanda 25. maí sama ár bar hann fram þau andmæli að það væri rangt hjá ráðuneytinu að hann bæri ábyrgð á rekstri sýslumannsembættisins. Það væri ráðuneytið sjálft sem stjórnaði fjármálum embættisins með því að ákveða útgjöld þess og tekjur. Um meðferð sína á máli Þórðar Þórðarsonar sagði aðaláfrýjandi meðal annars í bréfi sínu, að áminning ráðherra 2. mars 1998 hafi verið misbeiting valds og ólögleg árás á sjálfstæði og embættishelgi þess manns sem gegni stöðu sýslumanns á Akranesi. Auk þessa hefur aðaláfrýjandi borið því við, svo sem í héraðsdómi greinir, að ákvörðun ráðherra um flutning hans hafi verið refsing á hendur honum. Slíka ákvörðun um flutning milli embætta megi ekki taka í refsingarskyni, auk þess sem áminningin 2. mars hafi verið refsing og ráðherra hafi ekki getað refsað honum fyrir sama brot með því að svipta hann sýslumannsembættinu.

Í bréfi dómsmálaráðuneytis 5. júní 1998, sem fylgdi flutningsbréfinu og áður er á minnst, var farið yfir andmæli aðaláfrýjanda úr bréfi hans 25. maí og þeim svarað. Í bréfinu var bent á, að ekki sé fallist á röksemdir aðaláfrýjanda varðandi stjórn á fjármálum embættisins á Akranesi. Ítrekuð voru sjónarmið ráðuneytisins um ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunar séu í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Rekstrarvandi embættisins á Akranesi hafi verið mesti uppsafnaði vandi eins sýslumannsembættis á öllu landinu og að aðaláfrýjandi hafi ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til þess að draga úr honum. Frá gildistöku starfsmannalaganna 1. júlí 1996 hafi hann hvorki í fjárlagatillögum óskað eftir hækkunum á fjárveitingum til að ná niður uppsöfnuðum halla né til að koma í veg fyrir áframhaldandi rekstrarhalla. Í bréfinu voru og rakin sjónarmið ráðuneytisins um fjárlagatillögur aðaláfrýjanda, og enn ítrekað, að samanburður aðaláfrýjanda á fjárveitingum til embættis hans á Akranesi við önnur sýslumannsembætti hefði ekki þýðingu, enda beri forstöðumaður stofnunar ábyrgð á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma séu innan ramma þeirra fjárveitinga sem rennur til þeirrar stofnunar er hann stýrir en ekki þeirra fjárveitinga sem renni til annarra stofnana.

Um embættisfærslu aðaláfrýjanda vegna innheimtu á dómsekt og álögðum opinberum gjöldum í máli Þórðar Þórðarsonar var tekið fram í bréfinu að í ljósi fyrri afskipta hans að innheimtu opinberu gjaldanna hafi fjármálaráðuneytið ákveðið með bréfi 18. febrúar 1998 að taka málið úr hans höndum þar sem það hafi talið nauðsynlegt að fela öðrum að gæta hagsmuna ríkissjóðs í málinu. Hafi innheimta opinberu gjaldanna verið færð í hendur tollstjórans í Reykjavík. Því var og lýst að mat ráðuneytisins hafi verið að hagsmunir ríkissjóðs hafi verið bornir fyrir borð.

Í bréfinu áréttaði ráðuneytið þá niðurstöðu sína við mat á úrræðum sem unnt hafi verið að grípa til vegna framangreinds, að rétt væri að flytja aðaláfrýjanda til í embætti á grundvelli 36. gr. starfsmannalaga og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskárinnar. Segir síðan: „Í ljósi þess að ráðuneytið telur ekki fullreynt að þér getið stjórnað embætti þar sem minni fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi, hlýtur að vera bæði rétt og skylt að gefa yður kost á að takast á við rekstur minna embættis í ljósi meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Embætti sýslumannsins á Hólmavík hefur mun minni fjárhagsleg og rekstrarleg umsvif en embættið á Akranesi. Það er mat ráðuneytisins að ekki sé öðrum sýslumannsembættum til að dreifa nær Reykjavík sem gætu hentað til þess að ná megi sama markmiði.“

Að framan er rakið hvernig háttaði um fjárhagslegan rekstur og almenna stjórn aðaláfrýjanda á sýslumannsembættinu á Akranesi. Hefur hann ekki hrakið frásögn dómsmálaráðuneytisins þar um svo nokkru nemi. Með vísan til þessa og niðurstöðu dóms Hæstaréttar Íslands 19. október 2000 í málinu nr. 157/2000 þykir í ljós leitt að  mjög skorti á að embættið væri rekið með viðunandi hætti. Aðaláfrýjandi fór með stjórnsýslu ríkisins sem æðsti yfirmaður í sínu umdæmi. Hann bar því stjórnunarlega ábyrgð á fjármálum embættisins og honum bar sérstök skylda til að taka á þeim rekstrarvanda embættisins sem upp var kominn. Verður að líta á það sem á eftir fór í þessu ljósi.

Sýnt þykir að aðaláfrýjandi hafi hvorki tekið á þessum rekstrarvanda né komið með raunhæfar tillögur til úrbóta þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar af hálfu dómsmálaráðuneytisins. Er vandséð hvaða önnur úrræði en fyrrgreindar ábendingar gátu þar komið að gagni. Rót vandans sem við var að glíma var því fyrst og fremst að rekja til áfrýjanda sjálfs og þeirra starfsskyldna sem honum bar að sinna. Nægjanlega er í ljós leitt að ekki varð lengur unað við stjórn hans á embættinu enda sýnt að ekki yrði þar bót á. Við svo búið varð að taka ákvörðun um framhald starfa hans.

Niðurstaða ráðuneytisins fólst í bréfi þess 6. apríl 1998 þar sem honum var kynnt að fyrirhugað væri að taka ákvörðun um að flytja hann úr embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumanns á Hólmavík frá og með 1. júlí sama ár á grundvelli 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og 36. gr. starfsmannalaga. Var honum boðið að kjósa um þennan flutning eða að öðrum kosti að taka eftirlaun samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997, sem svaraði því að hann hefði látið af störfum við 70 ára aldur. Aðaláfrýjandi kaus fyrst að flytjast til Hólmavíkur en ákvað síðar að láta af störfum með þessum skilyrðum. Verður ekki á það fallist með aðaláfrýjanda að í ákvörðun ráðuneytisins hafi falist refsing eða refsikennd viðurlög. Ljóst er hins vegar að flutningi til Hólmavíkur fylgdi óhagræði fyrir aðaláfrýjanda og fjölskyldu hans, en við mat á því verður ekki hjá því komist að líta til þess að aðrir kostir hefðu verið honum þungbærari við þessar aðstæður. Þegar þetta er virt er nægjanlega fram komið að ástæður þær sem dómsmálaráðuneytið færði fram fyrir ákvörðun sinni 5. júní 1998 um flutning aðaláfrýjanda úr einu embætti í annað hafi verið málefnalegar. Er einnig nægilega komið fram að meðalhófsreglu stjórnsýslulaga hafi verið gætt um flutninginn. Ákvörðun ráðuneytisins var því tekin á málefnalegan hátt eftir 36. gr. starfsmannalaga og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar.

Vegna alls þessa og framangreindrar niðurstöðu dómsins í köflum V. og VI. og að öðru leyti með vísan til forsendna og niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um aðrar málsástæður aðaláfrýjanda ber að sýkna gagnáfrýjanda af kröfum aðaláfrýjanda.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, íslenska ríkið, skal vera sýkn af kröfum aðaláfrýjanda, Sigurðar Gizurarsonar, í máli þessu.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var 20. nóvember s.l. er höfðað með 2 stefnum, annarri  birtri 25. júní 1998 og hinni birtri 28. maí 1999.  Yngra málið, nr. E-3101/1999, hefur verið sameinað þessu máli með heimild í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 og verða málin rekin og dæmd undir eldra máls­númeri.

Stefnandi er Sigurður Gizurarson, kt. 020339-4709, Víkurströnd 6, Seltjarnar­nesi.

Stefndu eru dómsmálaráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins og fjár­mála­ráð­herra fyrir hönd ríkissjóðs.

Dómkröfur stefnanda eru þær samkvæmt fyrri stefnu að honum verði dæmdar bætur úr ríkissjóði að fjárhæð 7.000.000 króna fyrir miska og jafnframt að honum verði dæmdur hæfilegur málskostnaður að mati dómsins.  Ekki er krafist vaxta af þessari dóm­kröfu.  Samkvæmt seinni stefnu gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð 25.456.000 króna með dráttar­vöxtum sam­kvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. október 1998 til greiðsludags og máls­kostnað að mati dóms­ins.

Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.  Til vara er krafist verulegrar lækk­unar stefnufjárhæðar og verði málskostnaður þá látinn niður falla.

Við framlagningu greinargerðar í fyrra málinu gerðu stefndu þá kröfu að málinu yrði vísað frá dómi en  stefnandi hafði þá kröfu uppi í því máli auk framangreindrar miska­bótakröfu að staðfest verði með dómi að ólögmæt  og ógild sé ákvörðun stefnda dóms­málaráðherra, sem hann tók með flutningsbréfi svokölluðu 5. júní 1998, um að flytja stefnanda út embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumanns á Hólmavík og stefnandi skuli taka aftur við sýslumannsembættinu á Akranesi.

Með úrskurði dómsins upp kveðnum 1. febrúar 1999 var málinu í heild sinni vísað frá dómi.  Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar Íslands sem með dómi upp kveðnum 25. mars 1999 vísaði viðurkenningarkröfum stefnanda frá dómi en að öðru leyti var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnis­með­ferðar.  Í dómi Hæstaréttar segir svo m.a.: "Telja verður síðari kröfu sókn­araðila á hendur varnaraðila reista á þeirri grunnröksemd, að framangreind ákvörðun dóms­mála­ráðherra um flutning hans í embætti hafi ekki verið skuld­bindandi og varði því bóta­skyldu.  Verður því ekki leyst úr miskabótakröfu sóknar­aðila án þess að taka af­stöðu til þessarar röksemdar.  Hins vegar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á, að hann hafi af því hagsmuni að lögum, að jafnframt þessu verði sér­stak­lega viðurkennt með dómi ólögmæti og ógildi þessarar ákvörðunar.  Ber því að vísa fyrri lið í fyrri kröfu sókn­araðila frá héraðsdómi. -  Með síðari hluta fyrri kröfu sókn­araðila krefst hann við­ur­kenningar á því að hann skuli taka aftur við starfi sýslu­manns á Akranesi.  Það er eigi á valdi dómstóla að ákveða hver skuli gegna em­bætti sýslumanns á Akranesi, sbr. meginreglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.  Er þessi kröfuliður sóknaraðila því ekki dómhæfur og ber að vísa honum frá héraðsdómi. - Með síðari kröfu sinni krefst sókn­araðili miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar dómsmálaráðherra og "áreitni, ærumeiðingum og tilræði, er henni tengjast".  Enda þótt þessi háttur á kröfu­gerð sóknaraðila sé ekki eins skýr og æski­legt væri, með því að það áreiti, þær æru­meið­ingar og það tilræði, sem sóknaraðili vísar til er ekki tilgreint með viðhlítandi hætti, þykir ekki alveg næg ástæða til þess að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá dómi af þeim sökum, enda verður af málatilbúnaði sóknar­aðila í heild ráðið að hann krefjist miskabóta vegna framangreindrar ákvörð­unar dómsmálaráðherra og þeirrar máls­meðferðar, sem lá henni til grundvallar.  -  Eins og áður greinir telur sókn­ar­aðili sig hafa orðið fyrir miska vegna ákvörðunar dóms­málaráðherra 5. júní 1998.  Njóta þeir hagsmunir, sem sóknaraðili vísar til í þessu sambandi, æra hans og per­sóna, ótvírætt verndar skaðabótareglna, sbr. 26. gr. skaða­bótalaga nr. 50/1993.  Sam­kvæmt langri dómvenju eru dómstólar til þess bærir að skera úr um bótaskyldu stjórn­valda vegna ólögmætra stjórnvaldsathafna og eftir atvikum vegna miska, sem þær kunna að hafa valdið.  Sú málsástæða varnaraðila að umrædd ákvörðun hafi aldrei komið til framkvæmda snýr að skilyrðum fyrir bóta­rétti sóknaraðila, sem fjalla ber um við efnislega úrlausn um kröfu hans."

Dómur féll í máli þessu 20. desember 1999 og var niðurstaðan sú að stefndu voru sýkn­aðir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu og var málskostnaður felldur niður.  Stefn­andi skaut málinu til Hæstaréttar Íslands með stefnu 25. apríl s.l. og með dómi rétt­arins upp kveðnum 19. október s.l. var héraðsdómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.  Í dómi Hæstaréttar segir svo meðal annars:  „Áfrýjandi fluttist ekki til Hólmavíkur heldur þáði boð dóms­mála­ráðuneytisins um að fara á eftirlaun.  Það breytir því þó ekki að kröfur hans eru reistar á áðurgreindri ákvörðun, enda telur hann sig vegna hennar hafa neyðst til að af­sala sér sýslumannsembættinu á Akranesi.  Í dómi Hæstaréttar kemur fram að grunn­röksemd áfrýjanda fyrir kröfum sínum er sú að framangreind ákvörðun dóms­mála­ráðherra hafi verið ólögmæt gagnvart sér.  Í greinargerð hér fyrir dómi reisir áfrýjandi kröfu sína á sömu málsástæðu.  Í héraðsdómi segir svo um þetta efni: „Eins og mál þetta er nú vaxið, eftir að því hafði með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. mars s.l. að hluta til verið vísað frá héraðsdómi, ber að taka afstöðu til þeirrar grunn­rök­semdar stefnanda að framangreind ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra frá 5. júní 1998 um flutning stefnanda í embætti hafi ekki verið skuldbindandi og varði því bótaskyldu.  Hins vegar verður ekki með vísan til Hæstaréttardómsins kveðið á um hugs­anlegt ólögmæti eða ógildi ákvörðunarinnar.“  Síðar segir:  „Eins og að framan var rakið var vísað frá dómi þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði með dómi að framan­greind ákvörðun hafi verið ólögmæt og ógild.  Af því leiðir að við úrlausn málsins, í því horfi sem það er nú, verður að byggja á því að ákvörðunin hafi verið lögmæt og gild.  Koma þá ekki til frekari skoðunar þau sjónarmið stefnanda er lúta að ólögmæti eða ógildi ákvörðunarinnar.“  Héraðsdómur hefur þannig ekki leyst úr því álitaefni sem áfrýjandi telur grunnröksemd fyrir bótakröfum sínum og Hæstiréttur taldi að leysa þyrfti úr við ákvörðun um bótarétt hans.  Héraðsdómur byggir úrlausn sína hins vegar á því að ákvörðunin hafi verið lögmæt og gild án þess að taka afstöðu til málsástæðunnar.  Vegna þessara annmarka á héraðsdómi verður ekki hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim til málflutnings og dómsálagningar að nýju.  Rétt er að á þessu stigi beri hvor aðili sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.“

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefnandi var með bréfi handhafa forsetavalds dagsettu 24. septem­ber 1985 skipaður sýslumaður á Akranesi.  Skipunin var ótímabundin og gilti frá 1. nóvember 1985.  Við gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og um­boðsvalds kaus stefnandi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna að vera áfram sýslu­maður á Akranesi frá og með 1. júlí 1992.

Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til stefnanda dagsettu 6. apríl 1998 var stefn­anda kynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að fyrirhugað væri að flytja stefnanda úr em­bætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumannsins á Hólmavík frá og með 1. júlí 1998.  Lagaheimild til slíkrar ákvörðunar var talin vera í 4. mgr. 20. gr. stjórn­ar­skrár­innar og taldi ráðuneytið unnt að flytja embættismann úr einu embætti í annað, enda missi hann einskis í af embættistekjum sínum og sé honum veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lög­mælt­um ellistyrk.  Einnig var vísað til 36. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins.  Í bréfinu var skýrt frá því að Ríkisstjórn Íslands hefði tekið þá ákvörðun að við flutning embættismanna úr einu embætti í annað standi viðkomandi em­bættismanni til boða að taka eftirlaun samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfs­manna ríkisins nr. 1/1997, sem svari því að embættismaðurinn hefði látið af störfum við 70 ára aldur.   Stefnanda var gefinn kostur á því að koma athugasemdum á fram­færi við ráðuneytið áður en ákvörðun yrði tekin og var honum veittur frestur til 20. apríl sama ár. 

Með bréfi dagsettu sama dag til ráðuneytisins benti stefnandi m.a. á að ekki hefði verið getið ákvörðunarástæðu flutningsins.  Þá lýsti stefnandi því yfir í lok bréfsins að hann myndi fara til Hólmavíkur ef ákvörðun yrði tekin um það, en jafnframt mótmæla henni sem löglausri og ógildri og áskildi hann sér rétt til að fá hana ógilta með dómi og sækja ráðherra fyrir dómstólum um skaðabætur úr ríkissjóði.

Með bréfi ráðuneytisins dagsettu 11. maí 1998 var fallist á að ekki hefði verið getið ákvörð­unarástæðu og var úr því bætt og gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar fyrirætlunum ráðuneytisins.  Í fyrsta lagi var fjárhagsvandi sýslu­manns­em­bættisins á Akranesi talinn mjög mikill.  Hafi verið óskað eftir því að stefnandi hag­aði rekstri embættisins á þann veg að á árinu 1997 tækist að minnka uppsafnaðan halla nokkuð.  Það ár hafi halli á embættinu hins vegar aukist um 7,1 milljón króna og næmi uppsafnaður halli á embættinu síðustu ár samtals 26,1 milljón króna.  Í ljósi þess að halli embættisins hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og nemi helmingi af rekstr­arvanda allra sýslumannsembætta í landinu, taldi ráðuneytið fullreynt að stefn­anda tækist að vinna bug á fjárhagsvanda embættisins.  Í öðru lagi var vikið að em­bætt­isfærslu stefnanda vegna innheimtu á dómsekt og álögðum opinberum gjöldum Þórðar Þórðarsonar á Akranesi. Hefði fjármálaráðuneytið tekið þá ákvörðun að taka innheimtuna úr höndum stefnanda í fyrsta lagi vegna fyrri afskipta hans af málinu og í öðru lagi sökum þess að ekki væri útilokað að við meðferð þess þyrfti að taka afstöðu til em­bætt­isfærslna stefnanda.  Stefnanda var veittur andmælafrestur til 25. maí 1998.

Með bréfi stefnanda til ráðuneytisins dagsettu 25. maí 1998 mótmælti hann sjón­ar­mið­um ráðuneytisins og taldi fráleitt að ráðherra geti að eigin geðþótta stjakað for­seta­skip­uðum sýslumanni yfir landið þvert og endilangt.

Með flutningsbréfi dómsmálaráðherra dagsettu 5. júní 1998 var tekin sú ákvörðun með vísan til 36. gr. laga nr. 70/1996 að fela stefnanda að gegna embætti sýslumanns á Hólma­vík frá 1. júlí 1998.  Með flutningsbréfinu fylgdi bréf þar sem gerð var nánari grein fyrir afstöðu ráðuneytisins.   Kemur þar m.a. fram að ráðuneytið teldi ekkert hafa komið fram í andmælum stefnanda sem hnekkti þeirri skoðun þess að á síðustu árum hefði hann ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til þess að draga úr rekstrarvanda embættisins.  Eftir gildistöku laga nr. 70/1996 væri ótvírætt að forstöðumaður stofnunar bæri ábyrgð á því að rekstrarafkoma stofnunarinnar væri í sam­ræmi við fjárlög og í því fælist að sjálfsögðu skylda hans til að koma með til­lögur, annað hvort til lækkunar útgjalda stofnunarinnar eða óska eftir hækkun fjár­veit­inga.  Stefnandi hefði hins vegar engar slíkar tillögur gert til úrbóta á rekstr­ar­vanda em­bætt­is­ins og ítrekuð var sú skoðun ráðuneytisins að stefnandi hefði ekki haft þá stjórn og yfirsýn yfir rekstur embættisins sem forstöðumanni stofnunar væri skylt og nauðsynlegt að hafa.  Þá lýsti ráðuneytið þeirri skoðun sinn að þar sem stefnandi greip ekki til innheimtuaðgerða vegna opinberra gjalda í máli Þórðar Þórðar­sonar, sem námu samtals rúmlega 142 milljónum króna, hafi hagsmunir ríkissjóðs verið bornir fyrir borð. 

Þar sem ráðuneytið taldi ekki fullreynt að stefnandi gæti stjórnað embætti þar sem minni fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi, var talið rétt og skylt í ljósi meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að gefa stefnanda kost á að takast á við rekstur minna embættis.  Sama dag var gefið út flutningsbréf fyrir Ólaf Þór Hauksson, sýslumann á Hólmavík, þar sem honum var falið að gegna embætti sýslu­manns á Akranesi frá sama tíma.

Stefnandi  mun um miðjan júnímánuð hafa haft símasamband við ráðu­neyt­is­stjór­ann í dóms­mála­ráðuneytinu og spurt hvort hann ætti þess kost að hætta við að taka við embætti sýslu­manns á Hólmavík og þiggja í þess stað fyrrgreind eftirlaun, án þess að hann fyrir­gerði með þeim hætti rétti til málshöfðunar.  Ráðuneytisstjórinn er sagður hafa svarað þessu játandi, enda hafi ráðuneytið ekkert ákvörðunarvald um mögu­leika stefn­anda á því að höfða mál.  Við embættisathugun á sýslu­manns­em­bætt­inu á Akranesi 19. júní 1998 var stefnanda greint frá því að allt fram til 1. júlí 1998 væri ráðuneytið til­búið til að falla frá því að flytja hann í embætti sýslumanns á Hólma­vík og honum stæði þá til boða lausn frá embætti sýslumanns á Akranesi með lög­mæltum eft­ir­laun­um.  Stefnandi mun hafa haft samband við skrifstofustjóra í ráðu­neytinu 24. júní 1998 og lýst því yfir að hann hefði ákveðið að þiggja eftirlaun í sam­ræmi við fyrri samtöl sín við ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra og færi hann því ekki til Hólmavíkur.  Ráðu­neytinu barst síðan svohljóðandi bréf frá stefnanda daginn eftir:  “Vísað er til sím­tals, sem ég átti við Björgu Thorarensen skrifstofustjóra í gær og við Þorstein Geirs­son fyrir nokkrum dögum.  Staðfest er hér með, að viðbrögð mín við svokölluðu flutn­ingsbréfi dómsmálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, dags. 5. júní sl. –óundirrituðu af forseta lýðveldisins- verða þau að taka ekki við starfi sýslumanns á Hólmavík 1. júlí nk.  Ég hefi af því tilefni fengið útgefnar í Héraðsdómi Reykjavíkur tvær stefnur á hendur dómsmálaráðherra vegna athafna hans gagnvart mér, sem vænt­anlega verða birtar honum í dag, en þriðja stefnan mun bíða fram yfir réttarhlé.  Sum­arfrí hef ég ekki tekið síðastliðin tvö orlofsár og tel mig eiga þau inni.  Bið ég yður að tilkynna launa­skrifstofu Fjármálaráðuneytis um, að ég muni ekki taka við starfi sýslumanns á Hólma­vík 1. júlí nk., og jafnframt um inneign mína í ríkissjóði vegna ótekinna sum­ar­leyfa.”

Með bréfi dagsettu 29. júní 1998 var stefnanda tilkynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að fallið væri frá flutningi stefnanda í embætti sýslumanns á Hólmavík og að honum yrðu frá 1. júlí 1998 greidd eftirlaun í samræmi við þau kjör sem lýst hefur verið hér að framan.  Samhliða var stefnanda veitt lausn frá embætti sýslumanns á Akranesi frá og með 1. júlí 1998.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi gerir grein fyrir málsástæðum og lagarökum sínum í 11  liðum í stefnu í hinu fyrra máli.

Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stjórnarskráin veiti stefnanda vernd fyrir ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra um flutning í annað embætti.  Forsetaskipaða em­bættismenn megi ekki flytja úr einu embætti í annað nema forseti lýðveldisins und­ir­riti flutningsbréfið, sbr. 1. og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar.  Þessi ákvörðun hafi ekki verið borin undir forseta, sbr. 18. gr. stjórnarskrárinnar og samkvæmt 19. gr. henn­ar veiti undirskrift forseta undir löggjafarmál og stjórnarerindi þeim gildi er ráð­herra ritar undir með honum.  Dómsmálaráðherra hafi virt þetta stjórnarskrárákvæði að vettugi.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að með ákvörðuninni hafi meginstafir rétt­ar­örygg­is verið virtir að vettugi og stjórnskipan ríkisins unnið stórtjón.  Sýslumenn séu sak­sóknarar hver í sínu umdæmi og geti ráðherra ekki flutt sýslumenn í annað um­dæmi að geðþótta sínum án þess að stofna réttaröryggi í tvísýnu.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra sé vanhæfur til að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir gagnvart stefnanda vegna opinbers fjandskapar við sig, sbr. 1. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að rannsóknarreglu 11. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt.  Þar eð flutningurinn sé í reynd frávikning úr starfi verði að fá rann­sókn málsins í hendur þeirrar nefndar sérfróðra manna sem getið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 70/1996. 

Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að andmælaréttur hans samkvæmt 13. gr. stjórn­sýslulaga hafi verið virtur að vettugi.  Ljóst hafi verið af fréttum útvarps og sjón­varps 18. apríl 1998 að stefndi dómsmálaráðherra hafði þá þegar verið búinn að taka ákvörðun um flutninginn.  Jafnframt hafi verið haft eftir ráðherra í dagblaði að ákvörð­uninni, sem tekin hafi verið um sýslumannsskiptin, verði ekki breytt.

Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að með ákvörðun um flutning hafi ráðherra gerst sekur um misbeitingu valds og valdníðslu.  Ákvörðunin sé ekki studd við mál­efna­legar forsendur og til að víkja frá því jafnræði, sem sýslumenn almennt njóta í störf­um sínum og beita þannig mismunun, þurfi sérstakar ástæður, sbr. 11. gr. stjórn­sýslu­laga.  Þær ástæður sem ráðherra nefni í bréfi sínu 11. maí 1998 séu tylliástæður sem bornar hafi verið fram eftir að raunveruleg geðþóttaákvörðun hafði verið tekin.  Stefn­andi telur fjárhagsvanda embættisins vera afleiðingu athafna ráðherra sem hafi haft ákvörðunarvald um tekjur og útgjöld embættisins.  Stefnandi hafi aðeins haft til­lögu­rétt en ráðherra hafi ávallt virt tillögur stefnanda að vettugi.  Þá hafi meðferð stefn­anda á ÞÞÞ-máli verið á valdsviði hans og lögum samkvæmt, sbr. m.a. 2.-4. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga.

Í sjöunda lagi telur stefnandi sér mismunað gagnvart Ólafi Þ. Haukssyni með þeirri ákvörðun ráðherra að flytja hann í embætti sýslumanns á Hólmavík, sbr. jafn­ræð­isreglu 11. gr. stjórnsýslulaga.  Ferill stefnanda sé margfalt fjölbreyttari og glæsi­legri.

Í áttunda lagi byggir stefnandi á því að engin málefnaleg þörf hafi verið á því að flytja stefnanda í annað embætti.  Ákvörðunin sé íþyngjandi stjórnsýslugerningur og því ólögmæt og ógild, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. 

Í níunda lagi byggir stefnandi á því að skipun stefnanda í embætti sýslumanns á Akra­nesi hafi verið staðbundin og flutningur í embætti sýslumanns á Hólmavík því í reynd frávikning úr starfi sýslumanns á Akranesi.  Um hafi verið að ræða afturköllun á skip­un stefnanda í Akranesembættið, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga og sú afturköllun sé frá­vikning úr starfi, sbr. 29. gr. laga nr. 70/1996.  Afturköllun geti ekki gerst löglega sökum þess að hún hafi valdið stefnanda miska/tjóni og engar málefnalegar ástæður hafi verið fyrir hendi.  Þar sem um frávikningu var að ræða geti hún ekki átt sér stað nema gætt sé málsmeðferðar þeirrar sem kveðið er á um í 27.-29. gr. laga nr. 70/1996. 

Í tíunda lagi byggir stefnandi á því að ástæður þær sem stefndi dómsmálaráðherra bar fyrir ákvörðun sinni hafi verið rangfærslur, rangar sakargiftir og ærumeiðingar.  Sé um að ræða brot gegn 148. gr almennra hegningarlaga.

Í ellefta lagi rökstyður stefnandi miskabótakröfu sína með þeim hætti, að ákvörðunin og yfirlýsingar á opinberum vettvangi hafi verið stórlega ærumeiðandi og til þess fallnar að eyðileggja mannorð og starfsheiður stefnanda.  Starfsheiður og mann­orð sé það sem litið sé til þegar lagður er dómur á hæfni lögfræðinga.  Stefnandi hafi lagt mikið á sig, m.a. með frækilegum námsárangri, til að byggja upp starfsheiður sinn og álit sem lögfræðings.  Tjón hans vegna tilræðis dómsmálaráðherra sé af þeim sökum meira en almennt gerist.  Skaðaverk ráðherra lýsi sér vel í þeirri yfirlýsingu hans að minna og auðveldara embætti hæfi stefnanda betur en sýslumannsembættið á Akranesi

Órökstuddar yfir­lýs­ingar stefnda dómsmálaráðherra um að stefnandi sé óhæfur til að gegna embætti sýslu­manns á Akranesi hafi verið margendurteknar í fjölmiðlum.  Fram­ferði ráðherra varði við 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga og 26. gr. skaða­bótalaga.

Í hinu nýja máli gerir stefnandi einnig grein fyrir málsástæðum sínum og laga­rök­um í 11 liðum og þrátt fyrir að málsástæður séu í meginatriðum þær sömu og í fyrra málinu þykir rétt að rekja þær í stórum dráttum.

Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að ákvörðun dómsmálaráðherra í svokölluðu flutn­ingsbréfi hafi verið þríþætt.  Hún hafi annars vegar falið í sér að stefnandi var sviptur sýslumannsembætti á Akranesi og hins vegar flutning hans í embætti sýslu­manns á Hólmavík og í þriðja lagi lausn að fullu ef hann sætti sig ekki við þá ákvörðun.  Þessi ákvörðun hafi orðið að fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru í VI. kafla laga nr. 70/1996, en þar sem hún gerði það ekki var hún ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.

Í öðru lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn 18.-20. gr. stjórnarskrárinnar með ákvörðun sinni þar sem forseti Íslands hafi ekki undirritað flutn­ingsbréfið með honum.  Sé ákvörðunin því ólögmæt og saknæm gagnvart stefn­anda.

Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að í ákvörðun dómsmálaráðherra hafi falist svo­kölluð  „þögul“ brottvikning stefnanda úr embætti, en um slíka brottvikningu skuli fara eftir ákvæðum VI. kafla laga nr. 70/1996.  Það hafi ekki verið gert og ákvörð­unin því ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.  Þá byggir stefnandi á því að ákvörð­unin hafi verið tekin í refsingarskyni eins og fram komi í flutningsbréfinu.

Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi verið vanhæfur til að taka ákvörðun um að svipta stefnanda sýslumannsembættinu á Akranesi, þar sem hann hafi lengi staðið í stríði við stefnanda og haft í frammi ærumeiðingar á hendur honum á opinberum vettvangi.

Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi virt rann­sókn­ar­reglu 11. gr. (svo) stjórnsýslulaga að vettugi og því hafi ákvörðunin verið ólögmæt og sak­næm gagnvart stefnanda.

Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi í reynd virt að vett­ugi andmælarétt stefnanda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, en komið hafi fram á fundi með fréttamönnum 18. maí 1998 að fullnaðarákvörðun hefði þegar verið tekin og henni yrði ekki haggað.  Forsendur andmælaréttar séu þær að ekki sé í raun búið að taka þá ákvörðun sem hlutaðeigandi sé gefinn kostur á að andmæla.

Í sjöunda lagi byggir stefnandi á því að í ákvörðuninni hafi falist misbeiting valds sökum þess að hún var ekki studd við málefnalegar forsendur, sbr. 11. gr. stjórn­sýslu­laga.  Hún hafi því verið ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.  Mál dómsmála­ráð­herra á hendur stefnanda vegna mætinga hans á sýsluskrifstofuna á Akranesi hafi verið fellt niður veturinn 1994-95 og því var ekki hægt að nota það sem ástæðu ákvörð­un­ar­innar, enda hafi það ekki verið gert.  Dómsmálaráðherra hafði refsað stefnanda vegna meðferðar hans á máli Þórðar Þórðarsonar með áminningarbréfi 2. mars 1998 og því gat hann ekki refsað honum fyrir sama brot með því að svipta hann sýslu­manns­embætti.  Það hafi hann þó gert samkvæmt þeim rökstuðningi sem fylgdi ákvörð­uninni.  Þá byggir stefnandi á því að fjárhagsvandi sýslumannsembættisins á Akra­nesi hafi verið bein afleiðing athafna dómsmálaráðherra.  Sú ákvörðun að ákveða stefn­anda refsingu með vísan til þessa vanda hafi falið í sér rangar sakargiftir, sbr. 148. gr. almennra hegningarlaga.  Stefnandi byggir á því að hann hafi árum saman eða þegar vorið 1993 bent á það fjársvelti og þá mismunun sem embættið hefði mátt þola.  Stefnandi hafi þá bent á að embætti sýslumanns á Ísafirði  hljóti samkvæmt fjárlögum 1993 17-18 milljónum króna meira, enda þótt þar séu um 60 færri íbúar og Vest­manna­eyjaembættið fái 6-7 milljónum króna meira þrátt fyrir að íbúar séu um 400 færri en á Akranesi.  Dómsmálaráðuneytið hafi staðhæft að stefnandi hafi ekki beðið um auknar fjárveitingar og þá hafi tillögum hans um ráðstafanir til sparnaðar verið hafn­að.  Þá byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi virt með­al­hófs­reglu 12. gr. stjórnsýslulaga að vettugi og hafi ákvörðunin því verið ólögmæt og sak­næm gagn­vart stefnanda.

Í áttunda lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi komið ólöglega í veg fyrir að stefnandi gæti fengið aftur sýslumannsembættið á Akranesi með því að virða að vettugi ákvæði 27.-29. gr. laga nr. 70/1996, þess efnis að nefnd sérfróðra manna skyldi fjalla um mál stefnanda, sbr. 2. mgr. 32. gr. laganna.  Þessi verknaður hafi verið ólögmætur og saknæmur gagnvart stefnanda.

Í níunda lagi byggir stefnandi á því að stefnanda hafi verið mismunað gagnvart Ólafi Þ. Haukssyni með ákvörðuninni, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga.  Ferill stefnanda sé marg­falt fjölbreyttari og glæsilegri og sé ákvörðunin því ólögmæt og saknæm gagn­vart stefnanda.

Í tíunda lagi byggir stefnandi á því að hann hafi verið beittur nauðung þegar honum gegn vilja sínum var veitt lausn frá sýslumannsembætti á Akranesi.  Við þær að­stæður varð ekki litið svo á að hann hefði með frjálsum og lögmætum viljagerningi af­salað sér embættinu.  Ákvörðun dómsmálaráðherra um að svipta hann embættinu hafi því verið ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.

Í ellefta lagi byggir stefnandi á því að ákvörðun dómsmálaráðherra um að svipta hann embættinu hafi verið lokaþáttur margra ára ólöglegrar aðfarar á hendur stefnanda sem hafi lýst sér í ærumeiðingum, röngum sakargiftum og margvíslegum lögbrotum gagnvart stefnanda.  Stefnandi vísar til 148. gr., 234. gr. og  235. gr. almennra hegn­ing­arlaga.  Þá segir stefnandi dómsmálaráðherra hafa brotið reglur um launagreiðslur við sýslumannsembættið með því að greiða launakröfu Kristrúnar Kristinsdóttur full­trúa fyrir tveggja ára tímabil, en sú krafa hafi aldrei verið sett fram við yfirmann hennar, stefnanda málsins.

Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorláks­sonar, tryggingafræðings, dagsettum 18. maí 1999.  Samkvæmt útreikningi hans reiknist höf­uðstólsverðmæti tekjutapsins miðað við 1. október 1998 til 70 ára aldurs   24.015.000 krónur og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda er áætlað 6% af höf­uð­stóls­verð­mæti reiknaðs taps eða  1.441.000 krónur.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja dómkröfur sínar í hinu fyrra máli á eftirfarandi málsástæðum:

Stefnandi hafi við gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað umboðsvalds og dóms­valds í héraði kosið að vera sýslumaður á Akranesi í stað þess að taka við em­bætti héraðsdómara, þar sem hann hefði áfram notið þeirrar verndar, sem dómendur njóta samkvæmt stjórnarskránni.  Eftir lagabreytinguna hafi stefnandi engin dómstörf haft með höndum og því engin rök til þess að hann njóti þeirrar verndar sem 61. gr. stjórn­arskrárinnar veitir dómendum.

Stefndu byggja á því að skömmu eftir gildistöku laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi komið upp álitaefni um hvernig skýra bæri lögin með hlið­sjón af ákvæðum 20. gr. stjórnarskrárinnar, þegar veita ætti forsetaskipuðum  em­bætt­ismanni lausn frá embætti.  Hafi verið óskað álits forsætisráðuneytisins á því hvort forseti Íslands yrði að veita þeim embættismanni lausn, sem hann hefði skipað án tillits til þess að ráðherra færi með veitingarvald að gildandi lögum.  Ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að þegar virt væri 1. mgr. 31. gr. laga nr. 70/1996 með hliðsjón af 1. mgr. 5. gr. laganna væri ljóst að leggja bæri núgildandi lög til grund­vallar þegar leyst væri úr því hvaða stjórnvald veitti lausn frá embætti.   Af því leiddi að sömu lögum yrði ekki beitt við lausn frá embætti og giltu við skipun í það, nema þau væru enn í gildi, þegar ákvörðun um lausn væri tekin.  Stefndu segjast byggja á þessari lagatúlkun og byggja jafnframt á því að flutningur á milli embætta eða lausn frá embætti  með lögmæltum eftirlaunum á grundvelli 4. mgr. 20. gr. stjórnar­skrár­innar hljóti að lúta sömu rökum.

Stefndu hafna því að ráðuneytið hafi haft einhver afskipti af störfum eða ákvörð­unum stefnanda sem ákæranda.  Staða hans sem ákæranda geti þó ekki hindrað að ráðu­neytið neyti heimildar 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar þegar ríkar málefnalegar ástæður liggja því til grundvallar.

Stefndu hafna því að rannsóknarregla og andmælaréttur stjórnsýslulaga hafi verið virt að vettugi og benda á að rekstrarvandi sýslumannsembættisins á Akranesi hafi verið langmesti uppsafnaði vandi eins embættis á öllu landinu.  Stefnandi hafi engar raun­hæfar tillögur lagt fram til úrbóta, en vandinn hafi aukist á undanförnum árum, sér­staklega á árinu 1997.

Stefndu benda á hvað varðar þá forsendu dómsmálaráðuneytisins að innheimta stefnanda á opinberum gjöldum Þórðar Þórðarsonar styðji þá skoðun að stefnandi valdi ekki embættinu og stofni hagsmunum ríkissjóðs í hættu að stefnandi hafi ekki gripið til innheimtuaðgerða meðan skuldarinn ráðstafaði stærstum hluta eigna sinna til ná­kominna.  Fjármálaráðuneytið hafi síðan ákveðið 18. febrúar 1998 að taka inn­heimtu opinberra gjalda í máli þessu úr höndum stefnanda og fela það öðrum.  Stefndu byggja á því að málið hafi verið nægjanlega upplýst í skilningi 10. gr. stjórn­sýslu­laganna til þess að rétt væri að kynna stefnanda fyrirætlanir um að flytja hann í minna embætti.  Andmæli stefnanda hafi ekki leitt neitt nýtt í ljós sem væri til þess fallið að breyta þeim fyrirætlunum.  Þá sé ljóst að engin niðurstaða um flutning hafi legið fyrir fyrr en með rökstuddri ákvörðun í bréfi til stefnanda 5. júní 1998 en þá hafði stefnandi þegar komið að öllum andmælum sínum og tekin hafði verið afstaða til þeirra.

Stefndu byggja á því að þær forsendur sem lágu að baki ákvörðuninni hafi verið málefnalegar og lögmætar.  Grípa hafi þurft til aðgerða til að rétta af alvarlegan fjár­hags­vanda embættisins og virtist viðhorf stefnanda vera það að honum væru fjármál em­bættisins óviðkomandi.  Þá hafi meðferð stefnanda á innheimtu opinberra gjalda Þórðar Þórðarsonar veitt skýra vísbendingu um að hagsmunum ríkissjóðs væri ekki nægilega borgið í höndum stefnanda  og þótti ekki annað tækt en að fela öðrum inn­heimtu­manni að gæta hagsmuna ríkissjóðs í því máli.  Með sama hætti hafi ekki þótt annað tækt en að fela öðrum en stefnanda að takast á við rekstrarvanda embættisins á Akranesi.

Stefndu byggja á því að í stað þess að beita þeim agaviðurlögum sem mögulega hefði verið unnt að beita stefnanda, þar með talið lausn frá embætti, hafi sú leið verið valin að gefa stefnanda kost á að halda embætti sýslumanns en fela honum hins vegar stjórn minna embættis.  Ekki var fullreynt hvort stefnandi gæti fengist við minna em­bætti, en hann héldi þó óbreyttum embættistekjum sínum.  Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996 sé stjórnvaldi, sem skipað hefur mann í embætti, veitt heimild til að flytja hann úr einu embætti í annað, enda heyri embættin undir það.  Þetta ákvæði sé byggt á 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar.  Sá möguleiki að flytja embættismenn til í störfum sé í samræmi við það sjónarmið sem lögin byggja á að æskilegt sé að auka til­færslu á fólki í störfum, t.d. í hagræðingarskyni.  Slíkur sveigjanleiki gagnvart em­bætt­ismönnum hljóti að vera æskilegur áður en beitt er harkalegri aðgerðum svo sem aga­viðurlögum.

Stefndu byggja á því að skilyrði 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið upp­fyllt að öllu leyti.  Stefnandi hafi haft raunhæft val um hvort hann tæki við  hinu nýja em­bætti eða færi á eftirlaun.  Hafi eftirlaunin verið reiknuð út með allra hagstæðasta móti fyrir stefnanda í samræmi við ákvæði laga nr. 1/1997.  Stefnandi hafi í fyrstu ákveðið að taka við hinu nýja em­bætti en síðar tekið þá ákvörðun að fara á eftirlaun.

Stefndu byggja á því að stefnandi hafi í greinargerð til dómsmálaráðuneytisins í febrúar 1998 um afskipti embættis hans af máli Þórðar Þórðarsonar haldið því fram að stefnandi hafi gert samkomulag við Helga V. Jónsson, hrl., um greiðslu á sekt Þórðar, en ljóslega komi fram í samkomulaginu að það var gert við Þórð en ekki lögmann hans.  Undirritun lögmannsins sé síðar til komin og feli ekki í sér beina aðild hans að sam­komulaginu.  Sú háttsemi stefnanda að skýra dómsmálaráðuneytinu rangt frá aðild lögmannsins að samkomulaginu og leyna því að stefnandi gerði samkomulagið við Þórð hafi verið meðvirkandi þáttur í þeirri ákvörðun ráðuneytisins að veita stefn­anda áminningu vegna meðferðar hans á innheimtumálum gagnvart Þórði Þórðarsyni og telja hann vanhæfan til að gegna embættinu.  Í stað þess að beita frekari aga­við­ur­lög­um reyndi ráðuneytið að fara vægari leið og flytja stefnanda í umsvifaminna em­bætti án þess að hann missti neins í af embættislaunum sínum, en gefa honum ella kost á eftirlaunum.

Í greinargerð sinni í hinu yngra máli lýsa stefndu því yfir að þegar hafi verið tekin af­staða til málsástæðna stefnanda og er í því sambandi vísað til greinargerðar í hinu eldra máli.  Vegna kröfu stefnanda um bætur fyrir fjárhagslegt tjón er þó áréttað að ákvörðun dómsmálaráðherra um flutning hafi verið byggð á 4. mgr. 20. gr. stjórn­ar­skrár­innar og 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.  Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar hefðu stefnanda verið tryggð sömu laun og hann hafði sem sýslu­maður á Akranesi, ef hann hefði flust í embætti sýslumanns á Hólmavík eins og hon­um stóð til boða.  Stefnandi hefði hins vegar valið þann kost, sem kveðið er á um í 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar, að fá lausn frá embætti með lögmæltum eftir­laun­um.  Eftir þessa ákvörðun gat stefnandi að sjálfsögðu ekki lengur átt tilkall til fullra launa og byggja stefndu á því að þar með sé grundvöllur bótakröfu hans fyrir fjár­hags­legu tjóni brostinn.

Stefndu rökstyðja varakröfu sína um lækkun stefnufjárhæðar á því að stefnandi fái til 70 ára aldurs mánaðarlegar greiðslur frá ríkinu án vinnuframlags af hans hálfu.  Nemi greiðslur þessar rúmlega 192.000 krónum á mánuði í stað embættislauna sem námu tæplega 470.000 krónum á mánuði.  Stefnandi stundi nú lögmannsstörf og sé ljóst að draga verði tekjur af þeim störfum frá þeirri fjárhæð sem hann krefst vegna tapaðra vinnulauna.  Stefndu benda á að bótakrafan sé gerð án þess að tekið sé tillit til skatta og þá er upphafstíma dráttarvaxtakröfu mótmælt sérstaklega.

Forsendur og niðurstaða.

Eins og mál þetta er nú vaxið, eftir að því hafði með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. mars 1999 að hluta til verið vísað frá héraðsdómi, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 19. október s.l., ber að taka afstöðu til þeirrar grunn­röksemdar stefnanda að fram­an­greind ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra frá 5. júní 1998 um flutning stefnanda í em­bætti hafi ekki verið skuldbindandi og varði því bótaskyldu.  Hins vegar verður ekki með vísan til Hæstaréttardómsins kveðið á um hugs­anlegt ólögmæti eða ógildi ákvörð­unarinnar.  Stefnandi krefst annars vegar bóta fyrir hið fjárhagslega tjón er hann telur ákvörðunina hafa valdið sér og hins vegar miska­bóta vegna ákvörð­un­ar­innar og þeirrar málsmeðferðar sem lá henni til grund­vallar.

Með svonefndu flutningsbréfi stefnda dómsmálaráðherra dagsettu 5. júní 1998 var stefnanda falið að gegna embætti sýslumannsins á Hólmavík frá 1. júlí 1998 og er vísað til 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996.  Upplýst hefur verið að atbeina forseta Íslands var ekki leitað vegna þessarar ákvörðunar.  Með flutn­ingsbréfinu fylgdi ítarlegur rökstuðningur ráðuneytisins fyrir ákvörðuninni og í lok bréfsins er hún sögð tekin með vísan til 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og 36. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Þá er ljóst af gögnum máls­ins að stefnanda var gefinn kostur á að koma að andmælum sínum vegna fyrirhugaðs flutnings.

Ljóst er að forseti Íslands skipaði stefnanda á sínum tíma í embætti sitt í samræmi við þágildandi löggjöf.  Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 70/1996 fer eftir ákvæðum laga hvaða stjórnvald veitir starf.   Í samræmi við það er nú svo fyrir mælt í 5. gr. laga nr. 92/1989, sbr. 27. gr. laga nr. 83/1997, að ráðherra skipi sýslumenn til fimm ára í senn.  Þá eru ákvæði um það í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 70/1996 að stjórnvald er skipar mann í embætti veiti og lausn frá því, nema öðruvísi sé sérstaklega fyrir mælt í lögum.   Samkvæmt 36. gr. laga nr. 70/1996 getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það.  Þetta laga­ákvæði er byggt á 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að forseti lýð­veld­is­ins geti flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af em­bætt­istekjum sínum og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.

Stefnandi byggir á því að forsetaskipaða em­bættismenn megi ekki flytja úr einu embætti í annað nema forseti lýðveldisins und­ir­riti flutningsbréfið, sbr. 1. og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar.  Á þetta verður ekki fallist.  Stefnandi var á sínum tíma skip­aður í embætti bæjarfógeta af forseta Íslands, enda fóru bæjarfógetar þá með dóms­vald og nutu stjórnarskrárverndar sem slíkir.  Við gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði kaus stefnandi að taka við embætti sýslu­manns á Akranesi í stað þess að taka við embætti héraðsdómara eins og honum stóð til boða í krafti áðurgreindra laga.  Eins og að framan var rakið skipar ráðherra sýslu­menn til fimm ára í senn, en samkvæmt 1. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar veitir forseti þau embætti, er lög mæla.  Eru engin rök til annars en að ráðherra sé jafnframt bær til þess að taka ákvörðun um flutning embættismanna á grundvelli 4. mgr. 20. gr. stjórn­arskrárinnar, hvað sem líður forsetaskipun þeirra.  Standa því ekki rök til þess að ráðherra hafi þurft að leita atbeina forseta þegar tekin var ákvörðun um flutning stefn­anda úr einu embætti í annað, þegar svo háttar að gildandi lög mæla svo fyrir að veit­ingarvaldið sé í höndum ráðherra.  Verður bótaréttur stefnanda því ekki byggður á þessari málsástæðu.

Samkvæmt 36. gr. laga nr. 70/1996 getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í em­bætti, flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það.  Í at­huga­semdum með lagafrumvarpi um þessa lagagrein segir að ákvæðið sé byggt á 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar, sem veiti forseta Íslands, eða í raun réttri hlutaðeigandi ráð­herra, heimild til að flytja mann úr einu embætti í annað.  Segir jafnframt að sá mögu­leiki að flytja embættismenn þannig til í störfum sé í samræmi við það sjón­ar­mið að æskilegt sé að auka tilfærslu á fólki í störfum, ekki aðeins á milli ríkisins og ann­arra aðila, svo sem sveitarfélaga og einkaaðila, heldur einnig innbyrðis í ríkis­kerfinu.

 Samkvæmt framansögðu er því ljóst að ráðherra var til þess bær að taka ákvörð­un um flutning stefnanda úr embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumanns á Hólma­vík.  Slík ákvörðun verður hins vegar að byggjast á málefnalegum forsendum og uppfylla skilyrði stjórnsýslulaga um allan undirbúning og málsmeðferð. Þá ber að gæta þess að embættismaður, sem sæta skal flutningi, eigi í reynd kost á að kjósa um em­bættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum, sbr. fyrirmæli 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar.  Ekki hefur verið sýnt fram á að sýslumenn séu und­an­þegnir þessum ákvæðum og ber því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að ráð­herra geti ekki hróflað við réttarstöðu sýslumanna sakir almenns réttaröryggis.

Samkvæmt framansögðu er það því niðurstaða dómsins að stefnanda hafi verið skylt að hlíta ákvörðun ráðherra um flutning í annað embætti með vísan til 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og 36. gr. laga nr. 70/1996, enda verður ekki annað séð en hún hafi verið byggð á málefnalegum forsendum.

Stefnandi byggir á þeirri málsástæðu að honum hafi í reynd verið vikið úr starfi.  Beri því að gæta þeirrar málsmeðferðar sem kveðið sé á um í 27.-29. gr. laga nr. 70/1996.  Á þetta verður ekki fallist.  Enda þótt stefnanda hafi þótt þungbært að sæta því að flytja um set milli landshluta, eins og ráðgert var, verður ekki talið að slíkri ákvörðun um flutning verði jafnað til lausnar frá embætti.  Stefnandi átti kost á öðru em­bætti með sömu launakjörum og áður.  Eiga því ekki við framangreindar laga­reglur um rannsókn nefndar sérfróðra manna á ætluðum misfellum embættismanns í starfi.  Verður þessari málsástæðu stefnanda því hafnað.

Ljóst er að stefnandi stóð frammi fyrir tveimur kostum áður en endanleg ákvörð­un um flutning var tekin.  Hann gat tekið við embætti sýslumanns á Hólmavík og haldið þar óbreyttum kjörum eða fengið lausn frá embætti með lögmæltum eftir­laun­um.  Óumdeilt er í máli þessu að viðbrögð stefnanda urðu þau að taka ekki við em­bætti sýslumanns á Hólmavík en þiggja þess í stað þau eftirlaunakjör sem rakin hafa verið hér að framan.   Með hliðsjón af þessum viðbrögðum stefnanda féll ráðu­neytið frá þeirri ákvörðun sinni að flytja stefnanda í embætti sýslumanns á Hólma­vík. 

Krafa stefnanda um bætur fyrir fjárhagslegt tjón er á því byggð að hann hafi orðið af embættislaunum frá 1. október 1998 til 70 ára aldurs 2. mars 2009.   Þegar litið er til þess að umrædd ákvörðun, sem samkvæmt framansögðu var tekin lögum sam­kvæmt, kom aldrei til framkvæmda vegna sérstakra óska stefnanda um aðrar mála­lyktir verður að telja að stefnandi hafi firrt sig rétti til bóta að þessu leyti.

Krafa stefnanda um miskabætur er á því byggð að í ákvörðuninni og þeirri máls­með­ferð er lá henni til grundvallar hafi falist áreitni, ærumeiðingar og tilræði.  Stefn­andi byggir á því að yfirlýsingar ráðherra og starfsmanna ráðuneytisins á opinberum vett­vangi hafi verið stórlega ærumeiðandi og til þess fallnar að eyðileggja mannorð og starfsheiður stefnanda.  Stefnandi tekur sem dæmi um slíka yfirlýsingu þá full­yrð­ingu dómsmálaráðherra að minna og auðveldara embætti  hæfi stefnanda betur en sýslu­mannsembættið á Akranesi.  Þá hafi órökstuddar yfirlýsingar ráðherra um að stefn­andi sé óhæfur til að gegna embættinu verið margendurteknar í fjölmiðlum.

Samkvæmt rökstuðningi dómsmálaráðuneytisins fyrir þeirri ákvörðun að flytja stefn­anda í embætti sýslumanns á Hólmavík var annars vegar á því byggt að rekstr­ar­vandi sýslumannsembættisins á Akranesi væri mesti uppsafnaði vandi eins sýslu­manns­embættis á öllu landinu og að stefnandi hafi ekki gripið til nauðsynlegra að­gerða til þess að draga úr vandanum.  Hins vegar var á því byggt að stefnandi hafi borið hagsmuni ríkissjóðs fyrir borð við innheimtu á dómsekt og álögðum opinberum gjöldum Þórðar Þórðarsonar.  Leiddi meðferð stefnanda á því máli til þess að honum var veitt áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996.  Telja verður að starfsmönnum ráðuneytisins hafi verið bæði rétt og skylt að skýra nánar á opinberum vettvangi þær ástæður er lágu að baki um­ræddri flutningsákvörðun.  Verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að við þessa umfjöllun hafi verið gengið lengra en efni stóðu til.

Stefnandi byggir á því að dómsmálaráðherra hafi verið vanhæfur til að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun um málefni stefnanda vegna opinbers fjandskapar við sig, sbr. 1. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga.  Að mati dómsins hefur ekkert komið fram sem styður þessa fullyrðingu stefnanda og verður þessari málsástæðu því hafnað.

Stefnandi byggir einnig á því að rannsóknarregla stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt og ekki hafi verið aflað hlutlausra gagna áður en ákvörðun var tekin.  Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að málefni stefnanda höfðu lengi verið til skoðunar og verður ekki annað séð en ákvörðun um flutning hans í annað embætti hafi verið tekin að lok­inni ítarlegri athugun.  Verður þessari málsástæðu stefnanda því hafnað.

Þá byggir stefnandi á því að honum hafi verið mismunað gagnvart þeim ein­stakl­ingi sem ráðherra flutti í embætti sýslumanns á Akranesi og hafi þannig verið brotin jafn­ræðisregla 11. gr. stjórnsýslulaga.  Ekki er ljóst samhengi þessarar málsástæðu við annan málatilbúnað stefnanda og ber að  hafna henni.

Stefnandi byggir á því að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga hafi verið virt að vett­ugi.  Eins og að framan var rakið var ákvörðun um flutning stefnanda í annað em­bætti tekin að vel athuguðu máli og var ljóst að önnur úrræði myndu ekki skila árangri.  Stefnanda bauðst annað embætti með sömu launakjörum og fyrr og þá átti hann þess kost að velja um það embætti eða þiggja eftirlaun.  Verður þessari máls­ástæðu stefnanda því hafnað.

Stefnandi byggir einnig á því að andmælaréttur hans samkvæmt 13. gr. stjórn­sýslu­laga hafi verið virtur að vettugi.  Vísar hann til ummæla dómsmálaráðherra í kvöld­fréttum útvarps og sjónvarps 18. apríl 1998, en þar sé haft eftir honum að þegar hafi verið búið að taka þá ákvörðun að flytja stefnanda í embætti sýslumanns á Hólma­vík.  Þá hafi verið haft eftir ráðherra í dagblaði 20. apríl sama ár að ákvörð­un­inni, sem tekin hafi verið um sýslumannsskiptin, verði ekki breytt.

Stefnanda var fyrst kynnt sú ráðagerð dómsmálaráðuneytisins að flytja hann í em­bætti sýslumanns á Hólmavík með bréfi dagsettu 6. apríl 1998 og var honum veittur frestur til andmæla til 20. apríl sama ár.  Stefnandi nýtti sér andmælarétt sinn með bréfi til ráðuneytisins dagsettu 20. apríl sama ár.  Það er nægilega upplýst að ummæli dóms­málaráðherra, sem rakin eru hér að framan, hafi verið látin falla áður en stefn­anda hafði gefist kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Verða þessi um­mæli ekki skilin öðru vísi en svo en þegar hafi verið tekin ákvörðun um flutn­ing­inn og ekkert fái henni haggað. Telja verður það megininntak andmælareglunnar að ekki verði tekin ákvörðun um réttarstöðu aðila fyrr en honum hafi verið gefinn kostur á því að kynna sér málsgögn og málsástæður sem ákvörðun byggist á og jafnframt að tjá sig um málið.  Verður því ekki annað séð en stefnanda hafi verið veittur and­mæla­réttur til málamynda og stríðir það gegn 13. gr. stjórnsýslulaga.  Þessi ummæli voru látin falla á opinberum vettvangi og voru til þess fallin að vekja þá hugmynd al­menn­ings að embættisfærsla stefnanda sem sýslumanns á Akranesi hefði verið með þeim hætti að engu skipti hvað hann færði fram sér til varnar.  Þykir stefnandi því hafa sýnt nægilega fram á að í þessum ummælum dómsmálaráðherra felist ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda í skilningi 26. gr. skaðabótalaga.  Á stefnandi því rétt á miska­bótum af þessum sökum og þykja þær hæfilega ákveðnar 500.000 krónur.  Vextir verða ekki dæmdir, enda hefur stefnandi ekki gert kröfu um vexti af miska­bóta­kröfu sinni.

Eftir þessum úrslitum þykir rétt að stefndu greiði stefnanda 300.000 krónur upp í máls­kostnað.

Það athugast að stefna í hinu síðara máli er mikil að vöxtum eða 31 blaðsíða.  Er í þeim kafla hennar þar sem fjallað er um málsástæður og lagarök meðal annars að finna orð­réttar tilvitnanir í fræðirit og dóma.  Þessi málatilbúnaður stefnanda er í and­stöðu við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og ber að átelja hann.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

 Stefndu, dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisins og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkis­sjóðs, greiði stefnanda, Sigurði Gizurarsyni, 500.000 krónur í miskabætur og 300.000 krónur upp í málskostnað.