Print

Mál nr. 124/2002

Lykilorð
  • Höfundarréttur
  • Landakort
  • Gjaldtaka

Fimmtudaginn 19

 

Fimmtudaginn 19. september 2002.

Nr. 124/2002.

Mál og menning hf.

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

Landmælingum Íslands

(Erla S. Árnadóttir hrl.)

 

Höfundaréttur. Landakort. Gjaldtaka.

M keypti þrjár þekjur úr stafrænum kortagrunni L. Samkvæmt söluskilmálum sem M undirritaði var ekki heimilt að birta, fjölfalda eða dreifa unnum eða óunnum gögnum nema með leyfi L en um útgáfu-, afnota- og höfundarétt átti að fara eftir ákvæðum laga nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð. Ekki var um það deilt að M gaf út kort án þess að fá til þess birtingarleyfi. Stóð ágreiningur um hvort slík leyfi þyrfti fyrir þessum útgáfum og hvert væri hæfilegt gjald fyrir þau þyrfti þeirra með. Hélt M því fram að 10. gr. laga nr. 95/1997 sem mælir fyrir um fjármögnun Landmælinga Íslands, hefði á árinu 2000 ekki gert ráð fyrir því að gjald væri tekið fyrir afnot efnisins með þessum hætti. Þá gæti íslenska ríkið ekki átt höfundarétt af umræddum þekjum og því ætti ekki að greiða sérstakt gjald fyrir afnot efnisins. Talið var að um réttindi ríkisins af þessum starfrænu gögnum sem M fékk afnot af færi samkvæmt 50. gr. höfundalaga eins og þeim var breytt með lögum nr. 60/2000. L reisti gjaldtöku sína á gjaldskrá Landmælinga Íslands nr. 323/1999 sem gefin var út áður en 10. gr. laga var breytt með lögum nr. 171/2000. Var talið að L hefði haft lagaheimild til að taka gjald fyrir sölu upplýsinga og afnot þeirra. Þá yrði gjaldskráin ekki öðruvísi skilin en að þar væri ákveðið sérstakt gjald fyrir hverja birtingu og gjaldflokkar réðust af stærð korts og af því hversu birt efni í endanlegri útgáfu hefði að geyma mikið af kortagögnum, texta, myndefni eða öðru efni frá L. Þótti L hafa sýnt fram á rétt sinn samkvæmt 50. gr. höfundarlaga og hefði lagaheimild til að taka gjald af M vegna nýtingar á þeim upplýsingum sem M fékk, en L hafði áskilið sér frá upphafi endurgjald fyrir notkun veittra upplýsinga. Var talið að M hefði ekki sýnt fram á að L hefði ákveðið gjaldið of hátt samkvæmt gjaldskránni eða að gjaldtaka samkvæmt henni væri á annan hátt óhæfileg. Var héraðsdómur því staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 12. mars 2002. Hann krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnda, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Áfrýjandi keypti 2. júlí 1997 þrjár þekjur úr stafrænum kortagrunni stefnda, IS 500V. Var þar um að ræða hæðarlínu-, vatna- og vegagrunn. Samkvæmt söluskilmálum, sem hann undirritaði, var öll dreifing gagnanna til þriðja aðila óheimil nema gegn skriflegu leyfi stefnda. Ekki var heldur heimilt að birta, fjölfalda eða dreifa unnum eða óunnum gögnum nema með leyfi hans. Áfrýjandi fékk 29. janúar 1998 birtingarleyfi vegna útgáfu tveggja korta í mælikvarðanum 1:600.000 og 1:300.000  og greiddi fyrir. Hann fékk 26. febrúar 1999 birtingarleyfi fyrir útgáfu fjögurra korta í mælikvarðanum 1:300.000, alls 10.000 eintök, og greiddi fyrir með fyrirvara þar sem hann vísar til fyrri bréfaskipta sinna og lögmanns stefnda, en þar bar hann brigður á réttmæti þess að hann þyrfti birtingarleyfi fyrir útgáfum sínum og dró í efa greiðsluskyldu þeirra vegna. Áfrýjandi hefur síðan ekki óskað eftir birtingarleyfum hjá stefnda. Dómkrafan er fyrir birtingargjald vegna korta í mælikvarðanum 1:300.000 af öllum landsfjórðungum, kortabók í mælikvarðanum 1:300.000, ferðakorti af Íslandi í mælikvarðanum 1:600.000 og jarðfræðikorti af Snæfellsnesi í mælikvarðanum 1:100.000. Samkvæmt málflutningi aðila er ekki um það deilt að áfrýjandi hafi gefið þessi kort út án þess að fá til þess birtingarleyfi. Hins vegar greinir aðila á um hvort birtingaleyfi þurfi fyrir þessum útgáfum. Verði það niðurstaða réttarins er um það deilt hvert sé hæfilegt gjald fyrir leyfin.

II.

Krafa stefnda er samkvæmt tveimur reikningum, þeim fyrri dagsettum 8. desember 2000, sem sagður er vera fyrir birtingarleyfi árið 2000, en hinum síðari frá 5. október 2001, sem sagður er vera fyrir sama tíma en tilkominn vegna leiðréttinga á upplagstölum áfrýjanda. Þekjurnar þrjár, sem áfrýjandi fékk á árinu 1997, voru fengnar úr stafrænu gagnasafni stefnda, Ísland Vektor 1:500.000, en gagnasafnið er byggt á ferðakorti stefnda í þeim mælikvarða. Tilgangur gagnasafnsins er aðallega að gefa upplýsingar um hæðar-, vatna- og vegakerfi landsins í heild. Gögnin má nota við ýmis konar kortagerð og vinnslu í landupplýsingakerfum. Ferðakort stefnda var unnið á sjö ára tímabili og kom fyrst út 1978. Grunnur að kortinu voru hæðarlínur, vatnafar og strandlínur af Atlaskortum í mælikvarða 1:100.000, sem gefin voru út af Geodætisk Institut í Kaupmannahöfn, en stefndi hafði fengið þessi grunngögn með samningum við þá stofnun.

Stefndi er ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfisráðuneytið. Hlutverk stofnunarinnar er að vinna að verkefnum á sviði landmælinga og kortagerðar. Samkvæmt 8. gr. laga nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð er íslenska ríkið eigandi að öllum réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast og gætir stofnunin hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Í greininni segir að um höfundarétt gildi að öðru leyti höfundalög nr. 73/1972 með síðari breytingum. Samkvæmt 9. gr. sömu laga eiga Landmælingar Íslands að miðla upplýsingum og veita aðgang að gögnum í vörslu stofnunarinnar og er heimilt að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði landmælinga og kortagerðar, sem eru í hennar vörslu, að því tilskildu að uppruna sé getið og áreiðanleika upplýsinga ekki stefnt í tvísýnu.

Það var í verkahring stefnda að varðveita og þróa það efni sem um getur í máli þessu og veita áfrýjanda umbeðnar upplýsingar, svo sem hann gerði. Áfrýjandi greiddi fyrir aðgang að upplýsingunum. Hann undirritaði einnig skilmála fyrir afhendingunni, eins og að framan er rakið, og skuldbatt sig til að birta ekki eða fjölfalda keypt gögn unnin eða óunnin nema að fengnu sérstöku leyfi. Í skilmálunum er til þess vísað að um útgáfurétt fari eftir ákvæðum laga um Landmælingar Íslands. Áfrýjandi aflaði sér birtingarleyfis fyrir útgáfur sínar 1998 og að einhverju leyti árið 1999 og greiddi fyrir það svonefnt birtingargjald. Leyfi þessi voru fyrir ákveðin kort og samkvæmt texta þeirra voru þau bundin við það upplag sem í þeim greindi. Áfrýjandi ber brigður á að þessi gjaldtaka hafi verið heimil að lögum og hefur hafnað frekari greiðslum. Heldur hann því fram að 10. gr. laga nr. 95/1997, sem mælir fyrir um fjármögnun Landmælinga Íslands, hafi á árinu 2000 ekki gert ráð fyrir því að gjald væri tekið fyrir afnot efnisins með þessum hætti. Þá heldur hann því einnig fram að íslenska ríkið geti ekki átt höfundarétt að þessum þekjum og því eigi ekki að greiða sérstakt gjald fyrir afnot efnisins.

III.

Áfrýjandi kaus að fá hið umdeilda efni frá stefnda og tók við því með ákveðnum skilmálum. Samkvæmt þeim átti um útgáfu-, afnota- og höfundarétt að fara eftir ákvæðum laga nr. 95/1997. Fer um greiðsluskyldu áfrýjanda að þeim lögum. Hér var um að ræða efni sem íslenska ríkið átti og stefnda bar lögum samkvæmt að varðveita. Hafði það verið unnið upp úr korti sem íslenska ríkið átti höfundarétt að samkæmt 3. mgr. 1. gr. höfundalaga. Er ómótmælt að gerð þessara stafrænu gagna, sem áfrýjandi fékk afnot af, kostuðu umtalsverðar fjárhæðir. Fer um réttindi ríkisins yfir slíkum gögnum samkvæmt 50. gr. höfundalaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 60/2000, en reikningar stefnda eru útgefnir eftir gildistöku þeirra laga 26. maí 2000 og ekki liggur annað fyrir en umdeild upplög kortanna hafi verið prentuð eftir þann tíma. Líta verður svo á að í máli þessu geri stefndi kröfu til greiðslu fyrir þessi réttindi.

Stefndi reisti gjaldtöku sína á gjaldskrá Landmælinga Íslands nr. 323/1999. Á þeim tíma sem gjaldskráin var gefin út voru fyrirmæli um það í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 95/1997 að Landmælingar Íslands skyldu afla sér tekna á eftirfarandi hátt: 1. Með sölu á sérhæfðri þjónustu og upplýsingum. 2. Með þjónustugjöldum vegna afgreiðslu gagna. Gjaldtaka þessi skyldi ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfesti. Að öðru leyti skyldi kostnaður við starfrækslu Landmælinga Íslands greiðast af framlögum úr ríkissjóði. Stefndi seldi áfrýjanda ákveðnar upplýsingar og afgreiddi til hans gögn þar um. Verður að ætla að stefndi hafi haft lagaheimild til að taka gjald fyrir sölu upplýsinga og afnot þeirra. Lagaákvæðinu hefur nú verið breytt með lögum nr. 171/2000, svo sem rakið er í héraðsdómi.

Óumdeilt er að reikningarnir eru samkvæmt tilvitnaðri gjaldskrá. Hins vegar heldur áfrýjandi því fram að almenn tekjuöflun verði ekki ákvörðuð í gjaldskrá heldur eingöngu þjónustugjöld, sem ekki megi fara fram úr eðlilegum kostnaði stofnunarinnar við að láta þessa þjónustu í té, sbr.  40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Hér sé þessu ekki að heilsa því að gjaldtakan sé umfram eðlilegan kostnað við þjónustuna og langt úr hófi. Að framan er því lýst að gerð þessara stafrænu gagna kostaði umtalsverðar fjárhæðir. Af hálfu stefnda er því haldið fram að gjaldskráin sé samin með þennan kostnað í huga. Forstöðumaður stjórnsýslusviðs stefnda sagði fyrir dómi að við ákvörðun viðmiðunarverðs gjaldskrárinnar hafi verið litið til verðlagningar sams konar stofnana erlendis. Eins og áður segir snýst ágreiningur aðila í þessu máli um greiðslu fyrir afnotarétt en ekki veitta þjónustu. Gjaldskráin verður ekki öðruvísi skilin en að þar sé ákveðið sérstakt gjald fyrir hverja birtingu og gjaldflokkar ráðist af stærð korts og af því hversu birt efni í endanlegri útgáfu hafi að geyma mikið af kortagögnum, texta, myndefni eða öðru efni frá Landmælingum Íslands. Hefur stefndi innheimt gjald samkvæmt öðrum gjaldflokki sem er miðaður við að kort áfrýjanda innihaldi 30-60% af efni frá honum. Hefur áfrýjandi mótmælt því að um svo mikið efni frá stefnda sé að ræða, sem reikningar gera ráð fyrir, og fullyrðir að kortin ættu samkvæmt gjaldskránni að falla í þriðja verðflokk, sem miðar við að grunngögn stefnda séu 10-30% af birtu efni eða minna. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram matsgerð dómkvaddra sérfræðinga þessu til styrktar eða önnur nægileg gögn og verður hann að bera halla af því eins og mál þetta liggur fyrir Hæstarétti.

Af því sem að framan er rakið þykir stefndi hafa sýnt fram á rétt sinn samkvæmt 50. gr. höfundalaga og að hann hafi lagaheimild til að taka gjald af áfrýjanda vegna nýtingar á þeim upplýsingum sem hann fékk. Stefndi áskildi sér frá upphafi endurgjald fyrir notkun veittra upplýsinga. Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á að stefndi hafi ákveðið gjaldið of hátt samkvæmt gjaldskránni eða að gjaldtaka samkvæmt henni sé á annan hátt óhæfileg. Ber af þessum ástæðum að staðfesta héraðsdóm.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar er ákveðið í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Mál og menning hf., greiði stefnda, Landmælingum Íslands, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2002.

I

Mál þetta, sem dómtekið var 10. desember sl., en endurupptekið, endurflutt og dómtekið að nýju hinn 11. febrúar sl., var höfðað með stefnu birtri 28. mars,  þingfestri 26. apríl 2001 og framhaldsstefnu þingfestri 15. október 2001.  Stefnandi er Landmælingar Íslands, kt. 710169-3309, Stillholti 6-8, Akranesi.  Stefndi er Mál og Menning hf., kt. 450570-0289, Laugavegi 18, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 2.737.117 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 08.01.2001 til 01.07.2001, en þá samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Í frumsök gerir stefnandi þær kröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda  1.444.885,00 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 08.01.2001 til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.  Stefnandi krefst þess í framhaldssök að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.292.232 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 10., sbr. 12. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 8. janúar 2001 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda  Málin voru sameinuð með heimild í a. lið 1. mgr. 30. gr. sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og eru endanlegar dómkröfur stefnanda eins og að framan greinir.

Stefndi krefst í frumsök og framhaldssök aðallega sýknu af kröfum stefnda en til vara lækkunar krafna að mati dómsins auk málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

II

Forsaga máls þessa er sú að hinn 2. júlí 1997 keypti stefndi gögn af stefnanda úr stafræna grunni stefnanda IS 500V.  Á söluskilmálum kemur fram að hið selda efni séu hæðarlínur, vegir og vatn og að tilgangur kaupanna sé kortagerð.  Stefndi greiddi fyrir þessi gögn 150.000 krónur auk 36.750 króna virðisaukaskatts eða samtals 186.750 krónur.  Í 1. tl. fyrrgreindra skilmála segir að kaupandi samþykki að nota gögnin eingöngu í eigin þágu og á eigin tölvukerfi og samkvæmt 2. tl. er öll dreifing gagnanna til þriðja aðila óheimil nema gegn skriflegu leyfi Landmælinga Íslands.  Í 3. tl. kemur fram að óheimilt sé að fjölfalda eða dreifa, unnum eða óunnum gögnum nema gegn skriflegu leyfi Landmælinga Íslands.  Þá er í 4. tl. mælt fyrir um það að óski kaupandi eftir að birta, fjölfalda eða dreifa hinum keyptu gögnum, unnum eða óunnum, verði hann að fá sérstakt birtingarleyfi hjá stofnuninni.  Þá segir í 5. tl. að útgáfu-, afnota- og höfundaréttur fari eftir ákvæðum laga um Landmælingar Íslands sem kaupandi hafi kynnt sér.  Undir þessa söluskilmála um kortagögn rita Sigurður Svavarsson f. h. stefnda og Örn Sigurðsson þáverandi starfsmaður stefnanda fyrir hans hönd. 

   Hinn 29. janúar 1998 fékk stefndi leyfi til birtingar á tveimur kortum, annars vegar fyrir heildarkorti í mælikvarðanum 1:600.000 og hins vegar fyrir fjórðungskorti af Suðvesturlandi í mælikvarðanum 1:300.000.  Fyrir það fyrrnefnda greiddi hann 131.459 krónur með virðisaukaskatti en fyrir það síðarnefnda 57.881 krónu með virðisaukaskatti  Undir birtingarleyfin skrifa fyrrnefndir aðilar.  Í tilefni af útgáfu þessara leyfi var stefnda sent skriflegt erindi, hinn 12. maí 1998, frá lögmanni stefnanda.  Þar kemur fram að ekki hafi verið skrifað undir sérstakan samning um dreifingu og/eða útgáfu umræddra gagna en af hálfu stofnunarinnar séu slíkir samningar skilyrði fyrir útgáfu og dreifingu kortagagna í vörslum hennar.  Þá segir jafnframt að Örn hafi ekki haft umboð til þess að skrifa undir samninga við stefnda og hafi hann því farið út fyrir ramma umboðs þess, sem hann hafi haft, sem starfsmaður stofnunarinnar við veitingu fyrrgreindra leyfa.  Þá er í bréfinu enn fremur talið, að Örn hefði með þessari háttsemi sinni gerst brotlegur m.a. við ákvæði hegningarlaga og enn fremur bótaskyldur gagnvart stofnuninni fyrir því tjóni sem háttsemi hans kunni að hafa valdið.  Ekki var þó ákært í málinu.

Hinn 13. október 1998 óskaði stefndi bréflega eftir leyfi til að birta kortagrunn stefnanda (1:500.000 hæðalínur, vötn og vegi) á fjórðungskort í mælikvarðanum 1:300.000.  Um var að ræða fjögur kortblöð, í 2.500 eintökum hvert, af Suðvesturlandi, Norðvesturlandi, Norðausturlandi og Suðausturlandi, sambærileg við áður útgefið kort af Suðvesturlandi.  Beiðni stefnda var svarað bréflega af stefnanda hinn 17. nóvember 1998 þar sem stefnda var boðið að að ganga frá samningi samkvæmt þágildandi gjaldskrá stofnunarinnar.  Samkvæmt henni væri gjald fyrir birtingu gagnanna 65 krónur fyrir hvert eintak án virðisaukaskatts.  Verð fyrir hvern titil, 2.500 eintök, væri 162.500 án virðisaukaskatts og gjald fyrir 10.000 eintök því 650.000 eintök án virðisaukaskatts.  Stefndi lýsti því áliti sínu bréflega 25. nóvember 1998 að hann teldi gjaldtöku þessa fráleita þar sem ekki væri gætt almennra reglna um meðalhóf samkvæmt stjórnsýslulögum og sanngirni.  Þá hafði stefndi einnig gert stefnanda grein fyrir þeirri afstöðu sinni bréflega hinn 14. maí 1998, að hann drægi í efa heimild stefnanda til að krefjast gjalds vegna birtingar á kortum stefnda sem væru sjálfstæð höfundarverk stefnda. 

Í kjölfar þessa áttu lögmenn aðila í áframhaldandi bréfaskiptum og hinn 17. febrúar 1999 bauð stefnandi stefnda að greiða 50 krónur fyrir hvert kort og var þá miðað við að kortin féllu undir gjaldskrárflokk nr. 2 í þágildandi gjaldskrá nr. 21/1999 en stefndi hafði áður sett kort stefnda í gjaldskrárflokk nr. 1 og miðað við 65 krónur fyrir hvert kort.  Stefndi hafði óskað eftir afslætti með vísan til 1. mgr. 5. gr. og 4. gr. gjaldskrárinnar og bauð stefnandi honum 25% afslátt, þ.e. 37,50 krónur fyrir hvert kort.  Stefndi lýsti því bréflega yfir hinn 18. febrúar 1999 að hann teldi ofangreinda ákvörðun stefnanda um gjald og flokkun umsóknar stefnda og það að gjaldið væri í engu tengt mögulegu söluverði, samkeppnishamlandi og í engu samræmi við þau meginsjónarmið sem gilda um höfundarréttargreiðslur hvort sem væri samkvæmt samningi eða öðrum gjaldskrám sem hafi verið staðfestar af yfirvöldum um greiðslu til handhafa höfundarréttinda.  Lýsti stefndi því þó jafnframt yfir að hann vildi ganga frá málinu en með þeim fyrirvara að hann myndi endurkrefja stefnanda um alla greiðsluna vegna ofangreindra sjónarmiða.  Í svarbréfi stefnanda hinn 22. febrúar 1999 var ítrekað að stefnda stæði til boða að ganga frá samningi við stefnanda á ofangreindum kjörum og með 25% hámarksafslætti.  Varðandi mótmæli stefnda vegna gjaldtökunnar og réttmæti gjaldskrár stefnanda, og að starfsemi stefnanda bryti í bága við ákvæði samkeppnislaga, svaraði stefnandi því til að hann byggði starfsemi sína alfarið á lögum nr. 95/1997 og gjaldtöku á þágildandi gjaldskrá nr. 21/1999 sem staðfest hefði verið af umhverfisráðherra 6. janúar 1999 í samræmi við ákvæði laga.

Í lok febrúarmánaðar 1999 gekk stefndi frá greiðslu til stefnanda á ofangreindum kjörum og ítrekaði fyrirvara sinn um endurkröfu sem fram hefði komið í bréfum til lögmanns stefnanda.  Þá kemur jafnframt fram að stefndi telji sig ekki eiga annan kost en að samþykkja skilmála sem stefnandi muni ákvarða einhliða og var á þeim tíma ekki búið að útbúa.  Stefndi hefur ekki höfðað mál til heimtu þeirrar greiðslu.

Birtingarleyfi varðandi umbeðin gögn úr IS-500V (hæð, vatn, vegir) var undirritað, 26. febrúar 1999, af þáverandi forstjóra stefnanda og með fyrirvara af lögmanni stefnda á fyrrgreindum kjörum.  Birtingarstaður gagnanna er tilgreindur ferðakort, landshlutakort í mælikvarða 1:300.000 útgefin af notanda, þrír nýir titlar og einn endurútgefinn, 2.500 eintök af hverjum titli.  Upplagið er tilgreint samtals 10.000 eintök, 2.500 stk. af hverju korti.  Í 4. mgr. 1. gr. skjals sem ber yfirskriftina  „Skilmálar og skilyrði til notkunar” sem er fylgiskjal við leyfið og fulltrúar aðila hafa sett upphafsstafi sína við, segir að öll dreifing, birting og útgáfa frumgagna eða afleiddra gagna önnur en að ofan er getið sé óheimil án sérstaks birtingarleyfis og samþykkis frá LMÍ.  Þá segir m.a. í 4. gr. um endurprentanir að leyfi til útgáfu og birtingar á efni frá LMÍ gildi aðeins fyrir eina prentun.  Sækja þurfi um sérstakt leyfi fyrir hverja endurprentun en í umsókn skuli geta um dagsetningu og tilvísun til upphaflegs leyfis.  Verð og skilmálar endurprentana séu tilgreind að nýju og leyfisgjöld ákveðin samkvæmt gildandi gjaldskrá á hverjum tíma.  Leyfi til endurprentunar skuli að jafnaði veitt svo fremi sem greiðsla fyrir fyrri prentun hafi verið innt af hendi. 

Framhald samskipta aðila þessa máls er svo með þeim hætti að hinn 20. september 1999 sendir stefnandi stefnda erindi þar hann hafði þá fengið upplýsingar um að stefndi hefði endurútgefið ferðakort.  Segir í bréfinu að á kortunum komi fram að um aðra útgáfu 1999 sé að ræða.  Er í bréfinu gerð grein fyrir því að sá samningur sem aðilar gerðu í febrúarmánuði 1999 hafi eingöngu heimilað stefnda útgáfu á fjórum kortum, 2.500 eintökum af hverjum titli.  Fyrir birtingarleyfið hafi stefndi greitt 375.000 krónur auk virðisaukaskatts.  Samkvæmt 4. gr. skilmálanna sem fylgt hafi birtingarleyfinu komi skýrt fram að það sé einungis veitt fyrir einni prentun og sækja þurfi um sérstakt leyfi fyrir hverja endurprentun.  Önnur útgáfa stefnda á umræddum kortum feli því í sér brot á tilvitnuðum samningi.  Óskaði stefnandi eftir upplýsingum um upplagsstærð þessarar annarrar prentunar á umræddum kortum.  Stefndi svaraði bréflega hinn 12. október 1999.  Þar gerir hann grein fyrir þeirri afstöðu sinni að útgáfa ferðakortsins geti á engan hátt talist samningsbrot á 4. gr. skilmálanna því þeir hafi verið vegna útgáfu á fjórðungskortum en hér sé um önnur kort að ræða.  Ferðakortið sé í mælikvarðanum 1:600.000 og innihaldi nöfn og hluta þess vegakerfis sem var á upphaflegum gögnum frá Landmælingum Íslands og sé þetta innan við 10% af heildargögnum kortsins. Samkvæmt gjaldskránni eigi ekki að innheimta gjald sé efni innan þessara marka og því telji stefndi enga ástæðu til samninga né greiðslu jafnvel þó gjaldskrá stefnanda fengi staðist sem stefndi véfengir þó eins og áður hefur komið fram. 

Enn á ný ritar lögmaður stefnanda lögmanni stefnda bréf og er það dagsett 23. júní 2000.  Þar kemur fram að stefnandi hafi nú fengið upplýsingar um það að stefndi hafi endurútgefið Íslandskort.  Á kortunum komi fram að þau séu gefin út á árinu 2000. Stefnandi hafi ekki veitt birtingarleyfi fyrir útgáfu þessara korta.  Stefnandi kvaðst þó reiðubúinn að ganga á ný til samninga við stefnda og þá um þessa endurprentun.  Óskaði stefnandi þ.a.l. eftir því að stefndi veitti upplýsingar um upplagsstærð 2000 útgáfunnar.  Lögmaður stefnanda ritar bréf til stefnda hinn 27. júní 2000 svipaðs efnis og áður þar sem stefnandi kveðst nú hafa fengið upplýsingar um að stefndi hafi gefið út vegakort af Íslandi í formi bókar með heitinu Kortabók Íslands.  Komi fram á bókinni að hún sé gefin út árið 2000 og um fyrstu útgáfu sé að ræða og að kortagrunnur sé m.a. byggður á gögnum frá Landmælingum Íslands.  Stefnandi hafi ekki veitt birtingarleyfi fyrir útgáfu korts með þessu sniði né hafi verið samið um birtingargjald en hann lýsir sig reiðubúinn til að ganga til samninga við stefnda um útgáfuna.  Óskaði stefnandi eftir því að stefndi veitti upplýsingar um upplagsstærð viðkomandi útgáfu. 

Stefnandi gaf að lokum út reikning dagsettan 8. desember 2001 fyrir birtingarleyfisgjald fyrir útgáfu stefnda á kortum. Samkvæmt stefnu er reikningur sagður tilkominn vegna útgáfu kortabókar en eins og fram kemur á áætlun stefnanda vegna útgáfu stefnda sem ber yfirskriftina „Áætluð birtingarleyfi á Mál og menningu 2000” er um að ræða greiðslur vegna útgáfu stefnda á fjórum landshlutakortum í mælikvarðanum 1:300.000, kortabók í mælikvarðanum 1:300.000, Íslandskort í mælikvarðanum 1:600.000 og Snæfellsnes - lítið jarðfræðikort á sérkortinu í mælikvarðanum 1:100.000. Reikningur sá sem stefnandi gerði stefnda er dagsettur 8. desember 2000 og er birtingarleyfisgjaldið fyrir öll ofangreind kort 1.160.550 krónur auk 284.335 króna í virðisaukaskatt eða samtals 1.444.885 krónur.  Gjaldið er byggt á gjaldskrá stefnanda en áætlað þar sem stefndi hafði á þeim tíma ekki upplýst um upplag útgáfunnar.  Hinn 26. apríl lagði stefndi fram gögn um upplagið og taldi stefnandi þá ljóst að krafan hefði verið verulega vanáætluð.  Höfðaði hann þá framhaldssök til greiðslu þeirrar fjárhæðar sem upp á vantaði svo að um fullnaðargreiðslu til stefnanda vegna útgáfu stefnda væri að ræða.  Samkvæmt reikningi sem dagsettur er 5. október 2001 nemur viðbótargreiðsla vegna birtingarleyfa 1.037.937 krónum auk 254.295 króna í virðisaukaskatt eða samtals 1.292.232 krónum.  Nemur höfuðstóll kröfu stefnanda því 2.737.117 krónum og krefst hann dráttarvaxta frá 8. janúar 2001.

III

Stefnandi kveður skuld stefnda vera tilkomna vegna útgáfu stefnda á vegakorti af Íslandi í formi bókar með heitinu Kortabók Íslands.  Kortabók þessi hafi verið send í verslanir og komi fram, bæði á kápu bókarinnar og í upplýsingartexta, að hún sé gefin út árið 2000, sem og að um fyrstu útgáfu sé að ræða. Í upplýsingartexta bókarinnar komi jafnframt fram að kortagrunnur sé m.a. byggður á gögnum frá stefnanda.  Stefnandi kveðst hvorki hafa veitt birtingarleyfi fyrir útgáfu korta af þessu tagi né hafi verið samið um birtingargjald. Stefndi hafi áður keypt útgáfu- og birtingarrétt af stefnanda vegna svipaðra korta og þar af leiðandi viðurkennt rétt stefnanda til þess að innheimta birtingarleyfisgjöld. 

Stefnandi sé ríkisstofnun sem starfi samkvæmt lögum nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð.  Í 2. mgr. 8. gr. laganna sé tekið fram að stefnandi gæti hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem stefnandi hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Enn fremur sé þess getið að stefnanda sé skylt að veita afnotarétt af öllum upplýsingum sem séu í vörslum stefnanda, sbr. 9. gr.  Þetta skuli gert gegn greiðslu sölu- og þjónustugjalda eins og mælt sé fyrir um í 10. gr. laga nr. 95/1997.  Vegna innheimtu þessara gjalda hafi verið sett gjaldskrá Landmælinga Íslands, nr. 323/1999.  Upphæð þess gjalds sem stefnandi krefji stefnda um sé byggð á henni.  Stefndi hafi fengið hámarksafslátt, eða 25%, á meðan hann greiddi en í kröfum sé miðað við 10% afslátt.  Umsókn stefnda hafi verið sett í gjaldflokk 2 í gjaldskránni þar sem gert sé ráð fyrir að birt efni í endanlegri útfærslu innihaldi 30-60% af kortagögnum, texta, myndefni eða öðru efni frá Landmælingum Íslands.  Stefndi hafi fengið gögn um hæðarlínur sem nemi 30%, um vatnafar sem nemi 20% og um vegi sem nemi 10%.  Í núgildandi gjaldskrá nr. 141/2001 sé tafla um vægi einstakra þekja í kortagrunnum Landmælinga Íslands.  Kortagrunnur stefnanda sé enn í notkun hjá stefnda.  Stefndi hafi ekki sýnt fram á að vægi þeirra gagna sem hann upphaflega hafi fengið frá stefnanda hafi minnkað þannig að fella eigi umsókn hans undir annan gjaldflokk en stefnandi hafi gert. 

Stefnandi hafnar  því að ekki hafi verið heimild til gjaldtöku samkvæmt gjaldskránni, þar sem gerðar hafi verið breytingar á gjaldtökuheimild 10. gr. laga nr. 95/1997 í meðförum þingsins við setningu þeirra laga.  Telur hann að ekki hafi átt að breyta ákvæðinu efnislega heldur hafi einungis verið um orðalagsbreytingar á ákvæðinu að ræða sem miðað hafi að því að gera ákvæðið skýrara.  Þá mótmælir stefnandi því að ekki sé fyrir hendi gjaldtökuheimild þar sem umrædd gjöld séu í eðli sínu skattheimta til niðurgreiðslu á starfsemi stefnda. Telur stefnandi gjald þetta vera einkaréttarlegs eðlis og þessi sjónarmið stefnda eigi því ekki við.  Þá þurfi enga sérstaka lagaheimild fyrir töku höfundaréttargjalds eins og stefndi haldi fram.  Njóti efni verndar samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 sé heimild fyrir hendi til að taka gjald fyrir þau réttindi. 

Stefnandi kveður ljóst að hann eigi höfundarétt að þeim gögnum sem stefndi hafi notað við kortagerð sína.  Landfræðilegar upplýsingar, eins og uppdrættir og kort njóti verndar samkvæmt 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972.  Í 4. mgr. 6. gr. höfundalaga komi fram skilgreining á gagnagrunni.  Samkvæmt 1. mgr. sbr. 4. mgr. 6. gr. sé stafrænn gagnagrunnur stefnanda verndaður gagnagrunnur og hver þekja í honum sjálfstæður grunnur.  Vinna stefnanda við grunninn og sá kostnaður sem stefnandi hafi lagt í við gerð hans sé forsenda fyrir þeirri vernd.  Þá hafi stefnandi rétt til eintakagerðar grunnsins samkvæmt 50. gr. höfundalaga sbr. lög nr. 60/2000 og 5. mgr. 7. gr. í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 96/9 um lögverndun gagnagrunna en lög nr. 60/2000 um breytingu á höfundalögum hafi verið sett til að laga íslenska höfundalöggjöf að þeirri tilskipun.  Verndartíminn sé 15 ár samkvæmt 2. mgr. 50. gr. frá næstu áramótum eftir að gagnagrunnurinn hafi orðið til.  Hvort kort stefnda sem slík séu sjálfstæð höfundarverk eða ekki varði stefnanda ekki um. Aðalatriðið sé að stefndi nýti sér gögn og beri að greiða fyrir þau afnot.  Gögn stefnanda hafi verið grunnurinn að kortum stefnda.

Stefnandi hafi því gert stefnda reikning nr. 97624 þann 8. desember 2000 samkvæmt gjaldskránni og hafi hann byggt á áætlaðri tölu útgefinna korta frá stefnda.  Stefndi hafi ekki upplýst um upplag útgáfunnar og hafi því krafan verið áætluð.  Hinn 26. apríl sl. hafi stefndi lagt fram gögn um upplagið og hafi stefnanda þá orðið ljóst að krafan væri verulega vanáætluð í stefnu.  Stefndi hafi ekki samþykkt að hækkun kröfunnar kæmist að í málinu án framhaldsstefnu og til að innheimta þann hluta kröfunnar sem upp á vantaði, svo að um fullnaðargreiðslu væri að ræða samkvæmt gjaldskrá stefnanda, höfðaði hann framhaldssök.  Skuld stefnda hafi ekki fengist fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.

Um lagarök vísar stefnandi til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga, en regla þessi fái m.a. lagastoð í 5., 6. og 28. gr. laga 39/1922.  Um gjalddaga kröfunnar vísar stefnandi einkum til meginreglu 12. gr. sömu laga.   Einnig vísar stefnandi til laga nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, gjaldskrár Landmælinga Íslands nr. 323/1999 og höfundalaga nr. 73/1972, ásamt síðari breytingum.

 Kröfu um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, byggir stefnandi á III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum. 

Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91 /1991, um meðferð einkamála. 

IV

Stefndi byggir því sýknukröfu sína á því að honum sé ekki skylt að greiða þóknun til stefnanda vegna útgáfu sinnar á kortum.  Krafið sé um gjald samkvæmt ólögmætri gjaldskrá sem skorti lagastoð.  Krafið sé um gjald sem byggist á sjónarmiðum um höfundaréttargjald þó ekki sé um efni og eða kort að ræða í eigu stefnanda sem njóti verndar að höfundalögum.  Þá sé ekki gerð minnsta tilraun af hálfu stefnanda til að sanna höfundarétt stefnanda að þeim gögnum sem um ræði og stefndi kunni að hafa stutt útgáfu sína við að einhverju leyti.  Þá brjóti gjaldskrá stefnanda gegn samkeppnislögum og sé andstæð reglum stjórnsýslulaga.

Stefndi kveður, að á árinu 1997 hafi stefndi, sem sé útgáfufélag, ákveðið að hasla sér völl í kortaútgáfu sem möguleiki hafði opnast fyrir með breyttu lagaumhverfi.  Hafi stefndi ráðið til sín kortagerðarmenn og fjárfest í hugbúnaði til kortagerðar.  Stefndi hafi keypt af stefnanda gögn á stafrænu formi; hæðalínur, vatnasvið og vegi til að nota við kortagerð.  Fyrir það hafi stefndi greitt tiltekna fjárhæð samkvæmt reikningi auk þess sem hann undirritaði einhliða skilmála um notkun gagnanna.  Í janúar 1998 hafi tvö af kortum stefnda verið tilbúin til útgáfu.  Þar sem stefnda hafði á þeim tíma verið tjáð að hann þyrfti að fá samþykki fyrir útgáfu þeirra hjá stefnanda hafi hann óskað eftir heimild frá stefnanda til birtingar korta sinna.  Birtingarleyfi hafi verið gefin út fyrir tilteknum eintakafjölda korta.  Stefndi hafi á árinu 1998 ráðið til starfa fyrrverandi starfsmann stefnanda til að veita forstöðu kortagerðardeild forlagsins.  Í framhaldi af því hafi hafist ágreiningur milli stefnanda og stefnda sem staðið hafi óslitið frá sama tíma.  Stefndi kveður að í málinu séu lögð fram bréf um samskipti aðila málsins á þessum tíma og til þess tíma að stefnandi gerði þann reikning sem um er deilt í þessu máli.  Stefndi hafi á þessum tíma, eða á árunum 1998/1999, talið rétt að ná einhverju samkomulagi við stefnanda og freista þess að una skilmálum stofnunarinnar að einhverju leyti, þó þeim væri mótmælt, frekar en að efna til málaferla.  Vegna þessa hafi áfram verið óskað eftir birtingarleyfum vegna útgáfu á kortum þrátt fyrir að stefndi teldi að lagaheimild skorti til töku gjalds vegna birtingar gagna.  Illa hafi gengið hjá stefnanda að ganga frá gjaldskrá og á fjögurra mánaða tímabili hafi verið settar þrjár gjaldskrár um starfsemi stefnanda.  Stefndi hafi átt von á að gjaldskrá myndi færast í átt til lækkunar, þar sem tekið yrði mið af venjulegum sjónarmiðum um höfundarétt og krafist sanngjarns endurgjalds til samræmis við lagaheimildir.  Sú hafi ekki orðið raunin.  Þá geri gjaldskráin ráð fyrir því að stofnunin flokki og meti hlut sinn í kortum annarra og áskilji sér gjald frá samkeppnisaðilum, en gjaldið sé mishátt eftir flokkum.

Gjaldskráin, sem stefnandi miði gjaldtöku sína við í þessu máli, sé miðuð við að stefnandi eigi höfundarétt að gögnum sem stefndi hafi notað við kortagerð sína.  Stefndi telur hins vegar að gögnin njóti ekki höfundaverndar samkvæmt höfundalögum.  Þannig skorti á að skilyrði höfundalaga um listræna sköpun sé uppfyllt vegna útlínugrunna.  Það eigi hins vegar við fullgerð kort, sem stefnandi kunni að hafa gefið út. 

Hafi grunngögn á sínum tíma notið höfundaverndar sé nokkuð ljóst að verndartími höfundalaga sé liðinn og meðferð gagnanna því öllum heimil án greiðslu til upphaflegs rétthafa eða svokallað "public domain" í höfundarétti. 

Endurgjald samkvæmt gjaldskránni sé hátt og ósanngjarnt hvort sem miðað sé við greiðslu til höfunda bókmenntaverka fyrir frumsamin verk eða gjaldskrár rétthafa, sem hafi fengist staðfestar samkvæmt heimild í höfundalögum til að innheimta höfundaréttargjöld t.d. Myndhöfundarsjóðs Íslands.  Engin heimild sé í höfundalögunum til innheimtu höfundaréttargjalda af þeim gögnum í eigu stefnanda sem njóta kunni verndar að höfundarétti eins og eigi við um höfundaréttarsamtök sem innheimti gjöld vegna verndaðra verka.

Stefndi taldi að allt viðhorf stefnanda tæki mið af því að stefnanda væri í mun að takmarka samkeppni við sína eigin kortaútgáfu og koma í veg fyrir möguleika til samkeppni með hárri verðlagningu á gögnum sem afgreidd voru og kröfum um birtingarleyfisgjöld.  Vegna þessa hafi verið send kvörtun til samkeppnisstofnunar sem endaði með þeirri niðurstöðu að Landmælingum Íslands væri skylt að skilja fjárhag þess hluta rekstrar sem væri í samkeppni á einkamarkaði frá annarri starfsemi sinni.

Stefndi kveður að eldri lög nr. 31/1985 um Landmælingar Íslands hafi nánast gert ráð fyrir einkarétti stefnanda til útgáfu korta sem byggð voru á gögnum í vörslu og eigu stefnanda með þeirri undantekningu þó að heimila hafi mátt afnot af gögnum í vörslu stofnunarinnar til kortaútgáfu samkvæmt ákvörðun hennar.  Ekki hafi verið skylda til að heimila þessi afnot og gert ráð fyrir því að stofnunin hefði þunga tekna sinna af sölu á prentuðum kortum.  Þá hafi verið ákvæði í lögunum um að stofnunin ætti ótímabundinn höfundarétt og útgáfurétt af öllu efni í eigu stofnunarinnar.  Um sérstakt ákvæði hafi verið að ræða varðandi gildistíma höfundaréttar, þar sem almennur verndartími höfundalaga hafi, á þessum tíma, verið fimmtíu ár frá andláti höfundar eða birtingu verks væri höfundur óþekktur.  Á því tímabili, sem varði úrlausn þessa máls, hafi, hvað varðar höfundarétt að gögnum í eigu stefnanda, gilt lög um stefnanda sem og um gjaldtökuheimildir stefnanda.  Í 8. gr. 1aga nr. 95/1997 sé mælt fyrir um að um höfundarrétt að gögnum í eigu og vörslu stefnanda gildi höfundarlög nr. 73/1972 og að stefnandi skuli gæta hagsmuna ríkisins vegna þessara gagna.  Svo virðist sem stefnandi hafi vegna þessa ákvæðis ályktað sem svo að öll gögn í sinni vörslu, óháð því hvenær þau urðu til, hvers eðlis þau væru og hvernig þau væru tilkomin, nytu verndar að höfundalögum, sem veitt hafi stefnanda sérstakar heimildir til að innheimta gjöld sem væru háð dreifingu korta sem að einhverju leyti byggðu á gögnum í vörslu stofnunarinnar.  Stefndi kveður það liggja fyrir að verulegan hluta upplýsinga í vörslu stefnanda hafi hann fengið með samningi við Geodætisk Institut í Kaupmannahöfn þann 01.03.1973.  Stefnandi leiði því mögulegan höfundarétt sinn af þeim samningi og vinnu innan stofnunarinnar.  Stefndi telur að stefnandi hafi ekki sannað að hann eigi höfundarétt sem njóti verndar höfundalaga nr. 73/1972 að þeim grunngögnum sem stefndi keypti hjá stefnda á árinu 1997 og ljóst sé að stefndi eigi ekki höfundarétt að þeim kortum sem unnin hafi verið af starfsmönnum stefnda og gefin út af þeim.  Augljóst sé að útlit Íslands eða vegalengd milli staða eða staðsetning vatna eða bæja séu ekki upplýsingar sem njóti verndar að höfundarétti heldur sé um staðreyndir að ræða.  Þau gögn sem stefndi keypti séu vektorgögn með 100 metra hæðarlínugrunni, vatnaþekju og vegakerfi.  Grunnur þeirra korta sem gefin hafi verið út hafi verið byggður á þeim auk stafrænna gagna frá Náttúrufræðistofnun Íslands, með upplýsingum um jarðfræði og gróðurfar, sem gefið hafi út kort með þessum upplýsingum og ekki séu í eigu stefnanda auk þess sem heimilda hafi verið aflað frá fjölda aðila.  Skygging þeirra korta sem um ræðir hafi verið unnin eftir hæðarlínugrunni en skjáhnitaðir hafi verið aukahæðarpunktar til að bæta hæðarlíkanið sem skygging kortanna byggi á.  Hæðarlínur séu ekki birtar á Íslandskorti í mælikvarða 1:600.000 og á fjórðungskortum í mælikvarða 1:300.000 séu hæðarlínur með 100 metra millibili i stað 20 eins og á flestum öðrum staðfræðikortum.  Í stað þess hafi verið lögð áhersla á skygginguna og hæðarlíkanið sem unnið var hjá stefnda og sé það eitt af sérkennum kortanna.  Þá hafi vegakerfið verið lagað að kortum stefnda enda hafi grunnur stefnanda verið í öðrum skala sem ekki hafi fallið að kortunum.  Viðbætur og breytingar hafi verið unnar eftir gögnum frá vegagerð og fleirum og hafi upphaflegum grunni verið skipt út að mestu leyti þar sem þau gögn hafi reynst ónákvæm og vitlaus að verulegu leyti.  Hafi kortagerðarmaður stefnda, Hans Hansen, mælt stóran hluta vegakerfisins uppá nýtt með félögum úr ferðaklúbbnum 4x4 með GPS mælingum sem myndi mælingar á vegakerfi kortanna.  Við vinnslu á sjó á kortinu hafi verið stuðst við gömul sjókort og tölvukort af heimshöfum með 100 metra dýptarlínum.  Hvað varðar örnefni og tákn hafi verið stuðst við áður útgefin kort, landlýsingar, ferðabækur, árbækur ferðafélagsins, bæklinga og kort ferðaþjónustuaðila, blaðagreinar auk upplýsinga staðkunnugra manna.  Þarna sé um að ræða upplýsingar um staðreyndir sem ekki séu varðar höfundarétti þó að framsetning þeirra og frágangur á tilteknu korti sé höfundarverk eins og nú sé orðið á kortum stefnda.  Kortin sjálf hafi verið unnin í fullkomnasta kortahugbúnaði sem til sé, eða ArcInfo landupplýsingakerfi.  Kortin hafi verið unnin á stafrænan hátt og byggi hvert á öðru en við stækkun korts sé hverju sinni bætt inn viðbótarupplýsingum.  Kortin séu ólík öðrum útgefnum kortum af Íslandi og hafi hlotið viðurkenningar vegna frumleika og útlits á erlendum sýningum.  Þeir mælikvarðar sem kortin séu í hafi ekki verið notaðir áður við útgáfu hér á landi auk þess sem landinu sé skipt upp á kortum með öðrum hætti en áður hafi verið gert.  Þá séu myndir og lýsingar af náttúruperlum, unnar af stefnda, prentaðar á bakhlið kortsins.  Umrædd kort séu því sjálfstæð höfundarverk og óháð höfundarétti stefnanda.  Beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda sem byggja á sjónarmiðum um höfundarétt hans. 

Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir því að þær stafrænu upplýsingar sem stefndi fékk afhentar á árinu 1997 njóti verndar að höfundalögum vegna útgáfu þeirra korta, sem um sé deilt í máli þessu, sem og að verndartími þeirra sé ekki liðinn geri hann kröfu um höfundarétt eða greiðslur vegna hans.  Það leiði af niðurstöðu Hæstaréttar í máli frá árinu 1982 bls. 1124, Landmælingar Íslands gegn Braga Guðmundssyni o.fl., að stefnandi hafi hverju sinni sönnunarbyrði fyrir höfundarétti sínum.  Verði stefnandi ekki talinn eiga lögvarðann höfundarétt verði að hafna kröfu hans um greiðslu birtingargjalda þegar af þeirri ástæðu enda hafi hann fengið greiðslu fyrir grunninn sjálfan eins og óumdeilt er.

Verði talið í máli þessu að stefndi eigi lögvarðan rétt til greiðslu vegna útgáfu stefnda sem um er deilt í máli þessu þá telur stefndi að gjaldskrá nr. 323/1999, sem stefnandi byggir kröfur sínar á og sett sé með stoð í lögum 95/1997, skorti lagastoð.  Þágildandi 10. gr. laga nr. 95/1997 mælti fyrir um gjaldtökuheimildir stefnanda og hafi hún verið takmörkuð við sölu á sérhæfðum upplýsingum og gögnum og þjónustugjöldum.  Samkvæmt reikningi sé hins vegar krafið um gjald fyrir birtingarleyfi samkvæmt fylgiskjali nr. 5 með gjaldskrá.  Birtingarleyfi þessi taki mið af stærð korta, metnum hlut gagna frá stefnanda í korti og fjölda útgefinna eintaka.  Hugsunin á bak við þessa gjaldskrá taki mið af greiðslum höfundarlauna fyrir útgefin verk og gjaldskrá rétthafasamtaka, sem hafa fengið staðfestar gjaldskrár vegna höfundaréttar.  Þessa gjaldtöku skorti lagastoð enda hvorki um afgreiðslugjöld né þjónustugjöld að ræða.  Þann 21. desember 2000 hafi lögum nr. 95/1997 verið breytt með lögum nr. 171/2000.  Þá fyrst hafi komið inn möguleg lagastoð fyrir gjaldskránni í þeim tilvikum þar sem um höfundarrétt sé að ræða og hóflegt gjald.  Augljóst sé, að óþarfi hefði verið að bæta inn nýrri gjaldtökuheimild í lögin væri hún þegar tryggð en sú heimild tekur til sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar.  Í greinargerð með frumvarpinu segi að í greininni sé lagt til að ákvæði um fjármögnun Landmælinga Íslands verði gerð skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hafi heimild til að taka gjald.

Verði ekki fallist á ofangreind sjónarmið krefst stefndi þess að hann verði sýknaður þar sem gjaldskrá sú sem byggt sé á sé órökstudd og ósanngjörn, auk þess sem hún stríði gegn ákvæðum samkeppnislaga og stjórnsýslulaga.  Fyrir liggi að um gjaldskrá sé að ræða, sem sett hafi verið af samkeppnisaðila stefnda og umhverfisráðuneytið hafi staðfest.  Ljóst sé að við setningu gjaldskrár sem þessarar verði að gæta laga, sanngirnis og meðalhófs.  Það hafi hins vegar ekki verið gert að áliti stefnda.  Þegar gjaldtaka samkvæmt henni sé skoðuð sjáist að landshlutakort stefnda séu seld með 35 til 45% afslætti í heildsölu frá listaverði sem sé 635 krónur þannig að nettósöluverð sé 350 til 412 krónur.  Krafa stefnanda í málinu að teknu tilliti til afsláttar sé 45 krónur pr. eintak eða um það bil 11% til 13% af heildsöluverði korts án tillits til sölu kortanna þar sem gjald taki mið af prentuðum eintökum.  Til samanburðar megi benda á að þóknun höfundar vegna frumsamins bókmenntaverks, þar sem greitt sé eftir framleiddum eintökum, er 16,5% og þóknun til eiganda myndlistarverks vegna myndar sem notuð sé á forsíðu bókar í yfir 10.000 eintökum sé 33.812. krónur og á baksíðu 22.122 krónur, samkvæmt gjaldskrá Myndhöfundasjóðs Íslands, sem sett er á grundvelli höfundalaga og staðfest af menntamálaráðuneyti, eða um það bil 2 - 4 krónur pr. eintak, sem þyki þó of hátt þó að um fullgerð höfundarverk sé að ræða sem varin séu af höfundarétti.  Stefndi telur því ljóst að um óhóflegt gjald sé að ræða og þá sérstaklega ef litið sé til þess að kort þau sem um ræðir séu sjálfstæð höfundaverk.  Með þessari gjaldtöku sé verið að takmarka möguleika á samkeppni í kortaútgáfu og gjaldskráin þannig andstæð ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993.  Þá brjóti gjaldskráin í bága við reglur stjórnsýslulaga um meðalhóf- og rannsóknarskyldu.  Gjaldskráin leggi þannig í vald stefnanda að ákvarða gjald í tileknum flokki án þess að sá sem á að greiða geti haft áhrif á þá flokkun áður en til kemur.  Gjaldskráin sé úr hófi fram og óljóst hvaða gögn hafi legið til grundvallar ákvörðun um gjald til stefnanda og ljóst sé af ofangreindum dæmum um greiðslur til eigenda höfundaréttar að hún sé ósanngjörn.  Þannig verði ekki annað ályktað en að við setningu hennar hafi viðkomandi ráðuneyti ekki kynnt sér málið og hvað væri eðlileg gjaldtaka ef hún eigi sér stoð yfir höfuð.  Umrædd gjöld séu í eðli sínu skattheimta til niðurgreiðslu á starfsemi stefnda en fyrir skattheimtu þurfi sérstaka lagastoð hverju sinni sem ekki var veitt með lögum nr 95/1997 og ákvæði stjórnarskrár komi í veg fyrir að almenn tekjuöflun verði ákvörðuð í gjaldskrá sem þeirri sem hér er deilt um.  Er það og í samræmi við ítrekaða niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis varðandi gjaldskrár sem fara umfram eðlilegan kostnað stofnana af því að láta tiltekna þjónustu í té.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ef gjaldskráin verði talin hafa lagastoð í máli þessu sem og ef höfundaréttur að kortum þeim sem um er deilt verði talinn í eigu stefnanda að einhverju leyti eða grunngögnum þess, þá sé ekki um gjaldskyld not að ræða, þar sem þau not séu undir 10% af birtu efni í kortinu.  Stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir því hver hlutur hans sé í kortunum þar sem hann hafi sjálfur lagt mat á kort þau sem um er deilt og sett þau í flokk tvö samkvæmt 12. gr. gjaldskrár sinnar.  Fyrir þeirri flokkun hljóti hann að þurfa að færa fram rökstuðning og eftir atvikum mat dómkvaddra manna í samræmi við almennar reglur um sönnunarbyrði en ekki sá aðili sem ekki vill una einhliða ákvörðun um flokkun sem hann á ekki aðild að.

Verði sýknukröfu í málinu hafnað er þess krafist að fjárhæð kröfu stefnanda verði lækkuð samkvæmt mati dómsins og þá á grundvelli þeirra sjónarmiða sem reifuð eru að ofan varðandi það að hlutur grunngagna í kortunum sé takmarkaður og fjárhæðir samkvæmt gjaldskrá úr hófi fram.

Þá mótmælir stefndi því sérstaklega að hann hafi viðurkennt réttmæti innheimtu stefnanda á birtingargjöldum og eða að fyrri greiðslur hans til stefnanda hafi þýðingu við úrlausn þessa máls enda hafi stefndi ekki skuldbundið sig um aldur og ævi til að una gjaldtöku sem hann telur ólögmæta og byggða á röngum forsendum.  Þá vísar stefnandi til þess að hann hafi gert ítrekaða fyrirvara um greiðslur sínar eins og sjáist af gögnum málsins.  Þá mótmælir stefndi vaxtakröfu stefnanda sérstaklega og krefst þess að vextir verði ekki dæmdir fyrr en frá dómsuppsögu, verði dæmt áfall í máli þessu að einhverju leyti.

Stefndi vísar um lagarök til laga um Landmælingar Íslands nr. 95/1997 auk breytingarlaga nr. 171/2000 um gjaldtökuheimildir og réttindi stefnanda.  Þá vísar stefndi til gjaldskrár stefnanda nr. 323/1999 eftir því sem við eigi.  Stefndi vísar og til samkeppnislaga nr. 8/1993 um mótmæli við gjaldskrá vegna óhæfilegrar gjaldtöku og samkeppnishamlandi áhrifa gjaldskrárinnar.  Einnig byggir stefndi á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og til laga nr. 73/1972 um höfundarétt. 

Kröfu um vexti byggir stefndi á vaxtalögum, nr. 25/1987. 

Kröfu um málskostnað byggir stefndi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu birtingargjalds vegna nýtingar stefnda á gögnum sem stefnandi telur njóta höfundaréttarlegrar verndar, en stefnandi fari samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð með hagsmuni ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu efni sem stofnunin hafi eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi.  Með vísan til 10. gr. laganna beri stefnda að greiða gjöld vegna kortaútgáfu sinnar og sé fjárhæð kröfunnar byggð á þágildandi gjaldskrá stefnanda nr. 323/1999 sem sett hafi verið með stoð í þeirri grein.  Stefndi byggir á því að honum sé óskylt að greiða umrætt birtingargjald til stefnanda vegna útgáfu sinnar á kortum, þar sem þau gögn sem hann hafi notað við kortagerð sína njóti ekki slíkrar verndar.  Þá telur stefndi gjaldtökuna byggja á gjaldskrá sem skorti lagastoð.  Hún brjóti auk þess gegn samkeppnislögum og sé andstæð reglum stjórnsýslulaga.  Flokkun stefnanda á kortum stefnda samkvæmt gjaldskránni sé órökstudd og endurgjaldið ósanngjarnt.  Þá hefur stefndi haldið því fram að ef talið væri að umrædd gögn nytu höfundaréttarlegrar verndar þá væri verndartími þeirra liðinn.

Mælt er fyrir um verkefni og starfsemi stefnanda, Landmælinga Íslands, í lögum nr. 95/1997 um landmælingar og kortagerð.  Í 1. gr. er kveðið á um það, að lögunum sé ætlað að tryggja að ávallt séu til nauðsynlegar staðfræðilegar og landfræðilegar upplýsingar um landið og að unnið sé að söfnun og úrvinnslu upplýsinga er hafi gildi fyrir landmælingar og kortagerð á Íslandi.  Samkvæmt 2. gr. er hlutverk Landmælinga Íslands að vinna að verkefnum á sviði landmælinga og kortagerðar og eru þau verkefni nánar útfærð í 4. gr. laganna.  Í 1. mgr. 8. gr. laganna er kveðið á um eignarrétt ríkisins að öllum réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast.  Í 2. mgr. 8. gr. er mælt fyrir um að stofnunin gæti hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi.  Þá segir í 3. mgr. að um höfundarétt gildi að öðru leyti höfundalög nr. 73/1972 með síðari breytingum.

Í málinu er því haldið fram af hálfu stefnda að þau stafrænu gögn sem hann keypti úr gagnagrunni stefnanda séu ekki þess eðlis að þau njóti höfundaréttarlegrar verndar.  Hæðartölur, útlínur landsins, lega jökla og árfarvegir séu staðreyndir sem stefnandi geti ekki átt höfundarétt að.  Þá séu kort stefnda sjálfstæð höfundarverk sem styðjist við gögn þau sem keypt voru á stafrænu formi úr grunni stefnanda. 

Í 3. mgr. 1. gr. höfundalaga nr. 73/1972 kemur fram að uppdrættir, teikningar, mótanir, líkön og önnur þess háttar gögn, sem fræðslu veita um málefni eða skýra þau, njóti verndar með sama hætti og bókmenntaverk.   Lögum nr. 73/1972 hefur m.a. verið breytt með lögum nr. 60/2000, en þau tóku gildi 8. maí 2000.  Með þeirri lagasetningu var höfuðmarkmiðið að laga íslenska höfundalöggjöf að tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 96/9 um lögvernd gagnagrunna, sem endurspeglast í 6. og 50. gr. höfundalaga.  Í 6. gr. er fjallað um hina höfundaréttarlegu vernd gagnagrunna og sérstaka vernd framleiðenda gagnagrunna í 50. gr.  Þá er kveðið á um það í 6. mgr. 63. gr. að vernd gagnagrunna samkvæmt 50. gr., sem gerðir séu á tímabilinu frá 1. janúar 1983 til gildistöku laganna haldist til 1. janúar 2016.   

Í málinu hefur því ferli verið lýst sem á sér stað við færslu frumgerðar ferðakorts Landmælinga Íslands í mælikvarðanum 1:500.000 yfir á stafrænt form. Ferðakortið kom upphaflega út í kringum 1978.  Grunnurinn að því korti voru svonefnd Atlaskort, útgefin af Geodætisk Institut Í Kaupmannahöfn, í mælikvarðanum 1:100.000.  Gagnagrunnurinn IS 500V, sem stefndi keypti umrædd gögn úr, er byggður á ofangreindu ferðakorti. 

Eins og áður segir er óumdeilt er að stefndi keypti gögn á stafrænu formi úr gagnagrunni stefnanda til kortagerðar og greiddi fyrir það 186.750 krónur með virðisaukaskatti.  Söluskilmálar voru undirritaðir 2. júlí 1997 af Erni Sigurðssyni, þáverandi starfsmanni stefnanda og Sigurði Svavarssyni, framkvæmdastjóra stefnda.  Var um að ræða hæðarlínugrunn, vegþekju og vatnaþekju.  Þá liggur fyrir að stefndi gaf út kortabók, ferðakort og fjórðungskort á árinu 2000 og notaði m.a. til þess gögn stefnanda, án þess að óska eftir sérstöku birtingaleyfi þar að lútandi eða greiða birtingagjald samkvæmt þágildandi gjaldskrá nr. 323/1999. 

Eins og áður greinir njóta landfræðilegar upplýsingar verndar samkvæmt 3. mgr. 1. gr. höfundalaga. Gögn þau sem stefndi keypti úr stafrænum gagnagrunni stefnanda í júlí 1997 eru samkvæmt framansögðu og eins og þeim hefur verið lýst því þess eðlis að þau njóta slíkrar verndar.

 Fram er komið að grunnurinn að kortum stefnda voru umrædd gögn stefnanda.  Þá liggur fyrir að við kaup stefnda á áðurgreindum gögnum úr stafrænum grunni stefnanda skuldbatt stefndi sig til að fá sérstakt birtingarleyfi hjá stefnanda ef hann hygðist birta, fjölfalda eða dreifa gögnunum unnum eða óunnum.  Með vísan til ofanritaðs bar stefnda því að greiða stefnanda fyrir þessa notkun gagnanna.    

 Gjaldskrá sú sem krafa stefnanda byggir á er nr. 323/1999.  Í 1. gr. er mælt fyrir um gjaldtökuheimild stofnunarinnar.  Þar segir að Landmælingar Íslands gefi út kort og framleiði landfræðilegar upplýsingar.  Fyrir sölu, birtingu og útgáfu efnis og sérhæfða þjónustu sem veitt er samkvæmt gjaldskránni skuli stofnunin innheimta gjöld af viðskiptamönnum sínum.  Í orðskýringarákvæði 2. gr. segir um efni frá Landmælingum Íslands að þar sé átt við allar upplýsingar, þ.m.t. öll gögn og annað efni frá Landmælingum Íslands, sem nýtur höfundaréttar.  Í 3. gr. um höfundarétt segir að ríkið sé eigandi að öllum réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast.  Stofnunin gæti hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi.  Um höfundarétt gildi að öðru leyti höfundalög nr. 73/1972 með síðari breytingum. 

Stefndi hefur haldið því fram, verði talið að umrædd gögn njóti höfundaréttarlegrar verndar, að gjaldskrá þessi eigi sér ekki lagastoð.  Þágildandi 10. gr. laga nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, mælti fyrir um gjaldtökuheimildir stefnanda og sé hún takmörkuð við sölu á sérhæfðum upplýsingum og gögnum og þjónustugjöldum.  Þann 21. desember 2000 hafi lögum nr. 95/1997 verið breytt með lögum nr. 171/2000.  Þá fyrst hafi komið inn möguleg lagastoð fyrir gjaldskránni í þeim tilvikum þar sem um höfundarétt er að ræða og hóflegt gjald.  Stefndi telur augljóst að óþarfi hafi verið að bæta inn nýrri gjaldtökuheimild í lögin væri hún þegar tryggð en sú heimild tekur til sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar.  Í greinargerð með frumvarpinu segi að í greininni sé lagt til að ákvæði um fjármögnun Landmælinga Íslands verði gerð skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hafi heimild til að taka gjald.

Í 10. gr. laganna um fjármögnun eins og hún hljóðaði, og máli skiptir fyrir úrlausn þessa máls, er kveðið á um það í tveimur töluliðum hvernig stofnunin skuli afla sér tekna með tilteknum hætti.  Samkvæmt 1. tl. skal það gert með sölu á sérhæfðri þjónustu og upplýsingum og samkvæmt 2. tl. með þjónustugjöldum vegna afgreiðslu gagna.  Þá er kveðið á um það að gjaldtaka skuli ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir.  Í frumvarpi til laga nr. 95/1997 var þetta ákvæði sem þá var 12. gr. frumvarpsins orðað með nákvæmari hætti.  Samkvæmt 1. tl. skyldi tekna aflað með sölu á sérhæfðri þjónustu, afnotum af gögnum í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu, þar með töldum kortum og stafrænum upplýsingum sem byggjast á upplýsingagrunni stofnunarinnar.  Samkvæmt 2. tl. með sölu á sérhæfðri þjónustu á sviði loftmynda og fjarkönnunar, landmælinga og kortagerðar sem sérstaklega er óskað eftir af viðskiptavinum stofnunarinnar og samkvæmt 3. tl. með þjónustugjöldum vegna afgreiðslu gagna.  Gjaldtaka skyldi samkvæmt 2. mgr. vera ákvörðuð í gjaldskrá.  Af lögskýringar-gögnum má ráða að ekki hafi þótt ástæða til að hafa ákvæðið eins ítarlegt og frumvarpið gerði ráð fyrir og væri eðlilegt að nánari reglur væru mótaðar af framkvæmdavaldinu.  Voru því lagðar til breytingar á 1. og 2. tl. í því skyni að skýra ákvæðið.  Í 1. tl. var því einungis kveðið á um að stofnunin aflaði sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu og upplýsingum.  Ákvæðinu var aftur breytt með lögum nr. 171/2000 sem tóku gildi 14. desember 2000.

Ekki er hægt að fallast á það með stefnda að umrædd breyting á ákvæðinu í meðförum þingsins bendi til þess að undanskilja hafi átt gjaldtöku vegna gagna eins og stafrænna upplýsinga sem byggjast á upplýsingagrunni stofnunarinnar sem upphaflega voru tiltekin í frumvarpinu.  Benda lögskýringargögn ekki í þá átt og verður ekki annað ráðið en ástæða þessarar breytingar hafi verið sú að gera ákvæðið einfaldara og skýrara.  Það að ákvæðinu hafi aftur verið breytt með lögum nr. 171/2000 þar sem það var gert ítarlegra þykir ekki breyta þessari túlkun. 

Ekki verður séð að ákvæði stjórnsýslulaga eigi við um ágreining aðila eða umrædda gjaldskrá, sem stefnandi byggir kröfu sína á.  Þá verður ekki séð að samkeppnislög firri stefnanda rétti til þess að krefja stefnda um greiðslu fyrir birtingu og notkun efnis, sem stefndi kaus að kaupa af stefnanda og nota við kortagerð sína.

Af hálfu stefnda hefur því m.a. verið haldið fram að flokkunin samkvæmt gjaldskránni nr. 323/1999 hafi verið röng þar sem þau gögn sem stefndi notaði við kortagerð sína hafi verið undir 10% sem leitt hefði til þess að beita hefði átt gjaldtöku samkvæmt flokki 3 en ekki flokki 2 eins og stefnandi gerði.  Þó svo stefndi hafi við kortagerð sína einnig notast við aðrar upplýsingar, en þau gögn sem hann keypti af stefnanda hefur ekki verið sýnt fram á að við kortagerðina á árinu 2000 hafi vægi gagna, sem stefndi upphaflega keypti af stefnanda til kortagerðarinnar, minnkað þannig að fella eigi gjaldtökuna undir annan flokk.   Verður því þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari málsástæðu stefnda.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið ber því að taka til greina dómkröfu stefnanda, eins og hún er fram sett.

Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

   Stefndi, Mál og menning hf., greiði stefnanda, Landmælingum Íslands, 2.737.117 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 8. janúar 2001  til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludag.

   Stefndi greiði stefnanda 250.000 krónur í málskostnað.