Print

Mál nr. 70/2002

Lykilorð
  • Jarðalög
  • Forkaupsréttur
  • Sveitarstjórn
  • Stjórnsýsla
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003.

Nr.70/2002.

Dalabyggð

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Guðjóni Smára Agnarssyni

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

 

Jarðalög. Forkaupsréttur. Sveitarstjórn. Stjórnsýsla. Sératkvæði.

 

G og D deildu um forkaupsrétt D að jörðinni Sælingsdalstungu á grundvelli 30. gr. jarðalaga 65/1976. Byggði sveitarstjórnin á því að þannig yrði hagsmunum sveitarfélagsins best borgið þar sem jörðin lægi að Laugum þar sem hún tæki þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í þeim tilgangi að treysta búsetu í sveitarfélaginu í heild sinni, jafnframt því að tryggja átti vatnsból sveitarinnar. Fallist var á það með D að hagsmunir þess af eflingu ferðaþjónustu væru brýnir og að málefnalegar ástæður hefðu legið til grundvallar ákvörðun sveitarstjórnar um að styðja á þennan hátt þá uppbyggingu sem þegar var fyrir hendi. Þegar hugað væri að því hvort ná mætti sama markmiði með samstarfi við G um frekari uppbyggingu var talið að játa yrði sveitarstjórnum svigrúm um mat á því hvort forkaupsrétti skyldi beitt þegar fyrir lægi að stefnt væri að lögmætu markmiði, sbr. og 78. stjórnarskrárinnar. Var D því sýknað af kröfum G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 7. febrúar 2002. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila varðar forkaupsrétt áfrýjanda að jörðinni Sælingsdalstungu í Dalabyggð. Jörðin, sem er á söguslóðum Laxdælu og Sturlungu, var boðin til sölu í júlí 2000. Hún var á söluyfirliti talin landmikil, um það bil 1500 til 2000 hektarar, þar af tún um 28 hektarar. Jörðin var sögð liggja í Sælingsdal að hluta en einnig í Svínadal og Seljadal, að nokkru kjarri vaxin og mjög góð til fjárbeitar. Jörðinni fylgi 25% af vatnasvæði Sælingsdalsár og Leysingjadalsár, sem falli í Laxá og sé veiði í ánum. Þetta sé gott rjúpna- og berjaland. Á jörðinni hafi verið rekið sauðfjárbú og séu gripahús nýleg. Jörðina átti að selja án bústofns og hafði fullvirðisréttur verið seldur frá henni.

 Næsti bær við Sælingsdalstungu er Laugar þar sem áfrýjandi hefur frá 1996 í félagi við Búnaðarsamband Dalasýslu og Byggðastofnun verið að byggja upp og reka aðstöðu fyrir ferðamenn. Þar eru nú hótel, íþróttahús, sundlaug og byggðasafn.

Stefndi gerði 24. ágúst 2000 kauptilboð í umrædda jörð. Var því tekið og áfrýjanda sent ljósrit kauptilboðsins 3. september sama ár og boðinn forkaupsréttur að jörðinni í samræmi við 32. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Samkvæmt ákvæðinu hafði sveitarstjórn 30 daga frest til að svara tilboðinu. Með bréfi 15. sama mánaðar tilkynnti áfrýjandi stefnda að til stæði að taka ákvörðun um forkaupsrétt á grundvelli jarðalaga og var honum gefinn kostur á að tjá sig um fyrirætlanir sínar varðandi jörðina og jafnframt vitnað til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að áfrýjanda bæri að sjá til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en ákvörðun yrði tekin. Stefndi svaraði erindinu samdægurs og kvað sig og eiginkonu sína ráðgera fasta búsetu á jörðinni og ætla að stunda þar landbúnað í víðasta skilningi. Kom fram að þau hygðust fyrst í stað einbeita sér að skógrækt og jarðrækt, en einnig halda áfram því starfi, sem unnið hefði verið á jörðinni við uppbyggingu sumarhúsabyggðar samkvæmt samþykktu skipulagi. Jafnframt nefndi hann að þeim hefði dottið í hug bleikjueldi, yrði unnt að fá til þess heitt vatn. Þá nefndi hann að fyrri eigandi hefði látið sig dreyma um að gera golfvöll á jörðinni og þætti þeim það skemmtileg hugmynd.

Á fundi sínum 21. september 2000 ákvað sveitarstjórn að neyta forkaupsréttar að jörðinni á grundvelli jarðalaga. Byggði sveitarstjórn á því að þannig yrði hagsmunum sveitarfélagsins best borgið. Vísað var til þess að Sælingsdalstunga lægi að landi Lauga þar sem áfrýjandi tæki þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í þeim tilgangi að treysta eins og unnt væri búsetu í byggðarlaginu. Var talið að land jarðarinnar væri vel fallið til þjónustu við ferðamenn og hentaði meðal annars vel til skógræktar og hvers konar útivistar. Þá væri ætlunin að gera hluta landsins að fólkvangi. Ennfremur var nefnt að sveitarfélagið ætti vatnsréttindi í landi jarðarinnar og að nýting þeirra skipti mjög miklu máli við að treysta búsetu í byggðarlaginu. Loks sagði í ályktuninni að með því að taka þátt í ferðaþjónustu í Dalasýslu væri sveitarstjórn að gera atvinnulíf í Dalabyggð fjölbreyttara þannig að búseta á svæðinu stæði ekki og félli með hefðbundnum búskap.

Stefndi kærði ákvörðun sveitarstjórnar til landbúnaðarráðuneytisins 25. október 2000, en ráðuneytið staðfesti ákvörðun áfrýjanda með úrskurði 7. desember 2000. Áfrýjandi hafði 13. október 2000 gengið frá kaupsamningi um eignina og yfirtöku áhvílandi veðskulda og á fundi sveitarstjórnar 26. febrúar 2001 voru samþykktar tilteknar ráðstafanir til undirbúnings nýtingar og skipulagningar jarðarinnar. Stefndi tilkynnti áfrýjanda síðan með símbréfi 25. apríl 2001 þá ætlun sína að bera málið undir dómstóla. Samkvæmt framburði sveitarstjórnarmanna virðist eftir það frekari aðgerðum á jörðinni hafa verið slegið á frest, aðeins gerðar ráðstafanir til að halda henni við.

           Fyrir liggur að vatn til byggðarinnar í Búðardal er tekið í landi jarðarinnar og að mikil uppbygging menningartengds ferðamannaiðnaðar fer nú fram í Dalabyggð með þátttöku sveitarfélagsins.

II.

Fyrir Hæstarétti reisir áfrýjandi sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bendir hann á að í samþykktu kauptilboði sé tiltekið að tilboðsgjafi sé stefndi fyrir hönd óstofnaðs hlutafélags. Fyrir liggi að hann hafi ásamt eiginkonu sinni stofnað einkahlutafélagið Tungustapa sem samkvæmt gögnum málsins hafi verið ætlað að eiga jörðina. Málsástæða þessi var ekki höfð uppi í héraði og féllst áfrýjandi þannig á aðild stefnda í málinu. Verður því ekki breytt fyrir æðra dómi.

Með vísan til rökstuðnings héraðsdóms verður ekki á það fallist að áfrýjandi skuli sýkn af kröfum stefnda fyrir tómlæti hans við að hafa þær uppi fyrir dómi.

Að framan er því lýst að sveitarstjórn Dalabyggðar hafði, áður en hún tók ákvörðun um að neyta forkaupsréttar samkvæmt 30. gr. jarðalaga, ritað stefnda og boðið honum að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Auk þess höfðu oddviti og formaður byggðaráðs, hvor í sínu lagi, rætt við hann í síma um fyrirætlanir hans varðandi jörðina. Sveitarstjórnarmenn í Dalabyggð gjörþekkja staðhætti og eiga að hafa yfirsýn yfir þau atriði sem  áhersla er á lögð í ákvörðun þeirra. Verður ekki talið að á það hafi skort að stefndi hafi komið að sjónarmiðum sínum og að sveitarstjórnarmenn hafi ekki rannsakað málsefnið nægilega áður en þeir tóku ákvörðun sína. Er þá einnig til þess að líta að í lögum er markaður nokkuð skammur tími til þess að taka ákvörðun um forkaupsrétt, eða 30 dagar, svo sem áður greinir. Verður ákvörðun áfrýjanda ekki hnekkt á grundvelli 10. eða 13. gr. stjórnsýslulaga.

III.

Áfrýjandi tók ákvörðun um að nýta boðinn forkaupsrétt með heimild í 30. gr. jarðalaga og reisti hana á grundvelli laganna. Fer um niðurstöðu málsins eftir skýringum á ákvæðum þeirra, þ.e. hvort með ákvörðuninni hafi verið stefnt að lögmætu markmiði. Þá ber að hyggja að því hvort rökstuðningur áfrýjanda fyrir ákvörðuninni var málefnanlegur og hagsmunir hans brýnir. Verður þá að hafa í huga að ákvörðunin var íþyngjandi fyrir stefnda og til þess fallin að raska áformum hans.

Í 1. gr. jarðalaga segir: „Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda.“  Af greinargerð, sem fylgdi frumvarpi að lögunum, má ráða að ætlun löggjafans var að veita byggðarlögum utan þéttbýlis meira áhrifavald um skipulag byggðar, styrkja aðstöðu bænda og sveitarfélaga til jarðakaupa. Óumdeilt er að jörðin Sælingsdalstunga er utan þéttbýlis og að heimild 30. gr. jarðalaga um forkaupsrétt sveitarfélaga getur átt við um jörðina. Seljandi jarðarinnar hefur fallist á að selja áfrýjanda jörðina og fengið fullt verð greitt fyrir hana. Markmið sveitarstjórnar áfrýjanda með nýtingu heimildarinnar, eins og það kom fram í ákvörðun hennar sem áður er lýst, var að treysta uppbyggingu ferðaþjónustu, sem hafin var, í þeim tilgangi að treysta á þann hátt búsetu í sveitarfélaginu í heild sinni, en vegna nágrennis við Laugar er jörðin sérstaklega vel til þessa fallin. Jafnframt þessu átti að tryggja vatnsból sveitarinnar. Verður að fallast á það með áfrýjanda að hagsmunir hans af eflingu ferðaþjónustu séu brýnir og að málefnalegar ástæður hafi legið til grundvallar ákvörðun sveitarstjórnar um að styðja á þennan hátt við þá uppbyggingu sem þegar var fyrir hendi. Aðilar deila einnig um það hvort ná mátti sama markmiði með samstarfi við stefnda um frekari uppbyggingu, þegar litið er til framtíðaráætlana hans varðandi jörðina. Það var hins vegar mat sveitarstjórnarinnar að hún þyrfti að tryggja sér eignarhald á jörðinni til þess að ná þeim markmiðum sem að væri stefnt og þeim yrði ekki náð með öðru og vægara móti, sem ekki væri jafn íþyngjandi gagnvart stefnda. Verður að játa sveitarstjórnum svigrúm um mat á því hvort forkaupsrétti skuli beitt, þegar fyrir liggur að stefnt er að lögmætu markmiði, sbr. og 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995.

Að framangreindum sjónarmiðum virtum verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

                                                              Dómsorð:

        Áfrýjandi, Dalabyggð, skal sýkn af kröfum stefnda, Guðjóns Smára Agnarssonar, í máli þessu.

        Málskostnaður fellur niður.

 

 

 


Sératkvæði

Gunnlaugs Claessen og

Haralds Henryssonar

            Við erum sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um sýknukröfu áfrýjanda, er lýtur að aðildarskorti og tómlæti.

            Eins og fram kemur í héraðsdómi skýrði áfrýjandi ákvörðun sína um beitingu forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu 21. september 2000 með því að hagsmunum sveitarfélagsins yrði þannig best borgið með vísan til þess að jörðin lægi að landi Lauga, þar sem áfrýjandi tæki þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í þeim tilgangi að treysta eins og unnt væri búsetu í sveitarfélaginu. Stæði áfrýjandi mun betur að vígi við frekari uppbyggingu ferðaþjónustu í sýslunni ef forkaupsréttar yrði neytt, enda bjóði land jarðarinnar upp á ýmsa kosti í sambandi við þjónustu við ferðamenn og henti meðal annars vel til skógræktar og hvers konar útivistar. Einnig var til þess vísað að sveitarfélagið hygðist gera landið að hluta til að fólkvangi og að það ætti þar einnig vatnsréttindi og skipti nýting þeirra miklu fyrir sveitarfélagið.

            Í bréfi stefnda til áfrýjanda 15. september 2000 hafði hann lýst hugmyndum sínum um nýtingu jarðarinnar. Kom þar meðal annars fram að hann hygðist búa með fjölskyldu sinni á jörðinni, stunda þar ýmis konar landbúnað og í byrjun myndi hann einkum einbeita sér að skógrækt og jarðrækt. Einnig yrði haldið áfram því starfi, sem unnið hefði verið við uppbyggingu sumarbústaðabyggðar á jörðinni í samræmi við skipulag.

            Af framansögðu verður að telja ljóst að áform stefnda fóru að verulegu leyti saman við hugmyndir áfrýjanda, meðal annars varðandi uppbyggingu ferðamennsku, auk þess sem hann hugðist stunda landbúnað á jörðinni. Þeir hagsmunir, sem áfrýjandi bar fyrir sig, lutu hins vegar ekki beint að landbúnaði, sbr. 1. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Eins og málið lá fyrir bar áfrýjanda að kanna frekar áform stefnda og hvort þau gætu farið saman við hagsmuni áfrýjanda. Þetta gerði hann ekki og hefur honum ekki tekist að sýna fram á að lögmætum hagsmunum hans hafi verið stefnt í hættu við það að kaup stefnda á jörðinni næðu fram að ganga, en eins og í héraðsdómi segir ber að hafa í huga að beiting forkaupsréttar var íþyngjandi fyrir hann og inngrip í samningsfrelsi.

            Ljóst verður og að telja að samkvæmt kaup- og leigusamningi milli þáverandi Laxárdalshrepps og eiganda Sælingsdalstungu 3. júní 1980 voru vatnsréttindi áfrýjanda fyllilega tryggð og geta þau engu skipt við úrlausn þessa máls.

            Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, teljum við að staðfesta beri hann og dæma áfrýjanda til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 3. desember 2001.

                Mál þetta var höfðað með birtingu stefnu á hendur stefndu, hreppsnefnd Dalabyggðar, 30. maí 2001 og á hendur báðum réttargæslustefndu 31. sama mánaðar. Það var þingfest 5. júní 2001 og dómtekið 7. nóvember sl. að lokinni aðalmeðferð.

Stefnandi er Guðjón Smári Agnarsson, kt. 220748-4059, Brekkuseli 19 Reykjavík. Stefnt er hreppsnefnd Dalabyggðar, kt. 510694-2019, Miðbraut 11 Búðardal. Stefnt er til réttargæslu Jóni J. Benediktssyni, kt. 150847-7969, og Guðrúnu Júlíönnu Ingvarsdóttur, kt. 030755-4999.

Dómkröfur

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1. Að felld verði úr gildi ákvörðun hreppsnefndar Dalabyggðar, sem tekin var á fundi nefndarinnar 21. september 2000, um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu samkvæmt jarðalögum nr. 65/1976 og ganga inn í kaupsamning stefnanda og réttargæslustefndu um jörðina Sælingsdalstungu í Dalabyggð, Dalasýslu.

2. Að viðurkennt verði að hreppsnefnd Dalabyggðar hafi glatað rétti sínum til þess að neyta forkaupsréttar að Sælingsdalstungu og ganga inn í kaupin.

Þá krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að meðtöldum áhrifum 24,5 % virðisaukaskatts á málflutningsþóknunina.

Á hendur réttargæslustefndu er gerð sú dómkrafa að þau veiti stefnanda styrk í málinu og gæti þar réttar síns.

                        Stefnda krefst þess að hann verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Jafnframt er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á málskostnað.

                Réttargæslustefndu hafa ekki sótt þing og ekki látið málið til sín taka að neinu leyti.

Málavextir

Jörðin Sælingsdalstunga í Dalabyggð (áður Hvammshreppi) var sett í sölu hjá Fasteignamiðstöðinni í Reykjavík um miðjan júlí 2000.  Í söluyfirliti fyrir jörðina á dskj. nr. 3, sem dagsett er 4. ágúst 2000, er jörðinni lýst svo:

,,Sælingsdalstunga í Dalabyggð (Hvammshreppi) er á söguslóðum Laxdælu. Jörðin er mjög landmikil talin vera um það bil 1500 til 2000 ha þar af um 28 ha. tún. Jörðin er að hluta til í Sælingsdal og Svínadal einnig á jörðin Seljadal. Jörðin er að hluta til kjarri vaxin, mjög gott beitiland fyrir sauðfé, allt fé í heimahaga. Jörðin á 25% í vatnasvæði Sælingsdalsár og Leysingjadalsá sem falla út í Laxá og voru veiðitekjur 90 þús. sl. ár.  Einnig er mikið rjúpnaland þarna og hefur það verið leigt út.  Gott berjaland.  Á jörðinni er nú rekið sauðfjárbú með nýlegum fjárhúsum, byggðum 1984 og 1986 fyrir 480 fjár með vélgengum kjallara auk hlöðu með þrem flatgryfjum. Á jörðinni er 125,4 fm. íbúðarhús byggt 1953. Húsið sem er hæð og ris er í góðu ásigkomulagi, steypt neðri hæðin en timbur í risi, steypt gólf á milli. Á neðri hæðinni eru tvær forstofur, gangur, eldhús, tvær stofur, eitt herb. og baðherbergi.  Uppi eru þrjú herbergi.  Húsið er klætt að utan með nýlegum gluggum. Sést út á Hvammsfjörð.  Laugar í Sælingsdal er næsti bær, þar er nú skóli sem rekinn er sem hótel á sumrin.  Mjög áhugaverð jörð, fallegt er þarna allt um kring og mikill fjölbreytileiki í landslagi.  Jörðin selst án bústofns, véla og framleiðsluréttar. Uppdráttur af landi á skrifstofu FM. Verð 22,0 millj.”

Frammi liggur í málinu yfirlýsing réttargæslustefnda, Jóns Benediktssonar, dags. 7. ágúst 1996, þinglýst 9. ágúst s.á.  Þar kemur fram að 41 sumarbústaðalóð hefur verið skipulögð í landi Sælingsdalstungu. Um er að ræða skipulagt sumarbústaðasvæði sem nefnist Tunguskógur og er syðst í landinu, milli Leysingjastaðaár og Laugaár.  Fram kemur í yfirlýsingunni að teikningar séu staðfestar af Skipulagi ríkisins og áritaðar af byggingafulltrúa og að fyrir liggi samþykki jarðanefndar.

Stefnandi gerði eigendum jarðarinnar, réttargæslustefndu í máli þessu, tilboð í jörðina hinn 18. ágúst 2000, f.h. óstofnaðs hlutafélags.  Fékk stefnandi gagntilboð frá réttargæslustefndu, og 24. ágúst 2000 komst á bindandi kaupsamningur milli stefnanda og réttargæslustefndu um jörðina Sælingsdalstungu.

Stefnandi og eiginkona hans, Sigríður Thoroddsen, stofnuðu einkahlutafélagið Tungustapa 29. ágúst 2000. Segir stefnandi að það hafi verið gert í tengslum við kaupin á jörðinni Sælingdalstungu.  Var félagið skráð til heimilis í Sælingsdalstungu. Tilgangur félagsins er hvers konar landbúnaður, heildsala, smásala, fjárfestingar, rekstur fasteigna og lánastarfsemi.

Samningur stefnanda og réttargæslustefndu var með tveimur bréfum Fasteignamiðstöðvarinnar, dags. 3. september 2000, sendur til stefndu, hreppsnefndar Dalabyggðar, og jarðanefndar Dalasýslu, og var óskað eftir afstöðu nefndanna til aðilaskipta að jörðinni samkvæmt fyrirliggjandi kaupsamningi (samþykktu kauptilboði).

Með bréfi sveitarstjóra Dalabyggðar, dags. 15. september 2000, var stefnanda gerð grein fyrir því að sveitarstjórn Dalabyggðar hefði til meðferðar kaupsamning um Sælingsdalstungu og var þess óskað að stefnandi gerði ,,sveitarstjórn nákvæma grein” fyrir því hvað hann hygðist fyrir með kaupunum á Sælingsdalstungu.  ,,M.a. verði upplýst hvort föst búseta verði á jörðinni og hvaða starfsemi er þar fyrirhuguð, (landbúnaður eða önnur nýting).” Stefnandi svaraði samdægurs með bréfi til Dalabyggðar, þar sem fram komu upplýsingar um nýtingaráform kaupanda á jörðinni. Þar segir stefnandi að hann og kona hans ætli að flytjast í Sælingstalstungu ,,í maí eða júní á næsta ári”, þ.e. vorið 2001. Um sama leyti muni þau selja raðhús sem þau eigi í Reykjavík. ,,Við ráðgerum fasta búsetu í Sælingsdalstungu um ókomin ár,” segir í bréfinu. Þá er vikið að tilgangi einkahlutafélags, sem stofnað var um kaupin: ,,Við hyggjumst stunda landbúnað í víðasta skilningi þess orðs. Til þess að byrja með munum við einbeita okkur að skógrækt og jarðrækt. Einnig munum við halda áfram því starfi sem unnið hefur verið við uppbyggingu sumarbústaðabyggðar á jörðinni samkvæmt skipulagi.” Í bréfinu eru ennfremur nefnd bleikjueldi og golfvöllur sem hugsanlegir möguleikar til nýtingar lands.

Auk þess sem stefnandi gerði þannig grein fyrir áformum sínum um nýtingu jarðarinnar, hafði hann áður en hann skrifað bréfið talað í síma við alla hreppsnefndarmenn Dalabyggðar.  Í greinargerð stefndu segir í lýsingu málavaxta: ,, Áður en sveitarstjórn tók ákvörðun í málinu ræddu oddviti Sigurður Rúnar Friðjónsson og formaður byggðarráðs Jónas Guðmundsson við stefnanda og í þeim samtölum kom fram að áform stefnanda um nýtingu á jörðinni voru í mörgum atriðum óljós og voru orð hans ekki að öllu leyti í samræmi við það sem síðar kom fram í svarbréfi hans til sveitarstjórnar.”

Hinn 21. september 2000 tók hreppsnefnd Dalabyggðar þá ákvörðun að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu og ganga inn í samning stefnanda og réttargæslustefndu. Bókun hreppsnefndar vegna málsins er svohljóðandi:

,,Erindi frá Fasteignamiðstöðinni, dags. 3. september 2000, vegna sölu jarðarinnar Sælingsdalstungu.  Oddviti lagði fram eftirfarandi tillögu: Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkir að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu á grundvelli jarðalaga, sbr. kaupsamning dags. 24. ágúst 2000 sem sendur hefur verið sveitarstjórn.  Ákvörðun sveitarstjórnar byggir á því að hagsmunum sveitarfélagsins verði best borgið með því að neytt verði forkaupsréttar.  Land Sælingsdalstungu liggur að landi Lauga þar sem Dalabyggð tekur þátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í þeim tilgangi að treysta eins og hægt er búsetu í sveitarfélaginu.  Sveitarstjórn álítur að Dalabyggð standi mun betur að vígi við uppbyggingu ferðaþjónustu í Dalasýslu neyti sveitarstjórn forkaupsréttar enda býður land Sælingsdalstungu upp á mikla möguleika í sambandi við þjónustu við ferðamenn og hentar m.a. vel til skógræktar og hvers konar útivistar.  Þá hyggst sveitarfélagið gera landið að hluta til fólkvangi.  Dalabyggð á einnig vatnsréttindi í landi Sælingsdalstungu en nýting þeirra skiptir sveitarfélagið mjög miklu máli til að treysta búsetu í sveitarfélaginu.  Með því að taka þátt í ferðaþjónustu í Dalasýslu er sveitarstjórn að gera atvinnulíf í Dalabyggð fjölbreyttara þannig að búseta á svæðinu standi ekki og falli með hefðbundnum búskap.  Jafnframt samþykkir sveitarstjórn að veita sveitarstjóra heimild til að taka lán hjá Búnaðarbanka Íslands hf. vegna kaupanna.  Tillagan borin upp og samþykkt með 4 atkvæðum.  Ástvaldur Elísson og Bryndís Karlsdóttir greiddu atkvæði á móti.”

Með bréfi sveitarstjóra Dalabyggðar til stefnanda, dags. 27. september 2000, var stefnanda tilkynnt um ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar að jörðinni og ganga inn í kaupsamning stefnanda og réttargæslustefndu.  Sömu tilkynningu fékk Fasteignamiðstöðin.  Með bréfi þáverandi lögmanns stefnanda, Helga Jóhannessonar, hrl., dags. 6. október 2000, var mótmælt þeirri ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu. ,,Af hálfu umbj.minna er því mótmælt að hreppsnefnd Dalabyggðar hafi lagaheimild til að neyta forkaupsréttar eins og atvikum er háttað í máli þessu, “ segir í bréfi lögmannsins.  Þar segir einnig að ekki verði annað séð en að fyrirætlanir og hagsmunir sveitarfélagsins og stefnanda fari saman, þ.e. að stuðla að skógrækt á landinu og eflingu ferðaþjónustu í Dalabyggð með væntanlegri sumarbústaðabyggð.  Var þess krafist að hreppsnefndin félli frá ákvörðun sinni í málinu um að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Þeirri málaleitan hafnaði byggðarráð Dalabyggðar með bréfi sveitarstjóra, dags. 11. október 2000.

Stefnandi kærði ákvörðun stefndu til úrskurðar landbúnaðarráðuneytisins með bréfi, dags. 25. október 2000.  Úrskurður ráðuneytisins var kveðinn upp 7. desember 2000. Með honum staðfesti landbúnaðarráðherra þá ákvörðun hreppsnefndar Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu og ganga inn í samning stefnanda og réttargæslustefndu.  Úrskurðarorðið svohljóðandi: “Ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 21. september 2000 um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, Dalabyggð, er staðfest.” Í framhaldi af þessu ritaði stefnandi ásamt eiginkonu sinni ráðuneytinu bréf, dags. 27. desember 2000, þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við málið, m.a. við úrskurðinn. Því bréfi svaraði ráðuneytið með bréfi 12. janúar 2001.

Málsástæður og og lagarök stefnanda.

Kröfur stefnanda eru einkum byggðar á eftirfarandi málsástæðum:

1.             Að forkaupsréttarheimild sveitarstjórnar samkvæmt 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, hafi ekki heimilað hreppsnefnd Dalabyggðar að ganga inn í fyrirliggjandi kaupsamning á grundvelli þess tilgangs sem ákvörðunin var byggð á.

2.             Að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi hvorki sinnt rannsóknarskyldu sinni né virt andmælarétt stefnanda áður en ákvörðunin var tekin.

3.             Að ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar hafi ekki verið byggð á réttum lagasjónarmiðum og jafnframt hafi sveitarstjórn með ákvörðun sinni brotið gegn  meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

1. Lagaheimild skortir.

Stefnandi segir að af bókun hreppsnefndar Dalabyggðar og bréfum lögmanns hreppsins, dags. 13. og 27. nóvember 2000, sé ljóst að tilgangur með ákvörðun meirihluta nefndarinnar um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu hafi verið að tryggja og treysta undirstöðu annarra atvinnugreina í byggðarlaginu en hefðbundins landbúnaðar, en sú viðleitni stefndu komi fram í beinni þátttöku hennar í uppbyggingu á nágrannajörðinni Laugum í Sælingsdal með það að markmiði að auka enn frekar ferðamannastraum í sýslunni.  Verði ekki annað ráðið af gögnum málsins en að heimild jarðalaga til að neyta forkaupsréttar hafi eingöngu verið beitt í því skyni að tryggja framgang annarrar atvinnustarfsemi en landbúnaðar á jörðinni.  Raunar sé hreppsnefnd með ákvörðun sinni að tryggja þátttöku sína í ,,uppbyggingu tengdri ferðaþjónustu” á allt annarri jörð.  Þá sé ennfremur ljóst að hagsmunir stefndu, Dalabyggðar, séu ekki þeir að beita forkaupsréttinum til að tryggja að jörðin verði áfram nýtt til atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar, en hins vegar áformi stefnandi slík not af landinu og hafi gert stefndu sérstaklega grein fyrir því í bréfi, dags. 15. september 2000.

Stefnandi byggir á því að að ákvæði 30. gr. jarðalaga geti ekki átt við, eins og atvikum var háttað, og hafi greinin ekki heimilað hreppsnefndinni að neyta forkaupsréttar í þeim tilgangi að kaupa jörðina til að tryggja uppbyggingu tengda ferðaþjónustu á allt annarri jörð, þ.e. Laugum. Vitnar stefnandi til rökstuðnings hreppsnefndar fyrir beitingu heimildarinnar í greinargerð lögmanns stefndu til Landbúnaðarráðuneytisins, dags. 13. nóvember 2000, en þar segi m.a. orðrétt: ,,……Eins og fram er komið taldi sveitarstjórn Dalabyggðar hagsmunum sveitarfélagsins best borgið með því að neyta forkaupsréttar að Sælingsdalstungu. Hafi sveitarstjórn ekki eignarhald á jörðinni mun það takmarka mjög fyrirhugaða uppbyggingu á Laugum auk þess sem eignarhald mun tryggja mun fjölbreyttari möguleika á sviði ferðaþjónustu í Dalabyggð.”

Stefnandi heldur því fram að forkaupsrétti sveitarstjórnar samkvæmt jarðalögum verði eingöngu beitt svo fremi sem það samræmist tilgangi jarðalaganna, sbr. nánar 1. gr. laganna, þ.e. að með kaupunum sé verið að tryggja að ná megi þeim markmiðum sem jarðalögin eiga að tryggja.  Tilgangurinn komi skýrlega fram í 1. gr. laganna og sé sérstaklega sé undirstrikaður í athugasemdum með frumvarpi því er varð að jarðalögum nr. 65/1976.  Þá vísar stefnandi í þessu sambandi til hæstaréttardóms frá 1992, bls. 1511 í dómasafni, þar sem segi m.a.:  ,,Af framansögðu er ljóst, að tilgangur jarðalaga er fyrst og fremst sá að tryggja nýtingu lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða í þágu þeirra, er landbúnað vilja stunda og með hliðsjón af hagsmunum sveitarfélaga af því, að innan vébanda þeirra geti landbúnaður þróast með eðlilegum hætti…...”  Í máli þessu hafi niðurstaða Hæstaréttar orðið sú að sveitarfélag, sem í hlut átti, gæti ekki neytt ákvæða 30. gr. jarðalaga og beitt forkaupsrétti til að ganga inn í kaup á eignarhluta í jörð.

Í því máli sem hér um ræðir hagi svo til að jörðin Sælingsdalstunga hafi verið nýtt til sauðfjárframleiðslu, en hafi á síðasta ári verið sett í sölu hjá fasteignasölu í Reykjavík og boðin án véla, bústofns og framleiðsluréttar (sauðfjárgreiðslumarks). Stefnandi hafi keypt jörðina f.h. óstofnaðs einkahlutafélags, sem hann og eiginkona hans hafi nú stofnað gagngert vegna jarðakaupanna og nýtingar á jörðinni til atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar.  Jörðin hafi þannig verið nýtt til sauðfjárræktar, en stefnandi, sem ekki hafi átt þess kost að fá jörðina keypta með greiðslumarki til sauðfjárframleiðslu, áformi því að nýta jörðina til annarrar landbúnaðarstarfsemi og hafi nefnt í því sambandi skógrækt og annars konar jarðrækt og aðrar greinar landbúnaðar, sem algengt sé orðið að stundaðar séu af bændum á lögbýlum.  Á jörðinni séu sérhæfðar byggingar og hafi stefnandi til skoðunar með hvaða hætti þær verði best nýttar.  Af hans hálfu komi bleikjueldi vel til greina, enda virðast aðstæður á jörðinni henta slíkri starfsemi. Stefnandi hafi ætlað að flytja á jörðina í fardögum 2001 og hefja starfsemi þar, en ákvörðun stefndu hafi að sjálfsögðu tafið þau áform og alla uppbyggingu á jörðinni.

Stefnandi segir að gögn málsins staðfesti að hann áformi að nýta landið til atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar.  Á engan hátt verði hins vegar ráðið af gögnum málsins að þær fyrirætlanir stefnanda sem hann gerði grein fyrir séu að einhverju leyti í ósamræmi við hagsmuni sveitarfélagsins og landbúnað á svæðinu.  Þegar af þeirri ástæðu geti stefnandi ekki fallist á að hreppsnefnd hafi verið heimilt að beita forkaupsrétti og ganga inn í samning stefnanda og réttargæslustefndu um jörðina Sælingsdalstungu.  Í öllu falli sé ljóst að slík heimild verði ekki sótt í jarðalög nr. 65/1976, enda hafi stefnda ekki sýnt fram á að þeir hagsmunir sem hún kunni að hafa haft að leiðarljósi við ákvörðun sína frá 21. september sl. um að neyta forkaupsréttar að jörðinni geti fallið innan tilgangs jarðalaga.

Þá telur stefnandi að tilvísun stefndu, hreppsnefndar Dalabyggðar, til 1. gr. jarðalaga sé í meira lagi sérkennileg og geti ekki átt við með þeim hætti sem nefndin virðist skilja ákvæðið.  Slík tilvísun hljóti að vera byggð á misskilningi um hlutverk hreppsnefnda og lagaatriði.  Þátttaka opinberra aðila eins og sveitarstjórna í uppbyggingu sem tengd er ferðaþjónustu og markmið sveitarfélaga um fjölgun ferðamanna til almannaheilla fyrir íbúa byggðarlags eigi ekkert skylt við atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar.  Ákvörðun sveitarstjórna um að neyta forkaupsréttar verði að byggjast á lögum eða samningi.  Lagareglur um forkaupsrétt sveitarstjórna í jarðalögum nr. 65/1976 hafi það eitt að markmiði að veita sveitarstjórn færi á að hafa áhrif á að jörðum innan viðkomandi sveitarfélags sé ráðstafað í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins og þeirra sem landbúnað stunda, eins og beint sé tekið fram í áðurnefndri 1. gr. jarðalaga.  Ekki verði annað séð en að nýtingaráform stefnanda og fyrirætlanir hans með því að kaupa jörðina séu í góðu samræmi við hagsmuni Dalabyggðar og þeirra sem landbúnað stunda á svæðinu.  Þá verði raunar ekki annað séð en að nýtingaráform stefnanda og sveitarfélagsins séu af sama eða mjög svipuðum toga.  Í öllu falli ættu fyrirætlanir stefnanda ekki að hafa neikvæð áhrif á þau atriði sem sveitarfélagið virðist leggja allt kapp á, þ.e. að efla ferðaþjónustu í Dalabyggð, m.a. með væntanlegri sumarbústaðabyggð á jörðinni, sem þegar hefur verið skipulögð í svonefndum Tunguskógi.

Fyrir liggi að stefnandi og eiginkona hans ætluðu að flytja á jörðina í fardögum 2001 og nýta jörðina til landbúnaðarstarfsemi ýmiss konar. Beiting forkaupsréttar af hálfu Dalabyggðar í tilefni af þeim aðilaskiptum að jörðinni Sælingsdalstungu, sem hér um ræðir, sé íþyngjandi og veruleg skerðing á samningafrelsinu, sem sé grundvallarregla í íslenskum rétti.  Heimild jarðalaga til að beita forkaupsrétti sé undantekningarheimild sem túlka ber þröngt, enda fari því  víðsfjarri að sveitarstjórnir geti óhindrað neytt forkaupsréttar að jörðum í sveitarfélaginu án tillits til málsatvika.  Í þessu máli séu einfaldlega ekki til staðar nauðsynlegar efnislegar forsendur til að taka þá ákvörðun sem deilt er um.

Stefnandi heldur því fram að með vísan til þess sem að framan er rakið beri að fella úr gildi hina umþrættu ákvörðun á þeim grundvelli að stefnda, hreppsnefnd Dalabyggðar, hafi ekki verið heimilt að beita forkaupsrétti samkvæmt 1. mgr. 30. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, í því tilviki sem um ræðir, þar sem heimildinni hafi ekki verið beitt gagngert til að tryggja áframhaldandi landbúnaðarafnot jarðarinnar, eins og áskilið er samkvæmt jarðalögum og auk þess sem stefnandi áformi slík not af jörðinni, auk búsetu þar.

2. Brot á rannsóknarreglunni og andmælarétti.

Stefnandi segir að fyrir liggi að stefnda hafi með bréfi, dags. 15. september 2000, haft samband við stefnanda í tilefni af umfjöllun og ákvörðun hreppsnefndar um kaupsamning um jörðina Sælingsdalstungu (samþykkt kauptilboð).  Að öðru leyti hafi stefnda ekki gefið stefnanda tækifæri til að tala máli sínu eða skýra fyrirætlanir sínar með kaupunum. Stefnandi hafi fengið mjög skamman frest til að gera grein fyrir áformum sínum.  Þá sé ljóst að stefndi hafi ekkert samband haft við seljendur jarðarinnar, réttargæslustefndu í máli þessu.  Á því er byggt af hálfu stefnanda að hann hafi ekki fengið fullnægjandi tækifæri til að skýra með víðhlítandi hætti sjónarmið sín í málinu, áður en nefndin tók ákvörðun sína.  Stefnandi vitnar í úrskurð landbúnaðarráðherra í þessu máli, þar sem fallist sé á það með stefnanda að stefndi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með víðhlítandi hætti vegna málsins

Þá segir stefnandi að stefnda virðist fyrst og fremst hafa byggt ákvörðun sína á upplýsingum frá einhverjum öðum en stefnanda sjálfum, án þess að upplýst sé hvaða upplýsingar hafi legið fyrir við afgreiðslu málsins sem gerðu það nauðsynlegt fyrir hagsmuni Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Ekki hafi verið aflað upplýsinga frá seljendum, a.m.k. liggi ekkert fyrir um það í málinu.  Jörðin Sælingsdalstunga hafi verið til sölu á frjálsum markaði og því hafi hverjum sem var,  þar á meðal hreppsnefnd Dalabyggðar, gefist færi á að gera seljendum tilboð í jörðina. Ákvörðun stefndu um að neyta forkaupsréttar að jörðinni sé verulega íþyngjandi ákvörðun, bæði fyrir stefnanda og réttargæslustefndu og þungbærari en ella vegna þeirra atvika að stefnandi hafi kannað, áður en hann veitti upplýsingar í málinu, hvort þess væri að vænta að slík ákvörðun yrði tekin af hálfu hreppsnefndar.  Með hinni umþrættu ákvörðun sé ekki einvörðungu ráðist gegn hagsmunum réttargæslustefndu og frelsi þeirra til að velja sér viðsemjanda, heldur sé ákvörðunin einnig mjög þungbær fyrir stefnanda, sem í góðri trú gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum um nýtingu á landi jarðarinnar til landbúnaðar.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.  Stefnandi byggir á því að stefnda hafi ekki uppfyllt þau skilyrði sem rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga setur áður en hún tók hina umdeildu ákvörðun.  Ekki verði annað séð en að stefnda hafi í öllum aðalatriðum byggt ákvörðun sína á upplýsingum sem hún fékk frá öðrum en stefnanda sjálfum og það án þess að kanna frekar hvort þær væru trúverðugar eða réttar.  Upplýsingar sem nefndin vísar til að hafi legið fyrir og segir aðrar en fram koma í bréfi stefnanda frá 15. september 2000 geti ekki verið víðhlítandi grundvöllur fyrir hreppsnefnd Dalabyggðar til að byggja á svo viðurhlutamikla ákvörðun að neyta forkaupsréttar að Sælingsdalstungu.  Slík stjórnsýsla sé og ófullnægjandi.  Þetta hafi stefndu mátt vera ljóst, þar sem stefnandi hafi, áður en málið var formlega afgreitt frá hreppsnefndinni, kannað óformlega eins og hann frekast gat, afstöðu meirihluta nefndarmanna til fyrirhugaðra aðilaskipta.  Ekki sé sýnt fram á það að fyrirætlanir stefnanda hafi að einhverju leyti verið í ósamræmi við hagsmuni sveitarfélagsins. Fram komi í gögnum málsins að stefnandi hafi símleiðis gefið aðrar upplýsingar um nýtingaráform sín sem kaupanda jarðarinnar en fram komu skriflega.  Hafi svo verið hafi stefndu borið að fá frekari skýringar frá stefnanda til að upplýsa málið að öllu leyti, enda beri stjórnvaldi að afla allra nauðsynlegra upplýsinga að eigin frumkvæði. Það hafi stefnda ekki gert og verði að bera hallann af því að málið hafi ekki verið nægilega upplýst.  Í athugasemdum með 10. gr. stjórnsýslulaga segi að það fari eftir eðli stjórnsýslumáls, svo og þeirri réttarheimild sem er grundvöllur ákvörðunar, hvaða upplýsinga stjórnvald þarf að afla, svo að rannsókn máls teljist fullnægjandi.  Við það sé miðað að mál sé nægilega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem séu nauðsynlegar til að taka efnislega rétta ákvörðun í málinu.  Síðan segir orðrétt í athugasemdunum:  ,,Því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verður almennt að gera til stjórnvalda um að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun séu réttar.”  

Stefnandi telur að með vísan til þess sem að framan segir sé ljóst að stefnda, hreppsnefnd Dalabyggðar, hafi einnig brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga og ekki virt með viðhlítandi hætti andmælarétt stefnanda.  Stefndu hafi borið að lögum skylda til að gefa stefnanda (og réttargæslustefndu) kost á að tjá sig um málið, einnig um þau gögn og allar upplýsingar sem lágu fyrir nefndinni, áður en nefndin tók ákvörðun sína, enda verði ekki fullyrt að niðurstaðan hefði orðið hin sama, ef t.d. stefnandi hefði fengið að gera nefndinni nánari og ítarlegri grein fyrir því með hvaða hætti nýta ætti jörðina.  Þá hafi verið sérstaklega mikilvægt að stefnandi fengi viðhlítandi tækifæri til að gera nefndinni grein fyrir þeirri fyrirætlan sinni að nýta hluta af jörðinni til uppbyggingar og þjónustu við ferðamenn, svo og um landbúnaðarstarfsemi á jörðinni í framtíðinni.  Slíkt hafi hlotið að skipta máli við umfjöllun og ákvörðun hreppsnefndar Dalabyggðar, þó að jörðin hefði mörg undanfarin ár verið nýtt til sauðfjárhalds.  Sérstaklega  áréttar stefnandi í þessu sambandi að hann geti alls ekki fallist á að afstaða hans til málsins og rök í því hafi legið fyrir, þannig að það leysti stefndu undan því að gæta andmælaréttarins með viðhlítandi hætti.  Stefnda hafi ekki leitað til allra málsaðila og stefnandi hafi ekki fengið að tjá sig um gögn og upplýsingar sem nefndin hafði undir höndum og virðist helst hafa ráðið afstöðu meirihluta hreppsnefndarinnar.  Þessu til viðbótar bendir stefnandi á að svo virðist sem fjárhagsleg atriði og uppbygging sem sveitarfélagið muni vera þátttakandi í á nágrannajörð, hafi ráðið mestu um að nefndin beitti heimildinni, en um það atriði hafi stefnandi aldrei fengið tækifæri til að tjá sig áður en nefndin tók ákvörðun sína í málinu.  Sama gildi um fullyrðingar stefndu um ,,afréttarnot” af landi Sælingsdalstungu og eignarhald Dalabyggðar á vatnsréttindum jarðarinnar.  Um öll þessi atriði hafi stefnandi átt lögvarinn rétt til að veita andsvör og koma að skýringum og öðrum sjónarmiðum, sem hann kynni að óska, af þessu tilefni sérstaklega.

Brot gegn rannsóknarreglunni og andmælarétti stefnanda leiðir að hans mati til þess að fella beri úr gildi hina umþrættu ákvörðun hreppsnefndar Dalabyggðar um að neyta forkaupsréttar og ganga inn í kaupsamninginn um Sælingsdalstungu.

3. Brot á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Stefnandi segir að fyrir liggi að hreppsnefnd Dalabyggðar hafi tekið ákvörðun um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu, beinlínis til að eignast jörðina sjálf til að  ,,….gera atvinnulíf í Dalabyggð fjölbreyttara þannig að búseta á svæðinu standi ekki og falli með hefðbundnum búskap” og vegna þess að “hafi sveitarstjórn ekki eignarhald á jörðinni mun það takmarka mjög fyrirhugaða uppbyggingu á Laugum auk þess sem eignarhald mun tryggja mun fjölbreyttari möguleika á sviði ferðaþjónustu í Dalabyggð.”  Vitnar stefnandi hér í málskjöl sem frá stefndu stafa. Í þessu sambandi, segir stefnandi, að hafa verði í huga að jörðin var boðin á almennum markaði, en þó hafi sveitarfélagið ekki gert neinn reka að því að bjóða í jörðina. Stefnandi hafi keypt jörðina fyrir hönd einkahlutafélags, sem áformi landbúnaðarstarfsemi á jörðinni, en með ákvörðun um að neyta forkaupsréttar að jörðinni hafi stefnda beitt valdi sínu gagngert í því skyni að koma í veg fyrir eignarhald stefnanda, sem þó hafði landbúnaðarstarfsemi í huga með kaupunum, auk fastrar búsetu fjölskyldunnar á jörðinni. Af þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu verði ekki annað ráðið en að sveitarfélagið hugsi sér sömu eða svipuð  afnot af jörðinni. Stefnandi kveðst því vera þeirrar skoðunar að lögmæt sjónarmið hafi ekki búið að baki ákvörðun stefndu um að neyta forkaupsréttar að jörðinni, heldur hafi hreppsnefndin sýnt af sér valdníðslu með því að beita valdi sínu til að svipta stefnanda eignarhaldi að jörðinni til að geta lagt hana undir sömu starfsemi á eigin vegum. Stefnanda þykir sýnt að þátttaka opinbers aðila í ferðaþjónustu sé ekki landbúnaður í venjulegum skilningi orðsins.  Í bréfi til stefndu, sem áður er nefnt, hafi stefnandi skýrt nýtingaráform sín í nánustu framtíð, sem óumdeilanlega teljist á sviði landbúnaðar.  Hann hafi ekki verið krafinn um frekari upplýsingar eða skýringar á fyrirætlunum sínum og ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um áform hreppsnefndar um að neyta forkaupsréttar, og ekkert sé komið fram um að nýtingaráform hans hafi ekki verið í fullkomnu samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins.  Í samræmi við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi stefndu því aðeins verið heimilt að taka þá íþyngjandi ákvörðun að beita forkaupsrétti, ef því markmiði, sem að var stefnt, yrði ekki náð með öðru og vægari móti.  Eignarhald Dalabyggðar á jörðinni Sælingsdalstungu hafi ekki verið nauðsynlegt til að tryggja nýtingu jarðarinnar á þann veg sem sveitarstjórn virðist ætla að nýta það, þegar af þeirri ástæðu að stefnandi hafi haft uppi sömu nýtingaráform og að auki til atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar.  Þá liggi ekkert fyrir um að eignarhald á jörðinni hafi verið nauðsynlegt vegna hugsanlegra afréttarhagsmuna eða vatnsréttinda.

Samkvæmt framansögðu er það skoðun stefnanda að stefnda hafi ekki byggt ákvörðun sína á lögmætum sjónarmiðum og brotið með henni gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna og því beri að fella ákvörðunina úr gildi.

Stefnandi vísar til framangreindra sjónarmiða um ástæður þess að fella ber úr gildi hina umþrættu ákvörðun hreppsnefndar Dalabyggðar. Einnig vísar stefnandi til dóma Hæstaréttar, einkum 1993:108, 1997:2025 og 1998:601. Jafnframt gerir stefnandi þá kröfu að viðurkennt verði að hreppsnefnd Dalabyggðar hafi glatað rétti sínum til að neyta forkaupsréttar samkvæmt jarðalögum að jörðinni Sælingsdalstungu og ganga inn í kaupsamning (samþykkt kauptilboð) um jörðina dags. 24. ágúst 2000. Verði sú krafa stefnanda tekin til greina, sé frestur sá sem tilgreindur er í 32. gr. jarðalaga nr. 65/1976 útrunninn og óeðlilegt sé að stefnda gefist að nýju kostur á að neyta forkaupsréttar að jörðinni.

                Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafan um að tekið verði tillit til 24,5 % virðisaukaskatts á málflutningsþóknunina byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Stefnandi rekur ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti sem honum ber að greiða af þóknun lögmanns síns og ber að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

                        Málsástæður og lagarök stefndu

                        Sýknukrafa stefnda byggist á eftirfarandi málsástæðum:

1)       Stefnda heldur því fram að hana beri að sýkna vegna á tómlætis stefnanda í máli þessu.

2)       Þá byggir stefnda á því að ákvörðunin um að neyta forkaupsréttar að Sælingsdalstungu hafi verið tekin á grundvelli jarðalaga nr. 65/1976 og ákvörðunin eigi sér fullkomna lagastoð.  Jafnframt er byggt á sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga, sbr. 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

3)       Stefndi byggir ennfremur á því að við umrædda ákvörðun hafi verið farið að fyrirmælum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í einu og öllu og því engin rök til að ógilda ákvörðunina á þeim grundvelli.

Tómlæti:

Stefnda vísar til þess að umrædd ákvörðun stefnda um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu hafi verið tekin á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar 21. september 2000 og í framhaldi af því hafi stefnandi borið ákvörðunina undir landbúnaðarráðherra, sem kveðið hafi upp endanlegan úrskurð í málinu  á stjórnsýslustigi 7. desember 2000. Stefnanda hafi þá, í síðasta lagi, verið mögulegt að bera málið undir dómstóla, en það hafi hann ekki gert fyrr en með stefnu sem þingfest hafi verið 5. júní 2001.  Með því að gera ekki fyrr reka að málshöfðun hafi stefnandi sýnt af sér svo mikið tómlæti að ekki verði hjá því komist að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. 

                Í jarðalögum nr. 65/1976 sé ekki kveðið á um frest tilboðsgjafa/kaupanda til að bera ákvörðun sem þessa undir dómstóla, en sá frestur geti ekki verið ótakmarkaður, enda myndi það leiða til óþolandi réttaróvissu fyrir sveitarstjórn sem neytti forkaupsréttar að jörð á grundvelli jarðalaga.  Í 18. gr.  jarðalaga sé hins vegar að finna ákvæði þar sem kveðið sér á um málshöfðunarfrest sveitarstjórnar, ef fasteign er ráðstafað andstætt fyrirmælum laganna.  Þar segi að málsókn skuli hefjast ,,innan þriggja mánaða frá því að jarðanefnd barst vitneskja um ráðstöfunina og ber að halda málinu áfram með eðlilegum hraða”.  Í 33. gr. jarðalaga sé fjallað um málshöfðunarfrest ef fasteign er ráðstafað ,,andstætt fyrirmælum laga þessara um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi, sem órétti var beittur, krafist þess að salan verði ógilt enda sé málssókn til þess hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um misfelluna og málinu fram haldið með hæfilegum hraða.”  Samkvæmt þessu þurfi sveitarstjórn að hefja málssókn innan sex mánaða frá því henni barst vitneskja um misfelluna og halda málinu áfram með hæfilegum hraða.  Upphaf frestsins verði því að miða við það þegar sveitarstjórn varð kunnugt um ráðstöfun óháð stjórnsýslumeðferð málsins.  Sveitarstjórn geti því þurft að höfða mál á grundvelli jarðalaga þótt landbúnaðarráðherra hafi ekki kveðið upp endanlegan stjórnsýsluúrskurð í málinu.  Almenna reglan um málshöfðunarfrest sveitarstjórnar á grundvelli jarðalaga komi því fram í 18. gr. laganna og því sé málshöfðunarfresturinn samkvæmt 33. gr. undantekning frá meginreglunni.

                Eins og hér hafi verið rakið sé sveitarstjórn veittur tiltekinn frestur til málshöfðunar ef fasteign er ráðstafað andstætt ákvæðum jarðalaga.  Þó tilboðsgjafa/kaupanda sé ekki veittur ákveðinn frestur til málshöfðunar í jarðalögum, telji hann á sér brotið, verði að gera kröfu til þess að viðkomandi aðili geri reka að málshöfðun innan hæfilegs frests.  Sé miðað við almennu regluna um málshöfðunarfrest í 18. gr. jarðalaga hefði stefnandi þurft að höfða mál þetta í síðasta lagi 21. desember 2000 en sé miðað við undantekningaregluna í 33. gr. jarðalaga hefði stefnandi þurft að höfða mál þetta í síðasta lagi 21. mars 2001 en þá voru liðnir sex mánuðir frá því að stefndi, sveitarstjórn Dalabyggðar, tók hina umdeildu ákvörðun.

                Þessu til stuðnings bendir stefnda jafnframt á 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt þeirri grein skuli kæra í stjórnsýslumáli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.  Samkvæmt þessu er almenni kærufresturinn á stjórnsýslustigi þrír mánuðir, og ekki sé óeðlilegt að taka mið af því þegar ákveða þurfi málshöfðunarfrest þar sem hann er ekki lögákveðinn.

                Ef stefnandi vildi ekki una hinni umdeildu ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar frá 21. september 2000, sem staðfest var með úrskurði landbúnaðarráðherra 7. desember 2000 hefði honum borið að gera reka að málshöfðun án ástæðulauss dráttar.  Um það vísar stefnda, auk þess sem að framan greinir, til almennra reglna íslensks réttar um réttaráhrif tómlætis.  Það geti ekki talist eðlilegur rekstur máls að stefnandi lét ekki þingfesta mál fyrr en átta og hálfum mánuði eftir að sveitarstjórn tók hina umdeildu ákvörðun og tæpum sex mánuðum eftir að ákvörðuninni var staðfest af æðra stjórnvaldi.

                Þegar stefndi hafi talið að frestur stefnanda til að bera málið undir dómstóla væri liðinn hafi hún hafist handa um skipulagningu á því hvernig jörðin Sælingsdalstunga skyldi nýtt í framtíðinni.  Þegar málið var höfðað hafi stefnda því ráðist í töluverða vinnu í sambandi við framtíðarnýtingu jarðarinnar og lagt drög að því að land jarðarinnar yrði skipulagt á grundvelli vilja sveitarstjórnar. Stefnda vísar í þessu sambandi til bréfs síns til Landmóturnar ehf., dags. 2. mars 2001, sem hún hefur lagt fram í málinu. Þar er vitnað til samþykktar stefndu varðandi skipulag í Sælingsdalstungu, sem gerð var á fundi hennar 26. febrúar 2001.  Þar komi fram, segir stefnda, að ætlunin hafi verið að nýta jörðina í sambandi við uppbyggingu á ferðaþjónustu í Dalabyggð.  Stefnda hafi talið fullvíst að hin umdeilda ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar myndi standa óhögguð, enda langt um liðið frá því að hún var tekin.

                Jarðalög og stjórnarskrá:

                Stefnda heldur því fram að hún hafi byggt ákvörðun sína um að neyta forkaupsréttar á jarðalögum nr. 65/1976.  Þar skipti meginmáli tilgangur jarðalaganna eins og hann komi fram í 1. gr. laganna, en þar segi að tilgangur laganna sé ,,að tryggja að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.”  Umrædd ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar byggist á þessum tilgangi jarðalaganna. 

                Eins og kunnugt sé hafi fólki í Dalabyggð eins og flestum öðrum sveitarfélögum á lands-byggðinni fækkað umtalsvert á liðnum árum og búsetuþróun því verið andstæð hagsmunum sveitarfélagsins.  Atvinnulíf í Dalabyggð hafi aðallega byggst á hefðbundnum landbúnaði, sauðfjárrækt og kúabúskap, og úrvinnslu landbúnaðarafurða.  En hefðbundinn landbúnaður hafi átt mjög undir högg að sækja á undanförnum árum á landinu öllu.  Sveitarstjórn Dalabyggðar hafi því um nokkurt skeið leitast við að treysta undirstöður annars búskapar í Dalabyggð, í víðasta skilningi þess orðs, svo og annarra atvinnugreina í Dalabyggð.  Á undan-förnum árum hafi bændur í miklum mæli farið út í ferðaþjónustu, (ferðabúskap), þ.e. alls kyns þjónustu við ferðamenn.  Stefnda hafi reynt að styðja við þessa grein landbúnaðarins með þátttöku í uppbyggingu tengdri ferðaþjónustu í Dalasýslu, m.a. á Laugum í Sælingsdal, sem er næsta jörð við Sælingsdalstungu.  Dalabyggð sé m.a. stór hluthafi í einkahlutafélaginu Dalagistingu, sem hafi keypt húsnæði fyrrum grunnskólans á Laugum og ráðist þar í umfangsmiklar endurbætur í þeim tilgangi að auka þar til muna þjónustu við ferðamenn.  Á aðalfundi Dalagistingar ehf. í október 2000 hafi verið samþykkt að auka verulega hlutafé félagsins í þeim tilgangi að halda áfram uppbyggingu á Laugum.  Í þessu sambandi megi einnig geta þess að Dalabyggð hafi tekið þátt í mikilli uppbyggingu á Eiríksstöðum í Haukadal og fyrirhugað sé að ráðast í miklar framkvæmdir í Búðardal tengdum ferðaþjónustu.  Þessar aðgerðir stefndu hafa nú þegar skilað sér í mikilli fjölgun ferðamanna í Dalasýslu og fært stefndu heim sanninn um það að ýmsir möguleikar séu á þessum vettvangi til að viðhalda búsetu í Dalabyggð.  Land Lauga og Sælingsdalstungu liggi saman, og hafi það skipt miklu máli þegar stefnda tók ákvörðun sína.  Hún telji mikla möguleika felast í því að hafa eignarhald á Sælingsdalstungu við enn frekari uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Það geri t.d. mögulegt að koma upp fólkvangi og góðu útivistarsvæði tengdu rekstri hótels á Laugum og hugsanlegri frístundahúsabyggð.

                Stefnda bendir á að Dalabyggð eigi vatnsréttindi í landi Sælingsdalstungu, (kalt vatn), og að enn frekari nýting þess geti styrkt byggð í sveitarfélaginu.  Nú sé þar tekið neysluvatn fyrir Búðardal, en áhugi sé á því að nýta vatnsréttindin enn frekar og þá geti skipt máli að sveitarfélagið hafi eignarhald á jörðinni.

                Sælingsdalstunga er landmikil jörð, segir stefnda, og muni hluti hennar nýtast sem afréttur fyrir nágranna-bændur.  En það sé mjög mikilvægt fyrir nútímabúskap aðallega vegna áherslu á lífræna framleiðslu, að sauðfjárbændur hafi tryggan aðgang að góðu beitilandi. 

                Stefnda segir að samkvæmt jarðalögum hafi sveitarstjórn heimild til að grípa inn í viðskipti manna með jarðir þannig að tryggt sé að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og eignarráð á landi og búseta á jörðum samrýmist hagsmunum sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda.  Því er sérstaklega mótmælt sem fram kemur í stefnu að uppbygging tengd ferðaþjónustu eigi ,,ekkert skylt við atvinnustarfsemi á sviði landbúnaðar.”  Eins og fram hafi komið og alþekkt sé hafi mikill fjöldi bænda snúið sér að ferðaþjónustu á liðnum árum á jörðum sínum þegar grundvöllur fyrir hefðbundnum búskap hafi brostið.  Miðað við þá miklu breytingu sem orðið hafi á atvinnuháttum í sveitum landsins á undanförnum árum og jafnvel áratugum verði ekki á það fallist að með landbúnaði í jarðalögum sé eingöngu átt við sauðfjár- og kúabúskap.  Með landbúnaði í 1. gr. jarðalaganna sé því m.a. átt við þá sem stunda ferðaþjónustu í sveitum landsins.

                Þá bendir stefnda á að samkvæmt 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 skuli sveitarfélög sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveða.  Með þessu ákvæði stjórnarskrárinnar sé sveitarfélögum tryggt ákveðið sjálfstæði þannig að önnur stjórnvöld eða aðrir aðilar eigi ekki að geta haft áhrif á ákvarðanir sveitarfélaga, sem rúmast innan sjálfstæðis þeirra.  Vegna þessa sjálfstæðis sveitarfélaga verður að ætla þeim verulegt svigrúm við mat á því hvort beiting forkaupsréttar á grundvelli jarðalaga samrýmist tilgangi laganna.

                Stjórnsýslulög:

                Rannsóknarreglan og andmælaréttur: Stefnda vísar til þess að samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald ,,sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því” og samkvæmt 13. gr. laganna skuli aðili máls ,,eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.”  Eins og rakið hefur verið var stefnanda skriflega gefinn kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en sveitarstjórn tók hina umdeildu ákvörðun, sem stefnandi gerði.  Stefnda mótmælir því sem fram kemur í stefnu að stefnandi hafi fengið skamman frest til að gera grein fyrir áformum sínum. Samkvæmt bréfi sveitarstjóra, dags. 15. september 2000, hafi stefnanda verið gefinn frestur til 19. sama mánaðar til andsvara, en hann hafi kosið að svara bréfinu samdægurs.  Jafnframt hafi bæði bæði oddviti og formaður byggðarráðs Dalabyggðar rætt við stefnanda.  Oddviti hafi einnig rætt við seljendur Sælingsdalstungu , réttgæslustefndu, og hafi þeir ekki haft athugasemdir við að sveitarstjórn neytti forkaupsréttar.  Það sé því rangt sem fram kemur í stefnu hvað þetta varðar.  Þá er því einnig mótmælt sem fram kemur í stefnu að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi ,,fyrst og fremst byggt ákvörðun sína á upplýsingum frá einhverjum öðrum en stefnanda sjálfum, án þess að upplýst sé hvaða upplýsingar lágu fyrir við afgreiðslu málsins sem gerðu það nauðsynlegt fyrir hagsmuni Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar að jörðinni.”  Dalabyggð hafi gefið stefnanda kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri áður en ákvörðun var tekin og allar þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar ákvörðun var tekin komi fram í gögnum þessa máls.  Hafi þær upplýsingar sem stefnandi sendi sveitarstjórn ekki verið fullnægjandi að mati stefnanda verði hann að bera hallann af því.  Sveitarstjórn hafi gert það sem í hennar valdi stóð til að upplýsa málið og stefnandi hafi haft öll tök á að koma öllum þeim upplýsingum sem hann vildi á framfæri áður en ákvörðun var tekin í málinu.

                Meðalhófsreglan:  Stefnda vísar til þess að samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga skuli stjórnvald ,,því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.  Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.”  Eins og rakið hafi verið hafi stefnda neytt forkaupsréttar á grundvelli jarðalaga og í þeim tilgangi að tryggja hagsmuni sveitarfélagsins.  Það hafi verið mat sveitarstjórnar að tilganginum með því að neyta forkaupsréttar yrði ekki náð með öðrum hætti.  Í því sambandi bendir stefnda á að stefnandi hafi gert kauptilboð í jörðina í nafni óstofnaðs einkahlutafélags og því er alls endis óvíst að sveitarfélagið gæti komið að ákvörðunum hins óstofnaða einkahlutafélags, ef það vildi selja jörðina aftur eða ef félagið skipti um eigendur.  Eignarhald Dalabyggðar á Sælingsdalstungu hafi verið forsenda þess að áform stefndu um að treysta búsetu í sveitarfélaginu með því að neyta forkaupsréttar næðu fram að ganga. Hún hafi ekki getað tryggt að markmið hennar gengju eftir með öðru og vægara úrræði.

                Lagarök: Samkvæmt framansögðu vísar stefnda um lagarök til jarðalaga nr. 65/1976, aðallega 18., 33., 30. og 1. gr. laganna.  Jafnframt er vísað til almennra reglna íslensks réttar um tómlæti og réttaráhrif þess að aðili gæti ekki réttar síns innan eðlilegs frests.  Stefnda vísar einnig til 1. mgr. 78.gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Loks vísar stefnda til stjórnsýslulaga nr. 37/1993, aðallega 10., 12. og 13. gr. Kröfu um málskostnað styður stefnda við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einka- mála.  Til stuðnings kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað vísar stefndi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en samkvæmt þeim er lögmönnum skylt að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.  Stefnda sé ekki virðisaukaskattskyld og beri því nauðsyn til að fá virðisaukaskattinn greiddan úr hendi stefnanda..

                Skýrslur fyrir dómi

                Stefnandi, Guðjón Smári Agnarsson, kvaðst hafa farið á Fasteignamiðstöðina í Reykjavík í júlí 2000 og þar fengið söluyfirlit yfir jörðina Sælingsdalstungu. Hann hefði þá leitað sér að jörð í nokkra mánuði.  Í framhaldi af þessu hefði hann skoðað jörðina.  Honum og þeim báðum hjónum hefði litist vel á hana.  Þau hefðu hlakkað til að fara þangað að stunda skógrækt og efla byggðina.

                Þau hjón hefðu átt að fá jörðina afhenta um áramót 2000/2001, og þau hefðu áformað að flytjast þangað um eða upp úr fardögum vorið 2001.

                Stefnandi sagði að landbúnaðartæki hefðu átt að fylgja jörðinni, traktorar og ámokstursgræjur og sláttubúnaður o.fl.

                Hann kvaðst hafa ætlað og ætla sér að stunda á jörðinni skógrækt og jarðrækt ýmiss konar.  Með skógrækt kvaðst hann eiga við gróðursetningu plantna og síðan að grisja og fella tré, en einnig uppeldi plantna.  Hann hefði rætt við yfirmann Vesturlandsskóga um að fá að koma inn í það verkefni, og hann hefði tekið því vel.  En þau hefð einnig hugsað sér skógrækt, t.a. m. skjólbeltarækt, á eigin vegum.  Með jarðrækt væri átt við framleiðslu á heyi og líka kartöflu- og rófnarækt og þess háttar. Þau hjón gerðu ráð fyrir að sú ræktun sem þau yrðu með yrði lífræn. Þau hefðu líka mikinn áhuga á að reyna kornrækt.

                Stefnandi var spurður um tilgang þess að stofnað var einkahlutfélagið Tungustapi. Hann sagði að hann hefði með því verið að hugsa fram í tímann. Þetta form hentaði vel til ýmiss konar rekstrar, og þau hjón hefðu hugsað til þess að í framtíðinni vildu börn þeirra koma inn í reksturinn, og þá væri formið hentugt.

                Stefnandi kvaðst hafa heyrt það á skotspónum að meirihluti sveitarstjórnar Dalabyggðar mundi hugsa sér að neyta forkaupsréttar.  Það hefði fylgt sögusögn að stefnandi og kona hans mundu ekki ætla sér að flytjast vestur.  Hann hefði þá haft samband við alla hreppsnefndarmenn.  Hann kvaðst hafa sagt þeim að þau hjón ætluðu að flytjast á jörðina.  Þau ætluðu ekki að nýta hana einungis til sumardvalar. Stefnandi tók fram í þessu sambandi, að þau væru í raun landsbyggðarfólk, hefðu nú átt heima í Reykjavík í tvö ár, en áður í 20 ár á Austurlandi, á Neskaupstað og Stöðvarfirði.

                Stefnandi sagði að sveitarstjóri Dalabyggðar, Einar Mathiesen, hefði haft við sig samband snemma að morgni 15. september og beðið sig að útskýra nánar hvað þau hjón ætluðu að gera á jörðinni.  Þessu hefði hann svarað með bréfi sama dag. Önnur samskipti en nú eru talin kvaðst stefnandi ekki hafa haft við stefndu. 

                Stefnandi var spurður hvort einhvern tíma hefði verið af hálfu stefndu óskað eftir upplýsingum til viðbótar þeim sem fram komu í bréfi stefnanda frá 15. september 2000.  Hann sagði að það hefði aldrei verið.  Einu viðbrögðin sem hann hefði fengið hefðu verið óbein.  Í gegnum systur sína hefði hann frétt frá Guðjóni Guðmundssyni þingmanni Vesturlands að Sigurður Rúnar oddviti stefndu hefði sagt honum að stefnandi gæti fengið keypt aðra jörð í Dalabyggð.  Og nokkru síðar hefði Fasteignamiðstöðin sent sér söluyfirlit yfir þá jörð.  Orðrómur sem sér hefði borist um að stefnda myndi neyta forkaupsréttar hefði borist sér eftir sömu leið, að því er sig minnti, en einnig úr annarri átt.

                Stefnandi var spurður hvort rétt væri að oddviti stefndu og formaður byggðarráðs hefðu haft samband við hann til að óska eftir upplýsingum. Hann sagði að þetta væri rangt, þeir hefðu aldrei hringt í sig.  Eini maðurinn frá Dalabyggð sem hefði hringt í sig hefði verið sveitarstjórinn, Einar.  Hann hefði hringt til að láta sig vita að á leiðinni væri bréf, dags. 15. sept. 2000, þar sem sveitarstjórinn bað stefnanda um upplýsingar.

                Stefnandi kannaðist ekki við að frá sér hefðu komið misvísandi upplýsingar um nýtingaráform sín á Sælingsdalstungu.  Hann kvaðst ekki geta áttað sig á hvað forsvarsmenn stefndu, sem þessu héldu fram, ættu við.

                Stefnandi var spurður hvort minnst hefði verið á það við kaupin á jörðinni, að hluti hennar væri notaður sem afréttur.  Hann sagði að það hefði ekki verið nefnt, en hann hefði auðvitað séð að jörðin hefði verið ógirt.  Hann gerði ráð fyrir að sauðfé gengi þarna, eins og verið hefði lengi.  Hann sagði að seljandi, Jón (réttargæslustefndi), hefði sagt sér frá vatnsréttindum Dalabyggðar.  Jón hefði sagt sér að Sælingsdalstunga hefði frítt vatn úr lind gegn því að Dalbyggð nýtti lindina.

                Stefnandi vera spurður hvort hann hefði kynnt sér hvaða skipulag gilti um land Sælingsdalstungu, áður en hann keypti jörðina.  Hann svaraði að seljandi, Jón, hefði sagt sér frá því þegar hann kom að skoða jörðina, að sumarbústaðabyggð væri þarna væntanleg, búið væri að úthluta þremur eða fjórum lóðum og skipuleggja fleiri.  Jón hefði sýnt sér svæðið.  Þetta hefði sennilega verið viku áður en hann gerði kauptilboð.  Stefnandi sagði að þau hjón hefðu hugsað sér að leigja lóðir undir bústaði samkv. skipulagi, svo sem fram kæmi í bréfi hans til stefndu.  Það að hann hefði nefnt bleikjueldi í bréfi til stefndu, hefði einungis verið hugmynd sem hann hefði slegið fram sem möguleika til að nýta hús á jörðinni. 

                Stefnandi greindi frá því að hann væri viðskiptafræðingur. Hann kvaðst eiga og reka bókaverslun Lárusar Blöndal í Reykjavík.  Þau 20 ár sem hann hefði átt heima á Austurlandi, hefði hann fyrstu 12 árin unnið við útgerð og fiskvinnslu, verið framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Stöðvarfjarðar og Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Síðan hefði hann verið með eigin rekstur, útflutning og umboð fyrir skipafélög og tryggingarfélag.  Hann sagði að hann og kona hans hefðu lengi verið áhugasöm um skógrækt.  Þau hefðu bæði verið í stjórn og formenn skógræktarfélags á Stöðvarfirði, og þar hefðu þau gróðursett mikið af trjáplöntum.

                Sigurður Rúnar Friðjónsson er oddviti stefndu.  Hann gaf aðilaskýrslu.  Hann var spurður um tilgang þess að stefnda neytti forkaupsréttar að Sælingsdalstungu. Hann sagði að stefnda hefði á undanförnum leitað leiða til að styrkja byggðina.  Um væri að ræða landmikla jörð í miðju héraði.  Hún lægi að landi Lauga, sem sveitarfélagði ætti að hálfu.  Þar væri þegar í gangi töluverð uppbygging í ferðaiðnaði. Í Sælingsdalstungu væri skipulögð sumarbústaðabyggð og hefði þegar verið úthlutað nokkrum lóðum, og stefnda hefði mikinn áhuga á ,,að tryggja framgang þess máls með öllum tiltækum ráðum”.  Oddvitinn nefndi einnig að þarna mætti segja að væri vagga Laxdælu.  Einnig nefndi hann vatnsréttindi sem sveitarfélagið ætti á jörðinni. Jörðin væri og hentug til almennrar útivistar í tengslum við mannvirki á Laugum. Síðast enn ekki síst sagði hann að það vekti fyrir stefndu að landinu yrði ekki lokað og aðliggjandi jarðir hefði aðgang að beitilandi þar.

                Á undanförnum árum, sagði Sigurður Rúnar, að sveitarstjórn Dalabyggðar hefði verið að leita nýrra leiða til að styrkja byggðina.  Árið 1998 hefði verið mörkuð ákveðin stefna í þessum efnum.  Á grundvelli þeirrar stefnu hefði stefnda verið að vinna í ferðaiðnaði og náð mjög góðum árangri á síðustu tveimur árum.  Að tryggja eignarhald Dalabyggðar á þessari jörð hefði átt að vera liður í að stefnan næði fram.  Í ljósi reynslu stefndu af sölu jarða undanfarin ár, ,,þá held ég að það sé algjört lykilatriði að sveitarfélagið ráði þessu.  Við höfum því miður orðið vitni að því aftur og aftur að mjög góðar jarðir seljast, landbúnaður leggst af, jarðir eru girtar og þær eru lokaðar með hengilás niðri við þjóðveg.  Þar með á almenningur ekki neinn aðgang að þessu.  Þetta er meðal annars partur af okkar dæmi.” Aðilinn var þá spurður hvort raunhæft væri að tala um að loka Sælingsdalslandi fyrir beit, á Seljadal og Svínadal.  Hann taldi að hægt væri að loka ákveðnum svæðum landsins.

                Aðilinn Sigurður Rúnar sagði að stefnandi hefði haft samband við sig áður en stefnda tók ákvörðun um að neyta forkaupsréttar og áður en henni barst bréf stefnanda, dags. 15. sept. 2000.  Hann hefði þá ekki verið tilbúinn til að tjá sig mikið við stefnanda.  Sveitarstjórnin hefði þá verið í sumarfríi.  Sveitarstjórnarmenn í meirihluta hefðu ekki verið búnir að ná saman.  Hann kvaðst muna að hjá sér hefðu vaknað efasemdir um að hið skipulega sumarbústaðaland yrði til ráðstöfunar, eins og skipulag gerði ráð fyrir.  Aðilinn sagði að þegar hann hefði séð bréfið frá stefnanda, dags. 15. september 2000, hefði sér fundist að það væri ekki alveg í samræmi við það sem stefnandi hefði sagt við hann í símtalinu.  Þetta ætti við um nýtinguna á sumarbústaðalandinu.  Eftir því sem hann best myndi hefði stefnandi sagt við sig að hann myndi ekki leggja áherslu á leigu sumarhúsalóða. Í framhaldi af þessu var aðilinn Sigurður Rúnar spurður hvort hann hefði dregið í efa að upplýsingar stefnanda í bréfi hans hefðu verið réttar, þar sem segir: ,,Einnig munum við halda áfram því starfi sem unnið hefur verið við uppbyggingu sumarbústaðabyggðar á jörðinni samkvæmt skipulagi.”  Hann svaraði að hann sæi enga sérstaka ástæðu til að vefengja það sem fram kemur í þessu bréfi, og ákvörðun stefndu beindist ekki persónulega að stefnanda.  Hann sagði það hins vegar reynslu sína af löngu starfi að sveitarstjórnarmálum, að svona yfirlýsingar hefðu mjög takmarkað gildi.

                Aðilinn var spurður hvað hefði verið óæskilegt í þeim áformum um nýtingu jarðarinnar sem stefnandi lýsti í bréfi sínu til stefndu. Hann svaraði að þar væri í sjálfu sér ekki lýst neinu því er óæskilegt væri, en stefnda hefði bara viljað tryggja möguleika sína til að hafa öll þau áhrif sem unnt væri varðandi uppbygginguna í Sælingsdalstungu, með hliðstæðum hætti og menn vildu ekki selja Reykholt eða Skálholt.  Stefnda teldi sig þurfa að koma upp ákveðnum miðpunkti.  Hann nefndi í þessu sambandi að stefnda væri algjörlega mótfallin því að Hvammur í Dölum yrði seldur; ríkið ætti að eiga hann áfram.  ,,Þetta tengist bara því að menn hafi umráðarétt yfir svæðinu, opinberir aðilar.”  Í framhaldi af þessu sagði hann, aðspurður, að það væri ekki skilyrði af hálfu stefndu að land til útivistar væri í eigu opinberra aðila, en það væri bitur reynsla að einkaaðilar vildu loka löndum sínum og hefta almenna umgengi.  Þá var hann spurður hvort komið hefði til álita að ræða þessi atriði við stefnanda áður en stefnda tók ákvörðun sína.  Hann sagði að atburðarásin hefði verið hröð, ,,og þetta var sá möguleiki sem við töldum okkur eiga í stöðunni, sem var kominn upp, og við ákváðum að nýta okkur það.”

                Þá var aðilinn spurður hvort á fundi stefndu 21. september 2000 hefðu komið fram upplýsingar um að stefnandi ætlaði ekki að búa á jörðinni. Svar:  ,,Ég þori ekki að fullyrða það, að það hafi komið fram, án þess að ég muni það nákvæmlega.  Ég geri ráð fyrir að ég hafi lýst samtali okkar Guðjóns.  Það voru einhverjar umræður, það kom náttúrulega og var búið að koma í ljós fyrir þennan fund að minnihlutinn studdi þessa ákvörðun ekki, þó að þeir hafi stutt allar okkar gerðir síðan þessi gjörningur átti sér stað.  En ég man ekki eftir neinum svona sérstökum umræðum um þetta, og eins og ég nefndi áðan þá kannski vorum við, ég held að menn hafi verið að horfa meira á endilega aðra hagsmuni en það að það væri búið á jörðinni. [. . .] Auðvitað hefur það þýðingu, en ég man ekki eftir neinum sérstökum [óskýrt orð] um það.”  Enn spurður um þetta, hvort mögulegt hefði verið að stefnda hefði fengið einhverjar upplýsingar frá einhverjum öðrum en stefnanda, sagði aðilinn að hann gæti ekki útilokað það. En þroskaðir sveitarstjórnarmenn væru upp úr því vaxnir að fara eftir slíku. Þeir hlustuðu að vísu á það sem þeir heyrðu úti í bæ, en ekki miklu meira. Hann neitaði því að stefnda hefði byggt ákvörðun sína á öðrum upplýsingum en þeim sem stöfuðu frá stefnanda. 

                Sigurður Rúnar var spurður hvort það hefði verið skilyrði af hálfu stefndu að um yrði að ræða fasta búsetu kaupanda [stefnanda] á jörðinni. Hann sagði að í sínum huga hefði það verið mjög jákvæður punktur, en hann héldi að það hefði ekki verið skilyrði.

                Þá var aðilinn spurður hvort sveitarfélagið hefði gert einhvern reka að því að eignast jörðina áður en kaupsamningur barst henni. Hann sagði að jörðin hefði farið í sölu í lok júní. Þá hefðu eigendur, réttargæslustefndu, verið nýkomnir frá útlöndum, og í millitíðinni hefði hús sem staðið hefði þarna í túni brunnið ofan af ungu fólki, dóttur og tengdasyni réttargæslustefndu.  Fjölskyldan hefði öll verið í uppnámi.  Hann hefði þá strax lýst því yfir við réttargæslustefndu að stefnda mundi vilja skoða málin. Síðan hefði hann átt viðtal við fasteignasalann um tvær jarðir í Dölunum, sem báðar hefðu verið til sölu á þessum tíma.  Hann hefði sagt fasteignasalanum að ,,við myndum skoða annað málið, en ekki hitt málið”.  Hann taldi að algengur tími sölumeðferðar svona bújarða væri frá tveimur upp í 6 mánuði.  Þarna hefði atburðarás orðið hröð á sumarleyfistíma, svo að enginn tími hefði unnist til að vinna þetta í þeirri röð sem forsvarsmenn stefndu hefðu viljað vinna þetta. 

Aðilinn kvaðst hafa haft samband við seljendur, réttargæslustefndu.  Þau hefðu verið frekar hvetjandi þess að sveitarfélagið neytti forkaupsréttar.  Hann mundi ekki, aðspurður, hvenær búskap hefði verið hætt í Sælingsdalstungu, það hefði verið annað hvort 1999 eða 2000.  Stefnda hefði ekki gert reka að því að búskap yrði haldið þarna áfram, ekki á þessum tíma, en hefði gert það fyrr.

Oddvitinn var spurður hvort jarðir væru í grennd við Sælingsdalstungu, sem þörf hefðu fyrir beit þar.  Hann sagði að í nágrenninu væru jarðir sem væru á fullu í búrekstri, m.a. í sauðfjárrækt, bæði Saurbæjar megin og Dalabyggðar megin. Nú stæðu yfir sameiningarviðræður við Saurbæjarhrepp sem ekki væri séð fyrir endann á. Þarna væri um að ræða beitiland á bróðurparti Svínadals og á Seljadal og víðar. Aðilinn nefndi jarðirnar Hóla, Magnússkóga, Ásgarð, Bessatungu, Hvítadal og Hvamm.

Sigurður Rúnar var spurður hvernig jörðin Sælingsdalstunga hefði verið nýtt eftir að stefnda tók ákvörðun um að neyta forkaupsréttar.  Hann sagði að hún hefði sáralítið verið nýtt, en þess gætt að hún yrði ekki fyrir skemmdum.  T.d. hefðu slægjur verið leigðar, svo að tún eyðilegðist ekki meðan hlutirnir væru í biðstöðu.  Að öðru leyti hefði ekki verið um skipulega nýtingu að ræða, nema íbúðarhúsið hefði verið lánað fólki í neyð.  Þá var aðilinn spurður hvort uppi væru áform um að selja jörðina í hlutum.  Hann sagði að það sem nú ætti að gera, og það væri það eina sem ákveðið hefði verið, væri að fram færi ákveðin skipulagsvinna; einnig að koma sumarbústaðalandinu í nýtingu og að halda áfram að skipuleggja landið undir sömu formerkjum.  En að landið yrði selt undir eitthvað annað hefði ekki verið rætt, svo að hann minntist.

Aðilinn var aðspurður hvort hann liti á uppbyggingu sveitarfélagsins í ferðamálum sem landbúnað.  Hann kvaðst telja að ekki væri rétt að líta svo á, en það væri alveg sýnilegt að ferðaiðnaður hefði verið ákveðin aukabúgrein í sveitum og stutt við hefðbundinn landbúnað, þótt ferðaiðnaður væri sérstök iðngrein.  

Haraldur Líndal Haraldsson er nú sveitarstjóri Dalabyggðar. Hann hóf starf sem slíkur 1. júlí 2001, en hafði áður gegnt því stuttan tíma, þrjá mánuði, í upphafi núverandi kjörtímabils.  Auk þessa kvaðst hann hafa unnið ýmis verkefni fyrir Dalabyggð.  Hann kvaðst sérstaklega hafa komið að uppbyggingu atvinnumála.  Árið 1998 hefði hann gert skýrslu fyrir sveitarfélagið, sem ber heitið Dalabyggð, stöðumat og framtíðarsýn.  Hann óskaði eftir að leiðrétta það sem fram kemur í bréfi lögmanns stefnanda til Landbúnaðarráðuneytisins, dags. 20. nóvember 2000, að engin áætlun lægi fyrir um uppbyggingu Dalabyggðar á ferðaþjónustu.  Þetta væri ekki rétt.  Í nefndri skýrslu væri ítarlegur kafli um þetta.  Allar aðgerðir í þessum efnum væru til þess gerðar að tryggja sem best atvinnu- og búsetuskilyrði í byggðarlaginu.  Menn sæju fyrir sér að framkvæmdir í Sælingsdalstungu mundu tengjast uppbyggingunni á Laugum, m.a. dvalar- og fræðasetri fyrir aldraða, sem þar ætti að rísa.  Nefndi hann sérstakalega í þessu sambandi sumarhúsabyggð.  Hann taldi og að vatnsréttindamál skiptu verulegu máli fyrir sveitarfélagið.  Aðilinn nefndi og önnur atriði sem hann taldi máli skipta fyrir sveitarfélagið varðandi nýtingu á jörðinni, svo nýtingu nágrannabænda.  Hann nefndi og að hugmynd stefnanda um fiskeldi stönguðust á við skipulag og væru ekki æskileg.

Aðilinn kvaðst ekki hafa komið að ákvörðun stefndu um neytingu forkaupsréttar.

Varðandi það atriði hvort stefnda hefði reynt að festa kaup á jörðinni með frjálsum kaupum, sagði aðilinn Haraldur að það væri sín reynsla sem sveitarstjóra og bæjarstjóra að sveitafélögin vildu láta markaðinn verðleggja eignir, sem þær hefðu hug á að kaupa, því að seljandi vildi gjarna fá hærra verð en markaðsverð.

 Vitnið Einar Mathiesen var sveitarstjóri Dalabyggðar frá 21. janúar 2000 til 30 júní 2001.

                Hann sagði að hann hefði haft afskipti af þessu máli sem sveitarstjóri.  Strax og sveitarstjórn hefði fengið sendan samning um kaup og sölu á Sælingsdalstungu hefði komið í ljós að hún hefði viljað kanna málið nánar.  Hann hefði óskað eftir því með bréfi, dags. 15. sept. 2000, að kaupandi gerði grein fyrir hvernig hann hygðist nýta jörðina.  Svar hefði borist sama dag eða daginn eftir.   Þetta hefði verið hluti þeirra gagna sem sveitarstjórn hefði stuðst við við ákvörðun í málinu.  Ákvörðun um að ganga inn í kaupin hefði verið tekin 21. september.  Í framhaldi af því hefði hann upplýst alla aðila um þá ákvörðun, m.a. bent kaupanda á málskotsrétt til Landbúnaðarráðuneytis.

                Vitnið Einar sagði að sig minnti að hann hefði einu sinni talað við stefnanda, en hann hefði haft samband við sig símleiðis.  Hann minnti að það hefði verið áður en bréfið var skrifað.  Það samtal hefði ekki leitt til neinnar niðurstöðu.  Einar var þá spurðu hvort í því samtali hefði komið eitthvað fram um það til hvers stefnandi ætlaði að nýta Sælingsdalstungu.  Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað þeim fór á milli, en sig minnti að stefnandi hefði verið að kanna hug sveitarstjórnarmanna til jarðarkaupanna.  Kvaðst Einar hafa sagt stefnanda að hann gæti ekki blandað sér í þær umræður, hann gæti ekki sagt til um viðbrögð sveitarstjórnarmanna.  Hann kvaðst ekki geta munað hvort þeim fór eitthvað á milli um nýtingaráform stefnanda.

                Vitnið Einar var spurður um tilgang stefndu með því að neyta forkaupsréttar. Hann sagði að sveitarfélagið hefði fyrst og fremst verið að gæta hagsmuna sinna í þessu máli.  Vitnaði hann til rökstuðnings fyrir ákvörðun stefndu í bókun á hreppsnefndarfundi 21. september 2000.

                Einar var spurður hvort stefnda hefði gert reka að því að eignast jörðina Sælingsdalstungu áður en þetta mál kom upp.  Hann svaraði að atvik þessa máls hefðu gerst mjög hratt.  Hann hefði að vísu verið búinn að taka eftir auglýsingu um jörðina skömmu áður en kaupin voru gerð.  Hann hefði í millitíðinni, áður en samningur stefnanda og réttargæslustefndu komst á,  rætt við oddvita að þarna væri á ferðinni sala sem þeir þyrftu að gefa gaum.

                Vísað var til bréfs sveitarstjóra frá 15. september 2000 og spurt hvort það hefði skipt máli fyrir ákvörðun stefndu, hvort föst búseta yrði á jörðinni eða ekki. Vitnið sagði að hann hefði spurt stefnanda um þetta svo að sem gleggstar upplýsingar lægju fyrir áður en ákvörðun stefndu yrði tekin.  Allar upplýsingar hefðu skipt máli. Hann kvaðst álíta að það hefði skipt máli hvort stefnandi ætlaði sér fasta búsetu, þótt það væri kannski ekki lykilatriði í málinu.  Vitnið Einar var þá spurður hvort þær upplýsingar sem stefnandi gaf um búsetu hefðu verið nógu glöggar til að stefnda gæti tekið rétta ákvörðun í málinu.  Vitnið kvaðst ekkert geta um þetta sagt, en vísaði til bréfs stefnanda til stefndu, dags. 15. sept. 2000.  Það hefði verið meðal þeirra gagna stefndu sem fyrir hefðu legið þegar ákvörðun var tekin.  Hann kvaðst ekki hafa haft neinar aðrar upplýsingar frá stefnanda en þær sem fram koma í bréfi hans.  Vitnið var þá spurt hvort eitthvað hefði verið ósæskilegt við áform stefnanda.  Einar sagðist eiga erfitt með að meta það nákvæmlega, en hér væri um mikla hagsmuni að ræða fyrir sveitarfélagið með tilliti til uppbyggingar á Laugum og m.a. vatnsréttinda sveitarfélagsins.  Þá var spurt hvort til tals hefði komið að stefnda ræddi við stefnanda til að athuga hvort unnt væri að tryggja að hagsmunir aðila færu saman.  Hann sagði að sér hefði ekki verið falið að gera neitt slíkt og hann hefði ekki séð ástæðu til að hafa frumkvæði að því.  Vitnið Einar var ennfremur spurður hvort einhverjar aðrar upplýsinga hefðu komið fram á fundi stefndu 21. september en þær sem fyrir lágu í bréfi stefnanda.  Hann sagði að formlegar upplýsingar sem fram komu hefðu allar verið lagðar fram í þessu máli.  Hann sem sveitarstjóri hefði ekki stuðst við aðrar upplýsingar.  Hann var þá spurður hvort komið hefðu fram á fundinum upplýsingar um að stefnandi ætlaði ekki að búa á jörðinni.  Hann sagði að heilmiklar umræður hefðu farið fram um kaupin.  ,,Ég lagði þar ekki sérstaklega við eyra, enda bóka ég fundina og hef þess vagna kannski tvöfalt hlutverk á þessum fundum. . . “  Hann kvaðst ekki treysta sér til að segja að það hefði komið fram á fundinum að stefnandi ætlaði ekki að búa á jörðinni.  Vitnið kvaðst hafa mótað þá tillögu sem oddviti lagði fram á fundinum.

                Vitnið Einar var beðinn að lýsa því hvaða umræða hefði farið fram á fundi byggðarráðs þegar fjallað var um beiðni Helga Jóhannessonar hrl. f.h. stefnanda um að stefnda félli frá  að neyta forkaupsréttar.  Hann sagði að málið hefði verið stuttlega reifað á fundinum og ákvörðun byggðarráðs hefði verið alveg skýr, bókuð í fundargerð.  Það hefði ekki séð ástæðu til að taka málið upp að nýju.  Erindi hefði áður verið rætt óformlega manna á milli.

                Einar Mathiesen var spurður hvernig stefnda hefði nýtt jörðina Sælingsdalstungu eftir kaupin.  Hann sagði að þegar í ljós hefði komið að stefnandi hefði ekki verið sáttur við þessa niðurstöðu, þá hefði stefna haldið að sér höndum. Slægjur hefðu að vísu verið leigðar sl. sumar, girðingum hefði verið við haldið og íbúðarhúsið hefði verið leigt út til skamms tíma.  Farið hefði verið af stað með skipulagsvinnu, en þó hægt, þar sem fyrir lá að þetta kynni að enda í málaferlum, sem og hefði gerst.  Það hefði verið dregið úr  þeim áformum og hugmyndum sem sveitarstjórnin hefði haft um nýtingu á jörðinni.

                Vitnið Einar var spurður hvenær stefnda hefði fengið vitneskju um að stefnandi hygðist höfða mál þetta. Hann sagði að það hefði verið í beinu framhaldi af bréfi lögmanns stefnanda, dags 25. apríl 2001.  Hann hefði gert oddvita og lögmanni stefndu viðvart um það bréf. Vitnið  bætti við þetta, sérstaklega spurður, að það hefði legið fyrir þegar hann ritaði Landmótun bréf, dags. 2. mars 2001, varðandi skipulagsvinnu í framhaldi af samþykkt stefndu 26. ferbúar það ár, að stefnandi hygðist höfða mál þetta.

                Vitnið Jónas Guðmundsson er formaður byggðarráðs Dalabyggðar. Hann sagði að hugsunin bak við neytingu forkaupsréttar hefði fyrst og fremst verið sú að að styrkja þá uppbyggingu ferðaþjónustu sem stefna væri komin af stað með í Laugum. Hann nefndi í þessu sambandi skipulagt sumarhúsasvæði í Sælingsdalstungu.  Jörðin væri stór, bæði á laglendi og í fjalllendi.  Dalabyggð ætti þar vatnsréttindi, í mikilvægum og góðum vatnsbólum.

                Vitnið sagði að stefnandi hefði haft við sig samband í síma einu sinni áður en ákvörðun stefndu var tekin.  Í því símtali hefði komið fram að stefnandi hygðist setjast að í Sælingsdalstungu.  Hann hefði spurt stefnanda hvað hann hygðist fyrir með sumarhúsasvæðið og stefnandi hefði sagt sér að hluta af því svæði hygðist hann taka undir skógrækt; hann hefði nefnt að á jörðinni yrði fyrst og fremst um skógræktarbúskap að ræða. 

                Vitnið Jónas sagði að réttargæslustefnda, Guðrún Júlíana , hefði haft samband við sig áður en stefnda tók ákvörðun sína.  Hún hefði hvatt sig sem sveitarstjórnarmann til að neyta forkaupsréttar.

                Vitnið sagði að stefnda hefði áhuga á að upp risi í Sælingsdalstungu sumarhúsbyggð sem styrkt gæti uppbyggingu á Laugum.

                Vitnið sagði að fyrirætlanir stefnanda, eins og hann hefði lýst þeim í símtali við sig, hefðu ekki verið að öllu leyti í samræmi við bréf stefnanda til stefndu, dags. 15. september 2000.  Hann kvaðst ekki minnast þess að stefnandi hefði í samtalinu ekki minnst á golfvöll eða bleikjueldi, og ekki á ,,þetta hlutafélag”.  Í framhaldi af þessu var vitnið Jónas spurður hvers vegna stefnda hefði ekki aflað nánari upplýsinga frá stefnanda.  Hann sagðist ekki hafa séð bréf stefnanda fyrr en málið var afgreitt. Hann var þá spurður hvort einhverjar upplýsingar hefði borist frá öðrum en stefnanda. ,,Ekki til mín,” svaraði vitnið.  Þá var vitnið spurt hvað hefði að hans mati verið óæskilegt við nýtingarhugmyndir stefnanda.  Hann sagði að sér hefðu fundist vafasamar þær hugmyndir að nýta ekki undir sumarhús það land sem til þess væri ætlað samkv. skipulagi.

                Vitnið Jónas var spurður hvort stefnda hefði gert einhvern reka að því að kaupa Sælingsdalstungu áður en henni barst kaupsamningur stefnanda og réttargæslustefndu.  Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa séð að jörðin væri til sölu áður en þessi samningur lá fyrir.

                Vitnið Jónas var spurður um hvaða umræður hefðu orðið um erindi Helga Jóhannessonar hrl. þess efnis að stefnda félli frá því að neyta forkaupsréttar.  Hann sagði að umræða um þetta hefði ekki verið mikil.  Málið hefði verið kynnt og því vísað til hreppsnefndar.  Byggðarráðið hefði, að sig minnti, ekki tekið afstöðu.  Þegar hér var komið var vitninu sýnt fram lagt bréf Einars Mathiesen sveitarstjóra til lögmannsins Helga, dags. 11. október 2000, þar sem segir:  ,,Byggðarráð telur að sveitarstjórn hafi farið að lögum við ákvörðun um beitingu forkaupsréttar og engin ástæða sé til að breyta þeirri ákvörðun.  Byggðarráð fellst því ekki á kröfuna.”  Vitnið kvaðst kannast við bréfið. Hann kvaðst telja að í bréfinu væri rétt frá greint.  Hann var þá ítrekað spurður um umræðu á fundi byggðarráðs.  Hann sagði að sig brysti minni um það.

                Vitnið var spurður um nýtingu þeirra jarða sem liggja að Sælingdalstungu, hvort þær væru nýttar til landbúnaðar.  Vitnið taldi upp jarðir:  Sælingsdalur væri ekki nýttur til landbúnaðar. Ekki heldur Gerði. En Hólar væru það að litlu leyti. á Leysingjastöðum væri ekki búskapur.

                Vitnið Jónas var spurður um samþykkt stefndu, sem gerð var á fundi hennar 20. mars 2001, þess efnis að koma skyldi vestasta hluta Sælingsdalstungu í sölu sem allra fyrst.  Vitnið var spurt hver þessi vestasti hluti jarðarinnar væri og hvers vegna tekin hefði verið ákvörðun um að selja hann.  Jónas kvaðst ekki hafa setið þennan fund.  Hann sagði að vestasti hluti jarðarinnar væri það svæði sem skipulagt hefði verið undir sumarbústaði.

                Niðurstöður

                Í jarðalögum eru ekki ákvæði um málshöfðunarfrest kaupanda þegar sveitarfélag hefur neytt forkaupsréttar. Hvorki 18. grein né 33. grein laganna, sem stefnda vitnar til, eiga við í þessu máli. En rétt er það sem stefnda bendir á að slíkur frestur getur ekki verið ótakmarkaður.

                Úrskurður Landbúnaðarráðuneytisins var kveðinn upp 7. desember 2000.  Í framhaldi af því tók stefnandi þann kost ásamt eiginkonu sinni að rita ráðuneytinu bréf, dags. 27. desember 2000, þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við málið, m.a. við úrskurðinn.  Bréf þetta ritaði stefnandi sjálfur og að því er virðist án aðstoðar lögmanns.  Ráðuneytið svaraði þessu bréfi stefnanda með bréfi, dags. 12. janúar 2001.

Stefnandi skipti um lögmann eftir úrskurð ráðuneytisins, og má gera ráð fyrir að einhver töf hafi orðið á aðgerðum hans af þeim sökum.

                Hinn 25. apríl 2001 ritar núverandi lögmaður stefnanda stefndu bréf og tilkynnir henni að stefnandi hafi falið sér að höfða dómsmál á hendur henni ,,til ógildingar á þeirri ákvörðun Dalabyggðar að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu [...].”

                Oddviti stefndu var fyrir dómi spurður hvernig jörðin Sælingdalstunga hefði verið nýtt eftir að stefnda tók ákvörðun um að neyta forkaupsréttar.  Hann sagði að hún hefði sáralítið verið nýtt, en þess gætt að hún yrði ekki fyrir skemmdum.  Á sama veg bar vitnið  Einar Mathiesen, sem var sveitarstjóri Dalabyggðar, þegar stefnda tók umrædda ákvörðun.  Hann sagði að farið hefði verið af stað með skipulagsvinnu, en þó hægt, þar sem fyrir hefði legið að þetta kynni að enda í málaferlum.  Ennfremur kom þetta fram í vætti vitnisins Einars, sbr. útdrátt úr skýrslu hans framar í þessum dómi:  Vitnið Einar var spurður hvenær stefnda hefði fengið vitneskju um að stefnandi hygðist höfða mál þetta.  Hann sagði að það hefði verið í beinu framhaldi af bréfi lögmanns stefnanda, dags 25. apríl 2001.  Hann hefði gert oddvita og lögmanni stefndu viðvart um það bréf.  Vitnið bætti við þetta, sérstaklega spurður, að það hefði legið fyrir þegar hann ritaði Landmótun bréf, dags. 2. mars 2001, varðandi skipulagsvinnu í framhaldi af samþykkt stefndu 26. febrúar það ár, að stefnandi hygðist höfða mál þetta.

                Mál þetta var höfðað 30. maí 2001.  Á það má fallast að það hafi dregist lengur en æskilegt hefði verið.  Sá dráttur virðist þó ekki hafa orðið stefndu til skaða. Framburður oddvita og fyrrverandi sveitarstjóra styður ekki það sem í greinargerð stefndu segir:  ,,Þegar málið var höfðað hafði stefndi því ráðist í töluverða vinnu í sambandi við framtíðarnýtingu jarðarinnar og lagt drög að því að land jarðarinnar yrði skipulagt á grundvelli vilja sveitarstjórnar [...] Stefnda taldi því fullvíst að hin umdeilda ákvörðun sveitarstjórnar Dalabyggðar mundi standa óhögguð [...].”

                Að þessu athuguðu fellst dómari ekki á kröfu stefndu um sýknu vegna tómlætis stefnanda.

Að beiðni stefndu gerði stefnandi með bréfi, dags. 15. september 2000, grein fyrir áformum sínum um nýtingu á jörðinni Sælingsdalstungu.  Þar segir stefnandi að hann og kona hans ætli að flytjast í Sælingsdalstungu ,,í maí eða júní á næsta ári”, þ.e. vorið 2001. Um sama leyti muni þau selja raðhús sem þau eigi í Reykjavík.  ,,Við ráðgerum fasta bússetu í Sælingsdalstungu um ókomin ár,” segir í bréfinu.  Þá er vikið að tilgangi einkahlutafélags, sem stofnað var um kaupin:  ,,Við hyggjumst stunda landbúnað í víðasta skilningi þess orðs.  Til þess að byrja með munum við einbeita okkur að skógrækt og jarðrækt.  Einnig munum við halda áfram því starfi sem unnið hefur verið við uppbyggingu sumarbústaðabyggðar á jörðinni samkvæmt skipulagi.” Í bréfinu eru ennfremur nefnd bleikjueldi og golfvöllur sem hugsanlegir möguleikar til nýtingar lands.

                Í greinargerð stefndu segir:  ,,Áður en sveitarstjórn tók ákvörðun í málinu ræddu oddviti Sigurður Rúnar Friðjónsson og formaður byggðarráðs Jónas Guðmundsson við stefnanda og í þeim samtölum kom fram að áform stefnanda um nýtingu á jörðinni voru í mörgum atriðum óljós og voru orð hans ekki að öllu leyti í samræmi við það sem síðar kom fram í svarbréfi hans til sveitarstjórnar.”

                Sigurður Rúnar Friðjónsson oddviti stefndu sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að stefnandi hefði haft samband við sig í síma áður en stefnda tók ákvörðun um að neyta forkaupsréttar og áður en henni barst fyrrnefnt bréf stefnanda.  Hann kvaðst muna að hjá sér hefðu vaknað efasemdir um að hið skipulega sumarbústaðaland yrði til ráðstöfunar, eins og skipulag gerði ráð fyrir.  Aðilinn sagði að þegar hann hefði séð bréfið frá stefnanda, hefði sér fundist að það væri ekki alveg í samræmi við það sem stefnanda hefði sagt við hann í símtalinu.  Þetta ætti við um nýtinguna á sumarbústaðalandinu.  Eftir því sem hann best myndi hefði stefnandi sagt við sig að hann myndi ekki leggja áherslu á leigu sumarhúsalóða.

                Jónas Guðmundsson formaður byggðarráðs Dalabyggðar bar að stefnandi hefði haft við sig samband í síma einu sinni áður en ákvörðun stefndu var tekin.  Í því símtali hefði komið fram að stefnandi hygðist setjast að í Sælingsdalstungu.  Hann hefði spurt stefnanda hvað hann hygðist fyrir með sumarhúsasvæðið og stefnandi hefði sagt sér að hluta af því svæði hygðist hann taka undir skógrækt; hann hefði nefnt að á jörðinni yrði fyrst og fremst um skógræktarbúskap að ræða.

                Af hálfu stefnanda er því haldið fram að stefnda hafi byggt ákvörðun sína um að neyta forkaupsréttar á öðrum upplýsingum en þeim sem frá stefnanda komu. Oddviti stefndu og þáverandi sveitarstjóri, Einar Mathiesen, voru um þetta spurðir fyrir dómi. Svör þeirra voru óskýr.  Sigurður Rúnar sagði m.a. að hann myndi ,,ekki eftir neinum svona sérstökum umræðum um þetta”.  Þegar hann var nánar spurður hvort mögulegt hefði verið að stefnda hefði fengið einhverjar upplýsingar frá einhverjum öðrum en stefnanda, sagði aðilinn að hann gæti ekki útilokað það.  En þroskaðir sveitarstjórnarmenn væru upp úr því vaxnir að fara eftir slíku.  Þeir hlustuðu að vísu á það sem þeir heyrðu úti í bæ, en ekki miklu meira.  Hann neitaði því að stefnda hefði byggt ákvörðun sína á öðrum upplýsingum en þeim sem stöfuðu frá stefnanda.  Vitnið Einar Mathiesen, þáverandi sveitarstjóri, var spurður hins sama.  Hann sagði að formlegar upplýsingar sem fram komu hefðu allar verið lagðar fram í þessu máli.  Hann sem sveitarstjóri hefði ekki stuðst við aðrar upplýsingar.  Hann var þá spurður hvort komið hefðu fram á fundinum upplýsingar um að stefnandi ætlaði ekki að búa á jörðinni.  Hann sagði að heilmiklar umræður hefðu farið fram um kaupin. ,,Ég lagði þar ekki sérstaklega við eyra, enda bóka ég fundina og hef þess vagna kannski tvöfalt hlutverk á þessum fundum. . . “ Hann kvaðst ekki treysta sér til að segja að það hefði komið fram á fundinum að stefnandi ætlaði ekki að búa á jörðinni.

                Ekki fer milli mála að stefnda hefur talið sig fá misvísandi upplýsingar frá stefnanda um áform hans um nýtingu á jörðinni; að það sem hann sagði í símtölum við forsvarsmenn stefndu hafi ekki komið heim og saman við bréflegar upplýsingar hans.  Þá þykir dómara og sýnt, sbr. tilvitnanir í skýrslur oddvita og fyrrverandi sveitarstjóra fyrir dómi, að á fundi stefndu 21. september 2000 hafi komið fram einhverjar upplýsingar um nýtingaráform stefnanda sem ekki voru frá honum komnar. Að þessu athuguðu telur dómari að málið hafi á nefndum fundi ekki verið nægjanlega upplýst til að stefnda mætti þá taka ákvörðun um að neyta forkaupsréttar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Stefndu bar að svo komnu máli að rannsaka ítarlegar áform stefnanda og gefa honum kost á að skýra nánar fyrirætlanir sínar og þær misvísanir sem fyrirsvarsmenn hennar töldu að komið hefðu fram hjá honum, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.  Ber að hafa það í huga í þessu sambandi að ákvörðun stefndu var íþyngjandi fyrir stefnanda og að með henni var vikið frá meginreglu íslenskrar réttarskipanar um samningafrelsi manna.

                Þegar af þeim ástæðum sem nú voru greindar telur dómari að fallast beri á kröfu stefnanda um fella úr gildi ákvörðun stefndu um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu.

                En fleira kemur til.

                Dómara þykir sýnt að áform stefnanda og stefndu um nýtingu á jörðinni Sælingsdalstungu fari um margt saman.  Af rökstuðningi fyrir ákvörðun stefndu í bókun á fundi hennar 21. september 2000, af skýrslu oddvita og fleiri manna fyrir dómi er sýnt að meginástæða fyrir ákvörðun stefndu var sú að eignarhald hennar á jörðinni yrði mjög til stuðnings uppbyggingu ferðaþjónustu á næstu jörð, Laugum, sem stefnda á hlut í.  Í þessu sambandi horfði stefnda ekki síst til uppbyggingar sumarhúsasvæða í Sælingsdalstungu skv. skipulagi.  Í nefndri bókun er einnig nefnt að jörðin henti vel til skógræktar.  Stefnandi segir í bréfi sínu til stefndu, dags. 15. september 2000, að hann og eiginkona hans muni í fyrstu einbeita sér að skógrækt og jarðrækt, en þau muni einnig halda áfram því starfi sem unnið hafi verið við uppbyggingu sumarbústaðabyggðar á jörðinni samkvæmt skipulagi.

                Í þessu máli hefur ekki verið sýnt fram á að eignarhald stefnanda og nýting hans á jörðinni geti ekki farið saman við áform stefndu um að styrkja atvinnulíf og búsetu í Dalabyggð.  Þetta á ekki einungis við um ferðaþjónustu og skógrækt, heldur og önnur áform og hagsmuni stefndu, sem tengjast jörðinni.  Þannig eru ekki í málinu neinar haldbærar vísbendingar um að vatnsréttindi stefndu séu í hættu vegna eignarhalds stefnanda.  Þá hefur stefnda ekki sýnt fram á hver nauðsyn er á að nýta jörðina til beitar fyrir búskap á jörðum í grenndinni, en upplýst er að á nokkrum aðliggjandi jörðum er ekki stundaður landbúnaður. Hugmynd stefndu um fólkvang er ómótuð.

                Af því sem nú hefur verið skráð verður dregin sú niðurstaða að stefnda hafi ekki sýnt fram á að hún hefði ekki getað náð fram markmiðum sínum með öðru og vægara móti en að neyta forkaupsréttar að Sælingsdalstungu, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrsta grein jarðalaga nr. 65/1976 er þannig: ,,Tilgangur laga þessar er að tryggja , að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda. “

Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps til jarðalaga sem varð að lögum nr. 65/1976, er tilgangslýsing greinarinnar áréttuð. Samkvæmt þeim athugasemdum virðist það hafa átt að verða megintilgangur laganna að bændur og sveitafélög í dreifbýli gætu varist ásælni þéttbýlisfólks í land, einkum undir sumarbústaði. Í athugasemdunum segir m.a.: ,,Afleiðingin er því sú, að margar vildisbújarðir hafa verið skákaðar niður, en það hefur torveldað eðlilegan búsrekstur, og á mörgum hefur föst búseta lagst niður vegna jarðakaupa félagssamtaka eða manna sem ekki hyggja á búskap.”

Í Hæstaréttardómi 1992, bls.1511 í dómasafni réttarins, er dregin sú ályktun af lögunum og athugasemdum með frumvarpi til þeirra (bls.1513), ,, að tilgangur jarðalaga er fyrst og fremst sá að að tryggja nýtingu lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða í þágu þeirra, er landbúnað vilja stunda og með hliðsjón af hagsmunum sveitarfélaga af því, að innan vébanda þeirra geti landbúnaður þróast með eðlilegum hætti.”

Dómara sýnist það skýrlega leitt í ljós í þessu máli að tilgangur stefndu með því að neyta forkaupsréttar var ekki sá að vernda landbúnaðarhagsmuni, nema þá að mjög litlu leyti og þá að einhverju leyti óbeint (beit).  Tilgangurinn var framar öðru sá að styðja uppbyggingu ferðaþjónustu í Dalabyggð, einkum, í tengslum við ferðaþjónusturekstur Dalagistingar ehf. á aðliggjandi jörð, Laugum, sem stefnda á hlut í.  Ekkert liggur fyrir um að jörðin verði setin í eigu stefndu.  Stefnandi hugsar sér hins vegar að stunda landbúnað á jörðinni, skógrækt og jarðrækt, auk annarrar starfsemi, og hann ætlar að sitja jörðina.

Að þessu athuguðu og einnig því, sem hér segir að framan um brot stefndu gegn 12. gr. stjórnsýslulaga, verður það niðurstaða dómara að sú ákvörðun stefndu að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu hafi ekki samrýmst skýrum tilgangi jarðalaga nr. 65/1976, og því beri að fallast á þá málsástæðu stefnanda að í 30. gr. laganna felist ekki heimild fyrir hana til ganga inn í kaupsamning stefnanda og réttargæslustefndu.  Af þessu leiðir og að fallast ber á 2. tl. í kröfugerð stefnanda og viðurkenna að stefnda hafi glatað rétti sínum til að neyta forkaupsréttar og ganga inn í umrædd kaup.

Að mati dómara fær 1. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 16. gr. laga nr. 97/1995, engu breytt um þessa niðurstöðu.

Málskostnaður

                Rétt er að stefnda greiði stefnanda málskostnað, og ákveðst hann 330.000 krónur, og er þá tekið tillit til virðisaukaskatts af þóknun lögmanns stefnanda.

                Jón Höskuldsson hdl. sótti málið, en Ingi Tryggvason hdl. hélt uppi vörnum fyrir stefndu.

                Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð

                Felld er úr gildi ákvörðun stefndu, hreppsnefndar Dalabyggðar, sem tekin var á fundi nefndarinnar 21. september 2000, um að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingsdalstungu og ganga inn í kaupsamning stefnanda, Guðjóns Smára Agnarssonar, og réttargæslustefndu, Jóns J. Benediktssonar og Guðrúnar Júlíönu Ingvarsdóttur, um jörðina.

                Viðurkennt er að stefnda hafi glatað rétti sínum til þess að neyta forkaupsréttar að jörðinni Sælingdalstungu og ganga þannig inn í nefnd kaup.

                Stefnda greiði stefnanda kr. 330.000 í málskostnað, virðisaukaskattur af þóknun lögmanns innifalinn.