Print

Mál nr. 157/1999

Lykilorð
  • Fiskveiðibrot
  • Stjórnarskrá
  • Atvinnufrelsi

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 21. október 1999.

Nr. 157/1999.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Vilhjálmi Birgissyni

(Sigurbjörn Magnússon hrl.)

Fiskveiðibrot. Stjórnarskrá. Atvinnufrelsi.

Fiskiskipið F var staðið að línuveiðum inni í hólfi, sem lokað var fyrir línuveiðum samkvæmt reglugerð. Leitt var í ljós að V, skipstjóri F, hafði gefið fyrirmæli um að leggja línuna á þessum stað, þar sem hann hafði fengið í hendur kort af svæðinu, sem hann taldi að sýndi réttar útlínur hólfsins, en reyndist ekki gera það. Var V dæmdur til lágmarkssektar, sem kveðið var á um í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, auk þess sem verðmæti afla og veiðarfæra voru gerð upptæk. Ekki var talið að máli skipti hvort reglugerð, sem bannaði veiðar í hólfinu, hefði haft lagastoð þegar hún var sett, þar sem hún fengi nú stoð af fyrrnefndum lögum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 23. mars 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að sér verði aðeins gerð vægasta refsing, sem lög leyfa.

Í málinu er ákærða sem skipstjóra á Faxaborg SH 207, skipaskrárnúmer 257, gefið að sök að hafa verið á línuveiðum 1. desember 1998 á nánar tilgreindum stað innan afmarkaðs svæðis á Breiðafirði, þar sem allar slíkar veiðar séu bannaðar samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 262/1994 um bann við línuveiðum í norðanverðum Breiðafirði. Í ákæru er þetta talið varða við ákvæði reglugerðarinnar, svo og 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Ekki verður fallist á með ákærða að þær takmarkanir á heimildum til fiskveiða, sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 262/1994, séu skorður á atvinnufrelsi manna í skilningi 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, enda eru á engan hátt settar skorður með reglugerðinni á almenna heimild manna til að mega hafa atvinnu af fiskveiðum.

Með framburði ákærða, sem er í samræmi við gögn málsins, er sannað að Faxaborg var hinn 1. desember 1998 að línuveiðum innan þess svæðis, sem afmarkað er í reglugerð nr. 262/1994, en ákærði var skipstjóri á skipinu í umrætt sinn og var fiskilínan lögð samkvæmt fyrirsögn hans. Línuveiðibann reglugerðarinnar á þessu svæði á nú stoð í 9. gr., sbr. 21. gr. laga nr. 79/1997. Þarf því ekki að taka afstöðu til þess hvort reglugerðin hafi haft nægilega stoð í lögum nr. 81/1976 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands þegar hún var sett.

Háttsemi ákærða varðar við 1. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 262/1994 og 1. mgr. 9. gr., sbr. 15. gr. og 16. gr. laga nr. 79/1997. Við ákvörðun refsingar eru dómstólar bundnir af ákvæði 1. mgr. 16. gr. laganna, en samkvæmt því skal sekt ekki nema lægri fjárhæð en 600.000 krónum sé skip staðið að veiðum á svæði, þar sem veiðar hafa verið bannaðar með heimild í 9. gr. laganna. Að þessu gættu er refsing ákærða hæfilega ákveðin í héraðsdómi.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Vilhjálmur Birgisson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurbjörns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 4. mars 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 4. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Vesturlands, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg, Reykjavík, af Finni Torfa Hjörleifssyni héraðsdómara, dómsformanni, og héraðsdómurunum Gretu Baldursdóttur og Ingveldi Einarsdóttur, meðdómendum, kveðinn upp dómur í málinu nr. S-110/1998: Ákæruvaldið gegn Vilhjálmi Birgissyni, sem dómtekið var 15. febrúar sl.

Sýslumaðurinn í Stykkishólmi gaf út ákæru í máli þessu 2. desember 1998, og var málið höfðað með birtingu hennar fyrir ákærða 2. janúar 1999. Það var þingfest 13. janúar og tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 15. febrúar sl.

Ákærður er Vilhjálmur Birgisson, kt. 210468-4719, Vallholti 19 Ólafsvík, Snæfellsbæ, “fyrir fiskveiðibrot, með því að hafa þriðjudaginn 1. desember 1998 verið sem skipstjóri að línuveiðum á fiskibátnum Faxaborg SH-207/0257, sem er 35.04 m að mestu lengd, á stað 65°16.86N og 24°40.22V á norðanverðum Breiðafirði sem er innan afmarkaðs svæðis þar sem allar línuveiðar eru bannaðar.

Telst háttsemi ákærða varða við 1. og 2. sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 262,1994 um bann við línuveiðum í norðanverðum Breiðafirði og 1. mgr. 9. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 79, 1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, sbr. og 21. gr. þeirra laga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Samkvæmt 2. og 3. mgr. 16. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er krafist upptöku á fjárhæð sem svarar til andvirðis þeirra veiðarfæra skipsins sem notuð voru við hinar ólögmætu veiðar og þess afla sem fékkst með ólögmætum hætti samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna en það voru 8 rekkar af línu ásamt bólum og 6 tonn af fiski sem var mestmegnis þorskur.”

Svo segir í ákæruskjali.

Við aðalmeðferð krafðist sækjandi þess að ákærði yrði dæmdur til refsingar, sbr. ákæru, og til að greiða allan sakarkostnað, þ.m.t. saksóknarlaun í ríkissjóð. Hann krafðist og upptöku á fjárhæðinni kr. 1.090.751, sbr. ákæru og framlagða matsgerð.

Verjandi ákærða krafðist þess aðallega að ákærði yrði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann yrði dæmdur til vægustu refsingar sem lög heimila. Í báðum tilvikum krafðist verjandi málsvarnarlauna að mati réttarins.

Um atvik máls.

Í máli þessu er enginn ágreiningur um atvik.

Þriðjudaginn 1. desember 1998 var þyrla Landhelgisgæslunnar á eftirlitsflugi yfir Breiðafirði. Kom hún þá að Faxaborg SH-207, skipaskrárnr. 0257, að meintum ólöglögum línuveiðum í hólfi því sem friðað var með reglugerð nr. 262/1994. Í skýrslu Páls Geirdal yfirstýrimanns hjá Flugdeild Landhelgisgæslunnar til sýslumannsins í Stykkishólmi segir, að kl. 17:10 þennan dag hafi þyrlunni verið flogið yfir bátinn Faxaborg SH-207. Staðsetning skv. GPS-tæki hafi verið 65°16.859N og 24°40.224V. Þetta hafi gefið stað bátsins 2,60 sjómílur inni í reglugerðarhólfinu miðað við syðri mörk hólfsins og 1,50 sjómílur inni í reglugerðarhólfinu miðað við vesturmörk hólfsins. Þá segir í skýrslu þessari að kl. 17:14 hafi verið talað við skipstjóra bátsins, þ.e. ákærða. Hafi hann staðfest veiðiskap bátsins. Hafi hann þá gefið upp staðarákvörðun skv. GPS-tæki bátsins, 65°17,032N og 24°40,295V. Skipverjar á Faxaborg voru að draga línuna þegar þetta gerðist. Áttu þeir eftir að draga 10 rekka af 14, sem þeir höfðu lagt. Fékk skipstjóri leyfi Gæslunnar til að ljúka drættinum, en að því búnu var skipinu snúið til Rifshafnar, og kom það þangað að morgni 2. desember kl. 08:14. Var þá hafin lögreglurannsókn málsins.

Í frumskýrslu lögreglu segir að mb. Faxaborg hafi verið komin að bryggju kl. 08:14 2. desember. Lögregla fór þá um borð í bátinn: “Rætt var við skipstjórann og skoðað í tölvu (plotter) skipsins, þar sem sjá mátti umrætt hólf og hafði það verið fært inn á sjókort tölvunnar með svörtum staðarlínum. Samkvæmt þeim staðarlínum voru allar lagnir bátsins í þessari veiðiferð og sjáanlegar [svo] voru á kortinu, utan við hólfið. Skipstjórinn kvað þessar staðarlínur hafa verið á kortinu þegar hann tók við bátnum og hafi hann talið fullvíst, að þar væri hólfið rétt afmarkað og því ekki kannað það nánar.”

Lögregluskýrsla var tekið af ákærða, tímasett 2. desember 1998 kl. 09:45. Ákærði greindi þar frá því að hann hefði farið í sjóferð þessa frá Rifi 28. nóvember sl. kl 23:00. Hefði hann verið við veiðar frá því þá um nóttina og fram til kl. 04:30 aðfaranótt 2. desember. Síðustu lögnina hefði hann byrjað að leggja 1. desember, og hefði hann lagt 14 rekka, sem samsvaraði 48 bjóðum miðað við að 420 krókar væru í bjóði. Lögnin hefði verið frá stað 65°10,589N,  24°41,287V, og lagt hafi verið í norður að stað eins og upp gefið er í skýrslu Landhelgisgæslunnar; lokapunkturinn hafi verið 65°13,354 N,  24°43,912 V. Lagt hafi verið í norður og suður, eins og sýnt er á útsetningu Gæslunnar. Ákærði kvaðst telja að 8 rekkar hafi verið inni í friðaða hólfinu og á þann hluta línunnar taldi hann að fengist hefði 6 tonna afli, að mestu þorskur. Ákærði greindi frá því að þetta hefði verið hans fyrsti túr með skipið sem skipstjóri. Hann sagði að umrætt hólf hefði verið inni í tölvu (plotter) skipsins. Það hefði verið sett þar inn áður af öðrum en honum, en hann vissi ekki af hverjum, þar sem ýmsir skipstjórar hefðu verið með skipið. Hann kvaðst hafa talið að hólfið væri rétt útsett í tölvunni og því ekki kannað það nánar, en talið að hann hefði örugglega verið vestan við hólfið með lögnina. Ákærði gaf upp staðsetningarpunkta hólfins eins og þeir voru í tölvu skipsins.

Samkvæmt reglugerð nr. 262/1994 um bann við línuveiðum á norðanverðum Breiðafirði hafa allar línuveiðar verið bannaðar frá og með 25. maí 1994 á svæði í norðanverðum Breiðafirði sem markast af línu sem dregin er milli eftirgreindra punkta:

1.

Bjargtangar (grp 33)

2.

65°23,00N - 24°44,00V

3.

65°15,20N - 24°43,80V

4.

64°07,17N - 24°13,74V

5.

65°11,38N - 23°47,90V

6.

Skorarviti

Að norðan markast svæðið af fjöruborði meginlandsins.

Við þingfestingu máls þessa neitaði ákærði sakargiftum. Hann kvaðst þá ekki gera athugasemdir við atvikalýsingu ákæru, en hann neitaði því að hafa brotið lög.

Í skýrslu sinni fyrir dómi við aðalmeðferð málsins staðfesti hann að atvikum væri rétt lýst í ákæru. Hann endurtók það sem hann fyrr hafði sagt um ranga staðsetningarpunkta hins friðaða hólfs inni í tölvu skipsins.  Hann sagði að hann hefði verið búinn að vera að veiðum suðvestur af hólfinu, tekið þar tvær eða þrjár lagnir, en síðan ætlað að taka síðustu lögnina fyrir vestan hólfið. Hann sagði að það munaði 1-2 sjómílum á rétta hólfinu og því sem hann hefði verið með í tölvunni. Hann hefði talið sig vera utan hólfsins. Þá kom það fram í skýrslu hans að hann hefði verið sofandi þegar línan var lögð í friðaða hólfið. Stýrimaður hans, Máni Andersen, hefði stjórnað skipinu á lögninni. Ákærði kvaðst hafa gefið Mána fyrirmæli um lögnina samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hefði haft í tölvunni.  Hann kvaðst halda að hinir röngu staðsetningarpunktar friðaða hólfsins í tölvu skipsins hefðu verið takmörk eldri skyndilokana. Hann kvaðst hafa verið sjómaður meira eða minna frá 16 ára aldri. Skipstjórapróf hefði hann frá 1994.

Máni Andersen,skipverji á Faxaborg, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst hafa verið stýrimaður í umræddri veiðiferð. Hann staðfesti að hann hefði stjórnað línulögninni í friðaða hólfinu. Hann hefði lagt línuna eftir þeim punktum sem ákærði hefði mælt fyrir um og hefðu verið gefnir í tölvunni. “Það eina sem ég geri er að leggja eftir þessum punktum, sem við héldum báðir að væru ekki í friðuðu hólfi.” Hann hefði keyrt eftir línu á tölvuskjánum (plotternum). Ákærði hefði hvergi komið nærri lögninni.

Óli Þór Valgeirsson, vélstjóri á Faxaborg, gaf skýrslu fyrir dómi. Hann kvaðst ekki hafa verið uppi á lögninni. Hann sagði að fyrir lögnina hefðu hann og ákærði verið að ræða saman um að leggja norðvestur með hólfinu, prófa nýja slóð. Þeir hefðu ekki verið þarna áður. Þeir hefðu talið þetta vera utan við “línuna”. 

Vörn ákærða.

Vörn ákærða  var í málflutningi verjanda á því byggð, að með setningu reglugerðar nr. 262/1994 hefði verið brotið gegn 75. gr. stjórnarskrárinnar. Þær takmarkanir á atvinnufrelsi, sem reglugerðin kveður á um, hefði löggjafanum borið að setja með lögum, sbr. 75. gr. stjórnarskrár, sbr. 3. og 13. gr. laga nr. 97/1995.

Verði ekki á þetta fallist, byggir verjandi vörn ákærða á því að reglugerð nr. 262/1994 fái ekki samrýmst þeim takmörkunum sem heimild ráðherra voru settar bæði í lögum nr. 81/1976 og skv. lögum nr. 79/1997. Heldur verjandi því fram að reglugerðin eigi sér ekki stoð í lögum og hafi því ekki stjórnskipulegt gildi og geti því ekki verið grundvöllur refsingar í máli þessu.

Verjandi benti á að í 9. gr. núgildandi laga nr. 79/1997 hefði heimild til setningar reglugerðar verið breytt frá því sem var í eldri lögum, framkvæmdavaldinu hefðu verið sett ný og breytt skilyrði  til þess að banna notkun ákveðinna veiðarfæra á tilteknum svæðum. Við þessar aðstæður gæti reglugerðin ekki haldið gildi sínu, heldur hefði framkvæmdavaldinu borið að setja nýja sem fullnægði skilyrðum núgildandi laga.

Forsendur og niðurstöður.

Með bréfi Hafrannsóknastofnunar til Sjávarútvegsráðuneytisins, dags. 28. apríl 1994, lagði stofnunin til að bannaðar yrðu línuveiðar allt árið á tilteknu svæði á norðanverðum Breiðafirði, svonefndum Fláka. Í bréfi stofnunarinnar kom fram að línuveiðar hefðu yfirleitt verið bannaðar á Flákanum að haust- og vetrarlagi og að línuafli að sumarlagi hefði oftast verið lítill.  Undanfari bréfs Hafrannsóknastofnunar var bréf fimm skipstjóra til Guðmundar Karlssonar, forstöðumanns veiðieftirlits, dags. 23. mars 1994, þar sem þeir létu í ljós það álit sitt að svæðið ætti að vera friðað allt árið  vegna mikils smáfisks þar. Upplýst er að á árunum 1990-1993 var oft beitt skyndilokunum á Flákanum, árið 1992 voru þær fjórar og árið 1993 sjö.

Í kjölfar þessa var sett reglugerð nr. 262/1994 um bann við línuveiðum á norðanverðum Breiðafirði, og hafa línuveiðar verið bannaðar þar frá 25. maí 1994. Reglugerðin var sett með stoð í lögum nr.  81/1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Í reglugerðinni er ekki tekið fram við hvaða lagagrein eða greinar í lögum nr. 81/1976 hún styðst, en í 6. gr. þeirra laga var svo fyrir mælt að sjávarútvegsráðuneytið skyldi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna við seiða- og smáfiskadrápi. Í því skyni væri ráðuneytinu heimilt að tilkynna bann við ákveðnum veiðum á tilteknu veiðisvæði. Gert var ráð fyrir því í lokaákvæði þessarar lagagreinar að slíkar veiðitakmarkanir væru tímabundnar, en umsögn Hafrannsóknarstofnunar skyldi liggja fyrir áður en þær væru úr gildi numdar.

Dómendur álíta að reglugerðin hafi átt sér stoð í nefndri lagagrein. Þeir telja sýnt að almannahagsmunir hafi krafist þess að hún yrði sett og að lagagreinin uppfylli þau skilyrði sem 69. gr. stjórnarskrárinnar þá setti um takmarkanir á atvinnufrelsi, sbr. nú 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 13. gr. laga nr. 97/1995. Þeir líta ennfremur svo á að ekki geti það valdið ógildi reglugerðarinnar, út af fyrir sig, að  henni er ekki markaður ákveðinn gildistími.

Lög nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands leystu af hólmi lög nr. 81/1976.  Í 21. gr. þeirra laga er kveðið á um að reglugerð sett skv. eldri lögunum haldi gildi sínu. Reglugerð samkvæmt eldri lögum heldur gildi sínu, þótt þess sé ekki sérstaklega getið í yngri lögum sem leysa hin eldri af hólmi, nema því aðeins að hún stangist á við ákvæði hinna yngri laga. Þetta á enn frekar við ef hin yngri lög kveða skýrum orðum á um það, eins og gert er í 21. gr. laga nr 79/1997.

Í 1. mgr. 9. gr. núgildandi laga, nr. 79/1997, segir að ráðherra skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Geti ráðherra með reglugerð m.a. ákveðið sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með tilteknum veiðarfærum séu bannaðar. Síðan segir í sömu lagagrein að ráðherra ákveði hvort reglugerðir um friðunarsvæði gilda um ákveðinn tíma eða eru ótímabundnar.  Að lokum segir í 1. mgr. 9. gr. að leita skuli að jafnaði umsagnar Hafrannsóknarstofnunar áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt lagagreininni.  Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 79/1997 segir í athugasemdum við 9. gr., að gert sé ráð fyrir að hún komi í stað 6. og 7. gr. laga nr. 76/1981.

Dómendur líta svo á að reglugerð nr. 262/1994 eigi sér stoð í 9. gr. laga nr. 79/1997 ekki síður en í 6. gr. laga nr. 81/1976. Þessu fái ekki haggað þótt svo kunni að mega líta á að orðalag nefndrar 9. greinar um ótímabundnar reglugerðir sé ógætilegt með tilliti til 75. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt lögum nr. 81/1976 sem reglugerðin studdist við, var hún tímabundin, og dómendur álíta  að hún sé það skv. 9. gr. laga nr. 79/1997, þar sem gert er ráð fyrir tímabundnum reglugerðum. Þá ber ennfremur að athuga að reglugerðin var sett vegna þeirrar lagaskyldu ráðherra að kveða á um nauðsynlega fiskvernd. Á sama hátt hlýtur að hvíla á ráðherra skylda til að afnema reglugerðina þegar málefnalegur grundvöllur hennar er ekki fyrir hendi, þ.e. þegar ekki er lengur þörf fyrir þá fiskvernd sem hún kveður á um. Í þessu felst að reglugerðin er í eðli sínu tímabundin. Því er ekki haldið fram í máli þessu að reglugerðin hvíli ekki á málefnalegum grunni.

Upplýst er að ákærði og stýrimaður hans, vitnið Máni Andersen, skiptu með sér vöktum og að stýrimaður stjórnaði skipinu á lögninni, en ákærði var í koju. Jafnframt er upplýst að stýrimaður fór að fyrirmælum ákærða um lögnina. Í því fólst að hann lagði línuna eftir ákveðnum staðsetningarpunktum í GPS-tæki (plotter) skipsins, svo sem ákærði hafði fyrir mælt. Ákærði lýsti því fyrir dóminum að hann hefði verið í villu um að þessir staðsetningarpunktar, sem hann kvaðst ekki hafa sjálfur sett inn í GPS-tækið (eða tölvuna), væru utan hins friðaða svæðis. Villa þessi er ekki refsileysisástæða. Ákærði ber sem skipstjóri skipsins refsiábyrgð skv. 15. gr. laga nr. 79/1997 á því gáleysi sínu að leggja línu inn í hið friðaða hólf.  

Ákvörðun refsingar.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997. Hann hefur tvisvar gengist undir sátt vegna umferðalagabrota, og hefur það engin áhrif í þessu máli. Dómendur telja sýnt að ákærði hafi framið brot sitt af gáleysi. Hann hefur frá upphafi gengist við veiðum sínum á hinu friðaða svæði og sýnt samstarfslipurð við Landhelgisgæslu og lögreglu til að upplýsa málið.

Refsing ákærða þykir dómendum hæfilega ákveðin 600.000 króna sekt, en 60 daga fangelsi komi í stað sektar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá lögbirtingu dómsins. Sektarfjárhæðin renni í Landhelgissjóð Íslands, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 79/1997.

Upptaka verðmætis afla og veiðarfæra.

Sá hluti veiðarfæra sem lagður var í hinu friðaða hólfi og aflinn sem á hann fékkst var metinn af dómkvöddum matsmönnum, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997. Matsfjárhæðin nemur skv. fram lagðri matsgerð kr. 1.090.751 (veiðarfæri kr. 225.971 + afli kr. 864.780). Fjárhæðar er ekki getið í ákæru, en hún kemur fram í bókaðri kröfu sækjanda við málflutning og var ekki hreyft andmælum gegn henni.  Þess er ekki getið í ákæru að hverjum upptökukrafan beinist, en gera verður ráð fyrir að hún beinist að ákærða sem umráðamanni skips, veiðarfæra og afla. Ber að fallast á kröfuna skv. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997, sbr. og dómaframkvæmd. Upptökufjárhæðin renni í Landhelgissjóð Íslands, sbr. 4. mgr. 19. gr. nefndra laga.

Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, sem skulu vera 50.000 krónur, og 50.000 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Sigurbjörns Magnússonar hrl. auk virðisaukaskatts

Dóm þennan kveða upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari, dómsformaður, og héraðsdómararnir Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir, meðdómendur.

Dómsorð:

Ákærði, Vilhjálmur Birgisson, greiði 600.000 króna sekt í Landhelgissjóð Íslands. Komi 60 daga fangelsi í stað sektarinnar, ef hún verður ekki greidd innan fjögurra vikna frá lögbirtingu dóms þessa.

Upptæk skal vera í Landhelgissjóð Íslands 1.090.751 króna, sem er verðmæti þeirrar fiskilínu, sem ákærði lagði í friðað hólf skv. reglugerð nr. 262/1994, 1. desember 1998 og þess afla sem fékkst á línuna.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin 50.000 krónur í saksóknarlaun í ríkissjóð og 50.000 krónur í málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Sigurbjörns Magnússonar hrl., auk virðisaukaskatts.