Print

Mál nr. 311/2014

Lykilorð
  • Frelsissvipting
  • Nauðungarvistun
  • Friðhelgi heimilis
  • Mannréttindi
  • Stjórnarskrá

Fimmtudaginn 9. október 2014.

Nr. 311/2014.

A

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Soffía Jónsdóttir hrl.)

Frelsissvipting. Nauðungarvistun. Friðhelgi heimilis. Mannréttindi. Stjórnarskrá.

A höfðaði mál gegn Í og krafðist þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Í vegna ólögmætrar nauðungarvistunar hennar frá 16. júní 2010 til 1. júlí sama ár. Í dómi Hæstaréttar kom fram að tilefni hefði verið fyrir lögreglu til að óttast um andlega heilsu A og því verið heimilt með vísan til 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 að fara inn á heimili hennar. Var því ekki fallist á að lögregla hefði brotið gegn réttindum hennar samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þá var talið að heimilt hefði verið að flytja A nauðuga á geðdeild og vista hana þar á grundvelli 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Að virtu vottorði utanaðkomandi sérfræðings og upplýsinga í sjúkraskrá A var á hinn bóginn talið að ekki hefðu verið efni til að vista A nauðuga á geðdeildinni eftir 27. júní 2010. Var því viðurkennd skaðabótaskylda Í frá greindu tímamarki til loka vistunarinnar.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. maí 2014. Hún krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna ólögmætrar nauðungarvistunar hennar frá 16. júní 2010 til 1. júlí sama ár. Þá krefst áfrýjandi staðfestingar á málskostnaðarákvörðun héraðsdóms og málskostnaðar  fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

I

Upphaf máls þessa er að rekja til þess að bróðir áfrýjanda og barnsfaðir hennar leituðu 15. júní 2010 til nafngreinds læknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á [...] til að fá hjálp fyrir hana, en hún hefði verið að einangra sig æ meira síðasta ár, ekki tekið símtöl frá dætrum sínum frá áramótum og yfirleitt ekki viljað tala við nokkurn mann. Þá hafi hún verið ógnandi í framkomu undanfarið, steytt hnefann að fólki og sveigt að því þegar hún væri á ferð á reiðhjóli sínu.

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á [...] óskuðu umræddur læknir og forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...] síðdegis 16. júní 2010 eftir aðstoð lögreglu að heimili áfrýjanda vegna þess að hún hefði ekki opnað fyrir þeim. Sagði í skýrslunni að þegar að íbúðinni var komið hafi mátt sjá að búið var að taka hurðarhún af hurðinni að íbúðinni. Á hurðina voru rituð skilaboðin „ég er ekki ein“ og „engir rasistar hér.“ Bankað var ítrekað á hurðina og dyrabjöllu sömuleiðis hringt margsinnis án þess að svarað yrði. Eftir stutta stund heyrðist kveikt á útvarpi og byrjað að syngja með. Við svo búið var hurðinni sparkað upp og tók áfrýjandi á móti lögreglumönnum og fyrrgreindum lækni og forstöðumanni með hrópum og hótunum. Áfrýjandi var handtekin og færð í handjárn. Sýndi hún mikinn mótþróa við handtökuna og jós svívirðingum yfir viðstadda. Ákvað læknirinn að gefa áfrýjanda róandi lyf, en þau virkuðu ekki sem skyldi. Eftir vistun í fangaklefa klukkan 18.31 var áfrýjandi flutt klukkan 20.20 á [...]. Samkvæmt dagnótu læknisins klukkan 21.21 sama kvöld var áfrýjandi „klárlega í geðrofsástandi, mjög æst og agiteruð“ og ákvað læknirinn bráðainnlögn á geðdeild í „samráði við fjölskyldu [áfrýjanda], geðlækna og félagsmálayfirvöld“. Í framhaldinu var flogið með áfrýjanda til Reykjavíkur, þar sem hún var lögð inn á geðdeild Landspítalans.

Í beiðni Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...] 16. júní 2010 um nauðungarvistun áfrýjanda kom meðal annars fram að hún þjáðist af geðröskunum og hefði henni verið mjög uppsigað við „læknamafíuna“ og „lögregluofríkið.“ Hún hefði samkvæmt dagbók lögreglu sýnt af sér ofbeldisfulla hegðun og meðal annars ráðist að fólki í verslunum á [...] með formælingum og sent fjölmörg bréf, þar sem hún hefði lýst vissu sinni á að einhverjir væru á ferli í íbúð hennar þegar hún væri ekki heima. Þá væri hún búin að fjarlægja snerilinn á útidyrahurð íbúðar sinnar og setja á hana nokkra smekklása að innan. Hún væri algerlega mótfallin allri meðferð eða aðstoð frá læknum og teldi þá ætla að eitra fyrir sér. Hafi ástandið farið hríðversnandi og þarfnaðist áfrýjandi geðhjálpar hið fyrsta. Samkvæmt vottorði fyrrgreinds læknis 16. júní 2010, sem fylgdi með beiðninni um nauðungarvistun, sagði eftirfarandi um andlegt ástand áfrýjanda: „Psykosuástand, æst og agiteruð, sparkar og slær frá sér með fúkyrðum. Ekkert innsæi til staðar. Hættuleg öðrum og sjálfri sér og svipting algerlega nauðsynleg.“ Um væri að ræða alvarlegan geðsjúkdóm og sjúkdómsgreining væri „Paranoid geðklofi“.

Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið samþykkti 17. júní 2010 að verða við beiðni um nauðungarvistun áfrýjanda. Áfrýjandi krafðist þess 20. sama mánaðar að nauðungarvistunin yrði felld úr gildi, en með úrskurði héraðsdóms 24. júní 2010 var kröfunni hafnað. Áfrýjandi kærði úrskurðinn til Hæstaréttar, sem felldi hann úr gildi með dómi 30. sama mánaðar í máli nr. 409/2010. Í dómi réttarins sagði meðal annars að í hinum kærða úrskurði væru rakin þau gögn, sem lágu til grundvallar ákvörðun um að vista áfrýjanda á sjúkrahúsi, en þegar á hinn bóginn væri litið til nýjustu upplýsinga um áfrýjanda, sem kæmu fram í vottorði nafngreinds utanaðkomandi geðlæknis 27. júní 2010, hafi ekki verið sýnt fram á nauðsyn þess að vista skyldi hana nauðuga á sjúkrahúsi. Efni þessa vottorðs er rakið skilmerkilega í héraðsdómi.

II

Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt sjúkraskrá sína frá Landspítalanum vegna tímabilsins frá 16. maí til 21. júlí 2010. Samkvæmt innlagnarskrá var sjúkdómsgreining áfrýjanda brátt margbreytilegt geðrof án geðklofaeinkenna og tilgreind ástæða komu geðrofseinkenni. Jafnframt kom þar fram að grunur væri um hugvilluröskun (delusional disorder). Áfrýjandi hafi komið mjög vel fyrir og verið prúð í framkomu. Ekki hafi komið „beinlínis“ fram ranghugmyndir eða ofskynjanir. Hún hafi verið „aðeins confronteruð með sumum af ofannefndum einkennum, en hún hefur eðlilegar skýringar á öllu saman.“ Þegar líða hafi farið á dvöl hennar hafi hún farið að tala um að hún væri „tómstundargaman heilbrigðisstarfsfólks og yfirvalda á [...], en a.ö.l. bar ekki á paranoid ranghugmyndum eða öðrum geðrofseinkennum.“ Þá sagði þar að áfrýjandi hafi alltaf komið mjög eðlilega fyrir og átt eðlileg samtöl við starfsfólk og samsjúklinga. Í dagál sérfræðings, sem skoðaði áfrýjanda 18. júní 2010, sagði að hún hafi verið dálítið kvíðin og spennt og viljað fá lyf við þeim einkennum, en að öðru leyti hafi hún komið mjög vel fyrir. Í niðurlagi dagálsins sagði svo: „Að öllum líkindum er hér um einhvers konar geðrofsprocess að ræða, gæti verið delusional disorder eða paranoid persónuleikaröskun.“ Í dagál annars sérfræðings, sem skoðaði hana fyrst 21. sama mánaðar, sagði eftirfarandi: „Frá upphafi hefur þetta mál verið allt svolítið óljóst. Erfitt er að segja að hún hafi sýnt geðrofseinkenni hér á deildinni með vissu í beinum skilningi þess hugtaks, enda var hún meira vistuð á grunni þess að það væri um að ræða jafngildi alvarlegs geðsjúkdóms eða verulegur grunur að alvarlegur geðsjúkdómur sé á ferðinni, metið eftir þeim klínísku upplýsingum sem við fengum frá heimabyggð hennar á [...] og ættingjum ... Ekki er hægt að útiloka vægt örlyndi sem mismunagreiningu því hún hefur verið nokkuð ör í framkomu á köflum, en ef til vill skýrist það að einhverju leyti af því óréttmæta mótlæti sem hún telur sig eiga í við kerfið.“ Sami sérfræðingur kom fyrir dóm vegna meðferðar nauðungarvistunarmálsins. Um framburð hans sagði í úrskurði héraðsdóms að þær upplýsingar, er hann hefði aflað sér, gæfu tilefni til að ætla að verulegar líkur væru fyrir því að áfrýjandi væri haldin alvarlegum sjúkdómi og væri hún vistuð á geðdeild til að ganga úr skugga um hvort svo væri. Væri það álit sitt að fullnægt væri skilyrðum 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til að áfrýjandi yrði nauðungarvistuð áfram, en ástand hennar einkenndist af almennum hugsanatruflunum og hugröskunum og félli undir að vera alvarlegur geðsjúkdómur.

III

         Í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, svo sem henni var breytt með 9. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, er svo fyrir mælt að allir skuli njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Í samræmi við það er kveðið á um í 2. mgr. 71. gr. að ekki megi gera leit í húsakynnum manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Eins og tekið var fram í greinargerð með frumvarpi til áðurnefndra stjórnarskipunarlaga er heimild til húsleitar sem hér um ræðir ekki einskorðuð við það að fyrir liggi grunur um að framið hafi verið refsivert brot. Skýra ber þessi ákvæði stjórnarskrárinnar með hliðsjón af fyrirmælum mannréttindasáttmála Evrópu sem lögtekinn hefur verið hér á landi, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Í 1. mgr. 8. gr. sáttmálans segir að sérhver maður eigi rétt til friðhelgi einkalífs síns og heimilis. Samkvæmt 2. mgr. hennar skulu stjórnvöld eigi ganga á þann rétt nema samkvæmt því sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, þar á meðal til verndar heilsu manna.

          Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er lögreglu heimilt að hafa afskipti af borgurunum til að gæta öryggis einstaklinga og eftir 2. mgr. þeirrar lagagreinar að fara meðal annars í því skyni inn á svæði í einkaeign. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kom fram að með því að lögfesta þessi ákvæði væri verið taka í lög áður óskráða reglu þess efnis að lögregla hafi almenna heimild til að grípa innan vissra marka til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu. Að teknu tilliti til þessa verður að játa lögreglu heimild til þess á grundvelli 2. mgr., sbr. 1. mgr. 15. gr. þeirra laga að fara, ef nauðsyn krefur, inn á heimili manna þótt ekki liggi fyrir samþykki þeirra til að ganga úr skugga um hvort eitthvað alvarlegt ami að þeim eða öðrum sem þar kunna að dvelja. Slík heimild til handa lögreglu samrýmist því viðhorfi sem ríkir í íslensku þjóðfélagi að stjórnvöldum beri að láta sig varða velferð fólks, svo framarlega sem ekki sé vegið að grundvallarréttindum borgaranna. Þó verður að setja heimild sem þessari þröngar skorður, meðal annars með tilliti til sjónarmiða um meðalhóf. Þannig verður að gera þá kröfu til lögreglu að hún fari ekki inn á heimili nema ærin ástæða sé til. Einnig er lögreglumönnum skylt að knýja á dyr og tilkynna að þar sé lögregla á ferð áður en þeir fara inn.

        Ráðið verður af þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu og gerð er grein fyrir að framan, að réttmæt ástæða var til að óttast um andlega heilsu áfrýjanda þegar ákveðið var 16. júní 2010 að hafa afskipti af henni. Eins og fram er komið var bæði margsinnis knúið dyra og hringt dyrabjöllu hjá áfrýjanda, án nokkurra eðlilegra viðbragða af hennar hálfu, áður en ákveðið var að ráðast til inngöngu í íbúð hennar. Samkvæmt framansögðu hafði lögregla heimild að lögum til að fara inn á heimili áfrýjanda greint sinn. Vegna ofsafenginna viðbragða áfrýjanda við komu lögreglu, læknis og fulltrúa félagsmálayfirvalda í íbúðina var og lögmætt að handtaka hana, handjárna og flytja á lögreglustöð.

IV

        Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, má engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá er svo fyrir mælt í 5. mgr. 67. gr. að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Í 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eru tæmandi taldar þær ástæður sem verða að vera fyrir hendi til þess að maður verði sviptur frelsi, þar á meðal má gera það í því tilviki að um sé að ræða löglega gæslu manns sem er andlega vanheill, sbr. e. lið málsgreinarinnar. Eftir 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga verður sjálfráða maður ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Samkvæmt fyrsta málslið 2. mgr. þeirrar lagagreinar getur læknir þó ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur í sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í athugasemdum með frumvarpi til lögræðislaga var tekið fram að alvarlegur geðsjúkdómur í merkingu þessa ákvæðis væri samheiti yfir geðraskanir sem einkenndust af verulegum hugsanatruflunum og dómgreindarbresti og samsvaraði nokkurn veginn hugtakinu geðrof (psychosis) sem í íslensku máli væri einnig nefnt geðveiki. Sem dæmi um alvarlega geðsjúkdóma mætti nefna geðklofa (schizophrenia), aðsóknargeðrof (paranoid psychosis), geðlægð (depression) með geðrofseinkennum og geðhæð (mania) með geðrofseinkennum. Fyrir utan hugtakið féllu hins vegar hugraskanir og streitutengdar raskanir sem einkennst gætu af kvíða, fælni og þráhyggju, enn fremur persónuleikaraskanir og þroskahefting. Hent gæti að sá sem haldinn væri hugröskun, persónuleikaröskun eða þroskaheftingu sýndi jafnframt sjúkdómseinkenni sem bent gætu til alvarlegs geðsjúkdóms og mætti þá vista hann gegn vilja sínum í sjúkrahúsi til rannsóknar og meðferðar ef læknir teldi það óhjákvæmilegt. Heimildin til að vista mann nauðugan í sjúkrahúsi ef verulegar líkur væru taldar á að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi væri á því byggð að oftar en ekki þegar um bráðageðveiki væri að ræða væri ógjörningur að koma við nákvæmri greiningu á ástandi hans áður en honum yrði komið í sjúkrahús.

V

          Leysa þarf úr því hvort áfrýjandi hafi verið svipt frelsi að ósekju í umrætt sinn þannig að stefndi hafi bakað sér bótaskyldu gagnvart henni samkvæmt 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 32. gr. lögræðislaga.

Að virtum þeim gögnum, sem fyrir lágu 16. júní 2010, þegar umræddur læknir á [...], lögregla og fulltrúi félagsmálayfirvalda þar í bæ höfðu afskipti af áfrýjanda og gerð hefur verið grein fyrir, er nægjanlega leitt í ljós að heimilt hafi að ákveða á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga að áfrýjandi skyldi flutt nauðug á sjúkrahús. Jafnframt var heimilt að láta áfrýjanda sæta þvingaðri lyfjagjöf, sbr. 3. mgr. 28. gr. sömu laga, þar sem telja verður að hún hafi á þeim tíma verið hættuleg sjálfri sér og öðrum.

Eins og lýst er í kafla II hér að framan eru gögn úr sjúkraskrá áfrýjanda eftir að hún var lögð inn á geðdeild Landspítalans 16. júní 2010 ekki með öllu afdráttarlaus um að áfrýjandi hafi verið haldin alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur hafi verið á að svo væri eða ástand hennar væri þannig að jafna mætti til alvarlegs geðsjúkdóms. Má sem dæmi nefna að þar kom fram að áfrýjandi hafi komið mjög vel fyrir og verið prúð í framkomu, átt eðlileg samtöl við starfsfólk og samsjúklinga og ekki hafi komið „beinlínis“ fram ranghugmyndir eða ofskynjanir hjá henni. Þegar líða hafi verið farið á dvöl hennar hafi hún þó farið að tala um að hún væri „tómstundargaman heilbrigðisstarfsfólks og yfirvalda á [...]“, en að öðru leyti hafi ekki borið á ranghugmyndum eða öðrum geðrofseinkennum hjá henni. Í dagál sérfræðings, sem skoðaði hana 18. júní 2010, sagði einungis að áfrýjandi hefði verið dálítið kvíðin og spennt og viljað fá lyf við þeim einkennum, en að öðru leyti hefði hún komið mjög vel fyrir. Í niðurlagi dagálsins sagði á hinn bóginn svo: „Að öllum líkindum er hér um einhvers konar geðrofsprocess að ræða, gæti verið delusional disorder eða paranoid persónuleikaröskun.“ Í dagál annars sérfræðings sagði að málið hafi frá upphafi verið svolítið óljóst og væri erfitt að segja með vissu að áfrýjandi hafi sýnt geðrofseinkenni í beinum skilningi þess orðs í sjúkrahúsinu, enda hafi hún verið meira vistuð á grunni þess að um væri að ræða jafngildi alvarlegs geðsjúkdóms eða verulegur grunur léki á að alvarlegur geðsjúkdómur væri á ferðinni eftir læknisfræðislegum upplýsingum frá heimabyggð hennar og ættingjum. Þessi sérfræðingur kom sem áður greinir fyrir dóm og sagði það álit sitt að fullnægt væri skilyrðum 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga til að áfrýjandi yrði nauðungarvistuð áfram, en ástand hennar einkenndist af almennum hugsanatruflunum og hugröskunum og félli undir að vera alvarlegur geðsjúkdómur.

Að framan er því slegið föstu að heimilt hafi verið með vísan til 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga að flytja áfrýjanda nauðuga í sjúkrahús vegna þeirra geðrofseinkenna, sem hún var með að mati læknisins á [...] þegar fyrrgreind afskipti voru höfð af henni. Mat sérfræðings þess, sem kom fyrir dóm við meðferð nauðungarvistunarmálsins var á sömu leið, en hann skoðaði áfrýjanda samkvæmt áðursögðu 21. júní 2010. Verður því að telja að heimilt hafi verið í upphafi að vista áfrýjanda á geðdeildinni á grundvelli 3. mgr. sömu lagagreinar. Eins og áður greinir var utanaðkomandi sérfræðingur fenginn til að skoða áfrýjanda, sem hann gerði 26. og 27. júní 2010, og komst hann að þeirri niðurstöðu að hvorki væru fyrir hendi einkenni, sem bentu til þess að áfrýjandi væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi, né mætti jafna ástandi hennar til slíks sjúkdóms. Að því virtu og í ljósi þeirra upplýsinga í sjúkraskrá, sem samræmst geta þessari niðurstöðu, verður að telja að ekki hafi verið heimilt að vista áfrýjanda nauðuga á geðdeildinni eftir að vottorð hins utanaðkomandi sérfræðings lá fyrir 27. júní 2010. Var vistun hennar eftir þann tíma því ólögmæt. Samkvæmt því verður fallist á viðurkenningarkröfu áfrýjanda á þann hátt sem í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Viðurkennd er skaðabótaskylda stefnda, íslenska ríkisins, vegna ólögmætrar nauðungarvistunar áfrýjanda, A, frá 27. júní 2010 til 1. júlí sama ár.

Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms er staðfest.

Stefndi greiði áfrýjanda 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. febrúar 2014.

I

Mál þetta, sem var dómtekið 14. janúar sl., er höfðað af A, [...],[...], á hendur íslenska ríkinu, vegna innanríkis- og velferðaráðuneyta, með stefnu birtri 9. nóvember 2012.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna ólögmætrar nauðungarvistunar stefnanda frá 16. júní til 1. júlí 2010. Þá krefst stefnandi málskostnaður úr hendi stefnda eins málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

II

Málavextir

Mál þetta varðar nauðungarvistun stefnanda á Landspítalanum í júní 2010. Með beiðni Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...], dagsettri 16. sama mánaðar, var þess farið á leit við Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið, að stefnandi yrði svipt sjálfræði og í kjölfarið vistuð á geðdeild Landspítalans í Reykjavík. Í beiðninni kemur m.a. fram að stefnandi þjáist af geðröskunum. Henni væri í nöp við „læknamafíuna“ og „lögregluríkið“ og hafi háttsemi hennar verið til þess fallin að valda ótta á meðal almennings. Þannig hafi stefnandi, samkvæmt upplýsingum úr dagbók lögreglu, ráðist að fólki með formælingum, stefnt reiðhjóli sínu að því og sent bréf til fólks þess efnis, að stefnandi vissi að einhverjir væru á ferli í íbúð hennar, þegar hún væri að heiman. Stefnandi væri algjörlega mótfallin allri meðferð eða aðstoð frá læknum. Ástand hennar hefði hríðversnað og því þarfnaðist hún geðhjálpar hið fyrsta. Vísað var til læknisvottorðs Þórðar Guðmundssonar til stuðnings beiðninni. Í vottorðinu kemur m.a. fram að stefnandi sé öryrki vegna stoðkerfisverkja og geðrænna vandamála síðan 2006. Hún búi ein í fjölbýli. Hún eigi fjögur uppkomin börn. Bróðir hennar hafi komið ásamt barnsföður hennar á Heilsugæslustöðina á [...] 15. júní 2010 til að fá hjálp fyrir stefnanda. Hún hafi einangrað sig meir og meir og hegðun síðasta árið orðið æ undarlegri. Hún hafi ekki viljað tala við dætur sínar síðan um áramót og vilji ekki tala við nokkurn mann. Bróðir hennar segir hana hafa einangrað sig frá öðrum og sett teppi fyrir gluggana hjá sér. Hann hafi reynt að tala við hana en náð litlu sambandi við hana. Þá kemur fram í vottorðinu að stefnandi hafi síðast fengið endurnýjaðan lyfseðil á Tafli (kvíðastillandi lyf) fyrir rúmu ári. Hafi hún síðast séð lækni í apríl 2009 á geðdeild Landspítalans vegna psykosu. Fyrir liggur að læknirinn fór með lögreglu á heimili stefnanda. Í vottorðinu er greint frá skoðun á andlegu og líkamlegu ástandi stefnanda. Er þess getið að stefnandi hafi verið í psykoástandi, æst og agiteruð. Hún hafi sparkað og slegið frá sér með fúkyrðum. Ekkert innsæi væri til staðar. Hún væri hættuleg öðrum og sjálfri sér og væri svipting algerlega nauðsynleg. Í niðurstöðu vottorðsins kemur fram að stefnandi þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi DX paranoid geðklofa F20.0.

Í málinu liggur fyrir lögregluskýrsla, dagsett 16. júní 2010, vegna aðstoðar lögreglu við framkvæmd nauðungarvistunar. Í skýrslunni kemur fram, að stefnandi hafi verið greind með geðklofa og persónuleikaröskun og væri ætlunin að flytja hana með sjúkraflugi til Reykjavíkur og vista hana í kjölfarið á geðdeild Landspítalans. Aðrir aðilar á vettvangi, þ.e. við heimili stefnanda, hafi verið Margrét Geirsdóttir, forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...], ásamt Þórði Guðmundssyni, lækni. Hafi lögregla, ásamt Margréti og Þórði, komið að læstum dyrum að heimili stefnanda, sem ekki hafi komið til dyra þótt bankað væri á hurðina og dyrabjöllu ítrekað hringt. Hafi því verið ákveðið að opna hurðina með valdi og fara inn í íbúðina í því skyni að tryggja ástand stefnanda, sem talin hafi verið óútreiknaleg vegna veikinda sinna. Stefnandi hafi sýnt mikinn mótþróa og bæði hrópað og haft frammi hótanir við viðstadda. Hafi hún því verið tekin lögreglutökum og færð í handjárn áður en hún næði að gera sjálfum sér eða öðrum mein. Í kjölfarið hafi læknirinn gefið stefnanda róandi lyf og hafi hún síðan verið flutt á lögreglustöðina á [...], þar sem hún hafi verið vistuð í klefa. Síðar um kvöldið hafi hún verið flutt með sjúkraflugi áleiðis til Reykjavíkur.

Með bréfi, dagsettu þann 17. júní 2010, samþykkti ráðuneytið beiðni Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...] um nauðungarvistun stefnanda. Stefnandi krafðist þess, þann 20. sama mánaðar að sú ákvörðun ráðuneytisins yrði felld úr gildi. Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum þann 24. júní 2010, var kröfu stefnanda hafnað. Stefnandi kærði þann úrskurð til Hæstaréttar, sem féllst á kröfu hennar með dómi, uppkveðnum þann 30. júní 2010. Fram kemur í dómi réttarins að lagt hafi verið fram nýtt gagn, þ.e. læknisvottorð Péturs Haukssonar geðlæknis, til stuðnings kröfum hennar um niðurfellingu nauðungarvistunarinnar. Í vottorði Péturs frá 27. júní 2010 kemur fram að það sé ritað í kjölfar athugunar hans á framlögðum gögnum, sjúkraskýrslum og munnlegum upplýsingum frá geðlækni og hjúkrunarfræðingum sem annast höfðu stefnanda á geðdeild Landspítala frá 16. júní 2010. Þá átti læknirinn viðtöl við stefnanda 26. og 27. júní 2010. Í niðurlagi vottorðsins segir: „Aðsóknarkennd virðist ekki vera mikil nú. Í viðtölunum kemur heldur ekkert fram sem bendir til að hún hafi verið með einkenni aðsóknarkenndar fyrir innlögn. Mitt álit er að A virðist hafa vissa tilhneigingu til að leita ytri orsaka fyrir óförum sínum og jafnvel telja að aðrir séu haldnir hennar viðhorfum og líðan (frávarp), tilhneigingu sem má skýra af fyrri reynslu hennar, en jafnframt hefur hún tilhneigingu til sjálfsásakana, sem getur leitt til vanlíðunar og vonleysis. Við slíkar kringumstæður gæti frávarpið dregið úr sjálfsásökunum en aukið hættu á aðsóknarkennd og ranghugmyndum. Eftir 11 daga dvöl á geðdeild hafa hins vegar engin merki um ranghugmyndir eða önnur einkenni alvarlegs geðsjúkdóms í skilningi lögræðislaga komið fram, né koma þau fram í viðtölum mínum við hana. Ekki er hægt að útiloka að fyrir innlögn hafi hún verið með óeðlilega aðsóknarkennd og jafnvel uppfyllt greiningarskilmerki fyrir aðsóknargeðrofi. Um það er hins vegar ekki hægt að fullyrða út frá fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum. Þar er hegðun hennar lýst lauslega en ekki sjúkdómseinkennum nema að litlu leyti. Hafi slík aðsóknarkennd verið til staðar fyrir innlögn hefur hún gufað upp við innlögnina. Lýsingar hennar á mótlæti sem hún hefur orðið fyrir gætu hins vegar átt við rök að styðjast, a.m.k. að nokkru leyti, og gæti það útskýrt deilur, áreiti og átök, sem hún hefur, að hennar mati, ekki haft möguleika til að losa sig út úr og ekki haft möguleika á að flytja í burtu frá. Jafnvel þótt hún hafi haft á röngu að standa varðandi mótlætið sem hún lýsir, og jafnvel þótt lýsingar annarra á hegðun hennar séu réttar, nægir það ekki til að greina hjá henni alvarlegan geðsjúkdóm í skilningi lögræðislaga með neinni vissu, né að ástandi hennar megi jafna til slíks sjúkdóms. Líkur á því að hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi eru harla litlar eftir að engin einkenni um slíkan sjúkdóm hafa fengist fram meðan á 11 daga dvöl hennar á geðdeild hefur staðið, þrátt fyrir gaumgæfilega könnun nokkurra reyndra fagmanna á geðheilbrigðissviði á því hvort einkenni alvarlegs geðsjúkdóms séu til staðar, og engin slík einkenni koma fram við skoðun undirritaðs. Niðurstaða mín er að ég tel að ekki séu til staðar einkenni sem gætu bent til þess að A sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, né að ástandi hennar megi jafna til slíks sjúkdóms, né að líkur séu á því að hún sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, eftir 11 daga dvöl á geðdeild án þess að nokkuð sem bendir til þess hafi komið fram.“ Í dómi Hæstaréttar kemur fram að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga verði sjálfráða maður ekki vistaður nauðugur á sjúkrahúsi. Stefnandi hafi verið vistuð á geðdeild með vísan til undantekningarreglu í 2. mgr. greinarinnar þess efnis að læknir geti ákveðið að það skuli gert ef hinn sjálfráða sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur séu taldar á að svo sé eða ástand hans sé þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms væru rakin þau gögn sem hafi legið þessari ákvörðun til grundvallar. Þegar á hinn bóginn, væri litið til nýjustu upplýsinga um stefnanda, sem fram kæmu í vottorði Péturs Haukssonar geðlæknis, yrði fallist á að Skóla- og fjölskylduskrifstofa [...] hefði ekki sýnt fram á nauðsyn þess að vista skuli stefnanda nauðuga á sjúkrahúsi. Felldi Hæstiréttur því hinn kærða úrskurð úr gildi eins og áður hefur komið fram

Í nóvember 2010 leitaði þáverandi lögmaður stefnanda eftir viðræðum við ríkislögmann um skaðabætur, vegna ólögmætrar nauðungarvistunar. Með bréfi, 21. janúar 2011, var kröfu stefnanda um bætur hafnað á þeim grundvelli að ekki væru fyrir hendi bótaskilyrði samkvæmt 32. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.

Skýrslu fyrir dómi gáfu stefnandi og [...].

III

Málsástæður stefnanda

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hún hafi verið nauðungarvistuð gegn vilja sínum með ólögmætum hætti. Engin þeirra ástæðna sem komi fram í beiðni Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...] um nauðungarvistun eða í læknisvottorði Þórðar Guðmundssonar hafi getað réttlætt umrædda nauðungarvistun.

Stefnandi vísar til þess að hún hafi verið færð á geðdeild Landspítalans 16. júní 2010, þrátt fyrir að samþykki Dóms- og mannréttindaráðuneytisins, varðandi beiðni um nauðungarvistun hennar, hafi ekki legið fyrir fyrr en í fyrsta lagi þann 17. sama mánaðar.

Stefnandi byggir á því að ástæður frelsissviptingar hafi stafað af vanþóknun ákveðinna einstaklinga í hennar garð. Hún hafi óhikað viðrar skoðanir sínar á mönnum og málefnum, þar á meðal á læknum og lögreglumönnum, en slíkt sé henni frjálst að gera.  Slík háttsemi geti ekki fullnægt skilyrðum þeim sem gildi um nauðungarvistun á grundvelli 2. og 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Þá vísar stefnandi til þess að Þórður Guðmundsson læknir, sem greint hafi stefnanda með Dx paranoid geðklofa F20.0, hafi einungis haft almennt lækningarleyfi í höndum. Verði því að telja sjúkdómsgreiningu afar hæpna með tilliti til menntunar hans og síðari álita faglærðra geðheilbrigðistarfsmanna á geðdeild Landspítalans í Reykjavík.      

Stefnandi vísar til þess að nauðungarvistun sé alvarlegt inngrip í líf manna sem snerti bæði persónu- og ferðafrelsi þeirra, sem til standi að vista nauðuga á sjúkrahúsi. Telur stefnandi að engra málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga hafi verið gætt, s.s. rannsóknarreglunnar og meðalhófsreglunnar, en tilvísun til 18. gr. stjórnsýslulaga í 19. gr. lögræðislaga bendi einmitt til þess, að aðrar reglur stjórnsýslulaga beri að hafa í heiðri, ef til álita kemur að framkvæma nauðungarvistun. Ekki hafi farið fram fullnægjandi mat á geðheilbrigði stefnanda, áður en ákvörðun um nauðungarvistun hafi verið tekin. Af þeim sökum hafi ákvörðun um nauðungarvistun stefnanda verið bæði ólögmæt og ógild. Stefnandi telur að með orðinu læknir í 19. grein lögræðislaga sé átt við geðlækni eða sérfræðilækni á því sjúkdómssviði sem við eigi, sbr.  2. mgr. 3. greinar laga um réttindi sjúklinga nr. 71/1997, sbr. og 1. grein laganna. Samkvæmt lögræðislögum er ráðuneyti heimilt að leita umsagnar trúnaðarlæknis ef þörf krefur. Í ljósi þess að mat á geðheilbrigði stefnanda hafi byggst á læknisvottorði læknis, sem ekki hafi verið sérfræðingur um geðsjúkdóma og hafði aðeins almennt lækningaleyfi, verði að telja að ríkt tilefni hafi verið til að afla slíkrar umsagnar í tilviki stefnanda.                          

Stefnandi byggir á því að hún hafi hvorki verið ófær til þess að ráða persónulegum högum sínum, þegar nauðungarvistunin hafi hafist, né þegar ráðuneytið hafi samþykkt nauðungarvistunina. Því til stuðnings vísar stefnandi til þess að Sigurður Bogi Stefánsson, geðlæknir á geðdeild Landspítalans, hafi ekki talið vera til staðar einkenni um alvarlegan geðsjúkdóm hjá stefnanda eftir að hafa hitt hana daglega í tæpa viku frá 18. júní 2010. Læknirinn hafi talið tilgang nauðungarvistunarinnar vera þann að ganga úr skugga um hvort stefnandi væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og sönnun þess hafi ekki legið fyrir samkvæmt mati hans. Verði þess vegna að álykta sem svo, að ekki hafi legið fyrir, þegar ákvörðun um nauðungarvistun hafi verið tekin, fullnægjandi vissa um að stefnandi væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Telur stefnandi að heimild 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga sé bundin við bráðageðveiki, eða aðrar slíkar aðstæður, þar sem nauðsynlegt sé að grípa strax til aðgerða. Umrædd lagaheimild standi einungis til þess að koma einstaklingi á sjúkrahús til rannsóknar, en ekki til þess að halda honum þar til lengri tíma. Fyrir slíkri nauðungarvistun þurfi einnig vissu fyrir því, að einstaklingur sé haldinn alvarlegum bráðageðsjúkdómi.

Stefnandi vísar enn fremur til læknisvottorðs Péturs Haukssonar geðlæknis, þar sem fram komi að eftir 11 daga dvöl á geðdeild hafi engin merki um ranghugmyndir eða önnur einkenni alvarlegs geðsjúkdóms komið í ljós. Því séu harla litlar líkur á því að stefnandi hafi verið eða sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi eða sé í ástandi sem megi jafna til þess.         

Stefnandi vísar til 28. gr. lögræðislaga, þar sem kveðið sé á um að maður sem nauðungarvistaður sé á sjúkrahúsi, án þess að samþykki ráðuneytisins liggi fyrir, skuli hvorki sæta þvingaðri lyfjagjöf, né annarri þvingaðri meðferð, nema skilyrði 3. mgr. 28. gr. lögræðislaga sé fullnægt. Í 3. mgr. 28. gr. lögræðislaga segi að vakthafandi læknir geti tekið ákvörðun um að nauðungarvistaður maður skuli sæta þvingaðri lyfjagjöf eða annarri þvingaðri meðferð, ef hann er sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða ef lífi hans eða heilsu annarra er stefnt í voða. Stefnandi telur fráleitt að halda því fram, að skilyrði 3. mgr. 28. gr. lögræðislaga hafi verið fyrir hendi, sem heimilað hafi getað þvingaða lyfjagjöf í umrætt sinn, svo sem er hún hafi verið handtekin á [...]. 

Stefnandi telur að samkvæmt framangreindu sé ljóst, að hún hafi verið beitt ólögmætri meingerð, sem strítt hafi gegn frelsi hennar, friði, æru og persónu. Eigi hún m.a. rétt á bótum skv. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Einnig hafi hún sennilega orðið fyrir varanlegum miska skv. 4. gr. sömu laga vegna andlegra afleiðinga frelsissviptingarinnar í formi áfallastreituröskunar og þunglyndis og allavega tímabundnum þjáningum samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, sem og varanlegri örorku skv. 5. gr. laganna vegna skerðingar á vinnugetu.

Um lagarök vísar stefnandi til 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sem og 5. og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar hún til lögræðislaga nr. 71/1997, sérstaklega 19. og 28. gr. laganna. Einnig vísar hún til almennra reglna skaðabótaréttar, sem og skaðabótalaga nr. 50/1993, sér í lagi ákvæðis 3., 4., 5., og 26. gr. laganna. Enn fremur til 7. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 auk málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga. Krafa um málskostnað er reist á 129. grein og 130. grein laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda

Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að lögmæt skilyrði hafi verið fyrir hendi varðandi nauðungarvistun stefnanda. Vistun hennar hafi ekki staðið lengur en efni stóðu til né hafi verið staðið að henni á óþarflega hættulegan, særandi eða móðgandi hátt. Þá sé meint tjón stefnanda ósannað.                 

Stefndi vísar til þess að nauðungarvistun stefnanda hafi farið fram á grundvelli 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1998, þar sem kveðið sé á um heimild til þess að færa sjálfráða einstaklinga og vista hann nauðugan á sjúkrahúsi, ef viðkomandi einstaklingur er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé. Í ákvæðinu sé skýrt kveðið á um að læknir taki ákvörðun um slíka nauðungarvistun og bendir stefndi á að í málinu liggi fyrir vottorð læknis á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, dagsett 16. júní 2010, sem hafi legið til grundvallar beiðni um nauðungarvistun. Mótmælir stefndi sem rangri þeirri fullyrðingu stefnanda að læknir hafi ákveðið nauðungarvistun hennar án þess að ræða við hana eða hitta enda fái málsástæðan ekki stoð í gögnum málsins. Læknir hafi farið í vitjun á heimili stefnanda, metið þar aðstæður og veitt þá meðferð sem við hafi verið komið við þær aðstæður. Hafi viðkomandi læknir talið stefnanda vera hættulega sjálfri sér og öðrum og að ekki yrði unnt að veita henni viðeigandi læknishjálp við tryggar aðstæður utan geðdeildar. Í þessum efnum bendir stefndi á, að sjúkdómsgreining á stefnanda, sem viðkomandi læknir hafi sett fram í læknisvottorði hafi verið til bráðabirgða og þess hafi mátt vænta, að sérfræðingar á geðdeild myndu endurmeta þá greiningu, staðfesta hana, hafna eða breyta. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að það sé skilyrði samkvæmt lögræðislögum að ákvörðun um nauðungarvistun sé tekin af geðlækni. Þegar leitað sé samþykkis ráðuneytisins skv. 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga þurfi að liggja fyrir að nauðungarvistun sé óhjákvæmileg að mati læknis.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga geti læknir ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur á sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Í lögunum sé skýrlega kveðið á um að nauðungarvistun megi ekki haldast lengur en yfirlæknir telji hennar þörf. Skilyrði nauðungarvistunar séu þannig háð sífelldu mati yfirlæknis meðan á innlögn stendur og með því móti sé leitast við að tryggja réttindi einstaklings sem óhjákvæmilegt sé, sökum alvarlegs ástands, að vista á sjúkrahúsi gegn vilja sínum. Slíkt mat hafi farið fram og hafi það verið álit geðlæknis á geðdeild Landspítala að tilefni væri til að ætla að verulegar líkur væru á því að stefnandi væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi, eins og fram komi í úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða sem kveðinn hafi verið upp 24. júní 2010. Sá úrskurður hafi óskorað sönnunargildi um mat viðkomandi læknis um nauðsyn innlagnar, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur hafi fellt þann úrskurð úr gildi 30. júní 2010 á grundvelli nýrra gagna, þ.e. læknisvottorðs Péturs Haukssonar geðlæknis, frá 27. júní 2010. Í úrskurði réttarins komi hvergi fram að hinni upprunalegu ákvörðun um nauðungarvistun stefnanda hafi verið ábótavant á einhvern hátt eða að brotið hafi verið gegn réttindum stefnanda. Þá bendir stefndi á að af læknabréfi frá 6. júlí 2010 og vitnaskýrslu geðlæknis við meðferð máls stefnanda fyrir héraðsdómi verði vart önnur ályktun dregin en að geðlæknar á geðdeild Landspítala hafi ekki verið sammála þeirri niðurstöðu sem gefi að líta í læknisvottorði Péturs.

Stefndi telur að öll skilyrði 3. mgr. 28. gr. lögræðislaga hafi verið fyrir hendi við hina þvinguðu lyfjagjöf þann 16. júní 2010. Þá bendir stefndi á, að í lögregluskýrslu sé afdráttarlaust tekið fram, að stefnandi hafi verið sjálfri sér og öðrum viðstöddum hættuleg.

Stefndi mótmælir því sem röngu að ekki hafi verið gætt að málsmeðferðarreglum stjórnsýslunnar við ákvarðanatöku í máli stefnanda. Ákvarðanir varðandi nauðungarvistun beri eðli máls samkvæmt að taka svo fljótt sem við verði komið, enda sé sjúklingur oft talinn sjálfum sér og öðrum hættulegur og ávallt í brýnni þörf fyrir tafarlausa læknismeðferð. Þau gögn sem lögð hafi verið til grundvallar ákvörðun ráðuneytisins um nauðungarvistun stefnanda hafi verið fullnægjandi og byggst m.a. á skoðun þess læknis sem gefið hafi út vottorð um nauðsyn á tafarlausri læknismeðferð stefnanda. Hafi það verið mat læknisins að hún væri hættuleg sjálfri sér og öðrum. Við þessar aðstæður hafi önnur úrræði ekki verið tæk. Telur stefndi því að meðalhófs hafi verið gætt.                            

Stefndi telur fjártjón stefnanda ósannað. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á orsakatengsl milli nauðungarvistunarinnar og þess efnahagslega og heilsufarslega tjóns sem hún telji sig hafa orðið fyrir. Engin gögn hafi verið lögð fram sem styðji staðhæfingar stefnanda um að meintur heilsubrestur hennar sé afleiðing nauðungarvistunarinnar. Stefndi mótmælir bótakröfu stefnanda á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, þar sem bæði skorti á saknæmi og ólögmæti. Þá mótmælir stefndi því einnig sem ósönnuðu að meint áfallastreituröskun og þunglyndi stefnanda sé að rekja til nauðungarvistunarinnar.

Stefndi mótmælir því jafnframt að 7. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga eigi við þegar beita þurfi úrræði 19. gr. lögræðislaga. Ákvæðin um nauðungarvistun hljóti að ganga framar þeim lögum.

Stefndi telur sig þá knúinn til að vísa þeim fullyrðingum stefnanda á bug, að nauðungarvistun hennar hafi verið að rekja til vanþóknunar starfsmanna Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og lögreglunnar á [...]. Því sé einnig mótmælt að vinnubrögð framangreindra stafsmanna stefnda hafi verið ámælisverð. Ekkert liggi fyrir um að starfsmenn stefnda né sveitarfélagsins hafi bundist samtökum um ólögmæta aðför að stefnanda.            

Um lagarök vísar stefndi til áðurgreindra lagaraka er varði sýknukröfu. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

V

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um lögmæti nauðungarvistunar sem stefnanda var gert að sæta í júní 2010. Krefst stefnandi þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda vegna nauðungarvistunarinnar en stefnandi byggir á því að í aðgerðunum hafi falist ólögmæt meingerð í hennar garð, sbr. b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Málavöxtum er lýst í stórum dráttum í II. kafla dóms þessa.

Samkvæmt 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, má engan svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Þá er svo fyrir mælt í 5. mgr. 67. gr. að hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skuli hann eiga rétt til skaðabóta. Í 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eru tæmandi taldar þær ástæður sem verða að vera fyrir hendi til þess að maður verði sviptur frelsi, þar á meðal má gera það í því tilviki að um sé að ræða löglega gæslu manns sem er andlega vanheill, sbr. e-lið málsgreinarinnar. Í 1. mgr. 19. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 segir að sjálfráða maður verði ekki vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Samkvæmt fyrsta málslið 2. mgr. þeirrar lagagreinar getur læknir þó ákveðið að sjálfráða maður skuli færður og vistaður nauðugur á sjúkrahúsi ef hann er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur eru taldar á að svo sé eða ástand hans er þannig að jafna megi til alvarlegs geðsjúkdóms. Frelsissvipting samkvæmt ákvörðun læknis má þó ekki standa lengur en í 48 klukkustundir. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar má með samþykki innaríkisráðuneytisins vista sjálfráða mann gegn vilja sínum á sjúkrahúsi til meðferðar í allt að 21 sólahring frá dagsetningu samþykkis ráðuneytisins ef fyrir hendi eru ástæður þær sem greinir í 2. mgr. og nauðungarvistun er óhjákvæmileg að mati læknis.

Upphafleg ákvörðun um nauðungarvistun stefnanda, þann 16. júní 2010, var tekin af Þórði Guðmundssyni, lækni við Heilsugæsluna á [...]. Í fyrri hluta vottorði hans, sem fylgdi nauðungarvistunarbeiðni Skóla- og fjölskylduskrifstofu til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettri sama dag, sem ber yfirskriftina „sjúkdómsferill og félagslegar aðstæður“ kemur m.a. fram að stefnandi hafi einangrað sig meir og meir og hegðun síðasta árið orðið æ undarlegri. Hún hafi ekki viljað tala við ættingja sína eða aðra. Stefnandi hafi síðast fengið endurnýjaðan lyfseðil á Tafil [kvíðastillandi lyf] fyrir rúmu ári. Hafi hún síðast séð lækni í apríl 2009 á geðdeild Landspítalans vegna psykosu. Í síðari hluta vottorðsins, er ber yfirskriftina „skoðun“, er þess getið að stefnandi hafi verið í psykoástandi, æst og agiteruð. Hún hafi sparkað og slegið frá sér með fúkyrðum. Ekkert innsæi væri til staðar. Hún væri hættuleg öðrum og sjálfri sér og væri svipting algerlega nauðsynleg. Í niðurstöðukafla vottorðsins, sem tímasettur er kl. 18.30, kemur fram að stefnandi þjáist af alvarlegum geðsjúkdómi DX paranoid geðklofa F20.0. Óumdeilt er að læknirinn fór ásamt fulltrúa Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...], síðdegis 16. júní 2010, á heimili stefnanda í því skyni að ræða við hana. Hún vildi ekki ræða við þau og var því kallað eftir aðstoð lögreglu. Samkvæmt lögregluskýrslu var kallað eftir aðstoð kl. 18.01. Braut lögregla sér leið inn í íbúð stefnanda eftir að hafa knúið dyra án árangurs og fóru fulltrúinn og læknirinn inn í íbúðina með lögreglu þar sem stefnandi hittist fyrir. Verður því ekki annað ráðið en að læknirinn hafi skoðað stefnanda á heimili hennar þótt hún hafi lítið vilja ræða við hann. Hafði læknirinn því sannreynt ástand stefnanda og staðfest að þörf væri á nauðungarvistun hennar vegna alvarlegs geðsjúkdóms. Stefnandi var í kjölfarið flutt nauðug með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hún var lögð inn á geðdeild Landspítalans. Fram kemur að stefnandi hafi verið sprautuð niður og sett í handjárn. Daginn eftir samþykkti dóms-og kirkjumálaráðuneytið beiðni Skóla- og fjölskylduskrifstofu [...] þess efnis að stefnandi yrði vistuð til meðferðar á sjúkrahúsi með vísan til 3. mgr., sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997.

Stefnandi bar ákvörðun ráðuneytisins um nauðungarvistunina undir Héraðsdóm Vestfjarða með heimild í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 71/1997. Með úrskurði héraðsdóms, uppkveðnum 24. júní 2010, var kröfu stefnanda um niðurfellingu nauðungarvistunarinnar hafnað. Í úrskurðinum er rakið framangreint læknisvottorð Þórðar Guðmundssonar, sem fylgdi kröfu um nauðungarvistun til ráðuneytisins. Þá er rakið í úrskurðinum að Sigurður Bogi Stefánsson, geðlæknir á geðdeild Landspítalans, hafi komið fyrir dóminn sem vitni. Kvaðst hann hafa fylgst með stefnanda eftir að hún hafi komið á deildina. Hafi Sigurður Bogi aflað sér upplýsinga um hana frá ættingjum og félagsmálayfirvöldum. Þær upplýsingar gæfu tilefni til að ætla að verulegar líkur væru fyrir því að stefnandi væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi. Væri hún nú vistuð á deild 32A til að ganga úr skugga um hvort svo væri. Var það álit geðlæknisins að skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 væri fullnægt til að stefnandi yrði áfram nauðungarvistuð. Ástand stefnanda einkenndist af almennum hugsanatruflunum og hugröskunum og félli undir að vera alvarlegur geðsjúkdómur. Stefnandi kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar. Þar var lagt fram nýtt gagn, þ.e. læknisvottorð Péturs Haukssonar geðlæknis, til stuðnings kröfum hennar um niðurfellingu nauðungarvistunarinnar. Var það álit Péturs að ekki væri unnt að greina hjá stefnanda alvarlegan geðsjúkdóm í skilningi lögræðislaga með neinni vissu, né að ástandi hennar mætti jafna til slíks sjúkdóms. Hæstiréttur taldi að þegar litið væri til nýjustu upplýsinga um stefnanda, sem fram kæmu í vottorðinu, yrði fallist á að Skóla- og fjölskylduskrifstofa [...], hefði ekki sýnt fram á nauðsyn þess að vista skyldi stefnanda nauðuga á sjúkrahúsi. Felldi Hæstiréttur því, með dómi sínum 30. júní 2010, hinn kærða úrskurð úr gildi. Í málsgögnum kemur fram að stefnanda hafi verið boðið að dveljast áfram á geðdeild Landspítalans og þiggja geðlyf eða útskrifast væri hún ekki til samvinnu um lyfjameðferð. Þáði stefnandi síðari kostinn og útskrifaðist af spítalanum 1. júlí 2010.

Að mati dómsins er óhjákvæmilegt að horfa til þess að niðurstaða Hæstaréttar byggðist á nýju gagni, þ.e.vottorði Péturs Haukssonar geðlæknis. Sú staðreynd að rétturinn hafi, með vísan til hins nýja læknisvottorðs, fallist á að ekki væri sýnt fram á nauðsyn þess að vista stefnanda nauðuga á sjúkrahúsi leiðir því ekki sjálfkrafa til þess að líta beri svo á að nauðungarvistunin hafi frá upphafi verið ólögmæt. Skýrt hefur komið fram í málinu að tveir aðrir læknar, þar með talinn Sigurður Bogi Stefánsson, geðlæknir á Landspítalanum, þar sem stefnandi var vistuð, töldu hana þjást af alvarlegri geðveiki eða að líkur væru fyrir því að svo væri og að nauðungarvistunar væri þörf. Voru því læknar ekki á einu máli um hvort stefnandi væri haldin alvarlegum geðsjúkdómi eða verulegar líkur væru fyrir því. Stefnandi hefur ekki orðið við áskorunum stefnda um að leggja fram frekari gögn um mat geðlækna á geðdeild Landspítalans á geðheilsu hennar er hún dvaldist þar. Af gögnum málsins verður því ekki annað ráðið en að uppfyllt hafi verið lagaskilyrði fyrir því að stefnandi yrði nauðungarvistuð, fyrst á grundvelli 2. mgr. 19. gr. laga nr. 71/1997 en síðan á grundvelli 3. mgr. 19. gr. sömu laga. Þá stóð nauðungarvistunin ekki lengur en efni stóðu til en ákvörðun um hana var felld úr gildi er vottorð Péturs lá fyrir og stefnanda gert heimilt að yfirgefa spítalann kysi hún ekki frekari meðferð. Ekki er unnt að fallast á það með stefnanda að lög standi til þess að einungis sérfræðingur í geðlækningum geti metið hvort þörf sé á nauðungarvistun á grundvelli laganna. Slíkt á sér ekki stoð í lagatextanum og þá myndi slíkt skilyrði fela í sér óöryggi fyrir heilbrigði þeirra sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu. Þá er ekki unnt að fallast á að 7. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga hafi staðið því í vegi að stefnandi yrði nauðungarvistuð enda kemur skýrt fram í 2. mgr. ákvæðisins að ákvæði lögræðislaga gildi um samþykki fyrir meðferð sjúklinga.

Stefnandi telur enn fremur að þvinguð lyfjagjöf hennar í umrætt sinni hafi verið andstæð lögum. Samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laga nr. 71/1997 hefur vakthafandi læknir heimild til að taka ákvörðun um að nauðungarvistaður maður skuli sæta þvingaðri lyfjagjöf eða annarri þvingaðri meðferð ef hann er sjálfum sér eða öðrum hættulegur eða ef lífi hans eða heilsu er annars stefnt í voða. Eins og rakið hefur verið hafði læknir, á þeim tíma er stefnanda voru gefin lyfin, tekið ákvörðun um að nauðsynlegt væri að nauðungarvista hana. Í dagnótu læknisins kemur fram að hann hafi farið á heimili stefnanda ásamt lögreglu. Stefnandi hafi verið í geðrofsástandi, mjög æst og agiteruð og að beiðni yfirvaldsins hafi læknirinn því sprautað hana með nafngreindum lyfjum. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að uppfyllt hafi verið skilyrði 3. mgr. 28. gr. laga nr. 71/1997 um þvingaða lyfjagjöf.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki fallist á það með stefnanda að hún hafi verið svipt frelsi að ósekju eða að frelsissviptingunni hafi verið staðið á óþarflega særandi eða móðgandi hátt. Verður stefndi því sýknaður af viðurkenningarkröfu stefnanda.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Þar sem stefnandi hefur gjafsókn verður gjafsóknarkostnaður hennar ákveðinn og skal greiddur úr ríkissjóði. Er þóknun lögmanns stefnanda ákveðinn 800.000 kr., þ.m.t. virðisaukaskattur. Að auki greiðast 5.000 kr. vegna útlagðs kostnaðar.

Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl.

Af hálfu stefnda flutti málið Soffía Jónsdóttir hrl.

Dóminn kvað upp Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari.

D Ó M S O R Ð

Stefnda, íslenska ríkið, er sýknað af kröfu stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda 805.000 kr., þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, Steingríms Þormóðssonar hrl., 800.000 kr. greiðist úr ríkissjóði.