Print

Mál nr. 396/2015

Akureyrarkaupstaður (Reimar Pétursson hrl.)
gegn
Snorra Óskarssyni (Einar Gautur Steingrímsson hrl.)
og til réttargæslu íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.)
Lykilorð
  • Sveitarfélög
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnarskrá
  • Tjáningarfrelsi
Reifun

Ágreiningur aðila laut að því hvort A hefði með lögmætum hætti sagt S upp störfum sem grunnskólakennari vegna ummæla um samkynhneigð sem hann lét falla á vefmiðli. Með vísan til 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 réðust réttindi og skyldur S í starfi af ákvæðum kjarasamnings, sem hafði verið í gildi þegar S var veitt áminning í febrúar 2012 og síðar sagt upp störfum í júlí sama ár. Litið var svo á að ákvæði kjarasamningsins um heimildir vinnuveitanda til að áminna starfsmann og segja upp ráðningarsamningi vegna ávirðinga, sem ekki gæfu þó tilefni til fyrirvaralausrar brottvikningar, væru bundnar við atriði sem sneru að framferði starfsmannsins í starfi. Þau ákvæði kjarasamningsins um skyldur starfsmanns, sem gætu að nokkru tekið til háttsemi hans utan starfs, væru á hinn bóginn ekki tengdar við heimildir vinnuveitanda til áminningar eða uppsagnar. Talið var að gæta yrði að því að A væri sem stjórnvald bundinn af þeirri meginreglu að lagaheimildar væri þörf fyrir gerðum hans. A hefði beitt áminningu og uppsögn til að bregðast við ummælum sem S hafði látið falla opinberlega utan starfs síns og án tengsla við það. A hefði því vegna ákvæða 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar þurft ótvíræða stoð fyrir slíkum viðbrögðum í kjarasamningnum. Þar sem að slík stoð hefði ekki verið fyrir hendi var uppsögn S talin ólögmæt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júní 2015. Hann krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður innanríkisráðuneytisins 4. apríl 2014, þar sem ákvörðun hans 12. júlí 2012 um að segja stefnda upp starfi kennara í Brekkuskóla á Akureyri var metin ólögmæt. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Réttargæslustefndi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Eins og lýst er í hinum áfrýjaða dómi gerði áfrýjandi samning 9. ágúst 2001 við stefnda um ráðningu hans í fullt starf grunnskólakennara við Brekkuskóla frá 1. sama mánaðar að telja. Í niðurlagi samningsins var tekið fram að um réttindi aðilanna og skyldur færi eftir lögum um grunnskóla og lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla að því leyti sem ekki væri kveðið á um annað í kjarasamningum eða ráðningarsamningnum. Samhliða starfi á grundvelli samningsins var stefndi safnaðarhirðir Hvítasunnukirkjunnar á Akureyri.

Á fundi 8. október 2010, sem skólastjóri Brekkuskóla kvaddi stefnda til og haldinn var að viðstöddum fræðslustjóra og bæjarlögmanni áfrýjanda, var stefnda samkvæmt fundargerð greint frá því að skólanefnd hafi „rætt um meiðandi ummæli hans um samkynhneigð“, sem hann hafi látið falla á opinberum vettvangi, en í málinu liggur ekki nánar fyrir hver þessi ummæli hafi verið. Var haft eftir stefnda að „hann ræddi skoðanir sínar um samkynhneigð aldrei í skólastofunni“, en hann gæti „ekki hugsað sér að láta af því að ræða opinberlega um samkynhneigð.“ Í lok fundargerðar var tekið fram að stefnda hafi verið kynnt að kæmi til þess að hann ræddi „aftur opinberlega á meiðandi hátt um samkynhneigða geti komið til þess að málið fari í áminningarferli.“

Í tilefni af umfjöllun í fjölmiðli 29. janúar 2012 um að framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hafi látið til sín taka réttarstöðu samkynhneigðra í ríkjum Afríku, þar sem kom meðal annars fram að mannréttindasamtök hafi kennt „evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra“, birti stefndi 30. sama mánaðar á vefmiðli pistil, sem hófst á orðum um að enn hafi komið „upp árekstrar milli samkynhneigðra og evangelískra.“ Kjarninn í sjónarmiði þeirra síðarnefndu væri „að samkynhneigðin telst vera synd“, en laun syndarinnar væru „dauði og því grafalvarleg.“ Á öðrum vefmiðli birtist frétt 1. febrúar sama ár undir fyrirsögninni: „Snorri: Verður eflaust flokkað sem hatursáróður en samkynhneigð er synd og launin eru dauði“ og voru þar í stuttu máli rakin nokkur atriði sem fram komu í fyrrgreindum pistli stefnda. Degi síðar boðaði skólastjóri Brekkuskóla stefnda bréflega til fundar „vegna meints brots í starfi sem er til skoðunar“, en um það var vísað til síðastnefndrar fréttar „þar sem þú viðhefur meiðandi ummæli um samkynhneigða.“ Yrði stefnda gefinn kostur á að bera upp andmæli í framhaldi af fundinum, sem „gæti verið undanfari áminningar í starfi“, en á grundvelli hennar gæti komið til uppsagnar ef um yrði að ræða „ítrekuð brot“. Að fram komnum andmælum stefnda veitti skólastjórinn honum skriflega áminningu 13. febrúar 2012, þar sem sagði meðal annars að niðurstaðan hafi orðið „sú að þú hafir sýnt af þér brot utan starfs, sem samrýmist ekki því starfi sem þú gegnir“, en stefnda væri gefinn kostur á að bæta ráð sitt „með því að ítreka ekki það brot og þau samskipti af því tagi sem lýst er hér að framan, ellegar kann þér að verða sagt upp störfum.“ Samhliða þessu beindi skólastjórinn tilkynningu til stefnda um að ákveðið hafi verið að „bjóða“ honum launað leyfi frá störfum til loka yfirstandandi skólaárs, en tekið var fram að leyfið væri „veitt til að lægja þær öldur sem risið hafa í kjölfar ummæla þinna á bloggi.“

Aftur lét stefndi frá sér fara pistil á vefmiðli 20. apríl 2012 undir fyrirsögninni: „Gildum er hægt að breyta!“ Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega greint frá efni þessa pistils. Í honum lagði stefndi meðal annars út af því að eftir orðum Biblíunnar væri líkami manns „ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottinn“, svo og að hjónabandið væri heilagt „því Guð út bjó það þar sem karl og kona ganga saman gegnum lífið“, en ekki „tveir karlar saman og ekki tvær konur saman heldur karl og kona.“ Ekki er að sjá af gögnum málsins að áfrýjandi hafi brugðist sérstaklega við þessum pistli, en með bréfi 20. júní 2012 boðaði skólastjóri Brekkuskóla stefnda til fundar degi síðar, þar sem honum yrði „kynnt niðurstaða í yfirstandandi áminningarferli vegna meints brots.“ Í málinu liggur fyrir óundirritað skjal með fyrirsögninni „samkomulag um starfslok“, sem var dagsett 21. júní 2012, en í því var ráðgert að stefndi léti af störfum sem kennari við skólann 1. ágúst sama ár, meðal annars með þeim skilmála að hann héldi fullum launum í eitt ár. Um fundinn, sem boðað var til samkvæmt framansögðu, liggur ekkert frekar fyrir í skjölum málsins, en með bréfi 29. júní 2012 til skólastjórans, svo og fræðslustjóra og bæjarlögmanns áfrýjanda, lýsti stefndi því að hann hafnaði „tilboði ykkar dags. 21. júní, um starfslokasamning“, enda teldi hann ekkert tilefni til að ýta sér úr starfi vegna skrifa sinna eða skoðana.

Degi áður en stefndi ritaði síðastnefnt bréf birtist eftir hann á vefmiðli pistill með fyrirsögninni: „Leiðrétting?“ Þar lýsti hann meðal annars þeirri skoðun að nú hafi „orðið leiðrétting fengið alveg nýja merkingu“ með því að þegar drengur, sem fæddist drengur, gengist undir „kynskiptiaðgerð“ væri það nefnt leiðrétting. Hér væri um að ræða „merkingarbrengl“, því þetta væri „kynbreyting en ekki leiðrétting.“ Hafi Guð gert karl og konu, sem skyldu bindast, stofna heimili og verða einn maður, en ef það ætti að „gera karl að konu og/eða konu að karli þá er um að ræða breytingu eða afbökun en ekki leiðréttingu.“ Frá kristnu sjónarmiði skyldi sá, sem skapaður væri karlmaður, vera það til æviloka og væri það sama að segja um konuna, sem væri „fædd kvenvera til að vera slík til æviloka.“

Eftir að pistill þessi hafði birst boðaði skólastjóri Brekkuskóla stefnda 29. júní 2012 skriflega til fundar 3. júlí sama ár „vegna meints brots utan starfs“ sem væri til skoðunar með tilliti til þess hvort stefndi hafi sýnt af sér háttsemi sem væri ósamrýmanleg starfi kennara og gæti leitt til uppsagnar ráðningarsamnings hans. Vísaði skólastjórinn til framangreindra skrifa stefnda 20. apríl og 28. júní 2012, þar sem hann viðhefði „meiðandi ummæli um samkynhneigða og transfólk“, svo og „gildandi áminningar ... vegna meiðandi bloggskrifa í garð samkynhneigðra, en sú framkoma og athöfn þótti ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi þínu sem kennari.“ Á fundinum, sem fræðslustjóri áfrýjanda stýrði í fjarveru skólastjórans, var stefnda veittur frestur til að koma fram andmælum, en að þeim fengnum beindi fræðslustjórinn til stefnda 12. júlí 2012 skriflegri uppsögn úr starfi grunnskólakennara.

Stefndi kærði 26. september 2012 til innanríkisráðherra ákvörðun áfrýjanda um að segja sér upp starfi. Til þessarar kæru tók innanríkisráðuneytið loks afstöðu með úrskurði 4. apríl 2014, þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ákvörðun áfrýjanda um uppsögn stefnda hafi verið ólögmæt. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 20. júní 2014 til að fá þann úrskurð felldan úr gildi.

II

Stefndi beindi fyrrnefndri kæru til innanríkisráðherra á grundvelli 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Í 3. mgr. þeirrar lagagreinar kemur fram að heimilt sé á þennan hátt að bera undir ráðherra ákvörðun sveitarfélags um uppsögn starfsmanns sem eigi rætur að rekja til brota hans í starfi, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, athafna í starfi eða utan þess, sem þyki ósamrýmanlegar starfinu, eða annarra sambærilegra ástæðna. Samkvæmt 117. gr. sömu laga getur sveitarfélag, sem ekki vill una úrskurði ráðuneytis um slíka kæru, borið mál af því tilefni undir dómstóla, en tekið er þar fram að leiði almennar reglur ekki til þess að máli verði beint að ráðherra skuli honum stefnt til réttargæslu. Vegna ákvæða síðastnefndrar lagagreinar verður að játa áfrýjanda heimild til að höfða mál þetta án tillits til þess að ákvörðun hans um uppsögn stefnda 12. júlí 2012 var ekki felld úr gildi með úrskurði innanríkisráðuneytisins 4. apríl 2014, heldur lýst „ólögmæt.“ Samkvæmt sama lagaákvæði hefur áfrýjandi jafnframt réttilega stefnt íslenska ríkinu til réttargæslu í málinu.

Í 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga er mælt fyrir um að starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni og ráðningarsamninga, en samhljóða regla í 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 var í gildi þegar áfrýjandi og stefndi gerðu ráðningarsamning 9. ágúst 2001. Þegar atvik máls þessa gerðust að öðru leyti höfðu lög nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, sem höfðu í VI. kafla að geyma ákvæði um skyldur starfsmanna, verið felld úr gildi með 4. mgr. 23. gr. laga nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, en í síðarnefndu lögunum eru ekki fyrirmæli um réttindi og skyldur slíkra starfsmanna sveitarfélaga. Vegna þessa réðust réttindi og skyldur stefnda í starfi, að því leyti sem hér skiptir máli, af ákvæðum kjarasamnings milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara frá 14. maí 2011, sem var í gildi þegar stefnda var veitt áðurnefnd áminning 13. febrúar 2012 og áfrýjandi sagði upp ráðningarsamningi þeirra 12. júlí sama ár.

Í grein 14.8 í kjarasamningnum voru ákvæði um áminningu og sagði þar eftirfarandi í 1. málsgrein: „Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis veita honum skriflega áminningu.“ Í grein 14.9 voru fyrirmæli um uppsögn og frávikningu. Í fyrstu þremur málsgreinum hennar var einkum kveðið á um form uppsagnar og fresti, en í 4. málsgrein sagði: „Ef fyrirhugað er að segja starfsmanni upp störfum vegna ávirðinga þá þarf uppsögnin að grundvallast á skriflegri áminningu samkvæmt gr. 14.8.“ Í framhaldi af þessu voru ákvæði um fyrirvaralausa frávikningu úr starfi sem heimilað var að beita ef starfsmaður hafði með dómi verið sviptur rétti til að gegna því, játað að hafa gerst sekur um refsiverða háttsemi, sem mætti ætla að hefði slíkar afleiðingar í för með sér, eða orðið uppvís að grófu broti í starfi. Þá er þess að geta að í grein 14.11 voru ákvæði um skyldur starfsmanna, þar sem sagði meðal annars: „Starfsmanni er skylt að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna. Hann skal gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu. Hann skal forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess, sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á það starf eða starfsgrein er hann vinnur við.“

Kjarasamningur þessi hafði ekki að geyma frekari ákvæði en að framan greinir um áminningu starfsmanns eða uppsögn vinnuveitanda á ráðningarsamningi vegna ávirðinga á hendur starfsmanni. Líta verður til þess að í 1. málsgrein greinar 14.8 og 4. málsgrein greinar 14.9 voru heimildir vinnuveitanda til að áminna starfsmann og segja upp ráðningarsamningi vegna ávirðinga, sem gáfu þó ekki tilefni til fyrirvaralausrar brottvikningar, bundnar við atriði sem sneru að framferði starfsmannsins í starfi. Við áðurgreind ákvæði í grein 14.11 um skyldur starfsmanns, sem gátu að nokkru tekið til háttsemi hans utan starfs, voru á hinn bóginn ekki tengdar heimildir vinnuveitanda til áminningar eða uppsagnar. Áfrýjandi hefur ekki borið því við í málinu að stefndi hafi í starfi sínu sem kennari við Brekkuskóla sýnt af sér háttsemi sem hefði getað leitt til áminningar og uppsagnar eftir þessum ákvæðum greina 14.8 og 14.9 í kjarasamningnum. Þegar metið er hvort áfrýjandi kunni á grundvelli annarra heimilda en þessara ákvæða kjarasamningsins að hafa mátt veita stefnda áminningu og segja upp ráðningarsamningi þeirra vegna háttsemi hans utan starfs verður að gæta að því að áfrýjandi var sem stjórnvald bundinn af þeirri meginreglu að lagaheimildar var þörf fyrir gerðum hans. Að því verður ekki síður að gæta að áfrýjandi beitti hér áminningu og uppsögn til að bregðast við ummælum, sem stefndi hafði látið falla opinberlega utan starfs síns og án tengsla við það, og hefði því vegna ákvæða 2. mgr. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar þurft ótvíræða stoð fyrir slíkum viðbrögðum í kjarasamningnum, sem réði réttindum og skyldum stefnda í starfi samkvæmt 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga. Slík stoð var ekki fyrir hendi. Verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms því staðfest.

Áfrýjanda verður gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Fer jafnframt samkvæmt því, sem þar segir, um gjafsóknarkostnað stefnda hér fyrir dómi.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Akureyrarkaupstaður, greiði í ríkissjóð 1.000.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti. Þá greiði áfrýjandi jafnframt réttargæslustefnda, íslenska ríkinu, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, Snorra Óskarssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 1.000.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 10. apríl 2015.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 13. febrúar 2015, er höfðað 23. júní 2014 af Akureyrarkaupstað, Geislagötu 9, Akureyri, á hendur Snorra Óskarssyni, kt. [...], Skógarhlíð 35, Hörgársveit. Til réttargæzlu er stefnt innanríkisráðuneytinu, Sölvhólsgötu 7, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður innanríkisráðuneytisins frá 4. apríl 2014 í stjórnsýslumáli nr. IRR12100058, þar sem ákvörðun stefnanda, dags. 12. júlí 2012, um að segja stefnda Snorra upp starfi kennara við Brekkuskóla, var metin ólögmæt. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda eins og hann nyti ekki gjafsóknar. Hann krefst þess að gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hans.

Réttargæzlustefnda krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir

Stefndi er grunnskólakennari og hafði starfað sem slíkur nær allar götur frá árinu 1973 þar til honum var sagt upp störfum hinn 12. júlí 2012. Hann var ráðinn kennari við Brekkuskóla á Akureyri hinn 1. ágúst 2001. Kennslugreinar hans voru íslenzka og danska. Á skólaárinu 2002 til 2003 mun hann hafa gegnt starfi skólastjóra við skólann um nokkurra mánaða skeið, í leyfi þáverandi skólastjóra.

Stefndi starfar jafnframt í Hvítasunnusöfnuðinum á Akureyri og hefur þar starfsheitið safnaðarhirðir. Þá er hann notandi vefsíðunnar snorribetel.blog.is, sem er svo nefnd „bloggsíða“.

Hinn 6. október 2010 boðaði Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri Brekkuskóla stefnda til fundar á skrifstofu bæjarlögmanns Akureyrar „vegna ummæla um samkynhneigða sem birst [hefðu] í fjölmiðlum og á bloggsíðu“ stefnda. Fundurinn var haldinn tveimur dögum síðar og viðstödd auk þeirra tveggja voru fræðslustjóri og bæjarlögmaður stefnanda. Í fundargerð er bókað að fræðslustjóri hafi upplýst stefnda um að skólanefnd hafi „rætt um meiðandi ummæli hans um samkynhneigð“. Stefnandi líti svo á að „það samrýmist illa stöðu hans sem grunnskólakennari að vera jafnframt að ræða opinberlega um samkynhneigð sbr. tilvísun til frétta sem birst hafa á visir.is og pressan.is og á bloggi hans, þar sem m.a. er rætt um að samkynhneigð sé synd.“ Innan grunnskólans séu samkynhneigð börn og unglingar eða börn og unglingar sem eigi samkynhneigða aðstandendur og ummæli stefnda séu meiðandi. Í fundargerðinni er haft eftir stefnda „að hann ræddi skoðanir sínar um samkynhneigð aldrei í skólastofunni.“ Jafnframt er haft eftir honum að hann hafi ekki í hyggju að hætta að tjá sig opinberlega um samkynhneigð. Loks segir að honum sé kynnt „að komi til þess að hann [ræði] aftur opinberlega á meiðandi hátt um samkynhneigða geti komið til þess að málið fari í áminningarferli.“

Hinn 29. janúar 2012 birtist á fréttavefnum mbl.is frétt undir fyrirsögninni „Afríkuríki standi vörð um réttindi samkynhneigðra“. Er í fréttinni sagt frá því að aðalritari Sameinuðu þjóðanna hafi hvatt leiðtoga Afríkuríkja til að virða mannréttindi samkynhneigðra og meðal annars rakið að í mörgum ríkjum Afríku sé samkynhneigð ólögleg. Verst sé ástandið í Úganda, þar sem nýlega hafi verið lagt til á þingi landsins að heimilt yrði að dæma þá til dauða sem brjóti gegn banni við samkynhneigð, eftir nánari skilyrðum sem talin eru upp í fréttinni. Eru svo greinaskil en þar á eftir lýkur fréttinni á orðunum: „Mannréttindasamtök kenna evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra í Úganda.“

Á umræddum fréttavef gefst lesendum, sem jafnframt eru notendur skráðrar „bloggsíðu“ á léninu blog.is, kostur á því að skrifa sjálfir veffærslur sem birtast á hinni sjálfstæðu síðu þeirra, og er færslan þá tengd upphaflegri frétt. Er þetta nefnt að „blogga um fréttina“. Þetta gerði stefndi um umrædda frétt hinn 30. janúar 2012, undir yfirskriftinni: „Er hatur hjá evangelískum?“. Færsla stefnda hljóðar svo: „Enn eina ferðina koma upp árekstrar milli samkynhneigðra og evangelískra. Sagt er í greininni: „Mannréttindasamtök kenna evangelískum prestum um aukið hatur í garð samkynhneigðra“. Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að bæta þessum orðum við í umræðunni. Kjarninn í sjónarmiði evangelískra er sá að samkynhneigðin telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskileg. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg. Sennilega verður ekki hægt að finna einhverja „sáttarleið“ í þessu máli. Þannig hafa árekstrarnir við samkynhneigðina verið allsstaðar eins, milli hins Evangelíska orðs og svo „mannréttinda“. Það var víst Guð sem sætti heiminn við sig með fórnardauða Jesú en ekki öfugt. Maðurinn er ekki enn búinn að sættast við Guð og fá fyrirgefningu. Við steytum hnefann á móti miskunnsömu almætti og heimtum „mannréttindi“! Þetta stutta innlegg mitt verður eflaust flokkað sem „hatursáróður“ – kannski bara vegna þess að ég tek Evangelíska afstöðu til málsins? Allsstaðar veldur þetta efni sundrungu og deilum. Hið versta er að við getum séð ávöxtinn af græðginni sem er líka synd. Nú þurfa fjölskyldurnar á Íslandi að lifa við þröngan kost vegna græðginnar. Syndin sem nú er barist fyrir að verði „mannréttindi“ kemur einnig með sinn ávöxt! kær kveðja Snorri í Betel.“

Hinn 2. febrúar 2012 boðaði Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri Brekkuskóla stefnda til fundar í ráðhúsi bæjarins daginn eftir. Var tekið fram í fundarboðinu að auk skólastjórans yrðu á fundinum bæjarlögmaður og fræðslustjóri, en boðað væri til fundarins „vegna meints brots í starfi sem [væri] til skoðunar.“ Var vísað til vefritsins pressan.is en þar hefði daginn áður birzt frétt „þar sem þú viðhefur meiðandi ummæli um samkynhneigða.“ Þá er í bréfinu „vísað til fundar dags. 8. október 2010 þar sem þér var gefin skrifleg aðvörun að viðlagðri áminningu [ef] þú opinberlega ræðir aftur á meiðandi hátt um samkynhneigða.“ Á fundinum yrði „hið meinta brot reifað frekar og lögð fram gögn“ og stefnda gefinn frestur til að koma með andmæli. Fundurinn „gæti verið undanfari áminningar í starfi. Réttaráhrif áminningar getur verið uppsögn ef um ítrekuð brot er að ræða á gildistíma áminningar.“

Fundurinn var haldinn hinn 3. febrúar og auk stefnda og þeirra sem talin voru upp í fundarboði, sat fundinn Björn Sverrisson, trúnaðarmaður kennara í Brekkuskóla. Fundargerð fundarins liggur fyrir í málinu og ber hún yfirskriftina „Fundargerð vegna meints brots Snorra Óskarssonar Opinber meiðandi ummæli um samkynhneigða“. Segir í fundargerðinni að fundurinn sé haldinn „vegna meints brots [stefnda], utan starfs, sem samrýmist ekki því starfi sem hann gegnir, sem kennari hjá Brekkuskóla.“ Þá segir að stefnandi hafi á fundinum lagt fram nokkurar réttarheimildir, sem talið sé að meint brot geti varðað við, en útdráttur réttarheimildanna fylgi með í sérstakri greinargerð sem sé hluti fundargerðarinnar. Eru í greinargerðinni taldar upp Mannauðsstefna Akureyrarbæjar, þar sem fram komi að framkoma og athafnir utan vinnustaðar verði að samrýmast starfinu sem starfsmenn gegni; lög nr. 91/2008 um grunnskóla og er sérstaklega vísað til 1. mgr. 12. gr. og 24. gr.; Sjöundi kafli „Náms og kennslu“, þar sem segi að í grunnskóla eigi allir nemendur rétt á að stunda nám við sitt hæfi og skuli tækifæri þeirra að vera jöfn óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins; Aðalnámskrá, þar sem segi að nemendur verði í daglegu lífi að tileinka sér ýmsa þætti til þess að verða virkir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi, þar á meðal samskiptahæfni, virðingu, umburðarlyndi og skilning á uppbyggingu lýðræðislegs þjóðfélags; Reglugerð nr. 1040/2011 um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, þar sem segi meðal annars í 3. gr. að starfsfólk skóla skuli ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngunnar. Þá skuli starfsmenn sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsmönnum, og loks þriðja grein siðareglna Kennarasambands Íslands, þar sem segi meðal annars að kennari vinni gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verði fyrir.

Í fundargerð segir svo að af hálfu stefnanda sé „talið að umrætt blogg og frétt geti verið brot á mannauðsstefnu [stefnanda], grunnskólalögum og framangreindri reglugerð.“ Er stefnda veittur vikufrestur til að „koma að sínum sjónarmiðum gagnvart hinum meintu ávirðingum“ og er bókað að stefndi hyggist koma að skriflegum andmælum fremur en að sitja annan fund. Er honum tjáð að verði honum veitt áminning „geti ítrekað brot á gildistíma áminningar leitt til uppsagnar.“

Með bréfi til stefnanda, dagsettu föstudaginn 10. febrúar 2012, hafnar stefndi því að hann hafi brotið af sér. Hann segir í bréfinu að ekki geti verið á skjön við mannauðsstefnu stefnanda að tjá sig um trúarleg og siðferðisleg málefni samtímans og væri stjórnarskrárbrot að meina honum þátttöku í þjóðmálaumræðu. Þá hafi engin dæmi verið nefnd um að hann hafi brotið gegn grunnskólalögum, aðalnámskrá, reglugerð eða siðareglum Kennarasambandsins. Í lok bréfsins kveðst stefnandi hafa í hyggju að vinna áfram störf sín og „rækja [sitt] trúfrelsi“. Hann muni ekki samþykkja skerðingu á tjáningarfrelsi sínu til að „þóknast“ stefnanda, en halda áfram að boða að menn eigi opna hjálpræðisleið sem sé trúin á Jesúm Krist. Bætir hann svo við: „En ef þið viljið vera sanngjörn þá er ég til viðræðu um starfslokasamning en hann þarf að ná til þess tíma að ég taki eftirlaun úr lífeyrissjóði LSR.“

Nýr fundur var haldinn í ráðhúsinu mánudaginn 13. febrúar 2012 og sátu hann þau sömu og hinn fyrri. Í fundargerð er meðal annars bókað að stefnda hafi verið „kynnt sú niðurstaða að þrátt fyrir andmæli hans verði honum veitt áminning, enda hafi andmælin ekki brugðið neinni birtu á málið sem leitt geti til þess að málinu ætti að ljúka án áminningar. [Stefnda] er kynnt að honum sé veitt áminning skv. grein 14.8 í Kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara [...], að viðlagðri uppsögn ef til ítrekaðs brots kemur skv. grein 14.9 í sama kjarasamningi.“ Er þá bókað eftir stefnda, að samkvæmt lögfræðingi Kennarasambandsins „gildi grein 14.8. ekki um áminningu þessa.“ Í fundargerðinni segir svo að stefnda sé afhent „skriflegt áminningarbréf dags. 13. febrúar 2012.“ Þá sé honum tilkynnt að frá og með sama degi sé honum veitt leyfi á launum það sem eftir sé skólaársins. Á meðan á leyfinu standi haldi hann launum og réttindum en einnig öllum skyldum, „þ.m.t. með vísan til allra þeirra réttarheimilda sem liggja til grundvallar áminningu.“. Loks er bókað eftir stefnda að hann hyggist halda áfram að „blogga“ og njóta tjáningarfrelsis.

Umrætt áminningarbréf til stefnda er undirritað af Jóhönnu Maríu Agnarsdóttur skólastjóra Brekkuskóla. Segir í bréfinu að stefnandi telji að „með því að skrifa og tjá [sig] opinberlega á meiðandi hátt um samkynhneigð [hafi stefndi] brotið svo af [sér] að réttlæti viðbrögð af hálfu [stefnanda].“ Í áminningarbréfi skólastjórans segir að orð stefnda, „samkynhneigð telst vera synd. Syndin erfir ekki Guðs ríkið og því óæskilegt. Laun syndarinnar er dauði og því grafalvarleg“, séu „til þess fallin að vera meiðandi, m.a. gagnvart nemendum og ganga gegn lögum, reglum, samþykktum og skólastefnu.“ Þá sé „vísað til fjölmargra opinberra ummæla [stefnda] í fjölmiðlum undanfarna daga.“ Vísað sé til 1. mgr. 12. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem fram komi að kennarar skuli sýna nærgætni gagnvart börnum og foreldrum, og til 24. gr. laganna þar sem segi að markmið náms, kennslu og starfshátta skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun, meðal annars vegna kynhneigðar. Þá sé vísað til 7. kafla aðalnámskrár þar sem segi að tækifæri nemenda skuli vera óháð meðal annars kynhneigð og að meðal grundvallarréttinda nemenda sé að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem beztum tökum á náminu og kennsla nýtist þeim sem bezt. Því þurfi að leggja áherzlu á að skapa jákvæðan skólabrag í hverjum skóla og góðan vinnuanda í einstökum bekkjardeildum og námshópum. Þá er vísað til 3. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 með sambærilegum hætti og gert var í greinargerð þeirri er fylgdi fundargerð frá 3. febrúar. Þá er í áminningarbréfinu vísað til 3. gr. siðareglna Kennarasambands Íslands, með sama hætti og í greinargerðinni. Segir í áminningarbréfinu að af þessum heimildum megi ráða að grunnskólakennarar „beri ríkar samfélagslegar skyldur með vísan til laga og reglna, ekki bara innan veggja skólans heldur einnig utan hans.“ Þannig beri þeim að virða „stefnu vinnustaðar síns og lög og reglur sem [varði] grunnskóla og sé óheimilt að ganga gegn þeim í ræðu og riti, á þann hátt sem [stefndi hafi] gert með meiðandi ummælum um samkynhneigða.“ Loks segir í áminningarbréfinu, með undirstrikun áminnanda: „Með vísan til alls framanritaðs og aðvörunar sem þér var gefin skriflega á fundi dags. 8. október 2010 er þér hér með veitt áminning. Vísað er til greinar 14.8 í kjarasamningi þar sem segir: „Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis veita honum skriflega áminningu.[“] Með áminningarbréfi þessu er þér gefinn kostur á að bæta ráð þitt með því að ítreka ekki það brot og þau samskipti af því tagi sem lýst er hér að framan, ellegar kann þér að verða sagt upp störfum.“

Í málinu er bréf til stefnda, undirritað af Jóhönnu Maríu Agnarsdóttur skólastjóra, dagsett 13. febrúar 2012. Þar segir: „Ég undirrituð, hef ákveðið að bjóða þér launað leyfi frá störfum þínum sem grunnskólakennari við Brekkuskóla út skólaárið 2011-2012. Leyfið er veitt til að lægja þær öldur sem risið hafa í kjölfar ummæla þinna á bloggi. Á meðan á leyfi stendur munt þú halda fullum launum og réttindum og jafnframt bera þær skyldur sem á þig eru lagðar sem grunnskólakennari skv. þeim lögum, reglum og samþykktum sem við eiga.“

Sama dag sendi stefnandi frá sér fréttatilkynningu undir fyrirsögninni „Akureyrarbær bregst við meiðandi ummælum um samkynhneigð“. Í fréttatilkynningunni segir: „Síðustu daga hefur verið hávær umræða í fjölmiðlum um ummæli grunnskólakennara á Akureyri sem birtist á bloggi hans um samkynhneigð. Akureyrarbæ hefur verið legið á hálsi að bregðast ekki við ummælunum. Það skal upplýst að árið 2010 brugðust skólayfirvöld við ummælum umrædds kennara um samkynhneigð þar sem honum var gert að láta af slíkum meiðandi ummælum. Því var brugðist umsvifalaust og hart við þeim ummælum sem nú eru til umræðu. Var málið þegar sett í það lögformlega ferli sem starfsmannaréttur og stjórnsýslulög gera ráð fyrir hjá hinu opinbera. Starfsmannamál eru trúnaðarmál og því getur Akureyrarbær ekki gert opinbert hver niðurstaða málsins er en þess skal getið að umræddur starfsmaður hefur verið sendur í tímabundið leyfi frá störfum. Akureyrarbær getur ekki og mun ekki tjá sig frekar í fjölmiðlum um mál þessa einstaka starfsmanns sem hér um ræðir.“

Á umræddum tíma var í gildi kjarasamningur milli Sambands íslenzkra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara. Svo sem rakið er í áminningarbréfinu til stefnda segir meðal annars í grein 14.8 í þeim samningi: „Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi, hefur verið ölvaður að starfi eða framkoma hans eða athafnir í því þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar eða fyrirtækis veita honum skriflega áminningu.“

Í sama kjarasamningi, grein 14.9, er fjallað um uppsögn starfsmanns. Þar segir meðal annars: „Ef fyrirhugað er að segja starfsmanni upp störfum vegna ávirðinga þá þarf uppsögnin að grundvallast á skriflegri áminningu samkvæmt gr. 14.8.“

Hinn 20. apríl 2012 birti stefndi grein á „bloggsíðu“ sinni undir fyrirsögninni „Gildum er hægt að breyta!“. Þar segir, með leturbreytingum stefnda: „Er Anders ekki einmitt að segja satt varðandi umbreytingu gildanna. Norskir hermenn læra að líta á andstæðingana í Afganistan sem eitthvað annað en manneskjur og Talibanar kenna sínum að líta á hina kristnu sem réttdræpa heiðingja? Þannig hafa styrjaldir verið háðan í gegnum aldirnar að andstæðingurinn er gerður að ómenni. Hvað með þá öll illmenni veraldar? Breyttu þeir ekki gildismati sínu? Er ekki saga gyðinga einmitt sönnun þess hvernig þeir voru gerðir að „rottum samfélagsins“, afætum og með svínablóð í æðum“? Sjónarmið kristinnar trúar eru þau að maðurinn getur bætt hegðun sína og það er einmitt nauðsynlegt að hann taki inn heilbrigt gildismat. Grunnþáttur kristinna gilda er að Guð er til. Hann skapaði manninn í sinni mynd! Við höfum því ekki rétt á að eyða mönnum hvorki á Utöja né í fóstureyðingum. Næsta er: „að líkami okkar er musteri heilags anda“. Þess vegna höfum við ekki rétt á að fara með líkama okkar eins og hverju okkar lystir. Því sá sem eyðir musteri heilags anda mun Guð eyða! Þannig gerum við okkur sek við Guð og tilskipun hans. „En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottinn [svo] og Drottinn fyrir líkamann.“ (1.Kor 6:13) Þannig verður hjónabandið heilagt því Guð út bjó það þar sem karl og kona ganga saman gegnum lífi[ð]. Ekki tveir karlar saman og ekki tvær konur saman heldur karl og kona. Svo er: „Hver er þá náungi minn“? Þar komum við að „Miskunnsama Samherjanum“ sem leggur hinum þjáða lið og greiðir ekki bara lágmarkslaun sem duga ekki einu sinni fyrir framfærslu á Íslandi. Þessi „miskunnsami“ skilur að auðurinn er skapaður af öllum sem starfa við fyrirtækið og þeira allir eiga því réttlátan hlut í framleiðninni. Þessi hugsun er varðveitt í því að náungi minn er jafningi minn, skapaður í Guðs mynd á sama hátt og ég. Þá má nefna gildin um fjölskylduna. Makar elski og börnin alist upp í heimili elsku og trausts. Hjörtu feðra snúist til barna og óhlýðnir fái hugarfar réttlátra. Þessum gildum hafnaði Anders Breivik en ná þau til okkar á Íslandi? Við hrósum happi yfir því að vera ekki eins og þessi „tollheimtumaður“ en ef kristin gildi vantar í okkar þjóðfélag er þá ekki aðeins stigsmunur og [svo] okkur og honum en ekki eðlismunur? Eða hvernig getum við látið framhjá okkur fara 900 fóstureyðingar á Íslandi ár hvert án þess að spyrna við fótum. Jú með því að líta ekki á fóstrin sem manneskjur – Og Breivik sá ekki samborgara sína sem „Musteri heilags anda“! Æ, það er gott að B[r]eivik er ekki hér! Snorri í Betel“.

Í málinu liggur skjal sem nefnt er „samkomulag um starfslok“, dagsett 21. júní 2012. Skjalið er ekki undirritað. Í skjalinu eru ýmis samningsákvæði og þar á meðal að stefndi ljúki „ráðningarsambandi sínu við Brekkuskóla miðað við 1. ágúst 2012.“ Hann fái eftir það greidd föst mánaðarlaun í tólf mánuði. Eftir gerð samkomulagsins eigi hvorugur aðila kröfu á hinn og hvorugur muni eiga frumkvæði að umræðu um starfslokasamninginn og aðdraganda starfslokanna. Jafnframt liggur í málinu bréf stefnda til skólastjóra Brekkuskóla, fræðslustjóra stefnanda og bæjarlögmanns, dagsett 29. júní 2012. Þar segist stefndi hafna tilboði um starfslokasamning, dags. 21. júní. Segist stefndi „ekki tilbúinn að loka á dómstólaleiðina né umræðu í fjölmiðlum með því að samþykkja rýran starfslokasamning af engu tilefni.“

Hinn 28. júní 2012 birti stefndi á „bloggsíðu“ sinni færslu sem hann nefndi „Leiðrétting?“. Þar segir, með leturbreytingum hans: „Ég hef unnið lengi við að leiðrétta ritgerðir og stíla. Þá er gjarnan stuðst við ákv. reglur sem eru stafsetningarreglur í íslensku. Þær eru ekki hinar sömu í ensku og þýsku. Bretar og Þjóðverjar hafa sínar stafsetningar[r]eglur. En kennarar leiðrétta ranga stafsetningu, röng svör eða röng viðbrögð. Leiðréttingar eru einnig mikið notaðar í siglingafræðinni hvort sem um skip eða flug er að ræða. Menn taka tillit til segulskekkju, vinda og strauma. Það er kallað leiðrétting af því að menn ætla að ná réttum áfangastað. Nú hefur orðið leiðrétting fengið alveg nýja merkingu. Drengur sem fæddist „drengur“ og hefur xy-kynlitning fer í kynskiptiaðgerð. Það er kallað „leiðrétting“. Hvaða merkingarbrengl er virkilega komið í [í]slenskt tungumál? Þetta tiltekna ætti að vera kynbreyting en ekki leiðrétting. Því frá náttúrunnar hendi er drengurinn karlkyns vera, hvað svo sem honum finnst eða við álítum. Guð gjörði þau karl og konu og þau tvö skulu bindast, stofna heimili og verða einn maður. Ef menn ætla síðan að breyta þessum atriðum og gera karl að konu og/eða konu að karli þá er um að ræða breytingu eða afbökun en ekki leiðréttingu. Sál mannsins er hvorki karlkyns- né kvenkynsvera nema af því að hún er í líkama karls og líkama konu. Þetta er ekki hægt að leiðrétta heldur breyta og afbaka. Íslenskt samfélag þarf að fá þessa leiðréttingu og rifja upp hve frábær tungan okkar er, hún er svo gagnsæ og skír. Hin kristnu sjónarmið eru þau að karlinn er skapaður karl og til að vera karlmaður til æviloka. Sama er að segja um konuna, hún er fædd kvenvera til að vera slík til æviloka. Snorri í Betel“.

Daginn eftir ritaði skólastjóri Brekkuskóla stefnda bréf og boðaði hann til fundar í ráðhúsinu hinn 3. júlí. Í fundarboði segir meðal annars: „Til fundarins er boðað vegna meints brots utan starfs, og sem er til skoðunar hvort er ósamrýmanlegt starfi þínu sem kennari og leitt getur til uppsagnar. Vísað er til bloggfærslu á mbl.is frá 20. apríl 2012 undir heitinu Gildum er hægt að breyta! og bloggfærslu frá 28. júní 2012 undir heitinu Leiðrétting?, þar sem þú viðhefur meiðandi ummæli um samkynhneigða og transfólk. Vísað er [til] gildandi áminningar dag. 13. febrúar 2012 sem þér var gefin [...] vegna meiðandi bloggskrifa í garð samkynhneigðra, en sú framkoma og [athöfn] þótti ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi þínu sem kennari. Þá er vísað til fundar dags. 8. október 2010, þar sem þér var gefin skrifleg aðvörun að viðlagðri áminningu [ef] þú opinberlega ræddi[r] aftur á meiðandi hátt um samkynhneigða. Á fundinum verður hið meinta brot reifað frekar og lögð fram gögn.“

Samkvæmt fundargerð sátu þennan fund þau sömu og sátu fundina 10. og 13. febrúar sama ár. Í fundargerðinni er vísað til „bloggs“ stefnda frá 20. apríl 2012 og vitnað til orðanna: „Næsta er: „að líkami okkar er musteri heilags anda“. Þess vegna höfum við ekki rétt á að fara með líkama okkar eins og hverju okkar lystir. Því sá sem eyðir musteri heilags anda mun Guð eyða! Þannig gerum við okkur sek við Guð og tilskipun hans. „En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottinn og Drottinn fyrir líkamann.“ (1.Kor 6:13) Þannig verður hjónabandið heilagt því Guð út bjó þar þar sem karl og kona ganga saman gegnum lífi[ð]. Ekki tveir karlar saman og ekki tvær konur saman heldur karl og kona.“ Þá er í fundargerðinni vísað til eftirfarandi orða í „bloggi“ sem bar fyrirsögnina Leiðrétting?: „Nú hefur orðið leiðrétting fengið alveg nýja merkingu. Drengur sem fæddist „drengur“ og hefur xy-kynlitning fer í kynskiptiaðgerð. Það er kallað „leiðrétting“. Hvaða merkingarbrengl er virkilega komið í íslenskt tungumál? Þetta tiltekna ætti að vera kynbreyting en ekki leiðrétting. Því frá náttúrunnar hendi eru drengurinn karlkyns vera, hvað svo sem honum finnst eða við álítum. Guð gjörði þau karl og konu og þau tvö skulu bindast, stofna heimili og verða einn maður. Ef menn ætla síðan að breyta þessum atriðum og gera karl að konu og/eða konu að karli þá er um að ræða breytingu eða afbökun en ekki leiðréttingu. Sál mannsins er hvorki karlkyns- né kvenkynsvera nema af því að hún er í líkama karls og líkama konu. Þetta er ekki hægt að leiðrétta heldur breyta og afbaka.“ Í fundargerðinni segir að stefnandi vísi „til eftirfarandi réttarheimilda, sem talið [sé] að meint brot geti [varðað] við“, og eru svo talin upp Mannauðsstefna stefnanda, þar sem segi að framkoma og athafnir utan vinnustaðar verði að samrýmast því starfi sem menn gegni, lög um grunnskóla og sérstaklega vísað til 1. mgr. 12. gr. og 24. gr., „Nám og kennsla“ og þar sérstaklega vísað til 7. kafla, aðalnámskrá, reglugerð nr. 1040/2011 og þar sérstaklega vísað til 3. gr., og siðareglur Kennarasambands Íslands. Segir svo að stefnandi telji að „umrædd blogg geti verið brot á mannauðsstefnu [stefnanda], grunnskólalögum og framangreindri reglugerð ásamt fleiri réttarheimildum.“ Með fundargerðinni fylgir greinargerð sama efnis, undirrituð af fræðslustjóra og bæjarlögmanni.

Í málinu liggur skjal, undirritað af stefnda og stílað á fræðslustjóra, bæjarlögmann og skólastjóra Brekkuskóla. Skjalið er ódagsett en vísað er til fundarins 3. júlí. Í bréfinu hafnar stefndi því að „blogg“ sitt, „Gildum er hægt að breyta“, hafi verið meiðandi. Þar hafi hann fjallað um hið „glæpsamlega athæfi Breiviks í Noregi“, en Breivik hafi upplýst að hann hefði, áður en hann hefði framið óhæfuverk sín, hafið „vinnu í sjálfum sér til að réttlæta óhæfuverkin“. Stefndi hafi vitnað til Biblíunnar sem segði líkama mannsins vera „musteri heilags anda“ og „sá sem eyðir musteri heilags anda mun Guð eyða!“. Þá kvaðst stefndi hafa frá Kristi að hjónaband væri heilagt og aðeins fyrir karl og konu, og vísaði um það nánar til Matteusarguðspjalls. Þá segir stefndi í bréfinu að það ætti „að segja sig sjálft að leiðrétting skv. ísl. orðabók þýðir: „rétta, gera rétt: l. skekkju, lagfæra, bæta úr villu(,); l. stíla.““ og geti stefndi því ekki tekið undir að færsla sín frá 28. júní 2012 flokkist undir meiðandi ummæli. Segir stefndi að allt bendi til að „málflutningur ykkar og áklögur [byggist] á vanþekkingu bæði á Biblíunni og Íslensku“, og eigi það bæði við um þessar athugasemdir sem hinar fyrri.

Í málinu liggur ódagsett skjal, undir heitinu „Umboð“. Það hljómar svo: „Ég undirrituð Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri Brekkuskóla, framsel hér með heimild til Gunnars Gíslasonar, fræðslustjóra Akureyrarbæjar að segja Snorra Óskarssyni upp störfum í kjölfar uppsagnarferils, ef andmælaréttur hans leiðir til þess að ekki verði komist hjá uppsögn hans í starfi. Heimild Gunnars Gíslasonar gildir meðan ég er í sumarfríi frá 2. júlí til 17. júlí 2012.“ Undir skjalið rita Jóhanna María Agnarsdóttir og Gunnar Gíslason.

Með bréfi til stefnda, dagsettu 12. júlí 2012, var honum tilkynnt um uppsögn úr starfi grunnskólakennara. Uppsögnin var í bréfinu sögð eiga „rót að rekja til brota utan starfs sem samrýmist ekki starfi [hans] sem grunnskólakennari.“ Bæði mannauðsstefna Akureyrarbæjar og kjarasamningur grunnskólakennara boði að starfsmenn skuli gæta þess að framkoma og athafnir utan vinnustaðar samrýmist starfinu sem þeir gegni. Þá segir í bréfinu að andmæli stefnda hafi ekki brugðið „birtu á neina þá þætti í málinu sem tilteknir [hafi verið] í greinargerð og fundargerð með vísan til þeirra réttarheimilda sem [liggi] til grundvallar í málinu.“ Telji stefnandi að „með því að skrifa og tjá sig opinberlega á meiðandi hátt um samkynhneigð og transfólk [hafi stefndi] brotið svo af [sér] að réttlæti viðbrögð af hálfu bæjarins.“ Vísað er til tveggja „blogga“ stefnda. Annars vegar þess frá 20. apríl 2012, og sagt að þau ummæli úr því, sem vitnað var til í fundargerð frá 3. júlí, væru „meiðandi í garð samkynhneigðra“, og annars vegar til „bloggs“ frá 28. júní, og sagt að þau orð þess, sem einnig voru til tekin í sömu fundargerð, væru „meðandi í garð transfólks“. Uppsögnin sé byggð á þessum skrifum og þeirri áminningu sem stefnda hafi verið veitt 13. febrúar, en að baki henni hafi verið „bloggskrif“ hans 31. janúar. Segir í uppsagnarbréfinu að stefnandi vísi, máli sínu til stuðnings, til 1. mgr. 12. gr. grunnskólalaga þar sem meðal annars komi fram að kennari skuli sýna nærgætni gagnvart börnum og foreldrum þeirra og 24. gr. sömu laga þar sem segi að markmið náms, kennslu og starfshátta skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun, meðal annars vegna kynhneigðar. Einnig sé vísað til 7. kafla aðalnámskrár þar sem segi meðal annars að tækifæri nemenda skuli meðal annars vera óháð kynhneigð og í aðalnámskrá segi einnig að meðal grundvallarréttinda nemenda sé að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem beztum tökum á náminu og því þurfi að leggja áherzlu á að skapa jákvæðan skólabrag í hverjum skóla og góðan vinnuanda í einstökum bekkjardeildum og námshópum. Þá er í bréfinu vísað til 3. gr. reglugerðar nr. 1040/2011 þar sem segir að starfsfólk skóla skuli ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja þeim öryggi, vellíðan og vinnufrið til að þeir geti notið skólagöngunnar. Þá segi að starfsmenn skuli sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsmönnum. Þá sé vísað til markmiða reglugerðarinnar þar sem segi meðal annars að nemendur eigi að geta notið bernsku sinnar í skólastarfi. Loks er vísað til 3. gr. siðareglna Kennarasambands Íslands þar sem segi meðal annars að kennari vinni gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verði fyrir. Í uppsagnarbréfinu segir að af þessum heimildum megi ráða að grunnskólakennarar beri „ríkar samfélagslegar skyldur með vísan til laga og reglna, ekki bara innan veggja skólans heldur einnig utan hans. Þannig [beri] þeim að virða stefnu vinnustaðar síns og lög og reglur er [varði] grunnskóla, jafnt innan sem utan skóla og [sé] óheimilt að ganga gegn þeim í ræðu og riti, á þann hátt sem [stefndi hafi] gert með meiðandi ummælum um samkynhneigða og transfólk.“ Með vísan til alls þessa, og viðvörunar sem stefndi hafi fengið á fundi 8. október 2010 og áminningar 13. febrúar 2012, sé honum sagt upp störfum sem kennari við Brekkuskóla. Ljóst sé að „eftir framangreinda áminningu [hafi stefndi] ekki bætt ráð [sitt], er [varði] það framferði að skrifa opinberlega á meiðandi hátt um samkynhneigð.“ Undir bréfið ritar, fyrir hönd stefnanda, Gunnar Gíslason fræðslustjóri.

Úrskurður innanríkisráðuneytisins

Með stjórnsýslukæru er barst innanríkisráðuneytinu hinn 2. október 2012 kærði stefndi þá ákvörðun stefnanda að segja sér upp starfi við Brekkuskóla. Í niðurstöðu ráðuneytisins segir að í málinu sé meðal annars deilt um gildi áminningar þeirrar er stefnda var veitt í febrúar 2012, en í úrskurðinum kemur fram að stefndi byggði í kæru sinni meðal annars á því að áminning yrði ekki veitt vegna athæfis utan starfs, á grundvelli greinar 14.8 í gildandi kjarasamningi. Þá segir einnig meðal annars: „Þegar tekið er mið af orðalagi ákvæðis 14.8 í kjarasamningnum telur ráðuneytið alveg ljóst að það veitir sveitarfélögum fyrst og fremst heimild til að áminna grunnskólakennara vegna háttsemi í starfi. Gildissvið ákvæðisins er að þessu leyti þrengra en hliðstætt ákvæði 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 þar sem er að finna heimild til að áminna starfsmann ef athafnir hans utan starfs þykja ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu. Í því ljósi telur ráðuneytið að leggja verði til grundvallar að grunnskólakennarar njóti að þessu leyti meiri verndar heldur en t.d. starfsmenn ríkisins og hefur ráðuneytið þar ekki síst í huga að um samningsbundin réttindi er að ræða, þ.e. samkomulag á milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands. Verður að telja að kjarasamningurinn mæli þannig í grundvallaratriðum fyrir um lágmarksréttindi grunnskólakennara, sem samningsaðilar hafa sammælst um, og að þau réttindi verði ekki takmörkuð af öðrum, eftir atvikum einhliða, stefnuyfirlýsingum sveitarfélaga svo sem mannauðs- eða starfsmannastefnu.“ Þá segir í úrskurðinum að þrátt fyrir þetta telji ráðuneytið ekki útilokað að unnt sé að veita grunnskólakennara áminningu vegna háttsemi hans eða athafna utan starfs, en til að svo megi verði, sé nauðsynlegt að athafnir hans eða háttsemi hafi bein áhrif á stöðu hans innan viðkomandi grunnskóla, með þeim hætti sem lýst sé í ákvæði 14.8 í kjarasamningnum. Beri sveitarfélaginu að sýna fram á það, og gæta þá að viðeigandi réttarreglum stjórnsýsluréttar, svo sem rannsóknarreglu, réttmætisreglu og meðalhófsreglu.

Þá segir í úrskurði ráðuneytisins að hvorki í áminningarbréfi stefnanda til stefnda né í greinargerð stefnanda til ráðuneytisins sé því haldið fram að ummæli stefnda hafi með beinum hætti haft áhrif á störf stefnda innan Brekkuskóla, þannig að fallið gæti undir ákvæði 14.8 í kjarasamningnum, og ekki sé að finna vísbendingar í gögnum málsins um að svo hafi verið. Sé þannig ekkert í gögnum málsins sem gefi til kynna að upp hafi komið vandamál tengd kennsluháttum stefnda eða hann hafi látið skoðanir sínar hafa áhrif á störf sín innan skólans eða framkomu gagnvart nemendum. Sé alveg ljóst að áminning stefnda hafi eingöngu byggzt á því mati stefnanda að ummæli hans væru almennt til þess fallin að vera meiðandi, án þess að leiddar hefðu verið að því líkur að þau hefðu haft raunveruleg áhrif á störf hans sem grunnskólakennari. Slíkar almennar ástæður sem varði athafnir eða háttsemi grunnskólakennara utan starfs geti ekki talizt nægilegur grundvöllur áminningar samkvæmt kjarasamningsákvæði nr. 14.8. Hafi áminning sú, er stefnda var veitt, ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og verið ólögmæt. Geti tilvísanir stefnanda til annarra réttarheimilda, eða eigin mannauðsstefnu, aðalnámskrár eða siðareglna Kennarasambandsins ekki breytt þeirri niðurstöðu, enda sé þar ekki heldur að finna fullnægjandi grundvöll til að áminna grunnskólakennara af þeim ástæðum sem stefnandi hafi vísað til. Þá segir ráðuneytið í úrskurði sínum að í uppsagnarbréfi stefnanda til stefnda sé því ekki haldið fram að háttsemi hans hafi haft bein áhrif á störf hans innan skólans og þá verði ekki séð að slíkar aðstæður, sem falli undir ákvæði 14.8 í kjarasamningnum hafi risið á tímanum frá áminningu og til brottrekstrar. Ákvörðun stefnanda um uppsögn stefnda hafi ekki verið tekin á grundvelli lögmætrar áminningar og vegna þess, sem og þess að ekki hafi að öðru leyti verið forsendur fyrir uppsögn hans, sé ákvörðun stefnanda um uppsögn stefnda úr starfi ólögmæt. Er þetta úrskurður sá, sem stefnandi krefst að verði úr gildi.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi segist byggja á því að sér hafi verið heimilt að áminna stefnda og segja honum upp störfum vegna skrifa hans á vefsíðunni snorribetel.blog.is. Kveðst stefnandi byggja þetta á nokkurum skráðum réttarheimildum. Stefnandi kveðst vísa til mannauðsstefnu sinnar, þar sem sérstaklega sé vísað til kafla um almennar skyldur og réttindi starfsmanna og meðal annars sagt að starfsmenn skuli vinna eftir stefnu vinnustaðar síns af heilindum og trúmennsku, hlíta lögmætum fyrirmælum yfirmanna sinna, sinna starfi sínu af samvizkusemi, sýna kurteisi, lipurð og réttsýni og starfa fyrst og fremst í þágu bæjarbúa, sem leggi þeim þá skyldu á herðar að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og gæta þess að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmist starfinu sem þeir gegni. Þá kveðst stefnandi vísa til laga nr. 91/2008 um grunnskóla þar sem meðal annars segi í 1. mgr. 12. gr. að starfsfólk grunnskóla skuli rækja starf sitt af fagmennsku alúð og samviskusemi. Það skuli gæta kurteisi, nærgætni og lipurð með framkomu sinni gagnvart börnum, foreldrum þeirra og samstarfsfólki og þá kveðst stefnandi vísa til 24. greinar grunnskólalaga þar sem segi að markmið náms og kennslu og starfshættir skuli vera þannig að komið sé í veg fyrir mismunun vegna uppruna, kyns, kynhneigðar, búsetu, stéttar, trúarbragða, heilsufars, fötlunar eða stöðu að öðru leyti. Þá segist stefnandi vísa til sjöunda kafla Náms og kennslu, þar sem segi að í grunnskóla eigi allir nemendur rétt á að stunda nám við sitt hæfi. Tækifærin eigi að vera jöfn óháð atgervi og aðstæðum hvers og eins. Þess sé því gætt að tækifærin ráðist ekki af því hvort nemandi sé af íslenzku bergi brotinn eða af erlendum uppruna. Þau séu óháð því hvort um drengi eða stúlkur sé að ræða, hvar nemandi eigi heima, hverrar stéttar hann sé, hvaða trúarbrögð hann aðhyllist, hver kynhneigð hans sé, hvernig heilsufari hans sé háttað eða hvort að hann búi við fötlun. Þá segist stefnandi vísa til aðalnámskrár þar sem segi að nemendur þurfi að tileinka sér í daglegu lífi ýmsa þætti til þess að vera virkir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi, þar á meðal samskiptahæfni, virðingu, umburðarlyndi og skilning á uppbyggingu lýðræðislegs þjóðfélags. Nemendur þurfi að læra að umgangast hver annan og allt starfsfólk skóla í sátt og samlyndi og taka ábyrgð á eigin framkomu og hegðun og virða skólareglur. Leggja þurfi áherzlu á námsaga og sjálfsaga nemenda. Til þess að svo megi verða beri starfsfólki í skóla í hvívetna að stuðla að góðum starfsanda og gagnkvæmri virðingu allra í skólanum í samstarfi við nemendur, foreldra og starfsfólk. Efla skuli félagsfærni nemenda með því að skapa þeim tækifæri til virkrar þátttöku í skólastarfi. Jákvæður skólabragur sé í eðli sínu forvarnarstarf og geti dregið úr neikvæðum samskiptum svo sem einelti og öðru ofbeldi. Meðal grundvallarréttinda nemenda sé að hafa vinnufrið í skólanum þannig að þeir geti náð sem beztu tökum á náminu og kennslan nýtist þeim sem bezt. Því þurfi að leggja áherzlu á að skapa jákvæðan skólabrag í hverjum skóla og góðan vinnuanda í einstökum bekkjardeildum og námshópum. Stefnandi segist vísa til reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila að skólasamfélagi í grunnskólum nr. 1040/2011, þar sem segi meðal annars í 3. gr., að starfsfólk skóla skuli ávallt bera velferð nemenda fyrir brjósti og leggja sig fram um að tryggja nemendum öryggi, vellíðan og vinnufrið til þess að þeir geti noti skólagöngu sinnar. Þá segi að starfsfólk skuli sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki. Þá sé vísað til markmiðar reglugerðar þessarar þar sem segi meðal annars að nemendur eigi að geta notið bernsku sinnar í skólastarfi. Stefnandi segist vísa til siðareglna Kennarasambands Íslands en þar segi meðal annars að kennari vinni gegn fordómum, einelti og öðru ranglæti sem nemendur verði fyrir.

Þá segist stefnandi byggja á ýmsum óskráðum meginreglum vinnuréttar, meðal annars vammleysisskyldunni, að forðast að hafast nokkuð það að í starfi eða utan þess sem starfsmanni sé til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað geti rýrð á starf sitt eða starfsgrein; hlýðniskyldunni, að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna um starf sitt, hollustu- og trúnaðarskyldum, að taka tillit til hagsmuna stofnunar í starfi og utan starfs. Stefnandi segir að vammleysisskyldan sé ólögfest meginregla í vinnurétti. Reglan hafi verið lögfest í 28. gr. laga nr. 79/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda þar sem hafi sagt að starfsmanni væri skylt að rækja starf sitt með alúð og samvizkusemi í hvívetna, hann skyldi gæta kurteisi, lipurðar og réttsýni í starfi sínu og hann skyldi forðast að hafast nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem væri honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað gæti rýrð á það starf eða starfsgrein sína. Lögin hafi verið felld úr gildi með lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og ákvæði um réttindi og skyldur færð í kjarasamninga. Reglurnar sé nú að finna í ákvæði 14.11 í kjarasamningi grunnskólakennara.

Stefnandi segir að þótt vammleysisskyldu utan starfs sé ekki að finna í ákvæði 14.8 í kjarasamningi, þar sem talin séu upp tilvik og hegðun sem leitt geti til áminningar, gildi almenna meginreglan um vammleysisskyldu utan starfs enda séu aðilar vinnumarkaðarins ekki í stöðu til að semja sig undan almennum meginreglum vinnuréttar. Meginreglan um vammleysi utan starfs sé enda í mannauðsstefnu stefnanda sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn stefnanda 17. marz 2009 og gildi um stefnda. Þar segi í kafla um almennar skyldur og réttindi starfsmanna stefnanda að um réttindi og skyldur starfsmanna fari eftir gildandi lögum og samþykktum svo og kjarasamningum á hverjum tíma. Þá segi að til viðbótar hafi starfsmenn skyldum að gegna sem taldar séu upp í kaflanum, meðal annars að þeir gæti þess að framkoma og athafnir á vinnustað og utan hans samrýmist starfinu sem þeir gegni. Hæstiréttur hafi dæmt eftir starfsreglum og starfsmannastefnu vinnustaða sem meðal annars byggi á almennri vammleysisskyldu utan starfs, sbr. dóm í máli nr. 220/2007.

Stefnandi segir að í 56. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar nr. 99/2003 segi að um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni, ákvæðum um ráðningarsamninga, reglum um ábyrgðarmörk, mannauðsstefnu og jafnréttisstefnu. Samþykktin sé sett samkvæmt ákvæðum 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og hafi verið staðfest af innanríkisráðuneytinu. Áður hafi samskonar ákvæði verið í eldri samþykktum nr. 895/2003, en þar hafi komið fram heitið starfsmannastefna sem síðar hafi breytzt í umrædda mannauðsstefnu árið 2009. Í þeirri mannauðsstefnu sé ákvæði um vammleysi utan starfs. Segist stefnandi því mótmæla lögskýringu innanríkisráðuneytisins sem byggt hafi niðurstöður sínar á því að aðilar hafi í kjarasamningi þrengt heimild til áminninga og einskorði þær við atriði sem gerist í starfi. Þótt ákvæði um áminningu og uppsagnir vegna ítrekunarbrota sé í kjarasamningi séu réttarreglurnar einnig byggðar á samspili almennra reglna vinnuréttar og ákvæðum stjórnsýslulaga. Stefnandi segist gera ríkar kröfur til starfsmanna sinna um að þeir sýni framkomu utan starfs sem samrýmist starfinu og til þess hafi stefnandi fullt vald og heimildir með vísan til sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga. Það sé mat stefnanda að brot utan starfs geti réttlætt stjórnsýsluleg viðurlög eins og aðvaranir, áminningu og uppsögn.

Stefnandi segist einnig byggja á því að sér hafi borið skylda til að gæta sérstaklega að réttindum barna sem skylt sé að lögum að sækja grunnskóla. Því hafi sér verið skylt að bregðast við háttsemi stefnda. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 91/2008 sé skólaskylda á Íslandi í 10 ár og samkvæmt 1. mgr. 5. gr. sömu laga beri sveitarfélög ábyrgð á rekstri grunnskóla. Í 2. gr. sömu laga komi fram að það sé hlutverk grunnskólans að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi sem sé í sífelldri þróun. Starfshættir skuli meðal annars mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi. Stefnandi segist einnig vísa til þess að í 29. gr. laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, komi fram að menntun barns skuli meðal annars beinast að því að móta með því virðingu fyrir mannréttindum og málfrelsi og grundvallarsjónarmiðum þeim er fram koma í sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt þessu sé ljóst að stefnandi hafi að lögum skyldu til að tryggja börnum menntun þar sem þeim sé kennt umburðarlyndi og virðing fyrir öllum mönnum. Börnum á skólaskyldualdri sé uppálagt að bera virðingu fyrir kennurum sínum og fara að fyrirmælum þeirra. Foreldrar eigi að geta treyst því að skólarnir ræki hlutverk sitt af samvizkusemi. Það geti því vart verið ásættanleg niðurstaða að sveitarfélög geti ekki gert athugasemdir og beitt starfsmenn stjórnsýslulegum viðurlögum verði þeir berir að opinberum yfirlýsingum sem gangi þvert gegn þessum markmiðum, og haldi því áfram eftir aðfinnslu og áminningu vinnuveitenda, þvert á hlýðniskyldu þeirra.

Stefnandi segir að í 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994 sé fjallað um tjáningarfrelsi einstaklingsins. Þar komi fram að sérhver maður eigi rétt til tjáningarfrelsis og því verði aðeins settar skorður með lögum, meðal annars til að tryggja réttindi eða mannorð annarra enda séu þær nauðsynlegar í lýðræðisþjóðfélagi. Stefnandi segir að trúfrelsi og tjáningarfrelsi stefnda hafi aldrei verið heft. Hins vegar hafi honum verið gert ljóst að ummæli hans gætu haft afleiðingar fyrir hann í starfi. Hann hafi aldrei verið beðinn um að tjá ekki trúarskoðanir sínar heldur aðeins að skrifa ekki á meiðandi hátt um samkynhneigða með vísan til þess að hann væri grunnskólakennari. Þegar stefndi hafi haldið uppteknum hætti hafi stefnandi veitt honum áminningu og sagt honum loks upp þegar ljóst hafi verið að hann hefði ekki látið sér segjast. Þetta hafi verið eðlileg vinnubrögð vinnuveitanda, sbr. það sem áður hafi verið sagt um lagaumhverfi grunnskólans, vammleysisskylduna og hlýðniskyldu vinnuréttar. Sé einnig vísað til þess að stefnandi hafi sérstakar skyldur til að vernda börn í grunnskólum og gæta hagsmuna þeirra. Stefnandi segist vísa til þess að samkvæmt tölfræði sé næsta víst að í Brekkuskóla hafi verið samkynhneigðir nemendur, nemendur sem væru að velta fyrir sér kynhneigð sinni, og/eða ættu samkynhneigða ættingja. Ljóst sé að þessi tími reynist mörgum þeirra erfiður og sýna þurfi þessum hópi sérstaka nærgætni. Stefnda hafi því borið að gæta hagsmuna þeirra sérstaklega og gæta þess að nemendur þyrftu ekki að draga óhlutdrægni hans í efa vegna kynhneigðar eða skoðana þeirra á samkynhneigð. Þær rannsóknir hafi sýnt að samkynhneigðir unglingar eigi á brattann að sækja og umhverfisáhrif geti verið þeim skaðleg og þau geti átt við svokallaða minnihlutastreitu að glíma, sbr. rannsókn dr. Sigrúnar Sveinbjörnsdóttur, dr. Þórodds Bjarnasonar og fleiri. Samkvæmt tölvupósti sem stefnda hafi borizt frá dr. Þóroddi Bjarnasyni prófessor, dagsett 9. febrúar 2012, sem gagn í starfsmannamálum stefnda, þá sé ljóst að samkynhneigðir nemendur séu tólffalt líklegri til ítrekaðra sjálfsvígshugleiðinga og tuttuguogfimmfalt líklegri en aðrir íslenzkir unglingar til að hafa gert margar sjálfsvígstilraunir. Stefnandi segist byggja á því að opinber umfjöllun stefnda á „bloggi“ stefnda hafi verið meiðandi fyrir samkynhneigða og transfólk og gengið gegn lögum, reglum, samþykktum og skólastefnu. Þá hafi framkoma og athafnir stefnda utan starfs verið ósæmileg, óhæfileg og ósamrýmanleg starfi hans sem grunnskólakennari. Stefnandi segist hafa litið til þess að umfjöllun stefnda um að samkynhneigðir væru syndugir og þeim yrði refsað með dauða eða þeim yrði eytt væri mjög meiðandi ummæli í garð samkynhneigðra, fjölskyldna þeirra og ekki sízt grunnskólabarna sem ættu erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér eða verjast slíkum ummælum og gætu tekið þau bókstaflega. Stefnandi hafi því ekki lengur treyst því að stefndi gætti jafnræðis við meðferð barnanna óháð kynhneigð þeirra eða aðstandenda þeirra. Stefnda hafi verið kynnt mat stefnanda á fundum hinn 3. febrúar 2012 og 3. júlí 2012 þar sem matið hafi verið reifað. Sjónarmið stefnda gagnvart því mati hafi einungis verið að hann væri að vitna í texta Biblíunnar.

Stefnandi segist byggja á því að í umræddu „bloggi“ stefnda hafi falizt hatursáróður en Mannréttindadómstóll Evrópu hafi skilgreint hatursáróður þannig að um sé að ræða tjáningu sem dreifi, hvetji til, stuðli að eða réttlæti hatur sem byggist á skorti á umburðarlyndi. Segist stefnandi byggja á því að slíkur áróður verði ekki réttlættur með vísan í Biblíuna.

Stefnandi segir að til skilgreiningar á hatursáróðri megi vísa til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 9. febrúar 2012 þar sem fjallað hafi verið um hatursáróður vegna kynhneigðar í framhaldsskóla. Þar hafi áróður innihaldið þrjár meginfullyrðingar sem dómstóllinn hafi talið til hatursáróðurs. Í fyrsta lagi að samkynhneigð væri afbrigðileg kynferðisleg hneigð. Í öðru lagi að hún hefði siðferðilega skemmandi áhrif á þjóðfélagið og í þriðja lagi að hún bæri ábyrgð á þróun alnæmis. Jafnvel þótt innihaldið hefði ekki verið bein hvatning um að fremja „hatursfulla verknaði“ hafi dómstóllinn talið tjáninguna innihalda alvarlegar og fordómafullar staðhæfingar. Dómstóllinn hafi lagt áherzlu á að mismunun á grundvelli kynhneigðar væri jafnalvarleg og mismunur á grundvelli kynþáttar, uppruna eða litarháttar.

Þá segist stefnandi mótmæla þeirri staðhæfingu að skoðanir og umfjöllun stefnda hafi ekki haft áhrif á nemendur eða starf hans sem kennara. Þá sé ljóst að stefndi sjálfur hafi vitað að skoðanir hans og umfjöllun á „bloggi“ hafi haft áhrif á starf hans og nemendur og foreldra ólögráða barna í skyldunámi. Þannig hafi stefndi verið ítrekað færður til innan skólans og hafi ítrekað þurft að hætta að kenna bekkjardeildum. Þá kveðst stefnandi telja að af dómaframkvæmd megi ráða að þegar dæmt hafi verið fyrir skort á umburðarlyndi, sem Mannréttindadómstóll Evrópu skilgreini sem hatursáróður, hafi ekki þurft að sýna fram á að einstaklingur hafi meiðzt heldur nægi að tiltekinn hópur sé afmarkaður. Kveðst stefnandi þessu til stuðnings vísa til dóms Hæstaréttar í máli nr. 461/2001 þar sem maður hafi verið dæmdur til refsingar fyrir brot gegn 233. gr. a, almennra hegningarlaga með ummælum sem beinzt hafi gegn hópi ónafngreindra manna vegna þjóðernis, litarháttar og kynþáttar.

Stefnandi segist byggja á því að samkvæmt framansögðu þurfi að meta niðurstöðu innanríkisráðuneytisins til samræmis við úrskurði Mannréttindadómstólsins og Hæstaréttar Íslands, en ráðuneytið segi í úrskurði sínum að það sé ljóst að áminning stefnda hafi eingöngu byggzt á því mati stefnanda að þau ummæli er hann hafi birt á „bloggsíðu“ sinni væru almennt til þess fallin að vera meiðandi, án þess þó að sveitarfélagið hafi leitt að því líkur að þau hefðu haft raunveruleg áhrif á störf hans sem grunnskólakennara. Stefnandi segist einnig byggja á því að við matið sé nægilegt að réttmæt ástæða sé til að draga óhlutdrægni stefnda í efa en ekki nauðsyn að stefndi brjóti á einstökum tilteknum nemanda.

Þá segir stefnandi hafa haft til hliðsjónar við mat sitt lagalega réttarstöðu og mannréttindi samkynhneigðra með hliðsjón af „bloggi“ stefnda. Á síðustu árum hafi orðið mikil þróun á réttarstöðu samkynhneigðra í þjóðfélaginu hvort sem sé á sviði löggjafar eða í samfélagslegu samhengi. Mikil breyting hafi orðið á viðhorfum almennings og töluvert hafi dregið úr fordómum í garð samkynhneigðra. Miklir lagalegir ávinningar hafi átt sér stað og gildismat þjóðarinnar gagnvart samkynhneigð hafi tekið miklum breytingum. Réttarstaða samkynhneigðra sé bundin í lögum og ályktunum. Skemmst sé að minnast ályktunar Alþingis um málefni samkynhneigðra frá 19. maí 1992 þar sem Alþingi hafi lýst yfir vilja sínum til þess að tryggja að misrétti gagnvart samkynhneigðum ætti sér ekki stað. Eitt stærsta skrefið í réttindabaráttu samkynhneigðra hafi verið tekið árið 2010 þegar Alþingi hafi samþykkt að ein hjúskaparlög skyldu gilda um alla, en lögin gildi um hjúskap tveggja einstaklinga en ekki karls og konu eins og áður. Lögin gildi því um hjúskap allra, óháð kyni og kynhneigð. Stefndi hafi í ræðu og riti talað gegn framangreindum réttindum samkynhneigðra sem séu bundin í lög.

Stefnandi segist hafa farið í einu og öllu eftir reglum stjórnsýslulaga við meðferð máls stefnda. Stefnandi hafi rannsakað málið áður en meðferð þess hafi hafizt, með vísan til stjórnsýslulaga, boðað stefnda á fundi með vísan til 14. gr. stjórnsýslulaga þar sem málefni funda hafi komið fram, leiðbeint stefnda bæði í fundarboðum og á fundum með vísan til 7. gr. stjórnsýslulaga, meðal annars að hann gæti komið með aðstoðarmann á fundi og hver væru réttaráhrif ef tiltekin ákvörðun yrði tekin. Stefnandi hafi lagt fram gögn með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga þar með taldar greinargerðir og réttarheimildir og hafi reifað mál sitt á fundum, veitt stefnda andmælafrest með vísan til 13. gr. stjórnsýslulaga og tekið afstöðu til andmæla hans áður en ákvörðun hafi verið tekin með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi stefnandi litið til efnisreglna stjórnsýsluréttar við töku ákvörðunar. Þannig hafi stefnandi haft meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga í heiðri og varað stefnda fyrst við og veitt honum síðan áminningu áður en gripið hafi verið til uppsagnar, en áður en stefnda hafi verið sagt upp hafi stefnandi boðið stefnda starfslokasamning sem stefndi hafi ekki þegið.

Stefnandi segir að stefnda hafi mátt vera ljóst, eftir aðvörun sem honum hafi verið veitt, eftir viðvörun sem honum hafi verið veitt í október 2010 þess efnis að stefnandi teldi hann brjóta ýmis ákvæði í lögum sem varði grunnskóla auk hinnar almennu ólögfestu vammleysisskyldu og ákvæði 14.11 í kjarasamningi, að stefnandi myndi ekki láta þar við sitja. Dómar Mannréttindadómstóls Evrópu og dómur Hæstaréttar um hatursáróður styðji það mat stefnanda að grípa hafi þurft til þess stjórnsýslulega úrræðis að áminna stefnanda. Það stjórnsýslulega úrræði sé eina heimild stefnanda gagnvart stefnda til að gæta hagsmuna barna og leyfa þeim að njóta vafans þegar réttmæt ástæða hafi verið til að draga óhlutdrægni stefnda í efa vegna meiðandi ummæla hans á opinberum vettvangi um samkynhneigða.

Stefnandi segist byggja á því að hann hafi tekið ákvörðun um viðvörun, áminningu og uppsögn á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða. Það lögmæta og lögbundna markmið hans hafi verið að verja grunnskólabörn gegn meiðandi ummælum um samkynhneigð af hendi grunnskólakennara og tryggja að nemendur og forráðamenn þeirra gætu treyst því að kynhneigð hefði ekki áhrif á framkomu og viðhorf kennara til nemenda. Stefnandi segist byggja á því að þær réttarheimildir sem vísað sé til geri ráð fyrir að starfmaður þurfi að una því að hendur hans geti verið bundnar með vísan til starfsins sem hann gegni og athafnir utan starfs geti leitt til þess að hann teljist hafa brotið af sér sem geti réttlætt aðgerðir af hálfu yfirmanns. Stefndi hafi brotið þannig af sér að réttlætt hafi verið viðvörun, áminning og uppsögn og því beri að fella úrskurð innanríkisráðuneytisins úr gildi.

Stefnandi segist vísa til 1. mgr. 78. gr. og 73. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sbr. lög nr. 62/1994, laga nr. 91/1940 um grunnskóla, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, mannauðsstefnu Akureyrarbæjar sbr. samþykkt um stjórn og fundarsköp Akureyrarkaupstaðar nr. 99/2013, sbr. og sveitarstjórnarlög nr. 138/2011, ólögfestra meginreglna vinnuréttar, vammleysisskyldu, hlýðniskyldu, trúnaðar- og hollustuskyldna, laga nr. 19/2013 um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, 233. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sjöunda kafla Náms og kennslu, aðalnámskrá grunnskóla, reglugerðar um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011, siðareglna Kennarasambands Íslands, kjarasamnings Sambands íslenzkra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara, barnalaga nr. 76/2003 og barnaverndarlaga nr. 80/2002. Vegna kröfu um málskostnað kveðst stefnandi vísa til XXI. kafla laga nr. 91/1991. Vegna varnarþings, að því er varðar íslenzka ríkið, sé byggt á 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 sömu laga.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi segir að sér hafi verið bolað úr starfi á grundvelli ólögmætra sjónarmiða. Í raun sé viðurkennt í stefnu að að látið hafi verið undan óréttmætum kröfum foreldra í þeim efnum. Megi ráða þetta bæði af gögnum málsins sem og stefnunni sjálfri. Í e lið 38. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sé gert ráð fyrir því að á vinnustöðum sé unnið að aðgerðum gegn einelti. Á þeim grundvelli hafi verið sett reglugerð nr. 1000/2004 um aðgerðir gegn einelti á vinnustað. Í a lið 3. gr. hennar sé einelti skilgreint svo að það sé ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, athöfn eða hegðun sem sé til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan þess sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi falli þar undir. Hér sé ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kunni að rísa á vinnustað milli stjórnenda og starfsmanns eða tveggja og fleiri starfsmanna, enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem þarna hafi verið lýst. Í reglugerðinni sé ýtarlega fjallað um skyldur atvinnurekenda til að koma í veg fyrir einelti, en í þessu máli hafi hann sjálfur lagt stund á það og þá hoggið sá er hlífa skyldi. Sé þetta mjög ámælisvert. Megi ráða af lestri stefnu og annarra gagna að afstaða einstakra foreldra og stefnanda sjálfs til stefnda og skoðana hans einkennist af töluverðum fordómum.

Stefndi segir að í stefnu sé lýst rógburði í sinn garð um að hann hafi rætt við nemendur um skaðsemi samkynhneigðar og fyrir slíku bornar Gróusögur. Við þeim Gróusögum hafi stefnandi brugðist með því að færa stefnda til í starfi og láta hann stunda svonefndan „yndislestur“ á bókasafni. Þetta hafi verið mjög niðurlægjandi fyrir stefnda sem hafi um áratugaskeið verið farsæll kennari og þar að auki skólastjóri yfir Brekkuskóla skólaárið 2002-2003. Það að færa fólk til í starfi að ófyrirsynju sé talið skólabókardæmi um einelti á vinnustað. Þótt rót þessa hafi ef til vill verið hjá foreldrum hafi skólayfirvöld ákveðið að taka þátt í því með foreldrunum fremur en að fá þá á móti sér og hafi því gengið í lið með þeim. Hafi skólayfirvöld þannig orðið vond fyrirmynd börnum sem kennt sé að gera ekki slíkt. Næst hafi það gerst að foreldrar hafi kvartað yfir viðhorfum stefnda en ekkert hafi hins vegar komið fram um að hann hafi látið nein viðhorf í ljós sem kennari, ekkert liggi fyrir í málinu um það. Hafi á ný verið brugðið á það ráð að halda eineltinu áfram. Hafi þá verið ákveðið að tilteknir árgangar myndu ekki hitta stefnda á bókasafninu. Sé þetta dæmigert þegar um einelti sé að ræða.

Stefndi segir að í stefnu segi að „málefni stefnda vegna meiðandi ummæla hans sem grunnskólakennari um samkynhneigð [hafi] verið til formlegrar stjórnsýsluskoðunar hjá Akureyrarbæ frá árinu 2010“. Engu að síður hafi stefnandi ekki lagt fram nein gögn um þessa formlegu stjórnsýsluskoðun. Stefndi hafi fengið viðvörun á fundi hinn 8. október 2010 en skjöl þar um séu lítt upplýsandi um annað en að amazt sé við skoðunum stefnda um að samkynhneigð sé synd og lögð áherzla á að þær skoðanir hans megi ekki fréttast. Stefndi segist skora á stefnanda að leggja fram gögn um að þessi formlega stjórnsýsluskoðun hafi farið fram.

Stefndi segir að næsti liður í því einelti sem hann hafi verið beittur sé áminningarferli þar sem snúið hafi verið út úr öllu því sem stefndi hafi sagt og það afbakað á mjög særandi og meiðandi hátt í garð stefnda þar sem hann hafi verið sakaður um glæp, hatursáróður, en enginn fótur sé fyrir þeim ásökunum. Hafi stefnanda ekki tekizt að grafast fyrir um hvað stefndi hafi sagt með bloggi sínu heldur lagt það út á þann veg að sérstakur dauði myndi bíða samkynhneigðra. Sé mjög alvarlegt að eigna öðrum mönnum slík ummæli að ósekju. Að afbaka allt sem menn segi og snúa út úr því á versta veg sé enn annað skólabókardæmi um einelti.

Stefndi segir að enn hafi aukizt einelti í sinn garð þegar hann hafi verið settur í tímabundið leyfi á launum. Slíkt sé niðurlæging en ekki frí á silfurfati. Stefndi sem hafi við góðan orðstír stýrt skólanum í eitt ár í leyfi skólastjóra hafi fyrst mátt þola að vera tekinn úr kennslu, því næst settur á bókasafn, síðan hafi hann ekki fengið að hitta ákveðna árganga og loks ekki fengið að mæta í skólann.

Stefndi segir að enn hafi eineltið aukizt því úr „bloggi“, sem hann birti hinn 20. apríl 2012, hafi stefnandi búið til einhvers konar brot, án þess að efni textans gæfi minnsta tilefni til þess. Hafi verið brugðið á það ráð að boða stefnda niður í ráðhús á fund með fræðslustjóra og bæjarlögmanni. Þar hafi stefndi verið látinn vita að stefnandi vildi losna við hann með starfslokasamningi en stefndi hafi hafnað slíkum samningi. Stefndi segist hafa bloggað að nýju og aftur hafi menn, án nokkurs tilefnis, búið til afbrot úr því og hafi það verið tekið með sem ástæða uppsagnar. Þarna hafi stefndi verið rekinn frá þeim skóla sem hann hafi starfað við. Stefndi hafi getað sagt sér það sjálfur að hann fengi ekki vinnu í öðrum grunnskólum stefnanda, og við þessar aðstæður ekki getað búizt við að fá vinnu neins staðar annars staðar, að minnsta kosti ekki í nágrenni Akureyrar. Kveðst stefndi ekki hafa getað starfað við kennslu eftir þetta.

Stefndi segir að framinn hafi verið á sér grafalvarlegur verknaður sem sé brot á ýmsum réttarreglum.

Stefndi segir að brotið sé gegn ákvæðum vinnuverndarlaga nr. 46/1980. Segist hann sérstaklega vekja athygli á e-lið 38. gr. og reglugerð nr. 100/2004 en vísa einnig til a liðar 1. gr. en skaðlegt geti verið andlegri og líkamlegri heilsu manna að búa við einelti á vinnustað. Þá segist hann vísa til 13. gr. um góðan aðbúnað og hollustu á vinnustað en einelti sé í mikilli andstöðu við þau markmið. Stefndi segir að brotið sé gegn reglum grunnskólalaga nr. 91/2008. Kveðst hann einkum vísa til 30. gr. og byggja á því að samkvæmt framangreindu hafi hann orðið fyrir andlegu og félagslegu ofbeldi í skólastarfi með sífelldum athugasemdum um hvernig hann iðki prestsstarf sitt og tjáningarfrelsi, með tilhæfulausum ásökunum um að ummæli hans séu hatursfull og mannskemmandi, með því að taka hann úr kennslu og gera hann að upplesara á bókasafni í skóla þar sem hann hafið áður verið skólastjóri um tíma. Framangreint lagaákvæði nái jafnt til nemenda sem annarra starfsmanna skólans. Þá fari hegðun stefnanda í andstöðu við 2. gr. laganna. Í stað þess að efla börn til þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi þá sé haft fyrir þeim einelti og útskúfun þegar menn iðki tjáningarfrelsið og láti sannfæringu sína í ljós. Starfshættir grunnskóla skuli mótast af umburðarlyndi og kærleika en þarna hafi þveröfugt verið gert. Reyndar megi segja að 1. mgr. greinarinnar hafi verið virt að vettugi. Mikilvægt sé að efla víðsýni hjá nemendum en þarna hafi verið iðkuð þröngsýni og aðeins tiltekin sannfæring talin mega koma nemendum fyrir sjónir í stað þess að kenna nemendum opna umræðu um öll mál. Í stað þess að efla færni nemenda í íslenzku máli hafi kennari verið rekinn úr starfi vegna áhuga síns á því. Í stað þess að stuðla að færni nemenda í sögu þjóðfélagsins og sérkennum þá hafi stefndi verið rekinn úr starfi fyrir það sem skólastjórnendur hafi talið sérkenni hans. Slíkt sé ekki til þess fallið að efla sjálfstæða hugsun nemenda eða þjálfa hæfni þeirra til samstarfs við aðra. Megi segja að gerðir stefnanda séu í andstöðu við það sem stefnt sé að með grunnskólalögum.

Stefndi segist byggja á því að stefnandi hafi tekið við rógburði um sig og síðan rægt hann sjálfur til þess að réttlæta gerðir sínar gagnvart honum. Allt sé þetta vegna trúarbragða hans. Vísar stefndi vegna þessa meðal annars til 233. gr. a almennra hegningarlaga.

Stefndi segist vísa til leiðbeininga um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og einelti á vinnustöðum Akureyrarbæjar í samræmi við jafnréttisstefnu stefnanda sem samþykkt hafi verið í júlí 2008. Einnig til kafla um áreitni og einelti í starfsmannahandbók stefnanda. Þar komi fram yfirlýsing stefnanda um að hann beri ábyrgð á að koma í veg fyrir að starfsfólk verði fyrir einelti. Kveðst stefndi byggja á því að þetta loforð hafi stefnandi brotið gegn sér. Kveðst hann skora á stefnanda að viðurkenna í málinu að hann sé bundinn við þessa yfirlýsingu.

Stefndi segir ljóst að stefnandi hafi misbeitt valdi sínu til að losna við stefnda úr starfi vegna þess að stefnanda hafi þótt óþægilegt að hafa hann í starfi, en ekki vegna þess að lög hafi staðið til slíkra gerða. Grundvöllurinn fyrir aðgerðum stefnanda sé allt of veikur til þess. Séu gerðir stefnanda ólögmætar og sjónarmiðin ólögmæt og óréttmæt.

Stefndi segist byggja á því að brotið hafi verið gegn rétti sínum til að hafa sannfæringu, tjá hana og standa á henni og sé það í andstöðu 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Stefndi segir að stefnandi hafi brotið gegn ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar. Í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu og Hæstaréttar Íslands hafi tjáningarfrelsið verið talið mest þegar menn tjá sig um brýn þjóðfélagsmál. Breyting á stöðu samkynhneigðra við endurskilgreiningu hjónabandsins, breyting á réttindum þeirra til að ættleiða börn og ekki sé gerður munur á sambandi karls og konu og sambandi fólks af sama kyni, feli í sér gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar. Hvorki 73. gr. stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmáli Evrópu heimili að þaggað sé niður í röddum sem andæfi breytingunum. Frelsi stefnda til að láta í ljósi skoðanir sínar og hafa eigin sannfæringu sem hann tjái, verði ekki tekið af honum með rangtúlkunum stefnanda á lögum, kjarasamningum og eigin mannauðsstefnu. Stefnandi hafi í stefnu sinni sett fram þá nýstárlegu kenningu að stefndi sé frjáls skoðana sinna og sannfæringar en missi þá aðeins vinnuna. Hann fái síðan ekki vinnu við sitt fag í bæjarfélaginu þar sem hann eigi heima. Þessar skoðanir stefnanda á tjáningarfrelsi, sem fram komi í stefnu, séu nokkuð óvenjulegar svo ekki sé fastara að orði kveðið.

Stefndi segir að hafa verði í huga að réttur manna til að stofna trúfélög njóti ríkari réttar en um félög almennt. Sé það vegna meira en tvö þúsund ára gamallar áráttu í vestrænni menningu til að amast við trúarsannfæringu annarra. Allir hafi gert sig seka um slíkt, veraldleg yfirvöld, einstaklingar, félög, stofnanir og kirkjur. Mál þetta sé dæmi um slíkt. Réttur samkvæmt 63. gr. stjórnarskrárinnar verði ekki einu sinni takmarkaður með lögum heldur aðeins af góðu siðferði og allsherjarreglu. Stefndi segist byggja á því að gerðir stefnanda séu brot gegn 63. gr. stjórnarskrárinnar sem heimili mönnum að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu sína. Að reka stefnda úr starfi fyrir kenningar sínar sem forstöðumaður skráðs trúfélags, þegar hann verjist ásökunum um að taka þátt í hatursmorðum, sé meðal annars brot gegn þessu ákvæði. Sama sé um það að fá ekki að ritskýra Biblíuna opinberlega í samræmi við trú safnaðarins. Á því sé byggt að með því að svipta stefnda starfi sínu hafi verið brotið gegn 64. gr. stjórnarskrárinnar þar sem hann hafi einnig misst af réttindum til að starfa sem kennari vegna trúarbragða sinna. Þá hafi hann misst umtalsverð lífeyrisréttindi. Stefndi segist byggja á því að 65. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin með því að hann hafi ekki fengið að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að vinna fyrir sér í samræmi við menntun sína, vegna trúarbragða sinna og skoðana. Þá byggi stefndi á því að 75. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið brotin, en í reynd hafi verið lagður steinn í götu stefnda að stunda þá atvinnu er hann kjósi. Hafa verði í huga að stefnandi einn starfræki grunnskóla á Akureyri og gerðir stefnanda og uppsögn stefnda fæli aðra í nágrenni frá því að taka hann í vinnu og þótt víðar yrði leitað.

Stefndi segist trúa því að Biblíuna beri að nálgast af auðmýkt. Hann líti svo á að hún sé handbók okkar í lífinu af Guði gefin. Með það í huga skoði hann hvað hún segi og prediki að mönnunum beri að fylgja boðskap hennar. Stefndi skilji boðskap Biblíunnar á þann hátt sem hann setji fram í ræðu og riti. Í ritum sínum vísi hann í reynd til orða Biblíunnar en ekki sinna eigin. Hann nálgist Biblíuna með öðrum orðum eins og lögfræðingar lögin, með ritskýringum og túlkunum þar sem reynt sé að finna efni textans og fylgja honum síðan. Fyrir þessa sannfæringu hafi stefndi misst vinnu sína.

Stefndi segir að verði ekki fallizt á framangreint sé byggt á að áminningin og uppsögnin séu í andstöðu við kjarasamning. Í lið 14.9 segi „óheimilt er að segja starfsmanni upp án málefnalegra ástæðna“. Í lið 14.8 sé heimilað að áminna starfsmann fyrir brot í starfi. Óumdeilt sé í málinu að stefndi hafi ekki brotið af sér í starfi og allar sakir sem á hann séu bornar hafi átt sér stað utan starfs. Á því sé og byggt að ekkert af því sem nefnt sé í lið 14.8 eigi við um orð og gerir stefnda. Að öðru leyti kveðst stefndi vísa til úrskurðar innanríkisráðuneytisins. Áminningin hafi því ekki getað orðið forsenda uppsagnarinnar. Íþyngjandi heimildir til áminningar og uppsagnar beri að skýra þröngt og allan vafa starfsmanni í hag.

Stefndi segir að stefnandi beri á hann þær sakir að í orðum hans hafi falizt eitthvað sem alls ekki hafi í þeim falizt. Hann hafi því verið áminntur, ekki á grundvelli þess sem hann hafi sagt heldur á grundvelli fordóma og fullrar afbökunar stefnanda á orðum hans. Stefndi hafi því aldrei fengið áminningu fyrir það sem í orðum hans hafi falizt, heldur eitthvað allt annað, sem ekki hafi verið látið uppi á sínum tíma. Forsenda áminningarinnar sé því röng og hafi hún því ekki þau réttaráhrif að geta orðið forsenda uppsagnar síðar. Staðhæfingar stefnanda um stefnda séu hins vegar óréttmætar og meiðandi. Af þessu leiði að aldrei hafi verið forsenda fyrir því að segja stefnda upp störfum. Af framangreindu leiði einnig, að það sem stefndi eigi að hafa verið áminntur fyrir og ástæður uppsagnarinnar falli ekki saman á þann hátt að stefndi teljist hafa gert nokkuð sem hann hafi áður verið áminntur fyrir. Sama gildi þótt miðað sé við orð stefnda óafbökuð.

Stefndi segist vekja athygli á því að þegar að hann hafi verið ráðinn til starfsins hafi skoðanir hans verið þekktar sem og það að hann lægi ekki á þeim. Engin breyting hafi orðið þar á og því með öllu ólögmætt að fara síðar að áminna hann og reka úr vinnu af þeim sökum.

Stefndi segir að meirihluti evangelískra kirkna sé sama sinnis og hann. Breyti engu þótt þjóðkirkjan gefi saman samkynhneigt fólk. Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1993 og samkvæmt gagnályktun frá 1. mgr. sé gert ráð fyrir að prestar geti vikizt undan að gefa fólk saman vegna trúarsannfæringar sinnar. Í athugasemdum komi sérstaklega fram að það geti einmitt átt við þegar að gefa eigi saman samkynhneigt fólk. Löggjafinn hafi þegar tekið ákvörðun um að slíka trúarsannfæringu beri að virða og því geti stefnandi ekki rekið prest úr vinnu fyrir að tjá slíka sannfæringu þegar að honum sé vegið með því að bendla hann og skoðanabræður hans við hatursmorð í Afríku.

Stefndi segir að aðalatriði þessa máls sé ekki hvort stefndi hafi réttan eða rangan skilning á helztu trúarritum kristinna manna og evangelískrar-lútherskrar kirkju, heldur hvort hann megi tjá sannfæringu sína.

Stefndi segist mótmæla því að stefnandi geti byggt á öðrum réttarheimildum en settum lögum. Tilvísanir í allskyns stefnumótunarskjöl hafi enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunum á borð við áminningu og uppsögn verði ekki beitt með vísan til slíks og alls ekki á grundvelli fjörugrar túlkunar stefnanda á slíkum heimildum.

Stefndi segir að verði ekki fallizt á að ákvörðunin sé haldin efnislegum annmörkum sé einnig á því byggt að á henni séu formgallar.

Stefndi segist byggja á því að stefnandi hafi farið fram með látum og hvorki hafi þurft að grípa til tilfærslna í starfi, áminningar né uppsagnar til að ná fram markmiðum um gott skólastarf. Mótmælt sé sem röngu og út í hött að ummæli stefnda geti haft slæm áhrif á ungdóminn. Hafi eitthvað í ummælum stefnda getað misskilizt á versta veg hafi stefnanda verið hægur vandi að óska eftir því við stefnda að hann setti réttan skilning sinn fram með skýrum hætti þannig að engar ranghugmyndir yrðu uppi um það sem sagt var. Hefði stefndi án vafa tekið því vel. Kveðst stefndi hér vísa til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þá segist stefndi byggja á því að stefnandi hafi ekki grennzlast fyrir um efni ummæla stefnda og þar með hrapað að ákvörðunum sem byggðar hafi verið á hugaræsingi og fordómafullum skilningi á því sem frá stefnda hafi komið, og fjörugu ímyndunarafli um það hvað í orðum stefnda hafi falizt. Með þessu hafi rannsóknarregla stjórnsýslulaga verið brotin, sbr. 10. gr. laga nr. 37/1993.

Stefndi segist byggja á því að stefnandi hafi ekki gert stefnda ljóst hvernig hann skildi ummæli hans, því hafi hann ekki fengið færi á raunverulegum andmælum. Stefnandi hafi ekki greinilega skýrt skilning sinn á ummælum stefnda, sem leitt hafi til áminningar, fyrr en með greinargerð sinni til innanríkisráðuneytisins. Hann hafi í raun ekki ennþá gert rækilega grein fyrir skilningi sínum og öðrum ummælum stefnda og sé það bagalegt. Kveðst stefndi hér vísa til 13. gr. laga nr. 37/1993.

Að öllum framangreindum málsástæðum frátöldum kveðst stefndi byggja á því að skólastjóra hafi ekki verið heimilt að framselja vald sitt til uppsagnarinnar til fræðslustjóra. Að því frágengu sé byggt á því að í fundarboði hinn 29. júní 2012 hafi skólastjóri staðhæft að stefndi hafi viðhaft „meiðandi ummæli um samkynhneigða og transfólk.“ Þetta hafi skólastjóri fullyrt áður en stefndi hafi neytt andmælaréttar og hafi skólastjórinn þannig verið búinn að taka afstöðu í málinu áður en formlegri meðferð þess hafi verið lokið. Með þessu hafi hann gert sig vanhæfan og ekki mátt fjalla um málið frekar og hefði þurft að setja nýjan skólastjóra ad hoc til að fjalla um þetta. Sé hér vísað til 3. og 4. gr. laga nr. 37/1993.

Stefndi kveðst að lokum byggja á því að ekki hafi verið getið um kærurétt í áminningarskjalinu eins og borið hafi að gera. Það ásamt öðru leiði til þess að áminningin hafi verið ólögmæt og þar með uppsögnin. Í stjórnsýslurétti leiði formgalli sem þessi einn og sér almennt ekki til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Hér hátti hins vegar öðru vísi til. Áminning sé af dómstólum talin svo alvarleg að varði miskabótum ef hún hafi ekki átt rétt á sér. Áminning getur leitt til uppsagnar manna úr starfi. Í þessu tilviki hafi stefnandi einn starfrækt grunnskóla í bæjarfélagi stefnda. Hefði stefnda verið bent á kærurétt hefði hann nýtt hann. Þá hefði hann verið í annarri réttarstöðu ef til uppsagnar hefði komið. Hér sé slíkur formgalli, þegar komi að áminningu opinberra starfsmanna, að ekki verði fram hjá honum litið og eigi hann einn og sér að leiða til þess að áminning teljist ógild. Kveðst stefndi vísa hér til 3. mgr. 20. gr. laga nr. 37/1993. Stefndi bætir við að hefði hann verið búinn að kæra áminninguna til æðra stjórnvalds hefði komið til álita að fresta réttaráhrifum hennar, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 37/1993.

Stefndi segir að stefnandi hafi misskilið sig með dæmalausri túlkun á orðum hans og hafi hann því ekki getað ráðið af áminningarskjali fyrir hvað hann hafi raunverulega verið áminntur. Skorti skjalið því allan nauðsynlegan skýrleika að þessu leyti.

Stefndi segist mótmæla málatilbúnaði stefnanda svo og því að hann hafi gerzt brotlegur við nokkrar af þeim réttarheimildir sem stefnandi segist byggja mál sitt á. Því sé sérstaklega mótmælt að heimilt hafi verið að víkja stefnanda úr starfi á grundvelli túlkunar stefnanda á ummælum hans. Stefnandi leggi út á versta veg hvað stefndi eigi að hafa sagt og nýti síðan þá útleggingu sína gegn stefnda. Stefndi segist mótmæla því að hann hafi mismunað börnum eftir kynhneigð. Engin gögn gegn 1. mgr. 12. gr. laga nr. 91/2008 hafi átt sér stað. Stefndi segist mótmæla því að hann hafi nokkuð það aðhafzt sem dragi úr vammleysi sitt í starfi. Kröfur stefnanda séu ekki kröfur um vammleysi heldur tilraun til skoðanakúgunar. Undan henni vilji stefndi ekki láta.

Stefndi segist vísa til stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, einkum 62. -65. gr., 73. -75. gr. og 79. gr. Þá kveðst stefndi vísa til almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 233. gr. a; höfundalaga nr. 73/1972, einkum 43. gr.; laga nr. 46/1980 um aðbúnað og hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 38. gr.; stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 3. -4. gr., 10.-13. gr., 3. mgr. 20. gr. og 3. mgr. 29. gr.; laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, einkum 10. gr.; grunnskólalaga nr. 91/2008, einkum 2. gr., 1. mgr. 12. gr. og 30. gr.; hjúskaparlaga nr. 31/1993 einkum 2. mgr. 22. gr.; reglugerðar nr. 1000/2004 og dóma Hæstaréttar Íslands í málum nr. 72/2000 og 371/2003.

Eins og áður segir krefst réttargæzlustefnda innanríkisráðuneytið þess að sér verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu. Vísar það til málavaxtalýsingar í úrskurði sínum. Þá segir það að í stefnu lýsi stefnandi málavöxtum þannig að veturinn 2009 til 2010, þegar stefndi hafi verið umsjónarkennari áttunda og níunda bekkjar, hafi farið að bera á því að foreldrar barna væru mjög ósáttir við að stefndi talaði við nemendur um skaðsemi samkynhneigðar. Síðan segi stefnandi að veturinn eftir hafi verið hafið yfir vafa að stefndi gætti ekki hlutleysis gagnvart nemendum vegna yfirlýsinga sinna um skaðsemi samkynhneigðar og gæti því ekki lengur verið umsjónarkennari. Kveðst réttargæzlustefnda vekja athygli á því, að málavöxtum hafi ekki verið lýst með þessum hætti þegar málið hafi verið rekið á stjórnsýslustigi. Að öðru leyti vísi það til þeirra sjónarmiða og raka sem fram hafi komið í úrskurði þess.

Réttargæzlustefnda segir að málsástæður stefnanda séu ekki byggðar á því að annmarkar hafi verið á málsmeðferð ráðuneytisins. Ekkert tilefni hafi verið til að stefna ráðuneytinu í málinu. Verði því að dæma stefnanda til að greiða málskostnað.

Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri stefnanda og stefndi gáfu skýrslu í málinu. Þá báru vitni Gunnar Gíslason fv. fræðslustjóri, Jóhanna María Agnarsdóttir skólastjóri og Björn Sverrisson fv. trúnaðarmaður kennara.

Niðurstaða

Í máli þessu er tekizt á um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarfélags að segja starfsmanni sínum, grunnskólakennara, upp starfi. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 fer um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaga eftir kjarasamningum og ráðningarsamningi. Þau réttindi, sem sveitarfélag veitir starfsmönnum sínum með kjarasamningi og ráðningarsamningi, getur það ekki einhliða af þeim tekið, svo sem með eigin samþykktum eða stefnuskrám.

Sú háttsemi stefnda, sem að mati stefnanda kallaði á áminningu og síðar brottrekstur hans úr starfi, var öll viðhöfð utan starfs hans.

Á þeim tíma sem stefnandi tók ákvörðun um áminningu og síðar brottrekstur stefnda úr starfi var í gildi kjarasamningur milli Sambands íslenzkra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Félags grunnskólakennara. Er ljóst að sá samningur gilti um starf stefnda hjá Brekkuskóla.

Í kjarasamningnum segir í grein 14.9 að svo unnt sé að segja starfsmanni upp vegna ávirðinga verði uppsögnin að grundvallast á áminningu samkvæmt grein 14.8 í samningnum. Efni greinar 14.8 að þessu leyti hefur verið rakið og tekur það til tiltekinnar háttsemi starfsmanns í starfi sínu, en ekki utan starfsins. Þegar greinar 14.8 og 14.9 eru skoðaðar í samhengi virðist ljóst að samið hafi verið um að starfsmanni verði ekki sagt upp starfi vegna ávirðingar, nema uppsögnin sé grundvölluð á áminningu sem starfsmanninum hafi verið veitt vegna gjörða sinna í starfi.

Þrátt fyrir þetta verður ekki talið að sveitarfélaginu sé fortakslaust ómögulegt að áminna starfsmann vegna háttsemi hann hann hefur viðhaft utan starfs síns. Sé háttsemin slík, að ljóst sé að hún muni óhjákvæmilega hafa í starfi hans þau áhrif sem lýst er í grein 14.8, verður að játa sveitarfélaginu svigrúm til að veita honum áminningu allt að einu. Við mat á þessu hverju sinni verður að hafa í huga að meginreglan er skýr, að áminning, sem getur orðið undanfari brottrekstrar, verður að jafnaði eingöngu veitt vegna háttsemi innan starfs. Er hér um að ræða samningsbundin réttindi, sem sveitarfélag hefur veitt tiltekinni stétt launafólks. Heimildir til áminningar, sem ætlazt er til að geti orðið undanfari brottvikningar, vegna háttsemi sem ekki hefur verið höfð í frammi í starfi, verður samkvæmt framansögðu að túlka þröngt. Ber sveitarfélagið þar fulla sönnunarbyrði af því að háttsemi starfsmanns, utan starfs, hafi í raun þau áhrif í starfinu að fyllilega verði jafnað til þess sem tiltekið er í ákvæði 14.8 í kjarasamningnum. Er sveitarfélagið þar bundið af meginreglum stjórnsýsluréttar, svo sem rannsóknarreglu, meðalhófsreglu og andmælarétti. Að því er varðar andmælarétt verður hér að hafa í huga að stjórnsýslumálið hefst að frumkvæði sveitarfélagsins og leggur það ríkari skyldur en ella á herðar þess að kynna starfsmanninum þau gögn, sem teljast honum í óhag og líkur eru á að hafa muni verulega þýðingu við úrlausn málsins. Hafa verður í huga, við mat á undirbúningi ákvörðunar af þessu tagi, að hún er að jafnaði afar þungbær fyrir þann starfsmann sem á í hlut og getur, auk álitshnekkis, haft í för með sér að hann missi atvinnu sína. Í því máli sem hér um ræðir háttar auk þess svo til að málefni stefnda urðu til opinberrar umræðu áður en stefnandi tók ákvarðanir sínar og stefnandi sendi á einu stigi málsins út opinbera fréttatilkynningu um aðgerðir sínar í málinu, þótt nafn stefnda hafi að vísu ekki verið nefnt í tilkynningunni.

Hafi sú háttsemi, sem stjórnvald vill byggja áminningu sína á, eingöngu falizt í því að starfsmaður lýsti skoðun eða hugsun sinni um tiltekið málefni, kemur auk þess til skoðunar hvort og hvaða heimildir yfirmenn opinberra stofnana hafa, í skjóli stjórnunarheimilda sinna, til að takmarka tjáningarfrelsi starfsmanna sinna, þegar meðal annars er horft til 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefndi var boðaður til fundar með tilteknum embættismönnum stefnanda í október 2010. Af fundargerð er ljóst að fundurinn hefur verið haldinn þar sem stefndi hefði opinberlega viðhaft ummæli um samkynhneigð, sem stefnandi hefur talið meiðandi. Í fundargerðinni er bæði haft eftir stefnda að hann ræði slík mál aldrei í skólastofunni og að hann hafi ekki í hyggju að hætta að ræða þessi mál á opinberum vettvangi. Frá því þessi fundur var haldinn og þar til stefnandi veitti stefnda áminningu og síðar sagði honum upp starfi vegna ummæla á opinberum vettvangi, leið um hálft annað ár, þar sem stefndi var við störf við Brekkuskóla.

 Við undirbúning ákvörðunar um áminningu og síðar brottrekstur stefnanda var ekki svo séð verði byggt á neinum gögnum, sem stefnda gafst kostur á að tjá sig um og andmæla, um áhrif sem opinber ummæli stefnda hefðu í raun haft í starfi hans. Við mat á réttmæti umræddra ákvarðana stefnanda verður að horfa til þeirra gagna sem stefnandi byggði stjórnsýsluákvarðanir sínar á, og stefnda máttu vera ljós. Gögn, sem síðar kann að hafa verið aflað, veita þegar teknum ákvörðunum ekki lögmæti.

Í fundargerð þess fundar sem haldinn var hinn 3. febrúar 2012, þegar til skoðunar var hvort stefndi yrði áminntur, kemur ekki fram að talið sé að háttsemi stefnda hafi tiltekin áhrif á starf hans, en vísað til þess að í mannauðsstefnu stefnanda segi að framkoma utan vinnustaðar verði að samrýmast starfinu sem þeir gegni. Í greinargerð sem lögð var fram á fundinum og tekið fram að væri hluti fundargerðar segir að hún sé sett saman vegna meints brots stefnda utan starfs en ekki sérstaklega tekið fram að byggt sé á því að brotið hefði áhrif á framkvæmd starfs hans.

Eins og áður segir liggur fyrir að stefndi viðhafði háttsemi sína utan starfs en ekki innan þess. Við töku ákvarðana um áminningu og síðar brottvikningu var ekki byggt á neinum gögnum sem leiddu í ljós að háttsemi hans hefði haft eða myndi óhjákvæmilega hafa áhrif á starf hans. Var stefndi raunar í leyfi frá starfi þegar hann birti ummæli sín að fenginni áminningu.

Stefndi hafði kennt við Brekkuskóla í um áratug þegar honum var veitt áminning og honum síðar sagt upp starfi. Við undirbúning og töku þeirra ákvarðana sinna byggði stefnandi ekki á neinum gögnum um að stefndi hefði á þeim tíma verið hlutdrægur í garð nemenda sinna eftir kynhneigð þeirra, kynhneigð aðstandenda þeirra eða af öðrum ástæðum. Fyrir dómi sagði vitnið Björn Sverrisson, fyrrverandi trúnaðarmaður kennara við Brekkuskóla, að hann hefði aldrei heyrt um að stefndi ræddi samkynhneigð í kennslustundum. Tók vitnið fram að það hefði einnig starfað sem umsjónarkennari og sem slíkur tekið þátt í foreldraviðtölum, og þar hefði aldrei verið nefnt við sig „að þar hefði neitt misjafnt átt sér stað“. Stefndi hefði verið mjög vel liðinn sem kennari og sér hefði fundizt börnin „jafnvel dýrka hann, svona innan vissra marka.“ Þá sagði vitnið að árið 2002 hefði stefndi verið fenginn til að gegna starfi aðstoðarskólastjóra í forföllum en sér sem trúnaðarmanni hefði fundizt að fremur bæri að velja kennara með lengri starfsaldur, en fengið þau svör að stefndi hefði verið valinn „fyrst og fremst fyrir áeggjan foreldra, því þau vildu endilega fá hann í þessa stöðu“. Á hinn bóginn sögðu vitnin Gunnar Gíslason og Jóhanna María Agnarsdóttir að á því hefði borið á síðustu árum fyrir áminningu og brottvikningu að foreldrar kvörtuðu við skólann vegna „bloggfærslna“ stefnda, þeir óttuðust að sömu viðhorfa hans gætti í kennslu og óskuðu þess að stefndi myndi ekki kenna þeirra börnum. Við slíku hefði verið reynt að verða. Ekki verður hins vegar séð að áminning stefnda eða uppsögn hafi verið byggð á gögnum um þetta eða að stefnda hafi verið kynnt að slík gögn kynnu að verða veigamikil við úrlausn málsins. Í greinargerð sinni til innanríkisráðuneytisins, við meðferð kærumálsins, getur stefnandi ekki um þessar kvartanir og óskir foreldra. Að öllu samanlögðu verður ekki talið að við meðferð málsins hafi verið sýnt fram á að af umræddum „bloggfærslum“ stefnda verði ráðið að svo mikil hætta hafi verið á hlutdrægni og mismunun af hendi stefnda í garð nemenda, að réttlætt hafi brottrekstur hans úr starfi.

Eins og áður hefur verið rakið byggði stefnandi ákvarðanir sínar um áminningu og brottrekstur ekki á gögnum um að háttsemi stefnda hefði haft áhrif á starf hans eða myndi óhjákvæmilega gera það. Í greinargerð sinni til innanríkisráðuneytisins vísar stefnandi ekki heldur til slíks. Þau orð sem stefndi ritaði á „bloggsíðu“ sína, eftir að honum hafði verið veitt áminning, og stefnandi vísaði til er hann sagði stefnda upp störfum, lúta fyrst og fremst annars vegar að þeirri skoðun stefnda, að „heilagt“ hjónaband geti aðeins verið milli karls og konu, samkvæmt því sem hann telji Guð hafa skipað, en hins vegar að hann telji rangt að nota orðið „leiðréttingu“, um kynleiðréttandi aðgerð, sbr. 2. tl. 3. gr. laga nr. 57/2012 um réttarstöðu fólks með kynáttunarvanda, sem tóku gildi 25. júní 2012. Hér sé að mati stefnda í raun ekki um leiðréttingu að ræða heldur breytingu eða afbökun. Þessi orð stefnda, sem hann setti fram utan starfs síns, þykja ekki vera svo viðurhlutamikil að hægt sé að fullyrða að stefnandi hafi, án sérstakra gagna eða könnunar, axlað sönnunarbyrði sína af því að þau hljóti óhjákvæmilega að hafa slík áhrif á störf stefnda sem tiltekin eru í grein 14.8 í kjarasamningi þeim sem þá var í gildi. Áður hefur verið rakið að í ljósi kjarasamnings eru þröngar heimildir til að áminna grunnskólakennara vegna háttsemi utan starfs og ber sveitarfélag sönnunarbyrðina af því að háttsemin hafi óhjákvæmilega sömu áhrif í starfinu og tiltekin eru í grein 14.8.

Þegar á allt framanritað er horft verður ekki talið að stefnandi hafi lagt viðhlítandi grunn að þeirri ákvörðun sinni að segja stefnda upp starfi. Eru því ekki efni til þess í málinu að fella úrskurð innanríkisráðuneytisins úr gildi. Verður því að taka sýknukröfu stefnda til greina. Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 2.480.000 króna málflutningsþóknun lögmanns hans, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns, og er virðisaukaskattur innifalinn. Hvorki verður séð að stefnanda hafi verið nauðsyn að stefna innanríkisráðuneytinu til réttargæzlu né því að láta málið til sín taka. Verður málskostnaður milli þeirra felldur niður. Stefnanda verður gert að greiða tvær milljónir króna í ríkissjóð í málskostnað. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Snorri Óskarsson, er sýkn af kröfu stefnanda, Akureyrarkaupstaðar, í máli þessu.

Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin 2.480.000 króna málflutningsþóknun lögmanns hans, Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns.

Málskostnaður milli stefnanda og réttargæzlustefnda innanríkisráðuneytisins fellur niður.

Stefnandi greiði í ríkissjóð tvær milljónir króna í málskostnað.