Print

Mál nr. 475/2014

Lykilorð
  • Skip
  • Eignarréttur
  • Forkaupsréttur
  • Sveitarfélög
  • Lögskýring
  • Stjórnarskrá

                               

Fimmtudaginn 4. júní 2015.

Nr. 475/2014.

Síldarvinnslan hf. og

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.

Borgar Þór Einarsson hdl.)

Q44 ehf.

(Þórarinn V. Þórarinsson hrl.

Sigurður Kári Kristjánsson hdl.)

gegn

Vestmannaeyjabæ

(Stefán A. Svensson hrl.

Finnur Magnússon hdl.)

Fiskiskip. Eignarréttur. Forkaupsréttur. Sveitarfélög. Lögskýring. Stjórnarskrá

Með samningi 28. ágúst 2012 festi S hf. kaup á öllum hlutum í BH ehf. af Q ehf., en BH ehf. gerði út fiskiskip í Vestmannaeyjum. Sveitarfélagið V taldi sig njóta forkaupsréttar vegna kaupanna á grundvelli 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða og gerði S hf. og Q ehf. viðvart um það, en félögin höfnuðu beiðni V um að lagt yrði fram tilboð um forkaupsrétt með þeirri röksemd að lagaákvæðið tæki ekki til kaupanna. V höfðaði í kjölfarið mál á hendur S hf. og Q ehf. með stoð í 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 og krafðist þess að kaupsamningurinn yrði ógiltur. Með hinum áfrýjaða dómi var sú krafa tekin til greina. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að textaskýring á orðinu fiskiskip í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 gæti engum vafa valdið og að kaupsamningurinn hefði ekki verið gerður um fiskiskip heldur hlutabréf í BH ehf. Þar sem forkaupsréttur samkvæmt lagaákvæðinu horfði til takmörkunar á stjórnarskrárvörðum eignarrétti girti það þegar fyrir að því yrði gefin rýmri merking með skýringu, svo og til verulegra takmarkana á því að efnisregla ákvæðisins yrði með lögjöfnun færð yfir á önnur atvik en þau sem beinlínis ættu undir það. Þá leit rétturinn til þess að ekki væri í lögum nr. 116/2006 mælt fyrir um forkaupsrétt sveitarfélaga að aflahlutdeild skips, þrátt fyrir að þar væri í 12. gr. að finna reglur um frelsi til að framselja slík verðmæti, sem stæði lögjöfnun í vegi að því er aflahlutdeild varðaði. Loks var skírskotað til þess að bókfært verðmæti skipa BH ehf. væri aðeins rúmur fimmtungur heildareigna félagsins, samkvæmt síðasta ársreikningi sem gerður var fyrir kaupin, en andvirði varanlegra fiskveiðiheimilda næmi meira en 2/3 af verðmæti heildareigna þess. Taldi Hæstiréttur að ekki hefðu verið leiddar nokkrar líkur að því að kaupsamningur S hf. og Q ehf. hefði í reynd miðað að því sem meginatriði að koma fram yfirfærslu eignarréttar að fiskiskipum BH ehf., en klæða þau viðskipti í annan búning. Brast því lagastoð til að verða við kröfu V og voru S hf. og Q ehf. sýknaðir af henni.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson settur hæstaréttardómari og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. og 15. júlí 2014. Þeir krefjast hvor fyrir sitt leyti sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi áfrýjenda.

I

Eftir gögnum málsins hafði Bergur-Huginn ehf. um langt árabil gert út fiskiskip og haft heimili í Vestmannaeyjum. Samkvæmt ársreikningi félagsins 2008 varð tap þess á því ári 4.625.702.181 króna. Þetta tap varð til þess að eigið fé félagsins í lok ársins var orðið neikvætt um 4.255.249.418 krónur, en eftir reikningnum mátti að mestu rekja það til gengismunar af langtímalánum og framvirkum samningum. Á þessum tíma munu hluthafar í félaginu hafa verið þrír, Magnús Kristinsson með 81,24% hlut, BK 44 ehf. með 14,11% og Smáey ehf. með 4,65%. Fyrstnefndi hluthafinn mun hafa gert samning 8. apríl 2009 við Landsbanka Íslands hf. um uppgjör skulda sinna og afsalað á þeim grunni til bankans 1. júlí sama ár 40,35% hlut í Bergi-Hugin ehf., en veðsett um leið til bankans þann hlut í félaginu sem hann átti þá eftir. Sama dag fékk bankinn afsal fyrir áðurnefndum hlut Smáeyjar ehf. í félaginu.

Á árunum 2009, 2010 og 2011 varð hagnaður af rekstri Bergs-Hugins ehf., þannig að í lok síðastnefnda ársins hafði staða eigin fjár batnað á þann veg að það var neikvætt um 2.833.020.895 krónur. Andvirði eigna félagsins á því tímamarki var samkvæmt ársreikningi alls 4.461.524.756 krónur, en þar af var bókfært verð fasteigna 16.762.546 krónur, véla, áhalda og tækja 38.155.410 krónur, þriggja fiskiskipa samtals 967.803.856 krónur, varanlegra fiskveiðiheimilda 3.009.041.962 krónur og eignarhluta í öðrum félögum 1.375.000 krónur auk veltufjármuna að andvirði 428.385.982 krónur. Magnús Kristinsson mun 6. janúar 2012 hafa gefið út afsal til áfrýjandans Q44 ehf. fyrir þeim 40,89% hlut sem hann átti orðið í Bergi-Hugin ehf. samkvæmt framansögðu, en sá áfrýjandi mun þá hafa verið í eigu annars félags, sem hafi tilheyrt börnum Magnúsar. Þá mun þeim 14,11% hlut í Bergi-Hugin ehf., sem hafði verið í eigu BK 44 ehf., einnig hafa verið afsalað til áfrýjandans Q44 ehf. 28. ágúst 2012. Loks afsalaði Landsbanki Íslands hf. sínum 45% hlut sama dag til áfrýjandans sem þar með átti orðið alla hluti í Bergi-Hugin ehf.

Áfrýjendur gerðu síðastgreindan dag samning, þar sem Síldarvinnslan hf. keypti af Q44 ehf. alla hluti í Bergi-Hugin ehf. Í samningi þessum, sem að hluta hefur verið lagður fram í Hæstarétti, sagði meðal annars eftirfarandi: „Andlag kaupanna er allt hlutafé seljenda í einkahlutafélaginu Bergur-Huginn ehf. að nafnverði kr. 25.675.571. Félagið er útgerðarfélag og eru helstu eignir þess tveir togarar, Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444 ásamt fiskveiðiheimildum og öllum fylgibúnaði. Ennfremur fasteignir á Geirseyri og Básaskersbryggju.“ Fram kom í samningnum að kaupverðið næmi 2.901.818.142 krónum, en af þeim hluta hans, sem liggur fyrir í málinu, verður ekkert ráðið um hvernig þetta verð hafi verið fundið eða hverjir hafi verið skilmálar um greiðslu þess.

Áfrýjandinn Síldarvinnslan hf. lét frá sér fara 30. ágúst 2012 fréttatilkynningu um framangreind kaup. Í henni var meðal annars vikið að því að Bergur-Huginn ehf. gerði út tvo tilgreinda togara, starfsmenn félagsins væru 35 talsins, það hefði ekki á hendi landvinnslu á fiski og hefði stærsti hluti afla af skipum þess farið á markaði erlendis. Félagið réði yfir aflaheimildum sem samsvari 5.000 þorskígildistonnum og væru þær eingöngu í bolfiski, en samanlagðar aflaheimildir félagsins og áfrýjandans næmu þannig 10.000 þorskígildistonnum í bolfiski. Þá var vísað til þess að höfuðstöðvar áfrýjandans væru í Neskaupstað, en stefnt væri að því að gera út fiskiskip bæði þaðan og frá Vestmannaeyjum og yrði Bergur-Huginn ehf. áfram rekið sem sjálfstætt félag.

Stefndi tilkynnti áfrýjandanum Síldarvinnslunni hf. 5. september 2012 að hann teldi sig njóta forkaupsréttar vegna framangreindra kaupa á grundvelli 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Af því tilefni skoraði stefndi á áfrýjandann að „leggja fram forkaupsréttartilboð þar sem söluverð og aðrir skilmálar eru tilgreindir á tæmandi hátt“, svo og „öll gögn sem máli kunna að skipta til að Vestmannaeyjabær geti tekið afstöðu til forkaupsréttartilboðsins innan fjögurra vikna“. Þá beindi stefndi sama dag hliðstæðu erindi til Magnúsar Kristinssonar fyrir hönd félaga, sem hann kynni „að hafa verið forsvarsmaður fyrir og kunna að hafa verið skráðir hluthafar í Berg-Hugin ehf. þegar félagið var selt“. Þessu svöruðu áfrýjendur með ódagsettu bréfi, þar sem það eitt var sagt að fyrrgreint lagaákvæði tæki ekki til kaupa þeirra og væri því hafnað beiðni stefnda um að lagt yrði fyrir hann tilboð um forkaupsrétt. Stefndi höfðaði mál þetta 11. febrúar 2013 með stoð í 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 og krafðist þess að ógiltur yrði samningur um kaup áfrýjandans Síldarvinnslunnar hf. á öllum hlutum í Bergi-Hugin ehf. af áfrýjandanum Q44 ehf. Sú krafa var tekin til greina með hinum áfrýjaða dómi.

II

Í fyrrnefndri 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 er mælt svo fyrir að eigi að selja fiskiskip, sem hefur leyfi til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar, sem hefur heimilisfesti í öðru sveitarfélagi en seljandi, eigi sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu, en bjóða skuli þennan forkaupsrétt skriflega og sveitarstjórn svara boðinu innan fjögurra vikna að því viðlögðu að hann falli niður. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar getur forkaupsréttarhafi höfðað mál til ógildingar sölu sé skipi ráðstafað andstætt rétti hans.

Skýring á orðinu fiskiskip í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 getur hér engum vafa valdið. Kaupsamningur áfrýjenda sem mál þetta varðar var ekki gerður um fiskiskip, heldur öll hlutabréf í Bergi-Hugin ehf. Forkaupsrétturinn, sem veittur er með þessu lagaákvæði, horfir til takmörkunar á friðhelgi eignarréttar sem varin er af 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Girðir það þegar fyrir að ákvæðinu verði gefin rýmri merking með skýringu en felst í bókstaflegum skilningi orða þess. Horfir þetta og til verulegra takmarkana á því að efnisregla ákvæðisins verði með lögjöfnun færð yfir á önnur atvik en þau sem eiga beinlínis undir það. Að því verður einnig að gæta að í 6. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 er að finna reglur um frelsi til að framselja aflahlutdeild skips og er þar ekki mælt fyrir um forkaupsrétt sveitarfélags að slíkum verðmætum eins og um ræðir í 3. mgr. sömu lagagreinar. Þetta stendur því í vegi að reglu síðastnefndrar málsgreinar um forkaupsrétt verði fyrir lögjöfnun beitt um aflahlutdeild. Eins og áður kom fram var bókfært verðmæti skipa Bergs-Hugins ehf. aðeins rúmur fimmtungur heildareigna félagsins samkvæmt ársreikningi, sem síðast hafði verið gerður fyrir það áður en áfrýjendur gerðu kaupsamninginn um alla hluti í því, en andvirði varanlegra fiskveiðiheimilda á hinn bóginn meira en ⅔ af verðmæti heildareigna félagsins. Þannig geta ekki talist leiddar nokkrar líkur að því að kaupsamningur áfrýjenda hafi í reynd miðað að því sem meginatriði að koma fram yfirfærslu eignarréttar að fiskiskipum Bergs-Hugins ehf., en klæða þau viðskipti í annan búning. Ákvæðum 3. mgr., sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 verður því ekki beitt á þann hátt að þau verði látin taka til kaupa áfrýjenda. Brestur þannig lagastoð til að verða við kröfu stefnda og verða áfrýjendur því sýknaðir af henni.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjendur, Síldarvinnslan hf. og Q44 ehf., eru sýknir af kröfu stefnda, Vestmannaeyjabæjar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2014.

Mál þetta var höfðað 11. febrúar 2013, þingfest 19. sama mánaðar og tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi 28. mars sl.

Stefnandi er Vestmannaeyjabær, kt. [...], Kirkjuvegi 50 í Vestmannaeyjum.

Stefnt er Q44 ehf., kt. [...], Skútuvogi 1e í Reykjavík og Síldarvinnslunni hf., kt. [...], Hafnarbraut 6 í Fjarðabyggð.

Stefnandi krefst þess að ógiltur verði með dómi samningur um kaup stefnda Síldarvinnslunnar hf. á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af stefnda Q44 ehf., dagsettur í ágúst 2012. Jafnframt krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu.

Af hálfu beggja stefndu er krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Málavextir

Með fréttatilkynningu 30. ágúst 2012 greindi stefndi Síldarvinnslan hf. frá því að félagið hefði „undirritað kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í útgerðarfélaginu Bergur-Huginn ehf.“ í Vestmannaeyjum. Fram kom í tilkynningunni að seljandi væri „hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns og fjölskyldu“. Um kaupverð kom ekki annað fram en að það væri „trúnaðarmál milli kaupanda og seljanda“. Með kaupunum mun stefndi Síldarvinnslan hf. hafa aukið aflaheimildir sínar í bolfiski umtalsvert og öðlast yfirráð yfir fjórum skipum til bolfiskveiða, en fyrir liggur að Bergur-Huginn ehf. hafi gert út tvo nýlega togara, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444.

Einkahlutafélagið Bergur-Huginn er skrásett í Vestmannaeyjum og er yfirlýstur tilgangur þess að „reka útgerð fiskiskipa og skyldur atvinnurekstur, svo og rekstur fasteigna, fjármálastarfsemi og eignaumsýsla“. Meðal stofnenda félagsins er Magnús Kristinsson útgerðarmaður. Félagið var lengst af að stærstum hluta í eigu Magnúsar en á því mun hafa orðið breyting árið 2009 þegar LBI hf. (gamli bankinn, hér eftir „Landsbankinn“) leysti til sín u.þ.b. 45% hlut í félaginu til niðurgreiðslu skulda Magnúsar við Landsbankann. Eftir það voru hluthafar félagsins þrír, þ.e. Landsbankinn (45%), Magnús Kristinsson (40,89%) og félag tengt Magnúsi að nafni Cappa ehf. (14,11%).

Á árinu 2012 mun Magnús Kristinsson og fjölskylda hans hafa öðlast yfirráð yfir Bergi-Hugin ehf. á ný og mun það hafa gerst í tengslum við skuldauppgjör Magnúsar við Landsbankann með því að allir eignarhlutir í félaginu voru framseldir félagi í fullri eigu Magnúsar, stefnda Q44 ehf.. Í kjölfarið fór fram sú ráðstöfun, sem mál þetta lýtur að, nánar tiltekið þegar Q44 ehf. seldi meðstefnda Síldarvinnslunni ehf. alla framantalda eignarhluti í Bergi-Hugin ehf. samkvæmt samningi þar að lútandi 28. ágúst 2012.  

Stefnandi kveðst, strax í kjölfar þess að tilkynnt var um ofangreinda sölu, hafa hafist handa við að tryggja að bæjarfélaginu yrði boðið að ganga inn í kaupin í samræmi við 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Meðal gagna málsins er ábyrgðarbréf 5. september 2012 sem geymir áskorun stefnanda gagnvart stefnda Síldarvinnslunni hf., þess efnis að lagt yrði fram forkaupsréttartilboð þar sem söluverð og aðrir skilmálar væru tilgreindir á tæmandi hátt sem og að lögð yrðu fram öll gögn sem máli kynnu að skipta til að stefnandi gæti tekið afstöðu til forkaupsréttartilboðsins innan fjögurra vikna, með vísan til umrædds lagaákvæðis. Samdægurs beindi stefnandi sams konar áskorun til Magnúsar Kristinssonar persónulega og fyrir hönd þeirra félaga sem kynnu að hafa verið skráðir hluthafar í Bergi-Hugin ehf. þegar félagið var selt. Hefur afrit af áskorun þessari einnig verið lagt fram meðal skjala málsins. Skýrir stefnandi þetta með skírskotun til þess að á þessu tímamarki hafi ekki legið fyrir hvernig eignarhaldi Bergs-Hugins ehf. væri nákvæmlega háttað. Með lokaorðum nefndra áskorana var móttakendum veittur frestur til hádegis föstudagsins 7. september 2012.

Með ódagsettu bréfi, undirrituðu af lögmönnum beggja stefndu, sem barst stefnanda 7. september 2012, var hafnað þeirri beiðni að stefnanda yrði gefinn kostur á að ganga inn í kaupin. Sama dag gaf Bergur-Huginn ehf. út fréttatilkynningu þar sem kröfu stefnanda um forkaupsrétt var hafnað. Í henni segir jafnframt að eignarhald að hlutum í Bergi-Hugin ehf. hafi verið „á hendi félaga, sem öll eru skráð með heimilisfesti í Reykjavík. Við það voru engar athugasemdir gerðar af hálfu [stefnanda]. Eignarhald að hlutunum í Bergur-Huginn [sic.] ehf. er því að færast frá Reykjavík til Neskaupstaðar.“ Í niðurlagi fréttatilkynningarinnar er svo tekið fram „að engin áform [séu] uppi um að flytja heimilisfesti Bergur-Huginn ehf. [sic.] frá Vestmannaeyjum“.

Í framhaldi af þessu mun stefnandi hafa fengið það staðfest, frá stjórnarformanni stefnda Q44 ehf., að Q44 ehf. hafi verið seljandi að öllu hlutafé í Bergi-Hugin ehf. í ofangreindum viðskiptum við stefnda Síldarvinnsluna hf.

Stefndu töldu nauðsynlegt að tilkynna ofangreind kaup á hlutum í útgerðarfélaginu Bergi-Hugin ehf. til Samkeppniseftirlitsins. Mun kaupsamningur stefndu því hafa verið undirritaður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins og ítarleg samrunatilkynning send til þeirrar stofnunar 19. október 2012. Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins var sú að ekki væri ástæða til að aðhafast frekar vegna samrunans, sbr. ákvörðun þess nr. 10/2013.

Að lokum ber þess að geta að í þinghaldi 29. maí 2013 lagði lögmaður stefnanda fram bókun þar sem skorað var á stefndu „og um leið áréttuð áskorun sama efnis í stefnu á dskj. 1, að leggja fram afrit af áðurgreindum kaupsamningi um kaup Síldarvinnslunnar hf. á hlutafé í Bergi-Hugin ehf. og eftir atvikum önnur skjöl tengd sölunni. Telur stefnandi framlagningu kaupsamningsins einkum munu renna stoðum undir þá málsástæðu sína að meginefni samningsins snúi að því að eignarhald umræddra fiskiskipa færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi, þrátt fyrir að hann lúti að formi til að sölu á hlutafé í nefndu félagi. Verði stefndu ekki við áskorun þessari er byggt á því að leggja beri til grundvallar staðhæfingar stefnanda um efni kaupsamningsins og önnur atriði í tengslum við sölu alls hlutafjár í Bergi-Hugin, sbr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“ Í þinghaldi við næstu fyrirtöku málsins í héraðsdómi 18. júní 2013 létu lögmenn beggja stefndu færa eftirfarandi orð til bókar: „Stefndu hafna áskorun um að leggja fram kaupsamning þeirra í millum um allt hlutafé í Bergi-Hugin ehf., þar sem það hefur enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Andlag kaupanna var allt hlutafé félagsins og þar með allar eignir og skuldbindingar þess eins og þær stóðu hinn 30. júní 2012. Einu breytingar á eignahlið félagsins frá því sem ársreikningur 2011 sýnir felst í sölu Smáeyjar VE 144 sem seld var frá félaginu á 1. ársfjórðungi 2012 svo sem stefnanda mun kunnugt.“ Af hálfu stefnanda var þessu í sama þinghaldi svarað með því að bóka um áréttingu fyrri áskorunar.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að sveitarfélagið eigi rétt á að ganga inn í kaupsamning milli stefndu um sölu á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. á grundvelli forkaupsréttar sveitarfélags að fiskiskipum samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Vísar stefnandi til þess að stefndu hafi ekki virt forkaupsrétt stefnanda samkvæmt ákvæðinu. Af því leiði að stefnanda hafi verið gert ókleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skuli neytt. Því sé stefnanda heimilt að krefjast þess að salan, þ.e. sá löggerningur sem liggur henni til grundvallar, verði ógiltur með dómi á grundvelli 5. mgr. sömu lagagreinar. Að mati stefnanda verður sú niðurstaða í öllu falli reist á lögjöfnun frá sömu lagaákvæðum.

Stefnandi vísar til þess að í 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða sé mælt fyrir um lögbundinn forkaupsrétt að skipi sem ráðstafað er með sölu til útgerðarfélags í öðru sveitarfélagi en við þær aðstæður sé forkaupsrétturinn á hendi þess sveitarfélags þar sem seljandi skips er til heimilis. Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar samkvæmt ofangreindu ákvæði skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið ásamt aflahlutdeildum, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, og skal opinberlega leita tilboða í það, sbr. 4. mgr. sömu lagagreinar.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að forkaupsréttur stefnanda samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða hafi orðið virkur við sölu stefnda Q44 ehf. á öllum eignarhlutum í útgerðarfélaginu Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. Að mati stefnanda verður að líta svo á að ráðstöfun hlutafjárins til stefnda Síldarvinnslunnar hf. hafi í reynd falið í sér sölu á tveimur fiskiskipum, Bergey VE-544 og Vestmannaey VE-444, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi, í skilningi ofangreinds lagaákvæðis. Hafi stefndu því borið að bjóða stefnanda skriflega að neyta forkaupsréttar síns og tilgreina þar söluverð hlutanna og aðra skilmála sölunnar á tæmandi hátt. 

Stefnandi styður framangreint við það að löggjafinn hafi miðað að því með nefndu ákvæði að forkaupsrétturinn sé „hemill á sölu skipa milli byggðarlaga og þar með koma til móts við sjónarmið um aukin tengsl skipa við byggðarlög“ sem og að tryggja „að heimaaðilum gefist svigrúm til að ganga inn í kaup“, sbr. einnig 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Stefnandi byggir á því að skýra beri ákvæðið rúmt með hliðsjón af markmiðum þess á þann veg að forkaupsréttur verði virkur þegar eignarhald yfir lögaðila sem fer með eignarhald skips færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi. Við þær aðstæður verði að líta svo á að forkaupsrétturinn taki til hlutafjárins sem selt er, eðli máls samkvæmt, en stefndu hafi að minnsta kosti borið að aðgreina skipin ásamt aflaheimildum, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, frá öðrum seldum eignum og bjóða stefnanda forkaupsrétt að þeim sérstaklega, sbr. framangreinda umfjöllun. Þar sem hvorugt hafi verið gert telur stefnandi að sveitarfélaginu hafi verið ókleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skyldi neytt og því sé óhjákvæmilegt að ógilda söluna í samræmi við 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006.

Ofangreindu til stuðnings vísar stefnandi til þess að í ársreikningum Bergs-Hugins ehf. fyrir árin 2010-2011 komi skýrt fram að nær eina starfsemi félagsins sé rekstur umræddra skipa: „Bergur-Huginn ehf. er sjávarútvegsfyrirtæki sem rekur þrjú togskip, Smáey VE 144, Vestmannaey VE 444 og Bergey VE 544.“ Að mati stefnda leiðir þetta til þess að þótt kaupsamningur aðila varði að formi til hlutafé í Bergi-Hugin sé augljóst að meginefni löggerningsins snúi að því að eignarhald umræddra fiskiskipa ásamt aflahlutdeildum færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi. Stefnandi telur því að rétt hefði verið samkvæmt ofangreindu lagaákvæði að bjóða stefnanda forkaupsrétt að þessum eignum.

Stefnandi telur að ekki fái staðist að samningsaðilar geti með einhliða ráðstöfunum sín í milli vikið sér undan lögbundnum forkaupsrétti sveitarfélags. Aðilum sé ekki unnt að að sniðganga þennan rétt með því að færa sölu fiskiskips í búning hlutafjárkaupa líkt og hér hafi verið gert. Á stefndu hvíli sú skylda, einkum þegar fiskiskip eru seld með öðrum eignum hlutafélags, að aðgreina skipin sérstaklega og gera hlutaðeigandi sveitarfélagi kleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skuli neytt. Önnur niðurstaða myndi í reynd þýða að ákvæði laganna um forkaupsrétt væru með öllu marklaus, en slíkur skýringarkostur er, að mati stefnanda, ótækur.

Stefnandi tekur fram í þessu samhengi að forkaupsréttur stefnanda hafi fyrst orðið virkur þegar stefndi Q44 ehf. framseldi alla hluti í Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. en í því hafi falist að fiskiskipin voru framseld „til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi“, sbr. 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006. Ráðstafanir með hluti í félaginu sem á undan fóru og vörðuðu meðal annars skuldauppgjör Magnúsar Kristinssonar við Landsbankann hafi aftur á móti ekki leitt til þess að skipin væru framseld til útgerðar utan sveitarfélagsins og hafi þær því ekki þýðingu með tilliti til forkaupsréttar stefnanda. Stefnandi bendir einnig á að þrátt fyrir að eignarhald félagsins hafi tímabundið flust yfir til Landsbankans og félaga í Reykjavík hafi félagið sjálft ætíð haft heimilisfesti í Vestmannaeyjum og útgerð skipanna farið fram þaðan.

Verði ekki fallist á að ákvæði 12. gr. nefndra laga taki til umræddrar ráðstöfunar samkvæmt efni sínu, byggir stefnandi á því að sama niðurstaða verði reist á lögjöfnun frá ákvæðinu. Telur stefnandi að þau sjónarmið, sem búa að baki ákvæðinu og að framan er lýst, eigi fyllilega við um það tilvik sem hér um ræðir. Sömu sjónarmið hljóti að gilda um ráðstöfun fiskiskips til útgerðar í öðru sveitarfélagi hvort sem eigendaskipti verða að skipinu sjálfu eða þeim lögaðila sem á beinan eignarrétt yfir viðkomandi skipi, enda feli hvort tveggja í sér að yfirráð og eignarhald yfir fiskiskipi færist til útgerðar í öðru sveitarfélagi. Sú niðurstaða feli jafnframt í sér hallkvæma, eðlilega og sanngjarna réttarreglu sem fái auk þess skýra stoð í markmiðum laga nr. 116/2006. Að mati stefnanda myndi gagnstæð niðurstaða leiða til þess að forkaupsrétturinn yrði í raun markleysa. Stefnandi telur samkvæmt framansögðu að skilyrði lögjöfnunar séu fyrir hendi með tilliti til 3. mgr. 12. gr. laganna og beri því að líta svo á að bjóða hafi átt stefnanda forkaupsrétt við umrædda sölu í samræmi við það sem að framan greinir. Fyrst svo hafi ekki verið gert teljist salan ógild á grundvelli lögjöfnunar frá 5. mgr. sömu lagagreinar.

Um lagarök fyrir kröfum sínum um forkaupsrétt og ógildingu vísar stefnandi til 2. og 3. mgr., sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, eða eftir atvikum lögjöfnun frá þeim ákvæðum. Einnig er vísað til 1. gr. sömu laga. Um aðild stefndu er vísað til 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing skírskotar stefnandi til 1. mgr. 33. gr., sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hvað málskostnað áhrærir vísar stefnandi til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. 

Áður en skilið er við málatilbúnað stefnanda skal tekið fram að stefnandi hefur bæði fyrir og eftir höfðun málsins skorað á stefndu að leggja fram afrit kaupsamningsins milli Q44 og Síldarvinnslunnar, sem gerður var í ágúst 2012, um kaup á öllum hlutum í Bergi-Hugin, upplýsa um efni samningsins eða leggja fram önnur skjöl tengd sölunni. Áskorun þessa hefur stefnandi sett fram með vísan til X. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Við þessum áskorunum hafa stefndu ekki orðið. Í því ljósi byggir stefnandi á því að leggja beri til grundvallar staðhæfingar stefnanda um efni kaupsamningsins og önnur atriði í tengslum við sölu alls hlutafjár í Bergi-Hugin, sbr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III.

Málsástæður stefnda Síldarvinnslunnar hf.

Sýknukrafa stefnda Síldarvinnslunnar hf. er aðallega byggð á aðildarskorti, þar sem stefnandi eigi engra lögvarðra hagsmuna að gæta í málinu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Vísar stefndi í þessu samhengi til þess að í 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða komi fram að forkaupsréttur eigi að vera boðinn sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda“. Stefndi Q44 ehf., seljandi hlutanna í Bergi-Hugin ehf., sé félag með heimilisfesti í Reykjavík. Stefndi tiltekur að áður en allt eignarhald færðist á hendur Q44 ehf., hafi Landsbanki Íslands í Reykjavík átt stærstan hlut í félaginu, en aðrir hlutir hafi verið í eigu hlutafélaga sem öll séu skráð í Reykjavík. Eignarhald að hlutunum í Bergi-Hugin ehf. hafi því verið að færast frá Reykjavík til Neskaupstaðar. Hafi forkaupsréttur orðið virkur, hefði átt að bjóða hann Reykjavíkurborg. Af þessu leiði að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts stefnanda.

Að þessu frágengnu byggir stefndi sýknukröfu sína á því að forkaupsréttur samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða hafi ekki orðið virkur í umrætt sinn. Hið ráðandi lögskýringarsjónarmið í íslenskum rétti sé að skýra beri ákvæði laganna samkvæmt orðanna hljóðan og að hlíta beri orðalagi ákvæðisins. Í ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða komi skýrt fram að[e]igi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitastjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Í ákvæðinu sé einungis tekið fram að forkaupsréttur sé til staðar þegar selja eigi fiskiskip. Ákvæðið eigi ekki við um sölu á hlutafé í útgerðarfélagi eða sölu á aflaheimildum. Í þessu samhengi vísar stefndi til þess að forkaupsréttarákvæðið hafi fyrst gengið í gildi með lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða sem voru síðan endurútgefin með lögum nr. 116/2006. Í frumvarpi til laga, sem varð að lögum nr. 38/1990, hafi ekki verið tillaga að ákvæði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Þar hafi verið ákvæði um tilkynningarskyldu, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Í meðförum efri deildar þingsins hafi verið lögð fram breytingartillaga sem varðaði m.a forkaupsrétt. Í breytingartillögunni hafi þetta komið fram: „[l]agt er til að 11. gr. verði breytt þannig að sveitarstjórnum verði veittur forkaupsréttur við sölu fiskiskips úr byggðarlagi‟. Í flutningsræðu þáverandi sjávarútvegsráðherra megi finna sambærilega nálgun á forkaupsréttinum þ.e. slíkur réttur nái aðeins til sölu á skipum úr byggðarlagi. Löggjafinn hafi því einungis horft til þess að forkaupsrétturinn yrði virkur við sölu fiskiskips. Löggjafarvaldinu var hins vegar í lófa lagið að taka fram að forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða tæki einnig til sölu á útgerðarfélögum og aflaheimildum, en slíkt var ekki gert.

Af hálfu stefnda er vísað til þess að tilgangur laga um stjórn fiskveiða hafi verið að auka hagkvæmni í fiskiskipaflotanum. Því hafi verið veittar víðtækar heimildir til að færa aflaheimildir milli skipa og auka þar með möguleika útgerða til að draga úr sóknarkostnaði við veiðar. Á sínum tíma hafi margir viljað bregðast við með því að hefta framsal aflaheimilda verulega og binda þær við tiltekin byggðarlög. Í flutningsræðu þáverandi sjávarútvegsráðherra fyrir neðri deild þingsins, sbr. 112. lþ. N.S fundur 352. mál, hafi komið fram að í slíkum tilvikum væri hætta á að þróun og framvinda væri stöðvuð og hagkvæmni aflamarkskerfisins að litlu gerð. Að mati stefnda einkennir þetta forkaupsréttarákvæðið, þ.e. það hafi aldrei verið ætlun löggjafans með umræddu ákvæði að hagkvæmni aflamarkskerfisins væri að engu gerð. Í því tilliti sé óhugsandi að ætlunin með ákvæðinu hafi verið að takmarka stofnun eða sölu hlutafélaga né viðskipti með hlutabréf eða hluti í einkahlutafélögum.

Stefndi mótmælir því að bjóða hefði átt stefnanda forkaupsrétt að eignum Bergs-Hugins ehf. þ.e. skipunum ásamt aflahlutdeildum. Forkaupsréttarákvæði í lögum um stjórn fiskveiða hafi aldrei verið ætlað svo víðtækt gildi sem stefnandi heldur fram. Þannig hafi stefnandi aldrei átt forkaupsrétt að skipunum eða aflaheimildum félagsins. Í því samhengi bendir stefndi á að í 6. mgr. gr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða sé heimild til að framselja aflahlutdeild skips að hluta eða að öllu leyti. Í frumvarpi til laganna kemur fram að meginmarkmið ákvæðisins sé að gefa færi á sameiningu aflaheimilda til þess að fækka fiskiskipum. Þar af leiðandi sé óhugsandi að forkaupsréttarákvæðinu hafi verið ætlað að taka til aflaheimilda. Þessu til stuðnings vísar stefndi til frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990 sbr. 122. lþ. 222. mál – 191 þskj. Í athugasemdum við lagafrumvarpið er þess sérstaklega getið að forkaupsréttur nái ekki til aflahlutdeildarinnar. Því hafi tilgangur löggjafans alltaf verið sá að láta ákvæðið einungis ná til atvika þegar fiskiskip eru seld.

Kaupsamningur á milli stefndu varði ekki sölu á fiskiskipum heldur hlutum í einkahlutafélagi sem hefur aðsetur í Vestmannaeyjum. Ekki séu uppi áætlanir um að flytja félagið á milli byggðarlaga og forkaupsréttarákvæðið í lögum um stjórn fiskveiða verði því ekki virkt nema stefndi, sem eigandi, að Bergi-Hugin ehf. ákveði að selja skip félagsins. Stefndi hafi keypt útgerðarfélag sem rekur m.a. tvö fiskiskip. Ekki sé unnt að fallast á það með stefnanda að ráðstöfun hlutafjárins hafi í reynd falið í sér sölu á tveim fiskiskipum. Vegna þess að löggerningurinn á milli stefndu var einungis um allt hlutafé í einkahlutafélaginu hafi forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða aldrei orðið virkur og því ekki ástæða til að bjóða stefnanda að neyta forkaupsréttar að fiskiskipum, aflaheimildum eða hlutafé í félaginu.

Stefndi vísar til þess að á 122. löggjafarþingi. 189. mál – 191 þskj. Hafi verið lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990, með síðari breytingum. Í 4. gr. frumvarpsins var tillaga að breytingu á 11. gr. þágildandi fiskveiðistjórnunarlaga sem fjallaði um forkaupsrétt sveitarfélaga. Í breytingartillögunni fólst m.a. að styrkja forkaupsrétt sveitarfélaga í þá átt að ákvæðið næði einnig til aflahlutdeildar skipsins eða þorskaflamarks. Jafnframt var lagt til að bætti yrði við nýrri málsgrein, þess efnis að forkaupsrétturinn gæti náð á milli aðila innan sama sveitarfélags t.d. þegar kaupandi stofnar hlutafélag í sveitarfélagi seljanda og að lokinni sölu er félagið flutt til sveitarfélags kaupanda. Löggjafarvaldið hafi ekki samþykkt umrædda breytingartillögu sem bendir, að mati stefnda, til þess að ekki hafi verið vilji til að styrkja forkaupsréttarákvæðið svo það næði til aflahlutdeildar, þorskaflamarks, hlutafélaga og einkahlutafélaga. Að mati stefnda rennir þetta stoðum undir það að núverandi ákvæði nái einungis til þess þegar fiskiskip eru seld.

Stefndi hafnar þeim skilningi stefnanda á forkaupsréttarákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 38/1990 að ákvæðið nái einnig til þess að sveitarfélag ætti forkaupsrétt að hlutum í félögum. Túlkun stefnanda leiði til þess að hlutir í útgerðarfyrirtækjum væru ekki tækir til skráningar í kauphöll sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007 og lífeyrissjóðum væri óheimilt að fjárfesta í hlutabréfunum, sbr. 3. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997. Öll ákvæði um forkaupsrétt þurfi að vera skýr og ótvíræð. Orðalag 12. gr. laga um stjórn fiskveiða er skýrt að mati stefnda. Í ákvæðinu kemur fram að forkaupsréttur verði virkur þegar fiskiskip eru seld og því takmarkist ákvæðið við fiskiskip. Auk þess eru forkaupsréttarákvæði íþyngjandi og setja hömlur á eignar- og ráðstöfunarrétt einstaklinga á eignum sínum. Af þessu leiðir, að mati stefnda, að túlka beri öll forkaupsréttarákvæði þröngt.

Stefndi reisir varnir sínar einnig á því að samningsfrelsi sé ein af grundvallarreglum réttarskipunarinnar. Víða megi að vísu finna lagaákvæði sem þrengi samningsfrelsið en öll slík ákvæði eigi að túlka þröngt. Ljóst sé að 12. gr. laga um stjórn fiskveiða geti skert samningsfrelsið umtalsvert og því verði að skýra ákvæðið þröngt.

Í 4. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða sé kveðið á um að ef sveitarstjórn neytir forkaupsréttar skuli gefa útgerðaraðilum sem hafa heimilisfesti í sveitarfélaginu kost á að kaupa skipið. Umrætt ákvæði geri það að verkum að túlkun stefnanda á forkaupsrétti laga um stjórn fiskveiða gangi ekki upp. Í þessu samhengi vísast til þess að ef forkaupsréttur hefur verið virkur hefði stefnandi þurft að gefa útgerðaraðilum í Vestmannaeyjum kost á að kaupa skipin ásamt aflaheimildum eða hlutafénu sem selt var, þ.e. miðað við túlkun stefnanda. Hins vegar sé Bergur-Huginn ehf. með heimilisfesti í Vestmannaeyjum sem geri það að verkum að stefnandi hefði þurft að bjóða því félagi að kaupa skipin eða hlutafé í sjálfum sér. Samkvæmt þessu sé óhugsandi að túlka ákvæði laga um stjórn fiskveiða svo rúmt að forkaupsrétturinn taki til hlutafjárins í Bergi-Hugin ehf. eða að stefndi hefði átt að aðgreina skipin ásamt aflaheimildum. Því geti krafa stefnanda um að ógilda samninginn ekki náð fram að ganga.

Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda að stefnda hafi borið að aðgreina skipin sérstaklega. Að mati stefnda er slík túlkun afar framsækin og jafngildi banni við sölu á sjávarútvegsfyrirtækjum.

Stefndi telur, að þrátt fyrir að forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða hafi ekki verið virkur í umræddu tilviki hafi sveitarfélög, þ. á m stefnandi, nýtt sér þennan rétt þegar fiskiskip eru seld. Hins vegar sé ákvæðið gagnslítið enda nái það einungis til skipsins. Í þessu samhengi hafi starfshópur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins komist að þeirri niðurstöðu að vegna skilyrðis um að forkaupsrétturinn nái aðeins til skipsins sé ákvæðið í 12. gr. laga um stjórn fiskveiða gagnslaust eins og það standi og megi að ósekju falla niður. Að mati stefnda staðfestir þetta enn frekar það að forkaupsréttarákvæði laga um stjórn fiskveiða nái einungis til fiskiskipa og því geti vart komið til greina að taka kröfu stefnanda til greina.

Samkvæmt ofangreindu telur stefndi að forkaupsréttur laga um stjórn fiskveiða hafi aldrei orðið virkur og því sé ótækt að ógilda löggerninginn, sem var gerður á milli stefndu.

Telji dómurinn að forkaupsréttur hafi verið virkur ítrekar stefndi að Q44 ehf., sem er seljandi hlutanna í Bergi-Hugin ehf., sé félag með heimilisfesti í Reykjavík. Af því leiði að stefndi hafi aldrei átt að bjóða stefnanda forkaupsrétt að hlutum í Bergi-Hugin ehf.

Að mati stefnda er áðurnefnt forkaupsréttarákvæði skýrt og ótvírætt. Telur stefndi það andstætt eðlilegri lagaframkvæmd að beita lögjöfnun frá ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða, svo forkaupsréttur nái einnig til einkahlutafélaga eða aflaheimilda. Eðlilegt sé að skýra ákvæðin samkvæmt orðanna hljóðan og gagnálykta frá 3. mgr. 12. gr. laga um stjórn fiskveiða, að forkaupsréttur nái eigi til annarra atvika svo sem þegar einkahlutafélög eru seld eða aflaheimildir eru seldar. Í þessu samhengi ítrekar stefndi að ákvæði sem taka á forkaupsrétti eiga að vera túlkuð þröngt.

IV.

Málsástæður stefnda Q44 ehf.

Af hálfu stefnda Q44 ehf. er því mótmælt að forkaupsréttur samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 um stjórn fiskveiða vegna sölu stefnda Q44 á hlutum í Bergi-Hugin ehf. hafi getað legið hjá stefnanda þar sem umrætt lagaákvæði tiltaki skýrlega að það sé „sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda“ sem njóta skuli forkaupsréttar. Seljandi í tilvitnuðum viðskiptum sé Q44 ehf. sem heimilisfesti á í Reykjavík.  Meirihluti eignarhluta í Bergi-Hugin ehf. hafi áður verið í eigu félaga í Reykjavík um árabil. Samkvæmt þessu telur stefndi að „sveitarfélag seljanda“ samkvæmt fyrrgreindu ákvæði væri Reykjavíkurborg en ekki stefnandi, Vestmannaeyjabær. Samkvæmt þessu telur stefndi að tilvitnað lagaákvæði geti ekki markað grundvöll málareksturs þessa af hálfu stefnanda. Því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda vegna aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga 91/1991.

Fallist dómurinn ekki á að sýkna beri sökum aðildarskorts hafnar stefndi því, að fram hafi komið lögmælt skilyrði forkaupsréttar stefnanda. Kaupsamningur stefndu hafi snúist um hluti í Bergi-Hugin ehf. og stefndu hafi því verið óskylt að bjóða stefnanda forkaupsrétt að þeim hlutum eða eignum þess félags. Því séu engin skilyrði fyrir því að ógilda kaupsamning stefndu um alla hluti í umræddu félagi, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga 116/2006.

Stefndi byggir á því, að ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 lúti, samkvæmt skýru orðalagi, eingöngu að viðskiptum með fiskiskip: „ Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitastjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu.‟   Forkaupsréttur samkvæmt ákvæðinu sé þannig bundinn við „fiskiskip“ og ekkert annað. Andlag kaupa stefndu sé ekki fiskiskip heldur hlutir í félagi í fullum rekstri. Þegar af þeirri ástæðu geti stefnandi ekki átt hér lögbundinn forkaupsrétt, sem gæfi honum færi á að ganga inn í samning stefndu og taka þar stöðu kaupanda.                  

Stefndi mótmælir því að hafa fært sölu fiskiskips í búning hlutafjárkaupa og að sala hlutafjár í umrætt sinn hafi verið til málamynda í því skyni að komast undan ákvæðum laga um forkaupsrétt á sölu skipa. Þá mótmælir stefndi þeirri staðhæfingu stefnanda um meginefni kaupsamnings stefnu að hann  snúi  „að því að eignarhald  umræddra  fiskiskipa ásamt aflahlutdeildum færist á hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi“. Þetta telur stefndi vera rakalaust, því salan snúist um hluti í félagi, sem auk áðurnefndra tveggja fiskiskipa á aflaheimildir, fasteignir, ökutæki, búnað af ýmsum toga og annað það sem þarf til að reka félag með á fjórða tug starfsmanna. Stefndi bendir í þessu sambandi á að samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2011 hafi bókfært verðmæti þeirra tveggja fiskiskipa sem félagið átti við sölu hlutafjárins í ágúst 2012 verið 1.491 milljón króna sem svarað hafi til þriðjungs af heildareignum félagsins. Sú málsástæða stefnanda að félagið sé umbúnaður um áðurnefnd fiskiskip sé því röng. 

Stefndi hafnar því, að ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 verði túlkað á þann veg, að því sé ætlað að hamla gegn breytingum á eignarhaldi útgerðarfélaga. Ekkert í umfjöllun málsins á Alþingi gefi tilefni til að álykta sem svo, að ákvæðinu hafi verið ætlað að reisa skorður við því hverjir gætu eignast hluti í útgerðarfélögum. Af fátæklegri umfjöllun um tilgang lögfestingar umrædds ákvæðis verði helst ráðið að marmiðið hafi verið að gefa bæjarfélögum færi á því að ganga inn í kaup á fiskiskipum við þær aðstæður að útgerðarfélag í öðru bæjarfélagi vildi kaupa fiskiskip til að flytja útgerð þess til annars bæjarfélags. Kaup Síldarvinnslunnar hf. á hlutafé Bergs-Hugins ehf. feli ekki í sér ákvörðun um flutning á starfsemi félagsins frá Vestmannaeyjum né heldur um sölu skipa félagsins. Segir stefndi að skipin séu eftir sem áður eign Bergs Hugins ehf. sem heimilisfesti hefur í Vestmannaeyjum. Af þessu leiði að ekki hafi komið fram það skilyrði fyrir beitingu heimildar áðurnefnds ákvæðis 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 að fiskiskip hafi verið selt til útgerðarfélags í öðru bæjarfélagi.

Stefndi mótmælir því að forkaupréttarákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 verði skýrt rýmkandi lögskýringu, þannig að gildissvið forkaupsréttar verði víkkað umfram það sem ákvæðið beinlínis tiltekur. Ekkert í tiltækum lögskýringargögnum færi rök að slíkri túlkun. Telur stefndi að nærtækara væri að gagnálykta frá skýrum texta ákvæðisins þannig að ákvæðið taki ekki til annarra skipa en „fiskiskipa“ og þó aðeins þeirra sem leyfi hafi til veiða í atvinnuskyni. Forkaupsréttar verði því ekki krafist með stoð í ákvæðinu við sölu annarra skipa. Stefndi vísar einnig til þess að í 6. mgr. sömu lagagreinar séu fortakslaus ákvæði um heimild útgerðar til að selja og framselja að hluta eða öllu leyti aflaheimildir útgerðar án þess að forkaupsréttur vakni við það. Slíkt hefði þó verið nærtækt ef ætlan löggjafans hefði verið sú að torvelda hagræðingu í útgerð eða breytingu á eignarhaldi útgerðarfélaga. Samhengi fortakslausrar reglu nefndrar 6. mgr. um ráðstöfunarrétt veiðiheimilda og skýr afmörkun andlags forkaupsréttar samkvæmt 3. mgr. 12. gr. greindra laga styðji þá lögskýringu, að forkaupsrétti verði ekki beitt um neitt annað en sölu þeirra fiskiskipa, sem greinin tiltekur og það aðeins við þar tilgreindar aðstæður. Sú málsástæða stefnanda að umræddu ákvæði verði beitt um sölu á eignarhlutum í félagi á sér því enga stoð að mati stefnda.

Stefndi hafnar því, að lögjöfnun sé tæk út frá þröngri undantekningu 3. mgr. 12. gr. frá óskráðum meginreglum laga um frjálsan ráðstöfunarrétt manna á eignum sínum og samningafrelsi almennt. 

Stefndi byggir enn fremur á því, að svo víðtæk takmörkun á eignarrétti eigenda hluta í sjávarútvegsfyrirtækum, sem leiða myndi af skilningi stefnanda á umræddu forkaupsréttarákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 hefði krafist mikillar umfjöllunar löggjafans. Ef skilningur stefnanda á ákvæðinu ætti við rök að styðjast, þ.e. að sveitarfélag ætti forkaupsrétt að hlutum í félögum, sem eiga fiskiskip, telur stefndi að hlutir í sjávarútvegsfyrirtækjum séu ekki tækir til skráningar í kauphöll, sbr. 1. mgr. 22. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007. Þá væri lífeyrissjóðum óheimilt að fjárfesta í slíkum hlutabréfum, sbr. 3. mgr. 36. gr.  laga 129/1997. Stefndi telur það hafið yfir vafa, að hefði Alþingi ætlað að setja í lög ákvæði sem tálmuðu starfsemi sjávarútvegsfyrirtækja eða möguleikum þeirra til að afla sér áhættufjár með þeim hætti sem að framan er lýst, þá hefði þurft að kveða mjög skýrt á um það í löggjöfinni. Að mati stefnda rýrði slík lagasetning eignarréttindi þeirra sem hluti eiga í útgerðarfélögum og myndi varða ríkið bótaskyldu samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944. Ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga 116/2006 færir því, að mati stefnda, engum forkaupsrétt að hlutum við sölu hlutafélaga eða einkahlutafélaga sem stunda útgerð.

Stefndi hafnar þeim málsástæðum stefnanda að á honum hafi hvílt skylda „til að aðgreina skipin sérstaklega og gera hlutaðeigandi sveitarfélagi kleift að taka afstöðu til þess hvor forkaupsréttar skuli neytt“. Stefndi telur að þessi málsástæða stefnanda eigi sér enga lagastoð, þar sem hún fæli það í sér að útgerðarfélög yrðu ekki seld sem félög í rekstri heldur sem safn rekstrarfjármuna, þar sem þau verðmæti sem felast í blómlegum rekstri, skipulagi, fjárhagsskipan, skattskuldbindingum o.s.frv. yrðu að engu gerð. Stefndi telur það svo alþekkt að ekki þurfi sönnunar við, að verðmæti félags í rekstri er meira og oftast miklu meira en hrakvirði eigna þess, fasteigna, lausafjár og annarra fjárhagsréttinda. Sú málsástæða stefnanda, að stefnda hafi borið að sérgreina hlut fiskiskipanna í kaupum meðstefnda á öllum hlutum í Bergi-Hugin ehf., og bjóða honum að ganga inn í þann hluta kaupanna, jafngildir að áliti stefnda banni við sölu útgerðarfélags í rekstri. Leiðir stefndi þessa ályktun sína af því að almennt sé það forsenda fyrir kaupum félags í rekstri, að félagið haldi framleiðslutækjum sínum og rekstri óbreyttum án þess að þriðji aðili geti gengið inn í kaupin og hirt þar út mikilvægar eignir að geðþótta. Slíkir viðskiptatálmar verði ekki leiddir af ákvæðum gildandi laga enda færi það í bága við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. 

Stefndi bendir á að sveitarstjórn sem kysi að hagnýta sér forkaupsrétt að fiskiskipi samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 beri samkvæmt 4. mgr. 12. gr. sömu laga að bjóða viðkomandi skip falt til útgerðaraðila með heimilisfesti í sveitarfélaginu. Bergur-Huginn ehf. ætti því, samkvæmt kröfum stefnanda, í senn að vera þolandi forkaupsréttarins að fiskiskipum félagins og rétthafi til að bjóða í skipin aftur í sveitarfélaginu, því þar sé heimilisfesti félagsins. Telur stefndi þetta sýna að málatilbúnaður stefnanda sé fráleitur og ólögmætur.

Stefndi andmælir því, að á honum hafi hvílt skylda til að bjóða stefnanda til kaups aflaheimildir Bergs-Hugins ehf. ásamt með fiskiskipum félagins. Staðhæfing stefnanda hér um eigi sér enga lagastoð, enda sé skýrt af 6. mgr. 12. gr. laga 116/2006 að engar skorður eru settar við framsali aflaheimilda, utan það að ekki verði framseld á skip aflahlutdeild sem er bersýnilega umfram veiðigetu þess. Bergur-Huginn ehf. hafi keypt miklar aflaheimildir á liðnum árum án afskipta sveitarfélaga. Félaginu sé með sama hætti heimilt að selja frá sér aflaheimildir án þess að bæjarfélagið öðlist við það forkaupsrétt. Forkaupréttur þess takmarkist við fiskiskipið og þá þær aflaheimildir sem seljandinn kýs að láta fylgja skipinu. Ákvæði 3. mgr. nefnds ákvæðis nái því ekki til aflaheimilda almennt eins og ætla mætti af framsetningu á málsástæðum stefnanda. Forkaupsréttur sveitarfélags samkvæmt nefndri grein verði hvorki með rýmkandi lögskýringu né lögjöfnun talinn ná til annarra aflaheimilda. Næði ógildingarkrafa stefnanda fram að ganga öðlaðist stefnandi því engan forkaupsrétt að aflaheimildum.

V.

Lagarök stefndu

Um lagarök vísa stefndu til ákvæða 2. mgr. til 6. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Einnig er vísað til 1. mgr. 22. gr. laga um kauphallir nr. 110/2007, 3. mgr. 36. gr. laga um starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997. Um aðildarskort stefnanda er vísað til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkröfur stefndu eru reistar á tilvísun til 129., sbr. 130., gr. laga nr. 91/1991. Vörnum sínum til frekari stuðnings skírskotar stefndi jafnframt til 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, auk meginreglna samninga- og eignaréttar.

VI.

Niðurstaða

Eins og málið hefur verið lagt fyrir héraðsdóm snýst ágreiningur aðila fyrst og síðast um ákvæði 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða, nánar tiltekið hvort ákvæðið nái til þeirra atvika sem hér liggja til grundvallar og þá hvernig skýra beri orðalag ákvæðisins, sem er svo hljóðandi:

Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.

Auk þessa varðar deila málsaðila ákvæði 4. mgr. og 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, sem hljóða svo:

Neyti sveitarstjórn forkaupsréttar skv. 3. mgr. þessarar greinar skal hún þegar gefa útgerðaraðilum, sem heimilisfesti eiga í sveitarfélaginu, kost á að kaupa skipið og skal opinberlega leita tilboða í það.


Sé skipi ráðstafað andstætt ákvæðum þessarar greinar um forkaupsrétt getur forkaupsréttarhafi krafist þess að salan verði ógild enda sé málsókn hafin innan sex mánaða frá því að hann fékk vitneskju um söluna. Forkaupsréttur gildir ekki sé skip selt á opinberu uppboði. Ákvæði þessarar greinar um forkaupsrétt gilda ekki við sölu opinna báta.

Áður en tekið er til við að leysa úr nokkru öðru er varðar efni málsins þarf að taka afstöðu til þeirrar viðbáru stefndu að stefnandi geti ekki átt aðild að máli um kaupsamning þann sem hér um ræðir og gerður var 28. ágúst 2012. Samningur þessi hefur ekki verið lagður fram af hálfu stefndu, þrátt fyrir áðurgreindar áskoranir stefnanda þar um. Út frá því sem fram hefur komið um efni samningsins má þó leggja til grundvallar, að þar hafi allir hlutir í einkahlutafélaginu Bergi-Hugin verið framseldir stefnda Síldarvinnslunni hf. Spurningin um aðild stefnanda snýst um það hvort líta beri svo á að verðmætin sem hér um ræðir hafi verið seld frá Reykjavík, þar sem stefndi einkahlutafélagið Q44 hefur verið skráð, eða frá Vestmannaeyjum, þar sem einkahlutafélagið Bergur-Huginn hefur heimilisfesti.

Stefndi Síldarvinnslan hf. hefur lýst aðdraganda kaupanna með þeim hætti að Magnús Kristinsson og félag hans, stefndi Q44 ehf., hafi átt „samningsbundinn kauprétt“ að þeim 45 % hlut í Bergi-Hugin ehf. sem Landsbanki Íslands eignaðist í síðastnefnda félaginu árið 2009. Af hálfu stefnda Síldarvinnslunnar hf. hefur því enn fremur verið lýst að Magnús Kristinsson hafi selt alla hluti í Q44 ehf., í árslok 2011, félagi í eigu barna hans, Fjárfestingarfélaginu Bliki ehf., kt. 440907-0240. Þá er fram komið af hálfu stefnda Q44 ehf. að það félag hafi í upphafi árs 2012 (nánar mun hér vera vísað til 6. janúar 2012), keypt alla hluti Magnúsar, alls 40,89 %, í Bergi-Hugin ehf. Fyrir liggur einnig að Birkir Kristinsson, bróðir Magnúsar, átti 14,11 % hlut í síðastnefnda félaginu og fór félag Birkis, Cappa ehf., kt. 680409-0480, með það eignarhald á seinni árum. Af hálfu stefnda Q44 ehf. hefur komið fram að það félag hafi síðar á árinu 2012 keypt alla hluti Cappa ehf. í Bergi-Hugin ehf. Þá hefur því verið lýst svo af hálfu Q44 ehf. að félagið hafi loks gert samning „um hagnýtingu kaupréttar sem félagið átti gagnvart Landsbanka Íslands um 45% eignarhlut Landsbanka Íslands hf. í félaginu“. Eftir gerð samninga þessara á stefndi Q44 ehf. að hafa farið með alla eignarhluti í Bergi-Hugin ehf. Með kaupsamningi 28. ágúst 2012 framseldi stefndi Q44 ehf. alla þá hluti til stefnda Síldarvinnslunnar hf. og hefur Q44 ehf. lýst því svo í greinargerð til héraðsdóms að helstu eignir Bergs-Hugins hafi verið tveir togarar, Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444 ásamt fiskveiðiheimildum og öllum fylgibúnaði. Enn fremur eigi félagið fasteignir á Geirseyri og við Básaskersbryggju í Vestmannaeyjum.

Fyrir liggur að Bergur-Huginn ehf. hefur um langt árabil stundað skipaútgerð frá Vestmannaeyjum. Meðal þeirra skjala sem lögð hafa verið fram undir rekstri málsins eru ársreikningar þessa félags fyrir árin 2010-2011. Þar má meðal annars lesa, í skýrslum félagsstjórnar, að lögmaður sá sem flutt hefur mál stefnda Q44 ehf. hér fyrir dómi hafi setið í stjórn Bergs-Hugins ehf. og að meginstarfsemi félagsins hafi verið útgerð þriggja togskipa; Smáeyjar VE 144, Vestmannaeyjar VE 444 og Bergeyjar VE 544. Það vekur hins vegar athygli dómsins að samkvæmt framlagðri útprentun úr hlutafélagaskrá fyrir Q44 ehf. er tilgangur þess félags ekki útgerð fiskiskipa, heldur „verðbréfaviðskipti, kaup, sala og umsýsla fasteigna svo og lánastarfsemi og skyldur rekstur“.

Áður en lengra er haldið þykir dómara rétt að tiltaka að í áðurnefndri fréttatilkynningu 30. ágúst 2012 lýsti stefndi Síldarvinnslan hf. kaupsamningnum sem gerður var 28. ágúst 2012 meðal annars með þeim orðum að seljandi væri „hlutafélag í eigu Magnúsar Kristinssonar útgerðarmanns og fjölskyldu“. Af þessu verður að álykta, að af hálfu stefndu sjálfra hafi ekki ætíð verið dregin skýr mörk milli Magnúsar Kristinssonar, Bergs-Hugins ehf. og Q44 ehf.

Í því sem hér fer á eftir hefur ekki verið litið fram hjá samningum fyrirsvarsmanna Bergs-Hugins ehf. við Landsbankann á sínum tíma. Með vísan til þess hvernig stefndu hafa sjálfir lýst þessum þætti málsins má leggja til grundvallar að eigendur Bergs-Hugins hafi átt samningsbundinn rétt á að kaupa umrædda hluti í einkahlutafélaginu til baka.

Þegar litið er heildstætt yfir þau atvik og málsástæður sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan er engin ályktun nærtækari en sú að menn sem hér eiga hagsmuna að gæta hafi sjálfir átt mestan þátt í því að binda þá hnúta sem nú er komið til kasta héraðsdóms að leysa. Kemur þá til skoðunar hversu þröngt sjónarhorn skuli viðhaft við slíka úrlausn. Eins og hér háttar til þykir dómara ekki unnt að beita þeirri aðferðarfræði að velja eitt tiltekið tímamark og miða dómsúrlausn einungis við atburði eða löggerninga sem þá komu fram. Í því sem hér fer á eftir verður þess í stað leitast við að leysa úr málinu með því að horfa til heildarsamhengis og leita yfirsýnar. Með þetta í huga telur dómari ekki unnt að slíta kaupsamninginn 28. ágúst 2012 út úr heildarsamhengi málsatvika og horfa einungis á þann löggerning við úrlausn málsins.

Með kaupsamningnum 28. ágúst 2012 var, samkvæmt lýsingu stefnda Síldarvinnslunnar hf., andlag kaupanna „allt hlutafé í einkahlutafélaginu Bergur-Huginn“. Tilvitnuð ákvæði 12. gr. laga nr. 116/2007 eiga við um framsal fiskiskipa til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi. Ekki verður talið að stefndu hafi verið komnir út fyrir gildissvið þessara ákvæða á kaupsamningsdegi í ágústlok 2012, því jafnvel þótt hlutafé í Bergi-Hugin ehf. kunni að hafa verið framselt til Q44 ehf. liggur að mati dómsins ekkert fyrir sem réttlætt gæti að síðastnefnt félag verði flokkað sem „útgerð“ í skilningi nefnds lagaákvæðis. Stefndu hafa sjálfir um það rætt undir rekstri málsins að skipin séu áfram gerð út frá Vestmannaeyjum og í greinargerð stefnda Q44 ehf. kemur m.a. fram að kaup stefnda Síldarvinnslunnar hf. á hlutafé Bergs-Hugins ehf. feli ekki sér sér „ákvörðun um flutning á starfsemi félagsins frá Vestmannaeyjum né heldur sölu skipa félagsins. Skipin eru eftir sem áður eign [Bergs-Hugins ehf.] sem heimilisfesti hefur í Vestmannaeyjum.“ Af hálfu stefndu er þessu teflt fram til að rökstyðja að ekkert fiskiskip hafi verið selt útgerðarfélagi í öðru sveitarfélagi og því séu ekki skilyrði fyrir beitingu heimildar 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006. Stefndi Q44 ehf. hefur nánar orðað þetta þannig í greinargerð að „andlag kaupa stefndu [sé] ekki fiskiskip heldur hlutir í félagi í fullum rekstri“. Hér er að mati héraðsdóms á ferð rökvilla þar sem gefið er til kynna að hið meira feli ekki í sér hið minna. Er aðilum ekki hald í slíkri viðbáru.

Með hliðsjón af því sem að framan hefur verið reifað, forsögu málsins og náinna eignatengsla, þykir örðugt að líta á Q44 ehf. sem hvern annan óháðan seljanda verðmæta eða sem sjálfstæða útgerð í skilningi þeirra ákvæða sem hér um ræðir. Verður samkvæmt þessu ekki talið að téð verðmæti hafi, áður en stefndi Síldarvinnslan ehf. kom til skjalanna í ágústlok 2012, verið framseld til útgerðar í öðru sveitarfélagi en Vestmannaeyjum. Verður því ekki fallist á það með stefndu að sýkna beri stefndu af þeirri ástæðu að um aðildarskort stefnanda sé að ræða, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Kemur þessu næst til skoðunar hvort atvikum hafi að öðru leyti verið þannig háttað að ákvæði 12. gr. laga nr. 116/2006 um forkaupsrétt eigi hér ekki við.  

Hið tilvitnaða ákvæði 3. mgr.12. gr. laga nr. 116/2006 gekk upphaflega í gildi með lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sem síðar voru endurútgefin sem núgildandi lög nr. 116/2006 um sama efni. Í 11. gr. frumvarps til fyrrnefndu laganna var í upphafi aðeins gert ráð fyrir að seljanda fiskiskips yrði skylt að birta tilkynningu um fyrirhugaða sölu skips í Lögbirtingablaði og gefa út sérstaka tilkynningu, meðal annars til sveitarstjórnar á útgerðarstað skips. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð er tilgangi ákvæðisins lýst þannig að „næsta víst [sé] að tilkynningarskyldan muni verða nokkur hemill á sölu skipa milli byggðarlaga og þar með koma til móts við sjónarmið um aukin tengsl skipa við byggðarlög án þess að kostum markaðshagkerfis sé fórnað á altari miðstýringar“. Undir meðferð málsins á Alþingi var ákvæði þessu breytt á þann veg að í stað tilkynningarskyldu var mælt fyrir um að sveitarfélög skyldu njóta forkaupsréttar að fiskiskipi sem selt væri úr viðkomandi byggðarlagi, ásamt því að tveimur nýjum málsgreinum var aukið við greinina. Í nefndaráliti, sem breytingin á rætur að rekja til, segir að með því fyrirkomulagi sé „betur tryggt að heimaaðilum gefist svigrúm til að ganga inn í kaup“. Ákvæðin þannig breytt urðu að 3.-5. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1990, sem samhljóða eru núgildandi 3.-5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða.

Með vísan til þess sem áður hefur verið reifað um tilgang 3. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 verður ekki annað séð en að nefndu lagaákvæði hafi verið ætlað að þjóna lögmætu markmiði. Eins ráða má af framangreindu telur dómurinn að fallast megi á það með stefnanda að mikilvægt sé að þau markmið löggjafans sem hér um ræðir verði ekki auðveldlega fyrir borð borin. Gera verður ráð fyrir því að ef kaupsamningur sá sem styr stendur hér um fær að standa óhaggaður geti stefndi Síldarvinnslan hf. hvenær sem er, sem eigandi allra hluta í Bergi-Hugin ehf. flutt útgerð viðkomandi skipa annað, t.d. í nafni hagræðingar. Í ljósi þeirra hagsmuna sem ákvæðum 12. gr. laga nr. 116/2006 var ætlað að vernda verður samkvæmt þessu ekki fallist á það með stefndu að forkaupsréttarákvæðin feli í sér ólögmætar viðskiptatálmanir.

Stefndu hafa mótmælt því að samningurinn sem til umræðu er í máli þessu hafi miðað að því að sniðganga lögbundinn forkaupsrétt stefnanda samkvæmt nefndum ákvæðum laga nr. 116/2006. Meðan upplýsingar skortir um þau samningsákvæði sem hér um ræðir er erfiðleikum bundið fyrir dómstólinn að taka af skarið í þessum efnum. Frammi fyrir þeim vandkvæðum er til þess að líta að þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda um framlagningu téðs samnings hafa stefndu neitað að leggja fram afrit hans. Af þessum staðreyndum og almennum sönnunarreglum leiðir að virða verður vafa um efni samningsins stefnanda í vil. Út frá þeim hagsmunum sem við almenna lögstjórn eru bundnir, þ.m.t. sjónarmið um fyrirsjáanleika og tiltrú almennings á lögum og rétti, ber dómstólum auk þess að gjalda varhug við því að ljá þeirri háttsemi stuðning sem með sérsniðnum viðskiptagerningum miðar að því að sniðganga ákvæði settra laga, sértækum hagsmunum til framdráttar en gegn til dæmis þeim almennu markmiðum sem liggja viðeigandi lagaákvæðum til grundvallar.

Hið sama gildir um ágreining málsaðila sem lýtur að því sem áður hefur verið nefnt, þ.e. hvort félagið sem selt var hafi einungis verið umbúnaður um fiskiskipin sem um ræddi og hvort meginefni hans hafi verið að færa eignarhald skipanna ásamt aflahlutdeild í hendur útgerðar í öðru sveitarfélagi. Ekkert af því sem fram hefur komið undir rekstri málsins eyðir, að mati réttarins, vafa um það hvort yfirfærsla eignarhluta í Bergi-Hugin ehf. til Q44 ehf. hafi miðað gagngert að því að gera títtnefnt forkaupsréttarákvæði laga nr. 116/2006 óvirkt gagnvart stefnanda. Meðan umræddur kaupsamningur hefur ekki verið lagður fram þykir, samkvæmt framanskráðu, verða að virða vafa í þessum efnum stefnanda í hag.

Við þetta mat hefur dómurinn haft hliðsjón af þeim hagsmunum sem ákvæðum 3. mgr.–5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006 var ætlað að vernda. Með vísan til þess sem áður greinir um markmið löggjafans með umræddu ákvæði verður ekki fullyrt að þar séu ólögmæt eða ómálefnaleg sjónarmið á ferðinni. Þvert á móti hefur dómstóllinn skilning á þeim markmiðum sem þar var stefnt að. Af ofangreindum ákvæðum leiðir að þegar fiskiskip eru seld með öðrum eignum hlutafélags ber að aðgreina skipin sérstaklega og gera hlutaðeigandi sveitarfélagi kleift að taka afstöðu til þess hvort forkaupsréttar skuli neytt. Þar sem þetta var ekki gert verður að telja, samkvæmt öllu framanrituðu, að forkaupsréttur stefnanda hafi fyrst orðið virkur þegar stefndi Q44 ehf. framseldi alla hluti í Bergi-Hugin ehf. til stefnda Síldarvinnslunnar hf. Samræmist þetta því sem áður hefur verið gerð grein fyrir, þ.e. að rétt þyki að hafa heildarsamhengi þeirra löggerninga sem mál þetta er sprottið af fyrir augum við úrlausn málsins og að kaup á öllum hlutum í félagi hljóti að fela í sér að allar eignir félagsins fylgi með í þeim kaupum.

Undir rekstri málsins hafa stefndu staðhæft að „afkáralegt“ og „óhugsandi“ hafi verið að bjóða Vestmannaeyjabæ forkaupsréttinn þar sem þá hefði þurft að gefa Bergi-Hugin ehf. kost á að „kaupa skipin sem þeir eiga eða hlutafé í sjálfum sér“. Þessu ber að hafna. Vestmannaeyjar hafa frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar verið ein helsta verstöð landsins. Þrátt fyrir þá samþjöppun sem orðin er hérlendis á sviði útgerðar – og mál þetta ber að nokkru leyti vitni um – er fákeppnin ekki orðin slík að unnt sé að bera á borð við málflutning fyrir dómstólum landsins að vart sé nokkrum öðrum útgerðaraðilum til að dreifa í Vestmannaeyjabæ sem keypt gætu skipin.

Samkvæmt öllu framanskráðu ber að taka til greina kröfu stefnanda um ógildingu samnings um kaup stefnda Síldarvinnslunnar hf. á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af stefnda Q44 ehf., sbr. ákvæði 5. mgr. 12. gr. laga nr. 116/2006, enda var málið höfðað innan þess sex mánaða tímafrests sem mælt er fyrir um í því lagaákvæði.

Eftir þessum úrslitum verður stefndu sameiginlega gert að greiða stefnanda málskostnað sem, með hliðsjón af umfangi málsins, telst hæfilega metinn 3.000.000 kr.

Arnar Þór Jónsson, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Ógiltur er samningur um kaup stefnda, Síldarvinnslunnar hf., á öllum eignarhlutum í Bergi-Hugin ehf. af stefnda, Q44 ehf., dagsettur í ágúst 2012.

Stefndu greiði sameiginlega stefnanda samtals 3.000.000 kr. í málskostnað.