Print

Mál nr. 236/2008

Lykilorð
  • Ölvunarakstur
  • Sönnunargögn
  • Jafnræðisregla
  • Ökuréttarsvipting
  • Sakarkostnaður

                                     

Fimmtudaginn 30. október 2008.

Nr. 236/2008.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Maríu Bergsdóttur

(Jón Egilsson hdl.)

 

Ölvunarakstur. Sönnunargögn. Jafnræðisregla. Ökuréttarsvipting. Sakarkostnaður.

M var ákærð fyrir að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis og fyrir brot gegn valdstjórninni. Fyrir Hæstarétti byggði M aðallega á því að hún hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Talið var að ekki yrði annað séð en að jafnræðis hefði verið gætt með málsaðilum við meðferð málsins fyrir héraðsdómi en ákærða hafði ekki gert grein fyrir þeim sönnunargögnum sem hún hefði farið á mis við að koma á framfæri, né hefði hún fært viðhlítandi rök fyrir því að héraðsdómari hefði tekið afstöðu gegn henni við meðferð málsins eða úrlausn þess. Í málinu hélt M því fram að hún hefði ekki verið ölvuð við aksturinn heldur drukkið áfengi eftir að hún missti stjórn á bifreið sinni með þeim afleiðingum að hún hafnaði utan vegar. Talið var að unnt væri að skera úr um sakargiftir á hendur M á grundvelli tveggja blóðsýna sem tekin voru úr henni eftir slysið og væri því ekki þörf á að styðjast við mælingu á þvagsýni. Þyrfti því ekki að taka afstöðu til málatilbúnaðar ákærðu að þessu leyti. Í málinu lá fyrir álitsgerð sem benti til þess að etanól í blóði M hefði verið um 1,50‰ á þeim tíma, sem lögreglu var tilkynnt um umferðaróhappið og hefði styrkur þess þá verið fallandi, sem gæfi til kynna að áfengisneyslu hennar hefði lokið meira en klukkustund fyrr. Með vísan til niðurstöðu álitsgerðarinnar, þess að bifreiðin var enn heit er lögregla kom á staðinn og að ekkert vitni kannaðist við að hafa gefið ákærðu að drekka á vettvangi var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu M staðfest. Þá var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu M fyrir brot gegn valdstjórninni staðfest. Var talið að M hefði ekki getað dulist að lögreglu- og sjúkraflutningamenn hefðu í umrætt sinn verið að gegna skyldustörfum sínum. Með vísan til 60. gr. stjórnarskrárinnar hefði M ekki getað komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hún teldi sig hafa ástæðu til að draga í efa að heimilt væri að ganga svo langt sem raun bar vitni við sýnatökuna, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 387/1993. Var niðurstaða héraðsdóms um að M skyldi dæmd til 30 daga skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og henni gerð 160.000 króna fésekt, auk sviptingar ökuréttar í eitt ár, staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. apríl 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing hennar verði þyngd.

Ákærða krefst þess aðallega að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hún sýknu, en ella vægari refsingar og skemmri ökuréttarsviptingar.

I

Til stuðnings aðalkröfu sinni heldur ákærða því fram að við rekstur málsins í héraði hafi ekki verið gætt jafnræðis með aðilum og hafi hún því ekki notið réttlátrar málsmeðferðar, eins og áskilið er í 70. gr. stjórnarskrárinnar. Tilgreinir ákærða ýmislegt þessu til stuðnings, meðal annars að brotið hafi verið á rétti sínum til að leiða vitni, bera upp spurningar og leggja fram gögn, en vegna þessa megi að auki draga í efa hlutlægni dómarans.

Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms hófst aðalmeðferð málsins 12. nóvember 2007. Saksóknari lagði í upphafi hennar fram tvö skjöl, en ekkert var þar bókað um framlagningu skjala af hálfu ákærðu eða óskir þar að lútandi. Gaf ákærða að svo búnu skýrslu og síðan tólf vitni. Ákærða kom þá aftur fyrir dóminn, þar sem óttast var að hluti af fyrri skýrslu hennar hefði misfarist í upptöku. Að lokinni þeirri skýrslu óskaði verjandi eftir að leggja fram gögn „til sönnunar á ástandi ákærðu í umrætt sinn“, svo sem sagði í þingbók. Sækjandi mótmælti að gögn yrðu lögð fram og krafðist verjandi þá úrskurðar dómara um það. Þá var bókað að verjandi ákærðu hafi krafist þess að fá að leggja tiltekna spurningu fyrir lækni, sem héraðsdómari hafnaði. Loks krafðist verjandinn að fá að leiða Ólaf Helga Kjartansson sýslumann sem vitni og greindi frá helstu atriðum, sem leita ætti svara vitnisins við. Eftir stutt hlé á þinghaldinu kvað héraðsdómari upp úrskurð, þar sem öllum þremur kröfum ákærðu var hafnað. Ákærða kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar 5. desember 2007 í máli nr. 625/2007 var vísað frá réttinum kröfu ákærðu um að fá að leggja fram nánar tilgreind skjöl, þar sem aðalmeðferð í héraði hafi verið byrjuð þegar deilan um framlagningu þeirra kom upp. Staðfest var niðurstaða héraðsdómara um að hafna að leggja tilgreinda spurningu fyrir lækni, en fellt úr gildi ákvæði úrskurðarins, þar sem hafnað var kröfu ákærðu um að sýslumaðurinn á Selfossi yrði leiddur sem vitni. Samkvæmt endurriti úr þingbók héraðsdóms var málið næst tekið fyrir 5. febrúar 2008 til að halda áfram aðalmeðferð. Í upphafi þinghaldsins lagði sækjandi fram fjögur skjöl og verjandi ákærðu fjögur önnur skjöl, sem virðast hafa verið hluti af þeim gögnum, sem verjandinn vildi leggja fram í þinghaldi 12. nóvember 2007. Að þessu búnu voru teknar skýrslur af fimm vitnum, málið munnlega flutt og það tekið til dóms.

Af því, sem að framan greinir, verður ekki annað séð en að jafnræðis hafi gætt með aðilum málsins við meðferð þess fyrir héraðsdómi, enda fékk ákærða á sama hátt og ákærandi að leggja fram frekari gögn við framhald aðalmeðferðar 5. febrúar 2008, andstætt 2. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og hefur ákærða ekki gert grein fyrir öðrum sönnunargögnum, sem hún hafi farið á mis við að koma á framfæri í héraði. Ekki hafa verið færð viðhlítandi rök fyrir því að héraðsdómari hafi tekið afstöðu gegn ákærðu við meðferð eða úrlausn málsins. Verður aðalkrafa hennar því ekki tekin til greina.

II

Krafa ákærðu um sýknu af sakargiftum um umferðarlagabrot í 1. lið ákæru er reist á því að ósannað sé að hún hafi ekið bifreið undir áhrifum áfengis umrætt sinn, en hún ber því við að hún hafi neytt þess fyrst svo að máli skipti eftir að akstri lauk með því að hún missti stjórn á bifreiðinni, sem hafnaði utan vegar. Í hinum áfrýjaða dómi er ítarlega rakin atburðarás úr gögnum málsins, allt frá frumskýrslu lögreglunnar um tilkynningu umferðaróhapps kl. 2.21 aðfaranótt 4. mars 2007 og töku blóðsýnis úr ákærðu á vettvangi kl. 2.37. Þar er rakinn framburður vitna um áfengisneyslu ákærðu um kvöldið, svo og þeirra vitna sem komu að ákærðu í bifreiðinni eftir óhappið. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar reyndist etanólstyrkur í blóðsýni, sem tekið var kl. 2.37 úr ákærðu, vera 1,43‰, en 1,12‰ í öðru blóðsýni, sem var tekið kl. 4.13. Þvagsýni var tekið kl. 3.41 og mældist etanólstyrkur í því 1,81‰. Í héraðsdómi er og rakin álitsgerð deildarstjóra við Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands um hvað álykta megi um ölvun ákærðu af blóð- og þvagsýnunum, annars vegar miðað við öll sýnin og hins vegar miðað við blóðsýni eingöngu. Í álitsgerðinni kom fram að hlutfall milli etanólstyrks í þvagsýni og síðara blóðsýni hafi verið 1,56 og bendi það til þess að etanól hafi verið fallandi á þeim tíma, sem sýnin voru tekin. Í álitsgerðinni var komist að sömu niðurstöðu, hvort sem miðað var eingöngu við blóðsýnin tvö eða við þau ásamt þvagsýninu, um að etanólstyrkur í blóði ákærðu hafi verið um 1,50‰ á þeim tíma, sem lögreglu var tilkynnt um umferðaróhappið. Deildarstjórinn staðfesti álitsgerðina fyrir héraðsdómi og kvað samanburð á blóðsýnunum tveimur sýna að etanólstyrkur í blóði ákærðu hafa verið fallandi þegar fyrra sýnið var tekið, sem bendi til að drykkju hafi lokið að minnsta kosti klukkustund fyrir töku þessa sýnis.

Ákærða ber meðal annars fyrir sig að taka áðurnefnds þvagsýnis hafi verið ólögmæt og því verði niðurstaða ekki á henni reist. Samkvæmt fyrrnefndri álitsgerð er unnt að skera úr um sakargiftir í 1. lið ákæru á grundvelli þess eins, sem ráðið verður af etanólstyrk í tveimur blóðsýnum úr ákærðu, og er því engin þörf á að styðjast við niðurstöðu mælingar á þvagsýni við úrlausn málsins. Af þeim sökum er ástæðulaust að taka afstöðu til málatilbúnaðar ákærðu að þessu leyti. Sem fyrr segir kom fram í álitsgerðinni að etanól í blóði ákærðu hafi verið um 1,50‰ á þeim tíma, sem lögreglu var tilkynnt um umferðaróhappið, og hafi styrkur þess þá verið fallandi, sem gefi til kynna að áfengisneyslu ákærðu hafi lokið meira en klukkustund fyrr. Þegar þessa er gætt ásamt því að bifreiðin var heit þegar lögregla kom á staðinn og ekkert vitni kannaðist við að hafa gefið ákærðu að drekka á vettvangi eða séð einhvern annan gera það verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu samkvæmt þessum ákærulið.

Ákærða er borin sökum í 2. og 3. lið ákæru um hafa haft í nánar tilteknum hótunum við nafngreinda lögreglumenn og sjúkraflutningamenn í tengslum við töku áðurgreinds þvagsýnis, svo og að hafa hrækt tvívegis í andlit eins lögreglumannsins. Fyrir liggur að ákærða neitaði um atbeina til sýnatöku og veitti mótspyrnu þegar valdi var beitt til að taka þvagsýnið. Ákærða kveðst hafa verið í áfalli eftir umferðarslys og brugðist við á þennan hátt vegna hræðslu, enda hafi henni fundist sem ráðist væri á sig og henni misþyrmt. Hún kunni við þessar aðstæður að hafa sagt eitthvað, sem engum hefði átt að detta í hug að taka mark á. Um þetta verður að gæta að því að ákærðu gat ekki dulist að þeir, sem hér um ræðir, voru að gegna skyldustörfum. Það er meginregla íslenskrar stjórnskipunar að enginn geti komið sér hjá því að hlýða yfirvaldsboði í bráð þótt hann vefengi heimildir stjórnvalda, sbr. 60. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt ákærða teldi sig hafa ástæðu til að draga í efa að heimilt væri að ganga svo langt sem raun ber vitni við sýnatöku veitti það ekki rétt til að leitast við að hindra framkvæmd hennar á þann hátt, sem ákærða gerði, sbr. einnig dóm Hæstaréttar í máli nr. 387/1993, sem birtur er í dómasafni 1994, bls. 813. Með þessum athugasemdum verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um þessa tvo ákæruliði.

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu og sviptingu ökuréttar verða staðfest.

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærðu gert að greiða samtals 354.922 krónur í sakarkostnað. Þar á meðal var kostnaður í tengslum við þvagsýni að fjárhæð 28.287 krónur, sem ákærða verður ekki látin bera í ljósi framangreindrar niðurstöðu. Í sakarkostnaðinum voru jafnframt meðtalin málsvarnarlaun verjanda ákærðu að fjárhæð 209.160 krónur, sem taka verður til endurskoðunar. Hæfilegt er að þau nemi 373.500 krónum að meðtöldum virðisaukaskatti. Verður ákærðu þannig gert að greiða samtals 490.975 krónur í sakarkostnað í héraði.

Ákærða verður dæmd til að greiða áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, allt eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.

Ákærða, María Bergsdóttir, greiði 490.975 krónur í sakarkostnað í héraði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 373.500 krónur, og allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 346.267 krónur, þar með talin málsvarnarlaun sama verjanda, 311.250 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 26. febrúar 2008.

Mál þetta, sem þingfest var þann 9. ágúst 2007 og dómtekið þann 5. febrúar sl., var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 26. júní 2007, á hendur Maríu Bergsdóttur, kt. 120771-4939, Langholtsvegi 18, Reykjavík,

fyrir eftirtalin brot aðfaranótt sunnudagsins 4. mars 2007:

1.                   Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni SL-493 undir áhrifum áfengis (1,43‰ í blóði) frá Hvolsvelli vestur Suðurlandsveg þar til ákærða missti stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar á móts við Þingborg.

2.                   Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa, á lögreglustöðinni á Selfossi, viðhaft hótanir í garð lögreglumanna A, B og C og sjúkraflutningsmannanna D og E, sem þar voru að sinna skyldustörfum en ákærða hótaði A, B, D og E lífláti og því að hún myndi slíta höfðuðið af börnum þeirra og þá hótaði ákærða C því að rífa úr henni legið.

3.                   Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa á sömu lögreglustöð, veist að framangreindum A og slegið hann í andlitið og síðar, er verið var að taka úr henni þvagsýni, hrækt tvisvar sinnum í andlit hans.

Brot ákærðu samkvæmt ákærulið 1 telst varða við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997, sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, en brot samkvæmt ákæruliðum 2 og 3 við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. lög nr. 44/1993, lög nr. 57/ 1997, lög nr. 23/ 1998, lög nr. 132/2003 og lög nr. 66/2006.“

                Ákærða mætti við þingfestingu málsins og neitaði að tjá sig um sakarefnið. Ákærða mætti aftur við fyrirtöku þann 22. ágúst 2007 ásamt verjanda sínum og játaði að hafa ekið bifreiðinni eins og greinir í ákærulið 1, en neitaði að hafa verið undir áhrifum áfengis eins og þar greinir, en hún kvaðst hafa drukkið tvö rauðvínsglös með mat um tveimur tímum áður. Ákærða neitaði sök varðandi ákærulið 2, en hún kvaðst hafa verið í sturlunarástandi á þeim tímapunkti. Ákærða neitar sök varðandi ákærulið 3, en hún kvaðst ekki muna eftir því tilviki, þar sem hún hafi verið í sturlunarástandi. Málinu var frestað til aðalmeðferðar til mánudagsins 12. nóvember. Undir aðalmeðferð málsins krafðist verjandi ákærðu þess að fá að leggja fram sjúkragögn auk þess að leiða sýslumann Árnessýslu sem vitni og jafnframt að leggja ákveðnar spurningar fyrir lækni sem vitni. Var þessu hafnað af dómara og var úrskurður um þau ágreiningsefni kveðinn upp þann sama dag. Verjandi ákærðu kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem kvað upp dóm þann 5. desember í kærumálinu nr. 625/2007. Fór framhalds aðalmeðferð fram þann 5. febrúar sl., og var málið dómtekið þann sama dag. Verjandi ákærðu krafðist sýknu og að málsvarnarlaun, auk vinnu við kæru til Umboðsmanns Alþingis, Ríkissaksóknara, Hæstaréttar og kostnaðar við öflun læknisvottorða, yrðu greidd úr ríkissjóði.

Málsatvik:

Í frumskýrslu lögreglu segir að tilkynning hafi komið frá Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra klukkan 2.21 þann 4. mars 2007 um umferðaróhapp á Suðurlandsvegi við Þingborg. Þegar lögregla kom á vettvang sást hvar bifreiðin SL-493 var utan vegar og ökumaður í bílstjórasæti. Í viðræðum við ökumann hafi fundist megn áfengislykt frá vitum hans. Þá hafi ökumaður sagst hafa fengið að drekka áfengi frá vegfarendum sem komu á vettvang og tilkynntu um umferðaróhappið en hún gat ekki greint frá því hvað hún hefði drukkið. Þá hafi vegfarendur sem komu að umferðaróhappinu verið á vettvangi og voru nöfn þeirra tekin niður. Þá kemur fram að blóðsýni var tekið úr ökumanni klukkan 2.37 en við öndunarpróf með SD-2 mæli, sem ökumaður blés í, hafi niðurstaðan verið 1,30‰. Í framhaldi var ákærða færð á lögreglustöð til frekari sýnatöku. Á lögreglustöðinni var ákærða beðin um að gefa þvagsýni en hún neitaði því alfarið. Í framhaldi var hún færð í fangaklefa og þvagsýni tekið þar af henni af lækni og hjúkrunarfræðingi ásamt lögreglu. Þá var aftur tekið blóðsýni úr ákærðu klukkan 4.13 um nóttina og var ákærða þá með hótanir í garð lögreglumanna og sjúkraflutningamanna.

Skýrslur fyrir lögreglu og dómi.

Ákærða gaf skýrslu eftir dvöl í fangageymslu klukkan 12.07 þann 4. mars 2007. Kvaðst hún hafa verið að koma frá Hvolsvelli og ætlað til Reykjavíkur en misst stjórn á bifreiðinni í hálku. Kvaðst hún aðspurð hafa drukkið eitt rauðvínsglas um klukkan átta til níu um kvöldið. Aðspurð hvort hún hefði drukkið áfengi eftir að akstrinum lauk kvaðst hún hafa fengið sopa af einhverjum vökva hjá ungum drengjum sem komu að henni eftir að hún hafnaði utan vegar. Kvaðst hún ekki vita hvaða vökvi þetta var né geta útlistað hversu mikið hún hafi drukkið. Þá lýsti ákærða því yfir að hún væri mjög ósátt við að hafa verið beitt valdi til þess að fá frá henni þvagsýni.

Ákærða gaf aftur skýrslu hjá lögreglu þann 24. maí 2007. Aðspurð kvað hún konu hafa fyrst komið á slysstað en hún hefði yfirgefið hann áður en strákarnir þrír komu að. Aðspurð hvort hún hafi þegið eitthvað að drekka frá þeirri konu, kvaðst ákærða ekki muna það. Ákærða kvaðst hafa fengið eitthvað að drekka á staðnum en hún hefði vankast við að bifreiðin hafnaði á skurðbakka og því geti hún ekki fullyrt hver hefði veitt henni drykk. Ákærðu voru kynntar niðurstöður alkóhólrannsóknar á þvagi og blóði og spurð hvort hún hefði einhverjar skýringar á því magni sem þar fannst. Kvaðst hún eingöngu hafa þá skýringu að það hafi verið ótti hennar og skelfing við ofbeldi lögreglumannanna sem hafi orsakað það að alkóhól í líkamanum margfaldaðist og séu því ómarktækar þær sýnatökur sem voru gerðar, hún hefði verið allsgáð við aksturinn. Aðspurð um að hafa slegið lögreglumann í andlitið fyrir sýnatökurnar og hótað lögreglu- og sjúkraflutningamönnum lífláti sem og börnum þeirra kvaðst ákærða ekki muna til þess að hafa haft uppi neinar hótanir né slegið nokkurn mann. Ákærða kvaðst fúslega hafa gefið leyfi á slysstað til að láta taka úr sér blóðsýni en lögreglumaður, sem hafi komið á slysstað og hafi verið inni í sjúkrabifreiðinni, hefði sýnt sér, að ástæðulausu, dónaskap og hroka. Sá hinn sami hefði síðan ekið henni á lögreglustöðina.

Ákærða kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið í matarboði fyrir austan sem hefði endað með því að hún hefði ekið öðrum matargestum á dansleik á Hvolsvöll. Ákærða kvaðst ekki hafa farið á dansleikinn en ætlað að aka til Reykjavíkur. Þegar hún var nærri komin að Selfossi hefði komið ísing á veginn  og bíllinn byrjað að renna til og ákærða misst hann út af. Ákærða kvaðst ekki muna neitt fyrr en að sér komi kona og síðan drengir og loks sjúkraflutningamenn og lögregla. Aðspurð kvaðst ákærða hafa drukkið tvö glös af rauðvíni fyrr um kvöldið en um tvær klukkustundir hafi liðið frá því hún neytti áfengis og þar til að hún hóf aksturinn. Aðspurð um það hvort hún hefði neytt áfengis eftir að akstri lauk kvaðst ákærða ekki vita það en henni hafi verið gefið eitthvað að drekka á slysstað en hún viti ekki hvort áfengi var í því eða ekki en það hafi verið einhverjir af þeim vegfarendum sem komu á vettvang sem veittu henni það. Aðspurð kvaðst ákærða hafa verið það vönkuð eftir útafaksturinn að hún viti ekki hvort það hafi verið karl- eða kvenkyns aðili sem gaf henni að drekka. Aðspurð um það hvort hún viti til að hún hafi drukkið eitthvað kvaðst ákærða halda það. Ákærða kvaðst ekki muna hversu langur tími leið frá því að bifreiðin fór út af og þar til fyrstu vegfarendur komu að, kannski tíu mínútur, kannski tuttugu mínútur, hún kvaðst ekki muna það. Aðspurð hversu langt hefði liðið frá því að hringt var á lögreglu og þar til hún kom kvaðst ákærða heldur ekki muna það, kannski hálftími, kannski þrjú korter, kannski klukkustund.

Aðspurð um það hvort hún hafi beðið vegfarendur um að hafa ekki samband við lögregluna á slysstað kvað ákærða það vel geta verið þar sem hún hafi ekki góða reynslu af lögreglunni. Ákærða kvaðst hafa verið færð úr bifreið sinni yfir í sjúkrabifreiðina þar sem hún var fyrst beðin um að blása í mæli og síðan beðin um að gefa blóðsýni, sem hafi verið sjálfsagt. Þá hefði annar þeirra lögreglumanna sem voru á svæðinu byrjað að vera leiðinlegur, með hroka og hún neitað að tala við hann. Ákærða kvað engan lækni né annan hafa skoðað sig á vettvangi með tilliti til hugsanlegra áverka eftir útafkeyrsluna. Eftir blóðsýnatökuna hafi hún verið færð yfir í lögreglubifreið og henni ekið á  lögreglustöð og jafnframt hefði verið beðið um lækni, þar sem hún hefði hafnað því að gefa þvagsýni, en hún hefði viljað frá lögmann, sem henni hefði verið synjað um. Ákærða kvaðst hafa verið mjög hrædd á þessum tímapunkti og ekki muna eftir orðaskiptum inni í skrifstofuherberginu á lögreglustöðinni. Ákærða kvaðst muna eftir því að hún hafi verið beðin um að gefa þvagsýni sjálfviljug og hún ekki mótmælt því en sér hefði ekki verið mál að pissa og hún hefði viljað hafa samráð við lögmann áður. Ef hann segði henni að hún þyrfti samkvæmt lögum að gefa þvagsýni þá hefði hún gert það en ekki hafi verið hægt að bíða eftir því. Aðspurð kvaðst ákærða bara muna eftir því að allt í einu hefði herbergið fyllst af einkennisklæddum mönnum og hún verið rifin upp af staðnum og farið með hana niður einhvern þröngan stiga og inn í klefa þar sem henni hafi verið skellt niður og þvagleggur settur upp og eftir það muni ákærða ekkert. Ákærða kvaðst ekki muna eftir því að hafa haft í hótunum í umrætt sinn né að hafa hrækt framan í lögreglumann. Ákærða kvað síðan nokkru seinna um nóttina hafa verið ráðist að sér og hún snúin niður, hún hafi fengið hné í bakið og blóð verið tekið úr henni. Aðspurð um orðaskipti milli ákærðu og annarra í herberginu í það sinnið kvaðst ákærða ekki muna neitt hvað gerðist. Ákærða kvaðst vera 75% öryrki með ónýta hægri hlið og hafa fengið slæmt höfuðhögg fyrir nokkrum árum. Aðspurð af verjanda um þá háttsemi að hafa hrækt framan í lögreglumann, neitaði ákærða því en lýsti upplifun sinni af þvagsýnatökunni svo: „Hann heldur mér og horfir framan í mig.  Hann er að kíkja við og sjá hvort að það sé eitthvað að ganga sem er að gerast þarna að neðan verðu.  Hann horfir framan í mig og rétt áður þessu röri er stungið inn þá segir hann,  og hvað í síðasta sinn ætlar þú að míga fyrir okkur, með þetta glott framan í sér.“ Aðspurð frekar út í orðaskipti milli ákærðu, lögreglumanna og sjúkraflutningamanna kvaðst ákærða ekkert muna. Ákærða mundi þó að henni hafi ekki verið kunnugt um að læknir hafi verið á staðnum og ef svo hafi verið þá hefði hann ekki sagt orð við sig. Þá mundi ákærða einnig eftir aðferð lögreglunnar við að ná henni úr fötunum við þvagsýnatökuna og að hafa látið lögregluna vita af því að hún væri öryrki.  Þá mundi ákærða eftir því að hafa ætlað að hringja í F, þegar kom að því að taka þvagsýni af henni, til að fá einhverja hjálp. Ákærða mundi þá aðspurð að það hefði verið sami lögreglumaðurinn sem stjórnaði sýnatökunni og hafði sýnt henni dónaskap en að ungur lögreglumaður hefði sýnt sér kurteisi, fengið kennitölu hennar og annað en ekki getað gert neitt því annað væri á valdi varðstjórans.

Vegna mistaka við upptöku á skýrslu ákærðu gaf hún aftur skýrslu fyrir dóminum og voru sömu spurningar lagðar fyrir hana. Við upprifjun á drykkju sinni eftir að bifreið hennar fór út af, aðspurð af verjanda sínum, kvaðst ákærða muna eftir því að hún hafi verið þyrst og hún mundi eftir því að henni var rétt flaska. Ákærða kvaðst ekki muna hvað hún drakk, hvort hún drakk hálfa flösku eða fulla flösku, hún mundi bara að hún drakk vel úr henni. Spurð ítrekað kvaðst ákærða muna það fyrir víst að hún hafi verið þyrst og drukkið mikið. Þá kvaðst ákærða viss um að fyrst hefðu stúlkur komið að og síðan strákar og það hafi verið þessar stúlkur sem gáfu henni vín. Annað virtist ákærða ekki muna af vettvangi. Þá kvað ákærða um hálftíma til fjörutíu og fimm mínútur hafa liðið „eða eitthvað svoleiðis“ frá því að þessar stúlkur gáfu henni vín að drekka og þar til lögreglan kom.     

A, kt. [...], varðstjóri, gaf skýrslu fyrir lögreglu. Kvaðst hann hafa verið staddur á lögreglustöðinni á Selfossi þegar tilkynning barst um umferðarslys á Suðurlandsvegi. Hefði hann, ásamt B, ekið með forgangsljósum á vettvang. Hefðu þeir komið á staðinn um fimm mínútum eftir útkallið, rétt á undan sjúkrabifreiðinni. Hefði bifreið ákærðu verið utan vegar með framendann í skurði sem lá samsíða veginum. Þrír piltar hafi verið á vettvangi auk eldri manns. Hafi myrkur verið og mjög hált vegna ísingar. Í bifreiðinni hefði kona setið undir stýri og tveir hundar verið auk hennar í bifreiðinni. Vél bifreiðarinnar hefði ekki verið í gangi en ljós hennar logað. Hefðu dyr bifreiðarinnar verið opnaðar til að ræða við ákærðu og hefði bifreiðin verið heit, en áfengislykt hefði lagt frá vitum ákærðu auk þess sem hún hafi borið sjáanleg einkenni um ölvun. Aðspurð kvaðst ákærða vera ómeidd en sjúkraflutningamenn, sem komu á vettvang skömmu eftir komu lögreglu, hlúðu að konunni og færðu hana yfir í sjúkrabifreiðina. Eftir að sjúkraflutningamennirnir höfðu framkvæmt líkamsskoðun á konunni hefðu þeir talið að hún væri ekki slösuð. D hjúkrunarfræðingur hefði tekið blóðsýni úr konunni í sjúkrabifreiðinni að beiðni lögreglu og eftir sýnatökuna hefði ákærða verið færð yfir í lögreglubifreiðina. Á leiðinni á lögreglustöðina hefði ákærða talað um að hún hefði fengið sopa frá einhverjum mönnum sem hafi verið á vettvangi. Áður en á lögreglustöðina var komið hefði ákærða verið orðin frekar viðskotaill þar sem hún hefði ekki fengið að hafa handtöskuna sína en henni hafði verið tilkynnt að hún væri handtekin. Þegar á lögreglustöðina kom hefði ákærða fengið farsímann sinn til að hringja í lögfræðing en ekki fundið nafn á lögmanni sem hún þekkti og þá ekki viljað frekari aðstoð lögmanns. Kvað hann ákærðu hafa verið gerð grein fyrir því að hún yrði að gefa þvagsýni vegna rannsóknar málsins. Hún hefði frá upphafi neitað því og sagt að það yrði að taka það með valdi. Ákærða hefði ekki látið undan fortölum þeirra aðila sem unnu að afgreiðslu málsins á lögreglustöðinni heldur hafi verið með æsing og ofstopa í skrifstofuherbergi því sem henni hafði verið vísað í á stöðinni. Kvað A að ákærða hefði fyrirvaralaust og án tilefnis slegið hann föstu höggi með handarbaki hægri handar og hefði höggið hafnað á hægra gagnauga hans. Auk þess hefði hún hótað honum, lækninum og þeim sem voru staddir inni í skrifstofuherberginu dauða. Hún hefði hótað að myrða þá sem þar voru og slíta höfðuðið af börnum þeirra. Þessar hótanir hefði ákærða viðhaft án þess að verið væri að beita hana valdi á nokkurn hátt og án tilefnis. A kvað, að þar sem ljóst var að þvagsýni yrði ekki fengið frá konunni með góðu, hefði hún verið færð niður í fangaklefa þar sem þvagsýni hefði verið tekið með valdi. Kvaðst A hafa haldið niðri efri hluta líkama ákærðu og snúið baki í lækninn og hjúkrunarfræðinginn sem önnuðust þvagtökuna. Lögreglukona hefði haldið fótum konunnar á meðan en ákærða hefði reynt af mætti að hindra þvagtökuna. A kvað að á meðan hann hélt ákærðu hefði hún áréttað að hún myndi myrða hann og hefði hún haft uppi ófagurt orðbragð auk þess að reyna að bíta hann en henni hefði tvisvar tekist að hrækja í andlit hans á meðan á þvagtökunni stóð. A kvaðst vera fjölskyldumaður og faðir og hafi hótanir ákærðu vakið með honum óhug og telji hann að öryggi sínu og sinna hafi verið ógnað auk þess sem hann telji sig ekki þurfa að sæta tilefnislausu ofbeldi við störf sín.

A kom fyrir dóminn og kvað lögregluna hafa fengið tilkynningu gegnum Fjarskiptamiðstöðina um að bíll hefði farið út af veginum á Flóavegi skammt við Þingborg. Lögreglan hefði farið strax á vettvang og séð bifreið úti í skurði eða ræsi sem væri samsíða þjóðveginum. Á vettvangi hafi verið tveir bílar aðrir og fólk þar í kring. Sjúkrabifreið kom í sömu mund á vettvang. Ökumaður, sem var kona, var á staðnum og var hún innt eftir því hvort allt væri í lagi með hana, og hún hefði játað því. Kvaðst hann hafa strax fundið áfengislykt af henni. Konan hefði í framhaldi verið færð inn í sjúkrabifreiðina þar sem blóðsýni hefði verið tekið úr henni. Ekkert athugavert hefði fundist við skoðun á konunni í sjúkrabifreiðinni. Í framhaldi hefði konan verið færð inn í lögreglubifreiðina og henni ekið á Selfoss. Aðspurður um ástand vélarinnar í bifreiðinni kvað A bifreiðina hafa verið heita þegar þeir komu á vettvang. Hann hefði komið við pústið á bifreiðinni, sem hefði verið heitt, og það hafi verið heitt inni í bifreiðinni en þar hefðu tveir litlir hundar einnig verið. Kvað hann konuna hafa sagt þeim að einhver hefði gefið henni eitthvað að drekka á vettvangi þegar þeir inntu hana eftir áfengislyktinni af henni. Aðspurður kvað hann ákærðu hafa verið rólega og yfirvegaða í upphafi, kurteisa og ekkert út á hana að setja. Í framhaldi hefði ákærða verið færð yfir í lögreglubifreiðina og á leiðinni til Selfoss hefði henni verið gerð grein fyrir framhaldi málsins, það er að taka þyrfti tvö blóðsýni úr henni auk þvagsýnis. Í framhaldi þyrfti að vista ökumann í fangageymslu til skýrslutöku daginn eftir. Ákærða hefði smátt og smátt virst verða ósátt á leiðinni til Selfoss. A kvaðst hafa haldið á tösku ákærðu inn á lögreglustöðina og hún verið ósátt við það. Hann hefði kynnt henni rétt hennar og rétt til þess að fá verjanda en hún hefði viljað sjá um það sjálf. Þegar inn var komið hefði ákærða fengið farsímann sinn til að hringja og talað um eitthvert nafn á einhverjum lögfræðingi, sem hún vissi reyndar ekki meira um. Ákærða hefði hringt eitthvað til að láta vita af sér en vildi síðan ekki þiggja frekari aðstoð til að fá lögfræðing. Í framhaldi var henni gerð grein fyrir því að taka þyrfti hjá henni þvagsýni en hún harðneitað að láta það af hendi. Þá hafi verið búið að kalla til lækni en það hafi verið sama hver talaði við hana, hann sjálfur, aðrir lögreglumenn, læknirinn eða hjúkrunarfólk, það hafi  ekki verið við það komandi að ákærða gæfi þvagsýni en ítrekað hafi verið leitað eftir samþykki hennar fyrir því í upphafi. Aðspurður kvað hann að ekki hafi verið hægt að sjá neitt annað en að ákærða hafi gert sér fulla grein fyrir því um hvað málið snerist. Kvað hann ákærðu hafa verið orðna æsta inni á skrifstofunni og hún haft í hótunum við þá sem þar voru, bæði lögreglu og sjúkraflutningafólk. Ákærða hafi slegið til A, meðal annars með töskunni í höfuð hans, og hótað fólki líkamsmeiðingum eða að hún myndi útvega fólk til þess að valda mönnum líkamsmeiðingum og fjölskyldum þeirra og annað slíkt. A kvað ákærðu hafa sagt við lögreglukonuna að hún ætlaði að sjá um að slíta úr henni legið. Kvaðst hann muna eftir því sérstaklega. Þá hefði ákærða haft almennar líkamsmeiðingar í hótunum gagnvart fjölskyldu hans. A kvaðst eiga börn og maka og almennt geri lögreglumenn ekki mikið mál úr því þó að fólk sé eitthvað „fornemað“ við lögregluna og kasti einhverju svona fram gagnvart þeim sjálfum sem embættismönnum, en þegar hótanir séu farnar að beinast gegn fjölskyldu fólks og farið að persónugera þær þá sé þeim ekki sama um slíkt. Kvað hann þessar hótanir hafa komið frá ákærðu þegar verið var að reyna að fá hana með góðu til að gefa þvagsýni. Á þeim tímapunkti hefðu hann, B, annar lögreglumaður, læknirinn, hjúkrunarkonan og  C lögreglumaður verið á skrifstofunni. Aðspurður um þá háttsemi að ákærða sló hann kvað hann ákærðu hafa verið komna með töskuna sína í hendur og hafi hún sveiflað henni og höggið lent hægra megin á enni hans eða gagnauga. „Það var svo sem ekki fast, mér varð ekkert meint af því,“ sagði A. „En það lýsti ásetningi hennar og því að það þótti full ástæða til að taka alvarlega orð hennar sem hún hafði gagnvart líkamsmeiðingum, bæði gagnvart okkur og fjölskyldum okkar.“ Vitnið kvað þarna fullreynt hafa verið að fá ákærðu til að gefa þvagsýni með góðu svo hún hefði verið færð með aðstoð C niður í fangaklefa þar sem hún var lögð á bekk með laki undir. Læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn hefðu séð um sýnatökuna en hann hefði haldið höndum ákærðu og snúið baki í neðri hluta líkama hennar. C hefði haldið fótum ákærðu en læknir og hjúkrunarfræðingur séð um sýnatökuna sjálfa. Ákærða hefði tvisvar eða þrisvar hrækt framan í hann á meðan á sýnatökunni stóð. Þá hafi ákærða verið mjög æst og fundist þetta mikið inngrip í sig persónulega en það hafi allir verið miður sín yfir þessu. Ákærða hefði haldið hótunum áfram á meðan á sýnatökunni stóð og sagst ætla að fá fólk til þess að valda A líkamsmeiðingum ásamt fjölskyldu hans. Ákærði kvað það verklagsreglur lögreglunnar að þegar ökumenn eru teknir fyrir ölvunarakstur en hafa ekki verið staðnir að akstrinum þá beri lögreglu að taka tvö blóðsýni með klukkustundar millibili og eitt þvagsýni. A kvað, aðspurður af verjanda, að við aðstæður sem um var að ræða í þessu tilviki, þar sem bifreið hafði runnið út af í hálku og engir áverkar væru sjáanlegir á ökumanni, væri ekki venjan að fara fyrst með ökumenn á sjúkrahús vegna gruns um heilablæðingu eða heilaáverka áður en rannsókn lögreglu hæfist. Þá kvaðst A einnig vera menntaður sem sjúkraflutningamaður og hann hafi ekki talið að ákærða hafi verið í sturlunarástandi á meðan á þvagsýnatökunni stóð.

B, kt. [...], lögreglumaður gaf skýrslu hjá lögreglu. B kvaðst hafa farið á vettvang ásamt A þegar tilkynnt var um umferðaróhappið á Suðurlandsvegi við Þingborg. Á vettvangi hefði bifreið verið utan vegar og ákærða setið undir stýri. Afturljós bifreiðarinnar hafi logað og ljós verið í mælaborðinu en vél bifreiðarinnar hafi ekki verið í gangi. B kvaðst hafa rætt við ákærðu og fundið að áfengislykt lagði frá henni en hún hafi verið að reykja þegar hann kom að henni. Skömmu síðar hefðu sjúkraflutningamenn komið að og kannað meiðsl á ákærðu en hún hefði verið færð yfir í sjúkraflutningabifreiðina. Ákærða hefði virst ómeidd og hefði blóðsýni verið tekið úr henni á staðnum. Eftir sýnatökuna hefði ákærða verið færð yfir í lögreglubifreiðina og hefði B og A ekið henni á lögreglustöðina á Selfossi og þar inn í skrifstofuherbergi. Á lögreglustöðinni hefði A tekið af ákærðu handtösku sem hún hafi verið með en ákærða hefði þá slegið til A en B kvaðst ekki hafa séð hvort höggið hefði komið í andlit A eða ekki. Ákærða hefði neitað staðfastlega að gefa þvagsýni og hefði orðið alveg ljóst að þvagsýni yrði ekki fengið nema með valdi og hefði ákærða því verið færð af lögreglumönnunum A og C niður í fangaklefa þar sem hún hefið verið sett á bekk. Kvaðst B síðan hafa farið fram á gang utan við fangaklefann og ekki séð hvernig staðið var að þvagsýnatökunni en þegar hann hefði litið inn í klefann við upphaf sýnatökunnar hefði hann séð hvar A hélt efri hluta ákærðu og snúið að andliti hennar en C haldið fótum hennar. Læknir og sjúkraflutningamaður hefðu þá verið að undirbúa þvagtökuna. B kvaðst muna að ákærða hefði viðhaft hótanir í garð lögreglumanna og verið með ljótan munnsöfnuð, bæði í skrifstofuherberginu og í fangaklefanum, og hótað nærstöddum meðal annars að slíta höfuð af börnum þeirra. Ákærða hefði hins vegar ekki beint hótunum sínum að honum né hann tekið því þannig. B kvaðst hafa farið nokkru síðar aftur í fangaklefann ásamt öðrum lögreglumanni til að taka aðra blóðprufu úr ákærðu. Þá hefði ákærða verið ósamvinnufús og hefðu tveir lögreglumenn þurft að halda henni á meðan blóðprufan var tekin en ákærða hefði barist um á meðan.

B kom fyrir dóminn og lýsti aðkomu sinni að málinu þannig að hann hefði fengið boð um útkall vegna umferðaróhapps og útafkeyrslu á Suðurlandsvegi.  Á vettvangi hefði kona setið undir stýri og strax við afskipti af henni hefði hann fundi áfengislykt af henni. Kvað hann bifreiðina ekki hafa verið mikið skemmda að sjá en konan hafi verið í sjokki þegar hann kom að henni. Hún hafi verið róleg þegar talað var við hana, áfengislykt hefði komið frá henni, hún hefði blásið í öndunarmæli, sem hefði sýnt skýra svörun, og hefði samþykkt að gefa blóðsýni á vettvangi. Ekkert á vettvangi hefði bent til þess að áfengis hefði verið neytt eftir að akstri lauk. Kvað B ökuljós hafa logað á bifreið ákærðu þegar þeir komu á staðinn. B kvaðst ekki hafa haft afskipti af öðrum á vettvangi, hann hefði verið inni í sjúkrabifreiðinni með ákærðu. Kvað B ákærðu hafa verið rólega í sjúkrabifreiðinni en hún hefði byrjað að æsa sig í lögreglubifreiðinni á leiðinni til Selfoss vegna þvagsýnis sem henni hefði verið tjáð að þyrfti að taka. Þá kvað hann ákærðu hafa nefnt það á leiðinni að hún hefði fengið að drekka hjá vegfaranda. Þegar komið var inn  á lögreglustöðina hefði ákærða verið orðin mjög æst og orðljót. Kvaðst B hafa setið og rætt við hana en ákærða hefði æst mjög mikið. Hefði hún sagst ætla að skjóta þá á færi. Þá kvaðst B hafa séð að ákærða sló til A með veskinu sínu en hann hafi ekki séð hvort veskið fór í andlitið á honum eða ekki. Aðspurður kvaðst B hafa heyrt ákærðu hóta því að slíta höfuðið af börnum þeirra en þeirri hótun hafi verið beint að þeim öllum. B kvaðst ekki hafa heyrt ákærðu hóta því að slíta legið úr C. Þetta hafi verið áður en til kom að færa hana niður til þvagsýnatökunnar. B kvað óhug hafa sett að sér og setið í sér hversu orðljót ákærða hefði verið. Hann eigi sjálfur barn og sé ekki sama þegar slíkt orðbragð sé viðhaft. B kvað ákærðu síðan hafa verið leidda niður í fangaklefa til þvagsýnatökunnar en hann hefði ekki verið inni í klefanum á meðan. Kvaðst hann hafa heyrt öskur og læti úr klefanum, þar sem hann stóð fyrir utan, en ekki orðaskipti. B kvaðst hafa farið í klefann til ákærðu til að taka seinna blóðsýnið. Ákærða hefði brugðist illa við og reynt að slá frá sér. Því hefði þurft að taka hana með valdi niður í gólfið og halda handleggjunum á henni til þess að hægt væri að taka blóðsýnið úr henni. Annar lögreglumaður hefði verið viðstaddur ásamt hjúkrunarfræðingi sem tók blóðsýnið. Ákærða hefði legið á maganum og lögreglumennirnir haldið handleggjunum á henni út til hliðanna svo hægt væri að taka blóð úr henni.  Þá hefði ákærða verið ógnandi í klefanum en hún hefði verið mjög æst. B kvað það verklagsreglu, þegar grunur sé um ölvunarakstur en ökumaður ekki staðinn að akstri, að taka þvagsýni og mildustu úrræðum sé ávallt beitt. Loks kvaðst B hafa upplifað hótanir ákærðu sem hótanir til þeirra allra sem í herberginu voru en ekki að þeim hafi verið beint sérstaklega að einu þeirra.

C varðstjóri gaf skýrslu fyrir lögreglu. Kvaðst hún hafa aðstoðað C við að leiða ákærðu niður í fangaklefa. C hefði ítrekað boðið ákærðu að gefa þvagsýni með góðu svo ekki þyrfti að koma til valdbeitingar en ákærða hefði neitað því alfarið og svarað með skætingi. Ákærða hefði verið lögð á bakið á dýnu í fangaklefanum og hefði C haldið fótum hennar en ákærða hefði ítrekað reynt að sparka í þá sem í fangaklefanum voru. A hefði haldið efri hluta ákærðu og snúið baki í C allan tímann. C kvaðst hafa heyrt ákærðu hrækja í andlit A en ekki séð það þar sem A sneri baki í hana. Kvað hún ákærðu hafa barist um og bölvað allan tímann sem þvagsýnatakan stóð. C kvað sig og A hafa farið síðust út úr fangaklefanum eftir þvagsýnatökuna og þá hefði ákærða sagt við sig að hún ætti að láta rífa úr sér legið því það væri vont ef „svona fólk“ fjölgaði sér. Þá hefði ákærða verið búin að hóta því að draga legið úr C áður en hún var flutt niður í fangaklefann. Þeirri hótun hefði verið beint að C.

C kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið að ofangreindu máli þegar ákærða var komin inn í skrifstofuherbergi á lögreglustöðinni en A hefði beðið hana um að ræða við ákærðu til að kanna hvort ekki væri hægt að fá hana til að vera samstarfsfúsa. Kvaðst C hafa beðið ákærðu um að gefa sýni sjálfviljug því hjá sýnatöku yrði ekki komist en ákærða neitað því strax. Kvað hún ákærðu hafa smám saman orðið orðljótari og sagst ætla að rífa úr henni legið. Þá hefði ákærða viðhaft sömu orð þegar C var viðstödd þvagsýnatökuna í fangaklefanum. C kvaðst ekki hafa heyrt ákærðu vera með sérstakar hótanir til annarra lögreglumanna í skrifstofuherberginu en menn hefðu verið að koma inn og út úr herberginu.  C kvað marga hafa komið að og ítrekað reynt að fá ákærðu til að gefa þvagsýni með góðu en hún hefði þverneitað og að lokum hefði verið tekin ákvörðun um að ná í þvagsýnið eftir öðrum leiðum. Ákærða hefði ekki verið mjög æst til að byrja með en þegar þau voru komin með hana niður í fangaklefann hefði ákærða verið orðin mjög æst en ekki í sturlunarástandi. C kvaðst hafa heyrt ákærðu ræskja sig og hrækja en hún hefði ekki séð hvar hrákinn lenti. Hún hefði hins vegar heyrt A biðja ákærðu að vera ekki að hrækja á sig. C kvað sér hafa fundist hótanir ákærðu í sinn garð óþægilegar þar sem þeim var beint gegn henni persónulega. Þá kvaðst hún ekki hafa verið allan tímann með ákærðu, hún hafi verið að koma og fara. C kvaðst aðspurð ekki hafa kannað líkamlegt eða andlegt ástand ákærðu á staðnum þegar hún ræddi við hana, hún hefði hins vegar vitað að sjúkralið hefði komið á vettvang og kannað ástand ákærðu. Aðspurð kvaðst C hafa haldið fótum ákærðu við þvagsýnatökuna til að ákærða skaðaði ekki aðra. Þvagsýnatakan hefði síðan alfarið verið í höndum læknis og hjúkrunarfræðings. 

D, kt. [...], sjúkraflutningamaður og hjúkrunarfræðingur, gaf skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst hún hafa farið í umrætt útkall ásamt E á sjúkrabifreið og ekið á forgangshraða. Kvað hún þrjá pilta hafa verið á vettvangi en hún hefði farið að bifreiðinni þar sem kona sat undir stýri. Hún hefði opnað ökumannsdyrnar og hefði fundið að það var ylur í farþegarými bifreiðarinnar en hún taldi að dautt hafi verið á vélinni. Konan hefði virst undir áhrifum áfengis og hefði verið áfengislykt af henni. Kvað D að eftir að konan hefði verið skoðuð með tilliti til áverka og það mat fengið að hún væri ómeidd, við fyrstu skoðun, hefði konan verið færð yfir í sjúkrabifreiðina. Þar hefði konan verið skoðuð enn frekar og hún virst ómeidd. Síðan hefði hún tekið blóðsýni úr konunni og eftir það hefði konan verið færð yfir í lögreglubifreiðina. D kvað þau E síðan hafa farið með sjúkrabifreiðina að lögreglustöðinni þar sem aðstaða bifreiðarinnar væri, til að gera hana klára fyrir næsta útkall. Þá hefðu þau fengið beiðni frá lögreglunni um að taka annað blóðsýni. D hefði því farið inn á lögreglustöð og inn í skrifstofuherbergi þar sem ákærða hefði setið á stól. Lögreglumenn hafi einnig verið þar inni og hefðu verið að biðja ákærðu um að gefa þvagsýni en hún hefði harðneitað því. Kvað hún lögreglumennina hafa þrábeðið ákærðu að gefa þvagsýni með góðu en hún hefði gert þeim alveg ljóst að hún myndi ekki gefa þvagsýni með góðu. Þá hefði ákærða farið að hafa í hótunum við þá sem voru inni í herberginu og hefði hún hótað D að ákærða myndi hafa uppi á börnum hennar og slíta höfuðið af þeim auk þess sem hún hefði kallað D „tussu og helvítis hóru“ og fleira. Einnig hefði hún hótað lögreglukonu að nafni C að hún myndi slíta úr henni legið og fleira í þeim dúr. Í framhaldi hefði verið farið með ákærðu niður í fangaklefa þar sem þvagsýni hefði verið tekið úr henni með valdi. D kvaðst ekki hafa séð ákærðu hrækja í andlit A þar sem D hefði snúið baki í andlit ákærðu en A snúið að andliti ákærðu. Nokkru síðar hefði D farið á ný í fangaklefann til ákærðu og tekið annað blóðsýni. Lögreglumenn hefðu þurft að halda konunni fastri á gólfinu á meðan blóðsýnið var tekið úr handlegg konunnar og þá hefði ákærða einnig verið með hótanir í garð hennar og lögreglunnar og þar hefði ákærða áréttað að hún myndi slíta höfuðið af börnum hennar. D kvaðst eiga barn og hefðu því hótanir konunnar haft slæm áhrif á sig í nokkra daga á eftir og hefði sér fundist öryggi sínu og barnanna ógnað verulega vegna þessa.

D kom fyrir dóminn. Kvaðst hún starfa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands.  D kvaðst hafa farið á vettvang umrætt sinn og ekið sjúkrabifreiðinni. Mikil hálka hafi verið og myrkur. Þegar hún kom á vettvang hefði hún metið ytri aðstæður svo að bifreið ákærðu hefði runnið út af í hálku því ekki hafi verið mikil verksummerki í kring. Kvað hún í tilviki sem slíku aðstæður vera metnar, hvort einhver ummerki væru á framrúðu bifreiðar sem gæfu til kynna að eitthvað hefði skollið í hana. Þá kvað hún ákveðna frumskoðun felast í því að ræða við fólk og sjá hvernig viðbrögð þess séu, horft sé eftir líkama fólks og kannað hvort sjáanlegir áverkar séu. Síðan sé fólk beðið að koma inn í sjúkrabifreiðina til nánari skoðunar og svo hafi verið gert í þessu tilviki. Ekkert athugavert hafi verið við ákærðu utan að mikla áfengislykt hefði lagt frá vitum hennar. Því hefði verið ákveðið að taka blóðsýni úr henni strax, eins og ætíð sé gert sé grunur um ölvun við akstur. Í samtali við ákærðu minnti D að ákærða hefði sagt einhverja stráka hafa gefið sér að drekka eftir að akstri lauk. Kvað D niðurstöðu skoðunar sinnar hafa verið þá að ekki hafi þurft sjúkrabifreið til að flytja hana á Selfoss. Því hefði hún að lokinni skoðun og sýnatöku verið færð yfir í lögreglubifreiðina. Í þessari skoðun felist hins vegar ekkert mat á því hvort einhver einkenni geti komið fram síðar, sem sé ekki óalgengt, og leiti fólk þá í framhaldi til heilsugæslu. Aðspurð um það hvort ákærða hafi virkað vönkuð eða illa áttuð á slysstað, kvað D að sér hafi fundist ákærða bara vera drukkin. D kvaðst hafa hitt ákærðu aftur á lögreglustöðinni síðar um nóttina og þá hefði hún verið æstari en á slysstað. D kvað löngum tíma hafa verið varið í að fá ákærðu til að gefa þvagsýni en hún hefði neitað. Kvaðst hún sjálf hafa lagt lögreglunni lið í að fá ákærðu til að samþykkja sýnatökuna. Kvað hún ákærðu hafa verið mjög æsta og erfitt að ræða við hana. D kvaðst ekki muna eftir neinum sérstökum orðaskiptum í skrifstofuherberginu. D kvað ákærðu, á meðan á þvagsýnatökunni stóð, hafa spurt sig öskrandi hvort hún ætti börn. D kvaðst engu hafa svarað og  þá hefði ákærða  sagt við sig að hún ætlaði að finna þau og slíta af þeim hausinn og drepa börnin hennar.  Þetta hefði hún endurtekið nokkrum sinnum. Þá kvaðst D hafa heyrt ákærðu vera með hótanir við C. D kvað þetta hafa slegið sig mjög og fundist þessar hótanir ógnandi. D kvaðst hafa heyrt ákærðu hrækja í umrætt sinn og sig minnti að hún hefði hrækt á A en kvaðst ekki hafa séð það. D kvaðst hafa verið við seinni blóðsýnatökuna en þá hefði þurft að halda ákærðu niðri. Kvað hún ákærðu hafa viðhaft sömu hótanir þá og hún hafði viðhaft við þvagsýnatökuna. Þá hefði ákærða einnig sagst ætla að rífa legið úr C eða móðurlífið. Það hefðu verið ógnandi hótanir. 

E, kt. [...], sjúkraflutningamaður gaf skýrslu hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa komið á vettvang í umrætt sinn og haft afskipti af ákærðu. Hefði hann ásamt D hlúð að ökumanni sem hafi virst ölvaður. Síðan hefði hann verið kallaður aftur út og verið beðinn um að taka blóðsýni úr ákærðu inni á lögreglustöð. E kvaðst ekki hafa séð ákærðu inni í skrifstofuherberginu en hann hefði heyrt að ákærða hótaði öllum, sem þar voru nærri, lífláti. E kvaðst hafa aðstoðað við seinni blóðsýnatökuna. Þá hefði ákærða hótað honum því að slíta höfuðið rólega af börnum hans og annarra sem voru þar inni en það voru D og tveir lögreglumenn. Ákærða hefði einnig talað um að skjóta þá, sem stóðu að blóðtökunni, með riffli. E kvaðst eiga þrjú börn og hefðu hótanir ákærðu komið frekar illa við hann enda þekkti hann ákærðu ekki en miðað við þann ham sem hún hefði verið í væri hún til alls líkleg.

E kom fyrir dóminn. Kvaðst hann vera menntaður sjúkraflutningamaður og starfa hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Kvaðst hann hafa komið á vettvang í umrætt sinn. Þar hefði ökumaður verið einn í bifreiðinni og í fyrstu hefði verið athugað hvort slys hefði orðið. Síðan var unnið samkvæmt leiðbeiningum. Engir áverkar hefðu verið sjáanlegir á konunni en hún hefði síðan komið inn í sjúkrabílinn til frekari skoðunar. Kvað hann að ef einhver merki væru um höfuðáverka þá væri það kannað sérstaklega en svo hefði ekki verið í umrætt sinn né nokkur merki um að konan hefði rotast eða vankast. Hins vegar hefði konan verið áberandi ölvuð og því hefði blóðsýni verið tekið úr henni. E kvaðst síðan hafa verið inni á lögreglustöð síðar um nóttina og heyrt lætin og hótanirnar í ákærðu en hann kvaðst muna að hún hefði hótað því að láta skjóta þá með riffli. E kvaðst hafa farið út úr fangaklefanum niðri þegar þvagsýnið var tekið og því ekki orðið vitni að því sem þar gerðist á meðan. En áður en hann fór út hefði hann heyrt sömu hótanirnar í garð þeirra sem voru í fangaklefanum, bæði að það yrði eitthvað gert við börnin þeirra og það ætti að slíta móðurlífið úr einni og ákærða hafi reynt að hrækja á þá sem héldu henni, um það leyti sem læknirinn kom. Aðspurður kvaðst hann hafa séð ákærðu hrækja á A en ekki séð hvort hún hefði hitt. Það hefði verið áður en þvagsýnatakan fór fram því E kvaðst hafa farið út úr fangaklefanum þegar læknirinn kom. E kvað ákærðu hafa mjög fljótlega orðið æsta og það áður en farið var með hana niður í fangaklefann. E kvaðst ekki treysta sér til að meta hvort ákærða hafi verið í sturlunarástandi en hann kvaðst hafa séð fólk í slíkum ham áður. Þá kvað hann að ákærðu hefði verið veittur góður tími til þess að gefa þvagsýni áður en hún var beitt valdi. Við seinni blóðsýnatökuna kvað E ákærðu hafa verið með ýmsar hótanir en mundi ekki hvort þeim var beint að þeim öllum eða einhverjum sérstökum. Kvaðst hann hafa skynjað hótanir ákærðu sem ógnandi.

Lögreglan tók símaskýrslu af G sem kvaðst hafa komið að bifreið ákærðu utan vegar. Á vettvangi hefðu þrír piltar verið sem kváðust vera búnir að hringja í lögregluna. Hefðu þeir sagt G að konan hefði beðið þá um að hringja ekki á lögregluna. G kvaðst hafa farið að bifreið ákærðu en hún hefði setið undir stýri. Hún hefði opnað smárifu á glugga bifreiðarinnar en engin orðaskipti fóru þeirra á milli önnur en þau að G kvaðst hafa spurt konuna hvort það væri í lagi með hana og hafi hún sagst vera ómeidd. Nokkrum mínútum síðar hefðu lögreglumenn og sjúkraflutningalið komið á vettvang.

G, kt. og heimilisfang [...], kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa verið að koma frá frá Flúðum í Hrunamannahreppi og ekið á móts við  Lambastaði, og þá séð bíl utan vegar með ljósum á. Þetta hafi verið um nótt og hálka á veginum. Kvaðst hann hafa stoppað við bifreiðina, gengið að henni og  bankaði í rúðuna en kona, sem setið hafi undir stýri, ekki sinnt því. Þá hefðu komið nokkrir ungir krakkar að og hann innt þá eftir því hvort þeir væru búnir að ræða við konuna og kváðust krakkarnir hafa gert það. Kvaðst G þá hafa bankað aftur í rúðu bifreiðarinnar og þá hefði konan opnað aðeins gluggann og sagt „nei, það er ekkert að“ og bara lokað aftur.  Þetta hafi verið einu samskiptin sem hann átti við þennan ökumann. G kvaðst ekki geta sagt til um það hvort ákærða hafi verið undir áhrifum áfengis eða ekki. Þá vissi hann ekki hversu langt var liðið frá því að bifreiðin fór út af.

H, kt. og heimilisfang [...],  sagði hjá lögreglu að hann hefði, ásamt félögum sínum, I og J, séð bifreið utan vegar á leið þeirra vestur Suðurlandsveg. Kvaðst hann hafa aðgætt ökumann, og hefði það verið kona sem sat undir stýri. Hefði konan verið eins og í sjokki en ekki viljað að þeir hringdu til lögreglu, hún vildi frekar að þeir drægju hana af stað aftur. Fannst H sem bifreiðin væri nýlent út af, enda hefði konan talað um það. H kvaðst samt hafa hringt á lögreglu, sem hefði komið skömmu síðar. H kvað tvær stúlkur hafa verið komnar innan við mínútu á  undan sér á vettvang, auk þess að eldri maður hefði komið og hugað að konunni. H kvað engan hafa veitt ökumanninum áfengi á vettvangi frá því að þeir félagarnir komu og þar til sjúkra- og lögreglulið kom.

H kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á ferð umrætt sinn ásamt félögum sínum. Þeir hefðu komið að bifreið sem hefði ekið út af en tvær stelpur hefðu komið á vettvang á undan þeim. Þeir hefðu stoppað og rætt við ökumann sem hafi verið í miklu sjokki. Konan hefði ekki viljað að þeir kölluðu eftir lögreglu. H kvaðst hafa metið aðstæður svo að slysið væri nýskeð þegar þeir komu á vettvang. Þá kvaðst H alls ekki hafa séð nokkurn gefa konunni að drekka á meðan beðið var eftir lögreglu. H taldi að um tíu til fimmtán mínútur hefðu liðið frá því að þeir komu á vettvang og þar til sjúkraflutningamenn voru komnir. H staðfesti lögregluskýrslu sína og kvað að það sem þar kæmi fram væri rétt þar sem hann hefði munað atvik betur þegar hún var gefin.

I, kt. og heimilisfang [...], kvaðst, fyrir lögreglu, hafa verið á ferð með H og fleirum á leið vestur Suðurlandsveg þegar þeir óku fram á bifreið sem hafi verið utan vegar og úti í skurði. Í bifreiðinni hafi kona verið undir stýri. I kvaðst hafa farið að bifreiðinni og rætt við konuna og spurt hana hvort hún væri ómeidd, sem hún kvaðst vera. Fannst I konan ekki vera allsgáð en hún hefði neitað því að vera undir áhrifum áfengis. Þá hefði konan reynt að koma í veg fyrir að þeir hringdu í lögregluna en hún hefði sagst ekki þola lögguna. Rétt á undan þeim hefðu tvær stelpur komið á vettvang, önnur setið í bifreiðinni en sú sem ók rætt við konuna og sú stúlka hefði hringt á lögregluna. I kvað engan hafa gefið konunni að drekka frá því þeir félagarnir komu og þar til sjúkra- og lögreglulið kom á staðinn. Þá kvað I konuna hafa sagt sér að hún hefði ekið á 80 kílómetra hraða, en síðan hefði hún lokað að sér og farið að tala í farsíma.

I kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á ferð ásamt fleirum í umrætt sinn og komið að bíl ákærðu utan vegar. Kvaðst hann hafa stansað og rætt við ákærðu og sér hefði fundist hún vera eitthvað skrýtin, eins og hún hefði verið ölvuð. Kvaðst hann hafa innt ákærðu eftir því en hún svarað því til að hún væri bara í sjokki. Hann kvað þá félaga hafa spurt ákærðu hvort þeir ættu ekki að hringa á lögregluna en hún hefði neitað því og kvaðst ekki þola lögregluna. Ákærða hefði beðið þá um að gefa sér sígarettu, sem einn þeirra hefði gert. Ákærða hefði ekkert nefnt það að hún væri þyrst eða að einhver hefði gefið henni að drekka áður. Þá hefðu þeir ekki gefið henni neitt að drekka. Í framhaldi hefðu þeir rætt við stúlkur sem hefðu verið komnar á undan þeim á vettvang og fljótlega eftir það hefði lögreglan komið á vettvang. Aðspurður kvaðst I ekki hafa merkt það sérstaklega að bifreið ákærðu væri mikið skemmd.

J, kt. og heimilisfang [...], kvaðst hafa verið á ferð með I og fleirum umrætt kvöld en þeir hefðu ekið vestur Suðurlandsveg. Hefðu þeir ekið fram á bifreið sem var utan vegar og ofan í skurði. Rétt áður en þeir komu að hefði bifreið, sem kom úr vesturátt, verið búin að stansa og stelpa verið í þeirri bifreið. Í bifreiðinni sem var úti í skurði hefði kona setið undir stýri og hefði hún virst vera undir einhvers konar vímuáhrifum og ekki viljað að þeir hringdu í lögregluna, heldur beðið þá um að draga bifreið hennar af stað. Stúlkan sem var á vettvangi hefði síðan hringt á lögregluna en enginn hefði gefið konunni nokkuð að drekka.

J kom fyrir dóminn og kvaðst hafa komið á vettvang í umrætt sinn. Mikil hálka hafi verið á staðnum. Þegar hann hafði samband við ökumanninn hefði hún verið í miklu sjokki. Þeir félagar hafi boðist til að hringja á lögregluna og aðstoða konuna en hún hafi þá beðið hann um að gefa sér sígarettu, sem hann gerði. Konan hefði líka spurt þá hvort þeir væru með kaðal eða eitthvað til að draga bifreið hennar, sem þeir voru ekki með. Hún hefði hins vegar ekki viljað að þeir hringdu í lögregluna. Í framhaldi hefði jeppabifreið með eldra fólki komið að en uppi á vegi hafi verið önnur bifreið og í henni tvær stelpur sem hann taldi að hefðu hringt í lögregluna. Þær hefðu síðan farið af vettvangi. J kvað konuna hafa sagst vera í lagi, hún hefði ekki kvartað en hann hefði ekki kannað það sérstaklega. Ekki hafi liðið langur tími þar til lögreglan kom á vettvang. Aðspurður um vitnisburð sinn fyrir lögreglu um að konan hafi virst undir áhrifum einhvers konar vímuefna og ekki viljað að þeir hringdu í lögregluna kvaðst J kannski frekar hafa skynjað hana sem drukkna, en það væri erfitt að segja. J staðfesti skýrsluna sem hann gaf hjá lögreglu og kvaðst þá hafa munað atvik betur.

K, kt. [...], lögregluþjónn kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa komið að máli þessu þannig að hann hefði séð um að útbúa vottorð og beiðni hvað varðar sýnatökur og síðan varðandi seinni blóðtökuna. Þá kvaðst K hafa verið viðstaddur síðari blóðsýnatökuna. Hann hefði farið ásamt öðrum lögreglumanni og tveimur öðrum niður í fangaklefa. Ákærðu hefði verið tilkynnt erindi þeirra en hún neitað því. Þá hefðu þeir tekið hvor í sinn handlegginn á henni og lagt hana á gólfið í klefanum með útréttar hendur. Hjúkrunarfræðingurinn hefði síðan séð um að draga blóð úr ákærðu og þar með hefði því verið lokið. K kvaðst ekki muna sérstaklega eftir hótunum utan að ákærða hefði spurt sig hvort hann ætti börn, sem hann kvaðst ekki eiga og hún þá sagt það vera gott. Aðspurður kvað K ákærðu hafa verið lagða á magann á gólfið með hendur beint út frá líkamanum. Neitaði hann því að hendur ákærðu hefðu verið þvingaðar upp fyrir höfuð, enda hefði það gert hjúkrunarfræðingnum erfitt fyrir við sýnatökuna.

                L, kt. og heimilisfang [...], læknir á Landspítala– háskólasjúkrahúsi, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa verið kallaður út í umrætt sinn til að taka þvagsýni. Kvaðst hann hafa hitt ákærðu, heilsað henni og kynnt sig og rætt við hana um hvað væri framundan. Þá kvaðst hann hafa spurt hana hvort hún vildi ekki bara gera þetta sjálf með því að pissa í glas en hún hefði neitað því. Minnti hann að ákærða hefði gefið þá skýringu að þvagið væri hennar vessi, sem hún vildi ekki að neinn annar fengi. Kvað L ákærðu í fyrstu hafa verið rólega þegar hann hitti hana en hún hafi verið orðin svolítið æst áður en þvagtakan fór fram. Þá kvaðst hann hafa heyrt ákærðu vera með líflátshótanir og þá beint þeim að öllum sem voru í herberginu en ákærða hefði þá setið í stól. Hvort ákærða hafi verið í sturlunarástandi kvaðst L ekki geta metið. L kvaðst hafa verið að einbeita sér að sýnatökunni og því ekki tekið eftir neinum ákveðnum orðum á milli manna á meðan takan fór fram en það hafi allavega verið hávaði. Aðspurður nánar um þvagsýnatökuna kvað L einnota þvaglegg vera þræddan upp þvagrásina, sem væri frekar stutt á konum, þar til kæmi þvag. Aðspurður um það hvort þetta væri sársaukafullt kvað L svo geta verið. Hann kvað þá að sýnatakan hefði verið örugg. L kvaðst eingöngu hafa komið að máli þessu sem sýnatökumaður og ekki haft önnur afskipti af því.        

                M, kt. og heimilisfang [...], sambýlismaður ákærðu, kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið í mat til bróður síns að X fyrir austan fjall ásamt ákærðu. Þar hefðu þau snætt mat um miðnætti og drukkið um það bil tvö glös af rauðvíni. Eftir nokkra stund hefðu þau farið en ákærða skilið þá bræðurna tvo eftir á dansleik á Hvolsvelli. Kvaðst hann ekki hafa frétt af málinu fyrr en daginn eftir. Kvaðst M aldrei hafa séð ákærðu drekka meira en þessi tvö rauðvínsglös. Kvaðst M halda að ákærða hefði átt að vera við Þingborg á milli klukkan tvö og þrjú miðað við að hafa farið frá þeim rétt eftir miðnætti. Kvað hann það taka um tíu til fimmtán mínútur að aka frá X niður á Hvolsvöll. Aðspurður nánar kvaðst M þó halda að þeir hafi ekki verið fyrr en um klukkan tvö á ballinu eða sennilega á milli miðnættis og klukkan tvö. Þá kvað M sennilega um klukkustund hafa liðið frá því að drykkju lauk og þar til akstur hófst.

                Kristín Magnúsdóttir, kt. 101051-2509, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði við Háskóla Íslands, gaf skýrslu fyrir dóminum í síma. Kristín var beðin um að gera grein fyrir þeim forsendum sem lægju til grundvallar mati sem liggur fyrir í málinu. Kvaðst hún hafa verið beðin um það í formlegu bréfi að meta niðurstöður úr etanólmælingum, bæði úr blóð- og þvagsýnum, og meta svo saman annars vegar öll sýnin þrjú og svo hins vegar bara blóðsýnin. Niðurstöður úr þessu séu í fyrsta lið hjá sér, en þá sé reiknaður út brotthvarfshraði viðkomandi einstaklings miðað við niðurstöður úr þessum tveimur blóðsýnum sem voru til staðar. Þar komi fram að sá hraði sé 0.21 o/oo á klukkustund. Þvagsýnið sem var tekið þarna á milli styðji að viðkomandi, eða etanólstyrkur í blóði viðkomandi, hafi náð hámarki þegar fyrra sýnið var tekið. Þegar horft sé á seinni hlutann af þessari matsgerð, þar sem eingöngu sé litið á tvö blóðsýni, þá komi þar sama niðurstaða út. Það sé sem sagt aftur þessi brotthvarfshraði og það sýnir að etanólstyrkur hafi verið fallandi í blóði einstaklingsins þegar þessi sýni voru tekin.

                Aðspurð um það hvort þessar niðurstöður gefi einhverja vísbendingu um það hvenær áfengisneysla hafi farið fram kvað hún að þetta væri það mikið etanól, sem mældist í blóði viðkomandi þegar fyrra blóðsýnið var tekið, að það benti til þess að það væri einhver tími liðinn. Kvað hún þetta vera það mikið etanól að það hafi a.m.k. klukkustund verið liðin frá því að drykkju lauk eða henni hafi að mestu verið lokið klukkustund áður en blóðsýnið var tekið. Þá kvað Kristín, aðspurð, að þó svo að einhver drykkja hefði farið fram áður en blóðsýni voru tekin, og allt að fjörutíu og fimm mínútum áður, þá hefði það engin áhrif á niðurstöður hennar. Hámarki etanóls í fyrra blóðsýni hafi verið náð þegar það blóðsýni var tekið og sá styrkur sem hefði mælst í síðara blóðsýni og þvagsýni styðji það. Kristín kvað Rannsóknastofuna hafa gefið út leiðbeinandi upplýsingar um það hvernig standa skuli að sýnatökum í þeim ölvunarakstursmálum sem véfengd væru og þegar þurfi að reikna alkóhólmagn aftur í tímann og sé þá lögð áhersla á að það séu tvö blóðsýni tekin og seinna sýnið sé tekið allt að klukkustund seinna en fyrra sýnið og þvagsýni sé tekið sem næst fyrra blóðsýninu. Aðspurð kvað Kristín þá fullyrðingu að ökumaður hafi drukkið tvö rauðvínsglös um þremur klukkustundum fyrir sýnatöku ekki samrýmast niðurstöðum mælinganna.

                N, kt. og heimilisfang [...], kom fyrir dóminn. Kvaðst hún hafa verið ásamt vinkonu sinni á leiðinni að Flúðum í umrætt sinn. Hefðu þær þá séð bíl úti í skurði og ákveðið að kanna það frekar. N kvaðst hafa ekið og farið út úr bifreiðinni en vinkona hennar setið áfram í bifreiðinni. Kvaðst N hafa farið að bifreiðinni og séð að kona var undir stýri. Hefði N rætt við hana og spurt hvort allt væri í lagi og hefði konan jánkað því. N kvaðst hafa spurt konuna hvort hún ætti ekki að hringja á lögregluna en konan bannað henni að gera það. N kvaðst hafa spurt hvers vegna og konan þá svarað því til að þeir væru vondir. N kvaðst hafa sagt henni að hún yrði allavega að láta einhvern vita um óhappið og spurt hvort hún væri af svæðinu en konan þá sagst vera frá Reykjavík. Kvað hún konuna hafa sagt sér að hún væri á leið á Hvolsvöll eða Hellu og maðurinn hennar væri þar en það væri ekki hægt að ná til hans. Í því hefðu strákar komið að. Kvaðst hún hafa beðið þá um að ræða við konuna á meðan hún færi upp á veg og hringdi á Neyðarlínuna, sem og hún hefði gert. Í framhaldi hefði hún svo yfirgefið vettvang. N kvað aðspurð að sér hefði fundist konan hafa verið í annarlegu ástandi og byggði það á því að þegar hún opnaði bílinn þá hefði sér fundist vera áfengislykt í honum. Aðspurð kvað hún konuna hafa verið í sjokki, hún hefði grátið en verið kurteis. Hún hefði hins vegar ekkert minnst á líðan sína utan að svara því til að allt væri í lagi með sig. N taldi að hún hafi verið fyrsti aðilinn sem kom á vettvang.   

O, kt. og heimilisfang [...], mágur ákærðu, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa boðið ákærðu og bróður sínum heim í mat umrætt kvöld og þau borðað um klukkan tíu um kvöldið. Hefðu þeir drukkið bjór en ákærða tvö rauðvínsglös með matnum. Um miðnætti hefðu þau farið á hestamannaball á Hvoli á Hvolsvelli og hefði ákærða ekið þeim og haldið síðan áfram til Reykjavíkur, eða svo taldi hann. Kvaðst hann vera viss um þessar tímasetningar. Þá kvaðst hann ekki hafa talið ákærðu hafa verið undir áhrifum áfengis þegar hún skildi við þá. Kvað hann það taka um þrjátíu mínútur að aka frá Hvolsvelli að Þingborg svo ákærða hefði átt að vera þar um klukkan hálfeitt um nóttina. Þá kvað O akstursskilyrði hafa verið góð þegar þeim var ekið á Hvolsvöll.

Ólafur Helgi Kjartansson, kt. 020953-3309, sýslumaður kom fyrir dóminn. Kvaðst hann ekki hafa komið að máli þessu í umrætt sinn. Þá hefði ekki verið haft samband við hann varðandi framkvæmd málsins um nóttina. Þá kvaðst hann ekki hafa komið að þvagsýnatökunni en hún væri læknisfræðileg framkvæmd sem hann kæmi ekki að. Læknir og hjúkrunarfræðingur sinntu ávallt þeirri beiðni lögreglu. Kvað hann lögregluna vinna samkvæmt þeim verklagsreglum, þegar grunur væri um ölvunarakstur en ökumaður ekki staðinn að akstri, að taka tvö blóðsýni og þvagsýni. Þá kvað Ólafur þá verklagsreglu gilda, án sérstakrar fyrirskipunar, að vægustu aðferðum væri ávallt beitt sem til væru hverju sinni.                 

Niðurstöður:

Ákæruliður 1.

Ekki er ágreiningur í máli þessum um það að ákærða ók bifreiðinni í umrætt sinn. Einungis er deilt um það hvort ákærða hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn eða ekki. Ákærða fullyrðir að hún hafi einungis drukkið tvö glös af rauðvíni nokkrum klukkustundum áður en lögreglan hafði afskipti af henni, utan að einhverjir gáfu henni áfengi að drekka eftir að hún hafði misst bifreið sína út í skurð á móts við Þingborg og þeir hinir sömu verið farnir af vettvangi áður en önnur vitni komu á staðinn.

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar er tilkynnt um umferðaróhappið til lögreglunnar klukkan 2.21 aðfaranótt 4. mars 2007. Blóðsýni var fyrst tekið úr ákærðu klukkan 2.37 um nóttina eða 16 mínútum eftir að tilkynnt var um óhappið. Ákærða gaf skýrslu hjá lögreglu um hádegi sama dag og óhappið varð og kvaðst hafa drukkið eitt rauðvínsglas milli klukkan 20.00 og 21.00 kvöldinu áður. Þá kvaðst hún einnig hafa fengið sopa af einhverjum vökva hjá ungum drengjum, sem komu að henni eftir að hún hafnaði utan vegar, en kvaðst ekki vita hvaða vökvi það var né geta útlistað hversu mikið hún drakk. Ákærða gaf aftur skýrslu hjá lögreglunni þann 24. maí 2007. Kvað hún þá konu hafa komið fyrsta á vettvang en hún hefði yfirgefið slysstaðinn er strákarnir þrír komu að. Voru henni þá kynntir framburðir viðkomandi drengja, sem komið höfðu á vettvang, en þeir hefðu neitað því allir að hafa gefið ákærðu nokkuð að drekka. Þá kvaðst ákærða ekki muna hvort hún hefði fengið eitthvað að drekka hjá þeirri konu sem fyrst kom á vettvang. Fyrir dóminum kvaðst ákærða hafa drukkið tvö glös af rauðvíni um tveimur klukkustundum áður en hún hóf akstur. Þá kvaðst ákærða fyrir dóminum ekki vita hvort hún hefði neytt áfengis eftir að akstri lauk, henni hefði verið gefið eitthvað að drekka en hún kvaðst ekki vita hvort það hefði verið karl- eða kvenkyns aðili sem gaf henni að drekka. Þegar leið á skýrslutökuna fyrir dómi  innti verjandi ákærðu hana sérstaklega eftir drykkju hennar eftir að bifreiðin fór út af og  kvaðst hún þá muna eftir því að hún hafi verið þyrst, hún myndi einnig eftir því að sér hafi verið rétt flaska en mundi ekki hvað hún drakk, hvort hún drakk hálfa flösku eða fulla flösku, hún mundi bara að hún drakk vel úr henni. Þá kvaðst ákærða viss um að fyrst hefðu stúlkur komið að og síðan strákar og það hafi verið þessar stúlkur sem gáfu henni vín. Annað virtist ákærða ekki muna af vettvangi og bar því við að hún hefði verið svo vönkuð eftir höfuðhögg.

Vitnið O kvað ákærðu hafa snætt kvöldverð hjá sér um tíuleytið um kvöldið og drukkið tvö rauðvínsglös. Þau hefðu farið um miðnætti á Hvolsvöll og ákærða í beinu framhaldi til Reykjavíkur.

Vitnið M kvað þau ákærðu hafa snætt kvöldverð um miðnætti og ákærða hefði ekki drukkið annað en tvö rauðvínsglös. Fljótlega eftir matinn hefðu þau farið á Hvolsvöll og ákærða haldið áfram akandi til Reykjavíkur.

Vitnin H, I og J komu allir fyrir dóminn. Báru þeir á sama veg og fyrir lögreglu, að þegar þeir komu á vettvang hefðu tvær stúlkur verið þar fyrir. Þeir höfðu allir afskipti af ákærðu á meðan hún sat undir stýri og töldu í fyrstu, af hátterni hennar að dæma, að hún væri ölvuð og sú afstaða ákærðu að neita því að hringt væri á lögreglu ýtti undir þá skoðun þeirra. Þá neituðu þeir því allir að hafa gefið henni nokkuð að drekka.

Vitnið N kom fyrir dóminn og kvaðst hafa verið á ferð með vinkonu sinni og komið að ákærðu utan vegar umrætt sinn. Taldi hún að hún hefði verið sú fyrsta sem kom á vettvang þótt hún gæti ekki staðfest það. Sagði hún að ákærða hefði bannað sér að hringja á lögreglu en hún taldi í fyrstu að ákærða væri ölvuð þó svo hún hefði ekki getað staðfest það. Neitaði hún því einnig að hafa gefið ákærðu að drekka.

Samkvæmt niðurstöðum alkóhólrannsóknar á blóðsýnum og þvagsýni, mældist etanólstyrkur í fyrra blóðsýninu, nr. 40178, 1,58 ‰, sem tekið var klukkan 2.37 (endanlegar niðurstöður 1,43‰),  og 1,25‰ í seinna blóðsýninu, nr. 40186 (endanlegar niðurstöður 1,12‰), sem tekið var klukkan 4.13. Etanólstyrkur í þvagsýni nr. 40182, sem tekið var klukkan 3.41, var 1,81‰ (endanlegar niðurstöður 1,81‰). Meintur ölvunarakstur var klukkan 2.21 en þá var tilkynnt um óhappið. Í svarbréfi Kristínar Magnúsdóttur, deildarstjóra Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands, þar sem hún var beðin um að gefa álit sitt á því hvað megi álykta um ölvun ákærðu klukkan 2.21 út frá blóð- og þvagsýnum sem tekin voru sömu nótt og þá miðað við öll sýnin og hins vegar miðað við blóðsýni eingöngu, segir eftirfarandi um fyrra álitaefnið:

„1) Etanólstyrkur í blóði umrædds ökumanns klukkan 2.37 reyndist 1,58‰. Klukkan 3.41 er etanólstyrkur í þvaginu 1,96‰ en klukkan 4.13 er etanólstyrkur í blóði viðkomandi 1,25‰. Það líða 96 mín milli blóðsýna og út frá niðurstöðum í blóðsýnum má reikna brotthvarfshraða etanóls úr blóðinu að því gefnu að etanólstyrkur í blóði hafi veri fallandi. Brotthvarfshraðinn er 0,21‰/klst ((1,58 ‰ – 1,25‰) * 60/96mín = 0,21‰ klst). Hlutfall milli etanólstyrks í þvagsýni 40182 og blóðsýni 40186 er 1,56, sem bendir til að talsverður tími hafi liðið frá því að jafnvægi náðist og etanólstyrkur í blóðinu því fallandi. Niðurstaða úr síðara blóðsýni staðfestir það. Ef etanólstyrkur í blóði er reiknaður til baka frá síðara blóðsýni og að þvagsýnistöku, hefur hann verið 1,36‰ og hlutfallið milli þvags og blóðs þá 1,44, sem segir að etanólstyrkurinn hefur þá verið fallandi. Einungis 16 mín líða frá meintum ölvunarakstri og að fyrri blóðsýnistöku. Miðað við brotthvarfshraðann 0,21‰ á klst. mun etanólstyrkur í blóði viðkomandi sakbornings hafa verið um 1,6‰ ( 0,21‰/klst * ¼ klst + 1,58‰) og endanleg niðurstaða um 1,5‰ um kl. 02;21, þegar meintur ölvunarakstur átti sér stað. 2)  Etanólstyrkur í blóði umrædds ökumanns kl. 02:37 reyndist 1,58‰ en kl. 04:13 er etanólstyrkur í blóði viðkomandi 1,25‰. Það líða 96 mín milli blóðsýna og út frá niðurstöðum í blóðsýnum má reikna brotthvarfshraða etanóls úr blóðinu. Hann er 0,21‰/klst ((1,58‰-1,25‰) * 60/96mín=0,21‰klst). Einungis 16 mín líða frá meintum ölvunarakstri og að fyrri blóðsýnistökunni. Miðað við brotthvarfshraðann 0,21‰ á klst. mun etanólstyrkur í blóði viðkomandi sakbornings hafa verið um 1,6‰ (endanleg niðurstaða 1,5‰) kl. 02:21, þegar meintur ölvunarakstur átti sér stað.“

Kristín Magnúsdóttir staðfesti þessar niðurstöður fyrir dóminum og kvað alkóhólstyrkinn í blóði ákærðu hafa verið fallandi þegar fyrra blóðsýnið var tekið, sem bendi til að drykkju hafi lokið að minnsta kosti klukkustund áður en blóðsýnið var tekið. Þá kvað Kristín það ekki hafa áhrif á niðurstöður hennar þótt einhver drykkja hefði átt sér stað stuttu áður en fyrra blóðsýnið var tekið.

Þá kom fram hjá vitnum, sem komu að ákærðu eftir umferðaróhappið, að ljós hefðu logað á bifreiðinni og í mælaborði, hlýtt hefði verið inni í bifreiðinni og hjá einu vitni að púströrið og vél bifreiðarinnar hefðu verið heit. Bendir það sterklega til að bifreiðin hafi nýlega verið farin út af veginum þegar vitni og lögregla komu að.

Að öllu ofansögðu virtu þykir framburður ákærðu um að henni hafi verið veitt áfengi af konu eða drengjum, eftir að hún missti bifreið sína út af, afar ótrúverðugur. Hún ýmist kvaðst hafa fengið sopa hjá konu úr flösku eða fengið að drekka hjá drengjum og að lokum mundi hún sérstaklega eftir því að hafa verið mjög þyrst og þambað hálfa eða heila flösku af víni. Staðfesta niðurstöður alkóhólrannsóknar að þó nokkur drykkja hafi átt sér stað að minnsta kosti klukkustund áður en ákærða missti bifreið sína út af veginum. Þrátt fyrir að tvö vitni, sem þó bæði tengjast ákærðu, staðfesti að ákærða hafi ekki drukkið nema tvö rauðvínsglös á tímabilinu frá klukkan tíu til miðnættis, en þeim vitnum ber ekki saman, hefur ekkert komið fram um að ákærða hafi ekki neytt áfengis fyrir þann tíma. Þá hafa bæði ákærða og ofangreind vitni fullyrt að þau hafi farið á Hvolsvöll um og eftir miðnætti en komið var að ákærðu klukkan tæplega hálfþrjú um nóttina. Ekkert liggur fyrir hvort ákærða neytti áfengis eftir að hún skildi við vitnin O og M og þar til klukkustund áður en komið var að henni utan vegar klukkan 2.21. Meðal annars af þessum sökum verður ekki byggt á framburði vitnanna O og M um drykkju ákærðu.

Verjandi ákærðu byggir sýknukröfu sína vegna þessa þáttar ákærunnar á því að þvagsýnatakan hafi verið ólögmæt og því verði niðurstöður ekki byggðar á henni. Gerði hann mikinn reka að þeirri aðferð sem beitt var við að taka þvagsýnið og eyddi miklum tíma og kröftum í að sýna fram á ólögmæta háttsemi lögregluyfirvalda í málinu öllu og var oft erfitt að henda reiður á hvort verjandinn var að flytja skaðabótamál fyrir hönd ákærðu eða sýna dóminum fram á sakleysi hennar varðandi þá háttsemi sem hún er ákærð fyrir í máli þessu. Bæði í lögregluskýrslum og fyrir dómi kom fram að ákærða taldi sig ekki þurfa að samþykkja að lögreglan fengi þvagsýni frá henni vegna rannsóknar á meintum ölvunarakstri hennar. Við rannsókn lögreglu á meintum ölvunarakstri ber að taka blóðsýni úr ökumanni til að staðreyna alkóhólmagn í blóði hans við aksturinn. Er það liður ákæruvalds við sönnunarfærslu í slíkum málum. Við ákvörðun refsingar er miðað við magn alkóhóls í blóði ökumanna eins og segir m.a. í 45. gr. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Þegar ökumenn eru ekki staðnir að akstri, neita að hafa ekið eða bera því við að hafa drukkið áfengi eftir að akstri lauk ber lögreglu, samkvæmt fyrirmælum og leiðbeiningum, að taka bæði blóð- og þvagsýni af ökumanni svo reikna megi út aftur í tímann á áreiðanlegan hátt hvert alkóhólmagn hafi verið við aksturinn. Í 92. gr. laga um meðferð opinberra mála segir meðal annars að taka megi blóð- og þvagsýni úr sakborningi og framkvæma á honum aðra þá líkamsrannsókn í þágu rannsóknar sem gerð verður á honum að meinalausu. Þá segir í 1. mgr. 93. gr. laganna að leit og líkamsrannsókn skv. 92. gr. skuli ákveðin í úrskurði dómara, nema sá sem í hlut eigi samþykki hana. Í 2. mgr. segir að rannsóknara sé þó rétt að gera leit án dómsúrskurðar ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Þá segir í 2. mgr. 47. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 að lögreglan geti fært ökumann til rannsóknar á öndunar-, svita- og munnvatnssýni eða til blóð- og þvagrannsóknar ef ástæða sé til að ætla að hann hafi brotið gegn ákvæðum 2. eða 4. mgr. 44. gr., 45. gr. eða 45. gr. a eða hann neitar lögreglunni um að gangast undir öndunarpróf eða láta í té svita- eða munnvatnssýni eða er ófær um það. Í 3. mgr. segir að lögregla annist töku öndunar-, svita- og munnvatnssýnis. Læknir, hjúkrunarfræðingur eða lífeindafræðingur annist töku blóðsýnis og eftir atvikum munnvatns-, svita- og þvagsýnis. Þá segir í lokin að ökumanni sé skylt að hlíta þeirri meðferð sem talin sé nauðsynleg við rannsókn skv. 2. mgr. Að þessu virtu þykir lögreglan ekki hafa farið út fyrir valdheimildir sínar við að krefjast þvagsýnis frá ákærðu, enda stóðu læknir og hjúkrunarfræðingur að sýnatökunni. Hvort aðferðin hafi verið ákærðu að meinalausu er ekki til úrlausnar í máli þessu og verður ekki fjallað frekar um það. Því hefur ekki verið mótmælt að umrætt þvagsýni sé úr ákærðu og þá hefur niðurstaða rannsóknar sýnisins ekki verið véfengd. Við mat á því hvort teljist sannað að ákærða hafi ekið í umrætt sinn undir áhrifum áfengis verður því horft heildstætt til þeirra sönnunargagna sem fyrir liggja í málinu. Þar ber að líta til þess að bifreið ákærðu var heit þegar vitni og lögregla komu að henni, sem gefur til kynna að hún hafi þá verið nýfarin út af. Einnig ber að líta til neitunar vitna á vettvangi um að hafa gefið ákærðu að drekka, niðurstöðu alkóhólmælinga og þess að alkóhólstyrkur í blóði var fallandi, sem styður að a.m.k. klukkustund var liðin frá því að drykkju lauk áður en fyrra blóðsýnið var tekið. Þykir því hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærða hafi verið undir áhrifum áfengis við aksturinn í skilningi 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og alkóhólmagnið verið 1,43‰ í blóði eins og tilgreint er í ákæru. Verður ákærða því sakfelld fyrir þá háttsemi og er hún réttilega færð til lagaákvæða.

Ákæruliður 2.

Ákærða neitaði sök varðandi þennan ákærulið en kveðst að öðru leyti ekki muna eftir atvikum. Eftir að ákærða kom á lögreglustöðina í umrætt sinn var hún fyrst færð inn á skrifstofu til viðræðna um frekari sýnatökur úr henni. Bæði í lögregluskýrslum og hér fyrir dóminum hefur verið staðfest að margir hafi komið að því að telja ákærðu hughvarf og fá hana til að samþykkja að gefa þvagsýni með góðu en því hafi ákærða alfarið neitað. Ákærðu er gefið að sök að hafa hótað A, B, D og E lífláti og því að hún myndi slíta höfuðið af börnum þeirra og hótað C að rífa legið úr henni. Ákærða kvaðst ekki muna til þessa og verjandi hennar kvað hana hafa verið í sturlunarástandi, í fyrsta lagi vegna ógnarhræðslu við lögreglumenn og í öðru lagi vegna örorku sinnar en ákærða væri 75% öryrki, með ónýta öxl, með stoðkerfisvandamál og geðræn vandamál. Samkvæmt framburði A, bæði fyrir lögreglu og dóminum, kvað hann ákærðu hafa hótað öllum þeim sem voru í skrifstofuherberginu líkamsmeiðingum og að slíta hausinn af börnum þeirra. A kvaðst eiga börn og hefði hann tekið þessum hótunum illa. B kvað bæði fyrir lögreglu og dómi að ákærða hefði verið með ljótan munnsöfnuð þegar hún var inni í skrifstofuherberginu. Hún hefði þar hótað að slíta höfuðið af börnum þeirra sem þar voru inni. Hefði hún beint þessu að þeim öllum og hann ekki tekið það sérstaklega til sín en hann ætti börn og þetta hefði vakið óhug hjá honum. D kvað í lögregluskýrslu ákærðu hafa hótað sér því, þegar þær voru inni í skrifstofuherberginu, að hún myndi hafa uppi á börnum hennar og slíta hausinn af þeim. Fyrir dómi mundi hún ekki eftir sérstökum orðaskiptum í skrifstofuherberginu en hún kvað ákærðu hafa verið með þær hótanir við þvagsýnatökuna og aftur við seinni blóðsýnatökuna. E kvaðst ekki hafa verið inni í skrifstofuherberginu þegar ákærða var þar en hann hefði heyrt fram á gang hótanir hennar og m.a. um að ætla að skjóta þau sem þar voru inni með riffli. Þá hefði hann heyrt sömu hótanir við þvagsýnatökuna en hann hafði verið við seinni blóðsýnatökuna og þar hefði ákærða verið með líflátshótanir sem honum hefðu fundist ógnandi. Þá staðfesta vitnin A, B og D að ákærða hafi hótað að slíta legið úr C þegar þau voru stödd í skrifstofuherberginu. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að ákærða hafi verið í slíku andlegu ástandi á þeim tímapunkti að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því hvað hún sagði og við hverja hún var að tala en fram kom hjá vitnum að þau voru öll klædd einkennisfatnaði. Þrátt fyrir að ákærða sé 75% öryrki og með fortíðarvanda í farteskinu frá barn- og unglingsárum, afsakar það ekki framkomu hennar á þessum tímapunkti. Þá liggja fyrir staðfestingar hjá vitnum um að ákærða hafi við seinni blóðsýnatökuna verið með sömu hótanir og uppi í skrifstofuherberginu, sem staðfestir að hún hafi verið meðvituð um hvað hún var að segja og hverju hún var að hóta. Virðast hótanir hennar ekki hafa verið samhengislausar eða gefa til kynna að þær hafi verið fram bornar samhengislaust í andlegu losti í þeim tilgangi að sleppa við sýnatöku. Verjandi ákærðu lagði fram læknisvottorð Óttars Guðmundssonar geðlæknis, dagsett 8. nóvember 2007. Er aðstæðum ákærðu frá æsku lýst í því og aðstæðum hennar fyrir 4. mars 2007 svo og andlegri líðan eftir 4. mars 2007. Þá lagði verjandi ákærðu fram læknisvottorð Elísabetar Benedikz um komu ákærðu á Landspítala þremur dögum eftir óhappið og skoðun á henni þá, auk endurmats Tryggingastofnunar ríkisins um örorkumat ákærðu. Ekkert af þessum vottorðum færa rök fyrir eða gefa viðhlítandi skýringar á framkomu og hegðun ákærðu aðfaranótt 4. mars 2007. Telur dómurinn að fram sé komin lögfull sönnun um að ákærða hafi að þessu leyti gerst sek um þá háttsemi sem lýst er í ákærulið 2. Verður þessi háttsemi metin sem ofbeldi gegn lögreglu- og sjúkraflutningamönnum í skilningi 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Voru hótanir þessar til þess fallnar að valda óhug og ótta hjá þeim sem fyrir þeim urðu. Hefur ákærða brotið gegn ofangreindu ákvæði og verður því sakfelld fyrir þá háttsemi.

Ákæruliður 3.

Ákærðu er gert að sök að hafa veist að A og slegið hann í andlitið, og síðar, er verið var að taka úr henni þvagsýni, hrækt tvisvar sinnum í andlit hans. Ákærða hefur neitað þessum ákærulið eða ekki sagst muna eftir þessu. Enginn virðist hafa orðið vitni að því að ákærða sló A í andlitið utan að B kvaðst hafa séð hana slengja veskinu í áttina að A en ekki séð hvort hún hefði hitt hann en A kvað hana ýmist hafa slegið með handarbakinu eða slegið með veskinu í átt til hans. Gegn eindreginni neitun ákærðu verður ekki talin fram komin lögfull sönnun um að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem í ákæru greinir varðandi þennan þátt. Verður ákærða því sýknuð af þessari háttsemi.

A kveður ákærðu hafa hrækt tvisvar framan í sig þegar hann hélt henni fyrir þvagsýnatökuna. Vitnið E kvaðst hafa séð ákærðu hrækja á A en ekki séð hvort hún hitti en hann kvaðst hafa farið út úr klefanum áður en til sýnatökunnar kom. Vitnin D og C heyrðu ákærðu hrækja en sáu ekki hvort hún hitti A. Ákærða bar því við að hún hafi verið viti sínu fjær þegar þvagsýnið var tekið úr henni og ekki vitað hvað hún gerði né muna eftir því sem hún sagði eða gerði á þeim tímapunkti. Ákærða virtist þó muna nákvæmlega svipbrigði, orðaskipti og aðra háttsemi A þegar hún var innt eftir því hvort hann hefði fylgst með þvagsýnatökunni. Þá segir í læknisvottorði Óttars Guðmundssonar að ákærða sé hvatvís og stundum hömlulaus, sveiflótt á geði og mjög tortryggin. Ákærða bar því við að hún hafi verið í sturlunarástandi við þvagsýnatökuna. Að öllu ofansögðu verður að telja sannað að ákærða hafi gert sér fulla grein fyrir hátterni sínu á þessum tímapunkti. Með vísan til vitnisburðar A, C, E og D verður að telja að lögfull sönnun sé fram komin um þessa háttsemi ákærðu og verður hún sakfelld fyrir hana en hún er réttilega færð til refsiákvæða.

Sakarferill ákærðu hefur ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.

Að öllu ofansögðu virtu skal ákærðu gert að sæta fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði 160.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa en sæti ella fangelsi í tólf daga. Þá ber að svipta ákærðu ökurétti í eitt ár frá birtingu dóms að telja.

Með vísan til 165. gr. laga um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærðu til að greiða allan sakarkostnað sem er samkvæmt yfirliti yfir sakarkostnað 111.682 krónur vegna blóðrannsóknar og matsgerðar og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 209.160 krónur að virðisaukaskatti meðtöldum, auk aksturskostnaðar, 34.080 krónur.

                Daði Kristjánsson aðstoðarsaksóknari flutti mál þetta af hálfu ákæruvaldsins.

Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærða, María Bergsdóttir, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði 160.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms að telja en sæti ella fangelsi í tólf daga.

Ákærða er svipt  ökurétti í eitt ár frá birtingu dómsins að telja.

Ákærða greiði allan sakarkostnað, 354.922 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 209.160 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar, 34.080 krónur.