Print

Mál nr. 323/2013

Lykilorð
  • Fjármagnstekjuskattur
  • Réttaráhrif
  • Saknæmi
  • Stjórnarskrá
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Frávísunarkröfu hafnað
  • Ómerkingu héraðsdóms hafnað
  • Sekt
  • Vararefsing

Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 23. janúar 2014.

Nr. 323/2013.

Ákæruvaldið

(Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Matthildi Ingvarsdóttur

(Reimar Pétursson hrl.)

Fjármagnstekjuskattur. Réttaráhrif. Saknæmi. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Frávísunarkröfu hafnað. Ómerkingu héraðsdóms hafnað. Sekt. Vararefsing.

M var ákærð fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa í fjögur ár staðið skil á efnislega röngum skattframtölum með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram argreiðslur frá erlendu félagi hennar og erlendar vaxtatekjur en umræddar tekjur voru í ákæru taldar fjármagnstekjur samkvæmt 3. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ákvörðun ákæranda um ákæru gæti eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn málsins og var því ekki fallist á með M að vísa bæri málinu frá héraðsdómi með vísan til þess að kæra skattrannsóknarstjóra til lögreglu hefði byggst á röngum forsendum. Þá var hvorki fallist á að vísa bæri málinu frá héraðsdómi á grundvelli 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu né vegna þess að skattrannsóknarstjóri hefði að mati M knúið fram húsleit hjá henni með ólögmætum hætti. Kröfu M um ómerkingu var hafnað en hún laut að því að héraðsdómur hefði ranglega talið M hafa sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi og ekki tekið afstöðu til þess hvaða þýðingu það hefði að húsleit skattrannsóknarstjóra hefði verið ólögmæt. M hafði ekki gefið haldbærar skýringar á því hvers vegna hún hefði látið undir höfuð leggjast að telja fram til skatts umræddar arðgreiðslur og vaxtatekjur sem henni bar að greiða af fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 2.921.483 krónur. Var þetta virt henni til stórkostlegs hirðuleysis í skilningi 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá jók það mjög á saknæmi brotsins að M leyndi skattyfirvöld frá upphafi eignarhaldi sínu á hinu erlenda félagi og að brot hennar tók til efnislega rangra skattframtala fjögur ár í röð. Með vísan til 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var M því fundin sek um brot gegn 1. mgr. sömu lagagreinar. M var gert að sæta fangelsi í fjóra mánuði en refsingin var skilorðsbundin til tveggja ára. Þá var M gert að greiða 8.800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.  

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. maí 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Ákærða krefst aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Að því frágengnu krefst hún sýknu, en verði ekki á það fallist að refsing verði milduð.

I

Ákærða reisir kröfu sína um frávísun málsins frá héraðsdómi í fyrsta lagi á því að kæra skattrannsóknarstjóra hafi byggst á röngum forsendum. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi var málið upphaflega höfðað aðallega fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum með því að ákærða hafi látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007 og 2008 tekjur frá félagi hennar, Miko Valley Ltd. á Bahamaeyjum, í formi greiðslna á úttektum hennar af erlendu greiðslukorti, sem skattlagðar eru samkvæmt 9. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Með þessu hafi ákærða vanframtalið tekju- og útsvarsstofn sinn, samtals að fjárhæð 29.078.788 krónur, sem henni hafi borið að greiða af tekjuskatt og útsvar samtals 9.030.350 krónur. Þá tók aðalkrafan einnig til þess að ákærða hefði ekki talið fram til skatts fyrrgreind ár erlendar vaxtatekjur af nánar tilteknum bankareikningi sem henni hafi borið að greiða af fjármagnstekjuskatt samtals að fjárhæð 13.605 krónur. Til vara var ákærðu gefið að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrrgreind gjald- og tekjuár með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram arðgreiðslur frá áðurnefndu erlendu félagi hennar vegna þessara ára sem skattskyldar væru samkvæmt 4. tölulið C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, auk þess sem hún hefði vanframtalið  erlendar vaxtatekjur. Með þessu hafi ákærða vanframtalið fjármagnstekjuskattstofn sinn um samtals 29.214.829 krónur sem henni hafi borið að greiða af fjármagnstekjuskatt samtals 2.921.483 krónur. Þegar ákæra var gefin út lá fyrir úrskurður ríkisskattstjóra 15. ágúst 2011 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að þar sem ákærða hefði ekki sýnt fram á hvers konar erlendar tekjur væri um að ræða bæri að skattleggja þær samkvæmt 9. tölulið C-liðar 7. gr. áðurnefndra laga um tekjuskatt. Yfirskattanefnd komst á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu 17. október 2012 að um arðgreiðslur hafi verið að ræða sem skattleggja bæri sem fjármagnstekjur. Eftir að sú niðurstaða lá fyrir féll ákæruvaldið í þinghaldi 29. nóvember sama ár frá fyrrgreindri aðalkröfu sinni.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að henni lokinni að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar. Í 145. gr. laganna er kveðið svo á að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn máls sé lokið athugi hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Telji hann það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa, en höfðar ella mál á hendur sakborningi samkvæmt 152. gr. laganna. Við þá ákvörðun ber að gæta jafnræðis svo sem ótvírætt leiðir af 142. gr. Ákærandi hefur metið rannsókn málsins fullnægjandi og á grundvelli hennar gefið út ákæru í málinu. Ákvörðun ákæranda, sem að framan greinir, er hluti af meðferð hans á valdheimildum sem honum eru fengnar að lögum. Sú ákvörðun getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn þessa máls, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2012. Þá getur ákærandi samkvæmt 2. mgr. 153. gr. sömu laga fallið frá einstökum ákæruatriðum, sem hann gerði samkvæmt áðursögðu í þinghaldi 29. nóvember 2012. Verður því hafnað kröfu ákærðu um frávísun málsins sem reist er á því að kæra skattrannsóknarstjóra hafi byggst á röngum forsendum. 

Í annan stað byggist frávísunarkrafan á því að vísa eigi málinu frá héraðsdómi á grundvelli 4. gr. 7. samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, þar sem segi að enginn skuli sæta lögsókn eða refsingu að nýju fyrir sama brot. Þá vísar ákærða í þessu sambandi til 2. mgr. 186. gr. laga nr. 88/2008, 70. gr. stjórnarskrár og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ákærða hafi sætt endanlegum úrskurði yfirskattanefndar um álag á skattstofn vegna ætlaðra brota samkvæmt ákæru, en í því felist refsing. Verði ekki á það fallist byggir ákærða á því að þetta leiði til ómerkingar héraðsdóms eða sýknu.

Í dómi Hæstaréttar 22. september 2010 í máli nr. 371/2010 segir meðal annars að óvissu gæti um skýringu bæði á gildissviði og inntaki 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, enda hafi ekki verið samræmi í skýringu á nefndu ákvæði í dómum mannréttindadómstóls Evrópu. Þá séu engin fordæmi fyrir því frá mannréttindadómstólnum um að það fari í bága við 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmálans að stjórnvöld beiti álagi á skattstofna vegna brota á reglum um að telja fram til skatts og að sama manni sé í öðru máli gerð refsiviðurlög fyrir dómi vegna sömu málsatvika. Þvert á móti hafi sú skipan ekki verið talin andstæð fyrrnefndum ákvæðum í ákvörðunum mannréttindadómstólsins 14. september 1999 í máli Ponsetti og Chesnel gegn Frakklandi og 14. september 2004 í máli Rosenquist gegn Svíþjóð. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna dómsins, sem hefur fordæmisgildi í máli þessu, verður að hafna kröfu ákærðu um frávísun málsins sem styðst við regluna um ne bis in idem og að ákærða hafi sætt óréttlátri  málsmeðferð. Þá geta þar að lútandi röksemdir ákærðu heldur ekki leitt til ómerkingar héraðsdóms eða sýknu.

Í þriðja lagi er frávísunarkrafan grundvölluð á því að skattrannsóknarstjóri hafi knúið fram húsleit hjá ákærðu með ólögmætum hætti. Í lögum nr. 90/2003 og reglugerð nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna sé engin heimild til að kæra mál til lögreglu í þeim tilgangi að fá húsleit gerða. Þá hafi með þessu verið brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins, 70. gr. og 71. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003 er öllum skylt að láta skattyfirvöldum í té allar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Með bréfi ríkisskattstjóra 19. mars 2009 til ákærðu var samkvæmt heimild í umræddri lagagrein spurst fyrir um hvort hún hefði við notkun á erlendu greiðslukorti til reglubundinna úttekta í viðskiptum hér á landi haft tekjur eða átt eignir erlendis, sem hægt hefði verið að nota til að greiða fyrir þær úttektir. Var meðal annars lagt fyrir ákærðu að leggja fram ítarlegar upplýsingar um erlendar bankainnstæður sínar og hvernig þær innstæður væru til komnar, væri um þær að ræða, og leggja fram viðeigandi gögn því til staðfestingar. Væri um aðrar tegundir eigna að ræða var lagt fyrir ákærðu að gera nákvæma grein fyrir því hvers konar eignir það væru, hvernig þeirra hefði verið aflað og leggja fram gögn því til staðfestingar. Væri um að ræða tekjur erlendis var óskað skýringa á hvers eðlis þær væru og hvernig og hvenær þær hefðu orðið til. Í svarbréfi ákærðu 17. apríl sama ár var einungis vísað til yfirlýsingar fyrrverandi sambúðarmanns ákærðu 3. sama mánaðar þar sem fram kom að ákærða og hann hafi átt í áralangri sambúð á Kýpur þar sem maðurinn hafi rekið fyrirtæki. Vegna sambúðarinnar og framlags ákærðu hafi hann talið rétt að hún bæri eitthvað úr býtum við sambúðarslitin. Væri greiðslukort ákærðu þannig til komið, en það væri tengt bankareikningi mannsins. Með bréfi skattrannsóknarstjóra 2. október 2009 var málinu vísað til ríkislögreglustjóra til opinberrar rannsóknar vegna gruns um brot á ákvæðum laga nr. 90/2003 og eftir atvikum almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Kom þar fram að skattrannsóknarstjóri teldi framangreindar skýringar ákærðu ófullnægjandi og væri nauðsynlegt að afla allra gagna um viðskipti ákærðu með erlent greiðslukort hér á landi á tilgreindu tímabili til að staðreyna hvort skattskil hennar gjaldárin 2007, 2008 og 2009 væru rétt. Skattrannsóknarstjóri hafi ekki heimild til leitar á lögheimili eða dvalarstað aðila og af þeim sökum teldi hann ástæðu til að vísa málinu á þessu stigi til opinberrar rannsóknar, en það væri grundvallaratriði fyrir áframhaldandi rannsókn að hald væri lagt á öll gögn á heimili ákærðu. Í framhaldi af þessu gerði ríkislögreglustjóri 3. nóvember 2009 leit á heimili ákærðu að undangengnum úrskurði þar um degi fyrr. 

Samkvæmt 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003 er skattrannsóknarstjóra heimilt að vísa máli til rannsóknar lögreglu. Fyrrgreint svar ákærðu við erindi hans gaf fullt tilefni til að frekari gagna yrði aflað í þágu rannsóknar málsins með þeim úrræðum sem lögreglu eru tiltæk, þar á meðal húsleit á heimili ákærðu. Húsleit sú, sem gerð var á heimili hennar greint sinn, var í samræmi við lög. Að þessu virtu verður hafnað þeim röksemdum sem færð eru fram af hálfu ákærðu til stuðnings kröfu hennar um að málinu beri að vísa frá dómi á þeim grunni að skattrannsóknarstjóri hafi með ólögmætum hætti knúið fram húsleit hjá henni.

II

Ákærða reisir ómerkingarkröfu sína á því að sönnunarmat héraðsdóms sé „ágöllum háð“. Hafi héraðsdómur metið aðstöðu ákærðu ranglega á þann hátt að hún hafi sýnt af sér stórkostlegt hirðuleysi og með því horft fram hjá trúverðugri frásögn hennar. Þá hafi héraðsdómur ekki tekið afstöðu til þeirrar þýðingar fyrir sönnunarmat sem ólögmætar aðgerðir skattrannsóknarstjóra í tengslum við húsleit hjá ákærðu skyldu hafa.

Fyrri röksemd ákærðu lýtur að saknæmi brots þess sem hún er ákærð fyrir að hafa framið. Skortur á saknæmi leiðir til sýknu en ekki ómerkingar. Um síðarnefndu röksemdina er það eitt að segja að í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms felst að litið hafi verið svo á að lögmætt hafi verið af hálfu skattrannsóknarstjóra að vísa málinu á sínum tíma til ríkislögreglustjóra til frekari gagnaöflunar með húsleit. Eins og áður greinir hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að staðið hafi verið með lögmætum hætti að þeirri rannsóknaraðgerð. Samkvæmt þessu er ómerkingarkröfu ákærðu hafnað.

III

Krafa ákærðu um sýknu er á því byggð að ekki sé uppfyllt það refsiskilyrði 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 að ákærða hafi með háttsemi þeirri, sem hún er ákærð fyrir, gerst sek um stórkostlegt hirðuleysi. Þá séu heldur ekki uppfyllt skilyrði 262. gr. almennra hegningarlaga til þess að háttsemi ákærðu verði heimfærð undir þá lagagrein þar sem vantalin fjárhæð sé smávægileg.  

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 skal skattskyldur maður, sem skýrir af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um tekjuskatt sinn greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Þá er mælt fyrir um það í 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga að hver sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gerist sekur um meiri háttar brot gegn 1., 2. eða 5. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, auk fleiri nánar tiltekinna ákvæða skattalaga, skuli sæta fangelsi allt að 6 árum. Jafnframt er þar kveðið á um heimild til að dæma fésekt að auki samkvæmt tilgreindum ákvæðum skattalaga. Eftir 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga telst verknaður meiri háttar brot samkvæmt 1. og 2. mgr. greinarinnar ef brotið lýtur að verulegum fjárhæðum, verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins, svo og ef maður, sem til refsingar skal dæma fyrir eitthvað þeirra brota sem getur í 1. eða 2. mgr., hefur áður verið dæmdur sekur fyrir sams konar brot eða eitthvert annað brot sem undir þau ákvæði fellur.  

Upplýst er í málinu að sjóðurinn Miko Foundation var stofnaður í Lichtenstein á árinu 1991 og að uppruna fjármuna, sem lagðir voru í hann, var að rekja til arfs sem ákærðu tæmdist eftir foreldra sína. Af hálfu sjóðsins var 4. október 2004 stofnað félagið Miko Valley Ltd. á Bahamaeyjum og nam nafnverð hlutabréfa þess 50.000 bandaríkjadölum. Í framhaldi af stofnun félagsins voru fjármunir áðurnefnds sjóðs fluttir yfir í það. Ákærða hefur játað að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram til skatts arðgreiðslur frá áðurnefndu félagi hennar á Bahamaeyjum og erlendar vaxtatekjur á því fjögurra ára tímabili sem í ákæru greinir, samtals 29.214.829 krónur, sem henni bar að greiða af fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 2.921.483 krónur. Ákærða bar ábyrgð á því að gefa fyrrgreindar tekjur sínar upp til skatts. Hefur hún ekki gefið haldbærar skýringar á þeirri vanrækslu sinni sem virða  ber henni til stórkostlegs hirðuleysis í skilningi 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Þá eykur það mjög saknæmi brotsins að ákærða leyndi skattyfirvöld frá upphafi eignarhaldi sínu á hinu erlenda félagi og að brot hennar tekur til efnislega rangra skattframtala fjögur ár í röð. Að þessu gættu og með vísan til 3. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga verður brot ákærðu einnig heimfært undir 1. mgr. sömu lagagreinar, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995.

Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða héraðsdóms staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærða, Matthildur Ingvarsdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 417.133 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Reimars Péturssonar hæstaréttarlögmanns, 375.500 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. apríl 2013.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 20. mars sl., er höfðað með ákæru sérstaks saksónara, útgefinni 13. júlí 2012, á hendur Matthildi Ingvarsdóttur, kt. [...], Urðarhæð 9, Garðabæ

Aðalkrafa: fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007 og 2008, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára tekjur frá félagi hennar, Miko Valley Ltd., á Bahamaeyjum, í formi greiðslna á úttektum hennar af erlendu greiðslukorti, sem skattskyldar eru skv. 9. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaganna, en með þessu vanframtaldi ákærða tekju- og útsvarsstofn sinn samtals að fjárhæð kr. 29.078.788, sem henni bar að greiða af tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð kr. 9.030.350, sem sundurliðast sem hér að neðan greinir, og með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára erlendar vaxtatekjur af bankareikningi ákærðu í Jersey sem skattskyldar eru skv. 3. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt en með þessu vanframtaldi ákærða fjármagnstekjuskattstofn sinn um samtals kr. 136.041, sem henni bar að greiða af fjármagnstekjuskatt samtals að fjárhæð kr. 13.605, sem sundurliðast sem hér greinir:

Gjaldárið 2006:

Tekju- og útskattur:

Vanframtaldar erlendar greiðslur:              

kr.  6.669.479

Tekjuskattur, skattprósenta 24,75%

kr.  1.650.696

Útsvar, útsvarsprósenta 12,46%                 

kr.     831.017

Sérstakur tekjuskattur 2%                            

kr.       84.472

Persónuafsláttur                                             

kr.    -339.846

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.  2.226.339

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur

kr.      26.807

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.        2.681

Gjaldárið 2007:

Tekju- og útskattur:

Vanframtaldar erlendar greiðslur:   

kr.  5.624.563

Tekjuskattur, skattprósenta 23,75%

kr.  1.335.834

Útsvar, útsvarsprósenta 12,46%     

kr.     700.821

Persónuafsláttur 

kr.    -348.343                        

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.  1.688.312

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur     

kr.       30.290

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.        3.029

Gjaldárið 2008:

Tekju- og útskattur:

Vanframtaldar erlendar greiðslur:   

kr.  5.876.591

Tekjuskattur, skattprósenta 22,75%

kr.  1.336.924

Útsvar, útsvarsprósenta 12,46%     

kr.     732.223

Persónuafsláttur 

kr.    -385.800

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.  1.683.347

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur     

kr.       40.066

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.         4.007

Gjaldárið 2009:

Tekju- og útskattur:

Vanframtaldar erlendar greiðslur:  

kr.10.908.155

Tekjuskattur, skattprósenta 22,75%

kr.   2.481.605

Útsvar, útsvarsprósenta 12,46%

kr.   1.359.156

Persónuafsláttur 

kr.    -408.409

Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals:

kr.   3.432.352

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur

kr.       38.878

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.         3.888

Samtals vangreiddur tekjuskattur og útsvar:

kr.   9.030.350

Samtals vangreiddur fjármagnstekjuskattur:

kr.       13.605

               

Varakrafa: fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2005, 2006, 2007 og 2008, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára arðgreiðslur frá erlendu félagi hennar, Miko Valley Ltd. sem skattskyldar eru skv. 4. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára erlendar vaxtatekjur sem skattskyldar eru skv. 3. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt en með þessu vanframtaldi Matthildur fjármagnstekjuskattstofn sinn um samtals kr. 29.214.829, sem henni bar að greiða af fjármagnstekjuskatt samtals að fjárhæð kr. 2.921.483, sem sundurliðast sem hér greinir:°

Gjaldárið 2006:

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur

kr.  6.696.286

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.     669.629

Gjaldárið 2007:

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur     

kr.   5.654.853

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.      565.485

Gjaldárið 2008:

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur

kr.   5.916.657

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.      591.666

Gjaldárið 2009:

Fjármagnstekjur:

Vanframtaldar fjármagnstekjur

kr. 10.947.033

Vangreiddur fjármagnstekjuskattur, skattprósenta 10%

kr.   1.094.703

Samtals vangreiddur fjármagnstekjuskattur:

kr.    2.921.483

Framangreind brot ákærðu teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Í þinghaldi 29. nóvember 2012 var af hálfu ákæruvalds fallið frá aðalkröfu í ákæru.

Af hálfu ákærðu er aðallega krafist sýknu. Til vara krefst ákærða þess að henni verði að hámarki gerð sektarrefsing að fjárhæð 3.000.000 kr. Til þrautavara krefst ákærða þess að henni verði að hámarki gerð þriggja mánaða fangelsisrefsing sem fullnustu á verði frestað með vísan til 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og sektarrefsing að fjárhæð 6.000.000 kr. Þá krefst ákærða málskostnaðar að mati dómsins, óháð niðurstöðu málsins, en til vara að lögmanni hennar verði ákveðin þóknun með hliðsjón af umfangi málsins, fjölda þinghalda o.fl. í frávísunar- og refsiþætti málsins.

II

Aðdragandi málsins er sá að hinn 19. mars 2009 sendi ríkisskattstjóri ákærðu fyrirspurnarbréf þar sem óskað var eftir skýringum og upplýsingum um viðskipti hennar með erlend greiðslukort og einnig hvernig uppgjöri þess væri háttað. Einnig var lagt fyrir ákærðu að leggja fram upplýsingar um erlendar bankainnistæður sínar og viðeigandi gögn. Þar sem hvorki skattskil ákærðu né svör hennar við fyrirspurn ríkisskattstjóra þóttu fullnægjandi tilkynnti ríkisskattstjóri ákærðu 27. mars 2009 að mál hennar yrði sent skattrannsóknarstjóra, meðal annars með vísan til 1. tl. 8. gr., sbr. 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 373/2001. Ákærða sendi ríkisskattstjóra svar með bréfi 17. apríl 2009 þar sem upplýst var um það eitt að erlent greiðslukort hennar væri tilkomið vegna sambúðarslita hennar við fyrrum sambýlismann sinn og að kortið væri tengt bankareikningi hans.

Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til ríkislögreglustjóra 2. október 2009 og var gerð húsleit á heimili ákærðu 3. nóvember 2009. Hinn 9. nóvember 2009 var ákærða yfirheyrð sem sakborningur hjá ríkislögreglustjóra. Eftir að ákærðu hafði verið kynnt gögn vegna notkunar á erlendu kreditkorti hennar kom fram hjá henni að fyrrverandi sambýlismaður hennar hefði greitt af kortinu. Ákærða upplýsti ekki frekar um erlendar tekjur, erlend félög eða erlendar bankainnistæður sínar. Hinn 24. nóvember 2009 vísaði ríkislögreglustjórinn máli ákærðu aftur til skattrannsóknarstjóra til frekari rannsóknar. Í kjölfarið sendi skattrannsóknarstjóri hinn 17. febrúar 2010 ákærðu formlega tilkynningu um rannsókn þar sem enn var óskað eftir að ákærða legði fram viðeigandi gögn og upplýsingar. Því fyrirspurnarbréfi svaraði verjandi ákærðu með bréfi 31. mars 2010 þar sem upplýst var um hinar vanframtöldu tekjur ákærðu.  

Ákærðu var tilkynnt um lok rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins með bréfi 17. desember 2010. Þar var einnig tilkynnt um fyrirhugaða ákvörðunartöku skattrannsóknarstjóra um refsimeðferð.

Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra, dags. 17. desember 2010, skilaði ákærða efnislega röngum skattframtölum fyrir tekjuárin 2005 til og með 2008, auk þess sem eign ákærðu í erlendu félagi ákærðu, Miko Valley Ltd. var vanframtalin, greiðslur til skattaðila frá Miko Valley Ltd. voru vanframtaldar um 29.078.788 kr. og erlendar vaxtatekjur ákærðu voru vanframtaldar um 136.042 kr.

Með bréfi 14. nóvember 2011 var ákærðu tilkynnt að málinu hefði verið vísað til rannsóknar hjá lögreglu og að forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð yrðu hér eftir í höndum sérstaks saksóknara. Tekin var skýrsla af ákærðu hjá embætti sérstaks saksóknara 26. apríl 2012 og var ákæra gefin út í málinu 13. júlí 2012.

                Málið var þingfest 5. september 2012 og lýsti ákærða því yfir að hún neitaði sök í málinu. Að beiðni ákærðu var málinu frestað til 29. nóvember 2012 eða þar til úrskurður yfirskattanefndar í málinu lægi fyrir. Er málið var tekið fyrir þann dag upplýsti sækjandi að úrskurður yfirskattanefndar í máli ákærðu hefði fallið 17. október 2012 og að af því tilefni væri fallið frá aðalkröfu í ákæru. Að svo búnu óskaði verjandi eftir því að skila greinargerð í málinu og var málinu frestað í því skyni til 12. desember 2012. Þann dag lagði verjandi fram greinargerð og gögn af hálfu ákærðu en í greinargerðinni var sett fram frávísunarkrafa. Í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness um frávísunarkröfuna, nr. S-596/2012, þann 6. febrúar 2013, var frávísun hafnað og fór því aðalmeðferð um varakröfu ákæruvaldsins fram þann 20. mars 2013.

Í greinargerð ákærðu er málavöxtum lýst svo að hinn 17. febrúar hafi skattrannsóknarstjóri hafið rannsókn á skattskilum ákærðu á fjármagnstekjum vegna áranna 2005 til og með 2008. Hafi tilefnið verið notkun hennar á VISA-korti útgefnu af erlendum banka. Ákærða hafi strax játað að hafa vantalið hinar umræddu tekjur. Jafnframt hafi hún óskað eftir því að málinu yrði flýtt eins og kostur væri svo greiða mætti viðbótarskattana eins fljótt og auðið væri. Samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra frá 17. desember 2010 hafi enginn ágreiningur verið um fjárhæð hinna vanframtöldu tekna. Í framhaldi hafi málið verið sent til ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á sköttum ákærðu. Við þá endurákvörðun hafi ríkisskattstjóri ákveðið að beita lagaákvæði sem engin fordæmi séu til um að beitt hafi verið í hliðstæðu tilfelli.

Þá segir í greinargerðinni að ákærða sé venjuleg, íslensk húsmóðir sem fengið hafi arf eftir foreldra sína fyrir nokkrum árum og hafi féð verið lagt inn í banka erlendis. Við upphæðina hafi bæst skuld sem grískur, fyrrum sambýlismaður hennar, hafi gert upp við hana vegna sambúðarslita þeirra. Á árunum 2005-2008 hafi ákærða tekið út peninga af þessum reikningi sem þá hefðu verið fluttir yfir til einkahlutafélags að nafni Miko Valley. Í tengslum við það hafi ákærða leitað sér upplýsinga hjá virtum bankalögfræðingum um eðli úttektarinnar og skattskyldu. Hafi þeir tjáð henni að þar sem um væri að ræða eyðslu höfuðstóls þyrfti hún hvorki að hafa áhyggjur af framtali né skattskyldu úttektarinnar.

Síðan segir í greinargerðinni: „Ákærða taldi sig því gera rétt með því að sleppa framtali teknanna. Er því varla unnt að segja að ákærða hafi vanframtalið tekjurnar af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Sakarskilyrði 109. gr. laga nr. 90/2009 um tekjuskatt eru því tæplega fyrir hendi.“

Ákærða byggir sýknukröfu sína m.a. á því að hún hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og ekki fengið sömu meðferð og aðrir í sömu stöðu. Það sé brot á jafnræðisreglu stjórnarskrár. Í greinargerð ákærðu kemur fram að ákærða hafi aflað sér upplýsinga hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins um það eftir hverju farið sé þegar refsimeðferð skattamála sé ákveðin. Samkvæmt því sem henni hafi verið tjáð sé m.a. horft til fjárhæða og sé þá miðað við að málið fari í opinbera rannsókn sé vanframtalinn skattur sjö milljónir eða hærri. Sé vanframtalinn skattur sjö milljónir eða lægri en útreiknuð sekt yfir sex milljónum fari málið til yfirskattanefndar. Samkvæmt varakröfu ákæruvaldsins sé vanframtalinn skattur ákærðu tæpar þrjár milljónir og því hefði mál hennar, samkvæmt framangreindu, átt að fara í meðferð hjá yfirskattanefnd en ekki í ákærumeðferð.

Samkvæmt gögnum málsins hafi skattrannsóknarstjóri lokið skýrslu sinni 17. desember 2010. Ákærða hafi upplýst um hinar vantöldu tekjur í bréfi til embættisins 31. mars 2010 og óskað eftir endurálagningu á opinberum gjöldum sínum við fyrsta tækifæri. Sú beiðni hafi verið ítrekuð í skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra dags. 8. júní 2010, sbr. Hefti 1 í skýrslu Skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þannig hafi ákærða strax í upphafi greint skilmerkilega frá öllum atvikum máls, játað brot sitt skýlaust og boðist til að standa skil á hinum undandregnu sköttum við fyrsta tækifæri.

Þá hafi málið og dráttur á afgreiðslu þess af hálfu rannsóknaraðila hafa valdið ákærðu mikilli vanlíðan og kvíða en málið hafi verið fullrannsakað 17. desember 2010. Hún sé nú 75% öryrki en hafi verið við sæmilega heilsu 2009. Málið hafi verið sent ríkisskattstjóra til endurákvörðunar á opinberum gjöldum skattaðila í upphafi árs 2011 og hafi endurákvörðun legið fyrir átta mánuðum síðar. Undir rekstri málsins hafi ákærða sagst tilbúin að greiða 10% fjármagnstekjuskatt af hinum vanframtöldu tekjum við fyrsta tækifæri. Við endurákvörðun á sköttum ákærðu hafi ríkisskattstjóri hins vegar ákveðið að byggja á ákvæði sem aldrei áður hafði verið lagt til grundvallar í hliðstæðum málum. Fyrir vikið hafi endurákvarðaðir skattar hennar orðið þrefalt hærri en reiknað hafi verið með og hafi ákærða greitt þá upphæð strax. Þar sem ákærða hafi talið endurákvörðunina ranga hafi hún neyðst til að áfrýja henni til yfirskattanefndar og hafi það tafið málið um eitt ár. Fyrir vikið telji ákærða eðlilegt og sanngjarnt að sektarrefsing skv. 1. mgr. 109. gr. lag nr. 90/2003 um tekjuskatt verði færð niður úr því lágmarki sem þar greinir. Það sé hlutverk dómstóla að hafa eftirlit með því að stjórnvöld fari með vald sitt í samræmi við lög og að jafnræðis sé gætt. Í raun séu stjórnvöld að valda ákærðu óþarfa kostnaði.

III

Ákærða gaf skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Ákærða staðfesti framlögð skattframtöl frá gjaldárunum 2006, 2007, 2008 og 2009. Ákærða staðfesti og framburð sinn í lögregluskýrslu hinn 26. apríl 2012 og gerði ekki athugasemdir við greiðslukortayfirlit sem fyrir hana var lagt. Ákærða kvað greiðslukortið vera í sinni eigu og hafa verið notað til þeirra úttekta sem málið varða.

Ákærða kvað endurskoðanda sinn hafa annast gerð áðurgreindra skattframtala. Hún kvað föður sinn hafa stofnað hið erlenda félag, Miko Valley Ltd., og, en síðan hafi hún og fyrrum eiginmaður hennar notað félagið. Kvaðst hún vera eini eigandi félagsins. Hún sagði að endurskoðandi hennar hefði ekki vitað af hinu erlenda félagi, Miko Valley Ltd. Spurð hvers vegna hún hafi vantalið arðgreiðslur og vaxtatekjur frá félaginu á skattframtölum gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009 kvaðst ákærða hafa fengið þær leiðbeiningar hjá ráðgjöfum hérlendra banka að hún þyrfti ekki að gefa úttektir þessar upp þar sem greitt væri af þeim erlendis. Kvaðst ákærða hafa treyst þeirri ráðgjöf. Fram kom í framburði ákærðu að rannsókn málsins hefði tekið mjög á hana. Rannsóknin hefði staðið yfir frá því í mars 2009 eða í fjögur ár og hefði haft alvarleg áhrif á heilsufar hennar.

IV.

Í máli þessu er ákærðu gefið að sök meiriháttar brot gegn skattalögum, með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2006, 2007, 2008 og 2009, vegna tekjuáranna 2006, 2006, 2007 og 2008, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára arðgreiðslur frá erlendu félagi sínu, Miko Valley Ltd. sem skattskyldar eru skv. 4. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, og með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára erlendar vaxtatekjur sem skattskyldar eru skv. 3. tl. C-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt en með þessu hafi ákærða vanframtalið fjármagnstekjuskattstofn sinn um samtals 29.214.829 krónur, sem henni hafi borið að greiða af fjármagnstekjuskatt, samtals að fjárhæð 2.921.483 krónur.

                Ákærða viðurkenndi fyrir dóminum að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum vegna fyrrgreindra ára arðgreiðslur frá hinu erlenda félagi sínu, Miko Valley Ltd., sem og erlendar vaxtatekjur. Gerði ákærða engar athugasemdir við þær fjárhæðir sem byggt er á í ákærunni. Kvaðst hún hafa fengið þær leiðbeiningar hjá ráðgjöfum hérlendis að hún þyrfti ekki að gefa þessar tekjur upp þar sem greitt væri af þeim erlendis og sagðist ákærða hafa treyst þeirri ráðgjöf. Þá kvað hún endurskoðanda sinn hafa annast gerð skattframtala sinn og að hann hefði ekki vitað af hinu erlenda félagi.

Vanþekking ákærðu á að umræddar tekjur teldust til skattskyldra fjármagnstekna hér á landi valda ekki refsileysi. Þótt ákærða hafi falið kunnáttumanni að annast gerð skattframtals fyrir sig leysir það hana heldur ekki undan ábyrgð á skattskilum sínum, enda hvílir framtalsskyldan á henni sjálfri, sbr. 2. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, sbr. einnig dóm Hæstaréttar frá 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2012. Þau skilyrði refsinæmis eru tiltekin í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 að rangt eða villandi sé talið fram vegna ásetnings eða stórfellds hirðuleysis framteljanda. Skilyrði 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eru með sama hætti ásetningur eða stórfellt gáleysi.

Ákærðu bar að sjá til þess að fullnægjandi gögn lægju fyrir við gerð fyrrgreindra skattframtala. Verður að leggja til grundvallar að það hafi verið stórkostlegt hirðuleysi af hálfu ákærðu að gera ekki grein fyrir hinum erlendu fjármagnstekjum á skattframtölum sínum, en ákærða upplýsti ekki um hinar vanframtöldu fjármagnstekjur fyrr en ári eftir að rannsókn hófst og húsleit hafði verið gerð á heimili hennar. Áður hafði ákærða gefið misvísandi upplýsingar um atvik máls.

Samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 skal ákærandi er hann hefur fengið gögn máls í hendur, ganga úr skugga um að rannsókn þess sé lokið. Telji hann þess þörf óskar hann eftir frekari rannsókn málsins en tekur ella ákvörðun um hvort sækja skuli sakborning til sakar. Við þá ákvörðun ber að gæta jafnræðis svo sem ótvírætt leiðir af reglu 142. gr. laganna. Ákvörðun ákæranda, sem að framan greinir, er hluti af meðferð hans á valdheimildum sem honum eru fengnar að lögum. Sú ákvörðun getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn þessa máls, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 3. mars 2011 í máli nr. 71/2010 og dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2010. Verður því hafnað röksemdum ákærðu um að ætlað brot á jafnræðisreglu eigi að leiða til sýknu eða hafa áhrif á ákvörðun refsingar. Verður heldur ekki talið að dráttur á rannsókn málsins hafi verið með þeim hætti að áhrif hafi á ákvörðun refsingar, enda var ákærða ekki að öllu leyti samvinnufús við rannsókn málsins og þurfti meðal annars að gera húsleit hjá ákærðu, þar sem gögn fengust ekki með öðru móti.

                Dómurinn telur þannig sannað með framburði ákærðu, sem fær stuðning af öðrum gögnum málsins, að ákærða hafi haft í frammi þá háttsemi, sem greinir í varakröfu ákæru. Með hliðsjón af því að að um verulegar fjárhæðir var að tefla og ákærða rangfærði skattframtöl sín um árabil teljast brot hennar stórfelld. Er háttsemi ákærðu því réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

                Ákærða hefur ekki áður sætt refsingu.

                Refsing ákærðu þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði, sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir. Þá er ákærðu gert að greiða 8.800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja að viðlagðri vararefsingu eins og í dómsorði greinir.

                Ákærða greiði í sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásmundar G. Vilhjálmssonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 313.750 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari. Uppkvaðning dómsins hefur dregist lítillega vegna embættisanna dómara.

Dómsorð:

Ákærða, Matthildur Ingvarsdóttir, sæti fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar er frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærða greiði 8.800.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja, en sæti ella fangelsi í fimm mánuði.

Ákærða greiði í sakarkostnað málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásmundar G. Vilhjálmssonar hdl., 313.750 krónur.