Print

Mál nr. 393/2002

Lykilorð
  • Fjárdráttur
  • Umboðssvik
  • Mútur
  • Rangar skýrslur
  • Brot í opinberu starfi
  • Tilraun
  • Hlutdeild

Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. febrúar 2003.

Nr. 393/2002.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

Árna Johnsen

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

B

(Gestur Jónsson hrl.)

Gísla Hafliða Guðmundssyni

(Andri Árnason hrl.)

SA og

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

T

(Pétur Guðmundarson hrl.)

 

Fjárdráttur. Umboðssvik. Mútur. Rangar skýrslur. Brot í opinberu starfi. Tilraun. Hlutdeild.

Á var ákærður í 27 töluliðum fyrir fjárdrátt, rangar skýrslur til yfirvalda, mútuþægni og umboðssvik í opinberu starfi. Þá voru B og GH sakaðir um mútur og GH, SA og T um hlutdeild í umboðssvikum Á. Á játaði brot sín í 12 af fyrrnefndum töluliðum en dró til baka játningu sína í tveimur þeirra fyrir Hæstarétti. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um þessa töluliði enda ekkert komið fram sem sýndi að játning hans fyrir héraðsdómi hefði verið gerð fyrir mistök eða leiddi til þess að hún yrði dregin í efa að öðru leyti. Þá var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu Á fyrir brot samkvæmt 4 ákæruliðum sem hann hafði ekki játað staðfest en Á undi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu samkvæmt 2 liðum þar fyrir utan. Enn fremur var Á sakfelldur fyrir brot samkvæmt 4 ákæruliðum til viðbótar en niðurstaða héraðsdóms um sýknu Á af 5 liðum staðfest. Með vísan til þess að Á var sakfelldur fyrir fleiri brot en í héraðsdómi, hafði látið af starfi alþingismanns vegna málsins og gengist greiðlega við hluta þeirra sakargifta sem hann var borinn, var refsing hans ákveðin fangelsi í tvö ár en fallist á það með héraðsdómi að hvorki væri unnt að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti né að hluta. Þá var GH sakfelldur fyrir þau brot sem hann var ákærður fyrir og gert að sæta fangelsi í þrjá mánuði. Niðurstaða héraðsdóms um sýknu B, SA og T var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Árna Johnsen um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að ákærði Árni verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans verði þyngd, svo og að ákærðu B, Gísli Hafliði Guðmundsson, SA og T verði allir sakfelldir og þeim ákvörðuð refsing.

Ákærði Árni krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur um sýknu hans af ákæruliðum 7, 11, 12, 14, 16, 18, 19, 20 og 22, svo og að hann verði jafnframt sýknaður af ákæruliðum 5, 10, 13, 21, 26 og 27. Hann krefst þess og að refsing hans verði milduð og hún öll skilorðsbundin.

Ákærðu B, Gísli, SA og T krefjast staðfestingar héraðsdóms.

I.

Atburðir máls þessa sem í ákæru greinir áttu sér stað á árunum 1997 til 2001. Á þeim tíma var ákærði Árni alþingismaður þar til hann sagði af sér 2. ágúst 2001. Jafnframt gegndi hann formennsku til sama dags í þriggja manna nefnd, sem ætlað var að fjalla um endurbætur og uppbyggingu Þjóðleikhússins, sbr. skipunarbréf menntamálaráðherra 13. febrúar 1996. Í bréfi ráðherra var nánar greint frá hlutverki og valdsviði nefndarinnar. Kom þar fram að henni væri ætlað meðal annars að skipuleggja framhald þess uppbyggingarstarfs, sem staðið hefði um skeið í Þjóðleikhúsinu, gera áætlanir um kostnað og tillögur um leiðir og verklag. Í nefndina voru auk ákærða Árna skipaðir þeir SB þjóðleikhússtjóri og SG forstöðumaður Framkvæmdasýslu ríkisins. Í niðurlagi skipunarbréfsins var tekið fram að þóknun fyrir nefndarstörfin yrði greidd að fenginni umsögn þóknananefndar ríkisins. Áður hafði ákærði Árni setið frá árinu 1989 í nefnd sem fjallaði um breytingar á Þjóðleikhúsinu á árunum 1989 til 1993 og verið formaður í henni frá 1990. Var sú nefnd leyst frá störfum í byrjun febrúar 1996 eða skömmu áður en sú fyrstnefnda tók til starfa. Þessi nýja nefnd var almennt kölluð byggingarnefnd Þjóðleikhússins og verður svo gert hér á eftir.

Engir formlegir fundir voru haldnir í nefndinni eða fundargerðir færðar, sem rétt hefði verið. Þá er ljóst af gögnum málsins að starfsemi nefndarinnar hafi fljótlega þróast á þann veg að þjóðleikhússtjóri gat þess við ákærða Árna hvað þyrfti lagfæringar við í leikhúsinu og hann svo séð um að bæta úr því með því að fela verkið Ístaki hf., sem hafði verið verktaki við fyrri endurbætur á leikhúsinu, eða jafnvel leysa úr því sjálfur. Hafi hann í því sambandi farið á skrifstofu þjóðleikhússtjóra og rætt við hann þar eða í síma. Ákærði Árni kvaðst í skýrslu hjá lögreglu hafa verið allt í senn formaður nefndarinnar, framkvæmdastjóri, samningamaður, sendill og eftirlitsmaður verkefna. Aldrei hafi verið fundað með þriðja nefndarmanninum, en í einhverjum tilvikum hafi verið haft samband við hann símleiðis. Engar áætlanir um kostnað á endurbótum við leikhúsið eða tillögur um leiðir og verklag liggja fyrir, en hins vegar töluverður fjöldi reikninga vegna verka og innkaupa, sem ákærði Árni kom persónulega að eða samþykkti sem formaður nefndarinnar og sendir voru Framkvæmdasýslu ríkisins til greiðslu. Samkvæmt niðurstöðu athugunar ríkisendurskoðunar á fjárreiðum byggingarnefndarinnar væri nærtækara að skilgreina þriðjung þessa heildarkostnaðar sem hefðbundinn rekstrarkostnað leikhússins, sem ekki komi byggingarnefndinni við. Enginn verksamningur var gerður við Ístak hf. vegna þessara framkvæmda á Þjóðleikhúsinu heldur voru öll verk unnin samkvæmt reikningi. Samkvæmt þessu virðist sem störf nefndarinnar hafi þróast á allt annan veg en fyrrnefnt skipunarbréf gaf til kynna, en engar athugasemdir voru gerðar af hálfu menntamálaráðherra eða Framkvæmdasýslu ríkisins við verklag nefndarinnar, þótt hún hafi í engu farið í störfum sínum eftir ákvæðum laga nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda og síðar laga nr. 84/2001 um sama efni. Í fyrrnefndu lögunum var í 1. gr. skilgreint hvað opinber framkvæmd væri og í 2. gr. sagði að um meðferð máls varðandi opinbera framkvæmd færi eftir ákveðinni boðleið, sem skiptist í fjóra áfanga, þ.e. frumathugun, áætlunargerð, verklega framkvæmd og skilamat. Ljóst má vera að samkvæmt skipunarbréfinu var nefndinni eingöngu falið að annast fyrsta og annan áfanga. Eftir að athugasemdir voru gerðar við störf ákærða Árna í nefndinni sagði hann sig, sem fyrr segir, úr henni með bréfi til menntamálaráðherra 2. ágúst 2001.

Samkvæmt ódagsettri skýrslu um verkefni í Brattahlíð var ákærði Árni, sem sat í Vestnorræna ráðinu, valinn á árinu 1997 til þess að vera formaður byggingarnefndar á vegum ráðsins og heimastjórnarinnar á Grænlandi vegna byggingar Þjóðhildarkirkju og bæjar Eiríks rauða í Brattahlíð. Engin gögn liggja fyrir um hlutverk eða valdsvið nefndarinnar annað en það, sem fram kemur í fyrrnefndri skýrslu um að nefndin hafi átt að fylgja þessu verki frekar eftir. Þar kemur einnig fram að nefndin hafi gert verksamning 1998 við Ístak hf. um framkvæmdirnar, sem ákærði Árni mun hafa ritað einn undir af hennar hálfu. Af þessu verður ekki annað ráðið en að ákærði Árni hafi sem formaður nefndarinnar almennt haft umboð til þess að skuldbinda hana. Verkinu lauk með afhendingu húsanna til grænlenskra yfirvalda 16. júlí 2000, en fram kom í málflutningi fyrir Hæstarétti að endanlega hafi verið gengið frá fjárhagslegu uppgjöri af hálfu íslenska ríkisins í september 2002.

Ákærði Árni var ennfremur í mars 1999 skipaður af forsætisráðherra til að vera formaður nefndar til að hafa stjórn og yfirumsjón með framkvæmdum og öðru er lyti að móttöku stafkirkju, sem norsk stjórnvöld færðu Íslendingum að gjöf í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi. Kirkjunni var valinn staður í Vestmannaeyjum. Ístak hf. sá um að flytja inn efni í kirkjuna og reisa hana. Hún var vígð 30. júlí 2000.

II.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi var ákærði Árni í 27 töluliðum ákærunnar borinn sökum um fjárdrátt, rangar skýrslur til yfirvalda, mútuþægni og umboðssvik í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og Brattahlíðarnefndar. Hann játaði brot sín samkvæmt sakargiftum í 12 af þessum töluliðum, en fyrir Hæstarétti hefur hann dregið til baka játningu sína í tveimur síðustu töluliðanna, nr. 26 og 27. Í héraðsdómi var ákærði Árni sakfelldur fyrir brot samkvæmt öllum liðum ákærunnar sem hann hafði þar játað. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans staðfest um þessa töluliði alla, enda er ekkert fram komið fyrir Hæstarétti, sem sýnir að játning hans fyrir héraðsdómi hafi verið gerð fyrir mistök eða leiðir til þess að hún verði dregin í efa að öðru leyti.

Í héraðsdómi var ákærði Árni sakfelldur til viðbótar fyrir brot í 6 töluliðum sem hann ekki hafði játað, og krefst hann þess að verða sýknaður af fjórum þessara liða, nr. 5, 10, 13 og 21, en unir niðurstöðu héraðsdóms í liðum 15 og 17.

Ákæruliðir 5, 10 og 13 varða allir sakarefni, þar sem ákærði Árni er einn sakaður um fjárdrátt í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins vegna úttekta í nafni hennar á fánum og veifum, timbri, saumi og fleiri byggingarvörum og þéttidúk, eins og nánar greinir í héraðsdómi. Í lið 21 eru honum gefin að sök umboðssvik í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndarinnar og ákærða SA hlutdeild í þeim umboðssvikum, með því að ákærði Árni hafi misnotað aðstöðu sína og samþykkt til greiðslu af fjárveitingum nefndarinnar sér eða öðrum til ávinnings, tilhæfulausan reikning Forum ehf. 14. desember 2000 að fjárhæð 169.000 krónur, sem ákærði SA hafði gefið út í nafni félagsins fyrir kaffiveitingar í Leikhúskjallaranum á 33 fundum byggingarnefndarinnar á tímabilinu nóvember 1999 til október 2000.

 Með vísan til forsendna héraðsdóms í öllum þessum töluliðum verður við sakarmat hans unað og sakfelling ákærða Árna staðfest, svo og sýkna ákærða SA af hlutdeild í broti þess fyrrnefnda samkvæmt ákærulið 21.

Ákærði Árni hefur mótmælt heimfærslu brota í töluliðum 5, 10 og 13 til refsiákvæða með því að brotalýsing falli fremur að 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en 247. gr. laganna. Hann byggir jafnframt á því að ekki eigi að heimfæra brot hans undir 138. gr. laganna, þar sem hann hafi ekki komið fram sem opinber starfsmaður í þessum tilvikum.

Fallist er á með héraðsdómi að ákærði Árni hafi með því að tileinka sér þá hluti, sem greinir í töluliðum 5, 10 og 13, dregið sér fé sem nemur verði þeirra. Í störfum sínum í byggingarnefnd Þjóðleikhússins gat ákærði ráðstafað opinberum hagsmunum og skuldbundið opinbera sjóði um greiðslur. Skipunarbréf hans veitti honum ekki slíka heimild, eins og fyrr greinir, en allt að einu voru athugsemdir ekki gerðar við verklag hans. Telst hann í þessum störfum hafa verið opinber starfsmaður í skilningi XIV. kafla almennra hegningarlaga. Eru brotin því réttilega færð í ákæru til 247. gr., sbr. 138. gr. laganna.

III.

Í héraðsdómi var ákærði Árni sýknaður af sakargiftum í 9 töluliðum ákærunnar. Krefst hann sem fyrr segir staðfestingar héraðsdóms að þessu leyti, en ákæruvaldið krefst þess að héraðsdómi verði breytt um alla þessa liði og ákærði sakfelldur samkvæmt þeim. Hér á eftir verða þessir ákæruliðir teknir fyrir. Ákæruvaldið krefst einnig sakfellingar annarra ákærðu, sem þessir liðir beinast að, en þeir voru allir sýknaðir í héraðsdómi.

7. töluliður. Í þessum lið ákæru er ákærði Árni sakaður um að hafa dregið sér tvær jólaljósaseríur, sem hann tók út hjá Dengsa ehf. í Reykjavík samkvæmt reikningi 22. desember 2000 að fjárhæð 217.257 krónur og látið greiða af fjárveitingum byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Eins og greinir í héraðsdómi hefur ákærði skýrt svo frá að haustið 1999 hafi hann lagt til að sett yrði upp lýsing í anddyri leikhússins með svokölluðum leiðaraljósum og rætt við þjóðleikhússtjóra, tæknimenn og fleiri um þetta. Þetta hafi verið gert og líkað vel. Haustið 2000 hafi ákærði haft hugmynd um að auka við skreytinguna og hringt í þjóðleikhússtjóra en ekki náð til hans þar sem hann var erlendis. Þá hafi hann pantað þessi ljós. Síðar ræddi ákærði þetta lítillega við þjóðleikhússtjóra og fékk þau svör að hann hefði ekki áhuga á þessu í bili. Ákærði kvaðst þá hafa ákveðið að afpanta ljósin en þau verið tilbúin og hann því tekið þau í sínar vörslur með það fyrir augum að koma þeim upp í leikhúsinu ári síðar. Það hafi dregist hjá sér að koma seríunum í leikhúsið. Hann afhenti þær lögreglunni 17. september 2001 er hann gaf þar skýrslu.

Bæði þjóðleikhússtjóri og umsjónarmaður leikhússins báru að ákærði hefði ekki rætt við þá um þessi kaup. Ákærði hefur sjálfur sagt að hann hafi keypt ljósin í nafni byggingarnefndarinnar og geymt þau hjá sér. Þau voru greidd að fengnu samþykki Framkvæmdasýslu ríkisins. Það var ekki á verksviði byggingarnefndar Þjóðleikhússins að festa kaup á slíkum ljósum og því síður á verksviði ákærða án samráðs við nefndarmenn. Ekkert styður þá staðhæfingu ákærða að ljósin hafi verið ætluð leikhúsinu. Er því ekki annað sýnt en að ákærði hafi tileinkað sér þau í auðgunarskyni með því að fara með þau heim til sín án samráðs við nokkurn mann og geyma þar í tæpt ár. Af þessu er fram komin nægileg sönnun þess samkvæmt 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að ákærði hafi dregið sér þessi verðmæti. Verður hann því sakfelldur samkvæmt þessum ákærulið. Varðar brot hans við 247. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga.

11. töluliður. Í þessum lið ákæru er ákærði Árni sakaður um að hafa dregið sér þéttidúk og lím, sem hann tók út hjá Gróðurvörum ehf. í Reykjavík samkvæmt reikningi 2. júlí 2001 að fjárhæð 173.658 krónur, en reikninginn lét hann stíla á byggingarnefnd Þjóðleikhússins vegna bílaplans og smíðaverkstæðis. Fram er komið að þak smíðaverkstæðis leikhússins, sem notað var til leiksýninga, hafi verið lekt. Enginn forsvarsmanna leikhússins bar þó að fyrirhugaðar hafi verið aðgerðir vegna þessa, hvað þá hannaðar. Í þessu ljósi er afar ósennilegt að ákærði hafi sem formaður byggingarnefndarinnar farið án vitundar nefndarmanna til að kaupa og taka út vörur til þess að lagfæra þennan leka. Þar við bætist sú fjarstæða frásögn ákærða að dúkurinn hafi án hans tilverknaðar verið fluttur til Vestmannaeyja, en hún er engum gögnum studd. Þrátt fyrir þetta verður að una við sakarmat héraðsdóms, sem reist er á mati á sönnunargildi munnlegra skýrslna fyrir dómi, og staðfesta niðurstöðu hans um sýknu ákærða af þessum ákærulið.

12. töluliður. Í þessum lið ákæru er ákærði Árni sakaður um að hafa gert tilraun til að draga sér timbur, þéttiull og aðrar byggingarvörur, sem hann tók út hjá BYKO í Kópavogi samkvæmt reikningi 3. júlí 2001 að fjárhæð 1.016.069 krónur í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins vegna leikmunageymslu. Reikningsfjárhæðina greiddi ákærði 20. sama mánaðar eftir að mál þetta komst í hámæli. Í héraðsdómi er fjallað um ákæruliði 10 og 12 í sameiningu, enda um að ræða úttektir á byggingarefni hjá sömu verslun með fimm vikna millibili, en mótbára ákærða er sú að starfsmenn verslunarinnar hafi gert mistök er þeir skráðu reikningana á Þjóðleikhúsið en ekki hann sjálfan. Var ákærði þar sakfelldur fyrir ákæruatriði í lið 10 en sýknaður af sakargiftum í lið 12.

Eins og að framan greinir í II. kafla er niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða vegna sakargifta í 10. ákærulið staðfest með vísan til forsendna dómsins. Í því sakarmati héraðsdóms var byggt á framburði vitna um það hvernig vörupöntun ákærða hafi verið skráð á Þjóðleikhúsið og að ákærði hafi skrifað undir reikninginn án þess að kanna hvort rétt væri skráð. Varðandi vörupöntunina í 12. tölulið hefur sölumaður borið að ákærði hafi komið að máli við sig og pantað vörur á kennitölu Þjóðleikhússins vegna leikmunageymslu. Sölumaðurinn hafi handskrifað pöntunarlistann eftir ákærða, þar á meðal koparrennur og þá farið að gruna að þetta væri til einkanota, þar sem ákærði hafði nokkrum mánuðum áður beðið um tilboð í koparrennur fyrir bjálkahús sitt í Vestmannaeyjum. Ákærði hafi sagt sölumanninum að rennurnar yrðu festar á trélista utan á Þjóðleikhúsinu. Þegar búið var að taka til pöntunina hafi sölumaðurinn hringt í ákærða sem kom og sótti hana. Vörurnar voru merktar Þjóðleikhúsinu, en ákærði breytti því fyrir allra augum og merkti þær sér, án þess að ganga jafnframt úr skugga um að rétt væri reikningsfært. Hann viðurkenndi þvert á móti móttöku á vörunum með því að kvitta á reikninginn, þar sem fram kom að vörurnar væru fyrir Þjóðleikhúsið vegna leikmunageymslu, umbeðnar af ákærða. Á handskrifuðu blaði sölumannsins var færð kennitala Þjóðleikhússins og skráð „v/leikmunag.“ Er ekkert sem bendir til að um mistök sölumannsins hafi verið að ræða við skráningu eftir kaupandanum. Ákærði hafði hins vegar gengið þannig frá málum að vörurnar voru ekki skrifaðar í reikning leikhússins þá þegar, heldur í biðreikning. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af niðurstöðu í ákærulið 10, sem ákærði hefur sagt að sé í raun sama mál, er fram komin nægileg sönnun, sem ekki verður vefengd með skynsamlegum rökum, að ákærði Árni hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er af hálfu ákæruvalds. Brot hans varðar við 247. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga, en eins og heimfærslu í ákæru er háttað verður hann ekki sakfelldur fyrir fullframið brot heldur tilraun.

14. töluliður. Í þessum lið ákæru er ákærði Árni sakaður um fjárdrátt í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar, með því að hafa 22. júní 2001 dregið sér 782.790 krónur af bankareikningi þess við Landsbanka Íslands hf. í Reykjavík, þegar hann hafi fénýtt í eigin þágu andvirði tékka, sem hann fékk útgefinn af bankanum til nafngreinds trésmiðs og lét skuldfæra á bankareikning Vestnorræna ráðsins vegna tilhæfulauss reiknings 20. júní 2001 á hendur Brattahlíðarnefnd fyrir smíði á 32 kistilhnöllum, sem hann hafi blekkt manninn til að undirrita, eins og nánar er lýst í ákæru. Í héraðsdómi er lýst frásögn ákærða af viðskiptum sínum við trésmiðinn, sem hann hafði þekkt frá barnæsku og fengið til starfa við verkefnið í Brattahlíð. Trésmiðurinn gaf skýrslu hjá lögreglu 4. september 2001 og lýsti kynnum sínum af ákærða. Hann kvaðst þekkja ákærða vel, en hann hafi barn verið tíður gestur á trésmíðaverkstæði sínu í Vestmannaeyjum. Smiðurinn kvaðst hafa unnið fyrir ákærða í bjálkahúsi, sem hann hafi verið að reisa í Vestmannaeyjum fyrir 4 til 5 árum, en ákærði hafi aldrei greitt sér fyrir vinnuna og skuldin verið 38.000 krónur. Ákærði hafi beðið hann að smíða altari í kirkjuna, sem reist var í Brattahlíð á Grænlandi, og hafi ákærði ráðið sig til verksins en Ístak hf. ekkert komið þar nærri. Að verki loknu hafi hann skrifað tvo reikninga, sem ákærði hafi tekið við og þeir báðir verið greiddir beint á bankareikning hans. Nokkru síðar hafi ákærði hringt til sín og sagt að hann þyrfti að gera upp fyrrnefnda skuld sína. Hann hafi síðan komið með reikningseyðublað sem hann hafi leiðbeint sér með að fylla út. Hafi ákærði beðið sig að stíla reikninginn á Brattahlíðarnefnd og gefa þá skýringu að hann væri fyrir smíði kistilhnalla. Kvaðst smiðurinn hafa skrifað það á reikningseyðublaðið sem ákærði hafi sagt sér. Hann hafi ekki sett neina fjárhæð á reikninginn og aldrei séð hversu hár hann var, en ákærði hljóti að hafa fyllt sjálfur út fjárhæðina. Í Landsbankanum hafi ákærði fengið í hendur tékka sem hann hafi beðið sig að framselja. Smiðurinn hafi gert það án þess að sjá fjárhæð tékkans. Ákærði hafi síðan skipt tékkanum hjá gjaldkera á meðan hann beið til hliðar og að svo búnu komið og afhent sér 40.000 krónur og þar með gert upp skuldina við sig. Eftir að umræða um misferli ákærða hafi verið komin upp í fjölmiðlum hafi hann hringt til sín og þeir mælt sér mót fyrir utan Grandakaffi. Þar hafi ákærði verið með texta á blaði um að smiðurinn endurgreiddi fjárhæð reikningsins því að hann hafi ekki getað leyst verkið af hendi vegna veikinda. Hafi ákærði beðið sig um þetta vegna þeirra vandræða sem upp væru komin vegna fjölmiðlaumræðunnar. Þessi framburður smiðsins var ekki borinn undir ákærða hjá lögreglu fyrr en 16. febrúar 2002. Þá kvaðst ákærði halda sig við fyrri framburð sinn og ekki vilja tjá sig frekar um framburð smiðsins.

Þegar skýrslur voru teknar fyrir héraðsdómi 6. júní 2002 var smiðurinn kominn á sjúkrahús. Gaf hann skýrslu sína þar og er frá henni greint í héraðsdómi. Skýrsla vitnisins hjá lögreglu lá fyrir héraðsdómi og var sem slík sönnunargagn sem fært var fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 19/1991. Fyrir dómi bar vitnið með nokkuð öðrum hætti en hjá lögreglu. Með þessum athugasemdum verður að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms.

16. töluliður. Í þessum lið ákærunnar er ákærði Árni sakaður um brot í opinberu starfi, mútuþægni, með því að hafa í mars 2000 fengið Ístak hf. til þess að greiða fyrir sig 67.308,40 norskar krónur samkvæmt reikningi 13. apríl 2000 fyrir tilsniðið timbur í litla stafkirkju, sem ákærði festi kaup á fyrir sjálfan sig hjá Materialbanken AS í Noregi á sama tíma og hann vann að viðtöku stafkirkju, sem var þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga, eins og nánar greinir í ákæru og héraðsdómi. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sýknu ákærða af sakargiftum í þessum tölulið staðfest.

18. töluliður. Í þessum lið ákærunnar er ákærði Árni sakaður um umboðssvik í opinberu starfi með því að hafa sem formaður byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar, misnotað aðstöðu sína, sér eða öðrum til ávinnings, þann 22. júní 2001 er hann greiddi af bankareikningi ráðsins Torf- og grjóthleðslunni ehf. á Hellu, reikning 10. ágúst 2000 að fjárhæð 645.000 krónur vegna hleðslu í Brattahlíð og tækjaleigu, þótt félagið, sem verið hafði undirverktaki Ístaks hf. við framkvæmd verks á Grænlandi árið 2000 og fengið fullnaðargreiðslu frá Ístaki hf., hafi ekki átt lögvarða kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd. Ákærði var formaður þessarar byggingarnefndar. Hann innti umrædda greiðslu af hendi úr sjóðum Vestnorræna ráðsins nær ári eftir að verkefninu í Brattahlíð lauk í júlí 2000 án nokkurs samráðs við forsætisnefnd ráðsins eða Íslandsdeild þess. Þetta gerði hann þó sem formaður Brattahlíðarnefndar og er ósannað að hann hafi ekki haft til þess umboð. Því verður niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða af sakargiftum í þessum tölulið staðfest.

19. og 20. töluliður. Í þessum liðum ákærunnar eru ákærða Árna gefin að sök umboðssvik í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og ákærða Gísla hlutdeild í þeim með því að ákærði Árni hafi misnotað aðstöðu sína og samþykkt til greiðslu af fjárveitingum byggingarnefndarinnar sér eða öðrum til ávinnings tvo tilhæfulausa reikninga, annan 1998 og hinn 1999, sem ákærði Gísli hafi gefið út í nafni Þjóðleikhúskjallarans hf. Fyrri reikningurinn er dagsettur 18. mars 1998 að fjárhæð 82.500 krónur fyrir kaffi og kökur á 29 fundum byggingarnefndarinnar á tímabilinu júlí 1997 til mars 1998, en sá síðari er dagsettur 20. janúar 1999 að fjárhæð 88.000 krónur fyrir kaffiveitingar á fundum vegna endurbóta í leikhúsinu. Í héraðsdómi voru báðir ákærðu sýknaðir af þessum sakargiftum, þar sem talið var að ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á að það væri rangt hjá þeim að reikningarnir hafi verið vegna veittrar þjónustu og því hafi þá skort auðgunarásetning.

Með framburði beggja ákærðu er í ljós leitt að efni reikninganna var rangt. Ákærði Árni sagði hjá lögreglu 17. september 2001 að báðir reikningarnir væru vegna veislu, sem haldin var í tilefni af opnun Málarasalar leikhússins, annar vegna matar en hinn vegna drykkja, og hann hafi sjálfur tekið ákvörðun um að byggingarnefndin greiddi kostnaðinn vegna þessarar veislu. Ákærði Gísli bar um reikningana hjá lögreglu 11. september 2001 og sagði að þegar byggingarnefndin hafi lokið við að láta útbúa mötuneyti í Málarasal leikhússins hafi ákærði Árni komið til sín og sagt að hann hefði hug á að halda vígsluveislu í mötuneytinu. Hafi ákærði Árni falið sér að sjá um veitingar vegna veislunnar, pinnamat og snittur, létt vín og bjór. Ákærði Gísli kvaðst hafa falið starfsfólki veitingahússins að framreiða þessar veitingar og veislan verið haldin um haustið 1997. Fyrri reikningurinn hafi að beiðni ákærða Árna verið sagður vera vegna funda frá júlí 1997 til mars 1998, en það hafi ekki verið rétt, hann hafi eingöngu verið vegna matarins í veislunni. Síðari reikningurinn hafi verið gerður vegna áfengisins í veislunni, sem hafi verið ógreitt og staðið sem skuld. Ákærði Árni hafi í upphafi ætlað að útvega áfengi til veislunnar frá menntamálaráðuneytinu á sérkjörum, en það hafi ekki tekist. Þegar útséð var um það hafi ákærði Gísli gengið eftir greiðslu fyrir áfengið sem veitt var í veislunni og hafi þeir ákærði Árni orðið sammála um það að hann gæfi út reikning fyrir hönd Þjóðleikhúskjallarans sem stílaður væri á byggingarnefndina vegna þessa áfengis. Samkomulag hafi verið um „að skrá þetta sem kostnað vegna matarveitinga en ekki áfengis, enda hafi Gísli talið ólíklegt að Framkvæmdasýslan myndi samþykkja reikning vegna áfengiskaupa“ eins og haft var eftir ákærða Gísla í lögregluskýrslu. Báðir ákærðu báru efnislega á sama veg fyrir dómi.

Við rannsókn málsins kom í ljós reikningur frá Þjóðleikhúskjallaranum hf. 13. október 1995 að fjárhæð 260.700 krónur fyrir mat og drykk. Á hann er skráð að hann sé vegna opnunar Málarasalar og hefur ákærði Árni ritað á hann „Vegna opnunar Málarasalar og matstofu – öllu starfsfólki boðið. 19. 10. ´95“. Ákærði Árni var nánar spurður um þessa reikninga hjá lögreglu 28. febrúar 2002 og reikninginn frá október 1995 sérstaklega. Kvaðst hann telja að allur kostnaður vegna veislunnar í Málarasalnum hafi ekki verið gerður upp með þessum reikningi og að meiri vínveitingar hafi verið í veislunni en þar komi fram. Veitingahúsið hafi því staðið uppi með meiri kostnað en áætlað hafi verið í fyrstu. Það hafi ekki verið gert upp fyrr en með reikningnum 18. mars 1998. Hann kvaðst og telja að í reikningana blandist kaffiveitingar vegna funda hans í leikhúsinu.

Ákærðu hafa engar skýringar gefið á reikningum sem um ræðir í þessum töluliðum ákærunnar aðrar en þær að þeir séu fyrir veitingar í veislu, sem í ljós kom að haldin var tveimur árum fyrr en sagt var og sérstakur reikningur hafði verið gerður fyrir og greiddur. Samkvæmt þessu hafa báðir ákærðu viðurkennt að reikningarnir séu rangir og tilhæfulausir og hafa þeir engar haldbærar skýringar gefið á tilurð þeirra. Er fram komin nægileg sönnun eftir 46. gr. laga nr. 19/1991 um að ákærði Árni hafi þarna gerst sekur um umboðssvik og ákærði Gísli verið hlutdeildarmaður í því broti, eins og í ákæru greinir, og er brotið þar réttilega fært til refsiákvæða.

22. töluliður. Í þessum lið ákærunnar eru ákærða Árna gefin að sök umboðssvik í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins með því að hafa misnotað aðstöðu sína. Ákærða T, verkfræðingi hjá Ístaki hf. og umsjónarmanni með verkum við leikhúsið, er gefin að sök þátttaka í umboðssvikabrotinu. Hafi ákærði Árni fengið hann til þess á árinu 1999 að láta Ístak hf. annast innréttingu bílskúrs að Haukalind 17 í Kópavogi, sem hafi verið byggingarnefnd leikhússins óviðkomandi, og gera nefndinni reikning 30. mars 2000 vegna kostnaðar við framkvæmdina að fjárhæð 305.825 krónur. Ákæruvaldið hefur bent á að kostnaður við þessa framkvæmd hefði fallið á Ístak hf. ef farið hefði verið að eins og ákærði Árni heldur fram að hann hafi beðið um og félagið fært reikninginn sem kostnað vegna framkvæmda í Brattahlíð, sem Ístak hf. hafði tekið að sér samkvæmt föstu tilboði. Hafi ákærði T í þessu verkefni fengið beiðni frá ákærða Árna um verk, sem sá fyrrnefndi hafi vitað eða hlotið að vita að ranglega hafi verið unnið á kostnað byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Ákærði T hefur hins vegar bent á að ákærði Árni hafi haft fullt umboð til að koma fram fyrir hönd byggingarnefndarinnar gagnvart Ístaki hf. Hann hafi talið ákærða Árna ganga erinda verkkaupa, byggingarnefndarinnar, og að verkið í Haukalind væri greiðsla fyrir verk ljósmyndara.

Ákæruvaldið hefur ekki sýnt nægilega fram á sök ákærðu samkvæmt þessum ákærulið. Verður því við sakarmat héraðsdóms unað og niðurstaða hans um sýknu beggja ákærðu staðfest með vísan til forsendna hans.

23. til 27. töluliður. Í þessum liðum ákærunnar eru ákærða Árna gefin að sök umboðssvik og fjárdráttur í opinberu starfi og ákærða T gefin að sök þátttaka í þeim brotum. Ákærði Árni játaði þessi brot sín í héraði og var sakfelldur samkvæmt því. Í II. kafla hér að framan hefur sú niðurstaða verið staðfest. Verður þá litið til þáttar ákærða T, sem sýknaður var af þessum sakargiftum í héraðsdómi.

Ákæruvaldið bendir á að verkið í ákærulið 22 hefði átt að vera ákærða T skýr viðvörun og hann átt að gæta fyllstu varúðar í samskiptum við ákærða Árna eftir það, en það hafi hann ekki gert. Þótt fallast megi á það með ákæruvaldinu að ákærði T hafi mátt vita að verklag ákærða Árna væri óvenjulegt og óeðlilegt og að það hefði átt að hvetja til varúðar, er ekki næg ástæða til að hnekkja sakarmati héraðsdóms um þetta. Verður því niðurstaða héraðsdóms um sýknu ákærða T af sakargiftum í þessum liðum ákærunnar staðfest með vísan til forsendna hans.

28. töluliður. Í þessum lið ákærunnar eru ákærðu B og Gísli sakaðir um mútur með því að hafa sem fyrirsvarsmenn Þjóðleikhúskjallarans hf. lofað á árinu 2001 að greiða ákærða Árna sem formanni byggingarnefndar Þjóðleikhússins 650.000 króna þóknun fyrir að samþykkja greiðslu á reikningi veitingahússins á hendur byggingarnefndinni, dagsettum 8. febrúar 2001 og að fjárhæð 3.154.419 krónur, vegna ýmissa lagfæringa í húsnæði veitingahússins á fimm ára tímabili. Þóknun þessa hafi þeir innt af hendi í mars 2001 þegar reikningsfjárhæðin hafði verið greidd veitingahúsinu af fjárveitingum byggingarnefndarinnar.

Svo sem í héraðsdómi greinir var ákærði Árni sakfelldur samkvæmt 17. tölulið ákærunnar fyrir að hafa tekið við þessu fé úr hendi ákærða Gísla, og er sá þáttur ekki hér til endurskoðunar, þar sem hann unir þessari niðurstöðu. Svo sem einnig greinir í héraðsdómi hefur ákærði Gísli lýst því að þessi greiðsla til ákærða Árna hafi tengst því að hann samþykkti endurbótareikninginn. Á það verður fallist með dóminum að ráða megi af framburði þeirra beggja að greiðslan hafi verið vegna starfa ákærða Árna sem formanns byggingarnefndarinnar. Ákærði Gísli hefur og staðhæft að ákærði Árni hafi átt frumkvæði að því að hann fengi þessa greiðslu. Hefur ákærði Gísli jafnframt lýst því að ákærði Árni hafi viljað að hann bætti fjárhæðinni 650.000 krónur á endurbótareikninginn eða gæfi út aukareikning og fengi ákærði Árni þá fjárhæð í sinn hlut. Þeir ákærði B hafi verið sammála um að neita þessu. Þá er í héraðsdómi reifuð sú frásögn ákærða Gísla að ákærði Árni hafi hringt í sig og greint sér frá því að búið væri að samþykkja reikninginn. Hann hafi talið það liggja í augum uppi að með þessu hafi ákærði Árni verið að ganga eftir greiðslunni til sín.

Engin önnur haldbær skýring er fram komin á verknaði ákærða Gísla en að hann hafi með greiðslunni til ákærða Árna verið að efna loforð við hann í tengslum við samþykki ákærða Árna sem formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins á endurbótareikningnum. Þegar það er virt í heild sem fyrir liggur telst sannað að út frá því hafi verið gengið milli þeirra tveggja að greiðslan yrði innt af hendi í kjölfar samþykktar reikningsins, enda tengdi ákærði Gísli símhringingu ákærða Árna umsvifalaust við eftirgangsmuni af hans hálfu, sbr. 46. gr. laga nr. 19/1991. Niðurstaða héraðsdóms um viðhorf ákærða Árna í þessu efni við úrlausn um 17. tölulið ákæru breytir hér engu, en sá ákæruliður er ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti eins og áður greinir.

Brot ákærða Gísla er í ákæru talið varða við 109. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. 109. gr., eins og henni var breytt með 2. gr. laga nr. 147/1998, segir að hver sem gefi, lofi eða bjóði opinberum starfsmanni gjafir eða annan ávinning til þess að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skuli sæta fangelsi allt að 3 árum eða sektum, séu málsbætur fyrir hendi. Háttsemi ákærða Gísla samkvæmt framansögðu fellur undir verknaðarlýsingu ákvæðisins og verður hann því sakfelldur samkvæmt þessum lið ákærunnar.

Ákæruvaldið hefur leitast við að sýna fram á að ákærða B hafi verið kunnugt um samskipti ákærðu Gísla og Árna og að þau hafi verið með hans samþykki og í hans þágu og veitingahússins, sem hann rak. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á að sýkna verði ákærða B af sakargiftum í þessum ákærulið.

IV.

Niðurstaða máls þessa varðandi ákærða Árna er samkvæmt framansögðu sú, að staðfest er niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans vegna þeirra ákæruliða, er þar greinir. Að auki er hann sakfelldur fyrir brot samkvæmt ákæruliðum 7, 12, 19 og 20 til viðbótar þeim sem hann var sakfelldur fyrir í héraði. Ákærði Gísli er sakfelldur fyrir brot samkvæmt ákæruliðum 19, 20 og 28. Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um sýknu annarra ákærðu af kröfum ákæruvaldsins.

Við ákvörðun refsingar ákærða Árna verður litið til þeirra lagafyrirmæla og atriða sem í héraðsdómi greinir um forsendur hennar að gættu því að hann er nú sakfelldur fyrir fleiri brot, sem varða þannig hærri fjárhæð en þar kemur fram. Jafnframt verður að líta til þess að hann lét af starfi alþingismanns vegna málsins og gekkst greiðlega við hluta þeirra sakargifta, sem hann var borinn. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár. Á það er fallist með héraðsdómi að hvorki sé unnt að skilorðsbinda refsinguna að öllu leyti né að hluta.

Ákærði Gísli hefur ekki áður unnið til refsingar. Er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, en ekki eru efni til að binda hana skilorði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað að því er varðar ákærðu B, SA og T, svo og um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Árna. Ákærða Gísla verður hins vegar gert að greiða málsvarnarlaun til verjanda síns í héraði. Annan sakarkostnað í héraði greiði ákærði Árni.

Málsvarnarlaun verjenda ákærðu B, SA og T fyrir Hæstarétti greiðast úr ríkissjóði. Ákærðu Árni og Gísli verða dæmdir til að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna, svo og allan annan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.


Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar ákærðu B, SA og T.

Ákærði Árni Johnsen sæti fangelsi í tvö ár.

Ákærði Gísli Hafliði Guðmundsson sæti fangelsi í þrjá mánuði.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað að því er varðar ákærðu B, SA og T, svo og um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Árna í héraði. Ákærði Gísli greiði málsvarnarlaun verjanda síns í héraði, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur. Ákærði Árni greiði allan annan sakarkostnað í héraði.

Ákærði Árni greiði málsvarnarlaun verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 650.000 krónur. Ákærði Gísli greiði málsvarnarlaun verjanda síns, Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur. Málsvarnarlaun verjenda ákærðu B og SA, Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns og Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.000 krónur til hvors, greiðast úr ríkissjóði. Málsvarnarlaun verjanda ákærða T, Péturs Guðmundarsonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði. Ákærði Árni greiði allan annan áfrýjunarkostnað málsins, þar af greiði ákærði Gísli í sameiningu með honum 1/10 hluta.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. júlí 2002.

Árið 2002, miðvikudaginn 3. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-1393/2002: Ákæruvaldið gegn Árna Johnsen, B, Gísla Hafliða Guðmundssyni, SA og T, en málið var dómtekið 27. júní sl.

Málið er höfðað með ákæru útgefinni 6. maí 2002 á hendur: 

,,Árna Johnsen, [...],

B

Gísla Hafliða Guðmundssyni, [...],

SA

T

fyrir hegningarlagabrot eins og nánar greinir hér á eftir.

I.

Ákærða Árna Johnsen einum er gefið að sök fjárdráttur, umboðssvik, rangar skýrslur til yfirvalda og mútuþægni í opinberu starfi sem alþingismaður, formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og formaður byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar.

A.        Ákærði Árni er sakaður um fjárdrátt í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins með því að hafa dregið sér;

1.        eldhús- og baðinnréttingu sem hann tók út hjá Samnorræna, Reykjavík, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni Ístaks h.f. til sölufyrirtækisins.  Ákærði fékk fyrirsvarsmann sölufyrirtækisins til að tilgreina úttektina sem hillueiningar og þilplötur á reikningi dagsettum 28. janúar 1997 að fjárhæð kr. 326.000.  Ístak hf. krafði reikningsfjárhæðina hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 19. febrúar 1997 að viðbættu 15% álagi. Ákærði endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

2.        ýmis hreinlætistæki og pípulagningaefni sem hann tók út hjá Tengi ehf., Kópavogi, samkvæmt reikningi dagsettum 8. júlí 1997 að fjárhæð kr. 231.810 og lét greiða af fjárveitingum byggingarnefndarinnar.  Ákærði endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001.

3.        fánastöng, límtrésbita, sem hann tók út hjá Stálsmiðjunni hf., Reykjavík, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni Ístaks hf. til sölufyrirtækisins.  Ístak hf. krafði fjárhæð reiknings Stálsmiðjunnar hf., dagsetts 19. mars 1999, kr. 39.999, hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 30. september 1999 að viðbættu 15% álagi.  Ákærði endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

4.        álstiga sem hann tók út hjá Húsasmiðjunni hf., Reykjavík, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni Ístaks hf. til sölufyrirtækisins.  Ístak hf. krafði fjárhæð reiknings Húsasmiðjunnar hf., dagsetts 7. apríl 1999, kr. 12.047, hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 30. september 1999 að viðbættu 15% álagi. Ákærði endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

5.        þjóðfána og veifur sem hann tók út hjá Íslensku fánasaumastofunni, Hofsósi, samkvæmt reikningi dagsettum 16. ágúst 1999 að fjárhæð kr. 247.133 og lét greiða af fjárveitingum byggingarnefndarinnar.

6.        verkpalla sem hann tók út hjá Verkpöllum ehf. - Brimrás, Reykjavík, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni Ístaks hf. til sölufyrirtækisins.  Ístak hf. krafði fjárhæð reiknings Verkpalla ehf. - Brimrásar dagsetts 6. september 1999, kr. 249.245, hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 30. september 1999 að viðbættu 15% álagi. Ákærði endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

7.        tvær jólaljósaseríur sem hann tók út hjá Dengsa ehf., Reykjavík, samkvæmt reikningi dagsettum 22. desember 2000 samtals að fjárhæð kr. 217.257 og lét greiða af fjárveitingum byggingarnefndarinnar.

8.        timbur sem hann tók út hjá Húsasmiðjunni hf., Reykjavík, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni sem meðákærði T gaf út til sölufyrirtækisins.  Fjárhæð tveggja reikninga Húsasmiðjunnar hf. vegna úttektarinnar dagsettra 2. janúar 2001, samtals kr. 251.857, krafði Ístak hf. hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 28. febrúar 2001 að viðbættu 15% álagi.  Ákærði endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

9.        300 stk. óðalskantsteina og 30 stk. óðalssteina sem hann tók út hjá BM Vallá, Reykjavík, samkvæmt reikningi dagsettum 11. maí 2001 að fjárhæð kr. 160.978 og lét greiða af fjárveitingum byggingarnefndarinnar.  Reikningurinn var áritaður af Framkvæmdasýslu ríkisins 17. júlí 2001 um endurgreiðslu.

10.     timbur, saum o.fl. sem hann tók út hjá BYKO, Kópavogi, samkvæmt reikningi dagsettum 23. maí 2001 að fjárhæð kr. 400.930 sem hann lét stíla á Þjóðleikhúsið vegna leikmunageymslu og færa til skuldar á viðskiptareikningi Þjóðleikhússins hjá BYKO.  Reikningurinn var síðar bakfærður af reikningi Þjóðleikhússins og hefur ákærði greitt reikningsfjárhæðina.

11.     þéttidúk og lím sem hann tók út hjá Gróðurvörum ehf., Reykjavík, samkvæmt reikningi dagsettum 2. júlí 2001 að fjárhæð kr. 173.658 sem hann lét stíla á byggingarnefnd Þjóðleikhússins vegna bílaplans og smíðaverkstæðis Þjóðleikhússins.  Reikningnum var framvísað hjá Framkvæmdasýslu ríkisins en reikningsfjárhæðin var ekki greidd af fjárveitingum byggingarnefndarinnar.

12.     timbur, þéttiull og aðrar byggingavörur sem hann tók út hjá BYKO, Kópavogi, samkvæmt reikningi dagsettum 3. júlí 2001 að fjárhæð kr. 1.016.069 í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins vegna leikmunageymslu.  Reikningsfjárhæðina greiddi ákærði 20. júlí eftir að mál þetta kom upp.

13.     þéttidúk sem hann tók út hjá Fagtúni ehf., Reykjavík, samkvæmt reikningi 9. júlí 2001 að fjárhæð kr. 157.320 sem hann lét stíla á byggingarnefnd Þjóðleikhússins.  Reikningnum var framvísað hjá Framkvæmdasýslu ríkisins en reikningsfjárhæðin var ekki greidd af fjárveitingum byggingarnefndarinnar.

B.         Ákærði Árni er sakaður um fjárdrátt í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar, með því að hafa dregið sér;

14.     kr. 782.790 af bankareikningi Vestnorræna ráðsins við Landsbanka Íslands, Reykjavík, þann 22. júní 2001 er ákærði fénýtti í eigin þágu andvirði tékka sem hann fékk útgefinn af Landsbanka Íslands til X og lét skuldfæra á bankareikning Vestnorræna ráðsins vegna tilhæfulauss reiknings, dagsetts 20. júní 2001, á hendur Brattahlíðarnefnd yfir smíði á þrjátíuogtveimur kistilhnöllum sem hann blekkti X til að undirrita.  Þann 22. júlí 2001 fékk ákærði X til að undirrita yfirlýsingu um að hann gæti ekki sinnt smíði kistilhnallanna og afhenti honum reiðufé til þess að skila fjárhæðinni sem X gerði næsta dag með því að fara í Landsbanka Íslands, Kópavogi og leggja peningana inn á bankareikning Vestnorræna ráðsins við Landsbanka Íslands, Reykjavík.

Brot ákærða samkvæmt 1. - 14. tölulið þykja varða við 247. gr. sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. sömu laga að því er 7. lið varðar.

C.         Ákærði Árni er sakaður um rangar skýrslur til yfirvalda með því að;

15.     framvísa á skrifstofu Alþingis með umsókn, dagsettri. 28. desember 2000, um lækkun á tekjuskattstofni starfskostnaðargreiðslna, tilhæfulausum greiðslu- kvittunum

a) fyrir leigu á fundaraðstöðu 15. janúar til 15. desember 2000 að fjárhæð kr. 112.000, dagsettri 15. febrúar 2000, sem hann fékk fyrirsvarsmann Drífandi ehf. til að gefa út og

b) fyrir veitingar handa 70 manns að fjárhæð kr. 118.000, dagsettri 3. júní 2000, sem hann fékk X til að gefa út.

Brot ákærða samkvæmt 15. tölulið þykir varða við 147. gr., sbr. 138. gr., almennra hegningarlaga.

D.         Ákærði Árni er sakaður um brot í opinberu starfi, mútuþægni, með því að hafa;

16.     í marsmánuði 2000, fengið Ístak h.f., sem hann átti umfangsmikil samskipti við sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og formaður byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar, til þess að greiða n.kr. 67.308.40 samkvæmt reikningi dagsettum 13. apríl 2000 fyrir tilsniðið timbur í stafkirkju sem ákærði festi kaup á fyrir sjálfan sig hjá Materialbanken AS í Noregi á sama tíma og hann vann að viðtöku stafkirkju, þjóðargjafar Norðmanna til Íslendinga, sem formaður byggingarnefndar stafkirkju í Vestmannaeyjum.  Ístak hf. færði fjárhæð reikningsins til gjalda í bókhaldi sínu í maímánuði 2000 á bókhaldsreikning vegna byggingaframkvæmda í Brattahlíð en með færslu dagsettri 30. júní 2001 voru timburkaup ákærða færð honum til skuldar með kr. 875.694 á viðskiptareikningi ákærða sem þá var stofnað  til í bókhaldi Ístaks hf.

17.     sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins, í marsmánuði 2001, heimtað og þegið kr. 650.000 úr hendi fyrirsvarsmanna Þjóðleikhúskjallarans hf., meðákærðu B og Gísla Hafliða Guðmundssonar, fyrir að samþykkja reikning Þjóðleikhúskjallarans hf., dagsettan 8. febrúar 2001 að fjárhæð kr. 3.154.419, vegna ýmissa lagfæringa í Þjóðleikhúskjallaranum á fimm ára tímabili frá dagsetningu reiknings að telja, til greiðslu af fjárveitingum byggingarnefndar Þjóðleikhússins.

Brot ákærða samkvæmt 16. og 17. tölulið þykir varða við 128. gr. almennra hegningarlaga.

E.         Ákærði Árni er sakaður um umboðssvik í opinberu starfi með því að hafa sem formaður byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar, misnotað aðstöðu sína, sér eða öðrum til ávinnings;

18.     þann 22. júní 2001 er hann greiddi af bankareikningi Vestnorræna ráðsins við Landsbanka Íslands, Reykjavík, Torf- og grjóthleðslunni ehf. Hellu, reikning á eyðublaði "Torf- og grjóthleðslna", dagsettan 10. ágúst 2000, að fjárhæð kr. 645.000, vegna hleðslu í Brattahlíð og tækjaleigu, þótt Torf- og grjóthleðslan ehf., sem verið hafði undirverktaki Ístaks hf. við framkvæmd verks í Grænlandi á árinu 2000 og fengið fullnaðargreiðslu frá Ístaki hf., hafi ekki átt lögvarða kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd. 

Brot ákærða samkvæmt 18. tölulið þykir varða við 249. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga.

II.

Ákærða Árna er í eftirgreindum tilvikum gefið að sök umboðssvik í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og ákærða, Gísla Hafliða Guðmundssyni, hlutdeild í þeim með því að;

19.     ákærði Árni misnotaði aðstöðu sína og samþykkti til greiðslu af fjárveitingum byggingarnefndarinnar ár 1998, sér eða öðrum til ávinnings, tilhæfulausan reikning sem meðákærði Gísli Hafliði Guðmundsson útbjó og gaf út í nafni Þjóðleikhúskjallarans hf. dagsettan 18. mars 1998 að fjárhæð kr. 82.500 fyrir kaffi og kökur á tuttuguogníu fundum byggingarnefndarinnar á tímabilinu júlí 1997 til mars 1998.

20.     ákærði Árni misnotaði aðstöðu sína og samþykkti til greiðslu af fjárveitingum byggingarnefndarinnar ár 1999, sér eða öðrum til ávinnings, tilhæfulausan reikning Þjóðleikhúskjallarans hf. sem meðákærði Gísli Hafliði Guðmundsson útbjó og gaf út í nafni Þjóðleikhúskjallarans hf. dagsettan 20. janúar 1999 að fjárhæð kr. 88.000 fyrir kaffiveitingar á fundum vegna endurbóta í Þjóðleikhúsi.

Þykir brot ákærða Árna samkvæmt 19. og 20. tölulið varða við 249. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga, en brot ákærða Gísla Hafliða samkvæmt sömu töluliðum við 249. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

III.

Ákærða Árna er í eftirgreindu tilviki gefið að sök umboðssvik í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og SA hlutdeild í þeim umboðssvikum með því að;

21.     ákærði Árni misnotaði aðstöðu sína og samþykkti til greiðslu af fjárveitingum byggingarnefndarinnar, sér eða öðrum til ávinnings, tilhæfulausan reikning Forum ehf. dagsettan 14. desember 2000 að fjárhæð kr. 169.000 sem meðákærði SA útbjó og gaf út í nafni Forum ehf. fyrir kaffiveitingar í Leikhúskjallaranum á þrjátíuogþremur fundum byggingarnefndarinnar á tímabilinu nóvember 1999 til október 2000.

Brot ákærða Árna samkvæmt 21. tölulið þykir varða við 249. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga, en brot ákærða SA samkvæmt sama tölulið við 249. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga.

IV.

Ákærða Árna er í eftirgreindum tilvikum gefið að sök umboðssvik og fjárdráttur í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins með því að hafa misnotað aðstöðu sína og dregið sér verðmæti sér til ávinnings og ákærða T verkfræðingi hjá Ístaki hf., umsjónarmanni með verkum við Þjóðleikhúsið, er gefið að sök þátttaka í umboðssvika- og fjárdráttarbrotunum.

A.        Umboðssvik.

22.     Ákærði Árni fékk meðákærða T til þess á árinu 1999 að láta Ístak hf. annast innréttingu á bílskúr að Haukalind 17, Kópavogi, sem var byggingarnefnd Þjóðleikhússins algjörlega óviðkomandi, og gera byggingarnefndinni reikning vegna kostnaðar við framkvæmdina sem nam kr. 305.825 samkvæmt reikningi Ístaks hf. á hendur byggingarnefndinni dagsettum 30. mars 2000 að viðbættu 15% álagi.

23.     Ákærði Árni fékk meðákærða T til þess að gefa út beiðni í nafni Ístaks hf. til Funa ehf. blikksmiðju, dagsetta 30. mars 2001, um sandblástur, efni og viðgerðir á ofni, sem var byggingarnefndinni algjörlega óviðkomandi, en Ístak hf. krafði kostnað vegna verksins, kr. 32.800, samkvæmt reikningi Funa ehf, blikksmiðju, dagsettum 23. apríl 2001, með reikningi á hendur byggingarnefndinni dagsettum 28. maí 2001 að viðbættu 15% álagi.  Ákærði endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

B.         Fjárdráttur.

             Ákærði Árni er sakaður um að hafa með aðstoð meðákærða T dregið sér;

24.     flísar og fylgiefni sem hann tók út hjá Vídd hf., Kópavogi, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni sem meðákærði T gaf út til sölufyrirtækisins.  Ístak hf. krafði fjárhæð reiknings Víddar hf., dagsetts 14. febrúar 2001, kr. 290.693, hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 28. febrúar 2001 að viðbættu 15% álagi.  Ákærði Árni endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

25.     hurðir, karma, glugga og innréttingar sem hann tók út hjá Trésmiðju Sigurjóns Jónssonar, Stokkseyri, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni sem meðákærði T gaf út til trésmiðjunnar dagsettri 3. maí 2001.  Ístak hf. krafði fjárhæð reiknings Trésmiðju Sigurjóns Jónssonar, dagsetts 8. maí 2001, kr. 418.000, hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 14. júní 2001 að viðbættu 15% álagi.  Ákærði Árni endurgreiddi fjárhæðina 13. ágúst 2001 án álagsins.

26.     hurðir, karma, gerefti, þröskulda og hurðarhúna sem hann tók út hjá Húsasmiðjunni hf., Reykjavík, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni sem meðákærði T gaf út til Húsasmiðjunnar hf. 3. maí 2001.  Ístak hf. krafði fjárhæð reiknings Húsasmiðjunnar hf., dagsetts 16. maí 2001, kr. 104.981, hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 14. júní 2001 að viðbættu 15% álagi.

27.     baðherbergistæki sem hann tók út hjá Tengi ehf., Kópavogi, í viðskiptareikning Ístaks hf. samkvæmt beiðni sem meðákærði T gaf út til Tengis ehf. dagsettri 3. maí 2001.  Ístak hf. krafði fjárhæð reiknings Tengis ehf., dagsetts 16. maí 2001, kr. 184.624, hjá byggingarnefnd Þjóðleikhússins með reikningi dagsettum 14. júní 2001 að viðbættu 15% álagi.

Brot ákærða Árna samkvæmt 22. og 23. tölulið þykja varða við 249. gr., sbr. 138. gr. almennra hegningarlaga, en brot ákærða T samkvæmt sömu liðum við 249. gr. almennra hegningarlaga.

Brot ákærða Árna samkvæmt 24. til 27. tölulið þykja varða við 247. gr. en brot ákærða T samkvæmt sömu töluliðum við 247. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, en til vara við 249. gr. almennra hegningarlaga. 

V.

Ákærðu B og Gísla Hafliða er gefið að sök mútur með því að hafa;

28.     sem fyrirsvarsmenn Þjóðleikhúskjallarans hf. lofað á árinu 2001 að greiða meðákærða Árna sem formanni byggingarnefndar Þjóðleikhússins kr. 650.000 þóknun fyrir að samþykkja greiðslu á reikningi Þjóðleikhúskjallarans hf. á hendur byggingarnefnd Þjóðleikhússins, vegna ýmissa lagfæringa í Þjóðleikhúskjallaranum á fimm ára tímabili, dagsettum 8. febrúar 2001, að fjárhæð kr. 3.154.419.  Þóknunina inntu þeir af hendi í marsmánuði 2001 þegar reikningsfjárhæðin hafði verið greidd Þjóðleikhúskjallaranum hf. af fjárveitingum byggingarnefndar Þjóðleikhússins.

Brot ákærðu samkvæmt 28. tölulið þykir varðar við 109. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.”

Undir rekstri málsins óskaði ákæruvaldið eftir því að leiðrétta ritvillu í ákærunni. Leiðréttingin felst í heimfærslu brota samkvæmt 7. og 12. lið ákæru. Í stað tilvísunar til 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga að því er 7. lið varðar komi 12. liður ákæru.

Leiðrétt hefur verið ritvilla í ákærunni þar sem ákærði B er sagður heita [...].

Verjandi ákærða Árna krefst þess að ákærði verði sýknaður af öðrum ákæruliðum en þeim sem ákærði hefur játað og síðar verður vikið að.  Þess er krafist að ákærða verði ekki gerð sérstök refsing. Komi til þess að refsing verði ákvöruð þá er þess krafist að hún verði skilorðsbundin að mestu eða öllu leyti.  Krafist er réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins og að þau verði að mestu leyti greidd úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða B krefst þess að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að málsvarnarlaun verði dæmd að mati dómsins úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða Gísla Hafliða krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins.

Verjandi ákærða SA krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og að allur sakarkostnaður þar með talin málsvarnarlaun að mati dómsins verði greidd úr ríkissjóði.

Verjandi ákærða T krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins.  Málsvarnarlauna er krafist úr ríkissjóði að mati dómsins. Verði ákærði T ekki sýknaður af kröfum ákæruvaldsins er ekki krafist málsvarnarlauna.

Lögreglurannsókn máls þessa hófst er ríkissaksóknari óskaði eftir henni með bréfi dags. 27. júlí 2001. Óskað var eftir rannsókninni eftir að ríkisendurskoðun hóf athugun á fjármála- og umsýslustörfum Árna Johnsen sem formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Með bréfi 26. mars sl. var lögreglurannsóknin send ríkissaksóknara. Ákæra og gögn málsins voru send Héraðsdómi Reykjavíkur með bréfi dags. 6. maí sl. og málið þingfest 17. s.m. 

Samkvæmt framburði ákærða Árna fyrir dómi og samkvæmt gögnum málsins var byggingarnefnd Þjóðleikhússins leyst frá störfum í febrúar 1996.  Hinn 13. febrúar 1996 skipaði menntamálaráðherra nefnd sem fjalla skyldi um ,,endurbætur og uppbyggingu Þjóðleikhússins.  Hlutverk nefndarinnar verður meðal annars að skipuleggja framhald þess uppbyggingarstarfs sem staðið hefur um skeið, gera áætlanir um kostnað og tillögur um leiðir og verklag” eins og segir í bréfinu, þar sem ákærða Árna var falin formennska í nefndinni, en í henni sátu auk ákærða SB þjóðleikhússtjóri og SG forstöðumaður Framkvæmdasýslu ríkisins.  Í niðurlagi skipunarbréfsins segir: ,,Þóknun fyrir nefndarstörfin verður greidd að fenginni umsókn þóknananefndar ríkisins.” 

Með bréfi ákærða Árna til menntamálaráðherra, dags. 2. ágúst 2001, sagði hann sig úr nefndinni og veitti menntamálaráðherra honum lausn með bréfi dags. 7. s.m. 

Í bréfi forsætiráðuneytisins til ákærða Árna, sem dags. er 8. mars 1999, segir meðal annars, að norsk stjórnvöld hafi ákveðið í tilefni af 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi að gefa hingað til lands stafkirkju sem valinn hafi verið staður í Vestmannaeyjum.  Í bréfi þessu var ákærði Árni skipaður formaður nefndarinnar sem annast skyldi þetta verkefni fyrir hönd ríkisisins, en nefndin skyldi hafa yfirumsjón með framkvæmdum og öðru því er lýtur að móttöku gjafarinnar.  Í niðurlagi skipunarbréfsins segir:  ,,Leitað verður til þóknananefndar um ákvörðun þóknunar til nefndarmanna.” 

Í ódagsettri skýrslu um Brattahlíðarverkefnið segir að ákærði Árni hafi verið skipaður formaður byggingarnefndarinnar á ársfundi Vestnorræna ráðsins sem haldin var í Færeyjum á árinu 1993.  Tveir aðrir sátu í stjórn með honum, þingmenn frá Færeyjum og frá Grænlandi.  Ekki liggja fyrir gögn um það hvenær og hvort þessi nefnd hefur verið leyst frá störfum. 

Fyrir dómi lýst ákærði Árni lýsti margháttuðum störfum sem hann vann sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Hann kvað aðferðir sínar ekki í öllum tilvikum hafa verið hefðbundnar og skýrði hann það.  Hann lýsti einnig undirbúningi og vinnu við Brattahlíðarverkefnið.  Ekki þykir ástæða til þess að rekja framburð ákærða Árna um þetta, eða lýsa málavöxtum á annan hátt en gert verður í tengslum við einstaka ákæruliði hér á eftir.

Nú verður vikið að einstökum ákæruliðum.  Verður rakinn framburður ákærðu og vitna fyrir dómi og hjá lögreglu eftir því sem ástæða þykir.

Niðurstaða einstakra ákæruliða verður rakin á eftir viðkomandi ákærulið.

I

A. Meintur fjárdráttur ákærða Árna í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins. 

Töluliðir 1-4, 6, 8 og 9.

Ákærði Árni hefur játað fyrir dóminum sakarefni sem lýst er í töluliðum 1 - 4, 6, 8 og 9, 23 – 27, eða í alls tólf töluliðum.  Til stuðnings þessum ákæruliðum eru í öllum tilvikum ítarlega gögn.  Dómarinn ákvað við upphaf aðalmeðferðar málsins í samráði við ákærandann og verjanda ákærða Árna, að ekki væri þörf á frekari sönnunarfærslu um þessa ákæruliði að því er ákærða Árna varðar, sbr. 2. málslið 3. mgr. 129. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, hér á eftir skammstafað oml.

Samkvæmt þessu og með vísan til 1. málsliðar 2. mgr. 135 gr. oml. er í stað málavaxtalýsingarinnar skírskotað til ákærunnar um lýsingu málavaxta að því er þá ákæruliði varðar, þar sem ákærði Árni er einn ákærður, enda málið að því leyti dæmt samkvæmt skýlausri játningu hans fyrir dómi.

Niðurstaða töluliða 1-4, 6, 8 og 9.

   Þessir ákæruliðir eru allir dæmdir samkvæmt skýlausri játningu ákærða fyrir dómi.  Játning hans er í samræmi við önnur gögn málsins.

   Samkvæmt þessu er sannað með játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í þessum ákæruliðum.  Brot hans eru í öllum tilvikum rétt færð til refsiákvæða í ákærunni.

5. töluliður. 

Ákærði Árni neitar sök.  Ákærði kvað fánana og veifurnar hafa verið pantaðar í þágu Þjóðleikhússins, en sendingin hafi glatast af ástæðum sem raktar verða.  Hann kvað hafa verið vilja til þess að nota íslenska fánann meira við leikhúsið og því hafi hann haft samband við Fánastofuna á Hofsósi og pantaði fána.  Hann kvað sig minna að hann hafi rætt við húsvörð Þjóðleikhússins um þá hugmynd sína að setja upp flaggstangir við inngang leikhúskjallarans og að fánamálið hafi eitthvað verið rætt við hann.  Ákærði kvaðst hafa beðið um að reikningur fyrir pöntunina yrði sendur á heimili sitt svo hann gæti skrifað upp á reikninginn svo hann fengist greiddur.  Skömmu síðar kvað ákærði hafa verið hringt í sig úr menntamálaráðuneytinu og honum greint frá því að í anddyri ráðuneytisins væri kassi merktur ákærða.  Hann kvaðst hafa sótt kassnn skömmu síðar og sett í bíl sinn.  Hann kvaðst þennan dag hafa verið á leiðinni með flugi til Vestmannaeyja og komið við á heimili sínu áður og skilið kassann eftir þar utan dyra í porti við heimili sitt, en gleymt að setja kassann inn.  Hann kvaðst síðan hafa komið aftur nokkrum dögum síðar og kassinn þá verið horfinn, en ákærði taldi líklegast að sorphirðumenn hafi hirt kassann þar sem hann hafi verið ásamt fleiri kössum við tröppur í porti við hús hans.  Ákærði kvaðst hafa kannað hvort hægt væri að finna nákvæmar út úr þessu, en það reynst ómögulegt.  Hann kvaðst þá hafa afskrifað sendinguna á frekar leiðinlegan hátt.  Hann kvað reikning vegna þessarar sendingar hafa verið stílaðan á sig og hann því endursent reikninginn og látið stíla hann á Þjóðleikhúsið eins og til hafi staðið.  Hann kvaðst hafa reiknað með því að sendir yrðu ríkisfánar, þar sem pöntunin hafi verið gerð fyrir Þjóðleikhúsið.  Hann taldi víst að ef komið hefði í ljós að sendur hefðu verið þjóðfánar í stað ríkisfána þá hefði sendingin verið endursend.

G rekur Íslensku fánasaumastofuna á Hofsósi.  Hún kvaðst ekki hafa tekið niður pöntunina, sem lýst er í þessum ákærulið.  Yfirsaumakona hafi gert það og skráð niður í sérstaka pöntunarbók.  Hún kvað ákærða hafa pantað fána 1. júlí 1999 og beðið um að reikningurinn yrði stílaður á Þjóðleikhúsið c/o Árni Johnsen.  G kvaðst hafa verið farin að lengja eftir greiðslu og þá hringt í ákærða, sem hafi beðið hana um að breyta reikningnum þannig að nafn ákærða væri ekki getið á reikningnum.  Hún kvaðst hafa ógilt fyrri reikninginn og útbúið nýjan í samræmi við óskir ákærða.  Reikninginn kvaðst hún hafa sent ákærða og fékkst hann greiddur.  Fánarnir hafi verið sendir Þjóðleikhúsinu. 

SB þjóðleikhússtjóri lýsti skipun sinni í byggingarnefnd Þjóðleikhússins á árinu 1996, þar sem ákærði Árni var formaður.  Hann lýsti starfsháttum nefndarinnar og kvað ekki hafa verið mikla formfestu í störfum hennar hvað varðaði fundarboð og fundarsköp.  Hann lýsti framkvæmdum sem ráðist var í á vegum nefndarinnar og hvernig staðið var að ákvörðunum.  Hann kvað ekki hafa verið það miklar framkvæmdir í gangi þann tíma sem ákæran tekur til og því hafi ekki verið ráðinn sérstakur verkefnisstjóri.  Hann kvað ákærða Árna hafa hrint hlutunum í framkvæmd og mætti kalla hann verkefnisstjóra eða framkvæmdaaðila.  Hann hafi samið við verktaka og iðnaðarmenn. 

SB kvaðst ekki muna til þess að ákærði Árni hefði rætt við sig um kaupin á fánunum og veifunum, sem lýst er í þessum ákærulið.  Hann kvað Þjóðleikhúsið eingöngu nota ríkisfána.

R, umsjónarmaður Þjóðleikhússins, kvaðst hvorki vita um fánana sem hér um ræðir né hvort til hafi staðið að kaupa þá.  Hann kvað eingöngu notaða ríkisfána við leikhúsið.  R kvað hafa verið rætt um að fjölga fánastöngum við leikhúsið á þeim tíma er þing Norðurlandaráðs voru haldin þar.  Það var ekki gert.

O, umsjónarmaður meðal annars með byggingum menntamálaráðuneytisins, kvaðst ekki annast móttöku sendinga fyrir menntamálaráðuneytið og ekki vita um sendingu þá sem hér um ræðir.

Niðurstaða 5. töluliðar.

   Reikningurinn sem lýst er í þessum ákærulið ber stimpilinn 16. ágúst 1999, en hann er hins vegar af hálfu saumastofunnar dags. 19. júlí 1999 og staðfestur af ákærða 14. ágúst sama ár.  Samkvæmt þessu ber að miða við að reikningurinn sé dags. 19. júlí, en ekki 16. ágúst eins og lýst er í ákærunni.  Þetta kemur ekki að sök eins og hér stendur á.

   Samkvæmt vitnisburði SB þjóðleikhússtjóra og R umsjónarmanns Þjóðleikhússins eru einvörðungu notaðir ríkisfánar við leikhúsið.  Ákærði taldi að ríkisfánar yrðu sendir, þar sem hann kvaðst hafa gert pöntunina fyrir Þjóðleikhúsið.  Samkvæmt ljósriti úr pöntunarbók Íslensku fánasaumastofunnar á Hofsósi voru hinn 1. júlí 1999 pantaðar 6 veifur af tiltekinni stærð, 10 veifur af annarri stærð og ,,8 stk. fánar, 270 x 375 á 14 m stöng”.  Ekki verður ráðið af pöntunarbókinni hvort ákærði pantaði þjóðfána eða ríkisfána. 

   Sankvæmt vitnisburði G, sem rekur Fánasaumastofuna, tók yfirsaumakona á móti pöntuninni og skráði í pöntunarbókina.  Ákæruvaldið leiddi þessa konu ekki fyrir dóminn og hún var ekki heldur yfirheyrð hjá lögreglunni.  Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið er ekki hægt að slá neinu föstu um það hvort pantaðir voru þjóðfánar eða ríkisfánar, en í ákærunni er ákærða gefið að sök að hafa dregið sér þjóðfána. 

Samkvæmt gögnum málsins hefur ákærði Árni pantað í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins að minnsta kosti þrisvar sinnum á árinu 1995 og 1996 íslenska þjóðfána, ríkisfána og veifur hjá saumastofunni á Hofsósi.  Kaup og pöntun ákærða sem lýst er í þessum ákærulið virðist ekki frábrugðinn fyrri pöntunum ákærða fyrir byggingarnefndina og verða því að mati dómsins ekki dregnar ályktanir út frá þessu. 

Ákærði bar að kassinn með sendingunni frá saumastofunni hafi verið horfinn er hann kom á heimili sitt í Reykjavík eftir nokkurra daga fjarveru.  Hann samþykkti reikninginn 14. ágúst 1999, en gerði eftir það engar athugasemdir eða nokkuð það til að koma á framfæri upplýsingum um það hvernig fánarnir fóru forgörðum eins og hann bar.  Dómurinn telur frásögn ákærða um það hvernig sendingin fór forgörðum ótrúverðuga en ekkert er fram komið í málinu sem stutt getur frásögn hans, hvorki um þetta né að sendingin hafi farið í menntamálaráðuneytið.  Þá virðist ekki hafa verið gerð önnur pöntun fyrir Þjóðleikhúsið í stað þeirrar sem glataðist.  Þetta bendir til þess að mati dómsins, að ákærði hafi gert pöntunina fyrir sjálfan sig.  Þegar allt þetta er virt í heild og einkum það að ákærði gerði ekkert til að koma á framfæri upplýsingum um það að pöntunin hafi farið forgörðum, heldur áritað reikninginn til greiðslu, telur dómurinn sannað gegn neitun ákærða að hann hafi dregið sér þau verðmæti, sem hér er ákært fyrir, og er brot ákærða rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.

7. töluliður. 

Ákærði neitar sök.  Hann kvaðst um haustið 1999 hafa lagt til að sett yrði upp lýsing í anddyri Þjóðleikhússins með svokölluðum leiðaraljósum.  Hann hafi rætt við þjóðleikhússtjóra, tæknimenn og fleiri um þetta.  Þetta hafi verið gert og líkað vel að sögn ákærða.  Hann kvaðst síðan um haustið 2000 hafa haft hugmynd um að auka við skreytinguna og kvaðst hann hafa hringt í þjóðleikhússtjóra vegna þessa, en hann hafi þá verið staddur erlendis.  Er þjóðleikhússtjórinn kom til landsins kvaðst ákærði hafa rætt þetta lítillega við hann, en hann hefði þegar svarað ákærða á þann veg að hann hefði ekki áhuga á þessu í bili.  Ákærði kvaðst þá hafa ákveðið að afpanta seríuna, sem hann hafði áður pantað, en þá var þegar búið að útbúa hana svo ákærði kvaðst hafa tekið hana í sínar vörslur með það fyrir augum að koma henni upp í Þjóðleikhúsinu ári síðar.  Ákærði kvað það hafa dregist hjá sér að koma séríunni í Þjóðleikhúsið, en hann kvaðst hafa skilað seríunni til lögreglunnar er hann gaf þar skýrslu 17. september sl., en þá hafi sérían verið í upphaflegum umbúðum.

   SB þjóðleikhússtjóri kvaðst hafa verið með í vali á ljósaseríum, sem keyptar voru hjá Dengsa ehf. á árinu 1999.  Hann kvað sér ekki hafa verið kunn kaupin sem lýst er í þessum ákærulið.  Þá kvaðst hann ekki muna til þess að hafa rætt þessi kaup við ákærða Árna símleiðis, en hann var staddur erlendis eins og ákærði hefur borið.

   R umsjónarmaður vissi um kaupin á ljósaseríunni á árinu 1999, en ekkert um kaupin sem lýst er í þessum ákærulið og ákærði Árni hefði ekki rætt kaupin við hann.

   J framkvæmdastjóri lýsti kaupum Þjóðleikhússins á ljósaseríum hjá Dengsa ehf. á árinu 1999, en þá hafi ákærði Árni komið í fyrirtækið auk þjóðleikhússtjóra og þriðja manns, sem Jóhannes taldi rafvirkja eða ljósameistara.  J kvað ákærða Árna hafa hringt á árinu 2000 og pantað nákvæmlega eins seríu og árið áður.

   Niðurstaða 7. töluliðar.

   Ákærði neitar sök og kvaðst hafa ætlað ljósin til uppsetningar í Þjóðleikhúsinu ári síðar, eins og rakið var, eftir að í ljós kom að of seint var að afpanta ljósin.  Hann skilaði seríunni til lögreglu er hann gaf skýrslu 17. september sl.  Í skýrslu lögreglunnar um afhendingu ljósanna segir meðal annars:  ,,Vörurnar virðast lítið sem ekkert notaðar.” 

   J hjá Dengsa ehf. kvað ákærða hafa pantað nákvæmlega eins seríu á árinu 2000 og gert var árinu á undan.  Þetta bendir til þess að ljósin hafi verið ætluð Þjóðleikhúsinu.  Þótt ákærði hafi geymt ljósin eins og rakið var er að mati dómsins ekki lögfull sönnum þess að ákærði hafi dregið sér verðmætin.  Þegar allt ofanritað er virt telur dómurinn ósannað, gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi dregið sér verðmætin sem í þessum ákærulið greinir og ber því að sýkna ákærða af þessum kafla ákærunnar.

10. og 12. töluliður. 

Ákærði neitar sök samkvæmt báðum þessum ákæruliðum.  Hann kvað hafa verið í undirbúningi að minnsta kosti bráðabirgðastækkun austan við leikhúsið og að þetta hafi tengst leikmunageymslu og aðalsviði hússins.  Hann kvaðst þá hafa farið í BYKO til að athuga möguleika á því að opna reikning vegna væntanlegra viðskipta vegna þessa.  Hann kvaðst hafa rætt tvennt við sölumanninn.  Annars vegar úttekt sína og hins vegar opnun reiknings fyrir Þjóðleikhúsið, sem hugsanlega kæmi til notkunar seinast í júlímánuði, en þá lægi væntanlega fyrir hver efniskaup yrðu fyrir leikhúsið.  Ákærði kvaðst telja að í þessu samtali sínu við sölumanninn hafi orðið einhver mistök eða misskilningur, þar sem ákærði kvaðst hafa tekið skýrt fram að þegar hann væri búinn að taka sína vöruúttekt þá myndi hann ganga frá reikningnum, en ákveðið hefði verið að vöruúttektin, sem lýst er í 10. ákærulið, færi á biðreikning.  Ákærði staðfesti að hafa skrifað undir reikning vegna úttektarinnar hjá BYKO, sem lýst er í 10. lið ákæru, en sá reikningur er stílaður á Þjóðleikhúsið og á hann ritað að um sé að ræða beiðni vegna leikmunageymslu.  Ákærði kvaðst hafa skrifað á reikninginn án þess að lesa áritunina á hann.  Reikningurinn vegna viðskiptanna í 10. ákærulið var hinn 31. maí 2001 bakfærður af reikningi Þjóðleikhússins á biðreikning.  Ákærði kvað handritað blað, sem liggur frammi, sýna vöruúttektina sem lýst er í 10. lið ákæru og á þetta blað er ritað efst “Byggingarnefnd Þjóðleikhússins.”  Ákærði kvaðst ekki sjá betur en það væri sín skrift.  Aðspurður um ástæðu þess að þetta væri ritað á miðann kvað hann ástæðuna þá, að það væri vegna þess að hann hafi haft meðferðis blöð, bæði gömul og ný, sem tengdust þessum samningnum um fyrirkomulag á reikningnum. 

Ákærði kvaðst hafa rætt við annan sölumann er hann tók út vörurnar sem lýst er í 12. tölulið ákæru.  Hann kvaðst hafa sagt sölumanninum að hann væri með reikning hjá BYKO og hafi sölumaðurinn sagst vita það.  Sölumaðurinn hafi flett upp í tölvu án þess að ákærði hefði þurft að gefa nokkrar upplýsingar.  Eftir að ákærði hafi gefið upp það sem hann ætlaði að kaupa hafi talið borist að þakrennum, sem ákærði kvaðst hafa fengið tilboð í fyrr um veturinn.  Hann kvað sölumanninn sem hann ræddi þarna við vera hinn sama og gerði honum tilboðið í þakrennurnar og því hafi hann vitað að ákærði var að panta vörur fyrir sjálfan sig.  Ákærði lýsti því að sér hafi fundist svolítið skrýtið er sölumaðurinn spurði ákærða að því hvort úttekt hans nú væri á sama reikning, en ákærði kvaðst hafa sagt að svo væri.  Ákærði kvað aldrei hafa staðið til að þessar vöruúttektir hjá BYKO færu á reikning Þjóðleikhússins.  Ákærði kvað sér hafa brugðið er hann sótti vörurnar, sem lýst er í ákærulið 12, en þær hafi verið kirfilega merktar Þjóðleikhúsinu.  Hann kvaðst hafa gert sér grein fyrir því að einhver mistök hefðu átt sér stað og kvaðst hann því hafa breytt merkingunum fyrir allra augum.  Þá kvað ákærði einn starfsmann BYKO hafa breytt merkingum fyrir sig að hluta til.

   G, sölumaður hjá BYKO, kvaðst hafa afgreitt ákærða Árna með vörurnar sem lýst er í ákærulið 10.  Hann kvað ákærða hafa komið að máli við sig og beðið sig um að lista upp fyrir sig efni eftir lista sem ákærði hafði meðferðis á handskrifuðu blaði.  G kvað hafa vafist fyrir ákærða á hvaða kennitölu ætti að skrifa pöntunina.  Hann kvað ákærða hafa afhent sér bréfsnepil, þar sem kennitala Ríkiskaupa kom fram.  G kvaðst þá hafa listað upp efnið á kennitölu Ríkiskaupa.  Er Árni kom síðar til að sækja pöntunina kvað G aðstoðarframkvæmdastjóra hjá BYKO hafa haft samband við Ríkiskaup en þeir ekki kannast við framkvæmdir hjá Þjóðleikhúsinu.  G kvað Árna hafa beðið um að pöntunin yrði skrifuð á Þjóðleikhúsið og beðið sig um að færa pöntunina á biðreikning þar til verkinu yrði lokið.  Hann kvaðst hafa skrifað pöntunina út á Þjóðleikhúsið, en bakfært síðar á biðreikning, sem átti að bíða í 6 til 8 vikur meðan á verkinu stæði.  G kvað Árna hafa greint sér frá því að vörurnar ætti að nota í viðbyggingu við Þjóðleikhúsið í leikmunageymslu.  G mundi eftir því að ákærði hefði auk kaupanna fyrir Þjóðleikhúsið rætt kaup fyrir sjálfan sig.

   SBB, sölustjóri hjá BYKO, kvað G sölumann hafa komið að máli við sig og beðið um leyfi til þess að setja efni sem fara átti í Þjóðleikhúsið á biðreikning þar til framkvæmdum þar lyki.  SBB kvað upphaflega hafa verið gefna upp kennitölu Ríkiskaupa.  Hann kvaðst til skýringar hafa hringt bæði í Ríkiskaup og Framkvæmdasýsluna vegna þessa máls.  Eftir það kvaðst hann hafa hringt í ákærða og beðið hann um að gefa upp kennitölu til að skrá á pöntunina.  Þá hafi verið gefin upp kennitala Þjóðleikhússins og varan skráð á viðskiptareikning Þjóðleikhússins. 

SBB lýsti því er J sölumaður kom að máli við hann vegna pöntunar, sem lýst er í ákærulið 12.  Hann kvað J hafa talið að ekki væri allt með felldu með þessa úttekt.  SBB kvað B framkvæmdastjóra þá hafa haft samband við Þjóðleikhúsið til að ganga úr skugga um það hvort ekki væri í lagi að ákærði tæki út vörur fyrir leikhúsið.  Eftir að jákvætt svar fékkst kvað SBB ekki hafa haft frekari afskipti af málinu.

   J, sölummaður hjá BYKO, kvað ákærða hafa komið að máli við sig og pantað vörur á kennitölu Þjóðleikhússins vegna leikmunageymslu.  J kvaðst hafa hringt í ákærða og greint frá því að búið væri að taka pöntunina til. Ákærði hefði þá komið og sótt hana.  J kvað ákærða ekki hafa rætt um sín persónulegu viðskipti er þessi pöntun var gerð.  Það hafi hann gert áður og það kvað J ótengt þessu máli.  Hann lýsti því er hann afhenti ákærða tiltektarmiða svo að hann gæti sótt vörurnar sem merktar voru Þjóðleikhúsinu vegna leikmunageymslu, en vörurnar hafi verið merktar eftir tiltektarseðlinum, þar sem fram komu upplýsingar um kaupanda.  J kvað ákærða hafa kvittað á reikninginn vegna kaupanna og ákærða verið afhent afrit reiknings. 

Meðal gagna málsins er handskrifað blað, meðal annars með kennitölu.  J kvað kennitöluna vera þá sem honum var sagt að skrá vörurnar á.  Honum hafi jafnframt verið greint frá því að ekki ætti að skrá þessa kennitölu fyrr en í ágúst.  Reikningur vegna viðskiptanna í ákærulið 12 er stílaður á verslunarstjórn BYKO.  J kvað þetta reikning sem notaður sé þegar varan er ekki strax skráð á ákveðinn viðskiptavin.  Þá sé þessi reikningur eini biðreikningurinn sem notaður sé. 

SER er framkvæmdastjóri timburdeildar BYKO. Hann kvað þá SBB, J og G, alla  starfsmenn BYKO, hafa komið að máli við sig 2. eða 3. júlí 2001 og greint sér frá því að hugsanlega væri eitthvað skrítið við viðskipti ákærða Árna við BYKO. Þeir hafi velt fyrir sér hvort ákærði væri að taka út vörur í nafni Þjóðleikhússins, byggingarnefndar Þjóðleikhússins eða fyrir sjálfan sig. SER kvað alveg öruggt að SBB hefði sagt við sig eftir ákærða að hann væri að gera kaupin fyrir byggingarnefnd Þjoðleikhússins og að SBB hefði sagt sér eftir ákæðra að fjárveiting væri ekki kominn fyrir úttektinni. Fjárveitingin kæmi og þess vegna var úttektin færð á biðreikning að sögn SER en hann kvað þessa úttekt hvorki hafa verið færða á byggingarnefndina né á reikning Þjóðleikhússins. Í framhaldinu kvaðst SER hafa hringt í B fjármálastjóra og rætt við hana í sambandi við úttekt ákærða. Að sögn SER hringdi B í Þjóðleikhúsið til að kanna heimild ákærða til að taka út vörur á nafni þess. Hann kvað B síðan hafa haft samband við sig og sagt að ákærði hefði heimild til að taka út vörur í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins. Vörurnar hafi síðan verið færðar á svokallaðan biðreikning. SER kvað blaðamann DV hafa hringt í sig í vikunni á eftir og spurt um þessa vöruúttekt ákærða. Hann kvaðst í framhaldinu hafa hringt í ákærða og greint honum frá hringingu blaðamannsins sem hafi verið að kanna hvort vöruúttektin hafi verið fyrir leikhúsið eða fyrir ákærða sjálfan. SER kvaðst hafa spurt ákærða að þessu og hafi hann greint sér frá því að pöntunin væri fyrir hann sjálfan. SER kvað þá hafa rætt eitthvað í framhaldinu og kvaðst SER hafa spurt ákærða hvort hann vildi ekki greiða úttektina. Ákærði hafi gert það og sent tékka síðar sama dag en tékkann kvaðst SER hafa geymt í nokkra daga uns hann var innleystur í banka.

B, fjármálastjóri hjá BYKO, lýsti því er hún hringdi á skrifstofu Þjóðleikhússins vegna kaupanna sem lýst er í þessum ákærulið en hún kvaðst hafa verið að kanna heimild ákærða og hvort afgreiða mætti úttektina eins og reikningurinn var úr garði gerður og þá hafi hún einnig hringt vegna þess að byggingarnefndin hafði ekki kennitölu. Í ljós hafi komið að ákærði hafði heimild til að taka út vörur í nafni byggingarnefndarinnar. Hún kvað kennitöluvandann hafa verið leystan þannig að skrá úttektina á Þjóðleikhúsið

   Niðurstaða 10. töluliðar.   

Ákærði Árni neitar sök og kvað mistök hafa orðið er vörurnar í þessum ákærulið voru skráðar eins og lýst er í ákærunni.  Hann kvaðst hafa keypt vörurnar fyrir sjálfan sig.  Hann hafi skrifað undir reikning vegna kaupanna án þess að lesa hann, en fram kemur á reikningnum að hann sé vegna Þjóðleikhússins og vegna leikmunageymslu.  Þá kveðst ákærði ekki sjá betur en hann hafi sjálfur skrifað ,,Byggingarnefnd Þjóðleikhússins” efst á handskrifað blað, sem hefur að geyma upptalningu á pöntuninni, sem í þessum ákærulið greinir.  Dómurinn telur skýringar ákærða á þessari áritun á miðanum mjög ótrúlega og áritunin á miðanum og vitnisburður G og SBB bendi eindregið til þess að ákærði hafi ætlast til þess að kaupin yrðu skráð á þann hátt sem lýst er í ákærunni.

   Vitnið G kvað hafa vafist fyrir ákærða á hvaða kennitölu ætti að skrifa pöntunina, sem hér um ræðir.  Ákærði hafi síðan afhent sér miða með kennitölu Ríkiskaupa. Síðar hafi pöntunin verið færð á Þjóðleikhúsið eins og vitnið greindi frá.

   Vitnið SBB greindi einnig frá því hvernig til þess kom að pöntunin var skráð á Þjóðleikhúsið.  Vísað er til vitnisburðar þessara vitna í heild hér að framan. 

   Ákærði skrifaði undir reikninginn án þess að lesa hann að sögn, en samskiptin við starfsmenn BYKO áður vegna kennitölu, sem skrá átti kaupin á, hefðu átt að gefa ákærða ríka ástæðu til að ganga úr skugga um að rétt væri skráð. 

   Að virtum vitnisburði G og SBB og því að ákærði skrifaði undir reikninginn, sem stílaður var á Þjóðleikhúsið, þrátt fyrir að margt hefði komið upp í samskiptum við starfsmenn BYKO að sögn ákærða sjálfs og samkvæmt vitnisburði vitnanna sem vísað var til, er gaf ákærða ástæðu til að ganga úr skugga um það að það sem hann skrifaði undir væri rétt, og með því að ákærði afhenti handskrifðan pöntunarmiða með yfirskiftinni ,,Byggingarnefnd Þjóðleikhússins” telur dómurinn sannað, gegn neitun ákærða, að hann hafi látið skrá vöruúttektina á viðskiptareikning Þjóðleikhússins, eins og lýst er í þessum ákærulið, og hefur hann hafi dregið sér þau verðmæti sem lýst er í ákærunni og fram kom á reikningi, dags. 23. maí 2001.

Þessi háttsemi ákærða varðar við þau lagaákvæði sem lýst er í ákærunni.

Niðurstaða 12. töluliðar.

   Ákærði neitar sök. Hann kvað aldrei hafa staðið til af sinni hálfu að vörurnar, sem hér um ræðir, hafi átt að færa á reikning Þjóðleikhússins.  Í ákærunni eru vörurnar sagðar teknar út samkvæmt reikningi, dags. 3. júlí 2001, að fjárhæð 1.016.069 krónur í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins vegna leikmunageymslu.  Dagsetning reikningsins og fjárhæð er eins og lýst er í ákærunni.  Hins vegar eru engar áritanir á reikningnum um það, að hann sé vegna byggingarnefndar Þjóðleikhússins, leikmunageymslu. Á reikninginn er ritað “v/ Þjóðleikhúsið umb Árni.” Reikningurinn er merktur verslunarstjórn BYKO timbursölu. 

   Eins og rakið var kvaðst ákærði hafi pantað þessar vörur á sínu nafni og mistök hafi orðið hjá BYKO, sem hann hafi orðið var við er hann sótti vörurnar og sá merkingarnar, sem hann kvaðst hafa breytt fyrir allra augum og að starfsmaður BYKO hafi að hluta aðstoðað sig við að breyta merkingunum.

   Vitnið J sölumaður kvað ákærða hafa pantað vörurnar vegna Þjóðleikhússins, leikmunageymslu.

Vísað er til vitnisburðar J, SBB og B um könnun á því hvort ákærði hefði heimild til að taka út vörur í nafni Þjóðleikhússins.

SER hringdi í ákærða og spurði um vöruúttektina og kvað hann ákærða þá hafa sagt að hann hefði gert kaupin fyrir sjálfan sig og greiddi hann úttektina síðar sama dag.

Samkvæmt vitnisburði J hringdi hann í ákærða er pöntunin var tilbúin. Ekki verður annað ráðið af þessu en að ákærði hafi ekki verið viðstaddur er pöntunin var tekin til. Engin gögn benda til þess að ákærði hafi vitað um eftirgrennslan starfsmanna BYKO er þeir könnuðu heimild hans til úttektarinnar í nafni byggingarnefndarinnar eða í nafni Þjóðleikhússins. Samskipti ákærða og starfsmanna BYKO voru samkvæmt þessu nokkuð á annan veg að þessu leyti en þau sem lýst var í 10. tl. ákærunnar. Ákærði hafði þannig ekkert með reikningsfærsluna að gera en ekki er ákært vegna hennar heldur er ákært fyrir að hafa tekið út vörurnar í nafni byggingarnefndar Þjóðleikhússins vegna leikmunageymslu. Eftirgrennslan J og starfsmanna BYKO getur bent til þess að ákærði hafi tekið út efnið eins og ákært er fyrir. Þar sem ákærði vissi ekkert um þetta og hafði þess vegna ekki ástæðu til að bregðast við af þessum sökum telur dómurinn að þetta eitt og sér ekki lögfulla sönun um að ásetningur hans hafi verið sá sem í ákæru greinir gegn neitun ákærða. Ákærði áritaði reikninginn. Hann breytti merkingum á pöntunni fyrir allra augum og aðstoðaði starfmaður BYKO hann við það. Þetta getur gefið til  kynna að ákærði hafi pantað vöruna á sínu nafni. Merkingin átti jafnframt að gefa honum tilefni til þess að kanna hvort einhver mistök hefðu átt sér stað sem hann gerði ekki. Niðurstaðan veltur ekki á þessum atriðum einum.  

Ákærði og J eru tveir til frásagnar um það hvað þeim fór á milli er ákærði pantaði vöruna.  Af frásögn þeirra einni og samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið verður engu slegið föstu um það hvernig pöntunin var gerð.  Samkvæmt þessu og gegn eindreginni neitun ákærða og jafnframt með vísan til 45. og 46. gr. laga nr.19,1991 um meðferð opinberra mála er ósannað að ákærði hafi framið þá háttsemi sem hér er ákært fyrir og ber því að sýkna hann.

11. töluliður.

   Ákærði neitar sök.  Hann kvað þéttidúkinn hafa verið pantaðan í þágu Þjóðleikhússins.  Hann kvað lekavandamál hafa verið á smíðaverkstæði leikhússins lengi.  Hann kvaðst hafa stefnt að því að gera tiltölulega ódýra og einfalda tilraun til að ráða bót á þessu og var ætlunin að setja þéttidúk á þakið.  Hann lýsti síðan efnum sem til stóð að setja ofan á dúkinn.  Hann kvaðst hafa haldið í Gróðurvörur tekið út þéttidúk sem ætlaður var í þessu skyni, en áður hefði ákærði fengið upplýsingar um það að í Gróðurvörum fengist tiltölulega ódýr dúkur.  Ákærði lýsti því að þennan dag hafi verið mikill asi á verkum.  Hann hafi ætlað með dúkinn niður í Þjóðleikhús, en áður þurft að koma við í Sundahöfn með vörur, sem hann þurfti að senda til Vestmannaeyja.  Hann kvaðst hafa fengið leyfi til að geyma þéttidúkinn á vörubretti hjá flutningafyrirtækinu með það í huga að sækja dúkinn síðdegis sama dag.  Hann kvaðst hafa komið aftur um klukkan 17.30, en þá hafi verið búið að loka fyrirtækinu.  Er hann kom í fyrirtækið daginn eftir kvað hann hafa verið búið að senda þéttidúkinn til Vestmannaeyja. Það hafi verið mistök.  Þéttidúkurinn hafi verið í vörugeymslu í Vestmannaeyjum uns hann var sendur til baka.

   AG, sölumaður hjá Gróðurvörum, kvað ákærða hafa komið að máli við sig og keypt tvær rúllur af þéttidúk sem skrifaðar voru á Þjóðleikhúsið.  Ákærði hafi sagst ætla að sækja dúkinn seinna sem hann gerði.  Hann kvað ákærða hafa lýst því að dúkinn ætti að nota til að lagfæra leka í Þjóðleikhúsinu.

   SB þjóðleikhússtjóri kvað þak smíðaverkstæðisins hafa verið lekt. Hann kvað geta verið að ákærði Árni hefði gert ráðstafanir vegna lekans án þess að SB vissi af því og jafnvel keypt dúk í því skyni, þótt SB lýsti því að hann hefði ekki sérfræðilegar forsendur til að meta hvort dúkur hefði leyst málið.

   Ó, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, kvað eðlilegan framgangsmáta að aðalverktaki að verkum sendi reikning til Framkvæmdasýslunnar til uppáskriftar eftir að formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins hafi farið yfir reikninginn og samþykkt.  Þannig hafi verið í því tilviki sem hér um ræðir.  Framkvæmdasýslan hafi ekki farið ofan í efnisatriði hvers reiknings eftir að formaður byggingarnefndarinnar hafi samþykkt þá. 

Ó kvað reikninginn sem hér um ræðir hafa verið stöðvaðan í samráði við ríkisendurskoðun, sem þá hafði haft mál ákærða Árna til skoðunar.  Ó kvað reikninginn ella hefði verið greiddan eins og aðra reikninga, sem byggingarnefndarformaðurinn hefði samþykkt.

   Niðurstaða 11. töluliðar.

   Ákærði neitar sök og kvað dúkinn hafa fyrir mistök verið sendan til Vestmannaeyja.  Hjá lögreglunni greindi ákærði frá því að hann hefði sent dúkinn til baka tveimur dögum eftir að mál hans kom til umfjöllunar hjá fjölmiðlum, en lögreglan lagði hald á dúkinn 27. júlí sl.

   Vitnið AG kvað ákærða hafa lýst því að dúkurinn hafi verið ætlaður til að lagfæra leka í Þjóðleikhúsinu.

   Vitnið SB þjóðleikhússtjóri kvað geta verið að ákærði hafi gert ráðstafanir eins og þá, að kaupa dúkinn fyrir byggingarnefndina, án þess að SB vissi af því. 

Hvorki hafa verið leidd vitni né lögð fram skjöl, sem eru til þess fallin að hrekja framburð ákærða um það, að hann hafi þennan dag sent vörur til Vestmannaeyja eins og hann lýsti. Á sama hátt eru engin gögn um það að loku sé fyrir það skotið að dúkurinn hafi verið sendur þangað fyrir mistök, en ákærði sendi dúkinn til baka skömmu síðar eins og rakið var og verður að telja það eðlileg viðbrögð hans miðað við það að mál hans hafði þá komið til umræðu fjölmiðla eins og hann lýsti.  Dúkurinn hafði verið nokkra daga í Vestmannaeyjum er hann var endursendur. Þótt nokkur ólíkindablær sé á atburðarásinni þykir dóminum hún ein og sá tími sem dúkurinn var í Vestmannaeyjum áður en hann var endursendur ekki nægja til að unnt sé að slá því föstu gegn eindreginni neitun ákærða að hann hafi dregið sér dúkinn. Eins og rakið var voru engin vitni leidd til að bera um sendingu ákærða til Vestmannaeyja eða um það hvort dúkurinn kunni að hafa verið sendur þangað fyrir mistök eins og ákærði heldur fram. Er því ekki við annað að styðjast í þessu efni en framburð ákærða.

Að öllu þessu virtu og gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi dregið sér dúkinn og ber að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

13. töluliður.

   Ákærði neitar sök.  Hann kvaðst hafa pantað þessar vörur fyrir sjálfan sig og ekki hlutast til um að reikningurinn yrði stílaður á byggingarnefnd Þjóðleikhússins.  Ákærði kvaðst hafa talið að hjá Fagtúni fengist 7 mm þykkur jarðvegsdúkur, sem hentaði fyrir Þjóðleikhúsið vegna viðgerða.  Ákærði kvaðst í upphafi hafa greint viðmælendum sínum í Fagtúni frá því að hann væri að panta dúk fyrir leikhúsið.  Eftir að í ljós kom að dúkurinn hjá Fagtúni var mun þynnri, eða 2 mm, þá kvaðst ákærði hafa ætlað að kanna málið betur.  Hann lýsti því að hann hafi við skoðunina hjá Fagtúni komið auga á spennandi dúk, sem myndi henta í verk sem ákærði vann fyrir sjálfan sig. Úr varð að hann pantaði 75 fermetra af dúki fyrir sjálfan sig. Hann kvaðst hafa greint viðmælendum sínum frá því að hann myndi ganga frá reikningnum er hann sækti dúkinn.  Hann kvaðst telja líklegt að hann hafi ekki greint þeim frá því að þessi dúkur væri fyrir ákærða sjálfan.  Er hann sótti dúkinn hafi þessir viðsemjendur hans ekki verið við, en eftir að í ljós kom að reikningurinn hafði verið sendur Framkvæmdasýslu ríkisins kvaðst ákærði hafa hringt og þá verið greint frá því að reikningurinn hefði verið sendur þangað fyrir mistök.  Reikningurinn hefði lent á röngum borðsenda.

   H, framkvæmdastjóri hjá Fagtúni ehf., kvað ákærða hafa komið að málið við þá BA.  Ákærði Árni hafi pantað þéttidúk af ákveðinni stærð og kvaðst Ha hafa fyllt út verkbeiðni eftir upplýsingum frá Árna.  H kvað hafa þurft að sjóða dúkinn saman og hugðist ákærði sækja hann síðar og ganga frá reikningi.  H kvaðst hafa skilið þessi ummæli ákærða svo að hann ætlaði að árita reikninginn er hann sækti dúkinn.  H kvað ákærða hafa sótt dúkinn síðar en til stóð og hvorugur þeirra BA þá verið við.  Hann kvaðst síðan hafa útbúið reikning vegna viðskiptanna og sent byggingarnefnd Þjóðleikhússins samkvæmt upplýsingum á verkbeiðni, sem hann hafði áður skráð niður eftir ákærða.  H kvað engan vafa í sínum huga á því að dúkinn hafi átt að nota við Þjóðleikhúsið, en hann kvaðst hafa spurt Árna að því hvort dúkurinn væri yfir verkstæði, sem H hafði áður athugað í sambandi við dúk.  H kvað samkvæmt upplýsingum ákærða engan vafa að Þjóðleikhúsið var verkkaupi og greiðandi.  H kvað ekki hafa verið rædd persónuleg viðskipti Árna.  H kvað ákærða hafa hringt eftir að mál hans komst í hámæli og beðið um að beðið yrði með að senda reikninginn Framkvæmdasýslu, en reikningsfjárhæðin fékkst ekki greidd af fjárveitingum byggingarnefndarinnar og lýsti H því nánar.

   BA, tæknifræðingur hjá  Fagtúni ehf., lýsti því efnislega á sama veg og vitnið H, er ákærði kom í fyrirtækið og pantaði þéttidúk af ákveðinni stærð. H hafi ritað verkbeiðni eftir upplýsingum frá Árna.  Fram kom hjá ákærða að verkkaupi var byggingarnefnd Þjóðleikhússins, en BA kvaðst hafa talið að verið væri að hefja framkvæmdir við leikhúsið, sem hann taldi ekki vanþörf á, en fram kom að BA þekkti til aðstæðna í Þjóðleikhúsnu að þessu leyti og því hafi honum ekki fundist neitt sérkennilegt við þetta.  BA kvað ákærða síðar hafa hringt og beðið um að reikningur vegna kaupanna yrði sendur verktakafyrirtæki í Vestmannaeyjum, en þá hafði upphaflegi reikningurinn verið sendur Framkvæmdasýslunni.

   Niðurstaða 13. töluliðar.

   Ákærði neitar sök og kvaðst hafa pantað þéttidúkinn fyrir sjálfan sig, en kvaðst telja líklegt að hann hefði ekki greint viðsemjendum sínum hjá Fagtúni frá því. 

Vísað er til vitnisburðar H og BA.  Ekkert í vitnisburði þeirra gefur annað til kynna en að ákærði hafi látið stíla úttektina á þéttidúknum á byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Reikningsfjárhæðin fékkst ekki greidd af fjárveitingum nefndarinnar eins og lýst er í ákærunni. 

Dómurinn telur samkvæmt þessu sannað með vitnisburði H og BA og með öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi framið þá háttsemi sem hér um ræðir.

Brot ákærða rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.

   B. Meintur fjárdráttur ákærða Árna í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar.

14. töluliður.

   Ákærði Árni neitar sök samkvæmt þessum ákærulið.  Hann lýsti áratuga kynnum sínum af Þ, sem hafði áður unnið verk fyrir Brattahlíðarverkefnið.  Ákærði lýsti vangaveltum um innréttingarsmíð, sem til greina kæmi að setja í aðalskálann á Eiríksbæ.  Hann kvað hafa verið ákveðið að smíðaðir yrðu svokallaðir kistilhnallar og lýsti ákærði hvernig hugmyndin var að þeir yrðu notaðir.  Hann kvað ljóst af verðkönnun sem unnin hafði verið vegna ýmiss konar smíði í húsið, að hver kistill myndi kosta um 50.000 krónur.  Ákærði kvað Þ hafa vaxið nokkuð í augum að taka að sér að smíða kistilhnallana, en ákærði kvaðst hafa ýtt nokkuð á hann um að taka verkið að sér sem úr varð og hafi Þ treyst sér til þess að smíða hvern kistilhnall fyrir rúmar 25.000 krónur að sögn ákærða.  Hann kvaðst í ljósi þessa hversu hagstætt verðið var á kistilhnöllunum og einnig að hann hafi þrýst nokkuð á Þ hafa boðið honum að greiða fyrir smíðina fyrirfram.  Ákærði kvað peningana til þessa hafa verið tekna út af bankareikningi Vestnorræna ráðsins 22. júní 2001, eins og lýst er í þessum ákærulið, í því skyni að greiða fyrirfram fyrir verkið.  Ákærði kvað þá Þ hafa farið saman er peningarnir voru teknir út, en þá hafi ekki farið á milli mála að Þ hafi verið orðinn veikur, auk þess sem hann hafi verið óviss.  Ákærði kvaðst þá hafa stungið upp á því að þeir skyldu sjá til með verkið, en ákærði skyldi taka peningana og geyma uns þeir ræddu þetta síðar.  Ákærði kvaðst síðan hafa rætt við Þ nokkrum vikum síðar og þá komið í ljós að hann var orðinn alvarlega veikur.  Ákærði kvað fjölmiðlaumfjöllun um mál hans byrjaða á þessum tíma hafi og hann hafi viljað reyna að hreinsa til alla hluti.  Í ljós kom að Þ hafði ekki hafið smíðina og ákærði hefði þá stungið upp á því að þeir féllu frá samkomulagi sínu að sinni að minnsta kosti og að peningarnir yrðu lagðir inn á reikning Vestnorræna ráðsins aftur.  Ákærði kvaðst síðar hafa mælt sér mót við Þ og afhent honum peningana í sama umslagi og hann hafði áður tekið við þeim í og afhent Þ umslagið og lagði hann peningana inn á reikning Vestnorræna ráðsins 22. júlí 2001, eins og lýst er í ákærunni.  Peningana hafi ákærði ekki ætlað að nota í sína þágu.  Reikning, sem í ákæru er sagður tilhæfulaus, kvað ákærði Þ hafa skrifað vegna smíðinnar á 32 kistilhnöllum.  Reikningurinn sé dags. 20. júní 2001. 

Meðal gagna málsins er yfirlýsing undirrituð og dags. 22. júlí 2001, en hún er undirrituð af Þ.  Yfirlýsingin er svohljóðandi: 

,,Ég undirritaður óska hér með eftir því vegna óvæntra veikinda að falla frá fyrirhugaðri smíð 32 kistilhnalla með sérsmíðuðum lömum fyrir Brattahlíðarnefnd samkvæmt samkomulagi frá í haust leið.  Skila ég því inn greiðslunni sem samið hafði verið um að ég fengi alla greidda við upphaf verksins fyrir skömmu.  Vona ég að síðar geti ég unnið verkefni fyrir Brattahlíð.

Vinnsamlegast

[Þ] (sign)”

Ákærði kvaðst hafa útbúið þetta skjal að beiðni Þ. 

Þ smiður kvað ákærða hafa leitað til sín um smíði á kistilhnöllum og boðið sér greiðslu fyrirfram.  Þ kvaðst síðan hafa veikst og ekkert orðið úr smíðinni.  Hann kvaðst hafa skrifað reikning samkvæmt beiðni ákærða, þar sem segir að það sé fullnaðargreiðsla vegna smíði 32 kistilhnalla.  Þ kvaðst ekki hafa útfyllt fjárhæðina, sem er 782.790 krónur, en hann kvað sér hafa brugðið er hann sá fjárhæðina, en hann taldi þó upphæðina á reikningnum sanngjarna miðað við að smíðaðir  yrðu 32 kistilhnallar.  Hann staðfesti það sem hann hafði áður borið hjá lögreglunni um það, að hann hefði skipt tékka að fjárhæð 782.790 krónur í banka og afhent ákærða peningana, utan 40.000 króna sem var greiðsla Árna vegna gamallar skuldar.  Þ kvað Árna hafa samið yfirlýsinguna sem áður var rakin.  Hann kvaðst hafa skrifað undir hana.  Er Þ var spurður hvort hann hafi vitað hvað hann var að undirrita, svaraði hann ,,ég gerði mér enga grein fyrir þessu.”  Áður lýsti Þ því að yfirlýsingin væri mergurinn málsins.  Nánar aðspurður kvað Þ yfirlýsinguna að mestu leyti rétta.  Hann kvað Árna í og með hafa tekið út peninga til þess að greiða sér fyrirfram eins og yfirlýsingin beri með sér.  Hann kvað Árna hafa haft samband við sig eftir að mál hans var komið í umræðuna og þá fengið hann til þess að leggja peningana inn á reikninginn eins og lýst er í ákærunni.

   Niðurstaða 14. töluliðar.

Sannað er með framburði ákærða og með vitnisburði Þ og öðrum gögnum málsins að dagsetningum og fjárhæðum í þessum ákærulið er rétt lýst.   

Ákærði neitar sök og bar fyrir sig samkomulag þeirra Þ og að hann hafi geymt peningana eins og lýst var.  Texti reikningsins sem lýst er í ákæru er svohljóðandi:   ,,Fullnaðargreiðsla smkv. samkomulagi fyrir 32 stk. kistilhnalla með sérsmíðuðum lömum”.  Undir reikninginn ritar Þ.  Yfirlýsingin sem rakin var að ofan vísar í samkomulag ákærða og Þ um smíðina. 

Hjá lögreglunni var tekin vitnaskýrsla af P, sem var ritari Vestnorræna ráðsins.  Hann kvaðst kannast við umræður um smíði kistilhnalla, en vissi ekkert um greiðslur vegna þeirra. 

Vísað er til vitnisburðar Þ fyrir dómi, sem rakinn var að framan.  Hjá lögreglunni bar Þ að hann hefði útfyllt reikninginn að beiðni ákærða Árna, en fjárhæðina hefði hann ekki fært inn.  Ákærði hefði komið með reikningseyðublaðið.  Þ kvaðst hafa framselt tékkann og farið með ákærða í banka, þar sem tékkinn var innleystur, en ákærði hefði gert það, en Þ beðið álengdar.  Þ kvað ákærða hafa greitt sér 40.000 króna skuld, en hann ekki fengið aðra fjármuni í hendur.  Þ kvað ákærða síðan hafa komið að máli við sig er mál ákærða var komið til umfjöllunar fjölmiðla.  Þá hafi þeir mælt sér mót við Grandakaffi, þar sem Þ kvaðst hafa undirritað yfirlýsinguna, sem lýst var.  Hann kvaðst einnig hafa lagt inn peningana eins og lýst er í ákærunni.  Þetta kvaðst Þ hafa gert að beiðni ákærða vegna vandræða sem upp voru komin sökum fjölmiðlaumfjöllunar að hans sögn.  Þ kvaðst ekki hafa spurt ákærða út í þetta.  Þ kvaðst hafa verið í sjokki vegna uppfjöllunar fjölmiðla. 

   Ráða má af því sem nú hefur verið rakið, að vitnisburður Þ er nokkuð á annan veg fyrir dómi, en hann var hjá lögreglunni.  Er tekin var skýrsla af Þ fyrir dómi var hann rúmliggjandi á sjúkrahúsi.  Að mati dómsins hafði Þ ekki þrek í frekari skýrslutöku og gaf hann það sjálfur í skyn.  Þess vegna var ekki unnt að taka af honum nákvæmari skýrslu og leita skýringa á misræmi í vitnisburði hans. 

Dómurinn telur að leggja beri vitnisburð Þ fyrir dómi til grundvallar niðurstöðu málsins, sbr. 1. mgr. 48. gr. oml., þar sem segir að dómur skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram í meðferð máls fyrir dómi.  Samkvæmt þessu er lagt til grundvallar með framburði ákærða og með vitnisburði Þ, að þeir hafi gert samkomulag um smíði kistilhnallanna, eins og lýst hefur verið, og að ákærði hafi ætlað að greiða Þ fyrirfram fyrir smíðina.  Reikningurinn sem lýst er í ákæru var samkvæmt þessu ekki tilhæfulaus að öllu  leyti, þar sem hann vísar til eða virðist  eins konar samkomulag milli ákærða og Þ um smíðina. 

Við mat á því hvort ákærði hafi gerst sekur um fjárdrátt og dregið sér andvirði tékkans eins og lýst er í ákærunni er eftirfarandi tekið fram.  Ákærði játar að hafa tekið andvirði tékkans í sínar vörslur 22. júní, en hann neitar að hafa dregið sér fjármunina og fénýtt sér í eigin þágu eins og ákært er fyrir.  Ekkert í gögnum málsins svo sem útprentanir af bankareikningum ákærða eða annað sýnir að ákærði hafi nýtt þessa fjármuni í sína þágu, t.d. lagt þá inn á reikninga sína o.s.frv.  Fyrir liggur að ákærði tók út peningana af reikningi Vestnorræna ráðsins hinn 22. júní og kvittaði fyrir úttektinni.  Hann hlaut  því að gera ráð fyrir því að þurfa að gera grein fyrir þessum fjármunum, þótt síðar væri.  Þetta þykir renna stoðum undir frásögn ákærða um það, að hann hafi ekki dregið sér féð.  Þótt atburðarás í þessum ákærulið sé með nokkrum ólíkindum gerir hún ein og sér það ekki að verkum gegn eindreginni neitun ákærða, að unnt sé að slá því föstu að ákærði hafi verið búinn að slá eign sinni á peningana. 

Að öllu þessu virtu telur dómurinn ósannað gegn eindreginni neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hér er ákært vegna og ber samkvæmt því að sýkna hann.

   C. Meintar rangar skýrslur ákærða Árna til yfirvalda.

15. töluliður a og b.

   Ákærði kvað lýsingu í þessum ákæruliðum rétta, en neitar að um saknæmt athæfi hafi verið að ræða.  Hann kvaðst hafa orðið fyrir ýmsum kostnaði vegna starfa sinna, en ekki haldið kvittunum saman og glatað þeim.  Þær fjárhæðir sem ákærði kvaðst hafa hugsað sem bakland fyrir þá reikninga sem hér um ræðir hafi verið mun hærri en fjárhæðir samkvæmt þeim reikningum sem hér er ákært vegna.  Hann kvað þau viðskipti sem getið er um á greiðslukvittunum, sem til grundvallar þessum ákærulið liggja, að hluta til raunveruleg viðskipti en ekki að öllu leyti.  Ákærði kvaðst hafa gripið til þess ráðs að fá þessar greiðslukvittanir sem hér um ræðir til þess að finna útlögðum kostnaði stað.

   GÞ matreiðslumeistari staðfesti að hafa gefið út greiðslukvittun sem lýst er í b-lið þessa ákæruliðar.  Hann kvað aðdraganda útgáfunnar þann, að ákærði hafi komið til sín og beðið um reikning að fjárhæð 118.000 krónur.  GÞ kvaðst hafa neitað beiðni ákærða, þar sem hann hafi þurft að greiða virðisaukaskatt af reikningnum.  Ákærði hafi þá sagt að reikningurinn þyrfti ekki að vera númeraður, kvittun nægði, því þetta væri fyrir hans einkabókhald.  GÞ kvaðst því hafa gefið út greiðslukvittunina, en ákærði hafi átt við hann mikil viðskipti og lýsti GÞ því.

   Niðurstaða 15. töluliðar a og b.

Ákærði kveðst ekki hafa haldið reikningum saman og talið raunveruleg viðskipti að minnsta kosti að hluta til liggja á baki þeim greiðslukvittunum, sem hér er ákært vegna. 

Þar sem ekki lágu raunveruleg viðskipti að baki greiðslukvittununum telur dómurinn að þær hafi verið tilhæfulausar eins og lýst er í ákærunni, en ákærði notaði greiðslukvittanirnar eins og þar er lýst.  Samkvæmt því sem nú var rakið telur dómurinn sannað með framburði ákærða og með vitnisburði GÞ og með öðrum gögnum málsins, að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem hér um ræðir. 

Brot ákærða er rétt fært til refsiákvæða í ákærunni, enda voru skjölin notuð í málefnum sem varða hið opinbera, sbr. 147. gr. almennra hegningarlaga.

   D. Meint brot ákærða Árna í opinberu starfi, mútuþægni.

16. töluliður.

   Ákærði neitar sök samkvæmt þessum ákærulið.  Hann kvaðst hafa leitað tilboða í Noregi í þetta hús, en um sé að ræða óunnið efni í hús, en ekki tilsniðið eins og lýst sé í ákærunni.  Ákærði kvaðst hafa fengið Ístak til að panta og kaupa efnið fyrir sig og flytja til landsins á nafni Ístaks.  Ekkert hafi farið á milli mála að hann skuldaði Ístaki þetta efni og kvaðst hann hafa rætt við meðákærða T um það, að ákærði myndi fljótlega greiða helming kostnaðarins við þetta.  Ákærði neitar því að hafa fengið Ístak til að greiða reikninginn fyrir sig og færa til gjalda í bókhaldsreikningi vegna framkvæmdanna í Brattahlíð.  Ákærði kvað fjárhæðir og dagsetningar í þessum ákærulið réttar, en ákærði kveðst ekki hafa neitt með færslurnar í bókhaldi Ístaks að gera.

   Meðákærði T kvað ákærða Árna hafa haft samband við sig vegna kaupa hans á stafkirkju í Noregi. Árni hafi beðið um að kirkjan fengi að fljóta með í pöntun sem Ístak átti og flytja skyldi til Vestmannaeyja.  Ístak myndi leggja út fyrir kostnaðinum.  T kvað Árna hafa haft orð á því að hann myndi fljótlega greiða helming kostnaðarins sem að þessu hlytist.  T kvaðst hafa sent þessar upplýsingar í tölvupósti til PS framkvæmdastjóra Ístaks, sem hafi samþykkt þetta fyrirkomulag.  T kvaðst halda að bókhaldsmistök hafi orðið hjá Ístaki að færa reikning vegna kaupa Árna á reikning vegna byggingarframkvæmda í Brattahlíð.

   PS framkvæmdastjóri hjá Ístaki, lýsti stöðu ákærða T innan fyrirtækisins.  Hann lýsti verksviði hans og kvað hann hafa annast verkefni Ístaks fyrir Þjóðleikhúsið. 

PSkvað einu afskipti sín af því, sem lýst er í þessum ákærulið, hafi verið þau að hann hafi fengið tölvubréf frá ákærða T, þar sem beðið var um leyfi til að flytja inn timbur, eins og lýst er.  PSkvaðst hafa samþykkt það.  Ekki hafi verið rætt um greiðslu Árna umfram það sem fram kemur í bréfinu um að hann muni greiða helminginn fljótlega. Hann kvaðst ekki kunna aðrar skýringar á því hvers vegna reikningur vegna þessara viðskipta var færður á Brattahlíðarnefnd en þá að um mistök eða trassaskap hafi verið að ræða.  PSkvaðst ekki telja að Árni hafi beðið um að reikningurinn yrði færður eins og gert var.  PSkvað mistökin hafa verið leiðrétt um leið og þau komu í ljós og þá var reikningurinn færður á viðskiptareikning Árna hjá Ístaki.

Niðurstaða 16. töluliðar.

   Ákærði neitar sök og kvað alltaf ljóst að hann skuldaði Ístaki vegna kaupanna, en hann kvaðst hafa fengið félagið til að flytja efnið hingað til lands.  Ákærði kvaðst ekkert hafa haft með reikningsfærslu Ístaks að gera vegna þessa.  Meint brot ákærða samkvæmt þessum kafla er talið varða við 128. gr. almennra hegningarlaga, þar sem segir að ef opinber starfsmaður heimtar, tekur við eða lætur lofa sér eða öðrum gjöfum eða öðrum ávinningi, sem hann á ekki tilkall til í sambandi við framkvæmd starfa síns, þá skuli hann sæta fangelsi allt að 6 árum eða sektum, ef málsbætur eru.  Ekki eru skilyrði samkvæmt greininni að um fjárhagslegan ávinning sé að ræða.  Hins vegar er skilyrði að ávinningurinn sé tengdur framkvæmd starfa hins opinbera starfsmanns.  Í þessum ákærulið er því lýst að ákærði vann um þetta leyti að móttöku þjóðargjafar Norðmanna til Íslendinga.  Dómurinn skilur ákæruna svo að vísað sé til þess að ávinningur ákærða af því að Ístak flutti efnið hingað til lands fyrir hann og greiddi, hafi tengst starfi ákærða sem formanns byggingarnefndar um stafkirkju í Vestmannaeyjum.  Þetta starf ákærða eitt og sér er ekki til þess fallið að útiloka ákærða frá samskiptum við Ístak fyrir sjálfan sig, eins og lýst er í ákærunni, öðruvísi en saknæmt teljist.  Því er ekki lýst í ákærunni hvernig þessi opinberu störf ákærða tengdust innflutningi hans á efninu í stafkirkjuna, þannig að saknæmt hafi verið af hans hálfu.  Þá kom ekkert fram undir aðalmeðferð málsins um þetta. 

   Meðákærði T og vitnið PS, framkvæmdastjóri Ístaks, lýstu því báðir hvernig staðið var að þessum innflutningi og til hafi staðið að ákærði greiddi skuld sína. 

Að öllu þessu virtu telur dómurinn ósannað að innflutningurinn á timbrinu hafi tengst hinu opinbera starfi ákærða, sem lýst er í ákærunni, þannig að varði við 128. gr. almennra hegningarlaga og ber samkvæmt því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.

   17. töluliður.

   Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hins vegar hafa tekið við 650.000 krónum eins og lýst er í þessum ákærulið úr hendi meðákærða Gísla Hafliða.  Ákærði Árni kvaðst engin samskipti hafa haft við meðákærða B vegna peninganna eða vegna uppáskriftar á reikninginn sem hér um ræðir.  Hann kvað málavexti hafa verið þá að um haustið 2000 hafi meðákærði Gísli Hafliði komið að máli við sig er hann var staddur í Þjóðleikhúsinu. Gísli hafi spurt ákærða að því hvort ekki væri unnt að ganga frá reikningum sem safnast höfðu upp vegna framkvæmda í Þjóðleikhúskjallaranum, en um margra ára tímabil var að ræða og í mörgum tilvikum framkvæmdir sem ákærði hafi áður samþykkt að væru á kostnað byggingarnefndarinnar.  Ákærði kvaðst hafa sagt við Gísla í glettni og án þess að meina nokkuð með því að best væri að hann rukkaði þá fyrir sig uppsöfnuð vangoldin laun.  Ákærði kvaðst síðan hafa eytt þessum ummælum sínum, en beðið Gísla um að taka saman reikninginn, sem um var rætt.  Ákærði kvað þetta hafa verið gert, en tekið nokkurn tíma.  Ákærði kvað meðákærða Gísla Hafliða ekki hafa getað skilið ummæli sín þannig að áritun á reikninginn væri á einhvern hátt tengd innheimtu launakröfu fyrir ákærða.  Ákærði kvaðst síðan hafa ritað um þetta greinargerð, sem send var Framkvæmdasýslu ríkisins, en það var gert að kröfu Framkvæmdasýslunnar vegna þess að reikingarnir sem mynduðu heildarfjárhæðina voru sumir gamlir.  Eftir þetta fékkst reikningurinn greiddur.  Ákærði kvaðst hvorki hafa gert kröfu til né óskað eftir því að fá greiðslu fyrir að skrifa upp á reikninginn.  Ákærði mundi ekki hvort að hann hafði samband við meðákærða Gísla eftir að reikningurinn hafi verið greiddur, en ákærði taldi að hann hefði ekki fylgst með því hvenær reikningurinn fékkst greiddur.

   Vísað er til framburðar meðákærðu B og Gísla Hafliða undir ákærulið 28 að því er þennan ákærulið varðar.

   Ó, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, kvað hafa verið ákveðið í samráði við menntamálaráðuneytið að fá ákærða Árna til þess að rita greinargerð með reikningi þeim sem hér um ræðir, þar sem hann hafi verið óvenjulegur vegna þess að verið var að rukka mjög langt aftur í tímann.  Eftir að greinargerð frá ákærða Árna barst kvað Ó ekki annað fært en að greiða reikninginn.

   Niðurstaða 17. töluliðar.

   Ákærði játaði að hafa tekið við peningunum úr hendi meðákærða Gísla Hafliða, en hann kvaðst engin samskipti hafa átt við meðákærða B vegna þessa. 

   Meðákærði Gísli Hafliði lýsti því að þessi greiðsla til ákærða stæði í sambandi við að samþykkja reikninginn.  Ákærði Árni kvað ekkert samband hafa verið þar á milli.  Ráða má af framburði ákærða Árna og meðákærða Gísla Hafliða, að þessi  greiðsla til ákærða var vegna starfa hans sem formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins.  Þótt því verði ekki slegið föstu gegn eindreginni neitun ákærða Árna, að greiðslan til hans tengist samþykkt hans á reikningnum að fjárhæð 3.154.419 krónur eins og í ákæru greinir, kemur það ekki að sök eins og hér stendur á, þar sem sannað er með framburði ákærða og með framburði meðákærða Gísla Hafliða, að ákærði tók við greiðslunni vegna opinberra starfa sinna sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins.  Með móttöku fjárins braut ákærði gegn 128. gr. almennra hegningarlaga.  Þótt grundvöllur sakfellingarinnar sé að hluta annar en beinlínis er lýst í ákæru kemur það ekki að sök eins og hér stendur á, enda ljóst að vörn ákærða Árna var ekki áfátt af þessum sökum, sbr. 2. málslið 1. mgr. 117. gr. oml.

   E. Meint umboðssvik ákærða Árna í opinberu starfi sem formaður Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar.

18. töluliður.

   Ákærði Árni neitar sök.  Hann kvað lýsinguna í þessum ákærulið rétta, en neitaði að um brot hafi verið að ræða, þar sem hann kvaðst hafa samið um þessa viðbótargreiðslu til að höggva á hnút, sem upp var kominn vegna framkvæmdanna í Brattahlíð.  Ákærði kvað engar samþykktir til um verkefnin sem unnin voru í Brattahlíð, hvorki á Íslandi, í Færeyjum né á Grænlandi.  Hann kvaðst hafa unnið að verkefninu á þann hátt, sem raun varð, með vitund og með vilja allra sem hlut áttu að máli.  Hann kvaðst sjálfur hafa leitað tilboða í verkið hjá Ístaki, en hann kvað verkið hafa verið unnið sumrin 1999 og 2000.  Ákærði lýsti samstarfserfiðleikum milli Ístaks og Torf- og grjóthleðslunnar allt frá byrjun verksins.  Hann lýsti í hverju ágreiningurinn fólst. Hann lýsti fundi sem haldinn var á skrifstofu Ístaks eftir að allir sem hlut áttu að máli höfðu verið kallaðir heim frá Grænlandi.  Hann kvað fundinn hafa byrjað á því að staðarstjóri Ístaks hefði sagt að annaðhvort hann eða verkstjóri Torf- og grjóthleðslunnar færu ekki aftur til Grænlands vegna verksins.  Ákærði kvað verkstjóra Torf- og grjóthleðslunnar hafa verið reiðubúinn að hætta samstundis með sinn mannskap.  Ákærði kvaðst þá hafa viðrað hugmyndir sínar til að leysa ágreininginn.  Hann kvað hafa komið fram hjá Torf- og grjóthleðslunni að fyrirtækið hefði vanmetið reikning sinn um tæplega eina og hálfa milljón króna.  Ákærði kvaðst þá hafa boðið fyrirtækinu 650.000 króna greiðslu frá Brattahlíðarnefnd til að leysa ágreininginn, en Ístaksmenn hefðu gert það sem að þeim sneri til að leysa ágreininginn að sögn ákærða.  Ákærði kvað Torf- og grjóthleðsluna því hafa átt lögvarða kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd og hafi krafan byggst á loforði ákærða um þessa greiðslu.

   Meðákærði T lýsti ágreiningi milli Ístaks og torfhleðslumannsins sem vann verkið sem hér um ræðir.  T kvað hafa verið haldinn fund þar sem ágreiningur á milli þeirra var leystur.  Hann kvað ágreininginn hafa varðað húsnæðismál á Grænlandi og kynningu á Torf- og grjóthleðslunni.  T kvaðst ekki vita til ágreinings milli aðila eftir að reikningur að fjárhæð rúmlega 1,3 milljónir króna var greiddur.  T kvaðst enga skýringu geta gefið á 645.000 króna reikningnum sem lýst er í ákærunni.  Hann taldi sig hafa gert upp að fullu við Torfhleðsluna samkvæmt samningi milli Ístaks og þess fyrirtækis.  Frekari greiðslur til Torfhleðslunnar hafi því verið fyrir utan samning Ístaks við fyrirtækið og T kvaðst því ekki geta svarað því hvort  Torfhleðslan átti kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd.

   V, framkvæmdastjóri Torf- og grjóthleðslunnar ehf., staðfesti að fyrirtæki hans hefði unnið að Brattahlíðarverkefninu.  Hann kvað 645.000 króna greiðsluna, sem lýst er í þessum ákærulið, hafa komið vegna óánægju og deilna milli hans og Ístaks á Grænlandi.  V taldi að Ístak hefði ekki staðið við samning sem gerður var um aðstöðuna á Grænlandi og nefndi V í því sambandi að húsnæðismál, fæðismál, rafmagn og ferðamál og kynningarmál fyrir hans fyrirtæki hafi ekki verið eins og um var samið.  Vegna óánægjunnar hafi verið haldinn fundur hér á landi. Fundinn hafi setið V, forsvarsmenn Ístaks og ákærði Árni.  V lýsti því að Árni hefði fyrir fundinn nefnt við sig að hann hefði ákveðnar hugmyndir til að leysa málið.  V lýsti ágreiningi á fundinum og er að því kom að hann bauðst til þess að fara frá Grænlandi með sinn mannskap og að Ístak yrði þá að annast verkið.  V kvað Árna hafa gripið inn í er hér var komið sögu og sagt að standa yrði við samninginn við sig, en V kvaðst hafa fengið reikninga sína greidda frá Ístaki, en taldi sig hlunnfarinn, meðal annars vegna meiri vélanotkunar á Grænlandi en ráð var fyrir gert.  Eftir fundinn kvað V þá Árna hafa rætt saman og kvað hann Árna þá hafa, vegna óánægju sinnar, boðið sér greiðsluna, sem lýst er í þessum ákærulið, en greiðslan kæmi ekki fyrr en í lok verksins.  V kvaðst hafa sætt sig við þetta, þótt honum hafi fundist greiðslan lág, sem hann sagði Árna.  V kvaðst hafa fengið reikninga sína greidda hjá Ístaki, en reikningurinn sem lýst sé í þessum ákærulið hafi ekkert með Ístak að gera.

   Niðurstaða 18. töluliðar.

   Ákærði neitar sök.  Hann kvaðst hafa lofað Torf- og grjóthleðslunni þessari greiðslu til þess að leysa ágreining sem upp kom, en fyrirtækið hafi vanmetið reikning sinn um tæplega eina og hálfa milljón króna.  Hann kvað fyrirtækið einnig hafa átt lögvarða kröfu, sem byggðist á loforði ákærða sem formanns byggingarnefndar Vestnorræna ráðsins, Brattahlíðarnefndar. 

   Vitnisburður V hjá Torf- og grjóthleðslunni er efnislega á sama veg um þetta uppgjör, en hann kvað þessa greiðslu óháða uppgjörinu frá Ístaki. 

Í þessum lið er ákært er fyrir umboðssvik og að hafa misnotað aðstöðu sína sér eða öðrum til ávinnings. Fram kemur í gögnum málsins og því er einnig lýst í skýrslu ríkisendurskoðunar, að ekki sé auðvelt að átta sig á því hvernig störfum byggingarnefndarinnar var háttað.  Svo er að sjá að starf nefndarinnar hafi að langmestu leyti hvílt á herðum ákærða, sem hefur einnig borið að svo hafi verið.  Ákærði virðist hafa aflað fjár, gert verksamninga og sinnt verkeftirliti og fjármálasýslu fyrir hönd nefndarinnar.  Ekki er að finna í gögnum málsins upplýsingar um að gert hafi verið athugasemdir við þetta verklag.

Samkvæmt þessu verður ekki annað ráðið af gögnum málsins, en að ákærði hafi haft heimild til að gera ráðstafanir eins og þá sem lýst er í þessum ákærulið.  Samkvæmt reikningnum sem lýst er í ákærunni er hann fyrir viðbótarhleðslu, endurgerð í Brattahlíð og vegna tækjaleigu.  Ekki var öðrum til að dreifa en ákærða til að semja um þetta við Torf- og grjóthleðsluna.  Ekki hefur af hálfu ákæruvaldsins verið sýnt fram á það að ákærði hafi með þessum ráðstöfunum sínum misnotað aðstöðu sína eins og lýst er í ákærunni.  Þá telur dómurinn að Torf- og grjóthleðslan hafi átt lögvarða kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd á grundvelli samnings eða loforðs við ákærða sem formanns nefndarinnar um þessa greiðslu eins og áður er lýst. 

Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið er ósannað gegn neitun ákærða að hann með ráðstöfunum sínum gerst sekur um umboðssvik í opinberu starfi. Ber samkvæmt því sýkna ákærða af þessum ákærulið.

II

   Meint umboðssvik ákærða Árna í opinberum starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og meint hlutdeild ákærða Gísla Hafliða í þeim brotum.

19. og 20. töluliður.

   Ákærði Árni neitar sök.  Hann kvað veittar veitingar liggja að baki reikningnum, sem lýst er í báðum þessum ákæruliðum.  Hann kvaðst hafa talið reikninginn, sem í 19. tl. greinir, hafa verið vegna veitinga sem veittar voru í veislu sem haldin var í tilefni opnunar svokallaðs málarasalar í Þjóðleikhúsinu.  Hann kvaðst telja að hið sama ætti við um reikninginn sem liggur að baki ákærulið 20, en þar hafi verið um að ræða veitingar vegna opnunar málarasalarins og veitingar sem veittar voru á löngu tímabili á vegum byggingarnefndarinnar.  Ákærði Árni taldi starfsmenn Þjóðleikhússkjallarans hafa afhent veitingarnar sem reikningarnir eru fyrir.  Hann kvaðst ekki hafa haft eftirlit með því hvernig reikningar vegna þjónustunnar voru skrifaðir.  Hann kvaðst hafa treyst starfsmönnum Þjóðleikhússkjallarans fyrir þessu.

   Ákærði Gísli Hafliði neitar sök og kvað reikninginn sem lýst er í 19. tölulið ákæru ekki tilhæfulausan.  Hann kvað reikninginn hafa verið útbúinn á skrifstofu fyrirtækisins, en ákærði hefði ekki útbúið hann eins og ákært er fyrir.  Hann kvað hugsanlegt að hann hafi mælt svo fyrir um að texti reikningsins skyldi vera eins og lýst er í ákærunni.  Þetta mundi ákærði ekki og kvaðst ekki getað áttað sig á þessu, þar sem enginn undirreikningur fylgi.  Hann kvað meðákærða Árna hafa komið að máli við sig og greint sér frá því að hann ætti eftir að halda veislu fyrir iðnaðarmenn.  Meðákærði Árni hefði pantað í veisluna í gegnum eldhúsið, en þar kvaðst ákærði Gísli hafa fengið þær upplýsingar að þjónustan hefði verið veitt.  Hann kvaðst því hafa gengið út frá því að reikningurinn væri vegna þessarar veislu. 

Ákærði Gísli Hafliði neitar einnig sök samkvæmt 20. töluliðs ákærunnar.  Hann kvað þann reikning hafa verið vegna vínfanga sem notuð voru í veislunni, sem getið var um að ofan.  Ákærði kvað meðákærða Árna hafa reynt að fá vín til veislunnar á svokölluðu tappagjaldi, sem ekki varð úr.  Því hafi þessi reikningur verið gefinn út.  Ákærði Gísli Hafliði kvaðst í hvorugu tilvikanna, sem hér um ræðir, hafa haft ástæðu til að halda annað en að veitingarnar, sem reikningarnir bera með sér, hafi farið til og verið neytt í þágu byggingarnefndarinnar.

   SB þjóðleikhússtjóri, sem átti sæti í byggingarnefndinni eins og áður er lýst, kvaðst aldrei hafa þegið veitingar á fundum nefndarinnar og kannaðist samkvæmt því ekki við veitingarnar á þeim 29 fundum sem lýst er í ákærulið 19.  Hann kvað hið sama eiga við um ákærulið 20. 

   Niðurstaða töluliða 19 og 20.

   Ákærði Árni taldi reikningana sem hér um ræðir hafa verið vegna veitinga í þágu byggingarnefndarinnar. 

Ákærði Gísli Hafliði kvaðst ekki hafa útbúið reikninginn, sem lýst er í 19. tölulið ákærunnar, en hugsanlega hafi hann gefið fyrirmæli um texta reikningsins.  Hann kvað reikningana í báðum þessum ákæruliðum hafa verið vegna veitinga í þágu byggingarnefndarinnar. 

Reikningarnir sem þessir ákæruliðir eru reistir á liggja frammi og bera virðisaukaskatt.  Ákærðu hafa báðir lýst því að reikningarnir hafi verið vegna veittrar þjónustu.  Ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á að það sé rangt hjá ákærðu.  Samkvæmt því skortir auðgunarásetning að því er báða ákærðu varðar, en það er saknæmisskilyrði fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 243. gr. sömu laga.  Samkvæmt þessu ber að sýkna báða ákærðu af báðum þessum ákæruliðum.

III

   Meint umboðssvik ákærða Árna í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og meint hlutdeild ákærða SAí þeim.

21. töluliður.

   Ákærði Árni neitar sök.  Hann kvaðst hafa talið er hann samþykkti reikninginn, sem hér um ræðir, að hann væri vegna veittrar þjónustu.  Síðar kvaðst ákærði hafa talið að það hefðu verið mistök hjá sér að skrifa upp á þennan reikning, þar sem hann taldi reikninginn tengjast eigendaskiptum á Þjóðleikhúskjallaranum.  Ákærði kvað formið á reikningnum hið sama og verið hafði um árabil og ekki hafi verið gerðar athugasemdir við.  Hann mundi ekki hver kom með reikninginn til hans til uppáskriftar, en hann kvaðst ekki hafa hitt meðákærða SA í tengslum við þennan reikning.

   Ákærði SA neitar sök.  Hann kvaðst ekki hafa gefið út reikninginn, sem lýst er í þessum ákærulið.  Hann hafi heldur ekki farið með reikninginn til meðákærða Árna.  Hann kvað D, þáverandi starfsmann Forum ehf., hafa gefið reikninginn út og kvaðst ákærði ekkert geta sagt um viðskipti sem lágu að baki honum.  Hann kvað sér hafa skilist að þessi reikningur væri tilkominn vegna skuldar byggingarnefndar Þjóðleikhússins við Þjóðleikhúskjallarann og taldi ákærði að samkomulag hafi verið milli meðákærðu B, eða Gísla, og D, að haga í innheimtu eins og lýst er í ákærunni. 

D heildsali kvaðst hafa rekið leikhúskjallarann á þessum tíma ásamt ákærða SA.  D kvaðst hafa útbúið reikninginn sem lýst er í þessum ákærulið. Hann kvað reikninginn tengjast lokauppgjöri tengdu eigendaskiptum á rekstri leikhúskjallarans.  Upplýsingar um fjölda funda, sem getið er um á reikningnum, kvaðst D telja að hann hafi fengið frá ákærða Gísla Hafliða.  Þá kvaðst D hafa haft samband við ákærða Árna til að fá upplýsingar um kennitölu sem setja ætti á reikninginn, en Árni sagt ákærða að senda reikninginn, hann myndi sjálfur færa inn kennitölu.  D kvað ekkert annað hafa komið fram hjá þeim ákærðu Gísla Hafliða og Árna en að reikningurinn væri réttur.  D kvað ákærða SA ekki hafa komið að þessari reikningsgerð.

   Niðurstaða 21. töluliðar.

   Ákærði Árni neitar sök, en kvaðst eftir á að hyggja hafa talið mistök hjá sér að samþykkja reikninginn.  Af framburði beggja ákærðu og vitnisburði D má ráða að reikningur þessi tengist uppgjöri vegna eigendaskipta á rekstri Þjóðleikhússkjallarans.  Samkvæmt því var reikningurinn tilhæfulaus eins og lýst er í ákæru.  Með samþykki reikningsins gerðist ákærði Árni brotlegur við þau lagaákvæði  sem lýst er í ákæru. 

   Ákærði SA neitar sök.  D lýsti því fyrir dóminum, að hann hefði útbúið þennan reikning og ákærði Árni kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða SA vegna reikningsins.  Samkvæmt þessu er ósannað gegn neitun ákærða SA, að hann hafi framið þá háttsemi sem í þessum ákærulið greinir og ber að sýkna hann.

IV

   Meint umboðssvik og fjárdráttur ákærða Árna í opinberu starfi sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og meint hlutdeild ákærða T verkfræðings hjá Ístaki í þeim.

22. töluliður.

   Ákærði Árni neitar sök samkvæmt þessum ákærulið.  Hann kvað RA ljósmyndara, eiganda bílskúrsins að Haukalind 17, hafa unnið mikið starf bæði fyrir byggingarnefnd Þjóðleikhússins og fyrir Brattahlíðarnefnd.  Ákærði kvað vinnu RA yrir Brattahlíðarnefndina hafa verið óuppgerða.  Hann kvaðst því hafa ákveðið að gera upp verkið á þennan óhefðbundna hátt.  Hann kvaðst hafa haft samband við meðákærða T og greint honum frá mikilli vinnu RAbæði fyrir byggingarnefnd Þjóðleikhússins og fyrir Brattahlíðarnefnd og kvaðst ákærði hafa beðið T um að sjá til þess að vinnan í bílskúrnum yrði unnin.  Ákærði kvaðst ekki hafa rætt þetta mál þannig við meðákærða T, að hann hafi vitað að þessi framkvæmd tengdist byggingarnefnd Þjóðleikhússins.  Ákærði kvaðst því hafa talið að Brattahlíðarnefnd stæði í skuld við Ragnar vegna ógreiddrar vinnu hans og taldi ákærði að þetta mál yrði endanlega gert upp við lokauppgjör fyrir verkið í Brattahlíð.  Það væri því Brattahlíðarnefnd, sem að lokum myndi greiða fyrir vinnuna í bílskúrnum að Haukalind 17.  Ákærði kvað fjárhæðir og lýsingu í þessum ákærulið vera réttar að öðru leyti.

   Ákærði T neitar sök.  Hann kvað málavexti hafa verið þá að meðákærði Árni hefði haft samband við sig og beðið sig um að sjá til þess að bílskúr að Haukalind 17 yrði innréttaður fyrir ljósmyndara, sem unnið hefði fyrir Þjóðleikhúsið.  Hann minntist þess ekki hvort meðákærði Árni tók beinlínis fram að vinnan við Haukalindina ætti að færast á reikning byggingarnefndar Þjóðleikhússins.  Hann kvaðst hafa talið þetta verkefni tengjast Þjóðleikhúsinu.  Hann kvaðst hafa komið verkefninu á samstarfsmann sinn hjá Ístaki, K verkfræðing, en sá hefði þá verið með verk í Þjóðleikhúsinu.  Ákærði kvaðst hafa veitt aðstoð við að útvega smiði til verksins, en önnur afskipti kvaðst hann ekki hafa haft af þessu máli.  Hann kvað K hafa annast öll samskipti við meðákærða Árna vegna þessa máls og ákveðið hvernig verkið var fært til bókar hjá Ístaki.  Ákærði kvaðst muna er K hafi borið undir sig atriði er hann var að ganga frá reikningi vegna þessa verks, en taldi sig hafa fengið fyrirmæli um að vinna verkið eins og gert var.  Ákærði kvaðst hafa svarað K á þá leið að þetta væri örugglega í lagi fyrst formaður byggingarnefndarinnar stæði fyrir þessu, en ákærði kvaðst ekki hafa útbúið reikninginn sem lýst er í þessum ákærulið, það hafi K gert.  Ákærði kvaðst hafa talið að verið væri að greiða ljósmyndaranum fyrir vinnu hans á þennan hátt.

   RA ljósmyndari lýsti því er ákærði Árni hringdi í hann og spurði hvort hann hefði kíkt út í bílskúr, en þá kom í ljós að búið var að innrétta bílskúrinn, sem er í eigu RA. RA kvað áður hafa komið fram hjá ákærða að hann hefði ákveðnar hugmyndir um framkvæmdir í bílskúrnum.  RA kvaðst hafa spurt Árna hvað framkvæmdirnar við bílskúrinn kostuðu hann.  Ákærði hafi þá greint sér frá því að kostnaðurinn jafnaðist út þegar RA hefði lokið ljósmyndavinnu sinni fyrir Brattahlíðarnefnd, en til stóð að RA gerði reikning fyrir þá vinnu sína og reikningur kæmi á móti vegna vinnunnar í bílskúrnum.  RA lýsti vinnu sinni fyrir nefndina og kostnað í því sambandi.

   K, verkfræðingur hjá Ístaki, kvað ákærða T hafa hringt í sig og spurt hvort hann gæti sinnt verkefni að Haukalind 17.  K kvað ekki hafa komið fram í samtali þeirra T hvernig reikningsfæra skyldi verkið við bílskúrinn í Haukalindinni.  K kvaðst hafa tekið verkið að sér, hringt í Árna og mælt sér mót við hann á staðnum.  K kvað Árna hafa greint sér frá því að eigandi bílskúrsins væri ljósmyndari sem hefði unnið fyrir Þjóðleikhúsið.  K kvað því hafa verið skýrt í sínum huga að verkið yrði reikningsfært á Þjóðleikhúsið.  Hann kvaðst þannig hafa gengið út frá að óskað væri eftir því að verkið yrði unnið svona og að um skiptivinnu hefði verið að ræða.  K lýsti verkum sem hann kom að skömmu áður fyrir hönd Ístaks og unnin voru fyrir Þjóðleikhúsið.  Hann kvaðst hafa gengið frá reikningi vegna þessara framkvæmda og þar með hafi verið verkefnið í Haukalind 17.  Hann kvað viðskiptin fremur óvenjuleg og því hafa ákveðið að ráðfæra sig við T um það hvort eitthvað væri athugavert við færslur hans vegna Haukalindarverkefnisins.  K minnti að T hefði ætlað að hafa samband við Árna út af þessu, en þetta mundi hann ekki. K kvaðst síðan hafa ýtt á eftir T, þar sem hann vildi ganga frá reikningnum, og var niðurstaða þeirra sú að reikningurinn sem K gerði stæði.

   PS, framkvæmdastjóri Ístaks hf., kvað Árna hafa komið fram fyrir hönd verkkaupa og þannig hafi hann beðið um ýmis verk.  PS kvaðst telja að varla væri hægt eða eðlilegt að T vefengdi verkbeiðni frá yfirmanni við þetta verk.  PS kvaðst ekki vita hvað þeim ákærðu Árna og T fór á milli vegna þessa verks.  Hann lýsti verkaskiptingu innan Ístaks.  Hann kvaðst telja að ef K hefði starfað að verkefninu í Haukalind 17, þá hafi hann gert það á sína ábyrgð sem yfirmaður verksins.

   Niðurstaða 22. töluliðar.

Ákærði Árni kvaðst hafa ætlast til þess að uppgjör fyrir vinnuna við bílskúrinn tengdist Brattahlíðarnefnd og kæmi á móti væntanlegum reikningi RA ljósmyndara vegna vinnu RA fyrir nefndina.  Ákærði Árni kvaðst hafa greint ákærða T frá mikilli vinnu RA fyrir byggingarnefnd Þjóðleikhússins og fyrir Brattahlíðarnefnd. 

Ákærði T mundi ekki hvort ákærði Árni tók beinlínis fram að vinnan við bílskúrinn ætti að færast á reikning byggingarnefndar Þjóðleikhússins.  Dómurinn telur eins og framburði ákærða T er háttað og samskiptum ákærðu vegna verksins í Haukalind, að ekki hafi verið óeðlilegt eins og á stóð að ákærði T teldi vinnuna við bílskúrinn tengjast byggingarnefnd Þjóðleikhússins. Því var lýst hvernig ákærði T fékk samstarfsmann sinn, K, til að annast verkið og hvernig hann vann það og samskiptunum við ákærða Árna og að lokum reikningsgerð hans.  Vísað er til þess sem áður er rakið um þetta. 

Ekki er við annað að styðjast í þessu en framburð ákærða Árna um það, að hann hafi ekki ætlast til þess að reikningur vegna bílskúrsins yrði færður á byggingarnefnd Þjóðleikhússins, heldur á Brattahlíðarnefnd.  Það hefur því verið fyrir mistök eða misskilning að reikningurinn var færður eins og lýst er í ákærunni. Hver sem þáttur ákærða T var í þessum misskilningi telur dómurinn ljóst að ekki hafi verið um saknæmt athæfi hjá honum að ræða. 

Vísað er til þess sem rakið var í niðurstöðukafla 18. töluliðar ákæru um verklag ákærða Árna fyrir Brattahlíðarnefnd.  Samkvæmt því hafði ákærði heimild til að gera samninga og koma fram fyrir hönd nefndarinnar eins og hann gerði og lýst er í þessum ákærulið. 

RA lýsti mikilli vinnu sinni fyrir Brattahlíðarnefnd og sýndi í réttinum undir aðalmeðferð málsins stóra og þykka ljósmyndabók, sem hann vinnur að fyrir nefndina, en hann kvað vinnu sína vegna þessa óuppgerða. 

Með vísan til þessa telur dómurinn ljóst að RA eigi kröfu á hendur Brattahlíðarnefnd og í samræmi við það, sem rakið var undir niðurstöðunum í 18. tölulið ákæru, hafði ákærði Árni heimild til þess að gera ráðstafir eins og þær sem hér er lýst.  Ekki er upplýst hvort krafa RA á hendur Brattahlíðarnefnd sé hærri en sem nemur kostnaðinum við bílskúrinn, þótt ýmislegt bendi til þess að svo sé. 

Auðgunarásetningur, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga er saknæmisskilyrði umboðssvika.  Dómurinn telur með vísan til alls ofanritaðs slíkan ásetning ekki sannaðan hjá ákærða Árna og ber samkvæmt því að sýkna hann af þessum ákærulið. 

Þessi niðurstaða leiðir sjálfkrafa til sýknu ákærða T.

23. - 27. töluliður.

   Ákærði Árni játar sök samkvæmt öllum þessum töluliðum.  Ákærði kvað meðákærða T í engu tilvikanna hafa vitað að vörurnar, sem ákærði tók út hafi ekki farið til Þjóðleikhússins.  Ákærði kvað samskipti sín við ákærða T samkvæmt þessum ákæruliðum hafa verið á sama veg og í öðrum ákæruliðum, þar sem ákærði tók út vörur samkvæmt beiðni sem ákærði T hefði gefið út, og á þetta við um 4., 6. og 8. tölulið ákærunnar en í þeim liðum er ákærði T ekki ákærður. 

Ákærði T neitar sök.  Hann kvaðst hafa gefið út beiðnir þær sem lýst er í þessum töluliðum ákærunnar.  Í öllum tilvikum hafi ákærði Árni skýrt í hvaða skyni átti að kaupa vöruna.  Ákærði Árni hefði sagst vera að kaupa vörur fyrir aðra verktaka sem voru við störf í framhaldi eða í tengslum við vinnu Ístaks í Þjóðleikhúsinu.  Ákærði Árni hafi í þessu sambandi nefnt vinnu við leikmunageymslu, hús Jóns Þorsteinssonar og fleira.  T kvað sér ekki hafa fundist neitt óeðlilegt við  innkaupin sem í þessum ákæruliðum greinir.  Hann kvað minni verktaka ekki með eins gott innkaupakerfi og Ístak og kvað sér hafa fundist sjálfsagt að verða við því að gefa út beiðnirnar þegar formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins óskaði eftir þeim.  Árni hafi verið fulltrúi verkkaupans og auk þess hafi hann verið eins konar ,,allsherjarverkefnastjóri” og komið beint að ýmsum framkvæmdum. Hann kvaðst því ekki hafa séð neitt óeðlilegt við að aðstoða við þau innkaup sem hér um ræðir. T kvað ákærða Árna hafa haft samband við sig vegna  viðgerðar og sandblásturs á ofni fyrir leikmunadeild Þjóðleikhússins.  Hann kvaðst hafa vitað að Árni lét sér fátt óviðkomandi í leikhúsinu og kvaðst hann ekki hafa verið hissa þótt Árni væri kominn í einhverjar útréttingar fyrir leikmunadeild og kvaðst hann því ekki hafa séð neitt athugavert við að gefa út beiðni fyrir viðskiptum sem lýst er í ákærulið 23.  T kvaðst hafa treyst Árna fullkomlega og ekki hafa sannreynt hvort ofninn væri í þágu leikhússins.  T kvað hið sama eiga við um afstöðu sína til ákæruliða 24 til og með 27 og sem rakið var að ofan. T kvaðst hafa talið úttektina hjá Vídd ehf. hafa verið vegna leikhússins og þar væri um að ræða efniskaup í kjölfar vinnu Ístaks fyrir byggingarnefndina og lýsti hann í hverju sú vinna fólst. T kvað Árna hafa greint sér frá tveimur verkefnum sem hrundið yrði í framkvæmd síðast liðið sumar. Annars vegar við gerð á húsi Jóns Þorsteinssonar og hins vegar vinna við leikmunageymslu.  T kvað Árna hafa verið að skipuleggja þessi verkefni og hann hafi í því skyni verið búinn að festa innréttingarsmið, sbr. ákærulið 25, og þá hafi staðið til að forsmíða einingar sem Ístak átti að setja upp.  Þá lýsti hann frekari kaupum eftir beiðnum sem hann gaf út og átti þá við liði 26 og 27.  Ákærði kvað sér hafa fundist þetta eðlilegt skipulag. T kvaðst hafa treyst Árna og ekki hafa haft ástæðu til tortryggni vegna þeirra innkaupa sem lýst er í þessum ákæruliðum og því ekki hafa farið í leikhúsið til að ganga úr skugga um það hvort munirnir sem keyptir voru fóru í þangað.

Niðurstaða ákæruliða 23-27.

   Ákærði Árni játar sök samkvæmt þessum ákæruliðum.  Hann kvað ákærða T ekki hafa vitað að vörurnar fóru ekki í Þjóðleikhúsið. 

Sannað er með skýlausri játningu ákærða Árna fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í öllum þessum ákæruliðum.  Skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta eins og áður var rakið. 

Brot ákærða Árna eru í öllum tilvikum rétt færð til refsiákvæða.

   Ákærði T neitar sök.  Hann kvaðst ekki hafa vitað af framferði ákærða Árna, sem hann kvaðst hafa treyst, og sér hafi fundist ráðstafanir hans eðlilegar. Ákærði T skýrði úttektirnar og vitneskju sína um verk sem verið var að vinna í Þjóðleikhúsinu eða til stóð að vinna þar.  Vísað er til framburðar ákærða T um þetta. Hann kvað ákærða Árna hafa verið eins konar ,,allsherjarverkefnisstjóra” við framkvæmdir í leikhúsinu. Þetta má einnig ráða af öðrum gögnum málsins og af vitnisburði. 

Ákærði T hafði haft mikil samskipti við ákærða Árna vegna vinnu Ístaks í Þjóðleikhúsinu.  Eftir þau miklu samskipti telur dómurinn að ástæðulaust hafi verið fyrir ákærða T að ganga úr skugga um það hvort munirnir sem beiðnirnar lutu að færu í Þjóðleikhúsið.  Ekki var eðilegt að gera þá kröfu til ákærða T að hann hefði á þennan hátt eftirlit með verkkaupanum. Hann mátti treysta honum og hafði ekki ástæðu til annars þótt annað kæmi á daginn síðar. Þetta er í samræmi við það sem fram kom í vitnisburði Ó, forstjóra Framkvæmdasýslu ríkisins, um það að ekki hafi verið farið ofan í efnisatriði hvers reiknings sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins skrifaði upp á. Þótt í ljós hafi komið síðar að hann hafi brugðist trausti þá leggur það ekki aukna ábyrgð að þá aðila sem í góðri trú áttu við hann samskipti. Ákærði Árni kom fram sem opinber starfsmaður og fulltrúi verkkaupa í þeim tilvikum sem hér um ræðir. Ef tekið er mið af fyrri samskiptum ákærðu vegna starfs ákærða Árna sem formanns byggingarnefndar Þjóðleikhússins og að teknu tilliti til alls þess sem rakið hefur verið telur dómurinn unnt að taka undir það álit ákærða T að hann hafi ekki haft ástæðu til að vantreysta ákærða Árna. Ákærði T gat því hvorki séð fyrir né gert ráð fyrir því hvernig ákæðri Árni brást trausti og ábyrgð. 

                Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið telur dómurinn að ákærði T hafi verið í góðri trú er hann gaf út beiðnirnar sem lýst er í þessum ákæruliðum, en Ístak krafði byggningarnefnd um greiðslu eins og lýst er. Ákærði T átti samkvæmt þessu ekki neinn þátt í brotum meðákærða Árna og ekki eru uppfyllt saknæmisskilyrði að því er han varðar. Ber því að sýkna ákærða T af þessum ákæruliðum.

V

Meint mútubrot ákærðu B og Gísla Hafliða.

28. töluliður.

   Ákærði B neitar sök.  Hann kvað meðákærða Gísla Hafliða hafa átt inni peninga hjá Þjóðleikhúskjallaranum og hafi Gísli Hafliði oft haft orð á því að fá endurgreitt.  B lýsti því er hann afhenti eiginkonu meðákærða Gísla 650.000 króna ávísun, sem var uppgjör við Gísla, bæði vegna láns sem hann hafði veitt og einnig var hlutur Gísla í Þjóðleikhúskjallaranum keyptur.  Þetta hafi verið endurgreiðsla til Gísla og tékkinn hafi hvorki verið gefinn út í því skyni eða með þeirri vitund að andvirði hans rynni til meðákærða Árna.  Þetta hafi verið peningar sem Gísli átti og réði hvernig hann ráðstafaði.  Ákærði kvaðst ekki hafa vitað innihald munnlegs samkomulags meðákærðu Gísla og Árna, en ákærði kvaðst aldrei hafa rætt við Árna.  Ákærði kvað reikninginn sem lýst er í þessum ákærulið hafa verið samansafn margra reikninga vegna lagfæringa á leikhúskjallaranum. Ákærði kvað Gísla margsinnis hafa rætt greiðslu þessa reikninga við Árna og þá kvaðst ákærði hafa rætt greiðslu þeirra við SB og G, sem hafi vísað á Árna. 

   Ákærði Gísli Hafliði neitar sök.  Hann kvaðst hafa rætt við meðákærða Árna um greiðslu reikninga sem mynda heildarreikninginn, sem lýst er í þessum ákærulið.  Gefið var vilyrði fyrir því að þessir reikningar fengjust greiddir.  Hann kvað meðákærða Árna hafa beðið sig um að útbúa reikninga að fjárhæð 650.000 og bæta við reikninginn.  Hann kvað hafa komið fram hjá Árna að hann ætti mikið inni af ógreiddum launum, bæði vegna starfs fyrir ákærðu og fyrir Þjóðleikhúsið.  Hann gæti ekki fengið greitt öðruvísi.  Ákærði kvaðst hafa rætt þetta við B, en þeir hafi neitað þessari bón Árna.  Ákærði kvað Árna hafa tekið við reikningnum og hringt í sig og greint sér frá því að búið væri að samþykkja hann.  Ákærði kvað það sínu vita liggja í augum uppi að Árni var að ýta á eftir greiðslu.  Ákærði kvaðst þá hafa hugsað með sér að það væri kannski betra að láta Árna hafa einhverja peninga, en ákærði kvaðst aldrei hafa lofað honum því.  Þá hafi ekki legið fyrir loforð er Árni áritaði reikninginn.  Hann kvaðst hafa hringt í meðákærða B og beðið um peninga og hafi meðákærði látið sig hafa þessa fjárhæð, en hann kvaðst ekki vita hvort meðákærði B ætlaðist til þess að hann greiddi Árna.  Ákærði kvaðst ekki hafa haft tíma til að sækja peningana til B, sem stílaði ávísunina á eiginkonu ákærða.  Hún innleysti tékkann og ákærði kvaðst síðan hafa afhent Árna peningana í reiðufé.  Ákærði Gísli kvaðst hafa átt 5% hlut í Þjóðleikhúskjallaranum og hann hafi ekki haft neina hagsmuni af því að reikningurinn, sem lýst er í þessum ákærulið, fengist greiddur. 

Vísað er til framburðar ákærða Árna undir tölulið 17 vegna háttsemi sem lýst er í þessum kafla ákærunnar.

   Niðurstaða 28. töluliðar.

   Vísað er til framburðar meðákærða Árna undir ákærulið 17 að því er þennan ákærulið varðar. 

Ákærði B neitar sök og vísast til framburðar hans að ofan. 

Framburður ákærða Gísla Hafliða er nokkuð á annan veg fyrir dómi en hjá lögreglu um hlut ákærða B, en fyrir dómi kvaðst hann ekki vita hvort ákærði B ætlaðist til þess að peningarnir sem sóttir voru til hans yrðu greiddir meðákærða Árna. 

Meðákærði Árni kvaðst engin samskipti hafa átt við ákærða B í tengslum við reikninginn.     

Með vísan til alls þessa telur dómurinn ósannað gegn eindreginni neitun ákærða B, að hann hafi á árinu 2001 lofað að greiða meðákærða Árna þóknun fyrir að samþykkja reikninginn eins og lýst er í ákærunni og að hafa innt greiðsluna af hendi í mars 2001 eins og ákært er fyrir. 

Ber samkvæmt þessu að sýkna ákærða B. 

Með játningu ákærða Gísla Hafliða er sannað að hann innti greiðsluna af hendi. Eftir símtalið sem hann kvaðst hafa fengið frá meðákærða Árna tengdi hann  greiðsluna til meðákærða Árna greiðslu reikningsins og er vísað til framburðar hans um þetta.  Brot ákærða er í ákæru talið varða við 109. gr. almennra hegningarlaga. Í 1. mgr. 109. gr. alnennra hegningarlaga segir að hver sem gefi, lofi eða bjóði opinberum starfsmanni gjöfum eða öðrum ávinningi til þess að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, er hann með því bryti gegn starfsskyldu sinni, skuli sæta fangelsi allt að 3 árum eða, séu málsbætur fyrir hendi, fangelsi allt að 1 ári eða sektum.  Meðákærði Árni braut ekki gegn starfsskyldum sínum með samþykkt reikningsins.  Það var ákærða Gísla Hafliða því refsilaust að greiða  meðákærða Árna fjármunina, enda tengdi hann greiðsluna lögmætu embættisverki meðákærða Árna. Samkvæmt þessu er verknaður ákærða Gísla Hafliða refsilaus og ber að sýkna hann.

Eins og rakið var að ofan eru allir ákærðu utan ákærði Árni sýknaðir af öllum kröfum ákæruvaldsins.

Sakaferill ákærða Árna hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í málinu.  Ákærði Árni brást trausti sem honum var sýnt er hann var skipaður til að sinna þeim opinberu störfum sem lýst er í ákærunni. Brotin framdi hann í opinberu starfi, sbr.  138. gr. almennra hegningarlaga, og er það virt til refsiþyngingar eins og lýst er í því lagaákvæði.  Brot ákærða eru mörg og alvarleg. Andlag auðgunarbrotanna er rúmlega 3,2 milljónir króna auk annarra brota. Eins og lýst er í ákærunni hefur ákærði Árni endurgreitt mikinn hluta þeirra verðmæta sem hann dró sér eða sveik út á annan hátt.

Refsing ákærða er ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga. Að öllu ofanrituðu virtu þykir refsing ákærða Árna hæfilega ákvörðuð fangelsi í 15 mánuði. Fyrir svo alvarleg brot í opinberu starfi sem ákærði er dæmdur fyrir þykir hvorki fært að skilorðsbinda refsingu að öllu leyti né að hluta.

Ákærði Árni greiði 2/3 hluta af 800.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum til Jakobs R. Möller hæstaréttarlögmanns á móti 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði. 

Ríkissjóður greiði 300.000 króna málsvarnarlaun til Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða B, 300.000 króna málsvarnarlaun til Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Gísla Hafliða, 300.000 króna málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða SA, og 500.000 króna málsvarnarlaun til Péturs Guðmundarsonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða T.

Annan sakarkostnað leiddi ekki af málinu.

   Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærðu, B, Gísli Hafliði Guðmundsson, SA og T, eru allir sýknaðir af kröfum ákæruvaldsins í málinu.

Ákærði Árni Johnsen sæti fangelsi í 15 mánuði.

Ákærði Árni greiði 2/3 hluta af 800.000 króna réttargæslu- og málsvarnarlaunum til Jakobs R. Möller hæstaréttarlögmanns á mót 1/3 hluta sem greiðist úr ríkissjóði.

Ríkissjóður greiði 300.000 króna og málsvarnarlaun til Gests Jónssonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða B, 300.000 króna málsvarnarlaun til Andra Árnasonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða Gísla Hafliða, 300.000 króna málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða SA, og 500.000 króna málsvarnarlaun til Péturs Guðmundarsonar hæstaréttarlögmanns, verjanda ákærða T.