Print

Mál nr. 46/2003

Lykilorð
  • Kjarasamningur
  • Gerðardómur
  • Stéttarfélag
  • Stjórnarskrá
  • Sératkvæði

Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. október 2003.

Nr. 46/2003.

Sjómannasamband Íslands

(Björn L. Bergsson hrl.)

gegn

Landssambandi íslenskra útvegsmanna

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hrl.)

 

Kjarasamningur. Gerðardómur. Stéttarfélög. Stjórnarskrá. Sératkvæði.

Með lögum nr. 34/2001 var endir bundinn á verkfallsaðgerðir samtaka sjómanna annars vegar og verkbannsaðgerðir LÍÚ hins vegar. Hafði kjaradeila aðila þá staðið í eitt ár. Í lögunum var kveðið á um skipun gerðardóms ef ekki hefði náðst samkomulag í deilunni fyrir tiltekið tímamark. Fór svo að gerðardómurinn var skipaður og lauk hann störfum með úrskurði 30. júní 2001. Í málinu krafðist S þess að dæmt yrði að félagsmenn þess teldust ekki bundnir af tveimur nánar tilteknum málsgreinum í úrskurðarorði gerðardómsins. Annars vegar um hvernig skipta skyldi þeim hlut sem sparaðist ef fækkaði í áhöfn skips vegna tækninýjunga og hagræðingar og hins vegar um hvernig áhafnir skipa skyldu semja um slíkt við útgerðarmann viðkomandi skips. Varðandi fyrra atriðið taldist gerðardómurinn hafa verið innan þeirra heimilda sem honum voru fengnar með 2. gr. laga nr. 34/2001. Um síðara atriðið var talið að samningar þeir sem um ræddi vörðuðu vinnuaðstæður hverju sinni um borð í tilteknu fiskiskipi og að samningsumboð stéttarfélaga samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur girti ekki fyrir að launþegar gætu eftir lögmætri skipan samið sjálfir um atriði varðandi kjör sín, sem snúi að einstaklingsbundnum hagsmunum á vinnustað þeirra. Var LÍÚ því sýknað af kröfum SÍ í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2003. Hann krefst þess að dæmt verði að 2. mgr. og 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs gerðardóms frá 30. júní 2001, sem starfaði samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira, um breytingar á kjarasamningi málsaðila séu óskuldbindandi fyrir áfrýjanda og félagsmenn hans og hafi ekki áhrif á ákvæði kjarasamnings áfrýjanda og stefnda. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Með 1. gr. laga nr. 34/2001 var meðal annars lagt bann við verkfalli Sjómannafélags Eyjafjarðar og aðildarfélaga Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og verkbanni stefnda gagnvart aðildarfélögum áfrýjanda og í Alþýðusambandi Vestfjarða, en kjaradeila mun þá hafa staðið yfir milli þessara félaga í meira en eitt ár. Þá var í 2. gr. laganna kveðið á um að Hæstiréttur skyldi tilnefna þrjá menn í gerðardóm ef kjaradeilan yrði ekki leyst fyrir 1. júní 2001. Átti gerðardómurinn að taka ákvörðun um atriði, sem nánar voru talin í sjö stafliðum í 1. mgr. 2. gr. laganna, varðandi kjaramál fiskamanna í þeim samtökum, sem getið var í 1. gr. þeirra.

Með því að ekki tókst að leysa kjaradeiluna fyrir 1. júní 2001 tilnefndi Hæstiréttur þann dag þrjá menn til setu í gerðardómi. Gerðardómurinn lauk störfum með því að kveða upp úrskurð 30. sama mánaðar. Ákvæðin í 2. mgr. og 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs hans, sem dómkrafa áfrýjanda lýtur að, voru svohljóðandi:

„Nú er settur í fiskiskip tæknibúnaður eða hagræðing á sér stað sem leiðir til þess að færri menn geti sinnt skipsstörfum en kveðið er á í skiptatöflu í kjarasamningi þessum og skal þá hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar skiptast að hálfu milli þeirra sem á skipinu eru í hlutfalli við skiptahlutfall þeirra. Hinn helmingurinn skal ganga óskertur til útgerðarinnar.

Forsenda fyrir slíkri breytingu skiptakjara er að gerður sé skriflegur samningur um það milli útgerðar og áhafnar, þar sem rökstuðningur fyrir breytingunum kemur fram. Samningurinn skal síðan staðfestur af skipverjum í leynilegri atkvæðagreiðslu. Að því loknu skal samningurinn undirritaður af fulltrúum útgerðar og áhafnar og afrit sent til aðila kjarasamnings þessa.“

Meðal þess, sem gerðardómurinn átti að ákveða um kjaramál fiskimanna, voru „atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör“, sbr. b. lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2001. Nýr tæknibúnaður í fiskiskipum eða hagræðing um borð í þeim getur haft áhrif á fjölda skipverja í áhöfn. Verður því ekki litið svo á að gerðardómurinn hafi farið út fyrir lögákveðið verksvið sitt með því að taka þá ákvörðun, sem fram kom í áðurgreindri 2. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs.

Samningar um þau atriði, sem um ræddi í 2. mgr. 2. gr. úrskurðarorðsins, varða eðli máls samkvæmt vinnuaðstæður hverju sinni um borð í tilteknu fiskiskipi og hagsmuni þeirra, sem starfa í áhöfn þess. Samningsumboð stéttarfélaga, sem um ræðir í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, er leitt frá þeim launþegum, sem félögin koma fram fyrir. Verður þetta ákvæði því ekki skilið svo að það girði fyrir að launþegar geti eftir lögmætri skipan samið sjálfir um atriði varðandi kjör sín, sem snúa að einstaklingsbundnum hagsmunum á vinnustað þeirra. Með g. lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 34/2001 var lagt á vald gerðardóms að taka ákvörðun um önnur atriði en þau, sem getið var í sex fyrstu stafliðum málsgreinarinnar, ef nauðsynlegt væri að taka á þeim varðandi kjaramál þeirra, sem úrskurðurinn tók til. Að gættu því, sem að framan segir, verður að telja gerðardóminn hafa haft nægilega stoð í síðastnefndu lagaákvæði fyrir þeirri ákvörðun um fyrirkomulag við samningsgerð, sem hann tók í 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs.

Samkvæmt því, sem að framan segir, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar á meðal ákvæði hans um málskostnað. Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 


Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

I.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gerðardómur samkvæmt lögum nr. 34/2001 um kjaramál fiskimanna og fleira hafi með úrskurði sínum 30. júní 2001 farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt um „atriði er varða áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör“, sbr. b. lið 1. mgr. 2. gr. laganna. Jafnframt hvort gerðardómurinn hafi með þessu brotið gegn ákvæðum 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 74. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.

Þau tvö ákvæði gerðardómsins sem ágreiningi valda hljóða svo:

„Nú er settur í fiskiskip tæknibúnaður eða hagræðing á sér stað sem leiðir til þess að færri menn geti sinnt skipsstörfum en kveðið er á í skiptatöflu í kjarasamningi þessum og skal þá hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar skiptast að hálfu milli þeirra sem á skipinu eru í hlutfalli við skiptahlutfall þeirra. Hinn helmingurinn skal ganga óskertur til útgerðarinnar.

Forsenda fyrir slíkri breytingu skiptakjara er að gerður sé skriflegur samningur um það milli útgerðar og áhafnar, þar sem rökstuðningur fyrir breytingum kemur fram. Samningurinn skal síðan staðfestur af skipverjum í leynilegri atkvæðagreiðslu. Að því loknu skal samningurinn undirritaður af fulltrúum útgerðar og áhafnar og afrit sent til aðila kjarasamnings þessa.“

Áfrýjandi heldur því fram að hlutverk gerðardómsins samkvæmt framangreindu ákvæði laga nr. 34/2001 um mönnun skipa hafi verið að leysa úr þeim vanda sem fyrir lá. Hafi hann falist í því að skip voru öðruvísi mönnuð en skiptakjaraákvæði kjarasamnings gerðu ráð fyrir og tóku mið af. Við þennan vanda hafi samningsaðilar glímt um árabil með engum árangri og hafi það því verið markmið löggjafans með setningu b. liðs 1. mgr. 2. gr. gerðardómslaganna að höggva á þennan hnút. Á hinn bóginn hafi engin samsvarandi vandi verið uppi um það hvernig skipa ætti málum yrðu tæknibreytingar eða hagræðing á útgerðarháttum. Hafi í kjarasamningi beinlínis verið kveðið á viðbrögð þessa vegna í grein 1.37 kjarasamnings aðila. Í greininni segir „Komi fram nýjar veiði- og verkunaraðferðir eða að um verði að ræða breytingar á gildandi veiði- og verkunaraðferðum er horfa til verksparnaðar og hagræðingar, þá skulu samningsaðilar gera um það sérstakan samning, þ. á m. um mannafjölda og skiptaprósentu, án uppsagnar á þessum samningi.“ Af þessum sökum telur áfrýjandi að gerðardómurinn hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt þegar hann kvað á um viðbrögð vegna fækkunar í áhöfn fiskiskipa af greindum ástæðum, en túlka beri ákvæði laganna um hlutverk gerðardómsins þröngt, annars vegar vegna ákvæða 74. gr. stjórnarskrárinnar, sem mæli fyrir um samningsfrelsi aðila og hins vegar vegna lögbundinna réttinda áfrýjanda samkvæmt 5. gr. laga nr. 80/1938.

Stefndi reisir kröfu sína um staðfestingu héraðsdóms á forsendum dómsins um að gerðardómurinn hafi ekki farið út þau mörk sem hlutverki hans voru sett með ákvæði b. liðar 1. mgr.  laga  nr. 34/2001 með því að mæla um hvernig fara ætti að væri unnt að fækka í áhöfn vegna nýs tæknibúnaðar eða hagræðingar.

II.

Samningsfrelsi, þar með talinn verkfallsréttur stéttarfélaga, er varið af 74. gr. stjórnarskrárinnar og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög þar um nr. 62/1994, sem veittu sáttmálanum lagagildi á Íslandi. Í dómi Hæstaréttar 14. nóvember 2002 í málinu nr. 167/2002 var talið að þessi vernd væri ekki skilyrðislaus. Var þá höfð hliðsjón af 2. mgr. 11. gr. mannréttindasáttmálans, 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar og tilteknum alþjóðasamningum um félagsleg réttindi, sem líta yrði til um skýringu á greininni. Hins vegar mætti aðeins skerða samningsfrelsi verkalýðsfélaga og beitingu verkfallsréttar með lögum og að uppfylltum sambærilegum skilyrðum og í fyrrnefndu ákvæði mannréttindasáttmálans. Gera yrði strangar kröfur til slíkrar lagasetningar. Talið var að ekki væri hægt að útiloka að efnahagsleg áhrif verkfalla og verkbanna gætu verið svo alvarleg að ríkir almannahagsmunir gætu réttlætt tímabundið bann við þeim. Með vísan til skýringargagna laga nr. 34/2001 þótti ekki rétt að hnekkja því mati löggjafans að ríkir almannahagsmunir hefðu verið fyrir því að banna tímabundið þau verkföll og verkbönn sem orsökuðu vinnustöðvun á þeim tíma sem lögin tóku gildi. Í dóminum var þarna verið að vísa til þeirrar aðstöðu að kjarasamningar sjómanna innan aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands höfðu orðið lausir 15. febrúar 2000 þegar lög nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna féllu úr gildi. Eftirfarandi samningaviðræður höfðu ekki borið árangur og verkfall hafði þá er lögin voru sett staðið frá 15. mars 2001 með skömmu hléi vegna frestunar á verkfalli með lögum nr. 8/2001.

Lög nr. 34/2001 bönnuðu meðal annars verkbönn aðildarfélaga stefnda gagnvart áfrýjanda, svo og aðrar aðgerðir sem ætlað var að knýja fram aðra skipan kjaramála en lögin ákveddu. Í 2. gr. þeirra var mælt fyrir um það að næðu aðilar ekki samkomulagi fyrir 1. júní 2001 skyldi Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn í gerðardóm. Í ákvæðinu var hlutverk gerðardómsins nánar ákveðið og var svo sem áður getið meðal hlutverka hans að mæla fyrir um þau áhrif, sem breyting á fjölda í áhöfn ætti að hafa á skiptakjör. Meðal þeirra atriða, sem eru til þess fallin að geta haft áhrif á fjölda manna í áhöfn, eru tæknibreytingar og hagræðingar um borð í fiskiskipum. Falla þessi atriði skýrlega undir orðalag ákvæðis b. liðar 1. mgr. laga nr. 34/2001. Bar því gerðardóminum að fjalla um þessi atriði og verður niðurstaða héraðsdóms hér um því staðfest.

III.

 Að framan er því lýst að kjarasamningar aðila voru lausir þegar lög nr. 34/2001 voru sett og því enginn kjarasamningur í gildi milli aðila. Samkvæmt bráðabirgðaákvæði við lögin átti þó þar til ákvörðun gerðardómsins lá fyrir að fara með kjaramál fiskimanna samkvæmt lögum nr. 10/1998. Endanlegt uppgjör átti síðan að fara fram þegar ákvörðun gerðardómsins lá fyrir. Ákvæði greinar 1.37 sem áður er rakið var því einnig laust og gilti aðeins til bráðabirgða.

Hlutverk gerðardómsins var að koma í stað kjarasamnings milli aðila samkvæmt lögunum um það sem hann átti að fjalla. Hann átti að skera úr ágreiningi milli þeirra aðila sem nefndir eru í lögunum og áttu samningsrétt um þau atriði sem þar eru nefnd. Þótt telja verði að gerðardómurinn hafi mátt mæla fyrir um aðferð við breytingu á mannahaldi um borð var það ekki hlutverk hans að skipa til um samningsrétt sjómanna. Áfrýjandi hafði áður samið um hvaða áhrif nýjar og breyttar veiði- og verkunaraðferðir ættu að hafa, horfðu þær til verksparnaðar og hagræðingar. Verður því samkvæmt upphafsákvæði 5. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 74. gr. og 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, að fallast á það með áfrýjanda að með því að leggja það atriði á vald skipverja og útgerðar án nokkurs atbeina hans hafi gerðardómurinn farið út fyrir það hlutverk sem honum var markað með lögum nr. 34/2001, sbr. og áðurgreindar forsendur dóms Hæstaréttar frá 14. nóvember 2002, sem að framan eru raktar.

IV.

Niðurstaða málsins verður því sú að hafnað er kröfu áfrýjanda um að 2. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs gerðardóms samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001 sé ekki bindandi fyrir hann. Hins vegar er tekin til greina sú krafa hans að 3. mgr. sama töluliðar bindi ekki hann og félagsmenn hans að því er lýtur að flutningi samningsréttar um greint atriði frá áfrýjanda til einstakra skipverja.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Hvor aðili skal bera sinn kostnað af áfrýjun málsins.  

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2003.

                Mál þetta, sem dómtekið var 13. desember sl., er höfðað með stefnu birtri 26. október 2001.

                Stefnandi er Sjómannasamband Íslands, Borgartúni 18, Reykjavík.

Stefndi er Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Hafnarhvoli við Tryggvagötu, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að dæmt verði að 2. og 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs gerðardóms, samkvæmt 2. gr. laga nr. 34/2001, um breytingar á kjarasamningi stefnanda og stefnda, séu óskuldbindandi fyrir stefnanda og félagsmenn þess og hafi ekki áhrif á ákvæði kjarasamnings stefnanda og stefnda.

Þá er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.

                Með úrskurði dómsins þann 30. september sl. var máli þessu vísað frá dómi en með dómi Hæstaréttar 30. október sl. var frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

MÁLSATVIK:

Þann 16. maí 2001 setti Alþingi lög nr. 34/2001, sem meðal annars bönnuðu verkföll og verkbönn stefnanda og stefnda sem staðið höfðu frá l. apríl. Aðilar höfðu þá átt í kjaradeilu um ríflega eins árs skeið. Í 2. gr. laganna var jafnframt kveðið á um það að ef aðilum tækist ekki að gera kjarasamning fyrir 1. júní skyldi Hæstiréttur Íslands tilnefna þrjá menn til setu í svonefndum gerðardómi sem skyldi kveða á um nánar tilgreind kjaraatriði sjómanna fyrir 1. júlí 2001.

Þegar kjarasamningur hafði ekki verið gerður með aðilum þann l. júní voru þrír menn tilnefndir til starfa í dómi þessum af Hæstarétti. Dómurinn hóf þegar störf með því að semja málsmeðferðarreglur. Í þeim reglum skilgreindi dómurinn á hvern hátt hann hygðist standa að verki og hvaða réttindi og skyldur aðilar kjaradeilunnar skyldu hafa gagnvart dóminum. Þar var síðan sérstaklega kveðið á um að um önnur atriði en beinlínis voru talin í reglunum skyldu gilda lög nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma.

Verkefni gerðardómsins voru skilgreind í a- til g- liðum 2. gr. laga nr. 34/2001:

a. atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila,

b. atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör.

c. atriði er varða kauptryggingu og launaliði,

d. atriði er varða slysatryggingu,

e. atriði er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum,

f. atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og

g. önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál.

Gerðardómurinn lauk störfum þann 30. júní 2001 með því að kveða upp úrskurð, eins og lög nr. 34/2001 gerðu ráð fyrir að undangenginni árangurslausri sáttartilraun.

Í úrskurði þessum skilgreindi gerðardómurinn hlutverk sitt þröngt sökum þess hve viðurhlutamikið inngrip væri um að ræða inn í samningsrétt málsaðila. Taldi dómurinn, í forsendum úrskurðar síns, að hlutverki dómsins væri gerð tæmandi skil í a- f- liðum en á g- lið reyndi lítt nema að því marki sem breytingar á a- til f- lið kölluðu á aðrar breytingar á kjarasamningi.

Meðal þeirra breytinga sem gerðardómurinn ákvað voru atriði, sem talin voru í b- lið 2. gr. laga nr. 34/2001, er vörðuðu þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör. Úrskurðarorðið í þeim efnum er svohljóðandi en dómkrafa stefnanda lýtur að tveimur síðari málsgreinunum:

Séu færri menn á skipi en við er miðað í skiptakjaraákvæðum (skiptatöflum) kjarasamninga varðandi þær veiðar skiptist hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við hluti þeirra.

Nú er settur í fiskiskip tæknibúnaður eða hagræðing á sér stað sem leiðir til þess að færri menn geti sinnt skipsstörfum en kveðið er á um í skiptatöflu í kjarasamningi þessum og skal þá hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar skiptast að hálfu milli þeirra sem eru á skipinu í hlutfalli við skiptahlutfall þeirra. Hinn helmingurinn skal ganga óskertur til útgerðarinnar.

Forsenda fyrir slíkri breytingu skiptakjara er að gerður sé skriflegur samningur um það milli útgerðar og áhafnar, þar sem rökstuðningur fyrir breytingunum kemur fram. Samningurinn skal síðan staðfestur af skipverjum í leynilegri atkvæðagreiðslu. Að því loknu skal samningurinn undirritaður af fulltrúum útgerðar og áhafnar og afrit sent til aðila kjarasamnings þessa.

Um forsendur þessa ákvæðis er fjallað í VII. kafla úrskurðarins. Er þar einkum vikið að aðferðum varðandi það hvernig með skuli farið varðandi mönnun skipa þegar færri eru í áhöfn en kjarasamningur gerir ráð fyrir og það haft að leiðarljósi að útgerðarkostnaður hækki ekki við fækkun í áhöfn. Hafi það enda verið verkefni dómsins að leiða til lykta ágreining málsaðila sem skapast hafði sökum þess að á liðnum árum hafi í sumum tilvikum færri verið í áhöfn skipa en kjarasamningar hafi gert ráð fyrir. Var í úrskurðinum tekið af skarið um að almennt skuli beita þeirri aðferð sem kveðið er á um í 1. mgr. 2. töluliðar úrskurðarins.

Þá kvað gerðardómurinn á um aðra sérstaka reiknireglu sem skyldi gilda þegar fækkun stafar af hagræðingu eða tæknibreytingum í framtíðinni, þ. e. að þá skuli útgerðin hagnast á fækkuninni með lækkun launakostnaðar, sbr. 2. mgr. 2. töluliðar úrskurðarins. Jafnframt sagði að um breytingar sem þessar skyldi samið beint milli útgerðar og áhafnar án atbeina stefnanda eða stefnda.

Kveður stefnandi ákvæði þetta hafa komið sér algerlega í opna skjöldu enda þegar fyrir í kjarasamningi samningsákvæði í grein 1.37, þar sem tekið sé á því hvernig við eigi að bregðast við þessar aðstæður. Aðilar hefðu þegar samið um hvernig fara skyldi með breytingar af nefndum tilefnum. Ákvæði þetta er svohljóðandi:

1.37. Um nýjar veiði- og verkunaraðferðir.

Komi fram nýjar veiði- og verkunaraðferðir eða að um verði að ræða breytingar á gildandi veiði- og verkunaraðferðum er horfa til verksparnaðar og hagræðingar, þá skulu samningsaðilar gera um það sérstakan samning, þ.á m. um mannafjölda og skiptaprósentu, án uppsagnar á þessum samningi.

Nánast strax og gerðardómurinn hafði verið birtur þann 30. júní 2001, kveður stefnandi útgerðir hafa hafist handa við að láta skipverja greiða atkvæði um breytt skiptakjör í samræmi við 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarins. Hefur stefnandi lagt fram 3 slíka samninga. Í engum þessara samninga er skilgreint hver fækkunin í áhöfn á að vera vegna hinna meintu tæknibreytinga og kveður stefnandi að útgerðirnar virðist ætla að hafa það að hentugleikum sínum að atkvæðagreiðslu og undirritun samnings við áhöfnina afstöðnum.

Stefnandi kveðst hafa mótmælt öllum þessum atkvæðagreiðslum og samningum milli útgerða og áhafna við stefnda og viðkomandi útgerðir og vakið athygli á samningsforræði stéttarfélaga í 5. gr. laga nr. 80/1938, jafnframt því sem vakin hafi verið athygli á ákvæði 1.37 í kjarasamningi. Hvoru tveggja með vísan til þess að gerðardómurinn hafi farið út fyrir hið lögbundna umboð sitt og þannig brotið gegn samningsforræði stéttarfélaga sjómanna. Loks var áréttuð sú afstaða að samningar þessir hefðu ekkert gildi án staðfestingar viðkomandi stéttarfélaga. Það sé enda beinlínis hlutverk stéttarfélaganna að gæta hagsmuna félagsmanna sinna í tilvikum sem þessum. Bæði sé starfsöryggi háseta á fiskiskipum mjög lítið enda einungis vikulangur uppsagnarfrestur en eins sé það að mati stefnanda ótækt að annar samningsaðila, útgerðarmenn, fái svo frjálsar hendur að ráðskast með réttarstöðu hins aðilans en ákvæði gerðardómsins kveði ekki á um neina lágmarksmönnun. Ákvæði kjarasamnings og þar af leidd skiptaprósenta aflahluts sé hornsteinn kjara sjómanna sem ekki geti verið háð einhliða ákvörðun annars aðilans. Loks bíði svo opin heimild til handa útgerðarmönnum þeirri hættu heim að skip verði svo vanmönnuð að lífi og heilsu skipverja sé stefnt í hættu sökum óhóflegs vinnuálags.

Krafa stefnanda lúti að því að 2. og 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðar gerðardóms samkvæmt lögum nr. 34/2001 verði dæmdar óskuldbindandi fyrir stefnanda þannig að ákvæði greinar 1.37 í síðast gildandi kjarasamningi málsaðila standi óhaggað.

MÁLSÁSTÆÐUR OG LAGARÖK

Á því er byggt af hálfu stefnanda að gerðardómur samkvæmt lögum nr. 34/2001 hafi farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt með því að kveða á um breytingar á mönnun skipa í framtíðinni í tilefni óskilgreindra tæknibreytinga og óskilgreindrar hagræðingar.

Jafnframt hafi gerðardómurinn brotið gegn 5. gr. laga nr. 80/1938 með því að ákveða í 3. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs um breytingar á kjarasamningi málsaðila að um meintar breytingar eða meinta hagræðingu yrði einvörðungu fjallað á vettvangi útgerðar og áhafnar án atbeina stefnanda og stefnda.

Hlutverk gerðardóms samkvæmt lögum nr. 34/2001 hafi verið það eitt að leysa úr ágreiningi málsaðila sem skilgreindur hafi verið í 2. gr. laganna. Sökum þess hve viðurhlutamikið inngrip í stjórnarskrárvarið frelsi málsaðila til að ráða málum sínum sjálfir sé fólgið í ákvæðum laganna hafi honum borið að túlka hlutverk sitt þröngt. Gerðardómurinn hafi sjálfur skilgreint hlutverk sitt á grundvelli þessara sjónarmiða í forsendum úrskurðar síns.

Stefnandi kveður ekki hafa verið ágreining með málsaðilum um hvernig með skyldi fara þegar tæknibreytingar eða hagræðing í útgerðarháttum gefi tilefni til breytinga á mönnun skipa. Tekið hafi verið á því hvernig með slík álitaefni skuli fara, sbr. grein 1.37 í áður gildandi kjarasamningi aðila. Því hafi ekkert tilefni verið til úrskurðar gerðardómsins í þessum efnum enda ekki innan hlutverks hans eins og það hafi verið skilgreint í 2. gr. laga nr. 34/2001. Í því ákvæði hafi gerðadómnum einvörðungu verið falið að leysa úr ágreiningi um þau atriði sem breyting í fjölda í áhöfn hafi á skiptakjör en tilefni þessa lagaákvæðis hafi verið ágreiningur málsaðila. er lotið hafi að þeim tilvikum þar sem mönnunarákvæði kjarasamnings hafi ekki verið í samræmi við raunverulega mönnun skipa eins og raunin hafi verið í nokkrum tilvikum. Vandinn hafi þannig verið til staðar í nefndum tilvikum, mönnun hafi verið önnur en kjarasamningur kvað á um. Um það hvernig úr því ætti að leysa hefðu málsaðilar deilt um árabil. Tekið hafi verið á þeim ágreiningi í 1. mgr. 2. töluliðar en með úrskurðarorðum 2. og 3. mgr. 2. töluliðar hafi gerðardómurinn farið út fyrir lögbundið hlutverk sitt. Slíkar ákvarðanir, sem eigi sér enga stoð í lögum nr. 34/2001, geti ekki takmarkað rétt stefnanda og stefnda til að ráða málum sínum sjálfir og geti þannig ekki haft skuldbindingargildi þeirra á milli. Réttaráhrif þess verði ekki önnur en þau að nefnt kjarasamningsákvæði greinar 1.37 sem aðilar hefðu samið um sín á milli í frjálsum samningum myndi halda fullu gildi sínu.

Í annan stað sé ákvæði 2. mgr. 2. töluliðar svo óljóst orðað og ónákvæmt að það sé ekki tækt til að byggja á í lögskiptum málsaðila. Þannig liggi ekkert fyrir af hvaða toga nefndar breytingar eru, hvorki tæknibreytingar eða hagræðing, eins og einmitt sé vakin athygli á af hálfu eins gerðarmanna. Í öðru lagi sé útgerðarmönnum í sjálfvald sett að ákveða það á eigin forsendum, eigin hentugleikum og að eigin geðþótta hvort skilyrði séu til breytinga á mönnun skipa þeirra en með slíkum breytingum sé riðlað því grundvallaratriði í kjörum sjómanna er felist í ákvæðum kjarasamnings um mönnun. Í þriðja lagi hafi útgerðin mikla beina fjárhagslega hagsmuni af því að hafa sem fæsta í áhöfn þar sem hlutur þeirra sem missa vinnunna gangi að hálfu leyti til útgerðarinnar. Þá séu í fjórða lagi engin mörk sett við því hve marga megi fækka um né sé þess krafist að það sé skilgreint í atkvæðagreiðslu þeirri sem kveðið er á um í 3. mgr. 2. töluliðar. Hið fyrra valdi því að ef útgerðarmaður verði of gírugur til fjárins kunni öryggi skipsins og áhafnar þess að vera stefnt í tvísýnu. Hið síðara valdi því að hætt sé við að áhafnarmeðlimir meti einvörðungu hugsanlega fjárhagslegan ávinning af fækkuninni en velti því ekki fyrir sér sem raunhæfu álitaefni að þeir missi vinnuna og standi eftir atvinnulausir. Síðastgreint álitaefni sé hins vegar að sjálfsögðu háð því að áhöfnin hafi raunhæft val í þessum efnum en sé ekki stillt frammi fyrir afarkostum málamynda atkvæðagreiðslu.

Jafnvel þó svo yrði litið á að gerðardómurinn hefði haft vald til að láta breytingar á mönnun skipa vegna tæknibreytinga og hagræðingar til sín taka er á því byggt að 3. mgr. 2. töluliðar úrskurður gerðardómsins stríði gegn 5. gr. laga nr. 80/1938. Þar sé kveðið á um lögbundna heimild stefnanda til að semja um kaup og kjör meðlima sinna, sbr. og 3. gr. laga nr. 80/1938. Jafnframt hafi málsaðilar samið sérstaklega um það sín á milli að sérsamningar milli útgerðarmanns og skipverja hafi ekkert gildi án samþykkis viðkomandi félags, sbr. grein 1.40 í áður gildandi kjarasamningi. Ekkert í lögum nr. 34/2001 hafi rutt nefndum lagaákvæðum laga nr. 80/1938 úr vegi er varði hugsanlegan framtíðarágreining sem til kynni að koma vegna tæknilegra breytinga og/eða hagræðingar í útgerðarháttum Lögin hafi verið sett til að leysa úr tilteknum afmörkuðum deiluefnum sem málsaðilum hafi ekki auðnast að leysa með samningum sín á milli. Breytingar vegna nýrrar tækni eða hagræðingar hafi ekki verið þar á meðal. Engin rök séu færð fyrir því af hálfu meirihluta gerðardómsins, hví málsaðilum dómsmáls þessa er ekki ætlaður hlutur að samningsgerð sem þessari.

Málsókn sína á hendur stefnda styður stefnandi við lög nr. 34/2001 sem og meginreglur vinnuréttar um réttarstöðu stéttarfélaga, sbr. lög nr. 80/1938, lög nr. 53/1989 og stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 34/1944, einkum 65. gr., sem og 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.

Krafa um málskostnað styðst við 130. gr. eml. nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun styðst við lög nr. 50/1988; stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að með lögum nr. 34/2001 hafi kjarasamningar þeirra aðila, sem lögin taki til, verið framlengdir með þeim breytingum sem gerðardómur úrskurðaði í samræmi við 2. og 3. gr. laganna. Gerðardómurinn skyldi ákveða um kjaramál fiskimanna skv. nánar tilgreindum atriðum í a- til g- liðum 2. gr. laga nr. 34/2001. Tæknibreytingar séu meðal þeirra atriða sem hafi áhrif á fjölda í áhöfn skips. Það sé rangt að ekki hafi verið ágreiningur með aðilum um þann þátt. Aðalkrafa útvegsmanna í þessum samningum eins og samningum undanfarin ár hafi verið krafan í 1. tl. kröfugerðarinnar um skiptingu milli áhafnar og útgerðar við fækkun í áhöfn. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um hafi stefnandi neitað að ræða um gerð sérstaks samnings á árinu 2000 þegar nýtt fjölveiðiskip Samherja hafi komið til landsins og krafist þess að fyrst yrði gengið frá öllum öðrum þáttum kjarasamninga áður en um það yrði fjallað. Þá geti verið um að ræða ástæður til breytinga á áhöfn vegna tæknibúnaðar eða vinnusparandi aðgerða, án þess að um sé að ræða nýjar veiði- eða verkunaraðferðir samkvæmt grein 1.37. í kjarasamningi. Gerðardómurinn hafi gefið aðilum kost á því að leggja fram kröfur sínar um breytingar á síðast gildandi kjarasamningi. Hafi gerðardómurinn úrskurðað um breytingar á kjarasamningnum á grundvelli krafna aðila og greinargerða þeirra til hans í samræmi við 2. og 3. gr. laga nr. 34/2001. Hafi gerðardómurinn haft fulla heimild til þess og ákvæði 2. og 3. mgr. 2. gr. úrskurðarins séu skýr.

Gerðardómurinn hafi ekki brotið gegn 5. gr. laga nr. 80/1938 með ákvæðum 3. mgr. 2. töluliðar um afgreiðslu mála varðandi breytingar á fjölda í áhöfn vegna tæknibúnaðar eða hagræðingar. Ekkert komi í veg fyrir það að skipverjar leiti aðstoðar stéttarfélags síns séu þeir í vafa um réttmæti þess sem verið er að fjalla um. Sé það í samræmi við svokallaðan fyrirtækjaþátt í fjölda kjarasamninga, þar sem stjórnendum og starfsmönnum sé heimilt að gera samkomulag um frávik frá kjarasamningi með það að markmiði að hann nýtist báðum aðilum til aukins ávinnings. Þá sé gerður samningur milli starfsmanna og fyrirtækis, en starfsmenn geti að sjálfsögðu óskað eftir aðstoð stéttarfélags síns við undirbúning samningsins. Þá bendir stefndi á ákvæði um mönnunarnefndir í VII. kafla laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna og V. kafla laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélstjóra. Mönnunarnefnd hafi heimild til að ákveða frávik frá ákvæðum laganna um fjölda skipstjórnarmanna og vélstjóra, án þess að aflað sé samþykkis stéttarfélags. Þar sé gert ráð fyrir því að nefndinni sé heimilt að ákveða frávik frá fjölda skipverja vegna tæknibúnaðar, gerðar og/eða verkefnis skips, þar sem m.a. sé tekið tillit til vinnuálags sem breytingin kunni að hafa í för með sér. Verði ekki af því séð að tekinn hafi verið af viðkomandi stéttarfélögum réttur til að semja um kaup og kjör félagsmanna sinna.

Sú fullyrðing að nýr tæknibúnaður og hagræðing valdi einungis fækkun háseta er ekki á rökum reist. Í gegn um tíðina hafa tæknibreytingar einnig leitt til fækkunar vélstjóra.

Í landi gildi almennt sú regla, varðandi afkastatengd launakerfi eins og hlutaskiptakerfið er, að launakerfið skuli endurskoðað þegar nýr tæknibúnaður eða vinnusparandi búnaður er tekinn í notkun, þar sem starfsmenn eigi að fá greiðslur í samræmi við vinnuálag eða vinnuafköst þeirra en fái ekki í sinn hlut greiðslur fyrir aukin vinnuafköst tæknibúnaðarins. Starfsmenn í landi fái ekki auknar greiðslur fyrir það sem búnaðurinn sparar eins og gerist í raun til sjós skv. því sem gerðardómur úrskurðaði.

Gerðardómurinn hafi haft hliðsjón af vélstjórasamningnum og öðrum kjarasamningum sem gerðir höfðu verið næstu mánuði á undan eins og lög nr. 34/2001 geri ráð fyrir.

Stefndi styður kröfur sínar við reglur samningaréttar og vinnuréttar, 2. og 3. gr. laga nr. 34/2001, lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, VII. kafla laga nr. 112/1984 um atvinnuréttindi skipstjórnarmanna, V. kafla laga nr. 113/1984 um atvinnuréttindi vélstjóra, tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/34/EB frá 22. júní 2000 um vinnu- og hvíldartíma skipverja á fiskiskipum og 64. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Kröfu um málskostnað styður stefndi við 129., sbr. 130. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

NIÐURSTAÐA

Samkvæmt lögum nr. 34/2001 um kjaramál sjómanna var það m.a. verkefni gerðardóms þess sem starfaði samkvæmt lögunum að taka ákvörðun um atriði er varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör sbr. b-lið 2. gr. laganna. Í VII. kafla gerðardómsins er gerð grein fyrir því hvernig fundin er aðferð til þess að ákveða skiptakjör þegar færri menn eru á skipi en við er miðað í skiptakjaraákvæðum kjarasamnings og byggt á 2. gr. laga nr. 10/1998 um kjaramál fiskimanna. Er niðurstaða um þetta atriði í 1. mgr. 2. töluliðar úrskurðarorðs gerðardómsins. Um þetta atriði er enginn ágreiningur hér.

Síðan segir í VII. kafla gerðardómsins að sé fækkun hins vegar tilkomin vegna hagræðingar og tæknibreytinga á skipi skuli sú regla gilda sem vélstjórar sömdu um, að helmingur fer til áhafnar og helmingur fer til útgerðar, allt eins og nánar greini í úrskurðarorði.

Í samningi vélstjóra sem gerðardómurinn vísar til segir svo:

                Séu sett um borð ný tæki, búnaður eða eigi sér stað hagræðing sem hefur í för með sér vinnusparnað sem leiðir til að færri menn geti sinnt skipsstörfum og um það er skriflegt samkomulag milli áhafnar og útgerðar að færri menn séu á skipi en kveðið er á um í kjarasamningi þessum þar sem ástæður eru tilgreindar, skal hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar skiptast að hálfu milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við skiptahlutfall þeirra. Hinn helmingurinn skal gagna óskertur til útgerðarinnar.

Efni 2. mgr. 1. töluliðar úrskurðarorðs gerðardómsins er í samræmi við framangreint ákvæði úr kjarasamningi vélstjóra. Ekki er fallist á það með stefnanda að gerðardómurinn hafi farið út fyrir þau mörk sem  honum voru sett í lögum nr. 34/2001 með því að taka á framangreindu atriði enda ljóst að það hefur áhrif á fjölda í áhöfn ef gripið er til aðgerða sem hafa í för með sér vinnusparnað eða aðra hagræðingu um borð í fiskiskipum. Er niðurstaða gerðardómsins sem hér að framan er lýst í samræmi við verkefni það sem honum var falið af löggjafanum og fellur innan marka b- liðar 2. gr. laga nr. 34/2001 um kjaramál sjómanna.

Þá telur dómurinn að þegar litið er til framangreinds ákvæðis úr kjarasamningi vélstjóra og 2. mgr. 1. tl. úrskurðarorðs gerðardómsins skýrt með hliðsjón af því sé ákvæðið nægjanlega ljóst og nákvæmt til þess að því verði beitt í skiptum aðila.

Þessu næst er til úrlausnar hvort af ákvæðum laga nr. 34/2001 leiði að óheimilt hafi verið að kveða á um aðferð þá við ákvörðun um mönnun skipa í einstökum tilvikum sem áhafnir skipa og útgerðir þeirra skyldu notast við. Í forsendum gerðardómsins kemur fram að hér er um mjög flókið úrlausnarefni að ræða sem ekki varð ráðið til lykta af gerðardóminum á þeim tíma sem honum var markaður. Verður að telja það lögmætt sjónarmið að leita fyrirmynda í þessu efni eins og gert var með því að vísa  til samnings þess er vélstjórar höfðu gert 9. maí 2001 enda beinlínis mælt fyrir um það í 3. gr. laga nr. 34/2001 að fara skyldi eftir kjarasamningum sem gerðir hefðu verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við ætti. Telur dómurinn að aðferð þessi eigi sér næga stoð í ákvæði b-liðar 2. gr. laganna.

Þá verður ekki fallist á það með stefnanda að ákvæði 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur standi því í vegi að ofangreindri aðferð sé beitt með því að félagar í aðildarfélagi stefnanda eiga þess jafnan kost að leyta aðstoðar og atbeina stefnanda komi upp ágreiningur um túlkun eða framkvæmd ákvæðis 3. mgr. 2. töluliðs úrskurðarorðs gerðardómsins.

Samkvæmt þessu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda en málskostnaður verður fellur niður.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

                Stefndi, Landssamband íslenskra útvegsmanna, skal sýkn af kröfum stefnanda Sjómannasambands Íslands.

                Málskostnaður fellur niður.