Print

Mál nr. 610/2015

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
X (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.)
Lykilorð
  • Ærumeiðingar
  • Opinberir starfsmenn
  • Ákæra
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá
  • Ómerking ummæla
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
Reifun

X var ákærð fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð A, oddvita sveitarfélagsins B, með því að hafa ritað nánar tilgreind ummæli um hann á samskiptasíðuna Facebook. Í dómi Hæstaréttar kom fram að krafa um að X yrði dæmd til refsingar hafi á engu stigi komið fram af hálfu A. Hafi því ekki verið skilyrði til að gera slíka kröfu í ákæru, sbr. b. lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var henni því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi. Hæstiréttur komst jafnframt að þeirri niðurstöðu að fullyrðing X um að A hafi smjaðrað fyrir C fæli ekki í sér annað en gildisdóm hennar. Þá hafi fullyrðing um að A hafi fengið vinnuvél að gjöf frá C falið í sér óljósa ályktun eða getgátu sem reist væri á þeirri röngu forsendu að orðrómur um það efni væri réttur. Samkvæmt þessu var X sýknuð af kröfu ákæruvaldsins um ómerkingu framangreindra ummæla.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Greta Baldursdóttir.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og að fengnu áfrýjunarleyfi. Ákæruvaldið krefst staðfestingar héraðsdóms.

Ákærða krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.

I

Með hinum áfrýjaða dómi var ákærða sakfelld fyrir ærumeiðandi aðdróttanir í garð A, þáverandi oddvita B, með því að hafa 24. nóvember 2013 ritað meðal annars eftirfarandi ummæli á samskiptasíðunni Facebook og frá þeim tíma og fram til 27. sama mánaðar birt þau þar: „En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir [C] sem á Miðhraun 1. Enda gaf [C] honum nýjan traktor (mútur eða hvað?)“. Var þetta talið varða við 235. gr., sbr. b. lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt fyrrnefndu lagagreininni varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis eða ber slíka aðdróttun út. Hafi ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun verið beint að manni sem er eða verið hefur opinber starfsmaður og hún varðar að einhverju leyti það starf hans, þá skal slíkt brot sæta ákæru eftir kröfu hans, sbr. b. lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt því var skilyrði málshöfðunar þessarar að fram kæmi krafa um hana frá A sem taldi á sér brotið með ummælunum.

Í skýrslu sem lögregla tók af A 4. desember 2013 kom fram að tilefni hennar hafi verið beiðni hans um að „fram fari opinber rannsókn á ásökunum [X] um störf hans sem oddvita ... og einnig rannsókn á ásökunum [X] um að [A] hafi þegið mútur í starfi sínu“. Var þar meðal annars haft eftir A að hann óskaði eftir að málið yrði „rannsakað og ef við rannsókn málsins komi fram að brotið hafi verið gegn lögum þá verði þeir sem það gerðu sóttir til saka.“ Í lögregluskýrslu 19. maí 2014 var A spurður hvort hann gerði „refsikröfu vegna meintra ærumeiðandi aðdróttana og krefjist málshöfðunar“ og kvaðst hann telja „rétt að halda málinu áfram“ þar sem ákærða hafi ekki tekið út umræddar færslur á  Facebook síðu sinni „með fulleigandi hætti“. Hann sagðist vilja að „ummælin verði dæmd dauð og ómerk“, en nánar spurður um hvaða ummæli hann ætti þá við sagði hann að það væru „fyrst og fremst þau ummæli sem snúast að traktorsmálinu.“

Í hvorugri framangreindri skýrslu kom fram krafa A um að ákærðu yrði gerð refsing vegna ummælanna sem ákæra tekur til. Við skýrslugjöf A fyrir dómi var hann þrátt fyrir það spurður af hálfu ákæruvaldsins,  með þeim inngangsorðum að hann hefði gert slíka kröfu, hvort sú krafa væri „óbreytt í dag“. Svar hans við því var svofellt: „Ég hef í sjálfu sér engar óskir um það að hún verði dæmd eitthvað þungri refsingu eða refsingu yfirleitt.“ Með því að krafa um að ákærða yrði dæmd til refsingar kom samkvæmt þessu á engu stigi fram af hálfu A voru ekki skilyrði til að gera slíka kröfu í ákæru, sbr. b. lið 2. töluliðar 242. gr. almennra hegningarlaga. Verður því að vísa þeirri kröfu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

II

Af gögnum máls þessa er ljóst að deilur hafa lengi staðið milli annars vegar hjónanna C og D, en einkahlutafélag hennar virðist vera eigandi Miðhrauns 1, og hins vegar eigenda Miðhrauns 2 sem mun vera í eigu fjölskyldu ákærðu. Má af þeim gögnum ráða að ákærða hafi talið oddvitann A hafa tekið afstöðu í ýmsum málum með eiganda Miðhrauns 1 gegn eigendum Miðhrauns 2. Þannig gerði ákærða í umræddri Facebook færslu ýmsar athugasemdir um störf oddvitans sem hún virðist hafa talið til marks um að hann hafi brugðist skyldum sínum og í kjölfarið viðhafði hún þau ummæli sem krafist er ómerkingar á.

Við úrlausn um hvort ummæli ákærðu verða ómerkt verður að líta til þess að fullyrðing hennar um að það vanti ekki að A hafi smjaðrað fyrir fyrrnefndum C fela ekki í sér annað en gildisdóm hennar. Í setningunni: „Enda gaf [C] honum traktor (mútur eða hvað?)“ fólst að vísu fullyrðing um að A hafi fengið slíka vinnuvél að gjöf, sem eins og málið liggur fyrir mun vera rangt, en fyrir dómi kvaðst ákærða hafa reist þessa staðhæfingu á orðrómi sem gengið hafi um þetta „í sveitinni“. Síðastgreindu orðin í setningunni, sem ákærða hafði innan sviga, verður að skilja sem óljósa ályktun eða getgátu sem reist var á þeirri röngu forsendu að áðurgreindur orðrómur væri réttur. Að gættri 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar eru að þessu virtu ekki efni til að ómerkja ummæli ákærðu sem málið varðar. Hún verður því sýknuð af þeirri kröfu ákæruvaldsins.

Eftir þessum úrslitum greiðist allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu í héraði, eins og þau voru þar ákveðin, svo og málsvarnarlaun verjandans fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfu ákæruvaldsins um að ákærða, X, verði dæmd til refsingar er vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti er ákærða sýkn af kröfum ákæruvaldsins.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu í héraði, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, og málsvarnarlaun verjandans fyrir Hæstarétti 1.240.000 krónur.

                                                                           

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 27. maí 2015 í máli nr. S-68/2014

I.

Mál þetta höfðaði ríkissaksóknari með ákæru 26. maí 2014 á hendur ákærðu, X, kt. [...], [...], B. Málið var dómtekið 28. apríl sl.

Í ákæru segir að málið sé höfðað á hendur ákærðu fyrir „ærumeiðandi aðdróttanir í garð [A], kennitala [...], oddvita [B], með því að hafa sunnudaginn 24. nóvember 2013 á heimili sínu ritað eftirfarandi ummæli á samskiptasíðu (e. Facebook) og frá þeim tíma og fram til mánudagsins 27. sama mánaðar birt þau á internetinu: „[...] En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir [C] sem á Miðhraun 1. Enda gaf [...] honum nýjan traktor (mútur eða hvað?) [...]“.

Telst þetta varða við 235. gr., sbr. b-lið 2. tölul. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 71/1995. Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að dæmd verði dauð og ómerk ummælin: „[...] En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir [C] sem á Miðhraun 1. Enda gaf [C] honum nýjan traktor (mútur eða hvað?) [...]“.“

Með framhaldsákæru, dags. 8. júlí 2014, var gerð breyting á ákærunni með þeim hætti að í stað orðsins „mánudagsins“ í fjórðu línu í verknaðarlýsingu skuli standa „miðvikudagsins“.

Ákærða neitar sök. Krefst hún þess að verða sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins, og að allur sakarkostaður verði lagður á ríkissjóð, þ.m.t. málsvarnarlaun verjanda hennar.

II.

Tildrög þessa máls eru þau að miðvikudaginn 4. desember 2013 lagði A fram kæru vegna ásakana X, ákærðu í þessu máli, sem fram komu á Facebook-samskiptasíðu hennar hinn 24. nóvember 2013. Hafði hann lagt fram útprentun ummælanna frá umræddu tímabili en ummælin höfðu verið fjarlægð þegar lögreglan skoðaði síðuna. Þau ummæli sem fram komu á síðunni og óskað var rannsóknar á voru: „En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir [C] sem á Miðhraun 1. Enda gaf [C] honum traktor (mútur eða hvað ?).“ A óskaði eftir því við lögreglu að þessi ummæli yrðu rannsökuð og ef brotið hefði verið gegn lögum yrðu þeir sem það gerðu sóttir til saka.     

Í skýrslutöku hjá lögreglu 24. nóvember 2013 kannaðist ákærða við að hafa skrifað umrædd ummæli. Kvaðst hún sjá eftir að hafa skrifað þessa færslu, hún hefði verið að alhæfa og hefði átt að orða hlutina betur. Kom fram hjá henni að skrif hennar um traktor, sem A átti að hafa fengið að gjöf frá C, væru bara orðrómur sem hún hefði heyrt. Kvaðst hún vera búin að biðjast afsökunar á því að hafa alhæft um traktorinn og kvaðst viðurkenna að hún hefði gert mistök.

III.

Skýrslur fyrir dómi

Ákærða kvaðst kannast við að hafa skrifað inn á Facebook-síðu sína þau ummæli sem tilgreind eru í ákæru. Hefði hún sett færsluna inn að kvöldi umrædds dags í reiði og eftir að hafa fyrr um daginn komið að þar sem A oddviti var, ásamt tveimur öðrum, að mæla og ákvarða landamerki þar sem fjöldskylda ákærða hefði verið að bora eftir heitu vatni í landi [...].

Kom fram hjá ákærðu að í mörg ár hefðu verið miklar deilur milli fjölskyldu hennar, sem ætti Miðhraun 2, og fjölskyldu C, eigenda Miðhrauns 1, og hefðu nokkur þessara ágreiningsmála lent á borði lögreglu og farið fyrir dómstóla. Miðhraun hefði upphaflega verið ein jörð, en henni hefði verið skipt upp í framangreindar jarðir, auk sameiginlegs fjallendis, sem C hefði verið að reyna að ná undir sig. Hefðu deilur aðila aðallega snúist um eignarrétt að landi en einnig önnur smærri mál. Kvaðst hún telja að C væri að reyna að losna við þau af jörðinni.

Sérstaklega aðspurð um tengsl A oddvita við þessar deilur sagði hún A hafa komið að þessum deilum með ýmsum hætti og að þá hefði hann yfirleitt tekið hagsmuni C fram yfir þeirra hagsmuni. Ákærða var spurð út í tölvupóst sem A hefði sent á alla í sveitinni með fundargerð hreppnefndarinnar, þar sem fram kemur meðal annars að hreppsnefndin fari fram á að Heilbrigðiseftirlit Vesturlands geri úttekt á frárennslismálum Félagsbúsins Miðhrauni 2 og áhrifum starfsemi þess á vatnakerfi Grímsár, Straumfjarðarár og Fáskrúðar, enda hafi nefndin rökstuddan grun um að þessi mál séu ekki í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins. Kvaðst ákærða telja að þarna hefði starfsmaður C verið að verki og að A hefði hvorki kannað hjá þeim hvort þetta væri rétt né tilkynnt þeim um það á annan hátt. Með útsendingu þessa tölvupósts hefði verið gert lítið úr fjölskyldu hennar og þau kölluð umhverfissóðar. Heilbrigðiseftirlitið hefði hins vegar í kjölfarið tekið út reksturinn að Miðhrauni 2 og gefið honum toppeinkunn án þess að C hefði komið til hugar að senda þær upplýsingar út og leiðrétta fyrri staðhæfingar í umræddum tölvupósti.

Annað dæmi um óeðlileg afskipti oddvitans af málefnum fjölskyldunnar hefði verið þegar oddvitinn hefði komið því til leiðar að C og kona hans fengju rétt til að bora eftir heitu vatni í landi [...], gegn því að þau afhentu heitt vatn á móti til tilgreindra íbúa. Hefði þetta verið gert þrátt fyrir að fjölskylda ákærðu hefði boðist til að bora þar eftir heitu vatni á sinn kostnað en því alltaf verið hafnað. Oddvitinn hefði og komið við sögu í deilum fjölskyldnanna þegar starfsmaður C hefði kvartað við hann yfir því að fjölskylda ákærðu hefði borið lífrænan áburð á mela sem væru sameign jarðanna tveggja. Hefði oddvitinn þá komið og kært þau vegna þessa.

Ákærða var nánar spurð um atvikið, sem ákærða segir vera ástæða þeirrar færslu á Facebook-síðu hennar sem um ræðir. Kom fram hjá henni að faðir hennar væri eigandi [...], sem væri í um fimm kílómetra fjarlægð frá Miðhrauni 2, og að fjölskyldan hefði verið að bora þar eftir heitu vatni. Kvaðst ákærða hafa verið á ferðinni og átt leið þar fram hjá með foreldrum sínum á laugardegi, daginn áður en hún ritaði umrædda færslu, þegar hún hefði tekið eftir að mikla gufu lagði frá holunni og ákveðið að kanna það nánar. Hefði A þá verið þar staddur, ásamt starfsmanni C og E, fyrrverandi byggingarfulltrúa, og hefðu þeir verið að mæla út svæðið. Hefði A sagst verða að kanna orðróm í sveitinni um að þau hefðu verið að bora þarna í landi hreppsins. Sagði ákærða að henni hefði þótt undarlegt að þeir hefðu fyrst farið að kanna þetta eftir að vatn hefði fundist þarna því að boranirnar hefðu þá staðið yfir í meira en mánuð með vitund allra í sveitinni. Kvaðst hún hafa litið á þessa athöfn sem tilraun til þjófnaðar og hefði hún reiðst yfir að þau væru ásökuð ranglega um að hafa borað í landi annars manns. Hefði henni verið hugsað til þess að hún hefði heyrt að oddvitinn hefði fengið traktor að gjöf og því spurt hann hvort svo hefði verið. Hann hefði hins vegar ekki svarað því neinu. Hefði hún þá hugsað sem svo að það væri skýringin á því hvernig að hann hagaði sér gagnvart þeim. Hún kvaðst hafa tekið eftir að A hefði komið á staðinn með starfsmanni C og í hans bíl. Hefði hún upplifað það þannig að oddvitinn væri að draga taum C og að til staðar væru tengsl þeirra í milli. Þá sagðist hún aðspurð kannast við að sá orðrómur gengi í sveitinni að C hefði fyrir nokkrum árum boðið hreppsnefndarmönnum fimm milljóna króna greiðslu hverjum, án nokkurra skilyrða, en hún vissi ekki hvort þetta hefði gengið eftir. Það hefði verið fyrir tilviljun að þau hefðu tekið eftir því að verið væri að mæla spilduna, þau hefðu verið að fara í Grundarfjörð og þá hefðu þau tekið eftir því að mikla gufu lagði frá hitaveituholunni og þau því ákveðið að fara að skoða það. A hefði þá verið þar á staðnum ásamt [...], starfsmanni C, og E, fyrrverandi byggingarfulltrúa, að mæla svæðið. Hefði A sagst vera að elta orðróm í sveitinni þess efnis að þau hefðu borað á hreppslandi og hefði hún litið á það sem tilraun til þjófnaðar. Sagði hún að sér hefði fundist undarlegt að könnun á því hvort þau hefðu verið að bora á hreppslandi hefði fyrst farið fram eftir að þau hefðu fundið vatn. Þeir hefðu verið með vitlausa pappíra um landamerki og verið búnir að finna það út að holan væri á hreppslandi, sem ekki hefði verið rétt. Henni hefði fundist það vera ígildi árásar að þau væru sökuð um að bora í annars manns landi. Kvað hún mikla reiði hafa verið í samskiptum milli þeirra. Hún hefði verið í sjokki og spurt þá hvað þeir væru að gera en A hefði flæmst undan og ekki getað horft framan í þau og ætlað að fara í burtu. Aðspurð kvaðst hún hafa upplifað eða haft það á tilfinningunni að A oddviti væri að draga taum C eða að til staðar væru tengsl þeirra á milli. Aðspurð kvað hún það vera orðróm í sveitinni að hagsmunatengsl væru til staðar milli hreppsnefndarmanna og C og konu hans því að hann hefði boðið hreppsnefndarmönnum fimm milljónir fyrir einhverjum árum síðan. Kvaðst hún ekki vita hvort þetta væri satt en þetta væri sagan. Sagði hún föður sinn hafa sagt sér frá þessu og að hann hefði haft þetta eftir A sjálfum. Spurð nánar um þetta sagði hún að samtal þeirra tveggja hefði átt sér stað á heimili A sem hefði sagst hafa verið hálfhissa á að því að þeim hefðu verið boðnir þessir peningar. Hefði A sagt að þau hefðu mátt gera hvað sem væri við peningana en hún kvaðst ekki vita hvort nefndarmenn hefðu þegið peningana.

Ákærða var að lokum spurð út í tilgreind ummæli hjá lögreglu 12. desember 2013, þar sem svokölluð seinni færsla var borin undir hana. Sagði hún að ummæli þessi væru rétt eftir sér höfð. Kvaðst hún hafa sagt í Facebook-færslunni það sem hún hefði talið vera rétt en svo þegar þetta hefði farið þessa leið þá auðvitað segði hún að hún hefði ekki átt að alhæfa heldur hefði hún átt að skoða þetta betur. Hún gæti hins vegar ekki vitað hvort þetta væri satt eða ekki. Loks staðfesti ákærða að eftirfarandi ummæli væru rétt eftir henni höfð: „Ég er búin að viðurkenna að ég gerði rangt með því að alhæfa um traktorinn og ég er búin að biðjast afsökunar á því.“

Vitnið A, fyrrverandi oddviti B, kvaðst hafa verið oddviti á því tímabili sem um ræðir. Sunnudaginn 24. nóvember 2013 kvaðst hann sem oddviti hafa ákveðið að hnitsetja þrjár lóðir úr jörðinni Dal, sem hreppurinn hefði áður átt en síðan selt frá sér. Sagðist hann hafa heyrt vangaveltur um að borhola félagsbúsins að Miðhrauni 2 væri utan lóðarmarka og hefði hann sjálfur viljað kanna hvort svo væri, enda hefði honum sem oddvita borið að gæta eigna hreppsins. Þá hefði hann og talið mælinguna nauðsynlega til að tryggja að girðingar sem átt hefði að setja upp vegna lóðanna væru örugglega á réttum stað. Hefði hann ákveðið að kalla E, fyrrverandi skipulags- og byggingarfulltrúa, sér til aðstoðar við hnitsetninguna því að hann hefði sinnt slíkum erindum fyrir hreppinn og haft tæki til þess. Einnig kvaðst vitnið hafa beðið D um að fara með þeim og hafa með sér hæla því að hann hefði staðið í byggingarframkvæmdum og átt slíkt til. Kvaðst hann halda að D væri í vinnu hjá C en E hefði verið þarna á vegum sveitarfélagsins. Kvað hann þá hafa hnitsett allar lóðirnar og borið niðurstöðurnar saman við ákvæði þar um í kaupsamningum viðkomandi aðila. Hefði þetta gengið jafnt yfir alla í þessu tilviki. Þegar þeir hefðu verið að ljúka hnitsetningunni þá hefðu komið þar að hjónin á Miðhrauni, þau [...] og [...], ásamt ákærðu og barni hennar. Kvað hann það ekki hafa verið fagnaðarfundi og hefði komið til orðaskipta á milli þeirra. Þeir hefðu strax verið ásakaðir um að ætla að taka af þeim þessa borholu og að þeir væru þarna á vegum C. Ákærða hefði ekki verið æstust þeirra en ekki viljað taka í höndina á honum þegar hann hefði heilsað henni. Kvaðst hann sjálfur hafa verið rólegur í samskiptum við ákærðu og hafa sýnt henni kurteisi.

Daginn eftir hefði hann verið á leið um sveitina er honum hefðu verið sýndar umræddar Facebook-færslur í síma og svo fengið þær sendar í tölvupósti, líklega kvöldið eftir. Kvaðst hann aðspurður hafa túlkað þessi ummæli sem svo að hann hefði þegið mútur. Kvaðst hann hvorki kannast við að hafa smjaðrað fyrir C né að mikil samskipti hefðu verið milli þeirra tveggja. Hefði það þá helst verið sumarið og haustið 2013 þegar C og kona hans hefðu ákveðið að bora eftir heitu vatni og fengið samþykki hreppsnefndar fyrir því. C hefði hvorki gefið honum traktor né nokkuð annað. Kvaðst hann ekki hafa verið í neinum viðskiptum við C þar sem peningar hefðu komið við sögu. Hins vegar ættu þeir saman, ásamt tveimur öðrum, hlut í rúllusamstæðu. Hann kvaðst stundum hafa fengið lánuð tæki hjá C, en ekki hefði verið mikið um það í seinni tíð. Hefði C lánað þeim tæki oftar en ýmsir aðrir en hann hefði þó einnig fengið lánuð tæki hjá öðrum, meðal annars á Miðhrauni hjá [...] og [...]. Kvaðst hann aðspurður hafa eitt vorið fengið lánaða dráttarvél og vagn sem C hefði átt og væri það eina skiptið sem hann hefði fengið traktor að láni hjá honum. Kvaðst hann ekki hafa heyrt eða orðið var við orðróm í sveitarfélaginu þess efnis að hann veitti C óeðlilega fyrirgreiðslu. Kunningsskapur væri milli hans og hjónanna C og D og afar þeirra D hefðu verið hálfbræður. Hins vegar væri móðir ákærðu einnig frænka hans í gegnum sömu bræður.

Aðspurður kvaðst hann ekki hafa verið sáttur vegna þeirra ummæla ákærðu sem ákært sé fyrir. Honum hefði fundist þetta of langt gengið, sérstaklega skrifin um mútur, og hefði hann strax óskað eftir opinberri rannsókn og áliti frá lögmanni vegna þeirra. Í kjölfarið hefði hann sent ákærðu tölvupóst og krafist þess að hún tæki ummælin til baka sem ósönn. Sagðist hann hafa átt símtal við hana skömmu síðar en þar hefði ekki komið fram nein afsökun af hennar hálfu. Hún hefði nefnt það að hún gæti tekið ummælin af Facebook-síðunni með þeim orðum að hún vildi ekki særa viðkvæmar sálir en sannleikur væri alltaf sannleikur. Hann hefði ekki skilið orð hennar svo að með því væri hún að biðjast afsökunar. Þá hefði hann ekki heldur talið að með því væri hún að taka ummæli sín til baka sem ósönn. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa neinar óskir um það að ákærðu verði gerð refsing en honum fyndist svona framganga vera óboðleg. Sagðist hann hafa fengið póst frá ákærðu þess efnis að hún gæti vel trúað því að hann hefði þegið traktorinn að gjöf því að hann hefði sagt það í votta viðurvist að C hefði sagst vilja gefa hreppsnefndarmönnum peninga. Hefði hún sagst hafa vitneskju um að sumir þeirra hefðu ekki þegið þá en hún vissi hins vegar ekki hvað hann hefði gert. Aldrei hefði verið talað um að bera fé á hreppsnefndarmenn persónulega. Mætti hugsanlega rekja slíkar sögur til samningsdraga sem C hefði sent hreppnum vegna borana eftir heitu vatni í landi Eiðhúsa en þar hefði verið gert ráð fyrir fimm milljóna króna greiðslu til hreppsins ef tilteknar tillögur hans yrðu samþykktar.

Fram kom hjá vitninu að ýmiss konar ágreiningur hefði verið uppi á liðnum árum milli sveitastjórnarinnar annars vegar og ákærðu og hennar fjölskyldu hins vegar og ýmsar uppákomur orðið vegna þess. Aðallega hefði þetta tengst hitaveitumálum en einnig hefðu þau verið ósátt við þjónustu sveitafélagsins. Sjálfur teldi hann að þau hefðu fengið sömu þjónustu og aðrir í sveitarfélaginu og kannaðist ekki við að hafa sem oddviti hreppsins beitt sér gegn ákærðu eða hennar fjölskyldu.

Spurður um tölvupóst með fundargerð sveitarstjórnar frá 18. júlí 2012 svaraði hann því að almennt hefði verið reynt, samt ekki alltaf, að senda út fundargerðir hreppsins með þeim hætti. Minnti vitnið að ástæða þess að sveitarstjórnin hefði talið sig hafa rökstuddan grun um að frárennslismálin að Miðhrauni 2 væru ekki í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins hefði verið bókun í fundargerð heilbrigðisnefndar Vesturlands um málið og samtal við starfsmann þar. Hefði hann ekki talið neitt athugavert við það að senda fjöldapóst á sveitunga með þessari bókun, enda hefði verið um að ræða opinbera fundargerð og ekkert undanskilið.

Spurður um borholuna á Eiðhúsum kvaðst hann vita til þess að í tíð fyrri oddvita hefði komið bréf fyrir hreppsnefnd í þá veru að fjölskylda ákærðu byðist til að bora þar eftir vatni á eigin kostnað til hagsbóta fyrir íbúa hreppsins. Kvað hann hreppinn enn hafa borréttinn en hins vegar hefði félag í eigu D, [...] ehf., fengið leyfi hreppsnefndarinnar til að bora samkvæmt sérstöku samkomulagi á árinu 2013 og hefði félagið ekki greitt neitt fyrir þann borrétt. Hefði hann sem oddviti, ásamt varaoddvita og hreppsnefndarmanni, staðið að þeim samningaviðræðum, fyrir hönd hreppsnefndar. Kvaðst hann ekki kannast við að loforð þess efnis að íbúar hreppsins fengju ókeypis vatn í tíu ár hefði fylgt samkomulaginu, en það hefði komið síðar.

Spurður um aðkomu sína að máli þar sem faðir ákærðu var kærður fyrir að bera lífrænan áburð á tún og mela svaraði hann á þá leið að haft hefði verið samband við hann og hann beðinn um að kanna þetta mál. Hefði verið um að ræða slógdreifingu ofanjarðar en hreppsnefndin hefði áður gert kröfu um að slógdreifing yrði ekki yfirborðsdreifing heldur skyldi annaðhvort plægt niður eða fellt niður. Kvaðst vitnið hafa haft samband við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, sem færi með slík mál. Þá hefði sonur hans tilkynnt þetta til lögreglu en ekki kært. Í kjölfarið hefði lögreglumaður komið á staðinn og óskað eftir að þeir myndu skýra aðkomu sína að málinu. Hann hefði farið á staðinn sem oddviti og gefið skýrslu. Þetta hefði allt farið fram á hrauninu eða melunum fyrir vestan og ofan Miðhraunsbæina. Honum hefði skilist að þessir melar væru sameign þeirra á Miðhrauni 1 og 2. Kvaðst hann hvorki hafa rætt þetta mál við hjónin C og D né hefði hann fengið ósk frá C um að mæla umrædda landspildu ákærðu umrætt sinn.

Vitnið C skýrði frá því að einkahlutafélag eiginkonu hans, [...] ehf., væri eigandi að Miðhrauni 1. Aðspurður kvaðst hann geta staðfest það að langvinnar deilur hefðu verið milli fólksins að Miðhrauni 1 og Miðhrauni 2, meðal annars um landamerki, og síðast um það hvort fara ætti í gegnum landið með hitaveitulögn. Ekki hafi verið deilt um dreifingu á lífrænum áburði á tún heldur hefðu verið deilur um dreifingu á slori á tún í sameign jarðanna tveggja. Þau hefðu ekki kært málið til opinberra aðila en hann teldi að kona sín, eða lögmaður fyrir hennar hönd, hefði sent póst til heilbrigðisyfirvalda vegna þessa. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa heyrt þann orðróm að fjölskyldan að Miðhrauni 2 væri að bora eftir vatni utan eigin landamerkja í [...]. Þá sagði hann að hvorki væru persónuleg tengsl milli þeirra A né ættu þeir sameiginlegra hagsmuna að gæta utan þess að þeir hefðu búið í sömu sveit. Hann hefði hvorki gefið né lánað A persónulega traktor, plóg eða aðrar vinnuvélar. Vel gæti þó verið að A hefði fengið lánaðan plóg eða tætara. Spurður um orðróm þess efnis að hann hefði boðið eða greitt til hreppsnefndarmanna fimm milljónir króna kvaðst hann ekki kannast við þær greiðslur og ekki kannast heldur við að kona sín hefði gefið fimm milljónir króna. Loks kvaðst vitnið kannast við að [...] hefði unnið fyrir það í mörg ár.

Vitnið E kannaðist við að hafa mælt út landið sem hreppurinn hefði átt að [...]. Kvaðst hann hafa orðið vitni að samskiptum fólksins að Miðhrauni 2 og oddvitans umrætt sinn. Fólk hefði farið að hækka róminn og fólkinu á Miðhrauni 2 hefði mislíkað að vera ekki boðað til að vera viðstatt mælinguna. Sagði hann D einnig hafa verið viðstaddan vegna mælingar á landi hans, en hornpunkt hefði vantað vegna hennar. 

Vitnið D sagði A hafa beðið sig um að lána sér hæla og að koma með í mælingu á [...]. Hann kvaðst þó ekki hafa vitað fyrir fram um mælinguna og ekkert hefði hann rætt við oddvitann um borunina. Vitnið kannaðist við að vinna hjá C en kvaðst ekki hafa haft nein samskipti við hann eða konu hans vegna umræddrar borunar. Þá kannaðist vitnið við að hafa haft milligöngu um að lána A tætara og plóg.

IV.

Helstu málsástæður ákærðu

Ákærða vísar í fyrsta lagi til þess að hún telji útgáfu ákæru í máli þessu óskiljanlega enda sé um að ræða inngrip ríkisvalds í einkaréttarlegar deilur ákærðu við A o.fl., en hann hafi sjálfur gefið fullt tilefni til gagnrýni á störf sín.

Í öðru lagi liggi fyrir að ummæli ákærðu eigi fullt erindi til almennings. Þau séu heimil tjáning og vernduð skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þau séu hvorki aðdróttun eða móðgun né teljist ærumeiðandi eða þess eðlis að vera virðingu A til hnekkis. Uppfylli þau því hvorki verknaðarlýsingu 235. gr. né 242. gr. almennra hegningarlaga. Hafi ákæruvaldið ekki sýnt fram á að takmörkun tjáningar ákærðu sé nauðsynleg og samræmist lýðræðishefðum eða að til takmörkunarinnar sé knýjandi samfélagsleg þörf.

Í þriðja lagi sé á það bent að ummæli skuli metin í samhengi við þá heildarumræðu sem þau séu liður í. Samhengi þeirra ummæla sem hér um ræði sé margþætt, meðal annars þær deilur sem hreppsnefndin hafi staðið í við fjölskyldu ákærðu um árabil, svo sem um dreifingu áburðar á tún, hitaveitumálefni o.fl. Þá spili hér inn í tölvupóstur A með afriti af fundargerð hreppsnefndarinnar þar sem fram komi alvarlegar ávirðingar á hendur fjölskyldu ákærðu vegna frárennslismála, sem hann sem oddviti hreppsins hafi sent á alla íbúa hreppsins. Þá verði að meta ummælin með hliðsjón af því að þau hafi fallið í kjölfar og í tilefni af háttsemi A sjálfs, sem í óleyfi og í krafti opinbers valds hafi farið inn á land fjölskyldu ákærðu í því skyni að leita sönnunargagna fyrir þeim ósanna áburði að fjölskyldan væri að bora eftir heitu vatni í landi sem hún ætti ekki. Hafi tilgangur ummælanna verið að varpa ljósi á yfirgang hreppsnefndarinnar, sem og oddvitans, vegna deilu fjölskyldu ákærðu við D og C, eiginmann hennar, og vekja athygli á því sem ákærða telji vera valdníðslu gagnvart fjölskyldu hennar og undarleg tengsl oddvitans við hjónin að Miðhrauni 1. Séu ummælin í heild sinni andsvar ákærðu við framangreindu.

Fyrir liggi að ákærða hafi dregið ummæli sín til baka með orðunum „aðgát skal höfð í nærveru sálar“ og að hún biðjist afsökunar. Virðist ákæra í málinu því byggð á misskilningi oddvitans.

Með ummælum sínum hafi ákærða verið að vísa til orðróms sem uppi hafi verið um gjöf C til A, sem A hafi að vissu leyti staðfest með því að viðurkenna að hafa fengið tæki hjá honum að láni. Hafi ákærða verið í góðri trú um sannleiksgildi ummæla sinna og hafi hún gætt meðalhófs með því að setja fram fyrirvara innan sviga og spurningarmerki á eftir. Hafi þannig verið augljóst af ummælunum að þau lýsi hugrenningum og ályktunum hennar sjálfrar en ekkert sé fullyrt þar um sannleiksgildi slíks orðróms. Þá sé augljóst að ekki sé hægt að sanna hvort A hafi smjaðrað fyrir C enda sé hér einungis um að ræða skoðun ákærðu.

Einnig sé vísað til þess að ummælin hafi verið sett fram með þeim hætti að ekki sé um að ræða staðhæfingu um staðreynd heldur ályktun ákærðu, ádeilu eða gildisdóm, um háttsemi oddvitans. Hvort sem talið verði að ummælin teljist staðhæfing um staðreynd eða gildisdómur, ádeila eða ályktun, þá njóti þau verndar hvort sem þau kunni um eitthvað að vera ónákvæm eða óskýr.

V.

Niðurstaða

Eins og áður segir er ákærða sótt til saka fyrir að birta eftirfarandi ummæli á Facebook-samskiptasíðu sinni: „[...] En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir [C] sem á Miðhraun 1. Enda gaf [C] honum nýjan traktor (mútur eða hvað?) [...]“. Ákærða hefur játað að hafa birt þessa færslu í greint sinn. Hún heldur því hins vegar fram að í því samhengi sem ummælin hafi verið sett fram teljist þau ekki ærumeiðandi aðdróttun í garð A þannig að fari gegn 235. gr., sbr. b-lið 2. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, eins og henni er gefið að sök.

Megintilgangur þeirrar verndar sem opinberir starfsmenn njóta samkvæmt tilvitnuðum b-lið 242. gr. er að vernda eðlilega framkvæmd stjórnsýslunnar, en í samræmi við þá þróun sem átt hefur sér stað í dómaframkvæmd hérlendis, meðal annars með hliðsjón af þróun dómaframkvæmdar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, mega opinberir starfsmenn, eins og aðrir, gera ráð fyrir að fjallað sé um störf þeirra á þann hátt sem tíðarandinn býður. Tjáningarfrelsi er tryggt í 1. málslið 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

Við úrlausn á því hvort ákærða hafi með ummælum sínum vegið að mannorði A, þegar hann gegndi starfi oddvita B, með því að bera út ærumeiðandi aðdróttun um hann í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga, verður fyrst að taka afstöðu til þess hvort í þeim hafi falist gildisdómur eða staðhæfing um tiltekna staðreynd. Að því gættu hver ummælin voru verður að líta svo á að allir sem textann lásu hafi gert sér ljóst, eða mátt gera sér ljóst, að ákærða var með ummælunum að bera út þá aðdróttun að A hefði tekið við mútugreiðslu sem hefði haft áhrif á rækslu starfs hans sem oddvita, en slíkt brot telst refsivert skv. 1. mgr. 128. gr. almennra hegningarlaga og varðar fangelsi allt að sex árum. Enda þótt fyrri hluti ummælanna, „... hann smjaðrar fyrir [C] sem á Miðhraun 1“ feli einn út af fyrir sig í sér gildisdóm lítur dómurinn svo á að þegar ummælin séu virt saman í heild verði að meta þau sem staðhæfingu um tiltekna staðreynd.

Enda þótt A hafi kannast við það við aðalmeðferð málsins að hafa í eitt skipti fengið lánaðan traktor og plóg hjá sveitunga sínum C, eins og hann kvað algengt milli bænda, verður ekki talið að líkur hafi verið að því leiddar að sú staðhæfing ákærðu að C hafi gefið honum nýjan traktor eigi við nokkur rök að styðjast. Verður ekki fallist á það með ákærðu að láni verði á nokkurn hátt jafnað til gjafar á nýjum traktor eða að ummælin flokkist undir ýkjur sem telja megi heimilar sem lið í samfélagslegri gagnrýni á störf oddvitans og meinta misbeitingu hans á valdi sínu gagnvart fjölskyldu ákærðu. Enda þótt ákærða hafi borið fyrir dómi að staðhæfing þessi hefði byggst á orðrómi sem um þetta gengi í sveitinni þá kemur ekkert fram um það í færslu hennar á Facebook-síðunni í greint sinn. Ekkert er heldur fram komið í málinu sem telja má að hafi gefið henni fullt tilefni til að ætla að orðrómur þessi ætti við rök að styðjast. Þá verður ekki heldur talið að sú framsetning hennar í færslu sinni að setja orðin „mútur eða hvað“ innan sviga með spurningarmerki á eftir hafi falið í sér slíkan fyrirvara við sannleiksgildi staðhæfingar hennar um traktorsgjöfina að leitt geti til ábyrgðarleysis hennar á ummælunum. Þvert á móti verður að líta svo á að með þessari framsetningu hafi hún fremur lagt aukna áherslu á og ýtt undir að ummælin yrðu skilin svo að með gerðum sínum hefði oddvitinn gerst sekur um refsivert brot í starfi sínu.

Að öllu framangreindu virtu verður ákærða sakfelld fyrir brot það er í ákæru greinir og þar er réttilega fært til refsiákvæða. Hún hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin 50.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins. Dæmd eru dauð og ómerk þau ummæli sem tilgreind eru í ákæru.

Ákærða greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl., 1.200.000 krónur.

Ásgeir Magnússon dómstjóri kveður upp dóm þennan en hann tók við rekstri málsins er hann var skipaður dómstjóri 1. mars 2015.

Dómsorð:

Ákærða, X, greiði 50.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fjögurra daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Dæmd eru dauð og ómerk ummælin: „[...] En það vantar ekki að hann smjaðrar fyrir [C] sem á Miðhraun 1. Enda gaf [C] honum nýjan traktor (mútur eða hvað?) [...]“, sem ákærða birti á Facebook-samskiptasíðu sinni 24. nóvember 2013.

Ákærða greiði þóknun skipaðs verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hrl., 1.200.000 krónur.