Hæstiréttur íslands
Mál nr. 48/2022
Lykilorð
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Gæsluvarðhald
- Framsal sakamanns
- Stjórnarskrá
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen, Viðar Már Matthíasson fyrrverandi hæstaréttardómari og Guðmundur Sigurðsson prófessor.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. september 2022. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum. Til vara er þess krafist að krafa stefnda verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.
3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Ágreiningur aðila lýtur að skaðabótaskyldu áfrýjanda vegna gæsluvarðhalds stefnda frá 17. ágúst 2017 til 10. janúar 2018 í tengslum við rannsókn lögreglu á peningaþvætti og meðferð sakamáls. Einnig er deilt um bótaskyldu áfrýjanda vegna frelsissviptingar stefnda á Ítalíu frá 14. febrúar til 16. ágúst 2017 meðan hann beið framsals hingað til lands. Stefndi var dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar en til frádráttar refsingunni kom fyrrgreint gæsluvarðhald sem hann sætti hér á landi. Stefndi byggir bótakröfu sína fyrir Hæstarétti á að hann hafi verið sviptur frelsi að ósekju í skilningi 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 vegna 269 daga frelsissviptingar hans umfram dæmda refsingu.
5. Með héraðsdómi 17. mars 2021 var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 4.500.000 krónur í miskabætur vegna gæsluvarðhalds sem hann sætti hér á landi en kröfu vegna ætlaðs fjártjóns var vísað frá dómi. Í hinum áfrýjaða dómi 10. júní 2022 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaskyldu áfrýjanda vegna gæsluvarðhalds stefnda hér á landi og einnig vegna gæslu hans á Ítalíu og voru miskabætur til stefnda ákveðnar 19.000.000 króna, en hvorki var fallist á kröfu hans um miskabætur vegna farbanns né vegna þess að stjórnvöld hefðu hindrað för hans úr landi að refsidómi gengnum.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 20. september 2022, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-99, á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa fordæmisgildi um skaðabótaskyldu ríkisins vegna þvingunaraðgerða við rannsókn sakamáls.
Málsatvik
7. Stefndi er […] ríkisborgari fæddur árið 1985. Þegar atvik máls urðu hafði hann ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu og hafði verið búsettur þar í landi frá 2004. Hann kom fyrst til Íslands 2. febrúar 2016 og yfirgaf landið 10. sama mánaðar. Síðar í þeim mánuði hóf héraðssaksóknari rannsókn á ætluðu peningaþvættisbroti stefnda auk þriggja annarra manna hér á landi.
8. Vegna rannsóknarinnar gaf héraðsdómur út handtökuskipun á hendur stefnda að kröfu héraðssaksóknara 30. mars 2016 á þeim grundvelli að rökstuddur grunur væri um að hann kynni að vera viðriðinn brot á tilteknum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum 155. gr. um skjalafals, 248. gr. um fjársvik og 264. gr. um peningaþvætti. Stefndi var handtekinn á Ítalíu 13. febrúar 2017. Á grundvelli Evrópusamnings um framsal sakamanna frá 13. desember 1957 sendi innanríkisráðuneytið ítölskum stjórnvöldum beiðni um framsal stefnda til Íslands 16. febrúar 2017 ásamt gögnum þar um og sendi ráðuneytið frekari gögn 16. mars 2017. Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra sendi 19. maí 2017 fyrirspurn til ítalskra yfirvalda um stöðu málsins sem var svarað 24. sama mánaðar á þann veg að því væri ekki lokið þar og að tilkynnt yrði þegar það lægi fyrir. Alþjóðadeildin sendi á ný fyrirspurn 14. júní 2017 um hvort stefndi væri enn í varðhaldi á Ítalíu. Ekkert svar barst við henni.
9. Dómsmálaráðuneyti Ítalíu samþykkti framsal stefnda til Íslands 3. júlí 2017 og var sú ákvörðun staðfest af dómstól í […] 10. sama mánaðar. Erindi barst til íslenskra yfirvalda 17. júlí þar sem tilkynnt var að framsalið hefði verið samþykkt og að íslensk yfirvöld þyrftu að sækja stefnda ekki seinna en 19. júlí 2017. Sama dag sendi ráðuneytið tilkynningu til ítalskra yfirvalda um að því hefði ekki borist formlegt samþykki fyrir framsalinu. Þess var óskað að framsali yrði frestað til 24. júlí 2017 og var það ítrekað tveimur dögum síðar. Ítölsk yfirvöld svöruðu 3. ágúst 2017 og óskuðu eftir áætlun um flutning stefnda. Ráðuneytið áréttaði 4. ágúst að engin formleg gögn hefðu borist því en ferðaáætlun yrði send að þeim mótteknum. Vegna gagnaöflunar var varðhald stefnda á Ítalíu og frestur til að flytja stefnda úr landi framlengdur 4. ágúst til 18. sama mánaðar.
10. Dómsmálaráðuneytið hér á landi fól ríkislögreglustjóra 8. ágúst að annast flutning stefnda til Íslands fyrir 18. sama mánaðar. Stefndi var fluttur til landsins 17. ágúst. Sama dag var hann í héraðsdómi úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna samkvæmt a-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til 24. sama mánaðar.
11. Eftir að fyrsta gæsluvarðhald stefnda rann út var hann fimm sinnum til viðbótar úrskurðaður í varðhald til fjögurra vikna í senn á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Vísað var til þess að brot þau sem stefndi væri grunaður um gætu varðað allt að átta ára fangelsi. Byggðu úrskurðirnir á að stefndi væri erlendur ríkisborgari með engin tengsl við Ísland en ætti eiginkonu í […] og son í […]. Var því talin hætta á að hann myndi reyna að komast úr landi eða koma sér undan málsókn með öðrum hætti og ekki talið að nærvera hans yrði tryggð með öðrum og vægari úrræðum. Stefndi kærði alla fimm úrskurðina til Hæstaréttar sem staðfesti þá með vísan til forsendna.
12. Meðan á gæsluvarðhaldi stóð var ákæra gefin út á hendur stefnda 20. september 2017 og var hann einn fjögurra ákærðra í málinu. Stefnda var gefið að sök peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa skipulagt og gefið meðákærðu fyrirmæli um peningaþvættið eftir að hann kom til landsins í febrúar 2016 gagngert í þeim tilgangi að sjá til þess að fjármunir yrðu sendir tilteknum erlendum aðilum og að brotin hefðu verið framin að hans undirlagi auk nánari tilgreiningar á háttsemi hans sem getið var í ákæru.
13. Með úrskurði Landsréttar 10. janúar 2018 var úrskurður héraðsdóms frá 8. sama mánaðar um að stefndi skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi felldur úr gildi og honum í staðinn gert að sæta farbanni á grundvelli 1. mgr. 100. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með úrskurði Landsréttar 7. mars 2018 var stefnda gert að sæta áfram farbanni þar til dómur félli í sakamálinu á hendur honum í héraðsdómi, þó eigi lengur en til 12. mars 2018.
14. Aðalmeðferð í sakamálinu fór fram dagana 7. og 11. desember 2017 og var málið þá dómtekið. Vegna tafa á að kveða upp dóm var málið endurflutt 23. febrúar 2018 og dómur kveðinn upp 8. mars sama ár. Þar var stefndi sakfelldur fyrir peningaþvætti af gáleysi samkvæmt 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Refsing hans var ákveðin fangelsi í tvo mánuði og kom gæsluvarðhald sem hann sætti til frádráttar refsingunni. Með dómi Landsréttar […] maí 2019 í máli nr. […] var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu og refsingu stefnda staðfest.
15. Þegar héraðsdómur gekk í refsimálinu 8. mars 2018 var ljóst að stefndi hafði afplánað dæmdan refsitíma að fullu vegna þess gæsluvarðhalds sem hann hafði sætt við rannsókn og meðferð málsins. Stoðdeild ríkislögreglustjóra flutti stefnda til Amsterdam 23. mars 2018 þaðan sem hann fór sjálfur til […] á Ítalíu.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
16. Áfrýjandi mótmælir þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að íslenska ríkið beri bótaábyrgð vegna gæslu stefnda á Ítalíu eftir að hann var handtekinn þar að beiðni íslenskra stjórnvalda um framsal hans í tengslum við lögreglurannsókn. Eðlilega hafi verið staðið að beiðninni og engri sök fyrir að fara við málsmeðferð hér á landi. Hvorki séu uppfyllt skilyrði 246. gr. laga nr. 88/2008 né almennra skaðabótareglna. Áfrýjandi geti ekki borið ábyrgð á atvikum á Ítalíu og byggir á aðildarskorti um kröfur sem því tengjast. Hann geti aðeins borið ábyrgð á ákvörðunum eigin starfsmanna og innan marka íslenska ríkisins.
17. Um bótakröfu vegna gæsluvarðhalds hér á landi byggir áfrýjandi á að stefndi hafi ekki verið sýknaður í sakamálinu heldur sakfelldur fyrir þann verknað sem honum var gefinn að sök í ákæru, peningaþvætti, þótt háttsemi hans væri virt sem gáleysisbrot samkvæmt 4. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Því eigi stefndi ekki rétt til bóta samkvæmt 246. gr. laga nr. 88/2008. Ekki sé heldur fullnægt skilyrðum almennra skaðabótareglna í málinu um grundvöll skaðabótaábyrgðar. Þá hafi stefndi sjálfur átt mikla og afgerandi sök á þeim þvingunarráðstöfunum sem hann var beittur.
18. Ekki sé unnt að skýra 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar með þeim hætti að hún skapi bótarétt við þessar aðstæður eins og gert sé í hinum áfrýjaða dómi. Stefndi hafi ekki verið sviptur frelsi að ósekju og hvorki sé til að dreifa saknæmri háttsemi áfrýjanda né að lögmæt skilyrði hafi skort fyrir þvingunarráðstöfunum. Í stjórnarskrárákvæðinu felist lagaáskilnaðarregla en ekki sjálfstæð bótaregla. Þá verði slík regla ekki leidd af mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og ekki sé hægt að leiða skaðabótaskyldu af 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
19. Til stuðnings varakröfu bendir áfrýjandi á að hin tildæmda fjárhæð sé alltof há og sérstaklega mótmælt að líta megi til sjónarmiða sem reifuð séu í frumvarpi til laga nr. 128/2019 um heimild til að greiða bætur vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 521/2017. Lögin hafi verið sett vegna sérstakra tilvika og mál þetta sé auk þess ekki samanburðarhæft við málin sem lögin taka til.
Helstu málsástæður stefnda
20. Stefndi byggir á því að öll gæsluvarðhaldsvist hans umfram dæmda refsingu hafi verið að ósekju í skilningi 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og bendir því til stuðnings á ummæli í greinargerð með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995.
21. Hann byggir jafnframt á því að áfrýjandi beri ábyrgð á gæslu sem honum var gert að sæta á Ítalíu. Af fyrirmælum 35. gr. laga nr. 51/2016 um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar sé ljóst að líta beri á frelsissviptingu hans í báðum löndum sem eina heild. Stefndi hafi verið í haldi á Ítalíu fyrir tilstilli íslenskra stjórnvalda og því beri áfrýjandi ábyrgð á miska sem sú frelsissvipting kunni að valda.
22. Þá bendir stefndi á að hann hafi enga sök borið á gæsluvarðhaldi umfram dæmda refsingu og hvorki valdið né stuðlað að þvingunaraðgerðum.
23. Stefndi vísar að auki til þess að bótaskylda áfrýjanda hafi stofnast þegar fyrir lá samkvæmt endanlegum dómi að hann hefði setið lengur í gæsluvarðhaldi en sú refsing sem honum var gert að sæta í sakamálinu. Í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 felist bann við því að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd. Þá beri að líta til 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar um að maður skuli aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en þörf krefur. Af þessu sé ljóst að 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar sé grundvöllur bótaábyrgðar í ólögfestum tilvikum eða þegar lög samrýmast ekki þeim grundvallarrétti sem ákvæðið áskilji.
24. Um fjárhæð miskabóta tekur stefndi fram að við ákvörðun þeirra fyrir gæsluvarðhald að ósekju beri, eins og gert var í hinum áfrýjaða dómi, að hafa hliðsjón af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 128/2019 sem og dómvenju. Séu miskabætur til stefnda samkvæmt hinum áfrýjaða dómi síst of háar og ættu í reynd að miðast við 130.000 krónur á dag eða samanlagt um 35.000.000 króna sé litið til dóms Landsréttar 17. desember 2021 í máli nr. 638/2020.
Löggjöf
25. Í 67. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað um persónufrelsi. Áskilið er í 1 mgr. að engan megi svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Ákvæði 3. og 5. mgr. greinarinnar hafa einkum þýðingu fyrir sakarefni þessa máls, en þau eru svohljóðandi:
3. mgr.
[...] Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt eða varðhald. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur, en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal ákveða í dómsúrskurði hver hún eigi að vera.
5. mgr.
Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.
26. Efni 67. gr. var fært í núverandi mynd með 5. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995 sem bættu meðal annars 5. mgr. við greinina og efni 3. mgr. um rétt handtekins manns og skilyrði gæsluvarðhalds var einnig gert mun ítarlegra en áður. Í greinargerð með 5. gr. frumvarps til fyrrgreindra laga kom fram að meðal helstu markmiða breytinganna væri að færa efni ákvæðisins til samræmis við hliðstætt ákvæði 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
27. Í greinargerðinni var einnig tekið fram að þótt ákvæði um réttindi sakaðs manns í 3. mgr. væru þegar tryggð að mestu í löggjöf um meðferð sakamála væri engu að síður þörf á að stjórnarskrárbinda þau með afdráttarlausum hætti, enda væri með frelsissviptingu gengið á ein mikilvægustu grundvallarmannréttindi einstaklinga. Því yrðu heimildir til þess að vera sérstaklega skýrar. Um fyrirmæli 3. mgr. að maður skuli aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en þörf krefur sagði að sett væri fram viss leiðbeiningar¬regla sem væri í samræmi við dómvenju um beitingu lagaheimilda til gæsluvarðhalds.
28. Um nýmæli 5. mgr. 67. gr. um bótarétt vegna frelsissviptingar sagði meðal annars í greinargerð:
Mikilvægasta skýringaratriðið í reglunni lýtur væntanlega að því að mælt er fyrir um bótarétt þess sem hefur verið sviptur frelsi að ósekju. Í síðastnefndu orðin er unnt að leggja þann almenna skilning að þau vísa til þess að maður hafi verið sviptur frelsi saklaus eða að ástæðulausu. Með orðalagi ákvæðisins er ætlunin að mönnum verði tryggður bótaréttur ef þeim hefur verið gert að sæta frelsissviptingu án þess að hafa til þess unnið. Ræðst þá bótarétturinn af því sem komið er fram þegar unnt er orðið að meta öll atvik máls. Bótaréttur getur þó fallið brott ef maður telst sjálfur hafa átt sök á því að gripið hafi verið til sviptingar frelsis hans eða frelsissvipting hafi orðið svo löng sem raun ber vitni. Í 5. mgr. 5. gr. frumvarpsins er ætlast til að nánari reglur um bótarétt manns vegna frelsissviptingar komi fram í almennum lögum, en þar yrði að taka öllu nánari afstöðu til atriða varðandi m.a. skilyrði fyrir bótaréttinum. Slíkar reglur yrðu þó að sjálf¬sögðu að samrýmast grunnreglunum sem tillögur eru gerðar um í 5. mgr. 5. gr. frumvarpsins.
29. Í 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eru fyrirmæli um skilyrði gæsluvarðhalds og er 3. mgr. ákvæðisins svohljóðandi:
Ekki er heimilt að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald ef sýnt þykir að brot, sem hann er sakaður um, muni aðeins hafa í för með sér sektir eða skilorðsbundna fangelsisrefsingu miðað við aðstæður. Enn fremur skal eftir föngum gæta þess að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þykir að fangelsisrefsing verði dæmd.
30. Í athugasemdum um 95. gr. í frumvarpi sem varð að lögum nr. 88/2008 segir að um skilyrði gæsluvarðhalds sé höfð hliðsjón af 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og c-lið 1. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Um skýringu á 3. mgr. 95. gr. laganna segir meðal annars:
Í eðli sínu er gæsluvarðhald fólgið í því að sakaður maður er sviptur frelsi í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls. Þótt gæsluvarðhaldi verði ekki jafnað til fangelsisrefsingar fyrir brot, sem maður hefur verið sakfelldur fyrir af dómstóli, hefur það engu að síður verið viðhorf löggjafans að gæsluvarðhaldsvist skuli dregin frá fangelsisvist að einhverju eða öllu leyti þegar dómur er upp kveðinn, nema hegðun sakbornings sé um að kenna, sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga. Má draga þá ályktun af þessu að forðast beri að svipta mann frelsi til langframa í kjölfar brots, sem hann er talinn hafa framið, nema líklegt sé að hann verði dæmdur til fangelsisrefsingar, þ.e. frelsissviptingar, verði hann á annað borð sakfelldur, vegna þess að annars hefði hann í raun og veru tekið út þyngri refsingu fyrir brotið en lög og lagaframkvæmd segja fyrir um. Samkvæmt meðalhófsreglunni á gæsluvarðhald heldur ekki að standa lengur en þörf krefur.
[...] Með orðalaginu „ef sýnt þykir“ er átt við að verulegar líkur séu á því þegar úrskurður er upp kveðinn að sakborningur verði ekki dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi. Sé svo ekki, t.d. ef rannsókn er nýhafin og málsatvik eru óljós, ber dómara hins vegar að taka afstöðu til kröfu um gæsluvarðhald, óháð þessu ákvæði.
Í samræmi við þau sjónarmið, sem reifuð eru hér að framan, er tekið fram í síðari málslið 3. mgr. að gæta skuli þess eftir föngum að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þykir að fangelsisrefsing verði dæmd, að teknu tilliti til eðlis brotsins og annarra atriða sem áhrif hafa á refsihæðina. Við mat á því ber m.a. að líta til þess hver verði líkleg fangelsisrefsing miðað við dómaframkvæmd.
31. Í 246. gr. laga nr. 88/2008 er fjallað um bótarétt þess sem borinn hefur verið sökum í sakamáli og eru 1. og 2. mgr. svohljóðandi:
Maður sem borinn hefur verið sökum í sakamáli á rétt til bóta skv. 2. mgr. ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur.
Dæma skal bætur vegna aðgerða skv. IX.–XIV. kafla laga þessara ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi. Þó má fella niður bætur eða lækka þær ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á.
32. Í skýringum um þessi ákvæði kemur fram að markmiðið hafi verið að rýmka skilyrði fyrir bótum vegna sakamáls og meðal annars hafi þar verið tekið mið af samsvarandi ákvæðum í 1018. gr. a–1018. gr. d dönsku réttarfarslaganna. Ákvæðunum sé ætlað að taka af allan vafa um að aðrir sakborningar en þeir sem 1. mgr. tekur til eigi ekki rétt til bóta samkvæmt reglum kaflans þótt þeir geti öðlast skaðabótakröfu á grundvelli sakarreglunnar hafi þeir beðið tjón vegna ásetnings eða gáleysis þeirra sem því hafa valdið.
33. Þegar óskað var framsals stefnda frá Ítalíu giltu lög nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum um framsalsbeiðnir milli ríkjanna. Þau voru sett meðal annars í tengslum við fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins um framsal sakamanna frá 13. desember 1957. Samningurinn skapaði gagnkvæmar þjóðréttarskyldur í þessum efnum milli Íslands og Ítalíu sem aðildarríkja að samningnum og er 1. gr. hans svohljóðandi:
Framsalsskylda.
Samningsaðilar skuldbinda sig til að afhenda hver öðrum í samræmi við ákvæði og skilyrði þau sem sett eru í samningi þessum alla þá menn sem þar til bær yfirvöld þess aðila sem framsals beiðist hafa uppi saksókn gegn fyrir afbrot eða eru eftirlýstir af þeim yfirvöldum vegna fullnustu refsidóms eða ákvörðunar um öryggisráðstöfun.
34. Lög nr. 51/2016 um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar tóku gildi að því er varðar evrópska handtökutilskipun 1. nóvember 2019 og um framsalsbeiðnir milli Íslands og ríkja Evrópusambandsins fer nú eftir fyrirmælum hennar. Er 35. gr. laganna svohljóðandi:
Frádráttur gæsluvarðhalds við fullnustu refsingar.
Nú er eftirlýstur maður sendur hingað til lands vegna fullnustu á refsingu hér á landi og skal þá draga frá refsingunni þann tíma sem hann var sviptur frjálsræði vegna meðferðar beiðninnar um afhendingu í því ríki sem tók á móti handtökuskipuninni. Sama gildir þegar eftirlýstur maður er afhentur vegna málsmeðferðar verði hann dæmdur í fangelsisrefsingu hér á landi vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni.
Niðurstaða
35. Þar sem stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms verður hér fyrir réttinum ekki leyst úr kröfum hans í stefnu í héraði um bætur fyrir farbann og ætlaðar hindranir við að hann kæmist úr landi eftir að refsidómur gekk í máli hans. Var kröfum stefnda þar um hafnað í hinum áfrýjaða dómi og hefur hann ekki gagnáfrýjað þessum þáttum málsins. Þá var kröfu um bætur fyrir fjártjón vísað frá héraðsdómi. Einskorðast úrlausn málsins því við kröfu um miskabætur vegna frelsissviptingar, annars vegar vegna gæslu á Ítalíu frá 14. febrúar 2017 allt þar til hann var fluttur til Íslands 17. ágúst það ár og hins vegar vegna gæsluvarðhalds hér á landi frá þeim degi til 10. janúar 2018.
36. Áfrýjandi hefur mótmælt ýmsum málsástæðum sem stefndi hefur uppi fyrir Hæstarétti sem ekki sé að finna í stefnu hans í héraði en þær hafi fyrst komið fram fyrir Landsrétti. Þótt fallast megi á að greinargerð stefnda til Landsréttar hafi verið úr hófi löng, leikur ekki vafi á að megin málstæðum hans sem lúta að bótagrundvelli og fjárhæð bóta hefur frá upphafi verið haldið fram af hans hálfu til stuðnings dómkröfum hans. Þær koma því til úrlausnar í málinu.
Um bótagrundvöll
37. Kjarni ágreinings aðila lýtur að bótagrundvelli fyrir kröfu stefnda vegna þeirrar frelsissviptingar sem hann sætti umfram tveggja mánaða fangelsisrefsingu sem hann hlaut í refsimáli. Nam frelsissvipting hans umfram það tæplega níu mánuðum eða 182 dögum á Ítalíu og 87 dögum hér á landi, samanlagt 269 dögum. Meginröksemdir áfrýjanda eru að þar sem stefndi hafi hvorki verið sýknaður í refsimálinu né mál hans fellt niður geti bótaregla 246. gr. laga nr. 88/2008 ekki átt við um tilvik stefnda. Engin önnur lagaheimild sé tæk sem grundvöllur bótaskyldu né heldur verði hún leidd af sakarreglunni.
38. Þau ákvæði laga nr. 88/2008 sem fjalla um réttindi handtekinna manna og skilyrði gæsluvarðhalds ber að skýra í ljósi fyrirmæla 67. gr. stjórnarskrárinnar um persónufrelsi og er ítrekað vísað til þessa stjórnarskrárákvæðis í skýringum með ákvæðum laganna.
39. Sem fyrr greinir var yfirlýst markmið stjórnarskrárgjafans 1995 að stjórnarskrárbinda rétt sakaðra manna með skýrari hætti en fyrr enda væri með frelsissviptingu gengið á ein mikilvægustu grundvallarréttindi manna. Í fyrirmælum 3. mgr. 67. gr. um að maður skuli aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur er því lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að meðalhófs sé gætt. Það lýtur ekki aðeins að þeim tíma þegar úrskurðir eru kveðnir upp heldur einnig þegar áætlað er hver endanleg fangelsisrefsing kunni að verða þótt engu verði þar slegið föstu eðli máls samkvæmt. Er þetta útfært þannig í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 að þess skuli gæta eftir föngum að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd.
40. Fyrir liggur að við rannsókn málsins beindist rökstuddur grunur að peningaþvættisbroti stefnda sem gat varðað allt að sex ára fangelsi. Þegar gæsluvarðhaldsúrskurðir yfir honum voru kveðnir upp voru þannig forsendur til að ætla að fangelsisrefsing hans yrði að lágmarki sá tími sem gæsluvarðhald stóð, en á þeim tíma var þó ókleift að meta með óyggjandi hætti hvort sönnun myndi takast sem nægði til sakfellis eða um ásetning hans til brots.
41. Á hinn bóginn varð ekki ljóst fyrr en að gengnum refsidómi þegar unnt var að meta öll atvik máls, að frelsissvipting stefnda vegna rannsóknar og meðferðar málsins hafði staðið meira en fjórfalt lengur en tildæmd refsing og hafði hann því í reynd tekið út mun þyngri refsingu fyrir brot sitt en lög og lagaframkvæmd segja fyrir um. Verður samkvæmt framangreindu ótvírætt að líta svo á að við frelsissviptingu stefnda hafi ekki verið gætt meðalhófs og hann sætt gæsluvarðhaldi langt umfram nauðsyn andstætt fyrrgreindum fyrirmælum 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar.
42. Úr framkvæmd dómstóla fyrir stjórnarskrárbreytingarnar 1995 eru dæmi þess að frelsissvipting manns sem byggðist á heimild í lögum hafi verið talin andstæð stjórnarskrá og með því hafi skapast réttur hans til miskabóta úr ríkissjóði, sbr. dóm Hæstaréttar 29. mars 1994 í máli nr. 300/1991 sem birtur er á bls. 748 í dómasafni réttarins það ár. Eftir breytingarnar á 67. gr. stjórnarskrárinnar eru sett fram bein fyrirmæli um bótarétt þess sem hefur verið sviptur frelsi og á þeim grunni byggist frekari útfærsla í bótareglum laga nr. 88/2008.
43. Sem fyrr segir einskorðast bótaréttur manns sem hefur verið borinn sökum í sakamáli, sbr. 1. og 2. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008, við að mál hans hafi verið fellt niður eða hann hafi verið sýknaður með endanlegum dómi og er hér um hlutlæga ábyrgð ríkisins að ræða. Hvorugt á við í þessu máli.
44. Fyrir liggur að stefndi hlaut ekki sýknudóm heldur var hann dæmdur til tveggja mánaða fangelsisvistar fyrir peningaþvætti af gáleysi sem var minna brot en honum var gefið að sök í ákæru. Af skýrum orðum 1. mgr. 246. gr., sem var ætlað að taka af vafa um að aðrir en þeir sem þar greinir ættu ekki rétt til bóta, leiðir að ekki er hægt að leggja til grundvallar að stefndi hafi verið sýknaður af þeim sökum sem hann var borinn. Verður sú ályktun einnig leidd af lögskýringargögnum um 246. gr. sem lýst var að framan um fyrirmynd ákvæðisins, en hliðstæðu hennar er að finna í 1. mgr. 1018. gr. a í dönsku réttarfarslögunum.
45. Í 2. mgr. hinnar dönsku fyrirmyndar sem vísað er til skýringum með 246. gr. er auk þess að finna sérreglu sem ekki er í lögum nr. 88/2008. Þar kemur fram að þótt skilyrði 1. mgr. séu ekki uppfyllt um sýknu eða niðurfellingu máls skuli einnig greiða bætur hafi frelsissvipting meðan á málsmeðferð stóð ekki reynst í sanngjörnu hlutfalli við dæmda fangelsisrefsingu eða af öðrum ástæðum ekki verið sanngjörn. Til að bótaréttur stofnist samkvæmt þessu ákvæði hefur verið litið til þess hvort verulega mikill munur er á lengd gæsluvarðhalds og dæmdrar refsingar.
46. Samkvæmt framangreindu verða atvik máls og bótaréttur stefnda ekki felld undir hlutlæga bótareglu 246. gr. laga nr. 88/2008. Þar sem stefnda hefur ekki tekist að sýna fram á að miski hans vegna frelsissviptingarinnar hafi orðið vegna ásetnings eða gáleysis áfrýjanda eða starfsmanna hans verður ekki heldur fallist á að hann hafi öðlast skaðabótakröfu á hendur áfrýjanda á grundvelli sakarreglunnar þannig að til álita komi að beita heimild b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 um miskabætur.
47. Þar sem tómarúm er í almennum lögum um bótarétt manns sem borinn hefur verið sökum við þær aðstæður sem uppi eru í máli þessu ber, eins og gert er í hinum áfrýjaða dómi, að líta til markmiðs 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og eðlis þeirrar reglu sem þar kemur fram um rétt manns til skaðabóta vegna frelsissviptingar að ósekju.
48. Eins og fyrr var lýst kemur fram sú afstaða stjórnarskrárgjafans í greinargerð að þessi orð beri að skilja svo að „maður hafi verið sviptur frelsi saklaus eða að ástæðulausu“. Þá er lýst þeirri ætlun að mönnum sé tryggður bótaréttur hafi þeim verið gert að sæta frelsissviptingu „án þess að hafa til þess unnið“ og tekið fram að bótarétturinn ráðist af því sem „komið er fram þegar unnt er orðið að meta öll atvik máls“.
49. Fyrir liggur að unnt var orðið að meta öll atvik þessa máls þegar endanlegur dómur í refsimálinu á hendur stefnda var kveðinn upp. Varð þá ljóst að hann hafði sætt gæsluvarðhaldi langt umfram nauðsyn, andstætt því sem áskilið er í 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt stefndi hafi í ljósi sakfellingardómsins ekki verið sviptur frelsi saklaus hafði hann ekki unnið til svo langrar frelsissviptingar en með því hafði hann í reynd tekið út mun þyngri refsingu fyrir brotið en hann var dæmdur til. Var stefndi í þessum skilningi því sviptur frelsi að ósekju.
50. Áfrýjandi byggir á að 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar um bótarétt sé ekki sjálfstæð bótaregla heldur lagaáskilnaðarregla og vísar því til stuðnings til dóms Hæstaréttar 12. október 2000 í máli nr. 175/2000. Lagaáskilnaðarreglur hafa þýðingu þegar þörf er á að takmarka eða skerða mannréttindi og er ætlað að tryggja réttaröryggi. Í þeim felst að takmarkanir sem settar eru réttindum manna og frelsi skuli ávallt vera lögmæltar og eiga skýra stoð í lögum. Ekki verður hins vegar fallist á að það sé forsenda þess að maður njóti réttinda sem lýst er í stjórnarskrá eða mannréttindasáttmála Evrópu að þau hafi verið fest í almenn lög og að það leysi áfrýjanda undan skyldum sínum hafi slík lög ekki verið sett.
51. Af tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í máli nr. 175/2000 verður ekki annað ályktað en að nánari útfærsla á bótareglu 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar í þágildandi lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hafi verið innan ramma stjórnarskrárákvæðisins, þar á meðal um eigin sök sakbornings eins og niðurstaða dómsins byggðist á. Í skýringum með 5. mgr. er sem fyrr greinir settur sá fyrirvari að bótaréttur geti fallið brott hafi maður sjálfur átt sök á því að gripið hafi verið til frelsissviptingar eða hún orðið svo löng sem raun ber vitni.
52. Að öllu framangreindu virtu ber áfrýjandi hlutlæga bótaábyrgð á frelsissviptingu sem stefndi sætti í gæsluvarðhaldi umfram dæmda fangelsisrefsingu. Þá verður ekki séð að stefndi hafi sjálfur átt sök á því að frelsissvipting hafi orðið svo löng sem raun bar vitni þannig að bótaréttur hans hafi fallið brott, andstætt því sem var raunin í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 175/2000.
Um gæslu stefnda á Ítalíu
53. Sérstakt úrlausnarefni er krafa stefnda um bætur fyrir frelsissviptingu sem hann sætti í sex mánuði í haldi ítalskra stjórnvalda meðan hann beið framsals hingað til lands. Í málinu liggur fyrir staðfesting frá dómsmálaráðuneyti Ítalíu um að stefndi hafi verið í haldi í tilgreindu fangelsi þar í landi umræddan tíma. Áfrýjandi byggir á að hann geti aðeins borið ábyrgð á meðferð málsins sem beinlínis hafi verið háð ákvörðunum manna sem störfuðu á hans vegum innan íslenska ríkisins en ekki á atvikum sem hafi gerst á Ítalíu.
54. Til þess er að líta að frumkvæði að og ákvörðun um handtökuskipun og beiðni um framsal stefnda frá Ítalíu var á hendi íslenskra stjórnvalda. Fór um málsmeðferð framsalsbeiðninnar og skilyrði framsals eftir fyrirmælum samnings milli ríkjanna um framsal sakamanna, en af honum leiddi einnig að meðan leyst var úr beiðninni var stefndi í haldi ítalskra stjórnvalda.
55. Samkvæmt 1. gr. samnings um framsal sakamanna frá 13. desember 1957, sem áður er getið, voru ítölsk stjórnvöld skuldbundin að þjóðarétti til að handtaka stefnda og afhenda íslenskum stjórnvöldum vegna gruns um tiltekin afbrot án þess að þar yrði lagt efnislegt mat á forsendur beiðninnar. Þannig fól gæsla stefnda á Ítalíu í sér þvingunarráðstöfun í aðdraganda málsóknar á hendur honum á Íslandi sem var viðhaldið með ítrekuðum gæsluvarðhaldsúrskurðum eftir að hann var framseldur hingað til lands.
56. Þegar þessi atvik eru metin er óhjákvæmilegt að líta á frelsissviptingu stefnda í báðum ríkjum sem eina heild. Til stuðnings þeirri skýringu má einnig líta til 35. gr. núgildandi laga nr. 51/2016 sem gerir ráð fyrir því að þegar eftirlýstur maður er framseldur hingað til lands vegna málsmeðferðar sakamáls skuli draga frá refsingunni þann tíma sem hann var sviptur frelsi vegna meðferðar beiðni um afhendingu hans í erlendu ríki. Þetta viðhorf löggjafans endurspeglast einnig í 76. gr. almennra hegningarlaga um að gæsluvarðhaldsvist skuli dregin frá fangelsisvist að einhverju eða öllu leyti þegar dómur er upp kveðinn nema hegðun sakbornings sé um að kenna.
57. Samkvæmt framansögðu standa ekki málefnaleg rök til þess að greina á milli ábyrgðar áfrýjanda á frelsissviptingu stefnda hér á landi og á Ítalíu. Ekki hafa verið bornar brigður á lögmæti framsals stefnda eða að skilyrði þess hafi verið fyrir hendi og engin rök verið færð fram af áfrýjanda fyrir því að stefndi geti átt sjálfstæðan rétt til bóta vegna miska síns gagnvart ítölskum stjórnvöldum. Ber áfrýjandi því hlutlæga bótaábyrgð vegna miska stefnda af því að sæta gæslu á Ítalíu í aðdraganda framsals hans hingað til lands með sama hætti og gildir um gæsluvarðhald hans hér á landi umfram þá tvo mánuði í fangelsi sem hann var dæmdur í.
Um bótafjárhæð
58. Samkvæmt 5. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 skal bæta fjártjón og miska og verður hið sama talið gilda þegar stofnast til bótaábyrgðar áfrýjanda vegna atvika í þessu máli sem fyrr var lýst. Krafa stefnda sem hér er til úrlausnar lýtur einvörðungu að bótum vegna miska.
59. Engar reglur hafa verið settar hér á landi um staðlaðar fjárhæðir miskabóta vegna þvingunarráðstafana á borð við gæsluvarðhald miðað við hvern dag í varðhaldi eins og má finna í nágrannalöndum. Í dómaframkvæmd hafa ekki heldur mótast viðmið um fastar fjárhæðir í þessum efnum.
60. Til hliðsjónar um mat á umfangi miska við aðrar aðstæður má benda á fyrirmæli 4. gr. skaðabótalaga um fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska vegna líkamstjóns. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. skal meðal annars litið til eðlis og afleiðinga tjóns frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola. Verður mesti miski vegna tjóns metinn til 100 stiga og eru bætur samkvæmt því 4.000.000 króna, sbr. 2. mgr., en ákveða má þær allt að 50% hærri þegar sérstaklega stendur á, sbr. 3. mgr. Hafa hæstu mögulegu bætur samkvæmt ákvæðinu verið dæmdar þegar tjónþoli hefur hlotið örkuml og þannig verið varanlega sviptur flestum lífsgæðum og háður öðrum um aðstoð við allar helstu athafnir daglegs lífs, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. október 2012 í máli nr. 6/2012. Framreiknaðar miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalaga gætu þá mest numið rúmlega 20.000.000 krónum.
61. Einnig má um mat á umfangi miska og miskabætur hafa hliðsjón af a- og b-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga um að heimilt sé að láta þann sem ábyrgð ber á líkamstjóni af ásetningi eða stórfelldu gáleysi eða ólögmætri meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns greiða miskabætur til þess sem misgert var við. Í ákvæðinu er ekki mælt fyrir um tilteknar fjárhæðir miskabóta enda er markmið þess að ákvarða beri þær eftir því sem sanngjarnt þykir. Sjónarmið um eðli bótanna sem sanngirnisbóta koma fram í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 37/1999 sem færðu ákvæðin í núverandi horf og höfðu meðal annars það markmið að bæta réttarstöðu þolenda afbrota. Þar var tekið fram að við ákvörðun bóta ætti að líta til umfangs tjóns, sakar tjónvalds og fjárhagsstöðu hans en einnig var vísað til alvarlegra afleiðinga þegar um væri að ræða börn sem væru fórnarlömb kynferðisbrota.
62. Nefna má til hliðsjónar tvo dóma Hæstaréttar sem dæmi um miskabætur á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga þar sem fallist var á að um mjög mikinn og langvarandi, jafnvel ævilangan, miska hafi verið að ræða. Annars vegar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 6/2012 en þar voru dæmdar 5.000.000 króna í miskabætur á grundvelli a-liðar 1. mgr. 26. gr. og hins vegar dóm Hæstaréttar 16. desember 2021 í máli nr. 31/2021 en þar voru dæmdar 2.000.000 króna í miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr.
63. Löggjafinn hefur ekki tekið afstöðu til þess hvaða sjónarmið ber að leggja til grundvallar ákvörðun um umfang miska og fjárhæð bóta þegar maður er sviptur frelsi með gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn ber til eins og hér á við eða þegar skilyrði 246. gr. laga nr. 88/2008 eru uppfyllt. Þannig hafa fjárhæðir miskabóta samkvæmt 246. gr. byggst á matskenndri ákvörðun dómara og verið ákveðnar heildstætt í einu lagi. Þegar litið er til dómaframkvæmdar um miskabætur fyrir gæsluvarðhald sést að ákvarðanir eru stundum lítt eða ekki rökstuddar og þá eru niðurstöður um fjárhæðir sundurleitar. Ekki liggur fyrir skýr dómvenja um hvað skal lagt til grundvallar þegar raunverulegt umfang miska er metið og hvert sé inntak hans þótt ákveðin atriði hafi þar að jafnaði nokkra þýðingu.
64. Í hinum áfrýjaða dómi er um ákvörðun bótafjárhæðar til stefnda höfð hliðsjón af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 128/2019 auk þess sem vísað er til dómvenju. Í þessu sambandi skal tekið fram að umrædd lagasetning laut að sértækri heimild ráðherra til að greiða bætur vegna atvika í svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmáli sem eru í grundvallaratriðum ólík atvikum í máli þessu. Í greinargerð frumvarpsins er tekið fram að sýknudómur Hæstaréttar hafi verið einstæður atburður í réttarsögu Íslands. Umfjöllun um dómaframkvæmd í greinargerðinni takmarkast við mál þar sem menn hafa saklausir hlotið þunga refsidóma, mál hafa verið felld niður eða menn sýknaðir af sakargiftum, auk harðneskjulegrar meðferðar sem þeir hafi sætt í varðhaldi. Þar birtist loks sú ályktun að dagleg fjárhæð miskabóta vegna frelsissviptingar að ósekju sé á bilinu 150.000–200.000 krónur sem virðist lækka eftir því sem vistin er lengri.
65. Við heildarmat og ákvörðun bóta í máli þessu verður að líta til nokkurra þátta. Fyrst til þess að ólíkt þeim aðstæðum sem taldar eru í 1. mgr. 246. gr. laga nr. 88/2008 þá hlaut stefndi í reynd refsidóm vegna þeirra atvika sem lögreglurannsókn beindist að og ákvörðun um gæsluvarðhald hvíldi á þótt varðhaldið hefði síðar reynst mun lengra en hin dæmda fangelsisrefsing. Þetta hefur veigamikla þýðingu við mat á miska stefnda og umfangi hans, sem myndi teljast meira hefði stefndi saklaus verið sviptur frelsi. Er reyndar ekki að finna fordæmi úr dómaframkvæmd þar sem miskabætur hafa verið dæmdar til dómfelldra manna vegna gæsluvarðhalds sem þeir sættu við rannsókn máls.
66. Við mat á raunverulegu umfangi miska stefnda að öðru leyti ber einnig að hafa í huga að hann hefur ekki fært fram sérfræðileg gögn til að færa sönnur á miska sinn vegna frelsissviptingar, svo sem um afleiðingar hennar, þar á meðal hvort um langvarandi áhrif kunni að vera að ræða. Verður því að styðjast við ýmis hlutræn atriði til ákvörðunar þar um.
67. Fyrst ber að nefna að lengd frelsissviptingar stefnda var langt umfram dæmda refsingu hans eða 269 dagar en dæmd fangelsisrefsing var 61 dagur. Hefur þeim dagafjölda ekki verið mótmælt af hálfu áfrýjanda.
68. Þá skal litið til þess að stefndi sætti ekki einangrun samkvæmt b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008 þótt settar væru takmarkanir við heimsóknum til hans og fjarskiptanotkun fyrstu vikuna í gæsluvarðhaldi hér á landi frá 17. til 24. ágúst 2017 vegna rannsóknarhagsmuna. Hefur einangrun verið talin gæsluvarðhaldsföngum sérstaklega þungbær, andlega og líkamlega, og til þess fallin að auka miska svo sem ítrekað hefur verið staðfest í dómaframkvæmd.
69. Stefndi hefur ekki getað fært sönnur á staðhæfingar sínar um að hann hafi orðið fyrir persónulegu aðkasti í fangelsi hér á landi þótt hann hafi verið ósáttur við að vera fluttur milli fangelsa. Er ekkert komið fram í málinu annað en að stefndi hafi í gæsluvarðhaldi hér á landi fengið þá meðferð sem honum er tryggð samkvæmt 99. gr. laga nr. 88/2008 en engar upplýsingar liggja fyrir um aðstæður hans í haldi á Ítalíu annað en staðfesting ítalskra stjórnvalda um að hann hafi verið í haldi þar í fangelsi. Önnur atriði sem litið hefur verið til í dómaframkvæmd og geta verið til þess fallin að auka miska þeirra sem sæta varðhaldi, svo sem ungur aldur, sérstaklega viðkvæm staða eða aðrar þungbærar aðstæður eiga ekki við í máli stefnda.
70. Stefndi hlaut refsidóm fyrir peningaþvætti og þannig gaf háttsemi hans réttmætt tilefni til handtöku og frelsissviptingar í þágu rannsóknar málsins. Hins vegar er ekkert komið fram um að stefndi hafi sjálfur átt sök á að frelsissviptingin varð svo löng sem raun bar vitni þannig að lækka beri bætur til hans af þeirri ástæðu. Lengst af var stefndi í haldi ítalskra stjórnvalda á meðan framsalsbeiðni var til meðferðar þar. Að loknu gæsluvarðhaldi hér á landi vegna rannsóknarhagsmuna var ekkert í framgöngu stefnda sem gaf tilefni til áframhaldandi varðhalds. Var frelsissvipting hans þaðan í frá studd þeim rökum að hann væri útlendingur sem ekki hefði tengsl við landið og talið líklegt af þeirri ástæðu einni að hann myndi reyna að komast undan málsókn.
71. Að öllu framangreindu virtu verða miskabætur til stefnda ákveðnar 6.000.000 króna með vöxtum í samræmi við kröfugerð stefnda eins og í dómsorði greinir.
72. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti eru staðfest.
73. Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Um gjafsóknarkostnað stefnda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, A, 6.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2018 til 17. mars 2021 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað í héraði og fyrir Landsrétti skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Kristins Hallgrímssonar, 1.200.000 krónur.