Hæstiréttur íslands
Mál nr. 22/2022
Lykilorð
- Hæfi dómara
- Vanhæfi
- Ómerking dóms Landsréttar
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 1. apríl 2022. Þeir krefjast sýknu af kröfum stefnda. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um annað en málskostnað sem falli niður í héraði og fyrir Landsrétti. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
4. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt 11. október 2022 um formhlið þess.
Ágreiningsefni
5. Stefndi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir við kaup á fjárfestingasjóðnum Kcaj Limited Liability Partnership sem skráður var í Bretlandi. Sá sjóður átti að fullu eignarhaldsfélagið Duchamp Holding Limited en það félag átti rekstrarfélagið Duchamp Limited sem hannaði og seldi karlmannsföt í heildsölu og smásölu. Við þau kaup naut stefndi ráðgjafar áfrýjandans Arev verðbréfafyrirtækis hf. á grundvelli samnings 20. febrúar 2014 um söluráðgjöf. Jafnframt gerðu sömu aðilar með sér eignastýringarsamning 28. mars sama ár. Áfrýjandinn Jón var starfsmaður og einn eigenda áfrýjandans Arev verðbréfafyrirtækis hf. og kom fram gagnvart stefnda sem ráðgjafi við kaupin. Krafa stefnda á hendur þessum áfrýjendum er reist á reglunni um ábyrgð á sérfræðiráðgjöf á grundvelli fyrrgreindra samninga um söluráðgjöf og eignastýringu og á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Krafa stefnda á hendur áfrýjandanum Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er byggð á ábyrgðartryggingu sem tekin var hjá félaginu.
6. Með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tók héraðsdómur þá ákvörðun að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt um þær málsástæður áfrýjenda að ætlaðar kröfur á hendur þeim væru fyrndar. Með héraðsdómi 6. júlí 2021 var þessum málsástæðum hafnað en ákvörðun málskostnaðar látin bíða endanlegs dóms í málinu. Niðurstaða héraðsdóms um fyrningu var staðfest með hinum áfrýjaða dómi 11. febrúar 2022 en áfrýjendum gert að greiða stefnda óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti.
7. Áfrýjunarleyfi var veitt 1. apríl 2022 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-26 á þeim grunni að ástæða væri til að ætla að dómur Landsréttar væri bersýnilega rangur um ákvörðun málskostnaðar, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þetta var reist á því að tekin var til greina krafa stefnda um málskostnað í héraði þótt félagið hefði ekki áfrýjað héraðsdómi til að fá þann þátt málsins endurskoðaðan fyrir Landsrétti.
8. Með úrskurði forseta Landsréttar 5. nóvember 2021 viku allir dómarar réttarins sæti í málinu og voru því settir þrír dómarar til að fara með það. Í beiðni áfrýjendanna Arev verðbréfafyrirtækis hf. og Jóns 10. mars 2022 um leyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar var því hreyft að tveir þessara dómara kynnu að hafa verið vanhæfir til að dæma málið. Einnig var vikið að þessu í greinargerð þessara áfrýjenda til Hæstaréttar. Við flutning um formhlið málsins var fjallað um þetta atriði.
Málsatvik
9. Málsatvikum er skilmerkilega lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir starfaði sérstakt ráðgjafaráð á vegum stefnda en hlutverk þess var eftir samþykktum félagsins að veita ráðgjöf um hugsanlega hagsmunaárekstra, ákvarða framlengingu á líftíma sjóðsins og fjalla um og samþykkja ráðgjafarþóknanir til tengdra aðila. Í ráðinu áttu sæti þrír fulltrúar valdir með beinni kosningu á hluthafafundi félagsins.
10. Ráðgjafaráðið fundaði 4. maí 2016 á lögmannsstofunni Landslögum slf. og var tilefni fundarins meðal annars vanskil hluthafa á hlutafjárloforðum og fyrirhuguð innheimta þeirra, ýmis vanskil stefnda og hagsmunaárekstrar einstakra hluthafa og félagsins. Í fundargerðinni voru raktar tillögur sem miðuðu að því að færa rekstur Duchamp Limited ásamt helstu verðmætum í nýtt félag. Einnig tóku tillögurnar til skuldaskila og gerðu meðal annars ráð fyrir að hluthafalán frá stefnda yrði eftir í eldra félaginu. Fært var í fundargerðina að Björg Kjartansdóttir, fjárfestingarstjóri stefnda, hefði þegar eftir að hún hefði fengið þessar tillögur byrjað að leita leiða til þess að upplýsa um framferði sem hún teldi fela í sér algeran forsendu- og trúnaðarbrest gagnvart hluthöfum stefnda. Hefði hún í framhaldi af þessu hafið leit að lögmanni og endað á því að leita til Hlyns Halldórssonar hjá lögmannsstofunni Landslögum slf. sem jafnframt ritaði fundargerðina.
11. Ráðgjafaráðið fundaði aftur 9. maí 2016 á skrifstofu Almenna lífeyrissjóðsins eða fimm dögum eftir fyrrgreindan fund þess. Tilefnið var meðal annars að afla skýringa frá áfrýjandanum Jóni, sem sótti fundinn, um vanefnd á hlutafjárloforðum Arev Brands Limited og Eignarhaldsfélagsins Arev hf. gagnvart stefnda en þau félög munu bæði hafa verið í eigu hans. Auk ráðgjafaráðsins sátu fundinn Björn Jóhannesson, framkvæmdastjóri áfrýjandans Arev verðbréfafyrirtækis hf., og fyrrgreindur lögmaður Hlynur Halldórsson sem einnig færði fundargerð. Þar var fært til bókar að ekki hefðu komið fram skýringar á greiðsludrætti hlutafjár nefndra félaga í stefnda. Einnig kom fram að á fundinum hefði verið borin undir fyrirsvarsmann áfrýjandans Arev verðbréfafyrirtækis hf. og áfrýjandann Jón tilkynning undirrituð af þeim síðarnefnda til fyrirtækjaskrár Ríkisskattstjóra 5. nóvember 2015 þar sem tilkynnt var að innborgað hlutafé til stefnda næmi 659.575.580 krónum. Tekið var fram í fundargerðinni að engar skýringar hefðu verið gefnar á því hvers vegna tilkynningin var send þótt umrædd félög hefðu verið í verulegum vanskilum með greiðslu hlutafjár. Jafnframt var bókað að áfrýjandinn Jón hefði ekki útskýrt ástæðu þess að hann hefði fyrir hönd stefnda undirritað hlutaskrá félagsins 30. desember 2015 um að innborgað hlutafé 7. sama mánaðar næmi nefndri fjárhæð þótt honum hefði verið kunnugt um vanskilin. Í niðurlagi fundargerðarinnar sagði að fyrirsvarsmanni áfrýjandans Arev verðbréfafyrirtækis hf. og áfrýjandanum Jóni hefði verið greint frá því að málið væri þess eðlis að boða þyrfti til fundar með hluthöfum stefnda en þar mætti gera ráð fyrir að tekin yrði ákvörðun um að segja upp eignastýringarsamningi stefnda við áfrýjandann Arev verðbréfafyrirtæki hf. auk þess sem breytingar yrðu gerðar á samþykktum félagsins.
12. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að Hlynur Halldórsson lögmaður hafi gætt hagsmuna stefnda eftir fund ráðgjafaráðsins 9. maí 2016.
Lagareglur um sérstakt hæfi
13. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í lögskýringargögnum með þessu ákvæði segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og að aðilar njóti jafnræðis að því leyti. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína einkum til 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en þar segir að þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti skuli hann eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
14. Fyrirmæli um sérstakt hæfi dómara til að fara með og dæma einkamál eru í 5. gr. laga nr. 91/1991. Þar er lýst nánar tilgreindum atvikum eða aðstæðum í liðum a til f. Þegar þeim liðum sleppir segir síðan í g-lið greinarinnar að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
15. Þegar lagt er mat á hæfi dómara til að fara með mál er þess að gæta að tilgangur hæfisreglna að réttarfarslögum er ekki aðeins að koma í veg fyrir að dómari dæmi mál, ef hann er hlutdrægur gagnvart aðilum máls eða sakarefninu, heldur jafnframt að tryggja traust bæði aðila máls og almennings til dómstóla með því að dómari standi ekki að úrlausn máls þegar réttmætur vafi gæti risið um óhlutdrægni hans. Við þessar aðstæður ber dómara að víkja sæti eins og ítrekað hefur verið slegið föstu í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Um það má má í dæmaskyni nefna dóma réttarins 22. júní 2020 í máli nr. 35/2020, 1. júní 2017 í máli nr. 90/2016 og 22. apríl 2015 í máli nr. 511/2014.
16. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur við úrlausn þess hvort dómari telst óvilhallur í skilningi 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans verið greint á milli athugunar sem miðar annars vegar að því að ganga úr skugga um hvaða viðhorf hafa ráðið hjá dómara í tilteknu máli (huglægur mælikvarði) og hins vegar hvort fyrir hendi eru hlutlæg atriði sem gefa réttmætt tilefni til að draga í efa að dómari sé óvilhallur (hlutlægur mælikvarði). Um þetta má meðal annars vísa til dóma 23. apríl 2015 í máli nr. 29369/10, Morice gegn Frakklandi (sjá 73. til 78. lið dómsins) og 10. apríl 2003 í máli nr. 39731/98, Pétur Þór Sigurðsson gegn Íslandi (sjá 37. lið dómsins). Þessi viðmið hafa verið lögð til grundvallar við skýringu 70. gr. stjórnarskrárinnar og lagaákvæða um sérstakt hæfi dómara eins og ráðið verður af fyrrgreindum dómum Hæstaréttar.
17. Eftir huglægum mælikvarða um hæfi dómara, sem lýtur að viðhorfi hans til aðila máls eða sakarefnis, verður að gera ráð fyrir að hann sé hæfur til meðferðar þess nema leiddar séu líkur að hinu gagnstæða. Að því er varðar hlutlægan mælikvarða ber að meta hvort ytri sýnileg atvik eða aðstæður gefa tilefni til að draga með réttu óhlutdrægni dómara í efa. Þetta getur meðal annars lotið að tengslum hans við sakarefni, aðila máls, fyrirsvarsmenn þeirra, vitni eða málflytjendur. Ekki er nægjanlegt að dómari sjálfur telji sig óhlutdrægan heldur verður ásýnd dómsins að vera sú að réttmætur vafi rísi ekki um hvort svo sé.
18. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991 gætir dómari að hæfi sínu af sjálfsdáðum og gildir sú regla á öllum dómstigum, sbr. 166. gr. og 190. gr. laganna. Af því leiðir að dómara ber að víkja sæti ef vanhæfisástæða er fyrir hendi þótt málsaðili hafi ekki uppi kröfu um það. Að sama skapi verður dómur undirréttar ómerktur ef vanhæfur dómari hefur dæmt mál og gildir þá alla jafna einu þótt aðili máls hafi vitað eða mátt vita að vanhæfur dómari sat í því. Hér má til hliðsjónar benda á dóma Hæstaréttar 7. júní 2007 í máli nr. 400/2006 og 10. nóvember 2011 í máli nr. 291/2010 þar sem um var að ræða mál sem bæði voru endurupptekin fyrir Hæstarétti af þeirri ástæðu að sami hæstaréttardómari hafði setið í dómi vanhæfur vegna fyrri aðkomu að málunum sem lögmaður. Einnig má nefna dóm Hæstaréttar 21. febrúar 2013 í máli nr. 444/2012. Um þessa skyldu dómara til að gæta sjálfur að hæfi sínu skiptir engu hvort ástæða vanhæfis eru þau atriði sem rakin eru í liðum a til f í 5. gr. eða þau atvik eða aðstæður sem getur í g-lið sömu greinar enda standa til þess ríkir hagsmunir samkvæmt framansögðu að vanhæfur dómari dæmi ekki mál.
Niðurstaða
19. Af hálfu áfrýjendanna Arev verðbréfafyrirtækis hf. og Jóns hefur verið vakin athygli á því að Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson og Jóna Björk Helgadóttir, sem dæmdu málið í Landsrétti, hafi á þeim tíma sem Hlynur Halldórsson lögmaður gætti hagsmuna stefnda bæði starfað með honum á lögmannsstofunni Landslögum slf. auk þess sem Jóna Björk sé enn meðeigandi Hlyns að stofunni. Af þessari ástæðu kunni nefndir dómarar að hafa verið vanhæf til að fara með málið og því beri að ómerkja hinn áfrýjaða dóm án kröfu.
20. Stefndi hefur aftur á móti bent á að Hlynur hafi haft afar takmarkaða aðkomu að málinu og einna helst virst hafa komið að því sem óháður ráðgjafi til að koma upplýsingum á framfæri við ráðgjafaráð stefnda án þess að hafa gætt hagsmuna hans á fyrri stigum. Verði því ekki talið að Hlynur geti haft einhverra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins, hvorki fjárhagslega né annars konar, svo sem tengda orðspori. Því séu ekki fyrir hendi atvik eða aðstæður sem valdi því að draga megi með réttu í efa óhlutdrægni framangreindra dómara sem fyrrverandi og núverandi samstarfsmanna Hlyns á þeim grunni að hann hafi ríflega fimm árum fyrir áfrýjun málsins til Landsréttar ritað fundargerðir þær sem lagðar voru fram í málinu.
21. Í málinu hefur ekkert komið fram um að umræddir dómarar málsins í Landsrétti, þau Vilhjálmur Hans og Jóna Björk, hafi haft einhver þau viðhorf til málsaðila eða sakarefnisins að hæfi þeirra til að fara með og dæma málið verði með réttu dregið í efa. Ræðst hæfi þeirra þess vegna af því hvort ytri atvik gefi réttmætt tilefni til að efast um óhlutdrægni þeirra þannig að traust til réttarins bíði hnekki. Í því sambandi er þess að gæta að fyrrnefndur lögmaður á lögmannsstofunni Landslögum slf. gætti án nokkurs vafa hagsmuna stefnda í maí 2016, eins og hér hefur verið rakið, en umræddir dómarar hafa fyrrgreind tengsl við þá lögmannsstofu.
22. Samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með og dæma mál ef hann hefur gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það. Af þessu leiðir að sá sem hefur veitt aðila lögmannsþjónustu vegna sakarefnisins er vanhæfur og skiptir þá engu hvort hagsmunagæslan hefur verið veitt fyrir eða eftir málshöfðun eða hvort hún var umfangsmikil eða óveruleg. Utan ákvæðisins falla hins vegar þau tilvik þegar hagsmunagæslan varðar annað sakarefni en það sem dómari hefur til úrlausnar, sbr. það sem reyndi á í dómum Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019 og 10. desember 2020 í máli nr. 20/2020, og þegar starfstengsl eru eða hafa verið milli dómara og lögmanns aðila. Eftir atvikum getur sú aðstaða þó valdið því að dómari teljist vanhæfur á grundvelli g-liðar 5. gr. laganna.
23. Fyrir liggur að umræddir tveir dómarar málsins í Landsrétti voru í maí 2016 eigendur að lögmannsstofunni Landslögum slf. ásamt umræddum lögmanni sem gætti hagsmuna stefnda. Einnig liggur fyrir að eigendur stofunnar stóðu í sameiningu að rekstri hennar. Höfðu dómararnir því á þeim tíma hagsmuna að gæta af málinu sem var til meðferðar á lögmannsstofu þeirra, auk þess sem annar dómaranna er enn meðeigandi Hlyns Halldórssonar að lögmannsstofunni. Af þessum sökum verður talið að dómur þar sem þessir tveir dómarar tóku sæti hafi ekki yfir sér það yfirbragð hlutleysis sem gera verður kröfu um svo að dómstólar skapi sér það traust sem nauðsynlegt er að þeir njóti í lýðræðisþjóðfélagi. Af þeirri ástæðu voru dómararnir vanhæfir til að fara með málið og dæma í því, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn áfrýjaði dómur verður því ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar fyrir Landsrétti.
24. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.