Hæstiréttur íslands
Mál nr. 5/2025
Lykilorð
- Skaðabætur
- Fiskveiðistjórn
- Veiðiheimildir
- Aflaheimild
- Atvinnuréttindi
- Tjón
- Sönnun
- Matsgerð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.
2. Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2025. Hann krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 27. janúar 2025. Hann krefst þess aðallega að aðaláfrýjandi verði dæmdur til greiða sér annars vegar 356.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. desember 2015 til 27. nóvember 2022 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hins vegar 317.900.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 85.900.000 krónum frá 6. desember 2015 til 27. nóvember 2022, af 86.000.000 króna frá 6. apríl 2016 til 27. nóvember 2022, af 86.000.000 króna frá 5. apríl 2017 til 27. nóvember 2022, af 60.000.000 króna frá 10. apríl 2018 til 27. nóvember 2022 og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af framangreindum kröfuliðum, uppreiknuðum frá 27. nóvember 2022 til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér annars vegar 275.800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. desember 2015 til 27. nóvember 2022 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af uppreiknaðri kröfunni frá þeim degi til greiðsludags. Hins vegar 239.400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 af 77.000.000 króna frá 6. desember 2015 til 27. nóvember 2022, af 60.200.000 krónum frá 6. apríl 2016 til 27. nóvember 2022, af 60.200.000 krónum frá 5. apríl 2017 til 27. nóvember 2022, af 42.000.000 króna frá 10. apríl 2018 til 27. nóvember 2022, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af uppreiknuðum framangreindum kröfuliðum frá 27. nóvember 2022 til greiðsludags. Til þrautavara krefst gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér bætur að álitum en að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Þá krefst hann staðfestingar á málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms, auk málskostnaðar fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Með dómum Hæstaréttar 6. desember 2018 í málum nr. 508/2017 og 509/2017 var viðurkennt að aðaláfrýjandi bæri skaðabótaábyrgð á því fjártjóni sem gagnaðilar í þeim málum, Huginn ehf. í fyrrnefnda málinu og Ísfélag Vestmannaeyja hf. í því síðarnefnda, kynnu að hafa orðið fyrir vegna þess að skipum þeirra var á árunum 2011 til 2014 úthlutað minni veiðiheimildum í makríl en skylt var samkvæmt lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Í kjölfar dómanna gerðu aðilar þessa máls dómsátt í viðurkenningarmáli sem gagnáfrýjandi hafði höfðað af sama tilefni. Með sáttinni viðurkenndi aðaláfrýjandi bótaskyldu gagnvart gagnáfrýjanda.
5. Í máli þessu sem gagnáfrýjandi höfðaði 6. desember 2019 krefur hann aðaláfrýjanda fébóta vegna tjóns sem hann hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar skerðingar á úthlutun heimilda til veiða á makríl framangreind ár 2011 til 2014 sem og árin 2015 til 2018. Lögum nr. 151/1996 var breytt með lögum nr. 46/2019 og tekin upp aflamarksstjórn með hlutdeildarsetningu við veiðar á makríl. Afmarkast ágreiningur aðila við úthlutun veiðiheimilda árin 2011 til og með 2018.
6. Undir rekstri málsins í héraði öfluðu báðir aðilar matsgerða dómkvaddra manna. Matsgerð sú sem gagnáfrýjandi beiddist er frá 27. október 2022 og lýtur að nánar tilgreindum atriðum um ætlað fjártjón gagnáfrýjanda. Aðaláfrýjandi aflaði einnig matsgerðar sömu matsmanna vegna tiltekinna atriða. Lá sú matsgerð fyrir 20. janúar 2023.
7. Í héraðsdómi var vísað til þess að matsgerð þeirri sem gagnáfrýjandi beiddist hefði ekki verið hnekkt með yfirmati. Var þar hafnað þeim staðhæfingum aðaláfrýjanda að tjón gagnáfrýjanda væri ósannað. Voru honum dæmdar bætur á grundvelli varakröfu hans. Í hinum áfrýjaða dómi var niðurstaða matsgerðarinnar lögð til grundvallar en þó þannig að miðað var við meðalhagnað eingöngu og 30% lækkun á matsfjárhæð vegna óvissuþátta. Kröfur gagnáfrýjanda vegna áranna 2011 og 2012 voru taldar fyrndar.
8. Áfrýjunarleyfi var veitt 24. janúar 2025, með ákvörðunum Hæstaréttar nr. 2024-149 og 156, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi meðal annars um sönnunarfærslu og ákvörðun fjártjóns.
Málsatvik
Tilhögun á úthlutun aflaheimilda í makríl 2011 til 2018
9. Í hinum áfrýjaða dómi sem og héraðsdómi er gerð grein fyrir málavöxtum. Þess er þó að gæta að efni og tilhögun kröfugerðar og málatilbúnaður gagnáfrýjanda hefur tekið nokkrum breytingum undir rekstri málsins svo sem nánari grein verður gerð fyrir.
10. Málið á sem fyrr segir rætur að rekja til ágreinings um þá tilhögun sem viðhöfð var við úthlutun aflaheimilda í makríl árin 2011 til 2018 en þeim bar að úthluta á grundvelli fyrirmæla fyrrnefndra laga nr. 151/1996 svo og laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Þess í stað grundvallaðist úthlutun hvers árs á fyrirmælum reglugerða, sem settar voru árlega, um stjórn makrílveiða íslenskra fiskiskipa.
11. Af sömu ástæðum og greindi í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar í málum nr. 508 og 509/2017 hafði gagnáfrýjandi rekið dómsmál, sem þingfest var 14. júní 2016, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu aðaláfrýjanda. Að gengnum tilvitnuðum dómum Hæstaréttar gerðu aðilar með sér dómsátt 28. maí 2019. Með sáttinni viðurkenndi aðaláfrýjandi að bera skaðabótaábyrgð á fjártjóni sem gagnáfrýjandi kynni að hafa orðið fyrir vegna þess að tilgreindum fiskiskipum félagsins hefði verið úthlutað minni aflaheimildum í makríl en skylt var. Þar var þó jafnframt áréttað að þrátt fyrir sáttina viðurkenndi aðaláfrýjandi ekki að gagnáfrýjandi hefði raunverulega orðið fyrir tjóni.
12. Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 508 og 509/2017 sem málsókn þessi sækir stoð í kom fram að niðurlagsákvæði 5. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996 væri fortakslaust um að þegar ráðherra setti sérstakar reglur um stjórn veiða íslenskra skipa á grundvelli þess ákvæðis giltu ákvæði 5. og 6. gr. laganna eftir því sem við gæti átt. Lagt var til grundvallar að með reglugerðum sem ráðherra hefði sett um makrílveiðar íslenskra skipa innan og utan íslenskrar lögsögu á árunum 2008 til 2014 hefði í skilningi 2. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 verið tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr makrílstofninum. Þá var talið að veiðireynsla í makríl hefði verið orðin samfelld árið 2011. Af því leiddi að við úthlutun aflaheimilda í makríl árið 2011 og síðar hefði verið skylt að ákvarða aflahlutdeild fiskiskipa gagnáfrýjanda í samræmi við 2. mgr. 5. gr. laganna. Það hefði ekki verið gert og gagnáfrýjanda því verið úthlutað minni heimildum en hann hefði átt rétt til. Voru viðurkenningarkröfur viðkomandi útgerða því teknar til greina.
13. Sem fyrr segir var lögum nr. 151/1996 breytt með lögum nr. 46/2019, sbr. bráðabirgðaákvæði við fyrrnefndu lögin, og veiðarnar hlutdeildarsettar. Í ákvæðinu kom fram að Fiskistofa skyldi úthluta einstökum skipum aflahlutdeild í Norðaustur-Atlantshafsmakrílstofninum á grundvelli tíu bestu aflareynsluára þeirra á árunum 2008 til 2018 að báðum árum meðtöldum. Hefði skip komið í stað skips sem áunnið hefði sér aflareynslu á umræddu tímabili skyldi það njóta hennar.
14. Skaðabótakröfu sína í málinu fyrir ætlað tjón vegna skertra aflaheimilda í makríl árin 2011 til 2018, samtals 981.553.453 krónur, reisti gagnáfrýjandi upphaflega á útreikningum endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte ehf., sbr. minnisblað 26. nóvember 2019. Þeim útreikningum mótmælti aðaláfrýjandi. Undir rekstri málsins í héraði var sem fyrr segir aflað tveggja matsgerða dómkvaddra manna. Verður nánar vikið að efni þeirra hér í framhaldinu.
Niðurstöður matsgerðar gagnáfrýjanda
15. Undir rekstri málsins í héraði óskaði gagnáfrýjandi, 5. maí 2020, dómkvaðningar sérfróðra manna til þess að meta ætlað tjón sitt. Voru tveir nafngreindir menn, dósent í fjármálum og löggiltur endurskoðandi, dómkvaddir 29. júní 2020 og er matsgerð þeirra frá 27. október 2022.
16. Matsmenn voru í fyrsta lagi beðnir að svara því hver rétt aflahlutdeild skipa gagnáfrýjanda hefði verið ef löglega hefði verið staðið að málum, veiðar hlutdeildarsettar árið 2011 og að gefinni þeirri forsendu að hlutdeild skipa gagnáfrýjanda hefði haldist óbreytt frá ári til árs. Varð niðurstaða matsmanna að hún hefði að réttu átt að nema samtals 10,0193276% af heildarúthlutun. Ekki er deilt um þá niðurstöðu í málinu.
17. Matsmenn voru jafnframt beðnir um að meta tjón gagnáfrýjanda miðað við framangreinda forsendu um rétta árlega aflahlutdeild. Spurningar gagnáfrýjanda og samandregin svör matsmanna voru svofelld:
[…] óskast reiknað út og metið það fjárhagstjón sem matsbeiðandi kann að hafa orðið fyrir vegna þess að honum var ekki réttilega úthlutað aflaheimildum í makríl á árunum 2011 til 2018. Tekjuskerðingin verði sundurliðuð þannig að áhrif tekjutapsins verði metin sérstaklega eftir því hvernig skerðingin hafi komið niður á eftirtalda þætti í starfsemi matsbeiðanda:
a) Útgerð
b) Landvinnslu (frystihús)
c) Eigin sölufélög afurða
d) Mjöl- og lýsisverksmiðju
Mat matsmanna á fjárhagstjóni VSV í formi missis hagnaðar vegna þess að skipum VSV var ekki réttilega úthlutað aflaheimildum í makríl á árunum 2011 til 2018 er um 736 milljónir króna.
[…] sýnir þær viðbótaraflaheimildir sem skip VSV hefðu fengið úthlutað á árunum 2011–2018 hefði makríll verið hlutdeildarsettur árið 2011, og mat matsmanna á þeim hagnaði sem VSV hefði haft af veiðum, vinnslu og sölu skv. þeim, sundurliðað á útgerð, vinnslu- og afurðarsölu, bæði í krónum pr. kg af veiddum afla og í heild í milljónum króna. Matsmenn hafa ekki nægjanleg gögn til að áætla með neinni vissu skiptingu hagnaðarmissis vinnslu milli frystihúss annars vegar og mjöl- og lýsisverksmiðju hins vegar. […]
Mikil óvissa er í matinu vegna ófullnægjandi gagna og upplýsinga um tekjur og gjöld VSV vegna veiða, vinnslu og sölu á makríl. Að mati matsmanna geta óvissuþættir í matinu hnikað niðurstöðum þess til um allt að 30% til hækkunar eða lækkunar. Að teknu tilliti til allra óvissuþátta liggur fjárhagstjón VSV á bilinu 515–960 milljónir króna.
Niðurstöður matsgerðar aðaláfrýjanda
18. Með matsbeiðni 27. maí 2020 óskaði aðaláfrýjandi eftir að dómkvaddir matsmenn svöruðu nokkrum viðbótarspurningum. Voru sömu menn dómkvaddir 29. júní það ár og er matsgerð þeirra frá 20. janúar 2023. Aðaláfrýjandi óskaði eftir því að matsmenn lýstu hvernig veiðigeta þeirra skipa gagnáfrýjanda sem aflaheimildum var úthlutað til í makríl var nýtt árin 2011 til 2018. Einnig óskaði hann eftir sundurliðun aflaheimilda sem gagnáfrýjandi ýmist leigði til sín eða frá sér á umræddu tímabili og jafnframt sambærilegra upplýsinga um einstök skip á sama tíma. Þá var óskað mats á hagnaði gagnáfrýjanda af veiðum á tímabilinu. Í svörum matsmanna kom fram að úthlutað aflamark skipa gagnáfrýjanda á árunum 2011 til 2018 hefði numið alls 531 þúsund tonni og aflinn verið um 521 þúsund tonn. Þar af hefðu heimildir í makríl numið 109 þúsund tonnum og aflinn 106 þúsund tonnum. Þá kom fram að gagnáfrýjandi hefði leigt 1.066 tonn af aflaheimildum í makríl. Loks varð niðurstaða matsmanna sú að meðalhagnaður á kíló fyrir skatta af veiðum gagnáfrýjanda á makríl á árunum 2011 til 2018, að teknu tilliti til allra kostnaðarliða í rekstri gagnáfrýjanda, hefði verið á bilinu 11,5 til 73,2 krónur á hvert kíló.
Endanleg kröfugerð gagnáfrýjanda og niðurstaða hins áfrýjaða dóms
19. Að fram komnum matsgerðum breytti gagnáfrýjandi kröfugerð sinni og lækkaði dómkröfur að teknu tilliti til niðurstaðna í matsgerð en þó með þeim hætti að krafa hans tók ýmist mið af matsgerðinni ellegar minnisblaði Deloitte ehf. og þá valin lægri talan vegna hvers árs. Kröfugerðin var eftir sem áður tvíþætt. Annars vegar vegna áranna 2011 til 2014 (a-liður) og hins vegar 2015 til 2018 (b-liður). Þannig breytt nam aðalkrafa gagnáfrýjanda 674.200.000 krónum en varakrafa 515.200.000 krónum en hún tekur mið af niðurstöðutölu í matsgerð lækkaðri um 30% vegna óvissuþátta. Til þrautavara krafðist gagnáfrýjandi skaðabóta að álitum.
20. Eins og komið hefur fram dæmdi héraðsdómur gagnáfrýjanda bætur í samræmi við varakröfu hans. Með hinum áfrýjaða dómi var lagt til grundvallar að miða fjárhæð bóta alfarið við meðalhagnað með 30% lækkun vegna óvissu auk þess sem bætur vegna áranna 2011 og 2012 voru taldar fyrndar. Var aðaláfrýjandi samkvæmt því dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda 269.500.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum auk málskostnaðar.
Málsástæður
Helstu málsástæður aðaláfrýjanda
21. Aðaláfrýjandi byggir á því að ekkert fjártjón hafi verið sannað í málinu og fyrirliggjandi gögn bendi til þess að ekkert tjón hafi orðið eða fallið til með þeim hætti sem gagnáfrýjandi haldi fram.
22. Þá telur aðaláfrýjandi að matsgerð dómkvaddra manna sé ónothæf sem sönnunargagn. Hún sé með gríðarlega stóru óvissubili sem dragi úr gildi hennar. Það megi skýra með því að gagnáfrýjandi hafi ekki afhent matsmönnum grundvallargögn sem hefðu gert störf þeirra markvissari og komið í veg fyrir að þeir þyrftu að gefa sér almennar forsendur í stað þess að byggja á bókhaldsgögnum um raunverulegt verðmæti makríls í rekstri gagnáfrýjanda. Fyrir liggi að umrædd gögn séu til og í vörslum gagnáfrýjanda.
23. Í matsgerðinni komi víða fram að skortur á gögnum hafi haft veruleg áhrif á matsmálið og forsendur matsins. Í umfjöllun um gögn og matsaðferðir sé tekið fram að félagið hafi ekki orðið við gagnabeiðnum heldur þess í stað afhent samstæðuyfirlit sem sýni skiptingu milli botnfisks- og uppsjávarsviðs gagnáfrýjanda en sé ekki sundurliðað að öðru leyti milli fisktegunda. Samstæðuyfirlit séu ekki hluti af endurskoðuðum ársreikningi heldur einhliða gagn sem stafi frá gagnáfrýjanda án allra fylgi- og stoðgagna.
24. Þá hafi gagnáfrýjandi ekki veitt allt það aflamagn sem honum var úthlutað á tímabilinu. Nánar tiltekið kveðist gagnáfrýjandi hafa veitt um 104,5 þúsund tonn en fengið úthlutað 109,4 þúsund tonnum. Tæp fimm þúsund tonn vanti upp á að hann hafi veitt úthlutaðar heimildir í makríl. Í matsgerð dómkvaddra manna og hinum áfrýjaða dómi sé allt að einu á því byggt að til viðbótar hefði veiðst afli sem numið hefði um 10 þúsund tonnum. Slíkt fái ekki staðist.
25. Aðaláfrýjandi telur jafnframt að gera verði skýran greinarmun annars vegar á viðfangsefni þeirra matsgerða sem fyrir liggja í málinu og hins vegar sönnun orsakatengsla. Gagnáfrýjandi hafi beðið matsmenn að reikna út líklega framlegð ár fyrir ár af hverju kílói makrílhlutdeildar sem vantaði upp á. Sé það gefin stærð í matsspurningum að hvert kíló hefði veiðst og úthlutun nýst að fullu. Þar hafi ekki verið um að ræða niðurstöður matsmanna, heldur forsendur gagnáfrýjanda sem hann hafi sem matsbeiðandi lagt fyrir matsmenn.
26. Að því er varðar sönnun orsakatengsla um hvort gagnáfrýjandi hefði náð að veiða viðbótarafla telur aðaláfrýjandi að fullnægjandi sönnun liggi ekki fyrir og hafi mat á því ekki verið í verkahring matsmanna. Niðurstöðu þar um verði að meta út frá öðrum gögnum og hefðbundnum sjónarmiðum um sönnun og sönnunarbyrði enda hafi matsgerð um ætlaðan framlegðarmissi ekki beina þýðingu við mat dómstóla á sönnun um orsakatengsl. Í dómi Landsréttar sé þessum tveimur viðfangsefnum blandað saman. Þar segi til dæmis að með ákvörðun matsmanna um að setja fram 30% óvissumörk hafi verið „tekið tillit til allrar óvissu við mat á ætluðu tjóni [...] árin 2011 til 2018“ og fallist á að matsgerðin byggðist á „forsvaranlegum gögnum og tækri aðferð þó takmörkuð gagnaframlagning hafi aukið mjög á óvissu“. Ranglega sé á því byggt að með þessu hafi verið komið til móts við óvissu um atburðarásina ef fullum heimildum hefði verið úthlutað. Á milli þessa séu hins vegar engin rökræn tengsl og óvissan sem um ræddi í matsgerðinni snúi að öðru en sönnun orsakatengsla. Þá geti almenn tilvísun Landsréttar til þess að fyrirtæki leitist almennt við að fullnýta verðmæti sem þeim standa til boða ekki ráðið sönnun um tilvist almenns fjártjóns.
27. Með málsókn gagnáfrýjanda sé miðað við að tjón hafi orðið með tilteknum hætti, ár fyrir ár, á átta sjálfstæðum tjónstímabilum. Þegar þannig hátti til þurfi að skoða hvert tímabil fyrir sig og hvort tjón hafi orðið á þeim tíma og í þeim mæli sem miðað sé við hverju sinni. Vísar aðaláfrýjandi meðal annars til dóma Hæstaréttar 21. apríl 1999 í máli nr. 403/1998, 26. febrúar 2004 í máli nr. 301/2003, 15. febrúar 2007 í máli nr. 120/2006 og 18. október 2018 í máli nr. 249/2017 en allir undirstriki þeir að sönnun tjóns verði að byggjast á einstaklingsbundnum forsendum en ekki almennum líkindum.
28. Við höfðun málsins hafi gagnáfrýjandi reist kröfur sínar á útreikningum Deloitte ehf. sem aflað hafði verið einhliða. Þar hafi verið miðað við jaðarframlegð í fjórum þáttum í rekstri sem voru útgerð, mjöl- og lýsisvinnsla, landvinnsla og vegna eigin sölufélaga. Útreikningarnir hafi verið annmörkum háðir að mati aðaláfrýjanda. Til dæmis séu afurðir alltaf meiri en ætlaður afli og framlegð af hverju kílói reiknuð í fleiri en eitt skipti. Þetta sýni glögglega að málið hafi frá upphafi verið vanreifað og öll frumgögn vantað til að meta grundvallarþætti í ætluðu rekstrartjóni gagnáfrýjanda.
29. Hvað matsgerð varðar bendir aðaláfrýjandi á að hún hafi lotið að ætluðu fjártjóni en ekki orsakatengslum. Þá séu niðurstöður hennar háðar mikilli óvissu enda hafi matsmenn þurft að gefa sér flestar forsendur um rekstur gagnáfrýjanda án þess að fá í hendur grundvallargögn, þar á meðal um tekjur gagnáfrýjanda af makrílveiðum. Mat þeirra hafi ekki byggst á sölureikningum eða bókhaldi gagnáfrýjanda heldur veiddu magni og því að nota almenna þorskígildisstuðla til að áætla hvert verðið hefði getað verið. Af þessum sökum skorti nauðsynlegan grunn undir matsgerðina. Hvorki hafi verið upplýst hvert söluverð makríls hafi verið hvert ár né kostnaður við að veiða hann. Ekkert af þessu liggi fyrir og sé þá sama hvort litið sé til veiða, vinnslu eða sölustarfsemi erlendis. Hins vegar verði ráðið af gögnum í málinu, sem stafi frá gagnáfrýjanda, að slík gögn séu til.
30. Umfangsmikil millideildasala innan fyrirtækis gagnáfrýjanda valdi auk þess vandkvæðum við sönnunarfærslu enda sé hún hulin hjúp sem engin frumgögn hafi verið lögð fram um. Aðaláfrýjandi byggir á því að eingöngu sé hægt að taka tillit til framlegðarmissis í útgerð. Hvað síðan verði um fiskinn sé of fjarlægt til að það falli undir skilyrði um sennilega afleiðingu.
31. Þá sé vanreifaður sá hluti bótakröfu gagnáfrýjanda sem lúti að áætluðum framlegðarmissi hjá sölufélögum gagnáfrýjanda. Ekki sé upplýst um hvaða félög hafi verið að ræða, hvernig samningum þeirra hafi verið háttað, hvaða tekjur þau höfðu eða um hvað starfsemi þeirra snerist. Reikningar þeirra, bókhaldsgögn eða annað liggi ekki fyrir og því hreinar getgátur þegar því sé haldið fram að þau hafi orðið fyrir tjóni.
32. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti féll aðaláfrýjandi frá málsástæðum sem lúta að fyrningu vegna áranna 2011 og 2012. Hann heldur á hinn bóginn til streitu sjónarmiðum um skyldu gagnáfrýjanda til að takmarka tjón sitt sem hann hefði meðal annars getað gert með leigu aflaheimilda og kaupum á hráefni. Þá hafi gagnáfrýjandi sýnt af sér tómlæti en honum hefði verið kleift að láta reyna á rétt sinn strax á árinu 2011 í stað þess að höfða viðurkenningarmál á síðasta degi fyrningarfrests.
Helstu málsástæður gagnáfrýjanda
33. Gagnáfrýjandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir fjártjóni sem hann telur fyrirsjáanlega afleiðingu af bótaskyldri háttsemi sem aðaláfrýjandi beri ábyrgð á. Hann telur að aðaláfrýjandi hafi mátt gera ráð fyrir að ólögmæt skerðing á aflaheimildum hefði í för með sér fjárhagstjón fyrir gagnáfrýjanda. Gagnáfrýjandi sé útgerðarfyrirtæki sem geri út nokkurn fjölda fiskiskipa og reki einnig fiskimjölsverksmiðju og fiskvinnslu. Loks selji félagið sjálft allar framleiðsluvörur sínar í gegnum eigið sölufélag. Samkvæmt þessu hafi viðkomandi stjórnvöldum mátt vera ljóst þegar þau tóku hinar ólögmætu ákvarðanir að tjón félagsins mundi birtast í lægri tekjum af útgerð fiskiskipa, vinnslu og sölu afurða vegna þess afla sem félagið varð af.
34. Gagnáfrýjandi leggur áherslu á að það hafi verið viðfangsefni matsmanna að meta fjárhagslegt tjón gagnáfrýjanda af því að hafa ekki fengið úthlutað aflaheimildum og þannig aukið það magn sem fiskiskip félagsins máttu veiða á hverjum tíma. Í matsgerðinni komi fram að matsmenn hafi annars vegar metið hver meðalhagnaðurinn hefði orðið í rekstrinum á kíló ef umræddur afli hefði verið veiddur og hins vegar hver viðbótarhagnaður hefði orðið á kíló af veiðum á viðbótinni ef engin skerðing hefði orðið, það er svokallaður jaðarhagnaður. Gagnáfrýjandi telur rökstuðning matsmanna fyrir því að jaðarhagnaður hafi meira vægi en meðalhagnaður rökréttan og að þeirri röksemdarfærslu hafi á engan hátt verið hnekkt undir rekstri málsins frekar en öðrum niðurstöðum matsmanna.
35. Gagnáfrýjandi leggur áherslu á að aðaláfrýjandi hafi engar athugasemdir gert hvorki í málflutningi fyrir héraðsdómi né Landsrétti við þá niðurstöðu hinna dómkvöddu manna að við útreikning á tjóni gagnáfrýjanda væri hæfilegt að meta vægi jaðarhagnaðar 75% en meðalhagnaðar 25%. Sú niðurstaða að leggja metinn meðalhagnað einan til grundvallar niðurstöðum um tjón hans fái ekki staðist og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að þessu leyti.
36. Gagnáfrýjandi leggur áherslu á að matsgerð sem ekki hefur verið hnekkt með yfirmati eða öðrum tækum sönnunargögnum hafi afar ríkt sönnunargildi. Matið leiði í ljós það tjón sem gagnáfrýjandi varð fyrir. Aðaláfrýjandi hafi ekki freistað þess að hnekkja niðurstöðum matsmanna, hvorki með því að biðja um yfirmat né heldur lagt fram gögn sem bent gætu til að annmarkar væru á matinu eða vinnubrögðum matsmanna. Málatilbúnaður aðaláfrýjanda snúist eingöngu um að draga forsendur matsmanna í efa án þess þó að leitað hafi verið lögmæltra úrræða til að hnekkja þeim. Um sönnunargildi matsgerða vísar gagnáfrýjandi meðal annars til dóms Hæstaréttar 12. maí 2016 í máli nr. 547/2015.
37. Þá mótmælir gagnáfrýjandi því að hafa haldið gögnum frá matsmönnum og aðaláfrýjanda. Vissulega hafi verið beðið um gögn sem ekki reyndust vera til en í því sambandi beri að athuga að ekki hafi verið um að ræða gögn sem félaginu hafi borið að halda til haga á grundvelli laga um bókhald eða annarra reglna. Þá hafi matsmenn við skýrslugjöf fyrir dómi staðfest að gögn sem þeir hefðu fengið í hendur væru fullnægjandi.
38. Enn fremur telur gagnáfrýjandi rangar þær staðhæfingar aðaláfrýjanda að skort hafi á að sýnt hafi verið fram á að orsakatengsl séu milli þeirrar háttsemi aðaláfrýjanda sem kröfur eru byggðar á og þess tjóns sem gagnáfrýjandi hafi orðið fyrir. Það liggi í augum uppi að fjártjón sé sennileg afleiðing þess að gagnáfrýjandi hafi með ólögmætum hætti verið hlunnfarinn við úthlutun aflaheimilda. Það hafi verið metið með þeim hætti sem lög gera ráð fyrir og orsakasambandið liggi skýrt fyrir.
39. Loks mótmælir gagnáfrýjandi tilvísun aðaláfrýjanda til reglna skaðabótaréttar um skyldu tjónþola til að takmarka tjón sitt. Hafa verði í huga að úthlutun veiðiheimilda hafi farið fram árlega með setningu nýrrar reglugerðar hverju sinni. Gagnáfrýjandi hafi ekki getað gert ráð fyrir því að brot aðaláfrýjanda yrðu síendurtekin. Sá málatilbúnaður aðaláfrýjanda að gagnáfrýjandi hefði getað takmarkað tjón sitt með því að kaupa afla og leigja aflaheimildir standist ekki og tjónvaldur sem slíku haldi fram beri sönnunarbyrði fyrir því að slíkt hafi verið mögulegt. Gagnáfrýjandi hafi þvert á móti og ávallt hagað rekstri sínum í samræmi við þær forsendur sem uppi hafi verið á hverjum tíma hvað nýtingu aflaheimilda og framleiðslutækja varðar.
Niðurstaða
40. Svo sem fyrr segir liggur til grundvallar málsókn þessari réttarsátt 28. maí 2019 í héraðsdómsmáli sem gagnáfrýjandi höfðaði á hendur aðaláfrýjanda. Þar krafðist hann viðurkenningar á skaðabótaábyrgð aðaláfrýjanda á fjártjóni sem hann kynni að hafa orðið fyrir vegna þess að honum hefði á árunum 2011 til 2014, vegna nánar tilgreindra fiskiskipa sinna, verið úthlutað minni veiðiheimildum í makríl en skylt var samkvæmt lögum nr. 151/1996. Aðilar sættu málið í kjölfar þess að í fyrrgreindum dómum Hæstaréttar í málum nr. 508 og 509/2017 var skaðabótaábyrgð aðaláfrýjanda viðurkennd við sambærilegar aðstæður gagnvart tveimur útgerðarfyrirtækjum. Vísast jafnframt hér um til dóms Hæstaréttar sem kveðinn er upp í dag í máli nr. 4/2025.
41. Í sáttinni sagði meðal annars:
Sátt þessa ber ekki að túlka svo að stefndi hafi samþykkt eða viðurkennt að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur honum, heldur nær sáttin einungis til viðurkenningar á skaðabótaábyrgð, allt í samræmi við niðurstöður Hæstaréttar Íslands í tilgreindum málum Ísfélagsins hf. og Hugins ehf. Felst ekki í þessari sátt að viðurkennt sé að stefnandi, sem félag, hafi orðið fyrir tjóni og takmarkar hún á engan hátt varnir stefnda þar að lútandi um allt tímabilið, t.d. varðandi skyldu til tjónstakmörkunar, eigin áhættu, orsakasamband, sennilega afleiðingu, sönnunar ætlaðs tjóns eða um sérhver önnur atriði, allt í samræmi við almennar reglur skaðabótaréttar.
42. Gagnáfrýjandi höfðaði að því búnu mál þetta 6. desember 2019 til heimtu skaðabóta úr hendi aðaláfrýjanda. Tekur bótakrafa hans til áranna 2011 til 2018. Viðurkennir aðaláfrýjandi bótaskyldu vegna þeirra ára og er ekki deilt um að það hlutfall aflaheimilda sem gagnáfrýjandi varð af á nefndu árabili nemur 10,0193276% árlega. Um er að ræða viðbótarheimildir sem svarað hefðu til 4,3 til 16,6% (að meðaltali 14,1%) árlegrar aukningar við þær heimildir sem gagnáfrýjandi fékk úthlutað umrædd ár eða alls um 14,7 þúsund tonn af makríl. Á hinn bóginn deila aðilar um hvort gagnáfrýjandi hafi beðið fjártjón vegna þessa og þá hversu mikið. Snýr ágreiningurinn meðal annars að sönnun tjóns og orsakatengslum, ætluðu tómlæti gagnáfrýjanda og vöxtum.
43. Gagnáfrýjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að framangreind skaðabótaskyld háttsemi aðaláfrýjanda hafi valdið honum tjóni. Jafnframt ber hann sönnunarbyrði fyrir orsakatengslum og því að ætlað tjón teljist sennileg afleiðing skaðabótaskyldrar háttsemi samkvæmt reglum skaðabótaréttar. Tímamark bótaákvörðunar miðast við hinn bótaskylda atburð sem fólst í útgáfu reglugerða hverju sinni þar sem hin ólögmæta úthlutun heimilda var lögð til grundvallar veiðum viðkomandi árs. Í þeim skilningi var um átta bótaskylda atburði að ræða. Er það gagnáfrýjanda að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir bótaskyldu tjóni á því tímamarki hverju sinni.
44. Upphafleg kröfugerð gagnáfrýjanda í málinu tók sem fyrr segir mið af minnisblaði Deloitte ehf. 26. nóvember 2019. Aðaláfrýjandi mótmælti sönnunargildi umrædds gagns sem var einhliða aflað af gagnáfrýjanda. Í kjölfar þess beiddust báðir aðilar hvor síns mats dómkvaddra manna, sbr. matsgerðirnar 27. október 2022 og 20. janúar 2023 sem fyrr hefur verið gerð grein fyrir. Í fyrrnefndu matsgerðinni, sem gerð var að beiðni gagnáfrýjanda, komust matsmenn að þeirri niðurstöðu að viðbótarhagnaður hans vegna skertra aflaheimilda hefði numið um 736.000.000 króna. Tók það mat annars vegar mið af metnum meðalhagnaði sem næmi um 538.000.000 króna og hins vegar metnum jaðarhagnaði sem næmi um 802.000.000 króna. Töldu matsmenn niðurstöður sínar háðar verulegri óvissu og mætti ætla að óvissuþættir sem ekki væri tekið tillit til í matinu næmu allt að 30% til hækkunar eða lækkunar. Niðurstöður þeirra urðu á þann veg að hagnaðarmissir gagnáfrýjanda væri á bilinu 515 til 960 milljónir króna. Eins og bent er á í hinum áfrýjaða dómi eru þau vikmörk reiknuð út frá niðurstöðutölu matsgerðar en ekki út frá meðalhagnaði sem lægsta gildi og jaðarhagnaði sem hæsta gildi.
45. Svo sem fram er komið lagaði gagnáfrýjandi kröfugerð sína að niðurstöðum matsgerðarinnar. Þó tekur krafa hans vegna hvers árs mið af annaðhvort matsgerðinni ellegar minnisblaði Deloitte ehf. með því að valin er lægri talan vegna viðkomandi árs. Á þeim grundvelli nemur aðalkrafa gagnáfrýjanda samtals 674.200.000 krónum. Varakrafa hans tekur mið af niðurstöðutölu í matsgerð lækkaðri um 30% vegna umræddra óvissuþátta. Héraðsdómur dæmdi gagnáfrýjanda bætur á grundvelli varakröfu hans en með hinum áfrýjaða dómi var lagt til grundvallar að miða fjárhæð bóta eingöngu við meðalhagnað með 30% lækkun vegna óvissu auk þess sem bætur vegna áranna 2011 og 2012 voru taldar fyrndar. Samkvæmt því var aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda samtals 269.500.000 krónur auk vaxta.
46. Aðaláfrýjandi hefur gert verulegar athugasemdir við þann grundvöll sem gagnáfrýjandi hefur búið málinu. Mjög skorti á að hann hafi aflað matsmönnum nauðsynlegra gagna sem trúverðugt mat verði byggt á, meðal annars gagna sem ljóst sé af öðru samhengi að séu til. Þótt ekki sé af aðaláfrýjanda hálfu höfð uppi krafa um frávísun málsins frá héraðsdómi þykir allt að einu ástæða til þess að taka afstöðu til þess hvort efni séu til að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.
47. Svo sem fram er komið reiknuðu matsmenn í samræmi við matsbeiðni fjártjón gagnáfrýjanda vegna þess að honum var ekki réttilega úthlutað aflaheimildum umrædd ár. Þannig voru áhrif tekjutaps metin eftir því hvernig skerðingin hefði komið niður á eftirtöldum þáttum í starfsemi hans: a) Útgerð, b) landvinnslu (frystihús), c) eigin sölufélögum afurða og d) mjöl- og lýsisverksmiðju.
48. Í matsgerðinni er að finna ítrekaða fyrirvara um áreiðanleika matsins vegna skorts á nauðsynlegum gögnum úr rekstri gagnáfrýjanda. Eru efni til að rekja hér helstu athugasemdir matsmanna í þessa veru. Eftirfarandi kemur þannig fram undir umfjöllun þeirra um mat á fjárhagstjóni í kaflanum „Gögn og matsaðferðir“:
Til að áætla viðbótartekjur og -kostnað fyrir hvert viðbótarkíló af veiddum makríl telja matsmenn rétt að byggja á endurskoðuðum ársreikningum félagsins eftir því sem kostur er og draga út úr þeim tekjur og kostnað vegna veiða félagsins á makríl og vinnslu á þeim afla. Matsmenn öfluðu ársreikninga félagsins á árunum 2011–2018 (gskj.1–8). Í þeim er ekki að finna sundurliðun tekna og gjalda af veiðum og vinnslu á makríl og því er ekki unnt að byggja matið eingöngu á endurskoðuðum ársreikningum félagsins.
Matsmenn óskuðu eftir sundurliðun á tekjum og gjöldum félagsins eftir tegundum og starfsþáttum en félagið gat ekki orðið við þeirri beiðni. Félagið afhenti þó samstæðuyfirlit sem sýna skiptingu tekna og gjalda móðurfélagsins í botnfisk- og uppsjávarsvið ásamt sundurliðun tekna og gjalda samstæðunnar eftir félögum í samstæðunni.
[...] Þar sem skipting tekna uppsjávarsviðs félagsins eftir tegundum liggur ekki fyrir áætla matsmenn skiptinguna með því að byggja á þorskígildum tegundanna (Fiskistofa: Þorskígildi).
Í kafla sem ber heitið „Óvissa í matinu“ kemur eftirfarandi fram:
Af framangreindri lýsingu á gögnum og matsaðferðum sést að matið byggir á fjölbreyttum gögnum af mismunandi gæðum. Fjárhagsupplýsingar eru að mestu byggðar á samstæðuyfirlitum VSV sem eru ekki endurskoðuð af óháðum ytri endurskoðendum. Matsmenn hafa þó sannreynt að samtölur í yfirlitunum stemma í öllum meginatriðum við endurskoðaða ársreikninga og þó að matsmenn geti ekki sannreynt sundurliðanir í yfirlitunum hefur ekkert komið upp við skoðun matsmanna sem gæti gefið tilefni til að efast um réttmæti þeirra. Matsmenn telja því sundurliðun tekna og gjalda á dótturfélög, svið og starfsþætti í samstæðuyfirlitunum ekki valda mikilli óvissu í matinu.
Gögn málsins geyma hins vegar enga sundurliðun á tekjum og gjöldum eftir tegundum og þurfa matsmenn að áætla tekjur og gjöld vegna veiða, vinnslu og sölu á makríl. Við þá áætlun beita matsmenn ýmsum nálgunum sem óvissa er um. [...]
Samantekið telja matsmenn ekki óvarlegt að ætla að óvissa í matinu geti hnikað niðurstöðum matsins um allt að 30% til hækkunar eða lækkunar.
Undir umfjöllun um rekstrarreikning samstæðu gagnáfrýjanda segir svo meðal annars:
Eins og fyrr segir er ekki unnt með einföldu móti að taka út úr samstæðureikningunum tekjur og gjöld vegna eingöngu makrílveiða félagsins og vinnslu makrílaflans. Til að geta metið tekjur og kostnað VSV af veiðum og vinnslu á makríl óskuðu matsmenn tvívegis eftir sundurliðunum á tekjum og gjöldum félagsins eftir starfsþáttum og fisktegundum. VSV varð ekki við þeim beiðnum nema að takmörkuðu leyti. Matsmenn verða að byggja mat sitt á fyrirliggjandi gögnum og þurfa því að gefa sér forsendur og beita nálgunum eftir því sem við á til að áætla tekjur og kostnað af veiðum og vinnslu á makríl.
Þá segir í kafla um rekstrarreikning uppsjávarsviðs gagnáfrýjanda:
VSV afhenti samstæðuyfirlit með skiptingu rekstrarreiknings móðurfélagsins í botnfisksvið, uppsjávarsvið og vörusölu fyrir árin 2011–2018 (gskj. 9–16). Sundurliðunin í þeim yfirlitum er ekki nægjanleg til að geta með áreiðanlegum hætti dregið út tekjur og gjöld vegna makrílveiða félagsins en þar sem ekki fengust betur sundurgreindar upplýsingar byggja matsmenn mat sitt á þeim eins og fyrr segir. […]
Aðrar tekjur og gjöld, afskriftir og fjármagnskostnaður eru ekki sundurliðuð eftir útgerð eða fiskvinnslu. Matsmenn hafa engar forsendur til að skipta þeim eftir starfsþáttum eða tegundum og gera því ráð fyrir að þau skiptist jafnt milli útgerðar og fiskvinnslu og með sama hætti og önnur rekstrargjöld útgerðar og fiskvinnslu, þ.e. að hluta til eftir afla- eða hráefnismagni og að hluta til eftir afla- eða afurðaverðmæti.
Í kafla um hlutfall aflaverðmætis makríls af heildaraflaverðmæti taka matsmenn eftirfarandi fram:
Til að áætla hagnað VSV af veiðum á makríl og vinnslu makrílaflans á árunum 2011–2018 þarf að liggja fyrir hvaða tekjur félagið hafði af veiðum og vinnslu á makríl á þessum árum. Sem fyrr segir óskuðu matsmenn, með gagnabeiðni dags. 27. janúar 2022 (mskj. 10), eftir sundurliðun á rekstrartekjum og rekstrargjöldum félagsins eftir starfsþáttum og fisktegundum. Félagið varð ekki við þeirri beiðni. Ekki liggja því fyrir rekstrartekjur uppsjávarsviðs af makríl eða öðrum fisktegundum og því ekki hversu stórt hlutfall tekna er vegna veiða og vinnslu á makríl heldur aðeins heildartekjur uppsjávarsviðs, skipt eftir útgerð og vinnslu. Matsmenn hafa því ekki annan kost en að byggja á öðrum gögnum til að áætla hversu stór hluti teknanna sé vegna veiða og vinnslu á makríl.
Enn fremur kemur eftirfarandi fram í kafla um hráefni fiskvinnslu uppsjávarsviðs:
Samstæðuyfirlit VSV (gskj. 9–16) bjóða ekki upp á að sundurliða tekjur og gjöld milli fiskvinnslu annars vegar og mjöl- og lýsisverksmiðju hins vegar. Matsmenn verða því að líta til hráefnisnotkunar uppsjávarsviðs í heild [...]
Ekki liggur fyrir verðmæti hráefnis fiskvinnslunnar og því þurfa matsmenn að áætla skiptinguna.
Loks komast matsmenn svo að orði í samandregnum niðurstöðum sínum um metið fjárhagstjón gagnáfrýjanda:
Matsmenn hafa ekki nægjanleg gögn til að áætla með neinni vissu skiptingu hagnaðarmissis vinnslu milli frystihúss annars vegar og mjöl- og lýsisverksmiðju hins vegar. [...]
Mikil óvissa er í matinu vegna ófullnægjandi gagna og upplýsinga um tekjur og gjöld VSV vegna veiða, vinnslu og sölu á makríl. Að mati matsmanna geta óvissuþættir í matinu hnikað niðurstöðum þess til um allt að 30% til hækkunar eða lækkunar. Að teknu tilliti til allra óvissuþátta liggur fjárhagstjón VSV á bilinu 515–960 milljónir króna.
49. Gagnáfrýjandi hefur borið því við að umrædd gögn hafi ekki verið til en jafnframt tekið fram að ekki hafi verið um að ræða gögn af því tagi sem hann hefði átt að eiga tiltæk samkvæmt lögum um bókhald eða öðrum reglum. Í samantekt gagnáfrýjanda á tapaðri framlegð vegna skertu aflaheimildanna, sem gerð var í maí 2019 undir rekstri viðurkenningarmáls hans gegn aðaláfrýjanda, kemur þó fram að byggt sé á „fjárhagsbókhaldi VSV og skráningu á hráefnismagni í landvinnslu og afla upp úr sjó í veiðum“. Jafnframt kemur þar fram að „Aflaverðmæti og birgðabreyting makríls er bókfært sérstaklega í fjárhagsbókhaldi VSV í hverjum mánuði. Aflamagn er skráð sérstaklega í kg eftir tegundum.“ Þá verður ráðið af fyrrnefndu minnisblaði Deloitte ehf. 26. nóvember 2019 að þeir sem það gerðu hafi haft aðgang að umræddum gögnum, sbr. eftirfarandi útlistun á forsendum framlegðarútreiknings: „Upplýsingar eru fengnar úr fjárhagsbókhaldi félagsins, skráningu á hráefnismagni í landvinnslu og veiddum afla upp úr sjó í veiðum, auk annarra forsenda frá stjórnendum VSV. [...] Rekstrartekjur vegna makríls byggja á upplýsingum úr fjárhagsbókhaldi VSV þar sem aflaverðmæti makríls er bókfært sérstaklega í hverjum mánuði.“ Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti gat lögmaður gagnáfrýjanda ekki skýrt með fullnægjandi hætti hvers vegna umrædd gögn reyndust ekki tiltæk matsmönnum undir rekstri þessa máls. Við slíkar aðstæður verður sönnunarbyrði um tilvist og varðveislu þeirra lögð á gagnáfrýjanda.
50. Þá fær sú staðhæfing í greinargerð gagnáfrýjanda til Hæstaréttar ekki staðist að matsmenn hafi við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi staðfest að þeir hefðu fengið í hendur fullnægjandi gögn. Þvert á móti verður framburður matsmanna skilinn á þann veg að þeir hafi ekki fengið þau gögn í hendur sem þeir kölluðu eftir en sætt sig við þá skýringu gagnáfrýjanda að þau væru ekki til í hans fórum.
51. Þegar af þessari ástæðu má ljóst vera að matsgerðin er að þessu leyti ekki reist á gögnum sem gagnáfrýjanda átti að vera unnt að afla og leggja fram heldur á almennum forsendum og útreikningum sem ekki standa í beinum tengslum við atvik málsins. Endurspeglast þetta meðal annars í óviðunandi óvissumörkum í niðurstöðum matsmanna sem spanna ekki aðeins þann mun sem er á útreikningum á grundvelli jaðarhagnaðar annars vegar og meðalhagnaðar hins vegar heldur til viðbótar 30% óvissumörkum til hækkunar eða lækkunar í heild. Þó ekki kæmi annað til rýrir sú óvissa mjög áreiðanleika matsgerðarinnar sem sönnunargagns um ætlað fjártjón gagnáfrýjanda.
52. Af þessum ástæðum má ljóst vera að umrædd matsgerð er reist á svo ófullnægjandi forsendum að ekki verður við hana stuðst við úrlausn málsins, hvorki að því er varðar hugsanlegt tjón gagnáfrýjanda í heild né einstaka þætti þess, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. febrúar 2000 í máli nr. 338/1999. Eins og málum var háttað gat öflun yfirmatsgerðar engu breytt um þann skort á grundvallargögnum og upplýsingum sem grein hefur verið gerð fyrir og hamlar því að raunverulegt tjón verði metið.
53. Þótt erfiðleikum kunni að vera bundið fyrir gagnáfrýjanda að færa nákvæmar sönnur á fjárhæð ætlaðs tjóns síns verður lagt til grundvallar að honum hefði verið unnt, í mun ríkari mæli en raunin varð, að leggja fram sundurliðuð gögn um tekjur sínar og gjöld eftir tegundum og starfsþáttum á umþrættu tímabili, sbr. til hliðsjónar grundvöll kröfugerðar í dómi Hæstaréttar í samkynja máli nr. 4/2025 sem kveðinn er upp í dag. Það gerði gagnáfrýjandi ekki og ber þar af leiðandi hallann af því að af fyrirliggjandi gögnum og matsgerð er óljóst hvort hann varð fyrir tjóni vegna ólögmætrar tilhögunar aðaláfrýjanda við úthlutun aflaheimilda í makríl á árunum 2011 til 2018, hvað þá hvaða fjárhæð það hafi numið. Brestur því skilyrði til að ákveða gagnáfrýjanda bætur að álitum og verður að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi vegna vanreifunar.
54. Eftir úrslitum málsins verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað sem ákveðinn verður sameiginlega á öllum dómstigum eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Gagnáfrýjandi, Vinnslustöðin hf., greiði aðaláfrýjanda, íslenska ríkinu, samtals 5.000.000 króna vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.