Hæstiréttur íslands
Mál nr. 51/2022
Lykilorð
- Kærumál
- Dánarbú
- Opinber skipti
- Faðerni
- Erfð
- Aðild
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 8. september 2022 en kærumálsgögn bárust réttinum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 5. september 2022 þar sem staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfum sóknaraðila um að viðurkennt verði að þær séu erfingjar J.
3. Sóknaraðilar krefjast þess að framangreind krafa þeirra verði tekin til greina. Þá krefjast þær þess að varnaraðilum verði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti.
4. Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar.
5. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 10. janúar 2023.
Ágreiningsefni
6. Ágreiningur málsins lýtur að kröfu sóknaraðila um að viðurkennt verði að þær séu erfingjar J sem lést í apríl 2017. Dánarbú hans var tekið til opinberra skipta í byrjun árs 2018 og hafa allir varnaraðilar stöðu lögerfingja í dánarbúinu.
7. Með úrskurði Landsréttar 5. september 2022 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu sóknaraðila.
8. Kæruleyfi í málinu var veitt 26. október 2022 með ákvörðun nr. 2022-117 á þeirri forsendu að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um þau atriði sem leyfisbeiðnin væri reist á, einkum hvort tilkall til arfs á grundvelli 1. töluliðar 1. gr. erfðalaga nr. 8/1962 sé fortakslaust háð því að fyrir liggi staðfest faðerni að barnalögum.
Málsatvik
9. Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands 7. febrúar 2018 var dánarbú J, sem lést 22. apríl 2017, tekið til opinberra skipta.
10. Sóknaraðilar eru börn K sem lést árið 2006. Málatilbúnaður þeirra grundvallast á því að K hafi verið rangfeðraður og hann hafi í raun verið sonur fyrrgreinds J. Á þeim grunni beri þeim arfur úr dánarbúi J. Jafnframt skuli falla niður arfstilkall annarra núverandi lögerfingja hans á grundvelli lögerfðareglna. Varnaraðilar eru hluti lögerfingja J, tvö systkini hans og fimm bræðrabörn.
11. Framangreindu til staðfestingar vísa sóknaraðilar til þess að amma þeirra, L, höfðaði árið 2016 mál til vefengingar á faðerni sonar síns, fyrrgreinds K. Með dómi Héraðsdóms Vesturlands 11. apríl 2017 var viðurkennt að M hefði ekki verið faðir K. Var sú niðurstaða reist á álitsgerð rannsóknarstofu í réttarlæknisfræði 7. febrúar 2017 þess efnis að líkurnar á því að J hefði verið faðir K væru meiri en 99%.
12. L höfðaði í kjölfarið, 28. apríl 2017, faðernismál gegn lögerfingjum J til viðurkenningar á því að hann hefði verið faðir sonar síns, K. L lést tveimur dögum eftir málshöfðunina. Í úrskurði héraðsdóms í því máli 31. október 2017 var ekki fallist á að lagaskilyrði væru til þess að dánarbú L gæti tekið við aðild málsins til sóknar og var því vísað frá dómi. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð með dómi 7. desember sama ár í máli nr. 722/2017.
13. Sóknaraðilar höfðuðu á fyrri hluta árs 2018 mál gegn lögerfingjum J og kröfðust þess að viðurkennt yrði með dómi að hann hefði verið faðir K. Með dómi Hæstaréttar 6. október 2021 í máli nr. 17/2021 var málinu vísað frá héraðsdómi þar sem sóknaraðilar fullnægðu ekki áskilnaði 1. mgr. 10. gr. barnalaga nr. 76/2003 um að geta átt aðild til sóknar í því. Í dóminum segir í lið 21:
Af gögnum málsins verður ráðið að einu hagsmunir áfrýjenda af því að fá viðurkenningu á faðerni látins föður síns séu að þær hyggist reisa tilkall til arfs úr dánarbúi [J] á dómi þar um. Arfstilkall er ekki þáttur í þeim réttindum barns sem lýst er í barnalögum þótt faðernisviðurkenning samkvæmt lögunum renni stoðum undir kröfu um arf samkvæmt ákvæðum erfðalaga nr. 8/1962. Þótt þessir hagsmunir búi að baki kröfu um faðernisviðurkenningu verður í ljósi framangreindra sjónarmiða um markmið aðildarreglna barnalaga í faðernismálum, sem löggjafinn hefur tekið skýra afstöðu til, ekki fallist á að slíkir hagsmunir leiði til þess að víkja beri til hliðar ákvæði 1. mgr. 10. gr. barnalaga vegna fyrirmæla 70. gr. stjórnarskrárinnar.
14. Að fenginni þeirri niðurstöðu var haldinn skiptafundur í dánarbúi J 19. nóvember 2021. Á fundinum kom fram ágreiningur um arfstilkall sóknaraðila. Með bréfi 30. sama mánaðar vísaði skiptastjóri búsins ágreiningnum til héraðsdóms á grundvelli 122. gr., sbr. 3. mgr. 53. gr., laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Löggjöf
15. Í 1. gr. erfðalaga er mælt fyrir um hverjir teljast til lögerfingja. Samkvæmt 1. tölulið greinarinnar eru þeirra á meðal eftirfarandi:
Börn arfleifanda og aðrir niðjar. Óskilgetið barn erfir föður og föðurfrændur og þeir það, ef það er feðrað með þeim hætti, sem segir í löggjöf um óskilgetin börn. Um erfðarétt kjörbarns og arf eftir það fer samkvæmt 5. gr.
16. Í athugasemdum með 1. tölulið 1. gr. frumvarps til erfðalaga kom eftirfarandi fram:
Í 1. tölulið 1. gr. er áskilið, að börn séu feðruð með þeim hætti, sem fyrir er mælt í löggjöf um óskilgetin börn. Með þessu ákvæði er tekið af skarið um það, að viðurkenning á faðerni barns þurfi að verða með þeim formhætti, sem áskilið er í þessari löggjöf á hverjum tíma, sbr. nú 3. og 18. gr. laga nr. 87/1947. Annars konar viðurkenning á faðerni barns skapar því ekki erfðatengsl milli barns og föður þess og föðurfrænda. Er þetta ákvæði skýrara en í gildandi erfðalögum.
17. Í 2. gr. laganna er nánar mælt fyrir um erfðarétt afkomenda en þar kemur fram í 1. mgr. að maki erfi 1/3 hluta eigna, þegar börn eru á lífi, en 2/3 hluta erfi börnin að jöfnu. Sé maka ekki til að dreifa, taka börn og aðrir niðjar allan arf. Í 2. mgr. segir að hafi barn andast á undan arfleifanda þá erfi börn þess þann hluta sem því hefði borið. Firnari niðjar taki arf með sama hætti.
18. Í 2. gr. barnalaga er að finna reglur um börn hjóna og foreldra í skráðri sambúð. Þá fjallar 3. gr. laganna um það hvernig faðerni barns skal ákvarðast eigi reglur 2. gr. ekki við, sbr. 1. mgr. 3. gr.:
Ef feðrunarreglur 2. gr. eiga ekki við verður barn feðrað með faðernisviðurkenningu manns, sbr. 4. gr., samþykki skv. 6. gr. eða dómsúrlausn, sbr. II. kafla.
19. Ekki eru efni til að fjalla hér nánar um ákvæði barnalaga en svo sem fyrr segir var því hafnað með dómi Hæstaréttar í máli nr. 17/2021 að sóknaraðilar gætu átt aðild að dómsmáli til feðrunar K.
Niðurstaða
20. Í greinargerð sinni til réttarins samkvæmt 172. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála voru ekki hafðar uppi dómkröfur í málinu af hálfu varnaraðila. Við munnlegan flutning þess lýsti lögmaður þeirra því yfir að krafist væri staðfestingar hins kærða úrskurðar. Standa ákvæði laga nr. 91/1991 því ekki í vegi að sú krafa komist að í málinu.
21. Sóknaraðilar byggja á því að ekki fái staðist að reglur barnalaga um málsaðild í faðernismálum skuli alfarið ráða túlkun á 1. tölulið 1. gr. erfðalaga, sbr. forsendur hins kærða úrskurðar, og útiloki með því sóknaraðila frá því að vera taldir niðjar föðurafa síns með þeim afleiðingum að varnaraðilar, sem hafi stöðu útarfa, njóti arfs eftir hann en ekki raunverulegir niðjar. Af framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 17/2021 sé ekki hægt að álykta að sóknaraðilar geti ekki tekið arf eftir J og að Landsréttur mistúlki dóm réttarins að þessu leyti. Jafnframt telja sóknaraðilar að þröng túlkun Landsréttar á ákvæði 1. töluliðar 1. gr. erfðalaga, sem sett hafi verið áður en unnt var að staðreyna faðerni með mannerfðafræðilegum rannsóknum, geti ekki staðist með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hafi á vettvangi slíkra rannsókna. Frá því að erfðalögin hafi verið sett árið 1962 hafi slíkar rannsóknir komið til og á grundvelli þeirra sé unnt að staðreyna faðerni með allt annarri og meiri vissu en hægt hafi verið við setningu laganna. Sú staða sé uppi í þessu máli og beri að líta svo á að K hafi vegna þess verið feðraður og J sé faðir hans. Ákvæði erfðalaga verði að túlka í samræmi við þann ríka löggjafarvilja sem fram hafi komið við setningu laganna um að tryggja erfðarétt afkomenda arfláta. Enn fremur byggja sóknaraðilar á því að dómaframkvæmd og fræðikenningar styðji þá niðurstöðu að unnt sé að gera erfðatilkall á grundvelli erfðalaga án þess að áður hafi verið leyst úr faðerni með formlegum hætti.
22. Varnaraðilar hafna því að sóknaraðilar geti átt tilkall til arfs eftir J enda hafi ekki verið fallist á kröfu þeirra um viðurkenningu á að J væri faðir K og vísa þar um til dóms Hæstaréttar í máli nr. 17/2021. Af þeirri niðurstöðu leiði að ekki sé á valdi sóknaraðila að koma á lögerfðatengslum við J. Tilkoma mannerfðafræðilegra rannsókna fái ekki breytt gildandi fyrirmælum laga um feðrun og erfðarétt.
23. Núgildandi reglur erfðalaga, sem lögfestar voru 14. mars 1962, voru afrakstur norrænnar samvinnu. Um svipað leyti voru sett erfðalög á öðrum Norðurlöndum sem byggðust á sama grundvelli þótt sérreglur hafi verið settar um tiltekin atriði í einstökum ríkjum. Á þeim rúmlega sextíu árum sem liðin eru hefur hvorki farið fram heildarendurskoðun á íslenskum erfðalögum né grundvallarbreytingar verið gerðar á 1. gr. erfðalaga, en hins vegar hafa verið sett ný lög um erfðarétt í Danmörku og Noregi.
24. Svo sem að framan getur hafa þegar verið rekin nokkur dómsmál sem tengjast faðerni K. Með fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. apríl 2017 var viðurkennt að M hefði ekki verið faðir K en með dómi Hæstaréttar í máli nr. 17/2021 var því sem fyrr segir hafnað að sóknaraðilar gætu, vegna fyrirmæla 10. gr. barnalaga, átt aðild að máli þar sem höfð var uppi krafa um að J hefði verið faðir K. Í máli þessu hafa sóknaraðilar síðan kosið að láta reyna á það með sjálfstæðum hætti hvort þeir njóti allt að einu erfðaréttar eftir J á grundvelli 1. mgr. 1. gr. erfðalaga.
25. Hér fyrr eru rakin þau fyrirmæli 1. töluliðar 1. gr. erfðalaga að barn taki arf hafi það verið feðrað með þeim hætti sem segir í löggjöf um óskilgetin börn. Það verður, samkvæmt 1. mgr. 3. gr. barnalaga, gert með þrennum hætti. Á grundvelli faðernisviðurkenningar, samþykkis eða dóms. Þessi lögbundnu skilyrði eru formlegs eðlis og eru þau tæmandi talin í ákvæðinu. Af því leiðir að sönnun um erfðatilkall á grundvelli feðrunar getur ekki lotið að öðru en því að einhverju þessara skilyrða sé fullnægt.
26. Hvað varðar tilvísun sóknaraðila til dóma og fræðikenninga leiddra af þeim þess efnis að fallist hafi verið á að unnt sé að skera úr um faðerni í málum sem lúta að kröfu um erfðatilkall, sbr. tilvitnaða dóma Hæstaréttar 22. nóvember 1976 í máli nr. 46/1975 sem birtur er á bls. 955 í dómasafni réttarins það ár, 28. nóvember 1977 í máli nr. 9/1976 sem birtur er á bls. 1201 í dómasafni réttarins það ár og 28. febrúar 1983 í máli nr. 182/1982 sem birtur er á bls. 415 í dómasafni réttarins það ár, er til þess að líta að í öllum þeim málum var erfðatilkalli viðkomandi aðila hafnað vegna þess að lögformleg faðernisviðurkenning lá ekki fyrir. Önnur ályktun verður heldur ekki dregin af dómi Hæstaréttar 8. maí 2009 í máli nr. 160/2009. Dómarnir staðfesta það eitt að málshöfðun við þær kringumstæður var talin heimil þótt ekki lægi fyrir formleg staðfesting faðernis en af þeim verður ekki dregin sú ályktun að heimilt sé að túlka 1. tölulið 1. gr. erfðalaga með öðrum hætti en leiðir af orðunum „ef það er feðrað með þeim hætti, sem segir í löggjöf um óskilgetin börn“, sbr. nú 1. mgr. 3. gr. barnalaga.
27. Með hliðsjón af skýrum texta 1. töluliðar 1. gr. erfðalaga, lögskýringargögnum og lögbundnum skilyrðum um feðrun barna samkvæmt 1. mgr. 3. gr. barnalaga leiðir að niðurstaða mannerfðafræðilegra rannsókna nægir ekki ein og sér til viðurkenningar erfðatilkalls þó svo að slíkar niðurstöður geti legið til grundvallar faðernisviðurkenningu eða dómi í faðernismáli. Er jafnframt til þess að líta að miklu máli skiptir að lagagrundvöllur erfðatilkalls sé traustur og fyrir fram afmarkaður. Það er hins vegar verkefni löggjafans en ekki dómstóla að kveða á um inntak og efnisskilyrði slíks réttar. Að framangreindu virtu er því ekki tækt, hvað sem líður sönnunargildi og tölfræðilegum líkindum fyrirliggjandi mannerfðafræðilegrar rannsóknar, að leggja hana til grundvallar erfðarétti sóknaraðila.
28. Af öllu framangreindu leiðir að hinn kærði úrskurður verður staðfestur. Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.