Hæstiréttur íslands

Mál nr. 30/2024

Coca-Cola Europacific Partners Ísland ehf. (Heimir Örn Herbertsson lögmaður)
gegn
þrotabúi A (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Þrotabú
  • Riftun
  • Ógjaldfærni
  • Sjálfskuldarábyrgð

Reifun

Þrotabú A höfðaði mál á hendur CCE ehf. og krafðist riftunar á tilteknum ráðstöfunum A til CCE ehf. Fyrir Hæstarétti var einungis til úrlausnar riftun á greiðslu að fjárhæð 29.330.919 krónur af bankareikningi þrotamanns 1. nóvember 2019, sem innt var af hendi til CCE ehf. Þrotabú A byggði kröfu sína um riftun á 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var að þrotabúið hefði ekki leitt í ljós að sá sem riftunin beindist að hefði verið grandsamur um ógjaldfærni þrotamanns. Af þeim sökum var ekki fullnægt skilyrðum til riftunar. CCE ehf. var því sýknað af kröfum þrotabús A.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2024. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Í málinu deila aðilar um hvort ráðstöfun þrotamanns í aðdraganda gjaldþrotaskipta á búi hans verði rift eftir almennri riftunarreglu í 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og áfrýjanda gert að greiða stefnda fjárhæð sem svarar til þeirrar ráðstöfunar á grundvelli 3. mgr. 142. gr. laganna.

5. Stefndi höfðaði málið til riftunar á ráðstöfunum A með tveimur greiðslum til áfrýjanda, annars vegar 9. ágúst 2019 að fjárhæð 8.867.791 króna og hins vegar 1. nóvember sama ár að fjárhæð 29.330.919 krónur. Jafnframt krafðist stefndi greiðslu sem því næmi úr hendi áfrýjanda eða samtals 38.198.710 krónur.

6. Með héraðsdómi 12. desember 2022 var áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda. Stefndi undi þeim dómi að því er varðaði fyrri greiðsluna 9. ágúst 2019 en áfrýjaði honum um síðari greiðsluna 1. nóvember sama ár. Með dómi Landsréttar 23. febrúar 2024 var þeirri ráðstöfun rift og áfrýjanda gert að greiða stefnda 29.330.919 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. mars 2021 til greiðsludags.

7. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. maí 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-40, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um skýringu 141. gr. laga nr. 21/1991.

Málsatvik

8. Um áratugaskeið var A í fyrirsvari fyrir félög sem ráku veitingahús. Á meðal þeirra var C ehf., sem áður hét B ehf. og þar áður D ehf., en það félag var í eigu A. Þetta félag og önnur sem hann var í fyrirsvari fyrir voru í viðskiptum við áfrýjanda sem seldi þeim drykkjarvörur og lagði þeim til tækjabúnað til rekstrarins auk þess að veita þeim lán.

9. Í máli þessu er til úrlausnar ráðstöfun sem snertir umrætt félag C ehf. Viðskipti þess við áfrýjanda munu hafa farið eftir samningi 28. apríl 2015. Félagið rak veitingahús undir heitinu D í fasteigninni […] í Reykjavík en það húsnæði hafði félagið á leigu samkvæmt samningi 1. mars 2014 við húseiganda. Með viðauka 28. apríl 2015 við leigusamninginn sem áfrýjandi átti jafnframt aðild að var honum veitt heimild til að yfirtaka öll réttindi og skyldur leigutaka samkvæmt samningnum ef tilteknar vanefndir yrðu gagnvart áfrýjanda eða leigusala á fyrrgreindum samningum eða við uppsögn á leigusamningnum. Einnig var áfrýjanda heimilt að yfirtaka samninginn ef leigutaki framseldi leigurétt sinn án samþykkis leigusala og áfrýjanda eða eigendaskipti yrðu á leigutaka án samþykkis áfrýjanda. Þá var yfirtaka heimil ef gert yrði árangurslaust fjárnám hjá leigutaka eða bú hans tekið til gjaldþrotaskipta.

10. Með samningi 24. apríl 2015 hafði C ehf., sem þá hét D ehf., fengið lán til fimm ára frá áfrýjanda að fjárhæð 44.870.997 krónur. Til tryggingar þeirri skuld auk vaxta og kostnaðar var áfrýjanda með tryggingarbréfi 28. sama mánaðar veitt veð í fasteigninni […]. Sama dag tókst fyrrgreindur A á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 50.000.000 króna til tryggingar á skuldum C ehf. og annarra tilgreindra félaga á vegum hans. Tekið var fram að áfrýjanda væri í sjálfsvald sett hvort aðalskuldari yrði fyrst krafinn um efndir eða gengið að A á grundvelli ábyrgðarinnar. Þar kom einnig fram að ábyrgðin væri í þágu atvinnurekstrar hans og fjárhagslegs ávinnings. Í samræmi við það félli ábyrgðin ekki undir lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn, sbr. 2. mgr. 2. gr. laganna.

11. Á fyrrgreindri fasteign að […] eru tvö sumarhús. Þegar eignin var veðsett áfrýjanda var þinglýstur eigandi hennar E ehf. Með samruna 1. nóvember 2014 var það félag yfirtekið af C ehf., sem þá hét D ehf. Samrunaafsal fyrir eigninni var gefið út 23. júní 2019 og móttekið til þinglýsingar degi síðar. Sama dag gaf C ehf., þá B ehf., út afsal fyrir eigninni til óskyldra aðila en söluandvirði hennar, að fjárhæð 22.931.634 krónur, rann inn á reikning A. Skömmu áður eða 18. júní 2019 hafði áfrýjandi samþykkt að leysa eignina úr veðböndum.

12. Með samningi 25. júní 2019, sem móttekinn var til þinglýsingar degi síðar, seldu A og fyrrverandi sambýliskona hans íbúð að […] í Reykjavík sem þau áttu að jöfnu. Söluandvirði hennar var 46 milljónir króna en því var að hluta ráðstafað til að gera upp áhvílandi veðskuldir. Þá áttu þau einnig að jöfnu einbýlishús að […] í Garðabæ en með afsali 1. júlí 2019, sem móttekið var til þinglýsingar 25. sama mánaðar, ráðstafaði hann hlut sínum til hennar. Í afsalinu kom kaupverðið ekki fram en tilgreint að það væri að fullu greitt, meðal annars með því að sambýliskonan tæki að sér að greiða áhvílandi veðskuldir. Á skattframtali A árið 2020 vegna ársins 2019 kom fram að hann hefði ráðstafað fjórum bifreiðum til sambýliskonunnar og var söluverð þeirra tilgreint samtals 9.290.000 krónur.

13. Á árinu 2019 urðu miklir fjárhagsörðugleikar hjá C ehf. Vegna vanefnda félagsins við áfrýjanda var A send greiðsluáskorun með bréfi 10. október það ár á grundvelli fyrrgreindrar sjálfskuldarábyrgðar hans. Þar kom fram að skuldin næmi samtals 29.302.352 krónum sem sundurliðuðust þannig að 12.713.080 krónur væru vegna lánssamnings og 16.589.272 krónur vegna vörukaupa. Í bréfinu kom fram að áfrýjanda væri kunnugt um að félagið hefði að mestu eða öllu leyti hætt þeim veitingarekstri sem væri forsenda fyrir þeim samningum sem áfrýjandi hefði gert við það. Áfrýjanda barst 1. nóvember 2019 greiðsla frá A að fjárhæð 29.330.919 krónur fyrir milligöngu lögmanns hans. Þá fjármuni mun hann hafa fengið frá C ehf. sem nokkru fyrr hafði selt rekstur sinn. Eins og áður greinir eru aðeins til úrlausnar í málinu kröfur stefnda vegna riftunar þessarar ráðstöfunar.

14. Árangurslaust fjárnám var gert hjá C ehf. 9. desember 2019 og í kjölfarið var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 15. apríl 2020. Með bréfi 10. júlí það ár lýsti skiptastjóri þrotabúsins yfir riftun gagnvart A á ráðstöfunum félagsins með greiðslum til hans samtals að fjárhæð 101.231.000 krónur og samhliða var gerð sú krafa að hann endurgreiddi búinu þá fjárhæð. Fjárhæðin var sögð sundurliðast þannig að 22.931.000 krónur væru söluandvirði fyrrgreindrar eignar að […], sem runnið hefði beint til A, en 78.300.000 krónur hefðu verið færðar af bankareikningi félagsins yfir á reikninga hans á tímabilinu frá 2. janúar til 9. október 2019.

15. Árangurslaust fjárnám var gert hjá A 19. ágúst 2020. Bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 21. október sama ár en þrotabúið er, eins og fram er komið, stefndi í málinu hér fyrir dómi.

16. Með bréfi 20. nóvember 2020 lýsti stefndi yfir riftun á greiðslum til fyrrverandi sambýliskonu A, samtals að fjárhæð 90.549.999 krónur, vegna millifærslna af bankareikningum hans inn á reikning hennar á tímabilinu 14. febrúar til 30. desember 2019. Jafnframt var lýst yfir riftun á ráðstöfun helmings eignarhluta þrotamanns í eigninni […] til hennar með afsali. Að kröfu stefnda var gerð kyrrsetning hjá fyrrverandi sambýliskonunni 3. desember 2020. Annars vegar var kyrrsett fasteignin […] fyrir 90 milljónir króna og hins vegar bankainnstæða að fjárhæð 5 milljónir króna. Að öðru leyti var gerðin árangurslaus. Í kjölfarið höfðaði stefndi mál á hendur henni til staðfestingar á gerðinni, riftunar á fyrrgreindum ráðstöfunum og greiðslu að fjárhæð 90.549.999 krónur. Því máli lauk með réttarsátt 20. apríl 2021. Samkvæmt henni féll stefndi frá öllum kröfum á hendur fyrrverandi sambýliskonunni gegn greiðslu að fjárhæð 24 milljónir króna. Þar af áttu 10 milljónir króna að vera tryggðar með veði í fasteigninni […]. Með sáttinni féll hún frá kröfulýsingum sínum í búið, samtals að fjárhæð 53.052.001 króna. Þær kröfur voru annars vegar vegna ógreiddra eftirstöðva að fjárhæð 49.052.001 króna vegna samnings 3. september 2018 um sambúðarslit og hins vegar vegna láns til þrotamanns að fjárhæð 4.300.000 krónur.

17. Samkvæmt skrá yfir lýstar kröfur við gjaldþrotaskiptin námu þær tæpum 4,5 milljónum króna ef ekki eru taldar með fyrrgreindar kröfur þrotabús C ehf., fyrrverandi sambýliskonu þrotamanns og krafa Landsbankans hf. að fjárhæð tæplega 62 milljónir króna sem tryggð var með 1. veðrétti í fasteigninni […].

18. Með bréfi 2. febrúar 2021 lýsti stefndi yfir riftun á ráðstöfunum með fyrrgreindum greiðslum til áfrýjanda og krafðist endurgreiðslu sem svaraði til þess. Áfrýjandi hafnaði þessu með bréfi 10. sama mánaðar. Stefndi höfðaði mál þetta á hendur áfrýjanda 22. júní 2021 og reisti kröfur sínar á 141. gr. og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991, svo sem áður greinir.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjanda

19. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að hann hafi krafið þrotamann um greiðslu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar hans 28. apríl 2015 vegna skulda C ehf. sem þá hét D ehf. Áfrýjandi vísar til þess að honum hafi verið frjálst að ganga að félaginu sem aðalskuldara eða þrotamanni sem ábyrgðarmanni. Hafi hann kosið að ganga að ábyrgðarmanninum þar sem engin ástæða hafi verið til að efast um gjaldfærni hans en aðalskuldari að öllum líkindum ógjaldfær.

20. Áfrýjandi mótmælir því að ótilhlýðilegt hafi verið af honum í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 að krefja þrotamann um greiðslu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar hans eða hann hafi verið grandsamur um nokkur þau atvik sem valdi því að greiðslan hafi verið ótilhlýðileg. Jafnframt andmælir áfrýjandi því að hann hafi verið grandsamur um ógjaldfærni þrotamanns en sönnunarbyrði um það hvíli á stefnda eftir þeirri riftunarreglu sem málsóknin sé reist á.

21. Áfrýjandi vísar til þess að Landsréttur hafi dregið ályktanir af skattframtali þrotamanns árið 2020 vegna tekjuársins 2019. Því framtali hafi verið skilað eftir að greiðsla sú sem málið tekur til var innt af hendi 1. nóvember 2019. Þess utan hafi áfrýjandi engan aðgang haft að skattframtölum þrotamanns eða upplýsingum um tekjur hans. Þá geti engu breytt um úrslit málsins síðbúnar upplýsingar um að þrotamaður hafi ásamt fyrrverandi sambýliskonu sinni selt íbúð þeirra í júní 2019. Hið sama eigi við um afsal hans til hennar í júlí sama ár á hans hluta í fasteigninni […] enda komi þar ekki annað fram en að greiðsla hafi komið fyrir eignarhlutann. Áfrýjandi hafi því mátt gera ráð fyrir að þrotamaður ætti umræddan eignarhlut eða hefði í öllu falli andvirði hans til ráðstöfunar. Þá bendir áfrýjandi á að með öllu séu óljóst um lögskipti þrotamanns og C ehf. annars vegar og hins vegar milli hans og fyrrverandi sambýliskonu með millifærslum á umtalsverðum fjármunum eða hvað legið hafi þar að baki. Þannig hafi stefndi gert réttarsátt við sambýliskonuna um að hún greiddi 24 milljónir króna en fallið að öðru leyti frá kröfum á hendur henni. Auk þess skipti engu fyrir niðurstöðu málsins þótt áfrýjandi hafi tekið við greiðslu úr hendi þrotamanns 9. ágúst 2019 vegna annars félags en málið taki ekki lengur til þeirrar ráðstöfunar.

22. Áfrýjandi vísar til þess að kröfur hans á hendur C ehf. hafi ekki aðeins verið tryggðar með sjálfskuldarábyrgð þrotamanns heldur einnig með veði í fasteigninni […]. Í júní 2019 hafi áfrýjandi fallist á beiðni þrotamanns um að leysa þessa eign úr veðböndum. Áfrýjandi hafi í góðri trú talið að tilefni þess að selja ætti eignina væri að treysta fjárhagsstöðu C ehf. Afstaða hans til beiðninnar hafi einnig byggst á því að sjálfskuldarábyrgðin fæli að svo búnu í sér fullnægjandi tryggingu. Það hafi komið áfrýjanda í opna skjöldu þegar honum varð ljóst af málatilbúnaði stefnda að söluandvirðið hefði ekki runnið til félagsins heldur beint til þrotamanns. Við blasi að aldrei hefði verið fallist á beiðni um afléttingu veðsins ef áfrýjandi hefði talið þetta vaka fyrir þrotamanni enda hefði andvirði eignarinnar dugað sem trygging fyrir verulegum hluta krafna áfrýjanda.

23. Áfrýjandi andmælir því að hann hafi mátt ætla að þrotamaður glímdi við fjárhagsvanda þótt sú hafi verið raunin um einkahlutafélög í hans eigu. Á skuldum þeirra hafi þrotamaður ekki borið ábyrgð nema um það væri sérstaklega samið eins og átti við um kröfur áfrýjanda. Einnig sé þess að gæta að þrotamaður hafi um árabil verið umsvifamikill í veitingarekstri og átt fjölda bifreiða og hlut í tveimur fasteignum. Þá mótmælir áfrýjandi sérstaklega þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að honum hefði borið að kanna fjárhagsstöðu þrotamanns áður en tekið var við greiðslu úr hans hendi á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar. Skylda af því tagi geti almennt ekki hvílt á þeim sem eigi í viðskiptum við þrotamann og ekki sé útskýrt í dóminum hvað hefði átt að felast í slíkri könnun. Þrotamaður hafi ekki verið á vanskilaskrá þegar áfrýjandi tók við greiðslu úr hans hendi eins og fram komi í hinum áfrýjaða dómi. Aðrar upplýsingar af því tagi um fjármál einstaklinga séu ekki opinberar. Loks tekur áfrýjandi fram að hann hafi með öllu verið grandlaus um ráðstöfun fjármuna frá C ehf. til þrotamanns og ráðstafanir hans á fjármunum til fyrrverandi sambýliskonu sinnar.

Helstu málsástæður stefnda

24. Stefndi vísar til þess að þrotamaður hafi um árabil átt viðskipti við áfrýjanda á vettvangi fyrirtækja sem hann rak. Veitt hafi verið sérkjör vegna trygginga sem settar höfðu verið gagnvart áfrýjanda en af þeim sökum hafi hann verið í aðstöðu til að beita sér gagnvart þrotamanni. Við sölu á rekstri D hafi áfrýjandi þannig gert þá kröfu að þrotamaður innti af hendi greiðslu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar í stað þess að greiðslan kæmi beint frá C ehf. Þetta hafi verið ótilhlýðilegt í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991.

25. Stefndi heldur því fram að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða í öllu falli orðið ógjaldfær við greiðsluna 1. nóvember 2019 til áfrýjanda. Þegar hún hafi verið innt af hendi hafi hann verið búinn að ráðstafa fasteignum sínum og bifreiðum og samtals greiða áfrýjanda um 40 milljónir króna. Því hafi áfrýjanda mátt vera ljóst að þeir fjármunir hefðu ekki getað komið frá öðrum en félagi í hans eigu eins og raunin hafi verið. Hér verði einnig að gæta að því að tengsl áfrýjanda og þrotamanns hafi verið langvarandi og náin og sá fyrrnefndi verið í aðstöðu til að hafa áhrif á ráðstafanir þess síðarnefnda vegna trygginga sem hann naut gagnvart bæði áfrýjanda og C ehf. Þessa aðstöðu hafi áfrýjandi nýtt sér og þvingað þrotamann til að greiða skuldina persónulega eins og hann hafi lýst í vætti sínu fyrir héraðsdómi. Að þessu gættu telur stefndi að áfrýjanda hafi ekki getað dulist að þrotamaður væri ógjaldfær, greiðsla frá honum verið til þess fallin að vera áfrýjanda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og leiða til skuldaaukningar hjá þrotamanni. Því séu uppfyllt öll skilyrði riftunar á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða

26. Samkvæmt ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. er þrotabúi heimilt að rifta tilteknum ráðstöfunum þrotamanns í aðdraganda gjaldþrotaskipta á búi hans. Tilgangur þessara reglna er að stuðla að því grundvallarmarkmiði laganna að jafnræði ríki milli kröfuhafa og jafnframt að ná undir skiptin verðmætum sem þrotamaður hefur ráðstafað. Riftunarreglur laganna eru að meginstefnu hlutlægar og fela í sér rúmar heimildir fyrir þrotabú til að fá ráðstöfunum þrotamanns hnekkt. Öðru gegnir þó um hina almennu riftunarreglu 141. gr. laganna sem felur í sér þrengri skilyrði til riftunar og veltur meðal annars á huglægri afstöðu þess sem hún beinist að. Hvað sem líður fyrrgreindum tilgangi riftunarreglna laganna verður að hafa í huga að þær fela í sér frávik frá almennu frelsi manna til að ráðstafa hagsmunum sínum með löggerningum, meðal annars til að ráða bót á fjárhagsörðugleikum sínum. Verður þá einnig að horfa til þess að það kann að draga úr viðskiptaöryggi ef löggerningum er raskað síðar og þá því meir sem lengra er liðið frá gerð þeirra. Að þessu gættu verða ákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 almennt skýrð eftir orðanna hljóðan og þeim að jafnaði ekki beitt með rýmri hætti en orðalagið gefur tilefni til.

27. Almenna riftunarreglan í 141. gr. laga nr. 21/1991 hljóðar svo:

Krefjast má riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt eru kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamanns verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaður var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg.

28. Eins og tekið er fram í ákvæðinu er gerður sá áskilnaður fyrir riftun ráðstöfunar að sá sem hún beinist að hafi verið grandsamur bæði um ógjaldfærni þrotamanns og ótilhlýðileika ráðstöfunar. Sönnunarbyrði um grandsemi hvílir á þrotabúi en sönnunarmatið er eðli máls samkvæmt háð atvikum og aðstæðum hverju sinni.

29. Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var þrotamaður ekki á vanskilaskrá þegar greiðslan var innt af hendi 1. nóvember 2019 til áfrýjanda. Samkvæmt yfirliti Creditinfo var fyrst getið þar um áritaða stefnu á hendur þrotamanni 25. maí 2020 eða tæpum sjö mánuðum eftir að ráðstöfunin var gerð. Þá hefur ekkert komið fram sem bendir til að áfrýjandi hafi um þetta leyti haft tilefni til að draga í efa gjaldfærni þrotamanns af öðrum ástæðum. Getur það ekki ráðið úrslitum í því tilliti að fyrirtæki á hans vegum, sem rekin voru í félögum með takmarkaðri ábyrgð, höfðu glímt við fjárhagsörðugleika og að áfrýjanda hafi verið kunnugt um það. Er þá horft til þess að alls ekki var sjálfgefið að það sama ætti við um fjárhag félaganna og þrotamann sem eiganda þeirra.

30. Í hinum áfrýjaða dómi var byggt á því að áfrýjanda hefði borið að kanna fjárhag þrotamanns áður en tekið var við greiðslu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar gagnvart áfrýjanda frá árinu 2015. Á slík sjónarmið hefur verið fallist í dómum Hæstaréttar ef sá sem nýtur ráðstöfunar er í þeirri stöðu gagnvart þrotamanni að hafa aðgang að upplýsingum um fjárhag hans eða hafa mátt búa yfir tiltekinni vitneskju um slík atriði. Um það má benda á dóm Hæstaréttar 11. nóvember 2010 í máli nr. 72/2010 þar sem endurskoðandi var vegna starfa sinna í þágu félags talinn grandsamur um ógjaldfærni þess þegar hann fékk greidda reikninga á hendur því fyrir störf sín. Hér má einnig nefna dóm réttarins 15. júní 2017 í máli nr. 527/2016. Þar var eiginkona þrotamanns, sem hafði verið í sambúð með honum í sjö ár, talin grandsöm um ógjaldfærni hans og ótilhlýðileika ráðstöfunar. Fólst ráðstöfunin í því að hún fékk að gjöf nær allar eigur hans en verðmæti þeirra var umtalsvert. Þegar höfð er í huga sú aðstaða sem reyndi á í þessum málum geta nefndir dómar ekki haft fordæmisgildi um þau atvik sem hér eru til úrlausnar.

31. Líta verður til þess að upplýsingar um fjárhag einstaklinga umfram það sem greinir í vanskilaskrá eru í takmörkuðum mæli aðgengilegar fyrir þá sem eiga í viðskiptum á almennum markaði. Með vísan til þess, stöðu áfrýjanda og þrotamanns og þeirra upplýsinga sem sá fyrrnefndi mátti samkvæmt framansögðu hafa um persónuleg fjármál hins síðarnefnda verður ekki fallist á það með Landsrétti að áfrýjanda hafi borið að kanna fjárhag þrotamanns frekar en gert var áður en tekið var við greiðslu úr hans hendi á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sem hann gekkst í gagnvart áfrýjanda á árinu 2015.

32. Ekki verður heldur fram hjá því litið að áfrýjandi gaf 18. júní 2019 eftir tryggingu fyrir hluta af kröfu sinni í fasteigninni […]. Telja verður að það hefði hann varla gert ef hann hefði talið ástæðu til að ætla að aðrar tryggingar væru ófullnægjandi vegna ótryggrar fjárhagsstöðu þrotamanns, þar með talið fyrrnefndrar sjálfskuldarábyrgðar. Þá er þess að gæta að ekkert bendir til að áfrýjandi hafi vitað eða mátt vita að þrotamaður hafði í júní og júlí 2019 ráðstafað fasteignum og bifreiðum sínum án endurgjalds til fyrrverandi sambýliskonu sinnar.

33. Að öllu framangreindu virtu er ekkert komið fram um að áfrýjandi hafi verið grandsamur um ógjaldfærni þrotamanns þegar hann innti af hendi greiðslu til áfrýjanda 1. nóvember 2019 að fjárhæð 29.330.919 krónur. Af þeirri ástæðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda um riftun ráðstöfunarinnar samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 og greiðslu bóta eftir 3. mgr. 142. gr. laganna.

34. Eftir þessum úrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjanda málskostnað vegna reksturs málsins á öllum dómstigum og verður hann ákveðinn í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Coca-Cola Europacific Partners Ísland ehf., er sýkn af kröfum stefnda þrotabús A.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 3.000.000 króna í málskostnað vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.