Hæstiréttur íslands

Mál nr. 35/2025

Tómas Kristjánsson og Berglind Anna Zoega Magnúsdóttir (Grétar Dór Sigurðsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Andri Andrason lögmaður)

Lykilorð

  • Lán
  • Neytendalán
  • Vextir
  • Banki
  • Skuldabréf
  • Ósanngjarnir samningsskilmálar
  • Neytendur
  • EES-samningurinn
  • Ógilding samnings að hluta
  • Endurkrafa

Reifun

T og B höfðuðu mál gegn L hf. og kröfðust endurgreiðslu á vöxtum sem þau töldu sig hafa ofgreitt af tveimur verðtryggðum skuldabréfum með breytilegum vöxtum. Skuldabréfin höfðu þau upphaflega gefið út til LÍ hf. í júní 2006 og innt síðustu greiðslur af hendi í júní 2021. Í 2. tölulið skuldabréfanna var samhljóða skilmáli um breytingar á vöxtum. Byggðu T og B á því að hann hefði farið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán og hann einnig verið ósanngjarn og ógildur samkvæmt 36. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Hæstiréttur féllst ekki á málsástæður L hf. um að T og B hefðu glatað rétti til hugsanlegrar endurgreiðslu á grundvelli traustfangsreglna um viðskiptabréf eða vegna tómlætis. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að skilmálinn hefði ekki fullnægt ákvæðum laga nr. 121/1994 var staðfest enda yrði ekki séð hvernig sæmilega upplýstur og athugull neytandi hefði með fullnægjandi hætti getað ráðið af honum af hvaða tilefni bankinn hygðist breyta samningsvöxtum. Þá var skilmálinn talinn hafa verið til þess fallinn að raska til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila T og B í óhag samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936 og því ógildur eftir 36. gr. sömu laga. Þar sem upphaflegt vaxtaákvæði bréfanna taldist þrátt fyrir þetta hafa verið gilt kom ekki til álita að T og B gætu byggt fjárkröfu á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Vísað var til þess að vegna ógildis skilmálans hefði L hf. ótvírætt verið óheimilt að byggja ákvarðanir um hækkun samningsvaxta af lánum T og B á honum. Á því tímabili sem kröfur T og B töldust ófyrndar höfðu vextir af lánunum hins vegar í öllum tilvikum verið lægri en þeir sem upphaflega hafði verið samið um. Hæstiréttur leit til þess að eitt meginefni lánasamninganna hefði verið að vextir skyldu vera breytilegir. Var talið að T og B hefðu því mátt hafa ákveðnar væntingar um að L hf. lækkaði samningsvexti samhliða almennri vaxtaþróun, þó þannig að þau hefðu ekki mátt vænta þess að breytingar á samningsvöxtum fylgdu tafarlaust eða nákvæmlega slíkri þróun. Með hliðsjón af málatilbúnaði aðila og gögnum málsins var ekki talið liggja fyrir að vegna hins ólögmæta og ógilda skilmála hefðu þau greitt hærri vexti en þeim bar á umræddu tímabili eða með öðrum hætti orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Var því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu L hf. af kröfum T og B.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Sigurður Tómas Magnússon og Skúli Magnússon.

2. Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 11. apríl 2025 en ekki varð af þingfestingu þess. Málinu var áfrýjað að nýju til réttarins 24. júní sama ár.

3. Áfrýjandi Tómas Kristjánsson krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.785.762 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilteknum fjárhæðum frá 10. janúar 2018 til greiðsludags. Til vara er krafist greiðslu á 1.227.892 krónum með sömu vöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. júní 2021 til greiðsludags en til þrautavara annarrar og lægri fjárhæðar að mati dómsins. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum og fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

4. Áfrýjandi Berglind Anna Zoega Magnúsdóttir krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.703.524 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 13. janúar 2018 til greiðsludags. Til vara er krafist greiðslu á 1.182.593 krónum með sömu vöxtum af nánar tilteknum fjárhæðum frá 1. júní 2021 til greiðsludags en til þrautavara annarrar og lægri fjárhæðar að mati dómsins. Þá krefst hún málskostnaðar á öllum dómstigum og fyrir Hæstarétti eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

5. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur auk málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

6. Ágreiningur aðila lýtur að samhljóða skilmála tveggja verðtryggðra skuldabréfa sem áfrýjendur gáfu út 8. júní 2006 til Landsbanka Íslands hf. en í honum var fjallað um heimild bankans til breytinga á samningsvöxtum bréfanna. Deilt er um hvort skilmálinn hafi uppfyllt gagnsæiskröfur þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán og hvort hann hafi verið ósanngjarn samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Ef talið verður að skilmálinn sé af þessum ástæðum ógildur er deilt um réttaráhrif þess og þá hvort áfrýjendur eigi kröfu á hendur stefnda vegna ofgreiddra vaxta. Þá er ágreiningur um hvernig skýra beri framangreind lög í ljósi Evróputilskipana um neytendavernd sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn.

7. Héraðsdómur féllst á þrautavarakröfur áfrýjenda og gerði stefnda að greiða áfrýjandanum Berglindi Önnu 124.229 krónur og áfrýjandanum Tómasi 108.711 krónur með nánar tilteknum dráttarvöxtum. Með dómi Landsréttar var stefndi hins vegar sýknaður af kröfum áfrýjenda.

8. Áfrýjunarleyfi var veitt 10. apríl 2025, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2025-40, á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa verulegt almennt gildi.

Málsatvik

9. Áfrýjendur gáfu hvort út sitt skuldabréf 8. júní 2006 til Landsbanka Íslands hf. vegna tveggja lána til 15 ára og gengust jafnframt í sjálfskuldarábyrgð hvort fyrir annað með undirritun sinni á bréfin. Staðlaður texti bréfanna var samhljóða, þar á meðal sá hluti þeirra sem síðar greinir um heimild bankans til að breyta samningsvöxtum.

10. Fyrirsögn fyrrgreindra skjala var „Skuldabréf með óskiptri sjálfskuldarábyrgð lán til einstaklings“. Til hliðar við þá fyrirsögn var eftirfarandi texti: „Skuldabréfið er verðtryggt með breytilegum vöxtum og jöfnum afborgunum“. Fjárhæð hvors bréfs var 2.350.000 krónur, lánstíminn 15 ár með mánaðarlegum afborgunum og fyrsti gjalddagi 1. júlí 2006. Í bréfunum kom fram að grunnvísitala væri 258,90 og „flokkur vaxtaálags nú“ K3. Þá voru „kjörvextir nú“ tilgreindir 5,25%, vaxtaálag „nú“ 2% og „vextir samtals nú“ 7,25%.

11. Um vexti af láninu sagði svo í 2. tölulið skilmála skuldabréfanna:

Af láni þessu greiðast breytilegir ársvextir, eins og þeir eru ákveðnir á hverjum tíma af Landsbanka Íslands hf. og tekur það jafnt til kjörvaxta og vaxtaálags. Vextirnir greiðast eftir á, á sömu gjalddögum og afborganir, nema um annað sé samið. Landsbanka Íslands hf. er heimilt hvenær sem er á lánstímanum að hækka eða lækka framangreinda vexti, þ.m.t. vaxtaálag, í samræmi við vaxtaákvarðanir Landsbanka Íslands hf. á hverjum tíma og/eða færa lánið á milli vaxtaflokka, svo sem ef breytingar verða á fjárhagsstöðu og endurgreiðslumöguleikum útgefanda, ef breytingar verða á kjörvaxtakerfi bankans eða aðrar aðstæður gefa tilefni til.

12. Í 3. tölulið skilmálanna sagði um upplýsingagjöf bankans vegna vaxtabreytinga:

Ákveði Landsbanki Íslands hf. breytingar í samræmi við 2. tölulið, verður útgefanda tilkynnt um það sérstaklega eða með almennri auglýsingu, eftir atvikum, og ástæður þess tilgreindar. Vilji útgefandi ekki una breytingunni er honum heimilt að greiða skuldina upp með því vaxtaálagi sem í gildi var fram að breytingunni, enda hafi hann að fullu greitt skuldina innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar Landsbanka Íslands hf.

13. Áður en áfrýjendur undirrituðu skuldabréfin afhenti Landsbanki Íslands hf. þeim ýmis gögn með upplýsingum tengdum lánunum. Jafnframt rituðu þau undir lánsumsókn hvors annars sem maki og ábyrgðarmaður en í dálki með yfirskriftinni „sjálfskuldarábyrgð“ var að finna staðlaðan texta um að viðkomandi hefði kynnt sér bæklinga um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila, auk samkomulags um það efni sem fjármálastofnanir ættu aðild að. Lánaumsóknunum fylgdu greiðsluáætlanir þar sem gerð var grein fyrir áætlunum afborgana á lánstímanum og tekið fram að þær byggðust á þágildandi vöxtum og gjaldskrá bankans sem gæti tekið breytingum í samræmi við ákvæði bréfanna.

14. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 var skuldabréfunum ráðstafað til stefnda á grundvelli heimildar í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008.

15. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi og hinum áfrýjaða dómi breytti Landsbanki Íslands hf. og síðar stefndi vöxtum lánanna, fyrst til hækkunar í ágúst 2006 og urðu þeir hæstir 10,8% í janúar 2008. Frá mars 2009 lækkuðu þeir og urðu lægri en upphafsvextir lánanna í mars 2012. Í desember 2018 munu vextir af lánunum hafa lækkað í 7,1% og síðar í 6,7%, 6,4%, 6,1%, 5,7% og loks 5,6% sem voru þeir vextir sem bréfin báru þegar þau voru greidd upp 1. og 2. júní 2021.

Málsástæður

Helstu málsástæður áfrýjenda

16. Áfrýjendur byggja á því að upplýsingagjöf bankans við samningsgerðina og skilmáli skuldabréfanna hafi farið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. þágildandi laga nr. 121/1994 um neytendalán. Er þá einkum vísað til þess að í skilmálanum hafi í engu verið mælt fyrir um með hvaða hætti vextir lánanna væru breytilegir eða við hvaða aðstæður þeir gætu breyst.

17. Áfrýjendur benda á að í útskýringum stefnda á breytingum á vöxtum af lánunum hafi komið fram að við einstakar ákvarðanir hafi verið tekið tillit til fjármagnskostnaðar bankans, vaxta Seðlabankans, verðbólguþróunar og afleiddra raunstýrivaxta Seðlabankans. Ekkert þessara atriða hafi þó verið tilgreint í skilmálanum sem viðmið um breytingar. Samkvæmt 24. gr. laga nr. 121/1994 hafi í samningi ekki mátt víkja frá ákvæðum laganna neytanda í óhag. Skilmálinn hafi því bæði verið ólögmætur og ógildur.

18. Áfrýjendur byggja jafnframt á því að skilmálinn hafi verið ósanngjarn í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936. Hann sé því ógildur og ekki bindandi gagnvart áfrýjendum samkvæmt 36. gr. laganna. Skilmálinn hafi ekki uppfyllt þær kröfur um gagnsæi og skýrleika sem leiði af þessum ákvæðum laganna, sbr. einnig 5. og 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE. Áfrýjendur telja þannig að skilmálinn hafi raskað til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag og ekki samrýmst góðum viðskiptaháttum. Þau mótmæla forsendum hins áfrýjaða dóms að þessu leyti og vísa einkum til þess að í honum hafi verið litið fram hjá ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins 23. maí 2024 í sameinuðum málum nr. E-13/22 og E-1/23 og þeirri framkvæmd Evrópudómstólsins sem þar hafi verið vísað til. Stefnda hafi því verið óheimilt að byggja ákvarðanir um vexti af lánum áfrýjenda á skilmálanum.

19. Áfrýjendur leggja áherslu á að afleiðingar af ógagnsæi skilmálans hafi verið að lánveitandi gat í reynd tekið einhliða ákvörðun um breytingu á vöxtum á grundvelli þátta sem neytanda var ókleift að sannreyna. Staða neytandans hafi því verið veikt til muna og öll áhætta færð yfir á hann þar sem lánveitandi gat breytt vöxtum þvert á markaðsþróun. Slíkum einhliða rétti lánveitanda megi jafna til aðstöðu sem fjallað sé um í viðauka tilskipunar 93/13/EBE sem hafi að geyma leiðbeinandi skrá yfir ósanngjarna samningsskilmála. Er því til stuðnings einnig vísað til dóms Hæstaréttar 14. október 2025 í máli nr. 55/2024.

20. Áfrýjendur mótmæla sjónarmiðum stefnda um að einstakar vaxtabreytingar hafi ekki verið óvenjulegar eða ósanngjarnar miðað við aðstæður svo sem matsgerð dómkvadds manns eigi að sýna fram á. Benda þau á að mat á ósanngirni eigi ekki að taka mið af atvikum sem komu til eftir samningsgerð og allra síst neytanda í óhag. Því skipti í reynd ekki máli hvernig skilmálanum var beitt í framkvæmd. Jafnframt sé ljóst að mat á því hvort um „umtalsvert ójafnvægi” hafi verið að ræða geti ekki takmarkast við mælanlega fjárhagslega hagsmuni.

21. Áfrýjendur telja engin efni til að líta svo á að lánveitandi sem komi á heiðarlegan og sanngjarnan hátt fram við neytanda geti vænst þess að hann sé reiðubúinn að eftirláta lánveitanda einhliða, ótakmarkaða heimild til að breyta vöxtum í þeim tilgangi að auka arðsemi í rekstri sínum, jafnvel þvert á almenna vaxtaþróun. Skilmálinn hafi því ekki aðeins raskað til muna jafnvægi réttinda og skyldna aðila heldur einnig strítt gegn góðum viðskiptaháttum í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936.

22. Til stuðnings málatilbúnaði sínum vísa áfrýjendur til ráðgefandi álita EFTA-dómstólsins 23. maí 2024, annars vegar í sameinuðum málum E-13/22 og E-1/23 og hins vegar í máli nr. E-4/23 um skýringu hliðstæðra ákvæða tilskipunar 93/13/EBE og dóma Evrópudómstólsins sem þar er vísað til.

23. Samkvæmt þessu hafi enginn gildur skilmáli verið í skuldabréfunum um vexti og hafi þau að þessu leyti verið ómarktæk frá upphafi. Réttaráhrif ógildingar skilmálans séu á forræði neytanda sem ráði hvort uppgjör fylgi fyrirmælum 36. gr. c laga nr. 7/1936 á þá leið að samningur standi óbreyttur án skilmálans eða hinni almennu reglu 18. gr. laga nr. 38/2001. Beri því að leggja til grundvallar að lán áfrýjenda hafi borið vexti samkvæmt 4. gr. síðargreindu laganna. Í þessu máli geri áfrýjendur ekki kröfu um að skilmálinn standi óbreyttur. Af því leiði að þau hafi ofgreitt vexti af lánunum frá upphafi. Eigi þau rétt á endurgreiðslu þeirra samkvæmt meginreglu fjármunaréttar um endurgreiðslu ofgreidds fjár og 18. gr. laga nr. 38/2001.

24. Áfrýjendur mótmæla því að ógildingarástæða skilmálans geti ekki komist að vegna traustfangsreglna um viðskiptabréf. Um sé að ræða sterka mótbáru sem ekki hafi tapast þegar stefndi varð kröfuhafi gagnvart áfrýjendum með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Í þeim aðilaskiptum hafi ekki falist framsal í lifanda lífi (inter vivos) og stefndi auk þess ekki verið grandlaus. Ekkert sé heldur komið fram um að Landsbanki Íslands hf., forveri stefnda, hafi haft gilda tryggingu samkvæmt 18. gr. laga nr. 121/1994. Þurfi stefndi því að sæta öllum mótbárum áfrýjenda er snúa að lögmæti og ógildi skuldabréfanna.

25. Því er mótmælt að kröfur áfrýjenda séu að einhverju leyti fallnar niður fyrir tómlæti eða fyrningu. Samkvæmt 1. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 skuli endurreikna lán með ógildan skilmála um vexti frá og með stofndegi peningakröfu. Ákvæðið miðist við að hverri ofgreiðslu sé á greiðsludegi ráðstafað inn á höfuðstól láns í samræmi við meginreglur um skuldajöfnuð. Um hafi verið að ræða viðvarandi skuldasamband þar sem báðum aðilum samnings hafi á hverjum tíma verið heimilt að skuldajafna endurkröfu skuldara við aðalkröfu kröfuhafa afturvirkt án yfirlýsingar. Þar sem kröfurnar hafi verið samrættar skipti ekki máli þótt endurgreiðslukrafa áfrýjenda teldist fyrnd ef hún stæði ein og sér.

26. Um fyrningu vísa áfrýjendur einnig til þess að samkvæmt 16. gr. laga nr. 121/1994 hafi áfrýjendum verið heimilt að greiða inn á höfuðstól, sbr. einnig 9. tölulið skilmála skuldabréfanna. Uppgjörsregla 6. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 miðist við að endurútreikningur kröfu fari fram og leiði hann til þess að krafa sé að fullu greidd skuli lánveitandi endurgreiða þá fjárhæð sem upp á vanti. Þá er vísað til 7. gr. tilskipunar 93/13/EBE um skyldu ríkisins til að tryggja að réttur neytanda sé ekki skertur kerfisbundið með fyrningarreglum svo það verði óhóflega erfitt fyrir neytanda að nýta sér réttindi sín. Að lokum er um þetta vísað til þess að 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda eigi við þar sem áfrýjendur hafi fyrst getað áttað sig á mögulegri tilvist kröfu sinnar árið 2021.

27. Aðalkröfur áfrýjenda grundvallast á því að samkvæmt 1. og 3. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 eigi að reikna vexti samkvæmt 4. gr. þeirra frá stofndegi krafna þeirra. Lánin hafi þannig frá upphafi borið vexti samkvæmt síðarnefndu greininni og endurgreiðslukröfur þeirra að engu leyti fyrndar. Er þá gert ráð fyrir því að skuldabréfin hefðu verið að fullu greidd í maí og júní 2016 og allar greiðslur eftir þann tíma umframgreiðslur. Varakröfur þeirra miðast einnig við vexti samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 en að kröfur þeirra fram til 8. desember 2017 séu fyrndar. Til stuðnings þrautavarakröfum sínum vísa áfrýjendur einkum til útreikninga stefnda sjálfs sem þó taki mið af reikniaðferð áfrýjenda og niðurstöðu héraðsdóms. Er þá einnig miðað við að kröfur vegna oftekinna vaxta fram til 8. desember 2017 séu fyrndar og að þær beri dráttarvexti frá 18. júlí 2021, sbr. 6. mgr. 18. gr. laganna, en ella frá málshöfðun 8. desember 2021.

Helstu málsástæður stefnda

28. Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á traustfangsreglum um viðskiptabréf. Mótbárur á grundvelli 36. gr. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 teljist til veikra mótbára sem glatist gagnvart grandlausum framsalshafa. Hið sama eigi við um mótbárur sem lúti að forsendum og skilyrðum skuldara vegna þeirra lögskipta sem útgáfa viðskiptabréfs sé sprottin af. Sem framsalshafi skuldabréfanna þurfi stefndi ekki að sæta því að áfrýjendur beri fyrir sig að efni þeirra hafi verið andstætt lögum eða þau ekki fengið fullnægjandi upplýsingar samkvæmt lögum nr. 121/1994 í tengslum við lántöku. Einnig telur stefndi að áfrýjendur hafi glatað kröfum sínum vegna tómlætis en engar athugasemdir hafi verið gerðar af þeirra hálfu við vexti af lánunum fyrir en eftir uppgreiðslu þeirra árið 2021. Jafnframt vísar stefndi til þess að hann eigi ekki að bera hallann af sönnunarskorti um hvort forveri hans, Landsbanki Íslands hf., hafi tekið tryggingu vegna hugsanlegrar vanefndakröfu neytanda vegna viðskipta sem standi að baki viðskiptabréfi, sbr. 17. og 18. gr. laga nr. 121/1994.

29. Stefndi mótmælir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um að upplýsingagjöf við gerð lánasamninganna eða skilmáli bréfanna hafi farið gegn 2. mgr. 6. gr. og 9. gr. laga nr. 121/1994. Áfrýjendur hafi fengið allar þær upplýsingar sem lögin gerðu ráð fyrir, það er með hvaða hætti vextirnir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir gætu breyst. Áfrýjendum hafi því verið fært að bera saman lánakosti og taka upplýsta ákvörðun um að gangast undir skilmálann í samræmi við markmið laganna. Ekki hafi verið sýnt fram á að sú hafi ekki verið raunin en horfa verði til þess að athugasemdir þeirra þar að lútandi hafi fyrst komið fram eftir uppgreiðslu lánanna í júní 2021.

30. Í skilmálanum hafi verið vísað til almennrar vaxtatöflu bankans sem þeim hafi verið kynnt í upphafi og hún birt opinberlega. Með þessu fyrirkomulagi hafi verið tryggt að vaxtabreytingar væru almennar gagnvart öllum í sambærilegri stöðu en beindust ekki sérstaklega gegn áfrýjendum eða öðrum einstökum lántökum. Þeim hafi þannig verið veitt trygging fyrir því að ákvarðanir um vexti væru teknar á málefnalegum og forsvaranlegum grundvelli.

31. Stefndi telur ekkert í lögum nr. 121/1994 eða lögskýringargögnum gefa tilefni til að ætla að lánveitanda hafi á þessum tíma borið að veita aðrar eða ítarlegri upplýsingar en veittar voru áfrýjendum. Ekki hafi þurft að tilgreina nánar en gert var með hvaða hætti vextirnir væru breytilegir eða við hvaða aðstæður þeir breyttust. Er því til stuðnings bent á að í frumvarpi sem varð að lögum nr. 30/1993 um neytendalán hafi verið lögð áhersla á að ekki yrði kveðið á um takmörkun á heimild aðila til að semja um lánskjör og vexti.

32. Stefndi telur einnig hafa þýðingu hvernig vöxtum lánanna var breytt í raun. Á 15 ára tíma skuldabréfanna hafi vextir bæði breyst til hækkunar og lækkunar. Þeir hafi hækkað nokkuð stöðugt frá útgáfu bréfanna og orðið hæstir í byrjun ársins 2008 fram til mars 2009 eða 10,8%. Á þeim tíma hafi aðstæður verið sérstakar. Á tímabilinu mars 2009 til febrúar 2012 hafi vextir farið lækkandi. Frá mars 2012 þar til lánin hafi verið greidd upp í júní 2021 hafi vextir verið samfellt lægri en upphafsvextir lánanna. Er í því tilliti vísað til matsgerðar dómkvadds manns um samanburð vaxta lánanna við ýmsa þætti. Einnig vísar stefndi til eigin samantektar um þau atriði sem lágu til grundvallar einstökum ákvörðunum um breytingu á vöxtunum. Af þessum gögnum megi ráða að hagfræðileg og fjármálaleg rök hafi búið að baki vaxtabreytingum.

33. Með vísan til þessa telur stefndi að væntingar áfrýjenda um að vextir af lánum þeirra fylgdu vöxtum á markaði hafi gengið eftir og þau ekki sýnt fram á annað í málinu. Ekki sé hér um að ræða síðari atvik sem óheimilt sé að líta til neytanda í óhag samkvæmt 2. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936. Þá fái ekki staðist að óheimilt sé við heildarmat á ósanngirni skilmálans að líta til þess að honum hafi verið beitt til hagsbóta fyrir áfrýjendur.

34. Stefndi telur jafnframt ekki skilyrði til að víkja umræddum skilmála afturvirkt til hliðar á grundvelli 36 gr. c laga nr. 7/1936 og tekur undir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að því leyti. Af dómaframkvæmd megi ráða að við mat á ógildi skilmála hafi einnig sérstaka þýðingu hvort sá sem slíks krefst hafi orðið fyrir tjóni eða raunverulegri röskun á hagsmunum sínum. Eins og málið liggi fyrir skorti áfrýjendur í reynd lögvarða hagsmuni af kröfum sínum.

35. Að því er varðar efni skuldabréfanna og atvik við samningsgerð er vísað til þess sem fyrr greinir að kröfum laga nr. 121/1994 hafi verið fullnægt um gagnsæi og skýrleika og áfrýjendur engar athugasemdir haft uppi. Miðað við þær aðstæður sem voru fyrir hendi telur stefndi að nokkuð mikið þurfi til svo til álita komi að skilmálinn hafi strítt gegn góðum viðskiptaháttum og raskað til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna aðila, áfrýjendum í óhag. Þá hafi þýðingu að eftirlitsaðilar hafi ekki gert athugasemdir við skilmálann.

36. Um stöðu aðila við samningsgerðina tekur stefndi fram að ekkert bendi til að bankinn hafi nýtt sér aðstöðumun. Ekki sé annað komið fram en að áfrýjendur hafi tekið lánin af fúsum og frjálsum vilja með upplýstri ákvörðun. Sem sæmilega athugulir og upplýstir neytendur hafi þau mátt vita hvað fælist í breytilegum vöxtum og hvaða atriði hefðu almennt áhrif á vaxtastig. Þeim hafi einnig mátt vera ljóst að vextir yrðu ekki ákveðnir á grundvelli ákveðinnar reikniformúlu eða annars konar útreikningsaðferðar þar sem ákveðin atriði hefðu fyrirframgefið vægi. Kröfu um slíkt fyrirkomulag hafi heldur ekki verið að finna í lögum á þeim tíma. Að sama skapi hafi áfrýjendum verið kleift að skilja samspil þess fyrirkomulags sem kveðið var á um í skilmálanum við almennar vaxtaákvarðanir og að þeim yrði tilkynnt um vaxtabreytingar með fyrirvara. Hafi þau þá átt þann kost að greiða upp skuld sína miðað við þau kjör sem gilt hefðu fram að vaxtabreytingu.

37. Um réttaráhrif hugsanlegs ógildis skilmálans vísar stefndi til þess að upphaflegir vextir lánanna hafi verið 7,25%. Ef skilmálinn teljist ógildur beri að líta svo á að þeir vextir hafi gilt frá upphafi enda beri að líta svo á að skuldabréfin hafi verið gild þótt bankinn hefði ekki haft heimild til vaxtabreytinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936. Við endurútreikning á þessum grunni beri hins vegar að horfa til þess að kröfur áfrýjenda um oftekna vexti fyrir 8. desember 2017 séu fyrndar. Fyrir liggi útreikningar stefnda á þessum grundvelli sem sýni að engar ofgreiðslur vaxta hafi farið fram á þessum tíma enda hafi vextir af lánunum verið lægri en upphaflegir vextir á síðustu níu árum lánstímans.

38. Stefndi mótmælir því að réttaráhrif ógildis skilmálans geti orðið þau að endurreikna beri lánin samkvæmt 18. gr. laga nr. 38/2001 eða leggja eigi til grundvallar að þau hafi borið vexti samkvæmt 4. gr. þeirra. Að því slepptu er útreikningum áfrýjenda að þessu leyti einnig mótmælt.

Löggjöf

39. Í málinu reynir einkum á skýringu eftirfarandi ákvæða laga og Evróputilskipana sem teknar hafa verið upp í EES-samninginn og miða að því að auka neytendavernd.

Lög nr. 121/1994 um neytendalán og Evróputilskipanir um efnið

40. Þegar umrædd skuldabréf voru gefin út 8. janúar 2006 giltu lög nr. 121/1994 um neytendalán. Fyrstu lögin um neytendalán voru lög nr. 30/1993, sem innleiddu meðal annars tilskipun 87/102/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum varðandi neytendalán eins og henni hafði verið breytt með tilskipun 90/88/EBE. Eftir gildistöku laganna komu upp vandkvæði við framkvæmd þeirra en af þeim sökum var ráðist í breytingar á þeim og þau endurútgefin sem lög nr. 121/1994. Voru þau síðar leyst af hólmi með lögum nr. 33/2013 um neytendalán sem tóku gildi 1. nóvember 2013.

41. Í 6. gr. laga 121/1994 var fjallað um hvaða upplýsingar lánveitandi skyldi gefa neytanda við gerð lánssamnings. Í 1. málslið 2. mgr. greinarinnar kom fram að ef breyta mætti lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum skyldi lánveitandi greina neytanda frá því við hvaða aðstæður breytingarnar gætu orðið. Í 2. málslið kom fram að væri ekki unnt að reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar skyldi lánveitandi þess í stað skýra neytanda frá því hverjir vextir væru, hvaða gjöld féllu á lánið og við hvaða aðstæður breytingar gætu orðið.

42. Í skýringum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 30/1993 var getið um að 6. gr. svaraði til 4. gr. tilskipunar 87/102/EBE. Í a-lið 2. mgr. 4. gr. þeirrar tilskipunar sagði að í skriflega samningnum skyldi koma fram yfirlýsing um árlega hlutfallstölu lánskostnaðar. Í b-lið var útlistað að í samningi skyldi einnig koma fram yfirlýsing um við hvaða aðstæður mætti breyta árlegri hlutfallstölu lánskostnaðar. Þá kom fram að ef ekki væri unnt að gefa yfirlýsingu um árlega hlutfallstölu lánskostnaðar skyldi veita neytanda nægjanlegar upplýsingar í skriflega samningnum. Upplýsingarnar skyldu að minnsta kosti taka til þess sem kveðið væri á um í öðrum undirlið 1. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar.

43. Í 9. gr. laga nr. 121/1994 var ákvæði um breytilegan lántökukostnað. Þar kom fram að þó að í lögunum væri kveðið á um að neytandi skyldi fá upplýsingar um vexti eða fjárhæðir þar sem vextir væru meðtaldir, sbr. 6. gr., kæmi það ekki í veg fyrir að aðilar gætu samið um að vextir væru að nokkru eða öllu leyti breytilegir. Skyldi þá greint frá vöxtum eins og þeir væru á þeim tíma sem upplýsingar væru gefnar, tilgreint með hvaða hætti vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breyttust.

44. Í 1. mgr. 9. gr. frumvarps sem varð að lögum nr. 30/1993 var upphaflega í 3. málslið mælt fyrir um að einungis mætti „semja um að vextir fylgi að hluta til eða öllu leyti meðalvöxtum sem Seðlabanki Íslands auglýsir eða vöxtum annarra lánastofnana sem lánveitandi getur ekki haft áhrif á”. Þá var í 2. mgr. greinarinnar að finna fyrirmæli um að lánveitandi skyldi tilkynna lántaka allar breytingar sem yrðu á árlegum nafnvöxtum eða öðrum kostnaðarliðum þegar breytingar yrðu. Þessi ákvæði féllu brott í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. Í áliti nefndarinnar var tillaga um að fella 3. málslið brott rökstudd með vísan til þess að hann fæli í sér takmörkun á heimild aðila til að semja um lánskjör. Um 2. mgr. 9. gr. sagði nefndin að hún legði á lánveitendur mjög ríka tilkynningarskyldu sem erfitt gæti reynst að uppfylla. Jafnframt kom fram að telja yrði „nægilegt að neytandi fái skýrar og ótvíræðar upplýsingar við samningsgerðina, sbr. 6. gr. frumvarpsins”.

45. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 121/1994 sagði að ef lánssamningur heimilaði verðtryggingu eða breytingu á vöxtum eða öðrum gjöldum sem teldist hluti af árlegri hlutfallstölu kostnaðar, en ekki væri hægt að meta áhrif þeirra við útreikning, skyldi reikna árlega hlutfallstölu kostnaðar miðað við þá forsendu að verðlag, vextir og önnur gjöld héldust óbreytt út lánstímann. Ákvæðið svaraði til 6. mgr. a-liðar 1. gr. tilskipunar 87/102/EBE eins og henni var breytt með tilskipun 90/88/EBE. Þar sagði að þegar um væri að ræða lánasamninga, sem í væru ákvæði er heimiluðu breytingar á vaxtagjöldum og upphæð eða stigi annars kostnaðar er félli undir árlega hlutfallstölu kostnaðar en ekki væri unnt að meta hverju næmi á þeim tíma sem útreikningur væri gerður, skyldi reikna út árlega hlutfallstölu kostnaðar á þeirri forsendu að vextir og annar kostnaður yrði óbreytanlegur og gilti fram til loka samningsins.

Lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum

46. Í 36. gr. og 36. gr. c laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. lög nr. 14/1995, eru meðal annars tilgreindar eftirfarandi heimildir til ógildingar á samningi:

36. gr.
Samningi má víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Hið sama á við um aðra löggerninga.
Við mat skv. 1. mgr. skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
36. gr. c.
Ákvæði 36. gr. gilda um samninga skv. 1. mgr. 36. gr. a, þó með þeim breytingum sem leiðir af 2. og 3. mgr.
Við mat á því hvort samningur skv. 1. mgr. sé ósanngjarn skal líta til atriða og atvika sem nefnd eru í 2. mgr. 36. gr., m.a. skilmála í öðrum samningi sem hann tengist. Þó skal eigi taka tillit til atvika sem síðar komu til, neytanda í óhag.
Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

47. Þá er tekið fram í 36. gr. b að skriflegur samningur skuli vera á skýru og skiljanlegu máli og komi upp vafi um merkingu hans skuli túlka hann neytandanum í hag.

48. Fyrrgreind breytingalög nr. 14/1995 voru sett til að innleiða tilskipun 93/13/EBE um ósanngjarna skilmála í neytendasamningum. Í greinargerð með frumvarpinu var lýst með hvaða hætti ákvæði þess stefndu að aukinni neytendavernd og jafnframt því markmiði að samræma löggjöf EES-ríkjanna um vissa ósanngjarna samningsskilmála í neytendasamningum, einkum stöðluðum skilmálum.

49. Ákvæði breytingalaganna innleiddu einkum 3., 5. og 6. gr. tilskipunar 93/13/EBE. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. hennar telst samningsskilmáli ósanngjarn, þrátt fyrir skilyrði um góða viðskiptahætti, ef hann veldur umtalsverðu ójafnvægi réttinda og skyldna samningsaðila neytanda til tjóns. Þá kemur fram í 5. gr. að samningar með skriflegum skilmálum skuli orðaðir á skýru, skiljanlegu máli og í vafatilvikum gildi sú túlkun sem neytendum komi best. Þá skulu aðildarríki samkvæmt 1. mgr. 6. gr. hennar mæla fyrir um að ósanngjarnir skilmálar í neytendasamningi séu samkvæmt landslögum þeirra ekki bindandi fyrir neytendur og samningurinn verði áfram bindandi fyrir aðila ef hann getur haldið gildi sínu að öðru leyti án ósanngjörnu skilmálanna.

Niðurstaða

Um mótbárutap áfrýjenda, fyrningu og tómlæti

50. Svo sem áður er rakið gáfu áfrýjendur út skuldabréf sín til Landsbanka Íslands hf. 8. júní 2006. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 urðu aðilaskipti að bréfunum og varð stefndi þá kröfuhafi gagnvart áfrýjendum. Stefndi heldur því fram að við þessa ráðstöfun Fjármálaeftirlitsins hafi áfrýjendur glatað hugsanlegum mótbárum sem þau hefðu getað haft uppi gegn upphaflegum kröfuhafa og vísar því til stuðnings til reglna um viðskiptabréf. Þær reglur hafa mótast á grundvelli tilskipunar 9. febrúar 1798 um áritun afborgana á skuldabréf og fela meðal annars í sér það skilyrði fyrir mótbárumissi skuldara að viðskiptabréf hafi verið framselt framsalshafa með samningi sem kemur til framkvæmda í lifanda lífi.

51. Fyrrgreind ráðstöfun Fjármálaeftirlitsins var reist á 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sem bættist við lögin með 5. gr. laga nr. 125/2008. Fól hún í sér stjórnvaldsákvörðun, sbr. dóm Hæstaréttar 14. apríl 2016 í máli nr. 617/2015. Þar sem aðilaskiptin fóru ekki fram með viðskiptalegum samningi glötuðu áfrýjendur í engu mótbárum gagnvart stefnda enda er markmið viðskiptabréfareglna að mæla fyrir um traustfang þeirra sem með slíkum löggerningi öðlast réttindi sín í góðri trú. Af þessum ástæðum gat 4. mgr. 17. gr. laga nr. 121/1994 ekki heldur leitt til mótbárumissis enda átti það ákvæði aðeins við um framsal viðskiptabréfskröfu á hendur neytanda á einkaréttarlegum grundvelli, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Samkvæmt þessu er hafnað málsástæðu stefnda um mótbárumissi áfrýjenda við aðilaskipti að kröfunum.

52. Í málinu hafa áfrýjendur uppi fjárkröfur vegna vaxta sem þau telja sig hafa ofgreitt allt frá árinu 2006 til þess dags er þau greiddu lánin upp á árinu 2021. Kröfur þeirra stofnuðust á því tímamarki þegar ætlaðar ofgreiðslur vaxtanna fóru fram, sbr. 1. málslið 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001. Byrjaði fyrningarfrestur því að líða við hverja og eina slíka greiðslu.

53. Eftir gildistöku laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda 1. janúar 2008 gilti um þessar kröfur áfrýjenda almennur fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 3. gr. þeirra. Kröfur þeirra sem stofnast höfðu á slíkum grundvelli fyrir þann tíma lutu hins vegar tíu ára fyrningarfresti samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sbr. 28. gr. fyrrnefndu laganna. Ekki verður á það fallist að atvik hafi verið með þeim hætti að áfrýjendur hafi fyrst á árinu 2021 fengið nauðsynlega vitneskju um kröfur sínar eða skuldarann þannig að 10. gr. fyrrnefndu laganna eigi við.

54. Leggja verður til grundvallar að fyrningu hafi fyrst verið slitið þegar áfrýjendur höfðuðu mál þetta 8. desember 2021. Þar sem skuldabréfin voru þá að fullu greidd verður ekki litið svo á að í málinu hafi áfrýjendur uppi kröfur til skuldajafnaðar við kröfur stefnda enda var samkvæmt framansögðu ekki lengur um neinar slíkar kröfur að ræða. Eiga því ekki við fyrirmæli 26. gr. laga nr. 150/2007 og hliðstætt ákvæði í 2. mgr. 1. gr. eldri laga nr. 14/1905 viðvíkjandi skuldajöfnuði samrættra krafna.

55. Samkvæmt þessu eru hugsanlegar fjárkröfur áfrýjenda vegna oftekinna vaxta sem stofnuðust fyrir 8. desember 2017 fallnar niður fyrir fyrningu. Að virtum atvikum málsins verður ekki talið að með þeirri niðurstöðu, sem helgast af almennum reglum íslensks réttar um fyrningu, hafi áfrýjendum sem neytendum verið gert óhóflega erfitt að hafa uppi endurkröfur sínar, sbr. 7. gr. tilskipunar 93/13/EBE. Hins vegar verður ekki fallist á með stefnda að áfrýjendur hafi fyrir tómlæti glatað hugsanlegum kröfum vegna oftekinna vaxta eftir það tímamark. Væri slík niðurstaða ósamrýmanleg markmiðum þeirra réttarreglna sem gilda um vernd neytenda og síðar verður vikið að.

56. Að þessum atriðum frágengnum snýr meginágreiningur aðila að því hvort skilmáli skuldabréfanna um vaxtabreytingar hafi fullnægt kröfum laga nr. 121/1994 og hvort óheimilt hafi verið að byggja ákvarðanir um vaxtabreytingar á honum samkvæmt ákvæðum laganna og ógildingarreglum 36. gr. og 36. gr. c laga nr. 7/1936. Ber þá einkum að hafa í huga að skilmáli sem ekki fullnægði gagnsæiskröfum fyrrgreindu laganna var til þess fallinn að skerða réttarstöðu neytandans og raska til muna jafnvægi milli samningsaðila, honum í óhag í skilningi 2. mgr. 36. gr. c laga nr. 7/1936 eins og það ákvæði verður skýrt með hliðsjón af tilskipun 93/13/EBE, sbr. til hliðsjónar fyrrnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 55/2024.

57. Hér á eftir verður því fyrst leyst úr því hvort stefndi hafi gætt upplýsingaskyldu sinnar samkvæmt lögum í aðdraganda og við gerð fyrrnefndra lánasamninga. Að svo búnu verður fjallað um hvort og að hvaða marki umræddur skilmáli skuldabréfanna hafi verið ógildur, einkum samkvæmt 36. gr. og 36. gr. c laga nr. 7/1936, svo og þýðingu þess fyrir úrlausn málsins.

Um lögmæti skilmála skuldabréfanna

58. Sem fyrr greinir var upphaflega að finna í 3. málslið 1. mgr. 9. gr. þess frumvarps sem síðar varð að lögum nr. 121/1994 ákvæði um að aðeins mætti semja um breytilega vexti á þann hátt að þeir fylgdu að hluta til eða öllu leyti meðalvöxtum sem Seðlabanki Íslands auglýsti eða vöxtum annarra lánastofnana sem lánveitandi gæti ekki haft áhrif á. Þetta ákvæði var fellt úr frumvarpinu í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis með vísan til þess að það fæli í sér takmörkun á heimild aðila til að semja um lánskjör.

59. Í 6. mgr. 1. gr. a tilskipunar 87/102/EBE, sem lögum nr. 121/1994 var sem fyrr segir ætlað að innleiða, var einnig vikið að lánum með breytilegum vöxtum. Kom þar fram að þegar um slíka vexti væri að ræða, en ekki unnt að meta hverju þeir næmu á þeim tíma sem útreikningur árlegrar hlutfallstölu kostnaðar væri gerður, bæri að miða við þá forsendu að þeir yrðu óbreyttir til loka lánstímans. Var þetta ákvæði tilskipunarinnar innleitt með 1. mgr. 12. gr. laganna. Af framangreindu, svo og fyrirmælum 1. málsliðar 1. mgr. 9. gr. þeirra, verður ráðið að lögin hafi ekki verið talin standa því í vegi að samið væri svo um að vextir neytendaláns tækju breytingum vegna atriða sem að einhverju leyti eða öllu væru háð mati lánveitanda.

60. Hvað sem leið svigrúmi lánveitanda samkvæmt lögum nr. 121/1994 til að semja við neytanda um breytilega vexti bar lánveitanda skylda samkvæmt nánari ákvæðum laganna til að veita upplýsingar um lán áður en lánssamningur væri gerður svo og í samningnum sjálfum samkvæmt nánari ákvæðum þeirra. Verður þá að hafa í huga að eitt meginmarkmiða laganna og þeirra Evróputilskipana sem þeim var ætlað að innleiða var að bæta möguleika lántakenda til að bera saman mismunandi tilboð lánveitenda á grundvelli slíkra upplýsinga á sameiginlegum neytendalánamarkaði, einkum upplýsinga um heildarlántökukostnað og árlega hlutfallstölu kostnaðar, sbr. til hliðsjónar ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins 24. nóvember 2014 í máli nr. E-27/13, liði 87 til 92.

61. Í samræmi við þetta bar samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 121/1994 að veita lántaka upplýsingar um vexti við gerð samnings svo og hvernig þeir horfðu við heildarkostnaði láns og árlegri hlutfallstölu kostnaðar samkvæmt 7. gr. laganna. Um þau atriði bar lánveitanda því að veita lántaka upplýsingar samkvæmt nánari fyrirmælum 4. og 5. töluliðar 1. mgr. 6. gr. og fyrrnefndri 12. gr. ef um væri að ræða breytilega vexti. Þá var tekið fram í 2. mgr. 6. gr. að ef breyta mætti lánskostnaði, afborgunum eða öðrum atriðum lánskjara á samningstímanum skyldi lánveitandi greina neytanda frá því við hvaða aðstæður slíkar breytingar gætu orðið.

62. Samkvæmt þessu var skylt samkvæmt lögum nr. 121/1994 að veita neytanda upplýsingar um við hvaða aðstæður breytingar gætu orðið á vöxtum, ef því var að skipta, áður en lánssamningur væri gerður. Í því tilliti var ekki nægilegt að lýsa aðferð bankans við að hrinda í framkvæmd breytingu á vöxtum án þess að tilefni slíkrar ákvörðunar væri einnig lýst, sbr. dóm Hæstaréttar 12. október 2017 í máli nr. 623/2016. Þá var í síðari málslið 1. mgr. 9. gr. laganna mælt svo fyrir að ef vextir væru breytilegir skyldi neytandi fá upplýsingar um þá eins og þeir væru á þeim tíma sem upplýsingar væru gefnar, tilgreint með hvaða hætti þeir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breyttust. Eins og atvik málsins liggja fyrir hefur fyrst og fremst þýðingu hvort í áðurlýstum skilmála skuldabréfanna hafi nægilega verið tilgreint með hvaða hætti vextir væru breytilegir og við hvaða aðstæður þeir breyttust samkvæmt þessu síðastnefnda ákvæði.

63. Við nánari skýringu ákvæðisins verður að horfa til þess sem fyrr segir að í lögum nr. 121/1994 fólst engin ráðagerð löggjafans um að svigrúm aðila til að semja um breytilega vexti í krafti samningsfrelsis yrði takmarkað við atriði sem lánveitandi gæti ekki haft áhrif á eða átt mat um. Eftir sem áður verður að horfa til þess markmiðs laganna að neytandi gæti með raunhæfum hætti gert sér grein fyrir fjárhagslegum afleiðingum skuldbindinga sinna og þannig borið saman mismunandi kosti á lánamarkaði.

64. Í skilmálum skuldabréfanna sem áfrýjendur gáfu út til Landsbanka Íslands hf. komu fram upphaflegir vextir lánanna. Þá báru bréfin, svo og greiðsluáætlun vegna þeirra, skýrlega með sér að vextirnir væru breytilegir. Í skilmála bréfanna kom einnig fram að af lánum áfrýjenda skyldu greiðast breytilegir ársvextir eins og þeir væru ákveðnir á hverjum tíma af bankanum. Um það með hvaða nánari hætti vextirnir væru breytilegir eða við hvaða aðstæður þeir breyttust sagði hins vegar það eitt að bankanum væri heimilt hvenær sem væri á lánstímanum að hækka eða lækka vexti, þar með talið vaxtaálag, svo sem ef breytingar yrðu á fjárhagsstöðu og endurgreiðslumöguleikum útgefanda, ef breytingar yrðu á kjörvaxtakerfi bankans eða aðrar aðstæður gæfu tilefni til.

65. Af skilmálanum verður helst ráðið að með honum hafi bankinn áskilið sér rétt til að breyta vöxtum lánanna til samræmis við nýjustu vexti sína af sambærilegum lánum á hverjum tíma, hvort heldur vegna breytinga á vöxtum tiltekinna tegunda lána eða kjörvaxtakerfi hans. Um þetta atriði var skilmálinn þó ekki fortakslaus þar sem hann heimilaði bankanum einnig að breyta vöxtum af lánunum vegna breytinga á fjárhagsstöðu og endurgreiðslumöguleikum lántaka. Þá var í skilmálanum vísað til þess að „aðrar aðstæður“ gætu gefið tilefni til breytinga án þess að það væri útskýrt frekar.

66. Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð hvernig sæmilega upplýstur og athugull neytandi gat með fullnægjandi hætti ráðið af skilmálanum af hvaða tilefni bankinn hygðist breyta vöxtum af láninu. Í 3. tölulið skilmálanna kom fram að ef bankinn myndi ákveða slíkar breytingar yrði útgefanda tilkynnt það sérstaklega eða eftir atvikum með almennri auglýsingu og ástæður þess tilgreindar. Þótt slík nánari tilgreining á ástæðu vaxtabreytingar í sérstakri tilkynningu til lántaka gæti haft þýðingu við heildarmat á því hvort einstakar ákvarðanir um vexti teldust ósanngjarnar samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936 leysti það bankann ekki undan þeim gagnsæiskröfum sem gerðar voru til hans við samningsgerðina samkvæmt lögum nr. 121/1994. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að 2. töluliður skilmála umræddra skuldabréfa hafi að þessu leyti ekki fullnægt ákvæðum laga nr. 121/1994.

67. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 121/1994 gat lánveitandi ekki krafið neytanda um vexti eða annan lántökukostnað sem ekki væri tilgreindur í lánssamningi. Áður hefur því verið lýst að upphafsvextir af lánum áfrýjenda voru skýrt tilgreindir í þeim skuldabréfum sem þau undirrituðu. Var upplýsingagjöf bankans um þessa vexti einnig í samræmi við nánari fyrirmæli laganna. Við þessar aðstæður geta ágallar á heimild bankans til að breyta samningsvöxtum ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að stefnda hafi vegna áðurnefnds ákvæðis laganna verið óheimilt að krefja áfrýjendur um vexti af skuldabréfunum eins og þeir höfðu verið ákveðnir í upphafi. Þeir vextir sem áfrýjendur greiddu eftir 8. desember 2017 voru í öllum tilvikum lægri en upphaflegir vextir lánanna eins og síðar verður nánar vikið að. Verður fjárkrafa áfrýjenda vegna oftekinna vaxta því ekki reist á 1. mgr. 14. gr. laganna.

Um gildi skilmálans

68. Að fenginni þeirri niðurstöðu að umræddur skilmáli í skuldabréfum áfrýjenda hafi ekki samræmst lögum nr. 121/1994 verður leyst úr því hvort hann teljist ósanngjarn og þar með ógildur í skilningi 36. gr. og 36. gr. c laga nr. 7/1936. Þá ógildingarreglu ber sem fyrr segir að skýra í ljósi þeirra ákvæða tilskipunar 93/13/EBE sem hér eiga við og fyrr greinir, einkum 3., 5. og 6. gr. hennar.

69. Þótt ágallar hafi verið á skilmálanum í ljósi laga nr. 121/1994 leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að hann teljist ógildur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 27. maí 2021 í máli nr. 4/2021. Hins vegar verður að hafa í huga að með lögunum var leitast við að styrkja stöðu neytenda með ófrávíkjanlegum reglum um gerð lánasamninga. Var þetta áréttað með 24. gr. þeirra þar sem sagði að ekki mætti víkja frá ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar kynnu að vera á grundvelli þeirra neytanda í óhag. Ágallar á lánssamningi í ljósi laganna hafa því þýðingu við mat á ósanngirni skilmálans samkvæmt 36. gr. c laga nr. 7/1936, þar á meðal hvort með honum hafi verið raskað til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila neytanda í óhag, sbr. meðal annars áðurnefndan dóm Hæstaréttar í máli nr. 55/2024.

70. Við mat á þýðingu þess dóms, svo og ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins sem veitt var vegna meðferðar þess máls, er þó á það að líta að lagagrundvöllur skilmála lánsins sem þar var til úrlausnar var annar en hér, sbr. til hliðsjónar umfjöllun í liðum 43 til 45 í dómi réttarins 10. desember 2025 í máli nr. 24/2025. Þeir lánasamningar sem hér eru til úrlausnar voru hins vegar gerðir fyrir gildistöku laga nr. 33/2013 um neytendalán sem fólu í sér innleiðingu á tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur og auknar kröfur um gagnsæi samanborið við þágildandi lög nr. 121/1994. Er nú meðal annars tekið fram í f-lið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 33/2013 að í lánssamningi skuli koma fram á skýran og hnitmiðaðan hátt hver séu skilyrði og málsmeðferð við breytingu á útlánsvöxtum. Þá lýtur það mál sem hér er til úrlausnar að skilmálum skuldabréfa sem bundin voru vísitölu neysluverðs en í fyrrgreindu máli nr. 55/2024 var um að ræða óverðtryggt lán með breytilegum vöxtum til íbúðarkaupa.

71. Að þessu virtu er við mat á ósanngirni skilmála skuldabréfa áfrýjenda samkvæmt lögum nr. 7/1936 og tilskipun 93/13/EBE fyrst til þess að líta að ekki er deilt um hvort vaxtakjör hafi verið til muna lakari en almennt voru þá í boði. Þá er ekkert fram komið um að skilmálinn sem slíkur hafi verið verulega frábrugðinn þeim sem tíðkuðust hjá öðrum fjármálastofnunum, áfrýjendum til óhagræðis. Að öllu virtu er ekki fallist á að fyrir liggi að við útgáfu skuldabréfanna hafi bankinn verið í vondri trú eða nýtt sér aðstöðumun í viðskiptum sínum við áfrýjendur þannig að skilmálinn hafi af þeim sökum verið andstæður góðum viðskiptaháttum í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936 eins og ákvæðið verður skýrt með hliðsjón af 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 93/13/EBE.

72. Því er áður lýst að viðmið skilmálans fyrir hugsanlegum breytingum á vöxtum voru ekki tæmandi talin eða nánar skýrð í skilmála skuldabréfanna. Hafði þetta ógagnsæi þær afleiðingar að stefndi gat í reynd tekið einhliða ákvörðun um breytingar á vöxtum lánanna á grundvelli þátta sem áfrýjendum var ókleift að gera sér grein fyrir. Gildir þá einu þótt áfrýjendur, sem sæmilega athugulir og upplýstir neytendur, hafi getað ráðið af upplýsingum við samningsgerðina, svo og skilmálanum sjálfum, að bankinn hygðist að meginstefnu láta lán þeirra fylgja nýjustu vöxtum bankans af sambærilegum lánum.

73. Í 3. tölulið skuldabréfanna kom fram að vaxtabreytingar yrðu tilkynntar útgefanda sérstaklega eða eftir atvikum með almennri auglýsingu og ástæður þess tilgreindar. Sagði þar jafnframt að vildi útgefandi ekki una breytingu á vöxtum væri honum heimilt að greiða skuldina upp með því vaxtaálagi sem hefði verið í gildi fram að breytingunni innan 30 daga frá tilkynningu bankans.

74. Þótt staða áfrýjenda í samningssambandinu væri með þessu nokkuð styrkt getur það ekki ráðið úrslitum, sbr. til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 55/2024 og ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins í sameinuðum málum nr. E-13/22 og E-1/23, lið 90. Verður þá sem fyrr að horfa til þess að í skilmála skuldabréfanna sjálfra var í reynd enga haldbæra lýsingu að finna á þeim ástæðum sem bankinn taldi vera gildan grundvöll vaxtabreytinga. Með hliðsjón af skýringum stefnda og framlögðum gögnum um einstakar vaxtabreytingar lánanna verður auk þess ekki annað ráðið en bankanum hafi, hvað sem leið óvissu um almenna þróun vaxta, fjármögnun bankans og aðra þætti sem hér gátu haft þýðingu, verið í lófa lagið að tilgreina með ítarlegri hætti en gert var þá þætti sem yrðu ráðandi að þessu leyti.

75. Þegar umræddur skilmáli skuldabréfanna er metinn heildstætt með tilliti til þessara atriða er fallist á með áfrýjendum að hann hafi verið til þess fallinn að raska til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila þeim í óhag í skilningi 36. gr. c laga nr. 7/1936. Samkvæmt 36. gr. laganna var hann því ógildur. Að fenginni þeirri niðurstöðu verður tekin afstaða til afleiðinga ógildis skilmálans fyrir lánasamninga aðila og hvernig kröfugerð þeirra horfir við samkvæmt því.

Um réttaráhrif ógildis skilmálans og fjárkröfur áfrýjenda

76. Svo sem áður greinir voru lán áfrýjenda verðtryggð þannig að höfuðstóll þeirra tók breytingum með vísitölu neysluverðs með nánar tilgreindum hætti. Hefur því áður verið slegið föstu að upphaflegt vaxtaákvæði bréfanna sem mælti fyrir um 7,25% vexti og upplýsingagjöf bankans þar að lútandi hafi fullnægt kröfum þágildandi laga nr. 121/1994. Þá er ekki á því byggt af hálfu áfrýjenda að þetta atriði lánasamninganna hafi í sjálfu sér verið ósanngjarnt í skilningi 36. gr. eða 36. gr. c laga nr. 7/1936.

77. Við þessar aðstæður verður ekki litið svo á að 2. töluliður skilmála skuldabréfanna um vaxtabreytingar hafi verið svo órjúfanlegur hluti meginefnis lánasamninga aðila að þeir gætu ekki haldið gildi að öðru leyti þótt sú heimild til vaxtabreytinga sem skilmálinn veitti bankanum teldist ógild. Eru atvik að því leyti ólík þeim sem fjallað var um í dómum Hæstaréttar 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 og fyrrgreindu máli nr. 55/2024. Af þessum sökum kemur ekki til álita að áfrýjendur geti byggt fjárkröfu sína á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 eða lagt verði til grundvallar að lán þeirra hafi á einhverju tímamarki átt að bera vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna.

78. Þar sem 2. töluliður í skilmálum skuldabréfanna var ógildur var stefnda ótvírætt óheimilt að byggja ákvarðanir um hækkun samningsvaxta af lánum áfrýjenda á ákvæðum hans. Til þess er hins vegar að líta að á því tímabili sem kröfur áfrýjenda eru ófyrndar voru vextir af lánunum í öllum tilvikum lægri en þeir sem upphaflega hafði verið samið um. Geta fjárkröfur þeirra vegna oftekinna vaxta því aðeins byggst á því að samkvæmt lánasamningunum, eins og þeir urðu túlkaðir neytanda í hag í ljósi 36. gr. b laga nr. 7/1936 og 5. gr. tilskipunar 93/13/EBE, hafi stefnda borið að lækka vexti enn frekar en gert var á því tímabili sem hér um ræðir, það er frá 8. desember 2017 þar til lánin voru greidd upp í júní 2021.

79. Við úrlausn um hvort áfrýjendur eigi rétt á endurgreiðslu ofgreiddra vaxta á umræddu tímabili er fyrst til þess að líta að eitt meginefni lánasamninganna var að vextir skyldu vera breytilegir. Verður kröfum áfrýjenda því ekki hafnað af þeirri ástæðu einni að þeir vextir sem stefndi áskildi sér á tímabilinu voru ávallt lægri en vextir við undirritun skuldabréfanna. Þvert á móti máttu áfrýjendur hafa ákveðnar væntingar um að stefndi lækkaði samningsvexti samhliða almennri vaxtaþróun, ekki síst í tilefni og framhaldi af breytingum á stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Sem upplýstir neytendur gátu áfrýjendur þó ekki vænst þess að breytingar á samningsvöxtum fylgdu tafarlaust eða nákvæmlega slíkum breytingum, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins í máli nr. 32/2025 sem kveðinn er upp samhliða dómi í máli þessu.

80. Með hliðsjón af málatilbúnaði aðila sem hafa að nokkru leyti vísað til ákvarðana stefnda um vaxtabreytingar máli sínu til stuðnings þykir einnig mega horfa til þeirra við úrlausn þess hvort áfrýjendur eigi rétt á endurgreiðslu vaxta samkvæmt framangreindu. Þegar litið er til þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í málinu að þessu leyti, þar á meðal matsgerðar dómkvadds manns, er ekki annað komið fram en að gildar ástæður hafi legið því að baki að munur á vöxtum af lánum áfrýjenda og öðrum vöxtum, svo sem stýrivöxtum Seðlabankans, jókst tímabundið á þeim tíma sem hér um ræðir. Er þá einkum horft til þess tíma þegar stýrivextir Seðlabankans voru orðnir svo lágir að svigrúm stefnda til lækkunar innláns- og útlánsvaxta hafði minnkað.

81. Þegar upphaflegir vextir af lánunum, þróun stýrivaxta Seðlabanka Íslands og framangreindar aðstæður eru metnar heildstætt með hliðsjón af þeim væntingum sem áfrýjendur máttu hafa um breytingu samningsvaxta þeim í hag liggur ekki annað fyrir en að hinn aukni tímabundni vaxtamunur, sem þau hafa vísað til, hafi verið innan svigrúms bankans til vaxtabreytinga. Eins og málatilbúnaði þeirra er háttað fellur það hins vegar utan sakarefnis málsins að fjalla frekar um hvort einstakar ákvarðanir stefnda um vaxtabreytingar hafi verið reistar á gildum ástæðum sem nægilega voru tilkynntar þeim til samræmis við skilmála skuldabréfanna.

82. Samkvæmt öllu því sem nú hefur verið rakið liggur ekki fyrir að vegna hins ólögmæta og ógilda skilmála skuldabréfanna hafi áfrýjendur greitt hærri vexti en þeim bar á því tímabili sem hér hefur þýðingu eða þau með öðrum hætti orðið fyrir tjóni af þessum sökum. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu stefnda af fjárkröfum áfrýjenda.

83. Rétt er að málskostnaður falli niður á öllum dómstigum en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda fyrir Hæstarétti fer sem í dómsorði segir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Tómasar Kristjánssonar og Berglindar Önnu Zoega Magnúsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra Grétars Dórs Sigurðssonar, 2.000.000 króna.