Hæstiréttur íslands
Mál nr. 52/2022
Lykilorð
- Manndráp af gáleysi
- Hlutdeild
- Vinnuslys
- Fyrning
- Refsiákvörðun
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 25. október 2022 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og að refsing þeirra verði þyngd.
3. Ákærðu krefjast báðir sýknu en til vara að refsing þeirra verði látin niður falla.
Ágreiningsefni og málsatvik
4. Ágreiningsefni málsins lúta einkum að því hvort ákærðu hafi, annars vegar sem framkvæmdastjóri og hins vegar sem verksmiðjustjóri, gerst sekir um hlutdeild í manndrápi af gáleysi og brot á vinnuverndarlöggjöf með því að hafa samþykkt að undirmaður þeirra í […] gerði óvirkan öryggisbúnað á frauðpressuvél sem leiddi til þess að annar starfsmaður beið bana í vinnu við vélina.
5. Með ákæru 22. október 2020 var C í ákærulið I gefið að sök manndráp af gáleysi og brot gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með því að hafa 21. júlí 2017 í vinnslusal […] gert öryggisbúnað nánar tilgreindrar frauðpressuvélar óvirkan vitandi vits að starfsmenn fóru reglulega inn í vélina til að hreinsa hana og síðan gangsett vélina án þess að gæta að því hvort einhver væri inni í henni með þeim afleiðingum að brotaþoli sem þar var klemmdist á milli móta og lést í framhaldi af áverkum sem af því hlutust. Í ákæru var brot hans heimfært til 215. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og nánar tilgreindra ákvæða laga nr. 46/1980 og reglugerða settra með stoð í þeim, nr. 367/2006 um notkun tækja og nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum. Með dómi héraðsdóms var hann sakfelldur fyrir brot gegn 215. gr. almennra hegningarlaga en sýknaður af öðrum brotum. Var honum gert að sæta fangelsi í 60 daga en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið. Ákæruvaldið og ákærði undu þeim dómi.
6. Með sömu ákæru var ákærðu í máli þessu Birni Herberti í ákærulið II og Skúla í ákærulið III gefin að sök hlutdeild í manndrápi af gáleysi ásamt brotum gegn ýmsum ákvæðum laga nr. 46/1980 og fyrrgreindum reglugerðum settum samkvæmt þeim.
7. Ákærða Birni Herberti var sem eiganda, framkvæmdastjóra og atvinnurekanda […] gefið að sök að hafa samþykkt að undirmaður sinn, dómfelldi C, gerði öryggisbúnað frauðpressuvélarinnar óvirkan vitandi vits að starfsmenn fyrirtækisins færu reglulega inn í vélina til þess að hreinsa hana og fyrir að hafa 21. júlí 2017 gefið honum fyrirmæli um að gangsetja allar vélar í vinnslusal fyrirtækisins en hann hefði ekki upplýst starfsmenn þess um að öryggisbúnaður vélarinnar hefði verið aftengdur. Honum var einnig gefið að sök að hafa látið hjá líða að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, áhættumat, áætlun um heilsuvernd og fyrir að hafa látið hjá líða að koma á fót vinnuverndarstarfi hjá fyrirtækinu.
8. Ákærða Skúla var nánar tiltekið gefið að sök að hafa sem verkstjóri, starfsmaður, eigandi og daglegur stjórnandi samþykkt að undirmaður sinn, dómfelldi C, gerði öryggisbúnað frauðpressuvélarinnar óvirkan vitandi vits að starfsmenn fyrirtækisins færu reglulega inn í vélina til þess að hreinsa hana en hann hefði ekki upplýst starfsmenn fyrirtækisins um að öryggisbúnaðurinn hefði verið aftengdur.
9. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella ákærðu Björn Herbert og Skúla fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi samkvæmt 215. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Þeir voru jafnframt sakfelldir fyrir brot gegn lögum nr. 46/1980 og tilgreindum ákvæðum fyrrnefndra reglugerða en þeir höfðu verið sýknaðir af þeim hluta ákæruefna í héraði þar sem þau brot voru talin fyrnd. Með hinum áfrýjaða dómi var staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu þeirra en hvorum um sig hafði verið gert að sæta fangelsi í 30 daga og fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið.
10. Í héraði hafði ákærði Skúli verið sýknaður af þeirri háttsemi að hafa „ekki upplýst starfsmenn fyrirtækisins um að öryggisbúnaður vélarinnar hefði verið óvirkjaður“ þar sem hann hefði verið í sumarleyfi og fjarri vinnustað þegar dómfelldi C hefði upplýst hann um að hann hefði aftengt öryggisbúnaðinn. Í hinum áfrýjaða dómi var ekki fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms og ákærði Skúli sakfelldur fyrir þessa háttsemi.
11. Landsréttur féllst hins vegar ekki á með héraðsdómi að fullnægjandi sönnun lægi fyrir um að ákærði Björn Herbert hefði gefið dómfellda C fyrirmæli um að gangsetja allar vélar í vinnslusal fyrirtækisins umræddan dag og taldi ekki unnt að sakfella hann fyrir þá háttsemi. Þá féllst Landsréttur ekki á að greinar 2.1., 2.3. og 2.8. í I. viðauka reglugerðar nr. 367/2006 næðu til háttsemi ákærðu eins og henni væri lýst í ákæru. Að öðru leyti taldi Landsréttur að brot ákærðu hefðu verið réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
12. Beiðnir beggja ákærðu um áfrýjunarleyfi voru byggðar á því að málið hefði verulega almenna þýðingu um skýringar á réttarreglum um hlutdeild. Í beiðni ákærða Björns Herberts var vísað til þess að takmörkuð dómaframkvæmd væri fyrir hendi um refsivert gáleysi framkvæmdastjóra fyrirtækja og að dómur Landsréttar væri í andstöðu við dómafordæmi Hæstaréttar um skiptingu ábyrgðar eftir starfssviðum. Þá var í beiðni ákærða Skúla um áfrýjunarleyfi vísað til þess að ekki hefði áður reynt fyrir Hæstarétti á refsiábyrgð starfsmanns í lögbundnu orlofi.
13. Áfrýjunarleyfi var veitt 21. október 2022, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-116, á þeim grunni að telja yrði að úrlausn málsins, meðal annars um þau atriði sem leyfisbeiðendur byggðu á, kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Röksemdir ákæruvalds og ákærðu
Helstu röksemdir ákæruvalds
14. Ákæruvaldið telur að forsendur hins áfrýjaða dóms verði skildar svo að báðir ákærðu hafi verið sakfelldir fyrir þá háttsemi að hafa ekki upplýst starfsmenn […] um að öryggisbúnaður frauðpressuvélarinnar hefði verið aftengdur. Hér fyrir rétti er þess jafnframt krafist að sakfelling ákærða Björns Herberts verði látin ná til þess ákæruatriðis að hann hafi umrætt sinn gefið fyrirmæli um að vélin yrði gangsett.
15. Byggt er á því að öll sú háttsemi ákærða Björns Herberts sem lýst er í ákærulið II hafi verið þáttur í broti gegn 215. gr. almennra hegningarlaga, þar á meðal að hafa látið hjá líða að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, áhættumat, áætlun um heilsuvernd og að koma á fót vinnuverndarstarfi hjá fyrirtækinu.
16. Óumdeilt sé að ákærði Björn Herbert hafi verið skráður framkvæmdastjóri […] á þeim tíma sem ákæran taki til og því atvinnurekandi í merkingu 3. mgr. 12. gr. laga nr. 46/1980. Því hlutverki hafi fylgt ríkar skyldur til að tryggja öryggi og góðan aðbúnað á vinnustaðnum, meðal annars í tengslum við framkvæmd vinnu og umgjörð véla og búnaðar. Þær lagaskyldur hafi hvílt á honum óháð því hvernig verkaskiptingu hafi að öðru leyti verið háttað í fyrirtækinu.
17. Ákærða Skúla hafi vegna stöðu sinnar sem verkstjóri og þess hlutverks að sjá um að vélar og tæki fyrirtækisins væru í lagi borið skylda samkvæmt 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980 til að tryggja aðbúnað og öryggi. Yrði hann áskynja um atriði sem gætu leitt til hættu á slysum hefði honum jafnframt á grundvelli 2. mgr. 23. gr. laganna borið skylda til að tryggja að henni yrði afstýrt eða eftir atvikum gera vinnuveitanda viðvart. Þar sem ákærði hafi vegna stöðu sinnar og starfs verið upplýstur um aftengingu öryggisrofa og um að vélin yrði þrátt fyrir það áfram í notkun hafi honum borið að bregðast við þeirri augljósu hættu sem hafi verið fyrir hendi þrátt fyrir að vera í sumarleyfi. Með því að aðhafast ekkert eftir að hafa fengið þær upplýsingar hafi hann í raun samþykkt ráðstöfunina.
18. Ákæruvaldið byggir á því að með þeirri háttsemi sem ákærðu hvorum um sig er gefin að sök og lýst er í ákæruliðum II og III hafi þeir stuðlað að manndrápi af gáleysi sem lýst er í ákærulið I og þannig átt þátt í því broti sem hlutdeildarmenn. Sama háttsemi feli jafnframt í sér vanrækslu á skyldum ákærðu samkvæmt tilvísuðum ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerðum settum með stoð í þeim.
Helstu röksemdir ákærða Björns Herberts
19. Ákærði Björn Herbert byggir á því að hann hafi annast rekstrarhlið fyrirtækisins, það er fjármál og sölumál. Verksmiðjustjóri og aðstoðarverksmiðjustjóri hafi borið ábyrgð á vélum og öðru sem tengdist verksmiðju. Hann geti aðeins borið refsiábyrgð á brotum innan síns ábyrgðarsviðs.
20. Ákærði telur ósannað að hann hafi vitað á hvaða vél öryggisrofi hafi verið aftengdur eða hvaða afleiðingar það gæti haft. Ekkert liggi fyrir um að ákærði hafi samþykkt aftengingu öryggisrofans.
21. Af hálfu ákærða er jafnframt byggt á því að hugtaksskilyrðum fyrir hlutdeild í afbroti samkvæmt 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga sé ekki fullnægt. Hann hafi ekki veitt dómfellda C liðsinni við gáleysisbrot hans, hvorki í orði né verki, ekki hvatt til þess eða átt þátt í að það var framið.
Helstu röksemdir ákærða Skúla
22. Ákærði Skúli byggir kröfu um sýknu einkum á því að hann hafi dvalið í sumarbústað í lögbundnu orlofi þegar slysið varð og þá verið búinn að vera að minnsta kosti eina viku í sumarleyfi. Hann vísar meðal annars til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1987 um orlof og 52. gr. laga nr. 46/1980. Hann telur leiða af síðargreinda ákvæðinu að skyldur vinnuverndarlöggjafar hvíli ekki á starfsmanni á hvíldartíma. Ákærði hafi þar af leiðandi ekki verið við störf þegar atvik málsins áttu sér stað og engum skyldum sinnt á vinnustað.
23. Ákærði vísar til þess að dómfelldi C hafi verið staðgengill hans þegar slysið varð. Skyldum ákærða hafi verið aflétt meðan hann var í orlofi og þær færðar yfir á staðgengil. Hann verði ekki talinn hafa verið yfirmaður dómfellda C eða annarra starfsmanna meðan á orlofinu stóð og geti ekki borið refsiábyrgð á því sem þá gerðist. Ekki verði heldur lögð refsiábyrgð á hann á þeim grundvelli að hann hafi verið einn af eigendum fyrirtækisins og auk þess teljist hann ekki hafa verið atvinnurekandi í skilningi laga nr. 46/1980.
24. Jafnframt telur ákærði Skúli að verulegt ósamræmi hafi verið milli framburðar hans og dómfellda C um hvað hafi farið þeirra á milli í aðdraganda slyssins og sé ósannað að hann hafi samþykkt að dómfelldi gerði öryggisbúnað vélarinnar óvirkan.
25. Loks byggir ákærði á því að þegar dómfelldi C hafi hringt í hann í orlofinu hafi dómfelldi þegar verið búinn að aftengja öryggisbúnaðinn. Hann hefði þá ekki haft boðvald yfir dómfellda og ekki getað skipað honum að tengja búnaðinn aftur. Ákærði telur það ekki geta talist hlutdeild í afbroti að upplýsa ekki aðra starfsmenn fyrirtækisins um aftengingu öryggisbúnaðar. Hann telur að sú háttsemi sem honum sé gefin að sök í ákæru lýsi ekki liðsinni í orði eða verki. Það að koma ekki í veg fyrir afbrot feli ekki í sér hlutdeild.
Löggjöf
26. Með hinum áfrýjaða dómi voru ákærðu sem fyrr segir sakfelldir fyrir hlutdeild í manndrápi af gáleysi samkvæmt 215. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæði 215. gr. laganna hljóðar svo: „Ef mannsbani hlýst af gáleysi annars manns, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 árum.” Þrjár fyrstu málsgreinar 22. gr. laganna hljóða svo:
Hver sá maður, sem með liðsinni í orði eða verki, fortölum, hvatningum eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögum þessum er framið, skal sæta þeirri refsingu, sem við brotinu er lögð. Ef hlutdeild einhvers þátttakanda í brotinu er smávægileg, eða er í því fólgin að styrkja áform annars manns, sem áður er til orðið, svo og þegar brot er ekki fullframið eða fyrirhuguð þátttaka hefur misheppnast, má dæma hann í vægari refsingu en þá, sem lögmælt er við brotinu.
Þegar svo stendur á, sem í annarri málsgrein segir, og sömuleiðis, ef manni hefur orðið á af gáleysi að taka þátt í broti, má láta refsingu falla niður, ef brotið á undir hegningarákvæði, þar sem ekki er sett þyngri refsing en fangelsi allt að 1 ári.
27. Háttsemi beggja ákærðu er í ákæru heimfærð til eftirfarandi ákvæða laga nr. 46/1980:
37. gr. Vinnu skal haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. [...]
46. gr. Vélar, vélahlutar, ílát, geymar, katlar, áhöld, tæki, virki hvers konar og húshlutar, samstæður og annar búnaður skal þannig úr garði gerður, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. [...]
99. gr. Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim varða sektum, nema þyngri refsing liggi við að öðrum lögum. [...]
28. Ákærða Birni Herberti eru jafnframt gefin að sök brot gegn eftirfarandi ákvæðum laga nr. 46/1980:
13. gr. Atvinnurekandi skal tryggja, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Sérstaklega er vísað til:
a. V. kafla um framkvæmd vinnu,
b. VI. kafla um vinnustaði,
c. VII. kafla um vélar, tækjabúnað og fleira,
d. VIII. kafla um hættuleg efni og vörur,
e. XI. kafla um áhættumat, heilsuvernd og heilsufarsskoðanir.
14. gr. Atvinnurekandi skal gera starfsmönnum sínum ljósa slysa- og sjúkdómshættu, sem kann að vera bundin við starf þeirra. Atvinnurekandi skal þar að auki sjá um, að starfsmenn fái nauðsynlega kennslu og þjálfun í að framkvæma störf sín á þann hátt, að ekki stafi hætta af. [...]
65. gr. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal meðal annars fela í sér mat á áhættu, sbr. 65. gr. a, og áætlun um heilsuvernd, sbr. 66. gr. Hafa skal samráð við fulltrúa starfsmanna, sbr. II. kafla.
Vinnueftirlit ríkisins skal hafa eftirlit með að gerð sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Skal áætlunin vera aðgengileg hjá atvinnurekanda fyrir stjórnendur þess, starfsmenn og Vinnueftirlit ríkisins.
Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað þegar breytingar á vinnuumhverfi breyta forsendum hennar. [...]
65. gr. a. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gert sé sérstakt áhættumat þar sem meta skal áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Við gerð áhættumatsins skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi þeirra starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum.
Þegar áhættumat á vinnustað gefur til kynna að heilsu og öryggi starfsmanna er hætta búin skal atvinnurekandi grípa til nauðsynlegra forvarna í þeim tilgangi að koma í veg fyrir hættuna eða, þar sem þess er ekki kostur, draga úr henni eins og frekast er unnt. [...]
66. gr. Atvinnurekandi ber ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd sem byggð er á áhættumati, sbr. 65. gr. a, þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir, þar á meðal um aðgerðir sem grípa þarf til í því skyni að draga úr atvinnutengdum sjúkdómum og slysum.
Markmið heilsuverndar er að:
a. stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
b. stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfi,
c. draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,
d. stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.
Í áætlun um forvarnir skal koma fram lýsing á hvernig hættum og þeirri áhættu sem þeim fylgir samkvæmt áhættumati skuli mætt, svo sem með skipulagi vinnunnar, fræðslu, þjálfun, vali á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingum á vinnustað eða öðrum forvörnum. Skal leggja áherslu á almennar ráðstafanir áður en gerðar eru ráðstafanir til verndar einstökum starfsmönnum. [...]
Í öllum framangreindum lagaákvæðum er kveðið á um heimild ráðherra til að setja reglur um framkvæmd ákvæðanna að fenginni umsögn Vinnueftirlits ríkisins.
29. Ákærða Skúla eru jafnframt gefin að sök brot gegn eftirfarandi ákvæðum laga nr. 46/1980:
21. gr. Verkstjóri er fulltrúi atvinnurekanda og sér um, að búnaður allur sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnustöðum, sem hann hefur umsjón með.
23. gr. Verkstjóri skal beita sér fyrir, að starfsskilyrði innan þess starfssviðs, sem hann stjórnar, séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Hann skal sjá um, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, sé framfylgt.
Verði verkstjóri var við einhver þau atriði, sem leitt geta til hættu á slysum eða sjúkdómum, skal hann tryggja að hættunni sé afstýrt. Sé ekki hægt að afstýra hættunni með því, sem tiltækt er á staðnum, skal hann umsvifalaust gera vinnuveitanda viðvart. Verkstjóra ber jafnframt að gæta þeirrar skyldu, sem kveðið er á um í 86. gr. laga þessara.
26. gr. Starfsmenn skulu stuðla að því, að starfsskilyrði innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi, og einnig að því, að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti, samkvæmt lögum þessum, sé framfylgt.
Starfsmaður, sem verður var við ágalla eða vanbúnað, sem leitt gæti til skerts öryggis eða lakari aðbúnaðar eða hollustuhátta, sem hann getur ekki sjálfur bætt úr, skal umsvifalaust tilkynna það öryggisverði, öryggistrúnaðarmanni, verkstjóra eða atvinnurekanda.
30. Ákærðu eru báðum gefin að sök brot gegn ákvæðum reglugerðar nr. 920/2006 um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum sem sett var með stoð í lögum nr. 46/1980. Ákærða Birni Herberti eru gefin að sök brot gegn 21., 25., 26., 27. og 28., sbr. 37. gr. reglugerðarinnar en ákærða Skúla gegn 23., sbr. 37. gr. hennar. Í 21. gr. reglugerðarinnar eru útfærðar skyldur atvinnurekanda, meðal annars um að tryggja samstarf um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs. Í 23. gr. er fjallað um skyldur starfsmanna og kveðið á um að þeir skuli stuðla að því að vinnuaðstæður innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi þar á meðal um öryggi. Sérstaklega er tilgreint að þeim beri skylda til, í samræmi við þá fræðslu og þjálfun sem þeir hafi fengið, að nota vélar, tæki og fleira á réttan hátt og taka ekki úr sambandi, né heldur breyta eða fjarlægja að geðþótta uppsettan öryggisbúnað, svo sem við vélar og tæki. Einnig að upplýsa atvinnurekanda og aðra nánar tilgreinda án tafar um allar aðstæður við vinnu þar sem ljóst má telja að öryggi og heilbrigði sé bráð hætta búin. Í 25. gr. eru útfærðar skyldur atvinnurekanda um þjálfun starfsmanna að því er varðar aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Í 26. gr. er fjallað um ábyrgð atvinnurekanda á gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað. Áætlunin skal tryggja að vinnuverndarstarf fyrirtækis verði markvisst og meðal annars fela í sér sérstakt áhættumat sem og áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir sem byggð er á áhættumati. Í 27. gr. er fjallað um áhættumat og í 28. gr. um áætlun um heilsuvernd og framkvæmd hennar. Í 37. gr. segir síðan að brot á ákvæðum hennar geti varðað við ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980.
31. Ákærða Birni Herberti eru einnig gefin að sök brot gegn 4., 5. og 7. gr. reglugerðar nr. 367/2006 um notkun tækja sem sett var með stoð í lögum nr. 46/1980. Í 4. gr. hennar er mælt fyrir um að atvinnurekandi beri ábyrgð á að gert sé áhættumat á vinnustað, sbr. 65. gr. a laga nr. 46/1980 og í því skuli hafa sérstaka hliðsjón af störfum innan fyrirtækis þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsu og öryggi starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum vegna notkunar tækja. Í 5. gr. er fjallað um skyldu atvinnurekanda til að viðhafa forvarnir vegna notkunar tækja. Sérstaklega er þar mælt fyrir um að þegar ekki er að fullu unnt að tryggja að starfsmenn geti notað tæki án þess að öryggi og heilsu þeirra sé hætta búin skuli atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að draga úr áhættunni eins og kostur er. Í 7. gr. er mælt fyrir um að atvinnurekandi eigi í forvarnarskyni að gera nauðsynlegar ráðstafanir þegar líkur eru á að notkun tækis hafi í för með sér sérstaka áhættu fyrir öryggi og heilsu starfsmanna.
Niðurstaða
Um skýrleika ákæru
32. Ákærðu er báðum gefin að sök hlutdeild í manndrápi af gáleysi og um verknaðarlýsingu hvað frumbrotið varðar er vísað til I. kafla ákæru hvað varðar dómfellda C. Þar er hinni ætluðu refsiverðu háttsemi hvors um sig lýst í samfellu í einu lagi og hún heimfærð í heild sinni, án nánari sundurgreiningar, til þeirra refsiákvæða sem rakin eru hér að framan.
33. Ákæruefnin tengjast öll banaslysi sem varð 21. júlí 2017 í verksmiðju þar sem ákærðu gegndu stjórnendastörfum. Í ákæru er eingöngu vísað til þeirrar tímasetningar enda þótt fram sé komið að dómfelldi C hafi aftengt öryggisbúnað vélarinnar viku fyrir slysið og upplýst ákærðu um það í kjölfarið.
34. Ekki verður séð að sá háttur sem hafður er á í ákæru um lýsingu á ætlaðri refsiverðri háttsemi og heimfærslu til refsiákvæða og ónákvæmni um tímasetningar hafi komið niður á vörnum ákærðu í málinu og telst ákæran uppfylla kröfur 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 um skýrleika.
Um sönnunarmat Landsréttar og endurskoðun þess
35. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sönnun sem einkum er reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærðu og vitna verður ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Ef annmarkar eru hins vegar á aðferð við sönnunarmat í dómi sem áfrýjað er til réttarins og þeir teljast fallnir til að hafa áhrif á niðurstöðu málsins geta þeir leitt til ómerkingar dómsins, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020. Engir slíkir annmarkar eru á aðferð við sönnunarmat Landsréttar sem leitt geta til ómerkingar hins áfrýjaða dóms.
36. Landsréttur taldi fullnægjandi sönnun ekki liggja fyrir í málinu um það ákæruefni að ákærði Björn Herbert hefði gefið dómfellda C fyrirmæli um að gangsetja allar vélar í vinnslusal fyrirtækisins daginn sem banaslysið varð og var hann ekki sakfelldur fyrir þá háttsemi.
37. Landsréttur taldi hins vegar sannað að dómfelldi C hefði tilkynnt báðum ákærðu að hann hefði aftengt öryggisbúnað vélarinnar. Með því hefði hann komið á framfæri við þá ábendingu um aðstæður sem kynnu að setja starfsmenn fyrirtækisins í bráða hættu enda hefði öryggisbúnaðurinn sem gerður var óvirkur haft þann tilgang að koma í veg fyrir að hægt væri að fara inn í vélina á meðan hún væri í gangi en slys af þeim toga leiddi til dauða brotaþola. Landsréttur taldi einnig sannað að ákærðu hefðu vitað að starfsmenn fyrirtækisins hefðu farið reglulega inn í vélina til að hreinsa hana.
38. Landsréttur taldi að í ákvörðun um að aftengja öryggisbúnaðinn en halda engu að síður áfram að nota vélina hefði falist alvarlegt brot gegn ákvæðum laga nr. 46/1980. Líta yrði svo á að báðum ákærðu hefði við þessar aðstæður borið skylda til að gefa dómfellda fyrirmæli um að hætta notkun vélarinnar eða tengja öryggisbúnaðinn á ný. Ákvörðun um að gera hvorugt hafi falið í sér alvarlegt brot gegn þeim skyldum sem á þeim hvíldu samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 sem vísað er til í ákæru. Með því hafi þeir sýnt af sér stórfellt gáleysi.
39. Landsréttur lagði til grundvallar að ákærða Birni Herberti hefði ekki verið kunnugt um hvaða vél væri að ræða eða eftir atvikum hvaða öryggisbúnað en taldi að honum hefði við þær aðstæður verið skylt að kalla þegar eftir upplýsingum um þau atriði. Þá lagði Landsréttur til grundvallar að enga þýðingu hefði haft þótt ákærði Skúli hefði verið í orlofi á þeim tíma sem öryggisbúnaðurinn var aftengdur. Landsréttur féllst á það sönnunarmat héraðsdóms að ákærðu hefðu með aðgerðarleysi sínu samþykkt að öryggisbúnaður vélarinnar væri aftengdur þrátt fyrir vitneskju þeirra um að starfsmenn fyrirtækisins færu reglulega inn í vélina til að hreinsa hana. Með því hefðu þeir í orði eða verki eða á annan hátt átt hlutdeild í manndrápi af gáleysi samkvæmt 215. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 22. gr. sömu laga. Þá gæti það ekki haft áhrif á refsiábyrgð ákærðu þótt ætla mætti að athyglisgáfa brotaþola og árvekni hefði að einhverju leyti verið skert.
40. Þá féllst Landsréttur ekki á þá niðurstöðu héraðsdóms að sýkna bæri ákærða Skúla af því að hafa ekki upplýst starfsmenn fyrirtækisins um að öryggisbúnaður vélarinnar hefði verið gerður óvirkur. Þar sem héraðsdómur taldi að fyrir lægi lögfull sönnun um að háttsemi hvers ákærða væri að öðru leyti rétt lýst í ákæru bæri að líta svo á að vanræksla Björns Herberts á að upplýsa starfsmenn fyrirtækisins um að öryggisbúnaður vélarinnar hefði verið gerður óvirkur hefði verið hluti af þeirri háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir í héraði. Dómur Landsréttar verður ekki skilinn með öðrum hætti en að niðurstaða héraðsdóms sé að því leyti staðfest. Sú niðurstaða Landsréttar að umrædd vanræksla væri liður í gáleysislegri hlutdeild í manndrápi af gáleysi tók samkvæmt því til beggja ákærðu.
41. Að lokum taldi Landsréttur sannað að ákærði Björn Herbert hefði látið hjá líða að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, áhættumat, áætlun um heilsuvernd og koma á fót vinnuverndarstarfi hjá fyrirtækinu. Tók sakfelling hans jafnframt til þeirrar háttsemi.
42. Framangreindar niðurstöður Landsréttar um sönnun sem að stærstum hluta eru byggðar á mati á sönnunargildi framburða ákærðu, dómfellda C og vitna verða samkvæmt framansögðu ekki endurskoðaðar fyrir Hæstarétti og verða þær lagðar til grundvallar við úrlausn málsins. Þegar af þeirri ástæðu koma ekki til skoðunar þær röksemdir ákæruvalds og ákærðu sem lúta að sönnun.
Almennt um heimfærslu háttsemi ákærðu til refsiákvæða
43. Ákærðu er báðum gefin að sök gáleysisleg hlutdeild í manndrápi af gáleysi sem dómfelldi C hefur þegar verið sakfelldur fyrir í héraði en hann unir sem fyrr segir þeim dómi. Manndráp af gáleysi er í refsirétti skilgreint sem tjónsbrot. Hlutdeild ákærðu í þessu tjónsbroti er lýst þannig í ákæru að þeir hafi, þrátt fyrir vitneskju um að starfsmenn færu reglulega inn í vélina til að hreinsa hana, samþykkt að öryggisbúnaður vélarinnar væri gerður óvirkur og vanrækt að upplýsa þá um að búnaðurinn hefði verið gerður óvirkur. Í ákæru er á því byggt að ákærðu hafi vanrækt athafnaskyldu sem á þeim hafi hvílt stöðu þeirra vegna á grundvelli ákvæða laga og reglugerða um vinnuvernd og jafnframt vegna upplýsinga sem þeir fengu um aftengingu öryggisrofa og vitneskju sem þeir höfðu um umgengni starfsmanna við vélina.
44. Sama háttsemi ákærðu er í ákæru jafnframt heimfærð til refsiákvæða í lögum og reglugerðum um vinnuvernd. Umrædd refsiákvæði lúta að brotum á varúðarreglum með beinu athafnaleysi og eru skilgreind í refsirétti sem samhverf brot þar sem ekki er skilyrði að um tjón hafi verið að ræða heldur felst refsinæmið í vanrækslu á að uppfylla tilteknar skyldur.
45. Sem fyrr segir er í ákæru er einnig vísað til þess að ákærðu hafi báðir verið eigendur […]. Eins og hér háttar til verður refsiábyrgð þeirra ekki sérstaklega byggð á því að þeir hafi verið eigendur fyrirtækisins.
46. Næst verður fjallað um heimfærslu háttsemi ákærðu til refsiákvæða um vinnuvernd og í því sambandi um þær stöður sem þeir gegndu hjá […] en þar á eftir um ætlaða refsiverða hlutdeild þeirra í manndrápi af gáleysi.
Brot gegn ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerða settra á grundvelli þeirra laga
47. Ákærða Birni Herberti eru sem fyrr segir gefin að sök ætluð refsiverð brot gegn áður tilgreindum vinnuverndarákvæðum sem eiganda, framkvæmdastjóra og atvinnurekanda í […] þar sem banaslysið átti sér stað.
48. Í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 46/1980 segir að atvinnurekandi merki í lögunum hvern þann sem reki atvinnustarfsemi, sbr. 90. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 12. gr. að framkvæmdastjóri fyrirtækis teljist atvinnurekandi í merkingu laganna. Ákærði telur að vegna verkaskiptingar stjórnenda verksmiðjunnar geti hann ekki borið refsiábyrgð á banaslysinu. Hann hefur vísað til 2. mgr. greinarinnar þar sem fram kemur að sé starfsemi sem lögin nái til rekin af tveimur mönnum eða fleiri í sameiningu teljist aðeins einn þeirra atvinnurekandi samkvæmt lögunum en hinn eða hinir teljist starfsmenn enda vinni hann eða þeir við fyrirtækið. Skuli Vinnueftirliti ríkisins tilkynnt hver sé talinn atvinnurekandi.
49. Í málinu hafa verið lögð fram drög að gæðahandbók fyrir […] sem munu hafa verið gerð fyrir um áratug. Ekkert er fram komið annað en að um ófullgerð drög hafi verið að ræða sem ekki hafi verið tekin í notkun. Engar ályktanir verða heldur dregnar af drögunum um þá verkaskiptingu stjórnenda og takmörkun á ábyrgð ákærða Björns Herberts sem hann hefur vísað til. Í framlagðri skráningu Vinnueftirlitsins um […] er ákærði Skúli nefndur tengiliður en ekki vísað til hans sem framkvæmdastjóra. Ekkert er þannig fram komið sem hnekkir því mati hins áfrýjaða dóms að ákærði Björn Herbert hafi sem framkvæmdastjóri borið ábyrgð atvinnurekanda í skilningi laga nr. 46/1980 á því að vinnuverndarákvæðum væri fylgt innan fyrirtækisins.
50. Þau brot gegn refsiákvæðum laga og reglugerða um vinnuvernd sem ákærði Björn Herbert var sakfelldur fyrir í Landsrétti fólust öll í vanrækslu á skyldum hans sem atvinnurekanda. Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða Björns Herberts fyrir brot gegn þar tilgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerða nr. 367/2006 og 920/2006.
51. Ákærða Skúla er í ákæru gefin að sök tilgreind háttsemi sem verkstjóri, starfsmaður, eigandi og daglegur stjórnandi […]. Í hinum áfrýjaða dómi þótti sannað að hann hefði verið verksmiðjustjóri fyrirtækisins. Hann hafi sem verkstjóri verið fulltrúi atvinnurekanda og átt að sjá um að allur búnaður í verksmiðjunni væri góður og að öruggt skipulag væri við lýði, sbr. 21. gr. laga nr. 46/1980. Í hinum áfrýjaða dómi var lagt til grundvallar að hann hefði verið í sumarleyfi þegar dómfelldi C aftengdi öryggisbúnað vélarinnar og einnig þegar hann tilkynnti ákærða Skúla um það. Ákærði var enn í sumarleyfi þegar banaslysið varð.
52. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 46/1980 merkir verkstjóri í lögunum hvern þann sem á vegum atvinnurekanda hefur með höndum verkstjórn og eftirlit með starfsemi í fyrirtæki eða hluta þess. Þær varúðarreglur laganna sem ákærða er gefið að sök að hafa brotið gegn með refsiverðum hætti lúta ýmist að skyldum hans sem verkstjóra, sbr. 21. og 23. gr. eða skyldum hans sem starfsmanns innan verksviðs síns, sbr. 26. gr., hvað varðar framkvæmd vinnu samkvæmt 37. gr. og öryggi véla, sbr. 46. gr. laganna.
53. Eins og áður greinir telur ákærði Skúli sig ekki bera refsiábyrgð þar sem hann hafi verið í orlofi þegar hann fékk upplýsingar um að öryggisbúnaðurinn hefði verið aftengdur. Því hafi hann engar starfsskyldur haft hjá fyrirtækinu og ekki boðvald yfir dómfellda […] sem hafi sem aðstoðarverksmiðjustjóri verið staðgengill hans.
54. Ákærði Skúli vísar meðal annars til þess að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 30/1987 falli allar vinnuskyldur starfsmanns niður þegar hann er í orlofi. Þá telur hann leiða af 52. gr. laga nr. 46/1980 að starfsmaður beri aðeins skyldur samkvæmt vinnuverndarákvæðum á vinnutíma.
55. Lögum nr. 30/1987 er ætlað að tryggja öllum sem starfa í þjónustu annarra gegn launum tiltekinn lágmarksrétt til orlofs og launa í orlofi. Verndarhagsmunir laga nr. 46/1980 eru af öðrum toga en með þeim er samkvæmt 1. gr. leitast við að tryggja öruggt og heilsusamlegt starfsumhverfi sem jafnan sé í samræmi við félagslega og tæknilega þróun og tryggja skilyrði fyrir því að innan vinnustaðanna sjálfra sé hægt að leysa öryggis- og heilbrigðisvandamál. Skilgreining á vinnutíma í 1. tölulið 1. mgr. 52. gr. síðargreindu laganna, sem tekur eingöngu til IX. kafla þeirra sem fjallar um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma, verður ekki túlkuð þannig að hún útiloki að verkstjóri verði talinn bera refsiábyrgð vegna vinnuslyss sem verður þegar hann er ekki við störf og stafar af ófullnægjandi öryggisbúnaði vélar á hans starfssviði. Það er hins vegar atviksbundið hvort verkstjóri ber refsiábyrgð samkvæmt ákvæðum í vinnuverndarlöggjöf vegna hættulegra aðstæðna og atvika sem verða meðan hann er í orlofi.
56. Þegar borin eru saman ákvæði laga nr. 30/1987 og laga nr. 46/1980, einkum með tilliti til framangreindra verndarhagsmuna, verður talið að verkstjóri í orlofi losni almennt ekki undan refsiábyrgð á vanrækslu sinni á skyldum samkvæmt lögum nr. 46/1980 sem tilkomin var áður en hann fór í orlof. Jafnframt kann hann að bera refsiábyrgð samkvæmt lögunum á því að gera ekki það sem honum er með góðu móti unnt að gera til að afstýra aðsteðjandi hættu sem hann fær upplýsingar um að hafi skapast á starfssviði hans þótt hann sé í orlofi.
57. Ákærða Skúla hlaut að vera ljóst hversu mikil hætta gat stafað af umræddri frauðpressuvél og að notkun hennar án öryggisbúnaðar gæti stefnt lífi og limum starfsmanna fyrirtækisins í verulega hættu, sérstaklega í ljósi vitneskju hans um hvernig starfsmenn umgengust vélina. Upplýsingar sem hann fékk vegna stöðu sinnar sem verksmiðjustjóri og verkstjóri frá staðgengli sínum meðan hann var í orlofi um að öryggisbúnaður vélarinnar hefði verið aftengdur lögðu því á hann þá skyldu að gera það sem honum var með góðu móti unnt að gera til að afstýra þeirri yfirvofandi slysahættu sem skapast hafði. Sú athafnaskylda ákærða var ekki viðurhlutamikil í ljósi þeirra hagsmuna sem voru í húfi en hann brást henni engu að síður.
58. Að framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða Skúla fyrir brot gegn þar tilgreindum ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerðar nr. 920/2006.
Hlutdeild í manndrápi af gáleysi
59. Í refsirétti hefur verið talið að hlutdeildarákvæði 22. gr. almennra hegningarlaga feli í sér rýmkaða refsiábyrgð þannig að sú háttsemi sem falli undir hlutdeild geti náð út fyrir verknaðarlýsingu þess refsiákvæðis sem frumbrotið er heimfært undir svo og til þeirra sem standa utan við þá atburðarás sem sú verknaðarlýsing tekur til. Af orðalaginu „eða á annan hátt á þátt í því, að brot samkvæmt lögum þessum er framið“ í 1. mgr. 22. gr. er ljóst að ákvæðið hefur ekki að geyma tæmandi talningu á háttsemi sem getur falið í sér refsiverða hlutdeild í broti.
60. Samkvæmt framansögðu er lýsing 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga víðtæk um þá háttsemi sem fallið getur undir ákvæðið. Þannig er hlutdeild hvorki skilgreind né bundin þátttöku í undirbúningi brots eða skipulagningu þess og getur hún jafnvel falist í þátttöku sem ekki er skaðleg eða hættuleg í sjálfu sér en tengist refsinæmum aðalverknaði og verður refsiábyrgð fyrir hlutdeild ákvörðuð sjálfstætt. Hlutdeildarbrot þarf ekki að vera afgerandi þáttur í því hvort refsiverður verknaður er framinn heldur getur nægt að hlutdeildarmaður styrki áform annars manns sem áður eru til orðin, sbr. 2. mgr. 22. gr. Um þetta má meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar 4. febrúar 1993 í máli nr. 422/1992, sem birtur er í dómasafni réttarins árið 1993 á blaðsíðu 198, 12. desember 2002 í máli nr. 328/2002, 24. janúar 2008 í máli nr. 354/2007 og 1. október 2020 í máli nr. 15/2020.
61. Eðli málsins samkvæmt felst hlutdeild alla jafna í athöfn í verki eða orði en getur einnig falist í athafnaleysi. Hvað hlutdeildarverknað varðar má leggja óbeint athafnaleysi að jöfnu við athöfn. Refsinæmi slíks óbeins athafnaleysis ræðst þá af því hvort sérstök tengsl hafi verið milli ætlaðs hlutdeildarmanns og hinnar skaðvænu aðstöðu eða við þá hagsmuni sem í hættu voru. Þessi ábyrgðartengsl geta til dæmis falist í undanfarandi skaðvænni athöfn hlutdeildarmanns eða eftirlits- eða starfsskyldum hans.
62. Hér að framan hefur verið fjallað um þær skyldur sem á ákærðu hvíldu sem framkvæmdastjóra og verkstjóra samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 og reglugerðum settum á grundvelli þeirra laga og refsiverð brot ákærðu gegn þessum verndarákvæðum.
63. Það athafnaleysi ákærða Björns Herberts að láta hjá líða að gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, áhættumat, áætlun um heilsuvernd og að hafa látið hjá líða að koma á vinnuverndarstarfi í […] fól samkvæmt framansögðu í sér refsiverð brot á varúðarreglum. Megintilgangur þeirra er að koma í veg fyrir tjón á lífi og heilsu starfsmanna. Með hliðsjón af því sem talið hefur verið sannað í málinu má ætla að með gerð öryggisáætlunar, áhættumats, áætlunar um heilsuvernd og með vinnuverndarstarfi hefði mátt draga úr líkum á umræddu banaslysi og jafnvel koma í veg fyrir það. Brot ákærða gegn skyldum á sviði vinnuverndar sem fylgdu starfi hans sem framkvæmdastjóra voru þannig meðvirkandi þáttur í banaslysinu.
64. Sýnu alvarlegra var þó að ákærðu brugðust ekki við upplýsingum sem þeir fengu frá dómfellda C um að öryggisrofi á hættulegri vél hefði verið aftengdur. Hlutverk öryggisbúnaðarins var að tryggja að ekki væri unnt að gangsetja vélina ef öryggishlið hennar væri opið. Ákærðu bar að bregðast við þessum upplýsingum með því að banna notkun vélarinnar eða í það minnsta sjá til þess að starfsmenn yrðu upplýstir um aftengingu öryggisbúnaðarins. Hvað ákærða Skúla varðar braut hann að þessu leyti gegn varúðarreglu 2. mgr. 23. gr. laga nr. 46/1980 með því að tryggja ekki að hættu á slysi yrði afstýrt. Fallist er á þær forsendur hins áfrýjaða dóms að með þessu athafnaleysi hafi þeir í ljósi þeirrar stöðu sem þeir gegndu hjá […] og ábyrgðar sem þeir báru á grundvelli laga nr. 46/1980 í raun samþykkt að þessi hættulega vél yrði áfram í notkun án öryggisbúnaðar en ljóst er að virkur öryggisbúnaður á vélinni hefði komið í veg fyrir það banaslys sem varð. Þetta athafnaleysi þeirra verður lagt að jöfnu við að þeir hafi með gáleysislegu liðsinni í verki eða á annan hátt átt þátt í því manndrápi af gáleysi sem dómfelldi C hefur verið sakfelldur fyrir.
65. Að framangreindu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu fyrir hlutdeild af gáleysi í manndrápi af gáleysi og heimfærslu þess brots til refsiákvæða.
Ákvörðun refsingar og sakarkostnaður
66. Ákærðu Björn Herbert og Skúli hafa gerst sekir um brot gegn ákvæðum laga og reglugerða um vinnuvernd og hlutdeild af gáleysi í manndrápi af gáleysi. Ákærðu gegndu stjórnunarstöðum í fyrirtækinu þar sem banaslysið varð og höfðu jafnframt sem eigendur þess fjárhagslega hagsmuni af starfsemi þess. Við ákvörðun refsingar þeirra er óhjákvæmilegt að líta til þess að með vanrækslu á skyldum sínum á sviði öryggismála og vinnuverndar í fyrirtækinu og með því að bregðast ekki við þegar þeir fengu vitneskju um aftengingu á öryggisbúnaði hættulegrar vélar brutu þeir gegn grunntilgangi vinnuverndarlöggjafarinnar og áttu þátt í að maður beið bana við notkun vélarinnar.
67. Hvorugur ákærðu hefur áður sætt refsingu. Með vísan til þess hversu alvarlegt skeytingarleysi þeir sýndu um velferð starfsmanna sinna og hversu alvarlegar afleiðingarnar urðu, svo og 1. mgr. 77. gr. almennra hegningarlaga og annars framangreinds, verður refsing ákærða Björns Herberts ákveðin þriggja mánaða fangelsi en refsing ákærða Skúla tveggja mánaða fangelsi. Er þá tekið tillit til ríkari ábyrgðar ákærða Björns Herberts en Skúla á vinnuverndarstarfi og öryggismálum í fyrirtækinu. Rétt þykir að refsing beggja verði skilorðsbundin svo sem nánar greinir í dómsorði og er þá meðal annars litið til þess að rannsókn málsins og útgáfa ákæru dróst úr hófi án þess að ákærðu verði um það kennt.
68. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verða staðfest.
69. Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Björn Herbert Guðbjörnsson, sæti fangelsi í þrjá mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði, Skúli Magnússon, sæti fangelsi í tvo mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærðu greiði áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, sem nemur samtals 3.093.731 krónu sem hér segir: Ákærði Björn Herbert 1.506.600 krónur sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Hildar Ýrar Viðarsdóttur lögmanns, og ákærði Skúli 1.506.600 krónur sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Gríms Sigurðssonar lögmanns. Annan áfrýjunarkostnað, 80.531 krónu, greiði ákærðu óskipt.