Hæstiréttur íslands

Mál nr. 47/2024

Ákæruvaldið (Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir saksóknari)
gegn
X (Bjarni Hauksson lögmaður),
(Stefán Karl Kristjánsson réttargæslumaður )

Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Nauðgun
  • Brot í nánu sambandi
  • Sönnun
  • Ómerkingarkröfu hafnað

Reifun

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni, dóttur þáverandi sambýliskonu sinnar, og stórfellt brot í nánu sambandi á árunum 2016 til 2019. Í ákæru voru brot hans talin varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr., 209. gr., 1. mgr. 210. gr. a og 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur hafði sýknað X af sakargiftum en með hinum áfrýjaða dómi var hann sakfelldur fyrir þau brot sem tilgreind voru ákæru og refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði. Hæstiréttur taldi niðurstöðu hins áfrýjaða dóms hafa byggt á heildstæðu mati á sönnunargögnum málsins, þar á meðal rökstuddu mati á trúverðugleika X og brotaþola. Ekkert hefði komið fram um ágalla á þeirri aðferð sem beitt hefði verið við mat á sönnun á háttsemi X sem hann var sakfelldur fyrir með hinum áfrýjaða dómi. Þá var ekki fallist á röksemdir ákærða um að sönnunarbyrði um sekt hans hefði verið aflétt af ákæruvaldinu í andstöðu við 108. gr. laga nr. 88/2008 svo og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um sakfellingu X með vísan til forsendna og ákvað refsingu hans fangelsi í fimm ár.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Skúli Magnússon.

2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. nóvember 2024 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að niðurstaða Landsréttar um sakfellingu verði staðfest og að refsing ákærða verði þyngd.

3. Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara sýknu og þrautavara að refsing verði milduð.

4. Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér miskabætur, samtals að fjárhæð 5.000.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Til vara að staðfest verði ákvörðun Landsréttar um að vísa einkaréttarkröfu brotaþola heim í hérað.

Ágreiningsefni

5. Með ákæru héraðssaksóknara 19. janúar 2023 voru ákærða gefin að sök kynferðisbrot gegn barni og stórfellt brot í nánu sambandi með því að hafa, á tímabilinu 2016 til 2019 á heimili sínu, misnotað freklega yfirburðastöðu sína gagnvart brotaþola, traust hennar og trúnað sem stjúpfaðir og endurtekið og á alvarlegan hátt ógnað heilsu og velferð hennar með því að hafa í ótilgreindan fjölda skipta með ólögmætri nauðung haft við hana önnur kynferðismök en samræði með því að setja fingur inn í leggöng hennar, getnaðarlim sinn á milli læra hennar og viðhafa samfarahreyfingar, sleikja kynfæri hennar, nudda kynfæri hennar og fróa sér á meðan og í eitt skipti látið hana veita sér munnmök, auk þess sem ákærði sýndi henni klámmyndir og tók mynd af kynfærum hennar í eitt skipti. Í ákæru var háttsemi þessi talin varða við 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr., 209. gr., 1. mgr. 210. gr. a og 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

6. Með héraðsdómi 21. júní 2023 var ákærði sýknaður af sakargiftum. Landsréttur sneri þeirri niðurstöðu með hinum áfrýjaða dómi 27. júní 2024 og sakfelldi ákærða fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga sem tilgreind voru í ákæru.

7. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 30. október 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-118, á þeim grunni að ákærði hefði verið sýknaður í héraði en sakfelldur fyrir Landsrétti. Í ákvörðuninni kemur fram að samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skuli verða við ósk ákærðs manns sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun myndi ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku yrði ekki slegið föstu væri beiðnin samþykkt.

Málsatvik og meðferð máls

8. Rannsókn málsins hófst í kjölfar þess að lögreglu barst tilkynning 4. febrúar 2021 um að ákærði í málinu, stjúpfaðir brotaþola, hefði brotið gegn henni kynferðislega á árunum 2016 til 2019 þegar stúlkan var […] ára gömul. Er málsatvikum lýst í héraðsdómi. Þar er jafnframt rakinn framburður ákærða, brotaþola og annarra vitna sem gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins í héraði, svo og efni skýrslna sem teknar voru af brotaþola hjá lögreglu og í Barnahúsi og skýrslu sálfræðings í Barnahúsi.

9. Svo sem greinir í ákæru er ákærði sakaður um að hafa á tímabilinu 2016 til 2019, á heimili sínu og brotaþola sem er dóttir þáverandi sambýliskonu hans, haft við brotaþola í ótilgreindan fjölda skipta með ólögmætri nauðung önnur kynferðismök en samræði með því að setja fingur inn í leggöng hennar, getnaðarlim sinn á milli læra hennar og viðhafa samfarahreyfingar, sleikja og nudda kynfæri hennar og fróa sér á meðan og í eitt skipti látið hana veita sér munnmök auk þess sem ákærði sýndi henni klámmyndir og tók mynd af kynfærum hennar í eitt skipti.

10. Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins hjá lögreglu og meðferð þess fyrir dómi neitað öllum sakargiftum. Brotaþoli hefur hins vegar í skýrslum hjá lögreglu, í Barnahúsi og fyrir dómi lýst kynferðislegri háttsemi ákærða gagnvart sér frá því skömmu eftir að hún flutti með móður sinni inn á heimili hans haustið 2016 og til upphafs ársins 2019. Fyrir liggur að engin vitni voru að þeirri háttsemi ákærða gagnvart brotaþola sem ákært er fyrir. Í dómi héraðsdóms var framburður hennar metinn trúverðugur og hann talinn fá nokkra stoð í framburði vitna fyrir dóminum svo og vottorði og vætti sérfræðinga Barnahúss. Þegar gögn málsins og aðstæður allar voru metnar heildstætt varð niðurstaða héraðsdóms að framburður brotaþola hefði ekki þá stoð að nægði til að sakfella ákærða gegn eindreginni neitun hans. Þar sem ákæruvaldið hefði ekki axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi var ákærði sýknaður.

11. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti gáfu ákærði og brotaþoli viðbótarskýrslu. Þá voru spilaðar upptökur af skýrslum sem þau gáfu í héraði sem og skýrslum föður, móður og bróður brotaþola. Í hinum áfrýjaða dómi var efni framangreindra skýrslna rakið svo og efni vottorðs sálfræðings í Barnahúsi um mat á frásögn brotaþola. Lagt var mat á trúverðugleika framburðar brotaþola og ákærða, að hvaða marki frásagnir þeirra fengju stoð í framburðum vitna og gögnum málsins og hvað væri fallið til að rýra trúverðugleika þeirra og þar með sönnunargildi. Þótt framburður ákærða hefði í meginatriðum verið talinn staðfastur og ákærði hefði frá upphafi neitað sakargiftum var talið að hann fengi takmarkaða stoð í framburði vitna og gögnum málsins. Rýrði það trúverðugleika hans og sönnunargildi. Framburður brotaþola hefði hins vegar verið afar trúverðugur enda skýr, stöðugur og án mótsagna. Fengi hann jafnframt stoð í framburði móður hennar og vinkvenna svo og vottorði og framburði sálfræðings. Í því ljósi og jafnframt á grundvelli heildstæðs mats á sönnunargögnum var nægileg sönnun talin komin fram, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, um að ákærði hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum væri gefin að sök í ákæru. Var hann því sakfelldur og refsing ákveðin fangelsi í þrjú ár og sex mánuði.

Röksemdir ákærða og ákæruvalds

Helstu röksemdir ákærða

12. Ákærði heldur því fram að í hinum áfrýjaða dómi hafi verið gengið mjög langt í að byggja undir vægi framburðar brotaþola og að sama skapi draga úr gildi framburðar hans, auk þess sem ónákvæmni gæti í rökstuðningi. Hann telur mat Landsréttar á sönnun um sekt hans hafa farið gegn grundvallarreglunni í 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, svo og fyrirmælum 108. gr. laga nr. 88/2008 um sönnunarbyrði ákæruvalds. Trúverðugur framburður hans geti aldrei talist hafa minna vægi vegna þess að hann fái ekki stoð í framburði vitna eða gögnum máls. Í raun sé mati á sönnun með þessu snúið á hvolf enda sé það ákæruvaldsins að sanna sekt en ekki sakbornings að sanna sakleysi sitt.

13. Í hinum áfrýjaða dómi sé framburður brotaþola talinn afar trúverðugur og honum fundinn stuðningur í framburði annarra vitna og gagna. Þar hafi vitnisburður vinkvenna brotaþola fengið sérstakt vægi þótt hann hafi verið ónákvæmur um á hvaða tíma brotaþoli hafi sagt þeim frá ætluðum brotum ákærða. Eins séu í dóminum dregnar rangar ályktanir um að framburður móður brotaþola styrki trúverðugleika og sönnunargildi framburðar brotaþola enda styðji hann miklu frekar framburð ákærða. Ekki sé lagt sjálfstætt mat á framburð ákærða, þar með talið á innra samræmi hans. Við mat á ytra samræmi sé svo aðeins litið til atriða sem styðji framburð brotaþola með þeirri niðurstöðu að framburður ákærða fái takmarkaða stoð.

14. Ákærði byggir á því að í hinum áfrýjaða dómi felist frávik frá viðurkenndum sönnunarreglum í kynferðisbrotamálum sem varða börn um að það nægi ekki til sakfellingar að brotaþoli beri fram sakir á hendur manni með framburði sem telst trúverðugur.

15. Kröfu sína um sýknu byggir ákærði á því að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að sanna sök hans og hann eigi að njóta alls vafa í því tilliti. Komi til refsiákvörðunar vísar ákærði til þess að hann eigi engan sakaferil að baki og mjög langur tími sé liðinn frá atvikum sem honum verði ekki kennt um. Beri því að fresta fullnustu refsingar að öllu leyti skilorðsbundið.

Helstu röksemdir ákæruvalds

16. Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að aðferð við sönnunarmat í hinum áfrýjaða dómi hafi ekki verið áfátt og því séu engin efni til að verða við kröfu ákærða um ómerkingu hans.

17. Af forsendum dómsins sé ljóst að innra samræmi í framburði ákærða hafi verið metið og ekki talið að um teljandi mótsagnir væri að ræða. Að því er varðar ytra samræmi í framburði hans hafi einkum verið litið til ósamræmis í frásögn um að hann hefði lítið verið einn með brotaþola á þeim tíma sem ákæra tekur til og vitnisburðar brotaþola, móður hennar, bróður og vinkonu sem hafi borið um annað. Með hliðsjón af grundvallarreglum um frjálst sönnunarmat dómara, sbr. 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008, sé ekki fallist á að mat á sönnun í hinum áfrýjaða dómi hafi verið í andstöðu við 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

18. Ákæruvaldið andmælir að í hinum áfrýjaða dómi sé of langt gengið í að byggja undir vægi framburðar brotaþola. Frásögn hennar hafi verið metin afar trúverðug. Það hafi verið niðurstaða heildstæðs mats á framburði hennar við skýrslutökur hjá lögreglu, í Barnahúsi og fyrir báðum dómstigum að hann hafi frá upphafi verið skýr, stöðugur og án mótsagna um þau atriði sem skiptu máli við úrlausn málsins. Þá hafi verið raktir vitnisburðir og önnur gögn sem talin voru styðja framburð hennar. Grundvöllur sakfellingar ákærða í hinum áfrýjaða dómi hafi verið heildstætt mat á öllu sem hefði komið fram í málinu.

19. Að þessu virtu telur ákæruvaldið enga þá annmarka á hinum áfrýjaða dómi eða aðferð Landsréttar við sönnunarmat sem leiði til þess að hann skuli ómerkja. Þá séu ekki heldur efni til að draga í efa réttmæti niðurstöðu dómsins um sakfellingu ákærða fyrir þau brot sem honum séu gefin að sök.

20. Um ákvörðun refsingar ákærða tekur ákæruvaldið fram að Landsrétti hefði borið að líta til a-liðar 195. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt því ákvæði skuli metið til refsiþyngingar þegar þolandi nauðgunar sé barn yngra en 18 ára. Með hliðsjón af alvarleika þeirrar háttsemi sem um ræðir kunni að vera tilefni til að þyngja refsingu ákærða.

Niðurstaða

Um formhlið málsins

21. Aðalkrafa ákærða um ómerkingu og varakrafa hans um sýknu byggjast á svipuðum grunni um að annmarkar hafi verið á sönnunarmati í hinum áfrýjaða dómi, þá einkum mati á framburði ákærða og brotaþola, og þeir falið í sér frávik frá almennum sönnunarkröfum. Verður fyrst leyst úr ómerkingarkröfu ákærða.

22. Samkvæmt 2. mgr. 225. gr. laga nr. 88/2008 getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu áfrýjaðs dóms í sakamáli um mat á sönnunargildi munnlegs framburðar. Á hinn bóginn kemur í hlut réttarins að meta hvort annmarki hafi verið á þeirri aðferð sem beitt var við sönnunarmatið sem gæti hafa haft áhrif á úrlausn máls. Þannig beinist endurskoðunin að því að kanna hvort matið hafi verið í samræmi við lög án þess að tekin sé afstaða til þess hvað teljist sannað á grundvelli munnlegs framburðar. Um þetta má til hliðsjónar vísa til dóma Hæstaréttar 15. október 2020 í máli nr. 16/2020 og 18. mars 2021 í máli nr. 34/2020.

23. Í samræmi við þetta verður ekki veitt leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar til Hæstaréttar til endurskoðunar á mati réttarins á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Aftur á móti verður veitt leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í því skyni að fá héraðsdóm og landsréttardóm ómerkta, sbr. d-lið 1. mgr. sömu greinar. Annmarki á aðferð við sönnunarmat getur varðað ómerkingu dóms og heimvísun.

24. Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi gáfu ákærði og brotaþoli viðbótarskýrslur við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti. Jafnframt voru spilaðar hljóð- og myndupptökur af skýrslum sem þau gáfu við aðalmeðferð málsins í héraði sem og skýrslum föður, móður og bróður brotaþola. Þá lágu fyrir endurrit af munnlegum skýrslum sjö annarra vitna fyrir héraðsdómi.

25. Samkvæmt 115. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari sönnunargildi framburðar ákærða, þar á meðal trúverðugleika hans við úrlausn máls. Í því sambandi skal meðal annars hugað að ástandi og hegðun ákærða við skýrslugjöf og stöðugleika í frásögn hans. Jafnframt metur dómari sönnunargildi vitnisburðar við úrlausn máls. Þar skal meðal annars hugað að afstöðu vitnis til ákærða, hagsmunum þess af málsúrslitum, þroska þess, áreiðanleika skynjunar þess á atvikum, minni, ástandi og hegðun við skýrslugjöf, öryggi þess og skýrleika í svörum og samræmi í frásögn, sbr. 126. gr. laganna. Þessi ákvæði gilda einnig um meðferð máls fyrir Landsrétti, sbr. 210. gr. þeirra.

26. Þegar metinn er framburður ákærða eða brotaþola, að gættum þessum lagaákvæðum, verður að huga að innra samræmi framburðar, bæði fyrir dómi og hjá lögreglu, með tilliti til þess hvort mótsagna gæti í frásögn þeirra. Samhliða verður að kanna ytra samræmi framburðar en í því felst að virða hann í ljósi annarra upplýsinga sem komið hafa fram við rannsókn og meðferð málsins, þar með talið framburðar annarra. Á þessum grunni er metið á lægri dómstigum hvort framburður er trúverðugur með tilliti til annarra sönnunargagna. Um þetta vísast til fyrrgreinds dóms í máli nr. 16/2020 og einnig dóma réttarins 18. febrúar 2021 í máli nr. 30/2020 og 22. febrúar 2023 í máli nr. 46/2022.

27. Svo sem áður er rakið er krafa ákærða um ómerkingu hins áfrýjaða dóms einkum reist á að sá annmarki hafi verið á aðferð við mat á sönnunargildi framburðar hans að það hafi verið talið draga úr trúverðugleika hans að hann skorti stoð í framburði vitna. Því hafi ekki verið lagt sjálfstætt mat á framburð ákærða og innra samræmi hans. Á þetta er ekki fallist. Í hinum áfrýjaða dómi var rakið hvernig líta bæri til innra samræmis framburðar ákærða. Tekið var fram að hann hefði í meginatriðum verið staðfastur og ákærði hefði frá upphafi máls neitað sakargiftum. Einnig voru rakin meginatriði í framburði hans, þar á meðal efni skýrslu sem hann gaf fyrir Landsrétti. Er samkvæmt þessu ekki fallist á með ákærða að framburður hans og innra samræmi hafi ekki verið metið sjálfstætt.

28. Á hinn bóginn verður trúverðugleiki ákærða og stöðugleiki í frásögn hans ekki metinn án þess að einnig sé hugað að ytra samræmi eins og tekið er fram í hinum áfrýjaða dómi. Er þar ítarlega rakið hvernig framburður ákærða er virtur í ljósi annarra fyrirliggjandi upplýsinga, þar með talið því sem vitni báru um atvik og lýst er í dóminum. Var af þessu dregin sú ályktun að takmarkaða stoð væri að finna fyrir því sem fram hefði komið í framburði ákærða.

29. Að þessu virtu er ekki fallist á að þessi aðferð við sönnunarmat sé annmörkum háð. Öllu heldur verður að líta á hana sem eðlilegan lið í mati á trúverðugleika ákærða. Þá er heldur ekki fallist á að rangra aðferða hafi verið gætt við mat á framburðum annarra í þessu sambandi, svo sem að litið hafi verið fram hjá atriðum sem kynnu að styrkja framburð ákærða eða að atriðum sem styrktu frásögn brotaþola hafi verið gefið óeðlilega mikið vægi.

30. Með sama hætti var í hinum áfrýjaða dómi metið innra samræmi í framburði brotaþola og tekið fram að lýsing hennar á háttsemi ákærða hefði í öllum meginatriðum verið á sama veg í þeim skýrslum sem teknar voru af henni, allt frá fyrstu frásögn hennar fyrir lögreglu og síðari skýrslum þar, í Barnahúsi sem og við aðalmeðferð málsins bæði í héraði og fyrir Landsrétti. Var ályktað að framburður hennar hefði frá upphafi verið skýr, stöðugur og án mótsagna um þau atriði sem máli skiptu við úrlausn málsins. Þegar ytra samræmi í framburði hennar var skoðaður í ljósi þess sem önnur vitni báru var hann einnig talinn fá stoð í framburði móður hennar og vinkvenna. Vottorð og framburður sálfræðings hjá Barnahúsi um andlega heilsu brotaþola, líðan hennar og hegðun voru einnig talin fallin til að styðja framburð brotaþola. Með hliðsjón af því var framburður hennar talinn afar trúverðugur.

31. Samkvæmt framangreindu var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða byggð á heildstæðu mati á sönnunargögnum málsins, þar á meðal á rökstuddu mati á trúverðugleika hans og brotaþola að undangenginni ítarlegri umfjöllun um framburð þeirra fyrir lögreglu, héraðsdómi og viðbótarskýrslum í Landsrétti. Þau atriði sem ákærði hefur fundið að í hinum áfrýjaða dómi varða mat á sönnunargildi munnlegs framburðar sem ekki sætir endurskoðun Hæstaréttar.

32. Að því frágengnu hefur ekkert komið fram um að ágallar hafi verið á þeirri aðferð sem beitt var við mat á sönnun á þeirri háttsemi ákærða sem hann var sakfelldur fyrir með hinum áfrýjaða dómi. Þá er ekki heldur fallist á röksemdir ákærða um að með þeirri aðferð sem beitt var við sönnunarmat í málinu hefði verið aflétt sönnunarbyrði ákæruvaldsins um sekt hans í andstöðu við 108. gr. laga nr. 88/2008, svo og 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Að öllu framangreindu virtu eru ekki efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm.

Um efnishlið málsins

33. Ákærði var með hinum áfrýjaða dómi sakfelldur fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot gegn brotaþola, stórfellt brot í nánu sambandi auk þess að hafa sýnt henni klámmyndir og tekið mynd af kynfærum hennar, svo sem nánar er rakið í ákæru. Þessi niðurstaða, sem reist var á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi, verður sem fyrr greinir ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Að því gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök. Eru brot ákærða réttilega heimfærð til 1. mgr. 194. gr., 1. mgr. 202. gr., 209. gr., 1. mgr. 210. gr. a og 2. mgr. 218. gr. b almennra hegningarlaga í hinum áfrýjaða dómi.

Ákvörðun refsingar

34. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi varð nokkur dráttur á rannsókn málsins hjá lögreglu eftir að hún hófst 4. febrúar 2021. Verður ekki annað ráðið en að hún hafi að mestu legið niðri um fimmtán mánaða skeið, eða frá júní þess árs til septembermánaðar 2022 þegar teknar voru frekari skýrslur af ákærða og brotaþola auk skýrslna af vitnum. Ákæra var svo gefin út 19. janúar 2023 eða tæpum tveimur árum eftir að lögreglurannsókn hófst en ekki urðu óeðlilegar tafir á útgáfu ákæru eftir að rannsókn lauk. Dráttur málsins á rannsóknarstigi hefur ekki verið skýrður og er aðfinnsluverður. Brýtur hann í bága við meginreglu 2. mgr. 53. gr., svo og 1. mgr. 171. gr. laga nr. 88/2008 og er í andstöðu við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 1. febrúar 2007 í máli nr. 102/2006 og 16. júní 2021 í máli nr. 12/2021.

35. Ákærði hefur ekki áður hlotið refsidóm. Við ákvörðun refsingar er tekið tillit til framangreindra tafa á rannsókn málsins hjá lögreglu sem ákærða verður ekki kennt um. Á hinn bóginn ber einnig til þess að líta að ákærði braut alvarlega gegn stjúpdóttur sinni á barnsaldri og beitti hana ítrekað grófu kynferðislegu ofbeldi inni á heimili þeirra. Þannig misnotaði hann freklega yfirburðastöðu sína gagnvart brotaþola og ógnaði velferð hennar á alvarlegan hátt. Auk þess stóðu brotin yfir í langan tíma eða um þriggja ára skeið. Af því verður ráðið að vilji ákærða til að fremja brotin hafi verið styrkur og einbeittur. Ákærði á sér engar málsbætur. Þá bera gögn málsins með sér að brot hans hafi haft alvarlegar afleiðingar fyrir sálræna heilsu brotaþola. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1., 2., 3., 6. og 7. töluliðar 1. mgr. 70. gr., 77. gr., a-liðar 195. gr. og 5. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár.

36. Af hálfu brotaþola er fyrir Hæstarétti höfð uppi krafa um miskabætur úr hendi ákærða. Þar sem kröfunni var í hinum áfrýjaða dómi vísað til efnismeðferðar heim í hérað geta kröfur hans þar um ekki komið til úrlausnar hér fyrir réttinum. Það athugast að þessi tilhögun kröfugerðar fyrir Hæstarétti er með öllu tilefnislaus.

37. Ákærða verður gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 ár.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins fyrir Hæstarétti samtals 1.326.411 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Bjarna Haukssonar lögmanns, 1.004.400 krónur svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Karls Kristjánssonar, 124.000 krónur.