Hæstiréttur íslands

Mál nr. 28/2023

A (Einar Gautur Steingrímsson lögmaður)
gegn
B (Sveinn Guðmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður
  • Frávísun
  • Málsgögn

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem vísað var frá réttinum máli vegna ágalla á gerð kærumálsgagna. Hæstiréttur taldi að ekki yrði véfengt það mat Landsréttar að málatilbúnaður sóknaraðila hefði verið svo ófullkominn að vísa hefði mátt málinu frá samkvæmt 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júní 2023 sem barst réttinum sama dag en kærumálsgögn bárust réttinum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 23. maí 2023 í máli nr. 268/2023 þar sem málinu var vísað frá Landsrétti. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar.

4. Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Ágreiningsefni

5. Í máli þessu er deilt um hvort ágallar á gerð kærumálsgagna sóknaraðila í máli sem kært var til Landsréttar hafi verið svo verulegir að rétt hafi verið að vísa málinu þaðan frá dómi eða hvort Landsrétti hafi borið að veita lögmanni sóknaraðila frekari leiðbeiningar en gert var um gerð kærumálsgagna og leggja svo efnisúrskurð á málið.

Málsatvik og meðferð máls

6. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu í Hæstarétti höfðaði sóknaraðili mál 10. maí 2021 á hendur varnaraðila. Krafðist hún þess að lögheimili sonar þeirra yrði hjá henni. Þá krafðist hún þess að kveðið yrði á um inntak umgengni varnaraðila við barnið og að varnaraðili skyldi greiða einfalt meðlag með því.

7. Málið var þingfest 19. maí 2021 og fjórum sinnum tekið fyrir á reglulegu dómþingi. Eftir úthlutun þess var það sex sinnum tekið fyrir uns aðalmeðferð fór fram 27. febrúar 2023. Samkvæmt endurriti úr þingbók var að loknum skýrslutökum lögð fram dómsátt málsaðila. Sú sátt er ekki í þeim gögnum sem send hafa verið Hæstarétti en með henni mun hafa verið fallist á stærstan hluta dómkrafna varnaraðila.

8. Aðilar náðu hins vegar ekki samkomulagi um málskostnað. Að loknum málflutningi þar um kvað héraðsdómur upp úrskurð 22. mars 2023 með þeirri niðurstöðu að gjafsóknarkostnaður sóknaraðila skyldi greiðast úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanna hennar Söru Pálsdóttur, 1.725.358 krónur og Lilju Margrétar Olsen 1.325.808 krónur. Á hinn bóginn var sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 3.300.000 krónur í málskostnað. Úrskurðurinn er ekki meðal gagna málsins í Hæstarétti heldur aðeins endurrit þingbókar með úrskurðarorðum.

9. Sóknaraðili kærði úrskurðinn til Landsréttar 5. apríl 2023 og krafðist þess að málskostnaður í héraði milli aðila félli niður en gjafsóknarkostnaður í héraði yrði ákveðinn 3.444.022 krónur. Sóknaraðili afhenti Landsrétti greinargerð ásamt gögnum sem kæran var studd við 19. þess mánaðar. Varnaraðili gerði á hinn bóginn aðallega þá kröfu að málinu yrði vísað frá Landsrétti sökum þess að sóknaraðili hefði við gerð kærumálsgagna brotið gegn 3. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 og reglum Landsréttar nr. 1/2018 um kærumálsgögn í einkamálum, sbr. 6. mgr. 147. gr. laganna.

10. Í gögnum málsins liggur fyrir tölvubréf þáverandi lögmanns sóknaraðila til Landsréttar 21. apríl 2023 þar sem fram kemur að lögmaðurinn hafi mætt á skrifstofu Landsréttar 19. þess mánaðar en verið „send til baka“ þar sem hún hefði aðeins haft eitt eintak af úrskurði og endurriti héraðsdóms en greinargerð og fylgiskjöl hafi að öðru leyti verið í fjórum eintökum. Þess hefði verið óskað að hún lagfærði þetta og sendi í „gáttina“ fyrir miðnætti. Í sama tölvubréfi var vísað til þess að með fylgdi tölvubréf til lögmanns gagnaðila sem hefði fengið greinargerð og gögn málsins innan frests. Loks var í fyrrnefnda tölvubréfinu óskað staðfestingar Landsréttar á því að þessi gögn hefðu verið móttekin miðvikudaginn 19. apríl þegar lögmaðurinn hefði sannarlega komið með þau.

11. Í tölvubréfi skrifstofustjóra Landsréttar 21. apríl 2023 sagði að eins og málið væri vaxið yrði fallist á að gögnum hefði í reynd verið skilað til Landsréttar 19. apríl en athugasemd komið fram af hálfu réttarins um úrbætur. Í bréfinu var áréttað að athugasemdir hefðu lotið að því að nægilegur fjöldi eintaka af úrskurði héraðsdóms og þingbók hefði ekki verið lagður fram. Frestur til að skila umræddum gögnum var ákveðinn til loka dags 24. þess mánaðar.

12. Í gögnum málsins er hvorki að finna framangreint tölvubréf lögmanns sóknaraðila til lögmanns varnaraðila né verður með vafalausum hætti ráðið að lögmaður sóknaraðila hafi átt frekari samskipti við Landsrétt um skil gagna. Þá verður ekki séð hvort framangreind tölvubréf 21. apríl 2023 hafi legið fyrir við úrlausn málsins en ekki er vísað til þeirra í hinum kærða úrskurði.

13. Með hinum kærða úrskurði vísaði Landsréttar málinu frá sér. Þar var rakið hvaða gögn sóknaraðili lagði fyrir réttinn og hvað á skorti svo að fylgt hefði verið lögum nr. 91/1991 og reglum Landsréttar nr. 1/2018. Fram kom að þótt sóknaraðili hefði við meðferð málsins nokkuð bætt úr framlagningu málskjala hefði hann enn ekki lagt fram stefnu málsins í héraði, greinargerð varnaraðila í héraði né hlutlæga greiningu á ágreiningsefni málsins, sbr. 4. og 8. tölulið 5. gr. reglnanna. Þá væru kærumálsgögnin ekki í bindi með blaðsíðutali, sbr. 7. gr. reglnanna og þeim fylgdi ekki efnisyfirlit eins og áskilið væri í 4. gr. þeirra. Samkvæmt því væru kærumálsgögnin enn í verulegu ósamræmi við reglur nr. 1/2018 og málatilbúnaður sóknaraðila ófullkominn í skilningi 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991. Skipti þá ekki máli þótt varnaraðili hefði fyrir sitt leyti lagt fram kærumálsgögn, þar með talið stefnu málsins og greinargerð sína í héraði. Loks segir í úrskurðinum að sóknaraðili hefði ekki bætt úr því sem ábótavant væri innan þess frests sem henni var gefinn. Því bæri að vísa málinu frá Landsrétti.

Helstu málsástæður aðila

14. Málatilbúnaður sóknaraðila fyrir Hæstarétti er á því reistur að Landsréttur hafi brugðið út af venju og ekki bent lögmanni sóknaraðila á að bæta úr þeim annmörkum sem Landsréttur nefnir í úrskurði sínum og ekki sé dregið í efa að til staðar hafi verið. Hlutverk dómstóla sé á hinn bóginn að leysa úr ágreiningsefnum og að mál skuli ekki ónýtt nema óhjákvæmilegt sé. Ágallar þeir sem um ræðir hafi í engu truflað varnir varnaraðila auk þess sem í 10. gr. reglna nr. 1/2018 sé gert ráð fyrir því verklagi að gefa lögmönnum kost á að bæta úr gerð kærumálsgagna. Einfalt hefði verið að bæta úr hefði Landsréttur veitt frekari leiðbeiningar þar um. Af orðalagi hins kærða úrskurðar virðist á hinn bóginn sem dómendur hafi talið að búið hafi verið að benda á annmarkana sem um ræðir áður en úrskurður var kveðinn upp. Svo hafi á hinn bóginn ekki verið.

15. Varnaraðili vísar til forsendna hins kærða úrskurðar um röksemdir fyrir kröfum sínum hér fyrir dómi. Tiltekur hann sérstaklega að sami lögmaður hafi annast rekstur málsins fyrir sóknaraðila, bæði í héraði og fyrir Landsrétti. Þá hafi lögmaður varnaraðila ekki fengið eintök af gögnum líkt og lög og reglur bjóði.

Niðurstaða

16. Í 1. mgr. 145. gr. laga nr. 91/1991 eru fyrirmæli um hvað skuli greina frá í kæru til Landsréttar. Í 3. mgr. 147. gr. laganna segir að sá sem kæri úrskurð eða dómsathöfn skuli senda Landsrétti, innan tveggja vikna frá því að kæra hans barst héraðsdómi, þau gögn máls sem hann telji sérstaklega þörf á til úrlausnar um kæruefni og í þeim fjölda eintaka sem Landsréttur ákveði. Hann skuli þá einnig, ef hann kýs, afhenda Landsrétti skriflega greinargerð sem geymi kröfur hans og málsástæður sem byggt sé á. Hann skuli samtímis afhenda gagnaðila eitt eintak kærumálsgagna og greinargerðar. Gögnum skuli fylgja skrá um þau og skuli þau vera í því horfi sem Landsréttur mæli fyrir um. Í 6. mgr. 147. gr. er mælt fyrir um að Landsréttur setji nánari reglur um frágang málsgagna í kærumálum. Þá er í 2. mgr. 149. gr. laganna kveðið á um að ef kæra sé ekki gerð þannig úr garði sem segi í 1. mgr. 145. gr. eða málatilbúnaður annars ófullkominn, geti Landsréttur lagt fyrir kæranda að bæta úr því sem sé ábótavant innan tiltekins frests. Verði kærandi ekki við því geti Landsréttur vísað kærumálinu frá sér.

17. Reglur Landsréttar nr. 1/2018 eru settar á grundvelli fyrirmæla 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991 en í 1. gr. reglnanna er jafnframt vísað til 3. mgr. 147. gr. laganna. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að sóknaraðili beri ábyrgð á að kærumálsgögn séu í þeim búningi sem mælt sé fyrir um í reglunum.

18. Fyrrnefnd fyrirmæli 147. gr. laga nr. 91/1991 og reglna Landsréttar nr. 1/2018 hafa þann augljósa tilgang að stuðla að vandaðri framsetningu gagna í kærumálum með það að leiðarljósi að gera málatilbúnað kæranda skýran og aðgengilegan fyrir gagnaðila og Landsrétt og málsmeðferð í kærumálum greiða og skilvirka. Reglur Landsréttar eru jafnframt ítarlegar og einfalt fyrir löglærða að fylgja þeim. Þá hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á vikið hafi verið frá venjubundnu ferli við meðferð kærunnar í Landsrétti.

19. Samkvæmt því sem að framan er rakið bar sóknaraðili ábyrgð á því að kærumálsgögn væru í þeim búningi sem mælt er fyrir um í lögum nr. 91/1991 og reglum nr. 1/2018. Í tilvitnaðri 10. gr. reglnanna segir að sé gerð kærumálsgagna í verulegu ósamræmi við fyrirmæli þeirra, án þess að 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 eigi við, geti Landsréttur mælt fyrir um að bætt skuli úr innan tilgreinds frests. Sé fyrirmælum um úrbætur ekki sinnt geti rétturinn frestað máli þar til úr hefur verið bætt. Líkt og í 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 er hér að finna heimild en ekki skyldu til handa Landsrétti. Þá er tiltekið að reglan taki til ágalla sem eru ekki þess eðlis að 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991 eigi við.

20. Eins og að framan er rakið taldi Landsréttur ágalla á kærumálsgögnum svo verulega að málatilbúnaður sóknaraðila væri ófullkominn í skilningi 2. mgr. 149. gr. laganna þannig að ekki yrði lagður efnisúrskurður á málið. Til þess er einnig að líta að í greinargerð varnaraðila til Landsréttar var krafist frávísunar málsins frá réttinum sökum tilgreindra annmarka á kærumálsgögnum sóknaraðila. Gaf það sóknaraðila enn frekar tilefni til að sinna lögboðinni skyldu sinni og koma málatilbúnaði sínum í fullnægjandi horf.

21. Samkvæmt framanrituðu verður ekki vefengt það mat Landsréttar að málatilbúnaður sóknaraðila hafi verið svo ófullkominn að vísa mátti málinu frá samkvæmt 2. mgr. 149. gr. laga nr. 91/1991. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, A, greiði varnaraðila, B, 300.000 krónur í kærumálskostnað.