Hæstiréttur íslands

Mál nr. 4/2023

Ferðaskrifstofa Íslands ehf. (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Steinari Þór Ólafssyni (Ólafur G. Gústafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Neytendakaup
  • Pakkaferðir
  • Afpöntun
  • Force majeure
  • Endurgreiðsla

Reifun

S höfðaði mál á hendur F ehf. og krafðist endurgreiðslu vegna ferðar sem hann hafði bókað hjá F og greitt að fullu til Norður-Ítalíu en afpantað daginn fyrir brottför vegna útbreiðslu COVID-19 faraldurs. Hæstiréttur taldi ótvírætt að þegar ferðin var afpöntuð hefðu aðstæður á ákvörðunarstað verið bæði óvenjulegar og óviðráðanlegar og haft veruleg áhrif á framkvæmd fyrirhugaðrar ferðar S í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Ekki var talið hafa úrslitaþýðingu hvort íslensk stjórnvöld hefðu formlega skilgreint alla Ítalíu sem svæði með mikla smitáhættu á þeim degi sem ferðin var afpöntuð heldur væri nægilegt að vissar líkur væru á áhættu fyrir heilbrigði S og fjölskyldu hans vegna farsóttar. Þá var ekki fallist á að lagafyrirmæli um rétt S til endurgreiðslu og beiting hennar við þessar aðstæður væru óhóflega íþyngjandi fyrir eignarrétt eða atvinnustarfsemi F í ljósi þeirrar neytendaverndar sem lögin stefndu að. Var því talið að skilyrði 15. gr. laga nr. 95/2018 til að afpanta ferðina með rétti til fullrar endurgreiðslu væru uppfyllt og að F bæri áhættuna af því að ferð væri afpöntuð af þessum ástæðum. Var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um rétt S til fullrar endurgreiðslu ásamt dráttarvöxtum frá því að 14 dagar voru liðnir frá afpöntun ferðarinnar.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. janúar 2023. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar á öllum dómstigum.

3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Ágreiningsefni

4. Í málinu er deilt um hvort stefndi eigi rétt til endurgreiðslu úr hendi áfrýjanda vegna ferðar til Norður-Ítalíu 29. febrúar til 7. mars 2020 sem hann hafði greitt fyrir að fullu en afpantaði kvöldið fyrir brottför vegna útbreiðslu COVID-19 faraldurs þar í landi. Aðilar deila um hvernig beri að skýra fyrirmæli laga nr. 95/2018 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun um að ferðamaður geti afpantað pakkaferð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna og fengið heildarverð hennar endurgreitt við þær aðstæður.

5. Með héraðsdómi 27. janúar 2021 var fallist á kröfur stefnda um að áfrýjandi skyldi endurgreiða honum heildarverð pakkaferðarinnar og var sú niðurstaða staðfest 11. nóvember 2022 með hinum áfrýjaða dómi.

6. Áfrýjunarleyfi var veitt 10. janúar 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-141, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi um rétt til endurgreiðslu vegna afpöntunar pakkaferðar.

Málsatvik

7. Tildrög málsins eru að 19. nóvember 2019 pantaði stefndi skíðaferð hjá áfrýjanda fyrir sig, eiginkonu og barn til Madonna di Campiglio á Norður-Ítalíu vikuna 29. febrúar til 7. mars 2020. Bókunin var hluti stærri ferðabókunar þar sem foreldrar og tvö systkini stefnda ásamt fjölskyldum voru einnig með í för, alls þrettán manns. Bókað var flug með Icelandair frá Keflavík til Verona á Ítalíu og til baka, rútuferðir frá Verona og Madonna di Campiglio og til baka og hótelgisting. Heildarverð bókunar stefnda nam 860.077 krónum og var það greitt áfrýjanda að fullu 16. janúar 2020.

8. Laust fyrir miðnætti 28. febrúar 2020 sendi stefndi tölvubréf til áfrýjanda þar sem hann tilkynnti að í ljósi frétta dagsins, mikillar fjölgunar COVID-19 smita á Ítalíu og þar sem flest smit sem borist hefðu um Evrópu mætti rekja þangað hefði verið tekin ákvörðun um að fjölskyldan færi ekki næsta morgun í fyrirhugaða ferð til Madonna. Áfrýjandi staðfesti með tölvubréfi 2. mars móttöku tilkynningar um afpöntun en tók fram að samkvæmt skilmálum yrði ekki um neina endurgreiðslu að ræða af hans hálfu.

9. Bróðir stefnda sendi áfrýjanda bréf 10. mars 2020 fyrir hönd allra fjölskyldumeðlima sem bókaðir voru í ferðina og krafðist endurgreiðslu. Vísað var til þess að fyrsta tilfelli COVID-19 hefði greinst á Íslandi 28. febrúar en sá einstaklingur hefði verið á skíðum í bænum Andalo í Trentino-héraði á Norður-Ítalíu. Hefði landlæknisembættið áður mælt gegn ónauðsynlegum ferðum til Norður-Ítalíu og ráðlagt þeim sem kæmu frá þessum svæðum að fara í 14 daga sóttkví. Frá 29. febrúar hefði embætti landlæknis skilgreint Ítalíu sem svæði með mikla smitáhættu auk þess sem öllum sem komu með flugi Icelandair frá Verona 29. febrúar og 7. mars hefði verið skipað í sóttkví. Ljóst væri að óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður hefðu verið uppi í skilningi laga nr. 95/2018 sem yfirgnæfandi líkur hefðu verið á að myndu hafa afgerandi áhrif á ferðalög til Ítalíu. Af þessum ástæðum og með vísan til 5. mgr. 15. gr. laganna var farið fram á að áfrýjandi endurgreiddi stefnda það sem hann hafði greitt fyrir ferðina.

10. Áfrýjandi hafnaði kröfu stefnda og fjölskyldu hans með bréfi 13. mars 2020. Þar var tekið fram að á brottfarardegi 29. febrúar hefði embætti landlæknis ekki lagst gegn ferðum til Madonna di Campiglio. Lög nr. 95/2018 gerðu ekki ráð fyrir að hægt væri að afpanta ferð með nokkurra klukkustunda fyrirvara enda væri við slíkar aðstæður ekki hægt að reka ferðaskrifstofu. Óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður vegna smitsjúkdóma hefðu ekki skapast fyrr en yfirvöld hefðu lagt bann við ferðalögum eða mælt eindregið gegn því að farið yrði í ferðalög til ákveðinna svæða en þær aðstæður hefðu ekki verið fyrir hendi þegar ferðin var afpöntuð að kvöldi 28. febrúar 2020.

11. Í málum nr. 2 og 3/2023 sem flutt eru samhliða þessu máli er leyst úr hliðstæðum kröfum á hendur áfrýjanda vegna ferðabókana annarra fjölskyldumeðlima stefnda.

Löggjöf

12. Lög nr. 95/2018 fjalla um tilhögun pakkaferða, þar á meðal um afpöntun og aflýsingu slíkrar ferðar fyrir brottför og hvenær ferðamenn öðlast rétt til endurgreiðslu við afpöntun. Með lögunum var innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2302 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Hún leysti af hólmi Evróputilskipun 90/314/EBE um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka sem hafði verið innleidd hér á landi með lögum nr. 80/1994 um alferðir.

13. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 95/2018 er markmið þeirra að tryggja neytendavernd við kynningu, gerð og efndir samninga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Í skýringum við ákvæðið í greinargerð frumvarps sem varð að lögunum og umfjöllun um markmið þess er vísað til tilskipunar (ESB) 2015/2302 sem ætlað hafi verið að færa reglur um pakkaferðir til samræmis við aðrar nýlegar tilskipanir á sviði neytendaréttar. Réttindum ferðamanna sé lýst með ítarlegri og skýrari hætti en í eldri tilskipun og lögum, þar á meðal hvenær ferðamaður eigi rétt á að afpanta ferð.

14. Í 4. gr. laganna eru skýringar á ýmsum hugtökum og í 11. tölulið eru óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður skilgreindar svo:

Aðstæður sem eru ekki á valdi þess aðila sem ber þær fyrir sig og ekki hefði verið hægt að komast hjá jafnvel þótt gripið hefði verið til réttmætra ráðstafana.

15. Í greinargerð frumvarpsins um þessa grein er tekið fram til frekari skýringar að í eldri tilskipun hafi beinlínis verið vísað til „force majeure“ aðstæðna og sé rétt að túlka ákvæðið með það hugtak í huga.

16. Í 15. gr. laganna er fjallað um afpöntun pakkaferðar og er greinin svohljóðandi:

Ferðamaður getur afpantað pakkaferð áður en ferðin hefst gegn greiðslu sanngjarnrar þóknunar. Í samningi um pakkaferð er heimilt að tilgreina sanngjarna þóknun fyrir afpöntun ferðar sem tekur mið af því hversu löngu fyrir upphaf ferðarinnar afpantað er og áætluðum tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.
Sé ekki kveðið á um staðlaða þóknun vegna afpöntunar í samningi um pakkaferð skal þóknunin samsvara tekjumissi skipuleggjanda eða smásala.
Skipuleggjandi eða smásali á ekki rétt á greiðslu þóknunar af hendi ferðamanns ef afpöntun er vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar, eða verðhækkunar umfram 8%, sbr. 12. gr.
Ferðamaður á ekki rétt til frekari skaðabóta við aðstæður skv. 3. mgr.
Skipuleggjandi eða smásali skal endurgreiða ferðamanni greiðslur sem honum ber skv. 1.–3. mgr. innan 14 daga frá afpöntun.

17. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segir í skýringum við 15. gr. að með óvenjulegum og óviðráðanlegum aðstæðum í 3. mgr. geti til dæmis verið átt við stríðsástand, útbreiðslu farsótta eða sjúkdóma, hryðjuverk, pólitískan óstöðugleika eða aðrar aðstæður sem hafi afgerandi áhrif á ferðalög til viðkomandi staða.

18. Ákvæði 15. gr. laganna er ætlað að innleiða 12. gr. fyrrgreindrar tilskipunar (ESB) 2015/2302 en 2. mgr. hennar, sem svarar til 3. mgr. 15. gr. laganna, er svohljóðandi:

Þrátt fyrir 1. mgr. skal ferðamaður hafa rétt til að rifta pakkaferðarsamningi áður en pakkaferðin hefst án þess að greiða riftunargjald, ef upp koma óhjákvæmilegar og óvenjulegar aðstæður á ákvörðunarstað eða í næsta nágrenni, sem hafa veruleg áhrif á pakkaferðina eða hafa veruleg áhrif á farþegaflutning til ákvörðunarstaðar. Ef pakkaferðarsamningi er rift samkvæmt þessari málsgrein skal ferðamaðurinn eiga rétt á að fá fulla endurgreiðslu allra greiðslna sem hann hefur innt af hendi fyrir pakkaferðina, en skal ekki eiga rétt á frekari skaðabótum.

19. Í 31. lið formálsorða tilskipunarinnar er varpað frekara ljósi á inntak réttar ferðamanna til að falla frá samningi við þær aðstæður sem lýst er í 2. mgr. 12. gr. Tekið er fram að þær geti meðal annars náð yfir hernað, önnur alvarleg öryggisvandamál, svo sem hryðjuverk, umtalsverða áhættu fyrir heilbrigði manna á borð við uppkomu alvarlegs sjúkdóms á ákvörðunarstað ferðar eða náttúruhamfarir á borð við flóð, jarðskjálfta eða veðurskilyrði sem geri það að verkum að ekki sé hægt að ferðast með öruggum hætti til ákvörðunarstaðar eins og umsamið var í pakkaferðarsamningi.

20. Í frumvarpinu sem varð að lögum nr. 95/2018 er fjallað um samræmi þess við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Áréttað er að því sé ætlað að hafa í för með sér aukna neytendavernd. Þá segir að efni frumvarpsins gefi ekki sérstaka ástæðu til að ætla að það fari gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Í því samhengi er tekið fram að markmið og þær aðferðir sem tillögur eru gerðar um í frumvarpinu séu innan þess ramma sem Alþingi hafi til að setja reglur um atvinnustarfsemi.

Niðurstaða

21. Sem fyrr segir greinir aðila á um hvernig skýra beri framangreind ákvæði laga nr. 95/2018. Áfrýjandi byggir á því að 3. mgr. 15. gr. eigi ekki við um atvik málsins. Umrætt ákvæði sé hefðbundið force majeure ákvæði eins og var að finna í eldri Evróputilskipun um pakkaferðir og lögum nr. 80/1994. Það feli í sér að ófyrirséð, óviðráðanleg ytri atvik sem séu sérstök í eðli sínu og valdi því að ómögulegt eða því sem næst sé að efna samningsskuldbindingu eigi að hafa áhrif á efndaskyldu.

22. Áfrýjandi heldur því fram að engar óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður í skilningi 3. mgr. 15. gr. laganna hafi verið komnar upp þegar stefndi afpantaði ferðina að kvöldi 28. febrúar 2020, liðlega sjö klukkustundum fyrir brottför. Enn fremur hafi engin áhrif aðstæðna verið komin fram á framkvæmd ferðarinnar sem hafi verið farin samkvæmt áætlun 29. febrúar. Á þeim tíma hafi aðeins verið í gildi tilmæli embættis landlæknis frá 25. sama mánaðar sem mæltu gegn ónauðsynlegum ferðum til fjögurra héraða á Ítalíu en ferð stefnda hafi ekki verið áformuð til þeirra. Huglæg afstaða ferðamanns til hættu eða ástands geti ekki ráðið för við beitingu ákvæðisins þannig að hann geti hvenær sem er afpantað ferð og öll áhætta af því lendi á veitanda ferðaþjónustu.

23. Við skýringu 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 ber að líta til lögskýringargagna sem rakin eru að framan um markmið laganna og tilskipunar (ESB) 2015/2302 um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun. Verða málsatvik einnig metin í því ljósi að þau áttu sér stað við upphaf COVID-19 farsóttarinnar í Evrópu árið 2020. Við útbreiðslu hennar sköpuðust fordæmalausar aðstæður í Evrópu og heiminum öllum sem höfðu veruleg áhrif á ferðaþjónustu og efndaskyldu á samningsskuldbindingum bæði ferðaþjónustuaðila og ferðamanna.

24. Sem fyrr var lýst er í greinargerð með lögum nr. 95/2018 vísað til orða hliðstæðs ákvæðis eldri tilskipunar 90/314/EBE um rétt ferðamanns til afpöntunar vegna force majeure aðstæðna og tekið fram að túlka beri orðin óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður með það hugtak í huga. Í þessari eldri tilskipun eru force majeure aðstæður skilgreindar sem óvenjulegar og ófyrirsjáanlegar aðstæður sem sá sem ber þær fyrir sig fái engu um ráðið og hefði ekki getað komið í veg fyrir afleiðingar þeirra þótt öll aðgát hefði verið viðhöfð.

25. Samkvæmt framansögðu verður að skýra almenn sjónarmið sem fólgin eru í force majeure hugtaki kröfuréttar í samræmi við þær aðstæður sem falla undir lög nr. 95/2018. Við það ber að líta til markmiða að baki reglum um afpöntun ferðapakka vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018. Einnig ber að líta til sérstakra réttaráhrifa sem force majeure regla kann að hafa á réttarsviði um neytendavernd sem birtist í því að efndaskylda kunni að falla varanlega niður neytanda að vítalausu en leiði ekki aðeins til tímabundins brottfalls hennar. Um mismunandi áhrif force majeure reglunnar eftir samhengi og þýðingu hennar á sviði löggjafar um pakkaferðir má til hliðsjónar benda á dóm Evrópudómstólsins 8. júní 2023 í máli C-407/21 þar sem fjallað var um skýringu hugtaka í hliðstæðri grein 2. mgr. 12. gr. tilskipunar (ESB) 2015/2302.

26. Við afmörkun á efnislegu inntaki almennrar force majeure reglu hefur verið litið til þriggja þátta. Í fyrsta lagi þurfa ákveðin atvik að vera fyrir hendi. Í öðru lagi þarf að meta orsakatengsl, það er hvernig atvikin hafi áhrif á möguleika skuldara til að efna samningsskuldbindingu. Í þriðja lagi er litið til fyrirsjáanleika, það er hvort þýðingu hafi að skuldari hefði mátt sjá slík atvik fyrir við samningsgerð. Réttaráhrif reglunnar eru almennt þau að efndaskylda frestast á meðan fyrrgreint ástand varir. Af því leiðir að skuldari verður ekki talinn vanefna samningsskyldur sínar á því tímabili.

27. Atvik sem falla undir regluna verða ekki tæmandi talin. Þar hefur einkum verið vísað til náttúruhamfara og stríðsátaka en einnig hafa farsóttir verið taldar falla þar undir. Í máli þessu er ótvírætt, einnig þegar litið er til lögskýringargagna að baki 3. mgr. 15. gr., að útbreiðsla farsótta eða sjúkdóma eru aðstæður sem geta fallið undir ákvæðið.

28. Stefndi byggir á því að í upphafi COVID-19 faraldursins, dagana fyrir afpöntun hans á ferðinni 28. febrúar, hafi legið fyrir aðgengilegar upplýsingar um að smit á Ítalíu væru í veldisvexti og neyðarástand í uppsiglingu á ítölskum sjúkrahúsum. Fyrsta COVID-19 smitið hefði greinst á Íslandi sama dag hjá ferðamanni sem kom frá Norður-Ítalíu og hafði dvalið á stað utan skilgreinds hættusvæðis. Enn fremur sé ljóst að fyrsti áfangastaður ferðarinnar hafi verið Verona í Veneto-héraði, einu þeirra fjögurra héraða sem embætti landlæknis hafði frá 25. febrúar varað við ferðum til.

29. Samkvæmt framangreindum lagafyrirmælum, skýringargögnum og fyrirliggjandi gögnum í málinu er ótvírætt að þegar ferðin var afpöntuð hafði farsótt breiðst út á ákvörðunarstað og aðstæður því bæði óvenjulegar og óviðráðanlegar í skilningi 3. mgr. 15. gr. laganna.

30. Við mat á orsakatengslum verður ekki gerð sú krafa að stefnda hafi með öllu verið ómögulegt í bókstaflegri merkingu að fara í ferðina að morgni 29. febrúar eða ferðin hafi fallið niður. Væri slíkt skilyrði þess að vernd 3. mgr. 15. gr. ætti við myndi ákvæðið missa marks enda væri þá engin þörf á að ferðamaður félli frá ferðasamningi, sbr. hins vegar fyrirmæli 16. gr. laganna um þá aðstöðu þegar skipuleggjandi eða smásali aflýsir pakkaferð.

31. Við skýringu á orðunum „veruleg áhrif“ aðstæðna á „framkvæmd pakkaferðar“ í 3. mgr. 15. gr. verður enn leitað fanga í greinargerð með ákvæðinu og formálsorðum tilskipunar (ESB) 2015/2302. Segir þar að réttur ferðamanna til að falla frá pakkaferðarsamningi án þess að greiða þóknun verði virkur hafi ferðin umtalsverða áhættu fyrir heilbrigði manna á borð við uppkomu alvarlegs sjúkdóms á ákvörðunarstað ferðarinnar sem leiði til þess að ekki sé hægt að ferðast þangað með öruggum hætti eins og samið var um.

32. Eins og aðstæður voru 28. febrúar 2020 með ört fjölgandi COVID-19 smitum á Norður-Ítalíu er ljóst að fyrirhuguð ferð þangað fól í sér umtalsverða áhættu fyrir heilbrigði stefnda og fjölskyldu hans. Sú áhætta var staðfest enn frekar degi síðar, á áætluðum brottfarardegi, þegar embætti landlæknis skilgreindi Ítalíu alla sem svæði með mikla smitáhættu. Sem fyrr segir var fyrsti áfangastaður ferðar stefnda Verona á Ítalíu sem embætti landlæknis hafði 25. febrúar mælt gegn ferðum til. Auk þess reyndust margir Íslendingar sem komu með flugi frá Verona 29. febrúar og 7. mars eftir skíðaferð til Norður-Ítalíu smitaðir og var farþegum sem komu þaðan til landsins 7. mars skipað í 14 daga sóttkví. Hefðu stefndi og fjölskylda hans sannanlega verið í þeim hópi. Er samkvæmt öllu framangreindu vafalaust að aðstæður á ákvörðunarstað við afpöntun höfðu veruleg áhrif á framkvæmd fyrirhugaðrar ferðar stefnda í skilningi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018.

33. Í málinu er deilt um hvort sérstaka þýðingu hafi að íslensk stjórnvöld höfðu ekki formlega skilgreint alla Ítalíu sem svæði með mikla smitáhættu þegar stefndi afpantaði ferðina 28. febrúar. Í því sambandi bendir áfrýjandi á að útbreiðsla COVID-19 sjúkdómsins hafi fyrst orðið óvenjulegar og óviðráðanlegar aðstæður í skilningi laga nr. 95/2018 eftir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin lýsti sóttina heimsfaraldur 11. mars 2020 og íslensk stjórnvöld gerðu bindandi ráðstafanir um ferðalög til og frá landinu 19. sama mánaðar.

34. Ekki verður fallist á að slík formskilyrði ráði úrslitum um hvort réttur ferðamanns samkvæmt 3. mgr. 15. gr. geti orðið virkur og ekkert sem styður þá staðhæfingu áfrýjanda að skýra beri ákvæðið með þeim hætti. Verða ekki gerðar mjög strangar kröfur til ferðamanna um sönnun á raunverulegum aðstæðum á ferðasvæði en nægilegt er að vissar líkur séu á áhættu fyrir heilbrigði þeirra vegna farsóttar. Rétt stefnda til að afpanta ferðina á grundvelli 15. gr. laga nr. 95/2018 verður þannig að meta á grundvelli fyrirliggjandi staðreynda á þeim tíma sem afpöntun var gerð, þar á meðal þeirra mögulegu afleiðinga við heimkomu að þurfa að sæta sóttkví. Á það ótvírætt við í máli þessu um aðstæður á Ítalíu svo sem lýst hefur verið að framan.

35. Þegar litið er til hins stutta fyrirvara á afpöntun stefnda á ferðinni, liðlega sjö klukkustundum fyrir upphaf hennar, sem miðast við brottför flugs Icelandair til Verona að morgni 29. febrúar 2020, verður einnig að hafa í huga að ferðamaður getur samkvæmt 1. mgr. 15. gr. afpantað ferð allt þar til hún hefst án þess að getið sé neinna tímamarka og gildir það sama um afpöntun samkvæmt 3. mgr. greinarinnar. Auk þess höfðu aðstæður breyst svo ört bæði á Norður-Ítalíu og hér á landi daginn fyrir brottför að tæplega var fyrr hægt að slá föstu að ferðin hefði umtalsverða áhættu fyrir heilbrigði stefnda og fjölskyldu hans vegna aðsteðjandi ógnar af COVID-19 á ákvörðunarstað.

36. Hin ófyrirséða og hraða þróun COVID-19 sjúkdómsins á síðustu dögum febrúarmánaðar 2020 undirstrikar jafnframt að þegar stefndi bókaði pakkaferð til Madonna di Campiglio í nóvember 2019 og greiddi að fullu 16. janúar 2020 gat hvorki hann né nokkur annar séð fyrir að atvik yrðu með þeim hætti sem raunin varð fyrirhugaðan brottfarardag 29. febrúar 2020. Má jafnframt slá því föstu að hefði ástandið á Norður-Ítalíu þá verið fyrirsjáanlegt hefði það haft afgerandi áhrif á ákvörðun stefnda um að bóka ferðina og greiða heildarverð hennar til áfrýjanda.

37. Áfrýjandi hefur loks byggt á því að túlka verði undartekningarákvæði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2018 þröngt í ljósi þess að það skerði kröfuréttindi hans á hendur farþegum samkvæmt gildum samningi sem verndar njóti samkvæmt eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar. Löggjafanum séu settar þröngar skorður við því að veita öðrum aðila samningssambands rétt til að losna undan skuldbindingum sínum bótalaust.

38. Markmið laga nr. 95/2018 er að auka vernd neytenda, þar á meðal með skýrari heimild ferðamanns til að afpanta ferð gegn fullri endurgreiðslu. Svo sem fram kemur í lögskýringargögnum mat löggjafinn leiðir að þessu markmiði út frá kröfum stjórnarskrár og þeim ramma sem hann hefur til að setja reglur um atvinnustarfsemi. Verður ekki fallist á að umrædd lagaregla eða beiting hennar við þessar aðstæður séu óhóflega íþyngjandi fyrir eignarrétt eða atvinnustarfsemi áfrýjanda sem fyrirtækis í ferðaþjónustu í ljósi þeirrar neytendaverndar sem lögin stefna að.

39. Í samræmi við það sem hér hefur verið rakið voru uppfyllt skilyrði 15. gr. laga nr. 95/2018 fyrir því að stefndi afpantaði 28. febrúar 2020 pakkaferð til Madonna di Campiglio sem fyrirhuguð var 29. febrúar til 7. mars sama ár með rétti til fullrar endurgreiðslu. Áfrýjandi ber áhættu af því þegar ferð er afpöntuð af þessum ástæðum og á ekki rétt til greiðslu þóknunar samkvæmt skýrum fyrirmælum 3. mgr. greinarinnar. Bar áfrýjanda því samkvæmt 5. mgr. að endurgreiða stefnda ferðina að fullu innan fjórtán daga frá afpöntun hennar.

40. Að öllu framangreindu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, þar sem vísað er til forsendna héraðsdóms, verður niðurstaða Landsréttar staðfest.

41. Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og fram kemur í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar er tekið tillit til þess samhliða því eru flutt tvö mál sem eiga rætur að rekja til sömu málsatvika.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Ferðaskrifstofa Íslands ehf., greiði stefnda, Steinari Þór Ólafssyni, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.