Hæstiréttur íslands
Mál nr. 51/2023
Lykilorð
- Hlutafélag
- Hlutafé
- Greiðsla
- Endurskoðandi
- Sérfræðiábyrgð
- Skaðabætur
- Þrotabú
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. október 2023. Hann krefst þess að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 672.975.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. september 2014 til 20. september 2018, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar vegna reksturs málsins á öllum dómstigum.
3. Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms en til vara að kröfur áfrýjanda verði lækkaðar. Þá krefjast stefndu þess að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
4. Stefndi BD30 ehf. hét áður Ernst & Young ehf. Eftir að breytingar urðu á starfsemi félagsins árið 2023 var nafni þess breytt á aðalfundi 21. nóvember sama ár.
Ágreiningsefni
5. Sameinað Sílikon hf. rak kísilmálmverksmiðju á lóðinni Stakksbraut 9 í Helguvík í Reykjanesbæ. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 22. janúar 2018. Mál þetta er höfðað til heimtu skaðabóta úr hendi stefndu á þeim grundvelli að ekki hafi verið hugað af nægilegri kostgæfni að staðfestingu tveggja hlutafjárhækkana 23. september 2014 í Stakksbraut 9 ehf. sem skyldu fara fram með skuldajöfnuði og greiðslu reiðufjár. Áfrýjandi telur að engar greiðslur hafi komið fyrir hlutina og félaginu USI Holding B.V., sem greiddi fyrir hlutaféð með þessum hætti, verið gert kleift að eignast hlutafé í félaginu Stakksbraut 9 ehf. án endurgjalds. Efnahagsleg áhrif þessa hafi síðar færst yfir á Sameinað Sílikon hf. með samruna þess félags og Stakksbrautar 9 ehf. 24. september 2014. Þá reisir áfrýjandi fjárkröfu sína jafnframt á því að stefndu hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að staðfesta rangar upplýsingar um óefnislegar eignir með áritun sinni í samrunareikningi félaganna Sameinaðs Sílikons hf. og Stakksbrautar 9 ehf.
6. Dómkröfur sínar á hendur stefnda Rögnvaldi Dofra Péturssyni byggir áfrýjandi á sakarreglunni. Á hendur stefnda BD30 ehf. reisir áfrýjandi kröfur sínar á reglu um vinnuveitandaábyrgð.
7. Með hinum áfrýjaða dómi 9. júní 2023 var staðfestur dómur héraðsdóms um sýknu stefndu af kröfum áfrýjanda.
8. Áfrýjunarleyfi var veitt 27. október 2023, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2023-92, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi, meðal annars um sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar.
9. Samhliða máli þessu eru rekin þrjú önnur mál, nr. 41/2023, 50/2023 og 54/2023, sem öll eiga rót sína að rekja til hlutafjárhækkana í félögum sem tengjast stofnun og rekstri kísilmálmverksmiðjunnar. Þau eru dæmd samhliða þessu máli og eru málavextir í þeim um margt svipaðir máli þessu, einkum í máli nr. 50/2023.
Málsatvik
10. Sameinað Sílikon hf. var stofnað 17. febrúar 2014. Tilgangur félagsins var að byggja og gangsetja kísilmálmverksmiðju á lóðinni Stakksbraut 9 í Helguvík. Upphaflega átti að reisa verksmiðju með tveimur ofnum en áformað var að bæta tveimur við síðar. Fullbúin verksmiðja með fjórum ofnum myndi framleiða árlega um 100.000 tonn af kísli.
11. Sameinað Sílikon hf. var í eigu hollenska félagsins United Silicon Holding B.V. Það félag var í eigu tveggja annarra hollenskra félaga, annars vegar USI Holding B.V. sem var í eigu danskra og íslenskra fjárfesta undir forystu Magnúsar Garðarssonar og hins vegar Silicon Mineral Ventures B.V. sem var í eigu hollensks félags, Fondel Holding B.V. Dótturfélög USI Holding B.V. voru Geysir Capital ehf. og Stakksbraut 9 ehf.
Samningar stofnenda Sameinaðs Sílikons hf.
12. Viðræður munu hafa farið fram milli íslenskra og danskra fjárfesta og tilgreinds bandarísks félags um að reisa kísilmálmverksmiðju í Reykjanesbæ. Í því skyni voru stofnuð félög sem ætlað var að koma að uppbyggingu verksmiðjunnar hvert með sínum hætti. Það voru meðal annars Íslenska Kísilfélagið ehf., GSM Overseas Netherlands B.V. og Tomahawk Development á Íslandi hf. Þessar áætlanir gengu ekki eftir og í ársbyrjun 2012 var rift þeim samningum sem Íslenska Kísilfélagið ehf. hafði gert við innlenda aðila tengda verkefninu.
13. Í júlí 2012 voru ný félög komin að ráðagerðinni og var þá undirrituð viljayfirlýsing milli Silicon Mineral Ventures B.V. og USI Holding B.V. um að koma á fót kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Þeirri viljayfirlýsingu var síðar fylgt eftir með samningi um sameiginlega fjárfestingu 14. febrúar 2014. Í grein 1.2 samningsins kom fram að þessir aðilar hefðu ákveðið að fjármagna í sameiningu hluta undirbúningskostnaðar og myndu í kjölfarið taka ákvörðun um að leggja til eigið fé sem yrði nýtt til að reisa verksmiðju eftir að nánari skilyrðum sem fram kæmu í samningnum væri fullnægt og næg lánsfjármögnun tryggð. Í grein 1.3 sagði að á grundvelli skilmála og skilyrða í samningnum staðfestu aðilar þá sameiginlegu skuldbindingu sína að eiga með sér samstarf um áframhaldandi þróun, fjármögnun í formi aukins hlutafjár, gerð einkasölu- og markaðssetningarsamnings við félagið BIT Fondel B.V. og sameiginlega stýringu verksmiðjunnar.
14. Í samningnum var framlag aðila skilgreint nánar. Í grein 2.1 var framlagi USI Holding B.V. lýst en ákvæðið hljóðar svo í íslenskri þýðingu:
[USI Holding B.V.] hefur fram til þessa þróað og fjármagnað verkefnið og hefur 1) keypt lóðina að Stakksbraut 9 í Helguvík, 2) aflað leyfis til að nota höfnina samkvæmt samningi við hafnaryfirvöld sveitarfélagsins sem undirritaður var 18. apríl 2012, 3) framkvæmt umhverfismat og fengið samþykki fyrir umhverfismatinu frá viðeigandi yfirvöldum svo og leyfi til að reka kísilverksmiðju með framleiðslugetu sem nemur allt að 100.000 tonnum á ári, 4) náð samkomulagi um skilmálaskrár við raforkuveituna, 5) gert bindandi viljayfirlýsingu við ríkisfyrirtækið sem annast raforkuflutninga, 6) gert samning við Reykjanesbæ, 7) fengið tilboð frá ofnabirgjunum Tenova og Sinosteel um afhendingu og uppsetningu tveggja kísilofna, 8) fengið skilmálaskrár um lánsfjármögnun frá Arion banka vegna byggingu verksmiðjunnar. Virði framangreindrar þróunarvinnu nemur 10,2 milljónum evra. Aðilar hafa ákveðið að þetta virði skuli endurspeglast á hlutfallslegum grundvelli (pro rata) í hlutabréfum í [Sameinuðu Sílikoni hf.]. Þessu virði verður skipt í 3 hluta. Fyrsti hlutinn nemur 5,1 milljónum evra vegna kaupa á ofnum 1 og 2, og mun sú fjárhæð verða til þess að hlutfallslegum (pro rata) hluta hlutabréfa í [Sameinuðu Sílikoni hf.] verði úthlutað til hluthafa [Sameinaðs Sílikons hf.] samtímis framlögum 1-8 sem talin eru upp hér að ofan (með því að framselja 100% hlutabréfanna í [Stakksbraut 9 ehf. til Sameinaðs Sílikons hf.]), sá næsti nemur 2,55 milljónum evra vegna kaupa á ofni nr. 3 og sá síðasti nemur 2,55 milljónum evra vegna kaupa á ofni nr. 4, og er endanlegt markmið að um síðir verði 4 ofnar starfræktir.
15. Í grein 2.2 í samningnum var framlagi Silicon Mineral Ventures B.V. lýst með eftirfarandi hætti í íslenskri þýðingu:
[Silicon Mineral Ventures B.V.] mun annast um að hlutdeildafélag sitt BIT leggi verkefninu til 1) samning sem tryggi sölu væntanlegrar framleiðslu [...] um sölu á 12.000 tonnum af kísilmálmi hið minnsta á markaðsverði að frádreginni 5,5% söluþóknun, og verði einkasölu- og markaðssetningaraðili [USI Holding B.V.] á afgangi kísilframleiðslunnar [...], 2) [Silicon Mineral Ventures B.V.] mun láta í té tæknilega þekkingu sína sem hefur verið þróuð af tæknilegum ráðgjöfum þess vegna smíði kísilverksmiðju og framleiðslu í henni. Virði framangreindra framlaga nemur 1,5 milljónum evra. Aðilar hafa ákveðið að þetta virði skuli endurspeglast á hlutfallslegum grundvelli (pro rata) i hlutabréfum í [Sameinuðu Sílikoni hf.] Þessu virði verður skipt í 3 hluta. Fyrsti hlutinn nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 12.000 tonnum af kísilmálmi á ári, og mun sú fjárhæð verða til þess að hlutfallslegum (pro rata) hluta hlutabréfa i í [Sameinuðu Sílikoni hf.] verði úthlutað til í [Silicon Mineral Ventures B.V.] samtímis framlögum 1-3 sem talin eru upp hér að ofan, sá næsti nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 20.000 tonnum af kísilmálmi á ári og sá síðasti nemur 0,5 milljónum evra vegna gerðar samnings um sölu væntanlegrar framleiðslu um sölu á 30.000 tonnum af kísilmáli á ári, og er endanlegt markmið að um síðir verði 4 ofnar starfræktir með heildarframleiðslugetu sem nemur yfir 70.000 tonnum af kísilmálmi á ári.
16. Í samningum 14. febrúar 2014 var einnig fjallað um önnur framlög fyrrgreindra aðila, meðal annars í grein 2.3 um framlag til fjármögnunar undirbúningskostnaðar og í grein 2.4 um framlag nýs eiginfjár með reiðufé. Þá sagði að félagið BIT Fondel B.V. myndi gera samning við Sameinað Sílikon hf. um að tryggja sölu væntanlegrar framleiðslu sem tæki til um það bil 12.000 tonna af kísli á ári. Andvirði eiginfjárframlags yrði varið til að setja á fót, smíða og reka kísilmálmverksmiðju eins og nánar væri lýst í viðskiptaáætlun 3. júní 2013.
17. Með þríhliða hluthafasamkomulagi frá júní 2014 milli USI Holding B.V., Silicon Mineral Ventures B.V. og United Silicon Holding B.V. voru skyldur og réttindi félaganna útfærð nánar og um það vísað til viðræðna aðila sem hefðu staðið yfir um tveggja ára skeið. Þar kom fram að eignarhald USI Holding B.V. og Silicon Mineral Ventures B.V. á félaginu Sameinuðu Sílikoni hf. yrði í gegnum félagið United Silicon Holding B.V. Á undirritunardegi ætti USI Holding B.V. 70% hlutafjár í United Silicon Holding B.V. og Silicon Mineral Ventures B.V. 30% hlutafjárins. Þar sagði einnig að á undirritunardegi hefði USI Holding B.V. í gegnum dótturfélag sitt, Stakksbraut 9 ehf., lokið eftirfarandi vinnu í því skyni að hrinda verkefninu í framkvæmd:
i) lokið umhverfismati, ii) tryggt langtímaleigu á lóðinni [Stakksbraut 9] [...], iii) gert samning við hafnaryfirvöld Reykjanesbæjar varðandi jarðvinnu á lóðinni, iv) gert hafnarsamning við Reykjaneshöfn um notkun hafnarinnar og gjaldtöku fyrir inn- og útflutning sem fer fram í gegnum höfnina í Helguvík, v) gert raforkusamning við ríkisorkufyrirtækið Landsvirkjun um langtímaafhendingu á raforku [...], vi) gert raforkuflutningssamning við Landsnet um langtímaflutning á raforku [...], og vii) gert samning við Reykjanesbæ um smíði og rekstur verksmiðjunnar.
18. Í hluthafasamkomulaginu var gert ráð fyrir að framlag USI Holding B.V. til Sameinaðs Sílikons hf. yrði með þeim hætti að dótturfélag þess, Stakksbraut 9 ehf., rynni saman við Sameinað Sílikon hf. með öllum framangreindum réttindum og skyldum að frátöldum samningi um langtímaleigu lóðarinnar. Yrði það greiðsla fyrir eignarhluti USI Holding B.V. í Sameinuðu Sílikoni hf. í samræmi við áskriftarsamning. Myndi USI Holding B.V. enn fremur sjá til þess að Stakksbraut 9 ehf. gerði Sameinuðu Sílikoni hf. kleift með leigusamningi eða öðrum hætti að nýta lóðina undir verkefnið svo lengi sem aðilar ættu með sér samstarf um það. Þessar skuldbindingar voru nánar útfærðar í grein 4.1 hluthafasamkomulagsins.
Stofnun og rekstur Stakksbrautar 9 ehf.
19. Fyrrgreint félag, Stakksbraut 9 ehf., hafði verið stofnað í febrúar 2012. Með kaupsamningi 4. september 2013 keypti USI Holding B.V. alla hluti í félaginu af stofnanda þess. Kaupverðið var 500.000 krónur og miðað var við að greidd væri ein króna fyrir hvern hlut. Stjórnarmaður félagsins veitti 2. október 2013 Magnúsi Garðarssyni allsherjarumboð til að koma fram fyrir hönd þess í öllu tilliti en Magnús var sem fyrr segir í forsvari fyrir byggingu kísilmálmverksmiðjunnar.
20. Tilgangur Stakksbrautar 9 ehf. var að afla tilskilinna leyfa og gera viðeigandi samninga við yfirvöld til þess að starfrækja mætti kísilmálmverksmiðju hér á landi. Í því skyni gerði félagið þrjá samninga við Reykjaneshafnir 18. apríl 2012. Í fyrsta lagi samning þar sem félagið skuldbatt sig til að greiða 362.100.000 krónur í lóðargjöld, þar með talin gatnagerðargjöld. Áttu greiðslur að fara fram með fjórum afborgunum. Sú fyrsta 30. desember 2012 að fjárhæð 100.000.000 króna og sömu fjárhæð 15. apríl 2013 og 15. apríl 2014. Lokagreiðsluna, 62.100.000 króna, átti að inna af hendi 15. október 2014. Í öðru lagi hafnarsamning og í þriðja lagi samning um kaup á lóðinni Stakksbraut 9. Kaupverðið var 200.000.000 króna sem fjármagnað var að stærstum hluta með láni frá Arion banka hf. Starfsleyfi Umhverfisstofnunar til reksturs verksmiðjunnar var gefið út 3. júlí 2014 til Stakksbrautar 9 ehf. en það síðar fært 21. október 2015 á Sameinað Sílikon hf. Samningar við Landsvirkjun 19. mars 2014 og Landsnet hf. sama dag voru hins vegar gerðir í nafni Sameinaðs Sílikons hf. Þá gerði Stakksbraut 9 ehf. 31. janúar 2014 samning við BIT Fondel B.V. um sölutryggingu. Með honum réð Stakksbraut 9 ehf. félagið BIT Fondel B.V. til að vera einkadreifingaraðili á 12.000 tonna árlegri framleiðslu félagsins, en fyrir hönd Stakksbrautar 9 ehf. skrifaði Magnús Garðarsson undir á grundvelli fyrrgreinds umboðs. Síðar gekk úrskurður Landsréttar 28. júní 2021 í máli nr. 319/2021 þar sem meðal annars var komist að þeirri niðurstöðu að umboð Magnúsar hefði verið ógilt og því hefði ekki komist á bindandi samningur um fyrrgreinda sölutryggingu.
21. Tilkynnt var um samruna Stakksbrautar 9 ehf. við Sameinað Sílikon hf. undir nafni síðargreinda félagsins 24. september 2014, eins og rakið verður hér á eftir.
Greiðslur til Tomahawk Development á Íslandi hf.
22. Sem fyrr segir var félagið Tomahawk Development á Íslandi hf. stofnað í tengslum við viðræður við bandarískt félag um að koma á fót kísilmálmverksmiðju en þeim viðræðum var slitið árið 2012.
23. Hlutafé félagsins var hækkað tíu sinnum á tímabilinu 3. maí 2013 til 11. febrúar 2015 í samræmi við tilkynningar stefnda Rögnvaldar Dofra til fyrirtækjaskrár samkvæmt fyrirmælum laga nr. 2/1995 um hlutafélög, að frátalinni hækkun 12. júní 2014 sem annar nafngreindur endurskoðandi stefnda BD30 ehf. annaðist. Þessara hækkana á hlutafé var jafnframt getið í ársreikningum Tomahawk Development á Íslandi hf. að frátalinni síðustu hækkuninni 11. febrúar 2015. Magnús Garðarsson skráði sig fyrir nær öllu hlutafénu eða 1.751.966.273 nýjum hlutum og átti að lokum um 96,8% hlutafjár í félaginu. Í skýrslu stjórnar í ársreikningum félagsins komu fram upplýsingar um dreift eignarhald hlutabréfa í því sem endurspegluðu ekki framangreinda breytingu á eignarhaldi.
24. Greiðslur fyrir hlutaféð bárust inn á reikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. í gegnum krónuútboð Seðlabanka Íslands að frátalinni hlutafjárhækkun 12. júní 2014 sem ekki hefur verið skýrð að fullu. Skilyrði fyrir þátttöku í þeim útboðum var meðal annars að fjárfest yrði í íslensku atvinnulífi til að minnsta kosti fimm ára. Tomahawk Development á Íslandi hf. greiddi á tímabilinu 15. febrúar 2013 til 31. ágúst 2014 samtals um 1,8 milljarða króna inn á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. og Íslenska kísilfélagsins ehf.
25. Seðlabanki Íslands beindi kæru 18. júlí 2019 til héraðssaksóknara vegna ætlaðra brot Magnúsar Garðarssonar gegn þágildandi lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál sem rakin voru til fyrrgreindra viðskipta. Fjallað er um skaðabótakröfur á hendur stefndu vegna framangreindrar hlutafjárhækkunar í félaginu Tomahawk Development á Íslandi hf. í dómi Hæstaréttar í dag í máli nr. 54/2023.
Hlutafjárhækkanir í Stakksbraut 9 ehf. í september 2014
26. Í máli þessu er deilt um tvær hlutafjárhækkanir sem stefndi Rögnvaldur Dofri tilkynnti til fyrirtækjaskrár 23. september 2014, samtals um 672.975.000 krónur. Hann staðfesti jafnframt að þær væru greiðslur USI Holding B.V. fyrir hlutafé í Stakksbraut 9 ehf.
27. Fyrri hækkunin, um 223.759.000 krónur, var ákveðin 31. desember 2013. Samkvæmt staðfestingu stefnda Rögnvaldar Dofra var hún greidd með skuldajöfnun við víkjandi lán hluthafa sem voru til komin vegna greiðslna sem bárust frá félaginu Tomahawk Development á Íslandi hf. fyrir hönd USI Holding B.V. Staðfestingu um skuldajöfnun fylgdi skrifleg yfirlýsing um að til inneignar USI Holding B.V. hefði stofnast að sömu fjárhæð og hlutafjáraukningin sem hefði verið greidd með skuldajöfnun við víkjandi lán hluthafa félagsins. Seinni hækkunin, um 449.216.000 krónur, var samþykkt 15. febrúar 2014 og skyldi greiðast með reiðufé. Samkvæmt fundargerð hluthafafundar þann dag skráði USI Holding B.V. sig fyrir aukningunni en frestur til að greiða hana var til loka ágúst 2014. Staðfesting stefnda Rögnvaldar Dofra 22. september 2014 byggðist á innborgunum frá Tomahawk Development á Íslandi hf. sem höfðu þá borist á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. en var síðar að mestu varið til greiðslu reikninga frá hollensku félagi, Pyromet Engineering B.V.
28. Fyrrgreint félag, Pyromet Engineering B.V., var stofnað í Hollandi 4. september 2013 og afskráð 10. október 2015. Skráður eigandi þess var Joseph Patrick Dignam. Samkvæmt upplýsingum sem skiptastjóri Sameinaðs Sílikons hf. aflaði 13. september 2019 hjá hollenskum aðila sem hafði aðstoðað við gerð skattframtala félagsins hafði engin starfsemi verið í því. Greiðslur Stakksbrautar 9 ehf. til Pyromet Engineering B.V. árið 2013 námu 975.000 evrum og 4.150.000 evrum árið 2014. Afrit þriggja reikninga Pyromet Engineering B.V. á hendur Stakksbraut 9 ehf. frá árinu 2013 hafa verið lögð fram, samtals að fjárhæð 975.000 evrur, auk eins reiknings frá árinu 2014 að fjárhæð 515.000 evrur. Á öllum þessum reikningum er skýringin: „Matter [:] Silicon Plant Helguvik, Furnace Design / Engineering and plant building design. / Contract payment according to progress [...].“
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
29. Áfrýjandi telur að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu við staðfestingu tveggja hlutafjárhækkana í Stakksbraut 9 ehf. sem tilkynntar voru fyrirtækjaskrá 23. september 2014. Jafnframt hafi hann sýnt af sér vanrækslu með því að staðfesta með áritun sinni rangar upplýsingar um óefnislegar eignir í samrunareikningi félaganna Sameinaðs Sílikons hf. og Stakksbrautar 9 ehf. Hafi stefndi Rögnvaldur Dofri vitað eða mátt vita að greiðslur hefðu borist inn á reikninga félagsins Tomahawk Development á Íslandi hf., þaðan inn á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. og þaðan inn á reikninga Pyromet Engineering B.V. en öll þessi félög hafi verið undir stjórn Magnúsar Garðarssonar. Því hafi í reynd ekki verið um raunverulegar greiðslur að ræða heldur einfaldlega færslur í bókhaldi félaganna á sömu fjármunum. Um hringgreiðslur sömu fjármuna milli tengdra félaga hafi verið að ræða.
30. Ríkar skyldur hvíli á endurskoðendum sem opinberum sýslunarmönnum. Sakarmat á störfum stefndu sé strangt hvort sem um sé að ræða gerð sérfræðiskýrslu, endurskoðun eða skoðun ársreikninga. Hlutverk endurskoðenda við staðfestingu hlutafjárhækkana sé að ganga úr skugga um að staðhæfing áskrifanda um að greitt hafi verið fyrir hækkun á hlutafé sé rétt. Geti stefndu ekki vísað til þess að greiðandi hlutafjár hafi sagt ósatt um eðli greiðslna enda hafi þeir sjálfstæða heimild til gagnaöflunar samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá séu reglur 1. mgr. 11. gr. laganna fortakslausar um að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnverði þess. Samningar hluthafa um annað hafi ekkert gildi.
31. Áfrýjandi heldur því fram að tilkynning stefnda Rögnvaldar Dofra til fyrirtækjaskrár um greiðslu USI Holding B.V. á 223.759.000 króna hlutafé með „öðru en reiðufé“, það er með ætluðum skuldajöfnuði 23. september 2014, hafi verið efnislega röng. Með staðfestingunni hafi fylgt skrifleg yfirlýsing stefnda um að stofnast hefði til inneignar USI Holding B.V. að sömu fjárhæð og nam hlutafjáraukningunni sem hefði verið greidd með skuldajöfnun með víkjandi láni hluthafans USI Holding B.V. Þá hafi lánasamningar sem gerðir hafi verið vegna þessara ætluðu lána verið við þriðja aðila og USI Holding B.V. hafi ekki fengið neinar kröfur framseldar frá þriðja aðila á hendur Stakksbraut 9 ehf. Þá hafi stefndi Rögnvaldur Dofri ekki kynnt sér nægilega hvort gagnkvæmnisskilyrði skuldajafnaðar hafi verið uppfyllt áður en hann staðfesti fulla greiðslu hlutafjár og af þeim sökum sé staðfesting hans haldlaus. Greiðslu frá öðru félagi, Tomahawk Development á Íslandi hf., verði ekki jafnað til greiðslu frá USI Holding B.V.
32. Áfrýjandi byggir jafnframt á því að staðfesting stefndu 23. september 2014 á greiðslu 449.216.000 króna með reiðufé sé einnig efnislega röng. Hún hafi í reynd verið samtala tiltekinna innborgana á bankareikninga Stakksbrautar 9 ehf. og einungis byggð á munnlegri staðfestingu Magnúsar Garðarssonar. Þar sem greiðslur inn á bankareikninga Stakksbrautar 9 ehf. hafi í reynd verið hærri en hlutafjárhækkunin hafi hluti þeirra verið færður sem yfirverð hlutafjár en engin skjöl verið útbúin vegna þessara greiðslna. Stefndu hafi vitað eða mátt vita að ekki var um greiðslur fyrir hlutafé að ræða enda hafi þeir einnig komið að staðfestingu hlutafjárhækkana Magnúsar Garðarssonar í Tomahawk Development á Íslandi hf. Framburður Magnúsar um framangreint hafi auk þess verið á reiki og ekkert mark takandi á yfirlýsingu hans sem útbúin hafi verið síðar af hálfu stefndu en hún sé bæði röng og villandi.
33. Áfrýjandi byggir á því að með hinum áfrýjaða dómi hafi verið litið fram hjá því hvernig hlutafjárhækkanirnar voru staðfestar af stefnda Rögnvaldi Dofra og því lykilhlutverki sem hann gegndi í fyrrgreindum viðskiptum. Honum hafi borið skylda samkvæmt þágildandi lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur til að gæta vandaðra vinnubragða og óhæðis við staðfestingu hlutafjárgreiðslna. Brýnir hagsmunir kröfuhafa standi til þess að greiðsla berist fyrir hlutafé. Sennileg afleiðing vanrækslu stefnda Rögnvaldar Dofra á að afla gagna sé að greiðslurnar hafi ekki reynst hlutafjárgreiðslur. Þá hafi hann vitað eða mátt vita að greiðslur til félagsins Pyromet Engineering B.V. væru í reynd fjársvika- og peningaþvættisgreiðslur. Bein lagaskylda hafi hvílt á stefndu að kanna þessar greiðslur og eftir atvikum að tilkynna þær lögreglu, sbr. þágildandi lög nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Auk þess hafi hætta á misnotkun fjárfestingarleiðar Seðlabanka Íslands verið alþekkt á tímum gjaldeyrishafta. Góður og gegn endurskoðandi hefði þurft að vera á sérstöku varðbergi gagnvart slíkri hættu, einkum þar sem stefndi Rögnvaldur Dofri hafi þekkt til þátttöku Magnúsar í krónuútboðum Seðlabankans.
34. Þá byggir áfrýjandi enn fremur á að það hefði ekki samrýmst sameiginlega fjárfestingarsamningnum 14. febrúar 2014 að USI Holding B.V. greiddi Pyromet Engineering fyrir hönnun ofns. Framlag USI Holding B.V. til verkefnisins hafi verið tæmandi talið í grein 2.1 og þar hafi hvergi verið minnst á hönnun slíks ofns né á félagið Pyromet Engineering B.V. Samningur um smíði ofns hafi síðar verið gerður af Sameinuðu Sílikoni hf. Þá sé rangt að ekki liggi fyrir að aðrir reikningar hafi verið gerðir vegna hönnunar ofnsins en hönnunargreiðslur hafi verið hluti verksamnings við félagið Tenova Pyromet. Greiðslur til Pyromet Engineering B.V. hafi því sýnilega verið tilefnislausar og liður í hringferð fjármuna milli félaga í eigu sömu aðila.
35. Áfrýjandi byggir einnig á því að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi borið ábyrgð á tilgreiningu óefnislegra eigna við samruna Stakksbrautar 9 ehf. og Sameinaðs Sílikons hf. og hefði átt að tryggja að samrunareikningurinn væri endurskoðaður, sbr. 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994 og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 2/1995. Hann hafi veitt faglega aðstoð við samruna félaganna og gert öll skjöl í tengslum við hann. Framangreind lagaákvæði séu fortakslaus um endurskoðun samrunareiknings og hefðu stefndu átt að þekkja þá lögbundnu skyldu. Ekkert raunverulegt mat hafi farið fram á því hvort skilyrði fyrir eignfærslu fyrrgreinds kostnaðar væru uppfyllt, hvorki með tilliti til framtíðarávinnings né kostnaðarverðs eignar. Auk þess hafi engra gagna verið aflað um veitanda þjónustunnar. Þá hafi stefndi Rögnvaldur Dofri ekki haft undir höndum frumrit 12 reikninga Pyromet Engineering B.V. sem hafi legið til grundvallar 1,2 milljarða króna eignfærslu stofnkostnaðar hjá Stakksbraut 9 ehf.
36. Áfrýjandi byggir loks á að sérfræðingar beri bótaábyrgð ef tjón leiðir af því að þeir afla ekki nauðsynlegra gagna eða upplýsinga til grundvallar vinnu sinni. Þá gildi sérstakar reglur um sönnun, sakarmat og skaðabótaábyrgð endurskoðenda. Stefndu beri sönnunarbyrði fyrir réttmæti sérfræðilegra niðurstaðna sinna en þá sönnunarbyrði hafi þeir ekki axlað. Fyrir liggi dómafordæmi Hæstaréttar um að kröfuhafar eigi að geta treyst því að áskriftarloforð hlutafjár séu innheimt af skiptastjóra í kjölfar þess að bú félags sé tekið til gjaldþrotaskipta. Þrotabúið sé því í stöðu tjónþola vegna rangra staðfestinga stefnda Rögnvaldar Dofra á greiðslu hlutafjár.
Helstu málsástæður stefndu
37. Stefndu telja að áfrýjandi eigi ekki aðild að máli um bótakröfu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá hafi stefndi Rögnvaldur Dofri hvorki sýnt af sér saknæma né ólögmæta háttsemi auk þess sem ekki hafi verið sýnt fram á að tjón hafi orðið. Jafnframt hafi áfrýjandi sýnt af sér tómlæti og eigin sök og þar með fyrirgert ætluðum rétti sínum til skaðabóta.
38. Stefndu byggja á því að staðið hafi verið rétt að tveimur staðfestingum hlutafjárhækkana í félaginu Stakksbraut 9 ehf. Þær hafi í báðum tilvikum falist í peningagreiðslum sem námu hækkun hlutafjár. Bókhald og ársreikningar félagsins endurspegli þessar greiðslur.
39. Um fyrri hlutafjárhækkunina, 223.759.000 krónur, megi vísa til bankayfirlita félagsins. Hafi óumdeildri skuld Stakksbrautar 9 ehf. verið breytt í hlutafé. Staðfestingu stefnda Rögnvaldar Dofra á greiðslu hlutafjárins hafi fylgt yfirlýsing 22. desember 2013 um inneign USI Holding B.V. hjá Stakksbraut 9 ehf. Hafi greiðslur sem þar komu fram inn á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. falið í sér lán frá hluthöfum félagsins og engu máli skipt þótt ekki hafi verið tilkynnt um framsal krafnanna til Stakksbrautar 9 ehf. Staðfesting stefnda Rögnvaldar Dofra hafi þó ekki byggst á þessum lánum hluthafa heldur á greiðslum inn á reikninga félagsins. Engu skipti þótt hluti greiðslnanna hafi borist eftir stofnun félagsins USI Holding B.V. eða ekki verið framseldar því félagi með formlegum hætti.
40. Seinni hækkunin, 449.216.000 krónur, hafi einnig falist í innborgunum á bankareikninga Stakksbrautar 9 ehf. Þær hafi borist frá byrjun árs 2014 fram til loka greiðslufrests sem var ákveðinn í lok ágústmánaðar þess árs eins og fram komi í fundargerð hluthafafundar félagsins 15. febrúar 2014. Hlutafjárhækkunin hafi verið bókfærð með þeim hætti að nafnverðið var fært sem nafnverðshækkun en 188.839.600 krónur færðar á yfirverðsreikning. Magnús Garðarsson hafi gefið skýr fyrirmæli um að greiðslurnar væru í þágu eina hluthafa félagsins, USI Holding B.V., og stefnda Rögnvaldi Dofra hafi því verið rétt að fylgja þeim fyrirmælum. Magnús hafi verið í forsvari fyrir fjárfestahópinn sem átti síðastgreint félag og auk þess prókúruhafi og notið heimildar til framsals krafna samkvæmt 25. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Að auki hafi hann verið umboðsmaður samkvæmt allsherjarumboði eina stjórnarmanns Stakksbrautar 9 ehf. Þetta sé auk þess staðfest í yfirlýsingu Magnúsar frá júní 2019.
41. Stefndu byggja einnig á að stefnda Rögnvaldi Dofra hafi ekki borið að skoða afdrif umræddra hlutafjárgreiðslna og engin slík ábyrgð felist í staðfestingu um greiðslu hlutafjár. Að jafnaði sé mikil fjárþörf hjá félögum í sömu stöðu og Stakksbraut 9 ehf. og eðlilegt að fjármunum sé varið jafnharðan til fjárfestinga. Það sé ósannað að fjármunirnir hafi ekki skilað sér til Stakksbrautar 9 ehf. vegna svonefndra hringgreiðslna en í öllu falli hafi stefndi Rögnvaldur Dofri verið grandlaus um það. Hann hafi ekki haft upplýsingar um félagið Pyromet Engineering B.V. eða aðgang að erlendum bankareikningum Stakksbrautar 9 ehf.
42. Stefndu halda því fram að óefnislegar eignir Stakksbrautar 9 ehf. hafi myndast jafnt og þétt frá stofnun félagsins árið 2012 fram til ágúst 2014. Fyrri endurskoðandi félagsins hafi eignfært allan rekstrarkostnað þess og stefndi Rögnvaldur Dofri haldið því verklagi áfram. Stór hluti rekstrarkostnaðar hafi verið reikningar frá Pyromet Engineering B.V. Hann hafi ekki haft forsendur til að efast um þau útgjöld eða að þau hafi í raun verið vegna þróunar- og undirbúningskostnaðar. Því hafi ekki verið dregið í efa að eignfæra mætti kostnaðinn, sbr. 16. gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga. Hafi áætlanir fjárfestahópanna tveggja gert ráð fyrir að undirbúningskostnaður yrði 5,1 milljón evra og sama fjárhæð komið fram í áhættumati KPMG í apríl 2014 sem áfallinn kostnaður. Við endurskoðun ársreiknings Sameinaðs Sílikons hf. fyrir árið 2015 hafi stefndu bent á að greina þyrfti betur stofnkostnað sem fólst í óefnislegum eignum þar sem ólíkar eignir gætu kallað á ólíkar bókhaldsaðferðir. Þá liggi fyrir virðisrýrnunarpróf Deloitte frá apríl 2017 sem aflað var af hálfu stjórnar Sameinaðs Sílikons hf. Þar var talið að óefnislegar eignir stefndu stæðu undir virði félagsins í lok árs 2016. Í virðisrýrnunarprófi KPMG árið 2017 hafi komið fram að virðisrýrnun hefði orðið á eignum félagsins seint á árinu 2016 en á þeim tíma hefði ýmislegt gengið á í rekstri þess.
43. Þá byggja stefndu á því að með ákvörðunum á hluthafafundum félaganna 24. september 2014 hafi samruni þeirra verið samþykktur. Stefndu byggja á að aðkoma þeirra að samrunanum hafi verið með tvennum hætti. Annars vegar með áritun á reikninginn og hins vegar með yfirlýsingu um að staða lánardrottna versnaði ekki við samrunann. Stefndu hafi ekki endurskoðað samrunareikninginn heldur einungis staðfest að sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur félaganna byggðist á árshlutareikningum beggja félaga miðað við 31. ágúst 2014. Áritun þeirra á samrunareikninginn hafi verið hefðbundin og í samræmi við lög. Skylda samkvæmt 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994 og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 2/1995 hvíli á viðkomandi félagi en ekki endurskoðanda sem aðstoðar við gerð slíks reiknings. Þá verði það ekki virt stefnda Rögnvaldi Dofra til sakar að hafa ekki látið stjórnir félaganna vita af þessari lagaskyldu í ljósi þeirrar framkvæmdar sem tíðkast hefur á þessu sviði og verið látin átölulaus af opinberum eftirlitsaðilum. Þá hafi yfirlýsing til lánardrottna verið rétt enda byggðist hún eðli máls samkvæmt á stöðunni við samrunann en ekki síðari atvikum.
44. Stefndu byggja loks á að ekkert tjón hafi orðið af ætlaðri saknæmri háttsemi. Sé um slíkt tjón að ræða skorti á orsakatengsl þess við ætlaða háttsemi stefndu. Félagið Stakksbraut 9 ehf. hafi ekki orðið fyrir tjóni við það eitt að eini hluthafi þess, USI Holding B.V., eignaðist fleiri hluti í félaginu. Auk þess hafi skuldir félagsins lækkað við hlutafjárhækkunina. Með samrunanum í september 2014 hafi verið uppfyllt ákvæði og skuldbindingar USI Holding B.V. samkvæmt hluthafasamningi um að sameina Stakksbraut 9 ehf. og Sameinað Sílikon hf. Gert hafi verið ráð fyrir að Stakksbraut 9 ehf. ætti tilteknar óefnislegar eignir við þann samruna. Endurskoðun á ársreikningi hefði auk þess ekki leitt annað í ljós um fjárhag félaganna en það sem fram kom í hinum óendurskoðaða samrunareikningi. Þá sé því hafnað að tilkynning um hlutafjárhækkun leiði sjálfkrafa til bótaábyrgðar.
Niðurstaða
Aðild áfrýjanda
45. Krafa áfrýjanda byggir á því að stefndu hafi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum með saknæmri háttsemi stefnda Rögnvaldar Dofra sem starfaði sem endurskoðandi hjá stefnda BD30 ehf. sem áður hét Ernst & Young ehf. Stefndi vísar til þess að krafa af því tagi sem hér um ræðir verði einungis höfð uppi af hluthafa eða eftir atvikum viðsemjanda félags sem kunni að hafa orðið fyrir tjóni hafi hann lagt traust á að upplýsingar um hlutafé félags eða eftir atvikum upplýsingar í ársreikningi þess væru réttar og gert ráðstafanir í trausti þess. Slík krafa verði aftur á móti ekki höfð uppi af hálfu þrotabús.
46. Áfrýjandi mótmælir því að um aðildarskort sé að ræða og vísar um það til dómaframkvæmdar Hæstaréttar, meðal annars dóms réttarins 20. desember 1988 í máli nr. 210/1988 sem birtur er á bls. 1624 í dómasafni hans það ár, dóms 19. apríl 1996 í máli nr. 123/1996 sem birtur er á bls. 1347 í dómasafni réttarins það ár, dóms 6. febrúar 1997 í máli nr. 169/1996 sem birtur er á bls. 456 í dómasafni réttarins það ár og loks dóms 9. mars 2006 í máli nr. 417/2005. Í fyrrgreindum dómum hafi þrotabú verið aðili að dómsmáli um innheimtu hlutafjárloforðs.
47. Aðild þrotabús í framangreindum málum um innheimtu hlutafjárloforða hvílir á þeirri meginreglu 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að í kjölfar þess að bú skuldara er tekið til gjaldþrotaskipta taki þrotabú hans við öllum fjárhagslegum réttindum sem hann átti eða naut við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar, sbr. 3. mgr. um að þrotabú njóti hæfis til að eiga og öðlast réttindi og til að bera og baka sér skyldur sem haldist þar til skiptum þess lýkur endanlega eftir fyrirmælum laganna.
48. Í dómi Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 210/1988 var meðal annars vísað til hagsmuna lánardrottna hins gjaldþrota félags af því að geta treyst því að sú hlutafjáraukning sem fram hafði farið í félaginu hefði skilað sér. Í máli þessu lýtur krafa áfrýjanda að greiðslu bóta utan samninga vegna ætlaðra annmarka á greiðslu hlutafjárloforðs. Líta verður svo á að hún sé af sama meiði og krafa um innheimtu slíks loforðs. Þannig geta lánardrottnar félags sem tekið hefur verið til gjaldþrotaskipta átt hagsmuni af því að slíkri kröfu sé komið á framfæri af hálfu þrotabús með sama hætti og þegar ekki hefur verið staðið við hlutafjárloforð. Treystir sú niðurstaða jafnframt grundvöll þess að hlutafjárloforð verði efnd eftir efni sínu. Verður því fallist á að áfrýjandi geti haldið fram slíkri bótakröfu að öðrum skilyrðum uppfylltum.
Staðfesting hlutafjárhækkana
49. Sem fyrr segir staðfesti stefndi Rögnvaldur Dofri tvær hlutafjárhækkanir í Stakksbraut 9 ehf. með tilkynningum sem bárust fyrirtækjaskrá 23. september 2014. Voru hækkanir hlutafjár sagðar greiddar með skuldajöfnuði og reiðufé.
50. Í 28. gr. laga nr. 138/1994 segir meðal annars að tilkynning um hækkun hlutafjár verði ekki skráð í hlutafélagaskrá fyrr en heildarhlutaféð hefur verið greitt. Ef tilkynning hefur ekki verið send innan árs frá því að ákvörðun var tekin eða skráningar er synjað fellur niður ákvörðun um hlutafjárhækkunina og skuldbindingar þeirra hluthafa sem þegar hafa skráð sig fyrir hlutum. Ef greiða á nýja hluti með skuldajöfnuði eða á annan hátt en með reiðufé verður að setja reglur um það í ákvörðun hluthafafundar um hlutafjárhækkun auk þess sem ákvæði 5. og 6. gr. laganna eiga við um það eftir því sem við á, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna. Í 1. mgr. 6. gr. þeirra segir svo nánar að yfirlýsing löggilts endurskoðanda eða lögmanns skuli liggja fyrir um að skýrsla samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna um greiðslu hlutafjár með öðrum verðmætum en reiðufé sé rétt. Getur endurskoðandi eða lögmaður framkvæmt þær athuganir sem hann telur nauðsynlegar og krafist þeirra upplýsinga og aðstoðar af stofnendum eða félaginu sem hann telur þörf á til að geta rækt starf sitt, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þá er þess að geta að fyrirtækjaskrá gerir á stöðluðu eyðublaði ráð fyrir staðfestingu endurskoðanda, lögmanns eða skoðunarmanns á að hlutafé hafi verið greitt í samræmi við lög nr. 138/1994. Tekur sú staðfesting jafnt til greiðslu með reiðufé eða öðrum hætti. Sækir sú framkvæmd stoð í 4. mgr. 122. gr. laga nr. 138/1994.
51. Ríkar skyldur hvíla á endurskoðendum í störfum þeirra og ber þeim ávallt að ástunda rétt og vönduð vinnubrögð. Þegar um er að ræða ráðstafanir í tengslum við stofnun félags með takmarkaðri ábyrgð eða við hækkun hlutafjár í slíku félagi eru mikilvægir hagsmunir hluthafa, lánardrottna sem og samfélagsins í heild bundnir því að staðfesting endurskoðenda eða annarra sérfræðinga og framsetning upplýsinga sé reist á traustum grunni. Jafnframt er brýnt að fylgt sé þeim reglum um greiðslu hlutafjár og skilyrðum fyrir staðfestingu greiðslu sem lög áskilja. Önnur niðurstaða myndi raska grundvelli lögbundins fyrirkomulags um takmarkaða ábyrgð hluthafa á skuldbindingum slíkra félaga.
52. Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 138/1994 segir að greiðsla hlutar megi ekki nema minna en nafnverði hans og verði greiðslan að vera innt af hendi fyrir skráningu. Af framangreindu ákvæði sem og fyrrgreindri 3. mgr. 6. gr. laganna verður dregin sú ályktun að þeim sem staðfestir greiðslu hlutafjár beri skylda til að kanna hvort það hafi í reynd verið innt af hendi til félags. Hins vegar nær hún almennt ekki til þess að kanna ráðstöfun fjármuna félags í kjölfar hlutafjárhækkunar enda fæli það í sér ríkari kröfur en ráð er gert fyrir í ákvæðum laga nr. 138/1994 og nr. 2/1995. Þrátt fyrir það er ekki útilokað að sérfræðingur sem staðfestir hlutafjárhækkun geti borið ríkari skyldu til aðgæslu þegar sérstaklega stendur á, til að mynda í ljósi þeirrar þekkingar á félagi sem hann býr yfir eða var í lófa lagið að afla sér. Eðli máls samkvæmt verða gerðar auknar kröfur þegar um ræðir greiðslu hlutafjár tengdra aðila.
53. Með hinum áfrýjaða dómi sem skipaður var sérfróðum meðdómanda var komist að þeirri niðurstöðu að viðhlítandi bókhaldsgögn hefðu legið til grundvallar færslu í bókhaldi Stakksbrautar 9 ehf. á skuldum félagsins við Tomahawk Development á Íslandi hf. vegna greiðslna sem bárust frá síðarnefnda félaginu inn á bankareikninga Stakksbrautar 9 ehf. á árunum 2012 til 2014. Skuldin hefði numið 223.759.046 krónum í árslok 2013 þegar samþykkt var að hækka hlutafé USI Holding B.V. í Stakksbraut 9 ehf. um 223.759.000 hluti með skuldajöfnun. Hún fólst í yfirtöku USI Holding B.V. á skuld Stakksbrautar 9 ehf. við Tomahawk Development á Íslandi ehf. sem samhliða var lækkuð sem því nam í bókum Stakksbrautar 9 ehf. Jafnframt var í hinum áfrýjaða dómi rakið að greiðslur hefðu eftir þetta haldið áfram að berast frá Tomahawk Development á Íslandi hf. á árinu 2014 og þær numið samtals 638.341.600 krónum 31. ágúst 2014 þegar greiðslufrestur seinni hlutafjárhækkunarinnar rann út. Eftir það hefði skuld Stakksbrautar 9 ehf. við Tomahawk Development á Íslandi hf. nánast þurrkast út með færslu í bókhaldi félagsins þar sem vísað var til umræddrar hlutafjárhækkunar.
54. Tilkynningar um framangreindar hlutafjárhækkanir, sem stefndi Rögnvaldur Dofri útbjó, bárust fyrirtækjaskrá 23. september 2014. Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á að þær hefðu verið byggðar á fyrrgreindum greiðslum Tomahawk Development á Íslandi hf. sem hefðu sannanlega borist inn á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. og numið að lágmarki því hlutafé sem þær kváðu á um. Greiðslur Tomahawk Development á Íslandi hf. hefðu verið inntar af hendi fyrir hönd USI Holding B.V., eina hluthafans í Stakksbraut 9 ehf., en félögin Tomahawk Development á Íslandi hf. og USI Holding B.V. hefðu að mestu leyti verið í eigu sömu aðila. Jafnframt liggur fyrir að greiðslur fyrir hlutafé bárust inn á reikninga Stakksbrautar 9 ehf. frá félaginu Tomahawk Development á Íslandi hf. í kjölfar gjaldeyrisútboða Seðlabanka Íslands sem stefnda Rögnvaldi Dofra var kunnugt um að síðargreinda félagið hefði tekið þátt í. Verður í ljósi framangreinds fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að það verði ekki virt stefnda Rögnvaldi Dofra til sakar að hafa staðfest að í fyrrgreindum greiðslum Tomahawk Development á Íslandi hf. hafi falist hlutafjárframlag félagsins USI Holding B.V. Það fái ekki breytt þeirri niðurstöðu þótt þeim hafi í flestum tilvikum verið ráðstafað út af reikningi Stakksbrautar 9 ehf. með símgreiðslum sömu daga og þær bárust félaginu. Mátti stefndi Rögnvaldur Dofri allt eins líta svo á að fyrrgreindir fjármunir sem eigandi félagsins legði því til væru jafnharðan nýttir til að mæta kostnaði við þá uppbyggingu sem hann mátti ætla að félagið stæði að vegna framkvæmda.
55. Í málinu liggur fyrir að stefndi Rögnvaldur Dofri hafði hliðsjón af færslum á bankayfirliti þegar hann sendi umræddar tilkynningar um greiðslu hlutafjár. Áfrýjandi hefur byggt á því að skylda þessa stefnda hafi einnig náð til þess að rekja greiðslur áfram út úr félaginu, meðal annars vegna greiðslna Stakksbrautar 9 ehf. á reikningum Pyromet Engineering B.V. og færslu óefnislegra eigna í bókum fyrrgreinda félagsins sem nam fjárhæð reikninganna. Hefði þá komið í ljós að um svokallaðar hringgreiðslur hefði verið að ræða milli tengdra félaga sem ekki hefðu skilið eftir raunveruleg verðmæti hjá Stakksbraut 9 ehf.
56. Fyrir liggur að fjármunum var í flestum tilvikum ráðstafað frá Stakksbraut 9 ehf. í kjölfar þess að greiðslur sem litið var á sem hlutafjárgreiðslur bárust inn á reikninga þess. Hins vegar styðja gögn málsins þá ályktun að útgáfa reikninga Pyromet Engineering B.V. hafi ekki tengst kaupum á þjónustu í þágu Stakksbrautar 9 ehf. Í hinum áfrýjaða dómi var komist að þeirri niðurstöðu að með réttu mætti efast um að heimild hefði staðið til að eignfæra kostnaðinn sem óefnislega eign. Á hinn bóginn var litið til þess að umræddir reikningar hefðu borið með sér að vera gerðir vegna hönnunar á ofni fyrir kísilmálmverksmiðju. Slíkur kostnaður gæti samrýmst tilgangi Stakksbrautar 9 ehf. og stuðlað að framtíðarávinningi auk þess sem hann hefði samrýmst fjárfestingarsamningi eiganda Stakksbrautar 9 ehf. og Silicon Mineral Ventures B.V. Þá lægi ekki fyrir að aðrir reikningar hefðu verið gerðir vegna hönnunar á þeim ofni sem settur var upp í verksmiðjunni.
57. Af hálfu áfrýjanda hefur þessari niðurstöðu hins áfrýjaða dóms verið mótmælt og því meðal annars haldið fram að stefnda Rögnvaldi Dofra hefði átt að vera ljóst af einfaldri skoðun reikninga félagsins Pyromet Engineering B.V. að það hafði sama aðsetur og félögin Silicon Mineral Ventures B.V. og USI Holding B.V. Ekkert hafi verið minnst á hönnun ofna í fyrrgreindum fjárfestingarsamningi auk þess sem komið hefði fram í hönnunargögnum að hönnun þeirra væri á vegum annars nafngreinds félags.
58. Við mat á skyldu stefnda Rögnvaldar Dofra til aðgæslu að þessu leyti verður að hafa í huga að verksamningur um byggingu mannvirkja í Helguvík í Reykjanesbæ var gerður 11. júlí 2014 þar sem áætluð verklok voru 31. maí 2016. Bygging verksmiðjunnar var því skammt á veg komin þegar umræddar tilkynningar voru sendar 23. september 2014 og gat slíkur þróunarkostnaður þá allt eins átt að falla til í því félagi sem stofnað hafði verið til undirbúnings verksmiðjunnar. Þá hefur ekki verið sýnt fram á vitneskju hans um framangreind hönnunargögn á þeim tíma sem um ræðir og ekki talið að aðgæsluskylda hans hafi náð til þess að kalla eftir upplýsingum þar um þegar hann staðfesti fyrrgreindar hlutafjárgreiðslur. Enn fremur verður ráðið af gögnum málsins að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi ekki búið yfir upplýsingum um erlenda bankareikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. eða Stakksbrautar 9 ehf. Þá kom hann ekki að endurskoðun félagsins Pyromet Engineering B.V. Að þessu gættu verður fallist á niðurstöðu hins áfrýjaða dóms þess efnis að hann hafi ekki haft tilefni til að kanna nánar ráðstöfun fjármuna til Pyromet Engineering B.V. og hagga þau gögn sem áfrýjandi hefur lagt fram fyrir Hæstarétti ekki því mati.
59. Þegar framangreindir málavextir eru virtir í heild verður því ekki talið að leitt hafi verið í ljós að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi þegar hann sendi tilkynningar um hlutafjárhækkun til fyrirtækjaskrár 23. september 2014 haft þá yfirsýn yfir fjármagnshreyfingar milli þeirra félaga sem Magnús Garðarsson stýrði og inntak þeirra til að geta áttað sig á eðli þeirra eða haft réttmætt tilefni til að afla frekari gagna eða upplýsinga um þær. Eru því ekki næg efni til að hnekkja mati hins áfrýjaða dóms um að áfrýjanda hafi ekki tekist að sýna fram á að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi sýnt af sér saknæma háttsemi þegar hann staðfesti greiðslu umræddra hlutafjárhækkana.
Endurskoðun sameiginlegs efnahags- og rekstrarreiknings
60. Áfrýjandi byggir jafnframt á því að stefndi Rögnvaldur Dofri hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því að hafa veitt faglega aðstoð við samruna Stakksbrautar 9 ehf. og Sameinaðs Sílikons hf. en ekki tryggt að sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur væri endurskoðaður til samræmis við 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994 og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 2/1995. Þá hafi í hinum áfrýjaða dómi verið litið fram hjá því að stefndu endurskoðuðu auk þess ársreikninga Sameinaðs Sílikons hf. árin 2014 og 2015 án athugasemda þar sem óefnislegar eignir voru tilgreindar, meðal annars á grundvelli reikninga félagsins Pyromet Engineering B.V. sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.
61. Við úrlausn þessa reynir því á skýringu 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994 og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 2/1995 þar sem fram kemur að félagsstjórnir skuli annast um að saminn sé endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur sem sýni allar eignir og skuldir í hverju félaganna um sig, þær breytingar sem álitið er að samruninn muni hafa í för með sér og drög að upphafsefnahagsreikningi yfirtökufélagsins. Samkvæmt þessu ákvæði hvílir sú skylda á stjórn félags að sjá til þess að gerður sé endurskoðaður sameiginlegur efnahags- og rekstrarreikningur við samruna félaga. Í héraðsdómi var það virt stefnda Rögnvaldi Dofra til sakar að hafa ekki gætt þess að fyrir lægi endurskoðaður samrunareikningur og að hafa þannig tekið þátt í því með félagsstjórn að uppfylla ekki framangreindan áskilnað laga nr. 138/1994 og nr. 2/1995. Með hinum áfrýjaða dómi var komist að öndverðri niðurstöðu þar sem lagt var til grundvallar að umrædd lagaskylda hvíldi á félagsstjórn einni og að um langt skeið hefði sú framkvæmd viðgengist að endurskoðendur árituðu samrunareikninga sem reistir væru á óendurskoðuðum reikningum samrunafélaga.
62. Að virtu skýru orðalagi 2. mgr. 96. gr. laga nr. 138/1994 og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 2/1995 og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms eru ekki alveg næg efni til þess að virða það stefnda Rögnvaldi Dofra til sakar að hafa ekki endurskoðað samrunareikninginn eða vakið athygli stjórnar Sameinaðs Sílikons hf. á að endurskoða þyrfti þann reikning.
63. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sýknu beggja stefndu af kröfum áfrýjanda.
64. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 fellur málskostnaður niður á öllum dómstigum.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður fellur niður á öllum dómstigum.