Hæstiréttur íslands
Mál nr. 29/2024
Lykilorð
- Játningarmál
- Umferðarlagabrot
- Akstur undir áhrifum lyfja
- Akstur sviptur ökurétti
- Refsiákvörðun
- Ökuréttarsvipting
- Sektarákvörðun
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. maí 2024. Ákæruvaldið krefst þess að dómur Landsréttar verði staðfestur um sakfellingu ákærðu, refsing hennar þyngd og henni gert að sæta sviptingu ökuréttar.
3. Ákærða krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Ágreiningsefni
4. Málið lýtur að ákvörðun sektar og sviptingu ökuréttar ákærðu fyrir akstur undir áhrifum slævandi lyfja. Meginágreiningsefni þess er hvort uppfyllt eru skilyrði 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 til að svipta ákærðu ökurétti á grundvelli þess að hún hafi orðið sek um mjög vítaverðan akstur ökutækis eða telja verði, með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hennar sem ökumanns ökutækisins, varhugavert að hún stjórni vélknúnu ökutæki.
5. Með héraðsdómi, sem kveðinn var upp í kjölfar játningar ákærðu á grundvelli 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var henni gert að greiða 180.000 krónur í sekt til ríkissjóðs. Kröfu ákæruvalds um sviptingu ökuréttar var hafnað. Með hinum áfrýjaða dómi var héraðsdómur staðfestur.
6. Áfrýjunarleyfi var veitt 24. maí 2024, með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2024-58, á þeim grundvelli að dómsúrlausn í málinu um ákvörðun refsingar og sviptingu ökuréttar vegna aksturs undir áhrifum lyfja kynni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008.
Málsatvik
7. Með ákæru 24. ágúst 2022 voru ákærðu gefin að sök umferðarlagabrot með því að hafa 26. febrúar sama ár ekið bifreið svipt ökurétti og óhæf til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja. Í blóðsýni sem tekið hefði verið í þágu rannsóknar málsins hefðu mælst 70 ng/ml af […]. Í ákæru kom fram að eftir akstur ákærðu frá heimili sínu hefði lögregla haft afskipti af henni í kjölfar umferðarslyss. Brotin voru talin varða við 2. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga. Gerð var krafa um að ákærða yrði dæmd til refsingar og gert að sæta sviptingu ökuréttar.
8. Í lögregluskýrslu 1. mars 2022 um afskipti lögreglu af ákærðu 26. febrúar sama ár var haft eftir henni að hún hefði ekið norður Kjarnagötu og ætlað að beygja austur Davíðshaga en gleymt sér og ekið fram hjá gatnamótunum. Þegar hún áttaði sig á því hefði hún stöðvað bifreiðina og bakkað henni í þeim tilgangi að ná beygjunni. Hún hefði ekki áttað sig á að önnur bifreið væri fyrir aftan hana fyrr en hún bakkaði á hana. Ökuhraði hefði verið lítill. Í lögregluskýrslunni kom fram að báðar bifreiðar hefðu verið ökuhæfar eftir atvikið og þeim ekið af vettvangi. Þar sagði jafnframt að ákærða hefði sýnt einkenni þess að vera undir áhrifum fíkniefna og tekið hefði verið munnvatnspróf á vettvangi. Prófið hefði sýnt jákvæða svörun við fíkniefnum og ákærða því verið handtekin og færð á lögreglustöð. Í lögregluskýrslu 2. mars 2022 kom fram að ákærða hefði borið á vettvangi að hún hefði ekki notað fíkniefni síðan um áramót og væri edrú. Hún væri að taka „[…] og […] lyf“. Hún hefði ekki fundið fyrir áhrifum við aksturinn og ekki neytt neinna efna eftir að honum lauk.
9. Á lögreglustöð var tekið blóðsýni úr ákærðu og það sent til lyfjarannsóknar. Í matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði 22. mars 2022, sem undirrituð er af tveimur lyfjafræðingum, segir:
Í blóðsýni nr. 118944 mældist eftirfarandi: […]: 70 ng/ml. […] er […] og er af flokki […]. Það hefur slævandi áhrif á miðtaugakerfið og dregur úr aksturshæfni í lágum lækningalegum skömmtum. Styrkur þess í blóðinu er eins og eftir töku lyfsins í háum lækningalegum skömmtum. Fullvíst er að ökumaðurinn hefur ekki getað stjórnað ökutæki með öruggum hætti af þeim sökum.
10. Í málinu liggur fyrir skjámynd úr heilsuveru.is sem sýnir að ákærða hafi fengið ávísað frá lækni 14. febrúar 2022 lyfjunum […], 150 mg og […], 2 mg, 100 stykkjum af hvoru lyfi. Þar kemur fram að lyfin séu „[…]“. Staðfesting frá lyfjaverslun sýnir kaup hennar á þessum lyfjum sama dag.
Löggjöf
11. Eftirfarandi ákvæði umferðarlaga nr. 77/2019 hafa þýðingu við úrlausn málsins:
48. gr. Veikindi, áfengisáhrif o.fl.
[2. mgr.] Enginn má stjórna eða reyna að stjórna ökutæki ef hann vegna veikinda, hrörnunar, ellihrumleika, ofreynslu, svefnleysis eða neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi efna eða af öðrum orsökum er þannig á sig kominn að hann er ekki fær um að stjórna ökutækinu örugglega.
[6. mgr.] Ráðherra er heimilt að kveða á um vanhæfismörk með nánari hætti í reglugerð, þ.e. hvenær ökumaður teljist vera óhæfur til að stjórna ökutæki vegna neyslu lyfja.
58. gr. Skilyrði til að mega stjórna ökutæki.
[1. mgr.] Enginn má stjórna bifreið eða bifhjóli nema hann hafi til þess gilt ökuskírteini sem ríkislögreglustjóri gefur út. Ríkislögreglustjóri getur falið sýslumönnum að annast útgáfu ökuskírteinis.
95. gr. Brot er varða sektum eða fangelsi.
[1. mgr.] Sá skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sem brýtur gegn ákvæðum 36.–38. gr., 48. gr., 6. mgr. 49. gr., 50. gr., 53. gr., 58. gr. eða 61. gr. eða ákvæðum reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. […]
97. gr. Sektareglugerð ráðherra.
Sektir fyrir brot skv. 94. og 95. gr. og ákvæðum reglugerða settra samkvæmt þeim skulu ákveðnar í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum ríkissaksóknara. Í reglugerðinni skal tilgreint hvaða tegunda brota hún tekur til og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Heimilt er að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar ef veigamikil rök mæla með því.
98. gr. Fullkomin samlagning sekta.
Þegar ákveðin er sekt vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum sem tilgreind eru í 94. eða 95. gr. eða í ákvæðum í reglugerðum sem settar eru samkvæmt þeim skal sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig.
99. gr. Almennar reglur um sviptingu ökuréttar.
[1. mgr.] Svipta skal mann rétti til að stjórna ökutæki sem ökuskírteini þarf til ef hann hefur orðið sekur um mjög vítaverðan akstur slíks ökutækis eða ef telja verður, með hliðsjón af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem ökumanns ökutækisins, varhugavert að hann stjórni vélknúnu ökutæki. Getur svipting náð til ákveðins flokks ökuréttinda samkvæmt reglugerð um ökuskírteini, nr. 830/2011, með síðari breytingum, eða sviptingar ökuréttar í heild.
Niðurstaða
12. Ákærða hefur játað að hafa ekið undir áhrifum slævandi lyfja og svipt ökurétti. Staðfest verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sakfella hana samkvæmt ákæru fyrir brot gegn 2. mgr. 48. gr. og 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga. Að fenginni þeirri niðurstöðu er til úrlausnar að ákveða viðurlög ákærðu fyrir brotin.
13. Ákæruvaldið telur að ákærðu hafi verið ákveðin of væg refsing á lægri dómstigum. Ríkissaksóknari hafi í fyrirmælum til ákærenda nr. 5/2020 talið rétt að miða við að sekt og svipting ökuréttar vegna lyfjaaksturs sé ákvörðuð með sama hætti og sekt og svipting vegna brota gegn 50. gr. umferðarlaga þegar um lítið magn fíkniefna sé að ræða. Hafi þar verið tekið mið af dómvenju, ákvæðum umferðarlaga og reglugerðar. Í samræmi við það séu hæfileg viðurlög við brotum ákærðu gegn 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga 100.000 króna sekt og svipting ökuréttar í sex mánuði. Með hinum áfrýjaða dómi hafi ákærða jafnframt verið sakfelld fyrir að hafa ekið svipt ökurétti í fyrsta sinn, sbr. 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga. Samkvæmt reglugerð nr. 1240/2019 um sektir og önnur viðurlög vegna brota gegn umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim og viðauka I við hana varði slíkt brot 120.000 króna sekt.
14. Af hálfu ákærðu er byggt á því að refsiákvörðun í hinum áfrýjaða dómi hafi verið sanngjörn og eðlileg og innan marka laga og reglna um viðurlög fyrir þau brot sem hún hafi verið sakfelld fyrir. Því er sérstaklega andmælt að refsiákvörðunin fari gegn dómafordæmum. Þá séu skilyrði 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga til að svipta hana ökurétti ekki uppfyllt enda hafi hvorki verið um vítaverðan akstur að ræða né varhugavert að hún stjórnaði ökutækinu.
Refsing ákærðu
15. Umferðarlagabrot ákærðu varða sektum eða fangelsi samkvæmt 1. mgr. 95. gr. umferðarlaga. Um sektir samkvæmt því ákvæði fer eftir 97. gr. laganna en þar kemur fram að þær skuli ákveðnar í reglugerð sem ráðherra setji að fengnum tillögum ríkissaksóknara. Þar skuli tilgreint til hvaða tegunda brota hún taki og hvaða sekt og önnur viðurlög skuli koma fyrir hverja tegund brots. Heimilt sé að víkja frá ákvæðum reglugerðarinnar ef veigamikil rök mæli með því. Síðastnefnda ákvæðið kom inn í eldri umferðarlög nr. 50/1987 með 1. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1997 sem varð að 4. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Í skýringum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi til laganna sagði meðal annars að með því væri lagt til að sektarrefsingar vegna umferðarlagabrota yrðu staðlaðar í ríkari mæli með þeim hætti að sektir fyrir tiltekin brot yrðu tilteknar í reglugerð sem yrði bindandi fyrir lögreglu og dómstóla. Þó yrði heimilt að víkja frá staðlaðri refsingu til hækkunar eða lækkunar ef veigamikil rök mæltu með því. Þau rök voru meðal annars færð fyrir stöðluðum refsingum að mikilvægt væri að jafnræðis væri gætt þannig að svipuð eða sams konar refsing kæmi fyrir brot sömu tegundar. Ökumenn gætu þá betur séð fyrir hvaða afleiðingar brot þeirra hefðu og betur sætt sig við refsinguna. Þá væru umferðarlagabrot sömu tegundar oftast tiltölulega lík hvert öðru.
16. Í 1. gr. reglugerðar nr. 1240/2019 segir að sektir allt að 500.000 krónum og svipting ökuréttar vegna einstakra brota skuli ákvarða í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar sem birtist í viðaukum I–III við reglugerðina. Brot sem ekki séu sérstaklega tilgreind í viðaukunum varði sektum frá 20.000 og allt að 500.000 krónum eftir eðli og umfangi brots. Heimilt sé að víkja frá ákvæðum í viðaukum ef veigamikil rök mæla með því. Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 97. gr. umferðarlaga.
17. Í umræddum viðaukum er ekki sérstaklega mælt fyrir um sektir eða önnur viðurlög við brotum gegn 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Í viðauka I er hins vegar kveðið á um sektir og sviptingu ökuréttar vegna brota gegn 50. gr. laganna um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lyfja en þó eingöngu vegna tiltekinna ávana- og fíkniefna í blóði. Viðurlög vegna lítils magns slíkra efna eru þar tilgreind 100.000 króna sekt og svipting ökuréttar í sex mánuði.
18. Ráðherra er jafnframt heimilt samkvæmt 6. mgr. 48. gr. umferðarlaga að mæla fyrir í reglugerð með nánari hætti en gert er í greininni um það hvenær ökumaður teljist vera óhæfur til að stjórna ökutæki vegna neyslu lyfja. Slík reglugerð hefur ekki verið sett og sem fyrr segir er ekki að finna sérstök fyrirmæli í fyrrgreindum viðaukum um sektir eða sviptingu vegna aksturs undir áhrifum lyfja.
19. Í dómi Hæstaréttar 14. janúar 1999 í máli nr. 425/1998 var fjallað um beitingu þágildandi 4. mgr. 101. gr. umferðarlaga, reglugerð sem sett var á grundvelli ákvæðisins svo og viðauka við hana, sem hafði að geyma skrá yfir sektir og önnur viðurlög vegna brota á lögunum. Umrætt lagaákvæði var orðað með sambærilegum hætti og 97. gr. núgildandi umferðarlaga. Í dóminum sagði meðal annars að af ákvæði 2. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 leiddi að dómstólar væru ekki bundnir við þannig skrár yfir sektir. Bæri þeim þegar málum af þessu tagi væri skotið til þeirra að meta viðurlög sjálfstætt á grundvelli umferðarlaga og mætti þá meðal annars líta til ákvarðana lögregluyfirvalda á þessu sviði.
20. Í fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 5/2020 til ákærenda um samræmi í málsmeðferð um brot gegn umferðarlögum er í lið IV fjallað um ákvörðun viðurlaga vegna lyfjaaksturs, sbr. 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Þar segir að sekt og svipting ökuréttar skuli ákveðast eins og sekt og svipting vegna brota gegn 50. gr. laganna þegar um lítið magn sé að ræða eða 100.000 króna sekt og svipting í sex mánuði.
21. Í 98. gr. umferðarlaga er ákvæði sem ber yfirskriftina fullkomin samlagning sekta. Þar er kveðið á um að þegar sekt er ákveðin vegna brota gegn tveimur eða fleiri ákvæðum sem tilgreind eru í 94. eða 95. gr. eða í ákvæðum reglugerða samkvæmt þeim skuli sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig. Ákvæðið kom inn í eldri umferðarlög nr. 50/1987 með 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1997 sem varð að 5. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Í skýringum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi til laganna voru meðal annars færð þau rök fyrir fullkominni samlagningu refsinga að þeim sem fremdu brot með stuttu millibili væri að jafnaði ákvörðuð vægari refsing fyrir hvert brot en þeim sem sjaldnar fremdu brot. Ákvæðið byggðist á sanngirnissjónarmiðum og væri jafnframt ætlað að skerpa varnaðaráhrif viðurlaga við umferðarlagabrotum.
22. Brot gegn 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga varðar samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laganna sektum eða fangelsi og á það við um akstur undir áhrifum lyfja. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að í viðaukum við reglugerð nr. 1240/2019 eru ekki sérstök fyrirmæli um sektir við brotum gegn fyrrnefnda ákvæðinu. Á því niðurlag 1. gr. reglugerðarinnar við um ákvörðun sekta fyrir akstur undir áhrifum lyfja.
23. Fyrrnefnd fyrirmæli ríkissaksóknara til ákærenda nr. 5/2020 sem birt eru á heimasíðu embættisins eru sett á grundvelli 21. gr. laga nr. 88/2008. Eðli málsins samkvæmt hafa þau ekki sömu stöðu og fyrrgreindur viðauki I við reglugerð nr. 1240/2019. Engu að síður hafa fyrirmæli ríkissaksóknara þann tilgang að stuðla að jafnræði og samræmingu viðurlaga við umferðarlagabrotum eins og reglugerðin og viðaukar við hana, sbr. einnig fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 425/1998. Mega dómstólar því meðal annars líta til fyrirmælanna við ákvörðun sekta þótt þeir séu ekki bundnir af þeim.
24. Viðmiðið sem fram kemur í IV. lið umræddra fyrirmæla um að ákvörðun viðurlaga við akstri undir áhrifum lyfja verði með sama hætti og viðurlög, samkvæmt viðauka I við reglugerð nr. 1240/2019, vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna þegar um lítið magn er að ræða, styðst við málefnaleg rök. Sem fyrr segir er þar mælt fyrir um 100.000 króna sekt fyrir slíkt brot. Atvik málsins eða dómafordæmi gefa ekki sérstakt tilefni til að refsing ákærðu verði ákveðin vægari en ef lítið magn ávana- og fíkniefna hefði mælst í blóði hennar.
25. Brot ákærðu gegn 1. mgr. 58. gr. umferðarlaga varðar samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laganna sektum eða fangelsi. Sem fyrr segir er í viðauka I við reglugerð nr. 1240/2019 að finna staðlaðar sektarrefsingar fyrir umferðarlagabrot. Þar segir að sekt við fyrsta brot gegn 1. mgr. 58. gr. skuli vera 120.000 krónur.
26. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa samkvæmt framansögðu að baki 97. gr. umferðarlaga, reglugerðar og viðauka við hana um að staðla sektir við umferðarlagabrotum, svo og framangreindra sjónarmiða að baki fyrirmælum 98. gr. umferðarlaga um fullkomna samlagningu sekta, þykir sekt ákærðu fyrir bæði brotin hæfilega ákveðin samtals 220.000 krónur. Sektin greiðist í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dómsins að telja en greiðist hún ekki skal ákærða sæta fangelsi í 16 daga.
Um sviptingu ökuréttar
27. Ákvæði 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga verður skilið með þeim hætti að við tvenns konar aðstæður beri að svipta ökumann ökurétti á grundvelli þess. Annars vegar skal svipta mann rétti til að stjórna ökutæki hafi hann gerst sekur um vítaverðan akstur þess. Hins vegar leiðir það til sviptingar ökuréttar ef varhugavert telst að maður stjórni vélknúnu ökutæki með hliðsjón annaðhvort af eðli brotsins eða annars framferðis hans sem ökumanns ökutækis. Samkvæmt því er gert ráð fyrir að umferðarlagabrot geti verið þess eðlis, óháð öðru framferði ökumanns við akstur, að skilyrði sviptingar séu uppfyllt.
28. Ákærða hefur játað þá háttsemi sem henni var gefið að sök í ákæru, að hafa verið óhæf til að stjórna ökutæki vegna áhrifa slævandi lyfja við akstur 26. febrúar 2022. Sú játning samræmist fyrrgreindri matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði að í blóði hennar hafi mælst lyf sem hafi slævandi áhrif á miðtaugakerfið og dragi úr aksturshæfni í lágum lækningalegum skömmtum. Styrkur þess í blóðinu hafi verið eins og eftir töku lyfsins í háum lækningalegum skömmtum. Fullvíst sé að ökumaðurinn hafi ekki getað stjórnað ökutæki með öruggum hætti af þeim sökum.
29. Mat á því hvort varhugavert hafi verið að ökumaður stjórnaði ökutæki með hliðsjón af því magni deyfandi eða slævandi lyfja sem mælst hafi í blóði hans og hvort svipta eigi hann ökurétti af þeim sökum hefur í dómum Hæstaréttar meðal annars verið reist á niðurstöðum matsgerða lyfjafræðinga, sambærilegri þeirri sem liggur fyrir í máli þessu. Við mat á fordæmisgildi dóma í tíð eldri umferðarlaga ber að hafa í huga að sviptingarákvæði 1. mgr. 101. gr. eldri umferðarlaga nr. 50/1987 var sama efnis og 1. mgr. 99. gr. gildandi umferðarlaga.
30. 30. Í dómi Hæstaréttar 6. desember 2007 í máli nr. 263/2007 var litið til matsgerðar lyfjafræðings þar sem fram kom að klónazepam hefði verið eina lyfið sem mælst hefði í blóði ökumanns og styrkur þess verið 55 ng/ml. Styrkur lyfsins í blóði hefði bent til töku þess í háum lækningalegum skömmtum. Ökumaður hefði því verið undir slævandi áhrifum þess og líklegt að hann hefði ekki getað stjórnað bifreið með öruggum hætti. Hann var sakfelldur fyrir akstur undir áhrifum slævandi lyfja þrátt fyrir neitun og sviptur ökurétti í sex mánuði. Önnur brot hans höfðu ekki áhrif á lengd sviptingar.
31. Svo sem fram kom í dómi Hæstaréttar 26. september 2002 í máli nr. 126/2002 skiptir ekki máli við mat á því hvort svipta beri ökumann ökurétti vegna aksturs undir áhrifum deyfandi eða slævandi lyfja hvort hann hafi valdið umferðaróhappi með akstri sínum og því síður hvort eða hversu mikið tjón hlaust af. Samræmist það því að brot gegn 2. mgr. 48. gr. umferðarlaga er hættubrot en ekki tjónsbrot. Af síðastgreindum dómi og dómi Hæstaréttar 29. janúar 2004 í máli nr. 315/2003 verður jafnframt ráðið að ekki skipti máli við ákvörðun um sviptingu ökuréttar hvort ökumanni hafi verið ávísað slævandi eða deyfandi lyfi af lækni. Í síðarnefnda málinu var sérstaklega tekið fram í forsendum héraðsdóms að þótt ekki hefði verið vefengt að ökumaðurinn hefði tekið lyf samkvæmt ávísun læknis breytti það engu um að henni hefði verið óheimill akstur vegna lyfjanotkunar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um sviptingu ökuréttar í sex mánuði.
32. Með vísan til fyrrgreindra dómafordæma ræður ekki úrslitum í málinu þótt læknir hafi ávísað ákærðu því lyfi sem mældist í blóði hennar en fyrir liggur að það hefur slævandi verkun á miðtaugakerfið. Í ljósi framangreindrar matsgerðar og dómaframkvæmdar ræður heldur ekki úrslitum við ákvörðun um hvort svipta beri ákærðu ökurétti hversu alvarlegu umferðaróhappi hún olli með akstri sínum umrætt sinn.
33. Með játningu ákærðu og afdráttarlausri matsgerð Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði er samkvæmt framansögðu sannað að ákærða var óhæf til að stjórna ökutæki örugglega vegna áhrifa slævandi lyfja. Brot ákærðu var samkvæmt því þess eðlis, óháð öðru framferði hennar við aksturinn, að varhugavert var að hún stjórnaði vélknúnu ökutæki umrætt sinn. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. umferðarlaga og með hliðsjón af framangreindum dómafordæmum og sjónarmiðum um jafnræði og samræmi í viðurlögum við umferðarlagabrotum verður ákærða svipt ökurétti í sex mánuði.
34. Með vísan til þess að játningardómi héraðsdóms var áfrýjað til Landsréttar af ákæruvaldsins hálfu á grundvelli áfrýjunarleyfis og dómi Landsréttar áfrýjað til Hæstaréttar með sama hætti er rétt að ákærða greiði einvörðungu sakarkostnað fyrir héraðsdómi. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti sem eru hæfilega ákveðin eins og greinir í dómsorði, að meðtöldum virðisaukaskatti.
35. Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málsvarnarlaun fyrir Landsrétti verður staðfest.
Dómsorð:
Ákærða, Steinunn Ósk Eyþórsdóttir, greiði 220.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins að telja en sæti ella fangelsi í 16 daga.
Ákærða er svipt ökurétti í sex mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Landsrétti skal vera óraskað.
Ákærða greiði sakarkostnað málsins í héraði, 129.616 krónur. Annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu fyrir Hæstarétti, Þorbjargar I. Jónsdóttur lögmanns, 644.800 krónur.