Hæstiréttur íslands
Mál nr. 6/2024
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Lögskýring
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. janúar 2024. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 7.340.177 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. apríl 2021 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar á öllum dómstigum.
3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Mál þetta lýtur að uppgjöri í kjölfar þess að áfrýjanda var sagt upp störfum sem yfirvélstjóra á frystitogara stefnda. Deila aðilar einkum um hvort og þá á hvaða grunni það skapi stefnda bótaskyldu samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 að segja áfrýjanda upp störfum án þess að heimild hafi staðið til þess eftir 23. eða 24. gr. laganna og hafna jafnframt vinnuframlagi hans á uppsagnarfresti. Auk þess er ágreiningur um hvernig ákveða skuli kaup stefnda á uppsagnarfresti á grundvelli 25. gr., sbr. 9. gr. laganna, og hver séu áhrif svonefnds skiptimannakerfis sem var á skipum stefnda í því tilliti. Nánar tiltekið um hvort áfrýjanda beri laun á uppsagnarfresti miðað við 1,6 aflahlut yfirvélstjóra eða helming af þeim hlut eins og laun hans tóku mið af áður en til uppsagnar kom. Loks ber þeim ekki saman um hvenær á uppsagnartíma stefndi hafnaði vinnuframlagi áfrýjanda og hvort sú tímasetning hafi áhrif á fjárkröfu hans.
5. Stefndi var sýknaður af kröfu áfrýjanda bæði í héraði og fyrir Landsrétti á þeim grunni að óumdeilt væri að áfrýjandi hefði fengið greidd full laun samkvæmt ráðningarsamningi og ætti ekki tilkall til frekari bóta eftir 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Í rétti til bóta samkvæmt ákvæðinu fælist að gera yrði hann eins settan og hefði hann verið við störf hjá stefnda á uppsagnarfresti.
6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 29. janúar 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2023-148, á þeim grunni að dómur í því gæti haft fordæmisgildi um skýringu á 25. gr. sjómannalaga.
Málsatvik
7. Frá árinu 2005 starfaði áfrýjandi sem vélstjóri á frystitogurum stefnda, lengst af á Gnúpi GK-11 en frá lokum apríl 2019 sem yfirvélstjóri á Tómasi Þorvaldssyni GK-10. Í ráðningarsamningi 11. júlí 2019, gerðum þegar áfrýjandi hóf störf á síðarnefnda skipinu, kom fram að ráðning hans væri ótímabundin og hver veiðiferð eitt uppgjörstímabil. Þar sagði einnig að við ráðningu samþykkti skipverji að ganga inn í svokallað skiptimannakerfi sem á skipinu væri. Það fæli í sér að hver skipverji fengi uppgjör eftir hverja veiðiferð sem næmi hálfum aflahlut eftir því sem staða hans um borð segði til um og einnig það sama þegar hann væri í frítúr. Skyldi uppgjör fara fram eigi síðar en 30 dögum eftir lok hverrar veiðiferðar og útgerð skipsins sjá til þess að útgerðaráætlun sem næði yfir þriggja til sex mánaða tímabil lægi alltaf fyrir. Í samræmi við þetta miðuðust laun áfrýjanda við helming af 1,6 fullum aflahlut yfirvélstjóra, óháð því hvort hann fór í veiðiferð.
8. Um borð í skipinu í veiðiferð 29. maí 2020 afhenti skipstjóri áfrýjanda bréf þar sem honum var tilkynnt að honum hefði verið sagt upp störfum frá og með þeim degi. Í bréfinu sagði að uppsagnarfrestur áfrýjanda samkvæmt kjarasamningum og sjómannalögum væri þrír mánuðir og lyki starfstíma hans hjá útgerðinni 29. ágúst 2020. Áfrýjandi veitti bréfinu viðtöku að viðstöddum vottum en neitaði að rita undir móttöku þess. Eftir að í land var komið sendi útgerðarstjóri áfrýjanda annað bréf í ábyrgðarpósti 25. júní 2020 undir heitinu „Viðauki v/uppsagnar“. Þar sagði að stefndi og áfrýjandi gerðu með sér samkomulag um að áfrýjandi ynni ekki uppsagnarfrestinn sem lyki 29. ágúst 2020. Myndi stefndi greiða áfrýjanda laun samkvæmt ráðningarsamningi til þess tíma. Áfrýjandi ritaði ekki undir viðaukann.
9. Í kjölfar uppsagnarinnar urðu nokkur bréfaskipti um hvort áfrýjanda hefði þegar við uppsögn 29. maí 2020 verið tilkynnt að þetta yrði hans síðasta veiðiferð á skipi stefnda eða hvort hann hefði verið leystur undan vinnuskyldu 25. júní sama ár er viðaukinn var sendur honum. Með tölvubréfi útgerðarstjóra stefnda til lögmanns áfrýjanda 7. júlí 2020 var tilkynnt að áfrýjandi færi ekki í næstu veiðiferð sem skyldi hefjast það kvöld en nýr vélstjóri hefði verið ráðinn í hans stöðu.
10. Með tölvubréfi 12. október 2020 gerði áfrýjandi kröfu um greiðslu launa í þrjá mánuði miðað við 1,6 aflahlut frá uppsögn 29. maí 2020 eins og hann hefði verið á sjó allan uppsagnarfrestinn. Stefndi greiddi hins vegar áfrýjanda laun miðað við 0,8 aflahlut fyrir hverja ferð á uppsagnarfresti með vísan til ráðningarsamnings. Áfrýjandi höfðaði síðan mál þetta í byrjun árs 2022.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
11. Áfrýjandi telur stefnda hafa rift ráðningarsamningi með því að segja sér upp störfum 29. maí 2020 og hafna vinnuframlagi hans á kjarasamningsbundnum þriggja mánaða uppsagnarfresti en ráða jafnframt nýjan vélstjóra í hans stað. Af þeim sökum eigi áfrýjandi rétt á bótum sem nemi fullum og óskertum launum miðað við að hann hefði róið allan uppsagnarfrestinn. Áfrýjandi vísar um þetta til 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga og dómaframkvæmdar um túlkun á því lagaákvæði. Dómstólar hafi um áratugaskeið slegið því föstu að sú framkvæmd við uppsögn að hafna vinnuframlagi sjómanns feli í raun í sér riftun ráðningarsamnings sem leiði til þess að greiða beri laun, óháð því skiptimannakerfi eða róðrarfyrirkomulagi sem hafi verið í gildi um borð í skipi.
12. Áfrýjandi byggir á því að 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga, sbr. 9. gr. sömu laga, feli í sér sérstaka lögákveðna meðalbótareglu. Samkvæmt henni fari bætur til sjómanns á uppsagnarfresti ekki eftir almennum skaðabóta- eða vinnuréttarreglum, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar 28. febrúar 2002 í máli nr. 318/2001, 16. maí 2002 í máli nr. 108/2002 og 16. maí 2002 í máli nr. 457/2001. Þá dragist laun skipverja, annarra en skipstjóra, sem þeir ávinni sér í uppsagnarfresti til að mynda heldur ekki frá bótum samkvæmt greininni, sbr. til dæmis dóma Hæstaréttar 14. júní 2001 í máli nr. 109/2001 og 16. júní 2010 í máli nr. 340/2010.
13. Um dómaframkvæmd Hæstaréttar varðandi launarétt skipverja samkvæmt bótareglu 25. gr. sjómannalaga vísar áfrýjandi einkum til dóms réttarins 22. október 1990 í máli nr. 126/1989 sem birtur er á bls. 1246 í dómasafni það ár. Í þeim dómi, sem einatt hafi verið vísað til í síðari dómum, segi að sökum þess að ekki hafi verið óskað eftir vinnuframlagi skipverja á uppsagnartíma beri að líta svo á að fallið hafi niður samkomulag um skiptimannakerfi er fól í sér það vinnufyrirkomulag að greiða laun í þrjá mánuði miðað við aflahlut tveggja veiðiferða af hverjum þremur. Því hafi samkvæmt 1. mgr. 25. gr., sbr. 9. gr. sjómannalaga, borið að greiða skipverja full laun í þrjá mánuði frá uppsagnardegi. Sama niðurstaða hafi einnig orðið í dómi Hæstaréttar 28. október 2004 í máli nr. 210/2004, þar sem skipverja á fiskiskipi hafi verið sagt upp störfum, sem og í dómum 25. nóvember 2004 í máli nr. 202/2004 og 9. júní 2011 í máli nr. 443/2010 þar sem skipverjum á farskipum hafi verið sagt upp störfum og vinnuframlagi þeirra í uppsagnarfresti hafnað. Þessi regla hafi síðan verið áréttuð í dómi Landsréttar 29. maí 2020 í máli nr. 544/2019, þar sem sérstaklega hafi verið vísað til framangreindra dóma Hæstaréttar í málum nr. 126/1989 og nr. 210/2004.
14. Áfrýjandi andmælir því að dómur Hæstaréttar 10. febrúar 2011 í máli nr. 229/2010, sem vísað sé til í niðurstöðum hins áfrýjaða dóms, skuli ráða einhverju um úrlausn málsins. Hefði Hæstiréttur ætlað að breyta áratugalangri dómaframkvæmd um inntak bótareglu 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga verði að gera ráð fyrir að í dóminum hefði verið að finna ítarlega umfjöllun þar um og rökstuðning um ástæður og nauðsyn þeirra breytinga. Það hafi hins vegar ekki verið raunin. Því til viðbótar hafi fjórum mánuðum eftir að dómurinn gekk verið kveðinn upp dómur 9. júní 2011 í fyrrgreindu máli nr. 443/2010 þar sem Hæstiréttur hafi enn og aftur staðfest eldri dómaframkvæmd um inntak meðalbótareglu 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga.
15. Þá sé í hinum áfrýjaða dómi vísað um niðurstöðu til dóms Landsréttar í fyrrnefndu máli nr. 544/2019. Í þeim dómi hafi á hinn bóginn sérstaklega verið tekið fram að framangreindir dómar Hæstaréttar í málum nr. 126/1989 og 210/2004 hefðu eftir sem áður fullt fordæmisgildi. Því hafi skipverja verið dæmd full laun í uppsagnarfresti eins og hann hefði unnið allan frestinn, óháð vinnufyrirkomulagi sem unnið hefði verið eftir áður en til slita á ráðningu hans kom. Að gengnum síðastgreindum dómi Landsréttar hefði útgerð skipsins sótt um áfrýjunarleyfi en ekki fengið, sbr. ákvörðun Hæstaréttar nr. 2020-178 frá 27. júlí 2020. Til viðbótar þessu hafi dómur Landsréttar 12. október 2023 í máli nr. 374/2022 verið til samræmis við áratugalanga dómaframkvæmd.
16. Um tímabil það sem krafa áfrýjanda tekur til er á því byggt að honum hafi þegar við uppsögn 29. maí 2020 verið tilkynnt að ekki væri lengur óskað eftir vinnuframlagi hans. Þetta hafi síðan verið áréttað skriflega í viðaukanum 25. júní sama ár og loks í tölvubréfi útgerðarstjóra stefnda til lögmanns áfrýjanda 7. júlí 2020 þar sem fram hafi komið að nýr vélstjóri hefði verið ráðinn. Það standi stefnda nær að sýna fram á hvenær vinnuframlagi áfrýjanda á uppsagnarfresti hafi verið hafnað. Í öllu falli verði aldrei miðað við síðara tímamark en samkvæmt viðaukanum 25. júní 2020.
Helstu málsástæður stefnda
17. Stefndi byggir á því að það eitt að hafna vinnuskyldu áfrýjanda á uppsagnarfresti þýði ekki að honum hafi verið vikið með ólögmætum hætti úr skiprúmi þannig að varði bótaskyldu eftir 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Þvert á móti leiði af 3. mgr. sömu greinar að slík bótaskylda eigi ekki við ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en uppsagnarfrestur er úti, haldi hann kaupi og öðrum fríðindum til loka frestsins, eins og í tilviki áfrýjanda. Greiðslur samkvæmt 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga séu ekki bætur fyrir ólögmæta riftun ráðningarsamnings eða ólögmæta brottvikningu úr skiprúmi heldur réttar efndir á ráðningarsamningi og hindri að bótaréttur skapist samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna, sbr. dóma Hæstaréttar 25. nóvember 2004 í málum nr. 218/2004 og 219/2004.
18. Hins vegar hafi beiting bótareglu 1. mgr. 25. gr. valdið óvissu og þá helst að því leyti hvort bætur skuli taka mið af launum staðgengils eða þeim launum sem fylgt hafi stöðu á uppsagnarfresti, það er ætluðum launum eftir að ráðningarsamningi er rift eða meðallaunum skipverja fyrir riftun. Úr því álitaefni hafi Hæstiréttur leyst með dómum 29. nóvember 2001 í málum nr. 197/2001, 198/2001, 199/2001 og 214/2001. Þá hafi rétturinn kveðið á um hvernig reikna beri meðallaun með dómum 18. desember 2001 í máli nr. 187/2001 og í framangreindu máli nr. 229/2010.
19. Stefndi byggir á því að dómur Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 126/1989 eigi ekki lengur við. Atvik þess máls hafi orðið á árinu 1987 þegar almennt hafi verið aðeins ein áhöfn á hverju skipi. Í þágildandi kjarasamningum hafi verið kveðið á um að skipverji ætti einhliða rétt til að taka sér frí þriðju hverja veiðiferð. Hafi dómurinn því verið reistur á þeirri forsendu að skipverji hefði haft einhliða rétt til að taka regluleg frí en útgerðin svipt hann kosti á að fara í allar veiðiferðir skips á uppsagnarfresti. Þá séu dómar Hæstaréttar 22. október 1987 í máli nr. 323/1986, sem birtur er á bls. 1358 í dómasafni réttarins það ár, og fyrrgreindur dómur í máli nr. 210/2004 reistir á nákvæmlega sömu aðstæðum og forsendum um óskoraðan rétt sjómanns til að fara í allar veiðiferðir. Enn fremur vísar stefndi til þess að í þessum dómum hafi ekki reynt á ákvæði 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga. Hvorki verði séð að á því ákvæði hafi verið byggt í málunum né því svarað hvort um sé að ræða ólögmæta brottvikningu úr skiprúmi ef skipverji er leystur undan vinnuskyldu á uppsagnarfresti en samningur efndur að öðru leyti. Dómarnir fjalli frekar um einhvers konar efndabætur eða réttar efndir á ráðningarsamningi í uppsagnarfresti en meðalhófsbætur fyrir ólögmæta brottvikningu samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga.
20. Stefndi bendir á að áfrýjandi hafi verið ráðinn til að fara í aðra hvora veiðiferð á móti öðrum vélstjóra sem notið hafi sömu réttinda til vinnu og áfrýjandi. Við uppsögn ráðningarsamnings hafi því hvorki vaknað upp einhvers konar undirliggjandi réttur hans til að fara í allar veiðiferðir skipsins né hafi honum borið skylda til þess.
21. Stefndi vísar til þess að 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga um bótarétt geti átt við missi skipverji skiprúm vegna ólögmætra aðgerða útgerðarmanns eða aðgerða sem útgerðarmaður er talinn bera ábyrgð á, sbr. meðal annars 19. og 22. gr. sjómannalaga. Hins vegar eigi ákvæðið ekki við sé samningi sagt upp með lögmætum hætti sökum þess að útgerð skips er hætt eða skip selt, sbr. dóma Hæstaréttar 29. mars 2001 í máli nr. 326/2000 og 13. desember 2007 í máli nr. 241/2007. Stefndi telur hugsanlegt að skipverji geti, þegar hann stendur frammi fyrir því að ráðningarsamningi hafi verið rift með ólögmætum hætti, valið um það hvort hann krefjist efndabóta sem þá mögulega taki mið af ætluðum tekjum á uppsagnarfresti eða meðalbóta samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga sem ráðist þá af meðallaunum hans fyrir riftun.
22. Þá byggir stefndi á því að jafnvel þótt talið yrði að áfrýjandi ætti rétt til bóta samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga séu þær lægri en greiðslur sem gögn málsins beri með sér að stefndi hafi innt af hendi til áfrýjanda vegna uppsagnarinnar.
Löggjöf
23. Ákvæði 25. gr. sjómannalaga eru svofelld:
Ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. á hann rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. Hafi skipverja, sem starfað hefur samfellt í þjónustu sama útgerðarmanns í 15 ár eða lengur, verið vikið úr starfi án nægrar ástæðu skal hann auk þessa eiga rétt á sérstakri uppbót sem nemi eins mánaðar launum sé um yfirmann að ræða en ella skal miðað við laun fyrir 15 daga.
Hafi verið samið við skipverja um tiltekinn stað þar sem hann skyldi víkja úr skiprúmi á hann, auk þess sem fyrr var greint, rétt á ferðakostnaði og fæðispeningum til þess staðar. Verði ráðningarsamningi eigi sagt upp nema skipverji geti vikið úr skiprúmi í íslenskri höfn, sbr. 1. mgr. 10. gr., á hann rétt á ferðakostnaði og fæðispeningum til íslenskrar hafnar eða til heimilis síns eigi hann heimili á Íslandi.
Ákvæði 1. og 2. mgr. eiga þó ekki við ef skipverji víkur úr skiprúmi eftir uppsögn á þeim stað sem fyrir fram hafði verið um samið eða sem leiðir af reglum 10. gr. samkvæmt ákvörðun skipstjóra áður en uppsagnarfrestur er úti þannig að skipverji haldi kaupi og öðrum fríðindum þar til fresturinn er á enda runninn.
24. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði í skýringum við ákvæði þetta að fyrri hluti 1. mgr. ætti sér efnislega hliðstæðu í 34. gr. sjómannalaga nr. 67/1963. Síðari hluti 1. mgr., um uppbót til handa sjómanni eftir 15 ára störf eða lengur hjá sama útgerðarmanni, væri hins vegar nýmæli. Þá kom fram að ákvæði 2. mgr. ætti sér efnislega hliðstæðu í 34. gr. eldri sjómannalaga. Loks sagði að 3. mgr. 25. gr. þarfnaðist ekki skýringar. Ákvæði 34. gr. laga nr. 67/1963 átti sér hliðstæðu í eldri sjómannalögum nr. 41/1930.
25. Í 9. gr. laganna segir:
Sé eigi á annan veg samið skal uppsagnarfrestur á skiprúmssamningum vera einn mánuður nema á íslenskum fiskiskipum sjö dagar. Uppsagnarfrestur er gagnkvæmur.
Uppsagnarfrestur á skiprúmssamningi yfirmanns skal vera þrír mánuðir nema um annað hafi sérstaklega verið samið og á það einnig við um skipverja sem starfað hefur sem afleysingamaður í yfirmannsstöðu í níu mánuði samfleytt hjá sama útgerðarmanni.
26. Í 23. og 24. gr. sjómannalaga, sem vísað er til í 25. gr. laganna, er tíundað í nokkrum liðum hvenær skipstjóri getur vikið skipverja úr skiprúmi. Þá hefur 10. gr. laganna, sem vísað er til í 3. mgr. 25. gr. þeirra, að geyma ákvæði er lúta að því í hvaða höfn skipverja verði gert að fara úr skiprúmi í kjölfar uppsagnar.
27. Í almennum athugasemdum með frumvarpi sem varð að eldri sjómannalögum nr. 67/1963 sagði meðal annars að lögin væru sniðin eftir dönskum lögum um sama efni. Talsverð þróun hefði orðið í kjaramálum sjómanna, sem og annarra launþega. Hefðu aðrar Norðurlandaþjóðir talið fulla ástæðu til að endurskoða sjómannalög sín frá grunni og sett ný sjómannalög á árunum 1973 og 1975. Þessar þjóðir hefðu haft samvinnu sín á milli við endurskoðunina, þótt ekki hefði orðið fullt samræmi milli lagatextanna, enda ekki að því stefnt. Við samningu frumvarpsins hefði verið höfð talsverð hliðsjón af norrænum lögum, einkum dönskum og norskum. Að því leyti sem lagaákvæði ætti sér samsvörun í sjómannalögum annarra Norðurlandaþjóða, mætti oft til skýringar og fyllingar hafa mikið gagn af þeim lögum, athugasemdum með frumvörpum að þeim, fræðiritum og dómum.
28. Ákvæði 1. og 2. mgr. 34. gr. eldri sjómannalaga voru í atriðum sem hér skipta máli hin sömu og 1. og 2. mgr. 34. gr. eldri dönsku sjómannalaganna. Þá eru ákvæði 25. gr. gildandi sjómannalaga hin sömu og ákvæði 18. gr. dönsku sjómannalaganna nr. 420/1973. Í lögskýringargögnum með ákvæði 3. mgr. 18. gr. dönsku laganna, sem er hliðstætt 3. mgr. 25. gr. íslensku laganna, kom fram að ekki væri sanngjarnt að skipverji fengi bætur eftir 1. mgr. greinarinnar, héldi hann launum og öðrum kjörum sínum meðan á uppsagnarfresti stæði. Þess vegna kæmi hið nýja ákvæði til sögunnar og gilti það hvort heldur sem uppsögn stafaði frá útgerðarmanni eða skipverja.
Niðurstaða
29. Samkvæmt orðum sínum segir einvörðungu í 1. málslið 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga að sé skipverja vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. laganna eigi hann rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. þeirra. Í þeirri grein er síðan aðeins að finna ákvæði um tímalengd gagnkvæms uppsagnarfrests sem fer eftir því hver staða skipverja er á skipi og hvernig ráðningarsamningum er háttað.
30. Fyrir liggur áratuga dómaframkvæmd Hæstaréttar um að sé uppsögn með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga og vinnu skipverja í uppsagnarfresti hafnað teljist uppsögnin hafa orðið með ólögmætum hætti sem útgerðarmaður beri skaðabótaábyrgð á. Það hefur verið talið leiða til þess að stofnast hafi réttur til svokallaðra meðalbóta eða meðalhófsbóta. Í allmörgum dómum Hæstaréttar hafa slíkar bætur numið hærri fjárhæð en þeirri sem skipverji mátti búast við að fá í kaup hefði hann haldið áfram störfum á skipi á uppsagnartíma miðað við það vinnufyrirkomulag sem var í gildi, sbr. til að mynda framangreinda dóma Hæstaréttar í máli nr. 126/1989, í máli nr. 202/2004 og í máli nr. 210/2004. Í þessum dómum var tekið fram að við uppsögn skipverja, sem ekki ætti stoð í 23. eða 24. gr. sjómannalaga, félli úr gildi samkomulag um skiptimannakerfi sem gilt hafði um tilhögun starfa skipverja og öðlaðist hann rétt til kaups eins og hann hefði verið á sjó allan uppsagnarfrestinn. Í sumum dómum réttarins hafa ákvæði 23. og 24. gr. sjómannalaga þó ekki talist takmarka stjórnunarrétt vinnuveitanda svo varði bótum eftir 1. mgr. 25. gr. laganna ef tilefni uppsagnar er sala skips eða útgerð þess hætt, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í framangreindu máli nr. 326/2000.
31. Skýring á ákvæðum 1. mgr. 25. gr., sbr. 9. gr. sjómannalaga, hefur ekki einvörðungu byggst á orðanna hljóðan heldur jafnframt verið reist á niðurstöðum dómstóla um réttindi skipverja sem mótast hafa af fræðikenningum á þessu réttarsviði. Telur áfrýjandi að þetta hafi leitt til bindandi dómvenju. Dómaframkvæmd um túlkun ákvæðisins hefur hins vegar ekki verið samræmd. Þannig hafa gengið dómar Hæstaréttar þar sem skipverja var ekki dæmdur hærri hlutur eða kaup í uppsagnarfresti en sem nam meðallaunum hefði hann unnið frestinn til enda. Um það má vísa til framangreindra mála nr. 187/2001, 197/2001, 198/2001, 199/2001 og 214/2001 sem og máls nr. 229/2010. Í þessum tilvikum voru laun í uppsagnarfresti ákveðin hliðstæð þeim sem skipverji hefði að líkindum fengið miðað við meðallaun og vinnufyrirkomulag tiltekið tímabil áður en til uppsagnar kom. Þá hefur ekki verið talið skipta máli hvort uppsögn hafi verið án heimildar í 23. eða 24. gr. sjómannalaga eða hvort útgerð haldi skipi ekki lengur til veiða.
32. Við mat á fordæmisgildi fyrrgreindra dóma og annarra sem gengið hafa um málefnið verður að líta til þess að atvik í málunum hafa verið talsvert mismunandi um atriði sem skipt geta máli. Eins getur haft þýðingu hvernig málum hefur verið haldið til dóms með tilliti til ákvæða 25. gr. sjómannalaga. Þá er jafnframt til þess að líta að áður en skiptimannakerfi komst í fastmótaðra horf var tilhögun þess ýmist samkvæmt samkomulagi milli skipverja eða samkvæmt sérstöku samkomulagi viðkomandi skipverja og útgerðar. Jafnframt gat það verið undir skipverja sjálfum komið hvort hann tæki þá frítúra sem vinnufyrirkomulagið bauð upp á. Hefur verið vísað til þessara sjónarmiða í dómum, sbr. framangreind mál nr. 323/1986, 126/1989 og 210/2004. Samkvæmt því sem fram er komið í máli þessu mun nú tíðkast að skipverji gangist að jafnaði undir skiptimannakerfi við gerð ráðningarsamnings í samræmi við kjarasamning og hefur sjaldnast lengur val um hvort hann tekur sér frítúr eða fer á sjó. Þá verður að líta til þess að launakjör áfrýjanda samkvæmt ráðningarsamningi hans tóku mið af helmingi aflahlutar í öllum veiðiferðum skipsins en ekki eingöngu þeim veiðiferðum þegar áfrýjandi var við vinnu.
33. Svo sem áður greinir eru ákvæði 1. og 2. mgr. 25. gr. sjómannalaga að stofni gömul og eiga sér sögu í norrænu samstarfi á sviði siglinga og útgerðar en ákvæðin voru hin sömu í 34. gr. eldri sjómannalaga nr. 41/1930 sem og lögum sama efnis nr. 67/1963. Ákvæði 3. mgr. 25. gr. var á hinn bóginn nýmæli þegar gildandi sjómannalög voru sett en fyrirmynd þess var sótt í norrænan rétt. Það felur í sér að ákvæði 1. mgr. eigi aðeins við ef skipverja er vikið úr starfi án heimildar. Því takmarkar 3. mgr. að þessu leyti þann skilyrðislausa bótarétt sem risið gat vegna ólögmætrar uppsagnar sjómanns áður en ákvæðið kom í sjómannalög. Þannig stofnast ekki bótaréttur samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna í tilvikum er útgerðarmaður efnir að fullu skyldur sínar við skipverja samkvæmt ráðningarsamningi og tryggir að hann haldi kaupi og öðrum fríðindum á uppsagnarfresti. Er 3. mgr. 25. gr. í samræmi við meginreglu vinnuréttar um að vinnuveitanda sé heimilt að afþakka vinnu starfsmanns á uppsagnarfresti og leysa hann undan vinnuskyldu samkvæmt ráðningarsamningi sem heldur að öðru leyti gildi sínu. Hefur gildissvið 3. mgr. verið skýrt á þessa lund í áðurnefndum dómum Hæstaréttar í málum nr. 218/2004 og 219/2004, sbr. að sínu leyti einnig dóm í máli nr. 241/2007.
34. Eins og fram er komið var áfrýjanda sagt upp starfi með þriggja mánaða uppsagnarfresti og var í uppsagnarbréfi tekið fram að honum bæri að vinna út frestinn. Verður því talið að áfrýjanda hafi í raun ekki verið vikið úr skiprúmi fyrr en með svonefndum viðauka 25. júní 2020 en áfrýjandi var upplýstur um að annar maður hefði verið ráðinn í hans stað sem vélstjóri á skipi stefnda með tölvubréfi 6. júlí 2020. Áfrýjandi naut þriggja mánaða uppsagnarfrests samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. Fram kom í viðaukanum að á uppsagnarfresti skyldi áfrýjandi áfram njóta sömu launa og hann áður hafði notið samkvæmt ráðningarsamningi. Fyrir liggur að stefndi greiddi áfrýjanda kaup samkvæmt því. Verður samkvæmt framansögðu talið að 3. mgr. 25. gr. sjómannalaga girði fyrir frekari bætur til áfrýjanda samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laganna umfram þau laun og fríðindi sem hann fékk út uppsagnarfrestinn.
35. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
36. Rétt er að hvor aðila greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.