Hæstiréttur íslands

Mál nr. 42/2022

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Ragnar Halldór Hall lögmaður)

Lykilorð

  • Endurupptaka
  • Skattalög
  • Fjármagnstekjuskattur
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Skriflegur málflutningur
  • Frávísun frá héraðsdómi

Reifun

Með dómi Hæstaréttar 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 hafði X verið sakfelldur fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum. Með úrskurði Endurupptökudóms 15. júní 2022 var fallist á beiðni X um endurupptöku málsins. Ákæruvaldið tók undir kröfu X um að vísa málinu frá héraðsdómi þar sem efnismeðferð og sakfelling myndi brjóta í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. Samkvæmt því og í ljósi málsatvika féllst Hæstiréttur á kröfu ákæruvaldsins um að málinu yrði vísað frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon og Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómarar.

2. Með úrskurði Endurupptökudóms 15. júní 2022 var fallist á beiðni ákærða um endurupptöku á hæstaréttarmálinu nr. 283/2016 sem dæmt var 21. september 2017.

3. Ákæruvaldið og ákærði krefjast þess að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

4. Málið var dómtekið 18. janúar 2023 að fenginni yfirlýsingu málflytjenda um að ekki væri þörf munnlegs málflutnings í því, sbr. 3. málslið 1. mgr. 222. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Málsatvik

5. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum ákærða vegna tekjuáranna 2007 og 2008 hófst 3. maí 2011. Með bréfi 30. desember sama ár var ákærða tilkynnt að rannsókninni væri lokið og niðurstöður hennar hefðu verið teknar saman í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins sem fylgdi umræddu bréfi. Í skýrslunni kom fram að ákærði hefði skilað efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2007 og 2008 og meðal annars vantalið fjármagnstekjur sínar umrædd ár. Í fyrrgreindu bréfi kom fram að á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins hefði málið verið sent embætti ríkisskattstjóra sem tæki ákvörðun um hugsanlega endurálagningu. Um leið kom fram það mat skattrannsóknarstjóra ríkisins að ákærði kynni að hafa skapað sér refsiábyrgð vegna þeirra brota sem rakin væru í skýrslunni. Ákærða var gefið færi á að tjá sig um fyrirhugaða ákvörðun um refsimeðferð.

6. Með bréfi 12. nóvember 2012 tilkynnti skattrannsóknarstjóri ríkisins ákærða um að málinu yrði vísað til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Kom þar fram að forræði málsins og allar ákvarðanir um áframhaldandi refsimeðferð yrði þar eftir í höndum sérstaks saksóknara.

7. Ríkisskattstjóri endurákvarðaði opinber gjöld ákærða gjaldárin 2008 og 2009 með úrskurði 30. nóvember 2012. Þannig var stofn ákærða til fjármagnstekjuskatts hækkaður um 43.843.930 krónur gjaldárið 2008 og 48.542.671 krónu gjaldárið 2009. Þá bætti ríkisskattstjóri 25% álagi við vanframtalinn stofn til fjármagnstekjuskatts umrædd gjaldár með vísan til 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Ákærði kærði úrskurðinn til yfirskattanefndar með bréfi 28. febrúar 2013 og krafðist þess aðallega að úrskurður ríkisskattstjóra yrði felldur úr gildi en til vara að álag yrði fellt niður. Með úrskurði 12. mars 2014 í máli nr. 97/2013 staðfesti yfirskattanefnd úrskurð ríkisskattstjóra að því frátöldu að hún lækkaði stofn fjármagnstekjuskatts ákærða um 3.252.718 krónur vegna gjaldársins 2008 og 3.612.593 krónur vegna gjaldársins 2009 frá því sem kveðið var á um í úrskurði ríkisskattstjóra. Að öðru leyti var kröfum ákærða hafnað.

8. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur ákærða 21. maí 2014 þar sem honum voru gefin að sök meiri háttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008 og 2009 vegna tekjuáranna 2007 og 2008. Sagði í ákæru að ákærði hefði látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtölum sínum fjármagnstekjur samtals að fjárhæð 87.007.094 krónur, sem hafi annars vegar verið hagnaður ákærða af sölu hlutabréfa sem skattskyldur væri samkvæmt 8. tölulið C. liðar 7. gr., sbr. 18. gr., laga nr. 90/2003 og hins vegar tekjur ákærða af uppgjöri á samtals 58 framvirkum skiptasamningum sem skattskyldar væru samkvæmt 3. tölulið C. liðar 7. gr., sbr. 2. mgr. 8. gr. sömu laga. Hefði ákærði með því komið sér undan greiðslu fjármagnstekjuskatts samtals að fjárhæð 8.700.709 krónur. Brot ákærða voru í ákæru talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003.

9. Með héraðsdómi 15. mars 2016 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu sektar að fjárhæð 13.800.000 krónur. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu með fyrrgreindum dómi 21. september 2017 í máli nr. 283/2016 og taldi að skilyrðum um nauðsynlega samþættingu í efni og tíma væri fullnægt.

10. Með kæru 12. mars 2018 leitaði ákærði til Mannréttindadómstóls Evrópu sem í dómi 31. ágúst 2021 í máli nr. 12951/18 komst að þeirri niðurstöðu að fyrrgreind saksókn á hendur ákærða og refsing hefði farið í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Refsað hefði verið fyrir sama brot, skattamálið og refsimálið hefðu haft sameiginlegan tilgang, afleiðingarnar hefðu verið fyrirsjáanlegar og tekið hefði verið tillit til skattaálaga við ákvörðun refsingar. Hins vegar hefði háttsemi ákærða og ábyrgð hans verið til rannsóknar hjá mismunandi yfirvöldum í málum sem hefðu að mestu leyti verið rekin óháð hvort öðru. Samanlagður tími málsmeðferðar beggja málanna hefði verið um sex ár og fjórir mánuðir. Á þeim tíma hefðu málin í raun aðeins verið rekin samhliða í 11 mánuði. Þá hefði ákæra verið gefin út tveimur mánuðum eftir úrskurð yfirskattanefndar. Því hefðu hvorki verið nægjanlega náin tengsl í efni né tíma milli skattamálsins og sakamálsins. Ákærði hefði þannig sætt lögsókn og refsingu fyrir sömu eða efnislega sömu háttsemi af hálfu mismunandi yfirvalda í tveimur mismunandi málum þar sem nauðsynlega tengingu skorti. Með því hefði verið brotið gegn 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðaukans. Þá voru ákærða dæmdar 91.250 evrur í skaðabætur og 16.800 evrur í málskostnað.

11. Með beiðni til Endurupptökudóms 15. febrúar 2022 fór ákærði fram á endurupptöku á umræddu hæstaréttarmáli nr. 283/2016 á grundvelli a-liðar 1. mgr. 228. gr., sbr. 1. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008. Eins og áður greinir var fallist á þá beiðni hans með úrskurði dómsins 15. júní 2022 í máli nr. 5/2022. Af því tilefni gaf ríkissaksóknari út fyrirkall sama dag vegna endurupptöku málsins sem birt var ákærða 22. sama mánaðar.

Niðurstaða

12. Svo sem að framan greinir hefur ákæruvaldið tekið undir kröfu ákærða um að málinu verði vísað frá héraðsdómi þar sem efnismeðferð og sakfelling bryti í bága við 1. mgr. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis. Ákæruvaldið vísar meðal annars til fyrrgreinds dóms Mannréttindadómstóls Evrópu og dóma Hæstaréttar 9. nóvember 2022 í máli nr. 10/2022, 22. júní 2022 í máli nr. 11/2022 og 14. september 2022 í máli nr. 21/2022. Samkvæmt þessu og í ljósi fyrrgreindra málsatvika verður fallist á kröfu ákæruvaldsins um að málinu verði vísað frá héraðsdómi, sbr. meðal annars fyrrgreinda dóma Hæstaréttar og einnig dóm réttarins 9. nóvember 2022 í máli nr. 8/2022.

13. Eftir þessum málsúrslitum greiðist sakarkostnaður vegna fyrri málsmeðferðar fyrir Hæstarétti sem lauk með dómi réttarins í máli nr. 283/2016 að öllu leyti úr ríkissjóði.

14. Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 6. mgr. 231. gr., sbr. 6. mgr. 232. gr. laga nr. 88/2008, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður málsins vegna fyrri málsmeðferðar fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Ragnars Halldórs Hall lögmanns, 1.736.000 krónur.

Allur kostnaður af rekstri málsins fyrir Hæstarétti vegna endurupptöku þess greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Ragnars Halldórs Hall lögmanns, 500.000 krónur.