Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2024

Ákæruvaldið (Guðrún Sveinsdóttir saksóknari)
gegn
X (Ómar R. Valdimarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Áfrýjun
  • Ákæruvald
  • Dómstóll
  • Sakarkostnaður

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar um niðurfellingu máls á hendur einum af ákærðu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. september 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 19. september 2024 í máli nr. 44/2024 þar sem málið var fellt niður að því leyti sem varðar varnaraðila. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

3. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

4. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt „að taka þær kröfur ákærða, sem hann hefur ekki fallið frá, til efnismeðferðar“. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

5. Með bréfi ríkissaksóknara 22. ágúst 2024 var afturkölluð að öllu leyti áfrýjunarstefna 8. janúar 2024 hvað varnaraðila varðaði. Sú ákvörðun getur eðli sínu samkvæmt ekki sætt efnislegri endurskoðun dómstóla, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 7. febrúar 2013 í máli nr. 74/2012, 23. janúar 2014 í máli nr. 323/2013 og 20. desember 2018 í máli nr. 30/2018. Af þeirri ástæðu verður tekin til greina krafa sóknaraðila um staðfestingu hins kærða úrskurðar.

6. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.