Hæstiréttur íslands
Mál nr. 45/2024
Lykilorð
- Kærumál
- Jarðhiti
- Kröfugerð
- Réttaráhrif
- Frávísun frá héraðsdómi
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 16. október 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. október 2024 í máli nr. 286/2024 þar sem málinu var vísað frá héraðsdómi. Kæruheimild er í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
3. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir Landsrétt að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Landsrétti og kærumálskostnaðar fyrir Hæstarétti.
4. Varnaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður fyrir Hæstarétti.
Málsatvik
5. Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta 13. október 2021 gegn varnaraðilum. Sóknaraðilar eru eigendur 92,1875% óskipts lands Reykjahlíðar í Þingeyjarsveit, áður Skútustaðahreppi.
6. Samkvæmt héraðsdómsstefnu krefjast sóknaraðilar þess að viðurkennt verði með dómi að þeir skuli með báðum varnaraðilum teljast hlutfallslega rétthafar þess jarðhita sem ekki verði aðskilinn í sameiginlegum jarðhitageymum á skilgreindum og afmörkuðum jarðhitaréttindasvæðum sóknaraðila og varnaraðila merktum A og C við Kröflu, Sandabotna og Hágöng annars vegar og merktum B og E við Námafjall í Bjarnarflagi hins vegar, allt í landi Reykjahlíðar. Síðari dómkrafa sóknaraðila er að viðurkennt verði með dómi að varnaraðilinn Landsvirkjun, sem eini nýtingaraðili jarðhita úr hinum sameiginlegu jarðhitageymum, skuli gjalda þeim endurgjald fyrir þá nýtingu í réttu hlutfalli við hlutdeild sóknaraðila í þeim.
7. Með úrskurði héraðsdóms 12. maí 2022 var málinu vísað frá dómi á þeim grundvelli að með dómi Hæstaréttar 29. apríl 2010 í máli nr. 560/2009 hefði verið tekin bein afstaða til þess sakarefnis sem fælist í dómkröfum sóknaraðila. Jafnframt var tekið fram að ekki yrði talið að 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 stæði því í vegi að sóknaraðilar gætu án atbeina tveggja sameigenda sinna staðið að málsókninni.
8. Með úrskurði Landsréttar 21. júní 2022 í máli nr. 335/2022 var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Í úrskurðinum var vísað til þess að ekki hefði áður verið dæmt um dómkröfur sóknaraðila í málinu, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Þá yrði ekki talið að málatilbúnaður þeirra samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri í andstöðu við d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna þannig að frávísun varðaði en sóknaraðilar hefðu lögvarða hagsmuni af kröfum sínum í málinu. Þá staðfesti Landsréttur niðurstöðu héraðsdóms um að aðild til sóknar í málinu fullnægði skilyrðum 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.
9. Héraðsdómur tók málið í framhaldi af þessu til efnislegrar meðferðar og sýknaði varnaraðila af kröfum sóknaraðila með dómi 31. mars 2023. Sóknaraðilar áfrýjuðu málinu til Landsréttar sem vísaði því frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði 3. október 2024 með vísan til d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður
10. Sóknaraðilar byggja kæru sína á að fyrri úrskurður Landsréttar í máli nr. 335/2022 um að hafna frávísun hafi bindandi réttaráhrif og sami dómstóll hafi ekki getað komist að gagnstæðri niðurstöðu að þessu leyti. Sóknaraðilar hafna því að dómur Hæstaréttar 28. júní 2021 í máli nr. 29/2021 hafi fordæmisgildi í þessu máli og telja úrskurð Landsréttar vart endurspegla þá festu í réttarframkvæmd sem borgarar ættu að geta gert ráð fyrir við rekstur dómsmála. Með úrskurði Landsréttar í máli nr. 335/2022 hafi verið tekið af skarið um formhlið málsins. Það sé ekki hlutverk Landsréttar að endurskoða slíkan úrskurð þegar málið kemur aftur til kasta hans.
11. Sóknaraðilar telja að fyrri dómkrafan uppfylli áskilnað d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra og ákveðna kröfugerð og þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að fá dóm um hana. Úrlausn um dómkröfuna myndi leysa endanlega úr því ágreiningsefni málsaðila hvort sóknaraðilar teldust rétthafar með varnaraðilum. Jafnframt telja sóknaraðilar kröfuna í fullu samræmi við gögn málsins og niðurstöður matsmanna og hún hafi beina skírskotun til sakarefnisins. Síðari dómkrafan uppfylli sömuleiðis áskilnað d-liðar 1. mgr. 80. gr. laganna. Hún lúti að því að sóknaraðilar eigi réttmætt tilkall til endurgjalds samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, vegna hagnýtingar auðlindar á jarðhitaréttindasvæðum sem sé í þeirra eigu. Fallist dómur á fyrri viðurkenningarkröfuna liggi fyrir að jarðhiti sem liggi um svæði beggja málsaðila á áðurnefndum svæðum verði ekki aðskilinn líkt og matsgerð staðfesti. Hljóti það að leiða til greiðsluskyldu varnaraðila Landsvirkjunar vegna hagnýtingar auðlindarinnar.
12. Varnaraðilar telja að óljóst sé um kæruheimild til Hæstaréttar enda hafi bæði héraðsdómur og Landsréttur fallist á frávísunarkröfur þeirra. Því liggi ekki fyrir mismunandi niðurstöður tveggja dómstiga eins og áskilið sé í a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Verði kæruheimild talin vera til staðar sé byggt á því að Landsrétti hafi verið heimilt að endurskoða fyrri afstöðu til frávísunarkröfu. Vísa varnaraðilar um það til samspils ákvæða 3. mgr. 100. gr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Þau feli í sér að dómari sé í grunninn ekki bundinn af niðurstöðu sinni um formhlið máls ef viðkomandi atriði reki á fjörur hans oftar en einu sinni, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 29/2021 og 23. ágúst 2010 í máli nr. 415/2010.
13. Varnaraðilar telja kröfur sóknaraðila ódómhæfar. Þær séu bæði of óljósar og óákveðnar, bæði einar og sér og einnig þegar samhengi við málsástæður í stefnu er skoðað. Því séu þær í andstöðu við ákvæði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Krafa sóknaraðila um að teljast hlutfallslega rétthafar feli ekki í sér viðurkenningu á tilteknum réttindum án skilgreiningar á þeim viðmiðum sem hlutföllin gætu byggst á. Enn fremur sé óljóst um eðli réttinda sem felist í „jarðhita sem ekki verði aðskilinn“ og í „sameiginlegum jarðhitageymum“. Varnaraðilar telja jafnframt að síðari dómkrafa sóknaraðila geti ekki staðist áskilnað um skýra kröfugerð, enda ekkert afmarkað frekar í hverju það endurgjald sem vísað er til í henni ætti að vera fólgið, frá hvaða tíma ætti að greiða það eða við hvað það ætti að miðast.
Niðurstaða
14. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 sæta dómsathafnir Landsréttar um frávísun máls frá héraðsdómi að hluta eða að öllu leyti kæru til Hæstaréttar ef ekki er um að ræða staðfestingu á dómsathöfn héraðsdóms. Þótt dómkröfum sóknaraðila hafi áður verið vísað frá héraðsdómi með úrskurði héraðsdóms verður að líta til þess að þeim úrskurði var snúið í Landsrétti og málið í kjölfarið dæmt efnislega í héraði. Hinn kærði úrskurður um frávísun málsins frá héraðsdómi fól þannig ekki í sér staðfestingu Landsréttar á dómsathöfn héraðsdóms og er kæruheimild því fyrir hendi, sbr. einnig til hliðsjónar fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 29/2021.
15. Í hinum kærða úrskurði Landsréttar var komist að annarri niðurstöðu um frávísun málsins frá héraðsdómi en rétturinn hafði áður komist að með fyrri úrskurði sínum sem fyrr greinir. Sóknaraðilar halda því fram að úrskurður Landsréttar 21. júní 2022 í máli nr. 335/2022 hafi bindandi réttaráhrif og sami dómstóll geti ekki síðar komist að gagnstæðri niðurstöðu að þessu leyti.
16. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem koma að lögum í þeirra stað um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Jafnframt segir í 2. mgr. greinarinnar að krafa sem hefur verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól. Af þessu verður ályktað að hafi krafa ekki verið dæmd að efni til heldur aðeins leyst úr atriðum vegna formhliðar máls hafi úrskurður um slíkt ekki bindandi réttaráhrif með sama hætti og dómur um efnishlið máls. Engu að síður getur fyrri ákvörðun dómstóls um að hafna frávísun haft áhrif séu álitaefni um formhlið sama máls til úrlausnar á ný við sama dómstól. Um þá aðstöðu segir í 3. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 að þegar dómari hrindir frávísunarkröfu sé hann ekki bundinn af þeim úrskurði ef nýjar upplýsingar koma fram síðar undir rekstri máls um þau atriði sem úrskurðað var um.
17. Í dómaframkvæmd hefur þetta skilyrði verið skýrt fremur rúmt, sbr. einkum dóma Hæstaréttar 28. júní 2021 í máli nr. 29/2021, 23. ágúst 2010 í máli nr. 415/2010 og 8. maí 2008 í máli nr. 194/2008. Af þessum dómum verður þó ráðið að dómstóll skuli tilgreina ástæður þess að hann breyti fyrri afstöðu sinni til kröfu um frávísun máls, svo sem ef forsendur eru breyttar, nýjar frávísunarkröfur komnar fram eða málatilbúnaður lýtur að öðrum atriðum en við fyrri úrlausn þess.
18. Í fyrri úrskurði Landsréttar í máli nr. 335/2022 var ekki fallist á þá frávísunarástæðu héraðsdóms að dómstólar hefðu áður tekið beina afstöðu til þess sakarefnis sem fælist í dómkröfum sóknaraðila, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Ætla verður af forsendum úrskurðar Landsréttar að þetta hafi ráðið úrslitum um að úrskurður héraðsdóms var felldur úr gildi. Var þó einnig tekið fram í forsendum Landsréttar án frekari rökstuðnings að málatilbúnaður aðila yrði ekki talinn í andstöðu við d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og að sóknaraðilar hefðu lögvarða hagsmuni af kröfum sínum. Það athugast að þótt héraðsdómur hefði ekki leyst úr þeirri frávísunarástæðu og aðilar ekki reifað málið á þeim grunni fyrir Landsrétti við þessa meðferð málsins bar réttinum að meta og rökstyðja með ítarlegri hætti en gert var hvernig dómkröfur sóknaraðila gátu samrýmst skilyrðum d-liðar 1. mgr. 80. gr. laganna.
19. Í forsendum hins kærða úrskurðar er tekið fram að fyrri úrlausn réttarins hafi ekki lotið að áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 með beinum hætti. Að mati Hæstaréttar var tilefni til að útskýra með nákvæmari hætti en gert var hvers vegna Landsréttur teldi sig óbundinn af fyrri niðurstöðu um að málatilbúnaður aðila væri ekki í andstöðu við umrætt ákvæði, sbr. einnig 3. mgr. 100. gr. laganna. Þessi annmarki getur þó ekki einn og sér leitt til þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, sbr. einnig fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 29/2021. Verður því að meta hvort dómkröfur sóknaraðila í málinu séu tækar til efnismeðferðar.
20. Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili sem hefur lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands leitað viðurkenningardóms um kröfu sína. Af d-lið 1. mgr. 80. gr. laganna leiðir jafnframt að slík krafa verður að taka til viðurkenningar á tilteknum réttindum og þar með að dómsniðurstaða um hana feli í sér lyktir ágreinings um þau. Verður dómsniðurstaðan því að vera ákveðin og ljós um hvernig viðkomandi réttindum sé háttað.
21. Sóknaraðilar byggja málatilbúnað sinn einkum á niðurstöðum dómkvaddra manna 29. júní 2017 og viðbótarmatsgerð 21. ágúst sama ár. Í spurningum til matsmanna var óskað svara við því hver væri hlutfallslegur réttur sérhvers eiganda jarðhitaréttindanna á þeim svæðum sem tilgreind eru í dómkröfu. Svar þeirra var að ekki væri hægt að ákvarða hvort einstakir hlutar jarðhita innan afmarkaðra landsvæða væru „jafngildir til nýtingar“ þannig að hægt væri að meta hvort skipting gæti farið fram á hlutfalli. Í viðbótarmatsgerð settu matsmenn fram viðmið um hvenær svæði yrðu metin jafngild til vinnslu og lögðu þar til grundvallar flatarmál svæðanna. Var það reiknað út eftir litamerkingu þeirra þar sem svæði með heitum kjarna voru merkt með rauðum krossum (jafngild svæði), svæði með köldum kjarna með bláum krossum og með gulum krossum þau svæði sem ekki væri vitað hvort séu heit.
22. Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði er í fyrri dómkröfu sóknaraðila um að þeir teljist „hlutfallslega rétthafar“ enginn greinarmunur gerður á milli svæða í þessu tilliti. Í málatilbúnaði þeirra er þó á því byggt að hlutfallslegur réttur þeirra geti orðið mun meiri en á rauðum svæðum verði mælingar gerðar á meira dýpi en 800 metrum sem dómkvaddir menn hafi miðað við. Auk þess geti hin gulu svæði sem enn séu órannsökuð gert hlutdeild sóknaraðila meiri síðar. Í kröfugerð sóknaraðila er vísað með almennum hætti til réttar þeirra til jarðhita sem ekki verði aðskilinn í sameiginlegum jarðhitageymum á jarðhitaréttindasvæðum í landi Reykjahlíðar. Eru þeir hagsmunir ekki afmarkaðir frekar eða inntaki þeirra nánar lýst. Dómkrafan, eins og hún er úr garði gerð, getur því ekki leitt til þess að skorið verði úr um viðurkenningu á tilteknum réttindum, enda er tilvist þeirra óvissu háð. Dómur um fyrri viðurkenningarkröfu sóknaraðila yrði þannig ekki til þess fallinn að leiða ágreining málsaðila til lykta þar sem áfram yrði deilt um inntak og eðli þeirra réttinda sem krafa þeirra lýtur að. Er því fallist á þá niðurstöðu í hinum kærða úrskurði að þessi málatilbúnaður sóknaraðila fullnægi ekki fyrrgreindum áskilnaði d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 að því er lýtur að ákveðinni og ljósri kröfugerð.
23. Um síðari dómkröfu sóknaraðila, sem er í beinu samhengi við þá fyrri, verður það sama sagt um framsetningu sem fólgin er í tilvísun til hlutfalls í hlutdeild sóknaraðila í jarðhita. Auk þess er þar með almennum orðum vísað til viðurkenningar á rétti til endurgjalds frá öðrum varnaraðila fyrir nýtingu jarðhita án frekari afmörkunar á fyrir hvað endurgjaldið komi eða frá hvaða tíma. Er efni kröfunnar í þessu tilliti því einnig óákveðið, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 2. desember 2008 í máli nr. 623/2008.
24. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
25. Sóknaraðilum verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar Guðrún María Valgeirsdóttir, Sigurður Jónas Þorbergsson, Finnur Sigfús Illugason, Bryndís Jónsdóttir, Sigurður Baldursson, Sólveig Illugadóttir, Kristín Þ. Sverrisdóttir, Gísli Sverrisson, Garðar Finnsson, Hilmar Finnsson, Daði Lange Friðriksson og R3 ehf, greiði sameiginlega varnaraðilum Landsvirkjun og íslenska ríkinu, hvorum um sig, 300.000 krónur í kærumálskostnað.