Hæstiréttur íslands
Mál nr. 19/2023
Lykilorð
- Skaðabætur
- Stjórnarskrá
- Líkamstjón
- Umferðarslys
- Varanleg örorka
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2023 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 9.378.976 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 28. mars 2014 til 28. apríl 2018 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags en til vara aðra lægri fjárhæð með sömu vöxtum. Til þrautavara krefst hún þess að við uppgjör bóta vegna líkamstjóns vegna umferðarslyss […] 2011 skuli miðað við margfeldisstuðulinn 24,118 stig en að því frágengnu aðra lægri tölu. Þá krefst hún málskostnaðar úr hendi stefnda á öllum dómstigum án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt og að gjafsóknarlaun fyrir héraðsdómi og Landsrétti verði hækkuð.
3. Stefndi krefst þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Aðilar deila um hvaða margfeldisstuðul skuli nota við uppgjör bóta fyrir varanlega örorku áfrýjanda vegna umferðarslyss sem hún varð fyrir árið 2011. Við útreikning og greiðslu bóta hennar miðaði stefndi við gildandi stuðul 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Áfrýjandi telur að sá stuðull tryggi henni ekki fullar bætur og mismuni jafnframt tjónþolum. Að því leyti samrýmist þessi fyrirmæli skaðabótalaga ekki ákvæðum 65. og 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.
5. Héraðsdómur féllst ekki á að miða við annan stuðul en þann sem fram kemur í 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga. Var þar meðal annars vísað til þess að það væri hlutverk löggjafans að setja almennar reglur um hvernig ákvarða eigi bætur þegar aflahæfi manna er skert. Með hinum áfrýjaða dómi var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
6. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt 4. maí 2023, með ákvörðun réttarins nr. 2023-30, á þeirri forsendu að dómur í því gæti haft fordæmisgildi meðal annars um hvort fyrirmæli skaðabótalaga um viðmið við útreikning bóta vegna líkamstjóns samrýmist ákvæðum stjórnarskrár.
Málsatvik
7. Áfrýjandi lenti í umferðarslysi […] 2011 þegar hún missti stjórn á bifreið sem hún ók með þeim afleiðingum að bifreiðin valt og hafnaði utan vegar. Áfrýjandi var þá á 22. aldursári. Afleiðingar slyssins voru metnar af lækni og lögfræðingi 27. mars 2014 en þar sem áfrýjandi taldi afleiðingar slyssins vanmetnar aflaði hún matsgerðar tveggja dómkvaddra manna, lögmanns og bæklunarskurðlæknis, 16. mars 2015. Þar segir að eftir 28. ágúst 2012 hafi ekki verið að vænta frekari bata og að varanlegur miski af völdum slyssins væri 23 stig og varanleg örorka 23%. Um þessi atvik, niðurstöðu matsgerðar og bótaábyrgð stefnda er ekki ágreiningur milli aðila.
8. Með bréfi til stefnda 1. apríl 2015 var af hálfu áfrýjanda krafist 29.433.171 krónu bóta fyrir varanlega örorku auk annarra bótaliða, vaxta og kostnaðar. Með bréfi stefnda 16. júní sama ár voru áfrýjanda boðnar bætur samtals 14.048.823 krónur til viðbótar áður greiddum 3.200.000 krónum. Tekið var við þessari greiðslu af hálfu áfrýjanda með fyrirvara um réttmæti tjónsútreiknings, viðmiðunarlauna og örorkumats. Eftir að áfrýjunarleyfi var veitt gerðu aðilar með sér samkomulag um greiðslu frekari bóta þar sem miðað var við breyttar árstekjur áfrýjanda, reiknaðar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga í stað lágmarksárslauna samkvæmt 3. mgr. greinarinnar. Er nú einungis deilt um við hvaða stuðul miða skuli uppgjör vegna varanlegrar örorku, en áfrýjandi telur það brjóta gegn 65. og 72. stjórnarskrár að miða uppgjörið við gildandi stuðul 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga.
9. Við fyrrgreint bótauppgjör var miðað við stuðulinn 16,509 samkvæmt fyrirmælum 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga, eins og þeim var breytt með lögum nr. 37/1999, með hliðsjón af aldri áfrýjanda við upphaf varanlegrar örorku 28. ágúst 2012. Áfrýjandi telur hins vegar að með mötum dómkvadds manns, sem aflað hafi verið í tengslum við meðferð málsins, hafi verið sýnt fram á að stuðullinn tryggi ekki fullar bætur fyrir skert aflahæfi tjónþola í skilningi stjórnarskrár og að jafnræði tjónþola sé ekki tryggt.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
10. Áfrýjandi byggir á því að hún eigi að fá fullar bætur. Skyldur löggjafans til að mæla fyrir um fullar bætur vegna ákvæða 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar megi ráða af dómi Hæstaréttar 22. maí 1998 í máli nr. 311/1997 sem birtur er á bls. 1976 í dómasafni réttarins það ár. Löggjafinn hafi ekki frjálsar hendur í þeim efnum. Þannig verði lög að leiða til greiðslu fullra bóta að gættu jafnræði tjónþola. Löggjafinn hafi visst svigrúm innan þessara marka til þess að setja almennar og staðlaðar reglur. Ef á hinn bóginn sé sýnt fram á að reglur laga þjóni ekki þessu markmiði geti dómstólar mælt fyrir um fullar bætur.
11. Áfrýjandi telur að þessu markmiði sé ekki lengur náð og skaðabótalögin séu ekki lengur í samræmi við þau sjónarmið sem lögð voru til grundvallar við setningu þeirra. Mæli þau nú í reynd fyrir um lægri bætur en löggjafinn hafi metið fullnægjandi á sínum tíma. Annars vegar varðandi ávöxtunarprósentu og hins vegar vegna áhrifa fjármagnstekjuskatts í stuðli 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga. Stuðullinn leiði til greiðslu lægri bóta en þeirra sem löggjafinn hafi talið þurfa við gildistöku laga nr. 37/1999. Frá þeim tíma hafi almennir vextir lækkað verulega og fjármagnstekjuskattur hækkað auk þess sem hann sé nú greiddur af vöxtum og verðbótum. Afleiðingin sé sú að tjónþoli geti ekki ávaxtað eingreiddar bætur með sama árangri og löggjafinn hafi á sínum tíma metið nauðsynlegt til að fullar bætur væru tryggðar. Þá þurfi tjónþolar að greiða hærri hluta vaxtanna í fjármagnstekjuskatt en löggjafinn hafi gert ráð fyrir.
12. Krafa áfrýjanda um bætur fyrir varanlega örorku er reiknuð sem margfeldi fjárhæðar viðmiðunarlauna, 23% örorkustigs og stuðulsins 24,118. Um forsendur þess stuðuls vísar áfrýjandi til fyrrnefndra matsgerða dómkvadds manns og kveður hann fundinn út miðað við þær forsendur að raunvextir séu 2,5% og fjármagnstekjuskattur af vöxtum 20%.
Helstu málsástæður stefnda
13. Stefndi byggir á að lögmæltri aðferð við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku verði ekki breytt nema með lögum. Við lögfestingu stuðuls 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga hafi verið lagt mat á hvernig stuðullinn skyldi byggður upp og að hann tæki breytingum með hliðsjón af aldri tjónþola á því tímamarki þegar bætur væru ákveðnar. Í því sambandi hafi verið horft til ýmissa þátta af hálfu löggjafans, svo sem skattfrelsis bótanna, eingreiðsluhagræðis að teknu tilliti til möguleika á ávöxtun þeirra til framtíðar, dánar-, örorku- og starfslíkinda svo og óvissu um framtíðartekjur ungra tjónþola. Því hafi verið litið til ýmissa matskenndra atriða við lögfestingu stuðuls 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga.
14. Þá byggir stefndi á því að jafnvel þótt einhverjir þættir sem horft hafi verið til við uppbyggingu stuðulsins hafi breyst frá lögfestingu hans sé fjarri lagi að unnt sé að líta svo á að bótaréttur áfrýjanda hafi skerst svo að í bága fari við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Skipti ekki máli í því sambandi hvort litið er til breytinga á fjármagnstekjuskatti eða möguleika á ávöxtun bótanna í framtíðinni. Ekki geti staðist að taka tvo tiltekna þætti úr heildarmati og ætlast til að þeim verði breytt við útreikning stuðulsins án tillits til annarra þátta sem hann byggist á. Þá eigi hann við um alla sem rétt eigi til bóta fyrir varanlega örorku og verði með engu móti séð að hann mismuni tjónþolum, hvorki innbyrðis né gagnvart öðrum, þannig að brotið sé gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Lagaumhverfi
15. Í 6. gr. skaðabótalaga segir að bætur fyrir varanlegra örorku skuli meta til fjárhæðar á grundvelli þriggja þátta. Í fyrsta lagi er miðað við örorkustig tjónþola, sbr. 5. gr. laganna, í öðru lagi árslaun sem ákveðin eru samkvæmt fyrirmælum 7. gr. þeirra og í þriðja lagi umþrættan stuðul sem er að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Í síðastnefndu greininni er stuðullinn gefinn upp í töflu en um er að ræða mismunandi töluleg gildi eftir aldri tjónþola að teknu tilliti til þess tíma sem upphaf varanlegrar örorku miðast við.
16. Forsendum að baki stuðlinum er lýst í lögskýringargögnum með lögum nr. 37/1999 um breyting á skaðabótalögum nr. 50/1993. Þar segir að hann sé settur fram sem samfelldur margfeldisstuðull fyrir alla starfsævina sem lækki með hækkandi aldri. Byggist stuðullinn á sjö nánar tilteknum þáttum. Í fyrsta lagi sé stuðst við tryggingafræðilega stuðla sem sýni hversu mikið árstekjur margfaldist ef bættar eru tapaðar vinnutekjur til 75 ára aldurs. Miðað sé við íslenskar dánarlíkur áranna 1991 til 1995, danskar örorkulíkur og starfslíkindi reiknuð út frá tölum um atvinnuþátttöku í vinnumarkaðskönnun Hagstofu Íslands í apríl 1998. Í öðru lagi sé miðað við 4,5% ársafvöxtunarforsendu frá átján ára aldri tjónþola og tekið fram að það teldist samrýmast ávöxtunarmöguleikum á þeim tíma í þjóðfélaginu miðað við áhættulitla fjárfestingu. Þá sé í þriðja lagi miðað við að bætur til barna ávaxtist um 3% á ári til átján ára aldurs en 4,5% eftir það. Í fjórða lagi sé miðað við 33,3% skerðingu vegna tekjuskattshagræðis og eingreiðslu. Þá hafi í fimmta lagi verið reiknað inn í stuðulinn álag til að mæta áhrifum 10% fjármagnstekjuskatts á vexti. Í sjötta lagi sé tekið tillit til þess að launatekjur dreifist misjafnlega yfir starfsævina og að tekjur séu mestar um miðbik hennar en lækki svo nokkuð fram til starfsloka. Loks sé í sjöunda lagi notaður sami stuðull fyrir bæði kyn.
Niðurstaða
17. Sem fyrr segir krefst áfrýjandi þess að við uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku verði ekki stuðst við stuðul 1. mgr. 6. gr. skaðabótalaga í núverandi mynd. Hefur hún aflað tveggja matsgerða þar sem endurreiknaðir eru tveir af sjö þáttum sem saman mynda stuðulinn. Nánar tiltekið er stuðullinn endurreiknaður í matsgerð dómkvadds manns 21. apríl 2021 með þeim breytingum að annars vegar er gert ráð fyrir 2 til 3,5% ársafvöxtunarkröfu í stað 4,5%. Hins vegar er þar gert ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur af vöxtum sé 20% eða 22% í stað 10% eins og miðað var við árið 1999 þegar stuðullinn var leiddur í lög. Við framsetningu kröfu áfrýjanda er jafnframt miðað við fyrrgreindar niðurstöður og byggt á breyttum stuðli þar sem valið er að miða við 2,5% ársafvöxtunarkröfu og 20% fjármagnstekjuskatt á vöxtum. Með þessu telur áfrýjandi sig hafa sýnt fram á að fyrirmæli löggjafans um uppgjör bóta með þeim stuðli sem fram komi í 1. mgr. 6. gr. laganna tryggi henni ekki fullar bætur og því sé vernd aflahæfis hennar ekki tryggð. Auk þess sé ekki gætt jafnræðis þar sem tjónþolar sem nálgist starfslok beri í reynd meira úr býtum en yngri tjónþolar líkt og við eigi um áfrýjanda.
18. Með aflahæfi er átt við starfsgetu einstaklinga sem er undirstaða lífsafkomu þeirra. Fjárhagsleg þýðing aflahæfis birtist með ýmsu móti en fyrst og fremst í því að einstaklingar geta fénýtt starfsgetu sína með því að áskilja sér endurgjald fyrir hana. Á stjórnskipulega vernd aflahæfis hefur meðal annars reynt þegar metin er til fjár skerðing eða missir þess til frambúðar vegna slyss eða annarra ástæðna. Í dómaframkvæmd hefur verið lagt til grundvallar að í aflahæfi felist eignarréttindi sem njóti verndar ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. fyrrgreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 311/1997. Í sama dómi er þó jafnframt áréttað að löggjafinn hafi heimildir til þess að setja staðlaðar reglur í lög um hvernig skert aflahæfi skuli bæta svo framarlega sem stefnt sé að því með slíkri reglusetningu að tryggja markmiðið um fullar bætur. Verði að ætla löggjafanum nokkurt svigrúm þar að lútandi. Þá hefur jafnframt verið tekið fram, sbr. dóm Hæstaréttar 15. mars 2001 í máli nr. 395/2000, að tæpast sé unnt að meta aflahæfi einstaklinga sem fasta og óumbreytanlega stærð sem styðji þá afstöðu að löggjafinn hafi umrætt svigrúm við almenna reglusetningu af þessum toga. Sem endranær verði slík tilhögun að styðjast við almennar efnislegar ástæður auk þess sem gæta þurfi jafnræðis.
19. Eins og segir í framanröktum dómi Hæstaréttar í máli nr. 311/1997 var með stöðluðum reglum skaðabótalaga bætt úr brýnni þörf fyrir lögfestar reglur á þessu sviði þar sem aðferðum við útreikning tjóns vegna varanlegrar örorku var breytt í verulegum atriðum og leitast við að setja skýrari og einfaldari reglur um ákvörðun bótafjárhæða. Þar er að finna fyrrgreindan stuðul í 1. mgr. 6. gr. laganna og er hann settur saman af sjö breytum miðað við nánar tilteknar forsendur. Eðli máls samkvæmt hljóta þær að vera breytingum háðar og ekki þess eðlis að unnt sé að reikna þær út í eitt skipti fyrir öll. Eins og áfrýjandi hefur sýnt fram á með mötum dómkvadds manns hafa breytingar á forsendu um ársafvöxtun bóta og fjármagnstekjuskatt einar og sér töluverð áhrif á stuðulinn til hækkunar. Eins og bent er á í héraðsdómi, sem skipaður var sérfróðum meðdómanda og staðfestur með hinum áfrýjaða dómi, er sá stuðull sem áfrýjandi krefst að byggt sé á við útreikning bóta áfrýjanda byggður á sömu forsendum og lögbundinn stuðull 1. mgr. 6. gr. laganna að frátöldum fyrrgreindum tveimur breytum. Engar upplýsingar liggja hins vegar fyrir um hvort og þá hvernig aðrar forsendur sem lágu til grundvallar þegar stuðullinn var lögfestur hafa breyst eða hvaða áhrif slíkar breytingar hefðu á útreikninga matsmanns. Því er óvarlegt að breyta ákveðnum forsendum sem notaðar voru við útreikninginn en ekki öðrum. Í því samhengi er ekki fullnægjandi að taka tvo tiltekna þætti út úr heildarmatinu.
20. Ekki verður annað séð en að við setningu laga nr. 37/1999, þar sem 6. gr. skaðabótalaga var breytt í núverandi horf, hafi verið stuðst við málefnaleg sjónarmið sem höfðu það að markmiði að staðla bætur til tjónþola miðað við nánar tilgreindar forsendur. Felst því í ákvæðinu skýrt og ótvírætt heildarmat löggjafans sem í megindráttum er í samræmi við almenna mælikvarða. Fram hjá því verður þó ekki litið að þær forsendur sem stuðullinn byggir á breytast að einhverju marki í tímans rás. Af því leiðir að einstaka forsendur hans þarf að endurmeta og uppfæra miðað við þróun þeirra þátta sem til grundvallar honum liggja til að markmið um fullar bætur náist sem best, en nú byggir hann á löggjöf frá árinu 1999 sem að hluta til byggðist á enn eldri forsendum. Allt að einu hefur í þessu máli ekki verið sýnt fram á að stuðullinn sé í slíku ósamræmi við meginregluna um fullar bætur til tjónþola þannig að honum verði vikið til hliðar með atbeina dómstóla með þeim hætti sem krafist er af áfrýjanda.
21. Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi sýknaður af kröfum áfrýjanda og hinn áfrýjaði dómur staðfestur um ákvörðun gjafsóknarkostnaðar.
22. Rétt er að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
23. Það athugist að framlagning gagna af hálfu áfrýjanda er ekki í samræmi við reglur nr. 434/2018 sem settar eru samkvæmt heimild í 4. mgr. 180 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 29. gr. laga nr. 49/2016.
Dómsorð:
Stefndi, TM tryggingar hf., er sýkn af kröfum áfrýjanda, A.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 900.000 krónur.