Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2023
Lykilorð
- Hæfi dómara
- Vanhæfi
- Ómerking dóms Landsréttar
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2023. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnda. Áfrýjandi krefst málskostnaðar á öllum dómstigum verði fallist á kröfur hans en að öðrum kosti verði hann látinn niður falla.
3. Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
4. Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið flutt 10. október 2023 um formhlið þess.
Ágreiningsefni og málsatvik
5. Stefndi höfðaði mál þetta til heimtu eftirstöðva samningsfjárhæðar samkvæmt verksamningi 8. september 2017 milli aðila, auk greiðslna fyrir aukaverk en stefndi er þrotabú verktakafyrirtækis sem tók að sér að hanna og reisa stálgrindarhús fyrir áfrýjanda. Byggir hann á því að áfrýjanda beri að greiða honum eftirstöðvar svokallaðs fastverðs samkvæmt verksamningi auk greiðslna fyrir tiltekin viðbótar- og aukaverk. Áfrýjandi byggir á hinn bóginn á því að stefndi eigi ekki kröfu til greiðslu eftirstöðva fastverðs þar sem hann hafi ekki lokið verkinu, að ósönnuð sé rétt fjárhæð slíkrar kröfu og að hann eigi í öllu falli rétt til að skuldajafna kröfu sinni um útlagðan kostnað og tafabætur við kröfu stefnda. Þá hafnar áfrýjandi því að stefndi eigi rétt til greiðslna fyrir viðbótar- og aukaverk. Málavöxtum er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi Landsréttar sem og héraðsdómi.
6. Stefndi höfðaði málið á hendur áfrýjanda 20. maí 2019 en bú Fashion Group ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness 9. janúar 2020 og tók þrotabúið þá við aðild málsins. Með héraðsdómi var áfrýjanda gert að greiða stefnda 16.368.603 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum en með dómi Landsréttar var sú fjárhæð lækkuð og áfrýjanda gert að greiða 13.961.451 krónu með nánar tilgreindum vöxtum.
7. Áfrýjunarleyfi var veitt 25. janúar 2023 með ákvörðun Hæstaréttar nr. 2022-162. Leyfið var meðal annars veitt á þeim grundvelli að dómur Landsréttar kynni að vera bersýnilega rangur að formi til af þeirri ástæðu að sérfróður meðdómandi í málinu, Ásmundur Ingvarsson, hefði verið vanhæfur til að dæma í málinu með vísan til 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
8. Fyrir Hæstarétti er krafist ómerkingar hins áfrýjaða dóms og var málið flutt sérstaklega um formhlið þess.
Málatilbúnaður aðila um formhlið máls
9. Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu dóms Landsréttar á því annars vegar að fyrrgreindur meðdómsmaður hafi verið vanhæfur á grundvelli 5. gr. laga nr. 91/1991 til að dæma málið og hins vegar því að í hinum áfrýjaða dómi hafi verið farið út fyrir kröfugerð aðila í andstöðu við málsforræðisreglu einkamálaréttarfars.
10. Um ætlað vanhæfi meðdómsmanns vísar áfrýjandi til þess að hann hafi á verktíma tekið að sér gegn þóknun að yfirfara burðarþolsútreikninga, teikningu af festingu þakplatna og álagsforsendur fyrir stefnda. Fyrir liggi tölvupóstsamskipti milli fyrirsvarsmanns stefnda og meðdómsmannsins þar sem hann staðfesti að hafa unnið þennan þátt verksins fyrir stefnda. Það sé því ljóst að stefndi hafi verið í viðskiptasambandi við meðdómanda og greitt honum fyrir veitta þjónustu vegna sama verks og mál þetta lýtur að. Atvik málsins og aðstæður séu þannig til þess fallnar að draga megi óhlutdrægni dómarans í efa og geti hann því ekki talist uppfylla kröfur um hæfi, sbr. b- og g-liði 5. gr. laga nr. 91/1991.
11. Af hálfu stefnda er því haldið fram að við mat á vanhæfi þurfi að horfa til þess hver sé ágreiningur málsins fyrir dómi. Þannig leiði sérhver aðkoma viðkomandi dómara að tilteknu máli ekki sjálfkrafa til vanhæfis heldur þurfi afskiptin að hafa verið beinlínis tengd því álitaefni sem deilt sé um. Aðkoma meðdómsmannsins að þeim framkvæmdum sem um ræði hafi verið mjög afmörkuð og eingöngu snúið að því að staðfesta og yfirfara tilteknar álagsforsendur tengdar burðarþoli og þakplötum. Afskipti hans af málinu hafi að engu leyti snúið að því sem deilt sé um og hann hvorki gætt réttar stefnda né veitt honum ólögskyldar leiðbeiningar um álitaefni málsins í skilningi b-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Að mati stefnda hafi meðdómsmaðurinn því ekki verið vanhæfur og hafna beri því kröfu áfrýjanda um ómerkingu dómsins, hvort sem hún sé reist á b- eða g- liðum 5. gr. laganna.
12. Hvað varðar kröfugerð stefnda og niðurstöðu Landsréttar byggir áfrýjandi á því að dómkröfur stefnda séu verulega vanreifaðar og að það hefði með réttu borið að vísa málinu frá héraðsdómi. Fjárhæðir krafna séu hvergi sundurliðaðar og ekki sé miðað við gengi evru á degi lokaúttektar óháð því hvenær innborganir bárust. Þá byggi Landsréttur niðurstöðu sína ranglega á því að fjárhæð kröfu um ógreiddar eftirstöðvar samkvæmt verksamningi hafi verið viðurkennd af hálfu áfrýjanda í bréfi 21. mars 2019. Á því hafi ekki verið byggt af hálfu stefnda í málinu. Með þessu hafi Landsréttur farið út fyrir kröfugerð aðila.
13. Stefndi hafnar því að málatilbúnaður um grundvöll samningsfjárhæðar hafi verið svo vanreifaður að varða hafi átt frávísun. Þá mótmælir stefndi því að Landsréttur hafi í niðurstöðu sinni farið út fyrir kröfugerð stefnda. Þvert á móti hafi Landsréttur byggt á málsástæðum stefnda sem og þeim gögnum sem lágu fyrir í málinu.
Niðurstaða
14. Við úrlausn á kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms verður fyrst tekin afstaða til ætlaðs vanhæfis meðdómsmannsins Ásmundar Ingvarssonar. Verði hann talinn hafa verið hæfur til að leggja dóm á málið kemur til skoðunar sú málsástæða að í hinum áfrýjaða dómi hafi verið farið út fyrir kröfugerð aðila.
15. Svo sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 8. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, ber öllum réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur með réttlátri málsmeðferð fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að fyrrnefndum lögum segir að skilyrðið um óhlutdrægan dómstól feli í sér áskilnað um að dómari í máli þurfi að vera hlutlaus og aðilar njóti jafnræðis að því leyti en ákvæðið sæki fyrirmynd sína í 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þar segir að þegar kveða skal á um réttindi og skyldur manns að einkamálarétti skuli hann eiga rétt til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstóli.
16. Við mat á hæfi dómara til að fara með mál er til þess að líta að tilgangur hæfisreglna að réttarfarslögum er ekki aðeins að koma í veg fyrir að dómari dæmi mál ef hann er hlutdrægur gagnvart aðilum þess eða sakarefni, heldur jafnframt að tryggja traust bæði aðila máls og almennings til dómstóla með því að dómari standi ekki að úrlausn máls þegar réttmætur vafi gæti risið um óhlutdrægni hans. Sé slíkur vafi er óhjákvæmilegt að dómari víki sæti, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1. mars 2023 í máli nr. 40/2022.
17. Fyrirmæli um sérstakt hæfi dómara til að fara með og dæma einkamál eru í 5. gr. laga nr. 91/1991. Þar er lýst nánar tilgreindum atvikum eða aðstæðum í liðum a til f. Þegar þeim liðum sleppir segir síðan í g-lið greinarinnar að dómari sé vanhæfur til að fara með mál ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem fallnar eru til að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa.
18. Dómari gætir hæfis síns og meðdómsmanna af sjálfsdáðum, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 91/1991. Gildir sú regla á öllum dómstigum, sbr. 166. og 190. gr. laganna. Af því leiðir að dómara ber að víkja sæti ef vanhæfisástæða er fyrir hendi þótt málsaðili hafi ekki uppi kröfu um það. Hvað varðar skyldu dómara til að gæta sjálfur að hæfi sínu hefur ekki þýðingu hvort ástæða vanhæfis eru þau atriði sem rakin eru í liðum a til f í 5. gr. eða þau atvik eða aðstæður sem tilgreind eru í g-lið sömu greinar enda standa til þess ríkir hagsmunir samkvæmt framansögðu að vanhæfur dómari dæmi ekki mál.
19. Samkvæmt b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er dómari vanhæfur til að fara með og dæma mál hafi hann „gætt réttar aðila varðandi sakarefnið eða veitt aðila ólögskyldar leiðbeiningar um það”. Við túlkun þess hluta ákvæðisins sem til álita kemur í þessu samhengi, að dómari hafi gætt réttar aðila varðandi sakarefni, er ástæða til þess að staldra við ummæli í skýringum með 5. gr. laganna í frumvarpi til þeirra. Þar segir að reglu b-liðar 5. gr. væri ætlað að svara til ákvæðis 5. töluliðar 36. gr. eldri laga nr. 85/1936 um meðferð einkamála í héraði, eins og það ákvæði hefði mótast í réttarframkvæmd. Var sú regla efnislega á þá leið að dómara bæri að víkja sæti hefði hann flutt mál eða leiðbeint aðila í því. Hafa umrædd fyrirmæli b-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 til samræmis við þetta verið skýrð á þann veg að hagsmunagæsla dómara verði að hafa varðað beinlínis það sakarefni sem á reynir í viðkomandi dómsmáli. Dæmigert tilvik þess efnis fælist í því að dómari hefði komið að máli á fyrri stigum sem lögmaður eða lögfræðilegur ráðgjafi, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 16. nóvember 2022 í máli nr. 32/2022, en utan ákvæðisins falla hins vegar þau tilvik þegar hagsmunagæsla varðar annað sakarefni en það sem dómari hefur til úrlausnar, sbr. dóma Hæstaréttar 26. mars 2019 í máli nr. 14/2019 og 10. desember 2020 í máli nr. 20/2020. Ákvæðið verður þó ekki skýrt svo fortakslaust að það taki einungis til lögfræðilegrar ráðgjafar. Allt að einu má ljóst vera að sú sérfræðilega þjónusta sem meðdómsmaðurinn veitti stefnda á verktímanum og fyrr er rakin fellur ekki undir b-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Verður niðurstaða um vanhæfi hans því ekki reist á þeirri lagareglu.
20. Fyrr eru rakin þau fyrirmæli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 að dómari sé vanhæfur til þess að fara með mál séu fyrir hendi „önnur atvik eða aðstæður“ sem séu til þess fallnar að draga „óhlutdrægni hans með réttu í efa“. Því hefur ekki verið mótmælt að meðdómandinn hafi þegið greiðslu fyrir tiltekna verkfræðilega útreikninga sem hann kom að fyrir stefnda á verktímanum. Þótt vinna meðdómsmannsins hafi ekki snúið beinlínis að þeim þáttum verksins sem deilt er um í málinu verður sakarefni þess ekki aðgreint frá þeim starfa með þeim hætti sem lagt er upp með af hálfu stefnda. Er þessi aðstaða til þess fallin að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa og stendur því í vegi að dómur sem hann situr í hafi yfir sér það yfirbragð hlutleysis sem gerð verður krafa um eigi dómstólar að skapa sér það traust sem nauðsynlegt er að þeir njóti í lýðræðisþjóðfélagi. Var dómarinn við þessar aðstæður því vanhæfur til að dæma málið, sbr. g-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Hinn áfrýjaði dómur verður af þessum sökum ómerktur og málinu vísað til löglegrar meðferðar á ný fyrir Landsrétti.
21. Rétt er að hvor aðili greiði sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað á ný til Landsréttar til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.