Hæstiréttur íslands
Mál nr. 10/2024
Lykilorð
- Fyrning
- Fyrningarfrestur
- Kröfuréttur
- Vextir
- Lögskýring
Reifun
Dómur Hæstaréttar
1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir, Karl Axelsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2024. Hann krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og hann sýknaður af öllum kröfum stefndu. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti.
3. Stefndu krefjast hvort um sig staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar úr hendi áfrýjanda fyrir Hæstarétti.
Ágreiningsefni
4. Í málinu er deilt um hvort kröfur örorkulífeyrisþega um greiðslu sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu, samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, á tilteknum tímabilum séu fyrndar. Annars vegar er um að ræða kröfur stefndu A fyrir tímabilið 1. maí 2012 til 1. maí 2018 og hins vegar kröfur stefnda Öryrkjabandalags Íslands vegna félagsmanna sinna sem áttu rétt á slíkri greiðslu fyrir tímabilið 1. janúar 2012 til 1. maí 2018. Nánar tiltekið lýtur málið að viðbótarkröfum vegna skerðingar á uppbótinni hjá lífeyrisþegum sem ekki fullnægðu skilyrði um búsetu hér á landi. Sá áskilnaður var með dómi Hæstaréttar 6. apríl 2022 í máli nr. 52/2021 talinn skorta lagastoð. Í kjölfarið leiðrétti áfrýjandi greiðslur til lífeyrisþega frá 1. maí 2018 en taldi eldri kröfur fyrndar.
5. Með héraðsdómi 14. desember 2023 var viðurkennt að áfrýjanda bæri vegna fyrrgreindra tímabila að standa skil á fjárhæð sem svaraði til skerðingar sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna búsetu erlendis gagnvart stefndu A og öðrum örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum sem fullnægðu skilyrðum til að fá uppbótina greidda. Dómurinn féllst ekki á að reikna ætti dráttarvexti á fjárhæðina heldur 5,5% ársvexti frá þeim degi að skilyrðum til bótanna væri fullnægt til 3. apríl 2023. Vangreidd uppbót bæri síðan frá 4. sama mánaðar vexti samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
6. Leyfi til að áfrýja héraðsdómi beint til Hæstaréttar var veitt 14. febrúar 2024, með ákvörðun réttarins nr. 2024-4, á þeim grunni að dómur í málinu gæti haft fordæmisgildi og verulega almenna þýðingu fyrir beitingu 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Jafnframt var talið að ekki væru fyrir hendi þær aðstæður sem kæmu í veg fyrir að málinu yrði áfrýjað beint til Hæstaréttar, sbr. 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
7. Í héraði hafði stefnda A uppi þá kröfu til vara að viðurkennt yrði að áfrýjandi og íslenska ríkið bæru sameiginlega skaðabótaábyrgð á því fjártjóni sem hún hefði orðið fyrir vegna þess að sérstök uppbót á lífeyri vegna framfærslu hefði verið skert með ólögmætum hætti og sú skerðing hefði ekki verið leiðrétt. Þar sem héraðsdómur tók til greina aðalkröfu stefndu kom þessi krafa ekki til úrlausnar. Stefnda óskaði 2. febrúar 2024 eftir leyfi Hæstaréttar til áfrýjunar af sinni hálfu til að halda til haga varakröfu sinni í héraði. Þeirri beiðni hafnaði rétturinn 28. sama mánaðar með ákvörðun nr. 2024-13 af þeirri ástæðu að sótt var um áfrýjunarleyfi að liðnum fresti samkvæmt 1. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 en sá dráttur var ekki talinn hafa verið nægjanlega réttlættur, sbr. 2. mgr. sömu greinar.
Málsatvik
Um skerðingu á grundvelli búsetu á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu
8. Með lögum nr. 120/2009 var lögfest heimild í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 til að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þætti að hann gæti ekki framfleytt sér án hennar. Ákvæði um uppbótina höfðu áður verið í reglugerð nr. 878/2008 um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega. Jafnframt var ráðherra með nefndum lögum nr. 120/2009 veitt heimild til að setja reglugerð um uppbótina, sbr. 5. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007. Það var síðan gert með reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sem tók gildi 1. janúar 2010.
9. Í 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 var mælt fyrir um að fjárhæð sérstakrar uppbótar á lífeyri greiddist í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með því var gert ráð fyrir að uppbótin yrði skert með sama hætti og átti við eftir þeim lögum um ellilífeyri og örorkulífeyri. Þessi reglugerð var leyst af hólmi með reglugerð nr. 1200/2018 með sama heiti en í 3. mgr. 14. gr. hennar var samhljóða ákvæði og í eldri reglugerð um greiðslu í samræmi við búsetu.
10. Eins og greinir í lið 10 í dómi Hæstaréttar í fyrrgreindu máli nr. 52/2021 krafðist stefndi Öryrkjabandalag Íslands þess með bréfi 21. júní 2013 fyrir hönd þess lífeyrisþega sem átti aðild að því máli að hann þyrfti ekki að sæta skerðingu á uppbótinni vegna búsetu erlendis. Þeirri kröfu var synjað með bréfi 9. ágúst sama ár og skaut lífeyrisþeginn þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem staðfesti synjunina með úrskurði 9. apríl 2014. Í kjölfarið höfðaði lífeyrisþeginn málið 29. ágúst 2016 og lauk því með nefndum dómi réttarins 6. apríl 2022 eins og áður greinir.
11. Með dómi Hæstaréttar í umræddu máli nr. 52/2021 var talið að skerðing með því að binda uppbótina við búsetu hér á landi gæti leitt til þess að fjárhæð hennar næði ekki því viðmiði sem þyrfti til að geta framfleytt sér án hennar. Þannig samrýmdist búsetutími hér á landi sem skilyrði fyrir uppbótinni ekki þeim tilgangi laga nr. 99/2007 að lífeyrisþegar byggju við tiltekna lágmarksframfærslu. Jafnframt var komist að þeirri niðurstöðu að lagastoð hefði brostið til að ákveða með reglugerð að greiðsla uppbótar yrði skert með þessu móti.
12. Dómur Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 fól í sér staðfestingu á niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar um að áfrýjanda bæri að greiða örorkulífeyrisþega fjárhæð sem svaraði til skerðingar á sérstakri uppbót sem hann hafði þurft að þola vegna búsetu erlendis. Eftir að dómur Landsréttar í málinu féll 1. október 2021 ritaði stefndi Öryrkjabandalag Íslands bréf 8. sama mánaðar til forsætisráðherra og félags- og barnamálaráðherra þar sem þess var óskað að upplýst yrði með skýrum hætti hver afstaða ráðherra og ríkisstjórnar væri til fyrningar á kröfum örorkulífeyrisþega um vangoldnar bætur ef dóminum yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Í því sambandi var áréttað að ólögmæt framkvæmd á greiðslu uppbótarinnar hefði staðið í mörg ár. Þessi fyrirspurn til ráðherranna um fyrningu var áréttuð með bréfum 12. nóvember 2021 eftir að leitað hafði verið áfrýjunarleyfis 28. október sama ár. Í svarbréfi félags- og barnamálaráðherra 25. nóvember 2021 var tekið fram að ekki lægi fyrir afstaða ráðherra til fyrningar krafna sem kynnu að rísa færi svo að dómur Landsréttar yrði staðfestur með dómi Hæstaréttar.
13. Með reglugerð nr. 429/2022 um breytingu á reglugerð nr. 1200/2018 var fellt brott ákvæði 3. mgr. 14. gr. hennar um að fjárhæð sérstakrar uppbótar á lífeyri greiddist í samræmi við búsetu hér á landi. Reglugerðin var sett 8. apríl 2022 eða tveimur dögum eftir að fyrrgreindur dómur Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 gekk.
Um greiðslu til stefndu A á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu
14. Stefnda A bjó í [útlöndum] í tæpa þrjá áratugi eða frá árinu 1973 til 2002 þegar hún flutti til Íslands. Hún varð fyrir alvarlegu vinnuslysi árið 2005 og var metin til 75% örorku. Vegna afleiðinga slyssins hefur hún átt rétt til örorkulífeyris og annarra greiðslna á grundvelli laga nr. 99/2007 og laga nr. 100/2007.
15. Stefnda A mun fyrst hafa sótt um örorkulífeyri 28. ágúst 2007 og fékk hann greiddan frá september það ár. Jafnframt fékk hún greidda sérstaka uppbót á lífeyri til framfærslu frá september 2008. Þessar greiðslur til hennar voru inntar af hendi til apríl 2021 en hún hóf töku ellilífeyris frá og með maí það ár.
16. Þegar réttindi stefndu A til örorkulífeyris voru ákveðin af áfrýjanda árið 2007 var búsetuhlutfall hennar hér á landi ákveðið 31,64% á grundvelli 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007. Þetta hlutfall var endurskoðað að ósk hennar og var leiðrétt 18. nóvember 2011 tvö ár aftur í tímann eða frá 1. nóvember 2009 miðað við að búseta til framtíðar yrði hér á landi. Upp frá því var búsetuhlutfall hennar 61,04% og greiðslur inntar af hendi í samræmi við það. Átti það bæði við greiðslur samkvæmt lögum nr. 99/2007 og nr. 100/2007. Þannig var greiðsla sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu, sbr. 2. mgr. 9. gr. fyrrgreindu laganna, skert samkvæmt því á grunni 3. mgr. 15. gr. þágildandi reglugerðar nr. 1052/2009.
17. Með bréfi 8. febrúar 2012 skaut stefnda A til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun áfrýjanda um afturvirka breytingu á hlutfalli búsetuskerðingar örorkulífeyris. Með úrskurði nefndarinnar 25. janúar 2013 var ákvörðuninni hrundið og mælt fyrir um að greiða skyldi henni 61,04% örorkulífeyri frá og með 11. október 2007 í stað 1. nóvember 2009.
18. Áfrýjandi tilkynnti stefndu A með bréfi 28. nóvember 2022 um leiðréttingu á greiðslum vegna sérstakrar uppbótar á lífeyri til framfærslu í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 52/2021. Í bréfinu kom fram að leiðréttingin næði ekki lengra aftur en fjögur ár eða frá 1. maí 2018 og að greiddir yrðu 5,5% ársvextir á fjárhæðina. Um þetta leyti fóru fram viðræður milli stefnda Öryrkjabandalags Íslands og fulltrúa félags- og vinnumarkaðsráðuneytis um uppgjör á grundvelli dómsins. Þær skiluðu ekki árangri og var stefnda tilkynnt með bréfi ráðuneytisins 17. mars 2023 að það teldi kröfur eldri en fjögurra ára frá því að dómurinn gekk vera fyrndar. Stefndu höfðuðu síðan mál þetta 5. apríl sama ár.
Málsástæður
Helstu málsástæður áfrýjanda
19. Áfrýjandi er ósammála þeirri niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að ákvæði um viðbótarfyrningarfrest í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 gildi um fyrningu þeirra vangreiddu krafna sem málið tekur til. Telur áfrýjandi að stefndu hafi ekki skort nauðsynlega vitneskju um kröfurnar eins og áskilið sé í ákvæðinu. Jafnvel þótt fallist yrði á það með stefndu að með þeirri grein hefði verið lögfest rýmri regla um viðbótarfrest en áður gilti telur áfrýjandi að sá frestur geti ekki átt við um viðurkenningarkröfur stefndu.
20. Áfrýjandi heldur því fram að ákvæði í reglugerð sem skertu sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu verði ekki jafnað til þess að stefndu hafi ranglega verið veittar upplýsingar um að kröfur þeirra væru ekki til. Einnig telur áfrýjandi að ósamræmis gæti í hinum áfrýjaða dómi þar sem jöfnum höndum sé byggt á því að stefndu hafi ekki haft vitneskju um kröfur sínar og vanþekkingu þeirra á umfangi krafna en þetta tvennt verði ekki lagt að jöfnu. Enn fremur bendir áfrýjandi á að hinn áfrýjaði dómur vísi til norskrar dómaframkvæmdar án þess að tilgreindir séu þeir dómar sem renni stoðum undir málatilbúnað stefndu.
21. Áfrýjandi andmælir því að stefndu hafi ekki borið að afla sér vitneskju um kröfurnar fyrr en í fyrsta lagi eftir að dómur Hæstaréttar gekk 6. apríl 2022 í máli nr. 52/2021. Í því sambandi bendir áfrýjandi á að horft sé fram hjá þeirri staðreynd að stefndi Öryrkjabandalag Íslands hefði þegar í júní 2013 gert athugasemdir fyrir hönd félagsmanns síns við skerðingu á uppbót á lífeyri vegna búsetu erlendis. Niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga um þann ágreining hafi síðan legið fyrir í apríl 2014. Að þessu gættu hefði stefndi Öryrkjabandalag Íslands þegar í júní 2013 eða í öllu falli í apríl 2014 getað höfðað viðurkenningarmál fyrir hönd félagsmanna sinna vegna ágreiningsins. Telur áfrýjandi að í ljósi hlutverks bandalagsins verði félagsmenn þess að sæta því að vitneskja þess kunni að verða samsömuð vitneskju þeirra.
22. Loks vísar áfrýjandi til þess að regla 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um viðbótarfrest sé undantekningarregla frá almennum reglum um fyrningu krafna og því beri að túlka hana þröngt þannig að hún geti aðeins átt við um sérstakar aðstæður. Telur áfrýjandi að þær séu ekki fyrir hendi í málinu.
Helstu málsástæður stefndu
23. Stefndu halda því fram að fyrst í kjölfar fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 hafi kröfur örorkulífeyrisþega stofnast með ákvörðun áfrýjanda á árinu 2022 um leiðréttingu í samræmi við niðurstöðu dómsins. Í öllu falli hafi örorkulífeyrisþegar ekki haft vitneskju um kröfur sínar fyrr. Þær séu því ófyrndar samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007.
24. Stefndu andmæla því að túlka beri þröngt ákvæði um viðbótarfrest í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007. Þvert á móti beri að skýra ákvæðið í ljósi þess að fyrning krafna feli í sér takmörkun á eignarréttindum sem njóti verndar 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. gr. 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 64/1992. Sú takmörkun á eignarréttindum megi hvorki vera óhófleg né ófyrirsjáanleg. Jafnframt telja stefndu að það skipti máli í þessu sambandi að um er að ræða kröfur til framfærslu reistar á lögum nr. 99/2007 sem eru hluti af velferðarkerfi sem löggjafinn hafi komið á fót í samræmi við 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar.
25. Stefndu halda því fram að fyrir uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 hefðu hvorki stefndu né áfrýjandi haft upplýsingar um að sérstök uppbót á lífeyri vegna framfærslu hefði verið vangreidd. Vitneskja þeirra þar að lútandi sé alfarið reist á dóminum. Upplýsingar sem aðila hafi skort fyrir uppkvaðningu dómsins varði ekki atvik sem unnt hefði verið að staðreyna heldur hvort 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 væri í samræmi við og ætti sér viðhlítandi stoð í lögum nr. 99/2007. Fram að því að dómurinn gekk hafi ekki annað legið fyrir en að reglugerðin hefði verið sett með stjórnskipulega réttum hætti og haft réttaráhrif í samræmi við það. Í öllu falli verði ekki talið að örorkulífeyrisþegar hafi að þessu leyti búið yfir vitneskju um betri rétt en leiði af framkvæmd stjórnvalda sem þau hafi talið innan marka laga.
26. Stefndu andmæla því að hagsmunagæsla stefnda Öryrkjabandalags Íslands á árunum 2013 og 2014 fyrir hönd félagsmanns síns hafi getað valdið því að stefndu verði í þessu máli talin hafa haft nauðsynlega vitneskju um kröfu í skilningi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007. Í því sambandi benda stefndu á að áfrýjandi hafi í skjóli valdheimilda sinna hafnað þeim málatilbúnaði og haldið áfram óbreyttri framkvæmd laga nr. 99/2007 í samræmi við 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 1052/2009.
27. Stefndu benda á að rangar upplýsingar til kröfuhafa um að krafa sé fallin niður eða ekki til geti haft áhrif á hvort tilvik falli undir 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007. Að virtum málsatvikum telja stefndu að upplýsingum af þeim toga hafi verið beint að þeim. Í fyrsta lagi liggi fyrir að ráðherra hafi sett reglugerð nr. 1052/2009 á grundvelli laga nr. 99/2007 þar sem gert hafi verið ráð fyrir skerðingu uppbótarinnar vegna búsetu erlendis. Þannig hafi reglugerðin gefið til kynna að örorkulífeyrisþegar ættu ekki frekari kröfur. Í öðru lagi hafi áfrýjandi allan þann tíma sem kröfugerð stefndu taki til hafnað andmælum vegna skerðingarinnar og hagað framkvæmd sinni í samræmi við það. Í þriðja lagi hafi úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfest þessa afstöðu með úrskurði árið 2014. Í fjórða lagi hafi áfrýjandi tekið til varna í máli sem hafi verið höfðað gegn honum og lokið með dómi réttarins í máli nr. 52/2021. Þegar þetta sé virt heildstætt verði að leggja til grundvallar að örorkulífeyrisþegum sem fengu greidda skerta uppbót á lífeyri í samræmi við búsetu hér á landi hafi ranglega verið gefið til kynna að þeir ættu ekki kröfu um vangreiddar bætur á hendur áfrýjanda.
28. Stefndu benda á að virða beri rannsóknarskyldu kröfuhafa samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 í ljósi réttarsambands aðila, þar með talið upplýsingaskyldu skuldara ef hún er fyrir hendi. Hér skipti máli að um sé að ræða kröfur um félagslegar bætur og að á áfrýjanda hvíli lögum samkvæmt rík leiðbeiningarskylda gagnvart lífeyrisþegum. Að því gættu verði ekki talið að í rannsóknarskyldunni felist að lífeyrisþegum beri að höfða dómsmál á hendur áfrýjanda, enda leiði af lögum að honum beri að veita þeim réttar og fullnægjandi upplýsingar um bótarétt, þar með talið um vangreiddar bætur.
29. Loks mótmæla stefndu því að einstakir lífeyrisþegar verði samsamaðir stefnda Öryrkjabandalagi Íslands á þann hátt sem áfrýjandi heldur fram. Þannig verði ætluð vitneskja lífeyrisþega ekki lögð að jöfnu við vitneskju þessa stefnda.
Löggjöf
30. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við getur átt. Samkvæmt 1. mgr. 32. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar stofnast réttur til greiðslna samkvæmt lögunum frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til greiðslna og skulu þær reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að svokallaður greiðsluréttur er fyrir hendi. Hliðstætt ákvæði var í 1. mgr. 53. gr. laganna fyrir breytingu á þeim með lögum nr. 18/2023.
31. Þegar dómur Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 gekk 6. apríl 2022 sagði í 4. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 að Tryggingastofnun ríkisins skyldi greiða bótaþega það sem upp á vantaði ef bætur til hans hefðu verið vangreiddar. Á þá fjárhæð sem vangreidd væri bæri að greiða 5,5% ársvexti og skyldu þeir reiknast frá þeim degi sem skilyrði til bótanna væru uppfyllt. Með lögum nr. 18/2023 var ákvæði þetta fært í 4. mgr. 34. gr. laganna og mælt fyrir um í 5. mgr. sömu greinar að vextir skyldu vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands tæki ákvörðun um og birti á hverjum tíma, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
32. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda reiknast fyrningarfrestur kröfu frá þeim degi þegar kröfuhafi gat fyrst átt rétt til efnda. Almennur fyrningarfrestur krafna er fjögur ár, sbr. 3. gr. laganna. Um fyrningu krafna sem fela í sér greiðslu með reglulegu millibili án þess að um afborganir af höfuðstól skuldar sé að ræða segir svo í 6. gr. laganna:
Krafa sem er umsamin eða ákveðin vegna eftirlauna, framfærslueyris, meðlags eða annarrar greiðslu, og fellur í gjalddaga með jöfnu millibili og er ekki afborgun af höfuðstóli, fyrnist þegar liðin eru tíu ár frá þeim degi sem síðasta greiðsla var innt af hendi. Ef engar greiðslur hafa átt sér stað byrjar fresturinn að líða frá þeim degi þegar kröfuhafi gat krafist þess að fá greidda fyrstu greiðsluna. Einstakar gjaldfallnar greiðslur fyrnast enn fremur eftir ákvæðum 3. gr.
33. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 er mælt fyrir um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa til að sækja kröfu sína en ákvæðið hljóðar svo:
Nú hefur kröfuhafi ekki haft uppi kröfu sökum þess að hann skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann og fyrnist þá krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag þegar kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju.
34. Í skýringum við þetta ákvæði í athugasemdum með frumvarpi til laganna sagði svo:
... Hér er um nýmæli að ræða, en í 7. gr. gildandi fyrningarlaga er ákvæði sem mælir fyrir um það að ef skuldari dregur sviksamlega dul á eða vanrækir að skýra frá atvikum er krafan byggist á eða valda því að hún verður gjaldkræf og skuldaranum bar skylda til að segja frá þá fyrnist skuldin ekki fyrr en fjögur ár eru liðin frá þeim degi er kröfueigandinn fékk vitneskju um atvik þetta eða eitt ár er liðið frá dánardegi skuldara. Til þess að fresturinn geti lengst samkvæmt gildandi lögum þarf því að vera um sviksamlega háttsemi að ræða, mat á því hvenær háttsemi telst sviksamleg fer eftir eðli þess réttarsambands sem á í hlut. Ljóst er að erfitt er að sýna fram á að svik hafi átt sér stað þar sem skilyrðin eru ströng, þ.e. skuldari þarf að hafa vanrækt að skýra frá atvikum, sem krafan byggðist á, eða valda því að hún verður gjaldkræf, og honum var skylt að skýra frá. Þá þarf launungin einnig að vera sviksamleg. Vegna þessara skilyrða hefur sjaldan reynt á umrætt ákvæði í dómsmálum. Í Hrd. 2000:1183 var ekki fallist á að 7. gr. fyrningarlaga ætti við en þar var byggt á því að starfsmönnum ráðuneytis hefði verið skylt að greina frá því að gjaldtaka jöfnunargjalds væri ólögmæt. Þá var því hafnað í Hrd. 2000:4344 að ákvæðið ætti við um skaðabótakröfu vegna galla í fasteign sökum þess að ekki hefði verið sýnt fram á sviksamlega háttsemi. Því þykir þörf á því að setja í lög skýr ákvæði um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa til að sækja kröfu sína í ákveðnum tilvikum.
Í 1. mgr. er mælt fyrir um viðbótarfrest fyrir kröfuhafa í þeim tilvikum er hann skortir nauðsynlega vitneskju um kröfuna eða skuldarann. Þá fyrnist krafa hans aldrei fyrr en einu ári eftir þann dag er kröfuhafi fékk eða bar að afla sér slíkrar vitneskju. Fyrningarfrestur kröfunnar telst hér sem endranær frá gjalddaga en þetta ákvæði leiðir til þess að fresturinn getur lengst og búa hér að baki sjónarmið til verndar kröfuhafa. Skorti kröfuhafa vitneskju um kröfu sína eða skuldara á hann enga möguleika til að rjúfa fyrningu kröfu sinnar með þeim úrræðum, sem ákvæði 14.–19. gr. frumvarpsins mæla fyrir um. Í slíkum tilvikum er því réttlætanlegt að lengja frestinn. Samkvæmt ákvæðinu þarf ekki að sýna fram á sviksamlega háttsemi skuldara, sem erfitt getur reynst að færa sönnur fyrir, heldur er byggt á vitneskju og þekkingu kröfuhafans sjálfs. Ákvæðið tekur þó einnig til þess er skuldari með sviksamlegri háttsemi kemur í veg fyrir að kröfuhafi fái fullnægjandi vitneskju um kröfu sína. Það er vitneskja kröfuhafans sem er lykilatriði í þessu sambandi en viðbótarfrestur getur einungis komið til ef hann skortir „nauðsynlega vitneskju“ um kröfuna. Mat á því verður að ráðast af aðstæðum hverju sinni en skortur á vitneskju getur lotið annars vegar að kröfunni sjálfri, til dæmis ef kröfuhafi fær ranglega upplýsingar um að krafa hans sé fallin niður eða sé ekki til, eða hins vegar að skuldaranum sjálfum, til dæmis ef kröfuhafi hefur ekki vitneskju um hver sé skuldari. Hér verður þó að gera ákveðnar kröfur til sjálfstæðrar rannsóknar af hálfu kröfuhafa og vísar niðurlag 1. mgr. til þeirrar skyldu hans. Við mat á því hvort kröfuhafi hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni verður að líta til aðstæðna hverju sinni en þá getur til dæmis skipt máli hvort því fylgi mikil fyrirhöfn eða kostnaður að afla upplýsinga um kröfuna. Enn fremur getur háttsemi skuldara einnig skipt máli að því leyti að sé um sviksamlegt háttalag að ræða getur það haft áhrif á hversu strangt sé tekið á því hvort kröfuhafi hafi fullnægt rannsóknarskyldu sinni.
35. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 er ekki unnt að framlengja fyrningarfrest eftir ákvæðinu í meira en tíu ár frá því að krafa hefði ella fyrnst.
Niðurstaða
Afmörkun á sakarefni til úrlausnar
36. Svo sem fyrr greinir var stefndu A tilkynnt með bréfi áfrýjanda 28. nóvember 2022 um leiðréttingu á greiðslu sérstakrar uppbótar á lífeyri til framfærslu í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 52/2021. Tók leiðréttingin til fjögurra ára eða aftur til 1. maí 2018. Í málinu gera stefndu kröfu um viðurkenningu á greiðsluskyldu allt aftur til ársins 2012 á þeim hluta uppbótarinnar sem svarar til skerðingar vegna búsetu erlendis en sú skerðing var dæmd ólögmæt.
37. Eins og áður er vikið að stofnast réttur til sérstakrar uppbótar á lífeyri frá og með þeim degi þegar umsækjandi telst uppfylla skilyrði til greiðslna. Leiðir þetta af 1. mgr. 14. gr. laga nr. 99/2007, sbr. 1. mgr. 32. gr. laga nr. 100/2007 og 1. mgr. 53. gr. laganna fyrir breytingu á þeim með lögum nr. 18/2023. Samkvæmt þessu verður staðfest sú niðurstaða hins áfrýjaða dóms að hafna málsástæðu stefndu um að kröfur þeirra hafi stofnast með ákvörðun áfrýjanda um leiðréttingu uppbótarinnar á árinu 2022 í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 52/2021.
38. Samkvæmt niðurlagi 6. gr. laga nr. 150/2007 fyrnast einstakar gjaldfallnar greiðslur sérstakrar uppbótar á lífeyri á fjórum árum, sbr. 3. gr. laganna. Það ræðst því af ákvæði 1. mgr. 10. gr. um viðbótarfrest hvort þær kröfur sem málið tekur til séu ófyrndar.
Skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um nauðsynlega vitneskju kröfuhafa um kröfu
39. Í málinu reynir á hvort stefndu hafi skort „nauðsynlega vitneskju“ í skilningi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 um kröfu á hendur áfrýjanda sem nemur skerðingu á sérstakri uppbót á lífeyri til framfærslu, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007, vegna búsetu erlendis. Málið lýtur hins vegar ekki að því atriði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 að vitneskju skorti um skuldarann.
40. Eins og fram kemur í fyrrgreindum lögskýringargögnum býr sú röksemd að baki reglu 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 að kröfuhafa sem skortir vitneskju um kröfu sína sé ókleift að rjúfa fyrningu hennar eftir þeim úrræðum sem mælt er fyrir um í IV. kafla laganna. Af þeim sökum er mælt fyrir um viðbótarfrest sem tekur mið af því hvenær kröfuhafi fær eða ber að afla sér nauðsynlegrar vitneskju um kröfuna og getur sá frestur varað lengst í tíu ár frá því krafa hefði ella fyrnst, sbr. 3. mgr. 10. gr. laganna.
41. Mat á því hvort kröfuhafa skorti nauðsynlega vitneskju um kröfuna lýtur að þeim upplýsingum sem hann hefur um þau atvik sem liggja til grundvallar henni. Án slíkra upplýsinga um atvik getur verið að kröfuhafi búi ekki yfir nauðsynlegri vitneskju um að krafa sé fyrir hendi. Um þetta má í dæmaskyni nefna leyndan galla á eign sem kaupandi verður ekki áskynja fyrr en að liðnum almennum fyrningarfresti. Jafnframt hefur verið talið að fyrningarfrestur samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 byrji ekki að líða þótt kröfuhafi búi yfir einhverri vitneskju ef hann skortir upplýsingar um þýðingarmikil atriði. Aftur á móti geta upplýsingar um kröfu valdið því að árs frestur eftir reglunni taki að líða þótt þær séu ekki nákvæmar og má í því sambandi benda á að fjárhæð kröfunnar þarf ekki að liggja endanlega fyrir. Í megindráttum má lýsa þessu þannig að kröfuhafi þurfi að hafa nægar upplýsingar til að geta rofið fyrningu kröfunnar með málsókn eftir almennum reglum.
42. Í fræðikenningum hefur verið talið að nauðsynleg vitneskja um kröfu í skilningi 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 skorti venjulega ekki þótt kröfuhafi viti ekki um tilvist hennar vegna vanþekkingar á réttarreglum eða sökum réttaróvissu um þær reglur sem krafa byggist á, eins og á við í þessu máli. Kröfuhafi verði að bera áhættu af því að leita sér ekki ráðgjafar að þessu leyti og taka ákvarðanir í samræmi við hvernig hann telur best að ráðstafa hagsmunum sínum. Þó verði ekki útilokað fyrir fram að vanþekking á réttarreglum eða réttaróvissa um kröfu geti haft áhrif í sérstökum tilvikum.
43. Skilyrði 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 eiga sér hliðstæðu í 1. mgr. 9. gr. laganna um upphaf fyrningarfrests skaðabótakrafna utan samninga. Þar segir að slíkar kröfur fyrnist á fjórum árum frá þeim degi er kröfuhafi fékk nauðsynlegar upplýsingar um tjónið og þann sem ber ábyrgð á því eða bar að afla sér slíkra upplýsinga. Síðarnefnda ákvæðið hefur einnig verið talið taka til upplýsinga um atvik og að kröfuhafi verði venjulega ekki talinn skorta upplýsingar þrátt fyrir vanþekkingu á réttarreglum.
44. Eins og greinir í lið 18 í dómi Hæstaréttar 22. desember 2023 í máli nr. 18/2023 hefur norsk réttarframkvæmd og fræðikenningar nokkurt leiðsagnargildi á þessu réttarsviði. Helgast það af því að norsk lög voru höfð til hliðsjónar við setningu laga nr. 150/2007 og það sama átti við um eldri lög nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Að því gættu má til hliðsjónar benda á að talið hefur verið í norskum rétti að meira þurfi til svo vanþekking á réttarreglum geti haft þau áhrif að kröfuhafi verði talinn skorta nauðsynlega vitneskju um kröfu í skilningi sambærilegs ákvæðis og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 en þegar slíkt mat fer fram eftir hliðstæðu ákvæði og í 1. mgr. 9. gr. laganna. Um þetta má benda á liði 33 og 41 í dómi Hæstaréttar Noregs 12. janúar 2008 sem birtur er í Rt. 2008, bls. 1665.
45. Þá segir í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 að fyrningarfrestur taki að líða frá því tímamarki þegar kröfuhafi fær „eða bar að afla sér“ nauðsynlegrar vitneskju um kröfuna eða skuldarann. Af þessu leiðir að ákveðin rannsóknarskylda hvílir á kröfuhafa í þessum efnum og er áréttað í lögskýringargögnum að sú skylda sé fyrir hendi. Eins og þar kemur fram veltur á atvikum hverju sinni hve ríkar kröfur verða gerðar að því leyti og þá getur jafnframt skipt máli staða aðila, svo sem hvort þeir eru sérfróðir á því sviði sem reynir á. Ekki verða gerðar meiri kröfur í þessum efnum en sanngjarnt getur talist og lúta þær eingöngu að þeim upplýsingum sem skipta máli til að kröfuhafi geti rofið fyrningu með málsókn á hendur skuldara.
Um fyrningu krafna á hendur áfrýjanda
46. Svo sem áður er rakið reisa stefndu málatilbúnað sinn á því að fyrst með dómi Hæstaréttar 6. apríl 2022 í áður greindu máli nr. 52/2021 hafi aðilar fengið vitneskju um kröfur á hendur áfrýjanda sem svara til skerðingar á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007, í samræmi við búsetu erlendis. Þannig hafi ársfrestur samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 ekki verið liðinn þegar málið var höfðað 5. apríl 2023.
47. Umrædd skerðing hefur verið til umfjöllunar á vettvangi stefnda Öryrkjabandalags Íslands um árabil. Eins og áður greinir ritaði stefndi bréf árið 2013 fyrir hönd þess lífeyrisþega sem höfðaði málið sem lauk með dómi réttarins í máli nr. 52/2021 en í því var andmælt skerðingu vegna búsetu erlendis. Það mál kom svo til úrlausnar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga árið 2014. Í kjölfarið var dómsmálið höfðað 2016 og rekið á öllum dómstigum. Svo sem áður greinir var í aðdraganda áfrýjunar þess máls til Hæstaréttar óskað eftir afstöðu ríkisvaldsins til fyrningar á kröfum lífeyrisþega um vangoldnar bætur yrði málinu áfrýjað.
48. Að því virtu sem hér hefur verið rakið verður að telja að stefnda Öryrkjabandalag Íslands hafi, rétt eins og sá lífeyrisþegi sem átti aðild að margnefndu máli réttarins nr. 52/2021, haft nægar upplýsingar um ætlaðar kröfur til að láta reyna á þær með höfðun dómsmáls sem hefði rofið fyrningu þeirra. Í ljósi þessa aðdraganda málsins gat sú réttaróvissa sem var fyrir hendi ekki haft þau áhrif að skort hafi nauðsynlega vitneskju um ætlaðar kröfur þannig að fyrning þeirra tæki ekki að líða vegna undantekningarreglu 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007. Verður heldur ekki fallist á það með stefndu að með setningu reglugerðar nr. 1052/2009 og því að áfrýjandi hélt til streitu skerðingunni og tók til varna í dómsmáli um hana hafi hann ranglega gefið til kynna að frekari kröfur á hendur honum væru ekki fyrir hendi. Um þann réttarágreining átti hann ekki sjálfdæmi heldur kom í hlut dómstóla að leysa úr honum. Þetta mátti stefnda Öryrkjabandalagi Íslands vera ljóst vegna undanfarandi hagsmunagæslu fyrir lífeyrisþega en stefndi rekur málið á hendur áfrýjanda á grundvelli 3. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Verður jafnframt talið að sömu upplýsingar hafi verið nægjanlega aðgengilegar lífeyrisþegum, þar á meðal stefndu A, svo að þeim hafi verið kleift að grípa til ráðstafana til að slíta fyrningu krafna sinna.
49. Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á það með stefndu að viðbótarfrestur samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 150/2007 eigi við um kröfur sem svara til skerðingar vegna búsetu erlendis á sérstakri lífeyrisuppbót samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007. Eru kröfur vegna tímabils fyrir 1. maí 2018 því fyrndar. Af þeirri ástæðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefndu.
50. Rétt er að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Tryggingastofnun ríkisins, er sýkn af kröfum stefndu, A og Öryrkjabandalags Íslands.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.