Hæstiréttur íslands

Mál nr. 23/2024

Héraðssaksóknari (Dagmar Ösp Vésteinsdóttir aðstoðarsaksóknari)
gegn
X (Snorri Sturluson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara
  • Vanhæfi
  • Kæruheimild

Reifun

Staðfestur var úrskurður Landsréttar þar sem hafnað var kröfu um að tveir landsréttardómarar vikju sæti í málinu.

Dómur Hæstaréttar

1. Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen, Ingveldur Einarsdóttir, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2024 en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Landsréttar 3. sama mánaðar í máli nr. 378/2024 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir og Jóhannes Sigurðsson vikju sæti í málinu og staðfestur úrskurður héraðsdóms um gæsluvarðhald varnaraðila. Kæruheimild varðandi ætlað vanhæfi landsréttardómaranna er í b-lið 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála

3. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að fyrrgreindir landsréttardómarar víki sæti í málinu. Þá krefst hann kærumálskostnaðar að mati Hæstaréttar.

4. Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

5. Ekki er fyrir hendi heimild til að skjóta til Hæstaréttar úrskurði um gæsluvarðhald. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfestur sá þáttur hans er lýtur að vanhæfi landsréttardómaranna.

6. Það athugast að Landsrétti bar að taka afstöðu til kröfu um að dómarar vikju sæti áður en kveðinn var upp úrskurður um gæsluvarðhald varnaraðila.

7. Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 238. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Staðfest er ákvæði hins kærða úrskurðar um að landsréttardómararnir Arnfríður Einarsdóttir og Jóhannes Sigurðsson víki ekki sæti í málinu.